Færslur

Kúagerði 1912

“Fyrir botni Vatnsleysuvíkur, þar sem hraðbrautin nálgast sjóinn á stuttum kafla er Kúagerði. Að vestan eru hraun Strandarheiðarinnar, en að austan er Afstapahraunið, úfið og illt yfirferðar, enda miklu yngra að árum. Þarna fyrir víkurbotni er ferskt vatn, sem kemur úr lindum undan hrauninu. Þessi staður var þreyttum og vegmóðum ferðamönnum Í Flekkuvíkkærkominn áningarstaður, því vatnið úr uppsprettunum var þeim svalandi og lífgandi, eftir að hafa klöngrast yfir óslétt og úfið hraunið á langri leið milli byggðanna við Flóann, því þá voru ekki önnur farartæki tiltæk en hesturinn eða “hestar postulanna”.
Við yfirgefum bílinn í Kúagerði, því ætlunin er í þetta sinn að ganga út Vatnsleysuströndina út á Keilisnes og enda við kirkjuna að Kálfatjörn. Fyrst göngum við fram hjá Vatnsleysubæjunum. Þar hefur alltaf verið búið stórt, margar hjáleigur lágu undir höfuðbólið og mikil umsvif. Nú er á Minni-Vatnsleysu eitt stærsta og myndarlegasta svínabú landsins í eigu Þorvaldar Guðmundssonar. Glæsilegar byggingar og öll umgengni þar heima ber eiganda glöggt vitni.
Nokkru fyrir vestan Vatnsleysubæina ber okkur að Flekkuvík, Þetta er landnámsjörð, kennd við konu að nafni Flekka. Sagan segir að hún hafi komið til Íslands í fylgdarliði Ingólfs Arnarsonar. Fyrst fékk hann henni land í Kjós og reisti hún þar bæ, sem hún nefndi Flekkudal. Flekka undi sér þar ekki, því hún sá ekki til hafs frá bænum og eftir að hafa rætt þetta við Ingólf gaf hann henni þessa jörð. Í Flekkuvík bjó svo kerla til elli. Sagan segir, að er hún fann dauðann nálgast hafi hún lagt svo fyrir að sig skyldi grafa syðst í túninu, þar sem sést vel yfir innsiglinguna. Hún mælti þá svo um, að engum skyldi þaðan í frá hlekkjast á í innsiglingunni, tæki hann rétt mið af leiði sínu og færi eftir settum reglum. Þótti mönnum vissara að fara eftir fyrirmælum kerlingar, enda segir sagan að fá slys hafi hent í lendingunni undan Flekkuvík. Steinn er á Flekkuleiði og hefur þessi setning verið letruð á hann með rúnaletri: Hér hvílir Flekka. Telja fróðir menn, að þessi áletrun sé frá 17. eða 18. öld. Jónas Hallgrímsson skáld rannsakaði leiðið sumarið 1841. Gróf hann í það.
Rúnasteinn á FlekkuleiðiReyndist jarðvegurinn vera um það bil hálft fet á þykkt. En “undir var einlæg, jarðföst klöpp, eða réttara sagt hraungarður, svo að þar hefur aldrei nokkur maður heygður verið” segir orðrétt i skýrslu Jónasar um þessa ferð. Þannig fór það.  Auk þeirra minja sem minna á fortíðina er margt annað forvitnilegt að skoða á þessari gönguleið. Unnt er að dunda sér langtímum saman í fjöruborðinu. Þar er ýmislegt skoðunarvert að sjá s.s. trjáreka, glerflöskur, þang, pöddur og skorkvikindi ýmiskonar og ekki má gleyma selunum, sem svamla í sjónum skammt undan landi og skjóta upp kolli yfir vatnsflötinn við og við til að fylgjast með þessum óvæntu gestum. Allt er þetta umhugsunarefni fyrir ungan og spurulan göngumann,sem ef til vill er að kynnast landi sínu á þennan hátt í fyrsta sinn.
Næst liggur leiðin út á Keilisnes, en þar skagar landið lengst í norður milli Vatnsleysuvíkur og Stakksfjarðar. Líklega er þetta örnefni kunnugra fleiri mönnum en nokkur önnur slík hér um slóðir. Ástæðan er sú, að það kemur fyrir í kvæði Arnar Arnarssonar um Stjána bláa, en þar segir m.a.:

KálfatjarnarkirkjaSöng í reipum, sauð á keipum,
sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.

Nú sést knörrinn ekki lengur, en efalaust leitar kvæðið á hugann, þegar gengið er um þessar slóðir, og hendingar úr því leita fram á varirnar. Nokkur spölur er frá Keilisnesi að Kálfatjörn. Kirkja hefur verið á Kálfatjörn frá öndverðu. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Þá var hún vel auðug, átti dýrgripi og lönd, en eftir siðaskiptin breyttist
hagur hennar eins og annarra eigna sem kirkjurnar áttu. Af því er mikil saga, sem ekki eru tök á að rekja hér. Þessi kirkja sem nú stendur var byggð rétt fyrir aldamótin 1900. Hún er hið fegursta guðshús og vel við haldið. Er því við hæfi að fá leyfi til að skoða hana nánar og enda þar með þessa fróðlegu gönguferð.”

Heimild:
-Mbl. 19. júlí 1981.

Bláfang

Afstapahraun

“Það eru margir arnstaparnir í þessu Afstapahrauni” varð einum að orði er hann gekk um hraunið norðanvert. Víða standa háir stöplar upp úr úfnu apalhrauninu, sem varla væri fótum fært nema vegna hins þykka gambra er þekur það að miklu leyti. Hraunið er skreytt margvíslegum steinmyndum auk þess sem steingert víkingaskipt trjónir þar á brúninni þar sem sést ofan af henni til sjávar. Engu er líkara en það hafi dagað þarna uppi þegar hraunið rann tæpum 200 árum eftir norrænt landnám á svæðinu.

Fagravík

Að þessu sinni var ferðinni beint um Kúagerði og Afstapahraunið yngra neðanvert. Hraunið hefur runnið um 1150 frá gígum sem eru vestan undir Trölladyngju og þaðan til norðurs alveg í sjó fram í Vatnsleysuvík á Vatnsleysuströnd. Heildarlengd hraunsins er um 10 kílómetrar.
Í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir m.a.: “Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur.
FögruvíkurvarðaÞá taka þar næst við Bakkar. Innst á þeim er Þórðarhóll, er í fjöru. Sagt er að hann hafi fyrrum staðið í miðju túni og heitir sá Látrabakkar og að hann hafi lent undir hrauni því er brann, Afstapahrauni, og þá hafi byggðin flust að Hvassahrauni. Bakkarnir ná suður að Afstapahrauni og heitir syðst á þeim Bakkatjörn. Svo er þar næst Skuggi sem er stór klettur, þar suður af heitir svo Mölvík. Þar næst er svo Fagravík sem er niður af Afstapavörðu sem er uppi á brunanum ofan við veginn.”
Í annarri lýsingu fyrir sömu jörð segir: “Út með sjó er klettur, sem nefnist Skuggi. Þá er Mölvík og Fagravík þar nokkru utar. Austast við hana er Markavarðan. Þórðarhóll eða Þórðarklettur var þarna á sjávarkampinum, nú horfinn. Hann á að hafa staðið í miðju Látratúni. Markavarðan var einnig kölluð Fögruvíkurvarða.
SkuggiÚr Markavörðu lá landamerkjalínan milli Hvassahrauns og Vatnsleysu í Afstapavörðu eða Afstapaþúfu, sem stendur á Afstapa eða Afstapahrauni. Þaðan liggur línan um Afstapabruna. Í gömlum skjölum og annálum mun talað um Arnstapa, Arnstapahraun og Arnstapaþúfu eða -vörðu. Landamerkjalínan liggur svo áfram í Snókafell, þaðan um Lambafell í landamerkjalínu Krýsuvíkur.”
Þegar skoðaðar eru örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysu um sama svæði segir: “Stekkhóll er stór hóll með fjárhúsi, hjá því er Steinkeravík innan við Stekkhólinn. Þá er Akurgerði, þar var bær endur fyrir löngu og Kúagerði er þar við hraunendann, þar er pollur ofan við veginn, hér er gamall áningastaður og niður af þessu er í fjörunni Hrafnaklettur. Þar sem hin fornu merki Stærri-Vatnsleysu og Akurgerðis [voru] er hóll með vörðubroti og heitir Fagurhóll. Sagt er að hraun þetta sem hér liggur fram í sjó og heitir það Afstapahraun, allmikið flæmi, talið er að það hafi farið yfir tvær jarðir, Akurgerði og Látra.
AfstapaþúfaÚr Merkjanefsvörðu liggur landamerkjalínan milli Vatnsleysu og Hvassahrauns í Afstapavörðu á Afstapa eða Afstapaþúfu. Síðan liggur línan um Afstapahraun í Snókafell mitt og um Snókafellshraun en hraunin eru einnig kölluð Bruni. Síðan liggur línan upp um Lambafellshraun um Lambafell og Klofningsfell og áfram í landamerki Krýsuvíkur.
Til er vísuhelmingur, hafður eftir Halldóri Jónssyni hertekna:
Er nú komið yfir um sinn
Arnstapahraunið hvassa.
SteinmyndEr því vitað að hraun þetta hefur borið nafnið Arnstapahraun og þar af leiðir Arnstapavarða, Arnstapaþúfa og þá Arnstapi. Sunnan undir (vestan undir) Arnstapa er lægð með vatni eða tjörn, heitir Kúagerði og Kúagerðistjörn. Nú hefur Reykjanesbrautin verið lögð um tjörnina og henni skipt. Síðan heitir þarna Afglapi til minningar um verknaðinn. Upp frá Kúagerði liggja troðningar með hraunbrúninni, mætti nefna þá Kúagerðistroðninga því um þá var rekinn búsmalinn ofan úr Flekkuvíkurseli og jafnvel Rauðhólsseli.
Gráhella heitir lítill tangi í hraunbrúninni sem þó ber vel við af sjó og er því mið. Rétt þar við var í eina tíð hellir, Gráhelluhellir. Nokkru ofar er troðningur eða stígur og liggur upp í Brunann, nefnist Tóarstígur. Hann liggur í Tóurnar sem eru sjö. Þar var haglendi sæmilegt og er talið að þarna hafi vermenn eða útróðramenn haldið hestum sínum á vertíðum. Neðsta er tó eitt og hefur henni verið spillt allmjög við grjótnám til Reykjanesbrautar.
GerðiTó tvö er þar nokkru ofar og stígur þar í milli en Tóarstígur er gegnum allar Tóurnar. Þar sem hallar niður í þessa tó hefur verið hlaðinn garður svo gripir kæmust þar ekki út og burt. Tó þrjú er talsvert minni en þar er mikið jarðfall eða ker, Tóarker, er þar gott skjól. Tó fjögur er litlu stærri. Milli tó tvö, þrjú, fjögur eru hraunklif og ekki auðveld stórgripum. Þá kemur tó fimm sem er stór og allmjög vaxin hrísi og birki, nefnist því Hrísató.
Tóft

Suðvestur úr henni liggur stígur og nefnist Hrísatóarstígur. Er sýnilegt að farið hefur verið um hann með hesta. Þá kemur tó sex sem er eiginlega samtengd tó fimm.
Hér breikkar allt og upp af þessari er svo tó sjö sem kölluð er Seltó. Spurst hef ég fyrir um sel þar, enginn kannast við það en nokkur beit getur verið þarna og má vera að búsmala úr Rauðhólsseli hafi verið haldið hér til haga. Vestur úr þessari tó liggur troðningur, Seltóarstígur. Vestur og upp undir Brunaveginum, vegur sem Vatnsleysumenn hafa gert upp um Brunann, er varða, Seltóarvarða og þar rétt hjá er tófugren, Seltóargren og er þá komið að veginum. Upp á Brunanum austur af Tó tvö er hraunhóll mikill, Snókhóll. Bruninn vestan Seltóar nefnist Seltóarhraun.”
TóftEkki var gengið upp í gegnum Tóurnar að þessu sinni. Jónas Þórðarson segir eftirfarandi í lýsingu sinni um Vatnsleysu: “Austurmörk Vatnsleysulands hefjast á dálitlu klapparnefi nokkrum metrum austan við smávík, sem Fagravík heitir. Til skamms tíma var þarna merkjagirðing Hvassahrauns og Vatnsleysu, og náði hún fram í sjó. Mörkin liggja næst um allháan hraunhól í hraunjaðrinum rétt ofan við þjóðveginn, og nefnist hann Afstapi. Á honum er lítil, grasi gróin þúfa, Afstapaþúfa. Hraunið frá sjó og óvíst hvað langt upp eftir er kallað Afstapahraun. Rétta nafnið er að öllum líkindum Arnarstapi, Arnarstapaþúfa og Arnarstapahraun. Næsta kennileiti er um fell eitt allstórt, sem er rúmlega miðja vegu að endamörkum. Heitir það Snókafell. Hraunið þar við er kallað Snókafellshraun. Þaðan liggur svo línan um fell efst við hraunjaðarinn, sem heitir Lambafell, svo úr Lambafelli að Krýsuvíkurlandi.”
MosaÞegar gengið var um Kúagerði komu í ljós tóftir á tveimur stöðum auk gerðis vestast á Bökkunum. Uppi í hraunbrúninni mátti sjá að núverandi Afstapavarða hefur verið hlaðin ekki fyrir svo langa löngu, væntanlega þó á Afstapaþúfu. Gamall stígur hefur legið upp á hraunið við tóft eina vestur undir hraunbrúninni í Kúagerði. Stígurinn er nú þakinn mosa, en auðvelt er að fylgja honum upp á hraunið og áleiðis yfir það, uns komið er að raski, sem þar er.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun og Vatnsleysu.

Kúagerði

Kúagerði.

Kúagerði

Þeir, sem fara um Reykjanesbrautina, veita gjarnan reglulega hlaðinni vörðu athygli þar sem hún stendur við Vatnsleysuvíkina ofan við Kúagerði, norðan brautarinnar.

Kúagerði

Varðan í Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugahóps um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast alvarlega í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna – bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega. Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði, sem hlóð mannvirkið, fyrir lítið.
Í Kúagerði voru fyrrum tveir bæir, að talið er, Kúagerði og Akurgerði. Síðarnefndi bærinn fór undir hraun er Afstapahraunið nýrra rann frá Trölladyngjusvæðinu og niður í víkina á 12. öld. Sá fyrrnefndi var þarna einungis um skamman tíma.
Gróinn hóll er skammt utar með ströndinni, ofan við víkina. Nefnist hann Fagurhóll og Akurgerðisbakkar innan hans. Almenningsvegurinn gamli lá þarna um Kúagerði og sést reyndar enn ef vel er að gáð.
Kúagerði var frægur áningarstaður áður, gott vatn í tjörninni og nógir hagar í kring.

Heimild:
-Ragnheiður Davíðsdóttir – meðlimur í ÁBU.

Kúagerði

Kúagerði.

Kúagerði 1912

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 segir m.a. um Kúagerði:
“Í Kúagerði, fyrir sunnan Hvassahraun, má sjá vott þess, að þar hafi bær verið fyrir löngu. Sér þar til rústa innan til við kuagerdi-221sjávarkambinn, og nokkru vestar sést langur partur af niður sokknum grjótgarði og hverfur norðurendi hans í sjávarkambinn. Hefir sjórinn gengið þar á landið og brotið það upp. Þess skal getið, að þetta stendur í engu sambandi við rúst kots þess, sem fyrir nokkrum áratugum var bygt í Kúagerði. Þar er hraunsnef á milli og þessara rústa.”
Í Búnaðarriti árið 1910 segir m.a. um sama stað: “Í Vatnsleysustrandarhreppi: Kúagerði (eyðibýli hjá Hvassahrauni, sjá Árb. Fornlfs. 1903, 35. bls.). Akurgerði (sjá nr. 15), Landakot, Breiðagerði, Hlöðunes, Traðarkot (hjáleiga frá Brunnastöðum), Garðhús (hjáleiga frá Stóruvogum), Garðhús (hjál. frá Ytri Njarðvík (Johnsens Jarðat. 458. bls.).
Og í Eimreiðinni árið 1928 segir m.a.: “Þorshausar voru þá aldrei neitt eftirsótt vara. Þeir voru aðeins fluttir heim og étnir á þeim heimilum, sem ekki höfðu ráð á að eignast annað fiskæti eða áttu þá af hlutum sínum, því sjálfsagt var að hirða alt, sem hægt var að hirða, hverju nafni sem nefndist. Eftirsóknin eftir þorskhausum byrjaði fyrst eftir það, að annað harðæti fór að verða ófáanlegt, þegar allur fiskur var saltaður.
Það kom fyrir, að fátækir menn neyddust til að takast á hendur þessar löngu ferðir, með aðeins eina eða tvær drógar í taumi, til þess — eins og þeir komust að orði — »að vita hvort Guð uppvekti ekki einhvern til að víkja að sér einum vanga«. Urðu margir vel við tilmælum þeirra, svo sem Ketill í Kotvogi, sem skipaði eitt sinn sonum sínum eða vinnumönnum að láta nægilegar klyfjar — og það ekki eintómar hausaskræður — upp á þrjár drógar, er einn þessara manna var með, svo hann þyrfti ekki að ganga fyrir kné fleiri manna. Var þó maðurinn Katli öldungis ókunnur.
kuagerdi-222Þegar nóg skreið var fengin upp á lestina, annaðhvort með kaupum eða hluta-afla, eða hvorutveggja, byrjaði hin þreytandi og erfiða vinna, er þessum ferðalögum fylgdi. Á meðan menn dvöldu á Suðurnesjum, urðu þeir að flýta sér mest mátti verða, vegna gras- og vatnsleysis fyrir hrossin; fylgdi því ávalt allmiklar vökur, umsvif og áreynsla, en hagnýtara sýni og vandvirkni þurfti til þess, að »búa vel upp á«, svo að klyfjarnar færu vel á hestunum og ekkert eða sem allra minst skemdist á hinum langa og vonda vegi. Lagt var  klyfjar þannig, að af harðfiski allskonar fóru um 60—70 í baggann, en af haustfiski fóru um 600 á hestinn, voru þá klyfjarnar vafðar netariðli og kistubundnar, en af meðalþorskhausum fóru 120 í klyfið eða 240 á hestinn. Einstöku útróðramaður reif hausa sína áður en hann fór úr verinu, þannig að öll bein voru tekin úr hausnum, en allur fiskurinn hélt sér í heilu lagi, það hét að sekkrífa. Þurfti til þess sérstaka kunnáttu og var fremur seinlegt verk, en af þannig rifnum hausum fóru 800 í sekk, sem var hæfilegur baggi. Aldrei varð þó þessi aðferð almenn, hausarnir þóttu ódrýgri til skömtunar, enda vantaði öll tálknin.
Þegar nú alt var tilbúið, var lagt af stað heimleiðis. Nú var áríðandi að láta fara vel á, meðan klyfjar og reiðingar voru að jafna sig. Að því bjó síðan alla heimferðina. Ferðamaðurinn varð að sjá um, að ekki hallaðist á, að reiðingurinn væri hvorki of framarlega eða of aftarlega á hestinum, og að hvorki væri gvúfið eða keikt. Væri vanrækt að bera að, ef eitthvað af þessu átti sér stað, þá var hesturinn viss að meiðast. Flestir, sem komu af Suðurnesjum, áðu fyrst í Kúagerði, því þar var oftast vatn og ofurlítið gras. Þannig áningar hétu reiðingsáfangar, af því að flestum þótti eKKi taka því að spretta af fyrir svo stutta stund, en það var óhygni, oftast sprottin af þreytu eða leti ferðamannsins. Hestarnir þurftu að velta sér, en annað hvort gátu það ekki eða gerðu það með þeim afleiðingum, að reiðingarnir aflögðust og vildu síðan meiða.
Allra versti kaflinn til yfirferðar þar syðra í þá daga var Hraunin, einkum í vætutíð. Gatan var afarþröng og krókótt, full af þröskuldum og lónum. Lestir urðu að gæta mestu varfærni að mætast þar. Á Hraunsholtsmýri eða í Fossvogi legið svo lengi, að hrossin gætu vel fylt sig og hvílst. Og ferðamenn vildu helst liggja jafnlengi og ferðast var, margir gættu þess ekki, af of mikilli löngun til að vera sem fljótastir í ferðum. Þegar komið var í tjaldstað í votviðn, það ærið verk að bera saman klyfjarnar af langri lest og ganga svo frá þeim með skinnvörðum meljunum, að ekkert eða sem allra minst blotnaði til muna. Það hét að fansa. Væri nú einhver hestur meiddur eða vottaði fyrir því, var nauðsynlegt að reyna að lækna það sem fyrst.”

Heimild:

-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 35.
-Búnaðarrit, 24. árg. 1910, 1. tbl., bls. 96.
-Eimreiðin, 34. árg. 1928, 1. hefti. bls. 31.

Kúagerði

Kúagerði 1912.