Brunnastaðir

Kaupsvæði Keflavíkurverslunar var ekki glöggt afmarkað og kom ekki að sök því lengstum verslaði sami kaupmaður þar og á Básendum. Oftast var þó talið að það næði yfir Garðinn, Leiruna, Keflavík og Njarðavík. Þó töldu sumir Keflavíkurkaupmenn að þeim bæri einnig réttur til verslunar í Vogum og Brunnastaðahverfi.

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi 1961.

Vera má að þessi óvissa hafi verið undirrót þekktra málaferla á hendur Hólmfasti Guðmundssyni árið 1699, en hann var þá búsettur í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og átti að versla í Hafnarfirði, en lagði inn lítilsháttar af fiski hjá Keflavíkurkaupmanninum og var húðstrýktur fyrir.
Kaupsvæðaskipulagið var eitt þeirra málefna sem Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku til athugunar á ferðum sínum um landið skömmu eftir 1700. Einkum komu þessi mál til kasta Árna Magnússonar og var hann raunar hlynntur áframhaldandi kaupsvæðaverlsun með þeim rökum að kaupsvæðin tryggðu nauðsynlega siglingu til landsins. Árni komst einnig í kynni við Hólmfast og var harla hneykslaður á meðferðinni á honum, og má vera að útreiðin, sem Hólmfastur fékk, hafi einmitt orðið Árna tilefni til að gera að tillögu sinni við yfirvöld í rentumammeri að kaupsvæði Keflavíkur yrði látið ná yfir Brunnastaðahverfi.

Hólmfastskot

Hólmfastskotsbrunnur.

Árið 1699 var Hólmfastur Guðmundsson 52 ára og bjó í Brunnastaðahverfi á Vatnseysuströnd, sem tilheyrði lögvernduðu verslunarsvæði Hafnarfjarðar. Hólmfastur mátti því engum kaupmanni selja fisk nema Hafnarfjarðarkaupmanni, en tók það fyrir að flytja á báti sínum frá Brunnastöðum, þvert yfir Stakksfjörðinn til Keflavíkur, 20 harða fiska í eigu vinnumanns nokkurs, átta fiska í eigu vermanns að austan og 10 ýsur og þrjár löngur, sem hann átti sjálfur. Þessa fiska seldi Hólmfastur í Keflavíkurbúð og gerðist þar með brotlegur við tilskipun um kaupsvæðaverslun. Slíka ögrun þoldu yfirvöld vitaskuld ekki af ótíndum alþýðumanni og sjálfsagt hefur óhlýðnin þótt alvarlegri fyrr það að Hólmfastur lét sér ekki duga að selja sinn eigin fisk, heldur kom fiski annarra í lóg einnig.

Hólmfastskot

Hólmfastskot í Njarðvíkum.

Dómur í máli Hólmfasts var haldinn á Kálfatjörn þann 27. júlí 1699. Dómari var Jón Eyjólfsson sýslumaður, og sátu báðir Njarðvíkurbændur, Þorkell og Gísli, í dómnum, auk nokkurra nágrannabænda annarra, en Jens Jörgensen, fullmektugur á Bessastöðum, sótti málið af hálfu kaupmanna. Þarf ekki að orðlengja það að dómurinn komst að samhljóða niðurstöðu um sekt Hólmfasts og var hann dæmdur til að greiða kóngi átta ríkisdali í sekt eða þola vandarhögg. En því var skotið til ærði yfirvalda hvort ástæða væri til að senda hinn óhlýðna Hólmfast til Brimarhólmsdvalar og báðu dómsmenn honum reyndar ásjár í því efni.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmsfastskots í Njarðvíkum.

Árni Magnússon, á ferð sinni um landi, tók upp mál Hólmfasts og fékk honm dæmdar 20 ríksidala bætur fyrir dóminn og hina illu meðferð á honum. Löngu seinna komst Hólmfastur á síður einnar þekktustu skáldsögu Halldórs Laxness (Íslandsklukkuna).
Dómurinn yfir Hólmfasti var óneitanlega harður, en hann var þó fráleitt einsdæmi. Öll frávik frá fyrirskipuðum reglum voru illa séð, sérstaklega ef menn lögðu stund á launverslun, sem kallað var, þ.e. versluðu við annarra þjóða menn en Dani. Lengi voru þýsk, ensk og hollensk fiskiskip hér við land eftir að einokun komst á. Árið 1684 voru t.d. nokkri Suðurnesjamenn kallaðir fyrir fulltrúa réttvísinnar á þingstaðnum Kálfatjörn og dæmdir til búslóðamissins fyrir að hafa verslað á laun við hollenska duggara og var dómurinn staðfestur á alþingi árið eftir.
Eftir 1700 mun hafa dregið úr launverslun og um 1740 var hún nánast horfin. Hólmfastur fluttist síðar að Hólmfastskoti í Innri-Njarðvík.

-Úr Saga Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson – 1996.

Njarðvík

Letursteinn í Njarðvík.