Jón Thorarensen

Í greinasafni MBL.is má finna eftirfarandi minningarskrif Valdimars Briem að Jóni Thorarensen gegnum:

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

“Jón Thorarnesen var fæddur 31. október 1902 og dó 23. febrúar 1986. Hann ólst upp í Kotvogi í Höfnum. Þegar sr. Jón var fimm ára, var hann tekinn í fóstur af mikilhæfum merkishjónum í Kotvogi: Katli útgerðarmanni og bónda Ketilssyni og Hildi Thorarensen, sem var föðursystir sr. Jóns. Hjá þeim fékk hann gott uppeldi, eins og ætla má. Var honum unnað af þeim hjónum og öllu heimilisfólki. Kotvogsheimilið var menningarheimili í gömlum stíl og umsvif mikil við útgerð og verulegan landbúnað. Heimilisfólkið kunni firnin öll af gömlum ættarsögum frá Útnesjum, þjóðsögum og ævintýrum. Allt var krökkt af dularfullum vættum, sumum góðum, öðrum illum. Sjódraugar voru á sveimi, álfar ávallt nálægir og höfðu tíð samskipti við mennska menn, áttu jafnvel ástarævintýri með þeim. Álagablettir voru, þar sem ekki mátti hrófla við. Ef því var ekki hlýtt, hlaust af því illt gengi. Menn voru draumspakir og forvitrir og vissu margt um óorðna hluti, hvort heldur þeir voru til góðs eða ills.

Jón Thorarensen

Útnesjamenn – Jón Thorarensen.

Sr. Jón Thorarensen fæddist í Stórholti í Saurbæ vestur 31. október 1902. Foreldrar hans voru Bjarni Jón bóndi og seinna bæjarfógetaskrifari í Reykjavík, Jónssonar prests í Stórholti, er var sonur Bjarna amtmanns og skálds á Möðruvöllum í Hörgárdal, og kona hans, Elín Jónsdóttir. Hjónunum í Kotvogi duldist ekki, að fóstursonurinn var góðum gáfum gæddur, bókhneigður og vel fallinn til mennta. Um fermingaraldur hóf hann nám í Flensborgarskóla og lauk þar burtfararprófi 1918. Þaðan lá leiðin í menntaskólann og tók sr. Jón stúdentspróf árið 1924. Hann settist í guðfræðideild Háskólans haustið 1925 og lauk embættisprófi vorið 1929. Prestvígður var hann til Hruna í Árnesþingi 18. maí 1930. Ungur að árum fór hann að safna þjóðsögum og viða að sér fræðslu um þjóðhætti. Þá er sr. Jón kunnur fyrir skáldsögur sínar. Fyrsta skáldsaga hans, Útnesjamenn, kom út 1949 og vakti mikla athygli. Næst kom Marína 1960. Hafa báðar þessar sögur verið endurprentaðar og seinni útgáfurnar því nær útseldar. Enn átti sr. Jón eftir að skrifa skáldsöguna Svalheimamenn 1977 og loks bókina Litla skinnið, með blönduðu efni.

Jón Thorarensen

Sjósókn – Jón Thorarensen.

Sr. Jón var allra manna fróðastur um sjósókn í gamla daga og varðveitti í ritum sínum fjölda orða úr fornu sjómannamáli, sem er tungunni mikils virði. Um þetta efni gaf hann út tvær bækur gagnmerkar. Hin fyrri er Sjómennska og sjávarstörf 1932 og hin síðari Sjósókn 1945. Þá tók hann saman sagnabálkinn Rauðskinnu, sem fjallar um mannlíf og sagnir úr Höfnum og nágrenni.
Jón var velmetinn rithöfundur og heiðursfélagi í Félagi íslenskra rithöfunda frá 1982. En tæplega var hann metinn að verðleikum. Ritverk hans munu lifa lengur en mörg þau sem hærra hefur verið hossað á síðustu áratugum. Á efstu árum sínum tók sr. Jón að mála myndir, enda maður listrænn. Hann málaði einkum landslagsmyndir og bera þær vott næmum smekk hans og góðu handbragði. Sæmdir hlaut hann af opinberri hálfu, m.a. Fálkaorðuna. Heiðursborgari Hafnahrepps var hann.
Að ytra útliti var sr. Jón maður fríður sýnum. Röskur meðalmaður á hæð og þrekinn. Vörpulegur á velli, virðulegur og prúðmannlegur í framkomu og kurteis. Það var tekið eftir honum á götu. Þó að hann væri alþýðlegur í viðmóti, duldist ekki, að honum fylgdi höfðingjabragur, enda stórmenni í ættum hans.

Jón Thorarensen

Ingibjörg og Jón.

Síst má gleyma því að á bak við sr. Jón stóð góð og mikilhæf kona, frú Ingibjörg Ólafsdóttir. Þau gengu í hjónaband nokkrum dögum eftir að hann var vígður til Hruna. Minnisstæð eru þau sr. Jón og frú Ingibjörg er þau stóðu við altari Dómkirkjunnar að lokinni vígslu hans. Glæsileg, ung kona. Sambúð þerra var alla tíð ástúðleg og var frú Ingibjörg sr. Jóni oft hollur ráðgjafi. Hún stóð stöðug og virk í starfi prestskonunnar, sem er ábyrgðarfullt og þýðingarmikið. Frú Ingibjörg var formaður Kvenfélags Nessóknar áratugum saman og átti sinn mikla þátt í því að Neskirkja komst upp, þar sem áður hafði engin kirkja fyrirfundist. Fyrir félagsstörf var frú Ingibjörg sæmd Fálkaorðunni. Þeim varð þriggja barna auðið. Þau eru: Hildur, Elín og Ólafur.” – (Vald. Briem)

Heimild:
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/34/

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur í Höfnum.