Friðþór Eydal

Kristján Már Unnarsson skrifaði um Rauðhóla 15. nóvember 2022 þar sem Friðþór Eydal fjallar um falda leynilega stjórnstöð Bandaríkjahers í gígum hólanna:

Rauðhólar

Friðþór Eydal bendir á grunn ratsjármiðstöðvar Bandaríkjahers í Rauðhólum.

“Ein mikilvægasta herstöðin á Íslandi á árum síðari heimsstyrjaldar var starfrækt í Rauðhólum. Stöðin var vel falin ofan í gervigígum og þaðan var loftvörnum Íslands stjórnað. Nánast ekkert hefur verið ritað um þessa starfsemi opinberlega.

Við höfum áður fjallað um malarnámið úr Rauðhólum. En það er önnur saga tengd hólunum sem er minna þekkt. Þar var nefnilega eitt leynilegasta og mikilvægasta hernaðarmannvirki stríðsáranna, falið ofan í gervigígum.

Rauðhólar

Ratsjármiðstöðin var í gígnum vinstra megin, fjarskiptamiðstöðin í gígnum hægra megin.

„Þessi staðsetning hérna var náttúrlega klárlega til þess að verja eða fela staðsetninguna fyrir loftárásum,“ segir Friðþór Eydal, höfundur bóka um umsvif hersins á stríðsárunum.

Þar má enn sjá grunna fjarskipta- og ratsjármiðstöðvar, sem Bandaríkjaher hóf að reisa árið 1942 og tók til starfa árið 1943, en miðstöðin var tengd ratsjárstöðvum hersins víða um land.

Rauðhólar

Ljósmynd bandaríska hersins úr stjórnstöðinni í Rauðhólum. Þar var tekið við öllum upplýsingum um ferðir þýskra flugvéla og fyrirskipanir sendar út til að mæta þeim.

„Það var þannig að Bandaríkjaher reisti ratsjárstöðvar víða um land og þær sendu tilkynningar til þessarar miðstöðvar hér í Rauðhólunum. Þaðan voru síðan send fyrirmæli til loftvarnastöðva í Reykjavík og á Reykjavíkurflugvelli þar sem loftvarnabyssunum var stjórnað og orustuflugsveitinni sem var á Reykjavíkurflugvelli. Þannig að hér var miðstöðin fyrir þetta kerfi,“ segir Friðþór.

Til er gömul ljósmynd úr Rauðhólastöðinni sem sýnir herforingja yfir landakorti, rétt eins og menn þekkja úr bíómyndum um stríðið.

-Þetta hefur verið bara nokkuð mikilvæg stöð og kannski ein sú þýðingarmesta á stríðsárunum?

Rauðavatn

-Mikil braggabyggð við Rauðhóla hýsti hermennina en þegar leið á stríðið árið 1944 var stöðin flutt til Keflavíkurflugvallar. Braggabyggðin við Rauðhóla hýsti hermenn stöðvarinnar. Hægra megin sjást Elliðavatn og Elliðavatnsbærinn.

„Þetta var náttúrlega miðstöð loftvarnanna. Það er enginn vafi á því,“ svarar Friðþór.

-Það er eins og fólk viti lítið af þessu. Það er ekkert sérstaklega merkt hér hversu merkileg stöð þetta var?

„Nei, það hefur raunar lítið verið fjallað um þetta. Ég hef reyndar sagt frá þessum loftvarnaviðbúnaði í mínum bókum. En aðrir hafa nú ekki fjallað mikið eða skoðað þessa sögu neitt frekar,“ segir Friðþór.”

Heimild:
-https://www.visir.is/g/20222339498d/bandarikjaher-faldi-leynilega-stjornstod-i-gigum-raudhola
-Friðþór Eydal, höfundur bóka um hernaðarumsvif á stríðsárunum á Íslandi.

Rauðhólar

Herbyggingarnar voru hafðar í gígbotnum í vesturhluta Rauðhóla. Norðlingaholtshverfi í baksýn.