Búri
Þá var lagt af stað í Búra, enn og aftur. Að þessu sinni var tilgangurinn að þjálfa og undirbúa nýliða til að takast á við væntanlega hellaferð í Goðahraun. Aflóga vegstikur voru gripnar upp á leiðinni. Framlag Vegagerðarinnar til undirheimanna. Ætlunin var færa stikurnar í endurnýjun lífdaga, þ.e. nota þær til merkinga í Búra.
Gengið um fordyri BúraEkið var eftir slóða upp á Búrfell. Fálki tók sig á loft og fleytti vangdýfur til vesturs. Tignarleg sjón. Afturendaleifar á hæsta steini benda til þess að hann eigi sér makahreiður í björgunum neðanverðum. Frá efstu brún Búrfells var fetuð gata norðvestan og niður með fellinu að Ólafskarðsvegi, gengið þvert yfir hann að jarðfallinu, sem geymir op hellisins.
Annars ósnertur mosinn umhverfis geymdi spor þriggja manna – engin spor lágu til baka.
Bakpokar voru geymdir upploftis, hundar bundnir og allt skilið eftir, sem ekki var beinlínis þörf fyrir. Mittismál allra þátttakaenda uppfylltu ströng skilyrði áframhaldsins.
Búraopið er slíkt að skilyrða þarf að gæta; fætur niður, hægri handleggurinn niður og sá vinstri upp, snúningur og niðurdráttur. Með því lagi einu er hægt að komast niður í ískjallarann; fordyri Búra. Þar neðan við var sett upp stika með glitmerki Sparisjóðs Reykjavíkur. Sérstakur styrkur af hans hálfu var afþakkaður vegna áhugaleysis um að koma nýjungum á framfæri við viðskiptavini sína, þ.e. pappírslaus greiðsluseðlaviðskipti í gegnum rafnrænan heimabanka samviskusamlegra viðskiptavina hans. Þörf áminning í myrkrinu.
Gengið um hrunhluta BúraFordyrið klikkar aldrei. Þrátt fyrir að dagar grýlukertanna væru taldir þetta sumarið stóðu klakadrílin enn undir nafni. Leiðin var fetuð milli þeirra – og upp hrunið að handan. Þegar inn fyrir þrengingu þar var komið hélt gangan áfram ofan á fyrrum loftum hins víðganga Búra; þrenging, gengið niður á við, upp á við, þrenging og haldið niður á við. Þarna var sett stika, enda hefur reynslan sýnt að ekki er alltaf auðvelt að finna þröng opið í bakaleiðinni. Úr þeirri áttinni hverfur það í skriðu. Stika var sett við þrenginguna til að koma í veg fyrir að beinagrindur kunni að finnast þar í framtíðinni.
Haldið til vinstri og niður á við. Í bakaleiðinni gleymist þessi sýn gjarnan – því þá þarf að fara til hægri og upp á við. Allt slíkt er mikilvægt að leggja á minnið þegar gengið er um hellarásir. Búrarásin er tiltölulega auðveld, enda ekki um aðrar leiðir að velja, en rétt að nýta  tækifærið til að þjálfa nauðvirkileg neðanjarðarskilningarvitin.
Hér í frá, líkt og áður, þarf að gæta vel að því hvar stigið er niður. Ennisljósin eru nauðsynleg í Búra sem og handlukt að auki.
Búri - að endinguEftir allnokkurt ferðalag um jafnfallið hraun úr loftum er komið að sléttum gólffleti. Lofthæðin er um 20 metrar og breiddin um 12 metrar. Héðan er hægt að fara með veggjum og ganga þvert milli þeirra á sléttu gófinu. Framundan er ein myndarlegasta hraunrás norðan Alpafjalla; jafnsléttir veggir, brúnleitir, alsettir smáum”gaseggjum”. Þá lækkar rásin í tvennum skilningi; annars vegar lækkar lofthæðin og hins vegar lækkar gólfið. Lítill haunfoss er á skilunum. Frá honum er stutt að Svelgnum, um 18 metra djúpum hyl innst í rásinni. Lengra verður ekki farið að sinni án sigbúnaðar. Sjá má leifar festinga sem Björn Hróarsson og félagar notuðu þegar þeir sigu fyrstir manna í Svelginn (sjá stórvirkið “Íslenskir hellar” eftir BH). Rautt glitmerki Hellarannsóknarfélagsins er við mörkin til marks um endimörk rásarinnar. Stiku var bætt um betur.
Ferðin inn eftir þessari tæplega kílómetralangri hraunrás hafði tekið u.þ.b. 30 mínútur. Ferðin til baka tók svipaðan tíma, með staldri við áhugaverðar hraunmyndanir, þökk sé fyrrum vegstikunum.
Sá, sem ætlar að ferðast um Búra, ætti að gefa sér a.m.k. 3 klst til þeirrar ferðar. Bæði þarf að fara mjög varlega í hrunum, sem varða 3/4 rásarinnar, og þá er að mörgu að hyggja á leiðinni. Góður ljósabúnaður er því og nauðsynlegur.
Þegar komið var upp úr rásinni barst söngur lóunnar á móti þátttakendum, heitkennt sumarloftið og vindurinn hafði þegar lagst til hvílu þetta kvöldið. FRÁBÆRT.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

Búri

Búri.