Staðarborg

Gengið var um ofanverða Kálfatjarnarheiði ofan og vestan Lynghóls. Reynt var að fylgja varðaði leið er horfið var frá í fyrri ferð um ofanverða heiðina, auk þess sem ætlunin var að skoða mannvistarleifar neðar í heiðinni; vestan og norðvestan Lynghóls.
VarðaVörður mynduðu, líkt og áður, tvöfalda röð til vesturs norðan núverandi Reykjanes-brautar. Þær staðfestu enn frekar að svo til bein leið hafi fyrrum legið yfir heiðarnar milli Kúagerðis og Vogastapa, allnokkru ofan Vatnsleysustrandar-vegar.
Þegar vel var að gáð mátti finna vörður og vörðubrot svo að segja á hverjum hól í heiðinni. Sumar voru grónar, en aðrar stóðu enn stöndugar. Á klapparholti suðaustan Lynghóls (Lynghólsborgar/ Þórustaðaborgar II) mátti sjá leifar enn einnar fjárborgarinnar, sennilega frá Landakoti. Bæjarhúsið þar neðanvert blasti við frá hólnum. Á öðrum hól skammt norðvestar mátti sjá a.m.k. fimm hlaðin skjól eftir refaskyttur í heiðinni. Auk þess mátti sjá leifar af enn eldri hlaðinni refagildru á hólnum miðjum. Vænta mátti minjaleifa í gróningum þar sem vörður eða vörðuleifar voru á hólum, en engar slíkar var hægt að staðsetja með óyggjandi hætti. Á sumum staðanna þyrftu þó að fara fram frekari rannsóknir áður en hægt væri að kveða á um hvort þar leyndust minjar eður ei. Fjárframlög til slíks ‘atarna liggur þó væntanlega ekki á lausu (eða fenginni reynslu).
Þar sem staðið var á efsta hólnum í heiðinni, þeim er bar við brún séð frá bænum, voru minjar. Erfitt var að sjá hvaða tilgangi þeir hafa þjónað. Um var að ræða einfaldar steinaraðir, 6×10 steinar, á tveimur stöðum á klapparhól. Svo virtist sem einhver hafi þarna verið að undirbúa vörðugerð eða einhverja aðra mannvirkjagerð í heiðinni.
Á næstunni verður vestanvert svæðið ofan Vatnsleysustrandar skoðað miklu mun nánar. Eflaust á þá ýmislegt áður meðvitað, en mönnum nú horfið, eftir að koma í ljós.Vatnsstæði
Í örnefnalýsingu (1976) fyrir Kálfatjörn lýsa bræðurnir Ólafur Erlendsson og Gunnar Erlendsson þessu vsæði svo: “Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu þeirra hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargagni. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var hirt og þurrkað það þang, sem rak á fjöru utan þess tíma, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka. Lýsingar á merkjum milli fjörupartanna kunna mönnum nú að þykja smásmugulegar. Það gat þó gilt 1-2 mánaða eldsneyti, hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eður ei.

Hleðslur

Staðarborg, fjárborg hringlaga, mjög vel hlaðin – er friðlýstar minjar. Ólafur hefur heyrt þá sögn um Staðarborg, að presturinn á Kálfatjörn hafi látið fjármann sinn hlaða hana, er hann stóð yfir fé. Munnmæli eru um, að fjármaðurinn hafi heitið Guðmundur og verið frá Knarrarnesi. Hann þótti frábær hleðslumaður, en sérsinna. Sagt er, að hann hafi ekki viljað nýta þá steina, er aðrir báru til hans og viljað vera einn um valið. Sýnt er, að mestallt grjótið hefur hann tekið úr einni og sömu klöpp þar ekki allfjarri. Hann ætlaði að hlaða borgina upp í topp og er hún farin að draga mjög í sig ofan til. Þegar prestur komst að þessu harðbannaði hann slíkt og lét Guðmund hætta hleðslunni.
Á borginni voru áður lágar dyr svo að stórgripir kæmust ekki inn í hana. Upp úr 1920 lenti trippi inn í borgina og til að ná því út var rifið fyrir ofan dyrnar og eru þær nú heilar upp úr.
SkjólSkammt norður af borginni er mikil hæð, sem kallast Þorsteinsskáli. Smá tóftarbrot er á henni. Alllangan spöl til útsuðurs frá Staðarborg er nokkuð stór hóll, er Lynghóll nefnist. Suðaustur frá Þorsteinsskála, ekki alllangt frá steypta veginum, er vörðubrot á hól; þar heitir Marteinsskál. Til austurs – landnorðurs frá Marteinsskála, skammt frá veginum, er hóll, sem sker sig mjög frá umhverfinu, sökum stærðar og hæðar. Hann heitir Stóri-Hafnhóll. Annar litlu minni er til norðurs frá honum, Litli-Hafnhóll.”
Ekkert er minnst á örnefni á framangreindu svæði í lýsingunni. Skammt norðan klapparhólsins, sem refaskyttuminjarnar eru á, mátti sjá vatnsstæði í gróinni lægð milli klapparhóla. Vörðubrot voru allt um kring. Líklegt má telja að þarna hafi fyrrum verið vatnsstæði fyrir Lynghólsborg/Þórustaðaborg II, enda ekki langt að fara.
Þarna í brúnunum er víða gróið í bollum. Telja verður mjög líklegt að heiðin hafi verið algróin fyrrum. Það skýrir væntanlega þá staðreynd að hvarvetna, sem borið er niður í heiðinni, má finna leifar mannvistar og búsetu frá því fyrr á öldum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín. 

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Kálfatjarnarhverfi.

Varða