Eldgos

Í Dagblaðið Vísir árið 2001 er haft eftir Ara Trausta Guðmundssyni, jarðeðlisfræðingi, að “Það muni verða eldgos á Reykjanesskaganum“:

Þéttbýlasta svæði landsins óþægilega nálægt virkum eldstöðvum

Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson.

Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – segir Ari Trausti Guðmundsson en vill engu spá um hvar eða hvenær.

„Ljóst er að sumar byggðir á þéttbýlasta svæði landsins eru óþægilega nálægt virkum skjálftasprungnum eldstöðvakerfum gosbeltanna fjögurra á Reykjanesskaga, eða nálægt misgömlum gossprungum í þeim.” Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur m.a. í nýrri bók sinni „íslenskar eldstöðvar” sem kemur út í þessari viku. Þar er m.a. fjallað ítarlega um eldstöðvakerfi Reykjanesskagans sem talið er líklegt að láti á sér bæra, jafnvel í náinni framtíð.
Í niðurlagi kaflans um Reykjanes segir:
„Enn fremur er vitað að rek- og goshrinur ganga yfir í kerfunum á 700-1000 ára fresti. Nú er langt liðið á kyrrðartímabil hvað jarðeldinn varðar. Þess vegna verður t.d. að gera ráð fyrir að eldar, svipaðir Reykjanes-, Bláfjalla- og Nesjavallaeldum, geti valdið tjóni og óþægindum á Reykjanesskaga á næstu öldum. Áhrif hvers eldgoss ræðst m.a. af legu gossprungna, magni gosefna, aðstæðum á nálægu landsvæði og gosháttum. Hraungos í kerfunum virðast flest vera fremur lítil en skaginn er ekki breiður og ávallt er hætta á að hraun nái af hálendi hans út á láglendið og jafnvel til sjávar. Lítil gjóska fylgir slíkum gosum. Gjóskugos verða helst í sjó undan Reykjanesi eða lengra úti á hryggnum. Gjóskumagnið er þó venjulega fremur takmarkað en gæti samt valdið óþægindum og jafnvel tjóni. Ástæða er til að vinna áætlanir um viðbrögð, meta vel hættur og goslíkur og vakta eldstöðvakerfin á skaganum. Allt þetta hefur verið gert og unnið er áfram að því að draga úr áhættunni við að búa á „landlægum” hluta plötuskilanna í Norður-Atlantshafinu.”

Líkurnar aukast
Eldstöðvakerfi
Jarðfræðingar hafa á síðustu árum og misserum ítrekað gefið í skyn að gos í einhverju hinna fjögurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans séu ekki mjög langt undan. Þannig sagði Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur í samtali við DV fyrir skömmu að menn velti því fyrir sér núna hvort við séum hugsanlega að sigla inn í nýtt gostímabil.
Við stóru jarðskjálftana á Suðurlandi á og eftir 17. júní varð keðjuverkun jarðskjáifta vestur eftir Reykjanesskaga. Áhrif þeirra urðu m.a. mjög sýnileg er Kleifarvatn fór að leka ört niður um sprungur sem þá opnuðust. Jarðskjálftar á Hengilssvæðinu undanfarin ár hafa líka vakið athygli. Hvort það séu vísbendingar um að stórir atburðir séu í aðsigi virðist þó erfitt að henda reiður á. Það lá því beinast við að spyrja bókahöfundinn sjálfan, Ara Trausta Guðmundsson, hvernig hann mæti möguleikana á eldgosi á svæðinu í náinni framtíð.

Það mun verða eldgos
Eldstöðvakerfi
„Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum, það er alveg á hreinu. Það sem bæði jarðfræðingar og leikmenn hafa síðan áhuga á að vita er hvar og hvenær slíkt gos verður. Þegar jarðvisindamenn eru að fjalla um svona mál eru þeir ekki endilega að velta upp öllum hugsanlegum möguleikum. Það er sjaldan hægt að útiloka nokkurn hlut í náttúrunni en menn velta helst fyrir sér því sem líklegast er að gerist. Menn notast við mæligögn, söguna og það sem almennt er vitað um eldvirkni til að leggja upp möguleika í stöðunni. Þá er helst til að taka að við vitum um þessi fjögur eldstöðvakerfi sem liggja skáhalt vestur eftir Reykjanesskaganum.

Ekki allur Reykjanesskaginn undir

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Við þorum nánast að fullyrða að eldgos verði ekki utan þessara kerfa, heldur einungis innan þeirra.
Þar með erum við að segja að á nánast helmingi flatarmáls skagans verða ekki eldgos. Það verður sjaldan eða aldrei eldgos á milli þessara reina sem greinilega má sjá á korti.
Í öðru lagi er hægt að sjá nokkuð ákveðna tíðni í eldgosahrinum. Þetta eru yfirleitt rek- og goshrinur eins og Kröflueldar voru. Það verður jarðgliðnun og það koma og fara eldgos á kannski nokkurra áratuga tímabili. Það virðist vera að það séu um 700 til 1000 ár á milli slíkra lotuhrina í einhverjum af þessum fjórum kerfum á skaganum.”
Ari Trausti segir að á sögulegum tíma hefur eldvirknin þó ekki byrjað í austasta svæðinu sem er Hengilskerfið. Það hefur ekki látið á sér bæra í 2000 ár. Gosvirkni byrjaði hins vegar í næstaustasta kerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll. Síðan fór virknin í næsta kerfi sem er Trölladyngukerfið og síðast gaus í vestasta kerfinu sem er Reykjaneskerfið. Þegar slík eldvirknitímabil fara af stað virðast þau standa yfir í nokkra áratugi eða aldir í fleiri en einu kerfi. Á sögulegum tíma stóð það siðast seint á tíundu öld og fram yfir miðja þrettándu öld.

Líkt og Kröflueldar
Stampahraun
„Það sem er þó nokkur huggun harmi gegn er að þessi eldgos sýnast ekki vera mikil hvert um sig. Þetta eru sprungugos með hraunflæði og lítilli gjóskumyndun, ekki ólík siðustu Kröflugosum. Það er útilokað á þessari stunda að segja til um hvort svona hrinur byrji eftir ár, einn eða fleiri áratugi eða jafnvel ekki fyrr en eftir eina öld.
Við erum að tala um að 700 til 1000 ár líði á milli hrina og nú eru um 750 ár síðan síðasta hrina gekk yfir.”
Líkindl á gosl á Hengilssvæðinu – Nú hefur ekki gosið á Hengilssvæðinu í um 2000 ár. Er þá ekki kominn tími á það, ekki síst ef menn líta til kvikusöfnunar sem vitað er af undir eldstöðinni fram á mitt ár 1999?
„Jú, ef maður hugsar í líkindum þá er auðvitað rétt að meiri líkindi eru á að Hengilskerfið taki við sér næst frekar en önnur þar sem það hefur verið sofandi dálítið lengi. Við vitum að þar hafa gengið yfir að minnsta kosti þrjár goshrinur á síðustu nokkur þúsund árum, síðast fyrir um 2000 árum. Það er því nokkuð líklegt að það geti tekið við sér.
Landris og kvikusöfnun sem var undir Henglinum í lok tíunda áratugarins sýnir svart á hvítu að þarna er heilmikið líf. Þau áhrif sem Suðurlandsskjálftar valda hafa síðan mest áhrif á Hengilskerfið af öllum þessum eldstöðvakerfum. Sem betur fer stoppaði þetta landris 1999. Menn reiknuðu þá út að þetta hafi verið um 100 milljón rúmmetrar af kviku sem hafi risið upp undir Grafarholtshverfinu. Í því er hætta á mun minni skjálftum.

Grindavík, Hveragerði og Hafnarfjörður

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum ofan Grindavíkur 2021.

-Hver er hættan á þétfbýlissvæðum Reykjanesskagans?
„Ég tel ekki að um yrði að ræða umtalsvert tjón af völdum jarðskjálfta á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Varðandi eldgos er matið öðruvísi. Við getum þó afskrifað gjósku sem alvarlegan tjónvald. Hraunin geta hins vegar runnið langt út frá gossprungum.
Hættan á gosum á Hengilssvæðinu er fyrst og fremst fyrir sumarbústaðasvæði allra syðst við Þingvallavatn. Fyrir Nesjavallavirkjun, mannvirki á Hellisheiðinni og síðan Hveragerði. Ég tel ekki nokkrar líkur á að hraun úr slíku gosi næði fram til Reykjavíkur.
Í Bláfjalla- og Brennisteinsfjallakerfinu er hættan ekki mikil á suðurhluta svæðisins. Hins vegar er viss hætta með skiðamannvirki í Bláfjöllunum. Ekki er mikil hætta á að hraun úr þessu kerfi næðu til þéttbýlissvæða.

Trölladyngjukerfið er einna hættulegast

Trölladyngja

Horft til Trölladyngju og Grænadyngju frá Helgadal. Mökkur frá gösstöðinni í Geldingadal t.h.

Trölladyngjukerfið er hins vegar einna hættulegast af þessum kerfum, vegna legunnar. Innan þess er t.d. Grindavík, ný mannvirki í Trölladyngju og Svartsengi er í námunda við þetta svæði. Þá er möguleiki á því að hraun úr nyrðri hluta svæðisins nái til sjávar nálægt Hafnarfirði. Þar yrði álverið í Straumsvík í hættu og Keflavíkurvegurinn á kaflanum frá Kúagerði að Hafnarfirði. Þarna hafa runnið hraun á sögulegum tíma.
Reykjaneskerfi er hins vegar fjær allri byggð. Hættan væri hugsanlega varðandi mannvirki á Reykjanesi og í Eldvörpum. Síðan er Svartsengi nálægt þessu kerfi líka eins og Trölladyngjukerfinu. Hins vegar er möguleiki á sprengigosi líku Surtseyjargosi í sjó við Reykjanes. Þar gaus t.d. á þrettándu öld. Sú gjóska getur fallið á allan Reykjanesskagann og víða á Suðvesturlandi. Ekki eru þó líkur á miklu tjóni af þess völdum.”
Í bók Ara Trausta er einmitt lýst þegar Snorri Sturluson missti naut sín í Svignaskarði af völdum öskufalls úr gosi við Reykjanes árið 1226. Þetta öskulag er kallað miðaldarlagið og er notað sem viðmiðun við fornleifarannsóknir. Drangurinn Karl undan vitanum á Reykjanesi er það sem enn má sjá af gígnum.
Ari Trausti Guðmundsson vill engu spá, frekar en aðrir jarðfræðingar, um hvar og hvenær næsta gos verður. Möguleikar til að spá fyrir slíku eru þó alltaf að batna. Fyrirvarinn sem menn hafa er hins vegar æði misjafn og fer algjörlega eftir eðli hvers eldgosasvæðis fyrir sig – kannski hálftími, jafnvel einhverjir klukkutímar eða dagar. – HKr.

Heimild:
-Dagblaðið Vísir 275. tbl. 28.11.2001, Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – Ari Trausti Guðmundsson, bls. 8-9.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaganum 2021.