Færslur

Embla

Í Emblu, 1. tbl. 01.01.1946, er Ferðasaga Sigrúnar Gísladóttur frá Reykjavík í Selvog:

Emla„Þegar ég var telpa austur á Eyrarbakka, heyrði ég oft sjómenn tala um, að þeir ætluðu áð skreppa út í Vog, það er Selvog, rétt eins og við börnin skruppum milli liúsa. Hafði ég því á tilfinningunni, að þetta væri afar auðvelt.
Svo fluttist ég til Reykjavíkur, og árin liðu, en aldrei komst ég í Selvoginn. Áætlun var gerð þangað á ári hverju, því að í Voginn vildi ég komast, þar sem hann var nú líka eina sveitin á Suðurlandi, sem ég hafði ekki komið í. Mig langaði líka að sjá Strandarkirkju, þetta Htla, einfalda guðshús, sem á orðið fúlgur fjár fyrir trú manna á kraft þess, og Vogsósa, þar sem séra Eiríkur hinn fjölkunnugi sat.
Því var það í júní 1940, að ég fekk tvær stallsystur mínar til að skreppa með mér austur í Vog. Við fórum úr Reykjavík um hádegi á laugardag með bíl að Kleifarvatni, gengum upp Lönguhlíð og tókum stefnu þaðan á Herdísarvík. En hvernig er annars Langahlíð, þegar upp er komið, fjallið, sem dregið er með langri, beinni línu og sker sig því svo sterklega úr öðrum fjöllum Reykjaness, sem öll eru eintómar strýtur og hnúkar með skörðum á milli, séð úr Reykjavík? Það var nógu gaman að kynnast því.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í norðanverðum Lönguhlíðum.

Þegar brúninni, sem við sjáum úr Reykjavík, sleppir, taka við mosaþembur, síðan talsverður gróður og víða yndisfagrir valllendisbollar með háfjallablómgresi. Fórum við því ekki óðslega að neinu. Veður var hið bezta, logn og sólskin. En nú fundum við, að þetta fjall er ekki einstakt í sjón, heldur líka í raun. Gróðurinn fer minnkandi, og nú tekur við hraun og aftur hraun, sem virðist alveg ógengt; svo stórgert er það. Eitt einkennir þennan stað sem fjall, að þaðan sér aðeins upp í himininn, og er því ekki hægt að átta sig á nokkrum hlut nema eftir korti og áttavita eða klukkunni og sólinni. Sjóndeildarhringurinn er ekkert nema hraun og þústir, hver annarri líkar. Frá norðurbrún, sem heitir Langahlíð, lækkar landið til austurs og hækkar svo aftur, svo að það er eins og maður sé niðri í skál. Við gengum upp á hæstu hraunstrýtuna og lituðumst um. Sáum við þá, að hraunið er lægst í miðju. Tókum við nú stóran krók á hala okkar til að leita að útgöngudyrum úr þessu völundarhúsi. Þegar við komum að þessari lægð, reyndist hún vera helluhraun, sem liggur, má segja, þvert yfir þessar ógöngur. Fréttum við síðar í Selvogi, að það er eina leiðin, sem fær er, þarna yfir. Þarna sáum við meira að segja slóða á hellunum á stöku stað eftir hesta, en þær eru nokkuð víða, þessar steinlögðu götur á Reykjanesfjallgarði. Þegar við komum að suðurbrún þessarar miklu hraunskálar, sáum við út á sjóinn, en fram undan hallar landinu, sem er hraunstraumur mikill, til suðurs. Er hraun það illt yfirferðar, — betra að vera vel skóaður í slíku gangfæri. Í þessum hraunstraumi sáum við einhvers konar dauf strik, sem reyndust vera gata. Var mikil hvíld að fylgja henni. Þessi gata, sem þarna liggur yfir hraunið, er sú elzta, sem við höfum séð á ferðum okkar. Þessir gömlu götuslóðar tala sínu hljóða máli. Svipir horfinna kynslóða birtast og líða fram hjá. Sagan tekur á sig undarlega skýrar myndir. — Þarna hillir undir langa lest, langt niður frá. Þar er einhver stórbóndinn að fara með ullina, sem er þétt troðið í mislita hærupoka. — Niður hraunið að vestan kemur önnur. Á henni eru skreiðarbaggar svo stórir, að þá ber við loft. Eitthvað á nú að borða af þorskhausum á þessum bæ. — Þarna glittir í gyllta hnappa og skrautbúin reiðtygi. Danska valdið er að fara með fátækan bónda suður að Bessastöðum. Það á að dæma hann til fangelsisvistar á Brimarhólmi, af því að hann stal gamalli rollu til að seðja hungur barna sinna. — Sitthvað segja þessi gömlu spor. — Þarna kemur fólk á stangli — fótgangandi, hörmulega útleikið, með sár á fótum, þrútin augu og svartar tanngeiflur. Gömul kona er að þrotum komin; hún sezt við götuna og stynur mjög. — Þetta fólk er að koma frá eldunum, — Skaftáreldunum. Svona verka gömul spor kynslóðanna á vegfarandann, sem rekur þau.
EmblaNú vorum við komnar niður á Selvogsheiði og höfðum gras undir fótum. Var þá ekki beðið boðanna að tylla sér og taka upp malinn. — Nú gerðust fæturnir viljugir, og var nú gengið rösklega. Ekki sáum við samt Selvog. Þarna eru götur, krossgötur. Við völdum þá, sem stefnir á Herdísarvík, fylgdum henni, þangað til hún hvarf í stórgerðan móa. Allt í einu stóðum við fram á svimhárri brún. Fyrir neðan okkur lá sjórinn og strandlengjan. Við sáum niður í Herdísarvík og bæinn, þar sem stórskáldið okkar, Einar Benediktsson, kvaddi þetta líf. Selvogur blasti við með hinu stóra, fallega Hlíðarvatni. Svo langt, sem augað eygði til hægri og vinstri, sáum við svartar hamrabrúnir. Hvernig áttum við, vængjalausar, að komast þarna niður? Við komum auga á þráðbeint strik, sem náði milli fjalls og fjöru. Það gat hvorki verið gjá né gata; það hlaut að vera girðing, sem lögð var alla leið upp á fjallsbrún, annars gagnslaus sem vörn fyrir fé. Ákveðið var að reyna þar niðurgöngu, sem reyndist líka sú eina þar um slóðir. Þar hefur vatn brotið skarð í fjallið og myndað skriðu endur fyrir löngu. Er þar einstigi niður. Þar sem nú var orðið kvöldsett og áætlað var að komast að Nesi um kvöldið, gátum við ekki komið að Herdísarvík án þess að taka á okkur stóran krók, þar sem girðingin liggur langt fyrir austan víkina. Var því haldið áfram. Nú voru greiðar götur til bæja. Þarna er fallegur gróður, blóm og birki, móti sólu, í skjóli fjallsins, mikil hvíld fyrir augað frá hraununum, sem við höfðum gengið allan daginn.
Stakkavík er vestasti bær í Selvogi. Komum við þar og fengum mjólk. Var fóikið þar hlýlegt og gott. Hlíðarvatn liggur alveg að Stakkavík að vestan, og var nú freistandi að fá bát yfir vatnið, sem sparaði okkur 2—3 klst. göngu. Bóndinn átti trillubát, sem synir hans voru að tjarga þá um morguninn. Var hann því ekki vel þurr að innan, en velkominn okkur, ef við vildum þiggja hann í slíku ástandi, sem við og gerðum. En botnóttar urðum við býsna vel.

Vogsósar

Vogsósar.

Þá vorum við komnar að Vogsósum. Þar er ljómandi fallegt, — valllendisflatir, þegar túninu sleppir. Vatnið framan við bæinn rennur þar til sjávar gegnum ósinn, sem bærinn dregur nafn af.
Nú var miðnætti. Engin hreyfing sást á bænum. Sjálfsagt allir menn í fasta svefni. Svartbakur, ritur og kríur mynduðu hvítar breiður niðri á fjörunum. Endur syntu letilega með unga sína á vatninu, sem var purpuralitað frá endurskini sólarlagsins. Við gengum niður að sjónum. Það var fjara. Skerin, vafin sjávargróðri, náðu langt út í sjó og mynduðu spegilslétt lón á milli sín. Þar var æðarfuglinn og ú-aði hálfólundarlega yfir þessu ónæði svona um hánóttina. Þá dró það ekki úr fegurðinni, að máninn, sem var kominn nokkuð hátt á loft, speglaðist í lónunum. Allt var kyrrt. Náttúran tók á sig náðir. Í svona andrúmslofti gleymist stund og staður. Maður samlagast náttúrunni, leggst endilangur á sjávarbakkann og teygar að sér ilminn úr jörðinni og seltuna frá sjónum, nýtur þess að vera til. Við gengum í rólegheitum gegnum byggðina. Að Nesi, sem er austasti bærinn, komum við á fimmta tímanum. Þar hugðumst við að fá leigða hesta hjá Guðmundi bónda upp að Hveragerði.
Urðum við nú að vekja upp, því að við þörfnuðumst hvíldar. Var okkur mjög vel tekið. Sofnuðum við fljótt og sváfum til kl. 9 um morguninn. Fórum við þá að fala hestana af Guðmundi, en það var ekki auðsótt mál, enda ástæða til. Þannig var ástatt, að sauðburður stóð yfir og því nýafstaðnar miklar smalamennskur, enda dreifðu ærnar sér um tún og hága með lömbin sín. Líka barst að mikill rekaviður vegna stríðsins, liestar því notaðir til liins ýtrasta við störfin. Samt var nú svo komið, að Guðmundur ætlaði að reiða okkur upp að Hrauni í Ölfusi.

Nes

Nes í Selvogi.

Á hlaðinu í Nesi voru kynstrin öll af rekaviði, sem staflað var upp í laupa. Hafði Guðmundur selt það allt til mæðiveikinefndar. Átti að senda bát eftir timbrinu í apríl-maí, en enginn hafði komið ennþá. Með þeim bát átti fólkið að fá nauðsynjar sínar úr kaupstaðnum. Var því víða orðið svo þröngt í búi, að til vandræða horfði. Skorti fólk marga hluti. Húsmóðirin í Nesi átti eitthvað eftir af hrísgrjónum, svo að hún gat gefið okkur mjólkurgraut, svo og kjöt og slátur. Kaffikorn átti hún líka. Garðamatur var að þrotum kominn, því að það varð að ganga á hann, þegar mjölmatinn vantaði.
Fórum við stallsystur nú að skoða okkur um í Voginum, heimsóttum við einu manneskjuna, sem við þekktum þar, Margréti að nafni. Þótti henni hart að geta ekki gefið okkur kaffi, því að það var þrotið, og ekki þýddi að leita á náðir nágrannanna, því að alls staðar var sama sagan. Margrét var að elda sér kjötsúpu úr síðasta útákastinu, sem hún átti, og, sem meira var, síðasta kjötbitanum, svo að hún sagðist bara ekkert hafa að borða, þangað til báturinn kæmi með vörurnar. Ekki var að tala um að komast á sjóinn. Einn bátur sjófær, en engir menn til að róa, því að allur tíminn fór í að bjarga lömbunum.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Margrét fór með okkur út að Strandarkirkju og sýndi okkur hana. Er það ein snotrasta kirkja, sem ég hef komið í, mjög snyrtileg og vel við haldið. Einhver sérstök „stemning“ er í þessari kirkju. Ef til vill er það ímyndun vegna þjóðsögunnar um hana, og hversu vel hún verður við áheitum. Mikill og sterkur garður er nú hlaðinn henni til varnar, og virðist þess ekki vanþörf, því að satt að segja er það furðulegt, að hún skuli ekki fyrir löngu vera komin í sjóinn, svo nærri honum sem hún stendur. Þessi varnargarður hefur líka varið landið frá eyðileggingu foksandsins, sem teygði sig inn eftir landinu og át upp gróðurinn, svo að þar, sem fyrir nokkrum árum sá ekki stingandi strá, eru nú gróðursælar valllendisflatir. Þegar við komum aftur heim að Nesi, færði Guðmundur okkur þau tíðindi, að hins langþráða báts væri nú loksins von upp úr hádegi þann sama dag. Var því alveg sjálfsagt að nota ferðina til Stokkseyrar, en þaðan var báturinn. Bæði var það fljótara og svo komumst við hjá því að níðast á veslings lúnu klárunum.
Eftir burtfarartíma bátsins frá Stokkseyri að dæma reiknaðist þeim í Selvogi svo til, að hann gæti farið þaðan um sex leytið e. h. þann dag. Með því móti átti okkur að heppnast að ná í síðustu áætlunarferð til Reykjavíkur.
Teitur Eyjólfsson, forstjóri Vinnuhælisins að Litla-Hrauni, hafði veg og vanda af þessari bátsferð. Þurftum við því að leita til hans með flutning á okkur. Teitur sló á glens, þegar við bárum u p p bónorðið, sagðist hreínt ekki vita, hvernig það færi, þar sem við værum þrjár ungar stúlkur. Skipshöfnin væri nefnilega þrír ungir piltar. Formaðurinn væri reyndar talinn einn sá öruggasti á Stokkseyri, Ingimundur á Strönd. Hann sagðist ekki vita, nema þeir slepptu allri stjórn á bátnum og keyrðu í strand, ef þeir hefðu slíkan ágætis farm um borð! Ég hugsaði í símann: Það sér á, að síminn er ekki sjónvarp!
Tafir urðu svo miklar við útskipun í Voginum, að klukkan var orðin 2 um nóttina, þegar lagt var af stað þaðan. Við stúlkurnar áttum auðvitað „kojuvakt“. Við héldum eldinum við í „kabyssunni“ , fengum okkur kaffi, sem var þar á könnunni, og létum fara vel um okkur.
Nú vorum við komin upp undir Stokkseyri. Var þá ekki orðið það hátt í, að við gætum flotið inn fyrir. Urðum við því að doka við. Settist þá öll „skipshöfnin“ að kaffidrykkju niðri í „lúkar“.
Var þar glatt á hjalla. Allt í einu tekur báturinn snarpan kipp. — Jú, við dinglum þar uppi á skeri. — Báturinn er kominn í strand! Það er yfirleitt ekki hlátursefni, þegar skip stranda á þessum slóð um, en í þetta sinn vakti það óskiptan hlátur skipshafnar og farþega vegna spár Teits forstjóra. Flóðið losaði um bátinn með hjálp vélarinnar, og allir björguðust vel í land. Til Reykjavíkur komumst við um hádegi á mánudag.“

Heimild:
-Embla, 1. tbl. 01.01.1946, Ferðasaga, Sigrún Gísladóttir, bls. 83-89.
Embla

Kleifarvatn

Í Morgunblaðinu 1967 fjallar Óttar Kjartansson um Kleifarvatn.

Reykjanesskagi

Sveifluháls á Reykjanesskaga.

„Að margra áliti er Reykjanesskaginn bæði ljótur og leiðinlegur. Þar dæmast fjöllin dökk og úfin, gróðursnauð og laus við alla formfegurð, nema þá kannski Keilir, en skaginn í heild nakinn grjótauðn, þurr og óbyggileg að mestu. Jú, rétt er það, víða er þar langt milli vatnsbóla, en ég held samt að margir sem sterk orð nota um eyðileika Reykjanessins séu þeir sem minnst hafa skoðað það. Því, við nánari athugun kemur í ljós að á skaga þessum finnst ótrúlega margt sem gleður augað; Göngumaðurinn uppvötvar grösuga velli og gróin heiðarlönd, fjallið reynist geyma bæði mosa og lyng, jafnvel fagra blómabrekku. Og þótt hraun og mosi þeki miklar víðáttur, og þótt móbergsfjöllin og skagarnir séu hvert öðru lík, langt að séð, er fjölbreytnin í smáatriðum óendanleg þegar betur er að gáð. Verði svo fyrir lækur eða stöðuvatn, eða máske aðeins lítil tjörn, sem raunar er allt helzt til fáséð á þessum slóðum, má ganga að því sem vísu að þar í nánd megi finna fornar hleðslur og veggjabrot sem segja utan og ofan af sögu selsins í heiðinni og lífsbaráttunni sem þar var háð. En nú á tímum traktora og mjaltavéla gleymist víst flestum að hugsa til þess hve raunvenulega er stutt síðan öldin var önnur.

Selalda

Vestari Lækur í Krýsuvík.

En það verður víst ekki hrakið, að Reykjanesskaginn er þurrt land. Mig minnir að hafa megi eftir Sigurjóni Rist vatnsmælingamanni, að ef allt vatn afrennslissvæðis Elliðaánna rynni rétta boðleið ofanjarðar, yrði vatnsmagn þeirra sex til áttfallt það sem nú gefur að líta. Þegar svo vestar dregur á nesinu verða hlutföllin milli úrkomu, afrennslis og rennandi vatns enn óhagstæðari, því það er kunnara en frá þurfi að segja, að rekja má alla strandlengjuna frá Elliðaám, vestur fyrir Garðskaga og Reykjanestá, og þaðan allt austur að Ölfusárósum, án þess að fyrir verði nokkurt vatnsfall sem orð er á gerandi. Ferðast má tugi kílómetra með ströndinni án þess að finna svo mikið sem uppsprettulind. Þó eru þær ekki með öllu óþekktar. Á Vatnsleysuströnd eru til dæmis öflugar lindir í fjöruborðinu. Talið er að nafnið Vatnsleysa tákni ekki vatnsleysi, eða vatnslausan stað, heldur hið gagnstæða, það er að segja staðinn þar, sem vatnið losnar úr læðingi. En eins og rennandi vatn er fátítt á Reykjanesskaga, er þar einnig lítið af stöðuvötnum, þó finnast þau, jafnvel mörg ef allt er tíundað, en hér verður fjallað um hið stærsta þeirra, Kleifarvatn.
Kleifarvatn er stærsta stöðuvatn í næsta nágrenni Reykjavíkur. Það liggur inni í miðjum Reykjanesskaga, svo til beint í suðurátt frá höfuborginni, í um 25 km fjartægð mælt í beina línu. Hæð þess yfir sjávarmáli er um 140 metrar, og í eðli sínu og útliti er það sannkallað fjallavatn, fagurblátt á sólbjörtum degi.
Vatnið liggur í dalhvilft sem verður milli Sveifluháls að vestanverðu og mikillar heiðarbungu sunnan Lönguuhlíðar að austanverðu. Síðan bílvegur var lagður um Krýsuvík og meðfram Kleifarvatni hefur þar verið fjölfarin leið, en áður en það varð vatnið teljast afskekkt, þótt skammt væri það frá byggðu bóli, Krýsuvík. Fjölfarnasta leiðin milli Hafnarfjarðar var ekki með vatninu, eins og nú er, heldur vestan Sveifluhálsins. Þó var stöku sinnum fært meðfram vatninu þegar lágt var í því, á fjöru undan Stapanum, en það var fremur sjaldgjæft. Kleifarvatn er nokkuð ílangt norðaustur, suðvestur. Það eru röskir 5 kílómetrar að lengd. Flatarmálið er mjög nærri 10 ferkílómetrum.

Kleyfarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Samkvæmt dýptarmælingum, sem gerðar voru veturinn 1963—64, reyndist mesta mesta dýpi 97 metrar. Þetta var við lága vatnsstöðu, þannig að dýpið nær sennilega 100 metrum þegar vatnsborðið stendur hæst. Rúmtakið reyndist 200 gigalítrar þ.e.a.s. 290 milljónir teningsmetra, og meðaldýpið er samkvæmt því 29 metrar.
Nokkrir klettahöfðar ganga út í vatnið, að austanverðu og eru tveir nafngreindir, sá nyrðri heitir Lambhagi, norðan hans er Lambhagatjörn, nyrsti hluti Kleifarvatns. Syðri höfðinn við austanvert vatnið beitir Geithöfði og gengt honum að vesanverðu er Lambatangi. Aðrir tveir höfðar við vestanvert vatnið eru vel kunnir, þeir eru Syðri-Stapi og Innri-Stapi eða Stapinn syðri og Stapinn innri. Við bílveginn yfir Innri-Stapa er greypt í bergið málmplata með nafninu „Stefánshöfði „. Hvort það táknar að nafnið Innri-Stapi sé úr gildi fellt veit ég ekki, en ég vona þó að svo sé ekki. Staparnir tveir, svo og Sveifluhálsinn eru úr móbergi sem veðrast mikið og festir þar lítt gróður, en víða er bergið sérkennilega sorfið, og í Syðri-Stapanum eru skemmtilegir skútar og skvompur sem gaman er að skoða, þá eru staparnir báðir ágætir útsýnisstaðir, sér í lagi liggur vel við að stöðvabifreið á Innri-Stapanum, ganga fram á brúnina og njóta útsýnis yfir vatnið.
Í heiðinn í suðaustur af vatninu og ekki langt frá því er lítið fell, 306 metra hátt yfir sjávarmál, fell þetta heitir Gullbringa, og er talið, þótt ótrúlegt kunni að virðast, að Gullbringusýsla hafi nafn af þessu felli. Krýsuvíkurengjar ganga að vatninu sunnanverðu, þar eru tvö fell, Litla- og Stóra-Lambafell. Skammt austan Stóra Lambafells er hverasvæði sem breyttist mikið í jarðskjálftanum 1924, kom þar m.a. fram mikill gufuhver, sem nefndist Austurengjahver.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Þar til nú fyrir ekki mörgum árum, að fiskiræktartilraunir hófust í Kleifarvatni, hefur það verið talið dautt vatn, það er að segja, botngróður hefur verið þar í minnsta lagi og ekki hefur veiðst þar nytjafiskur. Fyrr á tímum hafa menn orðið að finna skýringar á þessu fyrirbæri sem öðrum, og hafa orðið til ýmsar þjóðsögur þar að lútandi. Nefna má til dæmis söguna um Krýsu og Herdísi sem í eina tíð bjuggu á þessum slóðum, Herdís í Herdísarvík, en Krýsa í Krýsuvík, en frá þeim segir svo í þjóðsögum Jóns Árnasonar; Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geithlíð alla og væru landamerki í stórum stein sem stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkru vestar en undir miðri Geithlíð og hefur spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefur runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til að þær báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkru m undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan því henni veitti miður þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið mikil veiði í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörninni í Herdísarvík. Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á tjörnina í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna. Þetta gekk allt eftir. Og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu stjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn“.
Fleiri þjóðsögur eru til sem, Kleifarvatn varða, til dæmis segja sumir að bærinn Kaldrani hafi staðið við suðurenda þess. En á þeim bæ dó fólk af að éta öfugugga sem veiðst hafði í vatninu, var Herdísu tröllkonu kennt um tilveru hans þar.

Herdísarvík

Herdísarvík – tóftir gamla bæjarins.

Þá eru einnig sagnir um skrímsli í Kleifarvatni. Eggert og Bjarni segja frá slíkum kynkvendum í ferðabók sinni í Grænavatn í við Krýsuvík og í Kleifarvatni, þeir segja: „öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu. Þegar við vorum á þessum slóðum árið 1750, var okkur sagt margt um Klelfarvatn, aðallega þó það, að vatnið væri fullt af fiski, sem var þar í sífellu í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða hann fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu. Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli eða 30—40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þennan, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annara manna, því oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tíu mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig að í ágústmánuð i 1749 hefði allmarg t fólk, bæði karlar og konur, sem þarna var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskinL séð o r m þennan miklu betur en nokkur maður hefði áður gert, því að hana hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það og þar hefði hann legið í hartnær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný. Fólkiið var svo skelft allan þennan tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land, eða hvernig hann fór aftur í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða stækkaði og skreið áfram, meðan þess að á því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til“.

Kleifarvatn

Indíánin í Kleifarvatni – kemst stundum á þurrt.

Menn hafa veitt því athygli að vatnsborð Kleifarvatns er mjög breytilegt, hækkar ýmist eða læklfar á löngum tíma, jafnvel svo að metrum skiptir. Þetta hafa menn að sjálfsögðu undrast alla tíð, og reynt að finna skýringu á. Eins og kunnugt er hefur vatnið ekki afrennsli ofansjávar, en menn hafa samt viljað meina að einhverskonar göng væru milli þess og sjávar, og bent á eitt og annað því til stuðnings.
Í þessum göngum átti svo að vera einhver dularfullur sogkraftur að verki sem ylli þeirri miklu lækkun sem orðið gat í vatninu.
Þorvaldur Thoroddsen kemur að þessu í ritum sínum, án þess þó að útskýra það frekar. Hann segir til dæmis í Lýsingu Íslands um Kleifarvatn: „Kleifarvatn liggur sem hvos milli Lönguhlíðar og Sveifluháls, menn þykjast hafa tekið eftir því, að vatnið vex og þverrar á víxl, og jafnvel mest þegar þurrkar ganga að því er menn segja; í því e r engin veiði, engin branda nema hornsíli. Á 18. öld gengu munnmæli um að þar hefði áður verið mikil silungaveiði, en menn þorðu þó ekki að reyna veiði sakir skrímsla, sem þeir þóttust hafa séð. Við jarðeldana 1663 er mælt að vatnið hafi orðið fyrir nokkrum breytingum“.
Sumarið 1930 dvaldi Pálmi Hannesson við Kleifarvatn í nokkurn tíma við þriðja mann, gerðu þeir allýtarlegar dýptarmælingar á vatninu og fleiri athugasemdir, eða eins og Pálmi segir sjálfur: „Tilgangur rannsóknanna var að afla nokkurrar vitneskju um lífsskilyrði í vatninu, eðli þess og gerð, en það vex og minnkar eins og kunnugt er og hafa menn verið harla ófróðir um orsakir þeirra breytinga“. Páll lýsir útbúnaði iþeirra félaga við rannsóknirnar, sem líklega mundi þykja helzt til frumstæður í dag, þegar t.d. vatnamælingamenn nota hraðskreiðan vélbát og sjálfritandi mæliæki við dýptarmælingar á vötnum. Árið 1930 var aðeins bílfært skammt suðurfyrir Hafnarfjörð, þannig að ærin fyrirhöfn var að koma nothæfum báti austur að Kleifarvatni.
Niðurstöður Pálma eru í skemmstu máli þær að vatnshæð Kleifarvatns stendur í beinu sambandi við hæð jarðvatnsborðs hverju sinni, en jarðvatnsyfirborðið breyttist í samræmi við úrkomumagn á hverjum tíma.
Í lok greinargerðarinar um þessar rannsóknir, sem birtist í Náttúrufræðingnum árið 1941 segir Pálmi: „Jarðvatnsborðinu hallar allstaðar að Kleifarvatni, nema að norðaustan, og hallinn er víðast hvar mikill. Úrkomuaukning á því greiða leið að vatninu, Aftur liggur afrennsli þess gegnum þröngt skarð, og eyks því ekki svo mjög, þó að vatnsborðið hækki, heldur stendur það fyrir líkt og stífla. Er eklki ósennilegt að þetta skýri það, að Kleifarvatn virðist hækka og lækka meira en önnur vötn“, segir Pálmi Hannesson.
Tíu árum síðar, eða árið 1940, eru aftur gerðar all ýtarlegar rannsóknir við Kleifarvatn. Fyrir þeim stóð Geir Gígja ásamt dr. Finni Guðmundssyni, en rannsóknar þessar vonu gerðar með sérstöku tilliti til athuguna á lífs skilyrðum fyrir silung í varninu, og samkvæmt ósk og að tilhlutan Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Rannsóknir þessar voru mjög alhliða og gerir Geir Gígja grein fyrir þeim í riti um Kleifarvatn sem út kom árið 1944. Niðurstöður hans varðandi fiskeldi í Kleifarvatni voru í stuttu máli þær, að þrátt fyrir allt væru tilraunir í þá átt ómaksins verðar, og leggur hann á ráðin um hvernig haga megi þeim.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Og þessi tilraun var gerð. Árið 1963 stofna Hafnfirðingar með sér veiðifélag sem strax í upphaf hafði á stefnuskrá sinni fiskiriækt á Kleifarvatni og fleiri vötnum í Reykjanesi. Samið var við Hafnarfjarðarbæ árið 1954 um afnot af Kleifarvatni til 30 ára, og þegar tekið til óspilltra málanna við framkvæmd áætlana um fiskirækt í vatninu. Þetta ár voru 14000 silungsseiði af Þingvallastofni flutt í vatnið, og síðan hafa bætst við tugir þúsunda seiða. Árið 1959 byrjuðu fyrst veiðar í vatninu og hafa haldið áfram síðan, hafa þær orðið í samræmi við vonir sem við þær voru bundnar í upphafi. Nokkurir tímabundnir örðugleikar hafa raunar gert vart við sig, vegna þess að nú stendur vatnsborð í Kleifarvatni óvenjulega lágt, en það hefur áhrif á botngróður. En fiskiræktarmenn við Kleifarvatn ráða væntanlega bót á þessum vanda sern öðrum.
Að lokum langar mig til að minnast í stuttu máli á mjög skemmtilega tilraun sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur gerði við Kleifarvatn árið 1949. Guðmundur segir frá þessari tilraun í Náttúrufræðingnum 2. hefti þetta sama ár, og kallar greinina „Lítil athugun við Kleifarvatn“.
„Sunnudaginn 20. marz síðastliðinn skrapp ég á reihjóli suður að Kleifarvatni til að viðra mig og stíga á skíði mér til skemmtunar. Auðvelt er að binda skíði á reiðhjól svo að vel fari. Ég gerði mér einnig vonir um að geta í þessari ferð gert dálitla athugun, sem mig hafði lengi langað til og hér verður sagt frá. Veður var ókjósanlegt, norðankaldi framan af degi, bjartviðri, hiti um frostmark og sólbráð, en lyngdi um hádegið og þykknaði upp, hvessti síðan af suðri með lítils háttar fjúki — byr báðar leiðir“.
Og Guðmundur segir frá athugunum annarra fræðimanna, sem ásamt hans eigin, bentu til að straumur væri úr aðalvatninu norður í Lambhagatjörn.

Kleifarvatn

Tröllkerling í einum af Kleifarvatnshellunum.

Þegar svo Guðmundur kemur að vatninu í þetta skipti, eru aðstæður eins og hann óskar, vatnið ísi og lagt að msstu, þannig að hvorki vindur né uppgufun gat tnuflað tilraunina sem hann hsifði hugsað sér að gera, að ganga úr skugga um hvort álit manna um strauminn inn í Lambhagatjörn hefði við örugg rök að styðjast. Með einföldustu tækjum hefur svo Guðmundur tilraunina. Hann segir: „Tækin sem ég hafði til athugana minna, voru einföld í meira lagi: öxi, hönk af grönnu snæri, skíðabindin (stálgormur) sígarettur („Raleigh“), málband og úr með sekúnduvísi“. Hér verður þessari tilraun ekki lýst í smærri atriðum, en hún byggist í stuttu máli á því, að Guðmundur hjó vakir með jöfnu millibili þvert yfir ósinn inn í Lambhagatjörn, mældi dýpið í hverri vök, og lét síðan sígarettu pappír sökkva til botns í vðkinni, mældi tímann sem það tók og vik frá lóðréttri stefnu. Með þessu fann hann út með nokkurrn nákvæmni, að rennsli úr aðalvatninu inn í Lambhagatjörn voru fullir 200 lítrar á sekúndu þennan dag.
Að lokum segir Guðmundur: „Eftir þessa athugun tel ég fullsannaða þá kenningu, sem Ólafur Friðriksson hélt fyrstur fram og nánar var skýrð af Pálma Hannessyni, að vatn streymi stöðugt úr Kleifarvatni inn í Lamibhagatjörn (nema þegar hún er þurr), sígi þar niður og renni burt neðansjávar“.
Eins og Guðmundur Kjartansson nefnir, var það hinn merki áhugamaður um náttúruskoðun, Ólafur Friðriksson, sem fyrstur hélt opinberlega fram kenningu þeirri um afrennsli Kleifarvatns sem nú er viðurkennd. Var það í grein sem hann nefndi „Leyndist í sunnudagsblaði Vísis 29. október 1941.
Umhverfi Kleifarvatns er mjög vel fallið til gönguferða og útivistar, og þar eru ótal viðfangsefni fyrir náttúruskoðara. Sveifluhálsinn er ákjósanlegt verkefni fyrir þá sem vilja fara í stutta fjallgöngu, en kjósi menn lengri gönguferðir, er um að velja t.d. Grindaskörð eða Brennisteinsfjöll austan vatnsins eða t.d. Vesturháls og Trölladyngiu vestan þess. Sunnan vatnsins má nefna Krýsuvíkurberg, skemmtilegt fuglabjarg er nær Reykjavík en margur hyggur.“
Hafa ber í huga að ekki er allt satt, sem sagt er…[ritstjóri FERLIRs].

Heimild:
-Morgunblaðið 25.05.1967, Kleifarvatn eftir Óttar Kjartasson, bls. 7-8.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu árið 1957, fjallar Friðfinnur V. Stefánsson um „Guðlaugs þátt Gjáhúsa“.

Símtal
Friðfinnur V. Stefánsson„Það var kvöld eitt, ekki alls fyrir löngu, að til mín hringir blaðamaður og spyr, hvort ég sé fáanlegur til þess að skrifa smáþátt um minn gamla vin og kunningja, Guðlaug heitinn Gjáhúsa.
Ég tók þessu mjög illa. Taldi ég öll vandkvæði á því. Benti ég á, að frá því ég lauk prófi frá Flensborgarskóla 1911 hefði ég naumast snert penna. Hlutskipti mitt í lífinu hefði verið að handleika handbörukjálka, fisk, kola- og saltpoka, skóflur, hamra, múrskeiðar, beizlistauma og m. fl. Nei, það var svo fráleitt, að ætlast til þess að ég færi að skrifa minningaþátt. Það var jafn fráleitt og farið væri fram á það við mig, að ég reyndi að ná tíkinni margumtöluðu niður úr tunglinu. En blaðamaðurinn var ýtinn. Ég kvaddi hann samt snögglega og lagði símatólið á.
Síðar um kvöldið, þegar ég var háttaður, tókst mér ekki að sofna, hvernig sem ég reyndi. Ég var í huganum aftur og aftur kominn út í gamlan ævintýraheim. Við Guðlaugur vorum komnir á hestbak og þeystum um grænar grundir, fjöll og hálsa. Og þegar við áðum, sagði hann mér sögu eftir sögu af sinni alkunnu snilld. Þetta gekk langt fram á nótt. Loksins sofnaði ég. Daginn eftir, er hlé varð á störfum mínum, leitaði ég uppi blað og penna og byrjaði.

Inngangur

Guðlaugur

Það er orðin næsta algeng venja að tala um, að hún eða hann hafi sett svip sinn á bæinn. Ég ætla nú að fylgja þessari venju og segja, að hafi nokkur maður sett svip sinn á Vesturbæinn í Hafnarfirði, þá var það Guðlaugur heitinn Gjáhúsa.
Guðlaugur var að mörgu leyti merkilegur maður og á ýmsan hátt dálítið sérstæður persónuleiki, sem allir hlutu að taka eftir, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var bæði greindur og minnugur.
En það í fari hans, sem sérstaklega heillaði mann, var hve snarráður, úrræðagóður, ósérhlífinn og fylginn sér hann var. Þó er einn ótalinn eðlisþáttur hans. Hann verður ógleymanlegur öllum þeim, sem kynntust honum. Hann bjó yfír alveg óvenjulega frjórri frásagnargáfu – og gleði. Mun ég nú reyna að lofa lesendum að kynnast henni ofurlítið, með því að endursegja nokkrar sögur og minni atburði, er hann sagði mér.

Uppvaxtarár
Eggert PálssonGuðlaugur var fæddur 26. ágúst 1874 að Vindási í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Ólst hann þar upp við kröpp kjör, eins og hlutskipti margra var í þá daga. Rétt fyrir fermingu, að mig minnir fastlega, missir hann föður sinn úr lungnabólgu og systkini sín þrjú úr barnaveiki, öll í sömu vikunni.
Ekki var þetta nú uppörvandi fyrir umkomulausan fermingardreng að leggja með þetta veganesi út í lífið. Þá var ekki margra kosta völ fyrir þá, sem enga áttu að. Einn og óstuddur varð hann að sjá sér farborða.
Fyrst var hann á bæjum í Fljótshlíðinni t. d. jarðskjálftaárið mikla 1896, þá rúmlega tvítugur að aldri. Hrundu þá bæjardyrnar á bæ þeim, er hann dvaldi á, svo að hann og annað heimilisfólk varð að skríða út um stafngluggann á baðstofunni. Aldrei gat Guðlaugur gleymt þessum atburði. — Þá var Guðlaugur einnig vinnumaður hjá síra Eggerti á Breiðabólsstað. Þann mann dáði Guðlaugur mikið.

Herdísarvík
HerdísarvíkBrátt tók Guðlaugur, eins og fleiri í þá daga, að fara suður til sjóróðra. Reri hann margar vertíðir, oftast í Grindavík. Kem ég betur að því síðar. Þá var alltaf farið um Selvog og Herdísarvík. í einni vertíðarferð kynntist Guðlaugur bóndanum í Herdísarvík, Þórarni Árnasyni, sýslumanns í Krýsuvík. Réðist Guðlaugur til hans og gerðist fjármaður hans, við mikinn og góðan orðstír. Hjá honum var hann í fimm ár. Þroskaðist hann þá mikið. Reyndi þarna oft á þrek hans í vondum veðrum við fjárgæzluna. í Herdísarvík var að mestu byggt á beit, bæði til fjöru og fjalls. Margan, kaldan vetrardaginn, þegar jarðbönn voru, stóð hann myrkranna á milli við ofanafmokstur til þess að féð næði að seðja mesta hungur sitt.
Síðar í þættinum mun ég víkja frekar að veru Guðlaugs, í Herdísarvík.

Ástin vaknar

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Guðlaugur varð, eins og aðrir fjármenn, að fara í útréttir. Haust nokkurt sendi Þórarinn bóndi hann í Gjáarrétt við Hafnarfjörð.
Sá Þórarinn mikið eftir því, að hafa sent Guðlaug í þessa ferð. Hann vildi fyrir hvern mun halda í Guðlaug. En í þessari ferð gisti Guðlaugur á Setbergi. Þar sá hann mjög gjörvulega og myndarlega stúlku, Sigurbjörgu Sigvaldadóttur, sem síðar varð ævilangur förunautur hans. Þegar Guðlaugur kom heim úr réttarferðinni, leið ekki á löngu áður en hann sagði upp vistinni. Hvarf hann frá Herdísarvík, þegar ráðningartími hans var á enda.
Flutti hann þá að Setbergi við Hafnarfjörð og gerðist vinnumaður um skeið hjá Halldóri Halldórssyni, sem síðar var kenndur við Bergen í Hafnarfirði.

Til Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1905.

Flestum lífverum er frelsisþráin meðfædd. Svo er um okkur mennina. Brátt tóku þau Guðlaugur og Sigurbjörg að búa sig undir að verða sjálfstæð. Árið 1905 eða 1906 fluttu þau hjón til Hafnarfjarðar.
Bjuggu þau fyrst á svonefndu Stakkstœði, þar sem Guðmundur á Hól, Eyjólfur frá Dröngum o. fl. bjuggu. Það lýsir Guðlaugi vel að undir eins á fyrsta ári byrjar hann á því að byggja hús þar við Vesturbraut, er hann síðar nefndi Gjáhús. Stendur það enn, sem kunnugt er. Þarna bjuggu þau hjónin alla tíð síðan, með mikilli prýði og myndarskap. Brátt fékk Guðlaugur gott orð á sig sem smiður.
Stundaði hann smíðar um margra ára skeið.

Djöflafélagið

Hafnarfjörður 1912

Hafnarfjörður 1912.

Um þessar mundir var lítið um félagssamtök í Hafnarfirði. Góðtemplarareglan var helzti félagsskapurinn. En um þetta leyti reyndu verkamenn í Hafnarfirði að stofna með sér félag. Guðlaugur tók þátt í því. Mig langar að segja frá smáatviki, sem henti Guðlaug. Lýsir það vel aldarandanum í þá daga. Það var kvöld eitt, að Guðlaugur var á leið heim. Hann hafði verið á verkamannafélagsfundi. Hittist svo á, að atvinnurekandi nokkur og einn af betri borgurum bæjarins stóð á tröppum húss síns. Ávarpaði hann Guðlaug heldur hvatskeytislega með þessum orðum: „Ert þú genginn í þetta Djöflafélag, Guðlaugur?“
„Ef þú átt við verkamannafélagið, þá er ég genginn í það,“ svaraði Guðlaugur jafn snúðugt og hinn spurði. Hélt hann síðan áfram ferð sinni. — Guðlaugur vann hjá þessum manni. Næstu fjóra daga var hann ekki kvaddur til vinnu. En á fimmta degi var sent eftir honum og vinna tekin upp eins og ekkert hefði í skorizt. Svona var nú aldarandinn þá. Stingur þar mjög í stúf við öll elskulegheitin, sem atvinnurekendablöðin sýna launastéttunum nú og jafnvel hálaunastéttunum. En skylt finnst mér að taka fram, að fyrrnefndur atvinnurekandi og hans líkar voru ýmsum kostum búnir líka, þótt þeir væri kaldir og hrjúfir á stundum. Þeir áttu það til að lána fátækum mönnum bæði timbur og járn o. fl. til þess að þeir gætu byggt sér skýli yfir höfuðið, — og ábyrgðar- og rentulaust. Væntanleg vinna, ef heilsa og kraftar leyfðu, var eina tryggingin.

Vindmyllan

Vindmylla

Vindmylla.

Guðlaugur stundaði smíðar, eins og fyrr var sagt, í nokkur ár. Síðan breytti hann til og gerðist verkstjóri hjá Bookless Bros. Í þá daga var notuð vindmylla til þess að dæla sjó í þvottakerin. Skal nú sagt frá atburði, seni sýnir, að Guðlaugur var gæddur óvenjulegu hugrekki, snarræði og þreki, er í þessu tilfelli gekk ofdirfsku næst.
Guðlaugur var hvorki stór maður vexti né kraftalegur, en hann leyndi á sér. Þrekið og áræðið fór þó langt fram úr því, sem útlitið benti til. Það vissu þeir, sem með honum unnu. Andlitsdrættir Guðlaugs voru sterkir og fastmótaðir. Stundum fannst mér gæta nokkurs kulda í svipnum. Má vera, að harðrétti og óblíða unglingsáranna ætti þar nokkurn hlut að.
Það var einhverju sinni, að verið var að dæla sjó með vindmyllunni. Þá rauk hann skyndilega upp á norðan. Hvassviðrið jókst og myllan ærðist, ef svo mætti segja. Stórhætta var á að vængir myllunnar brotnuðu í spón, ef ekki tækist að stöðva hana. Nú voru góð róð dýr. Þarna voru margir karlmenn til staðar, en enginn treysti sér til þess að fara upp og freista þess að stöðva mylluna. Þá bar Guðlaug þarna að. Hann réðst þegar í stað til uppgöngu, en myllan stóð í turni á húsþakinu. Guðlaugur lét þrjá menn fylgja sér. Hann skipaði þeim að taka traustataki um taug, er bundin var í stél myllunnar. Áttu þeir að beina vængjum hennar undan vindi, ef ske kynni að hún hægði nokkuð á sér. Meðan þessu fór fram, tók Guðlaugur sér stöðu, hélt sér föstum með annarri hendi, en hina hafði hann lausa. Hugðist hann grípa með henni um einn vænginn, ef færi gæfist. Allt í einu rak fólkið, sem á horfði, upp skelfingaróp. Guðlaugur hafði gripið um vænginn. Við þetta missti hann fótanna, sveiflaðist nokkra stund í lausu lofti, en hvorugri hendinni sleppti hann. Það gerði gæfumuninn, — og vindmyllan stöðvaðist. Létti mjög yfir áhorfendum, þegar Guðlaugur hafði leyst þessa þrekraun af hendi.

Hlauparinn

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Áður en bílar komu til sögunnar notaði yngra fólkið helzt reiðhjól til þess að ferðast á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Dag nokkurn lagði einn snjall og kappsamur hjólreiðamaður, Ásgeir G. Stefánsson að nafni, á stað til Reykjavíkur. Er hann var kominn rétt upp fyrir bæinn, sér hann gangandi mann á undan sér. Hann þekkti manninn, sem var á leið til Reykjavíkur, kastar á hann kveðju, um leið og hann hjólar fram hjá honum. Heldur Ásgeir síðan áfram með sígandi hraða og horfir fram á veginn. Skömmu síðar verður hann þess var, að maðurinn, sem hann var nýbúinn að kveðja, er kominn á hæla honum og hleypur mjög léttilega. Ásgeir hjólaði alltaf greitt, og fylgdust þessir kappar að alla leið, til Reykjavíkur, þótt ótrúlegt megi virðast. Ekki var hlauparinn mæðnari en það, að þeir héldu uppi eðlilegum samræðum mikið af leiðinni. Nú skyldi margur ætla, að hér væri á ferðinni Olympíufari eða hlaupasnillingur, sem þjálfaður er eftir kerfisbundnum reglum. Nei, þarna var á ferðinni sonur dalanna og íslenzku heiðanna, þjálfaður af nauðsyn í sjálfu lífsstarfinu, smali, nýfluttur til Hafnarfjarðar, Guðlaugur frá Gjáhúsum.
Mér þykir rétt að skjóta því hérna inn í, úr því að ég fór að minnast á hjólreiðamenn, að fleiri voru snjallir og kappsfullir en Ásgeir, t. d. Guðmundur Hróbjartsson, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þorbjörn Klemensson. Einu sinni lenti þeim Gunnlaugi og Þorbirni saman í geysiharðri keppni, og mátti varla milli sjá, hvor þeirra var á undan, þegar hetjurnar, móðar og másandi, náðu Hraunsholtsbeygjunni.
Guðmundur Hró og Ásgeir áttu það stundum til að skreppa austur yfir fjall á hjólum sínum seinni part laugardags, borða lax á Kolviðarhóli (þá voru allar rúður þar vel heilar) á austurleið, koma svo aftur heim til Hafnarfjarðar að sunnudagskveldi. Brást þó aldrei, að þeir voru mættir til vinnu í bítið á mánudagsmorgni. En þetta var nú útúrdúr. —

Nautið
VindásNú bregðum við okkur, lesandi góður, austur á æskustöðvar Guðlaugs.
Það var einn dag um hásumarið í góðu veðri, að Guðlaugur fór fram á heiði til þess að huga að hestum. Þarna var vel grösugt en allstórir steinar á víð og dreif. Allt í einu tekur Guðlaugur eftir því, að heljarmikið naut stendur fyrir framan hann. Hefur það sennilega legið á bak við einn stóra steininn. Nautið rekur upp öskur mikið, tekur undir sig stökk og stefnir beint á Guðlaug. Drengurinn tekur til fótanna, stekkur að stærsta steininum þarna og kemst með naumindum upp á hann. Nautið skellir framfótunum upp á steininn og öskrar ógurlega. Drengurinn getur þó varizt og er hólpinn í bili. Nú var Guðlaugur staddur í ærnum vanda. Aleinn, svangur, hræddur og langt frá mannabyggðum. Við fætur hans stóð dauðinn í nautslíki. Nautið hafði nóg gras að bíta. Það gat því beðið endalaust eftir bráð sinni. En lesandi góður: Eftir nokkra stund var ungi drengurinn búinn að leysa þessa heljarþraut, sloppinn úr allri lífshættu og kominn heim á leið.
Hann hafði stungið hendi í vasa sinn, opnað vasahnífinn, stóð þarna allvígalegur á steininum og engdi nautið óspart, en það teygði fram hausinn og reyndi öskrandi að ná til drengsins. Leiftursnöggt brá litli drengurinn hnífi sínum og rak hann á kaf í annað auga dýrsins. Nautið rak upp feiknarlegt öskur, hentist af stað út í buskann, eins langt og augu drengsins eygðu.
Guðlaugur rölti heim á leið, glaður og hryggur. Góður drengur kennir í brjósti um sært dýr. En þetta var nauðvörn hans. Ekki þorði hann að segja neinum frá þessu, þegar heim kom.
Sumarið leið. í vetrarbyrjun var Guðlaugur sendur á bæ fram í sveit. Það var byrjað að skyggja, þegar hann kom að bænum. Hann sá glitta í ljóstýru í fjósinu. Gengur hann þá inn í fjósið og býður hressilega gott kvöld. Um leið tekur að hrikta í öllu og fjósið að skjálfa. Stórt naut, sem bundið var á utasta bás, slítur sig laust og ryðst út og er horfið á svipstundu.
Heimamaður kvað naut þetta hafa komið eineygt af fjalli um haustið. „Þetta er ekki einleikið. Það er engu líkara en það hafi brjálazt.“ — Guðlaugur mælti fátt, en hugsaði: „Nautgreyið hefur þekkt rödd mína og ekki viljað eiga það á hættu að missa hitt augað líka.“

Blóðblettir

Heykuml

Heykuml – h.m.

Einn vetur, þegar Guðlaugur var á 14. ári, var honum falið að hirða fé á eigin ábyrgð, að öðru leyti en því, að móðir hans kom vikulega til þess að fylgjast með verkum sonar síns. Við fjárhúsið var heykuml. Stóð fjárhúsið nokkuð frá bænum. Svo bar við, að móðirin finnur að því við son sinn, að hann gangi ekki nógu vel um heyið. Segir hún töluverðan slæðing vera á gólfinu og heyið vera illa leyst. Guðlaugi sárnar þetta nokkuð og lofar að gera betur. Gefur hann enga skýringu á þessu og reynir ekki að afsaka sig.
Þegar móðir hans er farin, verður Guðlaugur sér úti um fjóra ljái, brýnir þá allvel. Stingur hann þeim síðan í stálið hér og hvar.
Guðlaugi gengur hálfilla að sofna um kveldið. Næsta morgun er hann snemma á fótum. Hann röltir til fjárhúsanna. Hann opnaði síðan heykumlið, dálítið óstyrkur. Nú var engan slæðing að finna. En þarna á gólfinu mátti sjá annað, sem vissulega kom honum ekki á óvart. Hér og hvar gat að líta blóðbletti.
Þennan sama dag og næstu daga, sást maður nokkur í sveitinni með reifaðar hendur. Ekki þurfti móðir Guðlaugs að vanda um við son sinn vegna slæmrar umgengni í hlöðunni eftir þetta.

Seilin
GrindavíkVið erum stödd um síðustu aldamót niður í fjöru í Grindavík.
Mikið er um að vera. Vel hefur fiskazt þennan dag. Mörg skip hafa orðið að seila. En um aldamótin síðustu var, sem kunnugt er, róið á opnum bátum. Þurfti þá að gæta ýtrustu varfærni við að ofhlaða ekki þessi litlu, opnu skip. Var þá það ráð tekið að seila, sem kallað var. Það var gert á eftirfarandi hátt: Nál úr hvalbeini, með flötum, þunnum oddi og víðu auga var stungið undir kjálkabarð fiskjarins og út um kjaftinn. Bandi var brugðið í augað og fiskarnir þræddir upp á bandið, einn af öðrum. Fiskurinn á bandinu var síðan látinn fljóta aftur með skipinu og dreginn til lands. Þessu má líkja við, þegar kringlur voru dregnar upp á band í gamla daga eða. perlur nú til dags. Þegar komið var með seilar að landi, var þeim stundum fest við steina í fjörunni. Stundum var líka haldið í þær.
Víkjum nú aftur að því, þar sem við stöndum í fjörunni. Guðlaugur er þar að vinna. Hann verður þess var, að ein seilin er að renna út með útsoginu og hverfa. Töluvert hafði brimað. Guðlaugur bregður eldsnöggt við, hleypur á eftir útsoginu, sækir seilina, — en verður of seinn. Kolblá holskeflan skellur yfir hann og han n hverfur um stund. En með einhverjum óskiljanlegum hraða tekst honum að komast í var við stóran, þangivaxinn stein. Greip hann traustataki í þangið. Hélt hann sér þar rígföstum.
Drykklanga stund var Guðlaugur í kafi, en aftur kom útsog, og upp stóð piltur, að vísu dálítið dasaður. Hélt hann um seilina og skilaði henni til lands. Jafnaði hann sig furðufljótt. Varð honum ekki meint af volkinu, en fékk dálítil aukalaun, og aðdáun allra hlaut hann að sjálfsögðu fyrir þetta einstæða afrek sitt.

Vaka við tafl á jólanótt

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þetta gerðist á aðfangadag jóla, dimmt var í lofti, frost nokkurt og herti það, er á daginn leið. Guðlaugur hafði farið, að venju, í birtingu til fjárins. Hann hafði með sér skóflu, því að snjó hafði hlaðið niður. Hugðist hann létta fénu krafsturinn, með því að moka ofan af. Upp úr hádeginu tók að hvessa og hríða að nýju. Enn herti frostið og loks tók að skafa líka.
Lagði nú Guðlaugur alla áherzlu á að ná fénu saman í skjól. Ekki var það áhlaupaverk. Guðlaugur hafði þann háttinn á við fjárgeymsluna, að halda fénu í smáhópum, dreift um allt beitilandð. Í illviðrum reyndi hann að halda hverjum hópi í sínu skjóli. Vann hann nú dyggilega að því ásamt hundi sínum að koma fénu í afdrep, og gekk það vonum framar. Dagur tók að styttast og alltaf snjóaði meir og meir. Skall nú á iðulaus stórhríð og hörkugaddur. Þá var Guðlaugur staddur í svonefndu Fjárskjólshrauni, langt vestur af Herdísarvík. Þarna barðist Guðlaugur nú upp á líf og dauða í grenjandi stórhríðinni og hafði ekkert nema vindstöðuna að styðjast við. Hinn nístandi sviði í fótunum kvaldi hann mikið. Brátt dró úr sviðanum aftur, en ekki vissi það á gott, eins og síðar kom fram. Verður nú fljótt farið yfir sögu. Guðlaugur náði heim með guðshjálp. Gaddfreðinn, fannbarinn og kalinn á fótum komst hann heim til bæjar að lokum. Var honum vel fagnað, hresstur á volgri nýmjólk, og ekki var seppa heldur gleymt, sem líka var illa á sig kominn. Fötin voru rist utan af Guðlaugi, bali með vatni í settur við rúm hans og ísmolar settir í vatnið. Síðan var Guðlaugi hjálpað við að koma fótunum ofan í balann.
Þannig sat Guðlaugur alla jólalóttina — og langt fram á næsta morgun. — En húsbóndinn, Þórarinn Árnason, vakti með fjármanni sínum og stytti honum stundir með því að tefla við hann allan tímann. En vegna þessarar hörkumeðferðar hélt fjármaðurinn heilum fótum sínum.

Sókrates

Hlín Johnson

Guðlaugur var mikill og góður hestamaður. Sat hann hest sinn vel og bar áseta hans af. Margar ferðir fórum við Guðlaugur saman á hestum austur í Selvog. Fórum við þá oftast um Krýsuvík og Herdísarvík. Eitt sinn sem oftar gistum við í Herdísarvík hjá frú Hlín Johnson. Fengum við frábærar móttökur eins og alltaf áður. Það var á sunnudagsmorgni. Við vorum búin að drekka kaffi og vorum að rabba saman. Um þetta leyti var frú Hlín að koma sér upp fjárstofni í Herdísarvík. Talið barst því að fjárgeymslu. Sneri Hlín sér að Guðlaugi og sagði: „Það ber sannarlega vel í veiði, að þú ert hér staddur, Guðlaugur minn. Þú hefur mann a bezta og mesta þekkingu á öllu því, sem lýtur að sauðfjárækt á jörð eins og Herdísarvík. Blessaður, miðlaðu mér nú af þekkingu þinni og reynslu. Láttu mig nú heyra með nokkrum vel völdum orðum um allt hið mikilvægasta í sambandi við fjárbúskap, miðað við þær sérstöku aðstæður, sem hér eru fyrir hendi í Herdísarvík.“ Guðlaugur brosti lítið eitt, dró alldjúpt andann, reisti höfuðið svolítið og hóf síðan mál sitt. Hann talaði í fullar 20 mínútur samfleytt. Kom hann víða við, en ekki ætla ég mér þá dul að endursegja efni ræðunnar. Ég mun heldur ekki gera tilraun til þess að lýsa því, hvernig Guðlaugi tókst. Þess í stað þykir mér rétt að lofa ykkur að heyra álit dómbærari manns. Held ég, að hann verði vart fundinn. Maður þessi hlustaði ásamt okkur Hlín á ræðu Guðlaugs. Þetta var skáldið og spekingurinn Einar Benediktsson.
Þegar Guðlaugur hafði lokið ræðu sinni, vorum við öll þögul nokkra stund, eins og oft vill verða, þegar men n upplifa eitthvað, sem sker sig úr um það venjulega. En allt í einu lyftir skáldið hendi sinni, leggur hana þéttingsfast á öxl Guðlaugs og segir hægt og skýrt: „Ég þakka þér, Sókrates.“
Hér lýkur svo Guðlaugs þætti Gjáhúsa.
Óska ég svo öllum gleðilegra jóla og góðs nýárs.“ – Friðfinnur V. Stefánsson.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Friðfinnur V. Stefánsson; Guðlaugs þáttur Gjáhús, jólablað 1957, bls. 17-19.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Herdísarvík

Laugardaginn 15. júní 2013, kl 14:00, var afhjúpað minningarskilti um búsetu þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson, síðustu ábúendur í Herdísarvík í Selvogi. Einar Ben-229Nemendafélagið Grimmhildur, félag HÍ-nemenda (e. mature students) á Hugvísindasviði við Háskóla Íslands, hafði með stuðningi hollvina Herdísarvíkur látið útbúa minningarskiltið.
Sama dag, skömmu síðar, var og afhjúpað örnefna- og minjaskilti sem gönguhópurinn FERLIR hafði veg og vanda að – án þóknunar. Skiltastandurinn var hannaður hjá Martak í Grindavík að beiðni hópsins og myndflöturinn álprentaður hjá Stapaprenti í Keflavík. Á skiltinu er að finna margvíslegan fróðleik sem FERLIR hefur aflað á löngum tíma um staðhætti, tóftir sjóbúða og búskap á jörðinni, bæði með aðstoð örnefnalýsinga og staðbundnum leiðarlýsingum hinna elstu manna, s.s. Þórarins Snorrasonar á Vogsósum og Þórðar Sveinssonar úr Selvogi, er enn muna þá tíð er búskapur var í Herdísarvík. Auk þess veitti Ingólfur Árnason, barnabarn Hlínar góðar upplýsingar um svæðið.

Einar Benediktsson ánafnaði Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, sem í hans tíð var afskekkt. Með tilkomu Suðurstrandarvegar er Herdísarvík komin í alfaraleið. Við það opnast nýir möguleikar til að sinna verndun viðkvæmra sögu- og menningarminja sem þar eru. Uppbygging Herdísarvíkur getur orðið mikilvægt skref í átt til þess að minningu skáldsins sé haldið á lofti.

Á minningarskiltinu má m.a. lesa eftirfarandi: „Hér stendur síðasta heimili þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og sómakonunnar Hlínar Johnson. Bæði voru þau sannir heimsborgarar sem fluttu til Herdísarvíkur, í lítið hús við sjóinn í afskektri sveit, þar sem útsærinn er á aðra hönd og klettahamrarnir á hina. Einar ánafnaði Háskóla Íslands jörðina með gjafarbréfi árið 1935.
Einar Benediktsson var fæddur 31. október 1864 að Elliðavatni, sonur hjónanna Benedikts Sveinssonar, sýslumanns og alþingismanns, og Katrínar Einarsdóttur frá Reynistöðum í Skagafirði. Einar nam við Lærða skólann og las síðan lög við Hafnarháskóla. Hann kvæntist Valgerði Zoëga (1881-1955) og varð þeim sex barna auðið. Þau skildu.
Einn þekktastur varð Einar Benediktsson fyrir skáldskap sinn en hann var einnig kunnur sem stórhuga frumkvöðull og lífskúnstner. Hann starfaði sem Hlin johnsson-229lögfræðingur og sýslumaður og var bæði fyrsti dagblaðsútgefandi og fasteignasali á Íslandi. Einar þótti örlátur og gjafmildur gleðinnar maður. Einar Benediktsson hefur verið kallaður „…einhver jötunefldasti andi sem fæðst hefur á Íslandi “ [Guðjón Friðriksson, 2000]. Síðustu átta árin dvaldi hann í Herdísarvík ásamt Hlín. Hér lést hann 12. janúar árið 1940.
Hlín Johnson (f. 16.11.1876, d. 15.10.1965) fæddist að Sandhaugum í Bárðardal. Hún giftist Ingólfi Jónssyni frá Jarlsstöðum í sömu sveit og varð þeim átta barna auðið. Þau skildu. Hlín þótti listagóð saumakona, sem saumaði bæði kven- og  karlmannsföt. Þau Einar og Hlín kynntust árið 1927 og fluttu til Herdísarvíkur í júlí 1932 og tók Hlín við bústjórninni. Hér í Herdísarvík var búskapur með kýr, sauðfé, hænsni og endur. Fiskur var veiddur úr tjörninni og seldur til erlendra sjómanna, ásamt lagnaðarís úr tjörninni sem geymdur var í sérstöku íshúsi [nú horfið] hér á staðnum. Lambakjöt og bleikja var reykt í reykofni og var frægt að gæðum, ekki síður en göróttur landinn sem Hlín bruggaði.
Halldór Laxness lýsti Hlín með þessum orðum: „…lík fornkonu, þolir ekki annað lögmál en sjálfrar sín, og þess vegna fer strandleingjan og fjallið og einveran og úthafið henni best“ [Björn Th. Björnsson]. Hlín bjó í Herdísarvík allt fram um 1960.
Höfundarverk Einars er æði mikið. Eftir hann liggja meðal annarra verka: Sögur og kvæði, Hafblik, Hrannir, Vogar og Hvammar, ásamt þýðingum, ritgerðum og fleiru. Margir íslenskir málshættir eiga rætur sínar í ljóðum Einars“.
Athöfnin var öllum opin. Erindi fluttu m.a. Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Komst þeim báðum vel að orði, bæði til minningar um Einar og Hlín sem og tengsl þeirra við Herdísarvíkina á síðustu æviárum skáldsins. Lét Illugi þau orð falla í kjölfar tölu sinnar „að hann væri enn ekki búinn að venjast því að tala sem ráðherra“, en að teknu tilliti til tölunnar lærist honum það vonandi aldrei – þvíHlin - herdisarvik talan var bæði einstaklega einlæg og efnisrík.
Jafnframt var á þessum degi afhjúpað örnefnaskilti í Herdísarvík.
Jóhann Davíðsson hélt „velkomst“ við sögu- og minjaskiltið og bauð síðan Guðrúnu Ásmundsdóttur, leikkonu að afhjúpa það. Að orðum hennar loknum var eins og við manninn mælt; tók þá svo til samstundis sólin að skína með tilheyrandi yl og hlýju.
Jóhann þakkaði sérstaklega Ómari Smára Ármannssyni fyrir hans framlag við gerð uppdráttarins. Sjá upptökuna HÉR.

Herdísarvík

Jóhann við athöfnina.

Í lok formlegrar afhjúpunar leiddi FERLIR stutta göngu um svæðið. Að henni lokinni var boðið upp á kaffihressing í húsi skáldsins og Hlínar.

Herdísarvík

Ómar Smári Ármannsson við athöfnina.

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti.
Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn vfljað vera þar lengur.

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs við Herdísarvík.

Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, sem fyrr er getið, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – skilti nemendafélags Gimmhildar.

Herdísarvík

Eftirfarandi frásögn um ferð yfir Reykjanesfjallgarðinn er Ólafs Þorvaldssonar í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969. Ólafur og fjölskylda hans bjó um tíma í Herdísarvík og hefur skrifað margan fróðleiksþáttinn um svæðið:

Selvosgleidir-551

„Ferð þessa fór ég að liðnum fardögum árið 1928. Ég lagði upp frá Hafnarfirði, einhesta, á hina ævafornu, fjölförnu leið milli Selvogssveitar og Hafnarfjarðar, sem liggur um þveran Reykjanesskagann nyrzt. Yfir fjallið er farið norðan Lönguhlíðar um skarð, er Kerlingarskarð heitir, og er á hinni gömlu Grindskarðaleið. Mín ferð var gerð til Herdísarvíkur, sem er vestust jörð í Selvogi og þar með í Árnessýslu, við sjó fram.
Ekki var Rauður minn neinn gæðingur. en léttur var hann og þægilegur ásetu, mjög góður ferðahestur, traustur og hraustur, svo að erfitt held ég hefði verið að ofbjóða honum. Þess utan var Rauður fallegur og vel vaxinn.
Klukkan tíu að kvöldi lagði ég af stað frá Hafnarfirði, austur yfir fjall. Veðrið var unaðslegt, logn og ekki skýskán á himni. Á ferð minni hafði ég hinn gamla og sjálfsagða máta; að fara hægt til að byrja méð, aðeins ferðamannagutl, en þess á milli lét ég kasta toppi. Alllangur aðdragandi er frá Hafnarfirði upp að fjalli, allt heldur á fótinn, en hvergi bratt. Mörg kennileiti eru á þessari leið, sem bera sitt nafn, og nefni ég hér þau helztu: Helgadalur, og er talið að þar hafi verið byggð að fornu og sjást þar enn rústir nokkrar, þar suður af er hið tigulega Helgafell, Valhnjúk, Mygludalir og þar vestur af Búrfell, sem einhvern tíma hefur gosið miklu hraungosi, þar nokkru austar Húsfell, stórt og ábúðarmikið. Allt þetta nefnda svæði má heita, að hafi verið mínar æsku- og ungdómsheimahagar. Ég gat því vel raulað fyrir munni mér hina fornu vísu: Þessar klappir þekkti ég fyrr, þegar ég var ungur…

Kerlingarskard-553

Úr Mygludölum liggur leiðin upp á hraunið, sem er hluti hins úfna og illfæra Húsfellsbruna. Í Mygludölum voru margir vanir að á smá stund, einkum á austurleið, þar eð þarna er síðasta grænlendi nálægt vegi, þar til kemur langt austur á fjall. Snertispöl upp í hrauninu eru Kaplatór, en til forna nefndar Strandartorfur. Þar átti Strandarkirkja í Selvogi skógarhögg, en nú sést þar öngin hrísla.
Á miðnætti var ég kominn allhátt í fjallið, þar sem grasi gróin hvilft er inn í efsta hluta þess. Í hvilft þessari fóru lausríðandi menn oft af baki, á austurleið. Á síðari helmingi nítjándu aldar var byggt þarna ofurlítið sæluhús. Kofa þann lét byggja W. G. S. Paterson, skozkur maður, forstjóri brennisteinsvinnslunar í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum. Brennisteinninn var fluttur á hestum til Hafnarfjarðar frá báðum þessum stöðum, og lá Brennisteinsfjallaleiðin vestur yfir Kerlingarskarð. Í áðurnefndri hvilft var
eins konar umhleðslustöð. Til þessara flutninga þurfti fjölda hesta, og mun Paterson hafa haft nær sjötíu, og sagðist hann vera mesti lestamaður Íslands.
Kerlingarskard-552Frá Brennisteinsfjöllum var brennisteinninn selfluttur þannig, að lest að austan fór ekki lengra en ofan fyrir skarðið í hvilft þá, sem hér er nefnd, og sú, sem frá Hafnarfirði korm, stanzaði einnig þarna. Svo var skipt um farangur, þannig að önnur lestin tók bagga 

hinnar og fór sína leið aftur til baka. Sæluhúskofann lét Paterson byggja sem afdrep handa lestamönnum og farangri, ef bíða þurfti eftir annarri hvorri lestinni. Uppruni þessa litla sæluhúss, held ég, að fæstum Selvogamanna hafi verið kunnur að hálfri öld liðinni frá tilkomu þess.
Svona gleymast á stundum, atvik og hlutir undrafljótt. Í þessu tilfelli gat ég, nýkominn í hreppinn frætt þá um þetta. Ég vék Rauð í hvilftina, út af götunni lítið eitt til vinstri, að litlu tóftinni, sem enn var allstæðileg, teymdi hann upp í brekkuna, spretti af hnakk og beizli, lét vel að Rauði og sagði við hann, að nú skyldi hann blása mæðinni, því „við eigum brekku eftir, hún er há“.

Brennisteinsnamur-551

Nú var lægst stund nætur, þegar náttúran tekur að mestu á sig náðir litla stund — enginn andblær, ekkert hljóð. Og einmana ferðalangur hefur heldur ekki hátt um sig. Eina hljóðið, sem ég heyrði, var þegar Rauður minn klippti grængresið ótt og reglubundið, svo og hinn lági andardráttur náttúrunnar, sem maður skynjar aðeins, þegar öll önnur hljóð þagna. Ég settist með hnakktösku mína framan undir öðrum dyrakampinum og fékk mér ofurlítinn miðnæturbita, og Rauður fékk sinn hluta. Ég fór að hugsa um það starf, sem hér fór fram fyrir sem næst hálfri öld. Hér heyrðust ekki lengur æðaslög athafnalífsins. Nú blundaði hér allt, nema ég og Rauður minn. Og mér varð hugsað til hinna mörgu frænda minna og vina, sem sumir lifðu nokkuð fram á tuttugustu öldina, er verið höfðu lestamenn Patersons. Í þennan litla hvamm fluttu þeir mat og annað til þeirra, sem í námunum unni í Brennisteinsfjöllum hér suður af.
Í miðnæturkyrrðinni er sem ég heyri málróm lestamanna, þeirra sem ég man bezt. Þeir, sem koma úr Selvogsgata-559margmenninu, segja fréttir þaðan, hinir, sem frá námunum koma, segja það, sem fréttnæmt er úr fámenni fjallanna. Síðan var skipzt á farangri og aftur haldið af stað, en hvammurinn og litla sæluhúsið biðu í kyrrð fjalla næstu komumanna. Vel man ég einn þeirra, sem unnu í þessum brennisteinsnámum, og ég spurði hann og spurði. Meðal annars sagði hann mér, að sjaldnast hefðu námumenn getað verið lengur niðri í námunum en fimm eða sex mínútur í einu sökum hitans — þá hefði verið skipt um. Allir urðu að vera í tréskóm, klossum, allt annað soðnaði óðar. Og margt annað sagði hann mér um lífið og starfið þarna, sem of langt mál er að rekja. Það er runninn nýr og bjartur dagur, klukkan er eitt ef
tir miðnætti.

Draugahlidagigur-551Ég rís á fætur, fel þessari enn stæðilegu sæluhústóft þær hugsanir mínar, sem bundnar eru henni og þeim mönnum, er hún var gerð handa fyrir rösklega hálfri öld. Tóftin lætur ekki mikið yfir sér og mun nú flestum óþekkt. Og ekki liggur lengur þarna um sá aðalvegur og sú alfaraleið þess byggðarlags, sem að minnsta kosti í fjórar aldir var voldug sveit og víðþekkt, bæði innan lands og utan, Selvogssveitar. Í þeirri sveit sátu um aldir margir lögmenn landsins. Þar sátu einnig á 14. öld tveir hirðstjórar, Vigfús Jónsson og sonur hans, Ívar Hólmur. Þegar þetta er skrifað, 1968, búa aðeins, að ég ætla, fjórir eða fimm bændur í Selvogi og enginn hjáleigubóndi. Þar munu nú ekki vera nein teljandi stekkjarþrengsli, og er mér tjáð, að bændur þessir búi vel, eftir því sem heyrist nú úr sveitum yfirleitt. Nú fer enginn Selvogsmaður lengur þessa gömlu Grindaskarðaleið. Að vísu var Kerlingarskarð farið seinustu áratugina, og er það skarð aðeins sunnar í fjallinu en Grindaskarð, því það þótti að ýmsu leyti greiðari leið, en leiðin engu síður kölluð Grindaskarðaleið. Þessi leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar hefur verið mjög fjölfarin um margar aldir, það sýna hellurnar vestan fjallsins. Þar um má hafa það, sem Grímur Thomsen sagði af öðru tilefni: „Ennþá sjást í hellum hófaförin“. En nú sporar enginn hestur lengur þessar klappir.

Kerlingarskard-555Ég lagði á síðasta og örðugasta hjallann, sem var á leið minni austur. Ég læt Rauð ganga á undan mér, þar til komið er á hæstu brúnina. Útsýni þaðan er mikið til tveggja höfuðátta, austurs og vesturs. Sá, sem kemur upp á brún þessa mikla fjallaskaga og er ekki því kunnugri, mun þykja geta á að líta fyrst í stað. Það má segja, að þarna séu nokkur heimaskil. Við höfum í svipinn yfirgefið „vesturheim“ og höldum í „austurheim“. Fljótt á litið, er landið ekki ólíkt yfir að sjá og áður var — hraunflákar miklir, sem runnið hafa kringum fell og hæðir, lítið af samfelldu gróðurlendi. Þó er gróðurinn nokkuð meiri til austurs. þótt lítt sé greinanlegur sökum fjarlægðar og halla landsins. En lengst í austri ber við „hið víða, blikandi haf“, Atlantshafið, sem héðan séð virðist engin takmörk eiga. Við litum aftur til vesturs yfir nýfarinn veg, og sjáum, að undirlendið er ekki ósvipað því, sem að austan er lýst. Þegar landið þrýtur blasir þar einnig við haf, Faxaflói, sem liggur til „mikils lands og fagurs“ í hinum víða faðmi tveggja mikilla fjallaskaga, Reykjaness og Snæfellsness. Svo gott var skyggnið til vesturs að þessu sinni, að með góðum sjónauka hefði ég að öllum líkindum séð Kerlinguna við samnefnt skarð á Snæfellsnesi. En á því Kerlingarskarði, sem ég var staddur á er engin kerling. Við hvaða kerlingu er þá þetta skarð nyrzt á Reykjanesskaga kennt? Ef til vill skýrist það síðar.
Brennisteinsfjoll-567Ég stíg á bak, og Rauður fer að fikra sig ofan fyrri brekku fjallsins, unz komið er að miklum hraunfláka, sem fyllir dalinn milli Draugahlíðar að vestan og Hvalhnúks að austan. Á hraunbrúninni eru tvær allstórar vörður, Þarna greinist vegurinn af í þrjár kvíslar. Ein er lengst til hægri, liggur suðvestur með Draugahlíðum til Brennlsteinsfjalla. Beint af augum fram er götuslóði í suðaustur út á hraunið, og var einkum farinn af þeim útbæjanmönnum í Stakkavík og Herdísarvík. Lengst til vinstri er gata milli hrauns og hlíðar um svonefndan Grafning til Stóra-Leirdals vestan Hvalskarðs. Þetta er leið þeirra Austanvogsmanna. Þessum leiðum, ásamt fleiri fornum slóðum, hef ég nokkuð lýst í bók minni, Harðsporar, sem enn mun fáanleg hjá bókaforlagi Odds Björnssonar á Akureyri.

Kistufell-551Ég rifja ég upp gamla sögu og segi Rauð mínum hana á meðan við löftrum austur yfir hraunflákann í átt til Hvalhnjúks. Vitanlega er þetta þjóðsaga eins og sú saga, sem sögð var skáldinu og sýslumanninum endur fyrir löngu vestur í hinu Kerlingarskarðinu. Saga sú, sem ég rifja hér upp, er sem næst á þessa leið: Í fyrndinni bjó tröllkona í Tröllkonugjá, norðaustur af Grindaskörðum. Eitt sinn fór hún að leitafanga til Selvogs. Kom hún þar á hvalfjöru og hafði þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með. En til hennar sást, og hún var elt. Erfið varð undankoman, og náðist kerla í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur. Og þjóðsagan heldur áfram og segir: Bóndi sá, sem kerlinguna elti, fékk sig ekki til að svipta hana hvalfengnum, heldur gerði við hana þann samning, að hún verði fyrir sig skörðin vestur á fjallinu, svo að sauðir hans rynnu ekki þar af fjallinu, heldur sneri hún þeim aftur til austurs. Eftir þetta setti tröllkonan grindur í nyrðri skörðin, en syðsta skarðið varði hún sjálf, sem eftir það var kallað Kerlingarskarð. Ekki getur sagan æviloka þessarar tröllkonu, og hvergi þar í grennd sjást þess merki, að hún hafi steinrunnið.

Brennisteinsfjoll-uppdratturNú vorum við komnir austur úr hrauninu að suðvesturenda Hvalhnjúks. Á fyrstu grösum brá ég mér af baki og gekk upp í brekkuna, leit á klukkuna og sá þá, að hún var lítillega farin að halla í þrjú. Þarna var ég næsta ókunnugur á móts við það, sem síðar varð. Af brekkunni sá ég til tveggja átta, til austurs og vesturs, og varð mér á að líta fyrst í austurátt. Héðan hallar landinu til austurs og suðausturs fram á brún þess fjalls, sem ég var enn staddur á, en þó nýfarinn yfir bæsta hrygg þess. Austur frá fjallinu tók við Selvogsheiði, allmikið land, en austur af henni blasti Atlantshafiö við í norðaustri „brosti á móti mér, Heiðin há, í helgiljóma“ og birtu upprennandi sólar, löngu fyrir miðjan morgun. Þessi heiði ber fagurt nafn og fágætt. Þessa heiði hafa tveir andans menn, þeir Grétar Fells og Sigvaldi Kaldalóns, gert víðfræga í ljóði og lagi, og er ljóðlínan hér á undan úr því kvæði. Og svo varð „sólskin á sérhverjum tindi“. Síðan leit ég til vesturs yfir nýfarinn veg, Grindaskörð, og sá, að þar skein einnig „fagur roði á fjöllin“. Grindaskörð eiga sammerkt öðrum fjallvegum landsins um það, að þar skiptast á skin og skúrir. Þetta var ég búinn að reyna ári áður í Grindaskörðum. Mér flaug í hug kvæði Kristjáns Jónssonar um illveður í Grindaskörðum fyrir hundrað árum. Um tildrög þess segir höfundur: 

Selvogsleidin gamla-670„Eftirmæli eftir Jón Jónsson, barón v. Repp. Kveðið við þá harmafregn, er spurðist lát hans 1867, og að hann hefði frosið í hel í Grindaskörðum. Ég reis úr sæti sínu í brekkunni, beizlaði Rauð og steig á bak. Nú hallaði heldur undan fæti, og vegurinn var mýkri undir fæti og greiðari. Ég fór norðan við Svörtuhnjúka og Urðarás og hélt niður milli hraunsins og ásanna. Þannig „styttist leiðin löng og ströng“, þótt engan heyrði ég svanasöng. Í svonefndum Selbrekkum, neðarlega í Ásunum, vissi ég af vatni og fór með Rauð þangað. Þar drakk hann nægju sína. Þarna hefur einhvern tíma endur fyrir löngu verið grafið eftir mó, efalaust frá Stakkavík, og sést enn móta fyrir mógröfunum. Þar hefur einnig verið selstöð fyrrum.

Hliðarvatn-552Ég beindi nú Rauð í götuslóðann og lagði í síðasta áfangann að austurbrún fjallsins, þar sem Selstígur, brattur og krókóttur, liggur niður fjallið. Þeir, sem koma í góðu skyggni á þennan stað í fyrsta sinn, hljóta að verða einkennilega snortnir af því, sem þá blasir við. Hér skal aðeins nefnt hið helzta, sem sést. Fyrir fótum okkar liggur vatn, ekki svo lítið, Hlíðarvatn í Selvogi, og er sem næstu skrefin verði að stíga út í þetta vatn, þar eð það er svo nærri fjallinu, að ekki er gengt með því, en götuslóðinn allhátt uppi í brekkunni. Framan vatnsins er Víðisandur að sjó. Á sjávarströndinni, nokkuð austan vatnsins, hillir uppi hina fornfrægu Strandakirkju. Lengst til vesturs sér til Geitahlíðar innan Krýsuvíkur.

Strandarkirkja-590Ég fer af baki á brún fjallsins, læt Rauð rölta lausan á undan niður stíginn, sem er nokkuð í krókum, fyrst um smágerða skriðu, unz komið er í vel grónar brekkur fjallsins, kjarri vaxnar með blóm og góðgresi. Þegar niður úr sjálfum stígnum er komið,  tekur við hrauntunga, sem breiðist austur að vatninu. Yfir hraunið liggur gatan að túngarði jarðarinnar Stakkavíkur.
Klukkan er rösklega þrjú að morgni — allUr hljóta að sofa um þetta leyti nætur inni í litla bænum, sem Herdisarvik-579þá var enn. Þar bjuggu þá æskuvinur minn, Kristimundur Þorláksson, og kona hans, Lára, ásamt börnum sínum, sem voru mörg. Nú var Hlíðarvatn, sem lá að bæjardyrum Stakkavíkur, eins og spegill, og hafði skammt undan enn stærri spegill, þar eð morgunkyljan er enn ekki runnin á. Nú finnst mér sem ég sé nógu lengi búinn að halda til austurs og suðausturs, breyti hér algerlega stefnu minni og held nú í vestur, heim að Herdísarvík. Rauður tekur götuna vestur á hraunið, hann veit hvað við á. Hraun þetta, sem er mjög auðugt að örnefnum, nær frá Hlíðarvatni vestur að Krýsuvíkurheiði, og er því sú vegarlengd sem næst fimmtán kílómetrar. Að fjórðungi stundar liðnum komum við að austurhliði túngarðsins um heimatún Herdísarvíkur. Við vorum komnir heim eftir fimm og hálfrar klukkustundar ferð frá Hafnarfirði, sem er heldur rólega farið lausríðandi. Hér átti heimili okkar að vera, að minnsta kosti næstu fimm árin. Raunar urðu þau sex. Þá varð ég að standa upp af jörðinni fyrir eiganda hennar, Einari Benediktssyni skáldi.

Herdisarvik-gamliÉg spretti af Rauð, strýk honum um höfuð og háls og þakka honum góða og trausta samveru, hleypi honum síðan til tjarnarinnar, svo að hann geti fengið sér að drekka tært uppsprettuvatn. Ég tek hnakk og beizli og geng rólega heim að bænum. Kaffon minn fagnar mér að vanda hávaðalaus, hlær bara út að eyrum. Ég lít á úr mitt, klukkan er hálffjögur.
Í þetta skipti var ég að koma frá að skila af mér ábúð, sem við höfðum búið á síðastliðin tvö ár og lá undir Hafnarfjarðarkauptað. Von var á litlum þilfarsbáti, sem ég hafði tekið á leigu til þess að flytja búslóð okkar, ásamt matarforða og öðrum nauðsynjum til sumarsins.
Bátur þessi átti að hafa í eftirdragi stórt þriggja marina far, sem ég hafði keypt í Hafnarfirði. Báðir voru bátar þessir hlaðnir varningi, og þurfti því að sæta góðu veHerdisarvik-leifar gamlaðri og kyrrum sjó — Reykjanesröst á miðri leið. Þetta var því mikil áhætta, þótt nokkuð væri vátryggt. Um þetta, ásamt ýmsu fleira, var ég að hugsa á ferð okkar Rauðs yfir brattan fjallveginn með hraunbreiðurnar til beggja hliða. Og nú stóð ég á langþreyðu hlaði Herdísarvíkur. Ég geng að baðstofuglugga á suðurgafli, því að innan við hann vissi ég, að kona mín svaf, ásamt dóttur okkar, en vinnuhjú í austurenda baðstofunnar. Ég drep létt á rúðu, og í næstu andrá er tjaldi lyft frá, við horfumst í augu augnablik, og tjaldið fellur aftur fyrir. Eftir andartaksstund er loka dregin frá og kona mín stendur léttklædd innandyra. Þetta er mikill fagnaðarfundur, þar eð ég hef verið
 alllengi að heiman, og enginn vissi, hvernig mér gekk eða hvenær mín var von. En ég skal skjóta því hér við, að báturinn kom á öðrum, degi frá heimkomu minni með allan flutninginn algerlega óskemmdan.

Sú jörð, sem ég var þá að flytjast á, Herdísarvík í Selvogshreppi, á sannarlega sína sögu — og hana ekki ómerkilega. En Hún verður ekki sögð hér — og ef til aldrei. Nú er þessi jörð grafin gullkista og yzta borð hennar nokkuð farið að hrörna. Ef til vill opnar enginn framar þessa gullkistu…“
Sjá meira um Selvogsleiðir HÉR.

Heimild:
-Tíminn, sunnudagsblað, Reykjanesfjallgarður, Ólafur Þorvaldsson, 7. des. 1969, bls. 988-992.Stakkavikurvegur-591

Herdísarvík

Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt: Krýsuvík mörg í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill.
Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.
Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð í Krýsuvík.

Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Heitir þar kerlingadalur, en Deildarháls ofar.

Herdís og Krýsa

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans undir Deildarhálsi.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.
Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengur til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum.

-Jón Árnason I 459.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Selvogur

Jökull Jakobsson segist svo frá Selvogi í Fálkanum í nóvembermánuði 1964:
„Dálítil þyrping húsa stendur þarna á yztu strönd, þar sem Atlantshafið beljar ár og síð. Hins vegar eru gróðurlitlir melar, holt og heiðaflákar, sandar og hraun unz landið að lokum rífur sig upp úr flatneskjunni og rís upp í fjallshlíð, þar eru útbrunnir gígar og fornar eldstöðvar, sums staðar hefur hraunelfurinn fossað niður hlíðina og storknað og minnir á vatnsfall, sem óvænt og skyndilega umbreytist i höggmynd.
Herdísarvík - uppdrátturÞjóðvegurinn hlykkjast um sandflæmi og nakin holt, yfirlætislaus og mjósleginn að sjá ofan af hlíðarbrúninni eins og Drottinn allsherjar hafi fyrir vangá misst þráðarspotta ofan í steypuna, meðan hún var að kólna. Eldurinn hefur mótað þetta land og loftið ekki látið sitt eftir liggja, hér gnauða lotulangir vindar úr norðri. Fjórða höfuðskepnan hefur í fullu tré við hinar, sjálft Atlantshafið sverfur ströndina látlaust og eilíflega, oft getur að líta brimrótið líkast hækkandi brekkum svo langt sem augað eygir, brimgnýrinn öskrar í eyru svo ekki heyrist mannsins mál, oft rísa einstakir strókar upp með skerjunum eins og tröllaukinn geysir hafi gengið af göflunum. Og hér var þó útræði fram eftir öllum öldum. Það fer fjarska lítið fyrir þessum fáu húsum sem kúra þarna yzt á ströndinni í fullkomnu trássi við höfuðskepnurnar, einhvern veginn finnst aðkomumanninum, að hér sé þeirra leikvangur en ekki manna.
Við erum stödd í Selvogi.
Hér hefur verið byggð allt frá því norskir skattsvikarar tyggðu þetta land ásamt írskum þrælum, og því fer fjarri, að hér í Selvogi hafi þeir orðið að láta sér nægja að hokra, sem sem ekki tókst að ryðja lönd í breiðum dölum. Hér byggðu lögmenn og hirðstjórar fyrr á öldum og áttu þó völ á nafntoguðum höfuðbólum og kostaríkum héruðum sunnanlands og austan. í Selvogi hafði alþýða manna einnig nóg að bíta og brenna, þótt harðnaði í ári og kotbændur flosnuðu upp annars staðar ellegar bjuggu við sult og seyru, þegar harðindi og drepsóttir steðjuðu að.
— í Selvogi var alltaf hægt að lifa kóngalífi, sagði mér síðasti bóndinn í Herdísarvík, og þar er enn hægt að lifa kóngalífi, bætir hann við. Þó hefur Selvogur orðið að hlita þeim örlögum, sem dunið hafa á öðrum breiðari byggðum þessa lands undanfarna áratugi: fólki hefur fækkað svo nemur við landauðn og að sama skapi er kreppt að þeim, sem eftir eru. Selvogur hefur löngum verið talinn afskekkt sveit, en þó er þess að gæta, að fyrrum lá hún í þjóðbraut. Bændur af öllu Suðurlandi fóru skreiðarferðir í kaupstaðina suður með sjó, og þá lá leiðin um Selvog.
Selvogur - kortÁ Hlíðarenda í Ölfusi var löggiltur áfangastaður, og þaðan var talin dagleið að næsta áfangastað, Bleiksmýri í Krýsuvík. Og eftir að hinn sögufrægi og umdeildi Krýsuvíkurvegur varð að veruleika, þarf ekki að kvarta undan einangrun í Selvogi, hvort sem farið er austur eða vestur, er ekki nema þriggja stundarfjórðunga akstur til höfuðstaðarins og eru þó ýmis kauptún nær: Hafnarfjörður, Selfoss, Þorlákshöfn, nú er jafnvel hægt að aka sem leið liggur í Grindavík meðfram ströndinni. Hér ættu því ekki að ríkja nein vandkvæði um aðdrætti. Þó hefur fólki fækað svo í hreppnum, að nú eru ekki eftir nema 40 manns og ungur þingmaður Árnessýslu hefur gert að tillögu sinni að sameina hreppinn Ölfushreppi. Ýmislegt er gert í því skyni að viðhalda jafnvægi í byggð landsins og stuðla að því að fólki þyki hag sínum betur borgið í heimasveit en á mölinni. Því þótti Selvogsbændum skjóta skökku við, þegar kaupfélagsstjórinn á Selfossi neitaði að sækja til þeirra mjólk, nema þeir hefðu minnst 70 kýr mjólkandi í fjósi. Taldi hann ekki borga sig að sækja mjólkina svo langan veg að öðrum kosti. Þó lét hann sækja mjólk á bæ, sem ekki er nema 14 kílómetra frá Selvogi, og fór því fjarri, að þar væru 70 kýr í fjósi. En Selvogsbændur neyddust til að bjarga sér sjálfir, þeir reyndu á tímabili að koma þar upp mjólkurbúi sjálfir, en reyndust of fáliðaðir. Nú byggist búskapur þeirra nær eingöngu á sauðfjárrækt, enda eru skilyrði til þess ákjósanleg og raunar óvíða á landinu betri. Ólafur Þorvaldsson bjó síðastur bænda í Herdísarvík, sat jörðina frá 1927 til 1933, en varð þá að standa upp fyrir eigandanum. Einari skáldi Benediktssyni.
Herdísarvík— í Herdísarvík var gott að búa, sagði Ólafur mér, það er frábær útbeitarjörð, ég hika ekki við að segja langbezta beitarjörðin á Suðurlandi. Það er ekki nóg með, að það sé allt þetta land, heldur fjaran líka, og þarna er engin flæðihætta. Að öðrum kosti hefði jörðin verið óbyggjanleg. Þá hefði þurft að parraka féð. Þarna voru slægjur engar, nema túnið, raunar voru þau tvö, eystra túnið gróið upp af sjófangi. Og útræði var í Herdísarvík allt frá fyrstu tíð og allar götur fram til 1922. Þar voru sjómenn í veri og þótti slíkt hagræði, að jafnvel Landeyingar sóttu þangað til sjóróðra. Árni sýslumaður Gíslason átti jafnan tvö skip í Herdísarvík, og var verstöð hans kölluð Krýsuvíkurbúð. En Árni sat í Krýsuvík, og þar er hann grafinn í að [baki] kirkju, raunar sá eini í kirkjugarðinum sem hvílir undir steini. Önnur leiði eru þar gróin og nafnlaus.
Í Herdísarvík er fremur veðursælt nema í norðanátt og þá getur orðið landbrim. Nú er Herdísarvík í eyði og þögnin geymir gömlu bæjarrústirnar við veginn, enginn dyttar lengur að grjótgarðinum, enda er hann víða hruninn og túnið í órækt. Þar stendur enn uppi baðstofa í gömlum stíl og önnur hús úr torfi, fjós, hlaða og fjárhús. Athygli vegfarandans beinist þó fyrst að einlyftu timburhúsi, sem stendur þar í túninu og horfir til sjávar, nú er búið að negla hlera fyrir alla glugga og dyrnar eru harðlæstar. Viðirnir í húsinu eru sorfnir vindum og veðri. Í þessu húsi bjó skáldið Einar Benediktsson síðustu æviár sín.
HerdísarvíkMaðurinn, sem þeytzt hafði milli heimsborganna, ort suður í Afríku drápur á íslenzku, selt norðurljósin og fossana, efnt til stórvirkjana og gullgraftrar, búið í glæstum salakynnum og umgengizt höfðingja og baróna, látið að sér kveða í landsmálum og stórpólitík og tekið þátt í kóngsveizlum, þessi maður hreiðraði um sig hér í litlu húsi fjarri mannabyggð, en aðra hönd var beljandi hafið og á hina eyðileg fjöll og firnindi. Þá var hann kominn að fótum fram þegar hann settist hér að, Elli kerling hafði komið honum á kné. Hugur hans, sem forðum hafði flogið um ómælisgeim í ljóðum og ræðu, var nú tekið svo að förla, að hann þekkti ekki lengur suma vini sína nema endrum og eins. Hlín Johnson tók að sér hið aldna skáld og hlúði að honum, þegar skáldið og heimurinn höfðu skilið að skiptum. Hér í Herdísarvík veitti hún gömlum manni aðhlynningu. Það sagði mér kunnugur maður, að stundum hefði mátt sjá Einar Benediktsson staulast út úr húsinu á góðviðrisdegi og ganga fram á tún. Þar settist hann niður og tók upp úr vasa sínum blað og blýant, páraði á blaðið örfá orð og tók sér svo langa hvíld. Síðan skrifaði hann kannski eitt orð í viðbót, og enn varð langt hlé: Úr þessu urðu aldrei annað en hálfkveðnar vísur, vísnabrot, ef til vill hálf hending. Síðan reis skáldið upp af túninu, hægt og seinlega og staulaðist til bæjar . . .
En hafið beljaði við ströndina eftir sem áður. Einar Benediktsson dó árið 1940 og arfleiddi Háskólann að hinu mikla bókasafni sínu og svo jörðinni Herdísarvík. Ef til vill verður þar hressingarheimili fyrir prófessora, þegar fram líða stundir. Tæplega verður fitjað þar upp á búskap að nýju.
StrandarkirkjaÞótt byggð dragist saman í Selvogi, hækkar vegur Strandakirkju með hverju ári. Enginn veit með vissu, hvenær fyrst var tekið að heita á Strandakirkju en hitt er víst, að alla tíð hefur hún þótt bregðast vel við áheitum. Sagnir herma, að hún hafi upprunalega verið byggð fyrir áheit. Íslenzkir farmenn á heimleið úr Noregi á skipi hlöðnu húsaviði villtust i hafi og fengu réttu stóra. Hrakti þá lengi og voru vistir þrotnar, en leki kominn að skipinu, og fengu þeir ekki lengur varizt áföllum. Þá gerði formaðurinn það heit, að þeir skyldu byggja kirkju úr farviðnum, ef þeim auðnaðist að ná landi. Og leið nú ekki á löngu, áður en þeir fengu landkenning af Selvogi, en þar var foráttubrim með allri ströndinni. Þá sjá þeir veru alskínandi bera yfir brimgarðinn og sigldu þangað. Þar var sund og sjólaust að kalla, og lentu þeir skipi sínu heilu og höldnu. Formaðurinn og hásetar hans létu ekki sitja við orðin tóm, heldur reistu kirkju á staðnum, en víkina kölluðu þeir Engilsvík, og heitir hún svo enn í dag.
Rekamark Strandakirkju er A eða Á og hafa því ýmsir leitt að því getum, að formaðurinn hafi heitið Árni og sumir jafnvel haldið því fram, að hér hafi verið á ferð Árni biskup Þorláksson, Staða Árni. En allt er á huldu um menn þessa og þjóðsagan ein til frásagnar.
Hins vegar eSelvogurr heitið á Strandakirkju enn í dag, ef mikið liggur við, enda er þessi fátæklega kirkja á eyðilegri strönd orðin ein auðugasta kirkja landsins. Á hún nú á fjórðu milljón króna í sjóði, og er það fé notað til kirkjubygginga víðsvegar um land. í Strandakirkju eru ýmsir góðir gripir, kaleikur úr pápísku og messuhökull ævaforn. Þar er altaristafla máluð af Sigurði málara. Strandakirkja var annexía frá Vogósum. Þar sátu nafnkunnir klerkar á öllum öldum, en þekktastur var þó séra Eiríkur, galdrameistarinn mikli og eru af honum miklar sögur. Séra Eiríkur beitti þó aldrei galdrakunnáttu sinni til illverka, en ýmsar glettur gerði hann þó pörupiltum og þjófum. Flestir munu kannast við söguna af piltunum, sem tóku hesta prestsins ófrjálsri hendi, en festust á baki þeirra, og tóku klárarnir sprettinn heim í hlað á Vogósum. Síðastur  klerka í Vogósum var séri Eggert Sigfússon. Hann lifði alla ævi ókvæntur og barnlaus og þótti sérvitur og smáskrítinn. Til dæmis kom hann aldrei á hestbak í ein 40 ár. Á síðustu æviárum sínum flakkaði hann nokkuð um Árnessýslu og kom þá meðal annars að Kiðabergi í Grímsnesi. Þáði hann þar næturgreiða og kvaddi húsfreyju með þessum orðum um morguninn:
Skyrinu og grautnum skelf ég af,-
Brauðinu fæ ég brjótsviða af.
Lundabagginn of feitur.
Blóðmörinn of magur,
Svið vitið þér að ég vil ekki.
Og matarlaus má ég fara.
Séra Eggert fór jafnan fótgangandi, því ekki fékkst hann á hestbak eins og áður er getið. Nálægt Kiðabergi er lækur einn, og eru tvö skref yfir lækinn. Séra Eggert hafði einni skinnsokk sem hann braut saman og geymdi undir barðí við lækinn, fór hann í sokkinn þegar hann þurfti yfir, en skildi síðan sokkinn eftir þangað til næst hann þyrfti á að halda.
SelvogurEins og áður er getið, þótti Selvogur kostahérað mikið, enda bjuggu þar hirðstjórar og lögmenn og efldust til fjár og valda. Þar var gnótt sjávarfangs og annarra hlunninda eins og berlega kemur fram í vísu sem Vogsósaprestur einn orti fyrr á öldum þegar hann kvaddi héraðið sárum söknuði:
Sakna ég úr Selvogi
sauða minna og ánna,
silungs bæði og selveiði,
en sárast allra trjánna.
En ægilegur skaðvaldur átti eftir að eyða byggð í Selvogi, svo nærri stappaði, að hún lognaðist út af. Það var sandfok og uppblástur, sem fylgdi í kjölfar þess. Víðáttumikil graslendi urðu uppblástrinum að bráð, svo að til landauðnar horfði. Höfuðbólið Strönd lagðist í eyði og býli flest í kringum það, sumar hjáleigur þess tórðu þó. Nú er að mestu búið að hefta þetta gífurlega sandfok, en aldir munu renna, áður en jörðin er gróin sára sinna.
Annar óvinur var sífellt nálægur, sem þó um leið var lífgjafi byggðarinnar. Úr Selvogi var sjórinn sóttur af kappi, og til dæmis um það má nefna, að kringum 1770 gengu 50 skip úr Selvogi og Herdísarvík. Síðasta og mesta sjóslysið í Selvogi varð fyrir rúmri öld. Þá fórst Bjarni Pétursson bóndi í Nesi skammt undan lendingu ásamt hásetum sínum, þrettán að tölu. Í Þjóðólfi segir frá þessu slysi. Þar segir, að róið hafi verið í bezta veðri þann 19. marz og hafði verið setið stutta stund. Þá sjá þeir, er næstir voru landi, að blæjur eru dregnar upp til að vara róendur við því, að nú væri tekið að brima. Héldu menn nú að landi sem óðast. Allir í Vesturvognum náðu landi slysalaust, en úr Austurvognum engir. Hreppstjórinn kom fyrstur að sundi Austurvogsmanna, en sá sundið ófært og beið, ef hann sæi lag. í sömu andrá kom Bjarni frá Nesi og stefndi á sundið, hreppstjórinn varaði hann við og fleiri á skipi hans. Bregzt hverjum á banadegi, því Bjarni lagði óhikað á sundið, en allt í einu reis ógurlegur sjór, er hraut allt skipið í spón og kastaðist marga faðma fram yfir það. Er aðrir á sjó sáu, hvernig komið var, sneru þeir frá og náðu landi í Þorlákshöfn, því veður var stillt og tóku þegar lendingu slysalaust, því engin mannleg hjálp var spöruð af þeim, er þar voru fyrir. Þá voru þar komin tólf skip af Stokkseyri og tvö af Eyrarbakka.
SelvogurHér verður þetta látið nægja sem dæmi þess, að sjósókn úr Selvogi var enginn barnaleikur, og varð þó minna um slys í þeirri verstöð en víða annars staðar á landinu. Hins vegar eru það ekki einvörðungu Selvogsmenn, sem hafa átt undir högg ægis að sækja á þessum slóðum. Aðkomin fiskiskip hafa oft strandað þarna, útlend jafnt sem innlend, togarar og flutningaskip,
því ströndin er hættuleg, og þarf ekki að spyrja um örlög þeirra skipa sem steyta á skeri undan Selvogi. Oftast hefur þó giftusamlega tekizt um björgun áhafna, en einnig hafa orðið þar raunasögur.
Hér verður staðar numið og ekki sagt fleira frá þessu litla, en söguríka héraði við yzta haf. Þar sem áður bjuggu hirðstjórar og lögmenn á nafnfrægum höfuðbólum, eru nú aðeins eftir örfáir bændur og þrátt fyrir síma, véltækni, vegasamband og styrkjakerfi þykir örvænt um, að byggð haldist þar lengi enn. Þó skal engu u m það spáð hér, hver veit nema í náinni framtíð eflist Selvogur að nýju.
Jökull Jakobsson.“
Sjá meira um Selvog og Herdísarvík HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR,HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild:
-Fálkinn – Sakna ég úr Selvogi – Jökull Jakobsson – 44. tbl. 16. nóvember 1964, bls. 18-21 og 34-35.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Í örnefnalýsingu GS fyrir Herdísarvík segir m.a. af gömlu alfaraleiðinni til vesturs; „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn:  Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
KlifshaedarhellirNú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Áður hafði Klifshæðin verið skoðuð og þá fannst hellir í grónu jarðfalli. Við opið var emileraður koppgjörningur. Nánari skoðun á þessum helli gaf til kynna áhugaverða yfirborðshraunrás með þrengingum og ýmsum sætindum, litadýrð og dropsteinum.
Við nánari leit í Klifhæðinni austanverði kom í ljós tilgreindur hellisskúti er reyndist vera um 30 m Hruthraunrás. Opið er tiltölulega lítið (um 1.00×0.60 cm), nokkra metra austan við götuna og er það greinilega merkt með litlum skófvöxnum vörðum. Skjólið er manngegnt undir opinu, en lækkar er
inn dregur. Þetta skjól virðist hafa verið þekkt fyrrum þótt það sé alls ekki augljóst í dag, þrátt fyrir vörðunefnurnar.
Með í för var Guðni Gunnarsson, núverandi formaður Hellarannsóknarfélags Íslands.

Heimildir m.a.:
Gísli Sigurðsson -Örnefnalýsing fyrir Herdísarvík.

Ein frægasta ær síðari tíma er Herdísarvíkur-Surtla. Hún var í eigu Hlínar Johnson frá Herdísarvík á Reykjanesi.
SurtlaSurtla var svört, eins og nafnið gefur til kynna, og hafði einstakt lag á að gera menn sárfætta og reiða.
Í fjárskiptum vegna mæðiveikinnar haustið 1951 var svæðið frá Þjórsá að Hvalfirði hreinsað af fé, fyrir utan eina svarta kind og lamb hennar sem náðust ekki. Eftir áramótin náðist lambið þegar það örmagnaðist í einum eltingaleiknum en Surtla slapp ávallt burt. Hún sást nokkrum sinnum en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fulltrúa fjárskiptayfirvalda virtist engin leið að ná henni, hún ýmist stakk menn af í klettum sem voru öðrum ófærir eða þá að hún fannst ekki þegar til átti að taka.
Haustið 1952 gripu yfirvöld til örþrifaráða. Lagt var fé til höfuðs Surtlu. Hver sem næði skepnunni, dauðri eða lifandi fengi 2000 krónur í verðlaun. Eftir langan eltingaleik tveggja leitarhópa laugardaginn 30. ágúst féll Surtla fyrir byssuskoti, en þá hafði hún stokkið niður klettahamar sem var ófær öllum venjulegum skepnum. Surtla var felld í þriðja skoti og var í þremur reifum. Höfði hennar var skilað inn á skrifstofu sauðfjárveikivarna og vígalauna krafist. Aðalfyrirsögnin á forsíðu Tímans 2. sept. 1952 hljómaði þannig: Surtla lögð að velli í Herdísarvíkurfjalli á laugardagskvöld.
Ekki ríkti almenn ánægja með fall Surtlu því mörgum fannst að kindin ætti skilið að fá að lifa lengur, vegna þrautseigju hennar og harðskeytni, auk þess sem greinilegt var að hún þjáðist ekki af mæðiveiki. Fjölmargir skrifuðu greinar í blöð þar sem Surtlu var minnst auk þess sem vísur og ljóð voru ort um hana og endalok ævi hennar, en í þeim flestum fengu vígamennirnir bágt fyrir verkið. Það er greinilegt að kindin hefur orðið mörgum táknmynd frelsis og áræðni hennar vakti þjóðarathygli. Höfuð Surtlu er í dag í eigu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis og hangir uppi á Rannsóknarstöðinni að Keldum.

Heimild:
-http://www.strandir.is/saudfjarsetur/frodl-fraegarkindur1.htm

Herdísarvík

Ólafur Þorvaldsson ritaði m.a. um gestakomur í Herdísarvík, „Gestir af hafi“, í Sjómannablaðið Víking árið 1953:
olafur thorvaldsson„Á þeim árum, sem ég bjó í Herdisarvík, vorum við hjónin oft spurð að því, hvort ekki væri ákaflega leiðinlegt að búa þar, hvort ekki væri þar voðalega afskekkt og einangrað, hvort nokkum tíma sæist þar maður. Tveimur fyrri spurningunum svöruðum við, einkum þó ég, á þá leið, að ekki væri leiðinlegt að búa í Herdisarvík, heldur þvert á móti skemmtilegt, þótt nokkuð mætti teljast þar afskekkt og þótt ekki væri hægt að segja, að hún lægi nú lengur í þeirri þjóðbraut, sem áður á árum, þegar menn úr austursveitum og sýslum fóru sínar skreiðar- og lestaferðir út með sjó, svo og meðan vermenn úr þessum sömu sýslum gengu þar um til vers og úr veri, en hvort tveggja þetta mun hafa lagzt niður um svipað leyti, og mun það hafa verið á tveim fyrstu tugum þessarar aldar. Þriðju spurningunni munum við oftast hafa svarað á þá leið, að fleiri gesti bæri að garði í Herdísarvík heldur en við hefðum þorað að gera okkur vonir um í upphafi, enda þótt ég vissi áður nokkuð um, að ekki var alltaf mannlaust þar.
Það er eitt og annað í sambandi við gesti okkar í Herdísarvík, sem æðimargir urðu í þessi sex ár, sem við bjuggum þar, sem ég ætla að rifja upp fyrir sjálfum mér, þar eð flestra gesta okkar þar minnist ég enn með ánægju. Heldur mun ég fara fljótt yfir sögu hvað snertir hina almennu gestakomu, þ.e. þeirra gesta, sem vænta mátti hvenær sem var, þekktra gesta eða óþekktra, sem ýmist dvöldu næturlangt eða allt að viku, og annarra, granna eða langferðamanna, sem með garði fóru, en litu í bæinn, okkur til mikillar ánægju og sjálfum þeim til hvíldar og hressingar.
Svo sem að framan getur, þá var á þessum árum (1928—33) tími skreiðarferða og vermanna liðinn, og var því aldrei þessara manna von. Samt sem áður voru ekki allir hættir að ferðast þessa leið. Þegar kom fram á vorið og sumarið og hagar voru komnir fyrir hesta, fór að lifna yfir umferðinni. Framan af sumri voru það einkum menn utan frá sjó, Grindavík og Suðurnesjum, sem komu til fjárleita og fóru þá oft allt til Selvogs. Oft voru menn þessir nokkrir saman og voru marga daga í þessum ferðum. Alltaf komu þeir við í Herdísarvík og gistu stundum. Um hásumarið komu oft stórir eða smáir hópar fólks. Einkum var þetta fólk frá Hafnarfirði og Reykjavík. Allt var þetta fólk á hestum, því enginn var þá bílvegur kominn um þær slóðir. Oft gistu hópar þessir, og var stundum þröngt á því þingi, þar eð húsakosturinn var ekki mikill, fimm rúm i tvískiptri baðstofu auk gestarúms í frammistofu. Helzt var fólk þetta á ferð um helgar, og var þá flest að fara hringinn, svo sem nú er sagt, þegar farið er um Krýsuvík til Selvogs og Ölfuss, en lengri tíma tók það þá heldur en nú. Fyrir kom það, að menn kæmu gangandi, einn eða fleiri saman. Ýmist komu menn þessir beint yfir fjallið frá Hafnarfirði, og lá þá leiðin langt austan Kleifarvatns, — eða þeir komu um Krýsuvík. Sumir þessara manna voru vinir okkar og þá í skyndiheimsókn, aðrir okkur lítt eða ekkert þekktir, svo sem bóksölumenn, trúboðar o. fl. Eitt sumarið kom til okkar Árni Óla blaðamaður og gisti hjá okkur. Var hann þá að ganga hringinn og mun hafa verið að safna efni í bókina „Landið er fagurt og frítt“. Höfðum við mikla ánægju af heimsókn hans. Eitt sumarið dvaldist próf. Guðmundur Bárðarson náttúrufræðingur, ásamt þýzkum stúdent, um vikutíma hjá okkur. Voru þeir með fjóra hesta og nokkurn farangur. Mest voru þeir við rannsóknir hrauna og eldgíga uppi á fjalli og komu venjulega ekki heim fyrr en á kvöldin. Þágu þeir þá stundum kvöldmat í bænum. Svona mætti lengi telja gestina. Ég skil nú við sumargestina, en minnist lítillega aðal haustgestanna.
Á hausti hverju var nokkur gestakoma, einkum var það kringum réttir og oft nokkuð þar fram yfir. Til Selvogs- og ölfusrétta sóttu menn úr Garðahreppi og Hafnarfirði. Þeir, sem af Suðurnesjum komu, fóru um í Herdísarvik og stöku sinnum Hafnfirðingar. Þótti þeim betri reiðvegur um Krýsuvík heldur en fara austur yfir fjall um Kerlingarskarð. Urðu þeir að nátta sig í Selvogi og ríða svo upp í réttir að morgni, vildu þá eins vel gista í Herdísarvík, enda voru þetta þá oftast gamlir kunningjar okkar og þóttust slá tvær flugur í einu höggi með því að gista hjá okkur. Það var stundum þröngt þessar nætur í bænum í Herdísarvík; gekk heimafólk flest úr rúmum og lá þá í flatsængum í framgöngum. Oft urðu þrír að hafast við í einu rúmi eða ætluðu að gera það, en stundum var einum sparkað út úr hreiðrinu, og vaknaði sá þá stundum liggjandi á gólfinu. Allt fór þetta fram í mesta bróðerni, og var oft glatt á hjalla. Stundum var spilað lengi nætur. Venjulega voru það sömu mennirnir haust eftir haust, sem þessar útréttir sóttu, og voru þvi okkur vel kunnir og velkomnir gestir, sem og allir, sem komu. Þessir menn þekktu vel húsakost okkar, en gerðu sér allt að góðu, sem fyrir þá var gert.
Um og eftir síðustu réttir var stundum fallinn það mikill snjór á Kerlingarskarð og fjallið þar austur af, að bændur úr Selvogi, sem áttu órekinn sauðarekstur og mylkar ær til slátrunar, treystust ekki að reka féð þá leið og urðu í þess stað að reka um Herdísarvík og Krýsuvík, þar eð sú leið gat verið snjólaus með öllu, þótt dyngja væri komin á fjallið. Þegar svona bar undir, fór það eftir því, hve snemmbúnir þeir urðu heiman að, hvort þeir heldur náttuðu sig í Herdísarvík eða Krýsuvík. Þessir sauðarekstrar voru æðifjármargir, þar eð allir bændur úr Selvogi áttu þar sauði og annað síðheimt förgunarfé og Selvogsbændur sauðamargir í þá daga. Margir menn fylgdu þessum rekstrum,
og var þá sungið og kveðið fram eftir vökunni, þegar þeir gistu í Herdísarvík, og svo kann víðar að hafa verið.
Ég hef hér að framan nokkuð dvalið við vor- og sumargesti, sem til Herdísarvíkur komu og gátu komið hvenær sem vera vildi. Líka hef ég minnzt á haustgestina, sem margir voru nokkuð tíma- og árvissir, — en það komu fleiri gestir en þeir framan töldu. Við komu þessara gesta mun ég einnig nokkuð dvelja í þessum minningum, svo hugstæðir eru mér margir þeirra. Ekki komu gestir þessir daglega, og aldrei þurfti að vonast eftir þeim i níu til tíu mánuði af árinu. Hvorki komu þeir ríðandi né gangandi. Þeir komu af sjó. Gestir þessir voru Færeyingar.
Þegar kom fram um mánaðamótin febrúar —marz, fórum við að huga að gestakomu á ný.
Ekki þurfti að horfa til austurs né vesturs eftir gestum þeim, sem nú var helzt að vænta. Þeir komu allir af hafi. Þetta voru færeysku fiskimennirnir, sem sóttu á Íslandsmið á skútum sínum. Flestar lögðu þessar skútur úr heimahöfn í febrúar og fyrst í marz. Allar voru þær með handfæri einvörðungu. Flestar munu skútur þessar hafa verið um 150, sem hingað sóttu. Eftir að skúturnar voru komnar vestur með landinu, sást oft heiman frá Herdísarvík, eftir að dimmt var orðið, svo að segja ljós við ljós fyrir allri víkinni.
Herdisarvik 1930Hvaða erindi áttu svo öll þessi erlendu skip til þessarar afskekktu víkur? Vil ég nú skýra það nokkuð. Flest skipanna komu þangað til þess að afla sér vatns eða íss, annars eða hvors tveggja. Mörg voru þau búin að vera svo vikum skipti í sjó og þessar nauðsynjar ýmist að mestu þrotnar eða svo á þær gengið, að viðbótar var talin þörf. — Herdísarvík var eini staðurinn frá Vestmannaeyjum allt vestur fyrir Reykjanes, þar sem mögulegt var fyrir skip að afla sér þessara nauðsynja. Ég held, að Færeyingar hafi litið á Herdísarvíkina sem nokkurs konar Færeyingahöfn fyrir suðvesturlandinu, og þannig heyrði ég orð falla milli tveggja skipstjóra. Svo mikils virði var þeim að geta fengið þarna ótakmarkað vatn — og venjulega ís eða snjó eftir þörfum — móts við það að þurfa að öðrum kosti að sækja þetta — helzt annaðhvort til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur og þurfa þar að borga það með peningum.
Svo sem fyrr er sagt, var erindi flestra skipanna það, að fá neyzluvatn, ís eða snjáur, eða eins og sumir sögðu kava, sbr. kava-rok, skafbyl, sem við segjum. Ísinn og snjóinn notuðu þeir að sjálfsögðu í frosthólf skipsins til varðveizlu beitu. Ekki voru öll skipin, sem upp á vikina komu, í framangreindum erindum. Það var á þeim tíma, sem hér um ræðir, ófrávíkjanleg regla Færeyinga að fiska ekki á sunnudögum eða öðrum helgidögum. Þá daga slöguðu skipin fram og aftur eða héldu sér við á vélinni um miðin, þar til aftur var farið að fiska. Þegar Færeyingarnir voru á fiski út af Herdísarvík eða vestur með Krýsuvíkurbergi, sem varað gat svo vikum skipti, komu mörg þessara skipa upp á Víkina og lögðust þar fyrir akkeri og voru þar til sunnudagskvölds. Þetta var þó því aðeins, að stillur væru eða vindur stæði af landi.
Svo sem fyrr segir, þá var erindi flestra skipanna að fá vatn eða ís, og oft sama skipið hvort tveggja. Væri ekki ís á tjörninni, þá tóku þeir snjó, væri hann fyrir hendi. Þegar fram á vertíðina kom og snjór horfinn neðanfjalls, leyndist hann stundum í djúpum kerum í hrauninu. Af þessum stöðum vissi ég, og Færeyingarnir vissu, að ég vissi. Þegar allur snjór var uppurinn neðan fjalls, voru oft skaflar efst í fjallinu. Þá klungruðust þeir eftir honum þangað og báru hann á bakinu og höfðinu til sjávar. Var þetta löng leið og erfið mönnum i sjóstökkum og fullháum vaðstígvélum, en hér var mikið í húfi, beitan lá undir skemmdum, og henni varð að bjarga. Ég sagði áðan, að þeir hefðu borið á bakinu og höfðinu, og vil ég skýra þetta nánar. Þegar komið var i pokann það, sem þeir gátu mest
farið með, var bundið fyrir op hans. Síðan var kaðli brugðið um pokann nálægt miðju og bundið að; þó var ekki nær bundið en svo, að maðurinn gat brugðið kaðlinum fram um enni sér, þegar pokinn var kominn á bak hans. Þannig báru þeir oft langa leið og vonda án þess að hafa hendur á bandinu, létu bara hausinn hafa það. Ég lét stundum í ljós undrun yfir, hve sterkir þeir voru í hausnum og þó einkum hálsinum. „Já, svona berum við torfið, blessaður“, var svarið, sem ég fékk, og mun ég víkja lítillega að þessu síðar.
Þegar þykkur ís var á tjörninni, brutu þeir hann upp með járnum eða öxum og roguðust svo með jakann í fanginu, á bakinu eða á milli sín ofan í bátinn, sem alltaf varð að halda á floti, vegna þess að oftast var einhver lá í Bótinni. Stundum tók hvert skip ís í 2—3 báta, einkum þau stærri, sem stórar ísgeymslur höfðu. Einhverju sinni — það mun hafa verið komið fram í apríl og allan snjó löngu tekið upp neðanfjalls — var barið á stafnglugga baðstofunnar og það allharkalega; þeir hafa víst haldið, að fast væri sofið. Þegar ég leit út, sá ég að hópur manna stóð fyrir utan, voru sumir með stór vasaljós í höndum, en aðrir báru ljósker. Ég bjóst við, að hér væru komnir strandmenn, en svo var nú ekki. Einn hefur strax orð fyrir og segir: „Veiztu nokkurs staðar af snjáur, blessaður?“ Ég klæddist í skyndi og gekk út. Þarna var kominn skipstjóri með sína vakt af kútter „Harry“, einu hinna gömlu Reykjavíkurskipa. Skip þetta hafði fengið síld senda að heiman til Vestmannaeyja daginn áður, og þar sem þeir gátu þá ekki fengið ís í Vestmannaeyjum, lá síldin undir skemmdum. Hann sagðist þá hafa sett til öll segl og vélina á fulla ferð og stefnt vestur til Herdísarvíkur í von um, að þar væri snjó að fá. Ég sagði skipstjóranum, að allur snjór væri þorrinn ofanjarðar, en snjór mundi vera í djúpum kerum uppi við fjall, en óvíst, hvort ég hitti á þau nú í myrkrinu, og þótt svo yrði, þá þyrfti að síga ofan í kerin og hala snjóinn upp. Ekki setti skipstjóri neitt af þessu fyrir sig, enda mun mörgum Færeyingnum hafa boðizt brattara sig heldur en hér gat orðið um að gera. Var svo lagt af stað og stefnt til fjalls. Lestuðu menn sig um hraunið, og vildi sumum verða hnotgjarnt í myrkrinu, enda heldur stirt búnir til gangs. Ljósin báru þeir, sem á eftir gengu, því að ég treysti mér betur til að finna kerin í myrkri heldur en við ljós, því að það gerði dimmra út frá sér. Kerin fundum við, og ofan var sigið með ljós. „Já, já, nógur snjóur, gamli“, var kallað upp af þeim, sem fyrstur fór niður. Þarna var tekinn snjór í tvo báta.
Þegar Færeyingar tóku vatn eða ís fyrsta sinni, vildu flestir skipstjórarnir borga eða buðu borgun fyrir. Ég sagði öllum það sama, að ég seldi hvorki vatn né ís og væri þeim heimil taka þessara nauðsynja hvenær sem væri. Þeir vildu borga samt, þótt ég vildi ekki við peningum taka, — og gerðu það líka. Það var föst venja okkar hjóna að ná sem flestum heim og gera þeim eitthvað gott. Urðu þeir venjulega að skiptast á um að koma heim, þar eð bátar máttu ekki mannlausir vera, væri verið að taka vatn eða ís. Flestum þótti skyr mjög gott, svo var það mjólk eða kaffi, eftir því sem þeir æsktu. Oft var fata með mjólk í send út á skip til þeirra, sem ekki gátu í land komið. Fyrir þessa smáaðhlynningu — svo og vatnið og ísinn — virtust allir mjög þakklátir. Oft höfðu þeir með í land í fyrstu ferðinni ýmislegt, sem þeir vissu, að hvert heimili hafði not fyrir. Bar þar mest á
kexi. Voru það heldur smáar kökur, ýmist sætt eða ósætt. Voru sumir skipstjórar þar svo stórtækir, að fyrir kom, að þeir komu með eða sendu í land óuppteknar kextunnur eða kassa, sem í var frá 25—40 kg. Náðu þessar kexbirgðir stundum saman hjá okkur. Þess utan komu þeir með kaffi, sykur, smjörlíki, kartöflur, fiskilínur, blýlóð og öngla. Þeim þótti lína sú, sem ég notaði i handfæri, — en það var 4 lbs lína, — of sver, og sagði einn skipstjóri, sem sá hana, við mig: „Þetta er ófiskilegt, gamli; ég skal senda þér betri línu“, — og var það 2 lbs lína. Salt mátti ég fá hjá þeim, meira en ég hafði not fyrir. Oft komu þeir í land með nýjan fisk, svo og stóra slatta af nýjum þorskhausum, sem ég svo herti. Eitt er ótalið enn, sem sízt var við neglur skorið, en það var reyktóbak. Ekki var tóbak þeirra að sama skapi gott, en vel var ég farinn að sætta mig við það. Þetta tóbak reyktu þeir jafnt og tuggðu.“

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 15. árg. 1953, bls. 295-302 og 317-318.

Portfolio Items