Camp Tinker

Í nágrenni við Hólm og Geitháls ofan Reykjavíkur voru nokkur braggahverfi á stríðsárunum, s.s. Camp Swansea, Camp Phinney, Geitháls Dump, Camp Aberdeen, Camp Buller, Camp Columbus Dump, Camp White Heather, Camp Arnold, Camp Clapham og Camp Omskeyri, auk Camp Tinker í Rauðhólum. Enn í dag má sjá ummerki eftir veru hermanna á þessum slóðum þótt mannskepnan, tíminn og lúpínan hjálpist að við að afmá ummerkin og þar með söguna.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Í Camp Omskeyri voru höfuðstöðvar stórskotaliðs 5. hersveitarinnar á tímum hersetunnar. Þær voru á svæði þar sem nú er beitarhólf suðaustan við Geitháls, fast norðaustan við gamla Suðurlandsveginn. Á svæðinu eru leifar og ummerki eftir veru setuliðsins, s.s. vegir, byssustæði, skotgrafir og braggabotnar. Út frá gamla Suðurlandsveginum liggur vegur í boga og vegir út frá honum. Við þá eru leifar af bröggum.

Steinullarverksmiðja

Steinullarverksmiðjan á leifum Camp Phinney.

Herskálahverfin Swansea og Phinney voru norður af Hólmi, milli Hafravatnsvegar og vegarins upp í Mjóadal og var Camp Phinney austar. Ekki er ljóst hvar skilin á milli þessara herbúða voru nákvæmlega. Steinullarverksmiðja var síðar byggð upp úr Camp Phinney.

Camp Columbus Dump var birgðastöð hersins á mel sunnan við Suðurlandsveg og austan við Hólmavað, þar sem nú er opið svæði. Um 25-30 braggar hafa tilheyrt þessum herbúðum. Vegur lá um svæði frá Suðurlandsvegi að Steinastöðum, sem var sumarhús við Bugðu.

Camp Buller

Camp Buller 2021.

Nokkur ummerki eru eftir braggahverfið, en efst við Suðurlandsveginn er ekki hægt að greina nein ummerki þar sem allt er komið á kaf í gróður, aðallega lúpínu. Árið 2006 var þetta svæði fyllt upp og sléttað að norðan, en sunnar, neðan við hljóðmön við Hólmavað, eru steypuleifar, sennilega hluti af braggabotnum sem fóru undir mönina. Þar fyrir neðan er greinilegur vegur, lúpínuvaxinn, sem liggur í boga frá malbikuðum gangstíg og kemur aftur að honum 115 m neðar. Suðaustan við hann eru ummerki eftir bragga og fyrir neðan veginn nær ánni má greina ummerki eftir tvo bragga og annan fyrir ofan.

Camp Swansea

Camp Swansea – loftmynd 1954.

Camp Buller var 20 m vestan og ofan við Suðurlandsveg, norðvestur af Sandvík og 115 m austur af Rauðási, eru leifar af braggabotni. Á tímum hersetunnar voru þarna höfuðstöðvar strandvarna og/eða loftvarnarstórskotaliðs á svæðinu. Þegar loftmynd var tekin 1954 stóðu þarna tveir braggar en voru horfnir þegar mynd var tekin 1965. Árið 1971 var aðeins grunnur vestara hússins greinilegur en sá eystri hefur horfið við framkvæmdir við Suðurlandsveg 1970.

Camp Aberdeen

Camp Aberdeen.

Camp Arnold var austan við sprengigeymslurnar við Mjóadalsveg í Almannadal, norðvestan við Fjárborg. Á tímum hersetunnar voru hér höfuðstöðvar flug- og ratsjárliðs frá Bandaríkjunum. Á svæðinu voru tveir braggar sinn hvorum megin við veginn. Braggabotnarnir sjást á loftmyndum en eru ekki lengur greinilegir á yfirborði og svæðið komið á kaf í gróður.

Camp Phinney

Camp Phinney 2021.

Camp Phinney var í holtinu fyrir norðan Suðurlandsveg, um 500 m fyrir vestan Geitháls.
Á svæðinu var mikið af braggagrunnum auk þess sem þarna voru tvö steinsteypt hús frá hernum sem síðar hlutu nöfnin Heiðarsel og Heiðarhvammur, rifin um 1985.
Á svæðinu var hýst stórskotalið og voru herbúðirnar höfuðstöðvar herfylkis.

Camp Aberdeen var stærsta braggahverfið, um 600 m norðaustan Geitháls. Grunnar flestra bragganna sjást enn vel.

Hólmur

Hólmur og nágrenni – loftmynd.

Camp White Heather herbúðirnar voru norðan við brúna yfir Hólmsá og uppi í Kotásnum, þar sem nú er íbúabyggð. Þar hafðist við lítil undirfylking skriðdrekaliðs.
Nokkur ummerki eru eftir veru hersins á svæðinu.

Camp Clapham

Camp Clapham 2022.

Camp Clapham herbúðirnar voru austan við gamla Þingavallaveginn ( Hafravatnsveginn), um 350m fyrir austan Geitháls.
Á svæðinu sem hverfið náði yfir eru nokkrir steyptir braggagrunnar og vegir. Margir braggabotnar voru rifnir upp og notaðir í Steinullarverksmiðjuna.

Geitháls
Býlið Geitháls var byggt við gatnamót Þingvallavegar og Suðurlandsvegar (Austurvegar).

Geitháls

Geitháls.

Eldra íbúðarhúsið á Geithálsi var tvílyft, bárujárnsklætt timburhús á steinhlöðnum grunni. Húsið var um 8×8,2 m og lá norðvestur-suðaustur, með bíslag á norðvesturgafli. Austan við það var skemma (11×8,2 m. Árið 1940 var gamla bæjarhúsið og skemman á Geithálsi rifið, en það hafði þá verið í niðurníðslu í nokkurn tíma. Nýtt hús var byggt á sama stað, ein hæð með lágu risi. Það var rifið skömmu eftir að Olíuverslun Íslands reisti þar veitingaskála 1963. Staðurinn var áfram vinsæll áningarstaður en var lagður niður sem slíkur árið 1972 þegar Suðurlandsvegurinn var færður sunnar og Geitháls fór úr alfaraleið. Hólmsá, sem rann rétt sunnan við bæjarstæðið, var færð sunnar þegar nýi Suðurlandsvegurinn var gerður.

Geitháls

Geitháls – túnakort 1916.

Á Geithálsi var bæði búskapur og greiðasala. Þar var símstöð frá 1909. Geitháls varð vinsæll áningarstaður og voru þar oft mikil læti eins og fram kemur í blaðagrein frá 1927: ,,Mér er kunnugt um það, að sá veitingamaður, sem nú rekur veitingar á Geithálsi, kysi ekkert fremur en að honum væri veitt aðstoð til að bægja ölvuðum óþjóðalýð burt frá staðnum, svo að honum gæti veist næði til að reka þar veitingar fyrir friðsama gesti. Geitháls er sérlega vel fallinn til sunnudagaheimsókna Reykvíkinga, bæði sökum góðs húsrúms og einnig vegna fegurðar þar í kring, og þá ekki síst fyrir ríðandi fólk, því að þar er gnægð góðrar hagbeitar og vatns fyrir hesta.“

Geitháls

Geitháls 1920-1935.

Árið 1940 var gamla bæjarhúsið á Geithálsi rifið, en það hafði þá verið í niðurníðslu í nokkurn tíma. Nýtt hús var byggt á sama stað, ein hæð með lágu risi, en það var rifið skömmu eftir að Olíuverslun Íslands reisti þar veitingaskála 1963. Staðurinn var áfram vinsæll áningarstaður en var lagður niður sem slíkur árið 1972 þegar Suðurlandsvegurinn var færður sunnar og Geitháls fór úr alfaraleið. Engin hús eru í dag á Geithálsi, en leifar eru þar af steinhlöðnum vegg sem hefur verið í porti norðan við gamla húsið. Hólmsá sem rann rétt sunnan við bæjarstæðið var færð sunnar þegar nýi vegurinn var gerður. Túnakort er til af bæjarstæðinu frá 1916. Á stríðárunum voru braggahverfin Camp Aberdeen og birgðageymslan Geitháls Dump við Geitháls.

Geitháls

Geitháls – geitakofi.

Bæjarstæðið hefur verið byggt utan í hjalla sem hefur verið stallaður upp frá gamla Suðurlandsveginum. Við veginn voru kálgarðar og norðan við þá hefur verið gerður sléttur stallur þar sem íbúðarhúsið og útihúsin stóðu áður. Norðan við húsin var steinhlaðinn veggur sem stendur enn. Ef rýnt er í þessa hleðslu má sjá að hún er samsett, þ.e.a.s. þetta eru leifar af veggjum úr húsum og jarðvegsvegg, um 25 m á lengd, sem gæti líka verið að hluta endurhlaðinn. Vestast á bæjarstæðinu, stallinum, eru leifar tveggja útihúsa úr torfi og grjóti og er austasta vegghleðslan, veggjarkampur, hluti af þeim.

Geitháls

Geitháls 2010.

Suðaustan við veggjakampinn eru sex steinþrep í steinhleðslunni upp á hjallann og frá þeim liggur hleðslan áfram til suðausturs að hlöðnum gafli, en hluti hleðslunnar hefur verið hliðarveggur í útihúsi og gaflinn hefur tilheyrt því. Hornrétt á hann er hleðsla sem gæti hafa verið annar gafl sem gæti hafa tilheyrt skemmu. Þrepin hafa verið gerð síðar því þau sjást ekki á elstu ljósmyndunum. Þegar túnakort var gert 1916 voru tveir kálgarðar fyrir framan bæjarstæðið, meðfram veginum, sem voru afmarkaðir með steinhlöðnum görðum, en sunnan við veginn voru tún bæjarins. Þar sem íbúðarhúsin stóðu og á hlaðinu þar fyrir aftan er mosavaxinn malarjarðvegur.

Geitháls

Geitháls – minjar.

Lítil ummerki eru eftir húsin. Tveir litlir steyptir fletir, sem á eru fest tvö járnrör, eru uppi á stallinum þar sem var inngangur á suðvesturhlið íbúðarhúsanna, og rafmagnskapall stendur upp úr jörðinni þar sem inntakið gæti hafa verið. Bæjarstæðið er mosa- og grasigróið en trjágróður og lúpína sækja stíft að bæjarstæðinu.

Heimildir:
-Þór Whitehead, 2002. Ísland í hershöndum, bls. 124-125.
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar frá gatnamótum við Vesturlandsveg austur að Hólmsá, Reykjavík 2010.
-Bjarki Bjarnarson og Magnús Guðmundsson 2005. Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, bls. 196 og 295.
-Túnakort 1916, Geitháls, Þjóðskjalasafn.
-Vísir 25.08.1927, bls. 4.
-Þjóðviljinn 14.05.1963.
-Alþýðublaðið 28.06.1963.
-Vísir, 15.08.1940.

Herkampar

Herbúðir í landi Geitháls og Hólms, horft í vestur með Hólmsá og Suðurlandsvegi. Neðst til hægri er Camp White Heather við beinan veg, Camp Omskeyri við bogadregin veg aðeins vestar, Camp Geitháls Dump við Geitháls. Vestan við Geitháls ofarlega á myndinni er hvítur braggi sem var kvikmyndahús og síðar steinullarverksmiðja (213-66), þar voru Camp Phinney og Camp Swansea. Myndin er líklega tekin 1943-1945.