Bærinn Víðines er á Kjalarnesi, á sunnanverðu Álfsnesi. Vestan hans er Gunnunes, vestast á Álfsnesi. Fátt er um örnefnalýsingar fyrir jörðina Víðines, en þó er ein þeirra ítarlegust. Þar segir:
“Jörð í Kjalarneshreppi næst vestan við Fitjakot. Upplýsingar um örnefni gaf Þorlákur Kristjánsson frá Álfsnesi.
Móti Fitjakoti er lækur sá, sem Selalækur heitir. Hann rennur í Leiruvog. Norðan bæjar er holt það, sem heitir Glóruholt. Austast á því er Markaþúfa, en úr henni austur er línan í Markastein. Uppi á há-Glóruholti einnig á merkjum er Fálkavarða. Merki móti Sundakoti eru úr Klofasteini, sem er utanhallt við sker.
Selalækur er í jarðfalli í mýrinni. Þar utar eru holt,sem nefnd eru Stóru-Smáholt. Þau eru þar utar fyrir ofan Voga, en Vogar er býli, sem Gísli Pálsson reisti niður við Leiruvoginn aðeins vestar Selalækjar, Litlu-Smáholt eru þar utar og ofar. Þetta er stórt samfellt mýrlendi og fátt um nafntilefni. Þar er næst Svartibakki, sem er bakki alveg niður við Leiruvog, mitt á milli holtanna, sem fyrr var getið.
Vestur af Svartabakka er svæði, holt, sem nefnt er Svörður. Ekki mun það vera gamalt nafn, heldur síðan hlutafélag var stofnað í Reykjavík til mótekju. Þar utar er eyri fram við sjó, sem heitir Slétteyri, og er þá komið rétt heim undir bæ. Bærinn stendur rétt upp frá vognum sunnan í Glóruholtinu.
Vestan við bæ er vík, sem heitir Nesvík. Þar utar tekur við nes, sem heitir Gunnunes, bungumyndað, gróðurlítið og afmarkast af Nesvík. Norðan þess er lægð þvert yfir. Í henni eru rústir eftir Sundakot, öðru nafni Niðurkot; þar var býli fram undir aldamót.
Rétt vestur af oddanum á Gunnunesi og norðan í nesinu er Stekkur. Hann er hlaðinn, og túnblettur er þar í kring. Merkin móti Álfsnesi eru að vestan í svonefndar Fornugrafir. Milli Gunnuness og Þerneyjar er Þerneyjarsund.”
Þórður Kristjánsson, Drápuhlíð 15, kom í Örnefnastofnun 3. júní 1980, las örnefnalýsingu Víðiness og gerði við hana athugasemdir. Þórður er fæddur í Álfsnesi 1. nóv. 1917 og ólst þar upp til 1925, en þá fluttist faðir hans að Víðinesi og bjó þar til 1932.
“Leiruvogur var nefndur svo í máli gamals fólks, en sjálfur kallar Þórður hann Leirvog. Klofastein hafði Þórður aldrei heyrt nefndan, ekki heldur Stóru- og Litlu-Smáholt. En Þorlákur bróðir Þórðar var miklu eldri en hann og hefur því vel getað þekkt þessi nöfn.
Nafnið Svörður er frá stríðsárunum fyrri. Þá var þurrkaður þarna mór og síðan fluttur á bátum til Reykjavíkur. Nesvík heyrði Þórður aldrei nefnda.
Sundakot eða Niðurkot er nú friðlýst.
Stekkur var notaður til innrekstrar, þegar Þórður var barn. Upp af Svartabakka mun áður hafa heitið Lágamýri. Nafnið hefur Þórður eftir Vigfúsi Kristjánssyni (úr bókinni Í lífsins ólgusjó), en Vigfús hafði eftir foreldrum sínum, sem bjuggu í Víðinesi um 1870.
Rétt fyrir sunnan Nesvíkina er Selvík. Þar sátu selir oft uppi á klettunum, þegar gott var veður.”
Hið merkilega er að hér er nefndur bærinn Vogar undir Stóru-Smáholtum. Tóftir bæjarins (kotsins) sjást enn sem og hringlaga mannvirki ofan við vörina. Auk þess ákveður skrásetjari að kynna Víðines sem “jörð í Kjalarneshreppi næstan vestan Fitjakots”. Fitjakot var hins vegar austast við norðanverðan Leiruvog. Engin örnefnalýsing er hins vegar til um kotið þrátt fyrir að túnakort hafi verið gert þar 1912.
Heimild:
-Önefnalýsing fyrir Víðines. Ókunn. skrán.
-Örnefnastofnun. Athugas. Þórðar Kristjánssonar um Víðines.