Selvogur

Farið var í Selvoginn. Gengið var að flaki vélbátsins Varðar sem liggur í stórgrýtisurð skammt fyrir austan Selvogsvita. Bátinn rak upp í brimi árið 1956 og fórust allir sem um borð voru, fimm menn.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Flakið er illa farið en stefnishlutinn, með lúkarnum, er eftir og nokkuð þarna frá er afturdekkið, skreytt með ryðguðu dráttarspili.
Þátttakendur fengu sér kaffisopa og meðlæti þarna við flakið, með útsýni út yfir hafið og landið, böðuð í sólskini.
Þegar einn FERLIRs félaginn stóð upp, féll hann afturábak og kláraðist þannig úr könnunni yfir hann. Þar sem FERLIRs menn eru orðnir ýmsu vanir í þessum ferðum lét hann þetta ekki aftra sér í að fá aftur í könnuna. Teygði hann sig síðan í girnilega brauðsneið með áleggi. Skipti þá engum togum að brauðsneiðin var slegin úr höndum hans og féll hún niður í stórgrýtið.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Annar FERLIRs félagi missti síðan kaffikrúsina sína niður í grjótið, þó án þess að hún brotnaði. Þátttakendur þökkuðu fyrir móttökurnar þótt í gletnara lægi væru. En allir voru sammála um að þarna vildu þeir ekki eiga næturstað fyrst svona fjörugt sé í glaða sólskini.
Gengið var að Nesi og skoðaðar þær miklu minjar sem þarna eru.

Nes

Nes – legsteinn.

Mikið hefur verið leitað að legsteini þeim sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður með meiru, hafði bjargað undan jarðýtunni um miðja síðustu öld, þegar bóndinn í Nesi var að byggja hlöðu og fjós.
Vitað var að þarna hafði verið kirkjugarður og kirkja sem var endanlega aflögð 1706 en síðastur var þar grafinn Jón Jónsson, bóndi í Nesi. Hann andaðist árið 1702. Síra Jón Vestmann hefir þessa athugasemd um Jón bónda en hann ritaði m.a. “Lýsingu Selvogsþinga árið 1840”
“Hann byggði sér skemmu úr kirkjutóftarrústinni frá forntíð og var að bón hans loks grafinn í skemmunni”. (Landnám Ingólfs, Guðni Jónsson).
Nokkrar fleiri heimildir eru um kirkju í Nesi.

Nes

Nes í Selvogi.

Forn maldage:
(1313) “Maraíu kirkia j Nese og hins helga mangvs jarls: og ins sæla Thorlaks biskups og hinnar helgv Katerynv meyjar er (Finnr) Bjarnmason liet goira. a xx hvundrvd j heima landeog tielld vmm kirkiv . smelltan kross og annann steindann. Alltarisklædi iij. kluckur iiij og fimta brotna. kertastikur ij. og glodarker. elldbera. lysisolv. og Alltaris mvnnlavg. skiov. og stavckvl. og handklæde tuo. og peturs skrift. ij kyr. a og kirkia” (Fornleifaskráning í Ölfusi)

Máld (1313) 1397: Maríukirkja j Nesi …a .xxc j heimalandi, iij. kyr oc vj. ær…lofadur gropttur heimamonnum oc fatækum monnum í Nesi, tyund liggur þar til heimmanna oc af Biarnastodum.
(Fornl.sk. í Ö)

Selvogur

Selvogs-Jói með nýfundna legsteininn.

Kristófer fann þrjá legsteina, tvo stóra og einn lítinn sem hann taldi vera legstein frá barni. Var hann með kross.
Fyrir nokkrum árum ætlaði hann að ná í steinana en fann þá aðeins tvo þá stóru og fór með þá á minjasafn á Selfossi. Litla steininn fann hann ekki.
Nú þurfti ekki að leita, einn FERLIRs félaginn gekk beint að steininum þar sem hann var hálf niðurgrafinn við niðurfallinn vegginn á hlöðunni. Blasti krossinn í steininum við, moldfylltur.
Kristófer var látinn vita af fundinum og ætlar hann að huga að steininum ef einhverjar framkvæmdir verða þarna á staðnum. Hann var sammála FERLIRs félögum um að þessi steinn ætti ekki heima upp í hillu á minjasafni heldur fái að vera í sínu rétta umhverfi, gamla kirkjugarðinum í Nesi, með mannlífstónað öldugljálfrið við ströndina.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.