Afstapahraun

“Það eru margir arnstaparnir í þessu Afstapahrauni” varð einum að orði er hann gekk um hraunið norðanvert. Víða standa háir stöplar upp úr úfnu apalhrauninu, sem varla væri fótum fært nema vegna hins þykka gambra er þekur það að miklu leyti. Hraunið er skreytt margvíslegum steinmyndum auk þess sem steingert víkingaskipt trjónir þar á brúninni þar sem sést ofan af henni til sjávar. Engu er líkara en það hafi dagað þarna uppi þegar hraunið rann tæpum 200 árum eftir norrænt landnám á svæðinu.

Fagravík

Að þessu sinni var ferðinni beint um Kúagerði og Afstapahraunið yngra neðanvert. Hraunið hefur runnið um 1150 frá gígum sem eru vestan undir Trölladyngju og þaðan til norðurs alveg í sjó fram í Vatnsleysuvík á Vatnsleysuströnd. Heildarlengd hraunsins er um 10 kílómetrar.
Í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir m.a.: “Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur.
FögruvíkurvarðaÞá taka þar næst við Bakkar. Innst á þeim er Þórðarhóll, er í fjöru. Sagt er að hann hafi fyrrum staðið í miðju túni og heitir sá Látrabakkar og að hann hafi lent undir hrauni því er brann, Afstapahrauni, og þá hafi byggðin flust að Hvassahrauni. Bakkarnir ná suður að Afstapahrauni og heitir syðst á þeim Bakkatjörn. Svo er þar næst Skuggi sem er stór klettur, þar suður af heitir svo Mölvík. Þar næst er svo Fagravík sem er niður af Afstapavörðu sem er uppi á brunanum ofan við veginn.”
Í annarri lýsingu fyrir sömu jörð segir: “Út með sjó er klettur, sem nefnist Skuggi. Þá er Mölvík og Fagravík þar nokkru utar. Austast við hana er Markavarðan. Þórðarhóll eða Þórðarklettur var þarna á sjávarkampinum, nú horfinn. Hann á að hafa staðið í miðju Látratúni. Markavarðan var einnig kölluð Fögruvíkurvarða.
SkuggiÚr Markavörðu lá landamerkjalínan milli Hvassahrauns og Vatnsleysu í Afstapavörðu eða Afstapaþúfu, sem stendur á Afstapa eða Afstapahrauni. Þaðan liggur línan um Afstapabruna. Í gömlum skjölum og annálum mun talað um Arnstapa, Arnstapahraun og Arnstapaþúfu eða -vörðu. Landamerkjalínan liggur svo áfram í Snókafell, þaðan um Lambafell í landamerkjalínu Krýsuvíkur.”
Þegar skoðaðar eru örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysu um sama svæði segir: “Stekkhóll er stór hóll með fjárhúsi, hjá því er Steinkeravík innan við Stekkhólinn. Þá er Akurgerði, þar var bær endur fyrir löngu og Kúagerði er þar við hraunendann, þar er pollur ofan við veginn, hér er gamall áningastaður og niður af þessu er í fjörunni Hrafnaklettur. Þar sem hin fornu merki Stærri-Vatnsleysu og Akurgerðis [voru] er hóll með vörðubroti og heitir Fagurhóll. Sagt er að hraun þetta sem hér liggur fram í sjó og heitir það Afstapahraun, allmikið flæmi, talið er að það hafi farið yfir tvær jarðir, Akurgerði og Látra.
AfstapaþúfaÚr Merkjanefsvörðu liggur landamerkjalínan milli Vatnsleysu og Hvassahrauns í Afstapavörðu á Afstapa eða Afstapaþúfu. Síðan liggur línan um Afstapahraun í Snókafell mitt og um Snókafellshraun en hraunin eru einnig kölluð Bruni. Síðan liggur línan upp um Lambafellshraun um Lambafell og Klofningsfell og áfram í landamerki Krýsuvíkur.
Til er vísuhelmingur, hafður eftir Halldóri Jónssyni hertekna:
Er nú komið yfir um sinn
Arnstapahraunið hvassa.
SteinmyndEr því vitað að hraun þetta hefur borið nafnið Arnstapahraun og þar af leiðir Arnstapavarða, Arnstapaþúfa og þá Arnstapi. Sunnan undir (vestan undir) Arnstapa er lægð með vatni eða tjörn, heitir Kúagerði og Kúagerðistjörn. Nú hefur Reykjanesbrautin verið lögð um tjörnina og henni skipt. Síðan heitir þarna Afglapi til minningar um verknaðinn. Upp frá Kúagerði liggja troðningar með hraunbrúninni, mætti nefna þá Kúagerðistroðninga því um þá var rekinn búsmalinn ofan úr Flekkuvíkurseli og jafnvel Rauðhólsseli.
Gráhella heitir lítill tangi í hraunbrúninni sem þó ber vel við af sjó og er því mið. Rétt þar við var í eina tíð hellir, Gráhelluhellir. Nokkru ofar er troðningur eða stígur og liggur upp í Brunann, nefnist Tóarstígur. Hann liggur í Tóurnar sem eru sjö. Þar var haglendi sæmilegt og er talið að þarna hafi vermenn eða útróðramenn haldið hestum sínum á vertíðum. Neðsta er tó eitt og hefur henni verið spillt allmjög við grjótnám til Reykjanesbrautar.
GerðiTó tvö er þar nokkru ofar og stígur þar í milli en Tóarstígur er gegnum allar Tóurnar. Þar sem hallar niður í þessa tó hefur verið hlaðinn garður svo gripir kæmust þar ekki út og burt. Tó þrjú er talsvert minni en þar er mikið jarðfall eða ker, Tóarker, er þar gott skjól. Tó fjögur er litlu stærri. Milli tó tvö, þrjú, fjögur eru hraunklif og ekki auðveld stórgripum. Þá kemur tó fimm sem er stór og allmjög vaxin hrísi og birki, nefnist því Hrísató.
Tóft

Suðvestur úr henni liggur stígur og nefnist Hrísatóarstígur. Er sýnilegt að farið hefur verið um hann með hesta. Þá kemur tó sex sem er eiginlega samtengd tó fimm.
Hér breikkar allt og upp af þessari er svo tó sjö sem kölluð er Seltó. Spurst hef ég fyrir um sel þar, enginn kannast við það en nokkur beit getur verið þarna og má vera að búsmala úr Rauðhólsseli hafi verið haldið hér til haga. Vestur úr þessari tó liggur troðningur, Seltóarstígur. Vestur og upp undir Brunaveginum, vegur sem Vatnsleysumenn hafa gert upp um Brunann, er varða, Seltóarvarða og þar rétt hjá er tófugren, Seltóargren og er þá komið að veginum. Upp á Brunanum austur af Tó tvö er hraunhóll mikill, Snókhóll. Bruninn vestan Seltóar nefnist Seltóarhraun.”
TóftEkki var gengið upp í gegnum Tóurnar að þessu sinni. Jónas Þórðarson segir eftirfarandi í lýsingu sinni um Vatnsleysu: “Austurmörk Vatnsleysulands hefjast á dálitlu klapparnefi nokkrum metrum austan við smávík, sem Fagravík heitir. Til skamms tíma var þarna merkjagirðing Hvassahrauns og Vatnsleysu, og náði hún fram í sjó. Mörkin liggja næst um allháan hraunhól í hraunjaðrinum rétt ofan við þjóðveginn, og nefnist hann Afstapi. Á honum er lítil, grasi gróin þúfa, Afstapaþúfa. Hraunið frá sjó og óvíst hvað langt upp eftir er kallað Afstapahraun. Rétta nafnið er að öllum líkindum Arnarstapi, Arnarstapaþúfa og Arnarstapahraun. Næsta kennileiti er um fell eitt allstórt, sem er rúmlega miðja vegu að endamörkum. Heitir það Snókafell. Hraunið þar við er kallað Snókafellshraun. Þaðan liggur svo línan um fell efst við hraunjaðarinn, sem heitir Lambafell, svo úr Lambafelli að Krýsuvíkurlandi.”
MosaÞegar gengið var um Kúagerði komu í ljós tóftir á tveimur stöðum auk gerðis vestast á Bökkunum. Uppi í hraunbrúninni mátti sjá að núverandi Afstapavarða hefur verið hlaðin ekki fyrir svo langa löngu, væntanlega þó á Afstapaþúfu. Gamall stígur hefur legið upp á hraunið við tóft eina vestur undir hraunbrúninni í Kúagerði. Stígurinn er nú þakinn mosa, en auðvelt er að fylgja honum upp á hraunið og áleiðis yfir það, uns komið er að raski, sem þar er.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun og Vatnsleysu.

Kúagerði

Kúagerði.