Grænaflöt

Í viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurlandi.
Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að GrænaflötBrunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.

Rót

Það var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða  Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólrahringa, illa farin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð hjá henni, en hún var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
Opið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þóttu hann rúmgóður.”

MosatáknÍ örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: “Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.”
Í annarri lýsingu eftir Gísla segir: “Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.”

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson 1. febr. 2006.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.