Færslur

Innstidalur

Gengið var Sleggjubeinsskarð á milli Skarðsmýrarfjalls og Húsmúla og inn Innstadal að Vörðu-Skeggja. Farið var yfir hrygginn niður í Marardal, gengið þaðan í Múlasel (sæluhús) í Engidal og meðfram Húsmúla með viðkomu að Draugatjörnum.

Innstidalur

Innstidalur.

Innstidalur er innilyktur af Henglinum, grasi gróinn að miklu leyti og fallegur umgöngu. Innst í honum er hver og heit laug. Hverinn er einn af mestu gufuhverum landsins. Útilegumannahellir er í klettunum.
Allnokkru norðar niðurundir Skeggja er Marardalur. Dalur þessi er umluktur hömrum á alla vegu, gróðursæll og marflatur í botninn eftir framburð lækja úr fjallinu. Í honum er haglendi gott enda notaður til beitar fyrir geldneyti hér áður fyrr. Innst í dalnum er hellir, en um hann má lesa í útilegumannasögum. Grjótgarður, sem hlaðinn hefur verið fyrir eina sæmilega útganginn úr honum sunnanverðum, ber vitni um þetta. Þetta eru nautaréttir, sem lögðust af 1860. Syðst gengur þröngt gil vestur úr dalum.

Engidalur

Engidalur – kort.

Engidalur er grösugur og mýrlendur. Úr norðri kemur Engidalshvísl, sem er samsafn lækja úr vesturhlíðum Hengils. Hana er oftast hægt að stikla. Við suðurenda Þjófahlaups, vestan Engidalshvíslar er nýlegt hús sem Orkuveita Reykjavíkur á. Það er til afnota fyrir gesti og gangandi sem gera vilja stuttan stans á leið sinni um svæðið. Austan árinnar, langleiðina uppi við Hengil, rís upp úr grónu landinu sérkennilegur klettadrangur sem minnir á risavaxna höggmynd af skepnu einni mikilli og er vel þess virði að staldra við og skoða.

Þjófahlaup

Þjófahlaup.

Leiðin lá norður með Þjófahlaupi eftir dal eða lægð vestan undir Hengli. Við Draugatjörn er sæluhúsatótt. Elstu heimildir um hana eru frá 1703. Þá er þar Húsmúlarétt vestan tjarnanna, gömul rétt hlaðin úr hraungrýti. Mikill draugagangur var jafnan í og við sæluhúsið og mun vera enn.Í leiðinni var litið á Hellukofann á Hellisheiði, við gömlu þjóðleiðina. Hann var hlaðinn 1830 og stendur enn.
Frábært veður – Gangan var löng, en eftirminnileg – 4 klst og 44 mín.

Marardalur

Marardalur.

Draugatjörn

Gengið var um Bolavelli og Nautastígur rakinn að hluta undir rótum Húsmúla. Þá var reynt að staðsetja svonefndan Bolastein, sem virtist hafa “gufað upp” í minnum manna.
SvæðiðSaga er tengd steininum, en hafa ber í huga að sögur verða stundum til vegna kennileita, en ekki þrátt fyrir þau. Nafngiftir tengdar nautahaldi undir Henglinum eru nokkrar, s.s. Bolaöldur og Bolavellir. Naut voru og höfð í Engidal (Nautadal) og/eða Marardal.
Í sögunni um Skeiða-Otta segir að “Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um [hann] og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana. Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði boli sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram”.
Búasteinn við Öxnaskarð (Hellisskarð)Bolavellir eru nálægt Draugatjörn, vestan undir Húsmúla og sunnan Engidalskvíslar. Bolaöldur er vestar, á sýslumörkum. Norðurvellir eru á millum. Nautastígur er leiðin úr Nautadal og út á Norðurvelli. En hvar skyldi Bolasteinn vera nákvæmlega?
Í enskum texta um reiðleiðir á þessu svæði segir m.a.: “Kolviður á Vatni learned that Búi was heading to Iceland and spied on him. He rode with twelve men to attack him by means of ambush in Öxnaskarð Pass above Kolviðarhóll Hill. They waited by a rock, near the track, which is now called Bolasteinn or Bull’s Rock. Búi spotted the ambush in the pass and rode towards a huge rock; he had the rock to his back so that no one could approach him from behind.”
Í Kjalnesingasögu segir frá því þegar Kolviður á Elliðavatni sat fyrir Búa Andríðarsyni undir Hellisskarði og vildi drepa hann þar sem þeir vildu báðir eiga sömu stúlkuna. Búi varðist vel þar sem síðan heitir Búasteinn og drap Kolvið og menn hans alla en Kolviðarhóll heitir síðan eftir honum.
Sæluhúsið (tóft) við DraugatjörnSkv. framangreindu virðist Búasteinn ekki hafa verið alllangt frá Bolasteini.
Bolasteinar eru víðar um land. Sá, sem næst er fyrrgreindum steini, er stór steinn við Hjalla í Ölfusi. Í örnefnalýsingu segir: “þjóðsaga – Á grænni flöt vestan við [Bolasteins]rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina.” Þessi tilgreindi steinn er við bithaga.
Hverfum nokkrar línur frá efninu. Þegar minnst er á fornar götur á Hengilssvæðinu er helst að nefna Hellisheiðarveg. Þjóðvegur milli Reykjavíkur og Suðurlands lá lengi vel um Hellisheiði – og gerir enn. “Hinn forni þjóðvegur milli Árnessýslu og Mosfellssveitar lá úr Ölvesi upp Kamba. Af Kambabrún vestur Hellisheiði og svo um Hellisskarð, norðaustan megin
við Reykjafell, sem er fyrir ofan Kolviðarhól. Þaðan síðan um Bolavelli og vestur meðfram Húsmúla.”
Garður vestan DraugatjarnarGengið var með Húsmúlanum og hinn forni vegur rakinn. Hann greinist á nokkrum stöðum, bæði austan Draugatjarnar og norðan. Austurgatnamótin eru við forna sæluhúsatóft og norðurgatnamótin eru suðvestan Húsmúlahorns – þar sem Nautastígur kemur inn á Bolavellina úr Nautadal (Engidal/Marardal). FERLIR hafði fengið fregnir af enn eldri sæluhúsatóft uppi í vestanverðum Húsmúla. Við leitina komu nokkrir staðir til greina, en enginn óyggjandi.
Þegar staðið var uppi í Húsmúla mátti vel sjá hina fornu leið varðaða áfram frá sunnanverðri Draugatjörn áleiðis að Lyklafelli. Einnig elsta akveginn skammt sunnar. Vegur sá var lagður sumarið 1877 og 1878. Þetta var grjóthlaðinn vegur, 10 feta breiður, upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Um var að ræða tímamótaframkvæmd því á þessum tíma var gatnagerð á Íslandi næsta því óþekkt.
Og þá aftur að Nautastígnum, sem ætlunin var að rekja. Í örnefnalýsingu segir að “inn í útsuðurhlíð Hengilsins gengur Engidalur. Er hann á milli Marardals og Húsmúlans. Í Engidal er Nautastígur. Nautastígur var leiðin úr Nautadal og út á Norðurvelli, sennilega á svipuðum slóðum og nú er merkt gönguleið er nú meðfram Engidalsá.” Minjar um akveginn 1877-1878 um Svínahraun
Stígurinn dregur nafn af því að nautgripir Ölfus- og Grafningsmanna voru geymdir í Engidal og á Bolavöllum þar vestan við. Hann er vel greinilegur enn í dag. Í raunininni er ekki um að ræða einn stíg heldur nokkra samhliða. Á köflum greinist hann í hliðarstíg, jafnvel nokkra, en við sjónhendingamörk verður hann aftur að sjálfum sér. Strangt tiltekið liggur “merkta gönguleiðin” því ekki alltaf í stígnum.
Á göngunni var bæði komið við í Húsmúlaréttinni suðvestan Draugatjanar og sæluhúsinu austan hennar. Húsmúlarétt telst til menningarminja á Hengilssvæðinu. Rétt þessi var notuð langt fram á 20. öld. Ekki er vitað með vissu hvað hún er nákvæmlega gömul. Réttin er hlaðin úr hraungrýti, sem og langur einhlaðinn grjótgarður vestan og norðan hennar. Líklega er um að ræða hluta af túngarði hér á árum áður, eða engi frá Kolviðarhóli. Sagt hefur verið að Guðni Þorbergsson (f. 1863 – d. 1920) fór að búa að Kolviðarhóli 1895. Stækkaði hann túnið og afgirti stórt land undir suðurhlíð Húsmúlans. Veggurinn er alls 463 metra langur, en nyrsti hluti hann er sokkinn í mýrarfen.
Sæluhúsið hefur verið við Draugatjörn frá fornu fari enda lá “gamla þjóðleiðin” þarna um, hvort sem komið var að vestan frá Lyklafelli eða að norðan frá Húsmúla. Einna elstu heimildir um þetta sæluhús, sem frægt var orðið, eru frá árinu 1703 og þá líka sögur um magnaða reimleika sem áttu sér stað í þessu sæluhúsi. Til forna var þetta sæluhús kallað “Draugakofinn gamli að Norðurvöllum”. Reyndar er sæluhúsið að sunnanverðum Bolavöllum, en FERLIR hefur haft fregnir af enn eldri sæluhúsatóft utan í Norðurvöllum. Ætlunin er að reyna að staðsetja hana þegar tími gefst til. Samkvæmt ferðabók Sveins Pálssonar frá árinu 1793 segir m.a. um sæluhúsatóftina (líklega er átt við þá við Draugatjörn):

Nautastígur

“Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.” Sökum reimleikanna þá var sæluhúsið fært upp á Kolviðarhól 1844. Að Kolviðarhóli var síðan rekið sæluhús/gistihús fyrir ferðamenn frá 1844 og allt til ársins 1952.
En eins og fyrr sagði þá lá gamla þjóðleiðin þarna um. Fjölfarinn en nýrri vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878. Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður bæði vörður við hann og í hrauninu vestan Draugatjarnar. Greinilegir götuslóðar sjást svo á Hvannavöllum um miðja vegu milli Draugatjarnarinnar og Kolviðarhóls. (Hvönn má enn sjá í hólma einum í Draugatjörn).
Skoðum betur fyrirliggjandi upplýsingar. Neðan undir Búasteini er svonefnd áletrun á skilti.: “Búasteinn er talinn hafa nafn sitt af frækilegri vörn Búa Andríðarsonar sem frá er sagt í Kjalnesingar sögu. Búi og Kolfinnur á Vatni (Elliðavatni) höfðu báðir ásælst sömu konuna, Ólöfu hina vænu, dóttur Kols þess er byggði Kollafjörð.” Þá er rakin sögulýsing Kjalnesingarsögu. Í þeim hluta er tengd er steininum segir: “Þá reið Kolfinnur heiman upp til Öxnaskarðs við tólfta mann. Þar var með honum Grímur, frændi hans, og tíu menn aðrir; þeir sátu þar fyrir Búa. Í því bili reið Búi ofan úr skarðinu; hann sá mennina vopnaða; hann þóttist vita, hverjir vera mundi. Búi hafði öll góð vopn; hann var í skyrtu sinni Esjunaut. Búi reið til steins eins mikils, er stóð í skarðinu, og sté þar af hesiti sínum. Þeir hlupu þá þangað til.
Búi hafði haft snarspjót lítið í hendi; fleygði hann því til þeirra; það kom í skjöld Gríms ofanverðan; þá brast út úr skildinum, hljóp þá Varða við gömlu þjóðleiðina áleiðis að Lyklafellispjótið í fót Gríms fyrir ofan hné og þar í gegnum; var Grímur þegar óvígur. Búi sneri þá baki við steininum, því hann var svá mikill sem hamar; mátti þá framan að eins að honum ganga. …Kolfinnur eggjaði sína menn, en hlífðist sjálfur við, því hann ætlaði sér afurð; en þeim var Búi torsóttur, því að þótt þeir kæmi höggum eða lögum á hann, þá varð hann ekki sárr, þar er skyrtan tók; en hver sem hann kom höggum á, þá þurfi eigi um at binda.”
Við Kolviðarhól er skilti: “Um aldir hefur þjóðleið milli vesturhluta Árnessýslu og Kjalarnesþings legið um Hellisheiði. Á svo langri langri leið var nauðsyn að hafa sæluhús og var hið fyrsta sem heimildir frá 1703 geta um við Draugatjörn. Um 1800 fór að kveða svo hart að draugagangi í sæluhúsinu að margir veigruðu sér við að gista þar og því var byggt timburhús á hlöðnum sökkli hér á Kolviðarhóli árið 1844. Á þessum tíma voru ekki mörg timburhús á Íslandi og er þessi íburður til marks um mikilvægi leiðarinnar. Húsið rúmaði 24 Skeifa í læk við Nautastígmenn og einnig var skjól fyrir 16 hross. Þrjátíu árum síðar var það að falli komið og árið 1878 var byggt nýtt steinhús á hólnum. Þetta var ein af fyrstu opinberu framkvæmdum sem Íslendingar réðust í eftir að þeir fengu sjálfstæðan fjárhag 1874.”
Og þá að mannvirkjunum við Draugatjörn. Af lýsingum að dæma virðist nafngiftin á tjörninni ekki vera eldra en frá því um 1800 – því áður er ekki getið um draugagang þarna. Tjörnin hafði þó verið í þjóðleið um aldir og því eflaust haft annað nafn, sem nú er glatað. Skilti við sæluhústóftina gefur eftirfarandi upplýsingar: “Við Draugatjörn hefur staðið sæluhús frá fornu fari. Það er frægt, bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru mum hé rá landi en ekki síður fyrir magnaða reimleika sem að lokum urðu til þess að húsið var fært upp að Kolviðarhóli 1844. Sveinn Pálsson lýsir húsinu í ferðabók sinni 1793 og segir þar m.a.: “Margir hafa dáið í þessum kofa því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda”. Gamla þjóðleiðin lá hér um og var fjölfarin, en nýr vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878.

Varða við gömlu þjóðleiðina milli Kolviðarhóls og Reykjavíkur

Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður í hrauninu vestan Draugatjarnar. Enn fremur sjást greinilegir götuslóðar á Hvannavöllum um miðja vegu minni tjarnarinnar og Kolviðarhóls.” Þá er rakin ein draugasagan: “Til er draugasaga sem segir frá Grími bónda á Nesjavöllum [langafa Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands] laust eftir aldarmótin 1800. Grímur þessi var annálaður þrekmaður og refaskytta góð. Hann var ríðandi á heimleið úr kaupstað en neyddist til að dvelja næturlangt í sæluhúsinu. Þar var þó enginn svenfriður vegna draugagangs: “Var mesti ys og þys inni, eins og þar væri fjölmenni í sífelldu iði. Virtist honum, sem sumt af þessu fólki væri þarna komið til að sækja gleðskap, og var mikið talað og dátt hlegið, en ekkert sér Grímur eða finnur. Starir hann út í myrkrið lengi vel. Loks sýnist honum bregða fyrir eldglæringum úti í því kofahorninu, sem fjærst honum var, og er hann horfir betur, sér hann tvo lýsandi depla, líkasta glóðarkögglum. Urðu þeir brátt eins og mannsaugu, og var sem þrútnar æðar greindust um augnhimnurnar. Grímur einblínir á þetta nokkra stund, en þá fóru augun að færast fjær honum og störðu á hann mjög illkvitnislega. Grímu tókst að lokum að flýja sælihúsið við illan leik en sturlaðist og varð aldrei samur.
Á fyrri hluta 19. aldar gisti Sigurður Breiðfjörð, rímaskáld í sælhúsinu ásamt nokkrum öðrum. Mennirnir urðu varir við draugagang og miklar eldglæringar og varð ekki svefnsamt af þeim sökum. Um dvöl þessa orti Sigurður nokkrar vísur og þar á meðal þessa: Inni á bálki einum þar – undum lengi nætur. Við hurðarloku hringlað var – hrukkum þá á fætur. Leit ég eina ófreskju – á mig hélt ‘ún rynni. Hvarf í eld og eimyrju – undir kveðju minni.”
Bolasteinn? á BolavöllumUm Húsmúlaréttina segir á nálægu skilti: “Rétt þessi var notuð fram á 20. öld en ekki er vitað hvað hún er gömul. Réttin var notuð til rúnings og sem aðhald í haustleitum en ekki hefur hún rúmað stórt fjársafn. Í gömlum munnmælum segir að Mosfellingar og Ölfusungar hafi haft sameiginlegan afrétt en þeirri samvinnui lokið er deilur komu upp og lauk með orrustu sem Orrustuhóll uppi á Hellisheiði dregur nafn sitt af. Ekki er þó víst hvort atburðurinn átti sér stað í raun og veru.” Við þetta má bæta til fróðleiks að “herindýr voru flutt til Íslands frá Noregi á síðari hluta 18. aldar. Fram á 19. öld var hreindýrahjörð á Reykjanesskaga og þvældust þau oft þaðan upp á Mosfellsheiði og í Hengilinn. Er jafnvel talið að dýrin hafi skipt þúsundum þegar mest var. Undir 1900 hafði þeim fækkað verulega, bæði vegna ofveiði og einnig er talið að dýrin hafi flúið sökum aukinna mannaferða á svæðinu. Síðasta hreindýrið á þessum slóðum var fangað skömmu fyrir 1930 á Bolavöllum, skammt sunna við Húsmúlaréttina. Var það vesæl og gömul kýr, aflóga af elli, tannlaus og kollótt. Hafði hún um nokkurt skeið þvælst um ein sinnar tegundar með fjárhóp. Þar með lauk sögu hreindýra á Reykjanesskaga.”
Og þá loks að upphaflegum tilgangi gönguferðarinnar – leitina að Bolasteini. Skeiða-Otti kom, skv. sögunni, úr Ölfusi og hélt áleiðis til Reykjavíkur. Nautið er sagt hafa verið við Kolviðarhól. Annað hvort hefur “samræði” þeirra orðið á Hvannavöllum austan Draugatjarnar eða á Bolavöllum norðvestan hennar. Ef átt er við fyrrnefnda staðinn þá er Bolasteinn nær Búasteini og Kolviðarhóli. Ef hins vegar er átt við Bolavelli (sem einhverra hluta vegna hafa fengið það nafn án þess að um bolabeit hafi verið að ræða) þá er rauðleitur bolasteinslaga steinninn á þeim norðaustanverðum hinn eini sanni. Dæmi hver fyrir sig.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

PS. Í þessari umfjöllun var ákveðið að segja ekkert miður ljótt um Hellisheiðarvirkjun og þá miklu sjónmengun er af henni stafar – enda yrði lýsingin þá a.m.k. helmingi lengri.

Heimildir m.a.:
-http://home.online.no/~mblarse/images/AroundVolcano.doc
-Örnefnalýsing fyrir Hjalla í Ölfusi.
-Kjalnesingasaga
-http://notendur.centrum.is/~ate/husmuli.htm

Húsmúlarétt

 

Hellisheiðarvegur

Ætlunin var að rekja gamla Hellisheiðarveginn (elstu göngu- og reiðgötuna) frá Lyklafelli upp í Hellisskarð. Áður hafa tvær götur verið raktar frá Elliðakoti upp fyrir Lyklafell og auk þess Dyravegurinn frá Lyklafelli að Nesjavöllum.
HellisheiðarvegurGatnamót Hellisheiðarvegar og Dyravegar eru skammt ofan við Lyklafell. Þar er vegurinn greinilegur þar sem hann liggur upp brekku til austurs og síðan liðast hann austur Norðurvelli, upp að Bolavöllum og beygir til suðurs undir Húsmúla. Vörðuð leið er vestar. Þar mun hafa verið um vetrarveg að ræða, sem sennilega hefur verið varðaður 1878. Sú leið er styttri frá Draugatjörn að Lyklafelli, en torfarnari þegar jörð er auð.
Skammt sunnar á heiðinni er svonefndur Sýslusteinn. Kíkt var á hann í leiðinni.
Þegar skoðaðar eru fornleifaskráningar af svæðinu kemur glögglega í ljós að Hellisheiðarvegur hinn forni er ekki talinn til fornleifa því hans er ekki getið – þrátt fyrir að vera auðrakinn svo til alla leiðina.
KortSem fyrr sagði liggur
Hellisheiðarvegur upp á Norðurvelli og áfram um Bolavelli norðanverða. Við suðvestanverðan Húsmúla liðast gatan um grasgrónina og er víðast mjög greinileg. Þó hefur vatn grafið hana umtalsvert niður í seinni tíð. Afleggjari (sennilega svonefndur Nautastígur) liggur síðan svolítið upp í Múlann gegnt Draugatjörn og um Mógil. Austan þess beygir gatan áleiðis að Kolviðarhól sunnan Sleggjubeinsdals, áleiðis að Hellisskarði. Varða er efst í skarðinu.
Skv. lýsingu mun Hellisheiðarvegur hafa legið upp að sunnanverðri Draugatjörn og síðan áfram áleiðis að Kolviðarhóli og áfram upp Hellisskarð. Á þeim kafla hefur nánast alveg gróið yfir veginn.
Sýslusteinn“Hellisheiðarvegur hefur verið fjölfarinn fjallvegur um aldaraðir, í dag þegar við ferðumst um í heitum, öruggum bílum okkar er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar hafa þurft að leggja á sig til að komast á milli staða. Á þessum fjallvegum var oft háð barátta upp á líf og dauða, enda voru mannskaðar á Hellisheiði tíðir. Ekki er hægt að segja með vissu hversu margir hafa dáið á ferð sinni um Hellisheiði. Engar heimildir eru til um mannskaða fyrir lok 18. aldar. Ónákvæmar ritaðar heimildir og frásagnir af mannsköðum eru að finna í annálum. En oft var staðsetning þessara mannskaða ekki nákvæmari en svo að í heimildum var skráð, að þetta margir menn hefðu orðið úti á Suðurlandsfjórðungi, svo dæmi séu tekin. Hér er ein stutt dæmisaga um ferðalög um Hellisheiði.

Hellisheiðarvegur

Um miðja 19. öld fóru þrjár manneskjur úr Ölvesi á grasafjall vestur á Hellisheiði og í Hengladali. Fólk þetta var bóndinn á Hvoli, unglingspiltur og kerling ein við aldur, er um fjölda ára hafði farið til grasa á þessar stöðvar. Þau voru þrjá sólarhringa í ferðinni og lágu við tjald. Kvöld eitt, er þau komu í tjaldstað, hafði bóndinn með sér gamlan göngustaf um tveggja álna langan, snjáðan mjög og feyskinn. Kvaðst hann hafa fundið stafinn, reistan upp við hraunskúta þar allfjarri. Kerling spurði bónda, hvort hann treysti sér að finna staðinn, þar sem stafurinn hefði verið. Hann kvaðst mundu geta það. Fýsti kerlingu mjög að fara þangað, og varð það úr, að þau fóru öll og fundu staðinn. Er þau litu inn í hraunskútann, sáu þau aflanga mosahrúgu. Þau hrófluðu við henni; kom þá í ljós, að undir henni var mannsbeinagrind, en mosahrúgan hafði með tíma og árum myndast ofan á þeim. Voru nú beinin tínd upp í poka og flutt fram í Ölves og nokkru síðar grafin í Arnarbæliskirkjugarði á messudegi.

Hellisheiðarvegur

Nóttina eftir að beinin voru grafin, dreymdi bóndann á Hvoli, sem fann þau, að maður kæmi til hans. Kvaðst hann vera sá, er beinin átti, þakkaði bónda fyrir að hafa flutt þau í vígða mold. En um leið otaði hann fram öðrum fætinum og kvartaði um, að þar vantaði fremsta köggulinn á stóru tána. Í þrjár nætur dreymdi bóndann sama drauminn, og bar draumamaður sig mjög illa. Sagði þá bóndi drauminn kerlingunni, er með honum var, þegar beinin fundust. Kerling ráðlagði honum að fara vestur á heiðina, þar sem beinagrindin hafði legið, og leita köggulsins, og það gerði bóndi. Eftir nokkra leit fann hann beinið og hafði heim með sér. Þegar næst var messað í Arnarbæli, hafði bóndinn köggulinn með sér í vestisvasa sínum. 

Varða

Þegar messan var úti, laumaði hann köggulinum svo lítið bar á ofan í nýorpið leiði. Eftir það gerði sá dauði ekki vart við sig.
Var nú spurn haldið fyrir um, hver sá hefði verið, er þarna hafði beinin borið. Var það hald flestra, að þau væru af manni, er úti varð á heiðinni fyrir 36 árum og var úr Biskupstungunum. Samkvæmt því hefur það gerst á áratugunum 1820 til 1830.”

Elsti akvegur Hellisheiðarvegar er skammt suður af gömlu götunni gegnt Húsmúla. Hann er að stofni til frá 1894-57 og upphlaðinn á köflum. 

“Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar
á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.” segir í örnefnaskrá.
“Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður (061), og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum.” segir í Austantórum.

Varða

“Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. . Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksvegur

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í
Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.” segir í Landnámi Ingólfs 2.
HellisheiðarvegurSamkvæmt Birni Pálssyni var aðhald fyrir hesta sérstaklega hlaðið upp við Eiríksveg fyrir þá sem hlóðu veginn.
Eiríksvegur sést greinilega víða, t.d. í Hrauntungu þar sem ný íbúðabyggð á að rísa. Vegurinn sést koma undan núverandi þjóðvegi og liggur, þráðbeinn til ASA yfir allt hið væntanlega íbúðahverfi. Girðing afmarkar nú svæðið í Hrauntungu en Eiríksvegur liggur áfram ASA við suðurhlið hennar í um 200 m áður en hann fjarar út skammt norðan við. Vegurinn liggur um mosavaxið hraunlendi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: “Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og Hellisheiðarveguróvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 “hárnálarbeygjur” á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.” segir í Landnámi Ingólfs.
Í Lýsingu Ölvershrepps frá 1703 [í Sýslu- og sóknarlýsingum] segir m.a.: “Fyrir austan … SæluhúsiðBæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellisheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis.”  Þar segir ennfremur í lýsingu frá 1840: “Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.” “Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, Hveragerði og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Húsmúlarétt

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.” segir í Sögu Kolviðarhóls.

Á skilti við Húsmúlarétt stendur eftirfarandi:
“Rétt þessi var notuð langt fram á 20. öld en ekki er vitað hvað hún er gömul. Réttin var notuð til rúnings á vorin og sem aðhald í haustleitum en ekki hefur hún rúmað stórt fjársafn. Af afrétti Ölfushrepps, sem þetta svæði tilheyrir, gekk fé úr fleiri hreppum.
Í gömlum Hellisskarðmunnmælum segir að Mosfellingar og Ölfusingar hafi haft sameiginlegan afrétt en þeirri samvinnu lokið er deilur komu upp og lauk með orrustu sem Orrustuhóll uppi á Hellisheiði dregur nafn sitt af. Ekki er þó víst hvort atburðurinn átti sér stað í raun og veru.”

Á skilti við sæluhúsið við Draugatjörn stendur eftirfarandi m.a.:
“Við Draugatjörn hefur staðið sæluhús frá fornu fari. Það er frægt, bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um hér á landi, en ekki síður fyrir magnaða reimleika sem að lokum urðu til þess að húsið var fært upp á Kolviðarhól 1844.
Sveinn Pálsson lýsir húsinu í ferðabók sinni 1793 og Laskaður garðursegir m.a.: “Margir hafa dáið í þessum kofa því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. “Gamla þjóðleiðin lá hér um og var fjölfarin en nýr vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878. Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður í hrauninu vestan Draugatjarnar. Enn fremur sjást greinilegir götuslóðar á Hvannavöllum um miðja vegu milli tjarnarinnar og Kolviðarhóls.”

Þegar FERLIR var á ferð við Húsmúlaréttina mátti sjá hvar hlöðnum garði, almenningi, vestan við hana hafði verið raskað – og það verulega, sennilega með vélskóflu.

Norðurvellir heita grasvellirnir nyrst og næst Lyklafelli og Bolavelli austast norðvestan Húsmúla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Kolviðarhóls eftir Skúla Helgason, Myndir AÞE; Júlí 2006.
-centrum.is
-Fornleifaskráning v/Hellisheiðarvirkjunnar, Fornleifastofnun Íslands.
-Fornleifaskráning í Hveragerði – Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands 2002.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Ölfusrétt

Í Bændablaðinu 2016 segir Ólafur R. Dýrmundsson frá Ölfusréttum:

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur R. Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

“Það þykir gjarnan fréttnæmt þegar ný og vönduð mannvirki eru tekin í notkun, ekki síst lögréttir sveitarfélaga, svo sem öðru hvoru er greint frá hér í Bændablaðinu og öðrum fjölmiðlum.

Gamlir siðir og hefðir
Íslenska fjallskilakerfið sem felur í sér nýtingu víðáttumikilla sumarbeitilanda, göngur og réttir á haustin og notkun eyrnamarka fyrir allt sauðfé, er eitt af því fáa sem lítið hefur breyst frá upphafi byggðar í landinu. Allt er þetta hluti af menningararfinum. Sömuleiðis sauðkindin sjálf sem þekkt er fyrir mikla erfðafjölbreytni, svo sem í litum, fyrir verðmætar afurðir, og síðast en ekki síst, fyrir veigamikið hlutverk í viðhaldi búsetu og mannlífs þjóðarinnar um aldir.
Það er í sjálfu sér verðugt verkefni að skoða til dæmis hvar og hvernig réttir voru reistar um land allt, allt frá litlum sundurdráttarréttum heima við bæi til stórra lögskilarétta sveitarfélaga í samræmi við ákvæði afréttarlaga og fjallskilasamþykkta á hverjum tíma. Enn er þessum gömlu siðum og hefðum haldið við, að mestu óbreyttum, en þó í takti við nýja tíma.

Ölfusið var fjármargt

Hvammur

Hvammur – gamli bærinn.

Sveitarfélagið Ölfus, sem var myndað við sameiningu Ölfus- og Selvogshreppa 1988, hafði innan sinna marka Grafning allt til 1785 og höfðu sveitirnar sameiginlegar lögréttir allt til 1910 þegar Selflatarétt í landi Úlfljótsvatns var vígð. Hún gegnir enn hlutverki sínu og er ein af elstu réttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.
Um langt skeið á meðan réttarhaldið var enn sameiginlegt með Ölfusi og Grafningi, eða allt til 1845, stóðu Ölfusréttir skammt fyrir austan bæinn Hvamm, vestan við innanvert Ingólfsfjall. Í fornöld er talið að Ölfusingar og Suðurnesjamenn hafi réttað sameiginlega við Orrustuhól á Hellisheiði.

Selflatarétt

Selflatarétt – loftmynd.

Hin víðáttumiklu og góðu engjalönd í Ölfusinu tryggðu heyskap í öllum árum, einnig fyrir bændur úr öðrum sveitum. Þar var því löngum fjármargt og vetrarbeit nýttist einnig vel.
Síðustu áratugina hafa þó orðið miklar breytingar á fjárbúskapnum. Þannig var ásett sauðfé í Ölfusi og Selvogi samtals 8.200 kindur haustið 1965, 7.000 haustið 1982, fækkaði hratt á þeim áratug niður í 4.750 haustið 1989 en um árabil hefur fjártalan í sveitarfélaginu Ölfusi verið tæplega 2.000 vetrarfóðraðar kindur. Fjárbúum fækkaði einnig fyrir og um aldamótin en fjöldi þeirra hefur haldist svipaður í seinni tíð.
Þess ber að geta að fyrir 50 árum voru rúmlega 500 vetrarfóðraðar kindur í Hveragerði sem gengu með Ölfusfénu í afrétti en þar er nú fjárlaust.

Lögréttir í Ölfusi og Selvogi

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt – loftmynd.

Rétt er að geta þess að í Sveitarfélaginu Ölfusi eru tvennar lögréttir, annars vegar Selvogsrétt sem lengi hefur staðið við Hlíðarvatn og Ölfusrétt sem nánar verður greint frá hér á eftir.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt neðan Kolviðarhóls.

Sundurdráttarrétt fyrir norðurhluta sveitarfélagsins er og hefur lengi verið við Húsmúla á Hvannavöllum vestur af Kolviðarhóli en þangað var hún flutt frá Draugatjörn nokkru neðar 1967 og endurbyggð 2006. Þar kemur margt Ölfusfé fyrir eftir fyrri gangnadaginn, vestan Hengils, auk fjár frá nærliggjandi sveitarfélögum, einkum úr Reykjavík og Þingvallasveit. Þá kemur töluvert af fé úr Ölfusi fyrir í útréttum, einkum í Selflatarétt í Grafningi og Fossvallarétt í Kópavogi.
Féð úr þeim hluta Ingólfsfjalls sem ekki er beitarfriðaður er rekið að og dregið sundur í Hvammi. Leitir eru tvennar með tveggja vikna millibili, að mestu leyti á hestum, og síðan er farið í eftirleitir eftir þörfum. Í Ölfusrétt er réttað í lok seinni gangnadagsins.

Nýja Ölfusréttin

Ölfusrétt

Ölfusrétt við Hveragerði – loftmynd 1954.  Nú horfin.

Svo sem áður var vikið að stóð lögrétt fyrir Ölfus í Hvammi fram undir miðja 19. öld þegar hún var flutt vestur í Hveragerði. Sú rétt, stór og hlaðin úr hraungrýti, stóð sunnan við gamla Suðurlandsveginn, skammt frá býlinu Hraunbæ, nokkurn veginn þar sem Hótel Örk stendur.

Ölfus

Í Tímanum 1980 er frétt; “Samþykkt að rífa ekki réttirnar – Fyrir nokkru var skrifað um gamlar réttir sem standa fyrir utan bæinn og af þvi máli er helst það að frétta að hreppsnefndin samþykkti nýlega að ekki skyldi rifa þær að sinni, enda eru þær sögulegt mannvirki eins og Sigurður Pálsson komst að orði. Sagðist hann mikla eftirsjá í réttunum frá því þegar réttað var, en nú er búið að reisa fullkomnari réttir í Ölfusinu. Nú kemur helst til greina að einhver félagasamtök taki málið í sínar hendur og kæmi e.t.v. helst í hlut Náttúruverndarráðs Suðurlands, sem hefur aðsetur á Selfossi, að það tæki af skarið og setti nefnd í málið. Sem fyrr segir er kjörið að sá í dilkana og gera gróðurreiti og eins er hægt að koma upp aðstöðu fyrirferðamenn, tjaldstæðum eða því um líku, nema hvort tveggja væri.”

Mörgum er sú rétt enn minnisstæð og mér vissulega því að ég kom fyrst þangað sem einn skilamanna fyrir Kópavog, Seltjarnarnes og Reykjavík um miðjan 6. áratug liðinnar aldar, rétt tvítugur en þó búinn að stunda fjárbúskap í Reykjavík frá fermingaraldri.

Núparétt

Núparétt – loftmynd.

Mér eru enn minnisstæðir ýmsir bændur þess tíma úr Ölfusi og Grafningi sem þar voru, sumir fjármargir. Ýmsum þeirra átti ég eftir að kynnast síðar. Hvergi hef ég fyrr né síðar séð jafn marga ómerkinga í haustrétt.
Næsta Ölfusrétt var byggð töluvert sunnar, niður undir Núpum, vönduð hringrétt með steyptum undirstöðum og timburklæðningu á stálrörum, vígð haustið 1977. Þangað var ánægjulegt að koma sem skilamaður um áratuga skeið. Eftir að girt var norðan Suðurlandsvegar um og uppúr aldamótunum, og landið sunnan hans var beitarfriðað, lokuðust hefðbundnar rekstrarleiðir til réttarinnar. Einnig var hún farin að láta á sjá. Því var ákveðið að byggja nýja Ölfusrétt norðan við Kamba, við mynni Reykjadals þar sem gott er að reka að í lok seinni gangnadags.
Á þessum stað hafði fé reyndar verið rekið saman um árabil og hægt var að nota safngirðinguna með minni háttar breytingum.

Reykjadalsrétt

Ölfusréttin neðan Reykjadals – loftmynd.

Nýja réttin var smíðuð frá grunni úr timbri í fögrum hvammi vinstra megin við hinn vinsæla göngustíg og reiðleið inn í Reykjadal sem tugir þúsundir ferðamanna fara um á öllum árstímum. Hún var vígð í haust, nánar tiltekið sunnudaginn 18. september 2016, í blíðskaparveðri að viðstöddu fjölmenni, þar með erlendum ferðamönnum á leið upp í dalinn. Þar var einnig dregið í sundur útréttafé og seinni rétt var hálfum mánuði síðar. Áætlað er að þarna hafi komið til réttar um 1.000 kindur í haust. Reyndist nýja réttin vel í alla staði.
Um er að ræða hringrétt með 18 dilkum af ýmsum stærðum auk tveggja upprekstrardilka með stillanlegum upprekstrargöngum fyrir flutningatæki af ýmsu tagi því að allt fé er bílflutt úr réttinni. Bílastæði eru mjög rúm og aðkoma með flutningatæki góð að öðru leyti en því að fara þarf á vaði yfir Hengladalaá sem aðeins er brúuð með göngubrú.

Gleði og góð stemning
Við vígsluathöfnina fluttu ávörp þeir Halldór Guðmundsson, réttarstjóri og fjárbóndi í Hvammi, Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss, og Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórnar Ölfuss. Halldór greindi í stuttu máli frá breytingum í réttahaldi í Ölfusi undanfarna áratugi og minntist þess þegar hann fór drengur í sínar fyrstu göngur haustið 1953. Þá var féð mjög fátt eftir fjárskipti til útrýmingar mæðiveiki og fleiri sauðfjársjúkdómum. Gunnsteinn benti m.a. á menningarlegt gildi sauðfjárbúskaparins í sveitarfélaginu og það verðmæta tækifæri sem þéttbýlisbörn o.fl. fengju til að kynnast réttastörfunum á haustin.

Barnvæn rétt
Ölfusrétt
Nýja Ölfusréttin er nokkuð sérstæð. Auk þess að vera þægileg við innrekstur og til sundurdráttar er hún mjög aðgengileg gestum og gangandi. Það á ekki síst við um börnin sem eiga greiða leið að almenningnum, jafnvel án þess að fara inn í hann, því að engir dilkar eru þar sem fólk kemur að réttinni. Þá er utan með réttinni gangur sem kemur sér mjög vel, sérstaklega þegar verið er að reka fé úr dilkum að upprekstrargöngunum. Allir dilkar eru vel merktir með bæjaheitum og bæjanúmerum.” – Dr. Ólafur R. Dýrmundsson

Heimild:
-Bændablaðið, 24. tbl. 15.12.2016, Ölfusréttir – Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 42.
-Tíminn-Byggða-Tíminn 10.09.1980, Samþykkt að rífa ekki réttirnar, bls. 2.

Ölfusrétt

Ölfusrétt við Hveragerði – horfin. Uppdráttur ÓSÁ eftir loftmynd 1954.

Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst “snillingur í öllum handtökum”. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að “upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.” Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.” segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið “frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.