Náttúra

“Margt hefur verið ritað og birt um jarðfræði Reykjanesskaga og Reykjaneshryggjar í fræðigreinum og ritum, bæði innlendum og erlendum. Grundvallarrit um jarðfræði Reykjanesskaga er skýrsla og jarðfræðikort Jóns Jónssonar, þar sem dregnar eru saman niðurstöður 18 ára rannsóknarvinnu við kortlagningu hrauna og eldvarpa (Jón Jónsson, 1978).

Afstapahraun

Afstapahraun – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Jón hefur þar að auki ritað ítarlegar yfirlitsgreinar um jarðfræði Reykjanesskaga í Árbækur Ferðafélags Íslands og yfirlit yfir söguleg eldgos á skaganum í tímaritið Náttúrufræðinginn (Jón Jónsson, 1983, 1984, 1985). Annað yfirgripsmikið jarðfræðirit um Reykjanesskaga er skýrsla Freysteins Sigurðssonar um vatnajarðfræði svæðisins (Freysteinn Sigurðsson, 1985). Sveinn P. Jakobsson o.fl. gerðu grein fyrir bergfræði á vestanverðum Reykjanesskaga (Jakobsson, Jónsson, & Shido, 1978). Ari Trausti Guðmundsson skrifar sérstaka kafla um eldstöðvakerfi skagans og gossögu þeirra í ritum sínum um íslenskar eldstöðvar (Ari Trausti Guðmundsson, 1988, 2001). Gunnar Birgisson skrifaði námsritgerð um laus jarðlög á svæðinu (Gunnar Birgisson, 1983).

Margt hefur verið birt í erlendum jarðvísindatímaritum og einnig í innlendu tímaritunum Náttúrufræðingnum (á íslensku) og Jökli (á ensku og íslensku).

Íslandskort

Íslandskort Guðbrandar Þorlákssonar 1590.

Til er fjöldi skýrsla frá Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands um ýmsar náttúrurannsóknir á Reykjanesskaga. Margar þeirra snúa að jarðhitarannsóknum (bæði jarðfræði og jarðeðlisfræði) en einnig að öðrum náttúrurannsóknum, til að mynda rannsóknum í líffræði. Það yrði of langt mál að telja öll þessi skrif upp hér og skal vísað til frekari heimilda sem skráðar eru í ofangreindum ritum og til fyrrnefndra stofnanna. Í framhaldinu verður gerð grein fyrir þeim náttúrurannsóknum sem fram fóru á Reykjanesskaga fyrr á öldum og fram á áttunda áratuginn þegar flekakenningin tók að ryðja sér til rúms innan jarðvísindanna og margir þættir í jarðfræði Reykjanesskaga og Reykjaneshryggjar tóku að skýrast út frá auknum skilningi á reki jarðskorpuflekanna.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – uppdráttur.

Náttúrurannsóknir á skaganum má rekja allt aftur til 18. aldar og koma þar bæði innlendir og erlendir vísindamenn við sögu. Skipulögð jarðfræðikortlagning hefst á skaganum á 7. áratug síðustu aldar vegna mikilvægi hans í sambandi við jarðhitarannsóknir (Jón Jónsson, 1978). Það er auk þess um það leyti sem erlendir vísindamenn taka að sýna svæðinu meiri áhuga vegna flekakenningarinnar. Hér að neðan er upptalning í tímaröð um jarðfræðitengdar rannsóknir á Reykjanesskaga allt frá 18. öld. Fróðleikur um þetta efni byggir að mestu á Jóni Jónssyni en hér eru fæðingar- og dánarár sett við hlutaðeigandi (spurningarmerki í sviga ef óljóst).

Abraham Ortelius

Abraham Ortelius.

Reykjanesskagi birtist í heild árið 1590 í riti flæmska kortagerðamannsins og landfræðingsins Abrahams Ortelíusar (1527-1598), Additamendum IV. Teatri Orbis Terrarum. Skaginn birtist þar mjög afbakaður á korti. Kortið er komið frá Guðbrandi Þorlákssyni (1541-1627) biskupi á Hólum en ekki er ljóst hvenær það er gert.

Magnús Arason (?-1728), sem gegndi herþjónustu í danska hernum, var sendur af Dönum til landmælinga á Íslandi. Hann birtir fyrsta vísinn að sérkorti fyrir Reykjanesskaga á tímabilinu 1721-1722 en drukknaði áður en hann náði að ljúka við landmælingar sínar.
Náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson (1726-1768) og Bjarni Pálsson (1719-1779) rituðu um Reykjanesskaga í Ferðabók sína. Rannsóknir þeirra (1752-1757) á Reykjanesskaga eru þó fremur fátæklegar. Þeir geta til um eldgos sem orðið hafa frá Landnámstíð fram til þeirra daga og vitna til skráðra heimilda í sögum og annálum.

Sveinn Pálsson

Sveinn Pálsson.

Sveinn Pálsson (1762-1840) læknir og náttúrufræðingur, virðist litlar rannsóknir hafa gert á Reykjanesskaga. Í Ferðabók hans frá 1791-1797 eru einungis stuttar lýsingar sem lítið mun vera hægt að byggja á, sér í lagi hvað jarðfræðina varðar.
Skotinn Sir George Steuart Mackenzie (1780-1848), ferðaðist um Ísland árið 1810 og safnaði talsverðu af efni varðandi jarðfræði landsins. McKenzie skrifaði bók um ferðir sínar á Íslandi sem virðist hafa náð talsverðri hylli erlendis og hafa vakið áhuga á landinu.
Björn Gunnlaugsson (1788-1876) stærðfræðingur mælir Reykjanesskagann á tímabilinu 30. júní – 30. ágúst árið 1831 og fæst þá fyrsta rétta myndin af honum í heild. Fram að því hafði hann birst meira og minna afbakaður á kortum.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Jónas Hallgrímsson (1807-1845) rannsakaði Krýsuvíkursvæðið og nágrenni Reykjavíkur á árunum 1837-1842. Hann dvaldi í nokkra daga í Krýsuvík ásamt Japetus Steenstrup og beindust rannsóknir þeirra að brennisteinsnámi og hverasvæðum. Þeir skoðuðu einnig Lönguhlíð og Brennisteinsfjöll, en síðarnefnda nafnið kemur þar fyrst fyrir í skráðum heimildum. Upplýsingar frá Jónasi eru einkum í formi dagbókarbrota.
Ríkisstjórn Danmerkur sendi líf- og dýrafræðinginn Japetus Steenstrup (1813-1897) og jarðfræðinginn Jørgen Christian Schythe (1814-1877) til Íslands. Þeir dvöldu hér á tímabilinu 1839-1840, en Jónas Hallgrímsson starfaði um tíma með þeim fyrrnefnda eins og áður sagði. Schythe er þekktur fyrir rit sitt um Heklugosið 1845 en virðist ekkert hafa ritað um Reykjanesskagann.

Robert Bunsen

Robert Wilhelm Bunsen.

Í kjölfar Heklugossins 1845 koma til Íslands tveir vísindamenn sem höfðu mikil áhrif á jarðfræðirannsóknir á Íslandi. Þetta voru jarðfræðingurinn Sartoríus Von Walterhausen (1809-1876) og Robert Wilhelm Bunsen (1811-1899). Talsverður hluti rannsókna þeirra fór fram á Reykjanesskaga. Bunsen rannsakaði móbergið og ummyndun bergs á jarðhitasvæðum, auk þess sem hann rannsakaði hveri og setti fram skýringu á eðli goshvera. Walterhausen rannsakaði móbergið og er hugtakið palagónít (yfir móberg) frá honum komið. Theodor Kjerulf (1825-1888) var norskur jarðfræðingur og skáld sem dvaldi á Íslandi árið 1850. Hann skrifaði nokkrar greinar um jarðfræði Íslands. Hann fjallar um efnagreiningar á Íslenskum bergtegundum og á hveraleir. Telur hann sig líka hafa fundið hrúðurkarla á steinum upp á Mosfellsheiði í meira en 100 m hæð yfir sjó. Hann ritar einnig um sprungumyndanir og sprungugos, athugar stefnu gangabelta o.fl.

Theodor Kjerulf

Theodor Kjerulf.

Lífeðlisfræðingurinn William Preyer (1841-1897) og steindafræðingurinn Ferdinand Zirkel (1828-1912) ferðuðust um Ísland árið 1860. Þeir gerðu fáeinar athuganir á Reykjanesskaga
á brennisteinsnámum og á hverunum í Krísuvík. Zirkel mun vera fyrstur til að nota smásjá til rannsókna á íslensku bergi.
Skotinn W. L. Lindsay (?) dvaldi á Íslandi árið 1860. Hann gerði ýmsar efnafræðilegar rannnsókni á hveravatni og útfellingum við hveri, t.d. þvottalaugarnar í Reykjavík og hverina í Krýsuvík.
Sænski jarðfræðingurinn Carl Wilhelm Paijkull (1836-1869) ferðaðist um Ísland árið 1865 og útbjó jarðfræðikort af landinu. Paijkull skrifaði ferðabók og gerði ýmsar athuganir. Hann lýsir t.d. grágrýtinu í kringum Reykjavík sem ungum jarðmyndunum, en margir höfðu áður talið þær til elstu myndana landsins. Hann er fyrstur manna til að veita jökulrákum á grágrýtinu athygli og dregur út frá því þá ályktum að landið hafi eitt sinn allt verið hulið jökli.

William Preyer

William Preyer.

Jón Hjaltalín (1807-1882) landlæknir gerði ýmsar athuganir á brennisteinsnámum og hverum á Reykjanesskaga um miðja 19. öld. Átti hann bréfaskipti við Jón Sigurðsson um þetta efni og skrifaði um það ritgerð í tímaritið Ný Félagsrit.
Johannes Frederik Johnstrup (1818-1894), prófessor í bergfræði við Kaupmannahafnar-háskóla var sendur til Íslands af danska ríkinu árið 1871 í þeim tilgangi að gera rannsóknir á brennisteinsnámum, en Bretar höfðu sýnt þeim nokkurn áhuga. Hann skoðaði Krýsuvíkurnámur en hefur líklega aldrei ritað um þær rannsóknir sínar.
Þorvaldur Thoroddsen, sem síðar varð manna mikilvirkastur í rannsóknum á landafræði og jarðfræði Íslands, var í fylgdarliði Johnstrup. Þorvaldur var á þessum tíma í námi við Kaupmannarhafnarháskóla. Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921) ferðaðist um Reykjanesskagann í nokkra mánuði árið 1883.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen.

Hann skrifar ritgerðir í Geologiska Föreningens Förhandlingar í Stockholm (1884), Geografisk Tidsskrift (1903), Lýsing Íslands (1911), Islands Grundriss der Geographie und Geologie (1905-1906), Ferðabók (1913-1915) og Geschicte der Islandischen Vulkane (1925). Eftir Þorvald Thoroddsen liggja nokkuð ítarlegar lýsingar á jarðmyndunum á Reykjanesskaga. Jarðfræði Reykjanesskagans eru einnig gerð skil á jarðfræðikorti hans yfir Ísland frá 1901 (mælikvarði 1: 60 000).
Walther Von Knebel (1880-1907) hefur rannsóknir á íslenskum eldstöðvum árið 1905 en skömmu síðar drukknar hann í Öskjuvatni. Að Knebel látnum gaf samferðamaður hans, Hans Reck út handrit Knebels frá Íslandsferðinni og bætti þar við ýmsu. Reck ferðast síðan sjálfur um Reykjanesskaga og gerir þar ýmsar athuganir t.d. á Stampagígaröðinni og gígaröðinni við Sveifluháls. Karl Sapper (1866-1845) var afkastamikill eldfjallafræðingur. Hann ferðaðist hér á landi árið 1906 og rannsóknir hans beindust meðal annars að gígaröðinni sem Ögmundarhraun er komið úr, en honum vannst þó ekki tími til að skoða nema hluta hennar.

Komoeroviz

Bók M.V. Kormorowicz um Ísland.

Maurice Von Komorowicz (?) jarðfræðingur, rannsakaði Rauðhólana við Elliðavatn árið 1907 og gerði af þeim kort. Hann gerði einnig uppdrætti af Búrfellsgjá og Búrfelli.
Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) jarðfræðingur, er fyrstur til að hefja nákvæma jarðfræðikortlagninu á Reykjanesskaga í heild en hann náði þó ekki að ljúka því verki.
Hann byggði á landakortum Herforingjaráðsins frá 1908 (mælikvarði 1:50 000).
Jón Jónsson fékk síðar aðgang að dagbókafærslum hans og drögum að jarðfræðikorti og hafði þær til hliðsjónar við sínar rannsóknir á Reykjanesskaga.
Þorkell Þorkelson (1876-1961) eðlisfræðingur, er fyrstur manna hér á landi til að taka jarðhita fyrir sem sérstakt rannsóknarefni og fjalla nokkur rit hans um jarðhitasvæði á Reykjanesskaga. Hann var ásamt Steingrími Jónssyni rafmagnsstjóra helsti hvatamaður þess að farið var að bora eftir heitu vatni í Reykjavík.

Konrad Heilhack

Konrad Heilhack.

Þýski jarðfræðingurinn Konrad Keilhack (1858-1944) gerði jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni árið 1924 og skrifaði jarðfræðilega lýsingu á svæðinu. Kort hans var nákvæmara en eldri kort og mun vera fyrsta jarðfræðikortið sem gert er af einum landshluta á Íslandi.
Englendingarnir G. W. Tyrell (?) og Martin A. Peacock (?) dvöldu við jarðfræðirannsóknir á Íslandi um sama leyti og Keilhack. Peacock útbjó jarðfræðikort af Viðey og tók út frá þeim rannsóknum sérstaklega fyrir rannsóknir á móberginu. Uppruni þess var þá óljós þótt jarðfræðingurinn Dr. Helgi Pjéturs hafi verið búin að færa sönnur á aldur móbergsmyndunarinnar. Peacock taldi móbergið mega rekja til basalt eldgosa sem átt hefðu sér stað undir jöklum ísaldar og hefur sú skoðun hlotið almenna viðurkenningu síðan.

Svissneski jarðfræðingurinn R. A. Sonder (?) dvaldi á Íslandi sumrin 1935 og 1936. Rannsóknir hans snerust einkum að brotalínum og jarðhita og virðist hann hafa reynt að útbúa einhversskonar skilgreiningarkerfi fyrir jarðhita á Íslandi. Sonder gerði talsverðar athuganir á jarðhitakerfunum á Reykjanesskaga.

Thomas Barth

Thomas F.W. Barth.

Norski jarðfræðingurinn Tom Fredrik Weiby Barth (1899-1971) dvaldi á Íslandi árin 1934 og 1937 og rannsakaði íslensk jarðhitasvæði. Barth gaf út bók um rannsóknir sínar sem kom út í Washington, en í henni eru lýsingar á hverasvæðinu á Reykjanesi, við Krýsuvík og á Hellisheiði, ásamt korti yfir nútímahraun á Hellisheiði sem er það fyrsta í sinni röð. Í bókinni eru sérkort af ýmsum svæðum en Barth gerði fjölmargar athuganir á bæði háhita- og lághitasvæðum bæði í Reykjavík og Mosfellssveit.
Árið 1913 setti Alfred Wegener fram landrekskenningu sína og upp úr því, skömmu fyrir heimstyrjöldina síðari, tóku þýskir jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar að sýna jarðskorpuhreyfingum á Íslandi áhuga.
Sumarið 1938 kom til landsins leiðangur undir stjórn Oskar Niemczyk (1886-1961) prófessors til mælinga á sprungusvæðum hér á landi. Í þessum leiðangri starfaði Tómas Tryggvason. Ýmsar mælingar voru gerðar í leiðangrinum og meðal annars á Reykjanesi, en niðurstöðurnar voru gefnar út í riti árið 1943. Þessar rannsóknir marka upphafið að fjölþættum jarðeðlisfræðilegum rannsóknum á Íslandi.

Tómas Tryggvason

Tómas Tryggvason.

Guðmundur Kjartansson (1909-1972) jarðfræðingur, vann að jarðfræðirannsóknum í Árnessýslu og var afrakstri þeirra rannsókna safnað saman í bók sem kom út árið 1943. Jarðfræðikort Guðmundar yfir suðvesturland (mælikvarði 1:250 000) kom út árið 1960 sem var þá hið nákvæmasta yfir svæðið í heild. Guðmundur skrifaði einnig nokkrar greinar um jarðfræðilegar rannsóknir sínar á Reykjanesskaga.
Í Bratislava var árið 1943 gefin út ritgerð eftir M. F. Kuthan (?) sem nefnist „Die Ozillation, der Vulkanismus und die Tektonik von Reykjavík”. Ritgerð þessi er 74 síður og í henni er að finna 22 myndir og stórt jarðfræðikort (mælikvarði 1:50 000).
Trausti Einarsson (1907-1984) kannar hraun á Hellisheiði og jarðhitasvæði í Hengli á árunum 1947-1949.
Tómas Tryggvason (1907-1965) er fyrsti íslenski bergfræðingurinn og ritaði árið 1957 fyrstur um gabbróhnyðlinga sem finnast við Grænavatn í Krýsuvík. Hann hafði nokkrum árum áður hafist handa við jarðfræðikortlagninu Reykjavíkur og nágrennis. Kort Tómasar (mælikvarði 1:40 000) náði yfir svæðið frá Esju suður fyrir Álftanes og er það fyrsta sem sýnir bæði berggrunn og laus jarðlög og er að öllu leyti unnið hér á landi.
Jón Jónsson (1910-2005) gefur út ítarlegt jarðfræðikort af Reykjanesskaga árið 1978 sem var afrakstur 18 ára rannsóknarvinnu á skaganum. Kortið var tímamótaverk í rannsóknum á jarðfræði Reykjanesskagans.”

Heimild:
-Helgi Páll Jónsson – Eldfjallagarður og jarðminjar á Reykjanesskaga, HÍ 2011.