Kálfatjörn

Í Faxa árið 2000 er frásögn séra Péturs Jónssonar á “Lýsingum Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840“:

“Takmörk Njarðvíkursóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík, ofan að sjó; frá hans efri enda upp í heiðina að Gömlu-Þúfu á svokölluðu Háaleiti, af hverju sjá má umhverfis á þrjá vegu í sjó; frá Gömlu-Þúfu sjónhending í Kirkjuvogsklofninga, sem eru frá Háaleiti að sjá milli dagmála og hádegisstaðar. Sunnanverð takmörk hennar frá Kirkjuvogsklofningum ná upp í Stapafellsgjá, sem er í dagmálastað frá Klofningunum; að innan og austanverðu er Innri-Skora á Vogastapa hér um bil miðjum, er liggur ofan að sjó.

Njarðvíkur

Njarðvíkur um 1910.

Nefndur Stapi mun fyrrum hafa fengið Gullkistu heiti af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi á hrauninu þar rétt upp undir í útilegum á nóttum. Þessi mishái heiðarmúli (Stapinn) liggur milli Stapakots í Njarðvík innri og Voga (gömlu Kvíguvoga) með þverhníptum hömrum, sem taka nokkuð mislangt fram að sjó. Nes eru hér ekki utan Stutti-Tangi, sem kallast Vatnsnes, á hverjum samnefndur bær stendur, norðvestasti eður yzti bær í Njarðvíkursókn. Þar fyrir sunnan skerzt inn vík, hér um stutt íslenzk hálf vika, að svo kölluðu Klapparnefi í ytra Njarðvíkurhverfi og nærfellt að sömu lengd; sker hún sig aftur milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur inn í landið. Af gömlum eldgosum eru hraun hér sýnileg, sums staðar með hólum og lágum á milli, í hverjum er sums staðar nokkurt gras, lyng og mosi. Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.

Njarðvík

Njarðvík 1950. Vatnsnes fremst og Grindavíkurfjöllin fjærst.

Að norðanverðu við nefnda vík, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur myndast nes, er kallast Hákotstangar, er ná að lítilli vík, er kallast Kopa, sem er lending milli Stapakots og Stapans. Fiskiskútur ogjafnvel stærri skipgeta legið á Njarðvíkurvík; þó mun þar vart trygg höfn.
Lendingar og varir hefir náttúran og menn svo tilbúið, að víðasteru vel brúkanlegar. Grynningar og sker eru hér ekki til greina að taka utan Eyland, sem ekki sést utan með stórstraumsfjöru; norðar en á miðri vík, líka upp undir landi, Skarfasker utan Klapparnefið og Fitjar- og Steinbogasker sunnan, á hverju sauðkindur stundum flæða.
Hvassir vindar ganga hér oft af norðri, landsuðri og vestri. Snjóar og einkum stórrigningar eru tíðar af þessum áttum; skruggur á stundum, ekki síður á vetrum en sumrum, en sjaldnast skaðlegar.

Þurrabúð

Þurrabúð á fyrri hluta 19. aldar á Reykjanesskaganum.

Fiskiveiðar eru hér stundaðar oftast ár út og ár inn, en í marz og aprílmánuðum brúkast mest netaveiðar, því um þær mundir gengur sá fiskur inn með landi, sem nefnist netafiskur. Þjóðvegir liggja Iangsetis yfir sóknina og krossgötur hér og hvar, sem árlega eru ruddir og hreinsaðir. Fyrir nokkrum árum síðan er betri og beinni vegur lagður eftir Stapanum framarlega í stað þess fyrri, sem ofar lá eftir heiðinni, lengri, verri og villugjarnari, einkum á vetrum. Graslítill áfangastaður fyrir lestamenn er á millum Njarðvíkanna, á svo nefndum Njarðvíkurfitjum.
Annexkirkjan frá Kálfatjörn er á heimabænum í Innri-Njarðvík; þar er venjulegt að embætta 3ja hvern helgidag á sumrum, en 4ða hvern á vetrum. Þessi kirkja var árið 1811 lögð til Kálfatjarnar, þó framar presti þar til kostnaðar en ábata. Fiskitökuhús kauphöndlandi manna eru fyrir nærverandi tíð 3 í Ytri-Njarðvík og 2 í Innri.

Verbúð

Verbúð fyrrum.

Bjargræðisvegur er mest og bezt sjávarafli; hann er og framar öðru stundaður. Búfénaður er yfir höfuð lítt ræktaður, þar hey er ekki utan litlar töður til gjafar á vetrum, og því útigangsskepnur í fári, þá fjörur Ieggja af ísum og tekur fyrir jörð í heiðinni. Útfærsla túna, sléttun þeirra, steingarða byggingar kringum þau og timburhúsa uppkoma hefir smám saman aukizt; kályrkja er og svo ræktuð með allgóðri heppni víða hvar. Eldsneyti yfir höfuð er slæmt af sjávarþangi og öðrum óhroða. Sumarvinnan til lands er fiskverkun, túnrækt og húsbyggingar, sláttur byrjar vanalegast 14 vikur af sumri og endast oft í 18.-19. viku.
Margir menn eru hagir á járn og stunda nokkrir með fram skipa-, báta og annað smíði. Vetrarvinna er mest hampspuni til sjóarútvegs, fyrir utan annað ýmislegt, er fyrir fellur. Til skemmtunar á vetrarkvöldum er sums staðar iðkaður rímnakveðskapur, en þó meira fornsögulestur. Uppfræðing, áðferði og trúrækni fólks virðist fremur yfir höfuð á góðum vegi og heldur fara batnandi í sumu. Þénustusemi, greiðvikni og hjálp við aðra algeng.
Fólksfjöldi hefir undanfarin ár aukizt, mest fyrir tómthúsabyggingar.

Njarðvík

Innri Njarðvík fyrrum – Áki Grenz.

Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir, Innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
Kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún stendur, þar hún fékk ekki kirkjurétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn. Keflavíkurhöndlunarstaður átti fyrrum kirkjusókn að Njarðvík, stuttan og góðan veg, en nú að Útskálum, að sögn fyrir eftirleitni prests þar. Kauphöndlun Njarðvíkinga er mest í Keflavík.
Alls staðar liggja kýr inni á sumrum um nætur. Margir menn eru skrifandi og sums staðar kvenfólk; nokkrir finnast, sem bera skyn á einfaldar lækningar, margar lagnar nærkonur, þó ekki yfirheyrðar. Sjúkdómar eru helztir: Á börnum oft andarteppuhósti, fullorðnum iktsýki almenn, sumir eru brjóstveikir, fáeinir holdsveikir.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel við Seltjörn.

Frá Innri-Njarðvík var selstaðs við veginn, er liggur frá Vogum að Grindavík; þar er lítið vatn skammt frá, er heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.
Fyrir innan áður nefnda Innri-Skoru á Stapanum byrjar Stóru-Vogaland og takmörk Kálfatjarnarsóknar. Inn af Stapanum, eru 4ur skörð. Það syðsta heitir Reiðskarð, bratt upp; þar eftir er alfaravegur, sem stundum er ófær af fönn á vetrum; hin þrjú, hvert vestar af öðru að sjó, eru gengin. Á innri parti Stapans er hæsta hæð hans, sem kallast Grímshóll, og á henni stór varð. Þar er mjög víðsýnt í allar áttir. Strax við Stapann að innan er Vogavík, er vegna sandgrunns tengist hvað af öðrum upp með Stapanum. Við sjóinn rétt við Stapann, vestan víkina, em Hólmabúðir, sem sjómenn róa frá og höndlunarmenn hafa fiskitökuhús; framundan Vogunum á víkinni er bezta skipalega fyrir stór og smá skip og trygg höfn fyrir öllum vindum utan vestan-útnorðan. Þar norðanleguna er Þórusker, er fer í kaf með stórstraumsflóðum; norður frá því skammt em smásker. Norðan vfkina er bærinn Stóru-Vogar og Vogahverfi; norðar em Minni-Vogar. Gengur svo ströndin í þá átt að Brunnastöðum; á þeim vegi em 3 fiskitökuhús og 1 milli Stóm-Voga og Stapans, fyrir víkurbotninum, á litlu nesi, hvar og tjárréttarmynd er, að hverri sækja á haustum Strandar-, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppar.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Framundan Brunnastöðum og samnefndu hverfi eru tangar og grynningar nokkuð fram í sjó; þó er lending þar góð kunnugum. Eftir sömu stefnu mæta Hlöðunesstangar framundan Hlöðunessbæ, innar Atlagerðistangar framundan Ásláksstöðum. Innan þá er nokkuð stórt sker, sem kallast Svartasker; þar fyrir innan skerst inn vík ei mjög stór, kölluð Breiðagerðisvík. Svo er ströndin nær því jöfn og beygist heldur til landnorðurs, allt inn í svo kallað Keilisnes, sem er skammt innan Kálfatjörn. Á öllum þessum vegi grunnleið með ströndinni, frá Þóruskeri í Vogum inn að Keilisnesi, er mjög brimsamt, meðboðum, nöggum, hnýflum, flúðum og smáskerjum. Innan Keilisnesness gengur inn breið vík, kallast Vatnsleysuvík; hún er full vika sjóar á breidd inn að Hraunsnesi, sem er takmark milli Kálfatjarnar og Garðasóknar við sjó; víkin er nær því eins löng inn í landið og hún er breið til.

Kúagerði

Kúagerði.

Sunnan til við hana er Flekkuvík, Kálfatjarnarkirkjujörð, austar lítið er Minni- og Stóra-Vatnsleysa; fram undan þeirri minni eru grynningar, sem kallast Vatnsleysueyri. Hún er þangi vaxin, og yfir hana hylur með hverri flæði, nokkuð stór um sig og hættuleg ókunnugum; verður að miða inn hjá henni leiðina, eins og víðast er tilfellið í lendingar á Ströndinni. Fyrir botni víkurinnar er sagt verið hafi bær, er heitir Akurgerði; innar er Kúagerði. Þar í er tjörn í nokkuð djúpri dæld, sem minnkar með fjöru, en vex með flóði; þar hjá er alfaravegur gegnum brunahraun.
Innar eru gömul Sellátur, en löngu síðan af; þar skammt frá er Hvassahraun og samnefnt hverfis, innsti sóknarbær, lítið innar er áður nefnt Hraunsnes.
Þessi einajörð íbáðum sóknunum, sem útgjöra hreppinn, hefir allgóðan skóg, sem heldur er í rénun. Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhreppslögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru.

Fagridalur

Í Fagridal.

Fjallgarðurinn liggur frá austri til vesturs, allt frá Grafningsfjöllum að Fagradalsfjalli, sem eiginlega endar hann; upp undan Stóru-Vogum hér og hvar eru smáskörð í hann. Vestur frá Fagradalsfjalli eru í hrauninu tvö lág fell, Stóra- og Litla-Skógfell, vestar er Sýlingarfjall, svo Þorbjarnarfell, svo lengra vestur Þórðarfell og loksins Stapafell, áfast við Súlufjall, sem er það vestasta ofan Stapann, hér um bil í austur að sjá frá Kirkjuvogi í Höfnum.
Í Fagradalsfjalli er samnefndur dalur, fyrrum fagur, en nú að mestu stórgrýttur af skriðum og graslítill; innar er Hagafell með sæmilegum grasbrekkum. Nokkuð innar er hár fjalltindur, er kallast Keilir, sem sjófarendur kalla Sykurtopp. Fyrir innan hann er skarð í fjöllin, þar fyrir innan gamalt eldfjall, sem heitir Trölladyngjur, sem spúð hafa nýju hrauni ofan á það eldra á 13. eður 14. öld. Þetta nýrra hraun er tómur apall og bruni, víða með grasmosa, hvar ekki sést eitt grasstrá; einn armur þess hefir hlaupið fram í sjó sunnan Hvassahraun.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Milli Vatnsleysanna liggur gjá frá sjó, skáhallt eftir endilangri heiði, allt suður í sjó á Reykjanesi. Þar hún er mjóst, má stíga yfir hana, en er sums staðar óyfirfærileg; hún kallast Hrafnagjá. Ofar í heiðinni er Klifgjá, enn ofar Grindavíkurgjá og efst næst fjöllum tvær Kolhólagjár; er það menn vita, allar þessar byrja norður í heiði og enda í Skógfellshrauni. Margaraðrar fleiri gjár og holur eru um hraunin, sem ekki er nafn gefið. í svo kölluðu Vogaholti eru sæmilegir hagar og sums staðar í heiðinni. Margslags lyngtegundir gefast og hátt í henni víðir. Vegur liggur gegnum heiðina frá Stóru-Vogum beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarða inn fyrir Kálfatjörn, aftur þaðan frá gegnum heiðina inn hjá Vatnsleysu.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Norðan til við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætast ofan Stapann 3 tjamir, sem heita Snorrastaðatjamir, hvar bær eftir munnmælum skal hafa staðið í fornöld; þær eru eiginlega vatnsgjár, og þar skyldi fiskur hafa haft undirgang frá Grindavík gegnum út fyrir Stapa á hraunið, hvar nú ekki merkist á þessum tímum.
Fiskimið eru rétt ótal djúpt og grunnt með allri sjósíðunni, engin sérleg hákarlamið; þó em fáir lagvaðir brúkaðir.
Úr Kálfatjarnarsókn sækja innbúar verzlun framar til Hafnarfjarðar en Keflavíkur. Helztu bæir eru Stóru-Vogar, Brunnastaðir, Hlöðunes, Ásláksstaðir, Auðnar, Þórustaðir, Kálfatjörn, Stóra-Vatnsleysa og Hvassahraun, og líka mætti telja Minni-Voga.

Trölladyngja

Trölladyngja. Hverasvæði ofan Oddafells.

Í fjöllunum er helzt að sögn hraungrýti og mógrýti, en sjóklappir víða af stuðlabergi. Frá Kálfatjörn eru Dyngjur að sjá, þá sól er kl. 9, Keilir kl. 10, Fagradalsfjalls innri endi kl. 12.
Sjórinn brýtur víða af túnum og landi og ber upp á sand og grjót, og grynningar aukast.

Kálfatjörn

Yfir höfuð er sama að segja um upplýsingu, siðferði, atvinnuveg og annað í þessari sókn sem hinni, utan að hér er minni þorskanetabrúkun, en meiri hrognkelsa og færafiskirí um vertíð. Til húsabygginga er brúkað nokkurt rekatimbur, en meira af útlenzku, þar óvíða er reki til hlítar. Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helzta, sem ég get frá skýrt. Svohljóðandi bréf, dagsett á Kálfatjörn 24. febrúar 1840, hefur síra Pétur sent Finni Magnússyni með sóknarlýsingu sinni: „Þar ég ekki fékk því við komið að senda með haustskipum þá hér með fylgjandi skýrslu, læt ég hana nú fara í von um, að hún komist með póstskipi. – Ég bið yður og, háttvirtu félagsbræður, að virða vel, þó hún sé ekki svo fullkomin sem skyldi, og taka viljann fyrir verkið”. – P. Johnson

Síra Pétur Jónsson er þjónaði Kálfatjarnarprestakalli 1826 -1851

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

Í íslenskum Æviskrám segir svo um höfund þessarar lýsingar, síra Pétur Jónsson.
„Hann var sonur síra Jóns Magnússonar á Vesturhópshólum og síðar á Borg, og ólst upp við mikla fátækt. Hann fór í skóla 17 ára að aldri og var þar 7 vetur svo, aðfaðir hans þurfti ekki að kosta hann, heldur kom hann heim hvert vor með nokkuð af ölmusu sinni óeyddri; svo hart lagði hann að sér að styrkja foreldra sína. Vorið 1802 átti hann að útskrifast, en eftir beiðni hans var honum veitt leyfi til þess að vera eitt ár enn í skóla. Um seinan komu honum þau tíðindi, að Hólaskóli væri lagður niður 1802, og að piltar yrðu nú að ljúka námi íReykjavíkurskóla. Hefði hann vitað það í tíma, mundi hann ekki hafa sótt um leyfið, enda sagði hann oft, að þess hefði hann mest iðrast. Hann úrskrifaðist úr Hólavallarskóla 1803 með þeim vitnisburði, að hann sé ágætum gáfum gæddur, en þó einkum þroskaðri greind og farsælu minni, og hafi á þessu eina ári tekið undramiklum framförum í lærdómi, þrátt fyrir nokkurn heilsubrest.

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju.

Hann vígðist aðstoðarprestur fóður síns 1808 og kvæntist áríð eftir Ingibjörgu Jónsdóttur í Hjörsey, Egilssonar. Hún veiktist hastarlega 1820 og var veik á sál og líkama upp frá því til dauðadags og nær alltaf rúmliggjandi.
Þegar síra Pétur kom til Kálfatjarnar, var hann svo blásnauður, að hann flutti allt sitt á 2 hestum. En fátæktinni þyngri var þó heilsuleysi konunnar. Varð hann á hverju kvöldi að kveða hana í værð eins og barn, og marga nótt varð hann að vaka yfir henni til morguns. En hann unni henni svo mjög, að fyrir hana vildi hann allt á sig leggja, vökur, hungur og nekt. Konan dó 1860 og höfðu þau þá verið í hjónabandi í rúm 50 ár, en ekki átt börn.
Síra Pétur afsalaði sér Kálfatjörn 1851, þá 73 ára gamall. Hann fluttist nú að Móakoti, fékk það eftirgjaldslaust og 1/3 fastra tekna brauðsins. Árni stiftprófastur Helgason mat síra Pétur jafnan mikils og útvegaði honum nú 50 rdl. árlegan styrk hjá stjórninni og auk þess nokkum styrk hjá Synodus. Þó veitti síra Pétur hörmulega í Móakoti, og sá þess varla stað þótt sóknarmenn gæfu honum oft stórgjafir, þegar hann átti bágast. Sumarið 1860 fór hann aftur að Kálfatjörn og naut þar húsaskjóls og aðhlynningar eftir það. Var hann þá þrotinn að kröftum og heilsu, maður á níræðis aldri, sem mestan hluta ævi sinnar hafði búið við eymd og skort. Hann fékk slag 8. desember 1864 og andaðist 8. janúar 1865. Við jarðarför hans vom rúmlega 200 manns, margir langt að komnir og má af því marka vinsældir hans. Einhver seinustu orð hans á banasænginni voru þau, að hann bað sóknarprestinn að muna sig um að láta sig hvíla sem næst „elskunni sinni” í gröfinni. Og í Kálfatjarnarkirkjugarði hvíla þau hlið við hlið.
Síra Pétur var hinn mesti reglumaður í embætti, kennimaður góður og lét sér mjög annt um barnafræðslu. Veðurbækur hélt hann í samfleytt 50 ár. „Hann var merkur maður og valinkunnur”.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.04.2000, Lýsingar Njarðvíkursóknar og Kálfatjarnarsóknar árið 1840 – séra Pétur Jónsson, bls. 12-14.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd.