Flekaskil

Í ritgerð Ingibjargar Andreu Bergþórsdóttur í Jarðvísindadeild HÍ er m.a. fjallað um Yngra-Stampagosið og fleira um jarðfræði Reykjanesskagans, s.s. rekaskilin o.fl. Ægir Sigurðsson bætir um betur og spyr í grein sínni í Faxa árið 2006: “Er eitthvað áhugavert að sjá á Reykjanesskaganum?

Jarðfræði Íslands

Jarðfræði Íslands

Jarðfræðikort af Íslandi – ÍSOR. Sjá HÉR.

“Jarðfræði Íslands endurspeglast í staðsetningu þess í Norður Atlantsshafi milli Grænlands og Noregs á Mið-Atlantshafshrygg og á Grænlands-Færeyja þverhryggnum (Thordarson og Larsen, 2007, Thordarson og Höskuldsson, 2008). Landið er jarðfræðilega mjög ungt og talið hafa byrjað að myndast fyrir um 24 milljónum ára en elsta aldursgreinda berg á landinu er 14-16 milljón ára gamalt.

Möttulstrókur

Möttulstrókur.

Á Íslandi rís Mið-Atlantshafshryggurinn úr sæ vegna þess að Ísland er heitur reitur. Heitur reitur er svæði þar sem eldvirkni er meiri þar en á aðliggjandi svæðum. Ástæðan fyrir heita reitnum á Íslandi er sú að Mið-Atlandshafshryggurinn liggur yfir möttulstrók, sem er eðlisléttari en möttulinn umhverfis og rís því í átt að yfirborði. Talið er að möttulstrókurinn undir Íslandi hafi verið virkur að minnsta kosti síðustu 65 milljón árin. Möttulstrókar eru almennt taldir vera tiltölulega kyrrstæð fyrirbæri og flekaskilin á Íslandi leitast við að vera fyrir ofan hann. Rekbeltastökk hefur orðið í jarðsögunni en það er þegar flekaskilin hliðrast til að fylgja möttulstróknum (Ingi Þ. Bjarnason, 2008).
Eldvirkni á Íslandi tengist gliðnun á flekaskilum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Eldvirkni á suðurhluta landsins er aðallega takmörkuð við tvö gosbelti, Eystragosbeltið og Vestra gosbeltið en á norðurhluta landsins er eldvirkni á Norðurgosbeltinu sem nær frá Vatnajökli til Öxarfjarðar en þar hliðrast það til vesturs á Tjörnesbrotabeltið (Jakobsson et. al., 1978).

Flekaskil

Flekaskil.

Það eru tvö innanfleka gosbelti á Íslandi en það eru Öræfajökuls og Snæfellsnesgosbeltið. Snæfellsnesgosbeltið er leifar gömlu flekaskilanna og talið er að Öræfagosbeltið kunni að vera byrjun á nýjum skilum (Sæmundsson, 1979, Thordarson og Höskuldsson, 2002). Eldvirkni á Íslandi spannar svið frá neðansjávargosum til eldgosa undir jökli og eldgosum á þurru landi. Samsetning er frá basalti upp í rýólít (Jakobsson et. al., 1978).

Jarðfræði Reykjaness

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – ÍSOR. Sjá HÉR.

Reykjanesskagi er eldvirkt áframhald Reykjaneshryggjar á landi sem myndar hluta Atlantshafshryggs. Þar liggja mót Evrasíu og N-Ameríkuflekannn og öll eldvirkni þar er tengd gliðnunarhrinum en gliðnun flekaskilanna er talin vera um 2 cm á ári.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Reykjanes er vestasti hluti Reykjanesskaga og er um 5 km langur og dregur nafn sitt af háhitasvæði sem er þar. Reykjanesskagi liggur innan Reykjanes-gosbeltisins sem liggur vestur af Vesturgosbeltinu og skaginn er þakinn hraunum sem runnið hafa á núverandi hlýskeiði, sem upp úr standa en móbergshryggir og stapar sem hafa myndast á meðan jökull lá yfir landinu eða sjávarborð hefur verið hærra.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Innan Reykjanesskaga eru þrjú til fjögur eldstöðvarkerfi, Reykjanes-Svartsengi (stundum talin sem sitt hvort kerfið), Krýsuvík og Brennisteinsfjöll. Þessi eldstöðvarkerfi eða sprungusveimar hafa stefnuna suðvestur til norðaustur (Jakobsson et. al., 1978, Thordarson og Höskuldsson, 2008, Páll Einarsson, 2008).
Eldstöðvakerfin sitja öll vestur af hvert öðru á skaganum (Mynd 3). Gosefnin úr þessum kerfum eru aðallega basísk og samanstanda af pikríti, ólivín-þóleiíti og þóleiíti. Þóleiít eru einkennandi fyrir sprungugos en pikrítin og ólivín-þóleiítin koma yfirleitt frá dyngjum (Peate et. al., 2008).

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi vestast – jarðfræðikort.

Það eldstöðvarkerfi sem liggur vestast á Reykjanesskaga er Reykjaneseldstöðvarkerfið sem liggur frá suðvestri til norðausturs á Reykjanesi.
Reykjaneseldstöðvarkerfið er um 25 km langt og 10 km breitt og syðstu 9 km eru neðansjávar (Jakobsson et. al., 1978). Gígaraðir á Reykjanesi liggja á tveimur aðskildum gosreinum og hafa orðið sprungugos á þeim að minnsta kosti þrisvar sinnum á nútíma.

Reykjanes er eldbrunnið og að mestu gróðurlaust og þakið úfnum hraunum. Eldvirkni hefur verið mikil á Reykjanesskaga á sögulegum tíma. Þar má nefna að á fyrri hluta 13. aldar voru eldgos tíð og er tímabilið frá 1211-1240 e. Kr. nefnt Reykjaneseldar.

Mosi

Mosahraun á Reykjanesskaga.

Bæði urðu eldgos á landi og í sjó og finna má fjögur gjóskulög á Reykjanesskaga sem tengjast Reykjaneseldum, þ.e. gjóskulögin R-7 – R-10. Eldgos á gossprungum kerfisins hafa náð í sjó fram með tilheyrandi sprengivirkni við ströndina en að auki hefur runnið hraun á landi (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Athuganir hafa sýnt að það hafa verið að minnsta kosti 10 eldgos í sjó undan Reykjanesi síðan ísaldarjökullinn hörfaði (Sigurður Þórarinsson, 1965). Hraun sem runnið hafa á Reykjanesi eru úr basalti. Þóleiít hefur runnið frá gossprungum en ólivínþóleiít eða pikrít úr dyngjum (Jakobsson et. al., 1978).

Fyrri rannsóknir á Reykjanesi

Stampahraunið

Yngra-Stampahraunið.

Magnús Á. Sigurgeirsson (1995) lýsir vel áætluðum framgangi gossins sem myndaði gígrimana tvo í ströndinni við Kerlingarbás og skal hér gera stutta grein fyrir því.

Stampar

Stampar.

Yngsta hraun Reykjaness, Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldum og er talið hafa markað upphaf þeirra. Ekki er hægt að staðfesta nákvæmt gosár en út frá rituðum heimildum og gjóskulagatímatali má leiða líkur að því að það hafi verið árið 1211. Gossprungan er talin hafa náð í sjó fram og myndað þar tvo gjóskugíga en hraun runnið á landi. Þetta gos er kallað Yngra-Stampagosið. Þar sem gossprungan lá á landi mynduðust margir gígar en tveir þeirra, sem kallast Stampar, eru stærstir og er gígaröðin kennd við þá.
Stampar liggja nyrst á gígaröðinni en hún liggur svo í suðvestur í átt að sjó og er 4 km löng. Þau eldvörp sem finna má á gígaröðinni eru byggð úr hraunslettum eða kleprum. Má því áætla að hawaiísk gosvirkni hafi verið ráðandi með tilskyldri kvikustrókavirkni og hraunframleiðslu. Hraunið þekur um 4 km2 lands og flokkast sem klumpa- og helluhraun.
Við endamörk gígaraðarinnar við ströndina er grunn vík sem kallast Kerlingarbás.

Karlinn

Karlinn – utar.

Út af Kerlingarbás í sjónum er drangurinn Karl, sem er 51 m hár og úr móbergi. Hluta þeirra gjóskugíga sem mynduðust í Yngra-Stampagosinu má sjá í ströndinni við Kerlingarbás. Sjórinn hefur rofið talsverðan hluta þeirra en að sama skapi útbúið góðar jarðlagaopnur þar sem skoða má innviði gíganna (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Undir Yngra-Stampahrauninu má finna dökkmóbrúnt gjóskulag sem er nefnt R-7.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli og Valahnúkar fjær.

Vatnsfell, sem er við ströndina við Kerlingarbás, er að verulegum hluta úr þessari gjósku en þar er þykktin orðin allt að 20 m. Því má áætla að upptök þessa gjóskulags (R-7) séu við ströndina og í Vatnsfelli sé varðveittur gígriminn. Athuganir benda til þess að Yngra-Stampahraunið og gjóskulagið R-7 hafi myndast á svipuðum tíma á gossprungu sem náði frá landi og út í sjó. Kannanir á gígleifunum benda til þess að þar séu tveir aðskildir gjóskugígar og sá yngri hefur kaffært þann eldri. Gígarnir eru ólíkir að byggingu og því auðvelt að greina þá í sundur. Sá eldri er nefndur Vatnsfellsgígur og er talinn hafa átt upptök í fjöruborðinu við Vatnsfell og verið 650 m í þvermál.

Stampar

Gígur vestast á Stampagígaröðinni.

Sá yngri er nefndur Karlsgígur eftir dranginum Karli og er talið að hann hafi átt upptök um 500 m frá landi og verið stærri að þvermáli eða um 1600 m. Drangurinn Karl er talinn vera hluti yngri gígsins og markar gígskálina. Talið er að Yngra-Stampahraunið hafi svo runnið að jaðri Karlsgígsins á meðan hann var heill og markar nú útlínur hans. Bæði Vatnsfellsgígur og Karlsgígur teljast til hverfjalla (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Walker og Croasdale (1972) notuðu sýni úr Vatnsfells- og Karlsgígnum til þess að skilgreina surtseyska gjósku. Gosið er talið hafa byrjað með sprengigosi út fyrir ströndinni og þar hleðst upp Vatnsfellsgígurinn (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Vatnsfellsgígurinn er að hluta til þakinn leifum Karlsgígsins og hefur öðruvísi uppbyggingu. Gígbarminum má skipta í neðri og efri gjóskulagasyrpu. Neðri syrpan er fín aska, mjög þunnlagskipt með gárum. Efri syrpan er úr vikri og bergbrotum sem verður grófari eftir því sem ofar dregur. Efsti hlutinn er nánast eingöngu úr vikri. Eftir upphleðslu Vatnsfellsgígsins gerir síðan stutt goshlé, ekki lengra en nokkrir mánuðir og þá tekur aftur að gjósa undan ströndu en lengra frá landi. Þar hleðst upp Karlsgígurinn og gjóskan frá honum (R-7) berst svo um Reykjanesið en mest út á sjó. Karlsgígurinn er hverfjall sem er uppbyggður úr gusthlaupa- og gjóskufallslögum sem skiptast á.
StamparAlgengt er að finna öskubaunir og þétt blöðrótt lög í gígbarminum, sem gefur til kynna að gjóskan hefur verið mettuð gufu þegar hún settist til. Bygging gígsins einkennist í fyrsta lagi af þunnum til þykkum (3-30 cm) lögum af einsleitum gjóskulögum og í öðru lagi af mjög þunnum til þunnum (1-3 cm) lagþynnóttum til lagskiptum lögum. (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995). Í framhaldi af þessum gjóskugosum við ströndina hefst svo hraungosið á landi. (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).”

Í Faxa 2006 spyr Ægir Sigurðsson; “Er eitthvað að sjá á Reykjanesskaganum“?

Eldvörp

Í Illahrauni við Bláa lónið.

“Þessi landslags og mannlífslýsing meistara Þórbergs á einu af innnesjunum á einnig við útnesin í hugum þorra landsmanna og mörgum sem á skaganum búa finnst lítt til um náttúru hans.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Hér rísa vissulega ekki há fjöll þverbrött úr Ægisfaðmi, hér finnast ekki djúpir dalir og ekki liðast hér ár, bakkafullar af laxfiski, um grænar grundir. En skaginn okkar býr yfir öðrum töfrum sem allt of margir hafa látið fram hjá sér fara en eru þó að verða fleirum og fleirum ljósari.
Í þessum greinarstúfi ætla ég að benda á örfáar perlur sem hægt er að nálgast án mikillar fyrirhafnar í þeirri von að einhverjir Suðurnesjamenn geri sér grein fyrir að innan seilingar eigi þeir náttúru sem er einstök í sinni röð. Um seinni línuna í tilvitnuninni ræði ég ekki að sinni.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

En hvað er það sem gerir Reykjanesið svona sérstætt? Hví hafa jafnt erlendir sem innlendir náttúrufræðingar skrifað aragrúa lærðra greina um náttúru þessa útskaga? Jú hér hagar svo til að rannsaka má úthafshrygg á þurru landi sem óneitanlega er miklu þægilegra en á nokkur hundruð eða þúsund faðma dýpi. Þar hlaðast upp há fjöll svo sem Himalajafjöllin, þar verða jarðskjálftar mun harðari og mannskæðari og gos eldfjallanna ofsafengnari.

Kolbeinsey

Kolbeinsey.

En þar sem við erum á plötuskilum læt ég þetta duga um mótin. Eftir úthöfunum endilöngum liggja 2000-4000 m háir fjallgarðar sem alls eru um 70.000 km að lengd. Víða hafa hryggirnir hliðrast þvert á lengdarás sinn um tugi eða hundruð kílómetra um svo nefnd brotabelti.
Tvenn brotabelti eru á eða við landið. Annað tengir saman gosbeltin á Reykjanesi og á Suðurlandi og þar eiga m.a. hinir illræmdu Suðurlandsskjálftar upptök sín. Hitt er fyrir Norðurlandi og tengir saman eystra gosbeltið í Axarfirði og Kolbeinseyjarhrygginn. Á því urðu fyrir skömmu allsnarpar hræringar.
Hryggirnir, svo og hafsbotninn eru úr eðlisþyngri efnum en meginlöndin og standa því lægra en þau og eru því undir sjó. Undir hryggjunum kemur heitt möttulefnið upp og þeir standa því mun hærra en botninn umhverfis sem er úr kaldara efni. Yfir möttulstrókunum miðjum þar sem landris er mest bæði vegna hitaáhrifanna svo og mikillar efnisframleiðslu getur hafsbotninn risið úr sæ. Ísland er dæmi um slíkt.

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur.

Reykjaneshryggur er hluti af Atlantshafshryggnum sem liðast eftir hafinu endilöngu og skilur m.a. að Norður Ameríku- og Evrasíuflekana. Reykjanesskaginn tekur síðan við af hryggjunum og markar þannig upphaf gosbeltisins sem nær þvert yfir landið. Reykjanesskaginn er því að klofna.

Þingvellir

Þingvellir – misgengi.

Vestari hluti hans færist til norðvesturs að meðaltali um 1 cm/ári en eystri hluti hans til suðausturs með sama hraða. Jarðeldurinn fyllir síðan jafnóðum í rifuna á milli. Þessar hreyfingar verða í rykkjum og fylgja þeim eldgos líkt og í Kröflueldum þar sem land gliðnaði um 78 m á nokkrum árum.
Eldvirknin innan gosbeltanna er ekki samfelld heldur raða eldvörpin sér á afmörkuð svæði, gosreinar. Í miðju hverrar reinar er eldvirknin mest og þar myndast megineldstöðvar sem oft rísa nokkur hundruð metra yfir umhverfi sitt. Þar er að fi nna mun meiri breytileika í bergtegundum og gosmyndunum en utan þeirra og háhitasvæði tengist þeim fl estum. Á Reykjanesskaganum hafa megineldstöðvar ekki náð að myndast enn nema í Hengilsreininni sem er elst. Reinarnar eru mismunandi að lengd, 20-50 km, og breiddin frá 5 og upp í 7 km og stefna þær NA SV. Misgengin í hverri rein mynda grunna sigdali og gígarnir fylgja flestir miðju hverrar reinar. Einstaka hrauntaumar hafa þó runnið langt út fyrir sína heima rein.

Snókalönd

Skjól í Snókalöndum.

Fjölbreytileiki eldstöðva er mikill og á fáum stöðum er hægt að skoða allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva á jafn litlu og aðgengilegu svæði.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Dyngjur litlar sem stórar, gígaraðir stuttar og langar úr kleprum og gjalli í ýmsum hlutföllum, gígahópar (svæðisgos), stampar og eldborgir, sprengigígar og jafnvel myndanir sem líkjast sigkötlum. Í útjaðri svæðisins eru megineldstöðvar órofnar eins og Hengilssvæðið eða rofnar til róta líkt og Reykjavíkur, Kjalarnes og Stardalsstöðvarnar. Á utanverðum skaganum er aðeins að finna basalt en þar eru þó allar þrjár megin gerðirnar. Fjölbreytileiki hraunanna og hraunmyndanna er óþrjótandi. Hraunhólar með djúpum sprungum sem veita ýmsum jurtum skjól svo sem blágresi og stóraburkna, hraunbólur, óbrinnishóla inn í miðju hraunhafinu, hrauntraðir með ýmsum myndunum, kargahraun þakið þykkri mosakápu, niðurföll, rásir, skúta og hella af mismunandi lengd og gerð.

Hellar

Ferlir

Í hellinum Ferli.

Fjölmargir hellar eru á skaganum og aðeins hluti þeirra fundinn svo að fyrir þá sem vilja skríða um móður jörð og skoða innviði hennar er þetta kjörsvæði.

Strompahellar

Í Strompahellum.

Hellaauðug hraun eru oft aðeins steinsnar frá þjóðleiðum t.d. í Arnaseturshrauni við Grindavíkurveg og hinir rómuðu Bláfjallahellar í Strompahrauni þar sem þúsundir manna fara um á góðviðrisdögum. Konunginn sjálfan hinn 1360 m langa Raufarhólshelli í Leitahrauni þekkja víst flestir. Ekki eru allir hellarnir svo til láréttir heldur er einnig þó nokkuð um lóðrétta hella sem flestir eru afgösunar pípur og þá oft tengdir gígunum. Dýpstur er hellirinn í Þríhnjúkum en þar þarf að síga um 110 m beint niður áður en fætur kenna gólfs og eftir það má enn fara neðar. Fer þá eflaust að styttast til þess höfðingja sem hinir ófrómu munu gista að lokinni jarðvistinni. Um þær myndanir sem hellarnir búa yfir, mætti hafa mörg orð, en þeirra á aðeins að njóta á staðnum, í því sérkennilega andrúmslofti sem þar ríkir og í hinni dularfullu birtu ljóskeranna. Sjálft hraunið og myndanir þess og litbrigði eru svo heimur út af fyrir sig.

Móberg

Móbergsmyndanir.

Djúpar gjár stundum með köldu tæru vatni og misgengisstallar af mismunandi stærðum og gerðum eru einnig skoðunarverðir staðir. Móbergið sem er mun linara en basaltið er tilvalið efni fyrir vatn og vind til að skera út ýmsar kynjamyndir. Og ekki má láta hjá líða að minnast á háhitasvæðin með öllum þeim furðum sem þar er að sjá og heyra að ógleymdri þeirri ilman sem fylgi skoðandanum langt út fyrir svæðið.

Jarðlagagerð

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – bólstraberg í bland við Hylo.

Ef við lítum aðeins á jarðlagagerðina má skipta henni eftir myndunartíma í þrjá aðal flokka. Grágrýtishraunin frá síðustu hlýskeiðum, móbergs og bólstraberg frá síðustu jökulskeiðum og hraun runnin eftir ísöld.
Þorbjarnarfell ofan Grindavíkur er ágætt dæmi um bólstrabergsmyndun. Hana má glöggt sjá í veggjum Þjófagjár.

Grágrýti

Grágrýti

Grágrýti.

Grágrýtishraunin runnu á hlýskeiðum ísaldar og jöklarnir hreinsuðu og skófu síðan allt gjall, hraunreipi og aðrar yfirborðsmyndanir af.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa. Landrek.

Ysti hluti skagans, Rosmhvalanes, sem er SV við miðju landrekssprungunnar, er hulið grágrýti og samkvæmt flekakenningunni ætti grágrýti af svipuðum aldri að finnast SA við hana. Ef þið skoðið mynd 3 sjáið þið að svo er t.d. í Krýsuvík. Við skulum líta aðeins nánar á grágrýtið á “Rostunganesinu” en á því eru helstu stórborgir Suðurnesja. Hraunin bera þess greinileg merki að þau eru runnin frá dyngjum. Þar sem sjór og/eða jöklar hafa rofið stalla í það má sjá að þau eru beltótt og smá eða grófkristölluð. Ef rýnt er í bergið má kenna að ljósu kornin í því eru plagíóklas (feldspat) og á einstaka stað má í ljósum og gropnum blettum sjá dökka, nokkuð stóra, ágít kristalla. Þar sem bergið er mishart, veðrast við vissar aðstæður mjög sérkennilegt „bollamunstur” í það og prýða slíkir steinar margan verðlaunagarðinn í Keflavík. Skipta má grágrýtinu upp í þrjár syrpur: Háaleitis, Njarðvíkur og Vogastapagrágrýtið.

Vogastapagrágrýtið

Háaleiti

Háaleiti – Áki Granz.

Talið er að Háleitis og Vogastapagrágrýtið hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði fyrir um 200.000 árum en Njarðvíkurgrágrýtið á síðasta hlýskeiði og er þá um 100.000 ára. Talið er næsta víst að Háaleitið sé dyngjuhvirfill samnefnds hrauns en óvíst er um uppkomustað hinna og gætu þeir jafnvel verið horfnir í sæ. Þykkt hraunanna er allt að 90m. Vogagrágrýti hefur snarast til SA, inn að virka svæðinu, og má merkja það á misgengjum svo sem í Háabjalla og stöllunum sitt hvoru megin Seltjarnar.

Móbergs- og bólstramyndanir

Bólstrar

Bólstri í Lambatanga.

Móbergs- og bólstramyndanir eru flestar frá síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir 70.000 árum. Dæmi er um myndanir frá eldri jökulskeiðum. Reynt verður að skýra lauslega frá því hvað á sér stað þegar jarðeldur kemur upp undir jökli eða vatni.

Grindavík

Sundhnúkur – hraunrennsli.

Flestir hafa séð hvernig hraun renna frá eldvörpum t.d. Heklu og Kröflugosum. Ef bergkvika kemur upp undir jökli bræðir hún geil í jökulinn sem hálffyllist af vatni sem snöggkælir hana svo hún nær ekki að kristallast en splundrast í smá gleragnir sem nefnist aska. Margir hafa orðið fyrir því að snöggkæla heita glerhluti og þekkja þetta því af eigin skinni. Ef vatnsþrýstingurinn er nægur nær efnið ekki að splundrast en vegna mikillar kælingar myndar það hnykla eða kodda sem oft eru innan við metri á hvern kant. Nefnist bergið þá bólstraberg. Ef gos stendur það lengi að bólstrabergið og gosaskan ná að hlaða upp gíg sem vatn kemst ekki í rennur hraun sem myndar hettu ofan á eldvarpinu. Nefnist það þá stapi.

Sveifluháls

Móbergsháls (Sveifluháls) á Reykjanesskaga – Kleifarvatn.

Með tíð og tíma ummyndast og harðnar hin dökka aska og verður að brúnu mógleri sem límist saman og myndar móbergið. Vikur, gjall og hraunmolar smáir og stórir sem blandast öskunni gefur svo móberginu mismunandi ásýnd.
Þegar jökullinn hvarf af landinu stóðu eftir hlíðarbrött fjöll, mismunandi að hæð og gerð. Útlit og gerð þeirra fer eftir því hvenær gosinu lauk og hvort gosið hefur aðallega á einum stað eða á gossprungu. Sem dæmi um móbergshryggi má nefna Sveiflu og Núpshlíðarhálsa svo og fellin frá Valahnúk að Sýrfelli. Vegna athafna manna er unnt að skoða bólstrabergið í Stapafelli í mjög laglegu sniði, meira að segja, án þess að þurfa að yfirgefa hægindi mótorfáksins. Í Súlunum, sem samfastar eru Stapafelli, má einnig greina gangana sem á sínum tíma veittu eldleðjunni upp í gíginn. Keilir er dæmi um stakstætt móbergsfjall og Fagradalsfjall er myndarlegasti stapinn á utanverðum skaganum.

Hraun

Katlahraun

Katlahraun.

Nútímahraun nefnast þau hraun sem upp hafa komið eftir að jökla leysti hér á skaganum líklega fyrir 12-13 þúsund árum. Venja er að skipta hraununum í tvo flokka eftir uppruna og útliti: Dyngjuhraun sem eru dæmigerð helluhraun úr þunnum hraunlögum, slétt, reipótt og með ávölum hraunhólum sem oft eru með alldjúpum sprungum í kollinum.

Grindavík

Ný hraunmyndun ofan Grindavíkur.

Bergið er gráleitt og með brúnleita veðrunarkápu, oft grófkornótt og áberandi ólivín og/eða plagíóklas dílar eru algengir. Bergtegundin nefnist ólivínþóleiít og er einkennisberg hafsbotnsins. Hraunin dreifast gjarnan yfir stór svæði því kvikan er heit og þunnfljótandi þegar hún kemur upp. Á skaganum utanverðum eru þrjár stórar dyngjur. Sú ysta nefnist Sandfellshæð og þrátt fyrir að hraun hennar þeki uppundir 150 km2 og eru tæpir 6 km3 er gígur hennar aðeins 90 metrar yfir sjávarmáli.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Þráinsskjöldur byggir síðan upp Vogaheiðina og er gígur hans rétt austan við Fagradalsfjall-Vatnsfell. Að stærð og aldri eru þessar dyngjur álíka og virðast hafa verið virkar við lægri sjávarstöðu líklega skömmu eftir að ísa leysti af svæðinu. Ef þið hafið ekki tekið eftir þessu mikla eldfjalli, Þráinsskyldi, rennið þá augunum, frá Ströndinni og upp í vikið á milli Keilis og Vatnsfells næst þegar þið eigið leið um Stapann í átt til höfuðstaðarins. Þá blasir við eldstöð þar sem upp kom um 20 sinnum meira efni en í Heimaeyjargosinu. Þriðju dyngjuna er að finna uppundir Sveifluhálsi og er hún kennd við Hrútagjá en hraun hennar runnu til sjávar á milli Afstapahrauns og Straums. Dyngja þessi er mun minni en hinar tvær og einnig snöggtum yngri. Austar á skaganum eru fleiri dyngjur svo sem Selvogsheiði, Heiðin há og Leitin, en hraunin frá þeim runnu til sjávar bæði í Reykjavík og Þorlákshöfn.
Nokkrar minni dyngjur úr svo nefndu pikríti, er einnig að finna á Reykjanesi og má þar til nefna Háleyjarbungu út á Reykjanestá en hana prýðir formfagur gígketill. Pikrítið er bergtegund sem er talin vera komin svo til beint frá möttli. Það er grófkornótt og allt löðrandi í ólivíndílum sem stundum eru svolítið brúnleitir vegna ummyndunar í stað þess að vera ólivíngrænir. Pikrít hraunin eru talin vera elstu nútímahraunin á skaganum og hafa því runnið strax eftir ísaldarlok.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Sprunguhraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum eru úr mun seigari kviku en dyngjuhraunin og mynda því þykk hraun með mikinn gjallkarga. Þau eru því úfin og ill yfirferðar og hraunjaðar þeirra hár og brattur. Nefnast slík hraun apalhraun.

Apalhraun

Apalhraun.

Frá einstaka eldvarpi geta þó báðar hraungerðirnar runnið í einu og sama gosinu. Apalhraunin renna gjarnan frá gosrásinni eftir hraunám sem nefnast hrauntraðir að gosi loknu en helluhraunin eftir rásum undir storknuðu yfirborðinu. Þau síðarnefndu eru því mun auðugri af hellum. Sprunguhraunin eru flest yngri en dyngjuhraunin og nokkur þeirra hafa runnið eftir að land var numið. Bergtegundin er þóleiít, algengasta bergtegund landsins, nema hér á nesinu þar sem um 18 % af yfirborðsberginu telst til þess en 78% er ólivínþóleiít og 4% pikrít. Þóleiítið er mun dekkra en dyngjubasaltið og dul- eða fínkornótt og mun minna af dílum er í því en hinum tveim. Eldvörpin eru mjög fjölbreytt að gerð og lögun, en mun meira af lausum gosefnum koma upp í þeim en dyngjunum og heildar magn gosefna einstakra gosa er oftast langt innan við 1 km3.

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgos og hraun á Reykjanesskaga.

Erfitt er að gera sér grein fyrir fjölda þeirra eldvarpa sem gosið hafa á nútíma en Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kortlagt hraun frá meira en 150 uppkomustöðum en þeir hljóta að vera fleiri því einhverjir hafa lent undir yngri hraunum. Gosin verða í hrinum innan hverrar gosreinar. Glöggt dæmi um það er gos sem hófst út á Reykjanestá, líklega 1226, sem síðan breiddist norðaustur eftir skaganum allt til Arnarseturs sem er rétt austan Grindavíkurvegar. Sömu sögu má segja þegar Ögmundarhraun rann líklega 1151. Á kortinu má einnig sjá þau 14 hraun sem upp hafa komið á sögulegum tíma. Athygli skal vakin á austasta hrauninu númer 14, en það telur Jón Jónsson vera Kristnitökuhraun sem rann þegar við kristni var tekið af lýð árið 999.

Hvenær gýs næst?

eldgos

Má vænta þessa í nánustu framtíð á Reykjanesskaga?

Þó langt sé liðið, á tímakvarða manna, síðan síðast gaus á Reykjanesskaganum er hann langt frá því að vera dauður úr öllum eldæðum. Mun skemmra er síðan stór gos hafa orðið út á Reykjaneshrygg. 1783 hlóðst þar upp eyja sem fékk það frumlega nafn Nýey en hafið vann fljótt og vel á henni. Líkur hafa verið að því leiddar að gosið hafi út á hryggnum á síðustu öld og það oftar en einu sinni.

Eldgos

Eldgos við Sundhnúk ofan Grindavíkur.

Þó eldgos séu mikil sjónarspil og valdi ekki alltaf miklu tjóni og geti jafnvel verið til bóta fyrir svæðið sem þau koma upp á t.d. með því að leggja til byggingarefni, veita skjól eða draga til sín ferðamenn æskir þeirra enginn.
Mannskepnan er ósköp smá og lítils megnug þegar eldgyðjan blæs í glæður sínar en eitt er víst að jarðeldur á eftir að koma upp hér á skaganum. Eina óvissan er hvar og hvenær.” – Ægir Sigurðsson.

Heimildir:
-Yngra-Stampagosið á Reykjanesi, Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, Jarðvísindadeild HÍ 2016 – ritgerð í HÍ.
-Faxi, 2. tbl. 66. árg. 2006, Er eitthvað að sjá á Reykjanesskaganum, Ægir Sigurðsson, bls. 44-47.

Eldgos

Vel er fylgst með jarðhræringum á Reykjanesskaga.