Færslur

Selvogur

Gengið var um Selvog í sól og blíðu. Kristófer kirkjuvörður kom þar að akandi á sínum öndvegis jeppa með kerru við annan mann. Báðir bullsveitir. Vel lá á Fera og var hann að vonum glaður á sjá hópinn, sem að mestu var skipaður “orginal” Hafnarbúum.

Selvogur

Selvogs-Jói með grafstein úr Neskirkjugarði.

Kristófer var spurður almæltra tíðinda og við hvað hann hafi verið að dunda í Voginum. “Ég var að gera kirkjugarð”, svaraði hann. Kristófer sagði að hann teldi að steinninn sem FERLIR fann eftir leit (sjá sögnina af legsteinunum þremur og hvarfi eins þeirra) s.l. sumar væri ekki sá sem hann hefði fundið um árið þegar framkvæmdirnar voru við útihúsin. Þennan stein hefði hann ekki séð áður. Steininn sem hann fann á sínum tíma og týndi aftur hefði verið rúmlega lófastór og þess vegna hafi hann talið að sá hefði verið á leiði barns er hafi líklega dáið í “svartadauða”.
Farið var að bátsflakinu (Vörður) austan við Nessvita (Selvogsvita) og vitinn síðan skoðaður sem og og gamla vitastæðið á klöppunum.

Selvogur

Selvogur – grafsteinn við nes.

Þegar komið var að Nesi sást að á sléttri flöt rétt vestan við rústirnar af hlöðunni hafði verið afgirt svæði með staurum og vírneti, nokkra metrar á hvorn veg. Garðurinn hafði verið borinn fínni möl og hlaðnir fjörusteinar í kring. Í suðvesturhorninu á garðinum lá á mölinni steinn með krossmarki. Þarna var kominn steininn sem FERLIR fann s.l. sumar (sjá mynd) og er hann eini legsteinninn sem þar er sýnilegur í dag. Enn vantar litla legsteininn, sem Kristófer fann um árið, en týndist aftur. Hinir tveir, er fundust, eru á minjasafninu á Selfossi.
Gengið var í 2 klst og 17 mín.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Húsatóftir

Í Fornleifaskráningum í Grindavík, 1., 2. og 3. áfangi, á vegum Fornleifastofnunar Íslands 2002 sem og í svæðisskráningu um Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað 2001, er m.a. fjallað um einstakar vörður. Hér verður fjallað um þær vörður, bæði þær er enn standa og einnig þær horfnu, sem ekki eru við þjóðleiðir, s.s. sundvörður, leiðarvörður, vörður af miðum o.s.frv. Þá verður einnig fjallað um samskonar vörður, sem ekki hefur verið getið í fornleifaskráningum í byggðalaginu. Hafa ber í huga að land Grindavíkur er umfangsmikið; nær frá Seljabót í austri að Valahnúkamöl í vestri.

Vörður á Þórkötlustaða- og Hópsnesi (Látravarða (Gjáarvarða) og Sigga)

Gjáarvarða

Gjáarvarða ofan Gjárinnar á Nesinu.

“Rétt hjá Siggu ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þar upp frá skammt frá vitanum er Látravarða, og norður af þeim hólum heita Katlar.”, segir í örnefnaskrá AG.
Látravarða var í sjónlínu frá Siggu, um 300 m sunnan við þar sem stórt skipsflak er í fjöru. Langur klettahryggur liggur til norðurs frá vegarslóðanum um Hópsnesið (nálægt landamerkjum við Þótköltustaði). Varðan stóð á þessum hrygg, nyrst. Nú er grjóthrúga þar sem varðan var. Grasi- og mosagróið hraunlendi. Enn sést móta fyrir vörðunni en grjóthrúga er á hraunhryggnum þar sem hún stóð.”
Meint “Látravarða” er í raun “Gjáarvarða”, sem stendur enn, gróin og álút, ofan við Vatnsgjána í Hópsnesi.

Heiðarvarða ofan Hóps

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

“Svæðið fyrir ofan veginn er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur…Þar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki.”, segir í örnefnaskrá AG. Heiðarvarðan er 1100-1200 m norðnorðvestan við bæ og um 900-1000 m austan við þjóðveginn frá Grindavík. Hún er nálega beint austan við mastur sem stendur austan við þjóðveginn. Varðan er 850 m norðan við elliheimilið í Grindavík. Mosa- og grasivaxið hraunlendi. Varðan er á gróinni hraunhæð og sést víða að. Hún er sjálf 2,0-2,5 m á hæð en 3-4 m í þvermál. Nokkuð hefur hrunið úr vörðunni, sérstaklega úr suðurhlið hennar.” (FERLIRsfélagar löguðu vörðuna ásamt nokkrum Grindvíkingum árið  2010.)

Varða –  sjómerki

Grindavík

Efri-Sundvarðan á Leiti – ofan Þórkötlustaða. Vitinn á Þórkötlustaðanesi fjær.

“Sjómerki “3 m austan við girðingu í apalhrauni. Sjómerki. Úr grjóti, 2×2 m (A-V) og 2,2 m hátt. Vel hlaðið. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Járngerðarstaðahverfi inn á Járngerðarstaðasund.” segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg. Varðan er um 200 m norðnorðvestan við og 70-80 m neðan sunnan við girðingu sem girðir af neðri hluta heiðarinnar. Varðan er í grónu hraunlendi. Hún er rúmir 2 m á hæð (2,2) og 2 m í þvermál.”
Um er að ræða efri sundvörðuna á Leiti. Þarna er hún ranglega skráð sem “sjómerki fyrir Járngerðarstaðahverfi inn í Járngerðarsund“.

Stekkjarvarða

Grindavík

Varðan Sigga, austan Síkis.

“Þar fyrir utan [Hópsvör] er Stekkjarvarða og síðan Hellir …” segir í Sögu Grindavíkur I. Um 50 m norðan við gatnamót á vegarslóðanum sem liggur út í Hópsnes austast er hleðsla á hól. Hóllinn sem varðan stóð á er fast sunnan við vegarslóðann. Hún er alveg hrunin og en vel sést hvar varðan hefur staðið. Grjóthrúgan er á klettahrygg, í grónu hraunlendi. Hrúgan er um 1,5 m í þvermál en 0,2 m á hæð. Hún hefur væntanlega verið kennd við sama stekk og Stekkjarfjara.”
Hér er um ranga skráningu að ræða því þetta er sama varðan og “Sigga”. Stekkjarfjaran er mun vestar, nálægt Síkinu. Sunnan þess var Hópsvörin, enda má enn sjá minjar verbúðarinnar ofan við varnargarðinn, sem þar er nú. Norðan (austan) Síkisins eru stekkurinn, fiskhús og fiskþurrkgarðar áður en byrjað var að salta fisk í Grindavík.

Varða neðan Hóps – innsiglingavarða

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Innsiglingavarða er neðst í túni að Hópi, um 20m suðvestan við bæjartóftirnar og fast norðan við Bakkalág. Sunnan við neðri innsiglingavörðuna er malbikuð gata og fjara en norðar sléttuð tún. Varðan er nýlega hlaðin og steypt, Hún er 4-5 m í þvermál en 4 m á hæð.

Varða neðan Hóps (Neðri-Hópsvarða)
“Vegur liggur frá Bakkalág til norðurs austan við Hópstún, 5-10 m vestan við slóðann er efri innsiglingarvarðan í túninu. Hún er um 50 m sunnan við Austurveg. Hún stendur á grónum hraunhrygg. Varðan er nýleg, hlaðin og steypt. Hún er 5 m í þvermál en 3-4 m á hæð.”
Neðri-Hópsvarða var hlaðin sem innsiglingarvarða eftir að Hópið hafði verið grafið út árið 1939. Hún var síðan endurgerð árið 1955 og á hana sett ljósmerki. Varðan stenst á við Efri-Hópsvörðuna.

Varða ofan Hóps  (Efri-Hópsvarða)

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

“Upp við girðingu umhverfis tún. Efst á hraunhól. Í hrauni. Sjómerki. Úr grjóti, 3,2x 4m (A – V) og 2,5m hátt. Vel hlaðið. Ofan á sjómerkinu er fúinn tréstaur. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Þórkötlustaðahverfi inn á Þórkötlustaðasund.” segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg. Varðan er 10 m ofan við sléttuð tún, norðaustan við hesthúsahverfi. Ofan við tún er 10 m breitt hraunsvæði, þar ofan (norðan) við er girðing og er varðan fast ofan við hana. Varðan er um 1 km frá bæ. Varðan er í grónu hrauni. Varðan er 2,5m á hæð og er fúinn staur upp úr henni miðri. Hún er 3-4 m í þvermál.”

Svíravarða neðan Járngerðarstaða

Svartiklettur

Svartiklettur – sundmerki (Svíravarða).

“Næstur er Svartiklettur austan við Staðarvör, upp úr sjó á fjörunni. Þar upp af heitir Svíri…Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn.”, segir í örnefnaskrá AG. Svíravarða var áður við suðausturhorn fiskvinnsluhúss, þar sem sjógarður gengur til austurs. Hún var um 750 m austan við Járngerðarstaði. Þar sem varðan stóð eru nú tankar og fiskvinnsluhús.”
Vissulega er “Svíravarða” horfin, líkt og sundvarðan neðst í Staðarsundi, en Svartiklettur stendur enn, þótt hann megi muna fífil sinn fegurri.

Vörður í Þórkötlustaðanesi

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

“Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu en ósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars sem er syðsta húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við lendinguna í Vörinni 024 norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkampinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestar. Hleðsluhæð varðanna er um 2 m og eru þær mest um 1,5 m í þvermál. Umför grjóts eru um 15.”
Nesvörðurnar eru heillegar og standa ofan við gömlu vörina, steypta bryggjuna.

Vörðunes/Vörðunestangi neðan Húsatófta

Húsatóptir

Húsatóptir – neðri sundvarðan ofan Vatnslóns.

Í örnefnaskrá segir: “Fyrir vestan Markhól er Hvalvík… Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður… Vestan Jónsbáss er hár malarkampur, sem kallaður er Stekkjartúnskampur…Vestan Stekkjartúnskamps eru klettabásar, nefndir Sölvabásar… Vestan Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 kílómetra, er stór hlaðin varða.”, segir í örnefnaskrá. “Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður.” Varðan er um 800 m austur af bæjarhól, fast norðan þjóðvegar í norðaustur frá húsum fiskeldisins. Varðan er í uppgrónu hrauni.
Í örnefnaskrá segir: “Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi…Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað um að vera komin á Snúning.” Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Hleðslur standa. Vörðurnar voru áður tvær en aðeins önnur þeirra er enn til staðar. Sú sem er horfin var suðvestar, þar sem hús fiskeldisins standa nú.”
Framangrein er ekki alveg rétt því báðar vörðurnar standa enn – báðar heillegar. Önnur er ofan vegar og hin á hraunhól vestan Vatnslóns.

Nónvörður vestan Húsatófta

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

“Vestur af Húsatóftum er landið nokkru hærra og heita þar Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktamark frá Húsatóftum.”, segir í örnefnaskrá. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn, fast vestan við golfvöllinn og um 250 m vestur af bæjarhól. Fremri varðan sést greinilega af þjóðvegi. Í sendnu, uppblásnu hrauni.”
“Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini. Hefur það orðið að árhrínsorðum, enda standa Nónvörður að nokkru enn.”, segir í örnefnaskrá.
Vörðurnar, sem enn standa, eru tvær og er sú fremri syðst á hraunbungunni en hin um 50 m norðar. Báðar eru hlaðnar úr hraungrýti og eru um 1,2 m á hæð. Þær eru heillegar.

Hvyrflavörður  milli Húsatófta og Staðar.

Hvyrflar

Hvyrflar – sundvarðan (landamerki).

Í örnefnaskrá segir: “Í eystri öxl [Þórðarfells] á vörðu að bera, sem er uppi í háhrauni, þannig að hálf varðan sé inn undir fellinu. Í þessari sömu stefnu eru tvær vörður á undirlendi. Þessu miði skal halda, þangað til tvær vörður, sem eru milli Staðar og Húsatófta, bera saman. Þeim skal svo halda inn undir land, og skal þá beygja við, suður á við, í vörina.” Vörðurnar voru á Hvyrflum sem er hæðardrag á mörkum Staðar og Húsatópta. Syðsta sundvarðan er á sjávarbrúninni fast vestan við bryggjuna og um 500 m norðaustur af bæjarstæði. Á stórgrýttum sjávarkampi.
“Þá koma Hvyrflar; þar eru merki fyrir grunnleiðina inn á víkina. Þau sundmerki eru og landamerkjavörður milli Staðar og Húsatófta …” GE.
Frá Valahnúk. “Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 metrum ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum Húsatófta og Hafnar”, segir í örnefnaskrá Húsatópta.
Í sóknarlýsingu 1840 segir: “…skal stýra beint inn á Þórð og vörðuna, þar til tvær vörður, Hvyrflar eða Hvyrflavörður, auðséðar rétt við sjóinn á bakborða, bera saman, skal þá sleppa sundmerkjunum og halda beint á vörðurnar, þar til opnar liggja lendingarnar á Stað og Húsatóttum, sem liggja til beggja handa.” SSGK, 131. Varðan stendur á steyptum grunni og er um 1,5 m há. Umför eru um tólf. Steypt hefur verið í hleðsluna en varðan er nýlega endurgerð. Eldri varða stóð á nákvæmlega sama stað en sjórinn tók hana.”
Síðastnefnda varðan var endurhlaðin fyrir allnokkru ofan og vestan við bryggjuna. Hún var einnig landamerkjavarða milli Húsatófta og staðar. Brimið tók svo þá vörðu eftir áramótin 2022. Leifar gömlu Hvyrflavörðunnar, þeirrar neðri er í grasbrúninni neðst á Hvyrflum. Varða er einnig á hraunbrúninni ofan Hvyrfla, en varða, sem stóð á hól ofan fiskverkunarhúss er horfin.

Eiríksvarða á Arnarfelli í Krýsuvík.

Arnarfell

Eiríksvarða á Arnarfelli.

“Vestan við Krýsuvíkurhraun niðri undir sjó er fornhraun, sem nefnt er Litlahraun, en í Krýsuvíkurhrauni er Skyggnisþúfa, vestur af Seljabótarnefi. Vestur frá Litlahrauni tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. … Vestarlega í mýrinni er stakt fell nokkuð hátt, sem heitri Arnarfell. Vestur af því gengur svo Arnarfellstagl, og framan í því er túnið … Á fellinu er varða, sem heitir Eiríksvarða”, segir í örnefnaskrá.
Arnarfell er stakt fell um 600 m austur af Krýsuvík, eina fellið þar austan við þjóðveginn. Umhverfis fellið er þýfður mói eða mýri. Fellið er gróið upp í miðjar hlíðar en klettótt efst. Varða er vestarlega á fellinu, ofan við bæjartóftir Arnarfells. Hún er að mestu hrunin.”
Eiríksvarða er eignuð Eiríki galdrapresti á Vogsósum, en sagan segir að hann hafi látið hlaða vörðuna eftir að hafa stefnt Tyrkjum, sem komu upp Ræningjastíg við Heiðnaberg, hvern gegn öðrum með þeim orðum að á meðan varðan stæði myndi Krýsvíkingum óhætt fyrir ágangi heiðingjanna. Sagan er svo sama og skráð hefur verið um Gíslavörðu í Staðarhverfi.

Núpshlíðarhorn

Núpshlíðarhorn – varða.

Núpshlíðarhorn – landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur
“Síðan ber landeigendum ekki saman um landamerki. Eigendur Hrauns segja þau vörðu í Núphlíð og síðan norður í Sogaselsdal. Eigandi Ísólfsskála segir þau úr öxl Borgarfjalls og í Selsvallafjall og þaðan í Sogaselsdal.”, segir í örnefnaskrá LJ. Varða er á Núpshlíðinni norðan við gamla veginn yfir hana. Best að ganga vestur frá Djúpavatnsvegi (Vigdísarvallavegi) þar sem hann sveigir til norðurs austan við sunnanverða Núpshlíð. Varðan er vestan undir háhorninu í hlíðinni og sést í sjónauka frá þjóðveginum. Núpshlíðin er þarna hálf- eða ógróin og grýtt. Varðan stendur, um 1 m á hæð. Umför um tíu, en vörðunni hefur verið haldið við. Hún er um 0,5 m á breidd.”
Varðan á Núpshlíðarhorni var notuð sem mið, en hún er einnig landamerkjavarða Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Gíslavarða

Gíslavarða

Gíslavarða.

Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum. Sagan segir að “þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.”
Á sautjándu öld kom ræningjaskip til Grindavíkur. Þá bjó prestur á Stað er Gísli hét og var hann talin fjölkunnugur. Bæjarbúar fengu hann til að hrekja ræningjana á burt. Hlóð hann svo vörðu til minja um atburðinn og lét svo um mælt að á meðan nokkur steinn væri óhrunin í vörðunni skyldu ræningjar ekki granda Grindavík.” (Rauðskinna hin nýrri. 3 bindi. Rits. Jón Thorarensen. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1971), I, 44. Skrásetjari Jón Thorarensen).
Hefur framangreint orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á hraunhól (Gíslavarða) skammt vestar, í Staðarlandi.

Vörður, sem ekki er getið um í fornleifskráningum:
-Gróin varða í hrauninu ofan Austurvegar. Varðan var efra sundmerkið frá Buðlungavör. Neðri varðan, sem stóð ofan kampsins vestan og neðan bæjarins er horfin vegna ágangs sjávar. “Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni.”, segir í örnefnaskrá AG. “Sundvarða við Buðlungu átti að bera í Fjós og Lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru þessi nöfn dregin [þ.e.a.s. nöfn boðanna].

Þórkötlustaðir

Sundvarða ofan Þórkötlustaða.

-Varða ofan hesthúsanna á Leiti. Þar eru tvær sundvörður, en einungis annarrar þeirra er gefið í fornleifaskráningum.
-Varða ofan Hrauns. Hún er skráð sem dys, en var efri innsiglingavarðan í Hraunsvörina. Neðri varðan var ofan við kampinn ofan vararinnar, en er nú hörfin vegna sjóvarna. Þriðja varðan er á túninu ofan Hrauns, skammt ofan og vestan við þann stað, sem gamli bærinn og kirkjan stóðu.
Gíslavarða (sjá umfjöllun úr örnefnaskrá).
Neðri sundvarðan austan Húsatófta (sjá umfjöllun úr örnefnaskrá).
Fiskivörður á Staðarbergi. Ekki er um eiginlegar vörður að ræða heldur hraunstrýtur á berginu þar sem það ber hæst.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Sundavarða austan Barnaóss í Hópi. Varðan er horfin undir framkvæmdir.
Stamphólsvarða. Varðan stóð á Stamphól austan Hóps, en hóllinn er nú horfinn undir veg.
Títublaðavarða. Varðan er við Skipsstíg ofan Járngerðastaða. Hún var fyrrum efri sundvarðan inn í Fornuvör. Tómas Þorvaldsson sagði frá því að sú sögn hafi fylgt fólkinu á Járngerðarstöðum að Títublaðavörðunni ætti ávallt að viðhalda.
Brandur og Bergur við Ísólfsskála. Brandur, bóndi á Skála, og vinnumaður hans, Bergur (faðir Guðbergs Bergssonar) hlóðu þessar vörður sér til dægrastyttingar er þeir voru við fjárgæslu við bragga Skálabónda undir Núsphlíðarhorni. (Brandur hrundi í jarðskjálftunum 2020.)
Varða á Krýsuvíkurbjargi. Varðan var hlaðin skammt vestan Vestari Bergsenda sem mið frá veiðistað undir bjarginu. Þessi hluti bjargsins nefnist Krýsuvíkurbjarg, en vestan Eystri-Lækjar, sem rennur fram af því, nefnist það Krýsuvíkurberg.

Selalda

Selalda – varða.

Varða á Selöldu. Varðan var mið neðan við bergið (Heiðnabergs).
Þrjár vörður á Strýthól. Um var að ræða vörður sem mið; þegar þær féllu saman í eina. Strýthólarnir eru tveir vestarlega í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, en miðað var við þann eystri.

Ögmundarhraun

Varða neðst í Ögmundarhrauni – nú hrunin.

Varða neðst í Ögmundarhrauni. Varðan var há og vel hlaðinn uppi á hraunkanti, en er nú fallin. Hún var notuð sem mið.
Varða ofan Selatanga. Varðan var leiðarvarða í innsiglinguna neðan við Selatanga með stefnu í vörðuna á Núpshlíðarhorni.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Brúnavörður. Vörðurnar eru tvær, áberandi, á afrúnuðum hraunhól neðalega í Ögmundarhrauni, millum Óbrennishólma og Húshólma. Þær voru notaðar sem mið.
Sundvarða í Sundvörðuhrauni. Sundvarðan í austanverðu Sundvörðuhrauni (sem er eitt Eldvarpahraunanna, sem myndaðist í Reykjaneseldum á árabilinu 1210 til 1240) er áberandi kennileiti; klettastandur. Hann var mikið notaður sem mið.

Örnefnalýsingar:
Utan (vestan) við Búðasand eru Hvyrflar, hæðardrag á mörkum Húsatófta og Staðar. Þar er vindasamt og einnig taka Hvyrflar af útsýni á milli Húsatófta og Staðar.

Hvyrflar

Hvyrflar.

Á Hvyrflum eru tvær vörður, Hvyrflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna.

Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi (þ. e. ytra hluta Staðarsunds). Var því miði haldið, þar til Hvyrflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftavör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera kominn á Snúning. Hraunstandurinn, sem áður var nefndur, var alltaf kallaður Sundvarða og hraunið umhverfis hann Sundvörðuhraun.

Staðarsund

Þórðarfell

Þórðarfell.

“Næsta fell, fjallmyndað, fyrir vestan Þorbjörn kallast Þórðarfell. Í eystri öxl þess á vörðu að bera, sem er uppi í háhrauni, þannig að hálf varðan sé inn undir fellinu. Í þessari sömu stefnu eru tvær vörður á undirlendi. Þessu miði skal halda, þangað til tvær vörður, sem eru milli Staðar og Húsatófta, bera saman. Þeim skal svo halda inn undir land, og skal þá beygja við, suður á við, í vörina.” – Safnað af Andrési Markússyni 1926.

Í bókinni “Leiðir og lendingar í fiskverum Íslands I” frá árinu 1890 eftir séra Odd. V. Gíslason er m.a. sagt frá kyndilmessubæn, sjómannabæn, drukknun og leiðum og lendingum á helstu hafnir á sunnanverðu landinu, s.s. við Grindavík; (Þorkötlustaðasund, Járngerðarstaðasund og Staðarsund). Lýsing séra Odds er í raun endurskrif á sóknarlýsingu séra Geirs Backmanns frá því á fyrri hluta 19. aldrar og verður því ekki reynt að eyða tíma lesenda með þeirri endurtekningu.

Þórkötlustaðir (varða í túninu)

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – varða.

Í “Sóknarlýsingu Geirs Backmanns fyrir Grindavík 1835-1855” má lesa eftirfarandi um vörðu í túninu neðan við Þórkötlustaðarbæinn gamla: “Hins vegar skal auðsén stór varða í túninu á Þorkötlustöðum, niður við sjóinn, bera í austustu bæjardyrnar á sama bæ. Halda skal stöðugt, meðan sundið er farið inn, á vörðuna í þilið, það er rétt í norður, þar til tvær vörður á bakborða í nesinu, báðar lína auðsénar, bera hver í aðra, og á að halda að þeim til lands, sem harðlega skal saman haldið alltaf. “

Í “Sögu Grindavíkur, frá landnámi til 1880” fjallar Jón Þ. Þór m.a. um “Fiskimið Grindvíkinga“:

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

“Orðið fiskimið hefur tvenns konar merkingu í íslensku máli. Annars vegar merkir það fiskislóðina, sátrið, þar sem menn setja yfir fiski, en hins vegar þau mið á landi eða sjó, sem menn notuðu til að finna þá staði, sem þeir hugðust fiska á.
Sjómenn veittu því snemma athygli, að ekki var sama, hvar færi væri rennt. Á sumum stöðum gaf fiskur sig betur en á öðrum, og meiri líkur voru á ákveðnum fiskitegundum á einni slóð en annarri. Þessa staði þekktu menn með því að taka mið af kennileitum í landi, fjöllum, holtum, hólum, hömrum, hæðum, bæjum o.frv. Lína hugsaðist dregin gegnum tvö kennileiti, sem bera átti saman. Með þessum hætti gátu sjómenn staðsett sig í hafinu, og þar sem línur tveggja miða á landi skárust á sjó, voru fiskimið. Aðferðin var ævagömul, og elstu ritaða lýsingu á henni er að finna í Guðmundar sögu byskups (skáletrað) sem Arngrímur ábóti á Þingeyrum ritaði um 1350.”
Miklu yngri er lýsing Skúla Magnússonar landfógeta, en hann lýsti fiskimiðum þannig í verðlaunaritgerð sinni, Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu, árið 1785:

Grindavík

Grindavíkurfjöll; Hagafell lengst til vinstri og Geitahlíð lengst til hægri.

“Sjómenn sækja jafan út á þau svæði, sem þeir vita af reynslunni, að fiskur hefst við á; kallast þau fiskileiti. Þessum svæðum á sjónum er skipt nánara í sundur, og eru þau nefnd mið, vegna þess að þegar tvö nes eða fjöll uppi á landinu eru í sömu stefnu frá austri til vesturs, og tvö önnur ber einnig saman í stefnu frá norðri til suðurs, eru þeir á réttu miði eða þeim stað, sem þeir leituðu að. gefa þeir miðunum nöfn.”

Hraun

Hraun – landslag.

Þekking á miðum var þannig reynsluvísindi, og liggur í augum uppi, að fiskimið voru önnur á djúpslóð en á grunnslóð. Á grunnslóðinni miðuðu menn gjarnan við kennileiti í byggð, eða nærri ströndinni, en á djúpmiðum há fjöll og fjallatinda, sem gátu verið langt inni í landi og urðu ekki sýnileg, fyrr en menn voru komnir djúpt. Er þá auðsætt, að dimmviðri gat gert mönnum erfitt fyrir, og varð þá oft að taka mið af öðrum þáttum, enda veittu sjómenn einnig nána athygli sjólagi og botnlagi.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason.

Þannig varð smám saman til mikill fjöldi miða umhverfis allt land, og má geta þess, að í fiskimiðasafni dr. Lúðvíks kristjánssonar er telin 2.197 árabátamið víðsvegar um landið, þar af 440 á Suðurnesjum og í Faxaflóa. Tæpur fjórðungur þessara miða, um eitt hundrað, er í Grindavík, og skrái Lúðvík þau eftir Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum.
Í bókinni Frá Suðurnesjum eru prentaðar fiskimiðaskrár, sem Friðrik K. Magnússon skráði eftir frásögn bræðranna Gísla og Magnúsar Hafliðasona á Hrauni og Jóns Jónssonar formanns í Sjólist. Allir voru þeir gjörkunnugir miðum Grindvíkinga á árabátaöld. Í skránni, sem höfð var eftir Hraunsbræðrum, voru talin alls 43 mið, 18 djúpmið og 25 grunnmið, og í frásögn Jóns í Sjólist var ekið 19 miða, og virðast þau öll vera grunnmið.
Alegnt var, að menn gerðu sér kennileiti til að miða, og voru þau einkum vörður, sem hlaðnar voru í þessu skyni. Margar slíkar vörður voru í Grindavík, og mun Sigguvarða hafa verið einn þekktust. Var miðað við hana af öllum grunnmiðum, eða af samtals 26 stöðum. Á hraunbrúninni var Stamphólsvarða og framan á henni tréspjald eða þil, svo hún sæist betur af sjó. Látravörðu var getið, svo og Svíravörðu og Fiskivarða á Staðarbergi.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Loks er þess að geta, að algengt var að kennileiti bæru annað nafn á sjó en á landi. Þannig var Þorbjarnarfell stundum kallað Setufell á sjó, og Svínfell á Reykjanesi var ávallt nefnt Sýrfell (skáletrað) á sjó. Þá hét Sílfell á Reykjanesi Djúpafjall á sjó. Ekki er ljóst, hvernig stóð á nafnbreytingunni á Þorbjarnarfelli, sem Sýrfell var svo nefnt, vegna þess að samkvæmt þjóðtrúnni mátti ekki nefna svín á sjó; þá gat svínhvalur komið og gert mönnum lífið leitt.

Hraun

Hraunsvör.

Nútíma tækni og breytingar, sem orðið hafa á landslagi á síðustu árum og áratugum, valda því, að nú eru mörg hinna gömlu fiskimiða Grindvíkinga horfin og gleymd. Nöfn þeirra, sem varðsveist hafa, bera hins vegar vitni ævargamalli merkmenningu, reynsluvísindum, sem nýttust mönnum vel í aldanna rás.”
Framangreindar vörður bera framangreindu glögg vitni.

Í “Sýslu- og sóknarlýsingum Bókmenntafélagsins 1839-1855” eru m.a skrif séra Geirs Backmanns um Grindavík. Í lýsingu Geirs á merkjum og miðum Grindvíkinga á fyrri hluta 19. aldar má lesa eftirfarandi:

Geir Backmann

Geir Backmann.

“Um Staðarsund segir: Merkin, þá sundið liggur, eru; Eldeyjar fastar við Staðarmalir og stór varða, Sundvarða nefnd, í hátt norður að sjá við loft; hún á að liggja í eystri rótum Þórðarfells. Þegar þessi merki liggja, skal stýra beint inn á Þórð og vörðuna, þar til tvær vörður, Hvyrflar eða Hvyrflavörður, auðséðar rétt við sjóinn á bakborða, bera saman; skal þá sleppa sundmerkjunum og halda beint á vörðurnar, þar til að opnar liggja lendingar á Stað og Húsatóttum, sem liggja til beggja handa. Eigi skyldi maður kærulaus um sundmerkin þau fyrri, því á stjórnborða eru tveir boðar, hver út af öðrum, sem hafa verður auga á, ef nokkurt brim er. Heitir hinn grynnri Arfadalur, en hinn dýpri Sundboði. Standa þeir aldrei upp úr, því þeir eru þaragrynningar. þegar Sundboðinn fellur, þá segja menn albrima og leiðina ófæra.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Staðarsund er haldið þrautagott í útsynningi og allri vestanátt, eins og líka Járngerðarstaðasund í landnyrðingi og öllum austanáttum. Haldi maður framhjá Staðarsundi og vilji taka land að Járngerðarstöðum eða Hópi, þá ætti ekki að stýra svo nærri landi, að hætta væri af búin, því ekki er það neins staðar boðar né grynningar, fyrri en að sundinu er komið, og það þá aðeins, ef mikið brim er. Sundið liggur inn með Þorkötlustaðanesi að vestanverðu og byrjar, þegar tvær vörður, eður réttara varða og hóll framarlega á nesinu og sjást við loft, bera saman; eiga þá undir eins tvær vörður á landi í landnorðri að vera í beinni stefnu; er önnur þeirra upp í hrauni langt frá sjó, Heiðarvarða nefnd, hin við sjó fyrir innan og austan sundið, Sundvarða.

Grindavík

Grindavík – uppdráttur 1772.

Allar eru vörður þessar auðsénar, því þeim er dyggilega við haldið. Á þær síðstnefndu vörður skal nú halda og stýra inn sundið, þar til enn þá aðrar tvær vörður að vestanverðu eða á bakborða liggja saman; skal þá sleppa Heiðarvörðunni og Sundvörðunni og halda á þessar, ef lenda skal á Járngerðarstöðum, en ella róa miðslóð áfram, þar til sést í vörðuna á Hópi til hægri handar. Vörðurnar, sem seinast vóru nefndar, heita, sú nær sjó Svíravarða, hin, sem lengra er uppi á landi, Stamphólsvarða. – Aðgætandi er enn, þegar þessar vörður skilja, að á bakborða, rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum, eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð; hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau lífið látið. Skal stýra sem næst þeim að mögulega verður, svo löðrið af boðanum, sem af þeim fellur, reri á árarblöðin; segja menn þá, að rétt sé haldið með þeim í brimi, þó ekki megi nær fara.

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

Þess vegna skal Járngerðarsund svo framarlega taka, að boði liggur á stjórnborða skammt frá nesinu, Hellirsboði, af hverjum hætta er vís, ef innar er lagt á sundið en þá allar r fyrstnefndu vörður liggja, nefnilega þær tvær í nesinu og Sundvörðurnar. Hætta er líka innst í sundinu, þá Svíra- og Stamphólsvörður bera saman, þar hér eru þrengsli mikil; þá eru á stjórnborða með nesinu grynningar af manntapaflúð og á bakborða boði, Sundboði eður aðrar grynningar, sem er afleiðing af svonefndum Vallarhúsaboða, er þó liggur langt vestar með landi og ei nærri þessari leið; ríður því á góðri stjórn og ötulum róðri, þar boðinn ber af sér á flúðina, en aldrei skyldi þó sleppa Sundvörðunum, þeim í heiðinni og austan til við sundið, fyrri en hinar tvær á bakborða liggja. Enginn haldi nú skipi svo nærri landi fyrir framan Þorkötlustaðanes, að þar fái skaða. Þó eru þau merki, er stýra skal fyrir það í brimi, að Selalda (þ.e. hóll upp á Krýsuvíkurbergi) skal bera yfir djúpa klauf í bergið, milli þess og Selatanga, eða, sem glöggara er, Sílfell á Reykjanes laust við Hafsteina, sem eru fyrir vestan Járngerðarstaði, þar til Þorkötlustaðasund liggur, sem er inn með Þorkötlustaðanesi að austanverðu. Þegar á það skal leggja, eru merkin; Lyngfell (það er hátt strýtufell fyrir austan Festarfjall) skal bera í eður milli tveggja hóla á Borgarfelli (undir þessu felli liggur Sandakravegurinn og er þá nýbyrjaður); er þetta merki þá að sjá í landnorður.

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.), Borgarfell fjær, Langihryggur í Fagradalsfjalli, Slaga og Skála-Mælifell.

Hins vegar skal auðsén stór varða í túninu á Þorkötlustöðum, niður við sjóinn, bera í austustu bæjardyrnar á sama bæ. Halda skal stöðugt, meðan sundið er farið inn, á vörðuna í þilið, það er rétt í norður, þar til tvær vörður á bakborða í nesinu, báðar lína auðsénar, bera hver í aðra, og á að halda að þeim til lands, sem harðlega skal saman haldið alltaf. Fyrir framan lendinguna í nesinu er sker, Vararsker, með því skal halda að norðanverðu, en varast má að því frásláttinn og róa karlmannlega. Á snúningnum eru tveir boðar að vestanverðu eða bakborða, Lambhúsi og Fjósi. Skal löðrið af þeim renna á árarblöðin, og segja menn þá rétt haldið leiðinni í nesið, hvar annars er engi góð landtaka, en verður þó ei annars staðar lent hættulaust, ef nokkuð er í sjó, að austanverðu við oft nefnt Þorkötlustaðanes.
Hér mun eg hafa verið óþarflega margorður, enda má bæði þetta og annað gjarnast styrra.”

Skúli Magnússon skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2016 um “Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík”:

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

“Í gosunum miklu á Reykjanesskaga á 13. öld, er eldur kom upp rétt við bæjardyr Grindvíkinga, er ekki ofsögum sagt að byggð væri þá í Grindavík hættast komin frá landnámi og tvísýnt um tíma hvort hún lifði þær hörmungar af. Þá rann m.a. hraun það úr Eldvörpum, sem hleðslurnar eru í sem fundust 1872 og Þorvaldur Thoroddsen greinir frá. Apalhraunið greindist í tvær kvíslar, Eldborgarhraun og Sundvörðuhraun. Sundvarða er hraunsandur austan í Sundvörðuhrauni. Hraunstandur þessi kom upp í gosunum á 13. öld. Hann ber í austasta taglið á Þórðarfelli, er nefnist Höskuldur. Höskuldur, Sundvarða og tvær vörður aðrar er hlaðnar voru á sjávarbakkanum austan við svokallað Vatnslón í landi Húsatófta, bar saman og voru leiðarmerki á djúpsundinu þegar bátar lögðu inn Staðarsund. Þessi merki sjást á korti af legunni á Staðarvík frá 1751. Tvær síðarnefndu vörðurnar voru hugsanlega hlaðnar upp eftir 1650 vegna kaupskipa sem þá fóru að sigla á Staðarvík frá Danmörku. Enda sést af hafnarkortinu 1751 að þessi neðstu merki vestan við Vatnslón hafa verið endurbætt eftir að siglingar hófust á víkina frá 1650. Gos urðu líka í sjó undan Reykjanesi á 13. öld og 1210 fann Sörli Kollsson sjófarandi Eldey hina nýju. Sóknarlýsing staðarsóknar frá 1840 greinir frá þessum sundmerkjum inn Staðarsund er lagt var á sundið og bátar lentu ýmist í Staðarvör eða Tóftavör.

Húsatóftir

Sundvarða austan Húsatófta, Þórðarfell t.h. og Sundhnúkavarðan t.v.

Er bátur kom í mynni Staðarsunds og hugðist leggja þar inn áttu Staðarmalir að liggja á stjórnborða og bera í Eldey er var hæsta og ysta kennileiti í sjónlínunni úr bátnum í sundinu til vesturs. Er komið var inn úr sundmynninu var stýrt á Höskuld í norður og Sundvörðu og neðstu vörðurnar tvær í heimalandi Tófta. Bar Sundvörðu merkilega vel við loft utan af sundinu og var bungan í raun annað lykilmerki við leiðina inn Staðarsund ásamt Eldey. Ljóst er að bæði þessi kennileiti, Eldey og bungan Sundvarða, verða til í gosunum á 13. öld, líklega 1210-1230. Eldey var þá greinilega nýtt merki sem tekið var að miða við eftir uppkomu hennar 1210. Sama virðist um upptök Sundvörðu sem leiðarmerkis. Merkin á Staðarsundi virðast því varla eldri en frá fyrrihluta 13. aldar eins og þeim er lýst í sóknarlýsingunni frá 1840. Þau voru síðan notuð allt til loka byggðar í Staðarhverfi um 1946 þegar róðrar þaðan lögðust niður.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

En hófust róðrar um Staðarsund fyrst með gosunum miklu á 13. öld eða voru þar notuð önnur og eldri leiðarmerki inn sundið fyrir uppkomu Eldeyjar og Sundvörðu? Voru þessi eldri merki lögð niður í kjölfar hamfaranna á 13. öld. Vart verður fullyrt um það nú en heldur þykir manni ólíklegt að ekki hafi verið róið úr sundinu fyrir þann tíma allt frá landnámi í Grindavík. Eiginlegt prestssetur var ekki á Stað í kaþólskum sið frá því um 1000 til 1540 því prestar voru menn búlausir og bjuggu heima á bæjum hjá bændum og höfðu þar uppihald og bjó Staðarprestur líklega á Járngerðarstöðum fremur en á Húsatóftum. Aðeins kirkjan stóð ein á graftrasvæði sem var kirkjugarður og átti hún allar eignir sjálf. Prestur var þjónn hennar í kaþólskum sið og prestsheimili með vinnufólki og fjölskyldu þekktust ekki á Stað fyrr en eftir siðaskipti 1550. Þá var byggt prestssetur á Stað. Því var færra fólk sem dvaldi þarna við víkina fyrir siðaskipti og minni þörf að róa þaðan eftir að bústaður reis þar fyrir prest. Aðalbýlið við víkina var því að Húsatóftum sem átti líka uppsátur við Staðarvíkina. Viðeyjarklaustur, stofnað 1227, átti Húsatóftir en Skálholtsstóll aðrar jarðir í Grindavík.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Hvort byggð hófst á Húsatóftum er jörðin komst í eigu Viðeyinga einhvern tíma eftir 1227 er óljóst en hins vegar hófust þá um leið stöðugir róðrar úr Tóftavör við Staðarvík enda þurfti klaustrið jafnan á miklum fiski að halda. Stóðu róðrar þaðan samfellt fram á 20. öld. Því er ljóst að aldur sundmerkjanna við Staðarsund ber greinilega saman við eignarhald Viðeyinga á Húsatóftum. Líklegt er að upptaka sundmerkjanna sem áður var lýst virðist fremur tengjast útvegi klaustursins á Húsatóftum en róðrum frá kirkjunni á Stað, enda óljóst hvort eiginleg Staðarvör var þá til orðin.
Heimræði er því eldra úr Tóftavör en Staðarvör. Hugsanlegt er að örnefnið Höskuldur, nafnið á austasta tagli Þórðarfells sé ekki eldra en frá gostíma 13. aldar og sé dregið af nafni einhvers formanns á þessum tíma, t.a.m. frá Húsatóftum sem lagði leið sína um sundið en nafnið hefur orðið hluti af leiðarmerkjum upp frá því.”

Um þessar mundir hafa nokkrar af áberandi innsiglingvörðum hrunuð að hluta, s.s. Efri- og Neðri-Hópsvörðuna sem og efri sundvörðuna á Leyti. Ekki er langt um liðið að FERLIRsfélagar og nokkrir áhugasamir Grindvíkingar lagfærðu Heiðarvörðuna eftir hrun.  Mikilvægt er að viðhalda þessum menningarverðmætum, áþreifanlegum táknum horfinna atvinnuhátta.

Fleiri fróðir hafa skrifað um mið og örnefni í Grindavík í gegnum tíðina. Eftir standa menningarminjarnar, sem vart er hægt að hunsa. Þær ber að varðveita til framtíðar, komandi kynslóðum til fróðleiks um fortíðina; grundvöll nútíðarinnar…

ÓSÁ tók saman 2022

Heimildir:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 1., 2. og 3.  áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2002.
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað – Svæðisskráning, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Örnefnalýsingar.
-Oddur V. Gíslason, Leiðir og lendingar í fiskverum Íslands I – Frá Jökulsá á Sólheimasandi til Reykjaness – Reykjavík 1890.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1587015/ – Aldur sundmerkja við Staðarsund í grindavík – Skúli Magnússon.
-Saga Grindavíkur, frá landnámi til 1880 – Jón Þ. Þór, Grindavíkurbær 1994,Fiskimið Grindvíkinga, bls. 186-189.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla – sýslu- og sóknarlýsingar Bókmenntafélags 1839-1855, sögufélagið 2007, Grindavík 1840-1841 – séra Geir Backman, bls. 41-43.

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Selvogur

Farið var í Selvoginn. Gengið var að flaki vélbátsins Varðar sem liggur í stórgrýtisurð skammt fyrir austan Selvogsvita. Bátinn rak upp í brimi árið 1956 og fórust allir sem um borð voru, fimm menn.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Flakið er illa farið en stefnishlutinn, með lúkarnum, er eftir og nokkuð þarna frá er afturdekkið, skreytt með ryðguðu dráttarspili.
Þátttakendur fengu sér kaffisopa og meðlæti þarna við flakið, með útsýni út yfir hafið og landið, böðuð í sólskini.
Þegar einn FERLIRs félaginn stóð upp, féll hann afturábak og kláraðist þannig úr könnunni yfir hann. Þar sem FERLIRs menn eru orðnir ýmsu vanir í þessum ferðum lét hann þetta ekki aftra sér í að fá aftur í könnuna. Teygði hann sig síðan í girnilega brauðsneið með áleggi. Skipti þá engum togum að brauðsneiðin var slegin úr höndum hans og féll hún niður í stórgrýtið. Annar FERLIRs félagi missti síðan kaffikrúsina sína niður í grjótið, þó án þess að hún brotnaði. Þátttakendur þökkuðu fyrir móttökurnar þótt í gletnara lægi væru. En allir voru sammála um að þarna vildu þeir ekki eiga næturstað fyrst svona fjörugt sé í glaða sólskini.
Gengið var að Nesi og skoðaðar þær miklu minjar sem þarna eru.

Selvogur

Legssteinn í Neskirkjugarði í Selvogi.

Mikið hefur verið leitað að legsteini þeim sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður með meiru, hafði bjargað undan jarðýtunni um miðja síðustu öld, þegar bóndinn í Nesi var að byggja hlöðu og fjós.
Vitað var að þarna hafði verið kirkjugarður og kirkja sem var endanlega aflögð 1706 en síðastur var þar grafinn Jón Jónsson, bóndi í Nesi. Hann andaðist árið 1702. Síra Jón Vestmann hefir þessa athugasemd um Jón bónda en hann ritaði m.a. “Lýsingu Selvogsþinga árið 1840”
“Hann byggði sér skemmu úr kirkjutóftarrústinni frá forntíð og var að bón hans loks grafinn í skemmunni”. (Landnám Ingólfs, Guðni Jónsson).
Nokkrar fleiri heimildir eru um kirkju í Nesi.
Forn maldage:
(1313) “Maraíu kirkia j Nese og hins helga mangvs jarls: og ins sæla Thorlaks biskups og hinnar helgv Katerynv meyjar er (Finnr) Bjarnmason liet goira. a xx hvundrvd j heima landeog tielld vmm kirkiv . smelltan kross og annann steindann. Alltarisklædi iij. kluckur iiij og fimta brotna. kertastikur ij. og glodarker. elldbera. lysisolv. og Alltaris mvnnlavg. skiov. og stavckvl. og handklæde tuo. og peturs skrift. ij kyr. a og kirkia” (Fornleifaskráning í Ölfusi)

Selvogur

Selvogs-Jói með nýfundna legsteininn.

Máld (1313) 1397: Maríukirkja j Nesi …a .xxc j heimalandi, iij. kyr oc vj. ær…lofadur gropttur heimamonnum oc fatækum monnum í Nesi, tyund liggur þar til heimmanna oc af Biarnastodum.
(Fornl.sk. í Ö)
Kristófer fann þrjá legsteina, tvo stóra og einn lítinn sem hann taldi vera legstein frá barni. Var hann með kross.
Fyrir nokkrum árum ætlaði hann að ná í steinana en fann þá aðeins tvo þá stóru og fór með þá á minjasafn á Selfossi. Litla steininn fann hann ekki.
Nú þurfti ekki að leita, einn FERLIRs félaginn gkk beint að steininum þar sem hann var hálfniðurgrafinn við niðurfallinn vegginn á hlöðunni. Blasti krossinn í steininum við, moldfylltur.
Kristófer var látinn vita af fundinum og ætlar hann að huga að steininum ef einhverjar framkvæmdir verða þarna á staðnum. Hann var sammála FERLIRs félögum um að þessi steinn ætti ekki heima upp í hillu á minjasafni heldur fái að vera í sínu rétta umhverfi, gamla kirkjugarðinum í Nesi, með mannlífstónað öldugljálfrið við ströndina.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Vörður

“Vörður munu aldrei taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur.
Giskað hefur verið á að þær séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku Arnastigur-501sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi.
Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og skil á milli bújarða, benda á siglingaleiðir með ströndum fram og til að vísa á fengsæl fiskimið, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar venjur við vörðuhleðslu fluttu landnámsmenn með sér hingað, þegar þeir komu siglandi frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar að á 9. og 10. öld og settust hér að. Vörður voru af margvíslegum stærðum og gerðum. Í fyrstu hafa þær verið einfaldar og helst gerðar með þeim hætti að setja einn stein upp á annan og síðan koll af kolli. En brátt hefur mönnum lærst að vanda meira til verksins, raða mörgum steinum saman í þyrpingu, helst hellusteinum, og hlaða síðan hverju steinalaginu ofan á annað, þar til komin var myndarleg varða, jafnvel meira en mannhæðar há. Slíkar vandlega hlaðnar vörður gátu staðið um tugi ára, án þess að haggast, og jafnvel öld fram af öld, svo sem dæmin sanna.

VARÐAÐAR LEIÐIR FRÁ LANDNÁMI
Skogfellastigur-501Landnámsmenn Íslands komu að auðu landi og óbyggðu að mestu. Fyrstu árin í nýju landi hafa farið í að kanna næsta umhverfi á hverjum stað og síðan í framhaldi af því að leita hagkvæmra leiða milli byggða. Fyrst í stað könnuðu menn hinar skemmri leiðir, en ljótlega lögðu þeir land undir fót til að leita leiða milli landshluta. Líður þá ekki á löngu, þar til þeir þekkja deili á helstu hálendisleiðum um landið þvert og endilangt. Að sjálfsögðu urðu þessir landnemar að sýna mikla gætni og varúð, þegar þeir fóru um fjöll og óbyggðir í landi sem þeir þekktu lítið sem ekkert til. Þess vegna merktu þeir gjarna leiðir sínar með því að hlaða vörður, enda grjót tiltækt næstum hvarvetna á fjöllum. Slík leiðarmerki komu sér vel til að rata sömu leið tilbaka og þá ekki síður fyrir hina sem á eftir komu.
Frásagnir af hálendisferðum manna ná aftur til landnámsaldar og fyrsti nafngetni fjallvegurinn var Kjalvegur sem er leiðin frá Norðurlandi til Suðurlands, milli Hofsjökuls og Langjökuls. Og í þessum sögum er þess getið að landkönnuðirnir merktu leiðir sínar með því að hlaða vörður. Má því eiginlega slá því föstu að vörðuhleðsla sé nokkuð jafngömul mannabyggð í landinu. Þannig segir Landnáma frá fyrstu mannaferðum um Kjalveg og öruggt má telja að brátt hafi vörðum fjölgað svo, að Rangaðarvarða hafi aðeins verið ein af mörgum á þessum fjölfarna hálendisvegi. En elsta heimild um mannaferðir á Sprengisandsleið er að finna í Njálu. Ekki er þó getið um vörður, en gera má ráð fyrir að snemma hafi slík leiðarmerki komið til þar á hálendinu. Í lýsingu Eiríks Hafliðasonar frá því um 1740 eru að minnsta kosti nefndar vörður á Sprengisandi. Þar nefnir hann stað á sandinum sem hann segir að heiti Sveinar og „eru þar klappir með nokkrum vörðum”.

VÖRÐUR SEM EYKTAMÖRK
Midmundavarda-501En frá elstu tímum voru vörður ekki aðeins hlaðnar upp til að auðkenna leiðir eða til að sýna landamerki. Þær voru líka settar upp á viðeigandi stöðum sem eyktarmörk til að sýna hvað tímanum leið, því að klukkur komu ekki til sögunnar hér á landi fyrr en á síðustu öldum. Af þessum sökum finnast því víða um land á fjöllum og fellum vörður eða vörðubrot sem bera hinni fornu þriggja stunda skiptingu dagsins glöggt vitni, en þrjár stundir heita eykt hjá fyrri tíðar fólki. Ef vel er leitað munum við því geta fundið dagmálavörður, hádegisvörður, nónvörður, miðaftansvörður og fleira í líkum dúr víða um land. Ef til vill eru margar þeirra orðnar lágreistar eða jafvel hrundar af því að þær gegna ekki lengur neinu hlutverki og því er ekkert um þær skeytt, en víða munu örnefnin
enn vera á sínum stað.

VÖRDUR SEM MINNISMERKI
Prestsvarda-502Á öllum tímum hafa menn líka hlaðið vörður sem minnismerki um tiltekna atburði, svo að þeir féllu síður í gleymsku. Eitt gleggsta dæmið um slíkt eru, til dæmis, Hallbjarnarvörður sem standa við Kaldadalsleið, nokkru norðar en Biskupsbrekka. Vörður þessar eru hinar stæðilegustu, þótt aldnar séu. í Landnámu segir frá uppruna varðanna. Af frásögn Landnámu má vera augljóst að Hallbjarnarvörður voru hlaðnar sem bautasteinar yfir þá sem féllu og þá ein fyrir hvern mann. Þannig hlóðu menn vörður til minningar um vígaferli og aðra válega atburði og hefur svo trúlega verið á öllum tímum. En menn minntust líka merkra og gleðilegra atburða með því að hlaða vörður. Nægir í því sambandi að benda á Konungsvörðuna á Holtavörðuheiði sem hlaðin var til að minnast Norðurlandsferðar Kristjáns konungs X. og föruneytis hans árið 1936.
En þótt vörður væru víða hlaðnar til minningar um menn og atburði, þá fer það ekki milli mála að oftast voru þær settar upp sem vegvísar á hálendisleiðum og annars staðar, þar sem slík mannvirki voru talin gagnleg. Fornmenn ferðuðust um hálendið milli landshluta og lengi fram eftir öldum þeystu þar um biskupar og aðrir höfðingjar og embættismenn með flokka sína og fylgdarmenn. Margir aðrir eins og vermenn, skreiðarflutningamenn, kaupafólk og fleiri fóru líka um fjöllin sinna erinda og hélst svo lengi. En þegar kemur fram á 18. öld virðist tekið að draga mjög úr slíkum hálendisferðum, því að eitt af því sem Landsnefndin 1770 leggur áherslu á til viðreisnar með þjóðinni er að lagfærðir verði sem flestir fjallvegir ásamt með ýmsum öðrum samgöngubótum. Lítið varð þó úr slíkum framkvæmdum, en víst er að farið var um Sprengisand árið 1772 í tilraunarskyni. Þó komst á árið 1776 skipuleg póstþjónusta og landpóstar tóku þá að ferðast um byggðir og óbyggðir. Kjalvegur hafði alltaf verið fjölfarin leið, en árið 1780 urðu þar úti þeir bræðurnir Bjarni og Einar frá Reynisstað og förunautar þeirra. Hafði sá atburður mikil áhrif á fólk og tók mjög fyrir ferðir um fjallveginn um árabil. Alltaf fóru þó einhverjir þar um og árið 1794 var Sveinn Pálsson læknir þar á ferð. Lenti hann þá í hinu versta veðri og villtist. En hann rataði á rétta leið, þegar hann fann vörður nokkrar í Kjalhrauni sem vísuðu honum til vegar.

VARÐAÐAR LEIÐIR UM ALDAMÓT
Melabergsgata-501En hreyfing komst aftur á þessi mál undir aldamótin síðustu. Árið 1897 kom hingað til lands danskur vísindamaður, Daniel Bruun að nafni, og ferðaðist víða í því skyni að rannsaka eyðibýli og fleira. Páll Briem, amtmaður að norðan og austan, kynntist Daniel þessum og fékk hann til að kanna vegastæði á nokkrum hálendisleiðum í ferðum sínum. Í framhaldi af því var Kjalvegur merktur og varðaður sumrin 1898 og 99. Það verk unnu að mestu tveir skagfirskir bændur, Indriði Árnason á Írafelli og Magnús Jónsson í Gilhaga. Síðan sneru þeir Páll og Daníel sér að Sprengisandsleið. Fylgdarmaður Danans, Jón Oddsson, varðaði leiðina úr Bárðardal og suður fyrir Kiðagil sumarið 1901. Á næstu árum var verkinu haldið áfram og lokið við það um sumarið 1906. Þessa vörðuhleðslu önnuðust
að mestu Jón Oddsson, Jón Þorkelsson og Eiríkur Sigurðsson, allir úr Bárðardal. Við þessa framkvæmd var tæknin komin á svo hátt stig að þeir félagar höfðu hest og kerru til að draga saman grjót í vörðurnar. Í framhaldi af þessum samgöngubótum á helstu hálendisvegunum tóku menn víða að lagfæra vegi um fjöll og heiðar milli byggða og þá jafnframt að hressa við gamlar vörður og hlaða upp nýjar. Má í því sambandi benda á leiðina um Mývatns- og Möðrudalsöræfi sem og Jökuldalsheiði og marga aðra fjallvegi úti um allt land. Síðasta skipulagða stórátakið sem gert var í því að hlaða vörður á hálendisleiðum var árið 1922. Þá unnu sumarlangt við að reisa sæluhús á Hveravöllum og varða Kjalveg að nýju þeir Halldór Jónsson frá Hrauntúni í Þingvallasveit, Helgi Sigurðsson, verkfræðingur og síðar hitaveitustjóri í Reykjavík, og maður að nafni Þorkell Guðmundsson. Eitthvað munu menn síðar hafa merkt leiðir með því að hlaða vörður og gera enn, þótt brátt kæmi að því að ný vegamerki leystu vörðurnar af hólmi, en það var þegar mönnum lærðist að setja tréstikur meðfram vegum og enn síðar grönn plaströr, máluð í skærum litum.

BEINAKERLINGAR
Dysjar-501Að endingu skal nefnd sérstök tegund af vörðum sem kallaðar voru beinakerlingar. Voru þær margár hverjar stórar og stæðilegar. Slíkar vörður urðu í umræðu ferðamanna eins konar persónugervingar kvenna og þá einkum gleðikvenna. Ferðamennirnir gerðu gjarna klúrar vísur í orðastað þessara beinakerlinga, settu í hrosslegg eða sauðarlegg og stungu síðan milli steina í vörðurnar. Slíkar vísur voru sem sé stílaðar frá beinakerlingu til þeirra sem síðar fóru um veginn. Var þetta gert til skemmtunar í fásinni þeirra sem fóru um fjöllin.
Minna má á beinakerlingu eina sem fyrrum stóð á miðri Höfðabrekkuheiði, þar sem lestamenn og aðrir ferðalangar höfðu fastan áningarstað. Fyrir munn hennar var eftirfarandi vísa gerð: Veri þeir allir velkomnir sem við mig spjalla í tryggðum; eg get valla unað mér ein í fjallabyggðum.
En frægust allra þessara kerlinga mun þó vera Beinakerlingin á Kaldadal, en hún stendur þar sem talin var hálfnuð leið frá Þingvöllum til Húsafells. Í orðastað þessarar víðfrægu beinakerlingar varð fyrir margt löngu þessi staka kveðin: Sækir að mér sveina val sem þeir væri óðir; kúri ég ein á Kaldadal, komi þið, piltar góðir.
Auðvelt væri að halda áfram með að rifja upp gamlar beinakerlingarvísur sem margar hverjar eru haglega gerðar. En oft þóttu þær grófar í meira lagi. Breyttir samgönguhættir á bílaöld og meiri hraði en fyrrum hafa valdið því að menn nú á tímum staldra lítt við hjá fornum vörðum á fjallvegum og fágætt mun orðið að kveðnar séu beinakerlingavísur.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Jón R. Hjálmarsson, 12. ágúst 1995, bls. 6-7.

Skipsstigur-501

Skipsstígur.

“Nefvörður” hafa jafnan valdið ferðalöngum um fornar þjóðleiðir töluverðum vangavöltum.
Nefvarða við Gamla ÞingvallaveginnVörðurnar þær eru hins vegar ekki svo flókið fyrirbæri að ástæða sé að velta vöngum yfir þeim.
Í Tilskipun Danakonungs, Kristjáns VII, 29. apríl 1776 um “Frumvarp til tilskipunar um vegina á Íslandi” segir í 14. gr.:
“Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag. skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annari, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur eða annað merki á þeirri hlíð, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leíðbeiningar.”
Af framangreindri ástæðu eru enn til vörður hér á landi er hlaðnar voru í kjölfar tilskipunarinnar.  Slík vörðugerð náði hámarki með heimsókn Danakonungs árið 1907, en lagðist síðan smám saman af, einkum í kjölfar bílvæðingarinnar…

Skipsstígur

Nefvarða við Skipsstíg.

Nú er svo komið að efri innsiglingarvarðan við Hóp þarfast aðhlynningar.
Varðan laskaðist í jarðskjálfta fyrr á árinu og æ síðan hefur grjót Neðri Sundavarðanverið að hrinja smám saman innan úr henni.
Innsiglingarvörðurnar inn í Hópið eru tvær, auk Hópsheiðarvörðu. Þær eru bæði miklar um sig og háar eftir því. Þegar Hópsrifið var grafið inn 1939 svo nota mætti Hópið sem lægi fyrir stærri skip (árabáta og vélbáta) voru vörðurnar hlaðnar. Þær hafa æ síðan verið eitt af meginkennileitum Grindavíkur – gulmálaðar í seinni tíð. Margir nafngreindir Gindvíkingar komu að hleðslunum. Þær er þó einungis ysta lagið, þ.e. það sýnilega, en að innanverðu eru vörðurnar kasthlaðnar. Það er ástæðan fyrir svo skjótri forfáun efri innsiglingarvörðunnar (skammt neðan við Austurveg). Í fyrstu hrundi ysta hleðslulagið og þá var ekki að sökum að spyrja – innvolsið fylgdi á eftir. Nú er svo komið að meir og meir hrinur innan úr vörðunni. Skammt er því að bíða að efri hluti hennar falli niður í heilu lagi – nema eitthvað verði að gert, t.d. með því að endurhlaða sárið og fylla að nýju.
Nokkru eftir að framangreint var skrifað hrundi úr neðri Hópsvörðunni, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Hópsvarða

Hópsvarðan neðri.

 

Brúnavörður

Árni Óla skrifaði um vörður í Lesbók Morgunblaðsins árið 1972:
Varda-221“Það mun hafa verið forn siður í Noregi, að menn einkenndu ákveðna staði, með því að hlaða þar vörður. Þennan sið fluttu landnámsmenn með sér hingað, og hann hélzt um aldir, enda má víða finna gamlar vörður og vörðubrot hér á landi. Allar höfðu vörður þessar sinn ákveðna tilgang, þá er þær voru hlaðnar, en tilgangurinn gat verið ærið mismunandi.
Þegar menn voru að kanna ókunna stigu, hvort heldur var á landi eða með ströndum fram, þá hlóðu þeir vörðu þar sem þeir höfðu komizt lengst og höfðu orðið að snúa aftur. Vörðurnar gátu þá bent til þess seinna, er aðra bar að þeim, að þarna hefðu menn komið áður. Þessi siður varð meðal annars til þess að sanna frásagnir um hina fornu íslenzku landnema í Grænlandi. Sagt er að þeir hafi farið óraleiðir norður með strönd Grænlands til veiða, þangað sem þeir kölluðu Norðursetu.
Brigður Varda-222voru bornar á að þetta gæti verið rétt, þar til fyrir rúmri öld, að á ey norður á 73. breiddargráðu, (um 30 sjómílum norðan við Upernivík), fundust þrjár vörður, mjög fornar og voru sýnilega á þeim handverk norrænna manna. Og til þess að taka af öll tvímæli um það, fannst þarna lítill rúnasteinn og stóð á honum, að þessar vörður hefði hlaðið „Erlingur Sighvatsson, Bjarni Þórðarson og Indriði Oddsson laugardaginn fyrir gangdaginn (líklega 24. apríl 1333).
Árið 1876 ætlaði Sir George Nares að komast til Norðurpólsins og fann þá á leið sinni tvö vörðubrot á Washington Irvingey, lítilli klettaey hjá Ellesmerelandi á 79. gr., 35. mín. nbr., og síðar fundust enn tvær vörður á Ellesmerelandi á 72. gr., 58. mín. nbr. Öllum fræðimönnum ber saman um, að á þessum vörðum sé norrænt handbragð. En þessir staðir eru fyrir vestan Melvilleflóa. Hvað gátu Grænlendingar verið að gera þar? — Nú er sögn að árið 1266 hafi Grænlendingar haft úti leiðangur til að njósna um Skrælingja, og þykir líklegt að menn úr þeim leiðangri hafi hlaðið þessar vörður. Svo segir Vilhjálmur Stefánsson.
Þá má geta þess, að vörður voru hlaðnar sem siglingamerki og lendingamerki, ennfremur við vöð á ám og á ýmsum kennileitum, þar sem menn gætu áttað sig, ef þeir væru villtir, og eins voru vörður hlaðnar á landamerkjum. Færu menn í rannsóknarferðir, svo sem að kanna stóra hella, en fundu ekki botn í þeim, þá hlóðu þeir vörðu þar sem þeir höfðu lengst komizt, og ef menn gengu á há fjöll, eða dranga, þá hlóðu þeir þar vörður fræknleik sínum til sönnnnar.
varda-223Enn var siður að hlaða vörður þar sem einhverjir merkisatburðir höfðu gerzt, og má nefna Hallbjarnarvörður á Uxabryggjaleið, þar sem þeir börðust Hallbjörn Oddsson frá Kiðjabergi og Snæbjörn galti. Eru þar tvær hæðir, er þeir börðust, og felldu þar átta menn. Segir Landnáma að þess vegna séa fimm vörður á annarri hæðinni, en þrjár á hinni, til þess að tákna mannfallið. En ekki er þess getið hverjir hafi hlaðið þær vörður. Örnefnið er kunnugt enn, en vörðurnar eru horfnar. Á þessum stað hafa vörðurnar verið minnismerki þeirra, er þar féllu.
Þá var það og siður, að hlaða vörður sér til verndar, einkum á torsóttum og hættulegum fjallvegum. Menn trúðu því, að það myndi blíðka skap dulvætta þeirra, er þar voru allsráðandi.
Sá, sem hlóð vörðu í fyrsta skipti er hann fór um fjallveginn, vættunum til heiðurs, mátti eiga víst að hann henti aldrei neitt óhapp á þeirri leið. Seinna var svo farið að varða vegi, svo að þeir væru ratandi í hvaða veðri sem væri, ef til vill fyrst leiðina á beitarhúsin, síðan leiðir milli bæja og- seinast óralanga heiðarvegi.
Vörðuhleðsla var upphaflega þjóðlegur siður og hafði margs konar tilgang, eins og hér hefir verið lýst. Siðurinn hefst með landnemum og eftir nokkrar aldir hefir verið kominn vörðugrúi í öllum landsfjórðungum.
varda-225En elztu frásögnina um vörðuleðslu er að finna í Landnámu og er sagan svo merkileg, að vel mætti hún vera í heiðri höfð meðan íslenzk tunga er töluð og Íslendinguni er annt um þjóðmenningu sína. Sagan er þannig sögð í Landnámu og hún gerðist í fremstu byggðum Skagafjarðar snemma á landnámsöld: Merkastur landnámsmaður þar var Eiríkur Hróaldsson í Goðdölum. Hann var eigi aðeins falinn vitrastur maður í Skagafjarðarhéraði á seinni tíð, heldur er hann talinn meðal ágætustu landnámsmanna í Norðlendingafjórðungi. Hann nam land frá Gilsá um Goðdali alla og ofan til Norðurár.
Hann bjó að Hofi í Goðdölum og var kvæntur Þuríði dóttur Þórðar skeggja, en hún var systir Helgu, er átti Ketilbjörn gamla á Mosfelli í Grímsnesi. Hrosskell hét maður, er nam Svartárdal allan og Írafellslönd, með ráði Eiríks. Hann átti þræl þann er Roðrekur hét. Hann sendi þrælinn upp eftir Mælifellsdal í landaleitan suður á fjöll. Hann komst að gili því er verður suður frá Mælifelli og nú heitir Roðreks gil. Þar setti hann niður staf nýbirktan, er þeir kölluðu Landkönnuð. Og eftir það snýr hann aftur.
varda-226Annar nágrannii Eiríks var Vékell hinn hamrammi, er land nam ofan frá Gilsá til Mælifellsár og bjó að Mælifelli. Hann spurði til ferða Goðreks (spottaði hana, segir í Hauksbók). Þá fór hann litlu síðar suður á fjöll í landaleitan. Hann kom til hauga þeirra, er nú heita Vékelshaugar. Hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur. En er þetta spurði Eiríkur í Goðdölum, sendi hann þræl sinn suður á fjöll, er hét Rönguður. Fór hann enn í landaleitan. Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með á þeirri, er fellur fyrir vestan Vínverjadal, og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar, og kom þar á mannsspor, og skyldi að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða. Þaðan fór hann aftur, og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína. Og þaðan af tókust upp ferðir um fjallið milli Sunnlendingafjórðungs og Norðlendinga.
varda-227Saga þessi er bæði skemmtileg og fróðleg. Upphafið er skemmtilegt vegna þess, að
það afsannar þá firru, er margir hafa verið haldnir, að elztu rithöfundar vorir hafi verið gjörsneiddir allri gamansemi. Er ekki notaleg glettni í sögunni af Roðrek, sem sendur er að kanna firnindi Íslands og leggur af stað hinn borginmannlegasti með nýbirktan staf í hendi? Hannn kemst á hvarf við byggðina, stingur þar niður stafnum og hverfur aftur, en stafurinn fékk nafnið „Landkönnuður!” Og svo er sagan um Mælifellsbóndann. Hann spottaði Roðrek fyrir ferð sína og hugðist nú gera heldur betur. Það er ekki út í bláinn að hann er kallaður hinn hamrammi. Hann komst að vísu lengra en Roðrekur, rakst þar á tvo hóla og skaut á millU þeirra. Við það hvarf hann aftur. Ekki er þess getið hvað skotið átti að þýða.
Niðurlag sögunnar er mjög fróðlegt, því að það sýnir með hverjum hætti fannst fyrsta leiðin yfir öræfi Íslands milli landsfjórðunga og hver árangur af því varð. Og hún sýnir líka, að Rönguður sendimaður hefir verið athugull og glöggskyggn. Hann fer þar til hann finnur slóð manns að sunnan.
Hann veit þá varda-228að ætlunarverki hans er lokið, sú leið er fær, sem hann á enn ófarna, og þess vegna hleður hann vörðu þar sem hann rakst á slóðina. Hann hefir einnig tekið glöggt eftir landslagi og staðháttum og getur lýst því öllu greinilega, er heim kemur. Vitrasta manninum í Skagafirði var trúandi til að kunna að meta þetta. Hann vissi að hinn ófrjálsi maður hafði unnið það frægðarverk, að opna alfaraleið þvert yfir landið, og veitti homum fyrir hin dýrustu laun, sem í hans valdi stóð að veita. Hann gaf þrælnum frelsi.
Vegna þess, að Garðar Svavarsson, hafði sigl umhverfis landið, munu flestir landnámsmenn hafa haft spurnir af því, áður en þeir fluttust hingað, að Ísland væri eyland. En fæsta mun hafa órað fyrir hve stórt það er og erfitt yfirferðar. Það er ekki fyrr en þeir hafa setzt hér að og komizt að raun um, að landið var ekki byggilegt nema með ströndum fram, að þeim urðu samgönguerfiðleikarnir ljósir. Hér var ekki hægt að treysta á samgöngur á sjó, eins og í Noregi. Hér var enginn skerjagarður úti fyrir, sem hlífði strandlengjunni. Hér voru ekki langir og veðursælir firðir að ferðast eftir. Hér var víðast opin brim strönd og hafnir fáar. Leiðir með ströndum fram, eða um byggðir, voru langar og krókóttar og þar voru margir farartálmar, enda þótt stórárnar hafi þá verið mörgum sinnum vatnsminni heldur en þær eru nú. Það var því eðlilegt nð landnámsmönnum væri mjög í mun að finna leiðir þvert yfir hálendið, og sendu því menn sína víða til að kanna landið. Og það hefir þótt svo merkur atburður, er fyrsta leiðin yfir öræfin fannst, að frásögn um það hefir verið skráð, enda þótt ekki sé minnst á aðrar rannsóknaferðir, sem farnar hafa verið, að undanteknu því, er synir Gnúpa-Bárðar fundu veg um Vonarskarð úr Bárðardal suður í Fljótshverfi.
varda-229Leið sú, er Rönguður fór, virðist hafa verið mjög hin sama og síðar var alfaraleið um margar aldir, um Mælifellsdal, Haukagilsheiði, Eyvindarstaðaheiði, yfir Blöndukvíslar að Reykjavöllum, sem nú kallast Hveravellir. Þar leggur hann á Kjalhraun. Í hrauninu rakst hann á mannsspor „og skildi að þau lágu sunnan að”. Vera má, að þetta hafi verið síðsumars og komið föl á hálendið og slóðin hafi því verið auðrakin. En ekki þarf svo að vera, hann gat hafa fundið sporin í sandi. En hver var þá maðurinn, er hafði skilið eftir spor sín þarna? Allar líkur benda til þess, að hann hafi verið þarna í sömu erindagerðum og Rönguður, sendur af sunnanmönnum til þess að finna leið norður yfir öræfin, og er þá varla öðrum til að dreifa en landnámsmönnum í Hrunamannahreppi. Landnáma segir svo frá þeim: „Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslandsbyggðar snemma. Þeir námu Hrunamannahrepp svo vítt sem vötn deila.” Þeir voru synir fyrsta norræna mannsins, sem talið er að hafi stigið fótum á Ísland. Af góðum ættum hafa þeir verið og urðu sjálfir kynsælir. Út af Bröndólfi var kominn Hallur í Haukadal og Þorlákur biskup Runólfsson, en af Má var kominn Hjalti Skeggjason. Þessum landnámsmönnun er vel til þess trúandi eins og Eiríki í Goðdölum, að hafa haft mikinn hug á að kanna landið og finna veg norður yfir hálendið.
varda-230Rönguður hlóð vörðu þar sem hann rakst á slóð sunnanmannsins. Sú varða var við hann kennd og kölluð Rangaðarvarða, svo að ekki gleymdist nafn þess manns, er fyrstur fann þennan fjallveg. En ekki er þess getið hvar varðan stóð og gleymt er það nú. Varla hefir hann haft tíma til að hlaða háa og gilda vörðu og því er ólíklegt að hann hafi hlaðið hana inni í hrauninu. Hann muni hafa valið henni stað þar sem mest bar á henni og auðveldast var að finna hana. Þess vegna mun hún hafa staðið í hraunjaðrinum, ef til vill ekki langt frá þeim merka stað Hveravöllum.
Vörðum þeim, sem stóðu hjá fjallvegum, var haldið við, vegna þess að þær voru vegfarendum til leiðbeiningar. Fór þá tíðum svo, að þessar vörður urðu bæði háar og digrar, og af stærðinni voru þeim gefin nöfn og kallaðar Kerlingar. En Kerling þýddi þar sama sem skessa eða tröllkona. Um vörðu, sem stóð á Mýrdalssandi, var t.d. þessi vísa kveðin:
Kerling ein á kletti sat
Kötlusands á stræti,
vísað mönnum veginn gat,
var þó kyrr í sæti.
varda-231Enginn vafi mun á því vera, að Rangaðarvarða hefir verið endurnýjuð og stækkuð svo, að hún átti skilið að heita Kerling og hefir verið kölluð svo um aldir, því að til þess bendir gömul vísa, að hún hafi staðið langt fram á 18. öld. Um þá heimild er það að segja, að í Kjalhrauni er hellir, sem nefnist Grettishellir og á Grettir að hafa hafzt þar við um þær mundir er hann hitti Loft á Kili og Loftur strauk hendur hans af beizlistaumum sínum. Hellir þessi er í hrauninu sunnan við Rjúpnafell og um 7 km fyrir sunnan Hveravelli. Hann var allstór fyrrum og leituðu ferðamenn þar oft náttstaðar, en nú er hann fullur af roksandi.
Vísan var kveðin í þessum helli eigi seinna en á 18. öld:
Hér er Grettis gamla borg,
sem gott er við að una,
en eg er hryggur út af sorg
eftir Kerlinguna.
Þetta virðist benda til þess, að varðan hafi þá verið hrunin. Og varla hefir hún verið hresst við aftur, því að eftir óhappaför Reynistaðarbræðra 1780, tóku ferðir um Kjalveg að leggjast niður og má segja að hann hafi verið týndur sem ferðamannaleið allt framundir seinustu aldamót, að Daniel Bruun „fann” veginn að nýju. Og þótt hann hafi síðar verið varðaður, þá er Rangaðarvarða týnd. Slíkt hugsunarleysi getur ekki verið skammlaust þeirri þjóð, sem vill hafa menningarsögu sína í heiðri. Rangaðarvörðu verður að reisa að nýju, þetta elzta íslenzka minnismerki um afrek unnið á sviði landkönnunar.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. sept. 1972, bls. 12-13.

Varda-221

Vörður

Eftirfarandi skrif “um fjallvegu, vörður og sæluhús” má lesa í tímaritinu Mána 1880: “Til þess að greiða samgöngur og tryggja félagsskap milli sveita og héraða má fyrst telja þjóðveguna.

Varda-22

Félög vor og samtök eru lítil, og kemur það víst að nokkru leyti til af því, að land vort er strjálbyggt og örðugt yfirferðar, en vegir eigi nógu greiðir, og tefur það allmikið fyrir samtökum, samgöngum og félögum milli sveita og sýslna. Hvervetna erlendis þar sem fylgi og félagsskapur er mestur milli þjóðanna þar eru líka þjóðvegimir greiðastir, löndin sljett, árnar skipgengar, grafin sýki, byggðar járnbrautir o. s.
frv. Hér er eigi um neitt þesskonar að tala; land vort er fjöllótt, árnar straumharðar, og margar vatnslitlar, en brimgarður og og sker fyrir mynni þeirra, og víðast er það að sá sem vill ferðast milli sveita eða sýslna verður að fara yfir dali, hóla, fjöll og firnindi, og verður það opt mjög tilfinnanlegt í illum veðrum, er ætíð má búast við á fjallvegum einkum á vetrum.

varda-23

Nú er þó svo komið hjá oss að mikil lögun er komið á marga fjallvegu og þeir orðnir góðir yfirferðar á sumrum, og hefir nú á síðastliðnum 10 árum allmiklu fé verið kostað til vegabóta, og erum vér vissir um að meiri hluta alþýðu þykir því fé vel varið, og hafa orðið að góðum notum, en samt sem áður eru vegirnir ófullkomnir, þar eð þeir flestir eru að eins sumarvegir. Vér Íslendingar þurfum eigi síður greiða vegu um landið á vetrum og opt er það að þá þarf maður helst að reyna á þá. Á vetrum er slétt yfir alla vegu af snjó og ís, og þótt vegirnir séu hlaðnir upp, er það opt að eigi sést til þeirra fyrir snjó. Einnig er það líka að ef maður, eins og opt Vagnvegur-21kemur fyrir, á vetrum, tekur af sér króka með því að ganga beinnan vegurinn liggur, að hann á þá opt illt með að finna veginn, ef hann eigi er gagnkunnugur honum, en af slíku geta menn opt komist í vandræði og jafnvel beðið bana, ef misjöfn eru veður; til þess að ráða bót á slíku ættu sýslunefndir að fara að hugsa um það efni og sjá svo um að hlaðnar væru vissar vörður á fjallvegum, er ferðamenn gætu óhultir farið eptir, til þess að komast áfram leið sína til byggða; vörðurnar þyrftu að vera þéttar, svo að þær sæjust glöggt þó illt væri veður og kafald; það sjá allir að nauðsyn er á einhverjum vissum leiðarvísi fyrir ferðamenn á vetrum, er svo opt eru á ferð, þar sem samgöngur milli héraða eru nokkuð að aukast, einkum póstferðir, og menn eru sendir með áríðandi bréf og sendingar, er fljótt og áreiðanlega eiga að komast til skila.
Vagnvegur-22Erlendis eru víða vitar, er sjómenn og landfarar beina leið sína eptir, en að hafa vita hér sýnist óhugsandi, sakir ýmsra annmarka. Vér viljum telja hér nokkra hina helstu fjallvegu, er óumflýjanlegt er að fara yfir, og nauðsyn væri að hlaðnar væru vissar vörður á, fyrir pósta og aðra ferðamenn að rjetta sig eptir á vetrum. Allir þessir vegir eru langir og illir yfirferðar og mjög villugjarnir.
Þegar lengra er haldið áfram yfir Suðurlandið, má telja Reykjanesfjallgarðinn; yfir hann liggja 7 alfaravegir. Nyrðstur er Kaldadalsvegur milli Þingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði
milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni,
þá Grindaskörð milli Ólvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir eru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.
villuvarda-21Nokkrir af vegum þeim, er áður eru taldir, hafa reyndar fengið allgóða lögun, en hvergi nærri fullkomna til þess, að þeir gætu heitið vetrarvegir, þar eð flesta þeirra vantar sæluhús og vörður eða einhver glögg einkenni, er ferðamenn gætu óhultir rétt sig eptir, ef veður eru misjöfn. Það sjá allir hvað póstferðirnar eru nauðsynlegar, og án þeirra getur enginn félagsskapur né samgöngur orðið að góðum notum, en það sjá líka allir hve örðuga og geigvænlega leið póstar eiga fyrir höndum á vetrum, er þeir í tvísýnu veðri og illri færð eins og þá opt kemur fyrir, verða að ferðast um þessar heiðar og eyðimerkur til þess að ná til byggða. Vörður þær, er hlaðnar eru á fjallvegum eiga að hafa áttavita, það er að segja út úr tveimur hliðum vörðunnar eiga að standa þrep, er snúi hvort frá öðru í gagnstæðar áttir t. d. úr suðurhlið og norðurhlið vörðunnar, og ætti eigi lengra að vera milli varðanna en svari 30—40 föðmum; best væri að vörðurnar væru hlaðnar skammt frá veginum en þó allar á sömu hlið við hann, og ætti einkum að sjá svo til, að þær gætu staðið nokkuð hátt, svo eigi þyrfti að óttast fyrir að snjó legði yfir þær; ef þær stæðu mjög nærri veginum, ætlum vér hættara við að þær kynnu fremur að falla ef ógætilega væri hjá þeim farið.

villuvarda-22

Þótt vegir séu hlaðnir upp, þarf engu síður vörður við þá, ef þeir liggja yfir óbyggðir. Sæluhús eru ómissandi á mörgum fjallvegum hér, og það er undarleg vanhirða þjóðarinnar, að eigi skuli sæluhús enn vera orðin almennari í
mestu alfara óbyggðum landsinsenþaueru, og flestir þeir sæluhúskofar, er til eru, eru hafðir mannlausir, svo þeir undir eins fúna niður, og verða að litlum notum. í nokkrum óbyggðum landsins er þar á móti gnægð af villuvörðum, er nauðsynlegt væri að felldar væru niður til grunna. Vér viljum taka til dæmis hér syðra heiðina, er liggur frá Vogastapa og suður á Garðskaga, milli Hafna, Rosmhvalsneshrepps, Garðs, Leiru, Keflavíkur og Njarðvíka. Heiði þessi er allstór, smáhólótt, og ákaflega villugjörn, en svo að segja er varða þar á hverjum hól, og verða þær að líkindum fleiri mönnum að bana, en illt loptslag þar, draugar og staupagjafir í Keflavík, sem hingað til hefir verið álitið að væri orsök til þess, að svo margir hafa orðið úti og dáið þar í heiðinni. Ef vissar vörður væru í heiði þessari, er vel mætti rekja sig eptir og engar villuvörður (draugar í heiðinni) í kring, mundu færri verða þar úti. Villuvörður þessar hafa smalar eða þeir er staðið hafa yfir fé að líkindum hlaðið sér til dægrastyttingar, en eigi gætt þeirra afleiðinga, er verða kynni af verki þeirra fyrir ókunna ferðamenn.”

Heimild:
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 3. tbl. bls. 21-22.
-Máni, 1. árg. 1879-1880, 4.-5. tbl, bls. 34-35.
-Máni, 1. árg 1879-1880, 8. tbl. bls.60-61.

Varda-21

Selvogur

Uppi á fjörukambinum skammt austan við Selvogsvita má enn sjá leifar hluta trébáts, sem þar fórst á sínum tíma. “Báturinn hét Vörður RE 295,  er hann rak á land með bilaða vél austan við Selvogsvita, 9. mars 1956, með fullfermi af loðnu. Með bátnum fórst öll áhöfnin samtals 5 manns.
Vordur-21Bátur þessi var kantsettur tvísöfnungur smíðaður af Þórði Jónssyni frá Bergi í Vestmannaeyjum árið 1913 og átti hann bátinn sjálfur og réri á honum fyrstu árin. Báturinn var eini báturinn sem Þórður smíðaði.  Umb. 1937.
Bátur þessi er sagður hafa verið með fullfermi af loðnu sem er nokkuð framúrstefnuleg, en nokkrum árum áður eða 1954, var hann gerður út á humarveiðar frá Grindavík og var skipstjóri þá Jón Eiríksson og lagði hann hjá frystihúsinu í Höfnum.
Nöfn: Enok VE 164, Enok II VE 164, Ingólfur Arnarson VE 187, Ingólfur Arnarson GK 187, Stuðlafoss SU 550, Vörður SU 550 og Vörður RE 295.”

Heimild:
-emilpall.123.is/blog/yearmonth/2010/04/18/

Vordur-22

Hvalsnesleið

Frumvarp Alþings til vegaumbóta 1857: Samþykkt sem tilskipun af konungi 1861; 12. gr.-  vörðubendill:

Arnastigur-501Þegar horft er til varða á þétthlöðnum hesta- og vagnvegum Reykjanesskagans, s.s. Skipsstíg, Árnastíg og Prestastíg (Skógfellavegur og Sandakravegur urðu aldrei ruddir sem að vagnvegir) má jafnan sjá stein (vörðustein) standa út úr heillegustu vörðunum. Þetta vekur jafnan athygli „vegfarenda“, en fáir hafa velt fyrir sér tilgangnum, sem hlýtur að hafa verið einhver? Þetta eru vörður sem hlaðnar eru eftir 1861 skv. þágildandi skipan konungs (frá 15. mars 1861) sbr.  áður nefnd tillögudrög Alþingis að vegaumbótarlaga frumvarpi frá 1857: „12. gr.: „Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag, skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annari, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur, eður annað merki, á þeirri hlið, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar“.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn.