Færslur

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárbotnum áleiðis að Valabóli.

Valahnúkar

Gengið á Valhnúka.

Tröllin á austanverðum Valahnúkum teygðu sig upp í loftið svona til að gefa til kynna að ekki mætti ganga framhjá þeim í þetta skiptið. Þegar komið var á milli Valahnúkanna að vestanverðu mátti sjá hrafnslaup austan í vestanverðum hnúkunum. Laupurinn er á fallegum stað og aðgengilegum til skoðunar. Horft var yfir Valabólasvæðið og yfir að Búrfelli áður en gengið var uppá austanverða hnúkana, til móts við tröllin. Þau eru þarna ýmist þrjú eða fjögur, eftir hvernig á þau er litið. Um er að ræða berggang í gegnum hnúkana og mynda tröllinn efsta hluta þeirra, þ.e. þann er vindar, veður og regn hefur ekki tekist að vinna á, enn a.m.k.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Þegar komið var niður af hnúkunum að suðaustanverðu mátti sjá þar hluta misgengisins, sem liggur í gegnum sunnanverð Helgafellið. Haldið var suður fyrir fjallið og stefnan tekin á hraunsvæði Tvíbollahrauns þar sem fyrir eru nokkurs konar Minni-Dimmuborgir, hraunsúlur og þak yfir. Margir skútar og kytrur standa á súlum í hrauninu. Tveir hellar eru þarna, annar sæmilegur með fallegum hraunsúlum inni í, en auk þess fannst op á öðrum. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi komið þangað inn.
Eftir að hafa fjarlægt nokkra steina frá opinu sást hvar göng lágu niður á við og inn undir hraunið. Þar sem ekki var ljós meðferðist að þessu sinni bíða þessi göng nánari skoðunnar síðar. Gæti orðið áhugavert að kíkja þar inn. Opið er í jarðri svæðisins.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Þessar fallegu hraunmyndanir virðast hafa orðið til er hraunið rann þarna niður eftir og í vatns, sem þá hefur verið þarna aflokað sunnan Helgafells. Sömu myndanir má sjá í hrauninu skammt norðaustar, en bara í minna mæli. Þá eru þarna nokkrir gervigígar, sem einmitt hafa myndast við sömu aðstæður. Þetta er mjög fallegt hraunsvæði, sem ástæða er til að ganga varfærnislega um því mosinn þarna þolir varla mikinn umgang. Hann er órjúfanlegur hluti af heildarmynd svæðisins.

Burnirót

Burnirót.

Nokkrar blómtegundir eru að reyna að festa rætur nálægt opunum, s.s. burnirót, steinbrjótur, blágresi og fleiri tegundir. Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru t.d. í Katlahrauni við Selatanga og Hraunsnesi austan Ísólfsskála. Þar hefur hraunið runnið í sjó fram og þá myndast hraunstöplar og holrúm á milli uns þakið féll niður og lægðir og hraunbollar mynduðust.
Á svæðinu eru nokkur hraun og er þetta hluti af eldra helluhrauni, því sama og liggur að Helgafelli. Gæti verið Tvíbollahraun, sem fyrr er nefnt eða hluti af Hellnahrauninu. Skammt ofan við svæðið er úfið aðpalhraun, Húsfellsbruni.

Helgafell

Helgafell – steinbogi.

Gengið var vestur með Helgafelli, hlustað á smyril smella í hlíðum þess, sjá steinbogann efst í fjallinu og síðan gegnið áleiðis yfir Riddarann. Þá var þar fyrir fallegur gráleitur spörfugl á stærð við skógarþröst með gula bringu. Varðaði hann nálæga fugla við af ákafa. Ágætt útsýni er af Riddaranum yfir að Gvendarselsgígum undir Gvendarselshæðum.
Gengið var eftir sléttu helluhrauninu neðan Helgafells að austustu gígunum í gígaröðinni og þeir skoðaðir.
Fallegt veður – stilla og hlýindi. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Litluborgir

Gengið var frá Kaldárseli upp með Kaldárhnjúkum vestari og inn með gígaröðinni sunnan Gvendarselshæða og stefnan síðan tekin á Skúlatún, gróðurvin í hrauninu vestan Dauðadala. Engin sýnileg ummerki eru eftir minjar á Skúlatúni. Þaðan var gengið til baka að Gullkistugjá og gjánni fylgt til austurs að suðurhorni Helgafells.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Komið var við í “Minni Dimmuborgum” (stundum nefnt Hraungerði eða Litluborgir) í hrauninu sunnan vegarins og gengið þaðan í vesturenda Neðri-Strandartorfa. Borgirnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og erfitt að finna þær. Hraunið virðist hafa storknað þarna í vatni eða vatnskenndum jarðvegi með þeim áhrifum að hellar og hraunsúlur hafa myndast hingað og þangað. Hægt er að þræða hellana, sem eru opnir og með mjög fallegum hraunmyndunum. Mosinn þarna er mjög viðkvæmur fyrir átroðningi, en hingað til hefur svæðið fengið að vera að mestu í friði fyrir forvitningum og því fengið að vera ósnortið. Hins vegar munaði litlu að línuvegurinn væri lagður yfir svæðið á sínum tíma, en góðum mönnum tókst að afstýra því í tíma, þökk sé þeim Magnúsi og Ingvari.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Svipuð jarðfræðifyrirbæri eru í Dimmuborgum í Mývatnssveit, Katlahrauni við Selatanga og víðar.
Gengið var upp klapparhæðina og síðan austur yfir að Efri-Strandartorfum. Leitað var fjárhelli í Kaplatór þar norður af, en hann fannst ekki. Eftir að hafa gengið yfir hraunið í norður var komið við í Mygludölum og síðan gengið áfram niður að Valabóli þar sem komið var við í Músarhelli.
Veður var frábært, sól og hiti. Haldið var yfir skarðið á Valahnjúkum og síðan veginn niður að Kaldárseli.
Gangan tók um 2 og ½ klst.
Frábært veður.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Hverasvæði

Farið var í ferð um Reykjanesið frá Njarðvíkum til Grindavíkur undir leiðsögn Þorvaldar Arnar Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Ferðin var liður í námi leiðsögumannsefna um Reykjanesið.

Keflavík

Grófin – Skessuhellir.

Byrjað var í Grófinni í Keflavík. Undir berginu að norðanverðu útskýrði Ægir bergið og myndun þess. Það er að mestu blágrýti og grágrýti. Þétt setlög liggja ofan á berginu. Þarna er myndarlegur fyrrum sjávarskúti til skjóls. Þorvaldur útskýrði og kynnti m.a. fjörukál, þúfusteinbrjót og geldingarhnapp til sögunnar. Sú litadýrð virðist meiri en ella á annars gróðursnauðum sæbörðum bergveggjum Reykjanessins en víðast hvar annars staðar á landinu.
Haldið var yfir í Helguvík. Þar má sjá í útsprengdum hömrum þykk hraun- og berglögin og sumsstaðar rauðleitan bruna á milli þeirra, eingum að norðanverðu.
Ægir útskýrði þunn jarðlögin undir jarðveginum á svæðinu, t.d. í kringum Rósarselsvötn. Þau eru lek, en hafa þéttst með tímanum þannig að vatnið helst þar á yfirborðinu, a.m.k. á vatnasvæðinu.

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Á Pattersonsvæðinu var leitað að “lífstöðugrjóti”. Í því eru skeljar er gos undir jökli fyrir u.þ.b. 2500 árum hafði tekið með sér af sjávarbotni og má finna þær í hörðum setlögunum, sem þarna eru. Nokkur falleg sýni fundust.
Þorvaldur benti á að víða væri víðir að koma upp á skaganum, en það bendir til þess að hann hafi verið þar allvíða áður en gróðureyðingin varð.
Í Höfnum var farið niður á gamla hafnargarðinn og fuglalífið skoðað. Mátti m.a. berja augum fargestina tildru og rauðbristing, kríu, skarf, æðarfugl, auk fagurlitaða gula fléttu (fuglaglæðu) á steinum, að ekki sé talað um þang og þara.
Reykjanesið sjálft utan Hafna er sandorpið dyngjuhraun. Hraunreipi, sem einhvern tímann hefur einkennt yfirborðið er nú afsorfið. Annars gefur gróðurleysið svæðinu hið fallegasta yfirbragð.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Stóra-Sandvíkin er melgresisparadís. Melgresið hefur bundið sandinn og myndað háa skjólgóða sandhóla næst sjónum og ofan hans. Þarna munu hafa verið upptök þess sands, sem kom af sjó og fyrrum fauk um Hafnaheiðina og lagðist síðan yfir Hafnir. Það var því góð hugmynd að byrja á því að hefta sandfokið í “uppsprettunni” að mati Þorvaldar. Í Sandvíkurfjörunni mátti m.a. sjá hornsvamp, fjöruarfa, blálilju, klóþang (með einni bólu), bóluþang (með tveimur samhliða bólum og svolítið þynnra), söl og þangskegg, auk skelja og kuðunga. “Dýnamatiskt umhverfi” að mati Þorvaldar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Í Stömpum var gengið upp í einn þeirra. Skoðað var hvaða gróðurtegundir gígurinn hafði að bjóða upp á. Reyndust þar vera um 20 talsins, svona fljótt á litið. Í jaðri gígsins er lítið op og má finna uppstreymið út úr því. Innan við opið er fallegur dropasteinn. Með skóflu væri eflaust hægt, þó ekki væri annað, að kíkja innfyrir og sjá hvar þar kann að leynast. Stamparnir eru taldir hafa myndast um 1211 sem uppkoma á hrauni, sem síðan rann frá gígunum eftir hrauntröðum og loks um “víðan völl”. (Norðan undir Stömpum er skráðar heimildir um sel, sem á eftir að staðsetja, en það getur reynst erfitt sökum sandfoksins. Selsins er getið í fornleifaskráningu svæðisins). Stamparanir eru gjall- og klepragígar og því háir, brattir og lausir í sér, sem er einkennandi fyrir slíka gíga. Eldra-Stampahraunið er um 1500 ára gamalt, en Yngra-Stampahraunið er talið vera frá 1211.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Haldið var framhjá Forsetahól á leið út að Reykjanesvita. Ægir sagði frá tilvist nafnsins (til í tveimur útgáfum), sagði frá myndun Bæjarfells og Vatnsfells (vatnið, sem fellið dregur nafn sitt af er hægra megin við veginn áður en beygt er áleiðis að fellunum), en þau munu vera úr bólstrabergi eins og Forsetahóll (Litlafell).
Niður við sjávarkambinn norðan Valahnjúka útskýrði Ægir bergmyndanirnar. Undir kambinum mátti sjá lögin “ljóslifandi”. Undir er sandlag. Efsta lag þess hefur hitnað er nýtt hraun lagðist yfir og soðnað þannig að það varð hart. Ofan á hraunlaginu er síðan nýrra hraunlag.

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Þessa skiptingu mátti ljóslega sjá í Valahnjúkum og Börnunum beint framundan kambinum. Neðst (þ.e. það sem sjáanlegt er) er hart setlag, þá grágrýti og loks sundurlausari hraunlög, sem sjórinn á tiltöllega auðvelt með að mala niður. Karlinn er utar, harður eins og steinn, en Kerlingin er horfin í hafið. Valhnúkur er úr móbergi, en allráðandi er brotaberg, bólstraverg og grágrýtisinnskot.
Fyrsti viti landsins var byggður á honum árið 1878, en sjórinn er nú búinn að brjóta hnúkinn þar sem vitastæðið var. Undir kambinum að austanverðu má sjá fallega hlaðna aðdráttargötuna.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Við Gunnuhver voru jarðhitaeinkennin útskýrð. Tíminn var einnig notaður til að skoða grunninn undan húsi Höyers, sem þar bjó um tíma, tóftir útihúsa hans og garðhleðslur. Við Gunnuhver vex m.a. Njaðurtunga.
Þegar haldið var frá Gunnuhver mátti sjá Sýrfell á vinstri hönd. Vestan þess er fallegur hraungígur á öxl. Nefnist hann Hreiður. Yngra Sýrfellshraunið (1500 ára gamalt) er talið hafa komið úr gígnum. Löng hrauntröð er út frá því til suðurs, vnstra megin þjóðvegarins. Skálafell og Háleyjabunga eru á hægri hönd. Í hinu fyrrnefnda er gígur og gosrás til hliðar við hann (Skálabarmshellir) og í hinu síðarnefnda er fallegur og stór sprengigígur.

Reykjanesviti

Gata að grjótnámunni við Reykjanesvita.

Á leiðinni til Grindavíkur er ekið yfir Skálafellshraunið á “smábleðli”. Þá tekur Klofningshraunið við, en það mun hafa komið úr Eldvörpum (Eldvarparhraun – H15). Það er helluhraun, tiltölulega slétt, en margbrotið.
Brimketillinn er þarna á leiðinni, á sjávarbakkanum, öðru nafni Oddnýjarlaug. Um er að ræða fallegt náttúrfyrirbæri.
Sandgellshæðin er um 13000-14000 ára. Ú þeirri dyngju er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum.
Staðnæmst var við Grænubergsgjá og lýsti Ægir tilkomu hennar (vesturausturstefnan) á sprungusvæðinu. Í gjánni er ferskvatn og hefur hann séð ála í henni, sem hann taldi hafa verið “handfærða” þangað. Álar “stofnuðu” ekki heimili á Íslandi, heldur langt suður í höfum.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er talinn hafa myndast seint á síðasta ísaldarskeiði, en hann er sennilega eldri að stofni til, eða frá næst síðasta ísaldarskeiði. Í honum eru tvö misgengi eða gjár og hefur toppur hans sigið á milli þeirra. Sprungurnar liggja til norðurs eða þvert á brotabeltið (rekabeltið). Fjallið er hlðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Utan á fajallinu er kápa úr jökulbergi.
Norðan Lágafells (vestan Þorbjörns) er Illahraun og Illahraunsgíga. Talið er að hraunið hafi runnið á tímabilinu frá 1211 til 1226. Hraunið hefur runnið úr a.m.k. 5 gígum. Nyrsti gígurinn er sýnum stærstur.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Bent var á “undirlendi” Svartsengisfjalls sem ágætt dæmi um vallendismyndun. Vatn og lækir bera jarðveg úr hlíðum fjallsins niður á láglendið þar sem það myndar flatir er gróa síðan upp, sbr. einnig Höskuldarvelli, Sóleyjarkrika, Selsvelli og Baðsvelli.

Ekið var um Sundhnúkahraun og um Arnarseturshraun. Hið síðarnefnda er hellaríkt. Þar hafa fundist allnokkrir hellar, s.s. Dollan, Hnappurinn (Geirdalur) og Kubbur) og fleiri eiga eflaust eftir að finnast. Hellar myndast yfirleitt í þunnfljótandi hraunum.

Hnappur

Í Hnappnum.

Arnarseturshraun er talið vera frá 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 metra langri gígröð um 500 m austan við Grindavíkurveginn.
Þegar komið er að sigdalnum við Seltjörn eftir að Arnarseturshrauni sleppir er farið yfir tvö hraunlög; fyrst smábleðil af Sandfellshæðarhrauni og síðan grágrýtissvæði frá Grímsholti. Misgengisstapar eru beggja vegna; á aðra hönd bjallarnir (Háibjalli, Kálfgarðsbjalli o.fl.) og á hina misgengin í heiðinni (Nýjaselsbjalli, Huldugjá, Aragjá o.fl.).
Þegar nálgast tók Njarðvík lýsti Þorvaldur uppgræðslutilraunum norðan Reykjanesbrautar og einkennum mólendissvæðisins þar. Lauk lýsingum þeirra svo með vangaveltum um hið vanþróaða umræðustig um vægi náttúruverndar á svæðinu.
Frábært veður.

Reykjanes

Sjávarhellir á Reykjanesi.

Litluborgir

Hér á eftir eru nokkur atriði varðandi jarðmyndanir, hraun og jarðsyrpur á Reykjanesi.

-Jarðmyndanir:

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræði

Eldstöðvarkerfin á Reykjanesi eru fimm talsins og liggja frá norðaustri til suðvesturs. Á þeim hafa myndast gossprungur og gos hraun komið upp á nútíma (frá því fyrir 12-13 þús. árum). Áður var til grágrýtismyndunin úr fornum dyngjum, sem Rosmhvalanesið, Njarðvík, Stapinn, Löngubrekkur og Fagradalsfjall hvíla á.

-Jarðsyrpur:
Rosmhvalanesið er dæmi um fornar dyngjur á Reykjanesinu (eldri en 120 þús ára). Jökullinn hefur hefur sorfið klappir og mótað landið. Hann hopaði fyrir 12-13 þús. árum á Reykjanesi. Sjá má merki þess einnig á Lönguhlíðum, á Krýsurvíkurheiði í Fagradalsfjalli og ofan við Húsatóftir.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Helstu fjöll og fjallgarðar verða til á síðasta jökulskeiði, áður en jökullinn hopaði, s.s. Austurháls (Sveifluháls), Vesturháls (Núpshlíðarháls), Keilir, Trölladyngja, hluti Fagradalsfjalls, Þorbjörn, Lágafell, Þórðarfell, Stapafell og Súlur.
Nútímahraun renna eftir að ís leysti. Verða þá sprungugos (apal- og helluhraun) þar sem má þekkja eldri og grónari hraunin, s.s. Katlahraun, Skógfelllahraun, Sundhnúkahraun, Hvassahraun, Helluhraunið eldra, Dyngnahraun, Stampahraunið eldra, Eldvarpahraunin eldri o.fl.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum er runnu eftir að jökul leysti (12-13 þúsund ára).
Nokkrar litlar dyngjur hafa gosið eftir síðasta kuldaskeið, s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðagígar, Lágafell og Hraunsfell-Vatnsfell (pikrít).
Þrjár til fjórar stórar dyngjur hafa einnig gosið á nútíma, s.s. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja. Þá má nefna heiðina há og Strandarheiði. Mikil gos er skilað hafa miklu hraunmagni. Þessi hraun, auk sprunguhraunanna, hafa fyllt duglega inn á milli móbergssfjallanna og myndað skagann smám saman.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort.

Sprunguhraun héldu áfram að renna á sögulegum tíma (um og í kringum 1000 (Kristnitökuhraun), 1151 (Ögmundarhraun), 1188 (Afstapahraun) og 1226 (Stampahraun yngra). Þetta voru aðallega apalhraun, en þó einnig helluhraun (Arnarseturshraun).
Gjár og sprungur (NA-SV) einkenna Reykjanesskaga. Misgengi má sjá víða, s.s. við Snorrastaðatjarnir. Einnig þversprungur og misgengi (NS), s.s. í Þorbirni.
Víða má sjá einstakar og fallegar hraunmyndanir, s.s. gjall- og klepragíga, dyngjur og móbergs- og bólstramyndanir.

Jarðfræði, jarðasaga, jarðlagagerð og nokkur örnefni:

Jarðfræði

Jarðfræðikort.

Reykjanes-Langjökulssvæðið varð virkt fyrir um 7 milljónum ára þegar suðurhluti rekhryggjarins er lá um Snæfellsnesið dó út. Eldvirknin byrjaði nyrst en færði sig smám saman til suðurs og hlóð upp skagann.
Yfirborðbergið er grágrýti (dyngjuhraun), móberg og bólstraberg (Stapafell, Keilir) og nútímahraun, bæði frá því er ísa leysti fyrir 12-14 þús. árum (dyngjuhraun og sprunguhraun) og hraun frá sögulegum tíma. Forsögulegu hraunin eru runninn á nútíma, áður en landnáms hefst, en sögulegu hraunin eftir landnám. Stóru dyngjurnar eru Sandfellshæðin, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja (og jafnvel Strandarhæð), en auk þeirra eru nokkrar minni og eldri (pikrít-dyngjur), s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðargígar, Hraunsfells-Vatnsfell og Lágafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Frá ísaldarlokum hafa komið upp um 42 km3 af hraunum að flatarmáli um 1100 km2 frá yfir 200 eldstöðvum í 4 (5 eða 6) eldstöðvakerfum. Megineldstöð er aðeins að finna í Henglinum.
Jarðskjálftarenna liggur eftir miðjum skaganum og markar líklega mót plantnanna. Þar sem hún sker eldstöðvakerfin eru háhitasvæðin.
Síðasta kuldaskeið (ísöld) hófst fyrir um 120.000 árum þegar um 20.000 ára hlýskeiði lauk. Móbergsstapar gefa þykkt jökulsins til kynna, þ.e.a.s. hæð hraunhettu þeirra yfir umhverfið.
Grindavíkurfjöllin hafa þau sérkenni að berg þeirra hefur öfuga segulstefnu miðað við þá sem er í dag. Aldur þeirra er um 40.000 ár (sjá Siglubergsháls hér á eftir).

Hraunakort

Útbreiðsla hrauna frá 8. og 9. öld á Reykjanesskaga. Einnig eru sýnd hraun frá sögulegum
tíma (heimild: Kristján Sæmundsson o. fl. 2010).

Gosbeltin, sem marka skilin á milli skorpuflekanna eru 24-50 km breið. Eldvirknin innan þeirra er ekki jafn dreifð heldur raðast gosstöðvar og sprungur á nokkrar vel afmarkaðar reinar með mestri virkni um miðbikið. Eldstöðvakerfi skagans hliðrast til austurs. Stefna þeirra er NA-SV, en gosbeltið stefnir lítið eitt norðan við austur.
Margt bendir til að eldgos á Reykjanesskaga verði í hrinum eða lotum á um það vil 1000 ára fresti. Gos á sögulegum tíma urðu t.d. árið 1000 (Hellnahraun), 1151 (Ögmundarhraun, Astapahraun), 1188 (Mávahlíðarhraun), 1211 (Yngra Stampahraun) og 1226 (gígar utan við Reykjanesið).

-Einstök fjöll, fjallshryggir, gígar og hraun:

Valahnúkur

Valahnúkur.

Grágrýtismyndunin á Rosmhvalanesi og Stapanum svo og upp af Krýsuvíkurbjargi er 120-220 þúsund ára.
Valahnjúkur er úr móbergi, en alláberandi er brotaberg, bólstraberg og grágrýtisinnskot.
Bæjarfell/Vatnsfell eru úr bólstrabergi eins og Litlafell. Mynduð á svipuðum tíma og Valahnúkur.
Sýrfell er ú móbergstúffi og móbergsbrotabergi.
Miðaldarlagið (aska frá 1126) er leiðarlag á Reykjanesskaga upp í Hvalfjörð, Þingvallasveit og Ölfus. Kom líklega úr tveimur gígum, 2-3 km SV af Reykjanesi, sem náða hafa upp úr sjó og gosið surtseysku gosi. Nú eru þar 40-60 m háir hólar á um 20 m dýpi á sjávarhrygg.

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Eldra Stampahraunið er rúmlega 1500 ára. Gígaröðin er um 5 km að lengd og samanstendur af nokkrum allstórum gjallgígum og ótalsmáum kleprahrúgöldum. Einn gíganna ber þess glögg merki að hafa gosið í fjöruborði og þá hlaðist upp öskukeila en gosið breyst í hraungos líkt og með með mörg sprunguhraunanna á Reykjanesi.
Yngra Stampahraunið er frá 1211 og fyrsta gosið í Reykjaneseldum. Gígaröðin er um 4 km að lengd og endar í tveimur klepra- og gjallgígum, sem rísa um 20 m upp úr hrauninu. Gígar þessir nefnast Stampar og tekur hraunið nafn af þeim.
Haugshraun er kennt við gíginn Haug, sem stendur á vesturbarmi sigdals, sem nefnist Haugsvörðugjá. Prestastígurinn liggur m.a. um dalverpið.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Skálafell og Háleyjabunga eru gamlar dyngjur (pikrít), eð aum 14.000 ára. Háleyjabungan er eldri en Skálafellið. Í toppi hennar er hringlaga, skjólgóður og snotur gígur.
Sandfellshæðin er dyngja. Úr henni er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum. Yngri hraunin hafa runnið yfir stóra hluta hennar. Gígurinn er um 450 m að þvermáli og rúmlega 20 m djúpur.
Klofningshraun og Berghraun eru frá um 1211. Komin að mestu leyti úr Rauðhól, sem er nyrst í hrauninu.

Eldvarpahraun

Eldvarpahraun – Blettahraun.

Eldvarpahraun er hluti Reykjaneseldanna. Aðal gígaröðin er um 8,5 km að lengd, en þó ekki samfelld. Í henni eru allstórir gjall- og klepragígir, oftast nokkrir saman, sem tengjast næstu fylkingu með röð smágíga. Sundvörðuhraun nefnist austasti hluti þess, eftir hraunstrýtu sem notuð var sem siglingamerki.

Eldvörp

Eldvarpahraun.

Lambagjárhraun er smá hraunbleðlar í Eldvarpahrauni. Í því eru allmörg misgengi.
Eldvarpahraun eldra er um 2200 ára. Upptökin eru ókunn, en þó líklega í grennd við Eldvörpin.
Sundhnúkahraun er um 2400 ára. Norðaustur af Hagafelli er áberandi hnúkur, sem heitir Sundhnúkur (innsiglingamerki) og þaðan er nafnið komið af reyndar röð lítilla gíga. Skógfellavegurinn liggur meðfram hluta eldvarpanna. Hraunin eru dreifð víða um Grindavíkursvæðið og m.a. byggt upp Þórkötlustaðanesið og myndað þannig brimbrjót fyrir Grindavík.

Skipsstígur

Gengið um Rauðamel. Varða við Skipsstíg.

Hrólfsvíkurhraun er pikrít-hraun og líklega frá Vatnsheiði.
Húsafell og Fiskidalsfjall eru móbergsstapar, sem líklegast eru frá síðari hluta síðasta jökulsskeiðs. Undir þeim að sunnan eru miklar öskjudyngjur, sem gosið hafa á grunnsævi.
Rauðimelur er setmyndun, úr sandi og möl, sem teygir sig 2.5 km norðaustur frá Stapafelli. Setmyndun þessi er víða vel lagskipt og er 6-7 m þykk. Myndunin hvílir á jökulbergslagi,sem liggur ofan á grágrýti en um miðbik melsins kemur um 2 m þykkt jökulbergslag. Myndunin er að öllum líkindum sjávargrandi sem myndast hefur við rof á Stapafelli og Súlum. Grandinn er eldri en 40.000 ára og eftir því hvernig myndun jökulbergsins er túlkuð, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði. Stapafellið er mun eldri en grandinn, senniega frá næstsíðasta eða snemma á síðasta jökulskeiði.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Stapafellið og Súlur eru að mestu byggt upp úr bólstrabergi og öskulögum, en berglag, stuðlað og án bólstramyndana, finnst líka. Lag þetta má túlka sem innskot eða jafnvel hraunlag.
Þórðarfell er úr bólstrabergi, en gæti verið yngra en Stapafellið.
Lágafell er hæðarbunga úr móbergi. Gígurinn bendir til þess að jökull hafi gengið yfir það.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er hlaðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Í toppi fjallsins er mikill sigdalur og er vestari stallurinn (Þjófagjá) tugir metra á hæð. Utan á fjallinu er kápa úr jökulbergi og bendir hún ásamt misgengjunum til nokkurs aldurs, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði.
Selháls, Hagafell og Svartengisfjall eru aðallega úr bólstrabergi, sem sést vel í Gálgaklettum. Þar er misgengisstallur sem klýfur fellið.
Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi sf svipaðri gerð og Sandfell.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Lágafell er eldra en Sandfellshæð. Það er lítil og nett pikrít dyngja. Klifgjá, 6-8 m hátt misgengi, sem gengur upp í Þórðarfell, sker dyngjuna um þvert og þar sjást hraunlög hennar ágætlega og hversu ólívínríkt bergið er.
Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.
Illahraun rann um 1226. Það hefur runnið úr fimm gígum á um 200 m gígaröð. Nyrsti gígurinn er stærstur og í rauninni tvöfaldur. Fyrst hefur myndast allstór gígur, en þegar virknin minnkaði hefur myndast nýr gígur á vesturbarmi þess eldri.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Arnarseturshraun rann um 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 m langri gígaröð um 500 m austan við grindavíkurveginn. Nyrstu og syðstu gígarnir hafa aðallega gosið hrauni, en á milli þeirra hlóðust upp gjallgígar, sem risið hafa um 25 m yfir hraunið, en nú hafa þeir verið að mestu brottnumdir. Hraunið er helluhraun næst gígunum, en frauðkennt og blöðrótt og brotnar gjarnan undan fæti. Í hrauninu er nokkrir allstóri hellar, s.s. Kubbur, Hnappur og Hestshellir.

Skála-Mælifell

Skála-Mælifell.

Dalhraun er allgamallt og hugsanlega úr gíg er stendur upp úr Sundhnúkahrauni.
Hrafnshlíð/Siglubergsháls er móbergsstapi, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti, sem komið er úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skála-Mælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Festarfjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Fagradalsfjall er dæmi um móbergsstapa á utanverðum skaganum. Neðst er bólstraberg, síðan túff og brotaberg og efst er myndarleg hraunhetta, sem komin er frá dyngjugíg nyrst í fjallinu.

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga er mynduð úr bólstrum og bólstrabrotum svo og hraunklessum og upp í þessar myndanir liggur gangur. Neðar við þær tekur við jökulriðið grágrýtislag, sem einnig nær undur Langahrygg og Fagradalsfjall.
Skála-Mælifell er móbergsfjall með rauðu gjalllagi undir hraunhettu á toppi fellsins.
Núpshlíðarháls er úr móbergi sem hefur myndast undir jökli í mörgum gosum, sem ekki hafa náð upp úr jöklinum. Meginþorri hans er frá síaðsta jökulskeiði, en í grunni hans geta verið eldri myndanir.
Latur, Latstögl og Latfjall eru röð móbergshnúka, aðallega móbergsbrotaberg.

Bólstri

Stærsti bólstri í heimi í Stapafelli.

Méltunnuklif er misgengisstallur rétt austan við Skála-Mælifell. Í klettanefi yst á því lesa upphleðslusögu svæðisins. Neðst er jökulrákað grágrýti, en ofan á það kemur þunnt jökulbergslag, því næst allþykk grágrýtislög (efra lagið er rispað af jökli) og ofan á þau nokkuð þykkt jökulbergslag sem hulið er móbergi.
Borgarhraun gæti hafa komið upp í gígum í sunnanverðu Fagradalsfjalli.
Höfðahraun er m.a. komið úr Höfðagígum og Moshólum, sem vegurinn liggur um. Hefur það runnið í sjó fram og myndað nokkra gervigíga og einnig er forn malarkambur í því rétt austan við Ísólfsskála.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Misgengið Méltunnuklif nær út í hraunið.
Það nær að Ögmundarhrauni. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið út í grunna vík. Í stað hefðbundinna gervigíga úr gjalli mynduðust niðurföll, hraunborgir, hraunrásir, hellar, sappar (hraunsveppir) og holar súlur þegar heitt hraunið snöggkólnaði og breytti vatninu í háþrýsta gufu. Litluborgir, austan Helgafells, og jafnvel Dimmuborgir eru taldar hafa myndast á svipaðan hátt.

Ögmundarhraun rann um 1151. Hraunið rann frá Krýsuvíkureldum (1151-1188). Það þekur botn Móhálsadals sunna Djúpavatns, allt til sjávar. Inni í hrauninu eru Húshólmi og Óbrennishólmi í eldra hrauni, báðir með fornum minjum í frá upphafi landsnáms.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.
Sveifluháls líkist Núpshlíðarhálsi, en er eldri og myndaður í fjölmörgum gosum, bæði á hlýskeiði- og kuldaskeiði. Upp úr honum ganga margir tindar, s.s. Hellutindar, sem er gosgangur. Sprengigígurinn Arnarvatn er upp á hálsinum þvert upp af Seltúninu, en þar er öflugt háhitasvæði.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Jarðfræðikort

Á heimasíðu Náttúrustofu Reykjaness er fjallað um jarðfræði og gróður á Reykjanesskaga. Þar segir m.a.: “Fyrir meira en 10.000 árum myndaðist Reykjanesskaginn út frá Lönguhlíðafjöllunum og Undirhlíðum, Öskjuhlíðin, Digranesið, Arnarnesið, Hálsarnir fyrir ofan Hafnarfjörð, Hvaleyrartanginn og Holtin, Vesturháls, Austurháls, Skógfellin, Þórðarfell, Þorbjarnarfell, Miðnesið og slík auðkenni. Síðan hlóðust hraungos allt í kring og fylltu inn á milli.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist, s.s. Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun og Svínahraun um 1000, Ögmundarhraun og Kapelluhraun 1151 og Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun um 1188. Svartahraun við Bláa lónið er frá 1226. Kapelluhraun er frá 1150. Afstapahraun er frá sögulegum tíma og Stampahraun og Arnarseturshraun eru frá 1226. Nýjasta er sennilega frá 14. öld, þ.e. hraun við Hlíðarvatn frá árinu 1340.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir (dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigígir t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla t.d. Hvirfill og Kistufell”.

Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Þó eru víða smávötn (Djúpavatn, Grænavatn, Seltjörn, Snorrastaðatjarnir, Hvaleyrarvatn og Urriðavatn) og tjarnir (Augun í Krýsuvík, Hraunsfells-Vatnsfells vatnstæðið, Fagradals-Vatnsfells vatnstæðið), bæði í lægðum og gígum. Vatnsstæðin og sum vötnin hafa þótt aðlaðandi selstæði, t.a.m. Hvaleyrarvatn, Seltjörn og Snorrastaðatjarnir sem og Kaldá við Kaldársel.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Selin eru yfirleitt í eldri hraunum en þeim er runnu á sögulegum tíma, enda gróður þar skemmra á veg kominn en í þeim eldri. Nýrri hraunin enn mosavaxin, en önnur víða grasivaxin og klædd lyngi, birki og víði; ákjósanleg til beitar.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Hvaleyrarvatn

Í ritgerð Daníels Páls Jónassonar; Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða”, hjá Háskóla íslands 2012 má m.a. lesa eftirfarandi um um jarðfræði Reykjanesskagans:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi vestanverður – jarðfræðikort.

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi (Jón Jónsson, 1983, 127).

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Reykjanes er það svæði þar sem Reykjaneshryggurinn nær yfirborði en fyrir suðvestan skagann er hryggurinn undir sjávarmáli (Ármann Höskuldsson, Hey., Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007). Jarðfræðileg lega skagans nær frá Reykjanestá í suðvestri og að þrígreiningu plötuskilanna fyrir sunnan Hengilinn (Kristján Sæmundsson, 2010a) en á því svæði mætast Reykjanesgosbeltið, Suðurlandsbrotabeltið og Vesturgosbeltið (Weir o.fl., 2001). Á skaganum er sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í eldstöðvakerfum sem liggja frá suðvestri til norðausturs (Kristján Sæmundsson, 2010a). Heildarlengd þessa rekbeltis á skaganum eru um 65 kílómetrar (Peate o.fl., 2009).

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – gosskeið.

Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára (Peate o.fl., 2009) en stór hluti yfirborðs Reykjaness þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum Brunhes (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Síðasta jökulskeið, Weichsel, er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið Brunhes, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum (Elsa G. Vilmundardóttir, 1997).

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi (Páll Imsland, 1998). Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos. Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi (e. Dry Rock Equivalent, DRE) (Þorvaldur Þórðarson & Ármann Höskuldsson, 2008). Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á
skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998).”

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Á vefsíðunni ferlir.is segir auk þess um aðstæður á svæðinu: “Þar sem hraun þekur mest af yfirborði á sunnanverðum Reykjanesskagans er lítið um jarðvatn er fjölbreytni gróðursins ekki mikil. Mikil úrkoma nægir ekki til að mynda þykkan jarðveg ofan á hrauninu vegna þess hve það er ungt.
Algengasta plantan er gamburmosi, síðan koma krækilyng og beitilyng. Nokkuð má sjá af birki í hraununum. Hér eru engin há og stór fjöll sem mynda skjól fyrir vindi svo að trén nái að vaxa vel. Því er gróðurinn mjög lágvaxinn á Reykjanesinu.

Reykjanesskagi 1944.

Reykjanesskagi 1844.

Stór samfelld grassvæði eru t.d. á Selsvöllum, Vigdísarvöllum, Krýsuvík, Baðsvöllum og víða með ströndinni. Birki og kjarr er víða í hraunum, sem mynda dágott skjól víða á Reykjanesinu. Þá er víða snjólétt í hraunum og snjó tekur fljótt upp vegna sólarhitans frá dökku grjótinu. Sum svæðin hafa látið mjög á sjá á seinni öldum vegna gróðureyðingar, s.s. Vatnsleysustrandarheiðin, Selvogsheiðin og Krýsuvík, og uppblásturs. Þá hefur orðið verulegt sandfok í Selvogi og á Hafnaheiði. Eitt seljanna, sem þar var tilgreint [frá Gálmatjörn (Kalmannstjörn)], undir Stömpum, er t.d. með öllu horfið. Sum selin á Vatnsleysustrandarheiði (undir þráinskyldi) sjást enn vel frá Reykjanesbrautinni þar sem þau kúra á gróðurtorfum og þráast enn við fyrir áburðinn frá selstímanum.”
Um gróður á Reykjanesskaganum segir jafnframt: “Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis. Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Vötn, ár og lækir eru víðast hvar, hvort sem litið er á norðanverðan Skagann; Hvalvatn, Meðalfellsvatn, Fossá, Laxá,  Bleikdaslá, Bugðu, Köldukvís, Leirvogsá o.s.frv., eða á honum sunnanverðum; Ölfusá, Elliðaár, Rauðará, Rauðavatn, Elliðavatn, Urriðavatn, Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Kaldá, Djúpavatn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Eystri-Lækur, vestri-Lækur, Seltjörn o.s.frv.
Seljabúkapurinn hefur ekki síst stuðlað að viðhaldi og útbreiðslu plantna sem og nýgróðurs. Þegar leitað er leifa fyrrum seljabúskapsins á Reykjanesskaganum má a.m.k. ganga út frá tvennu sem vísu; grasi í móa í skjóli við hól, hæð, misgengi eða gjá, fyrir austanáttinni (rigningaráttinni), og á, læk, vatni eða vatnsbóli. Báðir staðirnir bjóða því jafnan, auk minjanna, upp á fölskrúðuga flóru allt umhverfis.”

Heimildir:
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða; Daníel Páll Jónasson, Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóli Íslands 2012.
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum-2/
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum/

Reykjanes

Reykjanesskagi – nefnur.

Þorleifur Einarsson

Í Náttúrufræðingnum 1961 eru birt skrif Þorleifs Einarssonar um “Þætti úr jarðfræði Hellisheiðar”:

Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar

Þorvaldur Einarsson

Þorleifur Einarsson (1931-1999).

„Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.”
Vart mun sá maður til vera á Íslandi, að hann kannist ekki við þessa stuttu frásögn Kristnisögu af eldsuppkomu á Hellisheiði árið 1000 og orðræður Snorra goða og heiðinna manna á Alþingi það sumar. En nokkuð hefur það verið á reiki, við hvaða hraun ummæli þessi eiga.
Sumarið 1956 hóf ég athuganir á gossprungum á vestanverðri Hellisheiði og hraunum, sem þaðan eru komin. Rannsókn þessi varð þó víðtækari, tók reyndar tvö sumur í viðbót, 1957 og 1958, svo sem grein þessi ber með sér, og náði til jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins alls, en það takmarkast að norðan af Hengladölum, að vestan af Bláfjöllum, að sunnan af Fjallinu eina, Geitafelli og Krossfjöllum, að austan af Þorleifslæk og Varmá. Um athuganir þessar ritaði ég síðan prófritgerð (Diplom Geologe), sem birtist í vor (Þorleifur Einarsson 1960), og er grein þessi útdráttur úr henni.
Um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins hefur fátt verið ritað. Flestir jarðfræðingar hafa talið mosagráa hraunflákana og lág fellin lítið forvitnileg. Rækilegastar munu athuganir Þorvalds Thoroddsens (1908-11, 1913, 1925) og Trausta Einarssonar (1951) vera. Af öðrum, sem um jarðfræði þessa svæðis hafa fjallað, mætti nefna Guðmund G. Bárðarson, Guðmund Kjartansson (1943), Tékkann M. F. Kuthan og Norðmanninn T. F. W. Barth.

Jarðfræðilegur inngangur

Þorvaldur Einarsson

Þorvaldur Einarsson – rit um jarðfræði Hellisheiðar.

Jarðsaga Íslands nær aðeins yfir síðustu öld jarðsögunnar, nýöld.
Elzta berg hér á landi er að finna á Austfjörðum og Vesturlandi, blágrýti með millilögum úr harðnaðri gosösku, sandsteini og leirsteini með surtarbrandi. Jurtaleifar úr surtarbrandslögum í neðri hluta blágrýtismyndunarinnar benda til þess, að elztu lögin séu ártertier að aldri, þ. e. a. s. allt að 60—70 milljónum ára gömul. Mest ber þar á blaðförum og frjókornum lauftrjáa, sem vaxið hafa við milt loftslag. Er líða tekur á tertier-tímann, kólnar í veðri. Laufskógurinn víkur æ meir fyrir barrskógum. Á síðtertier hylur svo jökull hluta landsins fyrsta sinni, svo sem millilög úr jökulbergi í efri hluta blágrýtismyndunarinnar (gráa hæðin) í Esju, Fnjóskadal, Hornafirði og víðar bera vitni um, en mestur hluti hinnar kulvísu flóru mun hafa lifað þetta kuldakast af. Skeljalögin á Tjörnesi eru einnig síðtertier (pliósen) að aldri.
Á hinum eiginlega jökultíma, sem tók yfir síðustu milljón árin, eru kunnar hér á landi minjar þriggja ísalda og tveggja hlýviðrisskeiða eða hlýalda líkt og á norðanverðu meginlandi Evrópu.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson – Jarðfræði; saga bergs og lands.

Í Ölpunum hafa fundizt ummerki fimm ísalda og í Norður-Ameríku fjögurra. Lítið er kunnugt um það, hve langan tíma framrás og bráðnun ísaldarjöklanna tók, en þó skal hér reynt að gera nokkra grein fyrir bráðnunarsögu meginjökuls síðustu ísaldar suðvestanlands. Þegar jökullinn var hvað stærstur, mun hann hafa hulið allt land umhverfis Faxaflóa nema hæstu fjöll, svo sem Esju og Skarðsheiði.
Jökullinn mun hafa náð allt út undir brún landgrunnsins (Jökulrispur eru t.d. kunnar frá Garðskaga.). Jökulskjöldurinn tók að mesta kuldakasti síðustu ísaldar loknu að bráðna. Nokkrum árþúsundum eftir að hann var stærstur, skaut Suðurkjálkafjallgarðinum og Suðurnesjum öllum upp úr jökulhjarninu. Rétt um það leyti, er Suðurkjálkinn var orðinn íslaus, kólnaði nokkuð í veðri aftur, svo að jökullinn skreið fram að nýju. Ýttust þá upp jökulgarðar á Álftanesi, í mynni Hvalfjarðar, í Melasveit (Skorrholtsmelar) vestan Leirár og líklega víðar. Síðan framskrið þetta, sem nefna mætti Álftanesstigið, átti sér stað, mun vart vera skemmri tími liðinn en 20000 ár.
Enn breyttist loftslag til hins verra, og jökullinn gekk fram. Við þessa framrás mynduðust miklir jökulgarðar, sem rekja má um þvert Suðurlandsundirlendi frá Keldum á Rangárvöllum út í Biskupstungur. Framrás þessi hefur verið nefnd Búðastigið. (Guðmundur Kjartansson 1943). Við bráðnun jöklanna hækkaði mjög ört í höfunum, svo ört, að löndin, sem jökullinn hafði legið yfir og þrýstst höfðu niður undan jökulfarginu, náðu eigi að rísa nógu skjótt, og flæddi því sjór víða yfir láglendi, um leið og það varð jökullaust. Jökull þrýstir landi meir niður til dala en til nesja, svo sem sjá má af því, að hæstu sjávarminjar við Reykjavík eru í aðeins 43 m hæð, í Ölfusi í 55—60 m hæð og í Holtum, Hreppum og á Landi í 110 m hæð.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson skrifaði m.a. kafla í þjóðhátíðartútgáfu af Sögu Íslands.

Fyrir 11—12000 árum, á því hlýviðrisskeiði síðjökultímans, sem kennt er við staðinn Alleröd á Sjálandi, munu jöklar Íslands hafa verið orðnir minni en þeir eru í dag. En vegna loftslagsbreytingar til hins verra fyrir 11000 árum skriðu jöklar víða um heim enn fram.
Loftslag á Íslandi var tiltölulega hlýrra á síðustu ísöld og þó einkum undir lok hennar en um norðanvert meginland Evrópu. Helzta skýringin á því er sú, að landskipan Evrópu var öll önnur en í dag þar til fyrir 7000 árum. Þangað til voru Bretlandseyjar tengdar meginlandinu, en þá brauzt sjór gegnum Ermarsund og flæddi yfir lendur þær, þar sem nú er Norðursjór. Golfstraumurinn komst því ekki upp að ströndum Skandinavíu, og beindi Bretlandseyjaskaginn honum meir til norðvesturs en í dag. Það er augljóst mál, að breytingar þessar á stefnu Golfstraumsins hafa haft mikil áhrif á loftslag hér á norðurslóð.
Brot þetta úr jarðfræði Íslands er nokkru ítarlegra en ætlað var, en þar sem hér er fjallað um ýmislegt úr þessari sögu á annan veg en hingað til hefur verið gert, einkum jökultímann, taldi ég rétt, að svo væri.

Berg frá jökultíma

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti.

Elzta berg Hellisheiðarsvæðisins er að finna í lagskiptri grágrýtismyndun í neðri hluta Kambabrúnar og Núpafjalls, svo og í Hjallafjalli. Á grágrýtismyndun þessari, Kamba- eða Hjallagrágrýti, liggur í Kambabrún þunnt lag af jökulbergi. Á því liggur síðan allþykk móbergsmyndun, Núpafjallsmóberg. Myndun þessi er allóregluleg, lagskipt móberg, þursamóberg, bólstraberg.
Í Þurárhnúk og Kerlingarbergi er einnig ofan til lagskipt grágrýti. Innskot eru mörg og óregluleg, gangar, æðar, kubbaberg og stuðlasveipir. Móbergsmyndun þessa er líka að finna í Núpafjalli og í brún Efrafjalls (í Hesti og Kerlingabergi). Kambagrágrýtið er líklega runnið sem hraun á hinni eldri hlýöld. Jökulbergið og Núpafjallsmóbergið eru líklega mynduð á næstsíðustu ísöld, og er það líkt móbergi í Jórukleif að aldri, en það liggur undir Mosfellsheiðargrágrýti, sem runnið er frá Mosfellsheiði á síðustu hlýöld. Mosfellsheiði er dyngja með tveim gígrústum, Borgarhólum og ónefndum hæðum austur undir Þingvallavatni. Frá Borgarhólum er líka runnið yngsta grágrýtið í nágrenni Reykjavíkur (Reykjavíkurgrágrýti).

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti.

Móbergsfjöll Hengilsvæðisins hafa hlaðizt upp í geilum eða götum, sem bráðnað hafa í jökulinn yfir eldstöðvunum líkt og flest móbergsfjöll á landinu (Guðmundur Kjartansson 1943). Móbergsfjöll þau, sem nú verður getið, eru öll mynduð á síðustu ísöld. Bólstraberg er víða að finna í neðri hluta móbergsfjalla á Hellisheiðarsvæðinu, svo sem í Draugahlíðum, Lakahnúkum, milli Meitla, í Stóra-Skarðsmýrarfjalli og víðar. Hraun rann úr gígunum og barmafyllti geilina og rann jafnvel út á jökulinn. Fjöll, sem náð hafa þessu stigi, eru nokkur á Hellisheiði, t. d. Stóri-Meitill og Geitafell. Slík fjöll nefnast móbergsstapar. Miklu algengari eru þó fjöll, sem byggð eru upp úr lausum gosefnum, sem síðar hafa límzt saman, móbergshryggirnir, t.d. Stóra-Reykjafell og Skálafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Ummyndun lausra gosefna, ösku, í móberg sannar ekki, að móbergsfjöllin hafi hlaðizt upp í eða undir jökli, því að móberg er einnig þekkt sem millilög í tertieru blágrýtismynduninni, t.d. í Esju. Þess skal líka getið, að í fjöllum, hlöðnum upp úr lausum gosefnum á síðustu ísöld, er til gosaska, sem hefur ekki breytzt í móberg, t.d. í Litla- og Stóra-Sandfelli. Í nokkrum móbergsfjallanna mótar enn fyrir gígum, svo sem í Stóra-Meitli. í mörgum fjallanna eru gígtappar úr grágrýti, en þeir standast veðrun betur en móberg og skaga því víða upp úr.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti (jarðfræðikort Ísór).

Bezt dæmi um slíkan bergstand í móbergi er Lambafellshnúkur, en hann setur á fellið keilislögun, enda er Keilir á Reykjanesi eins upp byggður. Gráuhnúkar norðan Þrengsla eru líka bergstandar. Litla-Skarðsmýrarfjall og Orustuhóll eru úr mjög stórdílóttu grágrýti. Er það gangur, líklega gömul eldstöð. Dalkvosir í mörgum fellanna eru ekki gamlir gígar, heldur hafa jökulflikki orðið undir lausum gosefnum, þegar fellin hlóðust upp, og ekki bráðnað fyrr en að gosunum loknum. Þar sem ís var undir móbergi, myndaðist því dæld eða dalur, t. d. dalirnir í Stóra-Reykjafelli eða Innstidalur.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hlutinn (loftmynd).

Í Stóra-Reykjafelli vestanverðu er stór felling í lagskiptu móbergi. Slíkar fellingar mynduðust líklega, ef veggir ísgeilanna hafa haft mikinn fláa eða í þeim verið syllur. Ísveggurinn hefur síðan bráðnað, meðan gosefnin voru enn vatnsósa, og gosefnin fylgt honum. Lík felling, en minni, er einnig í Blákolli vestanverðum. Annað fyrirbæri, sem víða er að finna í móbergsfjöllum, er svokölluð flögun. Lagskipt móberg hefur kubbazt og klofnað án tillits til lagskiptingar undan þrýstingi jökulfargsins. Slík flögun í móbergi er t.d. í Stóra-Reykjafjalli við veginn upp í Hveradali.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hlutinn (loftmynd).

Auk móbergsfjalla eru til á Hengilsvæðinu grágrýtisflákar, sem myndaðir eru á einu af fyrstu bráðnunarskeiðum síðustu ísaldar. Er hér um grágrýtislög að ræða, sem komin eru úr Hengli og hylja suðausturhluta hans, Ástaðafjall og Hamarinn ofan Hveragerðis. Í Húsmúla norðan Kolviðarhóls er og grágrýti. Gæti þar verið sérstök eldstöð. Allt er grágrýti þetta jökulsorfið.
Umhverfis Skálafell er grágrýtisdyngja (Norður- og Suður-Hálsar), sem ég hef nefnt Skálafellsdyngju. Grágrýti þetta er komið úr gíg, Trölladal, vestan Skálafells, og hefur síðan runnið umhverfis fellið og víða fram af brún Efrafjalls og Hjallafjalls. Grá grýtið er jökulrispað austan Skálafells, en vestan þess má enn finna hraunreipi á hraunhólum. Sýnir þetta, að jökullinn hefur aðeins farið yfir austurhluta dyngjunnar. Það, að grágrýtið austan Skálafells skuli renna um gil og dali eldri fellanna líkt og hraun, runnin eftir jökultíma, og fylgja öllum línum landslagsins, bendir til ungs aldurs grágrýtisins. Þó er það eldra en hæsta sjávarstaða, því að í það hafa höggvizt brimþrep. Gosið í Skálafellsdyngju hefur líklega átt sér stað á bráðnunarskeiðinu, sem fór á undan framrás jökulsins að Álftanesröðinni, og hefur sá jökull urið grágrýtið austan Skálafells.
Í ritgerð minni (Þ.E. 1960) gat ég þess, að ljósir blettir í fjöllum á Hengilsvæðinu væru eingöngu myndaðir við hverasuðu. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að á síðastliðnu hausti rakst ég á lítil líparít-innskot vestan til í Hengli, rétt norðan Húsmúlans.
Jökulminjar frá síðustu ísöld eru heldur fátæklegar á svæðinu, aðrar en móbergsfellin. Jökulrispur á klöppum eru sjaldgæfar, en sýna þó, að jökullinn hefur skriðið suður heiðina til sjávar. Jökulurð sést óvíða, nema hvað Kolviðarhóll er botnurðarhóll, og annar slíkur er á Krossfjöllum. Á einstöku fjöllum er og stórgrýtt jökulurð og víða, einkum á móbergsfjöllum, jökulbergskápa.

Hæstu sjávarmörk í Ölfusi eru í Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða í 55 m hæð, en í Hveragerði í 60 m hæð. Síðan brimið klappaði þessi hæstu fjörumörk, munu líklega vera liðin um 14000 ár, sem áður segir. Af sjávarminjum ber mest á lábarinni möl og hnullungum. Brimþrep eru og víða greinileg, svo sem í Hjallafjalli og Skálafellsgrágrýti hjá Núpum; bærinn stendur í þrepinu. Einnig eru hlíðar Hamarsins ofan Hveragerðis gamalt sjávarbjarg, sem og Kambabrún og hlíð Núpafjalls. Brimsorfnir hellar eru í Vatnsskarði. Á Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða eru fallegir malarkampar, sem brimið hefur rótað upp. Sjór fjaraði, eða réttar sagt landið hækkaði síðan á 5000 árum, svo að hann var kominn þá a.m.k. 4 m niður fyrir núverandi sjávarmál, svo sem sjá má af myndun fjörumós í Seltjörn, en hann myndaðist ofan sjávarborðs. Á síðustu árþúsundum hefur land síðan lækkað nokkuð.

Hraun frá nútíma – Hellisheiðarhraunin eldri

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Á vestanverðri Hellisheiði eru eldstöðvar, sem gosið hafa a. m. k. fjórum sinnum á nútíma, en nútíminn nær að tímatali jarðfræðinga yfir síðustu 10000 árin, eins og áður gat. Gígar beggja hinna eldri hrauna eru huldir yngri hraunum. Mjög erfitt er að greina eldri hraunin hvort frá öðru. Verða eldri hraunin því rædd í einu lagi. Auðvelt er að greina yngri hraunin frá hinum eldri í landslagi. Einnig ber meir á feldspat-dílum í blágrýti eldri hraunanna en hinna yngri, minnst í yngsta hrauninu, Kristnitökuhrauni.
Eldri Hellisheiðarhraunin hylja syðri hluta Hellisheiðar, og liggur þjóðvegurinn lengstum á þeim. Á norðanverðri heiðinni eru þau horfin undir yngri hraun. Hraunflóðin hafa runnið austur heiðina og fram af Kambabrún niður í Ölfus, allt austur að Varmá, beggja vegna Hamarsins. Tota úr elzta hrauninu nær þó austur yfir ána við þjóðveginn. Varmárbrúin stendur á þessu hrauni, svo og bærinn að Völlum. Bæirnir Saurbær, Þúfa, Kröggólfsstaðir og Vötn utan Varmár standa í jaðri elzta hraunsins. Rétt norðan þessara bæja virðist vera brún næstelzta hraunsins, og standa bæirnir Yxnalækur og Vorsabær í henni. Ein kvísl hraunflóðsins á heiðinni rann suður á milli Hverahlíða og Núpafjalls og niður um skarð í fjallsbrúninni ofan Núpa. Þetta hraun endar rétt ofan bæjarhúsa að Núpum og hefur ekkert breiðzt út á jafnsléttu. Önnur kvísl sama hrauns rann enn lengra til suðausturs og niður gilið norðan Vatnsskarðs og breiddist nokkuð út á láglendi, en síðar hefur Þurárhraun runnið yfir það. Einn hraunstraumur hefur runnið til suðurs frá eldstöðvunum milli Lakahnúka í Lakadal, annar til vesturs niður Hellisskarð. Þetta hraun sést í misgengi í austurbrún skarðsins. Enn einn hraunstraumur hefur líklega runnið vestur úr Hveradölum og allt norður fyrir Draugahlíðar. Sér nú á hraun þetta sem apalhraunskika í Svínahrauni (Leitahrauni) rétt norðan móta gamla vegarins og Þrengslavegar.
Eldri Hellisheiðarhraun eru víðast algróin apalhraun nema elzta hraunið við Varmárbrúna, sem er helluhraun. Um aldur þessara hrauna er það að segja, að elzta hraunið er ekki runnið fyrr en sjór var komin niður fyrir 3 m hæð yfir núverandi sjávarmál og getur því vart verið eldra en 10000 ára gamalt. Næstelzta hraunið er eldra en Leitarhraun, en það er yngra en 5300 ára, svo sem síðar segir. Eldri Hellisheiðarhraunin eru því yngri en 10000 ára og eldri en 5000 ára gömul.

Leitahraun

Leiti

Leiti – gígurinn austan Bláfjalla.

Austan undir Bláfjöllum, sunnan Ólafsskarðs, er óásjálegur gjallrimi, er Leitin nefnist. Að sunnan er hann 30 m hár, að norðan jafnhár Lambafellshrauni. Rimi þessi er eystri barmur gígs þess, sem stærsta hraun Hellisheiðarsvæðisins er komið frá. Leitahraun, eins og það nefnist hér, þekur 75 km2 lands. Gígurinn er um 300 m frá NA—SV og 150 m þvert á þá stefnu. Leysingalækur úr Bláfjöllum hefur fyllt gígskálina með möl og sandi, en þó sést enn 2—3 m hár hraunhjalli og bendir hann til þess, að hrauntjörn hafi staðið í gígnum. Úr norðurhluta gígsins hefur hrauná runnið. Hraunið, sem var mjög þunnfljótandi, breiddist út á flatneskjunni milli Bláfjalla, Heiðarinnar há, Geitafells, Meitla og Lambafells og nefnist Lambafellshraun. Hraunflóð rann þaðan til norðurs milli Blákolls og Lambafells og breiddist út norður til Húsmúla og Engidalskvíslar. Þar heitir nú Svínahraun (helluhraunið). Hraun þetta rann síðan niður um Vatnaöldur, Sandskeið, Fóelluvötn og milli grágrýtisholtanna hjá Lækjarbotnum (Lögbergshúsið stendur á hrauninu.) og út í hið forna Elliðavatn, sem var mun stærra en vatnið er í dag. Þegar hraunið rann út í vatnið, tók að gjósa upp úr því vegna gufuþenslu í hraunkvikunni, og mynduðust þar gervigígar, sem nú nefnast Rauðhólar. Tröllabörn neðan Lækjarbotna eru líka gervigígar í þessu hrauni. Hraunstraumurinn rann síðan niður dal Elliðaánna allt í Elliðavog.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárnar renna um Leitarhraun.

Rétt ofan eystri brúarinnar yfir Elliðaárnar er mór undir hrauninu og reyndar víðar upp eftir árfarveginum. Hraunið hefur runnið yfir mýri. Mór þessi hefur verið aldursákvarðaður með mælingu á geislavirku kolefni, C14, og reyndist efsta lag hans vera 5300 ± 340 ára gamalt (Jóhannes Áskelsson 1953). Leitahraun ætti því að vera rúmlega 5000 ára gamalt.
Tveir hraunstraumar úr Leitahrauni runnu til suðurs, Djúpadalshraun milli Geitafells og Krossfjalla og annar milli Krossfjalla og Lönguhlíðar, sem breiðzt hefur út á láglendi allt suður til sjávar í Hafnarskeið og austur undir Ölfusá. Þar standa bæirnir Hraun og Grímslækur í hraunjaðrinum. Nefnist þar Heiði eða Hraunsheiði.
Leitahraun er helluhraun úr dílóttu (feldspat) blágrýti. Í hrauninu eru nokkrir hellar og niðurföll. Stærsti hellirinn er Raufarhólshellir ofan Vindheima í Ölfusi. Hann er 850 m langur, 10—30 m breiður og 10 m hár að jafnaði (Munger 1955). Norðan Draugahlíða eru einnig hellar í hrauninu, svo og undir húsum að Lögbergi.

Hellisheiðarhraunið næstyngsta

Hellisheiði

Hellisheiðarhraun.

Tvær gígaraðir eða gossprungur liggja um Hellisheiði vestanverða, og eru þaðan komin yngri Hellisheiðarhraunin. Næstyngsta hraunið er komið frá vestari gossprungunni, en hún er 6,5 km löng. Syðstu gígar hennar eru í austurhlíð Hveradala, þar sem nú eru gjallnámur Vegagerðarinnar. Þaðan er komið hraunið, sem þekur Hveradali sunnanverða (Stóradal), og apalhraunið norðan Litla-Reykjafells, en sunnan gamla vegarins við Kolviðarhól. Mikill hluti þessa hrauns hefur síðar lent undir Kristnitökuhrauni í Hveradölum. Gossprungan liggur síðan til norðurs með austurhlið Stóra-Reykjafells. Úr gíg í austuröxl fellsins hefur runnið hraunspýja til suðurs. Frost hefur síðar sprengt hraunskænið upp, svo að nú getur að líta þar einkennilegan straum köntótts stórgrýtis. Úr gígum ofan Hellisskarðs hefur runnið hraunkvísl gegnum skarðið heim undir hús að Kolviðarhóli. Gossprungan liggur síðan norður yfir Stóra-Skarðsmýrarfjall og um Innstadal þveran.

Nesjagígar

Nesjahraun – gígur.

Líklega eru Nesjavallagígar í Grafningi á sömu sprungu. Á norðanverðri Hellisheiði hefur hraun frá sprungunni breiðzt út og runnið austur heiðina og fram af Kambabrún líkt og hin eldri hraun, en stöðvazt í brekkurótunum beggja vegna Hamarsins. Er þar falleg hraunbrún. Vegurinn í Kömbum liggur í þessu hrauni. Á heiðinni er hraunbrúnin nokkuð greinileg norðan vegar. Frá gígunum á Stóra-Skarðsmýrarfjalli runnu hrauntaumar til Hellisheiðar, Sleggjubeinsdals og Innstadals. Úr gígunum í Innstadal er runnið Innstadalshraun fram í Miðdal. Hraun þetta er samkvæmt öskulagsrannsóknum yngra en 2700 ára og eldra en landnám, líklega 1500—2000 ára gamalt, þ. e. runnið um Kristsburð eða skömmu síðar.

Kristnitökuhraun

Skjaldbreið

Skjaldbreið.

Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.” Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í, at goðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: „Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?” (Kristni saga). Hér er sagt frá náttúruviðburði á einfaldan hátt og getið fyrsta sinni jarðfræðiathugunar á Íslandi og hún ekki umvafin blæ þjóðsögunnar, eins og svo oft vildi verða. Íslendingar hafa þegar að fornu skilið myndunarsögu landsins að einhverju leyti, því að Þingvallahraun („er nú stöndum vér á”) eru runnin þúsundum ára fyrir landnámsöld. Hin elztu eru komin frá Skjaldbreið, en hin yngri frá gossprungu á Tindafjallaheiði austan Hrafnabjarga.
Á þeim 130 árum, sem liðin voru frá því, er fyrstu landnámsmennirnir tóku land, og þar til, er kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000, hafa líklega orðið nokkur gos, því að gosið hefur að meðaltali 15 sinnum á öld frá upphafi Íslandsbyggðar fram á vora daga, svo að líklegt er, að Snorri goði hafi séð eldgos eigin augum, kannski gosið í Eldborg á Mýrum, þá er yngra Eldborgarhraun kom upp, eða haft spurnir af því. Þess goss er getið í Landnámu (Jóhannes Áskelsson 1955). Góða lýsingu á eldgosi frá fyrstu öld Íslandsbyggðar er einnig að finna í Völuspá (Sól tér sortna, 57. vísa). Þá er einnig þess að geta, að eldsuppkomuna má tímasetja allnákvæmlega, og er það óvenjulegt um náttúruviðburð, sem gerzt hefur hér á landi fyrir nær 10 öldum. Alþing kom saman á Þingvöllum fimmtudaginn í 10. viku sumars. Gosið á Hellisheiði ætti því að hafa byrjað laugardaginn í 10. viku sumars eða um 20. júní árið 1000.
Eldstöðvar þær, sem bezt eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km að lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er syðsti og reyndar stærsti gígur sprungunnar.

Eldborg

Eldborgarhraun í Þrengslum.

Í fyrsta þætti gossins kom einkum upp hraun úr nyrzta hluta sprungunnar, milli Stóra-Skarðsmýrarfjalls og núverandi þjóðvegar. Hraunið breiddist í fyrstu út á hallalítilli heiðinni austan gossprungunnar. Hraunstraumur rann síðan austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli og sunnan Orustuhóls að Hengladalsá og stöðvaðist þar. Nefnist þar Orustuhólshraun. Annar hraunstraumur rann vestur yfir sprunguna, þar sem nú er þjóðvegurinn, og niður í Hveradali og vestur úr þeim yfir austurjaðar Svínahrauns. Hraun þetta nær ekki lengra til norðurs en í beina línu vestur af suðurhorni Litla-Reykjafells. Ein álma þessa* hrauns rann síðan gegnum Þrengslin allt til Lambhóls. Síðar rann Svínahraunsbruni yfir vesturjaðar þessa hrauns, sem síðar getur. Stærstur og þekktastur er þó hraunstraumur sá, sem nefndur er Þurárhraun. Hann rann í mjórri kvísl austur heiðina norðan Smiðjulautar, austur yfir þjóðveginn og síðan austur með Hverahlíðum og niður á láglendi um Vatnsskarð. Er þar 140 m hár hraunfoss. Hraunið breiddist síðan út yfir mýrarnar austan Þurár allt austur undir Varmá. Þurárhraun er um 11 km að lengd.

Lakastígur

Lakastígur.

Úr miðhluta sprungunnar, milli þjóðvegar og Lakahnúka, hefur einnig komið mikið hraun, sem brotizt hefur í mjórri kvísl milli yztu Lakahnúka niður í dal þann, sem Hellur heitir. Norður úr dalnum er Lágaskarð til Hveradala, en Lakadalur til austurs milli Lakahnúka og Stóra-Sandfells. Dalurinn hefur fyllzt hrauni, sem rann til hans í áðurnefndri kvísl og eins úr syðsta gígnum á þessum hluta sprungunnar í Lakahnúkum. Varð mikil og slétt hrauntjörn í dalnum. Dalurinn var lokaður til suðurs milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells af grágrýtishafti, sem hélt uppi hrauntjörninni.
En vart mun dalbotninn hafa verið orðinn fullur af hrauni, er syðsti hluti sprungunnar opnaðist og hraun tók að streyma þar upp. Grágrýtishaftið brast, og hraunið úr tjörninni fékk framrás með hrauninu, sem upp kom í syðsta hluta sprungunnar. Enn sýna hraunhjallar umhverfis Hellur, að hrauntjörnin hefur staðið allt að 5 m hærra en dalbotninn er í dag. Eldborg undir Meitlum stendur á grágrýtishaftinu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Eldborg undir Meitlum er stærsti gígur á allri gossprungunni, um 50 m á hæð. Eldborgin er að vísu aðeins helmingur gígs, því að hraunið, sem vall upp úr henni og gegnum hana, hefur rifið með sér eystri gígvegginn. Nokkru norðan Eldborgar er önnur eldborg, um 10 m há. Milli eldborganna er greinileg hrauntröð. Eldborgir þessar mega heita einu gígarnir á allri gossprungunni, sem því nafni geta kallazt. Annars staðar gætir mest gjallhrúgalda og óreglulegra rima. Þó eru tvær litlar eldborgir, 5 m að hæð, sunnan Stóra-Skarðsmýrarfjalls. Fell þau, sem sprungan gengur í gegnum norðan þjóðvegarins, eru úr móbergi, en að mestu hulin gjalli.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Hraunið, sem upp kom í Eldborg undir Meitlum, og eins það, sem fékk framrás úr hrauntjörninni í Hellum, breiddist út á heiðinni sunnan Litla-Meitils og Sanddala. Er það úfið apalhraun og nefnist Eldborgarhraun eða Innbruni. Þaðan rann hraun, Frambruni, niður um skarðið milli Krossfjalla og Lönguhlíðar. Hraun þetta breiddist síðan yfir Hraunsheiði (Leitahraun). Einn hrauntaumurinn rann meðfram Hjallafjalli í átt til Hjalla, en annar milli bæjanna Grímslækjar og Hrauns og nefnist þar Hraun (samkv. korti Grímslækjarhraun) til aðgreiningar frá Heiði (Leitahraun). Nær þetta hraun hvergi fram af brún Leitahrauns. Hraunið er 9 km að lengd.
Eins og að framan getur, er líklegt, að nyrðri hluti sprungunnar hafi gosið fyrst og syðsti hlutinn seinast. Nokkuð hefur það verið á reiki, hvaða hraun það var, sem náði láglendi í Ölfusi í gosinu árið 1000. Þorvaldur Thoroddsen telur ýmist, að Þurárhraun eða Eldborgarhraun hafi runnið þá. Guðmundur Kjartansson (1943) bendir réttilega á, að bæði hraunin séu komin úr sömu gossprungu og því líklega jafngömul. Athuganir þær, sem ég hef gert, benda eindregið til þess, að bæði hraunin séu komin upp í sama gosi. Þó er Þurárhraun líklega nokkrum dögum eða vikum eldra en Eldborgarhraun. Bergfræðilega er blágrýti beggja hraunanna líkt, stakdílótt (feldspat) blágrýti. Gróðurfar hraunanna og allt útlit ber merki ungs aldurs. Afstaða hraunanna til annarra hrauna á Hellisheiðarsvæðinu bendir og til hins sama. Segulmælingar, sem Ari Brynjólfsson gerði á hraunum þessum árið 1955, benda einnig til þess, að hraunin séu lík að aldri.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Öskulagsrannsóknir sýna með nokkurri vissu, að Kristnitökuhraunið hafi runnið eftir landnámstíð. Í jarðvegssniðum í hrauninu hef ég ekki getað fundið öskulagið G, en það liggur undir rústum í Þjósárdal (Sigurður Þórarinsson 1944), og í mýrarsniðum, sem frjógreind hafa verið, liggur það rétt neðan hinnar greinilegu gróðurfarsbreytingar, sem varð við landnámið. Öskulag þetta er komið af Torfajökulssvæðinu og er líklega 1100—1200 ára gamalt. Það finnst annars í nær öllum jarðvegssniðum hér sunnan lands, t.d. á næstyngsta Hellisheiðarhrauninu. Þunnt öskulag, sem myndaðist við Kristnitökugosið, er að fínna í jarðvegssniðum vestan eystri gossprungunnar á Hellisheiði, rétt ofan öskulagsins G.

Hellisheiði
Höfundur Kristnisögu leggur sendimanni þau orð í munn, að jarðeldur væri upp kominn í Ölfusi og mundi hlaupa á bæ Þórodds goða. Næsta ólíklegt er, að sendiboðinn hafi borið bæði þau tíðindi, að jarðeldur væri upp kominn, og eins hin, að hraun stefndi á bæ Þórodds goða. Svo greiðlega renna apalhraun ekki á hallalitlum heiðum, og er hér eitthvað málum blandað. Annaðhvort hafa munnmælin, sem sagnritarinn studdist við, brenglazt nokkuð, eða hann breytt þeim, svo að þau hæfðu betur frásögninni, enda hafa þessar orðræður lítið gildi fyrir frásögnina af Kristnitökunni. Sama sumar, dögum eða vikum eftir að þingi lauk, hafa hraun náð láglendi í Ölfusi. Þurárhraun hefur tæplega valdið tjóni á byggðu bóli í Ölfusi, nema bær hafi staðið undir Vatnsskarði, því að hraunið breiddist yfir mýrarfláka austan og norðan Þurár. Eldborgarhraun, sem runnið hefur heim í tún að Hrauni og Grímslæk, hefur líklega valdið einhverjum spjöllum, jafnvel tekið af bæi, hafi þeir staðið í Hraunsheiði, en það gæti vel verið, eða syðst undir Hjallafjalli, því að nyrzti hrauntaumurinn hefur runnið þar í átt til Hjalla, bæjar Þórodds goða, þótt skammt næði.
Þótt Kristnisaga muni um margt vera ónákvæm og hlutdræg heimild, má þó telja, að þessar fáu setningar um eldsuppkomuna séu í meginatriðum réttar.
Kristnitökuhraun þekur um 25 km2 lands.

Svínahraunsbruni

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Í skarðinu milli Lambafells og Bláfjalla standa tvær eldborgir. Nyrðri-Eldborg er þrír samvaxnir gígar. Sunnan hennar eru líka nokkrir litlir gígar á sömu sprungu. Úr nyrzta gígnum, sem er stærstur, 60 m í þvermál, er breið og falleg hrauntröð. Hún er um 2 km að lengd, 5 m djúp og 10—15 m breið. Hrauntröðin endar undir Blákolli. Um hraunfarveg þennan hefur hraun nyrðri og eldri Brunans, Svínahraunsbrunans, runnið og breiðzt út yfir Svínahraun (Leitahraun) allt til Draugahlíða. Syðri-Eldborg hefur gosið nokkrum vikum eða mánuðum síðar en hin nyrðri. Þar er kominn upp yngri og syðri Bruninn. Báðar standa eldborgirnar á sömu landnorðurlínunni, og eru um 2 km milli þeirra. Yngri Bruninn hefur runnið norður með Lambafelli og beygt síðan norðan Lambafellshnúks til austurs og síðan suðurs og náð allt til Þrengsla.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Nyrðri Bruninn er um 5 km að lengd og þekur 6,5 km2 lands, en hinn syðri um 6,5 km að lengd og 4,5 km2 að flatarmáli. Berg hraunanna er olivin-dílótt blágrýti. Yfir hraun þessi liggur nýi Þrengslavegurinn frá Draugahlíðum til Þrengsla. Bruninn, bæði hraunin, er úfið apalhraun og virðist við fyrstu sýn sem hraungrýtið hafi oltið fram án reglu. Við nánari athugun má þó sjá, að það hefur ekizt til í bogadregna hryggi eða hraunsvigður. Svigður eru kunnar frá skriðjöklum, að vísu annars uppruna, en líkar útlits. Hraunsvigðurnar, sem eru 1— 2 m að hæð, sjást einkum vel af fjöllunum í kring eða úr lofti. Þó má greina þær af nýja veginum. Svigðurnar sýna, að hraunið hefur runnið rykkjótt, en ekki jafnt og þétt, og vísar boginn í straumstefnuna og bendir til mestrar hreyfingar og mests hraða í miðjum hraunstraumnum. Hraunsvigður apalhrauna líkjast reipum helluhrauna. Þó mælist það í metrum í svigðum, sem mælt er í sentimetrum í hraunreipum. Hraunsvigður eru víða í apalhraunum, t. d. í Landbrotshrauni (Jón Jónsson 1954).

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Þess var áður getið, að Kristnitökuhraun lægi vestan Hveradala inn undir jaðar Brunans og væri því eldra en hann. Orðið Bruni virðist hér sunnan lands einkum vera notað um hraun, runnin, eftir að land byggðist. Menn hafa séð hraunin brenna. Dæmi um þetta eru Inn- og Frambruni í Eldborgarhrauni (Kristnitökuhrauni).
Yngsta hraun sunnan Hafnarfjarðar heitir og Bruni. Er hraun það komið frá Óbrynnishólum undir Undirhlíðum. Þess er getið í Kjalnesingasögu sem Nýjahrauns. Samkvæmt rannsókn Guðmundar Kjartanssonar (1952) er Bruni þessi runninn á landnámsöld eða litlu síðar. Í Þingeyjarsýslu er nafnið Bruni að vísu notað um úfin apalhraun, Grænavatnsbruni og Út- og Innbruni í Ódáðahrauni, sem runnin eru, áður en land byggðist. Nafn hraunanna frá Eldborgum vestan Lambafells, Bruni, bendir til þess, að þau hafi runnið að mönnum aðsjáandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Í annálum og öðrum rituðum heimildum er þessara hrauna hvergi getið, svo að mér sé kunnugt. En yfirleitt virðast náttúruviðburðir á Suðurkjálka hafa farið fram hjá annálariturum, og þá sjaldan, að þeirra er getið, er þekking á staðháttum harla lítil, svo að jafnvel hraun, komin upp við Trölladyngju á Reykjanesi, eru talin renna niður í Selvog. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur, að einkum hafi eldgos verið tíð um skagann á 14. öld. Þannig geta annálar gosa í Brennisteinsfjöllum 1340 og 1389, og Ögmundarhraun er talið runnið árið 1340. Svínahraunsbruni, bæði hraunin, eru runnin síðar en 1000, en að öllum líkindum fyrir siðaskipti, sennilega á 14. öld.
Norðan Fjallsins eina í Lambafellshrauni er lítið hraun, 0,5 km2 að stærð. Það er komið upp um sprungu, sem er í beinu framhaldi Eldborga. Hraun þetta mun vera líkt Brunanum að aldri.”

Þorleifur Einarsson
Þorleifur Einarsson“Þorleifur Jóhannes Einarsson fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1931. Hann lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi 22. mars 1999. Foreldrar hans voru hjónin Einar Runólfsson verkamaður, f. 1886 í Skálmabæjarhrauni í Álftaveri, d. 1962 í Reykjavík, og Kristín Þorleifsdóttir, f. 1900 í Stykkishólmi, d. 1973 í Reykjavík. Eftir nám í gagnfræðaskóla settist Þorleifur í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1952. Að því loknu hélt hann til jarðfræðináms við Háskólann í Hamborg, Þýskalandi, haustið 1953. Hann hélt síðan áfram jarðfræðinámi við háskólana í Erlangen-Nürnberg 1954­56 og Köln 1956­60, þaðan sem hann lauk Dipl.Geol.-prófi í maí og Dr.rer.nat.-prófi í júlí 1960. Þorleifur stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Bergen í Noregi 1960­61 og háskólann í Cambrigde, Englandi 1970 og 1979. Að loknu doktorsprófi kom hann heim og starfaði sem sérfræðingur í jarðfræði, fyrst á iðnaðardeild atvinnudeildar Háskólans 1961­65, síðar á Rannsóknarstofnun iðnaðarins frá 1965­68 og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands frá 1969­75. Jafnframt var hann stundakennari í náttúrufræði og eðlisfræði við Vogaskóla í Reykjavík 1961­63, í jarðfræði við Menntaskólann í Reykjavík 1963­69, við Tækniskóla Íslands 1965­70 og við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1969­74. Þorleifur var skipaður prófessor í jarðsögu og ísaldarjarðfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1975 þar sem hann starfaði síðan.
Þorleifur Einarsson
Þorleifur var varamaður í Náttúruverndarráði 1972­78, sat í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1964 og var formaður þess 1966­72, sat í stjórn Jarðfræðafélags Íslands 1966­68 og var formaður þess 1972­74, sat í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1980­97, var formaður stjórnar Máls og menningar 1979­1991, sat í stjórn Landverndar frá 1971 og var formaður Landverndar 1979­90. Þá var Þorleifur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1962, Alexander von Humboldt-styrkþegi í Vestur-þýskalandi 1959­60 og Overseas Fellow í Churhill College í Cambrigde, Englandi frá 1970. Þorleifur var einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands, Sögufélaginu og Jöklarannsóknarfélaginu. Hann tók um árabil þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og þá einkum handbolta. Hann var leikmaður með ÍR, var atvinnumaður í Þýskalandi, landsliðsmaður, þjálfari og sat í dómaranefnd HSÍ. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands. Jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.”

Þorleifur Einarsson“Þorleifur hóf rannsóknir á jarðfræði Íslands strax á námsárunum í Þýskalandi og snerust prófritgerðir hans um þær. Diplómaritgerðin fjallaði um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins, gerð og aldursafstöðu bæði ísaldarmenja og eftirísaldarjarðlaga, sem nánast eingöngu eru af eldvirkum toga, afrakstur eldvirkni undir bæði ísaldarjöklum og berum himni. Dr. rer. nat.-ritgerð hans fjallaði um veðurfarssögu ísaldarloka og eftirísaldartímans.
Þessi tvö meginviðfangsefni, eldvirkni og veðurfarssaga og tengsl þeirra við ísaldarfræði almennt urðu meira og minna rauður þráður í rannsóknum hans hér síðan.
Þorleifur hafði afar yfirgripsmikla þekkingu á því sem ritað hafði verið um jarðfræði og náttúru Íslands almennt; hafði lesið á námsárunum allt sem hann komst yfir um þessi mál.
Það ritverk Þorleifs sem án efa hefur haft víðust áhrif er svokölluð Þorleifsbiblía, kennslubók hans um jarðfræði (Jarðfræði. Saga bergs og lands). Hún kom út fyrst árið 1968 og braut blað í kennslu í jarðfræði, þar sem bókin var afar góð og leysti af höndum afgamla bók, að stofni til frá 1922. Menn, sem kynntust Þorleifsbiblíu á fyrstu árum hennar, minnast enn þessarar bókar og þeirrar upplifunar sem lestur hennar var, bæði sem skemmtilegur lestur og sem uppljómun í þekkingu. Bókin kom út aftur og aftur og var umskrifuð og aðlöguð eftir hendinni og er reyndar enn á markaði, þrátt fyrir byltingar í fræðunum.
Eitt eftirminnilegasta verk Þorleifs tengist eldgosinu á Heimaey árið 1973.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 01.01.1961, Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar – Þorleifur Einarsson, bls. 151-172.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/459296/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58246

Eldborg

Horft niður í einn eldborgargíginn, hellinn Trölla, á svæðinu.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar (Móskarðahnúkar) eru hnúkaröð fjögurra tinda og tengir saman Esju og Skálafell. Þeir eru að mestu úr líparíti. Austasti tindurinn er hæstur 807 metrar.

Tómas Einarsson

Tómas Einarsson (1929-2006).

Tómas Einarsson lýsti gönguleiðinni á “Móbergshnúka” í Morgunblaðinu árið 1982:
“Móskarðshnúkar nefnist sá hluti Esjunnar, sem austast liggur, en milli þeirra og Skálafellsins er Svínaskarð. Hnúkarnir sjálfir eru auðþekktir vegna lits og lögunar. Hinn ljósbleiki litur vekur athygli vegfaranda

ns en blekkir oft á tíðum því það er eins og sólin skíni alltaf á Móskarðshnúka, þótt veðurstofan segi annað.
Hnúkarnir eru fjórir en milli þeirra eru grunn skörð. Þunnur klettahryggur tengir þá við meginfjallið en hann liggur milli tveggja dalabotna, Þverárdals að sunnan og Eyjadals að norðan.
Fyrrum lá þjóðleiðin milli Kjósar og Mosfellssveitar um Svínaskarð og um skarðið fór fjöldi ferðalanga úr fjarlægum landshlutum, en það breyttist þegar akvegurinn var lagður vestur fyrir Esjuna skömmu eftir 1930.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Ganga á Móskarðshnúka er auðveld og er venjulegast gengið á þá að sunnan. Þá er ekið að Leirvogsá, hjá Hrafnhólum, og gengið þaðan eftir gömlu götunum áleiðis að Svínaskarði. Skammt fyrir norðan bæinn liggur leiðin yfir Skarðsána. Hún er ekki mikil að jafnaði svo auðvelt er að stikla yfir hana á steinum. Mörgum hættir til að taka stefnuna beint á hnúkana eftir að komið er yfir ána. Sú leið er vel fær, en þó er léttara að ganga áfram eftir götunni uns komið er að gili, sem liggur niður frá hnúkunum. Farið er yfir það, en síðan upp með því að austanverðu og stefnt beint í skarðið milli tveggja austustu hnúkanna.

Svínaskarð

FERLIRsfélagar við dys í Svínaskarði.

Úr skarðinu er létt að ganga á austasta hnúkinn, en hann er hæstur (807 m) og af honum er besta útsýnið. Ekki er mikið víðsýni af Móskarðshnúkum, nema helst til austurs og suðurs, því fjöll kreppa að til annarra átta, svo minna er þar að sjá en vænta mætti.
Um fleiri en eina leið má velja, þegar halda skal til baka. Sennilega liggur leið flestra af austasta hnúknum niður skriðurnar og ofan í Svínaskarð (það er í 481 m hæð) og ganga gömlu götuna til baka. Þetta er mjög þægileg leið og falleg. En ef tíminn er nægur er sjálfsagt að lengja leiðina nokkuð og ganga þá vestur hnúkana áleiðis að Esjunni.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Þá eru efstu brúnir hnúkanna þræddar og eykur það ekki síst á tilbreytinguna. Síðan er gengið yfir klettahrygginn milli Þverárdals og Eyjadals og vestur á Esjuna. Krækt fyrir botn Þverárdals, gengið á Hátind (909 m) og haldið síðan niður Þverárkotsháls að Hrafnhólum. Þessi leið er bæði fjölbreytt og falleg, og veitir víðari sjóndeildarhring en Móskarðshnúkar einir. Þó er rétt að hafa það í huga, að þessi gönguleið tekur meginhluta dagsins, ef farið er rólega og án alls óðagots.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

En hvernig mynduðust Mókarðshnúkar og hvers vegna eru þeir frábrugðnir öðrum nærliggjandi fjóllum bæði að lit og lögun? Jarðvísindamenn segja að Esjan sé mynduð við eldsumbrot fyrir 2 1/2-3 millj. árum. Fyrir um 2 milljónum ára var stór og mikil askja fyllt vatni á svæði sem nú er á milli Skálafells, Móskarðshnúka, Þverárkotsháls og allt suður undir Grimmannsfell. Á börmum þessarar öskju voru tíð eldgos og þá mynduðust Móskarðshnúkar. Þeir eru því fornar eldstöðvar myndaðir úr líparíti, en það berg gefur þeim ljósa litinn og gerir þá svo auðkennda, sem alkunnugt er. En síðan hafa ísaldarjöklarnir, frost, vatn og vindar máð burtu þessi fornu eldvörp að mestu og gefið fjallinu þá lögun, sem það hefur í dag. Með skarpskyggni sinni og nútímatækni hefur vísindamönnum okkar tekist að ráða þessar rúnir. En um leið hafa þeir veitt okkur óbreyttum leikmönnum tækifæri til að gefa hugarfluginu lausan tauminn meðan við fetum okkur áfram áleiðis að áfangastað.”

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar – gönguleið.

Tómas Einarsson fæddist 10. nóvember 1929. Hann lést 12. febrúar 2006. Eftir barnaskólapróf fór Tómas í Héraðsskólann í Reykholti, síðan í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi 1950. Íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni lauk hann 1952 og prófi frá Lögregluskóla Reykjavíkur 1954. Námsdvöl á vegum The Cleveland International Program í USA 1964 og Cambridge í Englandi 1974-75.
Hann var kennari við barna- og unglingaskóla 1950-53. Hóf störf í lögreglu Reykjavíkur 1953 og í rannsóknarlögreglunni (afbrot unglinga) 1955-1966. Kennari við Hlíðaskóla í Reykjavík frá 1966 og kennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis til starfsloka.

Heimild:
-Morgunblaðið, 159. tbl. 23.07.1982, Móskarðshnúkar – Tómas Einarsson, bls. 39.

Móskarðshnúkar

Móskarðahnúkar – herforingjaráðskort 1908.

Búrfell

Búrfell eru 39 talsins, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil. En hvers vegna heita öll þessi fjöll á landinu “Búrfell”?
Búrfell landsins eru mörg og finnast um allt land. Að auki eru fjölmörg örnefni dregin af því, nefna má ár, dali, flóa, drög, heiðar, hraun, hyrnur, hálsa og margt fleira. Einnig bera níu bæir nafnið.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Þrjátíu og níu fell eða fjöll bera nafnið Búrfell [fjögur fellanna eru á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs, þ.e.]:
-Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
-Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
-Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
-Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m

Af þessum fjórum Búrfellum á Reykjanesskaga eru tvær eldborgir (í Garðabæ og í Ölfusi (Þorlákshöfn)) og tvö eru móbergs og basaltfjöll (við Þingvelli og í Mosfellsbæ).

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson birti fróðlega umfjöllun og vangaveltur um “Búrfell” á bloggsíðu sinni sigsig.blog.is árið 2013:
“Að einhverju leiti getur verið að útlit fjalla með nafninu „Búrfell“ ráði því að þau fengu nafnið. Ekki veit ég orðið „búr“ merkir upphaflega, ef til vill er það hið sama og nú til dags sem er matargeymsla.

Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu. Leiddi þar hvað af öðru. Sem betur fer glataði ég tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur.

Hvaða búr er um að ræða?

Bær

Bær og útibúr.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau.

Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús.

Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega og er heldur einföld skýring.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi:
En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar.

Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla.

Búrfell

Hjallur.

Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“

Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn.

Hyggjum nú aðeins að þessu. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður.

Búr og kjölur

Búrfell

Búr.

Voru „búr“ kölluð svo eftir fjöllunum eða fengu fjöllin nafnið af útibúrunum? Þetta er ansi góð spurning, þó ég segi sjálfur frá og eftir svarinu fór ég að leita.

Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig. Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem er frá stefni og í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, slíkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.

Hugsanlega eru „kjölur“ og „búr“ andheiti. Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.

Orðsifjafræðin

Búrfell

Búrhvalur.

Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:

Búrhvalur
Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins.

Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt.

Í sömu bók segir:

Búrfell

Langreyður.

1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.

Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:
2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri.

Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.

Búrfell

Sandreyður.

Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:
1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa.

Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“.

Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.

Fornritin

Sæl væri eg
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.

Búrfell

Steypireyður.

Þetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.

Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með að fjall á Snæfellsnesi fékk nafnið „Búrfell“. Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli. Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.

Búrfell

Búrfell í Rogan.

Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa.

Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.

Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á.
Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að gera hann sem lengst neysluhæfan. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.

Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar. Í þeim er oftlega getið um “búr” og “útibúr”.

Burfjell í Noregi

Búrfell

Búrfell í Fusa.

Ég er langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll eru þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega búrfellslagi. Hið fyrra er Burfjell í Fusa og hið seinna er Burfjell í Rogan. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi með því.

Stapi

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem jarðfræðilega bera heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.
Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Hann myndast í upphafi þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.
Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu eftir svokallaðir stapar. Þeir er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg.

Niðurstaða

Búrfell

Búrfell í Ölfusi – loftmynd.

Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.

Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.

Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, jafnvel stórt stakt fjall.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – loftmynd.

Hvalurinn hefur þar af leiðandi verið nefndur Búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir en ekki vegna lýsis eða kjöts.

Hitt er svo til umræðu hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg.”

Brynjólfur Þorvarðsson fjallar um framangreint og skrifar m.a.:

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

“Sæll Sigurður og takk fyrir skemmtilega ritgerð.
Það er afskaplega erfitt að rekja orðsifjafræði stuttra orða með fjölbreytta merkingu. En mér sýnist þú ekki taka eina algeng merkingu orðsins “búr” í daglegu máli, þ.e. aflæst hirsla með rimlum. Nú veit ég ekki hversu gömul sú málnotkun er, en rimlar heita “bars” á ensku og “barer” á dönsku. Samkvæmt enskum orðsifjum er þetta tekið úr síð-latnesku “barra”.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – kort 1903.

Ennfremur finn ég fornnorræna orðið “burr”, enn notað í ensku, sem merkir fræhylki með litlum þyrnum sem festast í fatnaði. Önnur heimild talar um “borr” eða “borre” í fornnorrænu.

Loks finn ég “búrr” notað sem kenningu um son í Eddukvæðum: “Óðins búrr”. Einhverjir tengja orðin búrr, búri, bör í Eddukvæðum við “að framfæra” sem aftur er augljóslega skylt sögninni að bera, öll orðin ur Sanskrít “bâras”.

FERLIR spyr: Hvers vegna eru engin fjöll nefnd eftir Langreyð, Sandreyð eða Steypireyð. Allir þeir hvalirnir eru ekki ólíkir Búrhvalnum. Og hvernig er örnefnið “Kistufell” tilkomið? Gæti það verið hliðstæða við örnefnið “Búrfell” líkt og örnefnið “Húsfell”?!? Búr var jafnan einungis hluti bæja eða selja. “Bæjarfellin” eru allnokkur. Undir þeim flestum kúra bæir eða bæjatóftir, sbr. Bæjarfell í Krýsuvík og við Vigdísarvelli. Þar liggja fyrir augljósar skýringar á örnefninu. Bæirnir Búrfell og Búrfellskot voru undir Búrfelli í Mosfellsbæ. Hvers vegna var fellið ekki nefnt Bæjarfell til samræmis?…

Heimild:
-https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1328331/

Búrfell

Búrfellin – kort.

Krýsuvíkureldar

Í Jökli 1991 er fjallað um “Krýsuvíkureldana” 1151:

Gossprunga Krýsuvíkurelda

Krýsuvíkureldar
Gossprungan og hraunin sem frá henni hafa runnið em sýnd á 1. mynd. Eins og flestar gossprungur á Suðvesturlandi hefur hún meginstefnu nálægt N45°A. Gjallhröngl syðst í austurhlíð Núpshlíðarháls markar suðvesturenda gígaraðarinnar en norðausturendinn er austanvert í norðausturenda Undirhlíða, á móts við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Vegalengdin milli enda sprungunnar er um 25 km.
Syðst í Núpshlíðarhálsi er austurhlíðin orpin gjalli og hrauni sem sést vel af Ísólfsskálavegi þar sem hann liggur næst hálsinum. Gígaröðin liggur til norðausturs í eða við vesturhlíð Móhálsadals, allt norður undir Vigdísarvelli, fyrst slitrótt en síðan samfellt, og sumstaðar er gígaröðin tvöföld. Um þremur kílómetrum sunnan Vigdísarvalla breytist stefnan skyndilega; gígaröðin sveigir þvert yfir dalinn og fær síðan mun norðlægari stefnu. Áfram liggur hún skástígt norður með vesturhlíð Sveifluháls að Slögu og þaðan slitrótt með Vigdísarhálsi að Traðarfjöllum og hefur þá hliðrast aftur að Núpshlíðarhálsi.
Krýsuvíkureldar
Gossprungan liggur um Traðarfjöll vestanverð og í dalverpinu milli þeirra og Núpshlíðarháls. Á móts við Djúpavatn slitnar gossprungan en tekur sig upp aftur skammt norðan við vatnið. Þar em nyrstu gígamir á suðurhluta sprungunnar utan í Núpshlíðarhálsi, beint vestur af Hrútafelli. Þar sem landið liggur hæst í Móhálsadal slitnar gossprangan en hún tekur sig upp á ný skammt norðan við Vatnsskarð, en þar er landið tekið að lækka verulega. Þaðan liggur gígaröðin, tvöföld á kafla en nokkuð slitrótt, áfram til norðausturs vestan undir móbergshryggnum Undirhlíðum. Skammt norðan Bláfjallavegar sveigir gígaröðin upp í móbergið og norðausturendi hennar, sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt Gvendarselsgíga, liggur austan undir nyrsta hluta Undirhlíða, skammt sunnan við Kaldársel.
Skammt vestur af Mávahlíðum er um 400 m löng gígaröð. Mjög er líklegt að hún hafi myndast í þessari sömu goshrinu. Stefna gígaraðarinnar er um N60°A, sem er um 15° frávik frá meginstefnu gossprungunnar.
Fjarlægðin milli enda gossprungunnar er um 25 km en í henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6,5 km.

Hraun Krýsuvíkurelda

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – kort jarðfræðinga lagt yfir loftmynd.

Eins og sjá má á 1. mynd mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar í Krýsuvíkureldum. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megin gossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Öll hraunin eru ólivínþóleiít basalt. Bergfræðirannsóknir Einars Gunnlaugssonar (1973) sýna að þau eru hvert öðru lík og að hraunin í Móhálsadal verða ekki greind hvert frá öðrum í þunnsneið. Þau eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunjaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð. Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík.
Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu). Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Samsvarandi mörk hafa hins vegar ekki fundist á sjálfri gígaröðinni, sem virðist alveg samfelld norður skarðið að gígunum við Djúpavatn. Norðurbrún hraunsins er milli 0,5 og 1,0 m há en annars staðar hefur fyllst að jöðrunum þannig að þeir sjást ekki. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt helluhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum. Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum. Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fornu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda. Þegar fyrri hluti greinarinnar var skrifaður var það álit okkar að gosið hefði á allri þessari sprungu í Krýsuvíkureldum, en þá hafði aðeins syðsti hluti gossprungunnar verið kannaður að fullu. Síðar hefur komið í ljós að þessir nyrstu gígar eru eldri og hefur Landnámslagið fundist ofan á hrauninu frá þeim.

Hraun við Lœkjarvelli

Mávahlíðarhraun

Mávahlíðarhraun – jarðfræðikort Ísor.

Skammt norðan við Djúpavatn hefur hraun runnið til austurs frá litlum gígum sem þar liggja, austan undir Núpshlíðarhálsi. Þunnfljótandi kvikan hefur myndað helluhraun, sem víðast er 1-2 m þykkt, og hefur lengst náð að renna austur að Hrútafelli, um 500 m vegalengd. Hluti hraunsins er nú horfinn undir framburð lækjarins á Lækjarvöllum. Í jarðvegssniðum við gígana sést glöggt að Landnámslagið liggur neðan við gjalldreif frá þeim en Miðaldalagið ofanvið. Flatarmál þessa hrauns er 0,47 km2 og ef gert er ráð fyrir tveggja metra meðalþykkt er rúmmálið um 0,001 km3.

Mávahlíðahraun

Mávahlíðar

Mávahlíðar – loftmynd.

Skammt norðan við Fíflavallafjall er móbergshryggur er nefnist Mávahlíðar. Um 300 m vestan við hann er stutt gígaröð og liggur frá henni stórskorin og torfarin hrauntröð til norðausturs meðfram Mávahlíðum.
Hraunið, Mávahlíðahraun, hefur einkum runnið til norðurs og norðvesturs, lengst um 3 km frá gígunum, og fallið í tveimur fossum fram af Einihlíðum. Það er víðast mjög úfið og illt yfirferðar en ekki mjög þykkt. Mávahlíðahraun rennur alls staðar út yfir eldri hraun og því augljóst að það er eitt af yngstu hraununum norðan við Dyngjurnar.
Suðvestur af gígaröðinni liggur önnur gígaröð eftir endilöngum móbergshrygg sem teygir sig til norðausturs frá Grænudyngju. Frá henni hefur runnið hraun sem hverfur undir hraunið frá Mávahlíðagígum og einnig undir hraunið frá Eldborg við Trölladyngju.
Jón Jónsson (1978) taldi gígana sem mynduðu Mávahlíðahraunið framhald þessarar gígaraðar til norðausturs og að ekki yrði annað séð en að hraunin rynnu saman í eitt þar sem þau koma saman. Jón nefndi hraunið í heild Dyngnahraun en sá samt ástæðu til að fjalla um Mávahlíðahraunið sérstaklega og nefna hvað það væri unglegt. Mávahlíðahraunið er örugglega yngra en Dyngnahraunið. Því til stuðnings hefur Landnámslagið fundist ofan á Dyngnahrauninu og er það því örugglega runnið fyrir landnám. Landnámslagið liggur hins vegar inn undir Mávahlíðahraun og má því ljóst vera að þessi hraun hafa ekki myndast í sama gosi. Mávahlíðahraun er um 3,7 km2 að flatarmáli og meðalþykktin er áætluð 5 m. Rúmmál hraunsins er þá um 0,02 km3.

Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhran – loftmynd.

Sem fyrr sagði höfðu höfundar ekki að fullu kannað hraunin frá nyrsta hluta gígaraðarinnar þegar fyrri greinin um Krýsuvíkurelda var skrifuð. Þá var það skoðun okkar að Kapelluhraun, hraunin frá Óbrinnishólum og Hellnahraun hefðu öll runnið í sama gosinu. Könnun á svæðinu sumarið 1989 leiddi í ljós að þetta var ekki alls kostar rétt og verður nánar vikið að því síðar.
Meginhraunflákinn sem myndaðist í Krýsuvíkureldum á þessu svæði er vestan undir Undirhlíðum, milli Óbrinnishóla og Vatnsskarðs.
Mestur hluti hraunsins hefur komið úr tveimur syðstu kílómetrum gossprungunnar og sýnu mest úr syðsta og vestasta gígnum. raunstraumurinn frá honum hefur fallið til norðurs og norðvesturs eftir lægð sem var á milli hraunsins frá Hrútagjárdyngju, þ.e. Almenninga, og hraunsins frá Óbrinnishólum, allt til sjávar í Straumsvík. Þetta er hið eiginlega Kapelluhraun, þó svo að hér sé nafnið notað um hraunið í heild. Jarðvegssnið við jaðar Kapelluhrauns er sýnt á 6. mynd. Næst gígnum hefur hraunið runnið eftir snoturri hrauntröð og liggur vegurinn til Krýsuvíkur yfir hana skammt norðan við gíginn. Mesta lengd þessa hraunstraums er um 10 km. Frá öðrum hlutum gossprungunnar hafa aðeins runnið þunnfljótandi hraun um skamman veg. A svæðinu sunnan við Óbrinnishóla hafa þau myndað allmikla hrauntjörn sem síðar hefur sigið saman er gas rauk úr kvikunni.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Á nokkrum stöðum í hrauninu má sjá hvernig það hefur runnið niður í gjár og sprungur og er augljóst að hraunið er víða aðeins eins eða tveggja metra þykkt á þessu svæði. Skammt sunnan við Bláfjallaveg hefur hraunið runnið umhverfis litla hæð úr bólstrabrotabergi sem nefnist Stakur, en milli hans og Óbrinnishóla eru aðeins 300-400 m. Telja verður næsta líklegt að hæðin hafi eftir gosið verið kölluð Óbrennishóll eða -hólmi og nafnið síðar færst yfir á gjallgígana sem nú heita Óbrinnishólar. Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir en snotrir gígar við rætur Undirhlíða og nefnast þeir Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gígana er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Rétt er á þessum stað að rifja upp kafla úr fyrri grein okkar, þar sem vitnað er í lýsingu Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á eldgosi á Islandi sem að öllum líkndum á við um Krýsuvíkurelda (hluti af þýðingu Jakobs Benediktssonar sem birtist í grein Sigurðar Þórarinssonar 1952): „Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk.“ Þó svo að víða megi finna sæmilega slétta bletti í hrauninu frá Krýsuvíkureldum er enginn þessum líkur.
Kerin
Leiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar hefur um aldir ýmist legið vestanundir eða uppi á Undirhlíðum og hefur þetta „marmarahraun” því verið vel þekkt af öllum þeim sem þarna áttu leið um. Þar sem gossprungan sveigir upp í Undirhlíðar verður hún slitróttari og eru þar aðeins tveir litlir gígkoppar á móberginu. Litlu norðar taka við Gvendarselsgígar sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt svo. Frá Gvendarselsgígum hefur runnið lítið hraun sem þekur botn lítils dals milli nyrsta hluta Undirhlíða og Helgafells, norður að Valahnúkum. Hraunið hefur runnið fram úr dalnum til norðvesturs. Lítill hrauntaumur hefur runnið niður í Kaldárbotna en meginhraunstraumurinn, sem reyndar er ekki stór, hefur runnið út yfir farveg Kaldár og meðfram honum, um eins kílómetra veg.
Þykkt Gvendarselshrauns virðist víðast um og innan við einn metri. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13,7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 m er rúmmál þess um 0,07 km.

Aldur hraunanna
í fyrri grein voru leiddar að því líkur að Ögmundarhraun hafi runnið árið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum.

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar, bls. 64-69.

Kerið

Kerið – gígur.