Eimuból

Gengið var að Hásteini þar sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður í Strandarkirkju, tók á móti þátttakendum. Með í för var einnig Guðmundur G. Þorsteinsson, hellafræðingur með meiru.

Áni

Áni – fjárhellir.

Kristófer vísaði m.a. á Svarthól, sem er þarna vestan við Hástein (Hásteina). Undir Svarthól eiga að vera tóttir. Ætlunin er að skoða þær síðar. Þá lýsti hann landamerkjum og fl. með vísan til væntanlegra selfunda á og við Selvogsheiði. Þessi ferð var sérstök að því leyti að ætlunin var að finna nokkra staði, sem hingað til hafa ekki verið merktir inn á kort og aðeins örfáir núlifandi menn vita hvar eru.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var eftir leiðarlýsingu Snorra með stefnu til norðausturs að Hnúkunum, en þar undir brekkunum, u.þ.b. kílómeter ofan við Háststein, átti Bjarnastaðaból að vera. Það reyndist líka vera þar. Uppi á og vestan undir hól áður en komið var að efsta hólinn undir brekkunum var stórt sel með allmörgum tóttum. Hlaðinn stekkur var vestan af selinu, einnig á hól.

Þorkelsgerðissel

Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Suðvestan við Bjarnastaðaból, í svipaðri fjarlægð frá Hásteini, í norður frá honum, var gengið fram á Þorkelsgerðisból, einnig stórt sel með mögum tóttum.
Stekkurinn var á hól skammt norðan við selið. Á kortum hefur Þorkelsgerðissel ranglega verið sýnt norðan til við Vörðufell, nálægt Eimubóli.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel.

Línan var tekin norður fyrir Vörðufell, um tveggja kílómetra leið, þar sem komið var að Eimubóli. Tóttirnar eru austan við stórt gróið jarðfall, en í því eru hellisop til suðurs og norðurs. Hlaðinn gerður er ofan og umhverfis opið. Í öðru jarðfalli skammt sunnar er gömul tótt og kví. Hellir þar í suður hefur verið notaður sem fjárhellir. Hleðsla er inn í honum miðjum. Op er upp úr þeim helli skammt sunnar. Að sögn Guðmundar eru Eimuhellar, eða Eimuhellir því um eina sundurslitna hraunrás er að ræða, um 400 metrar í heildina. Norðan við stóra jarðfallið er hlaðinn stekkur og einnig er hlaðinn lítill stekkur ofan á syðsta opinu, ofan við fjárhellinn.
Tóttir eru skammt austan við Eimuból, Vindássel. Landamerki Eimu og Vindáss liggja í vörðu syðst á Vörðufelli og í vörðu á Hellholti. Frá Vindásseli mátti vel sjá gömlu réttina ofan á Vörðufelli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg

Gengið var að Einbúa vestan Vörðufells. Um 200 metrum vestan við hólinn er gróið jarðfall. Niður í því er gamalt tófugreni. Guðmundur kannaði hraunrás, sem þar er og virtist hún ná eitthvað til norðurs og einnig til suðurs. Rásin mun verða skoðuð nánar síðar. Botninn í rásinni er hrjúfur. Loftið innan við munnann stendur á hraunsúlum.
Þá var gengið til norðurs í átt að Hraunhól í mið Svörtubjörg, vestan við Hellholt. Á meðan aðrir leituðu að tóttum, sem áttu að vera þar í slakka miðsvæðis, en þó vestar, kíkti Guðmundur í Bólið, helli austan í Hellholti. Við opið er lítil tótt og inni í hellinum eru litlar hleðslur. Í leiðinni var litið ofan í hraunrás suðvestan Hellholts, en hún reyndist vera um 10 metra löng.
Eftir nokkra leit fannst tóttin, sem nefnd hefur verið Strandarsel uns annað vitnast. Stór varða er á hæð austan við tóttina og liggur gömul leið úr suðri í átt að vörðunni, en sunnan hennar beygir gatan til vesturs að selinu. Suðvestan við tóttina er fallega hlaðinn stekkur.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Gengið var í átt að Hlíðarborg, en þar sunnan borgarinnar átti skv. lýsingu að vera önnur hlaðinn fjárborg, svonefnd Valgarðsborg. Hún var þar líka, hringlaga og hefur verið allnokkuð mannvirki á sínum tíma.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Svo gerðist hið furðulega. Á leið frá Valgarðsborg að Hlíðarborg í norðvestri gengu þátttakendur fram á stórt sel. Það er að öllum líkindum Hlíðarsel, en bein sjónlína er að frá selinu að bænum Hlíð norðan við Hlíðarvatn. Selið er efst í brúninni í austur séð frá Hlíð.
Skammt norðan við selið, handan girðingarinnar, er Hlíðarborg, mikið mannvirki vestan undir háum hraunhól.
Frá Hlíðarborg var gengið að hellinum Ána, en við op hans eru talsverðar hleðslur. Ennig er hlaðinn lágur garður skamma leið til suðurs frá hleðslunum.
Loks var haldið yfir að Vogsósaseli, sem er skammt austan við Vogsósaréttina. Selið eru tvær tóttir efst á hraunhrygg sunnan Vatnaása.

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.