Fálkaþúfa

Stapinn geymir ýmislegt ófyrirséð. Þegar FERLIR var á ferð þar nýlega, hafði gengið hina gömlu þjóðleið upp Reiðskarðið og beygt áleiðis yfir í Kvennagönguskarð, sló sólarblett á stóra grassyllu undir ofanverðu hamrabeltinu. Augljóst mátti telja að þarna hefði verið fjárathvarf fyrrum. Þegar komið var inn á sylluna kom í ljós lítill en aflangur skúti inn undir bergið. Þar fyrir innan var spýtnabrak og fleira er einhverjir höfðu komið þar fyrir. Frá munnanum var ágætt útsýni yfir Vogavíkina og Voga.
SyllanÍ örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Voga segir m.a: “Grímshóll er þar efstur, allfrægur úr þjóðsögum. Herjanssæti og Grímshóll mun vera tengt nafni Óðins, æðsta goðs Norðurálfumanna. [Herjanssæti er á landamerkjum Stóru-Voga og Innri-Njarðvíkur við svonefnda Kolbeinsskor.] Austur og inn frá Skor koma björgin með ýmsum nöfnum svo sem Hamarinn, Eggjar og Snös. Þarna er einnig að finna nöfn eins og Hamrabrúnir, Stapabrúnir eða Brúnir og svo eru þarna niður undan Hamraskriður eða Brúnaskriður. Þá kom laut í Brúnirnar og nefndist Gil og lá þar upp með stígur erfiður uppgöngu, nefndist Heljarstígur.
HellirinnHér nokkru innar er svo Brekkuskarð eða Brekkuskor og lá þar upp Brekkustígur og var þar sæmilega auðvelt uppgöngu. Litlu innar var svo Rauðastígur. Nokkru innar er svo Kvennagönguskarð og þar lá upp Kvennagöngu-skarðsstígur. Svo er litlu austar Reiðskarð með Almenningsveginum, Gamla- og var bratt upp að fara. Vestan í skarðinu er lítill hamar og þar í Skútinn eða Hellirinn, var þar fjárskjól allgott. Austan við Reiðskarð er svo Hamarinn, Eystri-. Upp á Hamrinum er Fálkaþúfa og Gjögur. Austan til við Hamarinn lá þjóðvegurinn upp á Stapann í sveig og nefndust þar Moldbrekkur. Upp og austur af Brekkuskarði er Kálgarðsbjalli og þar litlu austar er Miðbjalli og þá Lyngbjalli og Mýrarbjalli. Þar sem Reykjanesbraut liggur upp á Stapann nefndist Lágibjalli. Þar litlu vestar er Hærribjalli eða Stærribjalli og einnig nefndur Háibjalli. Undir bjöllunum eru svo Bjallabrekkur og þar er skógræktargirðing Félags Suðurnesjamanna.”
Þegar FERLIR var inni í Hellinum mátti allt í einu heyra barnsrödd fyrir utan: “Er þetta Hellirinn, pabbi?” Var þar kominn lítill snáði með pabba sínum, afkomendur Guðmundar Björgvinssonar frá Brekku undir Stapanum. Var faðirinn að sýna syninum hinn alkunna Helli, “sem sæist svo vel frá Vogum”.
Í leiðinni var kíkt á Fálkaþúfu, sem er áberandi á Stapanum frá fjárskjólinu séð. Vestan við það er stærðarinnar bjarg, sem hefur á jökulruðningstímanum náð að tylla sér um stund á smærri steina – og staðnæmst þar um þúsundir ára.
Frábært veður. Gangan tók 22. mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing Voga (GS).

Stapinn

Fjárskjól í Vogastapa.