Háaleiti

Keflavíkurflugvöllur
Eftirfarandi [hluti úr] grein er framsaga Jóns Tómassonar, flutt á Faxafundi s.l. vetur. Þó að einhverjar tölulegar breytingar hafi átt Haaleiti-231sér stað síðan, taldi blaðstjórn Faxa rétt að birta framsöguna, þar sem hún flytur ýmsan fróðleik, sem lesendur blaðsins kunna að hafa ánægju af að kynnast.
“Þetta hérað [Keflavíkurflugvöllur] nær yfir 9200 ha. — sem var áður algjörlega óræktað heiðarland — sem ríkið tók með lögnámi af landi 5 hreppa: Hafnahreppi, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Njarðvíkurhreppi og Keflavík, — og úr landi ca. 30 jarða. Endamörk þessara hreppa námu við Háaleyti og Kölku og hafi nokkrar landamæraerjur verið á þessum háheiðum — 167 fet hæst yfir sjávarmál — þá eru þær nú úr sögunni að eilífu, þar eð enginn veit nú hyrningarsteina þessa lengur.”

Heimild:
-Faxi, 12. árg. 1952, 5. tbl, bls. 70

Kölkuvísur
Kalka-231“Kalka er heiti á landamerkjavörðu sem stóð uppi á Háaleiti, þar nú er Keflavíkurflugvöllur og braggahverfi honum tilheyrandi. Einnig er þess getið til, að hún hafi verið notuð sem innsiglingarmerki á dögum Selstöðukaupmanna í Suðurnesjum. Varðan er sögð verið hvít kölkuð, svo að hún sæist langt að, og hefir hún dregið nafn þar af. Var þessi ævagamla varða við líði, þar til nú á stríðsárunum, að setuliðið jafnaði hana við jörðu. Rekur varðan raunir sínar í eintali því, sem hér fer á eftir.
-H. Th. B.

Eitt sinn var ég ung og fríð,
átti farfan hvíta.
ýmsir þráðu alla tíð
upp til mín að líta.

Oft mér sendi sólin fríð,
signuð ástarskeyti.
Óðal mitt var alla tíð
upp á Háaleiti.

Þar í sæti sat ég ein,
Suðurnesjadrottning.
Margan prúðan sá ég svein
sýna Kölku lotning.

Fá með sína frelsisþrá
fýsti á heiða engin.
Munaraugum mændi ég á
margan smaladrenginn.

Bjuggu menn á brekaströnd,
bezt voru þeirra kynni.
Undra margra lágu lönd
að landhelginni minni.

Viltum mönnum vegum á
vildi ég forða grandi.
Björgun veitti brögnum þá,
bæði á sjó og landi.

Úr mínu sæmdarsæti var
sjónarhringur fagur.
Allt var mér til ununar:
árin, nótt og dagur.

Fjallahringur fagurblár,
fremstur þó og vökull,
yzt á nesi, heiður, hár,
herra Snæfellsjökull.

Kringum Faxaflóann minn,
fjallahæstur var hann.
Geilsabjört hans kalda kinn,
konungsskrúðann bar hann.

Stórveldis kom hingað her,
hertur fítons anda.
Ólmir vildu meina mér
á minni jörð að standa.

Hermenn þustu hingað, en
helgri ró ei skeyttu.
Óli Thórs og Bjarni Ben
björg mér enga veittu.

Hersins vakti harða geð
hrygð, en enga kæti,
sínum vítisvélum með
veltu mér úr sæti.

Byggð var reist við bústað minn,
bæði daga og nætur.
Missa þarna meydóm sinn
margar landsins dætur.

Ljót var þessi bragga byggð,
bylt er jörð og rifin.
Friðarvina viðurstyggð,
válakrafti drifin.

—–
Ég er fallin foldar til,
flæmd úr tilverunni.
Eftir munu skuldaskil
og skark á mínum grunni.”

Ágúst L. Pétursson.

Heimild:
-Faxi, 10. árg. 1950, 1. tbl, bls. 8.