Kálfatjörn

Hér verður fjallað um hverfin í “Vatnsleysustrandarhreppi“.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka ber það með fyrirvara.

Landakot

Landakot

Landakot.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Landakot í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir um Landakot árið 1703: “Landakot hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki fyrirsvar, nema til helmíngs á móts við lögbýlisjarðir”.
Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í skýrslunni um Landakot kom m.a. fram að: “Selstade fölger Jorden som Aarlig Forbruges, Men Græsgang Gandske lidet andet end som haves udi berörte Selstade, Hvoraf flyder Huusse og Höe Torve Mangel” …
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Landakot hafi verið seld þann 13. júní 1838.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Landakot: “… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða”. …

Landakot

Landakot – loftmynd.

Landamerkjabréf Landakots var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar:
Landakoti á Vatnsleysuströnd tilheyrir land allt með gögnum og gæðum milli Þórustaða að norðanverðu og Auðnahverfis-jarðanna Auðna, Höfða og Bergskots að sunnanverðu. – Landamerkin eru þessi:
1. Milli Þórustaða að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu eru þessi landamerki: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum að helmingi hvorri; þaðan um hinar svonefndu Markaflúðir, sem liggja á sandinum, beina stefnu í brunninn Djúpugröf; þaðan eptir eptir markasteinum og gömlu garðarlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnanvert í rætur Keilisalla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landakot
2. Að sunnanverðu milli Landakots og Auðnahverfis (nefnil. Auðna, Höfða og Bergskots) eru landamerkin: fyrir neðan flæðarmál: “Markaós, sem er austasti ósinn; er gengur inn úr aðalós þeim, sem liggur í milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir, og um krók eða hlykk þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla sunnanverða eptir grjótgarði, sem þar er hlaðinn; þaðan eptir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu, þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir, allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi”. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum Auðnahverfis og eiganda hálfra Þórustaða.
Í kaflanum um Landakot í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: “að sunnan ræður landamerki Auðnalands. Að norðan í 2 flúðir í fjöru sem nefnast markaflúðir, þaðan uppeftir grjótgarði milli Þórustaða og Landakots, þaðan sjónhending eftir vörðum upp heiðina alt til fjalls.”
Á öðrum stað í sama riti kemur fram að bærinn Tíðagerði, sem er í eigu eiganda Landakots, deili heiðarlandi og hagbeit með þeirri jörð.

Þórustaðir

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd. Kálfatjörn fjær.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Þórustaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns áttu Þórustaðir selstöðu á Fornuselshæðum í landi Kálfatjarnar: “Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu”.
Þórustöðum fylgdu hjáleigurnar; Norðurhjáleiga og Suðurhjáleiga.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í matsgerðinni um Þórustaði stendur m.a.: “Selstade Fölger Jorden som Aarligen Forbruges, men anden Græsgang er meget liden”…
Þann 19. apríl 1837 hvarf jörðin Þórustaðir úr eigu konungs.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Þórustaði: “… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða”.

Landamerkjabréf Þórustaða var undirritað 27. maí 1886. Bréfið var þinglesið 15. júní 1886. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: Þórustöðum tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Kálfatjarnar – kirkjueignar að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu.

Þórustaðir

Þórustaðafjara.

Landamerkin eru þessi:
1. Milli Kálfatjarnar að norðanverðu og Þórustaða að sunnanverðu: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, er tilheyrir báðum jörðunum, að helmingi hvorri; þaðan eptir svonefndum Merkjagarði, er liggur sunnanvert við tún kirkjuhjáleigunnar Goðhóla, en norðanvert við móa þann, sem kallaður er Vatnagarður og tilheyrir Þórustöðum; þaðan í hólinn Þórustaðaborg, sem er hæsti hóllinn af hólum þeim, er standa norðanvert við gamalt stekkjartún, sem nefnt er Þórustaðaborg eptir hólnum. Þaðan í hólinn Stóra – Lynghól miðjan; þaðan í Sýrholt; þaðan í Hrafnafell, sem er lítið fell fyrir norðan Keilir; þaðan beina stefnu alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi, eptir sjónhendingu úr Hrafnafelli í hæsta hnjúkinn á Grænavatnsengjum.
2. Milli Landakots að sunnanverðu og Þórustaða að norðanverðu eru landamerki þessi: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum, nefnilega að helmingi hvorri; þaðan um svonefndar Markaflúðir beina stefnu í brunninn Djúpugröf; (þaðan eptir marksteinum og gömlu garðlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnarvert við rætur Keilis alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi.

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

Landamerkjabréfið er samþykkt af eiganda Landakots sem líka var eigandi hálfra Þórustaða. Einnig er skrifað uppá landamerkjabréfið af sóknarpresti fyrir hönd Kálfatjarnarkirkju. Prestur tekur fram að hann samþykki landamerkjabréfið að því leyti sem það er samhljóða landamerkjalýsingu Kálfatjarnarkirkju sem var þinglesin 1885.
Í kaflanum um Þórustaði í Fasteignamati 1916 – 1918 kemur fram að jörðin sé að hálfu í eigu eiganda Landakots. Í sama riti kemur einnig fram að jörðin Hellukot deili heiðarlandi og hagbeit við Þórustaði.
Í fasteignamati því sem staðfest var árið 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Þórustaðahverfi: Norðurkot, Þórustaðir, Hellukot. Að sögn ábúanda í Norðurkoti er landamerkjalýsing sé ekki til. Í skýrslunni er einnig minnst á býlið Tíðagerði.
Samkvæmt ábúanda á Þórustöðum er beitiland víðlent.
Í svörum ábúanda á Hellukoti kemur fram að beitilandið sé líkt og það sem Þórustaðir hafa. Hann greinir einnig frá því að landamerki jarðarinnar sé þau sömu og Þórustaða.
Þann 21. maí 1999 var land Þórustaða ofan Vatnsleysustrandarvegar selt Hitaveitu Suðurnesja 21. maí 1999. Jörðin er að öðru leyti í einkaeign.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Í kirknaskrá frá því um 1200 kemur fram að kirkja er á Kálfatjörn.
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: “Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn aa allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi.” …

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: “Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk” ….
Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var Kálfatjörn vísiteruð: “Peturskyrckia ad Kalfatiórn a heimaland allt mz gógnum og giædum, epter þeim mäldaga sem vænst er ad sie ä dömkyrckiunni og Bessastodum Hun ä Backaland og fleckiuvÿk. … vænist bpinn M. Brynjolfur Ss suornum landamerkium i millum Kalfatiarnar og Skalholltsstadar dömkyrckiu sem vitni umm bera og afhenda vilia enn nu i dag mz suornum eidum, uppä hinar fyrri, og lógfestir Bp allt ad fyrr suordum takmarkum, lysandi öheimilld ä þvÿ aullu sem þadan mä flutt verid hafa og hann mä sauk [a] gefa h. Skalhollts kkiu vegna. … fyrrnefnd fleckuvÿk ä allann þridjung i Vatsleysu jórd (epter brefinu ohandskrifudu sem liggur a kyrckunni og visitatiubok h. Gÿsla J.s.) i rekum skögi og hagabeit, frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim, er geingur ofan vr hrauninu og framm ad sjö, fyrer Innan Akurgierdi, … Seigir fyrrnefnd visitatiu bök, Fleckuvÿk eigi allann þridjung i Vatsleisu Jordu, er liggur i Kalfatiarnarkkiu sókn, i rekum skögi hagabeit frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim er geingur ofan ür hrauninu og framm ad siö fyrer Innan Akurgierdi…. Actum Kalfatiórn Anno 1642 Die ut supra”. (Undir þetta rita Ámundi Ormsson, Sumarliði Jónsson, Pétur Gissursson og Einar Oddsson).
Kálfatjörn
Þrjátíu og sex árum síðar stóð Þórður Þorláksson biskup í Skálholti fyrir vísitasíu á Kálfatjörn. Í vísitasiunni, sem fór fram 20. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: “visiterud Peturs kyrkia ad Kalfatiorn hun a efter maldaga heimaland allt med gognum og giædum Backa land og fleckuvÿk … firr nefnd fleckuvÿk a allann þridiung i Vatnzleisu jórdu i rekum skogie og hagabeit fra nÿugórdum og inn ad gardi þeim er geingur ofann ur hrauninu og framm ad siö fyrir innann Akurgierdj, Borgar Kot nu leigt fyrer iiij vættir er ei innfært i firri maldaga enn þo kyrkiunnar eign efter undirrietting Sr. Sigurdar Eyolfssonar”. (Undir þetta rita Sigurður Eyjólfsson, Einar Einarsson, Árni Gíslason, Bjarni Jónsson og Bjarni Sigurðsson).
Móakot
Kálfatjörn var tekin til mats árið 1703 skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Henni fylgdu hjáleigurnar; Naustakot, Móakot, Flóakot, Hólakot, Hátún, Árnahús og Borgarkot.
Í Jarðabókinni er eftirtektarverð umsögn um selstöður Kálfatjarnar: “Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði, þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja”.
Sömuleiðis segir um kirkjujörðina Bakka, sem síðar varð tómthús frá Kálfatjörn: “Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi”.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Kálfatjörn vísiteruð þann 10. ágúst 1703. Skýrslan sem unnin var í þessari eftirlitsferð er mjög svipuð þeirri sem var samin í kjölfar vísitasíunar 1678: “hun ä heimaland allt med gögnum og gïædum Backaland, og Fleckuvïk, allann reka mille Hraunsnefz og Rängagiógurs / afast vid Krisevïkur reka, reka mïllum Markskletts og nïugarda, kirkian ä efter mäldögum allann þridiung i Watnsleisu Jördu – i rekum sköge og haga, beit frä nÿugördum og inn ad garde þeim Er geingur ofann ür hrauninu og framm ad siö fÿrer innann Akurgerde, Borgarkot nu leigt fÿrer iiij vætter ä kirkian”. (Undir þetta rita Ólafur Pétursson, Benedikt Einarsson, Oddur Árnason, Jón Halldórsson og Árni Gíslason).
Kálfatjörn
Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Kálfatjörn þann 7. maí 1724. Fyrsti hluti greinargerðarinnar sem samin var í þessari vísitasíu þar sem eru þau atriði sem skipta helst máli hvað varðar þjóðlendumál, er nánast samhljóða skýrslunni sem útbúin var ír vísitasíunni árið 1703. Hér verður því vísað í hana.
Ólafur Gíslason biskup í Skálholti vísiteraði á Kálfatjörn 17. júní árið 1751. Skýrslan sem samin var vegna vísitasíunnar er svipuð þeirri sem gerð var árið 1703 nema eftirfarandi texti: “Borgar kot sem adur hefur vered leigt fyrer 4 vætter, er nu i eide og hefur leinge leiged, sókum siäfar ägangs, sosem Þyng vitned i kyrkiubókena innfært, liösast hermer”. (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, S. Jónsson, Sigurður Ólafsson, S. Sigurðsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Þann 4. júní 1758 var Kálfatjörn vísiteruð af Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi.. Greinargerðin sem útbúin var um þennan atburð er sambærileg þeirri frá 1751.
Þann 28. maí 1790 skrifaði presturinn á Kálfatjörn undir svohljóðandi lögfestu fyrir staðinn: “Ég, Guðmundur Magnússon prestur til Kálfatjarnar, lögfesti hér með sama staðar kirkjuland til lands og vatns, nefnilega reka allan frá Markkletti og inntil Nýjugarða, þaðan og í Arnarvörðu, þaðan og í Flekkuvíkursel, svo og frá áðurnefndum Nýjugörðum þriðjung allan í Vatnsleysu jörðu í rekum, skógum og hagabeit, inn að garði þeim sem gengur inn úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði. En á aðra síðu frá Markklett og upp eftir Vatnagarði milli Kálfatjarnar og Þórisstaða, í Þórisstaðaborg, þaðan og í Sýruholt.
Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa, item reka allan millum Hraunsnefs og Rangagjögurs áfast við Krísivíkurreka.
Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta allt undir sömu skilmálum með réttum lögum fyrirbýð ég einum og sérhverjum að fráteknum kirkjujarðanna Bakka og Flekkuvíkur ábúendum og heimajarðarinnar Kálfatjarnar hjáleigumönnum áðurnefnt Kálfatjarnarkirkju land, hollt og haga, lóð og allar landsnytjar, lyngnám og torfskurð að yrkja, vinna eður sér í nyt færa utan mitt leyfi.
Einnin fyrirbýð ég þessum sem öðrum áðursagðan kirkjunnar reka, hvort heldur í heima- eður Vatnsleysulandi uppdrífa kann, sér að nýta eður skipta án minnar vitundar og leyfis”. … Lögfestan var lesin upp í Kálfatjarnarkirkju á trinitatishátíð [þrenningarhátíð, fyrsti sunnudagur eftir hvítasunnu] sama ár.
Árið 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Kálfatjörn vísiteruð. Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: “Anno 1800 þann 6tta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin ad endadri heilagri þiónustugiörd, Kirkiuna ad Kálfatiörn; hún á heimaland allt med gögnum og giædum, Backaland og Fleckuvík; … hun á og eftir gömlum Máldögum, þridiung í Vatnsleysu jördu, í Rekum Skógi og haga, beit frá Níugördum og inn ad Gardi þeim, sem gengur innann ur Hrauninu og framm ad sió fyrir innann Akurgerdi – it(em) Borgarkot, sem nú er eydilagt af Siáfargángi; – allt þetta enn í dag óátalid”. … (Undir skrifa: Geir Vidalin, G. Magnússon, Olafur Gudmundson, Magnus Gudmundsson, T. Jonsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – örnefni.

Í þeim hluta jarðamatsins frá árinu 1804 sem fjallar um jörðina Kálfatjörn kemur fram að henni fylgja hjáleigurnar: Naustakot, Móakot. Hátún og Fjósakot. Í lýsingu gæða Kálfatjarnar segir m.a.: “Her have Sætter Jorden tilhörende”.
Lagt var mat á Kálfatjarnarprestakall árið 1839: “Jtök eru: allur Reki fyrir heima- og Kirkiujardanna landi; … Reka fyrir mestahluta lands beggia Vatnsleysanna, einninn þridiúngur beitar í sömu landegn, og líka Skógs, sem laungu sídann, er öldúngis eydilagdur; Selstada uppundir Fiöllum í svokölludu Sogaseli”.
Í kaflanum um Kálfatjörn og hjáleigur hennar, Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a.: “Landrymi mikið. … Kyrkjan á þriðjúng alls reka á Stóru og Minni–Vatnsleysu fjörum, einnig hagbeit fyrir geldinga í landi þessara jarða”. …

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg. Trölladyngja fjær.

Árið 1855 var Kálfatjarnarprestakall metið. Í skýrslunni stendur eftirfarandi: Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbrýngusýslu eptir 3 ára medaltali 1851-1853: “… Utheyisslæur eru eingar. Fjöru beit er opt gód fyrir fénad á vetrum, en heidarbeit ordin lakari ad sínu leyti, nema svo lángt í burtu ad ei verdur til nád. …
Kálfatjörn á selstödu í svonefndu Sogaseli og hefur hún í margt ár ekki verid notud, því vegur er þangad svo langur og ógreidur ad ekki væri til vinnandi, nema fyrir svo mikin fénad, sem jördin ber ekki, nema hún fengi því meiri endurbætur. Selstodur eru ad sönnu nedar í heidini en þar fæst ekkert vatn handa fénadinum, þegar þerrar ganga á sumrum”. …

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Enn var Kálfatjarnarprestakall metið árið 1867. Hluti skýrslunnar sem saminn var við þetta tækifæri fer hér á eftir: “Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbringu og Kjósar prófastsdæmi eptir 5 ára meðaltali, frá fardogum 1862 til fardaga 1867. … Selstada fylgir jördinni í svo nefndu Sogaseli, en er vart notandi sakir fjarlægðar og óvegs þangað. … Kirkjujarðir … Eydijördin Bakki … En med því land allt utan túns var óskipt milli þessarar jardar og prestssetursins, hlýtur þad nú ad teljast með landi þess.
2. Tekjur af ískyldum, ítökum og hlynnindum, sem fylgja prestakallinu eptir máldögum eda ödrum skjölum:
a. Brúkuð af prestinum sjálfum.”
Fjósakot
Samkvæmt máldagabók Gísla biskups Jónssonar á kirkjujördin „Flekkuvík þridjung í Vatnsleysujördu í rekum, skógi, hagbeit”. En þetta hefur ávallt Beneficiarius notad, sem tilheyrandi prestakallinu, … Skógur er nú enginn til í landi kirkjunnar eda Vatnsleysanna, og hagbeit í Vatnsleysulandi er ardlaus, (því þó kind og kind hafi slangrad þangad þá eru hagar heimajardarinnar full nógir og jafnvel betri en Vatnsleysanna). … Athugasemdir … Þessa hjáleigu [Naustakot] lagdi eg undir heimajördina árið 1861; því sjórinn hafdi þá brotid svo land að kotinu ad áhætta var að hafa þar menn lengur, enda var ekki unnt að fá ábúanda ad býlinu sem afl hafdi á að bæta árlegar skemmdir sem hjáleigan beið af sjó; svo var og komið svo mikið undir sjó af túninu að þad var vart fyrir kú. Sídan hefi ég þó ekki getað varið túnið svo að þad hafi ekki horfið í sjó ad mun. …
Landamerkjabréf Kálfatjarnarkirkjueignar var undirritað 9. júní 1884 og þinglesið 15. júní 1885. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: “Kirkjan á heimaland allt með gögnum gæðum til lands og sjávar, Bakkaland, Borgarkotsland (hvorttveggja nú eyðijarðir) og Flekkuvík sömuleiðis með öllum gögnum og gæðum til lands og sjávar. En landamerki eru þessi:
Goðhóll
1. milli Þórustaða og Norðurkots að sunnanverðu og Kálfatjarnar hins vegar: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, þaðan eftir svo nefndum merkjagarði er liggur fyrir túni Kálfatjarnarhjáleigunnar Goðhóla og hinsvegar fyrir túni Norðurkots, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan í Lynghól, þaðan að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi beina stefnu um Sýrholt.
2. Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni – Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri – Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs.” … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli.Landamerkjabréfið var samþykkt af eigendum Stóru – Vatnsleysu, eiganda Minni – Vatnsleysu og eiganda suðurhelmings Þórustaða. Eigandi norðurhelmings Þórustaða og eigandi Ísólfsskála settu einnig nöfn sín undir landamerkjabréfið. Báðir aðilar skýrðu sínar undirskriftir. Sá fyrrnefndi samþykkti landamerkin milli Norðurkots og Kálfatjarnar en hinn samþykkti rekamörk gagnvart Ísólfsskála”.
Móakot
Í fasteignamati 1916 – 1918 er lýsing á landamerkjum og ítökum Kálfatjarnar: “Landamerki: að sunnan Markklettur í sjó, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan beina línu í Línghól, þaðan að landi Krísivíkur, að norðan Keilisnes við sjó, þaðan beina línu í eystri Hafnhól, þaðan í Flekkuvíkurás, Einiberhóll, Kolhóll, þaðan beina stefnu að Krísuvikurlandi. Ennfremur 1/3 hluti í reka, skógi og haga í Vatnsleysujörðum, beit frá Klukku innfyrir Akurgerði. Reki milli Hraunsnefs og Dagón á Ísólfsskálalandi. Selstaða í Sogaseli í Krísivíkurlandi. Rekinn hefur verið leigður fyrir mest Kr. 10,00, en hinar aðrar ínytjar hafa ekki komið jörðinni að neinu gagni”. Í sama riti kemur fram að Kálfatjörn er kirkjujörð og henni fylgja þrjár hjáleigur; Goðhól, Fjósakot og Hátún og tvær erfðafestulóðir; Litlibær og Bakki.
Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922: “Kálfatjarnartorfunni tilheyrir alt það land er landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur, að undanskildu landi Flekkuvíkur er selt hefur verið undan eigninni; jarðir þær og býli, sem tilheyra eignini eru því nú: „Hlið”, „Litlibær”,, „Bakki”, „Goðhóll”, „Bjarg”, „Hátún”, „Fjósakot”, „Kálfatjörn” og „Móakot“.”

Bakki

Bakki.

Land Kálfatjarnartorfunnar takmarkast því nú á milli Flekkuvíkur að innan – og svo sem landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur –, að Norðurkoti að sunnan. Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884.
1. Hlið, er þurrabýli, sem á lóð að Norðurkotslandi annarsvegar og Goðhóls, á tvo vegu hinnsvegar, ein hlið lóðarinnar er heiðargarður, öll er lóðin afgyrt með grjótgörðum. …
2. Litlibær …
3. Bakki …

Litlibær

Litlibær – brunnur.

4. Goðhóll, á tún að heiðargarði þeim sem er áframhald af heiðargarði Hliðs og Kálfatjarnar og alt til sjáfar og liggur tún Goðhóls því á milli Kálfatjarnartúns að norðan og austan og Norðurkotsvatnagarðs að sunnan og vestan. …
5. Bjarg …
6. Hátún, tún þess liggur til heiðar á tvo vegu og takmarkast tún þess af grjótgörðum er til heiðar snýr að austan og sunnan en að vestan af traðargarði er liggur heim að Kálfatjörn; úr traðargarðinum liggur vírgirðing í norður að túnamörkum Hátúns og Fjósakots og tilheyrir Hátúni og sömuleiðis er vír á milli Hátúns- og Fjósakotstúns. …
7. Fjósakot …

Kálfatjörn

Kálfatjörn, Bakki og Litlibær – loftynd 1954.

8. Kálfatjörn, heimajörðin, hún á tún alt milli heiðargarðs og að sjáfargarði; að austan eru traðir er liggja út að heiðargarði undan suðurhorni grafreitsins, tilheyra þær einsog verið hefur Kálfatjörn einni og eru í mörkum á milli Hátúns að svo mikluleyti, sem það nær með tröðunum, að vestan er garður er liggur frá heiðargarði og alla leið að sjáfargarði hann er merkjagarður milli Goðhóls og Kálfatjarnar, þó bugðóttur sje. Að norðan og norðaustan liggur garður, bugðóttur mjög, alla leið frá sjáfargarði og að Fjósakotstúni, garður sá er í mörkum milli Kálfatjarnar og Móakots. Kálfatjörn á og girðingar þær er garður sá afmarkar er gengur frá þvergarði þeim í girðingunum er afmarkar Móakotspart af girðingunum; en garður sá er áframhald eða því sem næst af norðurtúngarði Móakots og stefnir í suðaustur út að ytri garði girðinganna. Kálfatjörn tilheyrir það sem fyrir norðan þennan garð er. Kálfatjörn tilheyrir einnig innangarðs alt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (nýja) Bjargi og Litlabæ. …
Staðfest af hreppstjóra [sem þá var orðinn umráðamaður Kálfatjarnar vegna Kirkjujarðasjóðs] og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka. Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda eftirfarandi jarða í Kálfatjarnarhverfi: Bakki, Litlibær, Kálfatjörn, Móakot, Fjósakot, Hátún og Goðhóll. Að sögn ábúanda á Bakka er beitarland jarðarinnar víðlent. Það er girt að hluta með vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að landamerki jarðarinnar séu ekki skýr sem stendur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

9. Móakot. Í svörum ábúanda á Litlabæ kemur fram að býlið sé erfðafesta úr Kálfatjörn. Samkvæmt ábúanda á Kálfatjörn er beitiland jarðarinnar nokkuð víðlent. Hann segir einnig að sauðfjárbeit sé til heiðar. Einnig nefnir hann að tún, og nokkuð af beitarlandi sé girt með grjótgörðum og vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að jörðin á 1/3 í reka, skógi og beit í Vatnsleysujörðum. Þessi hlunnindi hafa lítið verið notuð að undanförnu að sögn ábúandans. Hann minnist einnig á að ekki alls fyrir löngu hafi reki á Selatöngum verið tekinn undan jörðinni. Ábúandi á Goðhóli nefnir að landamerki jarðarinnar séu þinglesin.
Vatnsleysustrandarhreppur keypti Kálfatjörn af jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins 27. ágúst 2001 með því skilyrði að niðurstaða óbyggðanefndar og/eða dómstóla varðandi landamerki og mörk gagnvart þjóðlendum yrði á ábyrgð kaupanda.
Landið ofan Vatnsleysustrandarvegar var selt Hitaveitu Suðurnesja af Vatnleysustrandarhreppi 28. desember 2001. Það land takmarkast að norðan af merkjum Flekkuvíkur að Einiberjahóli, en síðan Vatnsleysu, að austan af merkjum Krýsuvíkur (suðausturátt), að sunnanverðu af mörkum Þórustaða, að vestanverðu af gamla Vatnsleysustrandarveginum.

Flekkuvík

Flekkuvík

Flekkuvík – túnakort 1919.

Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: “Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik”. …
Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: “Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk” ….

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir um Kálfatjarnarkirkju: “hun ä Fleckuvijk. … fijrrnefnd Fleckuvijk ä allann thridiung i Vatzleijsu Jordu er liggur i Kälfatiarnar kirkiusokn. i rekum. sköge. Hagabeit. frä nijagørdum. og Jnn ad garde theim er geingur ofann [eitt handrit segir: innan] vr hraunenu og fram ad siö fijrer Jnnan Akurgierde”.
Flekkuvík er ávallt talin meðal eigna Kálfatjarnarkirkju í visitasíum biskupa.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir varðandi selstöðu Flekkuvíkur: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak”.
Ráðherra Íslands seldi Flekkuvík í tvennu lagi 31. ágúst 1909. Í virðingargerð frá 21. maí s.á. segir m.a.: “Utan túns land er talið að fylgi allri jörðinni frá landamerkjunum í milli Flekkuvíkur og Minni-Vatnsleysu að austan, vestur í hinn svo nefnda Keilisnesklett”.

Flekkuvík

Flekkuvík – loftmynd 1954.

Hins vegar er landamerkjunum lýst þannig í matsgerð austurhlutans sama dag sem er í sérstöku skjali: “Landamerki Flekkuvíkur eru frá MinniVatnsleysu landi að austanverðu, alt vestur í hinn svo nefnda Keilisnessklett, þaða upp Neshólana um Arnarvörðu, um sunnanvert Flekkuvíkursel, beina stefnu til fjalls, alla leið að Krýsivíkurlandi., og tilhyeyra austurhelmingnum afnotin af nefndu utantúnslandi að hálfu í móti vesturhálflendunni”.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922. Í því segir m.a. eftirfarandi: “Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884”.
Staðfest af hreppstjóra og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út 2. júní 2004 kemur fram að jörðin Flekkuvík sé komin í eigu Fjársýslu ríkisins.

Stóra – og Minni – Vatnsleysa

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd 1954.

Í máldaga Vatnsleysukirkju á Vatnsleysuströnd frá 1269 stendur eftirfarandi: “Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande…
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: “Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. … hvn aa backa ok fleckv vik. … firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi”. …
Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: “… kirkian kryssvvik ætti þar j xc” …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóra– og Minni–Vatnsleysa í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 nefnir Sogasel í landi Stóru-Vatnsleysu, sem notað sé frá Kálfatjörn og kirkjujörðinni Bakka. Sömuleiðis lögfestir Guðmundur Magnússon Sogasel árið 1790, sbr. lögfestu Kálfatjarnarkirkju hér að framan varðandi Kálfatjörn: “Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa,” … Hins vegar áttu Vatnsleysurnar, Minni og Stóra, hvor sína selstöðuna samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703: Minni-Vatnsleysa: “Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt”.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Stóra-Vatnsleysa: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti”.
Í Jarðabókinni kemur fram að Stóra Vatnsleysu fylgi hjáleigurnar Vatnsleysukot, Akurgerði og þrjár ónefndar hjáleigur.
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjarðirnar Stóra–og Minni Vatnsleysa hafi verið seldar þann 13. júní 1838.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa.

Nokkur munur er á gæðum Stóru–og Minni–Vatnsleysu samkvæmt Jarðamati 1849 – 1850. Í kaflanum um Stóru–Vatnsleysu í Fasteignamati árins 1849 stendur m.a. að landrými sé talsvert. Í þeim hluta Jarðamats 1849 sem fjallar um Litlu–Vatnsleysu stendur hinsvegar að landrými sé nokkurt.
Í landamerkjabréfi Kálfatjarnar frá 9. júní 1884, sem eigendur Vatnsleysannasamþykktu er mörkum milli Kálfatjarnartorfu og Vatnsleysanna lýst þannig.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: “Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni–Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri–Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að „garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.”
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs. … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli”.

Snókafell

Snókafell.

Landamerkjabréf varðandi landamerki milli Hvassahrauns og sameignarjarðanna Stóru – Vatnsleysu og Minni – Vatnsleysu var undirritað 15. júní 1889 og samþykkt af búendum Hvassahrauns. Bréfið var þinglesið 17. júní 1889: “Úr Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland”.
Samkvæmt fasteignamati 1916 – 1918 er þrjár jarðir á Vatnsleysulandi; Stóra – og Minni – Vatnsleysa og grasbýlið Miðengi. Jarðirnar deila með sér heiðarlandi og hagbeit. Í kaflanum um Stóru – Vatnsleysu er greint frá landamerkjum: “Landamerki eru milli Flekkuvíkur og Vatnsleysu úr Klukku við sjó, þaðan beint í litla Hafnhól um Vatnsleysuselás, þaðan í stóra Kolhól, þaðan í Hrafnafell, þaðan að Krýsuvíkurlandi, þá norður með Krýsuvíkurlandi. – Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>”.

Afstapavarða

Afstapavarða.

Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúenda á jörðinni Stóru–og Minni Vatnsleysu. Í skýrslu ábúendanna á Stóru – Vatnsleysu kemur m.a. fram að beitarlandið sé mikið og gott alla leið frá bænum og upp að Krýsuvíkurlandi. Þar kemur líka fram að túnið sé allt girt og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Einnig segir að landamerki sé skýr og þinglesin. Ábúendur jarðarinnar halda að á henni séu hverir.
Í greinargerð þeirra sem búa á Minni–Vatnsleysu stendur m.a. að beitarlandið sé víðlent. Þar kemur einnig fram að tún jarðarinnar sé girt með grjóti og vír og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Í skýrslunni stendur einnig að jörðin eigi hveri með Stóru – Vatnsleysu og að landamerki séu þinglesin og ágreiningslaus.

Eigandi Stóru-Vatnsleysu, Sæmundur Á. Þórðarson, skrifaði landbúnaðarráðuneytinu bréf 18. september 1996 þar sem hann gerði þá kröfu vegna Vatnsleysujarðanna að mörkum móti Krýsuvík yrði breytt. Vildi hann að merkin „verði miðuð við línu dregna af Grænavatnseggjum beina stefnu í Markhellu, háan Bréfinu fylgdi „Greinargerð um Krýsuvíkurbréfið”, sem Sæmundur skrifaði 17. september 1996. Þar bar hann Krýsuvíkurbréfið saman við önnur landamerkjabréfi og fleiri heimildir og taldi hann Árna Gíslason í Krýsuvík hafa leikið á þá sem undirrituðu bréfin athugasemdalaust.
Áður var minnst á bréf sem Sæmundur Þórðarson á Stóru – Vatnsleysu skrifaði landbúnaðarráðuneytinu þann 18. september 1996 varðandi landamerki Vatnsleysujarðanna og Krýsuvíkur.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Sæmundur virðist hafa síðar skipt um skoðun því að í ódagsettri greinargerð um framkvæmdir á Stóru – Vatnsleysu [mun hafa verið skrifuð árið 2004] kemur Sæmundur með aðra ábendingu varðandi mörk Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandarjarða: Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur standi: „að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan sem er útbrunnið eldfjall …” Ef þarna stæði „í vesturrætur Grænudyngju” yrðu mörkin hárrétt, en Trölladyngja og Grænadyngja séu þarna hlið við hlið. E.t.v. hafi Krýsuvíkureigandi skrifað rangt örnefni sem öðrum hafi yfirsést að leiðrétta. Einnig segir Sæmundur varðandi merkjalýsingu Ísólfsskála þar sem nefnd er „sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum Krýsuvíkur”, að það sanni að línan liggi upp á Selsvallafjall enda eru gamlar heimildir um að hornmark strandajarða að suð-vestan hafi verið um Framfell, öðru nafni Vesturfell sem er inn á miðju Selsvallarfjalli þar sem það er breiðast, vestur af Vigdísarvöllum.

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Samkvæmt þessari greinargerð Sæmundar hóf Stóru-Vatnsleysubóndi vegagerð til Höskuldarvalla og Eldborgar (gjallgígs NA af Trölladyngju) árið 1947. Á sama tíma voru Höskuldarvellir girtir af og var ræktað innan girðingar um 100 ha tún, en stórt bú var á Stóru-Vatnsleysu. Laxeldisstöð var byggð á Stóru-Vatnsleysu á árunum 1987-1990 og stóð til að virkja háhitasvæðið við Höskuldarvelli, Eldborg og Sogin. Orkustofnun var fengin til þess að gera umfangsmiklar rannsóknir á Trölladyngjusvæðinu auk rannsókna á magni og gæðum grunnvatns í landi Vatnsleysujarða. Rannsóknirnar hafi að mestu verið greiddar af eigendum Vatnsleysujarða, en þeir hafi jafnframt átt 49% í laxeldisstöðinni sem greiddi nokkurn hluta rannsóknarkostnaðarins. Sæmundur nefnir nokkra aðila, sem tekið hafi jarðefni í landi Stóru-Vatnsleysu, en segir ekki hvar. Raunar segir hann að allt frá því vegagerðin að Höskuldarvöllum hófst árið 1947 hafi verið tekið efni úr Eldborg ásamt bólstrabergi úr Rauðhólsfellunum.

Hvassahraun

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd 2019.

Í máldagaskrá um eignir kirkju og staðar í Viðey sem ársett hefur verið til um 1234 segir: “Magnvs biskvp gaf til staðar hinn siavnda lvt hvalreka ov viðreka j Hvassarauns landi”.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var hálft Hvassahraun í eigu Viðeyjarklausturs.
Í jarðaskiptagjörningi sem Páll Stígsson hirðstjóri, fyrir hönd konungs, átti við Gísla biskup Jónsson, fyrir hönd Skálholtsstól, og fram fór að Bessastöðum 27. september 1563 eignaðist konungur hinn helming jarðarinnar sem sögð var 10 hundruð að dýrleika.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. um hlunnindi jarðarinnar árið 1703: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina. Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jörðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti”. Hvassahrauni fylgja þá þrjár hjáleigur. Ein kallast Þoroddskot en hinar bera ekki nöfn.
Í jarðamati árið 1804 kemur fram að hjáleigan Hvassahraunskot tilheyrir jörðinni Hvassahrauni.
Jörðin Hvassahraun hvarf úr konungseigu þann 19. apríl 1837.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðamati 1849 – 1850 er kafli um Hvassahraun með Hvassahraunskoti og Sónghól. Í honum stendur m.a.: “Landrými mikið. Talsverður skógur”.
Landamerkjabréf milli Hvassahrauns og Lónakots var undirritað 7. júní 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: “Merkin byrja í svonefndum markakletti við sjóinn, austanvert við Hraunsnes, úr markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól, úr Stóragrænhól í hólbrunnsvörðu, úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu, úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi”.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Nokkrum dögum síðar eða 13. júní 1890 var landamerkjabréf milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarsstaða undirritað. Það var samþykkt af fulltrúum Óttarsstaða og Lónakots. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: “Merkin byrja í svonefndum markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes úr markaklett í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu hjá sunnanvert við Einirhól, úr Klofningsklett í búðarvatnsstæði úr búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík með áklöppuðum stöfunum Hvass., Óttas. og Kr.vík”.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Í kaflanum um Hvassahraun (austurbær) í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: “Landamerki að sunnan: sjá landamerki Vatnsleysu [Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>.] Að norðan, Hraunsnesvarða við sjó, þaðan í marka vörðu, þaðan í vörðu á Krossstapa, þaðan sömu stefnu til Krýsuvíkurland<s>”. Í sama riti kemur fram að Hvassahraunsbýlin, austur – og vesturbær, deila heiðalandi og hagbeit.
Í þeim hluta fasteignamats 1932 sem fjallar um lýsingu ábúenda á jörðinni Hvassahrauni kemur fram að beitiland jarðarinnar sé víðlent og skjólgott. Þar kemur líka fram að jörðin þurfi ekkert upprekstrarland því hún hafi það sjálf.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysuströnd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krossstapar

Mið-Krossstapar.