Kúagerði 1912

“Fyrir botni Vatnsleysuvíkur, þar sem hraðbrautin nálgast sjóinn á stuttum kafla er Kúagerði. Að vestan eru hraun Strandarheiðarinnar, en að austan er Afstapahraunið, úfið og illt yfirferðar, enda miklu yngra að árum. Þarna fyrir víkurbotni er ferskt vatn, sem kemur úr lindum undan hrauninu. Þessi staður var þreyttum og vegmóðum ferðamönnum Í Flekkuvíkkærkominn áningarstaður, því vatnið úr uppsprettunum var þeim svalandi og lífgandi, eftir að hafa klöngrast yfir óslétt og úfið hraunið á langri leið milli byggðanna við Flóann, því þá voru ekki önnur farartæki tiltæk en hesturinn eða “hestar postulanna”.
Við yfirgefum bílinn í Kúagerði, því ætlunin er í þetta sinn að ganga út Vatnsleysuströndina út á Keilisnes og enda við kirkjuna að Kálfatjörn. Fyrst göngum við fram hjá Vatnsleysubæjunum. Þar hefur alltaf verið búið stórt, margar hjáleigur lágu undir höfuðbólið og mikil umsvif. Nú er á Minni-Vatnsleysu eitt stærsta og myndarlegasta svínabú landsins í eigu Þorvaldar Guðmundssonar. Glæsilegar byggingar og öll umgengni þar heima ber eiganda glöggt vitni.
Nokkru fyrir vestan Vatnsleysubæina ber okkur að Flekkuvík, Þetta er landnámsjörð, kennd við konu að nafni Flekka. Sagan segir að hún hafi komið til Íslands í fylgdarliði Ingólfs Arnarsonar. Fyrst fékk hann henni land í Kjós og reisti hún þar bæ, sem hún nefndi Flekkudal. Flekka undi sér þar ekki, því hún sá ekki til hafs frá bænum og eftir að hafa rætt þetta við Ingólf gaf hann henni þessa jörð. Í Flekkuvík bjó svo kerla til elli. Sagan segir, að er hún fann dauðann nálgast hafi hún lagt svo fyrir að sig skyldi grafa syðst í túninu, þar sem sést vel yfir innsiglinguna. Hún mælti þá svo um, að engum skyldi þaðan í frá hlekkjast á í innsiglingunni, tæki hann rétt mið af leiði sínu og færi eftir settum reglum. Þótti mönnum vissara að fara eftir fyrirmælum kerlingar, enda segir sagan að fá slys hafi hent í lendingunni undan Flekkuvík. Steinn er á Flekkuleiði og hefur þessi setning verið letruð á hann með rúnaletri: Hér hvílir Flekka. Telja fróðir menn, að þessi áletrun sé frá 17. eða 18. öld. Jónas Hallgrímsson skáld rannsakaði leiðið sumarið 1841. Gróf hann í það.
Rúnasteinn á FlekkuleiðiReyndist jarðvegurinn vera um það bil hálft fet á þykkt. En “undir var einlæg, jarðföst klöpp, eða réttara sagt hraungarður, svo að þar hefur aldrei nokkur maður heygður verið” segir orðrétt i skýrslu Jónasar um þessa ferð. Þannig fór það.  Auk þeirra minja sem minna á fortíðina er margt annað forvitnilegt að skoða á þessari gönguleið. Unnt er að dunda sér langtímum saman í fjöruborðinu. Þar er ýmislegt skoðunarvert að sjá s.s. trjáreka, glerflöskur, þang, pöddur og skorkvikindi ýmiskonar og ekki má gleyma selunum, sem svamla í sjónum skammt undan landi og skjóta upp kolli yfir vatnsflötinn við og við til að fylgjast með þessum óvæntu gestum. Allt er þetta umhugsunarefni fyrir ungan og spurulan göngumann,sem ef til vill er að kynnast landi sínu á þennan hátt í fyrsta sinn.
Næst liggur leiðin út á Keilisnes, en þar skagar landið lengst í norður milli Vatnsleysuvíkur og Stakksfjarðar. Líklega er þetta örnefni kunnugra fleiri mönnum en nokkur önnur slík hér um slóðir. Ástæðan er sú, að það kemur fyrir í kvæði Arnar Arnarssonar um Stjána bláa, en þar segir m.a.:

KálfatjarnarkirkjaSöng í reipum, sauð á keipum,
sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.

Nú sést knörrinn ekki lengur, en efalaust leitar kvæðið á hugann, þegar gengið er um þessar slóðir, og hendingar úr því leita fram á varirnar. Nokkur spölur er frá Keilisnesi að Kálfatjörn. Kirkja hefur verið á Kálfatjörn frá öndverðu. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Þá var hún vel auðug, átti dýrgripi og lönd, en eftir siðaskiptin breyttist
hagur hennar eins og annarra eigna sem kirkjurnar áttu. Af því er mikil saga, sem ekki eru tök á að rekja hér. Þessi kirkja sem nú stendur var byggð rétt fyrir aldamótin 1900. Hún er hið fegursta guðshús og vel við haldið. Er því við hæfi að fá leyfi til að skoða hana nánar og enda þar með þessa fróðlegu gönguferð.”

Heimild:
-Mbl. 19. júlí 1981.

Bláfang