Hin aldna kepma Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður, kom á staðinn til að fylgjast með og heilsa upp á hópinn, en hann þekkir svæðið einna best núlifandi manna.
Gengið var vestur yfir hraunið, staldrað við í fjárhelli og síðan gengið yfir í Gerðið, austasta hlutann innan vörslugarðs Herdísarvíkur. Þar, innan við Langagarð, eða Lönguvitleysu, eins hann var stundum nefndur, er vel gróið, enda uppgrætt með slori. Garðurinn var hlaðinn af Arnþóri nokkurm frá Ási í Ytri-Hrepp. Í Gerðinu eru tóttir fjárhúsanna Langsum og Þversum. Hlínargarður var skoðaður, en hnn var nefndur eftir Hlín Johnson, sem lét hlaða garðinn. Hann hefur varið landið vel, en hann náði að mörkum Langagarðs.
Þá var haldið að Herdísarvíkursjóbúðum og þær skoðaðar. Búðirnar eru fimm og allvel heillegar. Neðan þeirra var skiptivöllurinn og enn neðar Vörin (Herdísarvíkurvör). Skammt vestar og neðar var Hryggjarbúð, enn ein sjóbúðin, en hún er horfin. Sjá má móta fyrir Ólabúð við enda þvergarðs, Austurtúngarðs, skammt vestar. Neðar og austar er tótt af fjárhúsi.
Lindarvatn streymdi undan hrauninu í Herdísarvíkurtjörn. Gengið var að Varghólsbrunni, eða þar sem hann var því sjórinn er búinn að brjóta talsvert umhverfis Tjörnina. Þar streymdi vatnið upp á milli klappa. Staðnæmst var við gömlu útihúsin vestan við Einarshús, en þar var áður fjós, hlaða, lambús og hesthús. Einnig var Krýsuvíkurbúð, en hún var gerð upp úr hrútakofa, sem þar var. Norðurtúngarður liggur ofan Einarshúss og Vesturtúngarður vestan þess.
Gengið var að hlaðinni rás í jörðinni norðan túngarðsins. Hún er hluti af reykofni Hlínar. Þorkell hafði einmitt haft á orði að kjötið þaðan hafi skammast vel því reykurinn hafi verið svo kaldur þegar hann kom loks í reykhýsið.
Gengið var niður að Tjörninni og eftir flóruðum stíg yfir eitt vikið. Við það er hlaðið gerði, sennilega hestagerði. Í hleðslunum mátti greina sjósteina, hluta myllusteina, sökkkusteina o.fl. Vestan stígsins er svo gamla Herdísarvík, en það hús var notað til 1934. Einar og Hlín voru fyrsta árið sitt í Herdísarvík í því húsi. Það er byggt utan í Skyggni, klettavegg. Vestan hússins er hlaðið gerði og tótt.
Gengið var yfir Vesturtúngarðinn til norðurs og var þá komið að grunni kofa, hlaðinni tótt og enn annarri stærri í gróinni lægð, sennilega fjárhús.
Eftir áningu við Einarshús þar sem einn samferðarmanna, bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Örn Ólafsson, afhenti einum FERLIRsforsprakkanum, Ómari Smára, bæði bindinn af Sögu Grindavíkur með þakklæti fyrir sýndan áhuga á minjum í og við Grindavík. Honum var þökkuð gjöfin, en bækur þessar munu nú vera ófáanlegar í bókabúðum.
Loks var gengið austur með Norðurtúngarði að Réttinni, eftir Kúastíg og áfram að upphafsreit.
Gangan tók um tvær klukkustundir. Veður var frábært, sól og hlýindi.
Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni. Einnig var svæðið teiknað upp.