Reykjanes

Magnús og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur skrifuðu ítarlegan kafla um Reykjanesskagann og eldvirkni þar í ritið Náttúruvá á Íslandi ; “Eldgos og jarðskjálftar“:

Í kaflanum fjalla þeir um eldstöðvakerfin frá Hengilskerfinu í norðaustri og suður og vestur um að Brennisteinsfjallakerfinu, Krýsuvíkurkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu, Svartsengiskerfinu og Reykjaneskerfinu.

Eldgosahrinur með hléum

“Síðast byrjaði goshrina þarna austast og færðist í vestur,“ sagði Magnús um elda á Reykjanesi á 13. öld. Vísbendingar eru um að gosskeiðið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800 . Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu komu vestustu kerfi Reykjanesskagans á 13. öld eftir um 30 ára goshlé. Þessum eldum lauk um árið 1240, eða fyrir um 780 árum.

Stampar

Gígar Stampahrauns á Reykjanesi.

Goshrinur hafa komið
Magnús benti á að þetta hefði átt við um síðustu elda en ekki væri vitað nákvæmlega um ferli í fyrri hrinum, t.d. fyrir 2-3 þúsund árum. Hann sagði erfitt að segja fyrir um það nú hvernig atburðarásin með landrisi og jarðskjálftum við Þorbjörn myndi enda.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2023.

Miðað við sögu Reykjanesskaga og síðustu goshrinur þar mætti segja að það gæti verið að koma tími á viðvarandi jarðelda á svæðinu. „Þetta er eiginlega alveg ný reynsla, má segja. Þetta sést fyrst og fremst vegna þessara nákvæmu mæla sem komnir eru,“ sagði Magnús. Hann sagði að svipuð atburðarás og er nú gæti vel hafa orðið fyrir einhverjum áratugum eða árhundruðum án þess að hennar hafi orðið vart. Jarðhræringarnar og landrisið nú er á svæði sem tilheyrir Svartsengiskerfinu. Engin merki eru um að eldvirkni þar hafi náð út í sjó, eins og sums staðar annars staðar á Reykjanesskaganum. Ekki er útilokað að það geti þó gerst, að sögn Magnúsar. Svartsengiskerfið er um sjö km breitt og allt að 30 km langt. Gosstöðvar eru á syðstu 17 km. Kæmu upp jarðeldar gæti hraunkvika mögulega farið eftir sprungum og komið upp fjarri sjálfri gosstöð inni. Sprungur ná langt í norðaustur frá Svartsengi. „Gosvirknin er bundin við suðurpartinn. Það gildir líka um Reykjaneskerfið og Krýsuvík,“ sagði Magnús.

Síðasta eldgosahrina á 13. öld

Nokkur hraun runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu frá 1211 til 1240. Vestast er Eldvarpahraun. Þar fyrir austan er Illahraun. Orkuverið í Svartsengi stendur á því og Bláa lónið er við norðurjaðar þess. Arnarseturshraun er norðaustast af þessum þremur hraunum. Talið er að það hafi runnið síðast af þeim. Arnarseturshraun og Illahraun runnu bæði inn á Eldvarpahraunið.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Grindavíkurvegurinn liggur að hluta í gegnum Arnarseturshraunið. Rannsóknir sýna að eldar á Reykjanesskaga geta staðið í nokkra áratugi eða lengur, með hléum. Þeir eru nokkuð svipaðir og Kröflueldar voru. Magnús sagði að eldarnir í Krýsuvík þegar Ögmundarhraun rann virtust hafa staðið í 2-3 áratugi. Svipuð atburðarás hefði orðið í Brennisteinsfjöllum á 10. öld þegar gaus á þó nokkrum stöðum þar. Samkvæmt mælingum er landrisið á Svartsengissvæðinu vestan við fjallið Þorbjörn og ekki mjög langt frá Eldvarpagossprungunni. Magnús sagði ómögulegt að fullyrða um framhaldið. Líklegast væri að þetta hjaðnaði en tæki sig síðan mögulega upp aftur í framtíðinni.

Virðist vera fremur lítil kvika

Áætlað er að Arnarseturshraun sé um 0,3 rúmkílómetrar að rúmmáli. Samkvæmt frétt Veðurstofu Íslands 26. janúar var áætlað samkvæmt grófu mati að rúmmál kvikusöfnunarinnar hefði verið um ein milljón rúmmetra eða 0,001 rúmkílómetri. Það er 1/300 af rúmmáli Arnarseturshrauns. Ef þessi kvika nær til yfirborðs og ekki verður meira aðstreymi kviku verður um lítið gos að ræða, að sögn Magnúsar. Hann sagði talið að kvikan væri á um þriggja til fjögurra km dýpi.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Jarðskjálftar og landris í grennd við fjallið Þorbjörn upp af Grindavík hafa sett menn í viðbragðsstöðu gagnvart eldsumbrotum þar í grennd. Af þeim sökum hafa menn líka rýnt í jarðfræðileg gögn og gamlar frásagnir af eldgosum á þessum slóðum.

Yngsta goshrinan, Reykjaneseldar, gekk yfir á árabilinu 1210-1240, það er fyrir um 800 árum. Þá urðu neðansjávargos úti fyrir Reykjanesi og hraun runnu á landi bæði á Reykjanesi og við Svartsengi. Eitt þessara hrauna var Eldvarpahraun vestan Grindavíkur. Gígaröðin, Eldvörpin, er um 8 km löng og nær alveg suður að ströndinni við Staðarberg og þar rann hraun í sjó.


Á fjölgeisla dýptarmælingum, sem Landhelgisgæslan hefur aflað með sjómælingaskipinu Baldri og látið ÍSOR í té til frekari úrvinnslu, sést að hraunið hefur ekki numið staðar við ströndina heldur hefur það runnið langa leið neðansjávar og myndar þar fallegar tungur úr úfnu hrauni. Lengst nær það um 2,7 km út frá strönd og er þar komið niður á um 90 m dýpi. Hugsanlegt er að gossprungan teygi sig líka út fyrir ströndina og að þarna hafi einnig gosið í sjó. Flatarmál hraunsins á sjávarbotni er um 3,4 km2. Hraun af þessu tagi er engan veginn einsdæmi.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Hópsnesið hjá Grindavík er hluti af hrauni sem runnið hefur niður að strönd og myndað allmikinn tanga út í sjó. Það er um 8000 ára gamalt. Á myndum má sjá að það teygir sig áfram neðansjávar og myndar hrauntungu sem nær niður á um 100 m dýpi.
Á dýptarmælingum sem aflað hefur verið á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg sést að hraun geta runnið á hafsbotni frá gígum og gossprungum á allmiklu dýpi. Talið er að þetta séu svokölluð bólstrabergshraun eða bólstrabreiður.
Til þess að hraun geti runnið með þessum hætti þurfa þau að verja sig gegn sjávarkælingu. Þau virðast mynda einangrandi kápu úr gjalli og storknuðu bergi um leið og þau streyma fram. Ljóst er að hraunrennslið þarf að vera mikið og stöðugt til að hrauntunga nái að myndast á sjávarbotni. Við slíkar aðstæður myndi vera illgerlegt að stöðva hraunrennsli með sjókælingu.

Heimildir:
-http://isor.is/frettir/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga
-http://isor.is/frettir/nedansjavarhraun-vid-grindavik-sogulegt

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.