Færslur

Grænás

Eftirfarandi frásögn Skúla Magnússonar um álfa og huldufólk í klettunum í Njarðvíkurásum ofan við Ytri-Njarðvík birtist í Faxa árið 2008.

„Lengi hefur legið orð á því meðal fólks í Njarðvík og Keflavík að álfar eða huldufólk væri í klettunum sem næstir liggja utan við Grænásbrekkuna, að norðan og ofan við hús íslenskra aðalverktaka. Ekki man ég þó eftir sögnum um slíkar verur í Njarðvíkurásunum í elstu og stærstu þjóðsagnasöfnum Íslendinga, hvorki hjá Jóni Árnasyni, Ólafi Davíðssyni né Sigfúsi Sigfússyni. Óljóst er hve gömul þessi trú manna í Keflavík og Njarðvík er þar sem heimildir um hana sem ég þekki eru ekki eldri en frá 20. öld.
Sagnirnar um Háaleitisdrauginn og Guðmund Klárt. virðast þó vitna um að gömul dulræna og forn átrúnaður hafi loðað við Háaleitið, þótt sagnir um það hafi ekki verið skráðar fyrr en á 19. og 20. öld.

Sagnir um huldufólk í Njarðvíkurásunum
NjarðvíkurásarÞau dæmi sem ég þekki um frásagnir af huldufólkinu i Njarðvíkurásum eru öll frá 20. öld. Rétt er að benda á frásögn Helgu Kristinsdóttur frá Akri í Inni-Njarðvík sem birtist í jólablaði Faxa 2007. Þar minnist Helga, sem er látin fyrir stuttu, á örnefnið Álfakirkju, sem talið var tilheyra álfum sem bjuggu í Ásunum.
Álfakirkjan var efst í brekkunni upp af húsi Babtistakirkjunnar amerísku sem þarna stendur. Ekki verður ráðið af frásögn Helgu hve gamalt örnefnið Álfakirkja er, en átrúnaður á það virðist þó vera kominn upp a.m.k. á seinni hluta 19. aldar, að því er skrif Helgu benda til.
Þegar ég var innan við tíu ára gamall heyrði ég föður minn segja sögur af tveimur atvikum sem hentu hann sem stálpaðan krakka inn í Njarðvíkurásum. Það sem einkum togaði krakka og unglinga þangað upp eftir var góð berjaspretta. Lögskilarétt fyrir Hafnir og hreppana yst á Rosmhvalanesi, Ásarétt, var líka hlaðin úr grjóti uppi á hömrunum í Grænási, skammt neðan við lögreglustöðina sem þar stendur, og þarna voru réttir hvert haust allt frá því að réttin var þarna hlaðin árið 1900 eða 1901, eins og lesa má um í fundargerðabók sýslunefndar Gullbringusýslu. Þegar herinn tók þetta landi til afnota var það lýst bannsvæði og réttirnar hurfu og heyra nú sögunni til.
Útiskemmtanir og upphaf þeirra í Ásunum Auk réttanna sem haldnar voru hvert haust í Ásunum voru útiskemmtanir haldnar þar uppi er líða tók á 20. öld og sótti þær fólk úr Njarðvík og Keflavík. Almenningur hafði því allmikli kynni af Ásunum og þær stundir lifða enn í minningu þeirra sem muna timann fyrir stríðið 1940. Ungmennafélag Keflavíkur hélt líka árlega íþróttakeppni og skemmtanir í Hjallatúni, líklega frá um 1930, og allt þar til herinn tók landið 1940. Þá var efnt til keppna og skemmtana í kvosinni í Keflavík, þar sem nú er stóra fánastöngin í skrúðgarði bæjarsins. Upphaf þess garðs má rekja til útiskemmtananna í Hjallatúni sem féllu niður við hernámið.

Huldufólkið hopaði ekki úr Ásunum
En huldufólkið hopaði ekki úr Njarðvíkurásunum þótt fólkið hyrfi þaðan að mestu. Ystu mörk línu þeirrar sem myndaði bannsvæði hersins austan á Háaleiti var dregin skammt ofan við klettabeltið í Ásunum og hið gamla Hjallatún féll líka undir bannsvæðið, en þar niður af komu síðar olíutankar hersins. Á mörkum þess var svo reist meira en mannhæðarhá girðing með gaddavír og vék hún loks ofar í heiðina þegar smíði nýrrar flugstöðvar hófst 1985-1987 og nýr vegur var lagður þangað af Njarðvíkurfitjum. Hluti af þessu svæði, ofan við og í Hjallatúnum, var þó áfram innan girðingar fram að því að herinn hugðist fara á brott alfarinn á árunum 1993-2001.
Huldufólkið hélt tryggð við heimahaga sína í Ásunum og fór hvergi þrátt fyrir allann þann gauragang sem fylgdi vígvélum og vinnutólum næstu árin í nágrenni við bústaði þess. Líklegt er að huldufólkinu hafi liðið þar vel.

Frásagnir föður míns
NjarðvíkurásarFyrri frásögn föður míns um atvik sem hann sagði mér frá og gerðist i Njarðvíkurásum varð líklega þegar hann var 9 eða 10 ára, 1933 eða 34 og fram um fermingu. Svo vildi til að faðir minn og eldri bróðir hans, Snorri Sólon (f. 1916 – d. 1944) fóru saman hjólandi á reiðhjólum sínum inn í Ása til að týna þar krækiber einn sólskinsdag. Líklega var þetta nær þeim tíma þegar faðir minn var á fermingaraldri. Snorri hefur þá verið um tvítugt eða tæplega það. Berjaferðinni lauk fyrr en ætlað var og með skjótari hætti. Bræðurnir hjóluðu eins og leið lá inn undir klettana í Grænási, skildu hjólin eftir við veginn og gengu upp undir klettana þar efra. Þeir gleymdu sér við berjatínsluna og urðu brátt viðskila. I miðju kafi varð Magnúsi föður mínum snögglega litið upp og sá þá torkennilegan mann sem hann bar engin kennsl á. Hann sat á steini skammt frá, horfði út á sjóinn og reykti pípu. Við þetta brá föður mínum svo að hann tók þegar til fótanna, hljóp niður á veg, náði í hjólið og hélt heim á leið. Snorra brá í brún við þessi hlaup og hjólaði á eftir bróður sínum uns hann náði honum og fékk skýringar á háttalagi hans. Sagði Magnús þá Snorra alla söguna en sjálfur hafði Snorri ekki séð neinn mann þar uppfrá meðan á berjatínslunni stóð.
Þegar faðir minn sagði mér þessa sögu rúmum 20 árum seinna hafði óttinn vikið fyrir skilningi á að huldar vættir væru til í ríki nátturinnar. Að mati hans bar mönnum að umgangast huldufólk með virðingu og það viðhorf mótaði mig frá bernsku þótt ég hefði aldrei séð það sjálfur því skyggn var ég ekki.
Hin sagan sem faðir minn sagði mér af torkennilegum verum í Njarðvíkurásum gerðist fyrir stríðið 1939. Þá var hann ásamt fleiri strákum á ferð til Keflavíkur þegar þeir komu auga á konu upp við Ásana. Hún vakti athygli þeirra því hún var að tína eitthvað í svuntu sína við klettana og leit út eins og hún hefði snöggvast brugðið sér af bæ. Sem fyrr segir er töluverður spotti neðan úr byggð í Ytri-Njarðvík á þessum árum og engan mann sáu drengirnir koma þar neðan að. Í hvorugt skiptið gat faðir minn þó um hvernig fólkið var klætt og hvort klæði þess væru í sterkum litum, t.d. rauð, græn eða blá. En helst er að sjá að þetta hvortveggja hafi birst skyndilega þeim sem til sáu. Við fyrstu athugun gæti litið út sem hér hefði verið ósköp venjulegt mennskt fólk á ferð en ekki huldar verur.
Slíkt mætti líka álykta af sögunni „Konan í Hafnaheiðinni“ sem Jón Thorarensen skráði eftir frásögn Ólafs Ketilssonar og birti í Rauðskinnu. En þessa ókunnugu og torkennilegu veru sá Ólafur á ferð sinni yfir Hafnaheiði um 1906 en fékk aldrei skýringar á hvernig á ferðum hennar stóð. Klæðnaður hennar stakk í stúf við allt umhverfi og aðstæður þarna suður frá. Ekki var konan þó klædd í litklæði. Á þessum slóðum eru allskemmtilegar samfelldar klappir ekki langt frá leiðinni yfir Hafnaheiðina sem ekki sjást þó frá bílveginum. Aðstæður þar minna mjög á Ásana enda er sagt að huldufólk búi einatt í gömlu bergi, ekki nýrra eldhrauni sem víða má sjá á Reykjanesskaga.

Rauðklæddi maðurinn

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.

Að morgni þriðjudags 26. ágúst sl. hélt ég frá stöðvarhúsi SBK í Grófinni með áætlunarbíl. Ég sat fremst í bílnum hægra megin næst aðaldyrum og sá eins vel út úr bílnum og fram fyrir hann og kostur var. Auk mín og bílstjórans komu í rútuna ensk hjón við upphaf ferðar en síðan bættist í hópinn íslensk kona. Enginn var í biðskýlinu í Ytri-Njarðvík svo við héldum áfram að hringtorginu sem er við gatnamót Reykjanesbrautar, Sjávargötu og Gónhóls.
Þegar rútan beygði inn á hringtorgið varð mér litið upp eftir þar sem Ásarnir blöstu við. Þá kom ég skyndilega auga á rauðklæddan mann sem stóð framan við klettana. Mér varð starsýnt á þennan mann bæði vegna klæðnaðar hans og vaxtarlags. Ég hélt strax að þarna væri einhver íbúi úr húsunum neðan við Ásana á morgunrölti en ýmislegt mælti gegn því. Frá bílnum að sjá var hann í dökkrauðum kufli eða mussu sem virtist samfelld frá hálsi niður á fætur og með sérkennilega rauða húfu sem liktist alpahúfu listamanns á 19. öld. Maðurinn var dvergvaxinn og hélt ég fyrst að hann sæti á hækjum sér fremur en að hann stæði uppréttur, en fljótlega sá ég að hann virtist þó keikur og hnarreistur þar sem hann var fyrir framan klettavegginn. Ég sá síðan að hann stóð uppréttur við klettinn. Hann stóð þarna grafkyrr og horfði beint til austurs yfir byggðina og út á sjó. Ég sá vel á milli hans og klettanna og því á bak hans að hluta og gat ráðið af því að hann stóð uppréttur.
Þennan morgun var veðrið milt og gott, suðvestan átt með stuttum hellidembum en glaðasólskini inn á milli. Fjölbreytileiki birtunnar gerði allt umhverfið dulúðugt, fínn suddinn spilaði saman við sílglitrandi, nýfallna og litfagra daggardropana og varpaði dularblæ yfir umhverfið, hæðir og lægðir í umhverfinu og landinu öllu en jörðin merlaði í úðanum í ótal litbrigðum. Þegar ég sá Rauðklæðung leit út fyrir regnbogaveður og síðar þennan dag mynduðust fagrir regnbogar á himni.

Mennskur maður af holdi og blóði?
Hann hvarf síðan þegar við ókum áfram upp brekkuna að húsum Keilis þar sem hópur fólks beið rútunnar. Enginn í bílnum virtist hafa veitt honum athygli nema ég, þótt litirnir á fötum hans hefðu verið svo sterkir að mér datt ekki annað í hug en að allir í rútunni sæju manninn þarna eins og ég enda datt mér ekki annað í hug, meðan við ókum upp Grænásbrekkuna, en að þarna færi mennskur maður af holdi og blóði. Ég gerði því engum vart við sýn mína enda aðrir farþegar það aftarlega að ógjörningur var fyrir mig að ná til þeirra. Enginn annar en ég virtist hafa séð rauðklædda manninn því enginn mælti orð af vörum meðan við ókum þessa stuttu leið.

Áhrifamikil sýn
Rauðklæddi maðurinn minnti mig helst á dverginn sem lék hlutverk álfsins í alþekktri kvikmynd Óskars Gíslasonar, Síðasti bærinn í dalnum. Það átti bæði við um vaxtarlagið og andlitið. Hann var greinilega ófríðari en gengur, skegglaus, andlitið mjög dökkleitt og nefið frekar uppbrett. Höfuðið var sverara og digrara en almennt gerist og þrátt fyrir smæð sína var hann allur meiri um sig og þéttvaxnari en maður á að venjast. Sérstaka athygli vakti hinn sterki dökkrauði litur á klæðnaði hans og að sjá þennan skæra lit innan um dökka klettana og grængresi var svo áhrifamikið að því gleymi ég aldrei.
Ég hélt í fyrstu að ég hefði séð einn af íbúum við göturnar neðan við Ásana en þegar við ókum til Reykjavíkur rann það upp fyrir mér að ég hefði sennilega séð einn af íbúunum í Ásunum og væri hann hvorki af holdi og blóði. Sögur föður míns virtust staðfesta þetta og einnig þjóðsögur fyrri tíma. Fomlegur og sérkennilegur klæðnaður styrkti mig í þessari trú. Mér varð skemmt í huga gömul ósk mín að sjá huldufólk hafði skyndilega ræst og þetta var eins og í ævintýrunum.
Þegar ég kom aftur heim til Keflavíkur um kvöldið og rútan ók niður Grænásbrekkuna sátu tveir strákar á fermingaraldri undir klettunum skammt frá þeim stað þar ég hafði séð Rauðklæðung. En hann var hvergi sjáanlegur þá stundina að minnsta kosti.“

Heimild:
-Faxi, Rauðklæddi maðurinn í Njarðvíkurásum, Skúli Magnússon, 4. tbl. 01.12.2008, bls. 10.

Njarðvíkurásar

Njarðvíkurásar.

Keflavík

Dr. Fríða Sigurðsson skrifaði árið 1972 í Sunnudagsblað Tímans um upphaf þéttbýlis, „Tvær aldir í Keflavík“:
Keflavik -221„Í Keflavík hafði öldum saman aðeins verið bóndabær. Víkin hafði reyndar verið notuð sem höfn, ef ekki fyrr, þá að minnsta kosti með vissu síðan í byrjun 16. aldar, en enginn kaupmaður hafði þar fast aðsetur á undan Holger Jacobæus. Því hefur reyndar verið haldið fram, að Christen Adolph, sonur Holgers, hafi fæðzt í Keflavík, og hefði það þá verið árið 1766 eða 1767, en ekki hef ég getað fundið sannanir fyrir byggð í Keflavík á timabilinu á undan 1772. Heldur ekki í manntali frá 1816 finnst nokkurt fólk, sem sagt er fætt í Keflavík á þessu tímabili, og hefði manneskja, fædd 1766, þá þó ekki verið eldri en um fimmtugt! Því þykir mér rétt að álíta árið 1772 fæðingarár Keflavíkurbyggðar, og var stundin sú, þegar Holger Jacobaeus ásamt fjölskyldu sinni og fylgdarliði steig í land í Keflavík, sennilega einn góðan vordag í júni 1772.
Í byrjun 16. aldra vitum við um Englending, Robert Legge frá Ipswich, sem árið 1540 kvaðst hafa stundað Íslandssiglingar í 26 eða 27 ár og lent þar meðal annars í Keblewyckey. (Björn Þorsteinsson: Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld, bls. 94). Og það muna allir, að Hallgrímur Pétursson kom út 1637 á Keflavíkurskipi. En byggð var þar ekki nema eitt lítið kotbýli. Þó að Hallgrímur hafi ef til vill verið púlsmaður í sjálfri Keflavíkinni, þá bjó hann á Bolafæti i Njarðvíkurlandi! Og enn var aðeins einn bóndabær í Keflavík 125 árum seinna, þegar manntal var tekið 1762.

Keflavík

Frá Keflavík.

Þéttbýlið og mannfjöldinn voru í Leirunni, í Garðinum, á Rosmhvalanesi og í Kirkjuvogi, en fjölsetnasta hverfið var Stafnes með hjáleigum sínum. Þar hafði konungsútgerðin bækistöð sína, þar sat fyrsti íslenski landfógetinn, Guðni Sigurðsson. Og þegar Skúli Magnússon hafði tekið við þessu embætti, var Stafnes sýslumannssetur í tvö ár. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. Og í nánustu nánd við útvegsstaðinn Stafnes voru verzlunarstaðirnir, Þórshöfn, á 18. öld ekki lengur notuð, og Bátsandar, eins og þessi staður var skrifaður þá, síðan 1640 hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum.
Þetta gerbreyttist, þegar konungsútgerðin var tekin af. Eftir því sem útgerðin á Stafnesi og með henni verzlunin á Bátsöndum minnkaði færðist byggðin til og Keflavík reis úr ómerkilegu kotbýli, þangað til hún varð höfuðstaður Suðurnesja.
Konungsútgerðin hafði lengi barizt í bökkum, og margt heilræði hafði verið reynt, en þegar rentukammer reiknaði loksins út, að kostnaðurinn við kost, föt og laun þeirra manna, sem stöðugt varð að hafa við útgerðina (ráðsmann, smið, fjóra vinnumenn, tvær stúlkur, einn dreng), nam nærri 250 ríkisdölum meira en hvað allt fiskiríið með innstæðubátum fimmtán færði inn, þá fékkst konungurinn til að afnema konungsútgerðina með lögum þann 12. desember 1769. Bátarnir fimmtán og sjóbuðirnar þrjár voru seldar og fasta starfsfólkið sent heim. Varð það endirinn á hinu illræmda mannsláni og og upphafi Keflavikurbyggðarinnar! Eftir að hætt var að gera út frá Stafnesi, lögðust fyrst hjáleigurnar, hinir svokölluðu Refshalabæir, í eyði. Á Stafnesi sjálfu hélt bóndinn, Magnús Jónsson, áfram að búa, og eftir hans andlát 1784 ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, þá orðin 73 ára gömul. 1786 eru aðeins þrir menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað,1790 jafnvel bara tveir, hjón ein. Þau tolldu þar fram undir aldamót og ólu á þessum árum nokkur börn, en þegar þau fóru burtu, lagðist Stafnes í eyði. Tók þessi þróun ekki nema þrjátíu ár. Með útveginum á Stafnesi hnignaði einnig verzlunin á Bátsöndum. Frá því að konungsútgerðin var afnumin 1769, sat enginn kaupmaður á Bátsöndum þangað til Dýnus Jespersen kom 1777. 1778 var enn einu sinni nítján manns búsett þar. 1789 tekur Hinrik Hansen við af Jespersen, síðasti kaupmaðurinn á Bátsöndum. Þegar flóðið fræga braut húsin varð hann að yfirgefa staðinn. Hann fékk fyrst húsaskjól á Loddu, en hreiðraði þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi“. Þar dvelst kaupmannsfólkið enn, þegar manntal er tekið árið 1800, en 1801 flyzt það, eins og kunnugt er til Keflavíkur. Simon Hansen hlýtur að hafa áttað sig á því að ekki var hægt að snúa vísi tímaklukkunnar til baka. Hann hlýtur að hafa gert sér ljóst, að verzlunarstaðurinn hafði verið á niðurleið síðustu þrjátíu árin, og átti sér ekki viðreisnar von. Að flóðið setti bara punktinn yfir i-ið, sem skrifað hafði verið 1769. Þess vegna settist hann að í Keflavík, þó að þar væri annar kaupmaður fyrir. Því einnig í Keflavík höfðu tímarnir breytzt. Þar sem 1762 höfðu aðeins búið nokkrar sálir, var tíu árum seinna risinn vísir að byggð.

Keflavík

Í tveimur greinum í Faxa, blaði Suðurnesjamanna, hef ég skýrt frá því, að þegar árið 1772 hljóti fleiri menn að hafa búið í Keflavík en bóndinn og hans fjölskylda. Í jólablaðinu 1969 hef ég sagt frá því, að snemma árs 1773, áður en vorskipin komu út, hafi einhver borgarafrú Brickers dáið í Keflavík, augsýnilega erlend kona, sem ekki tilheyrði Keflavíkurkotinu, og barn eitt fæðzt, Gottfrede Elisabeth, dóttir kaupmannshjónanna Jacobæus, og hljóta hjónin að hafa dvalizt í Keflavik árið áður. En guðfeðginin við skírnina voru þrír Danir. Ályktaði ég af þessu, að allt þetta fólk hafi búið i Keflavík þegar árið 1772, rúmum tveimur árum eftir að konungsútgerðin hafði verið tekin af með lögum þann 12 desember 1769. Eftir var þá að leysa fyrirtækið upp. Salan gekk treglega, og getur vel hafa dregizt fram á árið 1771, og var það sennilega þar af leiðandi, að kaupmaður settist að í Keflavík. Í maíblaði 1970 hef ég þá fært sönnur fyrir þessari tilgátu minni um byggð í Keflavík árið 1771 með því að benda á „Suðurnesjabókina gömlu“, eins og ég nefndi hana, skattabók Rosmhvalaneshrepps fyrir árin 1772 til 1778. En sá hreppur náði á þeim tima alla leið frá Bátsöndum um Miðnes, Garðinn og Leiruna til Keflavíkur. Hefur bók þessi verið í öruggri geymslu að Útskálum þangað til 1901. Þegar hún komst á þjóðskjalasafnið var gert við hana, og er hún nú í öruggu bandi og tættu blaðkantarnir festir á pergament. Hún er fallega skrifuð og auðlæsileg. Þessi gamla hreppsbók byrjar nú einmitt á þessu sama ári, 1772, og staðfestir hún, að 1772 hafi verið tveir „kaupstaðir“ í hreppnum, Bátsandar og Keflavík, og í Keflavík hefur þá setið kaupmaður, undirkaupmaður, „annað þeirra þjónustulið“ og „búlausir menn“. Var signor kaupmaður Jacobæus skatthæsti einstaklingurinn í hreppnum, en „Keflvíkingar“ hafa á þessu ári 1772 borið nærri því helminginn opinberra gjalda!

Keflavík

Kaupmannssetrið á Bátsöndum hélzt enn um 25 ára skeið við hliðina á hinu nýja kaupmannssetri í Keflavík, en um aldamótin lagðist það niður eins og kunnugt er, og einnig byggðin á Stafnesi fór þá i eyði, en báðir þessir staðir höfðu verið i mestum blóma meðan konungsútgerðin var og hafði aðsetur sitt á Stafnesi og höfn á Bátsöndum.
Ekkert hef ég fundið, sem bendir til þess, að byggð hafi risið í Keflavík fyrr en 1772, svo við megum víst líta á þetta ár sem fæðingarár Keflavíkurkaupstaðar. Ekki vitum við, á hvaða degi vorskipin komu út árið 1772 með Holger Jacobæus ásamt fjölskyldu og fylgdarliði hans innanborðs, en þegar hann einhvern góðan veðurdag, sennilega í júní, steig í land í Keflavík með barn og buru, þá fæddist Keflavík, og mega Keflvíkingar því í vor halda upp á tvö hundruð ára afmæli byggðar sinnar!“

Keflavíkurbærinn

Keflavíkurbærinn.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 23. apríl 1972, bls. 331-332.

Njarðvíkursel

Öll kort, sem birt hafa verið, telja Njarðvík vera heiti á vík sem er á milli Klapparnefs fremst á Vatnsnesi (þar sem vitinn er nú) og Hákotstanga.
„Merkin [Njarðvíkur] eru í Innri-Skoru á Stapa, en stapi þessi hét áður fyrr Kvíguvogastapi. Um 1840 segja þeir, að gamalt nafn á Stapanum sé Gullkistan sökum þess hve fiskignægð er þar mikil á færi rétt við. Ytri-Skora heitir önnur skora í stapann rétt vestar. Þar næst undir berginu er Svartiskúti, og þegar stapinn fer að lækka, heitir Sigurðarsteinn. Það er klöpp frammi við sjó, og er hann hæstur fremst. Þar var dreginn fiskur fram af. Upp af þessu og vestur af Svartaskúta eru á brúninni tvær vörður, sem heita Álbrúnarvörður. Draga þær nafn af því, að þær eru mið á fiskislóð þá, sem Álbrún heitir“.
Ofanverðar NjarðvíkurAllar gildandi örnefnalýsingar hefjast svona: „Þegar Stapanum sleppir, kemur lítil vík, sem heitir Kópa. Hún er austur af Stapakoti og er lending þaðan. Vestur af Kópu taka við Hákotstangar. Austur af Stapakoti og vestan Kópu gengur klettur langt fram, sem heitir Grákjafta. Þar næst eru Gálgaklettar, háir klettar eða björg við sjó, milli Stapakots og Njarðvíkna. Vestur af Gálgaklettum er vör, sem heitir Móakotsvör (eða Móakotsklettur?). Þar upp af var kot áður fyrr, sem hét Móakot. Þá er vík norður af kirkjunni, sem nefnd er Kirkjuvík. Þar næst eru svonefndir Hákotstangar, er liggja þar fram í sjóinn. Þar var og vör. Við þessa tanga segir maður svo, að Njarðvík byrji. Vestur af töngunum er Hákotsvör. Þaðan reri Pétur Björnsson í Hákoti. Þá er Hálfdán. Það er mið Súla um kirkjuna, og hitt miðið er Litli-Keilir um Fálkaþúfu á innri enda Stapans. Þar var mjög fiskisælt. Nokkur áratog framar var svo komið á leirbotn, nefnt Klettsmið, sem var milli Súlna um Stapakot.
Vestur – suðvestur af Hákoti er stór klöpp, sem kemur ekki upp nema um fjöru, og heitir hún Hundhella. Þar utar eru Njarðvíkurvarir tvær, sem skiptast í Norðurvör og Suðurvör. Vararkjaftarnir eru saman. Næst er vík, sem heitir Innri-NjarðvíkTjarnarkotsseyla, og Seylubakki, kampurinn upp af sjávarmáli. Þetta er möl. Tjarnarkot er næst og stendur upp frá þessu á smáhæð. Framhald er malarkambur. Þá er næst Markasteinn, stór klettur, sem kemur upp um fjöru og er merki móti Narfakoti, aðeins til, að þar marka af þangfjöru(?). Narfakotsklettar eru þar við, og þar fram af er stór steinn, nefndur Snasi. Hann fer ekki í kaf, og suður af þessu er svo loks Narfakotsvör. Smátangi er þar næst, sem heitir Harðhaus. Narfakotsvör var þrautalending. Suður af Harðhaus eru Narfakotstangar, og þar næst er smávík, Narfakotsseyla, sem nær lengra inn en Tjarnarkotsseylan. Í Seylunni er Seylusker, og þar í er sandur, sem var maðkasandur. Í Narfakotsseylu var Stekkjarkotsvör. Hún var í svonefndum Seylutanga, sem er næst utan við Seyluna. Upp af Seylunni sunnanverðri er klapparhóll, sem heitir Tjaldhóll. Dregur hann nafn af því, að þar sat tjaldurinn oft. Þá er Stekkjarkotssíki, leysingarvatn. Stekkjarkot var rétt við veginn, en neðan við hann. Þá eru næst Njarðvíkurfitjar, láglendið fyrir botni víkurinnar. Þá er Ytri-NjarðvíkGrandi og Innri-Háibali, sbr. Ytri-Njarðvíkur. Þá er tangi utan við sandinn, sem heitir Háabalatangi. Spöl utan við tangann er lítill steinn á merkjum. Tvö sker eru utarlega á sandinum. Þau heita Stórasker og Móakotssker.
Réttarhús er upp af, milli Gálgakletta og Kirkjuvíkur. Njarðvíkurtjörn er upp af Tjarnarkotsseylu og var slegin lengi fram eftir. Við austurjaðar tjarnarinnar heitir Hólmfastskot og Ólafsvellir, sem eru þar upp frá. Í norðaustur frá Hólmfastskoti var býlið Tröð, og í austur frá því var Móakot, sem Móakotsklöppin er kennd við. Norðan við túngarð Hólmfastskots var blettur lítill niður við tjörn, og hét hann Ullarreitur. Hann er þríhyrndur í lagi, rétt hjá Njarðvíkurbrunni. Þá er Einarsvöllur hjá kirkjunni, og þar austur eftir er svo Kirkjuvíkurvöllur. Ullarreitur heitir þetta, því þar var þurrkuð ull.
Syðst í tjörninni var grjótgarður, sem gengið var eftir og er nefndur Heljarstígur. Hann var þjóðbraut milli bæjanna. Suður af  honum er smáflöt, sem heitir Ólafsvallakrókur. Nú er verið að umturna þessu öllu. Þar suður af var kálgarður, sem hét Illugagarður. Í Tjarnarkotstúni austast var kálgarður, sem nú er orðinn að túni, og hét hann Helgugarður. Suður af Tjarnarkoti er hóll þar upp af til austurs, Holtshóll. Þar er eyðibýlið (tómthús) Holt. Þetta er norður af Dæluhúsinu. Tóft HólmfastskotsTættur eru þar upp af, upp við veg, sem heita Arnbjörnshús. Lambhús voru milli Akurs og Akurgerðis, sem hétu Lambhús. Í Tjarnarkotslandi austan til, rétt fram af, var býlið Hlíð, og Björnsbær var við bæinn heima.
Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll. Þá er Stóragjá, sem er framhald af Hrafnagjá og nær alla leið með ýmsum nöfnum fram á Reykjanes. Vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar, kenndar við Gíslhelli, sem er þar ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum.
Beint upp af Njarðvíkum í suðaustur eru Löngubrekkur, og syðst í þeim er Vogshóll, sem er á merkjum, aðeins skorinn frá brekkunum. Innst á Löngubrekkum heitir Löngubrekkuendi. Þar á er stór varða, beint upp af Skjólgarði.
Ártalssteinn í NjarðvíkVestur frá Löngubrekkum niður af Vogshól eru Steindraugsbrekkur. Beint suður frá þeim eru smádældir, sem heita Djúpudalir. Við suðurenda Löngubrekku norður af Vogshól er hár hóll nær Njarðvíkum, sem heitir Sjónarhóll. Suður af honum er klettaklungur, Klofningur, suður af flugvelli. Stóri-Skjólgarður er fyrr nefndur, uppi á hæð, hlaðinn í kross og er norðvestur af Löngubrekkum. Þar í vestur er svo Litli-Skjólhóll skammt ofan við Njarðvíkur. Inn af honum er Leirdalur, land og gras, nú tættur. Innst á Löngubrekkum heitir Löngubrekkuhóll.
Leirflög eru fyrir ofan brekkur. Þar ofar er Litli-Latur og Stóri-Latur, grjótbelti beint upp af Njarðvíkum. Ofan við veginn er smáhæð, sem heitir Narfakotsborg. Þar suður af er smáhóll vestur af Vogshól, og heitir hann Smalaskáli. Gleymzt hefur Arnarklettur, sem er á merkjum. Hann stendur í hvamminum ofan við Vatnsgjár.

Landamæri Ytri- og Innri-Njarðvíkur eru frá Ytri-Háabala í Grænásvörð á Grænási. Innan við Háabala koma Njarðvíkurfitjar. Malarkambur er fyrir botni víkurinnar (Njarðvíkur), sem heitir Fitjagrandi. Fjöruborð er mikið frá víkurbotninum og er það mest allt dökkur, fínn sandur. Í honum var mikið af sandmaðki, sem notaður var til beitu frá ómunatíð og allt fram til ársins 1940, er atvinnuhættir breyttust, og menn höfðu öðru að sinna og öðru að beita. NjarðvíkurselFramarlega á sandinum, sem kallaður var Stórisandur, eru tvö sker. Annað þeirra er kallað Langasker eða Móakotssker en hitt er kallað Stórasker eða Njarðvíkursker. Voru þessi sker mjög hættuleg flæðisker og urðu fjárbændur oft að vakta þau daga og nætur og oft um miðjar nætur í svartamyrkri og illviðrum að reka féð úr skerjunum og jafnvel að vaða sjóinn á aðfalli upp undir axlir.
Við austurenda Fitjagrandans er frárennsli úr tjörnum, sem eru ofan við grandann og nefnist það Stekkjarkotssíki og ber nafn af bænum Stekkjarkoti, er stóð ca. 1[00]-300 metra ofar og austar, skammt neðan við þjóðveginn. Þar var síðast búið fyrir 34 til 36 árum, og eru þar nú bæjartættur og garðarústir eftir.
Næstsíðustu ábúendur í Stekkjarkoti voru Ingibjörg Guðmundsdóttir og Magnús Gíslason, en síðast bjuggu þar Bjarni Sveinsson og Björg Einarsdóttir.
Innar með sjónum er tangi, sem kallast Byrgistangi. Á honum norðanverðum er vör, sem heitir Stekkjarkotsvör; þar rétt hjá er rúst af fiskbyrgi Stekkjarkotsbóndans, er hafði þaðan útræði á seinni hluta 19. aldar. Mun bóndi sá hafa heitið Jón, eins og gömul vísa bendir til, en vísan er þannig:

Bragnar halda besta mið
og búast ei við fiskiþroti,
ef Súla ber í salthúsið
signor Jóns í Stekkjarkoti.

Milli Byrgistanga og Seylutanga að norðan er dálítil vík, sem heitir Narfakotsseyla (Seyla). Er þar mest sandur á botni um fjörur og var þar grafinn upp maðkur eins og í Stórasandinum. Innst í botni Seylunnar er hóll, sem kallast Tjaldhóll og lá gamli vegurinn suður með sjó yfir hólinn.
Stóri-Skjólgarður á NjarðvíkurheiðiNæst norðan við Seylutanga kemur Narfakotsvör. Þaðan var töluvert útræði á síðustu öld. Skammt þaðan í suður eru rústir af bæ er hét Harðhaus. Lagðist það býli niður skömmu fyrir aldamót vegna sjávargangs, en bæjartóftir sjást enn í dag. Norður og fram af Narfakotsvör er stór steinn, sem heitir Snasi. Milli Narfakotsvarar og Tjarnarkotsvarar liggur malarkambur. Út í sjónum beint fram af túngarði milli Tjarnarkots- og Narfakotsjarða er stór steinn, sem kallast Marka- eða Merkjasteinn. Tjarnarkotsvör  er við botn Tjarnarkotsseylu, og liggur svonefndur Seylubakki norður að syðri Njarðvíkurvör, en sú vör var niður lögð 1935, er byggð var þar dráttarbraut.
Ofan við Seylubakkann liggur Njarðvíkurtjörn og var hún prýði byggðarlagsins þar til fyrir þremur árum, að grafin var skolpveita gegnum Seylubakkann og gengur nú sjór inn í tjörnina á flóðum í stórstraumum og virkar það á þann veg, að gras og gróður drepst þar. Hefir þetta og annað umrót gjört það að verkum, að nú er hún á leið með að verða moldar- eða forardý og er það mjög illa farið að áliti okkar eldri Njarðvíkinga, er þekktum hana eins og hún var frá náttúrunnar hendi.
GarðbærNjarðvíkurvarir voru tvær, suður- og norðurvör. Frá Tjarnarkotsvör og Njarðvíkurvörum var á 19. öld mikil útgerð áraskipa allt frá tveggja manna förum og upp í áttæringa og hélst alltaf nokkur útgerð frá þessum lendingum á árabátum og opnum vélbátum (trillum) fram til ársins 1942. Fyrstu opnu vélbátarnir voru gerðir út frá þessum lendingum og hér í Innri-Njarðvík veturinn 1928, tvær trillur þá vertíð og hélst trillubátaútgerðin óslitin til ársins 1942, lengst af tveir 4-5 [tonna] bátar frá Tjarnarkotslendingu.
Dekkaður vélbátur kom fyrst í Innri-Njarðvík 1912 og hét hann Njarðvík og var eign heimamanna og áttu þeir hann í 7-8 ár. Á árunum 1925 og allt fram yfir 1940 voru gerðir út mótorbátar frá Innri-N[jarð]v[ík] og höfðu þeir lendingu við bryggju steinsteypta, er byggð var á árunum 1925 til 30. Stærð þessara báta var frá 12-30 tonn og voru þeir frá eftirtöldum stöðum: Vestmannaeyjum, Keflavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Hrísey og ef til vill víðar að, og á þessum árum sóttu báteigendur utan af landi eftir að komast með báta sína á vertíð hér við Faxaflóa, jafnvel þó aðstæður væru slæmar miðað við það sem nú er, og urðu menn þá að leggja bátum sínum við legufæri úti á víkinni og oft á lágum sjó og landa fiskinum á opnum smábátum.
StekkjarkotsbrunnurÁ árunum 1925-31 var gerður út átján tonna vélbátur frá Narfakots- og Tjarnarkotslendingum. Í Tjarnarkotslendingu var byggð lítil bryggja, og fiskhús þar upp af á árunum 1927-8, og var þar aðallendingarstaður fyrir trilluútgerðina. Þá útgerð ráku um árabil bræðurnir Finnbogi Guðmundsson, Tjarnarkoti og Sigurgeir Guðmundsson, Akurgerði, er báðir voru formenn, og meðeigandi þeirra var Magnús Pálsson frá Garðbæ.
Skammt norður frá Njarðvíkurvörum er gríðarstór klöpp, sem kölluð er Hundhella. Spölkorn norðaustar er Hákotsvör, var þaðan róið á 19. öld, allt fram yfir 1890. Norður af henni er Hákotstangi og skagar hann lengst í norður hér í Innri-Njarðvíkurbyggð. Suðaustur frá Hákotstöngum er vík, sem heitir Kirkjuvík og ber hún sennilega nafn af kirkjunni, er stendur upp frá víkinni í suðurátt. Austan við Kirkjuvíkina eru háir bakkar.  Er þar mjög stór klöpp, sem kallast Móakotsklöpp, og er aðdýpi mikið við hana. Var oft lent bátum við klöppina til að landa fiski. Var það gert langt fram á 19. öld og er tóft af fiskbyrgi uppi á bakkanum til minja um þá tíma.
Stapinn - sorphaugarFrá þessum stað, austur með sjónum, er klettabelti er nefnist Gálgaklettar. Tilgátur eru um, að þar hafi verið reistir gálgar í fornöld. Þar skammt austar er smáklettanes, fremst á því er stór klettur, sem nefndur er Grákjaftur. Þar fyrir suðaustan er vík, sem heitir Kópa. Við botn hennar að vestanverðu er Stapakotsvör og var stundaður sjór þaðan allt fram til 1930. Fyrir botni Kópu er hár malarkampur allt að Stapaenda, en hann myndar víkina að austanverðu. Þar skammt innar undir Stapanum er mikil klöpp er heitir Sigurðarsteinn. Gömul sögn segir, að maður að nafni Sigurður hafi orðið út undan með skiprúm, en tekið það ráð að renna færi sínu fram af klöppinni og fiskað ekki síður en þeir sem reru.
Dálítið innar með Stapanum er skúti undir bergi, sem kallaður er Svartiskúti. Upp af honum eru tvær vörður, önnur fram undir bergbrún, en hin spölkorn ofar, og heita þær Álbrúnarvörður. Nokkru innar er Ytriskorunef; þar er Stapinn hæstur fram við sjóinn. Þar innar er Ytriskora og var oft áður farið þar niður og náð í kindur er þangað sóttu. Nú síðan í stríðslok eru þar sorphaugar niðri og uppi. Suðurnesjamenn, aðallega Keflvíkingar, hafa keyrt þangað alslags óþverra og fýkur hann í norðanátt langt upp á land og yfir þjóðveginn eins og vegfarendur geta séð, og eru það mikil og skammarleg óþrif.
Í StekkjarkotiNokkru innar er önnur vík, er skerst inn í Stapann, og heitir hún Innriskora og eru þar endamörk Innri-Njarðvíkurlands. Eru landamerki þaðan upp í Arnarklett, sem er spölkorn austur frá Seltjörn.
Svo vil ég segja frá nokkrum fiskimiðum fram af Innri-Njarðvík og undir Stapanum. Fyrst skal nefna Hálfdánarmið. Súla ber (um kirkjuna) … og Litli-Keilir í Fálkaþúfu á innri Stapaendanum. Álbrúnarmið eru að Álbrúnarvörður  fyrrnefndar bera hvor í aðra.
Njarðvíkurbrún kallast þar sem hraunið og leirinn mætast; miðin þar eru: Brúnarhnúkur suðvestur af Keili kemur fram fyrir Grímshólshæð nærri hraunbrún fram úr miðri Njarðvíkinni að vestan og út af Kópu að austan. Klettsmið eða Klettsslóð fram í leirnum var kallað, er Súla bar í Gálgakletta.
Njarðvíkurbrún var kölluð, þegar Súla bar í Njarðvík og Kirkjubrún er Súla bar í kirkjuna; Narfakotsbrún, er Súla bar í Narfakot.
Skoruleir var kallaður undir Stapanum út frá og milli Ytri- og Innriskoru. Voru þessi mið oft mjög fiskisæl, er netafiskur gekk hér á grunnið.
Svo vil ég að lokum segja frá nokkrum býlum í Innri-Njarðvík til viðbótar þeim sem fyrr segir. Fyrst er Lambhús, tómthús utan túngarðs skammt suður frá Narfakoti. Lagðist það býli í eyði skammt eftir síðustu aldamót. Bjuggu þar seinast hjónin Jón og Margrét. Var Margrét systir Sæmundar Jónssonar á Minni-Vatnsleysu. Annað býlið hét Holt og var það í austur frá Lambhúsum og bjuggu þar hjónin Jón Jónsson og Ingigerður Þorsteinsdóttir, er síðar flutti að Akri. Holt lagðist í eyði rétt eftir síðustu aldamót.
Í túnjaðri við túngarðshlið í Tjarnarkoti (var lítið býli er lagðist í eyði upp úr miðri nítjándu öld, var það kallað Hlið. Þar bjuggu síðast, sem vitað er, gömul hjón, Halla og Magnús að nafni.
Ólafsvöllur og Hólmfastskot voru grasbýli byggð í Njarðvíkurtúni skammt hvort frá öðru austan við syðri tjarnarendann og lögðust þau í eyði á síðari hluta fimmta tugs þessarar aldar.
Skammt í austur frá Móum var grasbýli, sem hét Móakot. Bjó þar síðast maður að nafni Guðmundur Bjarnason. Var hann bróðir Péturs, er lengi bjó í Hákoti. Móakot lagðist í eyði um eða fyrir 1890, en jörðin fór í eigu Stapakotsbónda.
Milli Njarðvíkur og Móa var tómthús, sem nefndist Tröð. Bjuggu þar lengi hjón, er hétu Þorgerður og Jósep, en síðast bjuggu þar Sigríður og Sigfús Jónsson. Sigfús var sonur Jóns, er bjó lengi á Vatnsnesi við Keflavík. Lagðist Tröð í eyði skömmu eftir síðustu aldamót.
Er nú þessari frásögn lokið, en ég hef fest hana á blað í samráði við föður minn, Finnboga Guðmundsson, sem er á 76. aldursári og hefur búið í Tjarnarkoti í 51 ár, og var hann á 11. ári, er hann fluttist hér í Innri-Njarðvík. Ég er einnig fæddur og uppalinn hér og hef alltaf átt hér heima, og á uppvaxtarárum mínum var vinnan mest við sjó og á sjó og þurfti í þeim daglegu störfum að vita skil á mörgu, sem nú uppvaxandi kynslóð þarf ekki að vita eða kunna.

Tímarnir breytast og mennirnir með,
margt hefur gengið úr skorðum.
En halda skal í það, er hefir þó skeð
og hugsuðu kynslóðir forðum
.“                                             

Sjá meira undir Njarðvík og Örnefnið.

Heimild m.a.:
-Kristján Sveinsson – Saga Njarðvíkur, Þjóðsaga 1996.
-Örnefnalýsingar fyrir Innri-Njarðvík – ÖI.

Njarðvíkurkirkja
Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir hafa nú runnið saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.
Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag.
Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag.
Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki greinanleg ókunnugum.
Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu.
Njarðvíkin sjálf er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík. Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar.
Sú kirkja, sem þar er nú, var reist 1884-86. Hún var vígð af prófasti séra Þórarni Böðvarssyni 18. júlí 1886. Hún er hlaðin úr handhöggnu grjóti, sem tekið var úr fjörunni og heiðinni, flutt á sleðum heim og höggvið þar; því verki stjórnaði Magnús Magnússon, múrari í Miðhúsum í Garði, sem einnig var yfirsmiður við Hvalsneskirkju. Þak var úr timbri, hellulagt. Ekki er vitað hver vann tréverkið. Ásbjörn Ólafsson, bóndi og hreppstjóri í Innri-Njarðvík stóð fyrir byggingunni. Á árunum 1917 til 1944 var kirkjan lítt notuð sem sóknarkirkja og sóttu Njarðvíkingar kirkju til Keflavíkur. Árið 1944 var kirkjan lagfærð, m.a. smíðaður nýr turn eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Fékk kirkjan töflu þá sem nú prýðir hana að gjöf, það er málverk eftir Magnús Á. Árnason, myndlistarmann. Var hún sett upp á endurvígsludeginum.
Að baki kirkjunni er minnisvarði eftir Ríkharð Jónsson um Jón Þorkelsson Skálholtsrektor, öðru nafni Jón Thorkillius var afhjúpaður við Innri-Njarðvíkurkirkju síðasta laugardag í maí árið 1965. Jón Thorkellius fæddist í Innri-Njarðvík 1697 og dó í Kaupmannahöfn 1759. Jón var mikill lærdómsmaður og barðist fyrir endurbótum í fræðslumálum á Íslandi. Hann arfleiddi fátæk skólabörn í átthögum sínum, Kjalarnesþingi, að öllum eigum sínum. Stofnaður var sjóður, Thorkellisjóður og m.a. var fyrsti barnaskóli landsins starfræktur fyrir fé úr þessum sjóði. Minnisvarðinn sýnir skólamanninn Jón sitjandi með tvö börn og er þetta eitt af stærstu verkum Ríkharðs Jónssonar.
Þarna er og minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson rektor, en hann bjó í Innri-Njarðvík. Minnisvarðin var afhjúpaður 27. febrúar 1991. Þá voru liðin 200 ár frá fæðingu þessa merkismanns sem var fyrsti rektor við Lærða skólann í Reykjavík en hafði áður verið kennari um árabil við Bessastaðaskóla. Sveinbjörn var mikill fræðimaður og þýddi mörg af helstu bókmenntaverkum heims yfir á íslensku, s.s. Hómerskviður og Biblíuþýðingar hans þóttu frábærar. Hann orti líka talsvert og frægastur er eflaust sálmurinn Heims um ból. Sveinbjörn var fæddur á stórbýlinu Innri-Njarðvík árið 1791 og lést 1852. Minnisvarðinn er eftir Áka Gränz og var reistur að tilhlutan bæjarstjórnar Njarðvíkur.
Þjóðhátíðarinnar 1974 var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu. Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874. Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.
Byggðasafn Njarðvíkur er lítið bárujárnsklætt timburhús í Innri Njarðvík sem byggt var í byrjun 20. aldar. Húsið var gefið til Njarðvíkurbæjar á 8. tug síðustu aldar til safnastarfsemi. Þar er nú sýning á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar, aðallega myndir og innanstokksmunir frá síðustu íbúum. Húsið stendur norðvestan við kirkjuna.
Vestar eru tjarnir. Austan þeirra er brunnur. Suðvestan við brunninn eru tóftir grasbýla, sem jafnan tóku nafn af húsráðendum sínum hverju sinni. Eitt þeirra var Hólmfastskot.
Íslandssagan segir frá því að árið 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt. Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp. Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
Garðbær er skammt suðvestar, hlaðinn úr tilhöggnu grjóti. Bærinn hét áður Bræðraborg. Við hlið hans stendur nýrra íbúðarhús klætt bárujárni, sennilega frá byrjun 20. aldar. Við norðurenda þess er þurrkhjallur, sem algengir voru við hús hér fyrrum.
Stekkjarkot er í Innri Njarðvík. Það er endurgert tilgátuhús sem, reist var árið 1993, fjósi var svo bætt við sumarið 2002. Þarna hafði áður staðið gömul sjóbúð að upplagi frá 1856 en yngsti hluti frá fyrri hluta 20. aldar. Húsin eru í góðu standi og ætlunin er að hafa þau opin fyrir ferðamenn og minni háttar móttökur.
Fitjarnar voru ofan við Njarðvíkina. Þær þóttu farartálmi á ferðum fólks milli byggðalaganna, auk þess sem skrímslu gerðu sig þar stundum sýnileg ofan við kampinn, einkum að kvöldlagi. Við þjóðleiðina um Fitjar stóð eitt sinn grasbýli, sem bókstaflega var etið út á gaddinn.
Um árið 1890 varð uppi fótur og fit í Innri-Njarðvík út af dýri ókennilegu, sem þar hafði sézt nýlega á Kampinum heima við íveruhúsið. Sjónarvottar lýstu því svo, að það hefði verið áþekkast tryppi, að því fráskildu, að það var með upphringaðan hala eins og hundur. Það var hvítt á lit. Vinnumenn og sjómenn í Innri-Njarðvík hlupu út til að skoða þessa skepnu nánar. En þá tók hún á rás fram til sjávar. Þeir eltu hana, þar til þeir sáu hana hverfa í sjóinn niðri í Kirkjuvík.
Heiman frá bænum í Innri-Njarðvík niður í Kirkjuvík mun hafa verið um 200 metra vegalengd. Eitt kvöld rétt fyrir miðjan nóvembermánuð árið 1912 fór bóndinn út í fjós, eins og venjulega, til að vatna kúnum. Það mun hafa verið um tíuleytið og orðið alrokkið. Fjósið og önnur útihús, sem hér koma við sögu, voru þann veg sett, að syðst var hesthús með dyrum á móti suðri. Norður af því var fjósið og gengið í það úr hesthúsinu. En nyrzt og áfast við fjósið var fjárhússkúr og dyr á honum í austur. Við vesturhlið hans var steyptur brunnur, sem safnað var í rigningarvatni af þökum gripahúsanna handa búpeningnum, en þess utan var yfir honum hlemmur. Örskammt frá suðvesturhorni hesthússins var vanhús, með dyrum til norðurs. Sást úr þeim meðfram vesturveggnum á hesthúsinu, fjósinu og fjárhússkúrnum og til brunnsins.
Stúlka fór með föður sínum þetta kvöld og skrapp á vanhúsið, á meðan hann var að vatna kúnum. Hesthúsdyrnar voru opnar og lagði út um þær daufa glætu frá ljósi, sem faðirinn hafði hjá sér í fjósinu. Vanhúsdyrnar stóðu líka opnar, og sá hún ljósglætuna út um þær, dálítið skáhallt til hægri hliðar. Hafði stúlkan ekki lengi setið á vanhúsinu, þegar henni verður litið um dyrnar norður með gripahúsunum. Þykist hún þá sjá skepnu, líkasta tryppi, standa á brunnhlemminum, um tíu metra frá henni. Hún þorði ekki að trúa sinni eigin sjón og kreisti aftur augun í þeirri von, að þetta yrði horfið, þegar hún opnaði þau á ný, sem hver önnur missýning. En það varð ekki. Þegar stúlkan opna augun, sér hún glöggt, hvar skepnan stendur á hlemminum, hvít á lit, eða annan lit gat eg ekki greint á henni. Hún sneri hliðinni að stúlkunni og sperrti eyrun eins og hestur, sem hlustar, og horfði í vesturátt til næsta bæjar, er hét Hákot. Stúlkan reyni að telja sér trú um, að þetta væri náttúrulegt tryppi. En þá tók hún eftir því, að það hefur upphringaðan hala eins og hundur. Þá gat hún ekki beðið boðanna lengur og kalla til föður síns. Hann kemur út í hendingskasti, hélt víst af kallinu, að eitthvað hefði orðið að dóttur sinni.
Hún segi við hann: „Sjáðu dýrið, sem stendur á brunnhlemminum!“
Faðirinn lítur þangað og segir: „Eg sé ekkert dýr.“
En við því var máski ekki að búast. Hann var nýkominn út í myrkrið úr ljósbirtunni og mun hafa verið dimmt fyrir augum. Í sömu svifum sér stúlkan dýrið snarsnúa sér við og skjótast austur fyrir fjárhúshornið, eins og í átt til kirkjunnar. Nú var henni runninn móður í brjóst og segir við föður sinn: „Við skulum hlaupa austur fyrir húsin og vita, hvort við sjáum ekki til þess.“
Feðginin þutu þangað, en urðum einskis vör. Dýrið var horfið.
Fyrir nokkrum árum var í Njarðvíkum suður maður sem Bjarni hét Högnason. Hann sagði eitt sinni frá því að hann hefði orðið fyrir áleitni af sjóskrímsli þar í víkunum og komist nauðulega undan. Gat hann þess og til að það mundi sitja um sig. Svo leið og beið þangað til að hann átti ferð síðla dags á milli Njarðvíkna. En áður hafði hann orðið skrímslisins var á milli þeirra og Keflavíkur og uggði því síður að sér. Hann lenti í myrkri og kom eigi sem menn væntu um nóttina né morguninn. Var hans þá leitað og fannst hann þegar dauður með ærið miklum áverkum. Töldu menn það víst að skrímslið hefði hitt hann aftur og gert útaf við hann. Engin glögg sögn er til um útlit þessa skrímslis.Frá Fitjum í Njarðvík liggur forna þjóðleiðin Skipsstígur til Grindavíkur. Vörður hafa fallið á fyrrihluta leiðarinnar, en eru mjög greinilegar frá Stapafelli til Grindavíkur og Húsatófta (Árnastígur).  Áætlaður göngutími er u.þ.b. 5 klst.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stóru-Vogar

17. Vogar – Ytri-Njarðvík

-Vogar
Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga. Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti. Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð, þar sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð og úr var Stóru-Vogar. Þar fæddist Páll Eggert Ólafsson (1883-1949) prófessor. Páll er einn mikilvægasti sagnfræðingur Íslands fyrr og síðar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stopplabryggja og fiskhús reist. Árið 1942 var reist hraðfrystihús. Margt er að skoða í nágrenni Voga og eru þar margar skemmtilegar og áhugaverðar gönguleiðir og sérkennileg náttúra allt í kring. Fyrirhugað var að reisa álver á Keilisnesi við Voga en því hefur nú verið frestað, hvað sem síðar verður. Sterkasti maður landsins Jón Daníelsson bjó í Vogum og á hann að hafa flutt til bjarg eitt mikið með eigin afli. Hann lézt ungur og er bjargið nú minnisvarði um hann við Vogaskóla.
Vegalengdin frá Reykjavík er 44 km.

-Landnámsmenn
Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga. Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti.

-Íbúafjöldi
1. desember 2004 voru íbúar 939. Þar af voru karlar 486 og konur 453.

-Hvað gerir fólkið þar til að framfleyta sér?
Aðallega þjónusta, opinber störf, verslun og sjósókn. Margir stunda vinnu utan þorpsins, s.s. á höfðuborgarsvæðinu, enda er ekki nema u.þ.b. 15 mín. keyrsla til Hafnarfjarðar. Voga- og Vatnsleysustrandarbúar hafa haft hug á því að sameinast Hafnfirðingum. Ástæðan er hræðsla við að sameinast Reyknesbæingum, sem jafnan virðast hafa sýnt nágrönnum sínum yfirgang. Ekki meira um það því leiðsögn á að vera uppbyggjandi.

-Vogastapi
Hét á landnámsöld Kvíkuvogsbjarg en seinna nefndur Vogastapi, stundum aðeins Stapi, einkum af heimamönnum. Grágrýtishæð (80 m.y.s.) milli Vogavíkur og Njarðvíkur, þverhníptur að framan en með aflíðandi halla inn til landsins. Stapinn er gróðurlítill og víða mjög blásinn. Sunnan í honum liggur Reykjanesbraut. Af Grímshóli, hæst á stapanum er mikil og góð útsýn og einnig útsýnisskífa sem Ferðafélag Keflavíkur lét reisa. Grímshóls er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Á Vogastapa hefur þótt reimt allt fram á þennan dag enda hafa margir villst þar fyrr á árum í hríðarveðri og náttmyrkri og ýmist hrapað fram af Stapanum eða orðið úti. Áður fyrr vildu menn yfirleitt ekki fara yfir Stapann að næturlagi, væru þeir einir á ferð. Á seinni áratugum hafa sumir vegfarendur, sem leið hafa átt um Stapann þóst sjá þar mann á ferli með höfuð undir hendinni þannig á sig kominn átti hann það til að setjast inn bíla ef menn voru einir á ferð.

-Fiskeldi – sæeyru
Elur upp og ræktar sæeyru til útflutnings. Þarna starfa um 6 menn að jafnaði. Reksturinn virðist ganga vel. Skelin einkar falleg og litskrúðug.

-Stapinn – Stapabúð – Brekka – Hólambúð – Kerlingarbúð

-Reiðskarð – Stapagata
Saga af konu með kú og hund í þoku – hvarf…

-Stapadraugurinn
Ökumaður sagði svo frá:
„Eitt sinn sem oftar var ég að koma af Suðurnesjum, eftir að hafa flutt þangað ýmsan varning. Þetta var í byrjun nætur, og var mér rótt í geði, þar sem ég sat einn í hlýju húsi vörubíls á nýjum steinsteyptum vegi. Þau stóðu þó ekki lengi rólegheitin mín, því að ég varð þess skyndilega var, að maður var kominn við hlið mér. Var hann klæddur hettuúlpu og sá ógerla í andlit honum, þar sem hann sneri því sem mest frá mér. Ég vissi ekki, hvaðan á mig stóð veðrið, og varð mér sem nærri má geta meir en illt við.
„Hvað ertu þú að gera hér?“ spurði ég hranalega og dró um leið úr hraða bílsins eftir megni, en ekki er gott að snarstanza í slíkri umferð eins og er á Keflavíkurvegi á nótt sem degi.
Engu svaraði maðurinn og sneri frá mér í sætinu eins og áður. Bíllinn var nú stanzaður og ég hugsaði mér að láta til skarar skríða við þennan óvelkomna gest, sem ég hugði helzt, að hefði komizt inn í bílinn, áður en ég lagði af stað, og ég hefði ekki tekið eftir honum þá.
En ekki þurfti að koma til átaka, því að eins skyndilega og farþeginn hafði birzt, hvarf hann nú og var aðeins autt sætið, þar sem hann hafði setið. Ég ók hálf utan við mig í bæinn og hef síðan sótzt eftir raunverulegum farþegum á þessari leið, sem öðrum, er ég hefi ekið. Hinir geta farið með öðrum en mér.“

Önnur saga:
Sigurður E. Þorkelsson, skólastjóri Holtaskóla og Gylfi Guðmundsson, skólastjóri Njarðvíkurskóla eru æskuvinir. Hafa ætíð verið miklir samgangar á milli þeirra til þessa dags. Í þann tíð bjuggu þau Gylfi og Guðrún, kona hans í Kópavogi og renndu þau einu sinni sem oftar suður í heimsókn í byrjun desember.
Segir ekki af veru þeirra í Keflavík, en langt eftir miðnætti lögðu þau af stað heim í kulda og kafaldsbyl. Er þau komu á mót við Grindavíkurafleggjarann, sjá þau mann við vegarkantinn sem biður um far með bendingu. Þau taka manninn uppí. Hann er úlpuklæddur að þeirra tíma sið, svo lítið sést andlit eða önnur sérkenni.Ekki líður á löngu en Gylfi, sá samræðumaður, vill spjalla við hinn farþegann og spyr hann allmæltra tíðenda. Ekki fær hann nokkurt svar. En hann heldur áfram að spyrja hann um erendi á Stapanum og annað í þeim dúr, en engin fær hann svörin. Finnst honum þetta no

kkuð einkennilegt og lítur í baksýnisspegilinn og sér þá að enginn er í aftursætinu. Þá lítur hann aftur og sér strax að enginn farþegi er þar afturí. Um hann fer ónotahrollur, enda vel kunnugur sögnum af Stapadraugnum. Hann snýr sér að konu sinni og biður hana að líta aftur í. Nú eru þau bæði orðin nokkuð hrædd og til að stappa í sig stálinu fara þau að syngja, enda bæði söngmenn góðir. Á þessu gengur þar til þau koma á mót við kirkjugarðinn í Hafnarfirði að rödd heyrist úr aftursætinu:
“Hér fer ég út.”
Til er skýring á þessu atviki. En það mun skemma söguna. svo hér læt ég staðar numið.

Og enn önnur saga:
Eitt kvöld ók leigubílstjóri úr Reykjavík suður til Keflavíkur til þess að sækja fólk. Hann var einn í bílnum. Á var dumbungsveður, en úrkomulaust og föl á jörðu. Þegar hann var á veginum milli Voga og Vogastapa sá hann, hvar maður stóð á vegarbrúninni, lítið eitt fram undan. Þegar hann kom nær, sá hann að hann var í hermannabúningi og taldi víst, að þetta væri Bandaríkjamaður að bíða eftir fari til Keflavíkur. Hann stöðvaði bílinn og bauð gestinum á ensku að gera svo vel að setjast inn. Sá anzaði ekki, en smeygði sér þegjandi inn og settist við hlið bílstjórans sem ók af stað. Hann fór að tala á ensku og spyrja manninn hvert hann væri að fara. En hann svarar engu, lítur ekki við honum og horfir beint fram. Þegar hann var kominn þangað upp í Stapann, sem braut lá út af veginum að braggahverfi, sem Bandaríkjaherinn hafði haft þar á stríðsárunum, þá sá hann að maðurinn var horfinn hljóðalaust úr bílnum.
Seinna flutti sami maður eitt kvöld fólk úr Reykjavík

 suður til Keflavíkur og fór þaðan til baka inn eftir um klukkan fjögur um nóttina. Hann var aleinn í bílnum og stanzaði hvergi. Þegar hann kom inn á Vogastapa, þar sem hann er hæstur, varð honum litið í spegilinn fyrir framan sig. Þá blasti þar við augum hans furðuleg sjón. Sá hann í speglinum, hvar tveir menn sátu hlið við hlið í aftursætinu. Hann sá að á þeim var nokkur aldursmunur, og var sá eldri með hatt á höfði, sem slútti niður yfir ennið, og bar hann hærra í sætinu. Manninum brá nokkuð við þessa sýn, en rétt á eftir að hún birtist í speglinum, vildi svo til, að bíll kom á eftir með sterkum ljósum, sem skinu litla stund inn í bíl hans aftan frá, og sá hann þá mennina í speglinum ennþá greinilegar. Enn sá hann þá betur, þegar hann var að fara niður Stapann og tunglið á himninum féll beint á spegilinn. Hann herti á akstrinum, því að hann kunni betur við að vita af bílnum á eftir sér en að verða einn eftir á veginum. Þarna sátu þessir náungar hreyfingarlausir, þar til hann var kominn eitthvað inn fyrir Voga. Þá hurfu þeir eins skyndilega og þeir birtust.
Sami bílstjóri var að flytja mann suður í Keflavík í ausandi rigni

ngu. Þegar hann var kominn uppundir hástapann á suðurleið, springur dekkið á öðru afturhjóli bílsins. Hann varð auðvitað að taka það af hjólinu og setti á það annað dekk, lítt notað. Síðan hélt hann áfram og skilaði manninum af sér í Keflavík og ók að því búnu sem leið lá til baka. En þegar hann kom nákvæmlega á sama stað og dekkið hafði sprungið á í suðurleiðinni, þá sprakk dekkið, sem hann hafði sett þar á hjólið. Hann tók það af og fór að bauka við að gera við það á afturgólfinu í bílnum, setti það svo á hjólið og hélt sína leið. Þessar bilanir fundust manninum mjög kynlegar, í fyrsta lagi vegna þess, að bæði hjólin skyldu springa nákvæmlega á sama stað og ennfremur af því, að þau voru bæði lítt slitin og vegurinn sízt verri þarna en annars staðar.

-Herspítalinn – Daily Camp
Fullkominn herspítali – rúm fyrir hundruðir hermanna. Enn sjást minjar eftir spítalann.

-Matjurtargarður
Hlaðnir utan í sunnanverðan stapann – atvinnubótavinna.

-Grindavíkurvegurinn 1914-1918
Minjar á a.m.k. 12 stöðum – hlaðin byrgi o.fl.

-Grímshóll – þjóðsaga
Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

-Brúnavarða – markavarða
Önnur varða er úr henni innar á heiðinni, en menn hafa viljað gera sem minnst úr henni….

-Innri-Njarðvík – sagan
Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu.

Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík. Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík.

Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag. Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur.Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag

Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot, dæmigert heimili frá síðustu öld, verið endurbyggð. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

-Innri-Njarðvíkurkirkja 

Innri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurprestakalli í Kjalarnesprófstsdæmi. Hún hefur staðið í margar aldir í Innri-Njarðvík. Sú kirkja sem þar er nú var reist 1884-86, var hún vígð af prófasti séra Þórarni Böðvarssyni 18. júlí 1886. Hún er hlaðin úr handhöggnu grjóti, sem tekið var úr fjörunni og heiðinni, flutt á sleðum heim og höggvið þar; því verki stjórnaði Magnús Magnússon, múrari í Miðhúsum í Garði, sem einnig var yfirsmiður við Hvalsneskirkju. Þak var úr timbri, hellulagt. Ekki er vitað hver vann tréverkið. Ásbjörn Ólafsson, bóndi og hreppstjóri í Innri-Njarðvík stóð fyrir byggingunni.
Á árunum 1917 til 1944 var kirkjan lítt notuð sem sóknarkirkja og sóttu Njarðvíkingar kirkju til Keflavíkur. Árið 1944 var kirkjan lagfærð, m.a. smíðaður nýr turn eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Fékk kirkjan töflu þá sem nú prýðir hana að gjöf, það er málverk eftir Magnús Á. Árnason, myndlistarmann. Var hún sett upp á endurvígsludeginum.

-Sveinbjörn Egilsson
Sveinbjörn Egilsson (1791–1852), fornfræðingur, skáld og þýðandi.
Fæddur í Innri-Njarðvík 24. febrúar 1971, sonur Egils Sveinbjarnarsonar og Guðrúnar Oddsdóttur. Sigldi til Khafnar 1814 og lauk guðfræðiprófi 1819, ráðinn kennari að Bessastaðaskóla sama ár og kenndi þar grísku og sögu. Dvaldist í Kaupmannahöfn 1845-1846 og varð 1847 fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík. Eftir uppreisn skólasveina 1850, svokallað pereat, þar sem Arnljótur Ólafsson fór fremstur í flokki, fékk hann lausn frá embætti með sæmd og lést 17. ágúst 1852.
Sveinbjörn er kunnastur sem þýðandi Hómerskviðna og fræðimaður á sviði íslenskra fræða en í Bessastaðaskóla kenndi hann einnig rit Platons: Málsvörn Sókratesar, Kríton, Faídon og Menón. Einnig eru skólaræður hans, þar sem hann fjallar m.a. um samband þekkingar og dygðar, athyglisverðar frá heimspekilegu sjónarmiði.
Nokkur rit: Skólaræður Sveinbjarnar Egilssonar (1968); Platon: Menón, skólaþýðing eftir Sveinbjörn Egilsson (1985).

-Hólmfastur Guðmundsson – einokunarverslunin
Sagan af Hólmfasti og viðskiptum hans af Hafnarfjarðarkaupmanninum og Njarðvíkurkaupmanninum – einokunarverslunin. Bær Hólmsfast (tóftir) eru sýnilegar í Innri-Njarðvík sem og brunnur sá, sem hann sótti vatn sitt í.

Kaupsvæði Keflavíkurverslunar var ekki glöggt afmarkað og kom ekki að sök því lengstum verslaði sami kaupmaður þar og á Básendum. Oftast var þó talið að það næði yfir Garðinn, Leiruna, Keflavík og Njarðavík. Þó töldu sumir Keflavíkurkaupmenn að þeim bæri einnig réttur til verslunar í Vogum og Brunnastaðahverfi.
Vera má að þessi óvissa hafi verið undirrót þekktra málaferla á hendur Hólmfasti Guðmundssyni árið 1699, en hann var þá búsettur í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og átti að versla í Hafnarfirði, en lagði inn lítilsháttar af fiski hjá Keflavíkurkaupmanninum og var húðstrýktur fyrir.
Kaupsvæðaskipulagið var eitt þeirra málefna sem Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku til athugunar á ferðum sínum um landið skömmu eftir 1700. Einkum komu þessi mál til kasta Árna Magnússonar og var hann raunar hlynntur áframhaldandi kaupsvæðaverlsun með þeim rökum að kaupsvæðin tryggðu nauðsynlega siglingu til landsins. Árni komst einnig í kynni við Hólmfast og var harla hneykslaður á meðferðinni á honum, og má vera að útreiðin, sem Hólmfastur fékk, hafi einmitt orðið Árna tilefni til að gera að tillögu sinni við yfirvöld í rentumammeri að kaupsvæði Keflavíkur yrði látið ná yfir Brunnastaðahverfi.
Árið 1699 var Hólmfastur Guðmundsson 52 ára og bjó í Brunnastaðahverfi á Vatnseysuströnd, sem tilheyrði lögvernduðu verslunarsvæði Hafnarfjarðar. Hólmfastur mátti því engum kaupmanni selja fisk nema Hafnarfjarðarkaupmanni, en tók það fyrir að flytja á báti sínum frá Brunnastöðum, þvert yfir Stakksfjörðinn til Keflavíkur, 20 harða fiska í eigu vinnumanns nokkurs, átta fiska í eigu vermanns að austan og 10 ýsur og þrjár löngur, sem hann átti sjálfur. Þessa fiska seldi Hólmfastur í Keflavíkurbúð og gerðist þar með brotlegur við tilskipun um kaupsvæðaverslun. Slíka ögrun þoldu yfirvöld vitaskuld ekki af ótíndum alþýðumanni og sjálfsagt hefur óhlýðnin þótt alvarlegri fyrr það að Hólmfastur lét sér ekki duga að selja sinn eigin fisk, heldur kom fiski annarra í lóg einnig. Dómur í máli Hólmfasts var haldinn á Kálfatjörn þann 27. júlí 1699. Dómari var Jón Eyjólfsson sýslumaður, og sátu báðir Njarðvíkurbændur, Þorkell og Gísli, í dómnum, auk nokkurra nágrannabænda annarra, en Jens Jörgensen, fullmektugur á Bessastöðum, sótti málið af hálfu kaupmanna. Þarf ekki að orðlengja það að dómurinn komst að samhljóða niðurstöðu um sekt Hólmfasts og var hann dæmdur til að greiða kóngi átta ríkisdali í sekt eða þola vandarhögg. En því var skotið til ærði yfirvalda hvort ástæða væri til að senda hinn óhlýðna Hólmfast til Brimarhólmsdvalar og báðu dómsmenn honum reyndar ásjár í því efni.
Árni Magnússon, á ferð sinni um landi, tók upp mál Hólmfasts og fékk honm dæmdar 20 ríksidala bætur fyrir dóminn og hina illu meðferð á honum. Löngu seinna komst Hólmfastur á síður einnar þekktustu skáldsögu Halldórs Laxness (Íslandsklukkuna).
Dómurinn yfir Hólmfasti var óneitanlega harður, en hann var þó fráleitt einsdæmi. Öll frávik frá fyrirskipuðum reglum voru illa séð, sérstaklega ef menn lögðu stund á launverslun, sem kallað var, þ.e. versluðu við annarra þjóða menn en Dani. Lengi voru þýsk, ensk og hollensk fiskiskip hér við land eftir að einokun komst á. Árið 1684 voru t.d. nokkri Suðurnesjamenn kallaðir fyrir fulltrúa réttvísinnar á þingstaðnum Kálfatjörn og dæmdir til búslóðamissins fyrir að hafa verslað á laun við hollenska duggara og var dómurinn staðfestur á alþingi árið eftir.
Eftir 1700 mun hafa dregið úr launverslun og um 1740 var hún nánast horfin. Hólmfastur fluttist síðar að Hólmfastskoti í Innri-Njarðvík.

-Byggðasafn
Njarðvík er lítið bárujárnsklætt timburhús í Innri Njarðvík sem byggt var í byrjun 20. aldar. Húsið var gefið til Njarðvíkurbæjar á 8. tug síðustu aldar til safnastarfsemi. Þar er nú sýning á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar, aðallega myndir og innanstokksmunir frá síðustu íbúum. Húsið er opið eftir samkomulagi, uppl. í síma 421 6700.

-Faxaflói
Sagan af Faxa í Þjóðsögum Jóns Árnasonar – lík Rauðhöfða. Nokkuð breytt og mikið stytt frá hinum.
Þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.

-Steinlistaverk – eftir hvern og hvað eiga þau að tákna?
Áki Gränz, listamaður – steintröll – til að minna á örnefni og lífga upp á annað tilbreytingarlaust landslag á Njarðvíkurheiðinni. Skiptar skoðanir eru um „steintröll“ þessi, enda höggva þau á stundum nærri fornminjum, andstætt lögum.

-Go-Kart
Akstursíþrótta- og leiksvæði. Kjörin afþreying.

-Kaffi tár
Kaffiframleiðsla og kaffikynning. Tilvalin afþreying.

-Gluggaverksmiðja
Rammi – fór á hausinn. Húsið er til sölu, en hýsir nú Íslending.

-Bílasölur
Margar á litlu svæði í ekki stærra bæjarfélagi – hlýtur aðvera heimsmet.

-Ytri-Njarðvíkurkirkja
Ytri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var vígð á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 1979 eða tæpum áratug eftir að fyrsta skóflustungan var tekin.
Kirkjan er teiknuð af arkitektunum Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall. Hún er 400 fermetrar að grunnfleti og undir henni er 108 fermetra kjallari. Kirkjuskip rúmar 230 manns í sæti en safnaðarsalur, sem opnanlegur er inn í kirkjuskipið, rúmar 100 manns.

-Stekkjarkot

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Bærinn Stekkjarkot er við Njarðvíkurfitjar, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur.
Stekkjarkot var síðasti torfbærinn í byggð, í Njarðvík.
Bærinn var að miklu leyti reistur úr torfi og grjóti.
Búið var á bænum í um þrjátíu ára skeið en þó með hléum, á árunum 1857 til 1924.
Stekkjarkot var þurrabúð og þar lifði fó

lk á sjósókn. Matarkostur ábúenda var nú alls ekki fjölbreyttur og var því ekki úr miklu að moða. Helsta fæða ábúenda var tros, þ.e. fiskhausar, fuglakjöt og egg, svo að eitthvað sé nefnt. Síðustu ábúendurnir (1921–1924) bjuggu þó við mun betri kjör. Þau áttu eina kú sem geymd var innst í göngunum. Í túnjaðrinum var kálgarður sem þótti gefa vel af sér. Það má segja að ábúendur í Stekkjarkoti hafi verið þekktir fyrir uppskeru sína þar sem að kálgarðurinn þótti frægur hvað varðar góðar kartöflur og næpur. Túngarðurinn í kringum húsið er afmarkaður með grjóthleðslu og önnur grjóthleðsla er í kring um kálgarðinn.
Þurrabúð er verustaður fyrir sjómenn sem eiga sér ekki fastan viðverustað en leigja af bændum skika undir hús og fá aðgang að sjó.
Stekkjarkot í Innri Njarðvík er tilgátuhús sem reist var árið 1993, fjósi var svo bætt við sumarið 2002. Þarna hafði áður staðið gömul sjóbúð að upplagi frá 1856 en yngsti hluti frá fyrri hluta 20. aldar. Húsin eru í góðu standi og ætlunin er að hafa þau opin fyrir ferðamenn og minni háttar móttökur. Nú er Stekkjarkot opið eftir samkomulagi, uppl. í síma 421 6700.
Neðan við Stekkjarkot er ætlunin að reisa víkingaþorp þar sem Íslendingur mun leika aðalhlutverkið.

-Bolafótur – Hallgrímur Pétursson
Þegar síra Hallgrímur Pétursson fór suður á Hvalsnes að taka við prestakalli sínu þar, var hann fótgangandi. Kom hann seinni part dags á prestssetrið, þreyttur mjög og svangur. Í eldhúsi sat kona og eldaði graut og bað hann hana að gefa sér að borða. Bað kerling hann að hypja sig í burtu hið bráðasta og gaf hreint afsvar, því að hún sagði, að vellingurinn ætti að vera handa nýja sóknarprestinum, honum síra Hallgrími.
Varð síra Hallgrími þá að orði:

Einhvern tíma, kerling, kerling,
kann svo til að bera,
að ég fái velling, velling
og verði séra, séra

-Skipasmíðastöð
Skipasmíðastöð Njarðvíkur var stofnuð árið 1945. Megin verkefni eru viðgerðar og viðhaldsverkefni í skipum. Starfsmannafjöldi er um 45 að jafnaði árið um kring og skiptist starfsemin þannig:
• Uppsátur & málningardeild
• Plötusmiðja
• Trésmíðaverkstæði
• Véla & renniverkstæði
• Lager
Haustið 1998 tók Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. í notkun nýtt skipaskýli þar sem boðið er upp á allar almennar skipaviðgerðir allt árið um kring, óháð veðri.
Byggingin er í raun stærsti minnisvarði um Hallgrím Pétursson, næst á eftir Hallgrímskirkju í Reykjavík, en bær Hallgríms var þar sem stöðin er nú.

Hafnir

Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna.

Keflavík

Gömlu-Hafnir

Vörslugarður í Gömlu-Höfnum.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok.
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús. Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ. Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn.
Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík.
Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.

Stampar

Stampur; gígur.

Hröð aukning hefur verið í ferðaþjónustu og eru þar nú hótel í háum gæðaflokki og úrvals veitingastaðir sem og önnur gisting og tjaldsvæði. Keflavík hefur löngum verið nefndur bítlabærinn en þar má segja að sé vagga rokksins og bítlaæðisins hérlendis. Ein fyrsta, og vinsælasta, rokkhljómsveit landsins, Hljómar, var stofnuð í Keflavík og er ávallt kennd við staðinn. Hin árlega Ljósanótt í Reykjanesbæ nýtur sívaxandi vinsælda.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.
Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Keflavík

Listaverk í Keflavík.

Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana. Við enda Hafnargötunnar er Grófin og jafnframt elsti hluti Keflavíkur. Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið. Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar. Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús, sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.

Keflavík

Tóft Keflavíkurbæjarins.

Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð, sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fysr reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þat hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls.
Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.
Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Keflavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin og Rósasel við Rósaselsvötn.
Sorphirðustöð Reykjanesbæjar heitir Kalka eftir kalkaðri vörðu, sem stóð utan í stórum fallegum eldgíg efst á Háaleiti. Þegar Keflavíkurflugvöllur var lagður var gígurinn flattur út, líkt og svo margt annað á þeim tíma.

Njarðvík

Hafnir

Við Kirkjuvog.

Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.
Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu. Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík.
Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.
Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag. Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot verið endurbyggð. Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, bjó um tíma á Bolafæti þar sem nú er skipasmíðastöðin. Öllum minjum þar hefur verið spillt. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

Gömlu-Hafnir

Fiskbyrgi.

Stekkjarkot er tilgátuhús, byggt eftir tilsögn konu, sem bjó þar í kringum 1920. En kotið er að stofninum til frá 19. Öld. Þetta er eitt af hinum fjölmörgu smákotum, sjávarbýlum, sem einkenndu byggðina hér áður fyrr. Kotbúar lifðu aðallega á sjósókn sinni, en flestir stunduðu einhvern búskap samhliða þótt eflaust hafi einnig verið svokallaðar þurrabúðir þar sem eingöngu var lifað af því sem sjórinn gaf.
Fitjarnar eru að ganga í gegnum umbreytingu þar sem stefnt er að gera þær aðlaðandi til útivistar og í framtíðinni mun Naust Íslendings rísa á þessum slóðum. En það er stefna bæjaryfirvalda að þessi staður verði fyrsti og síðasti viðkomustaður ferðamanna sem fara um leifsstöð.

Hafnir

Njarðvík

Frá Njarðvíkum.

Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.
Hafnir, Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi (sjá nánar). Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.
Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.

Keflavík

Upplýsingaskilti við gamla Keflavíkurbæinn.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Keflavík

Duushús.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 3. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.

Njarðvík

Njarðvíkurkirkja.

Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.
Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey.
Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld.
Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur. Það var talið fullvíst að lögbýlin hafi verið fleiri, enda mörg örnefni sem benda til þess að svo hafi verið. En með Reykjaneseldum á 13. öld eyddist byggðin sunnan Kalmannstjarnar.

Heimildir m.a.:
-www.nat.is
-www.leoemm.com
-Sigrún Ásta Jónsdóttir, Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Brunnastaðir

Kaupsvæði Keflavíkurverslunar var ekki glöggt afmarkað og kom ekki að sök því lengstum verslaði sami kaupmaður þar og á Básendum. Oftast var þó talið að það næði yfir Garðinn, Leiruna, Keflavík og Njarðavík. Þó töldu sumir Keflavíkurkaupmenn að þeim bæri einnig réttur til verslunar í Vogum og Brunnastaðahverfi.

Hólmfastskot

Hólmfastskot í Njarðvíkum.

Vera má að þessi óvissa hafi verið undirrót þekktra málaferla á hendur Hólmfasti Guðmundssyni árið 1699, en hann var þá búsettur í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og átti að versla í Hafnarfirði, en lagði inn lítilsháttar af fiski hjá Keflavíkurkaupmanninum og var húðstrýktur fyrir.
Kaupsvæðaskipulagið var eitt þeirra málefna sem Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku til athugunar á ferðum sínum um landið skömmu eftir 1700. Einkum komu þessi mál til kasta Árna Magnússonar og var hann raunar hlynntur áframhaldandi kaupsvæðaverlsun með þeim rökum að kaupsvæðin tryggðu nauðsynlega siglingu til landsins. Árni komst einnig í kynni við Hólmfast og var harla hneykslaður á meðferðinni á honum, og má vera að útreiðin, sem Hólmfastur fékk, hafi einmitt orðið Árna tilefni til að gera að tillögu sinni við yfirvöld í rentumammeri að kaupsvæði Keflavíkur yrði látið ná yfir Brunnastaðahverfi.

Hólmfastskot

Hólmfastskotsbrunnur.

Árið 1699 var Hólmfastur Guðmundsson 52 ára og bjó í Brunnastaðahverfi á Vatnseysuströnd, sem tilheyrði lögvernduðu verslunarsvæði Hafnarfjarðar. Hólmfastur mátti því engum kaupmanni selja fisk nema Hafnarfjarðarkaupmanni, en tók það fyrir að flytja á báti sínum frá Brunnastöðum, þvert yfir Stakksfjörðinn til Keflavíkur, 20 harða fiska í eigu vinnumanns nokkurs, átta fiska í eigu vermanns að austan og 10 ýsur og þrjár löngur, sem hann átti sjálfur. Þessa fiska seldi Hólmfastur í Keflavíkurbúð og gerðist þar með brotlegur við tilskipun um kaupsvæðaverslun. Slíka ögrun þoldu yfirvöld vitaskuld ekki af ótíndum alþýðumanni og sjálfsagt hefur óhlýðnin þótt alvarlegri fyrr það að Hólmfastur lét sér ekki duga að selja sinn eigin fisk, heldur kom fiski annarra í lóg einnig. Dómur í máli Hólmfasts var haldinn á Kálfatjörn þann 27. júlí 1699. Dómari var Jón Eyjólfsson sýslumaður, og sátu báðir Njarðvíkurbændur, Þorkell og Gísli, í dómnum, auk nokkurra nágrannabænda annarra, en Jens Jörgensen, fullmektugur á Bessastöðum, sótti málið af hálfu kaupmanna. Þarf ekki að orðlengja það að dómurinn komst að samhljóða niðurstöðu um sekt Hólmfasts og var hann dæmdur til að greiða kóngi átta ríkisdali í sekt eða þola vandarhögg. En því var skotið til ærði yfirvalda hvort ástæða væri til að senda hinn óhlýðna Hólmfast til Brimarhólmsdvalar og báðu dómsmenn honum reyndar ásjár í því efni.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmsfastskots í Njarðvíkum.

Árni Magnússon, á ferð sinni um landi, tók upp mál Hólmfasts og fékk honm dæmdar 20 ríksidala bætur fyrir dóminn og hina illu meðferð á honum. Löngu seinna komst Hólmfastur á síður einnar þekktustu skáldsögu Halldórs Laxness (Íslandsklukkuna).
Dómurinn yfir Hólmfasti var óneitanlega harður, en hann var þó fráleitt einsdæmi. Öll frávik frá fyrirskipuðum reglum voru illa séð, sérstaklega ef menn lögðu stund á launverslun, sem kallað var, þ.e. versluðu við annarra þjóða menn en Dani. Lengi voru þýsk, ensk og hollensk fiskiskip hér við land eftir að einokun komst á. Árið 1684 voru t.d. nokkri Suðurnesjamenn kallaðir fyrir fulltrúa réttvísinnar á þingstaðnum Kálfatjörn og dæmdir til búslóðamissins fyrir að hafa verslað á laun við hollenska duggara og var dómurinn staðfestur á alþingi árið eftir.
Eftir 1700 mun hafa dregið úr launverslun og um 1740 var hún nánast horfin. Hólmfastur fluttist síðar að Hólmfastskoti í Innri-Njarðvík.

Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Letursteinn í Njarðvík.

Njarðvík

Njarðvíkur eru tvær hérlendis, önnur í N-Múlasýslu, oft nefnd Njarðvík eystri til aðgreiningar. Flestir hafa hingað til talið Njarðvíkurheitin tengjast norræna goðinu Nirðri í Nóatúnum og dýrkun hans.

Njarðvík

Njarðvík – uppdráttur Áki Grenz.

Elsta heimild, sem líklegt þykir að beri vott um átrúnað á Njörð, er frásögn rómverska sagnaritarans Tacitusar, en í riti sínu Germania, sem samið er um árið 100 eftir Krist, gat hann þess að danskir þjóðflokkar dýrkuðu gyðjuna Nerþus. Nafn hennar er talið hið sama og Njarðar, en ekki er þessi gyðja nafngreind í norrænni goðafræði.
Njörður gat ráðið veðri og vindum og gróðri jarðar. Með þá hugmynd að leiðarljósi hafa menn talið að örnefnin Njarðvík hérlendis og í Noregi, og Njarðey, sem kemur fyrir í Noregi en ekki hér á landi, merki lendingarstaði sem helgaðir voru siglingarguðinum eða voru í umsjá hans.
Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður Örnefnstofnunar Þjóðminjasafnsins, hetur um áraraðir rannsakað örnefni með tilliti til örnefna dregin af mannanöfnum. Hann hefu sett fram þá tilgátu að Njarðvíkurnar tvær á Íslandi séu alls ekki kenndar við Njörð, né heldur séu sambærileg heiti í Noregi kennd við goðið. Upphaflega hafi þær haft forliðinn “nær” í merkingunni “nærri”.

Njarðvík

Njarðvík – uppdráttur Áki Grenz.

Þórhallur hefur í þessu sambandi bent á að heimildir greini frá því að Rosmhvalanesið og nágrenni þess hafi einmitt byggst frá Innesjum og sé Kvíguvoga getið sem landnámsjarðar. Einnig bendir hann á að finna megi samsvörun með staðheitum á upprunaslóðum landnámsmanna í Noregi og á Vatnsleysuströndinni. Heiti Njarðvíkur í Gullbringuslýslu er þá samkvæmt tilgátu Þórhalls orðið til vegna þess að hún er næsta vík við landnámsjörðina Kvíguvoga, en Njarðvík eystri í N-Múlasýslu heitir svo vegna þess að hún er næsta vík austan Fljótsdalshéraðs, og hefur verið gefið nafn af mönnum sem þar bjuggu. Hafa ber í huga að í Keflavík er þekkt örnefnið Náströnd. Forliður þess, “ná-“, hefur einmitt merkinguna “nærri” og virðist skírskotun til þess hvort staðir lágu nærri eða fjarri einhverjum öðrum hafa verið virk þegar örnefni urðu til hér um slóðir.

Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Njarðvík
Farið var um Ytri- og Innri-Njarðvík í fylgd Áka Guðna Grënz. Áki byrjaði að sýna uppdrætti og myndir, sem hann hefur unnið eftir heimildum af svæðinu. Uppdrættir þessir eru mjög vel gerðir og lýsa vel staðháttum og einstökum stöðum fyrr á árum.
Áki leiddi hópinn um svæði ofan við þar sem staðið hafði fyrrum bær Hallgríms Péturssonar. Fyrst eftir að Hallgrímur fékk síðar brauð í Hvalsnesi þurfti hann að fara þaðan yfir heiðina eða út með Ósabotnum. Sennilega er þar komin skýringin á tilvist HP-steinsins utan við Þórshöfnina. Öllu þessu svæði hefur nú verið raskað af miklu tillitsleysi og engar minjar eru þar eftir, ekki einu sinni brunnstæðið á Bolafæti.

Brunnur

Brunnur.

Þá var haldið að Stekkjarhamri, en það er eini staðurinn þarna, sem friðaður hefur verið. Þó er búið að fylla að hluta upp í Stekkjarhamarslautina vestan við hamarinn. Hún var vinsæll áningastaður Keflvíkinga þegar farið var í ferðir með ströndinni á góðvirðisdögum. Sögur eru og um að einhver og jafnvel nafngreind börn hafi komið það undir.
Þá var haldið upp fyrir Hjallana að landamerkum Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur. Áki sagðist minnast þess að tóttir hafi verið við Hjallatún áður fyrr. Mest af túninu og jarðveginum hafi hins vegar verið flutt að húsum verndaranna uppi á Vallarsvæðinu. Áki benti á hinn raunverulega Grænás og sagðist hafa heyrt að þar ætti að vera álfakirkja.
Áki bauð þátttakendum í Stekkjarkot, en þar hefur hann lyklavöld. Við kotið, sem nú hefur verið gert upp, hefur verið byggt fjós. Innan þess leynist snyrtiaðstaða, en flórinn er hlaðinn sem fyrrum. Áki skýrði hugmyndir Reykjanesbæjarmanna um varnargarð yfir skerjagarðinn og hugmyndir að víkingaþorpi á ströndinni norðan Stekkjarkots.
Þá var haldið að Innri-Njarðvíkurkirkju. Á leiðinni benti Áki á hvar Litli-Krossgarður og þá um leið Narfakotsborg hefðu verið, þ.e. við austurhorn kappakstursbrautarinnar, sem nú er. Því svæði hefur svo til öllu verið raskað meira og minna.
Við kirkjuna benti Áki á Hólmfastskot og sagði söguna af Hólmfasti Guðmundssyni og hans fólki. Tóttin er nokkuð heilleg og stendur sunnan við og næst Tjörninni vestan kirkjunnar.

Grænaborg

Grænaborg.

Tóttir tveggja annarra kota eru þar skammt ofar. Enn ofar er steinbærinn Garðakot, svo til alveg heill. Hólmfastur var eins og kunnugt er hýddur eftir að hafa brotið lög um einokunarverslun Dana að mati kaupmannsins í Hafnarfirði, Knúts Storms, með því að versla með úrkastið við kaupmanninn í Keflavík. Hólmfastur bjó þá á hjáleigu frá Brunnastöðum (1699). Hann var dæmdur í háa sekt, en var ekki borgunamaður fyrir henni. Var Hólmfastur þá dæmdur til kaghýðingar, bundinn við staur og húðstrýktur rækilega. Þóttu þetta harkalegar aðfarir að sumra mati, m.a. Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, og varð úr að Hólmfastur fékk dæmdar miskabætur að upphæð 20 ríkisdalir. Umdæmisverslunin var afnumin 1732.
Haldið var út á Stapa, framhjá fjárborginni Grænuborg ofan við hesthúsin og vísaði Áki á fótinn af Kolbeinsvörðunni, eða “Kúfúdvörðu”, eins og hún mun einnig hafa verið nefnd. Varðan mun hafa verið landamerkjavarða Voga og Innri-Njarðvíkur. Sést móta fyrir vörðunni vestan við Innri-Skor. Áttu landamerkin að vera úr henni í miðja Skoruna og í Arnarklett suðvestan við Snorrastaðatjarnir. Ekki var að sjá neinn ártalsstein á eða við þessa vörðu, en skv. sögnum átti að hafa verið í henni steinn með ártalinu 1724.

Grindavíkurvegur

Varða sunnan við Stapa.

Í leiðinni var ekið suður gamla Grindavíkurveginn, en staðnæmst skömmu áður en komið var að Reykjanesbrautinni. Þar, u.þ.b. 100 metrum vestan við veginn er klapparhóll og á honum breiður vörðufótur. Áki sagðist ekki hafa heyrt minnst á þessa vörður áður. Varðan er ekki alveg í beina stefnu á milli Arnarkletts og vörðunnar vestan við Innri-Skoru, en gæti þó alveg verið landamerkjavarða.
Eftir ferðina var gengið frá Innri-Njarðvíkurkirkju með ströndinni að Stapakoti. Á leiðinni eru m.a. hlaðnar tóttir, þar af ein bæði mjög stór og mjög heilleg. Gengið var eftir gömlum garði austan við núverandi íbúðarhús og honum fylgt til vesturs. Innan hans eru m.a. tóttir af stóru fjárhúsi og fleiru.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.