Bieringstangi
Gengið var með Magnúsi Ágústssyni í Halakoti (f: 1922) og Hauki Aðalsteinssyni um Bieringstanga á Vatnsleysuströnd. Ætlunin var m.a. að skrá helstu minjar sem þar eru enn sýnilegar á Tanganum. Reyndar er nafnið Bieringstangi ekki gamalt því hann er kenndur við Moritz W. Bjering, verslunarstjóra í Flensborgarversluninni í Keflavík er tók yfir og réði um tíma verslun og verkun í Tangabúð á Brunnastaðatanga (um 1850). Löngu áður hét tanginn Harðangurstangi og þannig er hans m.a. getið í Húsvitjunarbók fyrri tíma.
Bieringstangi

Bieringstangi – tóft.

Magnús þekkir öll örnefni á Tanganum og þekkti auk þess fólkið, sem þar bjó síðast, en segja má að byggðin hafi verið að leggjast af um 1925, skömmu eftir að hann fæddist. Haukur hefur auk þess kynnt sér mjög vel heimildir og sögu Tangans og hefur t.d. skrifað sögu þilskipaútgerðar í Vogunum.
Nokkrir bæir eða kot voru á Tanganum, auk Tangabúðarinnar, þ.e. Töðugerði, Grímsbær, Grund, Vorhús, Klapparholt, Hausthús, Hvammur og Vatnskersbúðir. Minjar allra þessara bæja sjást enn á Tanganum, auk fjölmargar aðrar, s.s. grunnar salthúsa, verbúða og byrgja. Tækifærið var notað og svæðið rissað upp, þ.e. svæðið frá Töðurgerði í austri og að Vatnskersbúðum í vestri, að mörkum Grænuborgar.
Magnús benti m.a. á grunna undan timbursalthúsum, sem stóðu neðan við Grundarbæinn. Þeir eru nú að hluta til komnir út fyrir strandarmörkin, í fjöruna, en sjórinn er smám saman að taka minjarnar til sín. Af grunnunum að dæma hafa þetta verið nokkuð stór hús.

Bieringstangi

Magnús Ágústsson og Haukur Aðalsteinsson við skipsflak á Bieringstanga.

Í skýrslu “yfir þau hús í Vatnsleysustrandarhreppi, sem ekki voru notuð við ábúð jarða og sem því bar að greiða húsaskatt af samkv. lögum af 14. des. 1877”, frá því í nóvember 1878 lýsir Guðmundur Guðmundsson og J.J. Breiðfjörð mannvirkjum úr timbri, annars vegar í Tangabúð og hins vegar í Hólmabúð, auk Klapparholts. Tangabúð var þá “anlæg” standandi á Brunnastaðalóð; “tvö salthús áföst hvort við annað, hið nyrðra 12 álna [7.3 m] langt, 9 1/2 ál. [5.8 m] á breidd, syðra húsið er 15 1/2 ál. [9.5 m] á lengd, 7 1/2 ál. [4.6 m] á breidd, með lopti eptir endilöngu og afþiljuðu herbergi uppi á loptinu yfir um þvert húsið, hæð húsanna er 3.5 ál. [2.1 m] undir bita, bæði húsin eru með tvöfaldri timbursúð og eru þau virt á 1200 krónur. Er sjóbúð úr timbri 20 álna [12.2 m] löng, 6 1/2 ál. [4 m] á breidd, 4 áln. [2.4 m] á hæð undir lopt, með lopti eftir endilöngu og rúmum uppi og niðri til beggja hliða, á húsinu er tvöföld timbursúð, virt á 300 krónur. Ofanrituð hús, sem öll til samans eru virt á 2000 krónur eru eign verzlunar þeirrar, sem Consul E. Siemsen á í Reykjavík og hefur stjórnað.”

Um Klapparholt segir: “standandi “anlæg” á Brunnastaðalóð; salthús 21 áln. [12.8 m] á lengd 6 álna [3.7 m] breitt, 3 1/2 áln. [2.1 m] á hæð, allt með timburgólfi og klætt innan á byndinginn með borðum allt í kring, með timbursúð og þakspæni utanyfir, virt á 600 krónur. Timburhjallur gamall, 6 1/2 al. [10.6 m] langur, 4 2/4 al. [2.9 m] breiður, 3 1/4 aln. [2.1 m] á hæð undir lopt með einfaldri rennisúð og lopti yfir endilöngu, virtur á 50 krónur (Flyt: + 650 krón.).

Bieringstangi

Letur á steini á Bieringstanga.

Íbúðarhús (baðstofa) með veggjum úr torfi og grjóti, en tvöföldu timburþaki, 12 álna [7.3 m] löng, 6 álna [3.7 m] breið, hálfstafahús, með rúmum til beggja hliða og áföstu eldhúsi, göngum og bæjardyrum, virt á 150 krónur.”
Þótt Hólmabúðir séu ekki á Bieringstanga er rétt að geta umsögn um þær því þeirra er einnig getið í skýrslunni. Um Hólmabúðir segir að þær séu standandi á Stóru Voga lóð. “Íbúðarhús úr timbri 15 álna [9.2 m] lángt, 12 álna [7.3 m] breitt, 3 1/2 áln. [2.1 m] á hæð undir lopt, með tvöföldu timburþaki og spæni þar utanyfir, timburgólf er í hálfu húsinu og lopt yfir því öllu, uppi á loptinu er afþiljað herbergi 6 álna [3.7 m] lángt yfir um þvet húsið, niðri eru tvö herbergi afþiljuð, ennfremur er í húsinu upphlaðinn skorsteinn, 3 gluggafög eru á húsinu að neðanverðu og tvö lítil uppi, virt á 1000 krónur. Salthús, 20 1/2 áln. [12.5 m] lángt, 12 álna [7.3] breitt, 5 álnir [3 m] á hæð undir lopt, með timburveggjum og plægðri timbursúð og lopt er í öllu húsinu, klætt með borðum, uppi á loptinu eru 20 legurúm í þremur röðum, 2 gluggafög eru á hvorum gafli uppi. Við húsið er áfastir timburskúrar 12 álnir [7.3 m] á annan veginn, 6 álnir [3.7 m] á hinn með timburþaki og þakspæni utanyfir, á hæð 5 álnir [3 m] annarsvegar, 3 álnir [1.8 m] hinsvegar. Húsið með skúrnum er virt á 1600 krónur. Þessi síðarnefndu tvö “anlæg” Klapparholts og Hólmabúðar, sem, með öllu tilheyrandi húsum eru virt á 3400 krónur, eru eign verzlunar hra. S.P. Knudtzons sons, sem í Reykjavík er stjórnað af verzlunarfulltrúa hra. Nj. Zimsen.”

Bieringstangi

Hvammsbrunnur við Bieringstanga.

Framangreindur fróðleikur er settur fram svo sjá megi hvernig húsakostur þessi var þarna skömmu fyrir aldamótin 1900, eða fyrir rúmlega einni öld síðan. Til enn frekari fróðleiks má geta þess að nefndur Jón Breiðfjörð átti Brunnastaði um 1880. Þar var m.a. verslun og útgerð. Þegar erfiðleikar steðjuðu að rekstrinum um 1900 voru timburhúsin á Bieringstanga tekin upp í skuldir og flutt á brott ásamt fleiri mannvirkjum.

Austast á Bieringstanganum eru Töðurgerði (frekar en Töðugerði). Þar á sjávarbakkanum má sjá rústir tveggja húsa; íbúðarhúss og útihúss austar. Hlaðinn garður sést enn vestan og sunnan við tóftirnar. Magnús sagði kálfgarðinn hafa verið utan við hlaðna garðinn að vestanverðu. Enn sést vel móta fyrir hleðslum í húsatóftunum. Duggusandur er niðurundan bæjartóftunum. Öndvert við víkina, að vestanverðu, er Agnesarklöpp, en yst á tanganum standa tveir klettar; Tvíhausaðiklettur.
Vestan við vestari tóftina er bátshræ. Þar er um að ræða leifarnar af mb. Hauk, sem bróðir Magnúsar tók þar á land, en dagaði uppi. Enn vestar, handan vegarslóðans að Grund, er botnstandur úr Ágústi Guðmundssyni GK 95.
Sunnan og ofan við Töðurgerði sjást hleðslur fjögurra svonefndra hausbyrgja. Þau eru að mestu hlaðinn hringlaga, en inni í þeim eru hlaðnir reitir. Magnús sagði að þangað hafi fiskhausar verið færðir, þeir klofnir og lagðir á garðana til þerris. Þaðan hafi þeir síðan verið seldir kaupendum. Svartbakurinn hafði verpt í skjóli byrgjanna. Vesturhleðsluna vantaði í vestasta byrgið. Magnús sagðist hafa náð að stöðva grjóttöku úr því er sem mest var sótt af grjóti í garða á Vatnsleysuströnd undir bryggjuna í Vogum. Annars hefði það byrgi sem og hin verið hirt líkt og svo margar aðrar hleðslur á Ströndinni á þeim tíma. Ofar og vestar, undir grónum klapparhól, var Grímsbær. Á hólnum má sjá Töðugerðisvörðuna. Lítið er orðið eftir af bæjarstæðinu.

Vorhúsbrunnur

Vorhúsabrunnur.

Komið var að tóftum bæjarins Grund á Bieringstanga, en grunnur hússins er aftan við sumarhús Magnúsar, er hann nefnir einnig Grund. Vestan við sumarhúsið er tóft hlöðu og hlaðinna garðveggja austar. Sunnan við bæjargrunninn er einnig hlaðinn garður utan um kálgarð. Norðaustan við grösuga hæðarbrún sést móta fyrir gamla brunninum við frá Grund. Norðan við sumarbústaðinn er stétt og mótar fyrir útlínum grunns, sennilega timburhúss.
Í fjörukambinum sér móta fyrir grunnum tveggja samhliða salthúsanna, sem minnst var á lýsingunni hér að framan. Þá mótar fyrir grunni þriðja salthússins skammt vestar. Neðan þess eru áletranir á klöpp (185? eða IGS?). Suðvestan grunnsins eru tóftir tveggja smáhúsa og síðan eldhústóft vestan þeirra. Þar segir sagan að “Ranka gamla ráðskona hafi haft 70 manns í fæði – og sofið meðal þeirra allra, án þess að það hafi komið að sök”.
Tvær varir voru við Tangabúð, báðar nefndar Tangavör. Sú austari var jafnan nefnd Norðurvör og hin vestari Suðurvör. Enn sjást þær vel, auk þess sem hleðsla í Suðurvör, svo til beint niður af Grund, hefur varðveist sæmilega.

Bieringstangi

Eldhús á Bieringstanga.

Vorhús er vestan Grundar, eða Tangabúðar. Austast er hlaðinn garður er tengist tóftum fjárhúss að sunnanverðu. Milli þess og íbúðarhúsatóftanna eru garðar. Búið var í Vorhúsum til 1924. Þar var tvíbýli. Eldra nafn á bænum eru Vogshús, sem sennilega hefur breyst í hið fyrrnefnda. Þá hafi í millitíðinni byggst upp hjáleigan Hausthús, milli þess og Hvamms. Heillegar garðhleðslur eru um Vorhús, auk þess sem bæjartóftirnar gefa góða vísbendingu um grunnbyggingu bæjarhúsanna. Moritz Biering bjó t.d. í Vorhúsum er hann dvali á Tanganum. Matjurtargarður er vestan við bæjartóftirnar. Brunnurinn, djúpur og fallega hlaðinn er skammt vestar. Magnús sagði eldri brunn hafa verið norðvestan við hann, en sjórinn hefði nú fyllt hann sjávarmöl og – sandi. Vorhúsavörin er skammt undan og sjást hleðslur með henni, líkt og bryggja. Í Vorhúsum var tvíbýlt; Austur- og Vesturbær. Bátshræ er á sjávarkambinum norðan við bæjarhúsin. Því fylgir nútímalegri saga er Steingrímur Njálsson kynni að segja síðar – í góðu tómi. Þegar Steingrímur var spurður um þetta sagðist hann hafa átt bátinn, Straumnes RE 108, fyrrum 14 tonna hrefnubátur frá Akranesi. Áður hét hann Kolbeinsey EA 108. Hann hafi verið orðinn leiður á mótlætinu í Keflavík og ætlað að sigla bátnum til Reykjavíkur. Þetta var 1985. Ýmsan tækjabúnað vantaði þá í hann. Utan við Bieringstanga koksaði vélinn á gruggi í olíugeyminum og bátinn rak að landi í norðanroki. Honum hafi sjálfum verið stungið inn þegar hann kom í land, en báturinn brotnaði þarna í fjörunni. Þannig hafi farið með sjóferð þá. Brakið af bátnum var, að því að hann best vissi, ennþá þarna í fjörunni.

Hausthús eru fast vestan við Vorhús, en Klapparholt er á millum. Þar sjést vel móta fyrir bæjartóftum, sem og grunni flóraðs plans norðan við það. Á milli þess og íbúðarhússtóftanna er steyptur gólfgrunnur sumarbústaðar, sem þar var, en er nú horfinn, þ.e. sá hluti hann sem var ofan sökkuls. Nokkuð er um steinhrúgur sunnan við Klapparholstbæinn, en þær eru túngerðarafrakstur.
Bieringstangi

Grund – brunnur.

Tóftir Haustshúss eru vestar. Leifar fiskbyrgis er norðan við bæjarhúsin, alveg á sjávarkambinum. Sjórinn er nú búinn að taka það til sín að mestu.
Þá var komið að minjum Hvamms. Hlaðinn garður skilur af bæina. Tóftir bæjarhússins eru greinilegar. Um hefur verið að ræða timburhús á hlöðnum sökkli. Það var loks flutt til Hafnarjarðar og er þar nú, kofan við Hellisgerði. Geymsla úr torfi og grjóti sem og fjós hafa staðið fast austan við íbúðarhúsið. Brunnur er suðaustan við tóftirnar, innan garðs. Hvammsvörin er niður undan bænum og sést enn móta fyrir hleðslum við hana.
Enn vestar, á vestasta tanga Bieringstanga, er tóft Vatnskersbúðar, á grónum hól er skagar lítillega út frá strandlínunni. Ekki liggja á lausu gagnmerkar upplýsingar um búðina, en líklegt má telja að hún hafi þjónað svipuðum tilgangi og Tangabúð sem og Hólmabúð, Stapabúð og Kerlingarbúð enn fyrr. Vel sést móta fyrir hlöðnum húsgrunni timburhúss sem og stéttum við það. Ofar eru fiskgarðar á hraunhólum og brunnur skammt norðan þeirra.
Til ennþá frekari og meiri fórðleiks má geta þess að þilskipaútgerð var að hefjast við Faxaflóann í lok 19. aldar. Árabátaútgerðin gerði takmarkaðar körfur til hafnaraðstöðu, gömlu varnirnar og naustin, sem brúkuð höfðu verið um aldir, voru látin nægja. En nú var svo komið að íslensku þilskipin urðubæði stærri og þyngri, sem og margvíslegrar gerðar. Í upphafi skútualdar voru mörg þeirra smíðuð hér á landi, en síðar færðist í vöxt, að skip væru keypt erlendis, ný eða notuð. Framan af voru skipin helst keypt í Danmörku eða Noregi, en undir lok skútualdar varð algengara, að útvegsmenn keyptu skip frá Bretlandseyjum. Átti það ekki síst við um útvegsmenn í Reykjavík og jafnvel annars staðar á norðurströnd Reykjanesskagans.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Skipin, sem smíðuð voru hér heima eða keypt frá Danmörku eða Noregi, voru í fyrstu flest lítil, og mörg hver töldust einungis jaktir, slúppur, skonnortur eða galíasar. Nokkur voru kölluð þiljubátar, og var þá stundum um að ræða gömul áraskip, sem þiljur höfðu verið settar í. Vélar komu og til sögunnar. Og þá varð ekki aftur snúið.
Útgerð Vogabænda var á þessum tíma hreinræktuð bændaútgerð. Skipin gengu yfirleitt til veiða frá því í maí og fram í ágúst og stunduðu einkum handfæraveiðar á Faxaflóa og fyrir Vesturlandi. Aflinn var yfirleitt saltaður um borð og landað í heimahöfn til frekari verkunnar. Gerð var krafa um stórbætta hafnaraðstöðu. Það var þá sem grjótið úr görðum og öðrum mannvirkjum sauðfjárbúskaparins fór skyndilega að “handfjatlast” og hverfa undir “varanlega” hafnargerð í einstökum byggðakjörnum, sem þá voru farnir að vaxa úr grasi. Þorpin fóru að myndast, enda vistbandalögin þá farin að þynnast og gildishverfa.
Gaman er að geta þess að Snorrastaða er getið í Jarðabókinni 1703, sem syðstu jarðarinnar í Vatnsleysustrandarhreppi, “en þá voru hundrað ár síðan jörðin fór í eyði”. Hvar Snorrastaðir voru nákvæmlega veit enginn, en ekki er ólíklegt að áætla að þeir hafi verið undir Vogastapa þar sem fyrrgreind Hólmabúð varð síðan. Hafa ber í huga að veruleg umhverfis- og landslagsbreyting hefur orðið þar á umliðnum öldum, jafnvel svo um munar. Sem dæmi um það má nefna Svörtusker austan Töðurgerðis. Út í þau var fyrrum beitt, enda gróin, en nú hyrfu þau að mestu í háflæði.
Sama mætti segja um Hjallatanga þar austur af. Fiskhjalli hafi verið þar á tanganum, en nú færi hann að mestu í kaf. Rétt er að geta þess, sem áður hefur komið fram í viðtölum, að jafnaði hverfa u.þ.b. 50 metrar af strönd Reykjanesskagans á einni mannsævi í sjóinn (sjá m.a. Ó.G. og S.E). Þá lækkar land Reykjanesskagans að jafnaði, á jarðfræðilegan mælikvarða, um 1-1 1/2 mm á ári, sem munu vera um 10 – 15 cm á einni öld (um meter til einn og hálfan á síðustu þúsund árum). Þar munar um minna.

Bieringstangi

Hausthús – tóftir.

Á Bieringstanga er dýrmætt heilstætt búsetulandslag, að mestu ósnert af vélum og ágangi nútímamanna. Mikilvægt er því að skrá minjarnar sem fyrst og marka ákveðna og markvissa stefnu um nýtingu svæðisins til framtíðar, því fá slík ósnortin svæði eru enn til svo nálægt höfuðborgarsvæðinu.
Sem fyrr er lýst þá birtist hér heilstæður uppdráttur af helstu minjum á Bieringstanga (Brunnastaðatanga/Harðangurstanga), skv. lýsingu Magnúsar Ágústssonar, og undir vökulum augum Hauks Aðalsteinssonar. Reyndar er uppdrátturinn, sem hér birtist, einungis “hjárit” af meginuppdrættinum – þar sem allar einstakar minjar og staðir eru merktir sérstaklega. Uppdrátturinn sjálfur er gerður í A3.
Þórbergur Þórðarson skrifar svolítið um sjó- og vermennsku á Vatsnleysuströnd í bókinni “Frásagnir” Þar lýsir hann m.a. Reykjavíkurlífi o.fl. um og eftir aldamótin 1900. „Um miðjan marz var farið til sjóróðra suður í Voga og Njarðvíkur, Garð og Leiru. Framan af síðara helmingi aldarinnar var sjósókn mest suður í Njarðvíkur og Voga, en síðar beindist hún meira út í Garð og Leiru. Sjór var og mikið sóttur frá Bieringstanga á Vatnsleysuströnd og Hólmsbúð undir Vogastapa. Á Bieringstanga, Réttartanga í Vogum og í Hólminum undir Vogastapa voru í þann tíð svo nefnd anleggshús. Það voru einlyft timburhús, sem kaupmenn höfðu látið reisa til saltgeymslu og íbúðar fyrir vermenn. Saltið var geymt niðri í húsinu, en vermenn höfðust við uppi á loftinu.

Hólmsbúð

Hólmsbúð – uppdráttur.

Í Hólmsbúð voru fjögra manna rúm eftri endilöngu gólfi miðju, en með fram báðum hliðum endilangt voru tveggja manna rúm. Auk þessa húss var á þessum stöðum íbúðarhús, sem umsjónarmaður kaupmanns bjó í. Þar sváfu og venjulegar áhafnir af tveimur til þremur bátum. Skipin voru flest sex manna för með sex til sjö manna áhöfn. Venjulega var róið með birtu, þegar veður leyfði, og komið að eftir atvikum, oft eftir 5-6 klukkustundir. Oft var róið tvisvar á dag í mikilli fiskigengd. Úr vestöðvum var misjafnlega langróið. Lengstur róður úr Hóminum var þrjá til fjóra tíma, en stytztur hálftíma, þegar lagt var undan Vogastapa.
Þegar komið var í land, var gert að aflanum, og vann öll skipshöfnin að því í félagi. Síðan var hann saltaður í þaklausar grjóttættur og þakinn með gömlum segldúkum. Hver fullgildur sjómaður fékk einn hlut, en skipseigandi fékk tvo hluti fyrir skipið . .. .

Í hinum svo nefndu anleggshúsum voru aðeins eldfæri til þess að hita kaffi. Sjómenn gátu því ekki soðið sér nýjan fisk til matar …..

“Heimildir m.a.:
-Jón Þ. Þór – Sjósókn og sjávarfang – saga sjávarútvegs á Íslandi 2002.
-Magnús Ágústsson – f: 1922 – Halakoti.
-Haukur Aðalsteinsson – Þilskipaútgerð úr Vogum á fyrri hluta 19. aldar – Árbók Suðurnesja – 1994.
-Haukur Aðalsteinsson – Þilskipaútgerð á Suðurnesjum – Árbók Suðurnesja – 1997.
-Frásagnir eftir Þórberg Þórðarson. Útg. Rvík 1983.
Frásagnir úr Reykjavíkurlífi o.fl. um og eftir aldamótin 1900, bls. 80-81.

Bieringstangi

Áletrun á klöpp við Bieringstanga.