Haldið var inn á og upp Vogaheiði með það fyrir augum að skoða og rissa upp selin, sem þar eru sunnan Knarrarnessels.
Nýjaselsballi (af sumum í seinni tíð nefndur Níelsbjalli) liggur út úr efstu tveimur Snorrastaðatjörnunum til norðurs. Bjallinn er nokkuð langt grágrýtisholt, sem sker sig svolítið úr umhverfinu, og því í rauninni ekki eiginlegur bjalli. Hann dregur nafn sitt af litlu seli, sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. Þar eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg, sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna. Á efri gjárbarminum þarna rétt við selið eru þrjár “hundaþúfur” með stuttu millibili. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.
Í Nýjaseli eru þrjár tóftir. Miðtófin er þremur rýmum og er sennilega hluti hennar stekkur eða kví. Tóftirnar sunnan og norðan við hana eru eitt rými hvor, nokkurn veginn jafn stórar. Þarna eru því dæmigerðar selstóftir frá fyrri tíð. Þær eru fremur litlar, en á skjólgóðum stað undir lágum hamrabakkanum, ekki svo langt frá norðurenda Snorrastaðatjarna. Aðskildar tóftirnar, og hversu lítil húsin eru, benda til þess að þara hafi verið kúasel, sem fyrr segir.
Snorrastaðasel er norðvestan tjarnanna. Ein heimild er til um selið sem segir að það hafi verið frá bæjum í Vogum. Í því eru einnig þrjár kofatóftir. Selið er einnig nálægt byggð og við vatn er bendir til að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr. Tóftirnar voru ekki heimsóttar að þessu sinni, en verða rissaðar upp fljótlega.
Huldugjá er næsta gjá ofan við Nýjaselsbjalla. Huldur nefnast svæðið milli Hrafnagjár, sem er næst Reykjanesbrautinni að ofanverðu, og Huldugjár. Tvær skýringar hafa verið gefnar á nafninu. Önnur er sú að vegna þess að Huldur er jarðsig milli Hrafnagjár og Huldugjár (gjáveggirnir snúa andspænis hvor öðrum) er allt á “huldu” um það sem fjær er, Hitt er þó líklegra að nafnið Huldur komi til af því að austast á svæðinu eru margar litlar, en djúpar sprungur, sem geta verið varasamar ef snjór liggur yfir og því er unnt að tala um “huldar hættur” á þessum slóðum.
Á Huldugjárbarmi er Pétursborg, fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904), en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Hún er sporöskjulöguð og austurveggurinn er hrauninn að mestu. Lengd borgarinnar er 6-7 m, breidd 4-5 m, veggþykkt um 50 cm, hæð um 180 cm og dyr snúa í suðaustur. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.
Fjárhústóftirnar eru enn nokkuð greinilegar. Grjót hefur verið í útveggjum og sést það vel ó tóftunum. Hleðslurnar gefa vel stærð húsanna til kynna sem og legu þeirra. Efsta tóftin er ofan við borgina og snýr dyraopi til suðausturs. Austasta tóftin snýr dyraopi til suðvesturs og miðtóftin, milli hennar og borgarinnar, virðist hafa snúið dyrum til suðausturs. Allnokkur gróðureyðing er þarna, en tóftarsvæðið hefur haldið sér nokkurn veginn vegna tóftanna.
Norðaustur og upp af Pétursborg, en rétt neðan Litlu-Aragjár, er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru nokkuð heillegar hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu, sem liggur gegnum einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel, enda engar húsarústir sjáanlegar – eða hvað?
Ef vel er að gáð má sjá að þarna gæti hafa verið selstaða um skamman tíma. Hleðslurnar benda til stekks og að öllum líkindum hefur sprungan verið notuð sem skjól, hlaðið til endana og reft yfir. Ólíklegt má telja að selið hafi verið notað um langt skeið.
Næsta gjá fyrir ofan Litlu-Aragjá er Stóra-Aragjá. Þarna er bergveggurinn hæstur. Nefnist hann Arahnúkur. Hann sést vel af Vogastapa og víðar. Undir Arahnúk er Arahnúkssel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðrinn eyddist.
Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn. Þar má sjá tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir. Stór varða er á gjárbarminum skammt sunnan við selið og önnur minni (og nýrri) skammt austar.
Tóftirnar geyma fimm hús með átta til tíu kofa tóftum, sem fyrr segir. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna, sem er nokkurn veginn í beina línu undir veggnum. Eitt húsanna, tvískipt, stendur þá framar, lengra frá veggnum. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór og er líklegt að hann hafi verið samnýttur. Svo er að sjá að þrjú hólf hafi verið í honum, auk safnhólfsins.
Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar er sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Svo virðist sem refurinn lifi þar enn góðu lífi því rjúpufiður á á víð og dreif ofan gjárinnar.
Vogheiði heitir svæðið einu nafni ofan Voga allt frá Gamla-Keflavíkurveginum upp úr og inn að landamörkum grannjarðanna. Vogaholtið er hins vegar á austurmörkum þess.
Í því er Jóhannesarvarða, er vestur undir Holtsgjá, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels. Varðan stendur hátt utan í litlum, en háum, klapparhól. Það eina sem vitað er um Jóhannesarvörðu er að þar hefði maður orðið úti.
Utan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar má sjá þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlega rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel. Norður af selinu er Vogaselsdalsgrenið og inn í “dalnum” eru þrjú greni sem heita Dalsbotnsgrenin.
Tóftirnar á neðra svæðinu, í jaðri Vogaselsdals, sem nú er að verða jarðvegseyðingunni að bráð, mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það þriðja virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar.
Efri tóftirnar, ofar í holtinu til suðausturs, geyma hús á þremur stöðum. Það nyrsta er tvískipt. Miðhúsið er byggt að hluta til í hól og er erfitt að greina útlínur þess svo vel sé. Efsta tóftin er fast undir háum kletti. Mikið er gróið í kringum hana og er ekki ólíklegt að húsið hafi verið stærra, en virðist. Austan efstu tóftarinnar er hlaðinn tvískiptur stekkur og sést lega hans vel.
Norðan við Gamla-Vogasel er Brunnastaðsel undir Brunnastaðaselsgjá. Um 15. mín. gangur er milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan ogs unnan selsins, en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.
Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr (frá Reykjanesbæ til Voga). Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst bygðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil kví, óskemmd með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.
Tóftirnar undir hlíðinni, næst gjánni geyma þrjú hús. Tvö þeirra eru tvískipt og virðist kví vera við suðurenda þess efra. Milli þessara húsa er hús með einu rými. Vestan vestasta hússins er stekkur. Ytri tóftirnar eru tvískipt hús og þriðja rýmið er hlaðið reglulega úr grjóti aftan (norðan) við húsið. Lítill hóll er norðaustan við tóftirnar og er hlaðið gerði eða kví vestan undir honum, í skjóli fyrir austanáttinni.
Enn má sjá talsvert grjót í innveggjum húsanna í Brunnastaðaseli. Veggir standa yfirleitt vel og eru u.þ.b. 120 cm á hæð. Kvíin í gjánni er heilleg og hefur varðveist vel.
Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið. Milli Brunnastaðasels og Gamla-Vogasels er Markhóll, sem skiptir löndum Brunnastaða og Voga. Um tvo hóla er að ræða. Sennilega er sá efri (með vörðu á) endamörk, en sá neðri hinn eiginlegi Markhóll. Neðan hans er Markhólsgrenið.
Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel er Hemphóll eða Hemphólar, en þar áður fyrr áður smalar úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir. Hemphóllinn er mjög áberandi séður frá Kúagerði og á honum er varða. Heimild frá Grindavík segir hólinn heita Stóruvörðu. Sagt er að prestar Kálfatjarnarsóknar og Staðarsóknar í Grindavík hafi átt sameiginlega hempu og að hún hafi verið sótt á hólinn fyrir messu á hvorum stað og vegna þess sé nafnið Hemphóll tilkomið. Hemphólsvatnsstæðið er lítill mýrarpollur rétt austur af hólnum.
Brunnastaðaselsgjá er efsta gjáin, sem eitthvað kveður að í heiðinni og liggur hún í sveig langt inn úr. Nokkuð inn með gjánni frá Brunnastaðaseli og neðan hennar er Hlöðuneskinn, en aðeins ein heimild er til um þetta örnefni (Jarðabókin 1703). Hlöðuneskinn er nokkuð brött brekka eða brekkur, sem liggja frá gjánni til norðurs og eru þar sundurgrafnar af moldargiljum, sem myndast hafa við framrás vatns.
Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri standa leifar Gamla-Hlöðunessels eða Hlöðunessels. Þar eru tvær gamlar tóftir, en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikil þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðuneskinn sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.
Vestari tóftin virðist hafa verið óskipt hús, sem bendir til þess að hún sé mjög gömul. Austan hennar, samsíða, er tvískiptur stekkur, nokkuð stór.
Enn má sjá móta fyrir grjóthleðslum þátt þær séu nú vel grónar og næstum jarðlægar, líkt og húsatóftin.
Neðan af Vatnsleysustrandarheiði sést vel til Gjásels, austan og sunnan við Knarrarnessel. Síðarnefnda selið er ofan við Klifgjá, en hið fyrrnefnda kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá, stundum nefnd Gjárselsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ haft var í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðasels.
Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn, en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs, en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir húsanna standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum, sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu, en jarðskjálftar á fyrri hluta síðustu aldar hafi eytt þessum eina “fossi” í hreppnum. Ein heikmild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu svo til vatnslaus nú.
Um er að ræða fjögur hús í selinu og stekk skammt sunnar. Hann er orðinn nokkuð óljós, en tóftirnar hafa varðveist vel. Húsin er öll í einni röð undir gjárveggnum, sem fyrr segir. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni.
Sjá má grjót í innveggjum. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg þegar komið er að henni neðanfrá. Gjáselið er eitt hið fallegasta í heiðinni.
Gjáselsgjá og eins og aðrar gjár í heiðinni opnast þessi og lokast á víxl. Suðvestar er Holtsgjá, sem tengist að einhverju leyti Gjáselsgjá. Frá Gjáseli sést vel yfir til Knarrarnessels norðar í heiðinni.
Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Hún sæist ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.
Í rauninni ætti óvant göngufólk ekki að fara eitt um Vogaheiðina – allra síst að vetrarlagi er snjór þekur jörð – því víða leynast sprungur og djúpar gjár opinberast oft skyndilega framundan, án minnsta fyrirvara. Það er a.m.k. mikilvægt að vera vel vakandi á göngum á þessu svæði. Þarna eru augun mikilvægasta skilningavitið.
Frábært veður. Fuglasöngur í heiði. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.