Innstidalur

Gengið var Sleggjubeinsskarð á milli Skarðsmýrarfjalls og Húsmúla og inn Innstadal að Vörðu-Skeggja. Farið var yfir hrygginn niður í Marardal, gengið þaðan í Múlasel (sæluhús) í Engidal og meðfram Húsmúla með viðkomu að Draugatjörnum.

Innstidalur

Innstidalur.

Innstidalur er innilyktur af Henglinum, grasi gróinn að miklu leyti og fallegur umgöngu. Innst í honum er hver og heit laug. Hverinn er einn af mestu gufuhverum landsins. Útilegumannahellir er í klettunum.
Allnokkru norðar niðurundir Skeggja er Marardalur. Dalur þessi er umluktur hömrum á alla vegu, gróðursæll og marflatur í botninn eftir framburð lækja úr fjallinu. Í honum er haglendi gott enda notaður til beitar fyrir geldneyti hér áður fyrr. Innst í dalnum er hellir, en um hann má lesa í útilegumannasögum. Grjótgarður, sem hlaðinn hefur verið fyrir eina sæmilega útganginn úr honum sunnanverðum, ber vitni um þetta. Þetta eru nautaréttir, sem lögðust af 1860. Syðst gengur þröngt gil vestur úr dalum.

Engidalur

Engidalur – kort.

Engidalur er grösugur og mýrlendur. Úr norðri kemur Engidalshvísl, sem er samsafn lækja úr vesturhlíðum Hengils. Hana er oftast hægt að stikla. Við suðurenda Þjófahlaups, vestan Engidalshvíslar er nýlegt hús sem Orkuveita Reykjavíkur á. Það er til afnota fyrir gesti og gangandi sem gera vilja stuttan stans á leið sinni um svæðið. Austan árinnar, langleiðina uppi við Hengil, rís upp úr grónu landinu sérkennilegur klettadrangur sem minnir á risavaxna höggmynd af skepnu einni mikilli og er vel þess virði að staldra við og skoða.

Þjófahlaup

Þjófahlaup.

Leiðin lá norður með Þjófahlaupi eftir dal eða lægð vestan undir Hengli. Við Draugatjörn er sæluhúsatótt. Elstu heimildir um hana eru frá 1703. Þá er þar Húsmúlarétt vestan tjarnanna, gömul rétt hlaðin úr hraungrýti. Mikill draugagangur var jafnan í og við sæluhúsið og mun vera enn.Í leiðinni var litið á Hellukofann á Hellisheiði, við gömlu þjóðleiðina. Hann var hlaðinn 1830 og stendur enn.
Frábært veður – Gangan var löng, en eftirminnileg – 4 klst og 44 mín.

Marardalur

Marardalur.