Færslur

Ártún.

Í fornleifaskráningu Margrétar Bjarkar Magnúsdóttur á jörðinni Ártún á Kjalarnesi segir m.a.:

Ártún

Ártún – túnakort frá 1916.

“Sem fyrr liggur land Ártúns að jörðinni Bakka að sunnan og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni. Að norðan liggur land Ártúns að jörðinni Dalsmynni, sem varð til árið 1930 þegar jörðinni Saurbæ var skipt, og að Melagerði og Melavöllum.

Blikdalur

Blikdalur.

Að sögn Ásthildar Skjaldardóttur bónda á Bakka voru Melagerði og Melavellir byggðir út úr Ártúni en bræðurnir Bjarni og Gunnar Þorvarðarsynir, sem voru bændur á Bakka frá árinu 1950 til 1997, seldu landspildur fyrir Melagerði árið 1975 og Melavelli árið 1979. Efrimörk jarðarinnar eru við mynni Blikdals sem er stór grösugur dalur í vestanverðri Esju. Dalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.

Saga Ártúns

Ártún

Ártún 1950.

Ártún var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“

Ártún

Ártún 1935.

Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda.

Saurbær

Saurbær.

Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar. Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð.

Ártún

Ártún 1967.

Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir. Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross.

Ártún

Ártúnsrétt.

Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni.
Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.

Ártún

Ártún – þrívíddarmynd af tóftum bæjarins.

Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám.

Ártún

Ártún – örnefni.

Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.

Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.

Ártún

Ártún – örnefni.

Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda.

Ártún

Ártún 1983.

Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn.
Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.

Ártún

Ártún – Kristrún Ósk Kalmansdóttir málaði þessa mynd af síðasta bænum í Ártúni.

Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús.

Ártún

Ártún – tóftir 2020.

Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg. Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.

Ártún

Ártún – Úr kvikmyndinni “Síðasti bærinn í dalnum”.

Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“

Ártún

Ártún – úr kvikmyndinni “Milli fjalls og fjöru” við bæinn.

Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954.
Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.

Ártún

Ártún 1972.

Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946. Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðin seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.

Flestar stríðsminjarnar á jörðinni eru holur sem rutt hefur verið upp úr í kringum þær. Að sögn Kristrúnar voru stærri holurnar notaðar fyrir loftvarnarbyssur en þær minni notuðu hermenn til að fela sig í og strengdu yfir þær græn net.

Ártún

Ártún – bæjarhóllinn 2018.

Hlutverk Ártúns sem kvikmyndaver við upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi er athyglisvert. Það hefur trúlega haft áhrif á staðarval við upptökur á kvikmyndum að einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað rétt ofan við bæinn.

Ártún

Ártún – bærinn var jafnaður við jörðu 1992 (MWL).

Í Ártúni er um að ræða minjaheild búsetuminja sem samanstendur af bæjarhól með híbýlum og skepnuhúsum. Aðgengi að minjunum er gott svo ef vilji væri fyrir hendi mætti gera það enn betra og einnig mætti setja fram upplýsingar með sögu staðarins í máli og myndum. Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni sýna einstakt búsetulandslag í næsta nágrenni Reykjavíkur.
Búsetuminjar sem er að finna á jörðinni eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Minjarnar hafa ekki orðið fyrir raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni og eru einstakar vegna þess að þær eru vel varðveitt minjaheild innan vébanda höfuðborgarinnar.”

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún.

Blikdalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um “Rannsóknir á seljum í Reykjavík” fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin átta í Blikdal:

Selstöður á Blikdal
Blikdalur

Yfirlit um sel í Blikdal.

Blikdalur er stór og grösugur dalur í vesturhluta Esju. Hann liggur frá Gunnlaugsskarði í austri og hallar í vestur að klettabelti við Tíðarskarð en dalsmynnið er skammt austan við það. Blikdalur var áður nefndur Bleikdalur sem gæti verið vegna þess að háhitavirkni náði norður yfir dalinn og gaf berginu ljósan lit en innar í dalnum er ljósleitt og grænsoðið móberg. Eftir dalnum rennur á sem nefnist Blikdalsá, en frá dalsmynni að sjó nefnist hún Ártúnsá eftir samnefndum bæ við mynni dalsins.

Blikdalur

Saubæjarsel í Blikdal.

Blikdalur hefur löngum verið nytjaður af bæjum á Kjalarnesi fyrir lausagöngu hesta til fjáruppreksturs, og selstöðu. Suðurhluti Blikdals lá undir kirkjustaðnum Brautarholti, en sá nyrðri undir kirkjustaðinn Saurbæ og skiptist hann um Blikdalsá.

Blikdalur

Blikdalur – herforingjaráðskort.

Blikdals er ekki getið beint í skriflegum heimildum fyrr en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
Hinsvegar er Blikdalsár getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1220, þar sem fram kemur kvöð um að halda skuli brú yfir ánna: „… bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fjoru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Þessi kvöð er áréttuð í Vilchinsmáldaga frá 1397 og í vísitasíum 1642, 1678, 1703 og 1724. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er Blikdals getið við nokkra bæi varðandi fjárupprekstur og selstöðu. Blikdals er getið í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ árið 1890. Þar segir: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils en Ártún fyrir neðan götu frá Seljagilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Sel í sunnanverðum Blikdal.

Nokkur örnefni í dalnum vísa til selja og þar eru sýnilegar sex selstöður neðan við Selfjall. Tvær selstöður eru í norðan Blikdalsár, Saurbæjarsel sem stendur við læk ofan um 120 m ofan við ána og Holusel sem er um 370 m innar einnig staðsett við læk rétt ofan við ána.

Guðrún Runólfsdóttir

Guðrún Runólfsdóttir – Matthías og Guðrún Runólfsdóttir, kona hans, höfðu verið í hjónabandi í 45 ár er hann lést. Guðrún lifði mann sinn í 3 ár, dó 6. nóvember 1923.

Saurbæjarsel hefur verið í notkun framundir árið 1874 en heimildir geta þess að Guðrún Runólfsdóttir frá Saurbæ hafi verið þar selráðskona. Hún varð árið 1875 þriðja kona skáldsins Matthíasar Jochumssonar sem bjó á Móum á Kjalarnesi. Á eyri sem liggur sunnan við ána eru fjórar selstöður sem voru í landi Brautarholts. Efsta og innsta selstaðan er væntanlega sú sem síðast hefur verið í notkun og gæti verið frá svipuðum tíma og Saurbæjarsel. Saurbær er kirkjustaður en kirkju er þar fyrst getið um 1200. Þegar Jarðabókin var gerð er Saurbær orðin annexía frá Brautarholtskirkju. Saurbær er á ofanverðu Kjalarnesi, á sjávarbakka niður af Tíðarskarði. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“ Þar er segir einnig; „Selvegur lángur og erfiður.“ Á þeim tíma var jörðin í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún var kirkjujörð frá Saurbæ og stendur við mynni Blikdals við Ártúnsá. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Blikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“ Þáverandi eigandi Ártúns var Saurbæjarkirkja sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún

Ártún 1967.

Hjarðarnes var byggt út úr Saurbæ og kirkjujörð þaðan. Bærinn er á sjávarbakka um 1,5 km í norðaustur frá Saurbæ rétt innan við Tíðarskarð. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“ Þáverandi eigandi Saurbæjarkirkja, sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Brautarholt

Brautarholtskirkja.

Brautarholt stendur á hæð sem kallast Kirkjuhóll á vestanverðu nesinu og vestur af bænum er lítið og mjótt nes, Músarnes við mynni Hvalfjarðar. Brautarholts er fyrst getið í Landnámabók og kirkja var komin þar árið 1200. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal á móti Þerneyjarkirkju. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi.“ Þá var eigandi jarðarinnar prófastsekkjan Sigríður Hákonardóttir að Rauðamel eða sonur hennar Oddur Sigurðsson.

Blikdalur

Blikdalur – sel.

Borg var kirkjujörð frá Brautarholti og var um 175 m í norðaustur af klettinum Borg og 335 m suðaustur frá botni Borgvíkur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.“

Mýrarholt var einnig kirkjujörð frá Brautarholti. Var í neðri túnum Brautarholts um 100 m suðaustur af Krosshól og 350 m vestur af svínabúinu í Brautarholti. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi Blikdal.“

Hof var landnámsjörð sem er austur af Brautarholti og skammt vestan við Grundahverfi. Þar er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Hofs; „Menn töldu að Hof hafi haft í seljum í Blikdal þar sem heita Hofssel gömlu en ekki vissu menn hvort þar hefði verið haft frítt eða nokkuð greitt til Brautarholts.“ Þá voru eigendur jarðarinnar nokkrir Sr. Vigfús Ísleifsson prestur í Skaftafellssýslu og bróðir hans Magnús Ísleifsson lögréttumaður á Höfðabrekku í Skaftafellsþingi, Hallfríður Snorradóttir ekkja, Kolbeinn Snorrason Seljatungu í Flóa.

Lykkja var tíundi partur úr jörðinni Hofi, en á Hofi er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Um Lykkju segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“

Blikdalur

Sel í Blikdal.

Við vettvangskönnun sumarið 2010 fundust að því er virðist fjórar selstöður á eyri sem er um sunnan Blikdalsár um miðjan Blikdal í Brautarholtslandi. Efsta selið er greinilega það sem síðast hefur verið notað en hin eru fornleg að sjá. Handan árinnar norðan megin eru tvær sýnilegar selstöður og fylgir örnefnið Saurbæjarsel þeirri fremri sem síðast var notað frá Saurbæ. Selið er við læk uppí miðri hlíð undir Selfjalli en hin Holusel er aðeins innar í dalnum og niður við Blikdalsá, einnig við læk. Beggja vegna í dalnum eru greinilegar götur að selstöðunum.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna í heild HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 11-14.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal  þjappað saman – uppdráttur ÓSÁ.

Álfsnes

Bærinn Víðines er á Kjalarnesi, á sunnanverðu Álfsnesi. Vestan hans er Gunnunes, vestast á Álfsnesi. Fátt er um örnefnalýsingar fyrir jörðina Víðines, en þó er ein þeirra ítarlegust. Þar segir:

Álfsnes

Álfsnes – herforingjaráðskort 1903.

“Jörð í Kjalarneshreppi næst vestan við Fitjakot. Upplýsingar um örnefni gaf Þorlákur Kristjánsson frá Álfsnesi.
Móti Fitjakoti er lækur sá, sem Selalækur heitir. Hann rennur í Leiruvog. Norðan bæjar er holt það, sem heitir Glóruholt. Austast á því er Markaþúfa, en úr henni austur er línan í Markastein. Uppi á há-Glóruholti einnig á merkjum er Fálkavarða. Merki móti Sundakoti eru úr Klofasteini, sem er utanhallt við sker.

Álfsnes

Álfsnes – örnefnakort.

Selalækur er í jarðfalli í mýrinni. Þar utar eru holt,sem nefnd eru Stóru-Smáholt. Þau eru þar utar fyrir ofan Voga, en Vogar er býli, sem Gísli Pálsson reisti niður við Leiruvoginn aðeins vestar Selalækjar, Litlu-Smáholt eru þar utar og ofar. Þetta er stórt samfellt mýrlendi og fátt um nafntilefni. Þar er næst Svartibakki, sem er bakki alveg niður við Leiruvog, mitt á milli holtanna, sem fyrr var getið.

Álfsnes

Vogar.

Vestur af Svartabakka er svæði, holt, sem nefnt er Svörður. Ekki mun það vera gamalt nafn, heldur síðan hlutafélag var stofnað í Reykjavík til mótekju. Þar utar er eyri fram við sjó, sem heitir Slétteyri, og er þá komið rétt heim undir bæ. Bærinn stendur rétt upp frá vognum sunnan í Glóruholtinu.
Vestan við bæ er vík, sem heitir Nesvík. Þar utar tekur við nes, sem heitir Gunnunes, bungumyndað, gróðurlítið og afmarkast af Nesvík. Norðan þess er lægð þvert yfir. Í henni eru rústir eftir Sundakot, öðru nafni Niðurkot; þar var býli fram undir aldamót.

Álfsnes

Álfsnes – stekkur.

Rétt vestur af oddanum á Gunnunesi og norðan í nesinu er Stekkur. Hann er hlaðinn, og túnblettur er þar í kring. Merkin móti Álfsnesi eru að vestan í svonefndar Fornugrafir. Milli Gunnuness og Þerneyjar er Þerneyjarsund.”

Þórður Kristjánsson, Drápuhlíð 15, kom í Örnefnastofnun 3. júní 1980, las örnefnalýsingu Víðiness og gerði við hana athugasemdir. Þórður er fæddur í Álfsnesi 1. nóv. 1917 og ólst þar upp til 1925, en þá fluttist faðir hans að Víðinesi og bjó þar til 1932.

Fitjakot

Fitjakot – túnakort 1916.

“Leiruvogur var nefndur svo í máli gamals fólks, en sjálfur kallar Þórður hann Leirvog. Klofastein hafði Þórður aldrei heyrt nefndan, ekki heldur Stóru- og Litlu-Smáholt. En Þorlákur bróðir Þórðar var miklu eldri en hann og hefur því vel getað þekkt þessi nöfn.
Nafnið Svörður er frá stríðsárunum fyrri. Þá var þurrkaður þarna mór og síðan fluttur á bátum til Reykjavíkur. Nesvík heyrði Þórður aldrei nefnda.
Sundakot eða Niðurkot er nú friðlýst.

Víðines

Víðines – túnakort 1916.

Stekkur var notaður til innrekstrar, þegar Þórður var barn. Upp af Svartabakka mun áður hafa heitið Lágamýri. Nafnið hefur Þórður eftir Vigfúsi Kristjánssyni (úr bókinni Í lífsins ólgusjó), en Vigfús hafði eftir foreldrum sínum, sem bjuggu í Víðinesi um 1870.
Rétt fyrir sunnan Nesvíkina er Selvík. Þar sátu selir oft uppi á klettunum, þegar gott var veður.”

Hið merkilega er að hér er nefndur bærinn Vogar undir Stóru-Smáholtum. Tóftir bæjarins (kotsins) sjást enn sem og hringlaga mannvirki ofan við vörina. Auk þess ákveður skrásetjari að kynna Víðines sem “jörð í Kjalarneshreppi næstan vestan Fitjakots”. Fitjakot var hins vegar austast við norðanverðan Leiruvog. Engin örnefnalýsing er hins vegar til um kotið þrátt fyrir að túnakort hafi verið gert þar 1912.

Heimild:
-Önefnalýsing fyrir Víðines. Ókunn. skrán.
-Örnefnastofnun. Athugas. Þórðar Kristjánssonar um Víðines.

Víðines

Víðines – túnakort 1916 sett inn á loftmynd.

Álfsnes

Bærinn Álfsnes er á Álfsnesi á Kjalarnesi. Í örnefnaskrám er m.a getið um gamlan bæjarhól, svonefndan Hulduhól (Hólinn) neðan við bæjarhúsin og laug (vatnsstæði) ofan þeirra.

Álfsnes

Álfsnes – Hulduhóll.

“Hulduhóll var 20 – 30 m frá bænum í suðaustur. Hann var stór um sig, stórþýfður og ávalur á alla kanta. Í honum var talið huldufólk, og sá B.[irgir] K.[ristjánsson] eitt sinn huldukonu þar í grennd.” (Ö.Ál.3). “Hulduhóll var kallaður Hóllinn í daglegu tali. Þetta var aflangur hóll, og hallaði aðeins af honum niður á túnið.” (Ö.Ál.2).
Hulduhóll er stór hóll suðaustur af bænum, gæti verið gamall bæjarhóll. Munnmæli herma að “Í Hólnum í Álfsneslandi var talið að huldufólk byggi”.

Álfsnes

Álfsnes – laug/brunnur/vatnssstæði.

Í “Fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi” frá árinu 2008 segir um Hulduhól: “Í túni Álfsness í aflíðandi grasi grónni brekku um 20
m SA af íbúðarhúsunum er álfhóll, um 2 m á hæð, mjög vel grasi gróinn”.

Í óútgefinni “Fornleifaskráningu á Álfsnesi og Glóru” árið 2006 segir: “„Staðhættir og lýsing: Ferhyrnd laug sem er með þrjár hliðar steyptar en eina hlaðna. Norðvesturhliðin er með stórgrýti með steinhleðslum neðst og er 3 m löng.

Álfsnes

Álfsnes – tóft við “laugina”.

Aðrar hliðar laugarinnar eru 2 m langar. Laugin er ca. 1 m að dýpt, hún er full af vatni ásamt svolitlum gróðri. Ástand: Hleðslur standa. Hættumat: Hætta vegna nærliggjandi iðnaðar. Aldur: 1900+ þó að hlaðni hluti laugarinnar gæti verið eldri”.
Skammt norðaustan “laugarinnar” er ferhyrnd tóft. Á túnakorti frá 1916 er hún í jaðri norðurtúngarðs Álfsness.
Með því að bera tóftina á túnakortinu, auk hliðastæðrar tóftar við vesturtúngarðinn, má augljóslega bera kortið saman við nýlega loftmynd af bæjarstæðinu.

Heimildir:
-Athugasemdir Þórðar S. Kristjánssonar við örnefnaskrá. (Ö.Ál.2).
-Athugasemdir Birgis Kristjánssonar við örnefnaskrá. (Ö.Ál.3).
-Fornleifaskráning á Álfsnesi og Glóru, 2006. Óútgefin skýrsla. Gögn Minjasafns Reykjavíkur.
-Fornleifaskráning vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi í Reykjavík, 2008.

Álfsnes

Álfsnes

Fitjakot

Fitjakot var upphaflega fornt býli í Kjalarnesþingi. Í “Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði” árið 2018 er m.a. fjallað um kotbýlið undir fyrirsögninni “Fitjakot, saga, minjar og örnefni“:

Fitjakot

Fitjakot í Kjalarneshreppi – túnakort 1916.

“Fitjakot er á norðanverðum bökkum Leirvogsár. Jörðin á mörk á móti Varmadal að austan en Víðinesi og Álfsnesi að vestan. Gamli bærinn í Fitjakoti stóð á Brunnhól um 70 metra suðaustan við núverandi íbúðarhús. Síðast stóð þar timburhús sem reist var um 1930 og þá lá þjóðvegurinn um hlaðið. Núverandi íbúðarhús, sem var byggt 1950, stendur aðeins vestar, á Húsaflötum, en þar voru áður fjárhús. Þar var Kaupfélag Kjalarnesþings stofnað 15. október 1950 og var þar fyrst til húsa.

Fitjakot

Fitjakot – MWL.

Athafnamennirnir Sturlubræður áttu Fitjakot um tíma og notuðu jörðina til sumarbeitar.
Fitjakot var áður nefnt Fitjar og var í eigu Viðeyjarklausturs 1395. Jörðin kemur fram undir eldra nafninu Fitjar, í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs 1395, en yngra nafninu Fitjakot í fógetareikningum frá 1548 til 1551.

Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarkirkju 1686 metin á 15 hundruð en á 10 hundruð 1695.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Ábúandi var einn. Kvaðir voru meðal annars um mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar fimm kýr og tíu lömb. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var sæmilegt. Leirvogsá var bæði til gagns og ógagns. Þar var hægt að veiða bæði lax og silung en hún spillti engjum og braut af túni. Stórviðri brutu stundum hey og hús.18 Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Fitjakot í eigu konungs metið á 10 hundruð.19 Árið 1855 var jörðin konungseign metin á 10 hundruð.
FitjakotSamkvæmt manntölum frá 1703 var einn ábúandi í Fitjakoti nema 1850 voru þeir tveir.”

Í örnefnalýsingu segir um Fitjakot:
“Jörð í Kjalarneshreppi, næsta jörð fyrir suðvestan Varmadal. Upplýsingar eru frá Jóni Jónssyni Varmadal og eitthvað annars staðar frá. Merkin móti Varmadal eru úr Skrauta, sem er neðsti hylurinn í Leirvogsá, um Fitjakotsmel, sem er milli bæjar og upp undir þjóðveg, þaðan í Markagróf og áfram í Flóalæk. Flóalækur kemur saman í flóunum suður frá Völlum og rennur hér áfram. Rétt vestan merkjanna er á honum gamalt ferðamannavað, sem heitir Helluvað. Síðan eru merkin eftir læknum norður í Kollafjörð.
Að vestan móti Víðinesi og Álfsnesi eru merkin Selja-, eða heldur Selalækur ofan úr mýrum og niður í sjó, þar sem hann fellur í Leirvog.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Neðan við Fitjakotsmel nær bæ heitir Fitjakotskrókur, og vestan við bæ heitir Vesturmýri, sem nær að Selalæk, sem fyrr getur. Beint vestur af túni er holt eins og í miðju landi, sem heitir Vörðuholt. Upp frá bæ er holt, sem heitir Fitjakotsholt. Þar upp af er Mjóimelur, og mýri þar vestur af heitir Mjóamýri milli Álfsness og Fitjakots. Norður af Mjóumýri er Blásteinsholt, sem er suðvestur af Naustanesi. Kúalág nær niður að á. Vestan við hana tekur við Krókur, og þar vestur af er Mjóamýri.”

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Í Vöku 1929 er grein eftir Ólaf Lárusson; “Úr byggasögu Íslands“. Þar segir m.a. um kotbýlin fyrrum:

“Af 926 býlum með slíku nafni og með kotnafni, sem Jón Johnsen nefnir í jarðatali sínu, telur hann 649, eða 73,6%, vera hjáleigur. En, eins og áður var getið, telur Johnsen hjáleigurnar of fáar, enda hefir mér talizt til, að af jörðum, sem þessi nöfn hafa, i Rangárvalla-, Árnes-, Gullbringu- og Kjósarsýslum séu nálægt 90% taldar vera hjáleigur í jarðabók Árna Magnússonar. Þessi tala tekur af öll tvímæli um það, að nöfn þessi hafa fyrst og fremst verið valin handa hjáleigunum.

Fitjakot

Fitjakot – MWL.

En jafnvel þessi tala er of lág. Sum lögbýlin, er þessi nöfn bera, munu eflaust vera fornar hjáleigur, sem hækkað hafa i tigninni og orðið lögbýli. Í annan stað kemur það nokkuð víða í ljós, að lögbýli, sem heita hjáleigunafni, hafa áður borið annað nafn. Sérstaklega er þetta algengt um lögbýlin, sem heita kot-nöfnum.
Um mjög mörg þeirra verður það séð með vissu, að þau hafa áður haft annað nafn. Kot-nafnið hafa þau fengið tiltölulega seint, venjulega sem viðbót við hið fyrra nafn sitt. Eru nokkur glögg dæmi þessa hér í nágrenni Reykjavíkur.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Býlin Hvammkot í Kópavogi (sem á síðari árum hefir verið nafnt Fífuhvammur), Hagakot hjá Vífilsstöðum, Óskot og Helliskot (Elliðakot) í Mosfellssveit og Fitjakot í Kjalarneshreppi eru öll gömul lögbýli. Þau voru öll eign Viðeyjarklausturs. Í skrá um leigumála á jörðum klaustursins frá 1395 eru býli þessi nefnd Hvammur, Hagi, Ós, Hellar (þá í eyði) og Fitjar. Í fógetareikningum kringum 1550 eru þau þeirra, er þá voru byggð, ýmist nefnd þessum nöfnum, eða kotnafninu. Fitjar eru nefndar því nafni í reikningum 1547- 1548, en Fitjakot i reikningum næstu ára á eftir.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm (Hvamm) í Kópavogi.

Hvammur er nefndur því nafni i reikningunum 1547. Allt eru þetta gömul lögbýli. Stundum var nafnbreytingin þó ennþá stórkostlegri. Staðir urðu að kotum. Að lögbýli bera hjáleigunöfn sannar þó eigi, að þau nöfn séu gömul. Hitt, að sýnt verður, að mörg þessara býla hafa fengið nöfn þessi tiltölulega seint, er vottur þess, að hjáleigunöfnin tilheyri yfirleitt yngra stigi í byggingarsögu landsins, og það bendir aftur til þess, að hjáleigurnar séu flestar byggðar nokkuð seint. En hvernig stendur á þessum nafnbreytinguin lögbýlanna? Ég hygg, að þær hafi oftast stafað af því, að býlin hafa lagzt í auðn í bili. Einkum á þetta við um kot-nöfnin. Það hefir verið tíðkað í alþýðumáli, að nefna rústir „kot“, jafnvel rústir af fyrrum býlum.”

Í fornleifaskráningum í Víðinesi og athafnasvæði Sorpu hefur hvergi verið getið þar um augljósar minjar, sem verðugar eru nánari skoðunnar, þ.á.m. minjar í tengslum við örnefnið “Seljalækur”…

Heimildir:
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði, Reykjavík 2018, bls. 9.
-Vaka, 3. tbl. 01.02.1929, Ólafur Lárusson, Úr byggasögu Íslands, bls. 361-363.

Fitjakot

Álfsnes – herforingjakort 1903. Hér eru merktar nokkrar fornleifar, sem ekki hafa ratað inn í fornleifaskráningar.

Sel í Bleikdal

Í Blikdal (Bleikdal) eiga að vera leifar selja frá Brautarholti, Saurbæ, Borg, Hjarðarnesi, Nesi, Mýrarholti, Ártúni og Hofi, s.s. Hofselin gömlu. Ætlunin var að reyna að finna og skoða selleifarnar í Blikdal. Blikdalur er um 7 km langur svo gangan var a.m.k. 14 km.

 Blikdalur

Selin í Blikdal eru í landnámi Ingólfs – þess fyrsta norræna manns er nam land hér á landi til lífsframbúðar. Í 8. kafla Sturlubókar afskriftar Landnámu segir að “Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.”

Jarðabók Árna og Páls segir að Brautarholt (kirkjustaður) hafi haft „selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi. Haglaust er að mestu á jörðunni bæði sumar og vetur.“
Um Ártún (kirkjujörð frá Saurbæ) segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Bleikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“
 BlikdalurOg um Saurbæ (kirkjustaður): „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“
Hjarðarnes (kirkjujörð frá Saurbæ) er nefnt: „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er einnig vikið að beitilandi og
selstöðum fleiri jarða á Blikdal.
Um Hof segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal, þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“
Borg (kirkjujörð frá Brautarholti): „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.
 BlikdalurUm Nes, eina af hjáleigum Brautarholts segir Jarðabókin: „Selstöðu hefur jörðin brúkað frí í Blikdal þar sem er Brautarholtskirkjuland.“
Mýrarholt, kirkjujörð frá Brautarholti, hefur samkvæmt Jarðabókinni eftirfarandi selstöðu: „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi í Blikdal.“
Samkvæmt framangreindum  heimildum eiga að hafa verið allt að átta selstöður í Blikdal. Hvort þær hafi allar verið í sama selinu eða víðar í dalnum átti eftir að koma í ljós.

Blikdalur

Seltóft í Blikdal.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns segir að til íhugunar sé varðandi jarðir í Kjalarneshreppi að samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti konungur eða hafði átt allar jarðir í hreppnum innanverðum, þ.e. Þerney, Álfsnes, Fitjakot, Varmadal, Stardal, Hrafnhóla, Þverárkot, Gröf (Norðurgröf), Velli, Kollafjörð, Mógilsá, Esjuberg, Móa, Saltvík og Skrauthóla. Einn einstaklingur var eigandi að Brautarholti og Bakka og hafði þá yfirráð yfir jörðum Brautarholtskirkju, Borg og Mýrarholti, og átti einnig hluta úr Hofi og Lykkju.
Í landamerkjabréfi jarðanna frá 1922 er merkjum í Blikdal lýst þannig að þau liggi eftir beinni stefna í Strítu á fjallsbrún og „þaðan sem vötnum hallar suður fram í Bleikdalsbotn, og síðan þaðan eins og Bleikdalsá ræður í sjó niður.“

Blikdalur

Blikdalur.

Blikdalur [Bleikdalur] er nefndur í máldaga Saurbæjarkirkju frá því um 1220. Þar segir: „Bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fioru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Sömu upplýsingar koma fram í Vilchinsmáldaga frá 1397. Fjallað er um eignarrétt Brautarholtskirkju á Blikdal samkvæmt máldögum og visitasíum undir Brautarholti hér að framan.
Skúli Magnússon segir í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem samin var á
árunum 1782 – 1784 um Blikdal: „Undir síðast greindar jarðir [þ.e. Brautarholt og Saurbæ] liggur dalur einn, Bleikdalur að nafni. Skerst hann inn milli Esju og Esjuháls. Eru þar sel og góðir hagar.“
 Blikdals er ekki getið sérstaklega í biskupsvisitasíum í Saurbæ. Kirkja þar átti 30 hndr. í heimalandi en samkvæmt máldögum voru það jarðirnar Ártún og
Hjarðarnes.
Árið 1812 var lögð fyrir sáttanefnd ákæra Saurbæjarbónda á hendur bóndans í Arnarholti fyrir ágang hrossa á óðals- og kirkjulandi Saurbæjarkirkju. Ekki er ólíklegt
að þar hafi verið um Blikdal að ræða. Í byrjun 5. áratugar 19. aldar hafði Runólfur Þórðarson í Saurbæ kirkjulönd Saurbæjar og Brautarholts til umráða. Þessi svæði lágu í Bleikdal [Blikdal]. Þann 17. maí 1842 gaf Runólfur út viðvörun til íbúa Kjalarneshrepps þess efnis að þeir mættu ekki reka stóðhross, lömb eða annan geldan fénað þangað án hans leyfis. Í tilkynningunni, sem var þinglesin þann 1. júní 1842, minnist hann á Ártúnsrétt og nauðsyn þess að reisa nýja rétt.

Blikdalur

Blikdalur innanverður.

Í tilkynningu sem ábúandinn á Saurbæ undirritaði 26. maí 1850 lýsir hann því yfir að hann hafi ákveðið að banna „innan og utansveitarmönnum“ að stunda stóðhestarekstur í Blikadal. Ábúandinn telur sig hafa rétt til þessa því hann hafi Blikadal á leigu. Í tilkynningunni kemur einnig fram að gamlar stóðhryssur sem „hvergi annars staðar tolla” séu undanþegnar banninu. Tilkynningin var þinglýst 31. maí 1850.
Á manntalsþingi, sem haldið var á Esjubergi þann 8. júní árið 1860, var lesin upp tilkynning frá A. Björnssyni [í Brautarholti], Ásbirni Ásbjörnssyni [í Mýrarholti] og Runólfi Þórðarsyni [Saurbæ], sem dagsett var 31. maí sama ár, en í henni banna
þeir notkun á Bleikdal.

Þann 17. maí 1873 skrifaði umráðamaður Brautarholtskirkju undir tilkynningu þess efnis að enginn mætti reka fé á Bleikdal [Blikdal] án þess að hafa til þess leyfi frá bændunum á býlunum tveimur Mýrarholti og Brautarholti, sem höfðu einhvers konar byggingarleyfi fyrir dalnum. Yfirlýsingin var þinglesin þann 20. maí 1873.
Þann 29. maí 1890 var landamerkjabréf jarðarinnar Bakka undirritað. Það var þinglesið 3. júní sama ár. Þar er að finna upplýsingar um Blikdal: Að norðanverðu ræður Ártúnsá að Bleikdalsmynni, þaðan eru landamerki í Urðargeira, þaðan í Pollalæk en úr Pollalæk ræður garðlag sem ber í þúfu
sunnanvert við Grænhól, úr þeirri þúfu beina stefnu í Fjósgróf við sjó fram. Hér er minnst á garðlag í dalnum.
 Landamerkjabréf Saurbæjar var undirritað í maí 1890 og þinglesið 3. júní
1890. Í því er að finna upplýsingar um Blikdal: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig: að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils, en Ártún fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.“ Hér er getið um Selgilslæk.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru með Brautarholti taldar allar hjáleigur, Andríðsey og kirkjujarðirnar Brekka, Arnarholt, Mýrarholt, Prestshús og 2.2 hundruð í Bakkaholti. Landið er talið allmikið, láglent og því fylgir hálfur Blikdalur en þar uppfrá er afrétt.

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Landamerkjabréf fyrir Brautarholt ásamt jörðunum Bakkaholti, Brekku, Arnarholti, Mýrarholti og Presthúsum var undirritað 31. maí 1921. Því var þinglýst 22. júní 1922. Í lok landamerkjabréfsins er að finna upplýsingar um Blikdal: „Ennfremur fylgir Brautarholti Bleikdalur allur sunnan Bleikdalsár, suður og austur á fjallsbrún eins og vötnum hallar, ennfremur Andriðsey á Hvalfirði.“
Árið 1922 var samið nýtt landamerkjabréf fyrir Saurbæ. Það var undirritað 8. maí það ár og þann 22. júní var það þinglesið. Þar er líka að finna upplýsingar um Blikdal: „Gagnvart Melalandi eru mörk frá jarðföstum steini með þúfu á við sjó, fyrir sunnan svokallaðan Markalæk, fyrir norðan Hjarðarneskot og svo þaðan beina stefnu í tvo steina báða merkta með M.K. og stendur annar þeirra í stórasandhól fyrir norðan veginn en hinn sem er stærri stendur að sunnan verðu við veginn.
 BlikdalurFrá merkjasteinum þeim er við veginn standa er bein stefna í Strítu á fjallsbrún og þaðan sem vötnum hallar suður fram í Bleikdalsbotn, og síðan þaðan eins og Bleikdalsá ræður í sjó niður. Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskifta beit en slæjur þannig að Hjarðarnes og Hjarðarneskot hafa slæjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils, en Ártún fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Blikdalur – Saurbæjarsel.

Rétt aðeins er minnst á Blikdal [Bleikdal] á nokkrum stöðum í fasteignamati árins 1932. Í umfjölluninni um afréttarland Saurbæjar er sagt að hálfur Blikdalur sé afréttarland hennar en að nyrðri hluti sé kirkjujarðarinnar. Þar kemur einnig fram að: „6 + 8 [þ.e. Hjarðarnes og Ártún] nota líka. Í kaflanum um Arnarholt kemur fram að
hálfur syðri hluti Blikdals sé upprekstrarland jarðarinnar og í umfjölluninni um
jörðina Brautarholt er nefnt að afréttarland jarðarinnar sé hálfur syðri hluti Blikdals.
Við sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar, 3. apríl árið 1998, eignaðist borgin þann hluta Blikdals sem Kjalarneshreppur hafði keypt árið 1960.
Þann 13. september árið 2000 keypti Reykjavíkurborg hluta Saurbæjar í óskiptri sameign í Blikdal norðan Blikdalsár.

 

Margir þverlækir eru í Blikdal

Í bókinni „Upp á sigurhæðir –  Saga Matthíasar Jochumsonar“ eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur er að finna eftirfarandi texta á bls 259: “Matthías segir frá því þegar Guðrún (dóttir Runólfs óðalsbónda í Saurbæ – viðbót HÓ) sendi honum úr selinu í Blikdal ber í skjólu og fáeinar línur með. Matthías nefnir ekki hvað Guðrún skrifaði, en bregst svo glaður við að hann ríður fram á dal til að þakka henni sendinguna.Sól skein “hlæjanda í heiði” og Blikdalurinn var hinn hýrasti. Í fyrri útgáfunni að Söguköflum Matthíasar hefur allt er varðar þetta tildragelsi verið fellt niður. Þessi stund í dalnum leið í algleymi svo auðvelt er að ímynda sér hvað þau Guðrún gerðu. Eftir þetta fór samdráttur þeirra að „verða hljóðbær”.
Á bls. 260 segir ennfremur: „Annað ástarkvæði, “Daladrósin”, er skrifað í sömu stílabók og því greinilega um Guðrúnu uppi í selinu:

Hátt í dalnum, sólarsalnum,
Situr stillt og þýð,
Snotur, hýr og hnellin,
Há og grönn og smellin,
dala-drósin blíð.

Saurbæjarsel

Saurbæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Hún er þar innan um lömbin; ástin rís með yndisþrá í ungu brjósti hennar, en rósin hnígur og hún er ein eftir í dalnum þegar sá sem hún elskar fer frá henni….en hann kemur loks aftur úr austri. Lok þessa kvæðis er bara í stílabókinni en ekki í Ljóðmælum Matthíasar. Þar er sá sem hún elskar úti á hafi, ann henni heitt og biður fjallavindinn að færa sér koss “eldheitrar meyjar” við “úrsvalan foss”.
Raunveruleikinn var nokkurn veginn eins og í kvæðinu nema hvað hann varð mun svartari þegar samdráttur þeirra Matthíasar og Guðrúnar varð lýðum ljós. Dagurinn sæli í Blikdalnum er á berjatíma haustið 1872 en barn þeirra fæðist í janúar 1874. Samband þeirra virðist því hafa staðið í marga mánuði. Það er ekki fyrr en Guðrún verður þykkari sem skelfingin vaknar.”
ÁrtúnAð sjá gerðist ýmislegt í seljum landsins þó ekki séu til margar frásagnir af lífinu þar. Það verður þó að geta þess að Matthías og Guðrún giftust sumarið 1875 eftir að Matthías hafði stungið af úr hempu og sókn frá henni óléttri haustið 1873.
Það var vel við hæfi  að rifja þetta upp við seljarústirnar í Blikdal. Efsta myndin er af seli Guðrúnar. Það er greinilega yngst af þeim 8 seljarústum, sem sjá má í dalnum. Selið er fremst fjögurra selja norðan árinnar. Fjögur sel eru sunnan hennar. Öll selin eru á tiltilölulega afmörkuðu svæði. Fremsta selið stendur efst. Það er tvískipt tóft með dyr mót vestri. Þaðan hefur verið auðvelt að fylgjast með aðkomufólki. Selsstígurinn liggur beint að tóftinni. Austan hennar er tóft, sennilega af eldra seli, sem hefur verið nokkurn tíma í notkun. Norðar er tvískiptur stekkur. Sjá má grjót í honum líkt og í nýrri seltóftinni.
Efsta tóftin að norðanverðu er einnig tvískipt og stakt hús við hliðina. Dæmigert sel á Reykjanesskaganum. Vestar eru Ártúnfleiri tóftir og vestan við beygju á ánni eru jarðlægar tóftir, greinilega mjög gamlar. Handan árinnar er tóftir austast í grónum hól. Á sléttlendi við ánna eru ógreinilegar tóftir ca. 25 m vestar. Skammt vestan þeirra eru tóftir tveggja selja, líkum þeim sem sjá má austast að norðanverðu, tvískipt hús með öðru við hliðina. Tóftirnar eru allar grónar en vel mótar fyrir veggjum. Selin að norðanverðu eru öll við lækjasitrur, en suðurselin eru á árbakkanum.
Það eru sem sagt leifar átta selja í Blikdal. Tækifærið var notað til að rissa nokkur seljanna upp. Dalurinn er gróinn að norðanverðu og auðvelt að greina svæðin þar sem selin voru. Staðsetningin er heppileg því þar sem selin eru má heita logn þegar blæs annars staðar í dalnum. 

Hofssel

Hofssel í Blikdal.

Að sögn Páls Ólafssonar, bónda í Brautarholti, var Blikdalurinn tvískiptur; Brautarholt átti suðurdalinn og Saurbær norðurdalinn. Nes, Borg og Hof tilheyrðu Brautarholtsstorfunni og Ártún, Hjarðarnes og Mýrarholt (Mýrarhús) tilheyrðu Saurbæjartorfunni. Á handrituðu örnefnakorti af norðanverðum Blikdal er getið um Selfjall, Selgil, Selgilsbolla, Sel og Ha[?]ssel.
Blikdalsáin var í leysingum líkt og að vorlagi, snjór þakti læki, en á einstaka stað mátti sjá lífsneista að vori.
Rústir Ártúns eru rétt austan við Vesturlandsveginn. Ofan þeirra má enn sjá grónar rústir hinnar gömlu Ártúnsréttar, sem nefnd er hér að ofan. Kjalnesingaréttin nýrri (Arnarhamarsréttin) er nokkru sunnar, undir lítilli klettarhæð, Arnarhamri.
Stefnt er að annarri ferð í Blikdal (Bleikdal) fljótlega. Til fróðleiks má geta þess að orðið “bleik” þýðir “mjólk” á gelísku.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Máldagar Saurbæjarkirkju frá 1220 og 1315.
-Landnám Ingólfs. I. bindi. Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Verðlaunaritgerð eftir Skúla Magnússon, landfógeta. Reykjavík 1935-1936, bl. 136.
-Upp í Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, bls. 259.
-Jarðabók JÁM og PV 1703. III. bindi.
-Landamerkjabréf
-www.obyggðanefnd.is

Blikdalur

Blikdalur.

 

Brautarholt

Gengið var með ströndum hins eiginlega Kjalarness utan við Brautarholt. Ætlunin var m.a. að skoða Presthúsatanga, Nesvíkina, Kjalarnesið, Borgarvíkina, Músarnesið og Brautarholtsborgina, auk þess Björnsstekk og borgina á Borginni. Hér er um að ræða svæði, sem jafnan er utan alfaraleiðar, en hefur upp á ótrúlega margt að bjóða.

Brautarholtskirkja

Brautarholtskirkja.

Gangan hófst við Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, en telja má hana afkomanda fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlykur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar. Kirkjan, sem þarna er nú, var reist árið 1857 af Eyjólfi Þorvarðarsyni frá Bakka á Kjalarnesi. Áratug eftir vígslu kirkjunnar kom þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson til þjónustu í kirkjunni (1867-73). Hér má m.a. lesa um ferðir hans upp í Blikdal, selstöður Brautarholtsmanna fyrrum. Nýlega var kirkjan endurbyggð frá grunni og virðist kirkjunni hafa verið vel við haldið.
Til eru ágætar örnefnalýsingar frá Brautarholti og svæðinu öllu, sem Örnefnastofnun Íslands hefur haft forgöngu um að gera. Í einni þeirra segir m.a. um gömlu bæina: “
Litlu býlin og húsmanns býlin, sem ég tel upp eru nú horfin úr Jarðabókum. Borg, Skemma, Ketilstaðir, Kjalarnes, Hjallasandur, Lambhús, Flatbjörn, Langabúr austara, Langabúr vestara, Mýrarholt, Arnarholt er eign Reykjavíkurborgar ásamt Brekku og smábýlum eða húsm. býlum, Sigurðarhús, Hryggur, Berg, Nauðverja, Presthús, sem er eign lögfr. í Reykjavík.

Borgin

Borgarskarð upp af gamla Borgarbænum og Brautarholtsborg. Norðan undir henni var hið stóra býli, Borg, fyrr á tímum. 18 hurðir voru á hjörum í Borg.
Norður frá Borginni eru Kinnarhólar. Svo er mýri þar vestur af eða suðvestur af Kinnarhólum. Hún heitir Gullkistumýri. Vík þar vestur af heitir Gullkistuvík. Í kletti sunnan við Gullkistuvík er sagt, að sé falin gullkista, og heitir þar Gullkistuhöfði.” Í annarri lýsingu segir: “Gullkista er drangur í sundi, sem liggur inn í Gullkistuvík.”
Þá; “Upp og austur af Gullkistuvík er holt, sem heitir Móholt; þar var breiddur mór. Það er upp af Nesvíkinni nyrzt, Vestast er þar smáhæð. Þar er vík, sem nefnd er Pálsbúð. Sunnan við Gullkistumýri er Nesvík. Syðst í mýrinni eru smáhólar, og þar suður af er Vestri-Nesbær og Eystri-Nesbær. Hreppstjórabúð heitir milli þeirra. Þá eru Borgarhólar, sem eru austur af Borginni. Tangar eru undan Eystri-Nesbæ. Milli Gullkistu og Nesvíkur er svæði. Þar undir strandaði Laxfoss, 10. jan. 1944.

Laxfoss á strandsstað

Í Mbl 11. janúar 1944 segir frá sjóslysinu undir fyrirsögninni “Laxfoss strandar nálægt Effersey – Mannbjörg með naumindum eftir langan tíma – um 100 manns voru með skipinu”. Í fréttinni segir að Laxfoss hafi strandað kl. 7 1/2. farþegar um 100 manns náðust í land um og eftir miðnætti. Mikill sjór kom ískipið strax eftir strandið. Óvíst væri um björgun þess. veður var mjög dimmt, hríð og hvassviðri mikið.
Dráttarbáturinn Magni var sendur á strandsstaðinn. Magni kom aftur og sögðu skipverjar ógerlegt, eins og þá stóð, að komast nálægt skipinu. Björgunarsveit frá slysavarnarfélaginu fór út í Effersey til að freista að koma björgunarlínu þaðan út í skipið. Það reyndist ómögulegt vegna veðurs. Ein lína lenti þó yfir skipið, en festist svo ofarlega í afturmastrinu, að henni varð ekki náð.
Borgarvík og Músarnes og Anriðarey fjærNokkrir menn komust í land í skipsbátnum vestan við Grandagarð. Þeir sögðu að strax hefði komið mikill leki að skipinu, en farþegar væru rólegir. Tókst að koma línu í skipið og síðan ferja fólkið til lands, smám saman, með aðstoð Magna og amrísk innrásarpramma. Tókst að bjarga öllum, 91 manni (78 farþegar og 13 skipverjar), sem um borð höfðu verið. Skipið hafði verið í strandsiglinum. Farþegarnir voru flestir Norðlendingar, þar á meðal 6 þingmenn og stjórn Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði.
Varðskipið Ægir reyndi að ná Laxfossi af skerinu skv. frétt Mbl daginn eftir. Þann 13. janúar segir svo frá því að “hæpið verði að ná Laxfossi út – botninn mikið brotinn”. Skipið hvarf síðan í sjóinn nokkru seinna.
Skammt vestan við Presthús er kjölur af bát, táknrænn fyrir svæðið. Augljóslega er þarna um að ræða leifar björgunarbáts. Það skyldi þó ekki hafa verið einn af björgunarbátunum frá Laxfossi?
BjörnsstekkurÞá er Músasund vel gert af guðs og góðra vætta hendi, er sjómenn, er leið eiga inn í Hvalfjörð í beitufjöru hafa hárviss leiðarmörk, 2 hlaðnar vörður vel gerðar (af snild) af bændum í Brautarholti, er þeir settu upp hræður til að verja æðarvarpið fyrir fuglavargi og jafnvel sportveiðiþjófum úr öllum stéttum mannfélagsins.
Í Andrisey er Andríðarhóll, sem fregnir herma, að Andriður gamli í Brautarholti væri í heygður, er hann var
veginn eftir hofsbrunann að Hofi. Síðan segir, að byrjað hafi verið að grafa í hólinn, en þá hafi öll bæjarhús í Brautarholti verið í ljósum loga. Merki sjást til þess, að grafið hafi verið í hólinn.
Hér á eftir þarf að koma fyrir lengri texta þótt ekki væri fyrir annað en að koma að myndum af nokkrum þeim minjum, sem sáust á leiðinni, s.s. Björnsstekk, öðrum stekk skammt vestar, tóft ofan við Messing og fjárborg á Borginni sjálfri.
Stekkur vestan NesvíkurÞegar gengið var framhjá Prestinum undan Presthúsatanga var m.a. rifjuð upp hluti af sögu nýlegs sakamáls er segir frá fullyrðingu manns, sem myrti konu og sagðist hafa kastað líki hennar þarna í sjóinn. Það fannst hins vegar þremur dögum síðar í Smalaskálahæð sunnan við Hafnarfjörð.
Nesvíkin er formfögur vík. Eignin tilheyrir fjölskyldu Jóns heitins Ólafssonar á Brautarholti. Þarna er hin ágætasta aðstaða með enn ágætara útsýni.
Uppi á Borginni (Brautarholtsborg) eru leifar af hringlaga fjárborg, sem standurinn ber að öllum llíkindum nafn sitt af. Lítið sést eftir af borginni, en þó greinir enn í neðstu hleðslurnar, auk þess sem borgin hefur gróið upp að innanverðu. Suðvestan undir borginni er fjárskjól. Sunnan þess er hár, myndarlegur, klettadrangur, sem án efa hefur haft nafn, enda hinir ákjósanlegustu huldufólksheimar.
Tóft ofan MessingsOfan Nesvíkina austanverða sést móta fyrir tóftum. Þar gæti hafa verið garður eða mannvirki tengd uppsátri. Ofan við miðja víkina, sunnan undir grónum hól, er Björnsstekkur. Hleðslurnar standa enn og vel má sjá lögun hans. Skammt vestar, einnig rétt ofan við víkina, er annar stekkur, heldur minni, en heillegur.
Vestar er Bryggjunes og Gullkistuvíkin. Gullkistan er greinileg úti í miðri víkinni. Hann er sérkennilegur að því leitinu að neðri hluti hans er bólstraberg, líkt og fjaran umhverfis, en hatturinn á henni er stuðlaberg.

Kjalarnes

Kjalarnes.

Skammt vestar er hið eiginlega Kjalarnes, ofan Messings. Þar er hin ákjósanlegasta lending með góðu vari. Greinilega er stutt á miðin því bátar voru á veiðum þarna skammt frá landi. Tóft er ofan víkurinnar, ferningslaga, en nánast fyllt af sandi. Grjót er í tóftinni. Sennilega eru þarna um að ræða leifar af sjóbúð. Ofar er hólaþyrping Kinnarinnar. Á þeim má sjá leifar eftir hernámsárin. Ofan af Kinnarhólum er fagurt útsýni yfir Borgarvíkina, Músarnesið og Andriðarey.
Strandssvæðið á Kjalarnesi er eitt hið fegursta, aðgengilegasta og fjölbreytilegasta slíkra á Reykjanesskaganum – og engin ástæða til að halda því lengur leyndu fyrir áhugasömu útivistarfólki.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar ÖÍ.

Gullkistuvík

Búahellir

Í Kjalnesingasögu segir frá Búa, sem hélt til í helli í Laugargnípu. Í viðræðum við Harald Jónsson í Varmadal fékkst staðfest að hellirinn væri til, nefndur Búahellir.

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Hellirinn er ofarlega í Búa (Laugargnípu) og erfitt að komast upp í hann. Sjálfur hafi hann einu sinni reynt að klifra þangað upp en í upphafi skal endirinn skoða því erfitt getur reynst að komast niður aftur. Best væri að síga ofan frá, í hellinn og síðan fara áfram á bandinu niður fyrir.
Gengið er að skriðu fjallsins frá Grundará, sem kemur úr gili (Gljúfrinu) skammt norðar. Op hellisins horfir mót vestri.

Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.

Esjuberg

Búahellir?

Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju. Andríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim.

Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.
Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.

Lauganýpa

Lauganýpa.

Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.

Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar. Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.”

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.
Haraldur segir umhverfið þarna hafa breyst mikið á skömmum tíma. Um 1920 hafi t.d. áin breytt um farveg. Áður hafi hún runnið mun vestar. Þegar staðið væri uppi á Búa og horft yfir Esjuberg og nágrenni hefði fyrir 50 árum mátt sjá móta fyrir gömlum tóftum á túninu og þannig nokkurn veginn mátt átta sig á hvernig gamla bæjarstæðið hafi litið út. Nú væri þetta meira og minna horfið. Ef taka ætti mið af breytingunni á þessum rúmlega fimmtíu árum, sem hann hafi verið þarna, þá gæti svæðið og þar með fjallið hafa litið allt öðruvísi út fyrir einhverjum öldum síðan, hvað þá árþúsundi. En hellirinn væri þarna upp í klettunum.

Heimild fengin af:
-http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm

Esjuberg

Esjuberg um 1900.

Saurbær

Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.

Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju.
KjalarnesAndríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim. Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal. Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.
Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar.

Lauganýpa

Í Lauganýpu.

Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.

Framundan er verkefni, þ.e. að fara og skoða framangreindan helli með skírskotun til sögunnar.

Heimild fengin af http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm

Esja

Esja.

Þingnes

“Heimildarritin geta eigi nema tveggja þinga hér á landi áður en alþingi var sett á stofn, Þórsnesþing og Kjalarnesþing. En að leiða út af þessu þá ályktun, að fleiri þing hafi eigi verið til hér á landi fyrir 930, virðist nokkuð hæpið. Það er auðvitað, að þinganna hér á landi er eigi getið nema í sambandi við einhverja atburði, eða þá af einhverjum öðrum sérstökum ástæðum. Að öðrum kosti er gengið þegjandi fram hjá þeim, eins og gengið er þegjandi fram hjá svo mörgum öðrum merkum atburðum, því fornsagan er fyrst og fremst viðburðasaga, en eigi réttarsaga eða þjóðmenningarsaga.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Ari fróði, sem bezt og og áreiðanlegast þræðir réttarsögu landsins og framvaxtarsögu þjóðfélagsins, þótt fljótt sé yfir farið, minnist eigi einu sinni á Þórsnesþing. Aftur á móti getur hann um Kjalarnesþing á talsvert einkennilegan hátt. Hann segir svo frá: “Alþingi vas sett at ráþi Ulflíótz oc alra lanzmanna, þar es nú es, en áþr var þing á Kialarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr lannámamannz, faþeer Þorkels mána lögsögumannz, hafþi þar, oc höfþingiar þeir es at þuí hurfu”. Beinast liggur við að skilja orð þessi þannig, að eigi hafi verið til nema eitt þing hér á landi áður alþingi var sett á stofn, – Kjalarnesþing. Nú vitum vér með fullri vissu, að Þórsnesþing að minsta kosti, var sett löngu fyrir þann tíma, og þar er sjálfsagt, að Ara fróða var fullkunnugt um það líka, því hann var ættaður að vestan, afkomandi Þórðar gellis, er deiluna jafnaði [með liðum á Þórsnesþingi]. Hlýtur þá eitthvað og sérstakt að hafa verið einkennilegt við Kjalarnesþing, úr því hann minnist á það með þannig löguðum orðum, og getur það varla eftir atvikum verið annað en það, að Kjalarnesþing hafi haft líka þýðingu fyrir landið í heild sinni eins og alþingi hafi síðar, eða með öðrum orðum, að það hafi verið eins konar allsherjarþing, og verðum vér að hallast að þeirri skoðun. Þangað var skotið málum úr öðrum héruðum, sektarfé það, sem þar var dæmt, var gert að almannafé, þvert ofan í allar venjur, hefði þingið verið skoðað eingöngu sem héraðsþing, og goði sá, sem Kjalarnesþingi stýrði, var síðar við stofnun alþingis gerður að allsherjargoða. Allt bendir þetta í þá átt, að Kjalarnesþing hafi verið sameiginlegt fyrir land allt, og var þá engin furða, þótt endurminningin um það geymdist bæði vel og lengi”.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Á öðrum stað (bls. 62-63) segir um Kjalarnesþing: “Kjalarnesþing hefir eflaust eins og nafnið bendir á verið haldið á Kjalarnesi, þótt nú sjáist þess lítil eða engin merki. Kjalnesingasaga segir, að það hafi verið haldið “suðr við sjóinn”, og þótt hún sé í flestum greinum á áreiðanleg, er eigi ólíklegt að hún hafi rétt fyrir sér í þessu, því endurminningin um hið forna, merka Kjalarnesþing hlaut að geymast lengi í minnum manna. Skammt út frá Mógilsá undir kleifunum við sjóinn er nefnt “Leiðvöllur”, og bendir það nafn á, að þar hafi einhvern tíma verið þing haldið. Leiðvöllur er breið grjóeyri, sem gengur út í sjóinn. Fyrir ofan eyrina liggur síki, og þar upp af að austanverðu er lítill grasgeiri, sem nú heitir Kirkjuflötur. Á henni sjást leifar af lítilli tóft, og þó mjög óglöggt. Önnur mannvirki sjást þar nú eigi, og mun sjórinn hafa rótað til og brotið af. Upp af eyrinni er brekka, víða grasi vaxin; hefur það eflaust verið “Þingbrekkan”. Slíkar þingbrekkur eru víða nefndar í fornsögunum, og hyggjum vér, að fornmenn hafi jafnan valið sér þingstað með tilliti til þess, að brekka eða hæð væri í nándinni, þaðan er vel mætti heyra mál manna, því frá þingbrekku fóru fram löglýsingar allar og tilkynningar”.

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Af framangreindum skrifum að dæma virðist Kjalarnesþing upphaflega verið sem önnur hinna 13 vorþinga, en vegna tengslaleysis þeirra við setningu laga og dómauppkvaðningu virðist hafa orðið þörf fyrir samræmt þing þegar fyrir árið 900. “Víða í sveitum var orðið svo þéttbýlt þegar laust eftir 900, að brýn nauðsyn var á þingum eða einhverju öðru í þeirra stað til að ræða nauðsynjamál héraðanna og jafna deilur, og má nærri geta að örðugt hefir þótt að leita í aðra landsfjórðunga með hvert smáræði. Vér höfum því fyrir satt, að þing hafi risið smám saman víðsvegar um land, þótt eigi sé þess getið í sögunum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Í hverju þingi fyrir sig hafa menn komið sér saman um helztu lagaákvæði og reglur, er fylgja skyldi, og hafa þær sjálfsagt verið nokkuð mismunandi í ýmsum héruðum landsins og sóttar sitt í hverja áttina. Meðan um innanhéraðsdeilur einar var að ræða, hefir þetta sjálfsagt getað bjargast og eigi orðið svo mjög að meini. En þegar landsbúum tók að fjölga og viðskifti og samgöngur á milli héraða að aukast, þá hlutu menn von bráðar að festa sjónir á annmörkum þeim, sem á þessu voru. Þegar sækja skyldi mál í önnur þing, kom það upp úr kafinu, að þar var allt öðrum reglum fylgt um málatilbúnað, sókn og vörn, eiðspjöll og sakarvætti, en í varnarþingi málshefjanda, og úrskurðir ef til vill byggðir á allt öðrum lagagrundvelli. Þetta hefir gert mönnum ókleift eða að minnsta kosti mjög örðugt að ná rétti sínum, er leita skyldi í önnur þing. Hlaut það því að verða eitt af brýnustu nauðsynjamálum landsins, að koma föstu skipulagi á þingin og mynda sameiginlega löggjöf fyrir allt land”.
Þetta gæti hafa verið hlutverk þingsins á Þingnesi, þ.e. að vera undanfari Alþingis, sem síðar var sett á Þingvöllum.

Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 26-28.

Þingnes

Minjasvæðið á Þingnesi.