Elliðaárdalur

Elliðaárdalurinn er eitt stærsta græna svæðið innan þéttbýliskjarna Reykjavíkur. Hann er jafnframt eitt vinsælasta svæðið til útivistar, leikja og íþróttaiðkunar af ýmsu tagi.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur

Dalurinn einkennist af fjölbreyttu umhverfi, landslagi og gróðurfari en þungamiðjan eru Elliðaárnar sem dalurinn er kenndur við.

Í skýrslu, “Sjálfbær Elliðaárdalur – Stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016“, segir m.a. um Elliðaárdalinn:

Landafræði

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Elliðaárdalur er með stærri útivistarsvæðum í borginni. Dalurinn dregur nafn sitt af Elliðaánum sem falla um 6 km leið frá upptökum í Elliðavatni að ósum í Elliðaárvogi og eru helsta kennileyti svæðisins. Elliðaárdalur markast nokkurn veginn við undirlendið kringum farveg Elliðaánna og neðstu hluta hallans í holtunum í kringum, Ártúnsholt og Breiðholt. Dalurinn er sjaldan meira en 1,5 km að breidd. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi frá 1994 markast svæðið af landamörkum Reykjavíkur og Kópavogs við Elliðastíflu en að öðru leyti að miklu leyti af stórum umferðaræðum og aðliggjandi byggð.
Í greinargerð með deiliskipulaginu frá 1994 er Elliðaársvæðinu skipt í sex landslagsheildir – þar af eru fjögur svæði sem klárlega falla innan Elliðaárdals. Það eru Ártúnssvæðið fyrir neðan Höfðabakkabrúna (sem skiptist frekar í fjögur skipulagssvæði – Rafstöðvarsvæðið, Árbæjarsafn, Löngugrófarsvæðið norðan Stekkjarbakka og Árhólmasvæðið), Árbæjarsvæðið milli Höfðabakkabrúar og Vatnsveitubrúar, Víðivellir og Víðidalur austan Elliðaánna syðst í dalnum og Grænagróf vestan Elliðaánna til móts við Víðidalinn (Elliðaárdalur: Skipulag og greinargerð, 1994). Töluverð hæðaraukning verður þegar ferðast er um dalinn milli enda eða um 105 m hækkun frá Elliðavogi til Breiðholtshvarfs. Mótar það mjög landslagið en einnig veðurfar og lífríki.

Jarðfræði
ElliðaárdalurJarðfræði Elliðaárdals er margbreytileg. Í dalnum og næsta nágrenni má finna jarðlög sem spanna seinni hluta ísaldar og hlýskeið nútíma. Um tveggja milljón ára gamalt berg finnst í Ártúnshöfða en hið yngra Reykjavíkurgrágrýti er áberandi eins og annars staðar í borgarlandinu og má finna jökulrákaðar klappir, einkum í nágrenni Árbæjar. Menjar hárrar sjávarstöðu við ísaldarlok má finna í dalnum, einkum í stórum malarhjöllum í vesturhluta dalsins þar sem eru leirsteinslög með skeljum, einnig malarlög sem gefa til kynna árframburð. Stórmerkileg sjávarsetlög finnast við Háubakka í Elliðavog í næsta nágrenni dalsins og þar hafa fundist sjávarsteingervingar (Árni Hjartarson o.fl., 1998).
ElliðaárdalurYngri jarðmyndanir setja mikinn svip á dalinn, sér í lagi hið 5200 ára gamla Leita- eða Elliðavogshraun sem þekur dalbotninn og nær það eftir dalnum endilöngum. Hraunið rann úr gígnum Leiti austan Bláfjalla og mynduðust Rauðhólar í þeim eldsumbrotum. Ýmsar fallegar hraunmyndanir einkenna Leitahraunið og eru hvað mest áberandi í og við árfarveg Elliðaánna t.d. við Kerlingarflúðir neðan Árbæjarstíflu. Mólög hafa fundist undir Leitahrauninu í Árhólmanum. Jarðhiti er í Elliðaárdal, einkum í Löngugróf norðan Neðra-Breiðholts. Þar hefur heitt vatn verið dælt upp úr borholum (Árni Hjartarson o.fl., 1998).
Í Elliðaánum eru nokkrir fallegir fossar t.d. Selfoss neðan Höfðabakkabrúarinnar, Skáfossar og Ullarfoss í eystri kvíslinni og Kermóafoss, Arnarfoss og Skötufoss í þeirri vestari . Við síðastnefnda fossinn má finna skemmtilega skessukatla (Elliðaárdalur: Skipulag og greinargerð, 1994).

Gróðurfar og dýralíf
Gróðurfar í Elliðaárdal er mjög fjölbreytt en ber sterk merki umsvifa mannsins, einkum landbúnaðar og skógræktar en einnig áhrifa stíflunnar og nálægðar við íbúabyggð. Tegundafjölbreytni er mikil og áberandi að þar finnast bæði innlendar tegundir og aðfluttar, bæði gróðursettar plöntur og sjálfssánir slæðingar.

Elliðaárdalur

Helstu gróðurlendi í dalnum eru mýrar, mólendi, vallendi, blómlendi og skóglendi. Mýrar eru ekki víðfeðmar, einkum í Hvarfsmýri og í blettum meðfram Elliðaám. Mólendi með lyngi og víði er áberandi einkum ofarlega í dalnum en hefur þó dregist saman vegna aukins trjávaxtar. Ræktaðir trjálundir eru mjög áberandi og tré víða orðin stór og skógur þéttur. Mest hefur verið plantað af birki, reyni, öspum og barrtrjám, einkum greni. Elstu gróðursettu trén eru neðan stíflu í Árhólmanum og í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsbrekku, en það eru stór sitkagreni sem eru rúmlega 80 ára gömul (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Blandaður skógur er einnig orðinn umfangsmikill í Breiðholtshvarfi og Grænugróf. Sjálfsáið birki og víðitegundir eru áberandi víða í dalnum t.d. ofan stíflu Árbæjarmegin.

Elliðaárdalur

Vel hefur verið fylgst með fjölbreytni og tegundasamsetningu flórunnar í Elliðaárdal. Í flórulista frá 2004 fundust 320 plöntutegundir villtar í dalnum og var um helmingur þeirra slæðingar úr nálægum görðum eða gróðursettar plöntur (Jóhann Pálsson, 2004).
Dýralíf í dalnum er umtalsvert en hefur mótast gegnum tíðina af þeim breytingum sem átt hafa sér stað í dalnum t.d. með skógrækt, stíflun Elliðaánna, uppfyllingum í Elliðavogi, aukinni byggð o.s.frv. Bæði árnar og skógurinn laða að sér fugla en fuglalíf er mikið í Elliðaárdalnum. Um 30 tegundir fugla eru reglulegir varpfuglar á svæðinu. Þar má nefna álft, grágæs og ýmsar andategundir, vaðfugla eins og hrossagauk, jaðrakan, lóuþræl og stelk. Mikilvægustu varpsvæðin fyrir vatna- og votlendisfugla við lónið ofan Árbæjarstíflu, í Blásteinshólma og almennt meðfram ánum í dalnum.
ElliðaárdalurVaðfuglar eins og heiðlóa og spói hafa verpt í mólendi en þeim hefur fækkað (Kristbjörn Egilsson o.fl. 1999). Spörfuglum í skóg- og kjarrlendi fer nokkuð fjölgandi með auknum þéttleika gróðurs og nýjar varptegundir bæst við á undanförnum árum eins og svartþröstur, glókollur og krossnefur. Minkur finnst reglulega í dalnum og veldur fuglalífi skráveifu, einkum vatnafuglum. Þá er mikið um hálfvilltar kanínur í dalnum neðan stíflu, sérstaklega á sumrin.
Mikilvægasta vistkerfið í Elliðaárdalnum eru tvímælalaust Elliðaárnar en vatnasvið þeirra eru með stærri og mikilvægari ferskvatnssvæðum á höfuðborgarsvæðinu og þar er auðugt lífríki. Í Elliðaánum sjálfum er lax ríkjandi meðal fiska og er gnógt af honum enda eru árnar framleiðsluríkar vegna reks lífrænna efna úr Elliðavatni. Uppeldisstöðva laxaseiða eru í ánum og ganga þau til sjávar eftir 2-3 ár. Unglaxinn heldur sig í sjónum í 1-3 ár og snýr svo aftur upp í árnar þegar hann er orðinn kynþroska. Fyrstu göngurnar koma í maí og svo út sumarið (Árni Hjartarson, 1998).
ElliðaárdalurTeljari í ánum fylgist vel með fjölda göngulaxa sem og gönguseiða og rannsóknir á stofnstærð og ástandi laxa eru í stöðugum gangi. Smádýrafána Elliðaánna er uppistaða fæðu fyrir laxinn, og hefur hún verið rannsökuð vandlega. Þar eru rykmýs- og bitmýslirfur mikilvægastar og eru ríkjandi meðal botndýralífs í ánum (Finnur Ingimarsson o.fl., 2015). Elliðaár eru viðkvæmar fyrir mengun og hefur því sérstaklega verið gripið til ráðstafana við að koma í veg fyrir að mengað vatn berist í árnar með ofanvatni m.a. með því að útbúa settjarnir en þrjár slíkar eru í dalnum ofanverðum. Einnig fylgist Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vandlega með mögulegri skólpmengun og brugðist er við ef upp koma tilfelli t.d. á röngum tengingum.

Saga og minjar – Búskapur og landbúnaður
ElliðaárdalurElliðaárdalur hefur verið landbúnaðarsvæði um langt skeið en getið er búskapar á bænum Ártúni á 14. öld og Árbæ á 15. öld. Á Árbæ var búskapur í minnst 500 ár. Ummerki um þennan landbúnað eru mjög áberandi enn í dag því tún eru kringum bæjarstæðin sem reyndar gáfu ekki mikið af sér og þótti harðbýlt á báðum bæjum. Dalurinn var lengi vel notaður sem úthagi þar til hann var friðaður fyrir sauðfjár- og hrossabeit á sjöunda áratug tuttugustu aldar.

Artún

Ártún.

Í Ártúni var gisti- og veitingaþjónusta fyrir ferðafólk um langt skeið, allt fram á 19. öld. Áður en byggðin reis í Árbæjar- og Breiðholtshverfum var mikið um að leigð væru erfðafestulönd í dalnum, einkum norðan Elliðaáa undir Ártúnsholti austur að Selás. Þar reisti fólk sér sumarbústaði og önnur smáhús og eigendur stunduðu garð- og trjáyrkju. Sumarbústaðabyggðin lagðist niður að mestu á tímabilinu frá 1960-1990 en enn standa nokkur stærri hús sem eru heilsárshús, flest á Ártúnsblettum við Rafstöðvarveg en einnig nokkur í Árbæjar- og Seláshverfum. Eru það elstu húsin á þessum slóðum. Smáhýsi eru einnig í Löngugróf sunnan Árbæjarstíflu nálægt Stekkjarbakka (Árni Hjartarson o.fl., 1998).

Aðrar söguminjar

Letursteinn

Letursteinn í Elliðaárdal.

Stríðsminjar finnast einnig í dalnum en fimm herkampar voru á túni Ártúns á heimsstyrjaldarárunum síðari og má sjá ummerki um þá í túninu við bæinn. Einn stór kampur, Camp Baldurshagi, var á Víðidalssvæðinu en lítil ummerki eru þar eftir í dag.

Raforkuframleiðsla

Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti.

Ljósafosslína

Rafstöðin við Elliðaár var reist 1921. Hún var undanfari Ljósafossvirkjunar.

Var raforkan fyrst og fremst notuð fyrir lýsingu í Reykjavík. Helstu mannvirki er tengjast raforkuframleiðslunni eru stíflurnar tvær, Árbæjarstífla sem var fullgerð árið 1929 og Elliðavatnsstífla sem var reist á árunum 1924-8 og endurgerð 1978, rafstöðvarhúsið sjálft ásamt fallstokknum sem liggur frá Árbæjarstíflu niður í rafstöðina auk nálægra húsa er tengjast starfseminni. Stærsta byggingin er þó Toppstöðin sem var vara- og álagsstöð fyrir meginrafstöðina og tók til starfa 1948. Hlutverki hennar lauk á áttunda áratugnum og hýsir húsið nú frumkvöðlasetur. Eftir að pípan í fallstokknum rofnaði árið 2013 hefur ekki verið virk raforkuframleiðsla í Elliðaárvirkjun (www.or.is)

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Skógrækt
Skógrækt hefur sett mikinn svip á Elliðaárdalssvæðið. Á 30 ára afmæli Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 var hafin skógrækt í Elliðaárhólma og var gróðursett þar árlega til um 1970. Í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsholti eru enn eldri grenitré eða frá 1937 sem í dag eru talin hæstu grenitré á Íslandi eða um 20 metra há. Skógræktarfélag Reykjavíkur stundaði einnig skógrækt í Elliðaárdalnum um alllangt skeið í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur, t.d. í Breiðholtshvarfi (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Mikill vöxtur hefur verið á plöntuðum trjágróðri þar síðustu misseri og víða finnst þéttur skógur og há tré. Starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna nú grisjun í skóginum.

Malarnám
Malarnám var stundað á nokkrum stöðum í dalnum og sjást þess vel merki enda olli það umtalsverðu jarðraski. Nokkuð stórar námur voru austan við Blesugróf og í Ártúnsholti. Einnig var numið grjót ofarlega í Víðidalnum þar sem Reiðhöllin stendur nú.

Heimild:
-https://reykjavik.is/frettir/sjalfbaer-ellidaardalur-utivistarsvaedi-i-hjarta-reykjavikur

Elliðaárdalur

Kermóafoss.