Færslur

Reykjanesskagi

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt um; “Hvað er vitað um dyngjugos á Reykjanesskaga?”. Svar Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings og fyrrverandi deildarstjóra á Orkustofnun, og Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings, var:

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.

“Dyngjugos á Reykjanesskaga byrja sennilega í flestum tilvikum sem sprungugos. Vísbendingar um slíkt má sjá í Fagradalsfjallskerfinu og víðar. Virknin færist síðan smám saman í einn gíg og þróast í sígos sem stendur lengi, jafnvel nokkur ár í stærstu dyngjunum. Hraunframleiðsla er talin lítil eða kringum fimm rúmmetrar á sekúndu. Líklegt er að lengri tími gefist til að bregðast við ógn af þeirra völdum en sprungugosa.

Hegðun og framgangur dyngjugosa eru allvel þekkt. Í aðalgígnum myndast oftast hrauntjörn, full að börmum, sem síðan tæmist út í rásir sem liggja frá honum (hellakerfi) þegar streymi að neðan hættir, eins og til dæmis í Sandfellshæð.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Dæmi eru um að hraun stígi aftur upp og fylli gíginn. Ef hraunrásirnar eru þá stíflaðar, flæðir yfir gígbarmana (Þráinsskjöldur), en líka getur kvikan troðist sem innskot undir gígsvæðið og belgt það upp (Hrútagjá). Gee og fleiri töldu mikið hraunmagn og frumstætt berg hafa fylgt röskun á þyngdarjafnvægi sem varð við hraða bráðnun jökla í lok ísaldar. Hraunkvika sem þá leitaði upp úr möttli, gat náð til yfirborðs án þess að hægja á sér í skorpunni og breytast að ráði við kvikublöndun, uppbræðslu eða hlutkristöllun. Einkum gæti þetta átt við pikríthraunin og stærstu dyngjurnar, Sandfellshæð og Þráinsskjöld.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Pikríthraunin eða pikrítdyngjurnar eru eldri en ólivínbasaltdyngjurnar, þar sem afstaðan til þeirra sést. Elstu pikrítdyngjurnar eru samkvæmt því um og yfir 14.000 ára. Þær eru litlar, mega kallast ördyngjur, nema þrjár eða fjórar smádyngjur: Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Dimmadalshæð. Efnismagn í þeim er líklega innan við 0,1 rúmkílómetri. Pikríthraun eru ekki þekkt í Krýsuvíkurkerfinu.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Næst eftir pikrítgosin fylgdu tvö stór dyngjugos. Þá hlóðust Sandfellshæð og Þráinsskjöldur upp, auk nafnlausrar dyngju norðan við Hraunsels-Vatnsfell. Aðrar níu dyngjur dreifast á allan eftirjökulstímann (sjá töflu). Tvær af þeim eru af óvissum aldri, Selvogsheiði og Heiðin há, en eru þó meira en 7500 ára. Þær eru báðar í flokki stórdyngna, meira en einn rúmkílómetri. Næstu sjö dreifast á nokkur þúsund ára tímabil. Sú elsta þeirra er um 7000 ára, en sú yngsta, Stóribolli, líklega um 2500 ára.

Dyngjur

Dyngjurnar á Reykjanesskaga.

Auk þeirra dyngna sem hér hafa verið taldar upp og sýndar eru í töflunni, má nefna að Breiðdalshraun, sem líklega er frá tíundu öld, ber einkenni dyngju, en það er beltótt helluhraun og ólivínríkt, að minnsta kosti sú álman sem liggur frá gígnum norður í Breiðdal. Allar dyngjurnar nema þrjár þær elstu og Hrútagjárdyngjan eru í Brennisteinsfjallakerfi. Ekki verður séð hvort dyngjugosin fylgi gosskeiðum sprunguhraunanna í tíma, til þess vantar fleiri og nákvæmari aldursgreiningar. Flestar yngri dyngjurnar eru tímasettar með hjálp öskulaga.”

Tilvísanir:
-Rowland, S. K. og G. P. L. Walker, 1990. Pahoehoe and aa in Hawaii: volumetric flow rate controls the lava structure. Bulletin of Volcanology, 52, 615-628.
-M.A.M. Gee, R.N. Taylor, M.F. Thirlwall og B.J. Murton, 1998. Glacioisostacy controls chemical and isotopic characteristics of tholeiites from the Reykjanes Peninsula, SW-Iceland. Earth and Planetary Science Letters, 164, 1-5.
-Árni Hjartarson, 2007. Ölfus – Selvogur. Jarðfræðikort 1:25.000, jarðlagalýsing, myndun og mótun lands. ÍSOR-2007/063. Íslenskar orkurannsóknir, Reykjavík.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81329#
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun.
Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Vörðufellsborgir

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt um; “Hvað getið þið sagt mér um Brennisteinsfjöll?“. Svar Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings og fyrrverandi deildarstjóra á Orkustofnun, og Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings, var:

Kristján Sæmundsson.

Kristján Sæmundsson.

“Ein megingosrein þessa kerfis liggur um Brennisteinsfjöll og kallast Brennisteinsfjallarein. Hún er með suðvestur-norðaustur stefnu og um 45 kílómetra löng, sjá mynd 1. Gosstöðvar ná yfir syðstu 33 kílómetrana. Suðurmörk reinarinnar eru við Geitahlíð, um tvo kílómetra frá sjó, og norðurmörkin norður undir Borgarhólum á Mosfellsheiði. Önnur megingosrein kerfisins liggur um Bláfjöll. Eftir ísöld hefur gosið á henni báðum megin við fjöllin.
Vestan þeirra eru gossprungur frá Svartahrygg í suðri að Vífilsfellshlíð í norðri. Önnur stutt gosrein er um 1,5 kílómetrum austar, austan Bláfjalla. Þar eru upptakagígar Heiðarinnar há, Leitahrauns og Kristnitökuhrauns. Öll gos á eftirjökultíma hafa verið hraungos, engin merki eru um að gosið hafi í sjó við suðurenda kerfisins. Jarðhitamerki á yfirborði eru ljósar ummyndunarskellur á mjóu belti frá Grindaskörðum langleiðis suðvestur að Kistufelli. Hiti er aðeins á smáblettum um 1,5 kílómetrum norðaustan við Fellið.

Magnús Á. Sigurgeirson

Magnús Á. Sigurgeirsson.

Segja má að gossaga Brennisteinsfjallakerfisins sé fremur lítið þekkt frá forsögulegum tíma, það er frá því áður en landnámslagið myndaðist um 870. Jón Jónsson kortlagði gosmyndanir í Brennisteinsfjallakerfinu fyrstur manna. Þar má meðal annars sjá innbyrðis aldursafstöðu hrauna. Síðan þá hefur nyrsti hluti kerfisins verið kortlagður að hluta.
Á árunum 1993 og 1995 könnuðu Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson afstöðu hrauna til öskulaga, einkum við jarðhitasvæðið og í nágrenni þess. Kom þá í ljós að öskulög yngri en 4500 ára eru allvel varðveitt, og reyndist unnt að skipta hraunum í nokkra aldurshópa á grundvelli þess. Nákvæmni þessarar aðferðar er ekki mikil, en hún gefur þó gróft mat. Kristján Sæmundsson kannaði aldur hrauna við Þríhnúka með hliðsjón af þekktum öskulögum. Sumarið 2009 könnuðu höfundar nánar aldur ýmissa hrauna í Brennisteinsfjallakerfinu, einkum dyngjuhrauna.

Forsöguleg hraun

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – herforingjaráðskort 1903.

Óvissa ríkir um aldur forsögulegra hrauna í Brennisteinsfjöllum, einkum þeirra sem eru eldri en 4500 ára (það er eldri en Heklulagið H4). Um aldur yngri hrauna má fara nokkru nær með hjálp öskulaga. Nýverið hefur komið í ljós að tvö hraun, Vörðufellsborgahraun og Hvammahraun, urðu til stuttu áður en landnámslagið féll. Fyrir um 2000-2500 árum runnu Stórabollahraun, Kálfadalahraun, Hellnahraun eldra og ef til vill eitt Hólmshrauna í Heiðmörk. Litla-Eldborg undir Geitahlíð hefur líkast til gosið fyrir um 3500 árum. Hraun eldri en 4500 ára gömul eru meðal annars hraun frá Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, Kistufellshraun, Þríhnúkahraunin bæði, Strompahraun og hraundyngjan Heiðin há.

Heiðin há

Í Heiðinni há.

Kolaðar gróðurleifar undan einu hrauni hafa verið aldursgreindar, það er Leitahrauni, sem á upptök á austustu gosrein kerfisins, í Leitum. Benda þær til að það sé um 4600 kolefnisára gamalt, sem samsvarar um 5200 raunárum. Þrátt fyrir gloppótta gossögu Brennisteinsfjallakerfisins er ljóst að hraun þar spanna eftirjökultímann í aldri. Telja má víst að sprunguhraun séu að minnsta kosti 30 frá þessum tíma, en vafalítið mynduð í mun færri „eldum“.

Hraun frá sögulegum tíma

Jarðfræði

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Allmörg hraun frá sögulegum tíma eiga upptök í Brennisteinsfjallakerfinu. Er samanlagt flatarmál þeirra um 95 ferkílómetrar. Þau eru Selvogshraun, Kistuhraun, Tvíbollahraun, Kóngsfellshraun (Húsfellsbruni), Hellnahraun yngra, Breiðdalshraun, Svartihryggur og Kristnitökuhraunið. Öll hafa þessi hraun runnið yfir jarðveg sem geymir landnámslagið. Ofan á flestum þeirra er varðveitt miðaldalagið frá 1226.
Gróðurleifar undan Breiðdalshrauni og Tvíbollahrauni hafa verið aldursgreindar og gefa 1040±75 kolefnisár fyrir fyrrnefnda hraunið, og 1075±60 kolefnisár fyrir hið síðara.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – loftmynd,

Sé tekið tillit til skekkjumarka greininganna gætu hraunin verið frá 10.-11. öld. Kristnitökuhraunið hefur verið tengt frásögnum ritaðra heimilda og er talið runnið um árið 1000. Öll ofangreind hraun eru talin hafa runnið í sömu eldunum, stundum nefndir Kristnitökueldar.
Rennslisleiðir hrauna
Ólíkt öðrum eldstöðvakerum á Reykjanesskaga liggur megingosrein Brennisteinsfjallakerfisins um 400-500 metra háan fjallabálk.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Hraun hafa runnið á ýmsum tímum ofan af Brennisteinsfjöllum og Lönguhlíð til norðurs, suðurs og vesturs. Mörg hraun hafa flætt niður brekkurnar austan Geitahlíðar og um skörð í Herdísarvíkurfjalli, ofan í Selvog og Herdísarvík. Einnig hafa hraun runnið um fjallaskörð vestur af Brennisteinsfjöllum, niður af Kleifarvatni og í Breiðdal.

Hraun sem komið hafa upp við Grindaskörð, hafa streymt til norðurs niður á láglendið norðan Lönguhlíðar, í sumum tilvikum allt til sjávar sunnan við Hafnarfjörð.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hraun frá nyrsta hluta gosreinarinnar, við Kóngsfell, hafa runnið niður í Heiðmörk. Hraun frá austustu gosreininni, það er Leitahraun, fór annars vegar til vesturs yfir Sandskeið, í Lækjarbotna, Elliðavatn og farveg Elliðaáa til sjávar í Elliðavogi, og hins vegar til austurs niður í Ölfus. Eins og þessi upptalning ber með sér, eru rennslisleiðir hrauna frá Brennisteinsfjöllum fjölmargar og ljóst að erfitt verður að spá fyrir um leiðir þeirra ofan úr fjöllunum. Í því sambandi skiptir lega gosstöðvanna mestu.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur (Bláfeldur). Gígurinn arfleifði komandi tíma um taumana frá Brennisteinsfjöllum niður í Selvog.

Vert er að nefna að á síðasta gosskeiði í Brennisteinsfjallakerfinu, á tíundu öld, runnu hraun á fjórum stöðum niður fjallabálkinn, og þar að auki gaus austan við Bláfjöll (Kristnitökuhraun).”

Tilvísanir:
-Karl Grönvold og fleiri, 1995. Ash layers from Iceland in the Greenland GRIP ice core correlated with oceanic and land based sediments. Earth and Planetary Science Letters, 135, 149-155.
-Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
-Helgi Torfason og fleiri, 1999. Berggrunnskort: Vífilsfell. 1613 III SA-B. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, 2001. Brennisteinsfjöll. Rannsóknir á jarðfræði svæðisins. OS-2001/048. Orkustofnun, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 2006. Þríhnúkagígur. Jarðfræðirannsóknir og tillögur vegna gangagerðar. ÍSOR-06144. Íslenskar orkurannsóknir, Reykjavík.
-Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson, 2010. Eldgos á Reykjanesskaga á 8.-9. öld. Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 2010. Ágrip erinda. Jarðfræðafélag Íslands, Reykjavík, 49-52.
-Jón Jónsson, 1971. Hraun í nágrenni Reykjavíkur. I Leitahraun. Náttúrufræðingurinn, 41, 49-63.
-Jón Jónsson, 1983a. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn, 52, 127-139.
Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, 2001. Brennisteinsfjöll. Rannsóknir á jarðfræði svæðisins. OS-2001/048. Orkustofnun, Reykjavík.
-Jón Jónsson, 1983a. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn, 52, 127-139.
-Jón Jónsson, 1979. Kristnitökuhraunið. Náttúrufræðingurinn, 49, 46-50.
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Reykjanesskaga í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 387-389.

Heimild: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65696
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun 1151.

 

Eldgos

Á vefsíðunni “eldgos.is” er m.a. fjallað um Reykjanesskagann með hliðsjón af eldgosum sem þar hafa orðið – og verða:

Reykjanesskagi

Eldgos.is

Eldgos.is – forsíða.

Reykjanesskaginn er yngsti hluti Íslands en mjög eldbrunninn. 5-6 eldstöðvakerfi eru talin vera á skaganum eftir því hvort Hengilskerfið er talið með eða ekki. Hér er það ekki talið með því landfræðilega er miðja Hengilskerfisins fyrir utan Reykjanesskagann og að auki er Hengillinn mjög ólíkur öðrum eldstöðvakerfum á skaganum.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar (kerfi).

Þessi fimm kerfi eru nátengd og það virðist gjarnan gjósa í þeim flestum í sömu hrinunum. Þau eru 1. Reykjaneskerfið sem er vestast á skaganum, 2. Svartsengi sem er norður af Grindavík, 3. Fagradalsfjall sem er litlu austar, 4. Krýsuvíkurkerfið, kennt við Krýsuvík, 5. Brennisteinsfjallakerfið sem einnig er kennt við Bláfjöll.

Reykjanesskaginn tilheyrir hinu svonefnda Vestara gosbelti sem nær frá Reykjanesi og norður fyrir Langjökul. það belti er ekki eins virkt og Suðurlands- og Eystra gosbeltið en þó ganga yfir kröftugar rek- og goshrinur á Reykjanesskaganum á 800-1000 ára fresti. Síðast gekk slíkt tímabil yfir á árunum 950-1240 og þar áður fyrir um 1800-2500 árum.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Öll fimm kerfin eiga það sameiginlegt að í þeim eru ekki megineldstöðvar og í þeim öllum kemur eingöngu upp basalt. Gosin eru gjarnan sprungugos og magn gosefna í hverju gosi að jafnaði lítið eða innan við hálfur rúmkílómetri. Þó eru undantekningar frá þessu eins og nokkrar stórar dyngjur á skaganum sýna vel.

Mikil eldvirkni hefur verið á Reykjanesskaga á nútíma og yfir þúsund ferkílómetrar lands huldir nýju hrauni auk landauka í sjó. Gjall- og klepragígaraðir eru algengustu eldstöðvarnar en að auki eru fjölmargar dyngjur á skaganum.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – rauðlituð nútímahraun.

Þær hafa þó flestar myndast á fyrrihluta nútíma, reyndar allar taldar yfir 4500 ára gamlar og myndun þeirra tengist væntalega hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins á skaganum. Gossprungur á skaganum á nútíma eru hátt í 200 talsins sem sýnir vel hve virkur skaginn hefur verið þrátt fyrir að engin staðfest gos hafi orðið síðan á 13. öld. Jarðskjálftar eru tíðir á skaganum og jarðhitavirkni mikil.

ReykjanesskagiEldstöðvakerfi raða sér svo til suðvesturs frá Reykjanesskaganum og vitað er um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg síðustu aldir. Öflugt gos varð suður af Eldeyjarboða árið 1783. Þá myndaðist eyja sem hvarf þó stuttu síðar vegna ágangs sjávar. Á 19. öld er vitað um 3 gos á þessum slóðum og á 20. öldinni varð nokkrum sinnum vart við ólgu í sjó og gjóskuþústir sem líklega hafa verið af völdum lítilla neðansjávargosa.

Reykjaneskerfið

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi vestanverður – jarðfræðikort.

Vestasta eldstöðvakerfið á skaganum er Reykjaneskerfið. Nær það nokkurn veginn frá Reykjanestá að Grindavík og þaðan í norðaustur yfir skagann. Það nær einnig einhverja kílómetra í suðvestur á sjávarbotni og hafa margsinnis orði gos í sjó í kerfinu.

Mikil goshrina gekk yfir kerfið á árunum 1211-1240. Hófst þessi hrina með gosi í sjá skammt frá landi en síðan urðu allmörg gos á næstu árum á svipuðum slóðum, þ.e. í sjó skammt undan landi.

Eitt hefur verið áberandi mest, árið 1226 og skilur eftir sig gjóskulag sem hefur nýst vel í gjóskulagarannsóknum á Suðvesturlandi. Heimildir eru fyrir þessu gosi í Oddaverjaannál og er þar talað um “Sandfallsvetur á Íslandi”. Gos urðu svo uppi á landi á næstu árum. Þessi gos eru nefnd einu nafni Reykjaneseldar. Síðan þá hefur kerfið ekki bært á sér frekar en önnur eldstöðvakerfi á skaganum hvað gos varðar en jarðskjálftar eru þar tíðir.

Svartsengi

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Svartsengiskerfið, kennt við samnefnt háhitasvæði, var áður flokkað með Reykjaneskerfinu en þó þau séu um flest lík og nálægt hvort öðru þá eru þau flokkuð sem tvö aðskild kerfi nú. Þau fylgjast hinsvegar að hvað gos varðar og gýs í þeim báðum á svipuðum tíma. Þá rennur syðsti hluti kerfisins saman við Reykjaneskerfið vestan við Grindavík.

Allmargar dyngjur eru í kerfinu sem er um 7 km. breytt og amk. 30 km. langt. Gossvæðin eru þó í suðurhluta kerfisins.

Reykjanesskagi
Goshrina varð í kerfinu fyrir um 2000-2400 árum og rann þá m.a. svokallað Sundhnúkahraun ofan við Grindavík. Hluti Grindavíkur stendur á þessu hrauni.

Grindavík

Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst.

Einnig gaus í kerfinu samhliða Reykjaneseldum í kringum árið 1226. Virðast þá hafa orðið í það minnsta þrjú gos, fremur lítil þó. Illahraun sem orkuverið í Svartsengi stendur á og er við Bláa Lónið rann í einu þessara gosa.

Fagradalsfjall
Kerfið heitir eftir samnefndu fjalli á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkferfanna. Þetta er lítið kerfi og ólíkt hinum eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaganum er það fremur lítt virkt hvað gos varðar, liklega hefur ekki orðið þar gos í um 6000 ár. Jarðskjálftar eru hinsvegar tíðir á svæðinu.

Hraun

Ólivínþóleítt hraun – Geldingahraun í Fagradalsfjalli.

Þann 19. mars 2021 hófst eldgos í Fagradalsfjalli eftir þriggja vikna mjög ákafa jarðskjálftahrinu. Þetta er fysrta eldgosið á Reykjanesskaga síðan árið 1240 eða í 781 ár og fyrsta gosið í Fagradalsfjallskerfinu í um 6000 ár.
Fljótlega kom í ljós að kvikan er sambærileg kviku úr stóru dyngjugosunum á Reykjanesskaganum sem urðu fyrir um 6000-14000 árum.

Krýsuvíkurkerfið

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Kerfið var áður nefnt Trölladyngjukerfið eftir samnefndri dyngju í kerfinu. Réttara þykir þó að kenna það við helsta kennileiti kerfisins og það svæði í því þar sem er að finna vísi að megineldstöð.

Það er sennilega ekki ofsögum sagt að segja að Krýsuvíkurkerfið sé eitt hættulegasta eldstöðvakerfi landsins vegna nálægðar þess við höfuðborgarsvæðið. Nyrstu gossprungurnar eru rétt suðvestur af Hafnarfirði og hraun hefur amk. á tveimur stöðum runnið til sjávar örskammt vestan Hafnarfjarðar eftir landnám.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – rann 1151.

Um árið 1150 – 1180 urðu veruleg eldsumbrot í kerfinu og opnuðust nokkrar gossprungur í þeirri hrinu. Hafa þessi eldgos verið nefnd Krýsuvíkureldar. Hraun runnu þá til sjávar báðu megin við Reykjanesskagann. Þá varð gos við Sveifluháls um 1180. Ekki virðist hinsvegar hafa gosið í kerfinu í Reykjaneseldunum á 13. öld þegar mikil goshrina gekk yfir vestar á Reykjanesskaganum.

Brennisteinsfjallakerfið

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Syðsti hluti kerfisins er við Krísuvíkurbjarg og það teygir sig svo í norðaustur yfir Bláfjöll og inn á Mosfellsheiði. Líkt og í flestum eldstöðvakerfunum á skaganum urðu allmikil umbrot í kerfinu skömmu eftir landnám og reyndar öllu fyrr í Brennisteinsfjallakerfinu. Nokkur gos urðu líklega í tveimur megingoshrinum á svæðinu frá Bláfjöllum að Hellisheiði. Þessi gos urðu rétt fyrir og rétt eftir árþúsundin. Þekktast er gosið sem Kristnitökuhraunið rann í árið 1000.

Framtíðarhorfur á Reykjanesskaga

Reykjanesskagi

Meginfarvegir, fyrrum eldvörp og þversnið meginfarvega nærri íbúabyggð innan vatnasviðs Vallahverfisins í Hafnarfirði. Bókastafir vísa til fyrrum eldvarpa. Hafa ber þó í huga að þau hraun, sem áður hafa runnið, renna ekki aftur.

Það verður ekki undan því komist að fjalla örlítið um hve hættulega nálægt byggð eldstöðvakerfin á Reykjanesskaganum eru. Eldvirknin er lotubundin og gengur yfir á um 800-1000 ára fresti og stendur þá yfir í nokkur hundruð ár. Nú eru nálægt 780 ár frá síðustu staðfestu gosum á skaganum og alveg ljóst að frekar fyrr en síðar munu verða eldgos og það sennilega nokkuð mörg á skaganum. Þessi gos eru ekki afkastamikil en þau eru mörg hver hraungos og geta eldsuppkomur orðið mjög nálægt byggð. Sérstaklega verður að telja hluta Hafnarfjarðar á hættusvæði hvað þetta varðar og einnig Grindavík. Það er því sérlega mikilvægt að fylgjast vel með öllum jarðskorpuhreyfingum á skaganum til að auka líkurnar á að hægt sé að segja til um gos með einhverjum fyrirvara og gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.

Uppfært 27. apríl 2021

Geldingadalir

Geldingadalur; eldgos 2021.

Eins og alþjóð veit þá hófst eldgos í Fagradalsfjalli að kvöldi 19. mars 2021. Það var orðið ljóst í byrjun árs 2020 að mikil umbrot væru framundan á Reykjanesskaganum. Vart var við kvikuinnskot í þremur eldstöðvakerfum, Reykjaneskerfinu, Svartsengi og í Krýsuvíkurkerfinu. Jarðskjálftum fjölgaði mjög, sérstaklega þó í kringum Svartsengi og Grindavík og einnig í Fagradalsfjallskerfinu. Það kom í sjálfu sér ekki á óvart að þetta endaði með gosi en staðsetningin kom vissulega á óvart því Fagradalsfjallskerfið hafði ekki gosið í um 6.000 ár.

Þá er einnig um frumstæða kviku úr möttli að ræða, efniviður í dyngjugos sem ekki hefur orðið á Íslandi í þúsundir ára.

Eldvörp

Eldvörp – gígur.

Hvað þetta kann að segja til um virkni á næstu árum eða áratugum á Reykjanesskaga er ekkert mjög erfitt að segja til um. Nýtt virkniskeið er hafið á skaganum. Þetta gos er aðeins upphafið. Það má reikna með óróleikatímabili sem varir í einhverja áratugi, kanski 30-40 ár, með nokkrum gosum og að virknin hlaupi á milli eldstöðvakerfanna. Síðan kæmi rólegra tímabil í 50-100 ár en svo hæfist aftur gostímabil. Þetta er miðað við nokkuð vel þekkta goshegðun í kerfinu á síðasta virknitímabili frá um árið 800-1240.

Óvissan felst ekki í því að segja til um nákvæmlega hvar gosin verða heldur en hvort þau verða!

Heimild:
-https://eldgos.is/reykjanesskagi/
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu, “Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða”, Daníel Páll Jónasson, Líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóli Íslands, 2012.

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að nýjum gíg (2022) ofan Meradala í Fagradalsfjalli.

 

Reykjanesviti

Í Vísi 1967 er fjallað um “Eldgos í vændum” á Reykjanesi:

Sigurjón Ólafsson

Sigurjón Ólafsson; 29. ágúst 1909 – 12. október 1997.
Sigurjón var aðstoðarmaður á Reykjanesvita þjá Jóni Guðmundssyni 1931-1933, og var síðan sjómaður í
Reykjavík og Höfnum. Hann
vann við hafnarmál í Hafnarfirði, en var vitavörður á Reykjanesi, 1947-1976. 

“Á hverasvæðinu á Reykjanesi hafa orðið það miklar breytingar, að þær benda tvímælalaust til að eldgos geti verið í aðsigi. Öll einkenni benda til þess að gos geti hafizt með stuttum fyrirvara. — „Ef breytingarnar halda áfram og hverirnir verða öflugri á svæðinu á næstu dögum má telja fullvíst að gos hefjist”, sagði Jón Jónsson jarðfræðingur, sem mest hefur rannsakað jarðfræði Reykjanessins. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur, sagði í viðtali við Vísi, að óneitanlega væri breytingar mjög líkar undanfari seinasta Öskjugoss, og það staðfesti Jón Jónsson. Jón benti þó á þann grundvallarmismun á breytingunum á hverasvæðinu og undanfara Öskjugossins, að á hverasvæðinu hafa ekki myndazt nýjar sprungur, heldur hefur öll hreyfingin orðið eftir gömlum sprungum. Öllu alvarlegra væri, ef nýjar sprungur hefðu myndazt eins og gerðist í Öskju, þar sem landsig varð og nýir hverir komu upp fjarri þeim, sem fyrir voru. —

Tveir nýir hverir, sem hafa myndazt á hverasvæðinu á Reykjanesi, komu upp þar sem áður var svokallaður Reykjanesgeysir, en hann varð óvirkur árið 1918, þegar nýr leirhver myndaðist, sem var kallaður „1918“. – Hverinn „1918” hefur hins vegar orðið að mestu óvirkur eftir að breytingarnar hófust aðfaranótt laugardagsins og er nú aðeins gufuhver.

ReykjanesÞegar tíðindamenn Vísis gengu um hverasvæðið í gær í fylgd með Sigurjóni Ólafssyni vitaverði í Reykjanesvita, var greinilegt, að mikil breyting hafði orðið á hverasvæðinu. —

Sigurjón, sem hefur verið með annan fótinn á þessum slóðum síðan 1931, sagðist aldrei hafa séð aðrar eins breytingar, þó að allmiklir jarðskjálftar hafi oft orðið á þessum slóðum.

ReykjanesSprungur höfðu myndazt í jörðina víða og rauk upp úr þeim víða um svæðið. — Hverirnir tveir, sem höfðu myndazt sunnanvert við veginn, sem liggur í gegnum – hverasvæðið, voru mjög virkir og Gunnuhver svo kallaður hafði sótt sig mikið í veðrið, en að því er vitavörðurinn sagði, hefur sá hver sífellt verið að minnka hin seinni ár.

Jón Jónsson jarðfræðingur sagði hins vegar, að hann hefði búizt við breytingum á þeim hver, þar sem jarðhitinn hefði í sífellu verið að aukast þar í sumar og verið í nokkurri sókn. —

Jarðskjálftarnir nú fyrir helgina hafi líklega rekið smiðshöggið á breytinguna og mætti því búast við að „Gunna“ yrði enn sterkari á næstunni. Hverinn ber nafn ódæls og erfiðs draugs, sem séra Eiríkur í Vogsósum kvað niður, en nú virðast jarðskjálftarnir hafa vakið drauginn upp aftur og óvíst að klerkar samtímans séu jafnhæfir til slíkra vandaverka sem að kveða draug niður og „kollegar” þeirra frá fyrri öldum.
ReykjanesSéra Eiríkur hafði þann háttinn á, þegar hann kvað Gunnu niður, að hann fékk hana til að elta hnoðra, sem valt niður í hver einn og hefur hún fram á þennan dag ekki getað unnið mönnum mein, fyrir utan það, að einstaka menn hafa brennt sig á fæti, þegar þeir hafa stigið niður úr hveraskorpunni.

Einkenni þess, að gos geti verið í aðsigi þarna á Reykjanesinu vom auk þess, sem að ofan er talið, miklir jarðskjálftar, sem jafnan koma á undan eldgosum, landsig, sem hefur orðið norðvestan megin við veginn. Jarðskjálftamir hófust um 10-leytið á föstudagsmorguninn og hafa staðið yfir síðan. Mestir urðu jarðskjálftamir aðfaranótt laugardagsins og var þá ekki svefnsamt i húsi vitavarðarins, sem er í aðeins nokkur hundmð metra frá hverasvæðinu. Þá um nóttina komu sprungur í vitann. Sprungunnar mynduðust allan hringinn rétt fyrir neðan miðjan vita, bæði að utan og innan. En þessar sprungur til marks um styrkleika jarðskjálftanna, því nokkuð þarf á að ganga, áður en slík smíð sem Reykjanesviti fer að haggast. Veggirnir neðst eru 3-4 metri á þykkt.

Gunnuhver

Við Gunnuhverá Reykjanesi.

Það verður athyglisvert að fylgjast með hvaða framvindu málin taka á Reykjanesinu næstu daga. Haldi breytingarnar áfram af sama krafti, má telja fullvíst, að gos hefjist, en það ætti að koma í ljós á næstu dögum eða vikum.”

Heimild:
-Vísir 02.10.1967, Eldgos í vændum?, bls. 18.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Þingvellir

Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, skrifaði um “Sköpun Þingvalla” í Alþingishátíðarrit Fálkans árið 1930:

Pálmi Hannesson

Pálmi Hannesson; 3. janúar 1898 – 22. nóvember 1956.

“Alt er breytingum háð. Vísindin kenna oss, að enginn hlutur sje að öllu hinn sami i dag og hann var í gœr. Og árin sem líða láta eftir sig drjúg ummerki á öllu, sem er, löndum og liföndum. Sumt þroskast, annað hrörnar, en alt hreytist, skapast og glatast. Þannig fer mannanna sonum. Þannig fer og um jörðina: fjöll og dali, stein og stál.

Á hverju vori velta árnar fram kolmórauðar af sandi og leir, sem þœr bera úr fjöllum fram og alt út á sæ. Skriður falla. Vindur gnýr fjöll, og hafið sverfur strendur. Römm öfl orka á jörðina og leitast við að rífa hana niður, og ef þau væru ein í leik, mundu þau um síðir jafna hin hæstu fjöll við sæ, því að þó að fjöllin sjeu mikil og traustleg eru þeim þó takmörk sett, en tímanum engin. En jarðeldar hlaða upp eldfjöll og veita hrauni á hraun ofan. Löndin lyftast og síga, hrukkast beyglast og brotna fyrir hinum duldu öflum í djúpi jarðarinnar. Þannig orka tvenn öfl á jörðina og eiga í sífelldu stríði. Önnur rifa niður. Hin hlaða upp. Önnur „vega upp tindana“. Hin jafna þá við sæ. Landslag og staðhættir, fjöll og dalir, lönd og álfur, alt er þetta til orðið fyrir starf og stríð þessara afla, og alt er þetta að breytast sífeldlega.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Jörðin er ekki fullsköpuð og verður það aldrei. Jörðin er að skapast. Í hverju einasta landi jarðarinnar berjast þessi öfl, en hvergi sækjast þau fastar en hjer á landi. Hjer er jörðin að skapast fyrir augum vorum.

— Þingvellir og landið umhverfis þá sýnir glögglega þetta mikilfenglega sköpunarstarf náttúrunnar. Náttúrunnar, sem reisir og rífur, elur og tortímir. Hvernig hefir þetta listaverk náttúrunnar orðið til? Lítið á Þingvallavatn og Þingvallahraun, Súlurnar, Skjaldbreið, Hrafnabjörg, Tindaskaga, Kálfstinda og Henglafjöllin. Hvernig og hvenær hefir alt þetta skapast? —

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Jeg skal nú í örstuttum dráttum segja sögu Þingvalla, eins og fræðimenn ætla að hún sje, eftir þeim meginrúnum, sem náttúran sjálf hefir reist á hinum fornhelga stað, en rjett er þess að geta, að margar þeirra rúna eru enn óráðnar og bíða komandi fræðimanna og komandi kynslóða, þeirra sem meira girnast að vita um sögu lands síns en sú sem nú lifir eða lifað hafa frá því að Snorri goði spurði á Alþingi forðum. „Hvat reidduzt goðin þá, er hjer hrann hraunit, er nú stöndu vér á?“

Og saga mín hefst fyrir tugum þúsunda ára, á hinni miklu jökulöld.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Yfir öllu landinu liggur bláhvít jökulbreiða, svo að hvergi sjer á dökkvan díl, nema í svartar hamrahyrnur út til stranda. Á þessum tíma eru eldgos tíð, einkum inni í landinu. Aska, gjall og hraunslettur berast út á jökulbreiðuna, sökkva til botns og hlaðast saman undir jökulfarginu. Þannig ætla menn, að hin mikla móbergsbreiða um mitt landið hafi skapast. Svo líða þúsundir ára. Eldur og ís skapa landið og móta, en enginn kann frá þeim undrum að greina, sem verða í þeirri viðureign. Seint á þessum tíma taka mikil eldfjöll að stinga kollunum upp úr jökulbreiðunni. Þau hlaðast upp og hækka og spúa eldi og eimyrju yfir hinn hvíta jökul. Þannig skapast Henglafjöllin, Súlur og Ármannsfell, Hrafnabjörg, Kálfstindar og Tindaskagi. — Og enn líða ár og aldir. — Jökulbreiðan tekur að þverra.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Hægt og hægt víkur jökullinn til baka, og geysimikill skriðjökull liggur fram um Þingvalladalinn, milli eldfjallanna, sem gnæfa við himinn á báðar hendur. Og loks er landið örísa, og Þingvalladalurinn breiðir faðminn móti hinum fyrstu frjóum, sem sunnanblærinn ber inn yfir hið frumvaxta, örlöglausa land.

Og þannig líða þúsundir ára. Gróðurinn grær í hinum þöglu, ónumdu dölum, og eldgos eru tíð. Á þessum tíma hlaðast upp hinar miklu grágrýtisdyngjur: Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Þingvellir

Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni kom fram fyrir 12.000 árum. Þá lá jökultunga í Þingvallalægðinni og jökullón myndaðist syðst í henni, upp við Grafningsfjöllin. Þingvallavatn varð síðan til þegar jökullinn hopaði enn lengra norður og vatn frá honum safnaðist í lægðina. 
Fyrir um 10.000 árum er jökullinn hafði nálgast núverandi stöðu, hófust mikil dyngjugos. Þá myndaðist Skjaldbreiður ein fallegasta dyngja landsins.
Um svipað leyti gaus í dyngju sunnan við Hrafnabjörg sem Þingvallahraun rann frá og myndaði eldborgagígaröð.

Svo tekur loftslagið að kólna að nýju. Jöklarnir vaxa inni í landinu ár frá ári og öld eftir öld. Þungur jökulstraumur sígur fram um Þingvalladalinn og stökkvir burt öllum lifanda. Loks er Ísland jökli hulið að nýju, og skriðjöklar ná á alla vegu út á sjó. Það er hin síðari jökulöld.

Á þeim tíma mótast Þingvalladalurinn að nýju undir hinum þunga, sverfandi ísstraumi. Og eldfjöllin á báðar hendur dalsins eru hulin fönnum og skriðjöklum, sem gnaga þau og móta.

Þannig líða langar aldir. — En eftir þennan fimbulvetur kemur vor, eins og eftir hinn fyrri. Jökullinn verður að hopa fyrir hinum hlýnandi þey.

Og aftur verður Ísland örísa upp að hæstu hálendum. Nú er landið umhverfis Þingvelli tekið að líkjast því sem nú er, en þar er enginn Skjaldbreiður, ekkert hraun, ekkert vatn. Dalurinn er hulinn bláum jökulsöndum, og um hann liðast mógráar jökulsár. Þá er Suðurland alt sævi hulið og Ingólfsfjall er höfði, sem öldur úthafsins næða á, en norðan við það liggur fjörður langt upp í Grafning.

Og aftur tekur gróðurinn að nema landið. Hægt og hægt lokast hann inn yfir auðnirnar, sem jökulinn ljet eftir sig. —

Þá hefjast eldgos langt inn í Þingvalladalnum. Hraunið brýst upp á jafnsljettu og hvert gosið rekur annað, uns ávöl hæð tekur að hefjast fyrir miðjum dalnum. Hún hækkar og gýs, gýs eintómu hrauni. Og hraunflóðin renna lengra og lengra inn til jökla og út um hinn „breiða heiðardal“. Þannig skapast Skjaldbreiður.

Síðan, þegar Skjaldbreiður er hættur að gjósa, opnast geysimikil eldsprunga uppi á bak við Hrafnabjörg og Tindaskaga. Þaðan falla þungir hraunstraumar niður með Hrafnabjörgum beggja vegna og út yfir dalinn, yfir hraunin frá Skjaldbreið. Þaðan eru hraunin komin, sem þekja Þingvöll.

Þingvellir

Úr Eldborgum sunnan Hrafnabjargar rann hraun vítt um Þingvallasvæðið.
Talið er að gosin sem mynduðu dyngjurnar hafi staðið í áratugi. Hraunin tóku fyrir yfirborðsrennsli jökulvatns suður Þingvallalægðina. Allt vatn norðan frá hvarf í hraunið og kom undan því sem tært lindarvatn.
Hraun úr dyngjunni sunnan við Hrafnabjörg rann langt út í Þingvallavatn og lokaði fyrir afrennsli þess við Sogshorn svo vatnsborðið hækkaði um 15 metra en jafnframt minnkaði vatnið mikið því hraunið fyllti það að stórum hluta.
Hraunið sléttaði í svip yfir Þingvallalægðina en landsig og sprunguhreyfingar héldu áfram og gjárnar endurnýjuðust og má nú virða fyrir sér innri gerð hraunsins í gjáveggjunum.

Nú líður og bíður. Gráðurinn breiðist yfir landið, og skógurinn lekur að nema hið nýja hraun. Svo byrjar landsigið. Undirstaðan undir Þingvalladalnum bilar, og hún sígur og sigur, uns hlíðar dalsins bresta og botninn allur fellur niður. Þannig skapast Þingvallavatn. Vera má raunar, að vatn hafi áður verið nyrst í dalnum, en við þessar hyllingar hefir það dýpkað og stækkað geysilega. Þá skapast Almannagjá, Hrafnagjá og aðrar gjár á Þingvöllum. Þá skapast og Jórukleif og aðrir brotbarmar beggja vegna við vatnið. Enginn veit með neinni vissu um það, hversu þessar byltingar hafa gerst nje ástæður þeirra. Leiða menn að því ýmsar getur, sem ekki verða greindar hjer. Líklegt má þó telja, að þetta mikla landsig hafi gerst á löngum tíma, og má vera, að því sje ekki lokið enn. Víst er, að árið 1789 seig Þingvallasljettan um eina alin, og getur verið, að svo hafi oftar orðið.

Þegar hjer er komið sögu, eru Þingvellir að mestu orðnir eins og þeir eru nú. Skógurinn breiðist jafnt og þjett yfir hraunið og hlíðarnar, blágrænn að lit.

Eitt hið síðasta eldgos, sem orðið hefir á þessum slóðum, hefir veitt miklum hraunstraumi suðvestur af Hrafnabjargahálsi suður með Miðfelli og alt suðvestur að Dráttarhlíð, sem liggur neðan við Þingvallavatn. Þetta hraun hefir stíflað Þingvallavatn og hækkað það um nokkra metra, og má sjá þess merki viða. Siðan hefir Sogið grafið sjer nýjan farveg með fram hraunröndinni og lækkað vatnsborðið að sama skapi sem farvegurinn dýpkaði. Þessu starfi heldur það áfram enn í dag, og er trúlegt, að það hafi grynnkað vatnið um 1 metra eða meira á síðustu þúsund árum.

Þingvellir

Þjófahraun rann fyrir um 3000 árum úr gígum norðar Hrafnabjarga
Fyrir rúmum 3000 árum opnaðist 8 km löng gossprunga norðaustan við Hrafnabjörg og myndaði Þjófahraun. Hraunið breiddist út austan við Tindaskaga en álma úr því rann vestur af norðan við Hrafnabjörg
Seinast gaus í Þingvallalægðinni fyrir 2000 árum. Gossprungan sem þá opnaðist er norðaustan við Hengil. Þá rann Nesjahraun í Grafningi og öskugígurinn Sandey reis upp af botni Þingvallavatns.
Eldvirkni hefur nú legið niðri á Þingvallasvæðinu í meir en 2000 ár, en ljóst er að einhverntímann í framtíðinni munu hraun aftur renna.

Þannig er sköpunarsaga Þingvalla i stuttum dráttum alt til þessa tíma, að landið bygðist. Þegar hinir fyrstu landnámsmenn litu yfir Þingvalladalinn, blasti við augum þeirra fögur sýn og svipmikil. Hraunin öll og hlíðarnar voru skógi vaxnar, og yfir blágrænan skóginn og hið mikla vatn gnæfðu fjöllin við himin. Þeir nefndu hjeraðið Bláskóga og vatnið Ölfusvatn Engan þeirra hefir grunað, að þetta svæði yrði hið örlögríkasta í sögu þjóðarinnar, að þessi friðsami fjalladalur yrði sjónarsvið hinna mestu, hinna bestu og hinna verstu atburða i lífi niðja þeirra.

Síðan á Landnámsöld hafa ýmsar breytingar orðið á Þingvöllum. Skógurinn er að mestu horfinn. Þar sem forfeðurnir reistu búðir sinar er nú mýri, og sumt af þingstaðnum er horfið í vatn. Þúsund ár eru sem augnablik í æfi landsins, en enn leitast landsigið við að sökkva Þingvöllum og Sogið að veita af þeim vatni.

Hvað verða muni, veit enginn. Ef til vill sökkva Þingvellir í vatn. Ef til vill á jökullinn eftir að síga yfir landið að nýju. En eitt er víst. Alt breytist.” – Pálmi Hannesson.

Meðfylgjandi myndir frá Þingvöllum fylgdu skrifum Pálma.

Pálmi lauk gagnfræðapróf á Akureyri 1915, stúdentsprófi frá MR 1918. M.Sc.-prófi í dýrafræði Hafnarháskóla 1926, en las auk þess grasafræði, jarðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1926–1929. Rektor Menntaskólans í Reykjavík frá 1929 til æviloka. Hann hafði því aflað sér víðtæka þekkingu á viðfangsefninu. (Nauðsynlegt var að bæta hinu síðastnefnda við til fróðleiks svo myndir og skýringartextar pössuðu við umfjöllunina.)

Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 26.06.1930, Sköpun Þingvalla, Pálmi Hannesson, bls. 14.
-https://www.thingvellir.is/fraedsla/nattura/jardsagan/

Þingvellir

Þingvellir – jarðfræðikort ISOR 2022.

Eldgos

Reykjanesskaginn er yngsti hluti Íslands en mjög eldbrunninn; um 2.000 ferkm að flatarmáli. 5-6 eldstöðvakerfi eru talin vera á skaganum eftir því hvort Hengilskerfið er talið með eða ekki.  Hér er það ekki talið með því landfræðilega er miðja Hengilskerfisins fyrir utan [sjálfan] Reykjanesskagann og að auki er Hengillinn mjög ólíkur öðrum eldstöðvakerfum á skaganum.

Jarðfræði
“Þessi fimm kerfi eru nátengd og það virðist gjarnan gjósa í þeim flestum í sömu hrinunum.  Þau eru 1. Reykjaneskerfið sem er vestast á skaganum, 2. Svartsengi sem er norður af Grindavík,  3. Fagradalsfjall sem er litlu austar, 4. Krýsuvíkurkerfið, kennt við Krýsuvík, 5. Brennisteinsfjallakerfið sem einnig er kennt við Bláfjöll.

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.

Reykjanesskaginn tilheyrir hinu svonefnda Vestara gosbelti sem nær frá Reykjanesi og norður fyrir Langjökul.  það belti er ekki eins virkt og Suðurlands- og Eystra gosbeltið en þó ganga yfir kröftugar  rek- og goshrinur á Reykjanesskaganum á 800-1000 ára fresti.  Síðast gekk slíkt tímabil yfir á árunum 950-1240 og þar áður fyrir um 1800-2500 árum.

Fagradalsfjall - Jarðfræði
Öll fimm kerfin eiga það sameiginlegt að í þeim eru ekki megineldstöðvar og í þeim öllum kemur eingöngu upp basalt. Gosin eru gjarnan sprungugos og magn gosefna í hverju gosi að jafnaði lítið eða innan við hálfur rúmkílómetri. Þó eru undantekningar frá þessu eins og nokkrar stórar dyngjur á skaganum sýna vel.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Mikil eldvirkni hefur verið á Reykjanesskaga á nútíma og yfir þúsund ferkílómetrar lands huldir nýju hrauni auk landauka í sjó. Gjall- og klepragígaraðir eru algengustu eldstöðvarnar en að auki eru fjölmargar dyngjur á skaganum.  Þær hafa þó flestar myndast á fyrrihluta nútíma, reyndar allar taldar yfir 4500 ára gamlar og myndun þeirra tengist væntalega hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins á skaganum. Gossprungur á skaganum á nútíma eru hátt í 200 talsins sem sýnir vel hve virkur skaginn hefur verið þrátt fyrir að engin staðfest gos hafi orðið síðan á 13. öld. Jarðskjálftar eru tíðir á skaganum og jarðhitavirkni mikil.

Eldstöðvakerfi raða sér svo til suðvesturs frá Reykjanesskaganum og vitað er um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg síðustu aldir. Öflugt gos varð suður af Eldeyjarboða árið 1783. Þá myndaðist eyja sem hvarf þó stuttu síðar vegna ágangs sjávar. Á 19. öld er vitað um 3 gos á þessum slóðum og á 20. öldinni varð nokkrum sinnum vart við ólgu í sjó og gjóskuþústir sem líklega hafa verið af völdum lítilla neðansjávargosa.

Reykjaneskerfið

Reykajnesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Vestasta eldstöðvakerfið á skaganum er Reykjaneskerfið. Nær það nokkurnveginn frá Reykjanestá að Grindavík og þaðan í norðaustur yfir skagann. Það nær einnig einhverja kílómetra í suðvestur á sjávarbotni og hafa margsinnis orði gos í sjó í kerfinu.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Mikil goshrina gekk yfir kerfið á árunum 1211-1240.  Hófst þessi hrina með gosi í sjá skammt frá landi en síðan urðu allmörg gos á næstu árum á svipuðum slóðum, þ.e. í sjó skammt undan landi. Eitt hefur verið áberandi mest, árið 1226 og skilur eftir sig gjóskulag sem hefur nýst vel í gjóskulagarannsóknum á Suðvesturlandi. Heimildir eru fyrir þessu gosi í Oddaverjaannál og er þar talað um “Sandfallsvetur á Íslandi”. Gos urðu svo uppi á landi á næstu árum.  Þessi gos eru nefnd einu  nafni Reykjaneseldar. Síðan þá hefur kerfið ekki bært á sér frekar en önnur eldstöðvakerfi á skaganum hvað gos varðar en jarðskjálftar eru þar tíðir.

Reykjanesskagi - jarðfræði
Svartsengi

Svartsengiskerfið, kennt við samnefnt háhitasvæði, var áður flokkað með Reykjaneskerfinu en þó þau séu um flest lík og nálægt hvort öðru þá eru þau flokkuð sem tvö aðskild kerfi nú. Þau fylgjast hinsvegar að hvað gos varðar og gýs í þeim báðum á svipuðum tíma. Þá rennur syðsti hluti kerfisins saman við Reykjaneskerfið vestan við Grindavík.

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Dyngjurnar eru gular.

Allmargar dyngjur eru í kerfinu sem er um 7 km. breytt og amk. 30 km. langt. Gossvæðin eru þó í suðurhluta kerfisins.

Goshrina varð í kerfinu fyrir um 2000-2400 árum og rann þá m.a. svokallað Sundhnúkahraun ofan við Grindavík. Hluti Grindavíkur stendur á þessu hrauni.

Einnig gaus í kerfinu samhliða Reykjaneseldum í kringum árið 1226. Virðast þá hafa orðið í það minnsta þrjú gos, fremur lítil þó. Illahraun sem orkuverið í Svartsengi stendur á og er við Bláa Lónið rann í einu þessara gosa.

Reykjanesskagi - örnefni

Reykjanesskagi – örnefni.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – kort.

Kerfið heitir eftir samnefndu fjalli á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Þetta er lítið kerfi og ólíkt hinum eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaganum er það fremur lítt virkt hvað gos varðar, líklega hefur ekki orðið þar gos í um 6000 ár. Jarðskjálftar eru hinsvegar tíðir á svæðinu.

Krýsuvíkurkerfið

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Kerfið var áður nefnt Trölladyngjukerfið eftir samnefndri dyngju í kerfinu. Réttara þykir þó að kenna það við helsta kennileiti kerfisins og  það svæði í því þar sem er að finna vísi að megineldstöð.

Það er sennilega ekki ofsögum sagt að segja að Krýsuvíkurkerfið sé eitt hættulegasta eldstöðvakerfi landsins vegna nálægðar þess við höfuðborgarsvæðið. Nyrstu gossprungurnar eru rétt suðvestur af Hafnarfirði og hraun hefur amk. á tveimur stöðum runnið til sjávar örskammt vestan Hafnarfjarðar eftir landnám.

Um árið 1150 – 1180 urðu veruleg eldsumbrot í kerfinu og opnuðust nokkrar gossprungur í þeirri hrinu. Hafa þessi eldgos verið nefnd Krýsuvíkureldar. Hraun runnu þá til sjávar báðu megin við Reykjanesskagann. Þá varð  gos við Sveifluháls um 1180. Ekki virðist hinsvegar hafa gosið í kerfinu í Reykjaneseldunum á 13. öld þegar mikil goshrina gekk yfir vestar á Reykjanesskaganum.

Brennisteinsfjallakerfið
Reykjanesskagi - jarðfræðiSyðsti hluti kerfisins er við Krýsuvíkurbjarg og það teygir sig svo í norðaustur yfir Bláfjöll og inn á Mosfellsheiði. Líkt og í flestum eldstöðvakerfunum á skaganum urðu allmikil umbrot í kerfinu skömmu eftir landnám og reyndar öllu fyrr í Brennisteinsfjallakerfinu.  Nokkur gos urðu líklega í tveimur megingoshrinum á svæðinu frá Bláfjöllum að Hellisheiði. Þessi gos urðu rétt fyrir og rétt eftir árþúsundin. Þekktast er gosið sem Kristnitökuhraunið rann í árið 1000.

Framtíðarhorfur á Reykjanesskaga

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2023.

Það verður ekki undan því komist að fjalla örlítið um hve hættulega nálægt byggð eldstöðvakerfin á Reykjanesskaganum eru. Eldvirknin er lotubundin og gengur yfir á um 800-1000 ára fresti og stendur þá yfir í nokkur hundruð ár. Nú eru nálægt 780 ár frá síðustu staðfestu gosum á skaganum og alveg ljóst að frekar fyrr en síðar munu verða eldgos og það sennilega nokkuð mörg á skaganum.

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.

Þessi gos eru ekki afkastamikil en þau eru mörg hver hraungos og geta eldsuppkomur orðið mjög nálægt byggð. Sérstaklega verður að telja hluta Hafnarfjarðar á hættusvæði hvað þetta varðar og einnig Grindavík. Það er því sérlega mikilvægt að fylgjast vel með öllum jarðskorpuhreyfingum á skaganum til að auka líkurnar á að hægt sé að segja til um gos með einhverjum fyrirvara og gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.”

Heimild:
http://eldgos.is/reykjanesskagi/

Gunnuhver

Gunnuhver.

Sjáið tindinn, þarna fór ég!

Eftirfarandi viðtal um Esjuna og nágrenni tók Anna G. Ólafsdóttir við Ingvar Birgi Friðleifsson, jarðfræðing, fyrir Morgunblaðið sunnudaginn 20. september 1998:

“Fátt þykir Reykvíkingum betra en að hafa óskert útsýni yfír Esjuna. Anna G. Ólafsdóttir grófst fyrir um hin ólíku svipbrigði fjallsins í spjalli við Ingvar Birgi Friðleifsson, jarðfræðing og skólastjóra Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Ingvar Birgir þekkir Esjuna manna best því hann skrifaði doktorsritgerð um jarðfræði fjallsins fyrir aldarfjórðungi.

Æ fleiri Reykvíkingar geta tekið sér orð borgarskáldsins Tómasar Guðmundssonar „Sjáið tindinn, þarna fór ég!” í munn og litið stoltir í átt til Esjunnar í norðri. Reykvíkingur er varla nema hálfur Reykvíkingur án þess að hafa klifið Esjuna minnst einu sinni. Esjan er í tísku og sprækustu íþróttamenn hafa lagt af sprikl í yfirfullum íþróttasölum til að geta sveigt kroppinn og andað að sér fersku lofti í Esjuhlíðum.
Langalgengast er að lagt sé upp frá Skógrækt ríkisins við Mógilsá og fetað eftir gönguslóða upp hlíðina með stefnu á Þverfellshorn í norðri.

Esjan

Esja – gönguleiðin upp frá Garðyrkjustöðinni.

Gönguleiðin er falleg og hefur þann ótvíræða kost að vera flestum fær. Engu að síður er ekki nema eðlilegt að eftir nokkrar ferðir upp og niður svipaða leið vakni áhugi á nánari kynnum við Esjuna enda sé fortíð fjallsins margbrotnari en í fyrstu virðist.
Einna nánust kynni við Esjuna hefur haft Ingvar Birgir Friðleifsson, skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, en hann skrifaði doktorsritgerð um jarðfræði Esjunnar árin 1970 til 1973. Ingvar Birgir segist hafa dvalist nánast öllum stundum þegar veður leyfði í Esjunni í þrjú sumur. Hann leynir ekki aðdáun sinni á fjallinu og viðurkennir með fjarrænt blik í augum að tilfinningin fyrir því að koma aftur á fallegan reit í Esjunni eftir 25 ára fjarveru sé að mörgu leyti eins og að hitta aftur gamla kærustu.
Esja

Blaðamaður getur ekki orða bundist og spyr hvort að hann geti greint breytingar í fjallinu á þessu tímabili. Ekki stendur á svarinu hjá Ingvari Birgi. „Esjan breytist miklu hægar en kærusturnar en samt finnast alltaf á henni nýjar hliðar.”
Esja
Eins og maðurinn er landið nefnilega lifandi og tekur breytingum í tímans rás. Esjan er þar engin undantekning og veitir með fjölbreytileika sínum ágæta innsýn í stórbrotna jarðfræði Íslands.

Esja

Esjan.

Ef grafist er fyrir um fortíð Esjunnar er eðlilegt að byrja á því að rifja upp hvernig eins konar flekar mynda jarðskorpuna. Ein af höfuðflekamótunum á Atlantshafshryggnum kljúfa ísland frá suðvestri til norðausturs. Flekana rekur til vesturs og austurs frá flekamótunum og er rekhraðinn að jafnaði talinn vera um einn sm á ári í hvora átt. Þó þarf ekki að óttast að landið klofni í tvo eða fleiri hluta því að við gos á gosbeltinu á flekamótunum fylla gosefni í skarðið. Á norðanverðu landinu fara flekamótin í gegnum Þingeyjarsýslu og valda því að sýslan tútnar smám saman út. Á sunnanverðu landinu horfir svolítið öðruvísi við því að flekaskilin klofna í tvær kvíslar: að vestanverðu í Gulibringusýslu og Árnessýslu og austanverðu í Rangárvallasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.

Uppruninn á Þingvöllum
Esja
Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbelti því sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og hefur mjakast í takt við rekhraðann í átt til vesturs. Elsti hluti Esjunnar að vestanverðu er 2,8 milljóna ára gamall og hefur því ferðast tæplega 30 km frá Þingvöllum. Einn yngsti hluti fjallsins er Móskarðshnúkar, um 1,8 milljóna ára gamlir, en þá hefur rekið um 18 km frá gosbeltinu í Þingvallavatni.
Esja
Á sama tíma og landið rak til vesturs hélt gosvirknin áfram inni í sjálfu gosbeltinu á flekamótunum. Vestan við gosbeltið er röð af megineldstöðvum sem hafa myndast í því. Fyrst er að telja eldstöðvar í Hafnarfjalli og Skarðsheiði en þær voru virkar fyrir um 4,5 milljónum ára. Hvalfjarðareldstöðin aðeins austar tók svo við fyrir um 3 milljónum ára. Smám saman dó virknin þar út og Kjalarneseldstöðin tók við og átti stóran þátt í myndun Esjunnar. Kjalarneseldstöðin var virk í um hálfa milljón ár þar til landrekið olli því að virknin dofnaði. Stardalseldstöðin tók því næst við og Hengillinn með háhitasyæði allt um kring er megineldstöð í gosbeltinu í dag.

Esja

Esjan – Kistufell.

Esjan myndaðist í rauninni við stöðuga eldvirkni í um milljón ár fyrir 2 til 3 milljónum ára. Mótunin var hins vegar langt frá því að vera lokið fyrir um tveimur milljónum ára. Jökulskeið koma á um 100.000 ára fresti og áttu eftir að marka landslagið með ýmsum hætti. Allra stærstu jöklarnir skófu út Hvalfjörðinn, sundin og fjalllendið á höfuðborgarsvæðinu. Minni jöklar skófu ofan af sjálfu fjallinu og minnstu jöklarnir skófu út dali í fjallið eins og verið væri að taka með óskipulögðum hætti tertusneiðar af stórri lagköku.

Esja

Esjan – gönguleiðir.

Ingvar Birgir segir að til að einfalda jarðsöguna líki hann mótun Esjunnar stundum við æviskeið konu um sjötugt. „Barnvöxtinn tekur hún út á Kjalarnesi, um fermingu gengur yfir merkilegt vaxtarskeið með kvikuhlaupum og háhitavirkni í Skrauthólum og Þverfelli. Hátindi líkamlegs þroska nær hún liðlega tvítug með myndun Móskarðshnúka en þá er hún bústin og heit. Æskublóminn fer því næst að dvína, holdin tálgast utan af henni hér og þar, þó háhitavirknin í Stardalsöskjunni endist nokkuð lengi. Hún eldist illa og varta sprettur út úr henni á Mosfelli um sextugt. Önnur sprettur svo upp í Sandfelli í Kjós nokkrum árum síðar.”

Spennandi gönguleiðir
Eins og áður segir hefjast Esjugöngur gjarnan við Mógilsá. Ingvar Birgir segir ágætt að meginstraumurinn fari þar um. „Þarna hefur verið komið til móts við almenning með ágætis bílastæði og stigum yfir girðingar landeiganda á leiðinni upp á Þverfellshorn. Göngugarpar taka gjarnan eftir hvítu bergi í sprungum í gilinu og upp með Mógilsánni. Hvíta bergið er kalk og þarna var kalk tekið í fyrstu sementsgerðina á Íslandi. Kalkið var flutt á bátum yfir til borgarinnar og heitir Kalkofnsvegur, þar sem Seðlabankinn og bílageymslan undir honum eru nú, eftir kalkgerðinni. Eins hafa niðurstöður rannsókna gefið til kynna að þarna sé að finna vott af gulli og er í björtu veðri hægt að sjá glampa á steina í fjallinu. Þar glittir hins vegar því miður aðallega í glópagull.

Esja

Esja – óhefðbundin gönguleið.

Gangan tekur dálítið á en er nánast öllum fær langleiðina upp á Þverfellshorn eða þangað til komið er að klettabelti síðustu 20 til 30 m. Lofthræddum gæti orðið um og ó og vafalaust væri til bóta að setja þarna upp reipi til stuðnings eða einfaldlega fyrir lofthrædda að vita af.”

Hins vegar segist Ingvar Birgir undrast að sumir skuli hafa áhuga á því að fara sömu gönguleiðina oft og jafnvel mörgum sinnum í hverjum mánuði. „Af Þverfellshorni er frábært útsýni yfir Sundin og yfir Reykjanesið. Aftur á móti þarf að ganga töluvert langa leið uppi á sjálfu fjallinu til að njóta útsýnisins til norðurs.

Esja

Esja – Þverfellshorn.

Að fara hjá Skrauthólum upp á Kerhólakamb eða fjalllendið þar fyrir vestan gefur mun víðari sjóndeildarhring. Eins er hægt að fara upp á Móskarðshnúka til að sjá yfir höfuðborgarsvæðið, suðurfyrir og austur í gosbeltið á Þingvöllum, Kjósina og norður um allt. Löngu er orðið tímabært að varða þarna fleiri gönguleiðir fyrir göngufúsa.”

Aðrir eiga eflaust eftir að halda áfram að skeiða sömu leið upp á Þverfellshorn.

Esja

Esja – Þverfellshorn.

„Kunningi minn er einn af þeim,” segir Ingvar Birgir og gefur til kynna að kunninginn hafi reynt að útskýra fyrir honum hvað lægi að baki atferlinu. „Hann sagðist hafa farið í World Class og hamast þar í svitaskýi frá sér og öðrum áður fyrr. Á meðan hann nyti líkamsræktarinnar einn í Esjunni þyrfti hann hins vegar aðeins að þola svitalyktina af sjálfum sér. Hann andaði að sér fersku útilofti og nyti fegurðarinnar í umhverfinu. Síðast en ekki síst þyrfti hann ekki að velta því fyrir sér hvaða stefnu bæri að taka heldur skeiða einfaldlega ósjálfrátt upp sömu leið eins og af gömlum vana.”

Flestar gerðir gosbergs

Esja

Ekki er að undra að Esjan sé talsvert notuð í kennslu því þar er að finna flestar gerðir íslensks gosbergs. „Ísland er að 90 hundraðshlutum basalt og því er efniviðurinn nánast allur sá sami. Lögun og ásýnd fer einfaldlega eftir því við hvaða aðstæður gosin hafa orðið. Ef gos verður á þurru landi myndast gígaröð og hraunið rennur í nokkra metra þunnu lagi yfir stórt svæði eins og til dæmis í Heiðmörk eða kringum Reykjavík. Ef gosið verður á hinn bóginn í sjó, stöðuvatni eða undir jökli verða mun meiri átök. Glóandi kvikan, hátt í 1.200 gráðu heit, snarkólnar og veldur gufusprengingu. Basaltblandan þeytist í háaloft, rignir aftur niður á jörðina og myndar hrúgur. Gott dæmi um hvort tveggja er þegar Surtsey myndaðist. Eftir að Surtsey var orðin svo há að sjórinn náði ekki lengur inn í gíginn hvarf feikimikill gufustrókur og basaltkvika með nákvæmlega sömu samsetningu fór allt í einu að mynda þunnt hraunlag,” útskýrir Ingvar Birgir.

Esjan

Gengið á Esjuna.

Hann rifjar upp að á milljón ára myndunarskeiði Esjunnar hafi gengið yfir um 10 jökulskeið. „Gosin urðu því gjarnan undir jökli og mynduðu stóra móbergshrauka eins og við sáum beinlínis í sjónvarpinu þegar gaus í Vatnajökli fyrir tveimur árum. Á hlýskeiðum hörfuðu jöklarnir og eftir stóðu fallega mynduð móbergsfjöll. Ef gos urðu á hlýskeiðum tóku við hraunlög og eftir því sem hlýskeiðin voru lengri og gosvirknin meiri grófst meira og meira af móberginu undir hraunlög. Með þversniði af Esjunni væri því auðveldlega hægt að greina heilu móbergsfjöllin inni í sjálfu fjallinu. Móbergið gefur Esjunni sérstakan blæ og ekki síst vestast. Þar hefur bergið orðið fyrir áhrifum frá feikilega stórum kvikuþróm frá tímum Kjalarneseldstöðvarinnar. Kvikuþrærnar teygðu sig upp og hituðu bergið í efstu lögum jarðskorpunnar. Bergið er mestmegnis úr gleri og svo viðkvæmt að við 100 til 200 gráðu hita fara sum efnanna að leysast upp og bergið fær á sig ljósan blæ.

Þegar Þórbergur kvað „Esjan er yndisfögur utan úr Reykjavík. Hún ljómar sem litfríð stúlka í ljósgrænni sumarflík,” er hann að lýsa ljósu skriðunum þarna.”
Ingvar Birgir segir fróðlegt að líta upp í hlíðarnar í vestanverðri Esjunni. “Athyglisvert er að sjá hvernig dökk hraunlögin liggja neðan og ofan við móbergið.

Esja

Í Esju.

Ef vel er að gáð sést sumstaðar hvernig jarðhitasprungur ná upp í gegnum móbergið og hraunlögin þar fyrir ofan. Hraunlögin eru þéttari fyrir og hafa því ekki ummyndast eins og móbergið. Fjallið er ekki heldur frítt við líparít. Líparítið kom upp í gosi í hringlaga sprungu utan við Stardalsöskjuna fyrir um 2 milljónum ára. Hringsprungan sker Þverárkotsháls, fer um suðurhlíðar Móskarðshnúka, klórar utan í Skálafell og aðeins í hæðina Múla fyrir austan Stapa. Oftar en einu sinni hefur gosið í hringsprungunni og ágætt er að sjá hvað kom út úr gosunum í Móskarðshnúkum. Ekki verður heldur undan skilið að stórir líparítgangar fara í gegnum Þverárdal, yfir Grafardal og ná langleiðina upp á hátind Esjunnar”, segir hann og tekur fram að hægt sé að sjá líparítið langar leiðir. „Oft finnst fólki að sólskin sé austast í Esjunni af því að Móskarðshnúkarnir eru svo ljósir.”

Ágæt dæmi um innskotsberg eru að sögn Ingvars Birgis í Þverfelli í Esjunni og á Músarnesi á Kjalarnesi.

Kjalarnes

Kjalarnes.

Á Músarnesi, hinu eiginlega Kjalarnesi, séu skemmtilegar gönguleiðir við allra hæfi. „Ekið er að Brautarholti á Kjalarnesi og falast eftir leyfi landeiganda að fara niður í fjöruna þar. Mjög skemmtileg fjara er norðanmegin Músarnessins og gaman að ganga um klettaborgirnar. Eins er hægt að skoða Presthúsatanga á austanverðu Kjalarnesinu.
Skemmtileg ganga er frá Skrauthólum og upp á Kerhólakamb í vestanverðu fjallinu. Önnur skemmtileg ganga er frá Skeggjastöðum inn í hjarta Stardalseldstöðvarinnar í farvegi Leirvog inn að Tröllafossi. Auðvelt er að greina móberg sem myndaðist í öskjuvatni Stardalsöskjunnar og sjá hvernig hraunlögin undir móberginu halla inn að öskjumiðjunni. Svo hefur kvika troðið sér inn í móbergið og myndað grófkornótt innskot.

Fyrir þá sem ekki eru mjög uppteknir af jarðfræðinni getur verið gaman að sjá þarna hrafhslaup með ungum og tilheyrandi á sumrin,” segir Ingvar Birgir og bætir því við að til að sjá enn meiri fjölbreytileika í landslagi sé gaman að halda áfram fram hjá Hrafnahólum. „Inn eftir Þverárdal er hægt að keyra hvaða bíl sem er að Skarðsá og þaðan er hægt að ganga upp í stórt innskot sem heitir Gráhnúkur og virða fyrir sér fallegt stuðlaberg. Á

Skarðsá

Skarðsá.

fram er svo hægt að ganga upp á gígtappann Bláhnúk og alla leið upp á Móskarðshnúka.” „Önnur auðveld leið er með gamla þjóðveginum upp í Svínaskarð. Efst úr Svínaskarði er svo auðvelt að ganga á austasta Móskarðshnúkinn. Þaðan er frábært útsýni til suðurs, austurs og norðurs. Stardalshnúkur er svo í sérstöku uppáhaldi hjá klifrurum. Þarna er einna fallegast innskot á vestanverðu landinu. Bergið er fallega stuðlað og svo grófkristallað að þarna eru góðar festur fyrir þá sem stunda fjallaklifur með reipum.”

Spurningum ósvarað

Eins og áður segir er Ingvar Birgir skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og fram kemur að doktorsverkefnið hafi á sínum tíma tengst jarðhita. „Ein aðalástæðan fyrir því hversu nákvæmlega ég rannsakaði fjallið var að ég hafði áhuga á að vita meira um í gegnum hvaða jarðlög verið væri að bora eftir heitu vatni i þéttbýlinu hér sunnanlands. Eini munurinn á jarðlögunum í Esjunni og í borholum eftir heitu vatni fyrir Reykvíkinga, Seltirninga og íbúa í Mosfellssveit er að hægt er að sjá jarðlögin í fjallinu með berum augum í giljum og klettaveggjum en jarðlögin í holunum koma aðeins upp í svarfi. Að mörgu leyti er því hægt að skilja betur eðli jarðhitans á höfuðborgarsvæðinu með því að skoða Esjuna.”

Esja

Gengið á Esjuna.

Ingvar Birgir segir að þó hann haldi að með rannsóknum sínum hafi hann getað dregið fram helstu einkenni í myndunarsögu fjallsins sé enn mörgum spurningum ósvarað. „Eftir að styrkari stoðum hefur verið rennt undir framhaldsnám í jarðfræði við Háskóla íslands er ekki ólíklegt að fleiri fari að rannsaka jarðlög í megineldstöðvum eins og í Esjunni. Ný greiningartækni er spennandi kostur og gefur ítarlegri upplýsingar en hægt var að nálgast á áttunda áratugnum.”

Heimild:
-Morgunblaðið, sunnudagur 20. september 1998, bls. 22-23.

Viðey

Í Viðey er eitt elsta berg höfuðborgarsvæðisins. Viðey er liggur á hluta megineldstöðvar sem var virk fyrir um tveimur til þremur milljónum ára og er hún ýmist kennd við Kjalarnes eða Viðey. Þessi eldstöð var virk í um eina milljón ára og var umfangsmikil á sínum líftíma. Kjarni hennar var að mestu rofinn af ísaldarjöklum og er nú komin undir sjó og yngri jarðlög. Á nokkrum stöðum er þó hægt að greina leifar eldstöðvarinnar á yfirborði, svo sem í Gufunesi, við Vatnagarða og yst á Kjalarnesi. Mestu ummerkin eru hinsvegar í sunnanverðri Viðey.

Reykjanes

Magnús og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur skrifuðu ítarlegan kafla um Reykjanesskagann og eldvirkni þar í ritið Náttúruvá á Íslandi ; “Eldgos og jarðskjálftar“:

Í kaflanum fjalla þeir um eldstöðvakerfin frá Hengilskerfinu í norðaustri og suður og vestur um að Brennisteinsfjallakerfinu, Krýsuvíkurkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu, Svartsengiskerfinu og Reykjaneskerfinu.

Eldgosahrinur með hléum

“Síðast byrjaði goshrina þarna austast og færðist í vestur,“ sagði Magnús um elda á Reykjanesi á 13. öld. Vísbendingar eru um að gosskeiðið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800 . Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu komu vestustu kerfi Reykjanesskagans á 13. öld eftir um 30 ára goshlé. Þessum eldum lauk um árið 1240, eða fyrir um 780 árum.

Stampar

Gígar Stampahrauns á Reykjanesi.

Goshrinur hafa komið
Magnús benti á að þetta hefði átt við um síðustu elda en ekki væri vitað nákvæmlega um ferli í fyrri hrinum, t.d. fyrir 2-3 þúsund árum. Hann sagði erfitt að segja fyrir um það nú hvernig atburðarásin með landrisi og jarðskjálftum við Þorbjörn myndi enda.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2023.

Miðað við sögu Reykjanesskaga og síðustu goshrinur þar mætti segja að það gæti verið að koma tími á viðvarandi jarðelda á svæðinu. „Þetta er eiginlega alveg ný reynsla, má segja. Þetta sést fyrst og fremst vegna þessara nákvæmu mæla sem komnir eru,“ sagði Magnús. Hann sagði að svipuð atburðarás og er nú gæti vel hafa orðið fyrir einhverjum áratugum eða árhundruðum án þess að hennar hafi orðið vart. Jarðhræringarnar og landrisið nú er á svæði sem tilheyrir Svartsengiskerfinu. Engin merki eru um að eldvirkni þar hafi náð út í sjó, eins og sums staðar annars staðar á Reykjanesskaganum. Ekki er útilokað að það geti þó gerst, að sögn Magnúsar. Svartsengiskerfið er um sjö km breitt og allt að 30 km langt. Gosstöðvar eru á syðstu 17 km. Kæmu upp jarðeldar gæti hraunkvika mögulega farið eftir sprungum og komið upp fjarri sjálfri gosstöð inni. Sprungur ná langt í norðaustur frá Svartsengi. „Gosvirknin er bundin við suðurpartinn. Það gildir líka um Reykjaneskerfið og Krýsuvík,“ sagði Magnús.

Síðasta eldgosahrina á 13. öld

Nokkur hraun runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu frá 1211 til 1240. Vestast er Eldvarpahraun. Þar fyrir austan er Illahraun. Orkuverið í Svartsengi stendur á því og Bláa lónið er við norðurjaðar þess. Arnarseturshraun er norðaustast af þessum þremur hraunum. Talið er að það hafi runnið síðast af þeim. Arnarseturshraun og Illahraun runnu bæði inn á Eldvarpahraunið.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Grindavíkurvegurinn liggur að hluta í gegnum Arnarseturshraunið. Rannsóknir sýna að eldar á Reykjanesskaga geta staðið í nokkra áratugi eða lengur, með hléum. Þeir eru nokkuð svipaðir og Kröflueldar voru. Magnús sagði að eldarnir í Krýsuvík þegar Ögmundarhraun rann virtust hafa staðið í 2-3 áratugi. Svipuð atburðarás hefði orðið í Brennisteinsfjöllum á 10. öld þegar gaus á þó nokkrum stöðum þar. Samkvæmt mælingum er landrisið á Svartsengissvæðinu vestan við fjallið Þorbjörn og ekki mjög langt frá Eldvarpagossprungunni. Magnús sagði ómögulegt að fullyrða um framhaldið. Líklegast væri að þetta hjaðnaði en tæki sig síðan mögulega upp aftur í framtíðinni.

Virðist vera fremur lítil kvika

Áætlað er að Arnarseturshraun sé um 0,3 rúmkílómetrar að rúmmáli. Samkvæmt frétt Veðurstofu Íslands 26. janúar var áætlað samkvæmt grófu mati að rúmmál kvikusöfnunarinnar hefði verið um ein milljón rúmmetra eða 0,001 rúmkílómetri. Það er 1/300 af rúmmáli Arnarseturshrauns. Ef þessi kvika nær til yfirborðs og ekki verður meira aðstreymi kviku verður um lítið gos að ræða, að sögn Magnúsar. Hann sagði talið að kvikan væri á um þriggja til fjögurra km dýpi.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Jarðskjálftar og landris í grennd við fjallið Þorbjörn upp af Grindavík hafa sett menn í viðbragðsstöðu gagnvart eldsumbrotum þar í grennd. Af þeim sökum hafa menn líka rýnt í jarðfræðileg gögn og gamlar frásagnir af eldgosum á þessum slóðum.

Yngsta goshrinan, Reykjaneseldar, gekk yfir á árabilinu 1210-1240, það er fyrir um 800 árum. Þá urðu neðansjávargos úti fyrir Reykjanesi og hraun runnu á landi bæði á Reykjanesi og við Svartsengi. Eitt þessara hrauna var Eldvarpahraun vestan Grindavíkur. Gígaröðin, Eldvörpin, er um 8 km löng og nær alveg suður að ströndinni við Staðarberg og þar rann hraun í sjó.


Á fjölgeisla dýptarmælingum, sem Landhelgisgæslan hefur aflað með sjómælingaskipinu Baldri og látið ÍSOR í té til frekari úrvinnslu, sést að hraunið hefur ekki numið staðar við ströndina heldur hefur það runnið langa leið neðansjávar og myndar þar fallegar tungur úr úfnu hrauni. Lengst nær það um 2,7 km út frá strönd og er þar komið niður á um 90 m dýpi. Hugsanlegt er að gossprungan teygi sig líka út fyrir ströndina og að þarna hafi einnig gosið í sjó. Flatarmál hraunsins á sjávarbotni er um 3,4 km2. Hraun af þessu tagi er engan veginn einsdæmi.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Hópsnesið hjá Grindavík er hluti af hrauni sem runnið hefur niður að strönd og myndað allmikinn tanga út í sjó. Það er um 8000 ára gamalt. Á myndum má sjá að það teygir sig áfram neðansjávar og myndar hrauntungu sem nær niður á um 100 m dýpi.
Á dýptarmælingum sem aflað hefur verið á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg sést að hraun geta runnið á hafsbotni frá gígum og gossprungum á allmiklu dýpi. Talið er að þetta séu svokölluð bólstrabergshraun eða bólstrabreiður.
Til þess að hraun geti runnið með þessum hætti þurfa þau að verja sig gegn sjávarkælingu. Þau virðast mynda einangrandi kápu úr gjalli og storknuðu bergi um leið og þau streyma fram. Ljóst er að hraunrennslið þarf að vera mikið og stöðugt til að hrauntunga nái að myndast á sjávarbotni. Við slíkar aðstæður myndi vera illgerlegt að stöðva hraunrennsli með sjókælingu.

Heimildir:
-http://isor.is/frettir/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga
-http://isor.is/frettir/nedansjavarhraun-vid-grindavik-sogulegt

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Jarðfræði

Jón Jónsson, jarðfræðingur, vitnaði um gosvirkni Reykjanesskagans í viðtalsgrein í Morgunblaðinu 1965 undir fyrirsögninni “Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga“:

Reykjanesskagi “Jón Jónsson, jarðfræðingur, hefur að undanförnu unnið að því að rannsaka sprungukerfin og misgengið á Reykjanesskaga, sem er eitt af mestu jarðeldasvæðum landsins, og er að gera jarðfræðikort í stórum mælikvarða af því svæði. Rannsóknir á sprungukerfinu þarna hafa líka hagnýta þýðingu vegna staðsetningar á köldum uppsprettum og heitavatnsæðum, en vatn kemur mest fram í sambandi við sprungurnar. Varla var hægt að drepa niður fæti í skrifstofu Jóns hjá Jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar, þegar við komum þangað í þeim tilgangi að eiga við hann viðtal um rannsóknir hans á Reykjanesskaga og það sem hann hefur orðið vísari með þeim. En hvar er betri staður til að ræða hraun og eldfjallamyndanir en innan um hauga af grjóti og alls kyns jarðfræðikortum?
Fyrst skulum við kynna Jón Jónsson fyrir lesendum. Hann er Vestur-Skaftfellingur, frá Kársstöðum í Landbroti, og því alinn upp við að hlaupa illfær hraun, án þess að láta sér verða það að fótakefli. Á Kársstöðum var fátækt, og Jón átti því ekki kost á langskólanámi. Eftir að hann hafði verið á Eiðaskóla, hélt hann utan til að freista þess að bæta við menntun sína. Fór til Svíþjóðar, þar sem hann ílengdist í 25 ár. Hann gekk í alþýðuskóla í Svíþjóð, tók ýmis fög í bréfaskólum og las og tók próf í þeim menntaskólagreinum, sem hann hafði áhuga á og vann alltaf fyrir sér jafnhliða náminu.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

— Þegar ég þóttist slarkfær með stúdentsmenntun, lagði ég inn umsókn í Uppsalaháskóla um að fá undanþágu frá stúdentsprófi, segir Jón. Slíkar umsóknir ganga til háskólakanzlara, sem sendir þær til háskólaráðs. en það er skipað 9 prófessorum. Þeir fóru í gegnum vottorð mín og próf, sem voru eitthvað um 30 talsins. Þar með voru próf í mörg um menntaskólagreinum, en þó ekki öllum. Mér fannst þar svo margt innan um, sem ekkert mundi gera nema tefja mig. Og ég fékk sem sagt undanþáguna og innritaðist í Uppsalaháskóla sem sænskur stúdent haustið 1954.
— Var ekki erfitt að taka þetta svona?
— Jú, að vísu. En það hefði verið léttara ef maður hefði vitað að þetta var í rauninni hægt. Þá hefði ég getað skipulagt þetta betur. En auk jarðfræðinnar hafði ég ýms önnur áhugamál, las t.d. mikið í bókmenntum.
Vorið 1958 tók Jón svo lokapróf sín í jarðfræði við Uppsalaháskóla, lauk bæði kandidatsprófi og „licentiat”-prófi á sama degi. Þá munaði minnstu að hann færi í olíujarðfræði og réði sig hjá sænsku olíufyrirtæki. Gert var ráð fýrir því að hann yrði í Bandaríkjunum við framhaldsnám í eitt ár og síðan í 3 ár við störf í Portúgal. Olíujarðfræðingar voru á þeim árum hæst launuðu jarðfræðingarnir og mikill skortur á þeim, þó nú hafi það margir lagt þessa grein fyrir sig að þeir fylla nokkuð vinnu markaðinn.
Jón Jónsson— En um þetta leyti opnaðist möguleiki til að koma heim og fá starf á Raforkumálaskrifstofunni, segir Jón, og ég tók það. Ég var búinn að lesa jarðfræðina með það fyrir augum að starfa heima á Íslandi og átti erfitt með að hugsa mér að flytja með fjölskyldu mína til Portúgal, þó það gæfi meira í aðra hönd. Heitt og kalt vatn kemur upp með sprungunum.
— Tókstu þá strax til við þessar rannsóknir á Reykjaneshluti jarðfræðikortsins af Reykjanesskaga, sem Jón er búinn að vinna. Það er „hællinn” á skaganum. Þar sjást m.a. Eldvörpin, sem örugglega hafa gosið eftir landnámstíð og þar sem enn er hiti í einum gígnum (hægra megin) og Stamparnir, sem líklega hafa líka gosið eftir að land byggðist. Og sprungurnar hafa allar sömu stefnu.
— Áður en ég flutti heim vann ég að kortagerð yfir Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni, jarðfræðingi. Það kom í minn hlut að kortleggja syðri hluta svæðisins. Þá lenti ég á sprungusvæðinu og áhuginn vaknaði. Þegar ég kom heim, ætlaði ég svo strax að taka Krýsuvíkursvæðið. Og út frá því leiddist ég yfir á allan Reykjanesskagann, því þetta er svo mikið eldfjalla- og jarðhitasvæði og mér fannst að þetta verk þyrfti að vinna. Einkum þá sprungukerfin þar og missigið, því það hefur beinlínis hagnýta þýðingu.
Það er greinilegt að lindirnar eru tengdar bergsprungum og misgengissprungum. T.d. koma bæði Gvendarbrunnarnir og Bullaugun upp við sprungur. Sprungurnar við Bullaugun var ég reyndar búinn að skoða áður en borað var þar. Ég ætlaði sem sagt að vinna þetta strax þegar ég kom heim 1958, en svo mikið hefur hlaðizt á mig af aðkallandi skyldustörfum í sambandi við boranir eftir köldu og heitu vatni, að það hefur orðið verulega minna en til stóð. Það hefur allt verið unnið meira og minna í íhlaupum.
— Hve stórt svæði ertu búinn að taka fyrir?
— Ég hefi tekið heilt svæðið fremst á Reykjanesskaga austur að Grindavík að sunnan og Vogarstapa að norðan og að auki sneið frá Hafnarfirði suður undir Krýsuvík og ýmsa bletti annars staðar og er ætlunin að tengja þá saman og fá af þessu heillegt jarðfræðikort í mælikvarðanum einn á móti 25 þús., sem hlýtur að verða nokkuð nákvæmt, en á minni kortum er ekki hægt að koma öllu fyrir.
— Og þetta er allt eitt jarðeldasvæði, þakið hraunum?

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgos og hraun á Reykjanesskaga.

— Já, það væri hægt að fara fótgangandi alveg utan frá Reykjanestá og að Þingvallavatni, án þess að stíga af hrauni. Þetta er eitt af mestu jarðeldasvæðum landsins. Á þessum skika, mem ég hefi verið með, eru 24 mismunandi jarðeldastöðvar. Þær eldstöðvar hafa allar gosið eftir ísöld og einhverjar þeirra væntanlega eftir að ísland byggðist. Eldvörpin við Grindavík hafa örugglega gosið eftir landsnámstíð og kannski líka Stamparnir, sem eru tvær sprungur á Reykjanesinu og hefur hraunið úr annarri horfið undir hraun úr hinni.
— Er engar heimildir að finna um þessi eldgos?

Eldvörp

Í Eldvörpum.

— Um slíkt eru aðeins óljósar sagnir. Espólín tilfærir, að hálft Reykjanes hafi brunnið árið 1389—1390. Nú er óvíst hvað hann hefur átt við, en um tvennt er að ræða, gos í Eldvörpum eða Stömpum. Ég tel Eldvörpin líklegri, því þá hefur gosið úr um 8 km. langri sprungu, og t.d. séð frá Snæfellsnesi, hefði getað litið svo út sem hálfur Reykjanesskaginn brynni. Þá eru sagnir um að Ögmundarhraun hafi runnið um árið .1340. Og þar höfum við sannanir, því leifar eru til af bæ, sem hraunið hefur runnið að nokkru yfir. Þarna heitir Húshólmi, en hugsanlegt er að það hafi verið Krýsuvíkurbærinn á þeim tíma. Þarna þyrfti að grafa upp.
— Heldurðu að enn sé hætta á eldgosum á Reykjanesskaga?
— Já, ég hefi enga trú á að þetta jarðeldasvæði sé útdautt.
— Og hvar gæti helzt gosið?
Reykjanes - hraun

— Maður gæti búizt við eldgosi á öllu svæðinu frá Þingvallavatni út á Reykjanestá, því það er eldbrunnið alla leiðina. Ef maður tekur t.d. svæðið frá Selfjalli, sem er upp af Lækjarbotnum og vestur undir Húsfell, sem er austur af Helgafelli, þá eru þar a.m.k. á annan tug hrauna, sem öll hafa runnið eftir ísöld. Nú, Elliðaárhraunið sem hefur komizt næst Reykjavík, er samkvæmt aldursákvörðun ekki nema 5300 ára gamalt.

Hólmshraun

Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.

Rétt austan við Heiðmörkina er líka nokkuð stór hraunbreiða, Hólmshraun, þar sem eru fimm mismunandi hraunstraumar og sá elzti rennur þvert yfir Elliðaárhraunið. Þau eru þá öll yngri en það og við höfum þarna 6 hraun, sem eru yngri en 5300 ára gömul. Engar sagnir eru til um myndun þessara hrauna, hvort sem þau eru nú forsöguleg eða ekki. Annars er enn hiti sums staðar á eldstöðvunum, svo sem í einum gígnum í Eldvörpunum.
— Þá gæti þéttbýlinu hugsanlega stafað hætta af gosum?
— Já, hugsanlega gæti byggð stafað hætta af slíku, svo og ýmsum mannvirkjum, eins og vatnsbólum. Þó mundi ég telja að Bullaugun yrðu aldrei í hættu og ekki heldur sjálf Reykjavík. En hluti af Hafnarfirði aftur á móti.
— En hvað um jarðskjálftahættu?
— Vúlkaniskir jarðskjálftar eru nú yfirleitt ekki eins voðalegir og jarðskjálftar í t.d. háfjallahéruðum, þó þeir geti verið snöggir. Og þetta hafa ekki verið neinir stórfelldir jarðskjálftar hér.

Reykjanes

Dyngjur Reykjanesskagans fyrir meira en 3000 árum.

Þegar mest hrundi af húsum árið 1896, voru byggingar svo lélegar, að enginn samanburður fæst af því. Þó er sjálfsagt nauðsyn á traustum byggingum. Annars tel ég að hreyfingar séu ekki hættar á sprungusvæðunum hér, þó hægt fari. Enda standa þessar sprungur allar í sambandi við stóra Atlantshafshrygginn.
—Og þessar sprungur hafa hagnýta þýðingu fyrir okkur vegna kalda vatnsins, sagðirðu okkur áðan. En hvað um heita vatnið?

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

— Það er greinilegt að heita vatnið er tengt sprungulínunum á Hengilsvæðinu og reyndar á Reykjanesfjallgarðinum öllum.
Hvernig samhengið er djúpt niðri veit maður ekki, en heitt vatn kemur upp með sprungunum. Nóg kalt vatn, enginn veit um heita vatnið.
— Er nægilegt vatn hér á Reykjanesfjallgarðinum, bæði kalt og heitt, svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því í framtíðinni hér í þéttbýlinu?
— Já, nóg er af köldu vatni fyrir Reykjavík, Hafnarfjörð og nágrenni. Við boruðum t.d. við Kaldársel niður á 860 m. dýpi og þar var kalt vatn alla leið niður. Erfiðara er að svara þessari spurningu um heita vatnið. Enginn getur sagt um hvort nóg er af því, eða hve mikið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði. ISOR

— Koma allar þessar boranir þér ekki að miklu gagni fyrir almenna jarðfræðilega rannsókn á Reykjanesskaganum?
— Jú, að vísu, en það er orðið svo mikið um þær, að enginn hefur tíma til að vinna úr þeim.
Þegar aðkallandi er að finna kalt eða heitt vatn á einhverjum stað, verður maður að fara á þann stað og athuga næsta nágrenni og segja svo sitt álit. Ef um heitt vatn er að ræða, gerir Guðmundur Pálmason jarðeðlisfræðilegar mælingar. En svo mikill tími fer orðið í slíka bráðabirgðarannsókn, að maður hefur orðið að láta sér nægja bráðabirgðayfirlitið eitt. Auðvitað hefði verið æskilegt að hafa þetta ýtarlegra, en við erum svo fáliðaðir að það hefur ekki getað orðið eins og ég hefði helzt kosið. En það stendur vonandi til bóta. Hér er nú kominn jarðfræðingur, Jens Tómasson, sem hefur verið að vinna úr gögnum frá Vestmannaeyjum og er að byrja á efnivið frá Húsavík. Og mikið magn af efni til úrvinnslu er í höndum Atvinnudeildarinnar.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Svo þetta lagast vonandi í framtíðinni.
— Nú er komið jarðfræðikortið þitt af „hælnum” á Reykjanesskaganum. Hefurðu áætlun um hvenær tilbúið verður kort af öllum skaganum?
— Ég geri mér vonir um að fá betri tíma næsta sumar og geta snúið mér eindregnar að Reykjanesskaganum en ég hefi hingað til getað. Svo bætir það mikið úr, að búið er að vinna gott verk á austurenda skagans, eem er Hengilssvæðið. Þar hefur Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, unnið að rannsóknum undanfarin sumur og kortlagt sprungukerfin um leið. Einnig hefur Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, kortlagt Hellisheiðina, þar á meðal sprungusvæðin.

Reykjanesskagi

Kortið sýnir þau hraun sem runnu á Reykjanesskaga í síðustu eldgosahrinu frá 9. öld og fram á 13. öld.

Þetta hvort tveggja flýtir fyrir mér og gerir auðveldara að fylla í á milli. Svo þar ætti verkið að ganga fljótar. En hvenær því verður lokið þori ég ekkert að segja um. — E. Pá.”

Sjá meira um jarðfræði Reykjanesskagans HÉR.

Heimild:
-Morgunblaðið – 35. tölublað (11.02.1965), Jón Jónsson (Rannsóknir á Íslandi); Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga, bls. 13 og 17.

Hraun

Hraun runnin úr sprungugosum á Reykjanesskaga á 13. öld.

Eldgos

Í Morgunblaðinu 2018 mátti lesa eftirfarandi viðtal við Þóru Björg Andrésdóttur; “Gerir hættumat vegna eldgosa“. Þóra var að leggja lokahönd á meistaraprófsverkefni við Háskóla Íslands. Þar reyndi hún að meta hvar líklegast væri að eldos geti orðið í Reykjaneskerfinu, sem er yst á Reykjanesskaganum.

EldgosÍ yfirskrift greinarinnar segir; “Eldvirknihætta á Reykjanesi metin og kortlögð eftir nýjustu aðferðum. Eldgos gæti ógnað nauðsynlegum innviðum samfélagsins. Upphafið að hættumati fyrir öll eldfjallasvæði landsins”.

“Hættan á eldgosi á Reykjanesi er til staðar. Þar eru 4-5 þekkt eldgosakerfi, þeirra helst eru Reykjaneskerfið, Krýsuvíkurkerfið, Bláfjallakerfið og Hengilskerfið. Eldgos á þessu svæði gætu mögulega ógnað innviðum á borð við vegi, raflínur, lagnakerfi, ljósleiðara og einnig vatnsbólum að ekki sé talað um byggingar.
HúsfellsbruniHættumatið er unnið á grundvelli jarðfræðilegra, landfræðilegra og skipulagsfræðilegra gagna. Þóra Björg teiknar upp líklegustu svæðin, eins og sést á meðfylgjandi korti, og eins hvar mikilvægt mannvirki eru á svæðinu. Hún ver verkefnið sitt í júní. Leiðbeinendur hennar eru Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild, og Ármann Höskuldsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Sefur vært á Völlunum
EldgosÞóra Björg býr á Völlunum í Hafnarfirði og kveðst sofa alveg róleg, þrátt fyrir að hafa sökkt sér niður í sögu eldvirkni á Reykjanesi vegna vinnunnar við hættumatið. Hún kveðst treysta því að nútímatækni og þekking tryggi það að nægur fyrirvari gefist til að vara fólk við ef líkur á eldgosi aukast. Því séu litlar líkur á manntjóni vegna mögulegs eldgoss. Tekið skal fram að ekkert bendir til þess að eldgos á þessu svæði sé í aðsigi.
Þessi vinna er hins vegar mikilvæg til að auka viðbúnað áður en og ef til eldgoss kemur. Þá er dýrmætt að vera vel undirbúinn og geta gripið til viðbragðs- og almannavarnaáætlana sem byggðar hafa verið á vísindalega unnu hættumati.
Bent er á að komi upp eldgos á Reykjanesi geti eitt helsta viðfangsefnið orðið að stýra umferð þeirra sem skoða vilja gosið og um leið beina þeim frá hættum, t.d. af mögulegri gasmengun.

Nýjustu aðferðum beitt

Ármann Höskuldson

Ármann Höskuldsson.

Ármann sagði að vinnan við hættumatið á Reykjanesi væri afleiðing af evrópskum samstarfsverkefnum í eldfjallafræði á borð við verkefnin Futurevolc, Vetools og nú Eurovolc. Evrópusambandið hefur styrkt öll þessi verkefni.
„Við beitum nýjustu aðferðum til að meta eldfjallavá á svæðum. Við þurfum að geta stutt niðurstöður okkar með tölulegum gildum. Vandinn við jarðfræði er að tímaskalinn er svo afskaplega langur miðað við mannsævina. Þegar tölfræði er beitt reynum við að hafa gagnasafnið eins stórt og hægt er. Í því sambandi hafa verið þróaðar nýjar aðferðir á Ítalíu, Spáni, í Frakklandi og nú hér á Íslandi sem snúa að eldfjöllum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Hér hafa orðið um 260 eldgos á sögulegum tíma. Þau eru ekki stórt úrtak og til að reyna að skilja íslenska eldfjallafræði þurfum við að fara minnst tíu þúsund ár til baka þegar fjöldi eldgosa er að nálgast þrjú þúsund til að gagnasafnið verði nógu traust,“ sagði Ármann. Mikið af hraunum sem komu upp í eldgosum fyrir löngu síðan eru komin langt undir hraun sem síðar runnu.
Eldfjallafræðin hefur þróast hratt á undanförnum aldarfjórðungi. Ármann segir að með því að skoða gömul öskulög sé hægt að leggja mat á hve lengi sprengigos sem enginn sá stóð lengi yfir. Einnig hve hátt gosmökkurinn fór. Þannig er hægt að fá mynd af því hvað gerðist í löngu liðnum eldgosum. Þessari þekkingu er síðan hægt að beita til að segja fyrir um hvernig eldgos í
framtíðinni kunna að haga sér.

Gögnin verða aðgengileg

Jarðfræði

Hraun á sögulegum tíma.

Ármann segir að fyrsta skrefið í heildaráhættumati sé að greina svæði þar sem líklegt þykir að eldsumbrot geti orðið. Það er mikilvægt t.d. vegna skipulagsmála. Hvar þykir óhætt að reisa mannvirki í sæmilegu skjóli frá mögulegum eldgosum. Gögnin úr hættumatinu verða aðgengileg fyrir t.d. sveitarfélög sem fara með skipulagsmál og almannavarnir.
Næsta skref er að meta hvað mögulega gerist verði eldgos. Hvort það verði sprengigos og þá hvernig askan frá því dreifist. Verði það hraungos, hvert hraunið muni þá líklega renna og hvert gas gæti borist. Hraunstraumur er flókið fyrirbæri og getur verið erfitt að segja til um hvert hann fer. Hann nefnilega breytir landslaginu jafnóðum og hann rennur. Þegar þessar greiningar liggja fyrir er hægt að leggja línur um skammtímalíkön fyrir öskudreifingu eða hraunrennsli.

Helga þarf hættusvæðin

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

Ármann segir að nú sé hægt að sjá eldgos fyrir með betri fyrirvara og meira öryggi en áður. Dæmi um það er gosið í Eyjafjallajökli sem sást að var í aðsigi um þremur vikum fyrir gosið 2010. Einnig þurfi að vera hægt að sjá fyrir hvað gerist næst og búa sig undir það. Hann segir að helga þurfi þau svæði þar sem eldgosavá er meiri en annars staðar svo þar séu ekki skipulögð mannvirki. Undantekningin eru jarðhitaver sem eðli málsins samkvæmt þurfa að vera ofan á svona svæðum.
Eldstöðvakerfin á Reykjanesi teygja sig út í sjó. Verði gos úti í sjó gæti það líkst Surtseyjargosinu með gosmekki upp í 10-12 km hæð. Verði gosið kröftugt mun askan dreifast víða með veðri og vindum. Eldgos á landi verður líklega hraungos.
Reykjanesskaginn er eldvirkt svæði og eldvirknin hefur komið í hrinum.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort ISOR.

Líklegt er að í framtíðinni eigi eftir að gjósa í sprungusveimnum sem tekur land við Reykjanestána og teygir sig austur eftir og inn á nesið. Sprungusveimurinn teygir sig austur að Grindavík. Í framtíðinni gæti komið upp hraungos sem stefndi í átt til Grindavíkur.
Ármann minnti á að menn hefðu öðlast dýrmæta reynslu af hraunkælingu í Heimaeyjargosinu 1973. Það sé því hægt að stjórna því hvert hraun rennur.
Einnig mun líklega gjósa í Krýsuvíkurkerfinu sem gengur þar á land og teygir sig norður undir Hafnarfjörð. Sama má segja um Bláfjallakerfið og Hengilskerfið ofan höfuðborgarsvæðisins. Ómögulegt er að segja hvenær það gerist. Síðasta gos í Henglinum var fyrir tæplega 2.000 árum, í Bláfjallakerfinu um landnám og á svipuðum tíma í Krýsuvíkurkerfinu. Ekki hefur gos komið upp á landi síðan á 13. öld að gaus í Reykjaneskerfinu.

Neðansjávareldgos algeng

Reykjaneshryggur

Um miðjan september 2013 lauk mánaðarlöngum rannsóknarleiðangri á Reykjaneshrygg með rannsóknarskipinu Marcus G. Langseth. Í leiðangrinum var syðsti hluti Reykjaneshryggjar kortlagður með fjölgeislamælitækni í fyrsta sinn.Reykjaneshryggur er lengsti samfelldi rekhryggur jarðar.
Það er því heimsviðburður að í lok leiðangurs er hryggurinn að fullu kortlagður.

Neðansjávareldgos hafa verið algeng við Reykjanes og á Reykjaneshrygg. Talið er að a.m.k. tvö eldgos hafi orðið hryggnum á síðustu öld, 1926 og líklega einnig 1973. Þau náðu ekki upp úr hafinu. Það gerði hins vegar eldgos á 19. öld sem m.a. stráði ösku yfir Keflavík. Samkvæmt sögulegum heimildum hafa orðið 1-2 eldgos á öld á Reykjaneshrygg, að sögn Ármanns. Minnt var á að ekki væri langt síðan ástand var sett á gult vegna skjálftahrina út af Reykjanesi.
Ákveðið hefur verið að kortleggja allt landgrunnið með fjölgeislamælingum. Vísindamennirnir sögðust bíða spenntir eftir niðurstöðum slíkra mælinga suður af Reykjanesi. Búið er að kortleggja botninn út af hælnum á Reykjanesi. Atlantshafshryggurinn sem liggur á landgrunninu er lítið þekktur í þessu tilliti og sama er að segja um hafsbotninn suður af Reykjanesi.
Mikilvægt er að vita hvað eldvirknin hefur náð langt út í sjó. Verði þar eldgos á sjávarbotni þá verður það sprengigos.

Áframhaldandi gerð hættumats
Hraun ofan höfuðborgarsvæðisins

Vinnan við hættumat á Reykjaneskerfinu er fyrsta skrefið í gerð slíks hættumats fyrir öll eldstöðvakerfi á landinu, að sögn. Sömu aðferðum verður beitt þar og á Reykjanesi. Þau sögðu rökrétt að gera næst sambærilegt hættumat fyrir hin eldstöðvakerfin á Reykjanesinu.”

Omar

Við mikilvæga útskrift í Háskóla Íslands; stofnun www.ferlir.is í framhaldi af námi í Menningarmiðlun; eitt verkefnanna, sem ekki fór í “glatkistuna” fyrir síðustu aldarmót.

Bent skal á að langflestar ritgerðir og verkefni, sem varið hefur verið drjúgum tíma og erfiðsmunum í fullri alvöru af hálfu nemenda í Háskólum landsins, hafa hingað til dagað uppi niður í skúffum leiðbeinendanna og nánast aldrei orðið til neins gangs, hvorki nemendunum né öðrum.

FBI

Útkrift úr skóla FBI árið 1995. Þar lærðist margt um mannlega hegðun, langt umfram afbrot og glæpi hversdagsins…

Myrkrar gamlar skúffur Hákólanna eru nú nánast að verða fullar af fjölmörgum aldargömlum mikilvægum verkefnum, sem hafa beðið þar þögul, en nauðsynlega þurfa að sjá dagsins ljós – samfélaginu til gagns…

Heimild:
-Morgunblaðið, 111. tbl. 12.05.2018, Guðni Einarsson, “Gerir hættumat vegna eldgosa”, bls. 18.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 14. janúar 2014.
Seinni tíma eldgos á Reykjanesskaga jafa jafnan verið lítil og varið í skamman tíma.