Herdísarvík
“Fornmenn lögðu einnig mikla stund á smíðar, og mun lítið hafa verið flutt af smíði til landsins í fornöld, nema helst vopn og ef til vill skrautgripir.

Járnið unnu fornmenn sjálfir úr mýrarmálmi, og var nefnt rauði og rauðablástr. Dró Rauða-Björn nafn sitt af því, að hann blés fyrstur mann rauða á Íslandi. Skallagrímur var og járnsmiður mikill og hafði rauðablástur mikinn á vetrum. Lét hann gera smiðju með sjónum langa leið frá Borg, þar sem heitir Raufarnes, og þótti honum skógar þar eigi fjarri til eldilviðar. En hann fékk þar engan stein svo harðan eða sléttan, að honum þætti gott að lýja járn við. Fór hann þá til og kafaði eftir steini miklum, er hann setti niður fyrir smiðjudyrum og hafði fyrir rekstein. Þegar Egils saga Skallagrímssonar var færð í letur löngu-löngu eftir hans dag, lá steinninn þar enn og mikið sindur hjá, og sá á steininum að hann var barður ofan. Þorsteinn Kuggason í Ljárskógum var og járngerðarmaður mikill og smiður. Hann lét gera kirkju á bæ sínum og brú heiman frá bænum, og var hún ger með hagleik miklum. Utan á brúnni undir ásunum, er héldu henni uppi, voru gerðir hringar og dynbjöllur, svo að heyrði yfir til Skarfsstaða, hálfa viku sjávar, ef gengið var um brúna. Hafði Þorsteinn mikinn starfa fyrir þessari smíð. Grettir var hjá honum einn vetur í Ljárskógum og setti Þorsteinn hann til að drepa járn, og þótti hann atgangsmikill, en nennti misjafnt. Við gröft og túnasléttun á síðari árum (1883-84) hafa menn komið ofan á leifarnar af rauðanlásturssmiðju Þorsteins Kuggasonar, að því er ætla má. Í túninu í Ljárskógum, nál. 30-40 fðm. frá bænum, varð fyrir einkennileg tóft, 20 fet á lengd og 10 á breidd að innanmáli. Í öðrum enda var hlaðinn þverveggur úr stóru grjóti, og myndaðist við það lítið afhús bogadregið fyrir gafl. Gegnum þvervegginn lá steinlögð renna, kjölmynduð í botninn, og voru steinarnir vel lagðir og felldir þétt saman. Fyrir innan rennuna í afhúsinu lá hellusteinn mikill eggsléttur að ofan, en fyrir utan rennuna í aðalhúsinu var þró ofan í gólfið.

Lítur helst út fyrir, að hin svonefnda afhús hafi aðeins verið steinhlaðinn ofan til rauðabræðslu, og hefir þá hið brædda járn runnið úr ofninum eftir rennunni og niður í þróna í aðalhúsinu. Var bæði hellusteinninn og grjótið í rennunni mjög eldleikið og eins kamparnir á milliveggnum. Tóftin var öll full af kolaösku og gjalli, en rétt hjá henni var all-stór hóll, er reyndist tóm aska og gjall, þegar grafið var í hann. Ber þetta allt hvað með öðru órækan vott um, að hér hefir verið járngerð mikil og rauðablástur. Smiðjuleifar frá fornöld hafa víða fundist, enda mun hafa verið smiðja svo að segja á hverjum bæ, því fornmenn smíðuðu sjálfir allt járn til heimilsþarfa. Voru sumir þjóðhagir bæði á tré og járn og orðlagðir fyrir smíðar sínar, eins og t.d. Gísli Súrsson.”
Í örnefnaslýsingu fyrir Herdísarvík segir t.d.: “Á lágum hól nær vatninu voru þessi hús: Smiðja, hjallur og austur af þeim var pakkhús.”
Á Reykjanesi má víða sjá smiðjur á “óhefðbundnum” stöðum, s.s. í helli undir Hellunni á Sveifluhálsi þar sem Þorsteinn frá Hömrum við Húsatóftir vann við járnsmíðar um tíma. Í verstöðvum voru smiðjur og má m.a. sjá þess merki í “Smiðjunni” á Selatöngum, en hún var í skúta skammt norðan við austustu sjóbúðina þar. Sjórinn hefur kastað grjóti fyrir opið, en undir því á t.a.m. að vera bollasteinn þar sem hamrað járnið var kælt.
Líklegt má telja að rauðablástur (sjá aðra fróðleikslýsingu) hafi verið unninn í sérstökum ofnum, aðskildum frá sjálfri smiðjunni. Á Reykjanesi er líklegt að slíkir ofnar hafi verið fáir þar sem lítið hefur verið um mýrarrauða. Hafa þeir helst verið þar sem hægt var að reisa upp sæmilega stórar hraunhellur eða hlaða ofn úr grjóti á láglendi nálægt eldiviðaraðdrætti og kolagerð. Ekki er mörgum slíkum stöðum til að dreifa, en þeir hafa þó verið til.

Úr “Gullöld Íslendinga” – menning og lífshættir feðra vorra á söguöldinni – alþýðufyrirlestrar með myndum eftir Jón Jónsson, Reykjavík 1906.

Hellurhellir

Smiðjuhellir undir Hellunni.