Njarðvíkursel

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Innri-Njarðvík má lesa eftirfarandi um Seltjörn og nágrenni:

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel (Selið) sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

“Jörð eða hverfi næst austan Ytri-Njarðvíkur. Upplýsingar gaf Finnbogi Guðmundsson í Tjarnarkoti og Guðmundur sonur hans.
Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll.”

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Forvitnilegt er að sjá að tjörnin hafði áður heitið “Seljavatn”, þ.e. í fleirtölu, sem bendir til þess að fleiri en eitt sel hafi verið við vatnið. Eftir skoðun svæðisins staðfestist að örnefnið hafi verið réttnefni á sínum tíma.

Í “Fornleifaskráningu við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags” árið 2018 segir: “Í Sýslu- og sóknarlýsingu er tjörnin kölluð Seljavatn og að þar hafi verið sel frá Innri-Njarðvík. „Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.“

Seltjarnarhjallasel

Rjúpa á vörðunni ofan við Selstjarnarhjallasel.

Þetta er skrifað árið 1840. Þó ekki hafi fundist heimildir um að búið hafi verið að staðaldri í Seli, benda minjarnar til þess að á einhverjum tímapunkti hafi verið búskapur þar þó hann hafi ekki verið nægjanlega lengi til að lenda í heimildum. Alþekkt er að selstöður breyttust í hjáleigur og öfugt, hjáleigur breyttust í selstöður. Sel er mjög líklega dæmi um slíkt.”

Þá segir: “Sex fornleifar voru skráðar á deiliskipulagsreitnum. Vafalítið eru þetta fornleifar sem tengjast búskap eða nytjum í Seli þar sem skepnur voru hafðar og veiðar í Seltjörn mikilvægar”. Um er að ræða seltóftirnar, stekk, rétt og kofa, vörðu og götu.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel.

Seljabúskapur lagðist af á Reykjanesskaganum í lok 19. aldar. Tóftir “Njarðvíkursels” sunnan Seljavatns (Seltjarnar) hafa enn verið í vitund Njarðvíkurmanna um miðja 20. öld enda eru þær af kynslóð seinni tíma selja. Þegar fyrsti Grindavíkurvegurinn (vagnvegurinn) var lagður af Stapanum árið 1913 lá leiðin niður að vestanverðum Háabjalla, suður með austanverðri Seltjörn og áfram að Arnarseturshraunsbrúninni þar sem stefnan var tekin á Gíghæð. Vegavinnuflokkurinn var í fyrsta áfanga með tjaldbúðir við gatnamót Suðurnesjavegar og hins nýja Grindavíkurvegar. Í öðrum áfanga nýttu vegagerðarmenn sér til skjóls tóftir Njarðvíkursels árið 1914. Þeir hafa eflaust lagfært einhverjar af þeim húsum sem fyrir voru og jafnvel byggt ný. Minjar eftir vegagerðarmennina eru meðfram öllum Grindavíkurveginum, allt þar til þeir komu að endastöðinni niður við Norðurvör Járngerðarstaða 1918.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel – stekkur.

Við skoðun og leit að mögulegum minjum undir Seltjarnarhjalla (Háabjalla) komu í ljós selsleifar, s.s. stekkur og hringhlaðið hús auk annarra tófta. Á Bjallanum ofan við tóftirnar var fallin varða á klapparhól. Rjúpa hafði nýtt sér aðstöðuna. Skammt neðan hennar voru nánast jarðlægar leifar fjárborgar. Frá ofanverðu selinu mátti marka götu upp Njarðvíkurheiði áleiðis að Njarðvíkum. Ljóst er að þarna hefur fyrrum verið selstaða, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda, sennilega forveri hennar. Trjám hefur verið plantað í selstöðuna um nokkurt skeið. Þetta skógræktarsvæði undir Háabjalla (Seltjarnarhjalla) hefur nú verið nefnt “Sólbrekkur”.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Innri-Njarðvíkur. Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskráning við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags, 2018.

Seltjörn

Seltjörn (Seljavatn) og nágrenni.