Esjuberg

Gengið var um land Esjubergs með það fyrir augum að skoða leifar hinnar fyrstu kirkju á Íslandi sem og að skoða tóftir korbýlanna Árvalla og grundar. Með í för verður m.a. Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur. Hann gróf í kirkjutóftina, er bent hafði verið á sem þá elstu hér á landi að talið var, árið 1981. Niðurstöðurnar reyndust áhugaverðar.
ÁrvellirÍ Jarðabókinni 1703 kemur fram að skriða hafi spillt jörðinni [Esjubergi] og auk þess að; “Skriður fordjarfa tún, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði… Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur góður. Afbýlismaður heima við bæinn þar sem kallast Litla Esjuberg.” Um Árvöllur segir m.a.: “Skriða fordjarfar so sem sagt er um heimajörðina”.
Bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir eru aldir upp að Esjubergi. Gísli sagðist aðspurður tóftir Árvallar vera ofan við Esjubergsbæinn, en leifar Grundar væru varla sýnilegar því bærinn hefði farið undir skriðu. Tóftin við Grundarána væri sennilega leifar réttar. Í þessari ferð átti sitthvað óvænt eftir að koma í ljós, ekki síst varðandi Grundarbæinn.
Árni sagði bæjartóftirnar ofan við Esjuberg standa í svonefndu Árvallartúni. Tóftirnar “beggja vegna Grundaáar” væru sennilega leifar Grundar. Áin hefði áður runnið til vesturst með fjallsrótunum, en í miklum skriðum um 1830 hefði hún breytt sér og Grund þá lagst í eyði.
Framangreind orð hans bentu til þess að finna mætti bæjarleifar norðan árinnar, en slíkar minjar höfðu ekki fundist í fyrri ferð um svæðið.

Kirkjutóftin

Fyrst að megintilgangi ferðarinnar; kirkjutóft við Esjuberg. Í opinberri “Skrá um friðlýstar fornleifar frá 1990” segir um kirkjuminjarnar að Esjubergi: “Esjuberg. I) Kirkjugrunnur forn, skamt austur frá bænum. Sbr. Árb. 1902: 33-35. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938. II).” Einnig er tiltekin í skránni  “Grjótdys, sem kölluð hefur verið Dyngja, við gamla reiðveginn, á mel 2 km austur frá bænum. Skjal undirritað af KE 28.07.1964. Þinglýst 04.08.1964.” [Þá dys segir SG hafa verið eyðilagða 1981, líkt og að framan greinir]. Gísli upplýsti í samtalinu að framangreind Dyngja hefði verið mokað í burtu á örskotsstund þegar byrjað var að nota malarnámusvæðið austan við Leiðhamra við norðanverðan Kollafjörð.
KirkjutóftinGuðmundur Ólafsson gróf í kirkjutóftina, eins og fram hefur komið. Þegar hann var spurður um niðurstöður rannsóknarinnar upplýsti hann eftirfarandi: “Ég byrjaði á smá rannsókn þarna árið 1981. Tilefnið var ósk um rannsókn frá kirkjunnar mönnum í tilefni af því að þá var kristniboðsár. Ég flaug líka yfir svæðið og tók myndir, bæði ljósmyndir og innfrarauðar myndir. Ekkert markvert kom fram á þeim. Rannsóknarsvæðið var í skriðum nokkru austan við bæinn, þar sem talið var að væru leifar kirkjunnar, sbr. lýsingu Brynjúlfs. Tekin voru snið þvert í gegnum garð, sem þarna er afmarkaður, sem og tóftina sjálfa.

Kirkjutóftin

Við rannsóknina kom í ljós að rústirnar voru mun yngri en frá landnámsöld, þannig að þetta gátu ekki verið leifar af Kirkju Örlygs. Steinhleðslurnar sem sagðar voru vera leifar kirkjunnar voru að öllum líkindum frá 16. eða 17. öld. Nokkru neðar voru mannvistarlög sem bentu til eldri byggðar, eða allt frá 11. – 12. öld, en það voru leifar sem bentu frekar til íveruhúsa en kirkju (móöskudreif og viðarkolaaska). Það var líka augljóst að skriður höfðu farið yfir allt þetta svæði og að það yrði afar erfitt að finna og grafa upp frekari minjar á þessu svæði. Þá var líka ljóst að rústin væri ekki leifar af  kirkju Örlygs og að hennar yrði að leita annars staðar. Rannsókn var því hætt.”
Guðmundur sagði að sennilegra væri að kirkjan hafi staðið nær bænum, sem væntanlega hafi verið á núverandi bæjarstæði. Þar hafi nú öllu verið raskað með byggingu nýrra íbúðar- og útihúsa. Líklegt má því telja að tilviljun ein muni ráða því hvort staðsetning kirkjunnar hinnar fyrstu muni einhvern tímann opinberast.
Af ummerkjum á vettvangi að dæma er ljóst að hver skriðan á eftir annarri hefur hlaupið yfir það úr Gljúfurdal. Eldri Tóftminjar eru og verða því grafnar undir þeim yngri. Líklegt er því að niðurstaða Guðmundar sé skynsamleg, auk þess sem hún er byggð á rannsóknum.
Hin fyrsta heimild um kirkjubygginguna er að finna í 
12. kafla Sturlubókar (afskrift Landnámu) segir m.a. um kirkju að Esjubergi á Kjalarnesi: Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum. (Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.
ListaverkMeð Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.
Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.
Hann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.
Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam Mannvirkihann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.”
Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902 er rakin frásögnin í 12. kafla Landnámu. Þá segir:
“Í túninu á Esjubergi, austur frá bænum er rúst, sem frá ómunatíð hefur verið kölluð kirkjutóft eða stundum bænhústóft. Og girðing sem, sem er áföst við hana, er kölluð kirkjugarður. Rústin snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm. löng og nær 3 fðm. breið. Hornin eru hér um bil rétt. Utantil er hleðsla, eigi mjög aflöguð; enda er hæðin aðeins tvö steinalög, eð sumstaðar þrjú, hvert ofan á öðru. Grjótið er hnöllungagrjót, en þó eigi mjög hnöttótt og sumt er með nokkrum köntum.  Að ofan er rústin ávöl af grjóti. Lítur út fyrir, að ofan á hana hafi verið kastað lausum steinum, annaðhvort sem fallið hafi úr henni sjálfri – hafi hún verið hærri, – eða sem skriðuhlaup hefði kastað þangað. Eigi haggaði eg við rústinni, er eg skoðaði hana í voru (1901). Var það bæði, að þá var annríkt hjá mönnum og verkamenn óhægt að fá, enda ilt að gjörða vegna rigninga. Þóttist eg sjá, að það mundi mikið verk, en ósýnt um árangur. Þó lét eg grafa með öllum vesturgaflinum, í þeirri von, að þar sæi merki dyra. En þeirra sást enginn vottur.

Grund

Undirstaðan sýndist óhögguð yfir um þvert og lá á skriðugrjóti – sem þar er alstaðar undir jarðvegi… eins og rústin kom mér fyrir sjónir, gat eg varla talið hana líklega til að vera hústóft. Hitt gæti verið, að hér hefði verið hærri bygging; hústóft, nfl. staðið ofan á því sem nú er eftir. Þó leizt mér svo á brúnir rústarinnar að þær mundu ójafnari en þær eru, ef ofan á þeim hefði verið hærri hleðsla, sem hefði fallið. Eg hefi síðan hugsað um þetta, og hefir nú komið í hug, að rústin muni vera upphækkun eða “grunnur” undan kirkjunni Örlygs, og hafi hún verið gjör af viði einum, – eins og t.a.m. skáli Gunnars á Hlíðarenda…
Girðingin, sem kölluð er kirkjugarður, er fyrir austan rústina; er austurgafl hennar áfastur suðvesturhorn girðingarinnar. Hún er 11 faðma breið frá austri til vesturs, og 12 fðm. löng frá norðri til suðurs. Sér glögt til hennar öllum megin; hefir þó skriða runnið fram á norðurvegg hennar. Framhald af honum gengur vestur á móts við kirkjutóftina og verður þar smá-girðing við norðurgafl tóftarinnar, 4 fðm. frá austri til vesturs og 6 fðm. frá norðri til suðurs, en gengur að sér vestantil…”.
Klettur Þegar gengið var um svæðið ofan og vestan Árvallar (bærinn hét Árvöllur) komu í ljós þau hinu ótrúlegustu skóflitbrigði er sérhver málameistari í líkingu við Kjarval gæti auðveldlega hænst að. Á einum stað, undir fjallsrótum Esju, mátti sjá stórt bjarg. Undir því var skúti. Við hann voru hleðslur. Gróið var umleikis. Hér var hið ágætasta skjól, t.d. fyrir Búa er segir af í Kjalnesingasögu (sjá HÉR). Staðsetning hellisins hefur ekki verið ákvarðaður af neinni nákvæmni.
Í lok ferðar var tal tekið af Erni Kærnested, staðarhaldara á Esjubergi. Framtíðarhugmyndin er að byggja þétta smáíbíðabyggð á svæðinu, þ.e. innan við 100 m2. Eins og stendur er óvissa um þá áætlan. Nóg af köldu vatni virðist vera á svæðinu, sbr. uppsprettuna góðu utan Árvalla og heimilir eru um heitt vatn í Grundardal skammt vestar. Ljóst er þó hér að Örn mun ekki flasa að neinu er stefnt getur minjum svæðisins í hættu.
Sjá meira um svæðið HÉR. 
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902.
-Landnáma – Sturlubók 12. kafli.

Grund