Fjall

Í Huld I, bls. 52, er frásögn um Sængurkonustein “eptir handr. Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi, tekin upp eptir húsfrú Katrínu Hannesdóttur á Eyrarbakka”. Í henni segir: “Fyrir utan og ofan Helli í Ölfusi er fjöldi af stórum steinum, sem hrunið hafa úr Ingólfsfjalli. Undir einum þeirra er skúti; það er eitthvert stærsta bjargið, og heitir hann Sængurkonusteinn. Sagt er, að nafnið sé svo tilkomið: Til forna stóð bær austarlega undir suðurhlíð Ingólfsfjalls, er Blákollur - Sængurkonuseinn fjærhét “í Fjalli” og var hið mesta höfðuból: 30 hurðir á járnum. Þar hafði Ingólfur fyrst byggt. Þegar sagan gerðist, bjuggu þar auðug hjón, en hörð og nísk. Eitt kveld kom þangað förukona og bað gistingar. Það var auðséð á henni, að hún mundi innan skamms ala barn; vildu hjónin því vera laus við hana og úthýstu henni; var þó hellirigning um kveldið. Hún ráfaði þá austur með fjallinu, en komst ekki nema að steininum og lét fyrirberast í skútanum. Þar ól hún barn sitt um nóttina. Bæði hún og barnið fundust þar lifandi um morguninn. Var þeim hjúkrað og hresstust við. En þess sömu nótt féll skriða á bæinn í Fjalli, og hefur síðan eigi sézt eptir af honum, nema lítið eitt af túnjaðrinum, en enn í dag heitir Fjallstún, og litlar leifar af einhverri byggingu, sem þar vottar fyrir.”
Og þá var bara að fara á staðinn, skoða aðstæður og reyna að rata á Sængurkonusteininn, sem skv. frásögninni átti að vera “austan við bæjarrústir bæjarins Fjalls”. Með það að leiðarljósi og vísan til þess í steininum ætti að vera skúti, komu nokkrir til greina, en einn þó fyrst og fremst er veitt gæti skjól fyrir rigningunni. Sá virtist í fjarlægð vera einn stærðarinnar steinn með opnum skúta í miðju, en þegar nær var komið, kom í ljós að steinbjörgin voru tvö er mynduðu skútann. Staðurinn virtist þjóðsagnakenndur á að líta, hvaðan sem á var horft. Hann féll vl við lýsinguna framangreindu; “Undir einum þeirra er skúti; það er eitthvert stærsta bjargið”. Ein efasemd kom þó fram; björgin gætu hafa fallið úr fjallinu eftir að munnmælasagan var skráð, sem þó var ennþá mun eldri. Svo gæti einnig hafa verið um allmörg björg, sem þarna voru nálæg.
SængurkonusteinnGengið var að tóftum Fjalls. Þar virðist kargaþýfi, en þegar betur er að gáð má sjá í tóftunum tvær merkingar um friðlýstar fornleifar, skráðar með einhverju ósýnilegu letri, sem jafnvel fólk með ágæta sjón getur ekki merkt. Augljóslega er um fornar tóftir bæjar að ræða. Þær hafa varðveist með ágætum, en vegagerð hefur gengið óþarflega nærri þeim. Minjarnar voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927 (sem kvöð á landi Hellis). Í örnefnalýsingu segir: “Fjallstún; skriðurunnin hæð; leifar af túni bæjarins Fjalls. Fjallstóftir; gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður. Fjallstún, þar sem aðal túnið í Fjalli var, er nú í Hellislandi, en landamörkin eru um bæjartóftirnar. Ein tóft sést enn þá greinilega fyrir neðan veginn, en upp á hátindinum sá eg glöggt fyrir fimm húsatóftum hverjum við aðra, þegar eg var unglingur, en nú eru þær allar komnar undir skriðu fyrir þó nokkru. Líka tók eg þá eftir niðursignu túngarðsbroti vestur við mýrarvikið, sem nær lengst upp að fjallinu,” segir í örnefnalýsingu.
Niðursagna túngarðsbrotið - Hellisbrú frá 1843Brynjúlfur Jónsson skoðaði rústir Fjalls 1896: “[Skriðubungan undan Branddalsgili er] nú að miklu leyti grjóti þakin, nema austan til. Þar er grasflöt, sem enn heitir Fjallstún. Á henni eru rústir bæjarins. Er of lítið gjört úr þeim í munnmælasögunni: “Sængurkonusteinn” í “Huld” (1. hefti bls. 52), því allvel sjer fyrir bæjarrústinni, og einnig fyrir fjóss og heygarðsrúst, sem er á austurjaðri bungunnar, efst á grasflötinni nær upp við fjallið.  Bæjarrústin er dálítið sunnar og neðar. Bærinn hefir snúið framhlíðinni mót suðaustri; en í fljótu áliti virðist þó, þegar á rústina er litið alla í einu, að hún snúi mót suðri. En það kemur af því, að byggingar hafi verið fram á hlaðinu, sem austantil ganga lengst fram; myndast þar næstum eins og lítil hólbrekka af gamalli hleðslu. …Bæjartóftin snýr hliðinni fram, og er framhúsið nálægt 10 faðma langt frá norðaustri til suðvesturs.  Dyr eru á framhliðinni vestan til miðri.  Beint inn af þeim er inngangur í bakhús, er liggur samhliða hinu, og eru dyrnar á miðri framhlið þess; það er rúml. 3 faðma langt.  Er sennilegt að það hafi upp á síðkastið verið baðstofan, en hitt framhýsi.

Hluti af tóftum Fjalls

Við báða enda bakhússins virðast vera auð svæði, sem svara mundi rúmi fyrir dálítil hús; en þessi svæði eru þó innilokuð af garði, sem staðið hefir fyrir allri bakhlið bæjarins, og myndað þannig “húsagarð”, – sem nú er kallað og tíðkast hefir á seinni öldum.  Sín tóft er við hvorn enda frambæjartóftarinnar, og snúa þær dyrum fram á hlaðið; getur verið að þar hafi verið skemma og smiðja.  Vestan í húsagarðinum sjer einnig fyrir lítilli tóft.”
Í Fornleifaskrá segir: “Vegurinn hefir legið um hlaðið, milli bæjarins og bænhússins. Hefir það haldist eptir að bærinn lagðist í eyði, því þar eru uppgrónar götur; en nú liggur vegurinn á bak við rústina. Fjósið hefir snúið nokkuð meir til austurs en bærinn. Stærð þess er ekki hægt að ákveða, því svo er að sjá, sem það hafi verið hlaðið sundur að innanverðu, – eða það hefir verið stytt, er kýr hafa fækkað. Við vestri hlið þess er ein tóft, en við eystri hliðina tvær, líklega geldneyta- og reiðhestahús. Þar á bak við er heygarðurinn. Heystæðin eru þrjú: eru tvö þeirra næstum 10 faðm. löng en hið þriðja nær hálfu styttra, því þar gengur fjóstóftin inn í garðinn.”

Álitlegur Sængurkonusteinn utan við Fjall

Þá segir: “1706: “Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnist að tíðir hafi hjer verið fluttar.” Eina ritheimildin sem gæti bent til kirkju á Fjalli er máldagi Strandarkirkju í Selvogi frá 1397 en þar segir: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.”
1897: “Sögn er, að bænahús hafi verið í Fjalli; svo sagði mjer Jón bóndi Árnason í Alviðru, fróður maður og vel að sjer.  Hefir þá bænahúsið án efa verið fram á hlaðinu, en hafi það verið austast og fremst, – sem mjer þykir liggja næst að ætla, – þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.”
“Bærinn hefir staðið fram á átjándu öld.  Eftir að hann lagðist í eyði, lagðist landið til Hellis og Laugarbakka, svo að nú eru landamerki þeirra jarða um Fjallstún” skrifar Brynjúlfur Jónsson 1897.

Af JÁM 1703 sést að þá hefir heimajörðin Fjall verið komin í niðurlægingu. Munu því mest hafa valdið skriðurennsli á túnið. Túnstæðið hefir upphaflega verið uppgróin skriðubunga, mynduð af gili, sem þar er uppundan í fjallinu. Það heitir Branddalsgil, og hefir nafn af lítilli dalkvos er Branddalur heitir, sem þar er uppi í gilinu, en sjest ekki fyrr en að er komið.
Álitlegur Sængurkonuhellir (-skjól) ofan og austan FjallsBranddalur er enn grasi vaxinn; annars er gilið, og hlíðin öll, nú eintóm skriða. Er líklegt að nafnið sé dregið af kolabröndum og að þar hafi verið kol brennd meðan fjallshlíðin var skógi vaxin …enn heldur [gilið] áfram að hækka bunguna smátt og smátt; enda er hún nú að miklu leyti grjóti þakin, nema austan til. Þar er grasflöt, sem enn heitir Fjallstún.”
Einhver meinloka virðist vera hér að framan. Í fyrsta lagi var bæjarstæðið ekki undir Branddalsgili, nema örnefnið hafi færst af gilinu ofan við rústirnar litlu vestar með fjallinu. Í öðru lagi er Fjallstún vestan við bæjarrústirnar – nema þessar rústir séu mun nýrri og gamla “j Fjalli” hafi verið mun vestar og horfið undir skriðu, líkt og segir í gömlum heimildum.
Í fornleifaskráningunni er getið um Saumakonuhelli: “Saumakonuhellir – Hellir í Fjallsklettum, ofan við þar sem Fjallslækur kemur upp. Sagt er, að kona sú, sem barnið ól hjá Sængurkonusteini, hafi hitt þar tvær stúlkur í hellinum, sem voru að sauma. Þær leyfðu henni ekki að koma í bæinn, en allt annað Fjallsfólk var við kirkju í Arnarbæli.”
Fjallslækur er áberandi uppspretta. Þar hefur verið steypt vatnsþró ofan við þjóðveginn, beint ofan við klakhúsið, sem þar er neðan vegarins. Hins vegar var fjandanum erfiðara að staðsetja örnefnið af nákvæmni. Við þær aðstæður var ekki annað að gera en að “fá að hringja”. Fyrir valinu var Árni Erlingsson, kennari á Selfossi. Hann hefur bæði safnað miklum upplýsingum, talað við staðkunnuga og er nú fjölfróðastur manna um þetta svæði.
Möguleiki SaumastofuhellisÁrni tók umleituninni vel. Hann sagði Sængurkonustein hafa verið við þjóðleiðina vestan við Fjall og staðið hátt á efsta leitinu, sem þar er. Steinninn hafi síðan fallið í skurð sem Vegagerðin gróf ofan við veginn til að hindra árennsli vatns að honum. Sjást ummerkin enn. Eftir aðkomu margra áhugamanna, m.a. dr. Kristjáns Eldjárns og Sigurðar frá Tannastöðum, sem þá var fróðastur manna um örnefni og staðsetningar sögulega viðburða undir sunnan- og austanverðu Ingólfsfjalli, hafi steinninn verið færður upp úr skurðinum 1960 og staðsettur á litlum grasbala um 90 m austar og u.þ.b. 20 metrum norðvestan við Blákoll, stóran og áberandi grágrýtisstein ofan við þjóðveginn (6357647-2100855). Gamli reiðvegurinn hafi verið svolítið ofar í hlíðinni, eins og glöggt má sjá af umleitan. Margir seinni tíma menn hafa gjarnan viljað tekið Blákoll sem Sængurkonustein, líklega vegna þess hversu áberandi kennileiti hann er á svæðinu. Sá steinn kom hins vegar niður eftir hlíðum fjallsins í jarðskálftanum 1896 – líkt og svo margir aðrir.
Árni sagði engan skúta vera í Sængurkonuhelli, sem kom og í ljós þegar að var gáð. Hann hafi séð í bæjarblaði getið um ýmis örnefni undir Ingólfsfjalli og reyndi hann að leiðrétta sumt það í Bæjarblaðinu á Selfossi, 1.tbl. 2. árg. 1983. Þar hafi hann fjallað sérstaklega um Sængurkonustein og endurheimt hans. En vegna þess að Bæjarblaðið var pólitískt málgagn vinstri manna, sem kom honum reyndar lítið við, skrifuðu hægri menn grein í sitt blað þar sem þeir töldu þetta allt hina mestu fyrru. Eitt virtust þeir hafa misskilið málið því það snéri bara alls ekki um pólitík heldur staðsetningu áþreifanlegs örnefnis. Hann hefði hins vegar byggt á bestu og áreiðanlegstu heimildum, m.a. Sigurðar á Tannastöðum, sem þekkti landið eins og lófann á sér. Sængukonusteinn hefði verið til löngu áður en munnmælasagan var skráð af BJ og þar hafi eitthvað skolast til, bæði áttir og ástæða frávísunar aðkomukonunnar. Sigurður hafi jafnan lagt áherslu á að heimilisfólkið á Fjalli hefði verið í kirkju þegar konan kom þar að og vinnukonurnar í Saumakonuhelli hefðu einfaldlega ekki haft heimild til að hýsa hana eins og málum var fyrir komið í þá daga.
Framangreind sögufullyrðing hefur gjarnan loðað við bæi í þjóðleið og meðfylgjandi skýring hefur gjarnan fylgt í kjölfar hennar.
Skammt austan við Blákoll liggur gata upp á þjóðveginn frá Helli. Þar sem örnefnalýsingin greinir frá “niðursignu túngarðsbroti vestur við mýrarvikið, sem nær lengst upp að fjallinu” er svonefnd Hellisbrú, vegur yfir endilanga mýrina framhjá og uppfrá Helli. Þessi gata var lögð 1843 og er því eitt elsta unna vegagerðin á landinu. Um var að ræða hreppsvinnu, sem bændur voru reyndar mjög latir við að vinna.
Hleðsla undir steini við elstu þjóðleiðina undir IngólfsfjalliUm Saumakonuhelli sagði Árni að hvorki væri um eiginlegan helli né skúta að ræða. Hann væri vik milli steina, skjól með veggi á tvo vegu og vel gróna dæld á milli. Staðurinn væri ekki auðfundinn, en Sigurður (heitinn) á Tannastöðum hefði vísað honum á hann. Saumakonuhellirinn væri svo til beint upp af og nokkuð fyrir ofan steinþróna við Fjallslækjarlindina (6357878-2100059).
Þegar vettvangurinn í heild var skoðaður komu fleiri en einn staður til greina; tveir þó fremur öðrum. Lýsingin þótti þó helst passa við stórsteinabil ofarlega í neðanverðri hlíðinni (sjá mynd).
Þá var komið að því að setjast niður og gaumgæfa. Í munnmælasögunni er Sængurkonusteinn sagður austan við Fjall. Þar er á og að vera Saumakonuhellir. Stutt er þar á millum, reyndar í öfugri röð. Aðkomukonan er sögð hafa hitt fyrir vinnukonur í Saumakonuhelli, haldið för sinni áfram og lagst fyrir í Sængurkonuhelli. Skv. þjóðsögunni ætti Sængurkonuhellir að vera þar sem nú er sumarbústaður undir klettadröngum eða jafnvel svolítið austar, þó ekki of langt frá Fjalli.
Ætlunin er að gaumgæfa svæðið nánar fljótlega og þá reyna að fá Árna Erlingsson með í för. Skv. þjóðsögunum, sem jafnan hafa haft sannfærandi skírskotun, mætti ætla að “sögusviðið” væri austan við Fjallsrústirnar, þ.e.a.s. ef þær eru sögusvið hins forna “í Fjalli”.
Þótt fyrir liggi greinargóðar lýsingar og rándýrar fornleifaskráningar er staðsetning hinna ýmsu sögulegu örnefna eða minja engu nærri hinum venjulega áhugamanni um slík efni – því miður – og það þrátt fyrir möguleika á nákvæmum staðsetningum, t.d. í SARPi. Ljóst má vera að aðkoma áhugafólks um söfnun og staðsetningu slíkra upplýsinga myndi auka áreiðanleika og verðgildi slíks gagnabanka margfalt. Þá myndu líkur á varðveislu aukast til muna sem og minnka líkur á eyðileggingu, t.d. verktaka, vegna ókunnugleika.
Hér var um frumgönguferð FERLIRs um svæðið að ræða. Endanlegt markmið er jú að reyna að varpa ljósi á mögulegar “staðsetningastaðreyndir” þess sem getir hefur verið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Huld I, 1890-1898, bls. 52.
-Örnefnalýsing fyrir Laugarbakka.
-Fornleifaskráning í Ölfusi.
-Árni Erlingsson, Selfossi.

Álitlegur Sængurkonuhellir austan við Fjall