Eldgos

Augu allra beinast nú sem oftar að Reykjanesskaga og margt og mikið hefur verið ritað um gosið í Geldingadölum og Meradölum. Nú beinum við sjónum okkar vestar á skagann að eldstöðvakerfunum tveimur, Reykjanesi og Svartsengi, en þar lauk síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga 1240.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Hér verður sérstaklega fjallað um síðustu eldana sem urðu innan Reykjanes- og Svartsengis-kerfanna sem ýmist eru talin eitt kerfi eða tvö. Þess má þó geta að þau sameinast til norðurs þar sem erfitt er að greina sprungureinar kerfanna í sundur.

Eldarnir, sem nefnast gjarnan Reykjaneseldar, stóðu yfir frá árinu 1210–1240. Með eldum er átt við hrinur af eldsumbrotum sem standa yfir í lengri eða skemmri tíma á sama svæðinu. Í Reykjaneseldum urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Einnig runnu fjögur hraun úr sprungugosum á landi en þau eru Yngra Stampahraun, Eldborgarhraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Í Heimildinni má lesa eftirfarandi um “„Sandsumar“ í kjölfar eldgosa úti fyrir Reykjanesi“:
“Í kvikugangi þeim sem myndast hefur og liggur frá Sundhnúkagígum í norðri, undir Grindavík og jafnvel á haf út, er umtalsvert meira af kviku en sést hefur í stærstu innskotum sem urðu í tengslum við eldgosin þrjú við Fagradalsfjall. Enn er óvíst hvort að kvika nái til yfirborðs svo úr verði eldgos en ef það gýs á hafsbotni, sem ekki er útilokað, yrði svokallað þeytigos, sprengigos sem verða þegar heit kvika kemst í snertingu við vatn. Við slíkar aðstæður myndast mikil aska og öskufallið getur náð langar leiðir og haft ýmsar afleiðingar.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Öskugos urðu við upphaf Reykjaneseldanna á fyrstu áratugum þrettándu aldar. Eldar þeir stóðu yfir á árunum 1210–1240 en áður höfðu önnur gostímabil einnig orðið og á einu slíku mynduðust Sundhnúkagígar, líklega fyrir um 2.400 árum. Það er á þeim slóðum, undir þeim og suður undir Grindavík, sem kvikugangur hefur nú myndast að mati Veðurstofu Íslands.

Í Reykjaneseldum á 13. öld urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Eldarnir hófust að því er talið er á „surtseyísku eldgosi“ í fjöruborðinu undan Reykjanestá. Að því er segir á vef Náttúruminjasafns Íslands er talið að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hafist að nýju en þá utar. Tveir gígar hlóðust upp í hafinu, m.a. Karlinn svokallaði sem er hluti gígbarms þessa síðara goss á hafsbotni.

Miðaldarlagið mikla

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Finna má fjögur gjóskulög á Íslandi sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldarlag, sem er svart, sendið gjóskulag sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig „sandvetrinum mikla“ í kjölfarið.

Miðaldarlagið hefur verið rannsakað töluvert á síðustu áratugum og það þannig staðsett í öskulagatímatali jarðfræðinnar, en „faðir“ þess er Sigurður Þórarinsson náttúrufræðingur.

Reykjanesskagi

Kortið sýnir þau hraun sem runnu á Reykjanesskaga í síðustu eldgosahrinu frá 9. öld og fram á 13. öld.

Ritaðar heimildir hafa einnig verið notaðar til að varpa ljósi á áhrif sprengigosanna sem mynduðu miðaldarlagið. Annálar, Biskupasögur og Sturlungasaga Sturlu Þórðarsonar eru nokkuð samhljóða um þessa atburði.

Rauð sól og myrkur um miðjan dag

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort ISOR.

„Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil,“ segir til dæmis í Sturlungasögu. Um „sandvetur“ eftir þetta sumar er svo fjallað í ýmsum annálum s.s. Oddverjaannál. „Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði,” segir í Íslendinga Sögu. „Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir,” segir í Guðmundar sögu Arasonar. „Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes,“ stendur svo í Annálabrotum Gísla Oddssonar. „Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi,“ segir í Oddverjaannál.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – kort jarðfræðinga lagt yfir loftmynd.

Í langtímahættumati Reykjanesskaga, skýrslu sem unnin var hjá Veðurstofu Íslands, er fjallað um mögulegt gjóskufall vegna eldgosa í hafi. Þar er t.d. bent á að Keflavíkurflugvöllur gæti orðið fyrir gjóskufalli sem gæti valdið röskun á starfsemi. Hversu mikil sú röskun yrði færi eftir stærð gosa og hversu lengi það myndi vara. „Dekksta sviðsmynd gjóskufalls á Keflavíkurflugvöll sýnir 45 mm þykkt lag,“ segir í skýrslunni. Töluverðar líkur séu á að skyggni spillist í gjóskufalli og jafnvel eftir að því lýkur af völdum gjóskufoks. Aðrir fjölfarnir ferðamannastaðir eru álíka líklegir til að verða fyrir gjóskufalli en gjóskufall hefur ekki almenn áhrif á þá að öðru leyti en að aðgengi að þeim verður erfiðara og skyggni spillist.“

Grindavík - jarðfræði

Grindavík – eldgos 2021-2024.

Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Stöð 2 vorið 2022 að eldgos í sjó út af Reykjanesi gæti sent ösku yfir höfuðborgarsvæðið. Það hafi orðið raunin í gosinu sem myndaði miðaldarlagið. „Ef slíkur atburður myndi endurtaka sig, þá væri það eitthvað sem höfuðborgarbúar myndu klárlega taka eftir.“”

Reykjaneseldar

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

“Reykjaneseldar hófust á surtseyísku eldgosi í fjöruborðinu undan Reykjanestá er þar byggðist upp gígur sem nefndur er Vatnsfellsgígur. Talið er að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hófust þau að nýju utar, þar sem Karlinn stendur nú, en hann mun vera hluti gígbarms síðara gossins. Um 500 m voru á milli gíganna en nú þegar brimið hefur unnið á þeim um aldir sjást einungis ummerki eftir þá. Karlsgígur hefur verið mun stærri en Vatnsfellsgígur en hægt er að sjá ummerki um að gosefni úr honum hafi lagst yfir Vatnsfellsgíginn.

Ummerki eru um gígaröð sem liggur um 4 km inn eftir skaganum í stefnu SV-NA og nefnist hraunið úr henni Yngra Stampahraun. Stærstu gígarnir eru tveir og nefnast Stampar og er gígaröðin öll kennd við þá. Gígarnir eru að mestu klepragígar sem byggst hafa upp af hraunslettum frá kvikustrókum. Hraunið frá gígaröðinni rann upp að Karlsgíg og Vatnsfellsgíg sem staðfestir að hraunið rann eftir að þeir mynduðust.

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Finna má fjögur gjóskulög sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldalag, sem er svart, sendið gjóskulag (R-9) sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig sandvetrinum mikla veturinn á eftir.

Ofan á Yngra Stampahrauni má finna miðaldalagið og er því talið að Stampagígaröðin hafi verið virk á fyrri hluta eldanna. Gossprungurnar, sem mynduðu Eldvarpahraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun, hafa verið virkar eftir að miðaldalagið myndaðist þar sem öll hraunin liggja ofan á því gjóskulagi.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Eldvarpahraun yngra rann úr samnefndri gígaröð sem er um 8–10 km löng og nær næstum því til sjávar þó engin gos séu þekkt í sjó frá sama tíma á þessu svæði. Gossprungan sjálf er mjög löng en gígaröðin er fremur slitrótt. Hraun úr syðsta enda sprungunnar rann í sjó fram. Marga formfagra gíga er að finna í Eldvörpum og um hluta þeirra liggur skemmtileg gönguleið. Ekki er síðra að horfa á gígana úr lofti.

Illahraun myndaðist úr stuttri samsíða sprungu austan við Eldvörp. Á norðurjaðri hraunsins er nú Bláa lónið. Illahraun er frekar torfært uppbrotið helluhraun. Gígaröðin er einungis um 200 m að lengd og á henni má finna nokkra gíga, einn gígurinn er stærri en hinir og er sá gígur tvöfaldur.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Úr 500 m langri gossprungu við Gígahæð rann Arnaseturshraun. Stuttu austar má finna 700 m langa sprungu sem virðist einungis hafa verið virk í stuttan tíma.

Við Bláa lónið er Illahraun áberandi úfið og grófgert.”

Ítarefni;

Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379–401 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. 1–13.

Magnús Á. Sigurgeirsson. 1995. Yngra-Stampagosið á Reykjanesi. Náttúrufræðingurinn 64(3). 211–230.

Magnús Á. Sigurgeirsson & Sigmundur Einarsson. 2019. Reykjanes og Svartsengi. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 2. mars 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=REY#

Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journal of Petrology 19(4). 669–705.

Heimildir:
-Sunnudagur 4. febrúar 2024, Heimildin, Sunna Ósk Logadóttir, „Sandsumar“ í kjölfar eldgosa úti fyrir Reykjanesi.
-https://nmsi.is/molar/eldfjall/reykjaneseldar/

Arnarseturshraun

Illahraun og nágrenni – (Jarðfr.glósur GK).