“Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellir sem í eru mannvistarleifar. En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum.
Heimildir skýra svo frá; Norðan við sléttuna í dalsbotninum sé einn af mestu gufuhverum landsins, en örskammt norðvestur af honum er hár móbergsklettur. Ofarlega í þessum kletti er hellir og grastó fyrir framan hann. Hellismunninn sést strax og komið er yfir Sleggjuháls. Móbergið fyrir framan hellinn er mjög bratt og illkleift á tveggja til þriggja mannhæða kafla.
Til eru sagnir um að í þessum helli hefðu verið menn sem komu sunnan úr Höfnum. Þeir hefðu verið áhöfn af einhverju skipi en verið reknir fyrir einhver níðingsverk. Heimildir segja að þeir hafi hafist við í þessum helli í eitt sumar eða tvö ár, en það er ekki vitað með vissu. Talið er að um hafi verið að ræða 6 til 7 karlmenn og tvær hlutakonur. Þau lifðu á sauðfé sem þau stálu frá bændum í Grafningi og Ölfusi. Bændur sátu síðar fyrir þeim og drápu, en ekki fyrr en eftir miklar eltingar. “Þjófahlaup” í Henglinum er skýrt eftir þessar eftirfarir. Útilegumennirnir voru ýmist drepnir vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiðinni. Konurnar voru fangaðar eftir mikið viðnám. Ekki er heldur vitað með vissu hvaða ár þetta var en talið er að það hafi verið í kringum 1700.
Lýður Björnsson, sagnfræðingur, fór í þennan helli 1978. Hann skýrir svo frá að hellir þessi sé um 2 til 3 metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um 2 metrar. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunann en hleðslan er nær hruninn, fallinn bæði inn og út. Talsvert var af beinum undir hellum í hellinum, mest stórgripabein. Engar leifar sáust af eldstæði eða ösku.
Eins og heimildir greina frá þá er verulega erfitt að klífa upp í þennan helli. Alls ekki ráðlagt fyrir fólk að reyna uppgöngu án sérhæfðar búnaðar og kunnáttu. Bergið fyrir framan hellinn er bæði mjög bratt og laust í sér.
Heimildir eru að finna m.a. í lesbók MBL frá 1939, grein sem Þórður Sigurðsson “Tannastöðum” skrifaði, Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.”
Heimild:
-http://www.olfus.is/gestir-og-gangandi/ahugaverdir-stadir/hengill/