Í Faxa árið 2020 er fjallað um “Skáldin í vitanum“:
“Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.
Reykjanesviti
Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.
Steinn Steinarr
Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.
Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.
Hannes Sigfússon
Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.”
Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.