Í Morgunblaðinu 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22, fjallar Elín Pálmadóttir um “Látnu óvinina í Brautarholtskirkjugarði á Kjalarnesi”:
“Í kirkjunni í Brautarholti á Kjalarnesi vekur forvitni tréskjöldur með áletrun um þakklæti þýskra mæðra – og feðra til Ólafs Bjarnasonar bónda þar fyrir umhyggju hans. Elín Pálmadóttir leitast hér við að rekja merkilega sögu, sem liggur að baki, um 13 þýska flugmenn sem voru jarðsettir þar í kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun „E.D.” (Enemy Dead), látinn óvinur.
Hugsunarháttur og tilfinningar í stríðinu eru orðin okkur býsna framandi. Hafa líklega alltaf verið það, jafnvel eftir að grimmt stríð barst að okkar ströndum og upp á land.
Hiklaus viðbrögð Ólafs Bjarnasonar, bónda í Brautarholti, á stríðsárunum bera þess merki. Enda segir á viðarskildinum í Brautarholtskirkju að aldrei gleymist góðs manns verk. Það góða verk hefur samt ekki farið hátt í þá hálfu öld sem liðin er síðan. Enda var þá stríð og bann við öllum fréttaflutningi af flugvélum sem skotnar voru niður. Nær ekkert verið um þetta skrifað á Íslandi síðan. En þýskir blaðamenn skýrðu frá þessu og höfum við tvær slíkar greinar úr þýskum blöðum með fyrirsögnunum: „Hinir óþekktu í kirkjugarðinum í Brautarholti” og Flugmannagrafreitur við Faxaflóa”.
Sú fyrri frá 1953 og sú síðari í tilefni þess að þýskur hermannagrafreitur var vígður í Fossvogskirkjugarði 1958 og haustið áður fluttir þangað þýsku flugmennirnir 13 úr kirkjugarðinum í Brautarholti, svo og fjórir þýskir flugmenn úr Búðareyrarkirkjugarði á Reyðarfirði.
Börn Ólafs Bjarnasonar, sem lést 1970, Jón Ólafsson, bóndi í Brautarholti, og Ingibjörg, systir hans, rifjuðu upp með blaðamanni þennan atburð úr æsku sinni, þegar stríðið kom í Brautarholt og lík þýskra flugmanna fengu skjól í kirkjugarðinum þeirra.
Jón gekk með blaðamanni út í kirkju, sem er einstaklega falleg, byggð 1858. Hún var gerð upp fyrir áratug í samráði við Hörð Ágústsson, sem telur að predikunarstóllinn sé 300 ára gamall. Dönsk altaristafla er frá 1868 en marmaraskírnarfontur með loki frá 1948 er til minningar um Bjarna Ólafsson, bróður þeirra systkina. Okkar athygli beinist að viðarskildinum útskorna til Ólafs Bjarnasonar frá Íslandsvinafélaginu í Hamborg og Félagi um hermannagrafir á veggnum aftan við kirkjubekkina. Þar má lesa: „Þýskar mæður og feður þakka þér fyrir umhyggju þína” og þar fyrir neðan “Aldrei gleymist góðs manns verk. Við heiðrum Ísland og Íslendinga með þessari töflu til yðar”. Taflan var afhent Ólafi 1953 og síðar var hann í þakklætisskyni sæmdur heiðursmerki þýska ríkisins fyrir hiklausa viðtöku þessara ungu, þýsku manna í kirkjugarðinn og umhyggju og varðveislu leiðanna. Taflan hékk alltaf á heimili þeirra hjóna, Ólafs og konu hans, Ástu Ólafsdóttur, en var eftir lát hans flutt í kirkjuna með samþykki prestsins. Úr kirkjuglugganum blasir við kirkjugarðurinn og efst í honum voru þýsku leiðin.
Lík á hrakhólum
Eitt hvassviðriskvöld var barið að dyrum í Brautarholti. Ólafur gekk út. Liðsforingi stóð á tröppunum og spurði hvort Ólafur gæti leyst vandræði þeirra. Þýsk flugvél hefði verið skotin niður með 7 þýskum fiugmönnum. Málið væri komið í algert óefni. Ekki hefði verið leyft að grafa þá í kirkjugarðinum í Reykjavík, því menn veigruðu sér við að grafa óvinahermenn á sama stað og sína eigin. Þá var nærtækasti staðurinn Lágafell, en þar gat enginn veitt leyfi. Thor Jensen var í húsi sínu en hafði ekkert með kirkju eða garð að gera. Nú spurðu þeir hvort þeim yrði leyft að grafa þýsku flugmennina í kirkjugarðinum í Brautarholti. Ekki væri lengur til setunnar boðið. Ólafur sagði að kirkjugarðurinn væri svo til útgrafinn, eitt og eitt rými eftir á stangli, en til stæði að stækka garðinn til norðurs út á hólinn. Ef þeir vildu þiggja að grafa þá þar, gæti hann veitt leyfið strax.
Ingibjörg segir að hann hafi svo haft samband við sr. Hálfdán Helgason. Ólafur var formaður sóknarnefndar, kirkjuráðsmaður, umsjónarmaður kirkju og kirkjugarðs, hreppstjóri og um tíma líka oddviti. Hann gat því tekið þessa ákvörðun á eigin spýtur og sá strax hvernig hann gæti leyst málið á staðnum.
Jón var 10 ára gamall og stóð við stafngluggann í gamla húsinu þegar komið var með líkamsleifar fyrstu þýsku flugmannanna sjö, sem skotnir höfðu verið niður yfir Hvalfirði 21. júní 1941. Komið var með þá á börum og teppi breidd yfir. En þeir sem komu seinna voru jarðsettir í kistum. Hermennirnir komu sjálfir með prest, sem jarðsetti og blessaði yfir grafirnar og skotið var heiðursskotum.
Þjóðverjunum var sýnd full virðing að hermanna sið. Á hvert leiði var lagður lítill steinn og á honum messingplata með áletruninni E.D., sem stendur fyrir Enemy Dead, og númeri, sem eflaust hefur verið af málmplötunni sem hermenn hafa um hálsinn. Eftir stríð var farið að leita að fjölskyldum þeirra og virðist hafa gengið misjafnlega, svo sem fram kemur síðar. Tveir þeirra voru Jósep Lutz, 24 ára, og Friedrich Harnisch, 27 ára.
Steinarnir eru ekki lengur til, því starfsmenn kirkjugarðanna í Fossvogi mokuðu þeim ofan í með moldinni þegar þeir sóttu líkin síðar. Þetta var seinni hluta viku og eldri systkinin tvö, Ingibjörg, sem þá hefur verið 14 ára, og Ólafur (landlæknir), 13 ára, voru í skólanum, en yngri bræðurnir Páll og Jón heima. Þegar systkinin komu heim á laugardeginum var auðvitað mikið um þetta talað.
Þau gerðu sér grein fyrir að þetta væri mikill viðburður, en voru ekkert að tala um það út á við. Ingibjörg heldur að hún hafi ekki sagt frá því í skólanum. Það var stríð og ekkert slíkt nefnt í blöðum. Ekki er getið um hvaða flugvél þetta var, sem svo snemma í stríðinu var skotin niður yfir Hvalfirði. Þjóðverjar sendu hingað flugvélar við mjög erfið skilyrði frá Stavanger í Noregi til ljósmyndaflugs og í veðurathugunarflug.
Vorið 1941 bjuggu Bretar sig undir að verjast loftárásum á skipalægið í Hvalfirði og sendu hingað sérbúna sveit með loftvarnabyssur, sem kom sér fyrir þar. En frá fyrsta degi hernámsins vorið 1940 höfðu Bretar tekið sér stöðu beggja megin Hvalfjarðar.
Stríðið kemur í hlað
Ekki var óeðlilegt að bresku hermönnunum dytti í hug að leita til Ólafs í Brautarholti í vandræðum sínum með legstað fyrir Þjóðverjana. Þeir voru öllum hnútum kunnugir þar á bæ, þekktu kirkju og kirkjugarð frá fyrsta degi. Brautarholt stendur yst á Kjalarnesi með útsýni yfir innsiglinguna að Reykjavfkurhöfn og inn í Hvalfjörð, þar sem voru alltaf miklar skipaferðir og flutningar.
Ingibjörg minnist þess þegar herinn kom 10. maí 1940. Pabbi hennar var alltaf árrisull og sá herskipin sigla inn. Hann vissi ekki hvort þetta væru Bretar eða Þjóðverjar að hernema landið. Ekki var kominn sími á hvern bæ, en í Brautarholti var stöð svo hann gat hringt og fékk staðfest að þetta væru Bretar. Ólafur dreif sig þá í bæinn, því hann var þar í ábyrgðarstörfum, m.a. í stjórn Mjólkurfélags Reykjavfkur og formaður í Landssambandi íslenskra bænda. Nú þurfti að ýmsu að hyggja.
Klukkan fimm um daginn hringdi Kolbeinn í Kollafirði í Brautarholt og sagði að heil bílalest væri á leiðinni til þeirra eftir Vesturlandsvegi, 7 rútur frá BSR fullar af hermönnum. Ásta var ein heima með börnin og leist ekki á blikuna. Hún hringdi í Ólaf í bænum. Hann brá við og hafði samband við Thor Jensen á Lágafelli, sem leyfði honum að beina hermönnunum í Arnarholt. Þar voru stórar byggingar og svo vel vildi til að þær stóðu auðar. Þarna var sumarfjós Thors, en kýrnar ekki komnar þangað frá Korpúlfsstöðum í sumarbeitina.
Ekki leið á löngu þar til rúturnar sjö óku í hlað, hermenn streymdu út úr þeim og byrjuðu að afferma til að búa um sig á kirkjuhólnum í tjöldum. Ásta húsfreyja var svo heppin að þar var danskur karl, sem varð henni til trausts og halds.
Niðurstaðan varð sú að hermennirnir hættu við að tjalda og rúturnar óku í Arnarholt, þar sem varð aðalbækistöð þeirra. En þeir héldu beint niður í nesið við sjóinn þar sem þeir byggðu bragga, grófu skotgrafir og bjuggu sér varnarvígi. Og þeir héldu stöðuga vakt á kirkjuhólnum og í kirkjugarðinum frá fyrsta degi og allt stríðið. Um sumarið byggðu þeir fimm bragga aftan við kirkjuna, þar sem þeir bjuggu, en voru fyrst í tjöldum.„Af þessu var svo mikill ágangur þarna fyrst og mamma hálfhrædd,” segir Ingibjörg, „svo pabbi ákvað að hún flytti með okkur krakkana og stúlkurnar út í Klébergsskóla, sem var laus eftir að skóla lauk í maí.” Ólafur og karlmennirnir komu sér fyrir í kjallara íbúðarhússins og var sendur matur frá Klébergi, enda voru þeir við heyskap. En yfirmenn Bretanna komu sér fyrir á hæðunum.
Hermennirnir fóru illa með húsið, sem þurfti viðgerðar við um haustið. Þá flutti fjölskyldan heim, enda var þá búið að byggja braggana á kirkjuhólnum fyrir alla þá sem stóðu vaktina til að óvinurinn kæmist ekki óséður á land. Hermennirnir voru því þarna rétt á hlaðinu hjá þeim allt stríðið en samskiptin gengu vel. Ólafur stóð fyrir sínu og gætti þess að ekki væri ágangur á fjölskylduna og Bretarnir virtu hann. Þeir voru því sestir þarna að þegar þeir þurftu að finna stað og fá leyfi til að grafa þýsku flugmennina.
Því má bæta við að þetta varð endirinn á sumadvöl kúnna frá Korpúlfsstöðum í Arnarholti. Herinn var þar allan tímann og 1946 keypti Reykjavíkurborg jörðina. „Hvað við vorum heppin að Arnarholt var laust og Thor Jensen létti hernum af okkur. Við vorum svo hrædd,” segir Ingibjörg þegar hún rifjar þetta upp.
Tvær þýskar flugáhafnir í viðbót
Í október árið 1942 komu liðsforingjar aftur til Ólafs sömu erinda. Nú með þrjú lík af þýskum flugmönnum, sem höfðu verið skotnir niður 18. október. Og enn árið eftir þegar þrír þýskir flugmenn höfðu verið skotnir niður 24. apríl 1943. Ólafur sagði sem fyrr sjálfsagt, grafið þá í garðinum hér hjá okkur. Þá voru grafirnar orðnar 13, í röð nyrst í garðinum. Þar var jarðsettur við hliðina á þeim Bjarni, sonur Ólafs og Ástu 1948, og var allur garðurinn með stækkuninni endurvígður af sr. Hálfdáni Helgasyni. Samkvæmt dagsetningunni 1942 hefur þetta verið vél af Jungergerð, sem Bretar eltu og löskuðu svo að hún hrapaði í Svínaskarði innan við Esjuna og féllu hlutar úr vélinni til jarðar í Grafardal. Flugmennirnir voru samkvæmt nöfnum sem skrifuð hafa verið á afrit af grein þýsku blaðamannanna er komu í garðinn 1953: Frans Kirchmann, 22 ára, Josef Ulsamer, 24 ára, og Harald Osthus, þrítugur.
Þeir höfðu er þeir skrifuðu grein sína fundið nöfn þeirra þriggja sem fórust árið eftir, 24. apríl 1943: Werner Gerhard Bullerjahn, 31 árs, Theodor Scholtyssek, 23 ára, og Karl Martin Bruck, 25 ára, sem var „lautenant”. Junkers 88 flugvél þeirra eltu Bandaríkjamenn og löskuðu yfir Faxaflóa og lenti hún í hrauni á Strandaheiði. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn bjargaðist í fallhlíf og var tekinn til fanga. Þetta voru því allt ungir menn sem hlutu legu í Brautarholtskirkjugarði.
Systkinin muna vel eftir þessum 13 gröfum í röð efst í kirkjugarðinum og þegar komið var með líkin í þremur áföngum, fyrst sjö 1941, þrjú 1942 og aftur þrjú 1943. Faðir þeirra hugsaði alltaf vel um grafirnar og lét slá á þeim grasið hvert sumar. Eftir 1943 voru ekki fleiri þýskir flugmenn grafnir þar, enda höfðu varnir hér verið stórefldar og ferðir þýskra flugvéla að leggjast af. Eftir stríð voru Þjóðverjar Ólafi í Brautarholti ákaflega þakklátir, svo sem marka má af þakkartöflunni, sem prófessor dr. F. Danmeyer afhendi honum 1953 í viðurvist þýska sendiherrans dr. Kurt Opplers. Þá var messað í kirkjunni, að viðstöddum kaþólskum og lúterskum prestum, og síðan settur upp við þýsku leiðin trékross að frumkvæði Gísla Sigurbjörnssonar á Elliheimilinu. Á krossinn var letrað: „Hér hvíla 13 óþekktir þýskir flugmenn.”
Líkin flutt
Nú voru Þjóðverjar búsettir hér, sendiráðsfólk og þýskir ferðamenn farnir að heimsækja grafreitinn á hverjum „þjóðarsorgardegi” Þjóðverja til að leggja blómsveig að krossinum að aflokinni messu. En þeim þótti staðurinn nokkuð afskekktur og fyrirhafnarsamt að komast þangað eftir vondum vegum og í misjöfnum veðrum. Einkum þó í annan grafreit á Reyðarfirði þar sem hvíldu fjórir þýskir flugmenn. Því ákváðu Þjóðverjar að gera sérstakan hermannagrafreit í Fossvogskirkjugarði og flytja þangað líkamsleifar þýsku flugmannanna, sem var gert 1957.
Man Jón Ólafsson vel eftir því þegar menn frá Fossvogskirkjugarði komu í slagveðri miklu og grófu upp líkamsleifar þýsku flugmannanna þrettán. Segir í grein, sem birtist um þetta í fréttablaði Sambandsfélaga um varðveislu þýskra hermannagrafreita árið eftir, þegar reiturinn hafði verið formlega tekinn í notkun, að tveir menn hafi átt mestan þátt í að flytja hina föllnu í aðalkirkjugarðinn í höfuborg Íslands.
Það voru þeir Gísli Sigurbjörnsson forstjóri, sem hafi látið sér mjög annt um grafreitina og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem fyrst frétti af hinum föllnu á ferð til Íslands 1951 og skýrði Sambandinu frá gröfunum, auk þess sem sendiráðið í Reykjavík sýndi málinu skilning.
Þar segir að haustið 1957 hafi allir erfiðleikar verið að baki. Flugmennirnir 17 séu ekki lengur „óþekktir flugmenn” eins og stóð á krossinum í Brautarholti. Fólk þekkti nöfn þeirra og aðstandendur þeirra höfðu verið látnir vita. Þá hefði ekki enn tekist að ná til aðstandenda nokkurra þeirra.
Sama dag og mennirnir þrettán í Brautarholti voru fluttir til Reykjavíkur, 20. september 1957, komu líkamsleifar hinna fjögurra frá Búðareyri við Reyðarfjörð með vélskipinu Heklu, en útgerð skipsins tók á sig kostnaðinn við flutninginn. Þýsku flugmennirnir fjórir höfðu hvílt í kirkjugarðinum á Búðareyri frá því flugvél þeirra af Henkel-gerð fórst á uppstigningardag 1941 er hún lenti á fjallinu Snæfugli norðan við Reyðarfjörð.
Könnunarflug Þjóðverja yfir Austurlandi munu einkum hafa miðað að því að aðgæta um liðssafnað sem hugsanlega miðaði að innrás í Noreg. Fólk á nálægum bæ varð slyssins vart og Íslendingar fundu líkin. Flugvélin lá á svonefndum Völvuhjalla og mátti til skamms tíma sjá þar leifar af þessari þýsku flugvél. Allir flugmennirnir fjórir fórust, foringinn Joakim Durfeld, Brauer yfirliðþjálfi, Leitz undirliðsforingi og Hornisch loftskeytamaður. Heimildir eru um þetta flugslys á Reyðarfirði og hefur verið um það skrifað.
Þegar 50 ár voru liðin frá hernáminu átti blaðamaður Morgunblaðsins, Guðrún Guðlaugsdóttir, viðtal í Þýskalandi við systur Joakims Durfelds, sem hafði fengið málmmerki hans, sem á var grafið nafn hans, type HE 11 og númer flugvélarinnar, 1291 R. Þannig merki hafa allir flugmennirnir eflaust haft um hálsinn og þar fengin númerin á leiðunum í Brautarholti. Hans Joakim Durfeld hafði, að sögn Ilse systur hans, verið myndarlegur, glaðlyndur maður, 31 árs gamall, nýkvæntur, foringi í þýska flughernum og átti eftir eitt ár af herskyldu. Fyrstu fregnir af afdrifum hans sögðu að hann hefði ekki snúið aftur úr flugi til Englands, en í október 1941 barst systrum hans tilkynning frá upplýsingaskrifstofu hersins þess efnis að hann hefði farist í flugslysi á Íslandi. Ilse var mjög þakklát að heyra að vel hefði verið hugsað um gröf bróður síns í kirkjugörðunum hér öll þessi ár.
Þrír voldugir krossar
Líkin 17 voru grafin við hljóðláta athöfn við grafreitinn, sem þýska sendiráðinu hafði verið úthlutaður í kirkjugarðinum í Fossvogi, að viðstöddum nokkrum starfsmönnum þýska sendiráðsins og þýskum Reykvíkingum, prestar beggja kirkjudeilda báðu bænir og kransar voru lagðir. Endanlegur og varanlegur frágangur minningarreitsins fór svo fram á vegum þýska ríkisins og var lokið sumarið eftir. Þar höfðu verið steyptir þrír voldugir krossar og skráð á vegginn um grafreitinn þekkt nöfn þeirra sem þar hvíla. Var reiturinn vígður á þjóðarsorgardag Þjóðverja 1958 við hátíðlega athöfn, að viðstöddum Þjóðverjum á Íslandi, dómprófastinum Jóni Auðuns og kaþóska biskupnum Pater Hacking, menntamálaráðherra Íslands, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, fulltrúa aðalræðismanns Austurríkis, forseta Germaníu og íslenskum Þýskalandsvinum, þeirra á meðal Gísla Sigurbjörnssyni, segir í greininni í fréttabréfi Sambands félaga um varðveislu þýskra hermannagrafa. En Gísli hafði haft mikil afskipti af þessum málum öllum og voru færðar þakkir. Svo heppilega stóð á að frægur þýskur organisti, Wilhelm Stollenwer, var einmitt á tónleikaferð á Íslandi og lék við minningarathöfnina í kapellunni þar sem Dómkórinn söng. Hans
Richard Hirschfeld sendiherra lagði blómsveig á grafirnar, svo og aðalræðismaður Austurríkis. Og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem kom flugleiðis á eigin vegum til vígslu grafreitsins í Reykjavík, fann þau orð sem náðu til hjartans þegar hann talaði um „fórnardauða milljóna manna sem létu líf sitt vegna pólitískrar sannfæringar eða vegna þess að þeir voru af ákveðnum kynþætti, sem féllu í vígstöðvunum, í sprengiregni loftárásanna eða á endalausum flótta”.
Þarna höfðu þá hlotið með viðhöfn varanlega gröf 17 ungir menn, sem sogast höfðu inn í stríðsátök. Að vísu ekki þar sem hvíldi þeirra vagga heldur norður á Íslandi. Sinn hlut í því átti stórbóndinn íslenski Ólafur Bjarnason, sem lét sig engu varða hvorum megin þessir piltar voru að stríða og geymdi þá í íslenskri mold meðan ósköpin liðu hjá.”
Ólafur í Brautarholti bjó yfir þeim fágæta hæfileika manna að kunna að meta vanda nútíðar til lausnar komandi framtíðar.
Heimild:
Morgunblaðið 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22 – Elín Pálmadóttir – Látnu óvinirnir í Brautarholtskirkjugarði.