Eiríksvegur

Eiríksvegur liggur frá Akurgerðisbökkum upp í Flekkuvíkurheiði, áleiðis að Þrívörðuhól. Um er að ræða sýnishorn af vegagerð fyrri tíma.
Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í EiríksvegurReykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba. Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum, ýmist ofan eða neðan hans, og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegur neðstur, svo Almenninsgvegur og Eiríksvegur efstur.
Ofan við Strandarveg á móts við Stóru-Vatnsleysu er túnblettur og suðvestan hans er mikil varða um sig en að nokkru leyti hrunin sem heitir Bergþórsvarða eða Svartavarða. Varðan hefur líklega verið innsiglingarvarða fremur en mið. Suðaustur og upp af Bergþórsvörðu er svo Slakkinn, mosalægð sem gengur upp undir Reykjanesbraut og um hann liggur nýja tengibrautin frá hringtorginu til Strandarinnar.
VatnsleysustekkurDigravarða og Digravörðulágar eru örnefni á þessum slóðum og líklega er Digravarða spöl sunnan við Bergþórsvörðu, á hól sem er vel gróinn í toppinn. Varðan hefur verið mikil um sig fyrrum en er nú aðeins grjóthrúga. Fyrir ofan Digruvörðu eru Digruvörðulágar.
Nefnd Digravarða sést tæpast nú orðið. Við Bergþórsvörðu beygir Almenningsvegurinn um 90° til norðurs. Þar hefur og nýr vegur (hugsanlega ofan í gamlan) verið lagður. Sá vegur liggur norðlægar með beina stefnu á Hrafnagjá. Á henni, þar sem vegurinn liggur yfir gjána, er náttúruleg steinbrú. Þaðan í frá er vegurinn augljós að Flekkuvíkurstíg (Refshalastíg).
Eiríksvegurinn liggur hins vegar þarna áfram upp upp með hólnum norðanverðum – áðeiðis upp í Flekkuvíkurheiði, langleiðina að Þrívörðhól. Líklegt má telja að gamli Almenningsvegurinn hafi að hluta legið undir Eiríksvegi. Rétt vestan Hrafnagjár og norðan Eiríksvegar er Vatnsleysustekkur í lítilli kvos. 

Byrgi

Eiríksvegargerðarmenn hafa látið óhreyft grjótið í stekknum sem segir okkur að líklega hafi hann verið í notkun þegar vinnan stóð yfir. Ekki er þó með öllu útilokað að eitthvert heimilisfólk að Vatnsleysu hafi meinað vegagerðarmönnum að hrófla við stekknum, enda hafi það haft taugar til hans frá fyrri tíð. Dæmi eru um að öðrum mannvirkjum í Vatnsleysulandi hafi verið hlíft þrátt fyrir að notkun þeirra hafi þá verið hætt.
Á móts við Flekkuvíkurafleggjarann hefur lítið grjótbyrgi verið byggt ofan í Almenninsgvegi en á þessum slóðum er sá vegur u.þ.b. 50 m fyrir ofan Strandarveg.
Eiríksvegur og hluti Skipsstígs undir Lágafelli eru að mörgu leyti líkar framkvæmdir. Um er að ræða 3-4 m breiðar götur, nánast beinar. Undirlagið er grjót, en ofaníburðurinn, mold, hefur að mestu fokið úr vegastæðunum. Hvorugri framkvæmdinni lauk án þess að koma að gagni. Annað hvort hefur mjög afmörkuðu fé verið ráðstafað til verkanna, sem síðan hefur ekki fengist endurtekið, eða að tilefni framkvæmdanna hafa dagað uppi.
Hvað sem öllu líður þá eru þarna ágæt dæmi um vegagerð um og í kringum aldamótin 1900, um það leyti er bændur voru að taka hestakerrur í gagnið sem samgöngutæki um leið og sjálfrennireiðin var að gera þær óþarfar.

Heimild m.a.:
-S. Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi -2007.

Eiríksvegur