Selatangar

Svonefndar “gatvörður” hafa valdið mönnum heilabrotum um langa tíð.
Sjá má nokkrar slíkar á Reykjanesskaganum. Ein helsta kenningin hefur verið Gatvarða ofan við Merkines - sú að þær eigi sér skírskotun til sambærilegra mannvirkja í Norður-Ameríku og hefðu því bæði verið hlaðnar af sama fólkinu beggja vegna Atlantshafsins og/eða gegnt sambærulegu hlutverki. Hvert fólkið var eða hvaða hlutverki þær áttu að hafa þjónað hefur hins vegar ekki verið útskýrt af neinu viti.
Ef litið er á þessar gatvörður á Reykjanesskaganum má a.m.k. telja eftirfarandi:
a) Ofan við Merkines eru tvær gatvörður. Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir segir m.a. um þessar vörður: “Landið á hægri hönd, að Merkinesvör, er nefnt Flatir(nar). Þá er komið að hringmynduðum grjótgarði á vinstri hönd. Það heitir Innstigarður. Upp frá Innstagarði liggur breitt lægðardrag allt upp að Norður-Nauthólum og kallast einu nafni Merkineslágar. Skammt upp frá Innstagarði er gróin laut og við vesturbrún hennar eru gamlar rústir og stór varða með gati neðst er þar hjá. Þetta er kallað Strákur. Nokkuð langt ofar er lítil varða á klapparhorni, sem heitir Stelpa.” Í örnefnalýsingu fyrir Merkines er einig getið um vörðurnar: “Neðst í Merkineslágum er grjótvarða, hlaðin þannig, að neðst eru tveir stólpar og svo einn upp úr. Þetta er mjög gömul varða og ágætlega hlaðin. Hún heitir Strákur. Nokkuð ofar er lítil varða á kletti, sem nefnd er Stelpa. 

Varða ofan við gömlu Hafnir - Systur

Þarna eru allmargir smáhólar. Meðan þetta land var meira nytjað, hafa örugglega margir þeirra haft nöfn, sem nú eru glötuð.” Í örnefnalýsingu fyrir Kalmannstjörn segir einnig um þessar vörður: “Dálitlum spöl ofar er sérkennilegur klapparhóll, áþekkur gömlum torfkofa í laginu. Hann heitir Bæli, mikið notaður sem mið, bæði við leiðir og lendingar og eins á grunnamiðum. Þar, en ofar eru tvær vörður með litlu millibili á klöppum og heita þær Systur. Til suðausturs upp frá Kalmanstjörn er holt, sem liggur frá suðvestri til norðausturs, og nokkru hærra til norðausturs, með vörðubroti á, svo sem 1 km frá bænum; það heitir Merarholt.”
Við svonefndan Prestastíg (nýnefna) eru tvær gatvörður utan í efstu brúnum (Presthól) ofan Hundadals. Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir segir m.a. um þessa leið (ekki er getið sérstaklega um vörðurnar): “Til norðurs er nokkuð stór grjót- og klapparhóll skammt upp frá gjánni. Hann heitir Markhóll. Til norðvesturs er feikistór hóll upp af gjárbarminum og heitir hann Presthóll.  Meðfram honum lá hestagata frá Kalmanstjörn og undir Haugum til Grindavíkur. Vegur þessi var varðaður og standa margar vel enn í dag.”

Varða við Presthól

Í örnefnalýsingu fyrir Kalmannstjörn af sömu leið er ekki heldur getið um þessar “afbrigðilegu” vörður: “Vestan við Tjaldstæðagjá, sem fyrr er nefnd, er hrauntangi. Þar á er hæð, sem heitir Presthóll og var á leið Grindavíkurklerka, er þeir voru á ferð. Haugur er hæð, sem er sunnarlega, vestur af Haugsvörðugjá.”
Á Mosfellsheiði eru tóftir sæluhúss vestan í Háamel. Í örnefnalýsingu fyrir Mosfellsheiði segir: “Sunnan undir Háamel var eitt sumar, eða tvö, fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarblóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sléttir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. „Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.” Gatvarðan skammt vestar virðist ekki hafa verið í frásögu færandi. Reyndar eru vörður á þessari leið eitt allsherjar samansafn af öllum helstu vörðutegundum landsins.
Við Vestari rekagötuna milli Selatanga og Ísólfsskála er falleg gatvarða. Einnig á samhengisslausum stað í Strandarheiði ofan við Vatnsleysuströnd. Tvær gatvörður, annars vegar við hina fornu Hvalsnesleið og hina nýju Reykjanesbraut virðast vera æði nýlegar og vera dæmigerð sköpunarverk höfundanna. Þessar vörður, þótt nýlegar séu, gefa jafnframt góðar vísbendingar um tilurð þeirra, sem eldri eru, sem og annarra sambærilegra vestanhafs.

Varða við Reykjanesbraut - nú horfin

Fyrr á tímum voru bændur skuldbundnir til tiltekinnar þegnskylduvinnu. Yfirvaldið ákvað verkefnið, sem gat verið í formi vegghleðslna, gatnagerðar eða vörðuhleðslu, svo eitthvað sé nefnt. Þannig þurfti sérhver bóndi að leggja sitt af mörkum tiltekinn tíma á hverju ári – endurgjaldslaust. Sýslumenn, hreppsstjórar, prestar og læknar gengu í sama skólann, tengdust vinarböndum og tryggðarfestum til lengri framtíðar. Prestarnir virðast hafa haft afgerandi áhrif á vinnuframlagið, sbr. vetrarleið Hvalsnesgötunnar, en þá götu fór presturinn í Hvalsnesi, Hallgrímur Pétursson, jafnan milli vinnustaðarins og heimilisins að Bolabás í Ytri-Njarðvík á 17. öld. Helsta öryggisáhugamál prestanna var að komast lifandi milli kirkjustaða, sem þeim var ætlað að þjóna, einkum í víðsjálegum verðum að vetrarlagi.

Af framangreindum gatvörðum má draga tvenns konar ályktanir; annars vegar þá að einstaka áræðnum bónda hafi ofboðið ánauðin og ákveðið að tjá hug sinn til hennar. Í stað þess að hlaða hefðbundna forskrifaða vörðu (60×60 og 120 að hæð) hafi hann viljað vekja athygli á þurfalinginu. Dagsverkið hefur eflaust verið ca. tvær fullhlaðnar vörður og skýrir það vel gatvörðurnar tvær við Presthól. Afurðin hefur í framhaldinu án efa vakið mikið umtal á þeim tíma, enda vörðurnar ólíkar öllum öðrum hefðbundum við stíginn. Ef til væru stólræður prestsins frá þessum tíma mætti eflaust sjá viðbrögðin við afbrigðilegheitunum – með tilheyrandi bölvunum og bannfæringum.
Varða við vestari Rekagötuna að ÍsólfsskálaÍ dag, þegar gengið er “Prestastíg” (sem reyndar lá annars staðar um heiðina fyrrum) vekja þessar tvær vörður einna mesta athygli göngufólks. Svo gildir og jafnan um verk þeirra, sem hafa viljað tjá sig í seinni tíð á annan hátt en hefðbundinn. Líkt og þá hafa verkin verið talin “fáranleg”, en smám saman, með tímanum, fengið viðurkenningu í samræmi við gildi tjáningarinnar. Sömu lögmál eru algild, bæði í tíma og rúmi, um árþúsunda sögu mannskepnunnar – og þarf ekki Reykjanesskagann til. Hins vegar má ætla, út frá sömu rökyggju, að einhverjir hafi viljað byggja vörðu á fjölförnum stað er ætlast var að vekti sérstaka athygli. Segja má að á öllum þeim stöðum, er það átti við, hefur það tekist með ágætum. Hughrifin ein hafa þó jafnan verið látin duga, en ekki verið talin ástæða til að fjallaa sérstaklega um einstök mannvirki í markverðum textum – enda vörðurnar yfirleitt skammlífar. Þannig entist varðan við Reykjanesbrautina einungis í þrjú ár. Vörðurnar við “Prestastíg” og ofanvert Merkines sem og við Rekagötuna frá Selatöngum og á Mosfellsheiði eru hins vegar u.þ.b. 100 ára. Ekki er vitað um aldur vörðurnar í Norður-Ameríku, en ætla má að tilefni að sköpun þeirra hafi verið af sömu tilfinningarrótum og hér á landi.
Gatvörður