Keflavík

Dr. Fríða Sigurðsson skrifaði árið 1972 í Sunnudagsblað Tímans um upphaf þéttbýlis, “Tvær aldir í Keflavík”:
Keflavik -221“Í Keflavík hafði öldum saman aðeins verið bóndabær. Víkin hafði reyndar verið notuð sem höfn, ef ekki fyrr, þá að minnsta kosti með vissu síðan í byrjun 16. aldar, en enginn kaupmaður hafði þar fast aðsetur á undan Holger Jacobæus. Því hefur reyndar verið haldið fram, að Christen Adolph, sonur Holgers, hafi fæðzt í Keflavík, og hefði það þá verið árið 1766 eða 1767, en ekki hef ég getað fundið sannanir fyrir byggð í Keflavík á timabilinu á undan 1772. Heldur ekki í manntali frá 1816 finnst nokkurt fólk, sem sagt er fætt í Keflavík á þessu tímabili, og hefði manneskja, fædd 1766, þá þó ekki verið eldri en um fimmtugt! Því þykir mér rétt að álíta árið 1772 fæðingarár Keflavíkurbyggðar, og var stundin sú, þegar Holger Jacobaeus ásamt fjölskyldu sinni og fylgdarliði steig í land í Keflavík, sennilega einn góðan vordag í júni 1772.
Í byrjun 16. aldra vitum við um Englending, Robert Legge frá Ipswich, sem árið 1540 kvaðst hafa stundað Íslandssiglingar í 26 eða 27 ár og lent þar meðal annars í Keblewyckey. (Björn Þorsteinsson: Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld, bls. 94). Og það muna allir, að Hallgrímur Pétursson kom út 1637 á Keflavíkurskipi. En byggð var þar ekki nema eitt lítið kotbýli. Þó að Hallgrímur hafi ef til vill verið púlsmaður í sjálfri Keflavíkinni, þá bjó hann á Bolafæti i Njarðvíkurlandi! Og enn var aðeins einn bóndabær í Keflavík 125 árum seinna, þegar manntal var tekið 1762.

Keflavík

Frá Keflavík.

Þéttbýlið og mannfjöldinn voru í Leirunni, í Garðinum, á Rosmhvalanesi og í Kirkjuvogi, en fjölsetnasta hverfið var Stafnes með hjáleigum sínum. Þar hafði konungsútgerðin bækistöð sína, þar sat fyrsti íslenski landfógetinn, Guðni Sigurðsson. Og þegar Skúli Magnússon hafði tekið við þessu embætti, var Stafnes sýslumannssetur í tvö ár. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. Og í nánustu nánd við útvegsstaðinn Stafnes voru verzlunarstaðirnir, Þórshöfn, á 18. öld ekki lengur notuð, og Bátsandar, eins og þessi staður var skrifaður þá, síðan 1640 hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum.
Þetta gerbreyttist, þegar konungsútgerðin var tekin af. Eftir því sem útgerðin á Stafnesi og með henni verzlunin á Bátsöndum minnkaði færðist byggðin til og Keflavík reis úr ómerkilegu kotbýli, þangað til hún varð höfuðstaður Suðurnesja.

Stafnes

Á Stafnesi.

Konungsútgerðin hafði lengi barizt í bökkum, og margt heilræði hafði verið reynt, en þegar rentukammer reiknaði loksins út, að kostnaðurinn við kost, föt og laun þeirra manna, sem stöðugt varð að hafa við útgerðina (ráðsmann, smið, fjóra vinnumenn, tvær stúlkur, einn dreng), nam nærri 250 ríkisdölum meira en hvað allt fiskiríið með innstæðubátum fimmtán færði inn, þá fékkst konungurinn til að afnema konungsútgerðina með lögum þann 12. desember 1769. Bátarnir fimmtán og sjóbúðirnar þrjár voru seldar og fasta starfsfólkið sent heim. Varð það endirinn á hinu illræmda mannsláni og að upphafi Keflavikurbyggðarinnar! Eftir að hætt var að gera út frá Stafnesi, lögðust fyrst hjáleigurnar, hinir svokölluðu Refshalabæir, í eyði. Á Stafnesi sjálfu hélt bóndinn, Magnús Jónsson, áfram að búa, og eftir hans andlát 1784 ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, þá orðin 73 ára gömul. 1786 eru aðeins þrir menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað,1790 jafnvel bara tveir, hjón ein. Þau tolldu þar fram undir aldamót og ólu á þessum árum nokkur börn, en þegar þau fóru burtu, lagðist Stafnes í eyði. Tók þessi þróun ekki nema þrjátíu ár. Með útveginum á Stafnesi hnignaði einnig verzlunin á Bátsöndum. Frá því að konungsútgerðin var afnumin 1769, sat enginn kaupmaður á Bátsöndum þangað til Dýnus Jespersen kom 1777.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

1778 var enn einu sinni nítján manns búsett þar. 1789 tekur Hinrik Hansen við af Jespersen, síðasti kaupmaðurinn á Bátsöndum. Þegar flóðið fræga braut húsin varð hann að yfirgefa staðinn. Hann fékk fyrst húsaskjól á Loddu, en hreiðraði þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi”. Þar dvelst kaupmannsfólkið enn, þegar manntal er tekið árið 1800, en 1801 flyzt það, eins og kunnugt er til Keflavíkur. Simon Hansen hlýtur að hafa áttað sig á því að ekki var hægt að snúa vísi tímaklukkunnar til baka. Hann hlýtur að hafa gert sér ljóst, að verzlunarstaðurinn hafði verið á niðurleið síðustu þrjátíu árin, og átti sér ekki viðreisnar von. Að flóðið setti bara punktinn yfir i-ið, sem skrifað hafði verið 1769. Þess vegna settist hann að í Keflavík, þó að þar væri annar kaupmaður fyrir. Því einnig í Keflavík höfðu tímarnir breytzt. Þar sem 1762 höfðu aðeins búið nokkrar sálir, var tíu árum seinna risinn vísir að byggð.

Keflavík

Í tveimur greinum í Faxa, blaði Suðurnesjamanna, hef ég skýrt frá því, að þegar árið 1772 hljóti fleiri menn að hafa búið í Keflavík en bóndinn og hans fjölskylda. Í jólablaðinu 1969 hef ég sagt frá því, að snemma árs 1773, áður en vorskipin komu út, hafi einhver borgarafrú Brickers dáið í Keflavík, augsýnilega erlend kona, sem ekki tilheyrði Keflavíkurkotinu, og barn eitt fæðzt, Gottfrede Elisabeth, dóttir kaupmannshjónanna Jacobæus, og hljóta hjónin að hafa dvalizt í Keflavik árið áður. En guðfeðginin við skírnina voru þrír Danir. Ályktaði ég af þessu, að allt þetta fólk hafi búið i Keflavík þegar árið 1772, rúmum tveimur árum eftir að konungsútgerðin hafði verið tekin af með lögum þann 12 desember 1769. Eftir var þá að leysa fyrirtækið upp. Salan gekk treglega, og getur vel hafa dregizt fram á árið 1771, og var það sennilega þar af leiðandi, að kaupmaður settist að í Keflavík. Í maíblaði 1970 hef ég þá fært sönnur fyrir þessari tilgátu minni um byggð í Keflavík árið 1771 með því að benda á „Suðurnesjabókina gömlu”, eins og ég nefndi hana, skattabók Rosmhvalaneshrepps fyrir árin 1772 til 1778. En sá hreppur náði á þeim tima alla leið frá Bátsöndum um Miðnes, Garðinn og Leiruna til Keflavíkur. Hefur bók þessi verið í öruggri geymslu að Útskálum þangað til 1901. Þegar hún komst á þjóðskjalasafnið var gert við hana, og er hún nú í öruggu bandi og tættu blaðkantarnir festir á pergament. Hún er fallega skrifuð og auðlæsileg. Þessi gamla hreppsbók byrjar nú einmitt á þessu sama ári, 1772, og staðfestir hún, að 1772 hafi verið tveir „kaupstaðir” í hreppnum, Bátsandar og Keflavík, og í Keflavík hefur þá setið kaupmaður, undirkaupmaður, „annað þeirra þjónustulið” og „búlausir menn”. Var signor kaupmaður Jacobæus skatthæsti einstaklingurinn í hreppnum, en „Keflvíkingar” hafa á þessu ári 1772 borið nærri því helminginn opinberra gjalda!

Keflavík

Kaupmannssetrið á Bátsöndum hélzt enn um 25 ára skeið við hliðina á hinu nýja kaupmannssetri í Keflavík, en um aldamótin lagðist það niður eins og kunnugt er, og einnig byggðin á Stafnesi fór þá i eyði, en báðir þessir staðir höfðu verið i mestum blóma meðan konungsútgerðin var og hafði aðsetur sitt á Stafnesi og höfn á Bátsöndum.
Ekkert hef ég fundið, sem bendir til þess, að byggð hafi risið í Keflavík fyrr en 1772, svo við megum víst líta á þetta ár sem fæðingarár Keflavíkurkaupstaðar. Ekki vitum við, á hvaða degi vorskipin komu út árið 1772 með Holger Jacobæus ásamt fjölskyldu og fylgdarliði hans innanborðs, en þegar hann einhvern góðan veðurdag, sennilega í júní, steig í land í Keflavík með barn og buru, þá fæddist Keflavík, og mega Keflvíkingar því í vor halda upp á tvö hundruð ára afmæli byggðar sinnar!”

Keflavíkurbærinn

Keflavíkurbærinn.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 23. apríl 1972, bls. 331-332.