Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst “snillingur í öllum handtökum”. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að “upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.” Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.” segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið “frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.