Aðalstræti

Henry A. Hálfdansson skrifar m.a. um fyrstu búsetu í Reykjavík í Sjómannadagsblaðið árið 1966:
“Enginn getur nú með vissu sagt, hvar Ingólfur og Hallveig byggðu sinn fyrsta bæ í Reykjavík. Þótt öndvegissúlurnar bæri á land annaðhvort á Kirkjusandi eða Rauðarárvík, töldu þau sér áreiðanlega heimilt að byggja sér heimili þar, sem þeim sýndist bezt í landareigninni. En hvar var það? Landnáma segir, að Ingólfur hafi reist bæ sinn í Reykjavík við Arnarhól neðan við Heiði. Þetta fyrir neðan Heiði, er enginn afmarkaður staður, samanber að framan. Skáli sá hinn mikli, sem hann reisti undir öndvegissúlur sínar og sem enn stóðu þar seint á Sturlungaöld, gæti hafa staðið hvar sem er á hinu gamla Arnarholti, sem nú er uppnefnt og kallað Skólavörðuholt.
Sennilegast er, og það mun álit flestra, að skáli Ingólfs hafi staðið einhvers staðar þar, sem nú er Landsbókasafnið og stjórnarráðshúsið Arnarhvoll, eða ekki allfjarri Lindinni, því varla hefur hann verið reistur langt frá drykkjarvatni. Þarna stóð líka bærinn Arnarhóll, sem hefur verið aðalbýlið í Reykjavík frá fyrstu tíð.
Af hverju jörðinni var skipt og annað býli var reist niður í kvosinni, sem kallað var Vík, það getur enginn maður sagt með neinni vissu, en auðvitað mun Ingólfur hafa haft víða útróðra- og búðsetumenn. Hann hefur reyndar strax reist fleiri bæi en Arnarhól og sett þar yfir hjón sín eða skyldulið. Má þar t. d. nefna úti á Nesi, inni í Lauganesi, í Gufunesi, Árbæ, Elliðavatni, svo maður tali ekki um eyjarnar, og þó lengra sé leitað.
skali-221Ingólfur var ekki við eina fjöl felldur í þeim efnum, og nægir í því sambandi að benda á Skálafell. Það er hinn eini staður, sem öruggar heimildir eru fyrir, að hann hafi byggt á, svo nákvæmt sé. Skálafellið blasir vel við frá Arnarhóli. Þar uppi er eitt það dásamlegasta útsýni, sem hugsazt getur. Þaðan getur maður séð Þingvelli og Reykjavík frá einum stað. Þaðan hefur verið hægt að sjá mest af landnámi Ingólfs. Það er því ekki að furða, þótt Ingólfur fengi augastað á Fellinu og kysi að dvelja þar í tómstundum.
Ef einhver er spurður að því, hvar sé hjarta Reykjavíkur í dag, stendur það í flestum, að gefa rétt svar. Þeir meira aS segja nefna ótal staði, sem á engan hátt eiga við hinn rétta. Þó er hjartastaður Reykjavíkur í dag nákvæmlega sá sami og daginn, sem Ingólfur gaf Víkinni nafn.
Þesst staður er Héðinshöfði, skammt þar frá sem bráðabirgða ráðhús borgarinnar stendur núna og nálægt þeim stað, þar sem framtíðar lögreglustöð borgarinnar er að rísa. Það er eins og enginn hafi tekið eftir þessu nema Einar skáld Benediktsson, er valdi sér þarna búsetu á sínum tíma og gaf staðnum nafn eftir æskuheimili sínu við Húsavík.”

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 29. árg. 1966, 1. tbl. bls. 15-18.

Arnarhóll

Reykjavík og nágrannajarðir 1703.