Færslur

Magnús og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur skrifuðu ítarlegan kafla um Reykjanesskagann og eldvirkni þar í ritið Náttúruvá á Íslandi – Eldgos og jarðskjálftar (Reykjavík, 2013).
JarðfræðiÍ kaflanum fjalla þeir um eldstöðvakerfin frá Hengilskerfinu í norðaustri og suður og vestur um að Brennisteinsfjallakerfinu, Krýsuvíkurkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu, Svartsengiskerfinu og Reykjaneskerfinu.

Eldgosahrinur með hléum
„Síðast byrjaði goshrina þarna austast og færðist í vestur,“ sagði Magnús um elda á Reykjanesi á 13. öld. Vísbendingar eru um að gosskeiðið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800 . Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu komu vestustu kerfi Reykjanesskagans á 13. öld eftir um 30 ára goshlé. Þessum eldum lauk um árið 1240, eða fyrir um 780 árum.

Stampar

Einn gíga Stampahrauns á Reykjanesi.

Goshrinur hafa komið
Magnús benti á að þetta hefði átt við um síðustu elda en ekki væri vitað nákvæmlega um ferli í fyrri hrinum, t.d. fyrir 2-3 þúsund árum. Hann sagði erfitt að segja fyrir um það nú hvernig atburðarásin með landrisi og jarðskjálftum við Þorbjörn myndi enda. Miðað við sögu Reykjanesskaga og síðustu goshrinur þar mætti segja að það gæti verið að koma tími á jarðelda á svæðinu. „Þetta er eiginlega alveg ný reynsla, má segja. Þetta sést fyrst og fremst vegna þessara nákvæmu mæla sem komnir eru,“ sagði Magnús. Hann sagði að svipuð atburðarás og er nú gæti vel hafa orðið fyrir einhverjum áratugum eða árhundruðum án þess að hennar hafi orðið vart. Jarðhræringarnar og landrisið nú er á svæði sem tilheyrir Svartsengiskerfinu. Engin merki eru um að eldvirkni þar hafi náð út í sjó, eins og sums staðar annars staðar á Reykjanesskaganum. Ekki er útilokað að það geti þó gerst, að sögn Magnúsar. Svartsengiskerfið er um sjö km breitt og allt að 30 km langt. Gosstöðvar eru á syðstu 17 km. Kæmu upp jarðeldar gæti hraunkvika mögulega farið eftir sprungum og komið upp fjarri sjálfri gosstöð inni. Sprungur ná langt í norðaustur frá Svartsengi. „Gosvirknin er bundin við suðurpartinn. Það gildir líka um Reykjaneskerfið og Krýsuvík,“ sagði Magnús.

Síðasta eldgosahrina á 13. öld
Nokkur hraun runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu frá 1211 til 1240. Vestast er Eldvarpahraun. Þar fyrir austan er Illahraun. Orkuverið í Svartsengi stendur á því og Bláa lónið er við norðurjaðar þess. Arnarseturshraun er norðaustast af þessum þremur hraunum. Talið er að það hafi runnið síðast af þeim. Arnarseturshraun og Illahraun runnu bæði inn á Eldvarpahraunið.
Grindavíkurvegurinn liggur að hluta í gegnum Arnarseturshraunið. Rannsóknir sýna að eldar á Reykjanesskaga geta staðið í nokkra áratugi eða lengur, með hléum. Þeir eru nokkuð svipaðir og Kröflueldar voru. Magnús sagði að eldarnir í Krýsuvík þegar Ögmundarhraun rann virtust hafa staðið í 2-3 áratugi. Svipuð atburðarás hefði orðið í Brennisteinsfjöllum á 10. öld þegar gaus á þó nokkrum stöðum þar. Samkvæmt mælingum er landrisið á Svartsengissvæðinu vestan við fjallið Þorbjörn og ekki mjög langt frá Eldvarpagossprungunni. Magnús sagði ómögulegt að fullyrða um framhaldið. Líklegast væri að þetta hjaðnaði nú og tæki sig síðan mögulega upp aftur í framtíðinni.

Virðist vera fremur lítil kvika
Áætlað er að Arnarseturshraun sé um 0,3 rúmkílómetrar að rúmmáli. Samkvæmt frétt Veðurstofu Íslands 26. janúar var áætlað samkvæmt grófu mati að rúmmál kvikusöfnunarinnar hefði verið um ein milljón rúmmetra eða 0,001 rúmkílómetri. Það er 1/300 af rúmmáli Arnarseturshrauns. Ef þessi kvika nær til yfirborðs og ekki verður meira aðstreymi kviku verður um lítið gos að ræða, að sögn Magnúsar. Hann sagði talið að kvikan væri á um þriggja til fjögurra km dýpi.

Jarðskjálftar og landris í grennd við fjallið Þorbjörn upp af Grindavík hafa sett menn í viðbragðsstöðu gagnvart eldsumbrotum þar í grennd. Af þeim sökum hafa menn líka rýnt í jarðfræðileg gögn og gamlar frásagnir af eldgosum á þessum slóðum.

Yngsta goshrinan, Reykjaneseldar, gekk yfir á árabilinu 1210-1240, það er fyrir um 800 árum. Þá urðu neðansjávargos úti fyrir Reykjanesi og hraun runnu á landi bæði á Reykjanesi og við Svartsengi. Eitt þessara hrauna var Eldvarpahraun vestan Grindavíkur. Gígaröðin, Eldvörpin, er um 8 km löng og nær alveg suður að ströndinni við Staðarberg og þar rann hraun í sjó.

Á fjölgeisla dýptarmælingum, sem Landhelgisgæslan hefur aflað með sjómælingaskipinu Baldri og látið ÍSOR í té til frekari úrvinnslu, sést að hraunið hefur ekki numið staðar við ströndina heldur hefur það runnið langa leið neðansjávar og myndar þar fallegar tungur úr úfnu hrauni. Lengst nær það um 2,7 km út frá strönd og er þar komið niður á um 90 m dýpi. Hugsanlegt er að gossprungan teygi sig líka út fyrir ströndina og að þarna hafi einnig gosið í sjó. Flatarmál hraunsins á sjávarbotni er um 3,4 km2. Hraun af þessu tagi er engan veginn einsdæmi. Hópsnesið hjá Grindavík er hluti af hrauni sem runnið hefur niður að strönd og myndað allmikinn tanga út í sjó. Það er um 8000 ára gamalt. Á myndum má sjá að það teygir sig áfram neðansjávar og myndar hrauntungu sem nær niður á um 100 m dýpi.
Á dýptarmælingum sem aflað hefur verið á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg sést að hraun geta runnið á hafsbotni frá gígum og gossprungum á allmiklu dýpi. Talið er að þetta séu svokölluð bólstrabergshraun eða bólstrabreiður.
Til þess að hraun geti runnið með þessum hætti þurfa þau að verja sig gegn sjávarkælingu. Þau virðast mynda einangrandi kápu úr gjalli og storknuðu bergi um leið og þau streyma fram. Ljóst er að hraunrennslið þarf að vera mikið og stöðugt til að hrauntunga nái að myndast á sjávarbotni. Við slíkar aðstæður myndi vera illgerlegt að stöðva hraunrennsli með sjókælingu.

Sjá nánar Jarðfræðikort ÍSOR.

Heimildir:
-http://isor.is/frettir/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga
-http://isor.is/frettir/nedansjavarhraun-vid-grindavik-sogulegt

Jarðfræði

Jón Jónsson, jarðfræðingur, vitnaði um gosvirkni Reykjanesskagans í viðtalsgrein í Morgunblaðinu 1965 undir fyrirsögninni „Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga“:

Reykjanesskagi „JÓN JÓNSSON, jarðfræðingur, hefur að undanförnu unnið að því að rannsaka sprungukerfin og misgengið á Reykjanesskaga, sem er eitt af mestu jarðeldasvæðum landsins, og er að gera jarðfræðikort í stórum mælikvarða af því svæði. Rannsóknir á sprungukerfinu þarna hafa líka hagnýta þýðingu vegna staðsetningar á köldum uppsprettum og heitavatnsæðum, en vatn kemur mest fram í sambandi við sprungurnar. Varla var hægt að drepa niður fæti í skrifstofu Jóns hjá Jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar, þegar við komum þangað í þeim tilgangi að eiga við hann viðtal um rannsóknir hans á Reykjanesskaga og það sem hann hefur orðið vísari með þeim. En hvar er betri staður til að ræða hraun og eldfjallamyndanir en innan um hauga af grjóti og alls kyns jarðfræðikortum?
Fyrst skulum við kynna Jón Jónsson fyrir lesendum. Hann er Vestur-Skaftfellingur, frá Kársstöðum í Landbroti, og því alinn upp við að hlaupa illfær hraun, án þess að láta sér verða það að fótakefli. Á Kársstöðum var fátækt, og Jón átti því ekki kost á langskólanámi. Eftir að hann hafði verið á Eiðaskóla, hélt hann utan til að freista þess að bæta við menntun sína. Fór til Svíþjóðar, þar sem hann ílengdist í 25 ár. Hann gekk í alþýðuskóla í Svíþjóð, tók ýmis fög í bréfaskólum og las og tók próf í þeim menntaskólagreinum, sem hann hafði áhuga á og vann alltaf fyrir sér jafnhliða náminu.
— Þegar ég þóttist slarkfær með stúdentsmenntun, lagði ég inn umsókn í Uppsalaháskóla um að fá undanþágu frá stúdentsprófi, segir Jón. Slíkar umsóknir ganga til háskólakanzlara, sem sendir þær til háskólaráðs. en það er skipað 9 prófessorum. Þeir fóru í gegnum vottorð mín og próf, sem voru eitthvað um 30 talsins. Þar með voru próf í mörg um menntaskólagreinum, en þó ekki öllum. Mér fannst þar svo margt innan um, sem ekkert mundi gera nema tefja mig. Og ég fékk sem sagt undanþáguna og innritaðist í Uppsalaháskóla sem sænskur stúdent haustið 1954.
— Var ekki erfitt að taka þetta svona?
— Jú, að vísu. En það hefði verið léttara ef maður hefði vitað að þetta var í rauninni hægt. Þá hefði ég getað skipulagt þetta betur. En auk jarðfræðinnar hafði ég ýms önnur áhugamál, las t.d. mikið í bókmenntum.
Vorið 1958 tók Jón svo lokapróf sín í jarðfræði við Uppsalaháskóla, lauk bæði kandidatsprófi og „licentiat“-prófi á sama degi. Þá munaði minnstu að hann færi í olíujarðfræði og réði sig hjá sænsku olíufyrirtæki. Gert var ráð fýrir því að hann yrði í Bandaríkjunum við framhaldsnám í eitt ár og síðan í 3 ár við störf í Portúgal. Olíujarðfræðingar voru á þeim árum hæst launuðu jarðfræðingarnir og mikill skortur á þeim, þó nú hafi það margir lagt þessa grein fyrir sig að þeir fylla nokkuð vinnu markaðinn. — En um þetta leyti opnaðist möguleiki til að koma heim og fá starf á Raforkumálaskrifstofunni, segir Jón, og ég tók það. Ég var búinn að lesa jarðfræðina með það fyrir augum að starfa heima á Íslandi og átti erfitt með að hugsa mér að flytja með fjölskyldu mína til Portúgal, þó það gæfi meira í aðra hönd. Heitt og kalt vatn kemur upp með sprungunum.
— Tókstu þá strax til við þessar rannsóknir á Reykjaneshluti jarðfræðikortsins af Reykjanesskaga, sem Jón er búinn að vinna. Það er „hællinn“ á skaganum. Þar sjást m.a. Eldvörpin, sem örugglega hafa gosið eftir landnámstíð og þar sem enn er hiti í einum gígnum (hægra megin) og Stamparnir, sem líklega hafa líka gosið eftir að land byggðist. Og sprungurnar hafa allar sömu stefnu.
— Áður en ég flutti heim vann ég að kortagerð yfir Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni, jarðfræðingi. Það kom í minn hlut að kortleggja syðri hluta svæðisins. Þá lenti ég á sprungusvæðinu og áhuginn vaknaði. Þegar ég kom heim, ætlaði ég svo strax að taka Krýsuvíkursvæðið. Og út frá því leiddist ég yfir á allan Reykjanesskagann, því þetta er svo mikið eldfjalla- og jarðhitasvæði og mér fannst að þetta verk þyrfti að vinna. Einkum þá sprungukerfin þar og missigið, því það hefur beinlínis hagnýta þýðingu. Það er greinilegt að lindirnar eru tengdar bergsprungum og misgengissprungum. T.d. koma bæði Gvendarbrunnarnir og Bullaugun upp við sprungur. Sprungurnar við Bullaugun var ég reyndar búinn að skoða áður en borað var þar. Ég ætlaði sem sagt að vinna þetta strax þegar ég kom heim 1958, en svo mikið hefur hlaðizt á mig af aðkallandi skyldustörfum í sambandi við boranir eftir köldu og heitu vatni, að það hefur orðið verulega minna en til stóð. Það hefur allt verið unnið meira og minna í íhlaupum.
— Hve stórt svæði ertu búinn að taka fyrir?
— Ég hefi tekið heilt svæðið fremst á Reykjanesskaga austur að Grindavík að sunnan og Vogarstapa að norðan og að auki sneið frá Hafnarfirði suður undir Krýsuvík og ýmsa bletti annars staðar og er ætlunin að tengja þá saman og fá af þessu heillegt jarðfræðikort í mælikvarðanum einn á móti 25 þús., sem hlýtur að verða nokkuð nákvæmt, en á minni kortum er ekki hægt að koma öllu fyrir.
— Og þetta er allt eitt jarðeldasvæði, þakið hraunum?
— Já, það væri hægt að fara fótgangandi alveg utan frá Reykjanestá og að Þingvallavatni, án þess að stíga af hrauni. Þetta er eitt af mestu jarðeldasvæðum landsins. Á þessum skika, mem ég hefi verið með, eru 24 mismunandi jarðeldastöðvar. Þær eldstöðvar hafa allar gosið eftir ísöld og einhverjar þeirra væntanlega eftir að ísland byggðist. Eldvörpin við Grindavík hafa örugglega gosið eftir landsnámstíð og kannski líka Stamparnir, sem eru tvær sprungur á Reykjanesinu og hefur hraunið úr annarri horfið undir hraun úr hinni.
— Er engar heimildir að finna um þessi eldgos?
— Um slíkt eru aðeins óljósar sagnir. Espólín tilfærir, að hálft Reykjanes hafi brunnið árið 1389—1390. Nú er óvíst hvað hann hefur átt við, en um tvennt er að ræða, gos í Eldvörpum eða Stömpum. Ég tel Eldvörpin líklegri, því þá hefur gosið úr um 8 km. langri sprungu, og t.d. séð frá Snæfellsnesi, hefði getað litið svo út sem hálfur Reykjanesskaginn brynni. Þá eru sagnir um að Ögmundarhraun hafi runnið um árið .1340. Og þar höfum við sannanir, því leifar eru til af bæ, sem hraunið hefur runnið að nokkru yfir. Þarna heitir Húshólmi, en hugsanlegt er að það hafi verið Krýsuvíkurbærinn á þeim tíma. Þarna þyrfti að grafa upp.
— Heldurðu að enn sé hætta á eldgosum á Reykjanesskaga?
— Já, ég hefi enga trú á að þetta jarðeldasvæði sé útdautt.
— Og hvar gæti helzt gosið?
— Maður gæti búizt við eldgosi á öllu svæðinu frá Þingvallavatni út á Reykjanestá, því það er eldbrunnið alla leiðina. Ef maður tekur t.d. svæðið frá Selfjalli, sem er upp af Lækjarbotnum og vestur undir Húsfell, sem er austur af Helgafelli, þá eru þar a.m.k. á annan tug hrauna, sem öll hafa runnið eftir ísöld. Nú, Elliðaárhraunið sem hefur komizt næst Reykjavík, er samkvæmt aldursákvörðun ekki nema 5300 ára gamalt.
Rétt austan við Heiðmörkina er líka nokkuð stór hraunbreiða, Hólmshraun, þar sem eru fimm mismunandi hraunstraumar og sá elzti rennur þvert yfir Elliðaárhraunið. Þau eru þá öll yngri en það og við höfum þarna 6 hraun, sem eru yngri en 5300 ára gömul. Engar sagnir eru til um myndun þessara hrauna, hvort sem þau eru nú forsöguleg eða ekki. Annars er enn hiti sums staðar á eldstöðvunum, svo sem í einum gígnum í Eldvörpunum.
— Þá gæti þéttbýlinu hugsanlega stafað hætta af gosum?
— Já, hugsanlega gæti byggð stafað hætta af slíku, svo og ýmsum mannvirkjum, eins og vatnsbólum. Þó mundi ég telja að Bullaugun yrðu aldrei í hættu og ekki heldur sjálf Reykjavík. En hluti af Hafnarfirði aftur á móti.
— En hvað um jarðskjálftahættu?
— Vúlkaniskir jarðskjálftar eru nú yfirleitt ekki eins voðalegir og jarðskjálftar í t.d. háfjallahéruðum, þó þeir geti verið snöggir. Og þetta hafa ekki verið neinir stórfelldir jarðskjálftar hér.

Reykjanes

Dyngjur Reykjanesskagans fyrir meira en 3000 árum.

Þegar mest hrundi af húsum árið 1896, voru byggingar svo lélegar, að enginn samanburður fæst af því. Þó er sjálfsagt nauðsyn á traustum byggingum. Annars tel ég að hreyfingar séu ekki hættar á sprungusvæðunum hér, þó hægt fari. Enda standa þessar sprungur allar í sambandi við stóra Atlantshafshrygginn.
—Og þessar sprungur hafa hagnýta þýðingu fyrir okkur vegna kalda vatnsins, sagðirðu okkur áðan. En hvað um heita vatnið?
— Það er greinilegt að heita vatnið er tengt sprungulínunum á Hengilsvæðinu og reyndar á Reykjanesfjallgarðinum öllum.
Hvernig samhengið er djúpt niðri veit maður ekki, en heitt vatn kemur upp með sprungunum. Nóg kalt vatn, enginn veit um heita vatnið.
— Er nægilegt vatn hér á Reykjanesfjallgarðinum, bæði kalt og heitt, svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því í framtíðinni hér í þéttbýlinu?
— Já, nóg er af köldu vatni fyrir Reykjavík, Hafnarfjörð og nágrenni. Við boruðum t.d. við Kaldársel niður á 860 m. dýpi og þar var kalt vatn alla leið niður. Erfiðara er að svara þessari spurningu um heita vatnið. Enginn getur sagt um hvort nóg er af því, eða hve mikið.
— Koma allar þessar boranir þér ekki að miklu gagni fyrir almenna jarðfræðilega rannsókn á Reykjanesskaganum?
— Jú, að vísu, en það er orðið svo mikið um þær, að enginn hefur tíma til að vinna úr þeim.
Þegar aðkallandi er að finna kalt eða heitt vatn á einhverjum stað, verður maður að fara á þann stað og athuga næsta nágrenni og segja svo sitt álit. Ef um heitt vatn er að ræða, gerir Guðmundur Pálmason jarðeðlisfræðilegar mælingar. En svo mikill tími fer orðið í slíka bráðabirgðarannsókn, að maður hefur orðið að láta sér nægja bráðabirgðayfirlitið eitt. Auðvitað hefði verið æskilegt að hafa þetta ýtarlegra, en við erum svo fáliðaðir að það hefur ekki getað orðið eins og ég hefði helzt kosið. En það stendur vonandi til bóta. Hér er nú kominn jarðfræðingur, Jens Tómasson, sem hefur verið að vinna úr gögnum frá Vestmannaeyjum og er að byrja á efnivið frá Húsavík. Og mikið magn af efni til úrvinnslu er í höndum Atvinnudeildarinnar.

Svo þetta lagast vonandi í framtíðinni.
— Nú er komið jarðfræðikortið þitt af „hælnum“ á Reykjanesskaganum. Hefurðu áætlun um hvenær tilbúið verður kort af öllum skaganum?
— Ég geri mér vonir um að fá betri tíma næsta sumar og geta snúið mér eindregnar að Reykjanesskaganum en ég hefi hingað til getað. Svo bætir það mikið úr, að búið er að vinna gott verk á austurenda skagans, eem er Hengilssvæðið. Þar hefur Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, unnið að rannsóknum undanfarin sumur og kortlagt sprungukerfin um leið. Einnig hefur Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, kortlagt Hellisheiðina, þar á meðal sprungusvæðin.
Þetta hvort tveggja flýtir fyrir mér og gerir auðveldara að fylla í á milli. Svo þar ætti verkið að ganga fljótar. En hvenær því verður lokið þori ég ekkert að segja um. — E. Pá.“

Sjá meira um jarðfræði Reykjanesskagans HÉR.
Sjá einnig Jarðfræðikort ISOR.

Heimild:
-Morgunblaðið – 35. tölublað (11.02.1965), Jón Jónsson (Rannsóknir á Íslandi); Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga, bls. 13 og 17.

Hraun

Hraun runnin úr sprungugosum á Reykjanesskaga á 13. öld.

Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað marga listamenn. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjargi, sem er fuglabjarg niðri við ströndina. Margar gamlar gönguleiðir liggja frá Krýsuvík sem áhugavert er að huga að.

Lifandi náttúra
HverKynngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúruöflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola standbergið hvíldarlaust. Þetta er íslensk náttúra í öllu sínu veldi.

Litrík hverasvæði
BaðstofaHelstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverahlíð,  Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi, sem Sveifluháls heitir eftir. Við Seltún er Svunta og stór leirhver sem myndaðist þegar Drottningarhola sprakk haustið 1999. Fúlipollur er austan þjóðvegar og enn austar er Engjahver sem magnaðist við mikinn hverakipp 1924. Hann er líka nefndur Stórihver og svæðið umhverfis hann Austurengjahverir.

Land í mótun
Land í mótunVirka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er milli landreksflekanna sem kenndir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða. Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Fyrir vestan og austan Krýsuvík eru yngri hraun, Litlahraun, Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun sem eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunnan Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.

Sprengigígar kallast á
GrænavatnLandslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Beggja vegna þjóðvegarins eru lítil gígvötn sem kallast Augun.

Krýs og Herdís deila um landamerki
DysjarÞjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr í deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna  þar sem þær mættust. Þegar þær hittust á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kynngimagn Krýsuvíkur.

Fornminjar
TóftÍ landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, sennilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.

Dulúð regnsins
Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð- og austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja
KrýsuvíkurkirkjaKrýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.

Fuglalíf og eggjataka
KrýsuvíkurbjargUm 57.000 sjófuglapör verpa í Krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var eggjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og í nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóa, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellsstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.

Mannrækt í Krýsuvíkurskóla
KrýsuvíkurskóliUm miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur.

Hnignandi gróður

Í Krýsuvík

Gróðri hefur farið mjög aftur í Krýsuvík á síðustu öldum. Talið er að jörðin hafi verið kjarri vaxin milli fjöru og fjalls af birkiskógi og víðikjarri, áður en Ögmundarhraun brann. Í jarðabók Páls Vídalín og Árna Magnússonar 1703 er sagt að skógur til kolagerðar nægi ábúendum. Skógurinn eyddist að mestu á harðindaskeiði sem gekk yfir landið í lok 19. aldar. Þá hófst landeyðing með miklum uppblæstri og vatnsrofi í landi Krýsuvíkur. Sauðfjár- og hrossabeit hafði einnig afdrifarík áhrif. Á Sveifluhálsi eru fáeinir grasbalar sem gefa til kynna að þar hafi verið mun grónara í eina tíð. Svæðið sunnan Kleifarvatns einkennist af miklu mýrlendi, slægjulandinu Vesturengjum og Austurengjum. Austan Arnarfells er Bleiksmýri og sunnan Trygghóla er Trygghólamýri.

Ritháttur Krýsuvíkur
TóftirÞegar gamlar sagnir frá Krýsuvík eru skoðaðar kemur glögglega fram að nafn víkurinnar er ætíð ritað með ý en ekki í eins og oft sést í seinni tíð. Örnefnið Krýsuvík er trúlega dregið af orðinu Crux sem merkir kross og hefur Krossvíkin hugsanlega verið við sjóinn nærri Húshólma í Ögmundarhrauni þar sem munnmæli herma að fyrsti bærinn hafi staðið. Mesta fuglabjarg Reykjaness Krýsuvíkurberg, mesta fuglabjarg Reykjaness, er um 7 km langt frá Bergendum við Keflavík í austri til Heiðnabergs vestan Hælsvíkur og 40 hektarar að flatarmáli. Bergið er um 50 m hátt á löngum kafla en Strandaberg, austasti hlutinn, er um 70 m hátt.
Rauðskriða er áberandi kennileiti á vesturhluta bergsins en neðan hennar var einstigið Ræningjastígur sem var eina gönguleiðin niður í fjöru. Meðan enn var farið á sölvafjöru var jafnan farið af sjó því bergið var ekki árennilegt öðrum en sigmönnum. Ræningjastígur var samt fær þeim sem treystu sér til að feta hann en nú er hann ófær með öllu.

Höfuðból og hjáleigur
KrýsuvíkurbjargKrýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í austanverðu Ögmundarhrauni.  Þar er altént mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.

Fiskisæld undir berginu
Sjósókn var alla tíð mikilvæg fyrir afkomu Krýsvíkinga. Undir Krýsuvíkurbergi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt en þar er engin lending. Líklega hefur góð lending verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík, en eftir að Ögmundarhraun rann tók hana af og eftir það var gert út frá Selatöngum. Biskupsskip frá Skálholti, skip útvegsbænda í Árnes- og Rangárþingum og sjávarbænda í Hraunum gengu frá Selatöngum með leyfi Krýsuvíkurbónda.  Krýsvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir.

Kynlegt er Kleifarvatn
Krýsuvík 1810Kleifarvatn er 10 ferkílómetrar að flatarmáli og stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga. Það er á milli Sveifluháls í vestri og Vatnshlíðar í austri. Aðrennsli í vatnið er takmarkað og ekkert frárennsli er sjáanlegt ofanjarðar. Vatnsborðið fylgir grunnvatnsyfirborði svæðisins sem sveiflast um allt að 4 m á tugum ára. Félagar úr Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar fluttu bleikjuseiði í Kleifarvatn um 1960 og dafnar fiskurinn bærilega í vatninu. Áður fyrr þóttust menn verða varir við kynjaveru líka stórum ormi í vatninu.

Sjá meira undir Krýsuvík – yfirlit HÉR og HÉR.

Heimild:
-visithafnarfjordur.isKrýsuvík

Víða í helluhrauum Reykjanesskagans má sjá falleg og ólík hraunreipi.
Þegar yfirborð helluhrauna Hraunreipistorknar getur þunn skánin orðið reipótt eða gárótt á köflum við kælinguna frá andrúmsloftinu. Þessi skán leggst síðan í fellingar þegar bráðin undir rennur fram. Gárurnar nefnast einu nafni hraunreipi.
Í norðvestanverðum Brennisteinsfjöllum (Kistuhrauni) eru t.d. tilkomumikil hraunreipi. Ólík reipi má finna í Stórabollahrauni, Slokahrauni, Eldvörpum og víðar á Skaganum.

Á meðfylgjandi myndum má sjá ýmis hraunreipi.

Eldborg

„Löngu áður en Ísland byggðist og saga þess hefst hafa afar mikil eldsumbrot orðið á Reykjanesskaganum, og má svo heita að allur vestur hluti hans sé hraunstorkið flatlendi, sem er þó svo gamalt að ógjörlegt er að segja, hvenær það hafi brunnið eða hvaðan það hafi runnið. Upp úr hraunbreiðu þessari standa þó einstakir móbergshnúkar og eldvörp, sem allt eru gamlar eldstöðvar en þó mjög misgamlar.
Vordufellsborgi-221Út úr miðhálendinu íslenzka gengur svo langur fjallarani í suðvestur og út á Reykjanes. Þessi samfellda fjallatunga nær allt vestur á miðjan skagann eða vestur á móts við Grindavík og er mjög eldbrunnin, enda er þar hinn mesti urmull af eldgígum og öðrum gosstöðvum.
Þó að langmestur hluti hinna víðáttu miklu hrauna á Reykjanesskaganum hafi runnið áður en sögur hefjast, og engar sagnir séu til af þeim náttúruhamförum, sem myndað hafa undirstöðu skagans, þá er málum þó ekki svo farið, að engin gos hafi orðið eða engin hraun runnið svo að sögur fari af. Í íslenzkum annálum og öðrum fornum heimildum er all oft getið elda, er uppi hafa verið á Reykjanesi og hrauna er runnið hafa, en þó má gera ráð fyrir því að ekki sé allra slíkra viðburða getið í þeim heimildum, er nú eru til, því að ekkert af þeim er ritað á Suðurnesjum eða í grend við þau, heldur á fjarlægari stöðum, og má geta nærri, að heimildaritararnir hafi ekki haft mjög nákvæmar fréttir af því, sem gerðist á Reykjanesi suður, enda var skaginn þá mjög afskektur og illur yfirferðar og talinn hinn mesti útkjálki, þó að hann liggi nú í þjóðbraut. Heimildirnar eru með öðrum orðum mjög svo ónákvæmar, og algengt er, að þeim beri ekki saman í frásögnum af eldsumbrotunum og gætir oft mjög miklu bæði um ártöl og annað, t. d. hafa margir annálarithöfundar ruglað saman Trölladyngjum hér syðra við samnefnd fjöll á Austurlandi.
Draugahlidargigur-221Bæði Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson, sem ferðuðust mikið um landið mestallt og ritað hafa stórmerkar og yfirgripsmiklar lýsingar á landi og þjóð, minnast á það, hversu heimildirnar um gos og hraunrennsli á Reykjanesi séu rýrar að vöxtum og ónákvæmar, og Sveinn kennir því um að íbúar skagans hafi verið of menntunar litlir og lítt gefnir fyrir bókleg fræði og ritstörf, til þess að sjónarvottar að þeim umbrotum, sem orðið hafa, hafi fært nákvæmar frásagnir af þeim í letur. Margra ára nábýli við danska valdsmanninn á Be
ssastöðum og hörð lífskjör við óblíðar höfuðskepnur hafi þjakað svo íbúa skagans, og fengið, þeim annað að hugsa um en að færa í letur lýsingar á atburðum, sem gerðust samtíma þeim.
Mig langar nú til þess að tína saman þau helztu af þeim lauslegu frásagnar brotum, sem til eru af eldgosum á Reykjanesi og á hafsbotni fyrir utan skagann, og mun ég telja þau upp í réttri tímaröð, eftir því sem unnt er.
Eldborg-221Árið 1000 er fyrst getið um eldgos á Íslandi, sem hægt er að árfæra með fullri vissu, og er þess getið í Kristnisögu. Þetta skeður sama árið og kristni er lögleidd hér á landi og voru menn einmitt á þingi, er fréttin barst til eyrna þeirra um, að hraunflóð streymdi niður í Ölfus og stefndi á bæ Þórodds goða. Heiðnir menn þóttust strax sjá, að hér væri um hefnd reiðra guða að ræða, og kváðu það eigi undur, þó að goðin reiddust slíkum tölum sem um trúskiptin voru við höfð. Þá var það, að Snorri goði sagði hin frægu og rökvísu orð: „Um hvat reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á ? “ en það hraun brann löngu áður en nokkur maður steig fæti sínum á íslenzka grund, svo að enginn hefur þá getað orðið til þess að móðga goðin. Það var áður fyrr almennt ætlun manna að þetta hraun, sem hér getur hafi verið Þurrárhraun, sem runnið hefur úr mikilli gígaröð á há Hellisheiði við svokallað Hellisskarð. Hitt er þó miklu líklegra, að hér sé um annað hraun að ræða, er Eldborgarhraun heitir og runnið hefur úr nokkrum eldgígum austan við Meitla (Stóra og Litla Meitil) og einu nafni heita Eldborg. Þetta hraun er mjög lítið gróið og fellur niður í Ölfus miklu nær Hjalla heldur en Þurrárhraun. Meitlar eru nokkru austar en Bláfjöll.
Trolladyngja-221Árið 1151 er eldur uppi í Trölladyngju. Samfara gosi þessu urðu miklir jarðskjálftar á Reykjanesi og varð af þeim nokkurt tjón bæði á mönnum og húsum. Trölladyngja er í norður endanum á allmiklum fjallarana, sem Vesturháls heitir eða Núphlíðarháls (hálsinn endar að sunnan í fjalli þvi, er Núphlíð heitir og er oft nefndur eftir því). Háls þessi liggur frá norðaustri til suðvesturs og er 13—14 km. langur. Hann liggur samhliða en nokkru (ca. 4 km.) vestar en Austurháls eða öðru nafni Sveifluháls. Kleifarvatn liggur svo alveg austan undir þeim hálsi.
Norðaustur af Trölladyngju eru Mávahlíðar, þar eru margir sundurtættir smá gígir, og hafa þaðan runnið hraunkvíslir saman við Afstapahraun, en það hefur átt aðalupptök sín í Trölladyngju og þeim fjölda gíga, sem eru umhverfis hana í fjallarananum. Afstapahraun hefur runnið allt til sjávar á milli Vatnsleysu og Hraunbæja og fyrir vestan svokallaða Almenninga eða vestast í þeim. En Almenningar eru einu nafni nefnd ákaflega víðlend hraunbreyða og gömul, sem nær allt frá Hvaleyri suður á Vatnsleysuströnd. Austur hluti þessarar hraunbreiðu hefur runnið úr mörgum gígaröðum í svonefndum Undirhlíðum, sem liggja norðaustur frá Mávahlíðum en í áframhaldi af Sveifluhálsi. Frá gígum við Helgafell og miðgígunum við Undirhlíðar hefur Kapelluhraun runnið ofan á gömlu hraununum og til sjávar rétt austan við Straum. Hraunið hefur sennilega runnið á Söguöldinni og er í annálum alltaf kallað „nýja hraun“. Það ber nafn af því, hversu úfið það er.

Afstapahraun-221

Árið 1188 er enn eldur uppí í Trölladyngju.
Árið 1211 (aðrir segja 1210) urðu mikil eldsumbrot í sjó fyrir Reykjanesi. Þá risu Eldeyjar hinar nýju úr hafi, en hinar hurfu, er alla ævi höfðu staðið (ísl. annálar). Miklir landskjálftar fylgdu og margt manna lét lífið, 18 manns að sögn Guðmundarsögu.
Árið 1219 er enn eldur fyrir Reykjanesi og jarðskjálftar miklir.
Árin 1223—1227 voru alltaf öðru hvoru umbrot fyrir Reykjanesi og jarðskjálftar.
Samfara þeim var og mikil óáran árin 1226 og 1227, myrkt var um miðjan dag svo sem nótt væri af sandfoki og ösku.
Sumarið 1226 var t. d. kallað rotsumar hið mikla og veturinn, sem var fellivetur mikill, sandvetur.
Árið 1231 er ennþá eldur uppi fyrir utan Reykjanes og var mikill grasbrestur um sumarið, sem kallað var sandsumar.
Árið 1238 er enn gos fyrir Reykjanesi, án þess þó að frekari sagni r séu til um það.
Árið 1240 er enn eldgos fyrir Reykjanesi og er þess getið, að sól hafi orðið rauð. Landskjálftar urðu og svo miklir á Suðurnesjum, að sex bæir hrundu þar til grunna. Ekki er Arnarseturshraun-221þó getið um, að manntjón hafi orðið.
Árið 1285 er getið um, að land hafi fundizt vestur af Íslandi, og Skálholtsannáll segir, að þá hafi Duneyjar fundizt. Hins vegar er landfundur þessi ekki settur í samband við eldgos eða eldsumbrot svo að getið sé.
Eldsumbrota á 13. öldinni og um aldamótin 1300 á hafsbotni fyrir utan Reykjanes er oft getið erlendis, og það eru talin stór undur, að sjórinn skuli brenna.
Árið 1340. Gísli biskup Oddsson segir í annálum sinum frá eldgosi í Trölladyngju þetta ár og segir, að hraun hafi runnið í sjó fram í Selvogi. Þetta mun þó næsta ómögulegi, vegna þess að þar á milli eru tveir fjallgarðar, svo að hraun hefur ekki getað runnið frá Trölladyngju og niður í Selvog. Hins vegar má geta þess, að mjög nýleg hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjöllum, Kistufelli og nálægum eldgígum og einmitt niður í Selvog. Svo að líklega hefur eldurinn verið uppi einhverstaðar á þeim eystri slóðum, en það ruglazt til hjá Gísla, enda er þessa goss í Trölladyngju hvergi getið annars staðar.
Þetta sama ár halda menn og, að Ögmundarhraun hafi runnið [rann reyndar 1151], en það kom úr þrem gígaröðum við suðaustur hornið á Núphlíðarhálsi og rann niður í sunnanverða dældina, sem er á milli Austur- og Vestur-hálsanna (Núphlíðar- og Sveifluhálsa) og rann svo allt til sjávar austan frá Krýsuvíkurbjargi og vestur að Ísólfsskála. Hraunflóð þetta hefur vafalaust farið að nokkru yfir byggð, og sér enn allmikilla bæjarrústar austast í hrauninu í svokölluðum Húshólma, og segir Eggert Ólafsson, að þar hafi verið kirkjustaður, er Hólmsstaður hafi heitið og sjái ennþá minjar kirkjugarðsins. Hraunið er ákaflega úfið og ógreitt yfirferðar, og sagt er, að nafn þess sé þannig til komið, að maður að nafni Ögmundur hafi verið fenginn til þess að ryðja slóð yfir hraunið og skyldi hann svo taka vegatoll af hverjum vegfarenda, sem um hraunið færi. Til tollgæslunnar reisti hann sér svo hreysi við austur enda ruðningsins. En ferðamenn hafa ekki kunnað þessari kvöð, ef þeir þurftu að leggja leið sína um hraunið, því svo mikið er víst, að eitt sinn, þegar að er komið finnst Ögmundur myrtur við kofa sinn. Hann var svo dysjaður í hraunbrúninni eystri og sér þar enn dysina. En nafn vegagerðarmannsins hélzt svo við hraunið.
Vestan hraunsins og norðan rís Núpahlíð upp í þverhnýptu hamrabelti. Jarðsig hefur eflaust orðið, þegar hraunið rann, og jörðin klofnað um eldsprunguna, því að uppi á hamrabeltisbrúninni sér hálfa eldgígana. Í annáli Gísla biskups segir enn sama ár: „Einnig Reykjaneshöfði eyddist í eldi meira en að hálfu, sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, — eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá.
Eldey-221Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar“. Slíka voða viðburði segja aðrir orðið hafa árin 1389—1390 og eru frá þeim tíma uppi munnmæli um, að Reykjanes hafi eyðst að hálfu. Slíkar sagnir, frá hvoru árinu sem er, munu þó ekki á rökum reistar, af því að í Fornskjalasami Íslands er gamalt skjal frá 1270, sem sýnir, að þá hafi landslag á nestánni verið það sama sem í dag og sömu örnefni.

Árið 1360. Eldsuppkoma enn í Trölladyngju, og Flateyjarannáll getur þess, að margir bæir hafi eyðst austur í Mýrdal vegna öskufalls, vikurinn hafi borizt upp á Mýrar og eldana séð af Snæfellsnesi. Sennilega hafa þó verið eldar uppi samtímis í Austurjöklunum, af því að ólíklegt er, að vikurfall úr Trölladyngju hafi eytt bæi í Mýrdal, sérstaklega sem þess er ekki getið frá nærsveitunum, að gosið hafi verið sérlega stórfenglegt.
Árið 1389—90 er enn greint frá eldgosi í Trölladyngju og í frásögn af því gætir sömu firrunnar nú hjá Jóni Espólín, þar Nupshlidarhals-221sem hann segir frá því, að hraun hafi runnið þaðan suður í sjó og austur í Selvog. Líklegra er að þau hraun, sem hann getur um, að runnið hafi suður til hafs, hafi komið úr gígaröðum syðst á Núphlíðarhálsi og fyrir vestan hálsinn, og séu nýjustu hraunin, sem runnið hafa í grennd við Ísólfsskála.
Árið 1422 er eldur uppi útsuður frá Reykjanesi. Lögmannsannáll segir frá því gosi þannig: „ … kom upp eldur í hafi í útsuður undan Reykjanesi, skaut þar landi upp, sem sjá má síðan, þeir er þar fara nærri síðan“.
Árið 1510. Gos í Trölladyngju, ekki er frekar skýrt frá gosi þessu.
Árið 1583 var eldur uppi fyrir Reykjanesi, og Gísli biskup Oddsson getur þess, að kaupmenn frá Bremen hafi séð eldana brenna í hafdjúpinu og þótt stór undur.
Árið 1783. Snemma í maí mánuði þetta ár sjá sæfarendur reykjarmökk mikinn stíga upp úr hafinu um 7 mílur út af Reykjanestá, og ösku og vikurfallið var svo mikið, að skip á þeim slóðum, á um það bil 20—30 mílna svæði, áttu illt með, að komast í gegn um vikurhrannirnar. Hafði myndast þarna allhá klettaeyja og sögðu sumir, að hún hefði verið full míla að ummáli, en aðrir voru ekki eins stórtækir og töldu ummál hennar einungis verið hafa þriðjungur úr mílu. Sjávardýpi umhverfis eyna hafði og breytzt all-verulega, og boði, sem braut mjög á, hafði myndazt l1/3 mílu í norðaustur frá eyjunni.
Með konungsúrskurði frá 26. júní s. á. sló Danakonungur og stjórn eign sinni á þessa nýju eyju, sem var nefnd Konungsey. En þetta nýja land eða eyja virðist ekki hafa kunnað hinni konunglegu náð og virðing sem skyldi og hvarf aftur í djúpin blá til uppruna síns. En það er ætlun manna, að Eldeyjarboði svonefndur sé leifar þessarar horfnu eyju, eða, að hann hafi að minnsta kosti orðið til við eldsumbrotin þetta ár.
Stampahraun-221Þetta sama ár, en litlu síðar eða 8. júní, hefjast hinir ægilegu Skaftáreldar, sem stóðu svo nær til áramóta. Móðuharðindin, einhver þau ægilegustu harðindi og vesöld, sem yfir landið hafa gengið, fylgdu svo í kjölfar þessara elda.
Árið 1830 er enn eldur fyrir Reykjanesi með all-miklu vikurgosi. Það var hinn 6. eða 7. mars (aðrir segja 13. mars), að eldsins varð fyrst vart skammt fyrir sunnan og vestan Eldeyjarboða, og stóð fram í maímánuð.
Árið 1879 er gos fyrir Reykjanesi. Dagana 30. og 31. maí sáu menn frá Kirkjuvogi í Höfnum eldsuppkomu nálægt Geirfuglaskerjum hér um bil 8 mílur undan landi eða á mjög svipuðum slóðum og eldsins varð vart árið 1830. 

geirfugl-221

Næsta hálfan mánuð, eða fram um miðjan júní, var svo kolsvört þokubræla yfir hafinu, vestur af Reykjanesi, en þokulaust allsstaðar fyrir innan. Rétt áður en þokunni létti varð svo allmikið öskufall á landi og sá þess vel merki á grasi, en eldsins urðu menn ekki varir nema áður nefnda tvo daga; vikur sást heldur enginn og engir jarðskjálftar fundust svo að getið sá, svo að vart hefur gos þetta verið mjög mikið, og þess er aðeins getið ýtarlegar en annarra gosa, þó að meiri munu hafa verið, vegna þess hversu skammt er síðan það var.
Árið 1884 í júlí mánuði þóttust ýmsir hafa orðið varir við eldgos úti fyrir Reykjanesi, en engar nákvæmar né áreiðanlegar fréttir urðu af því og er mjög vafasamt hvort rétt sé hermt. Sumir þóttust jafnvel hafa séð nýja eyju rísa úr djúpinu þann 26. júlí fyrir norðvestan Eldey í um það bil þriggja mílna fjarlægð.
Ég hefi nú drepið lauslega á eldsumbrot þau, er sögur og annálar greina frá að verið hafi á Reykjanesskaganum og fyrir vestan hann á hafsbotni, og talið þau upp í réttri tímaröð. Það er hins vegar víst, að mörg hraun á Reykjanesskaganum hafa brunnið síðan á landnámstíð, þó að gosanna sé hvergi getið og menn viti því ekki með neinni vissu hvaðan þau hafa runnið, enda mergð gíganna svo gífurleg, að eðlilegt er, að annálahöfundar og aðrir heimildarritarar hafi ruglað þeim saman, er þeir gátu um gos og hraunrennsli í sambandi við þau. En alla leið suður og vestur endilangan skagann má segja, að sé samfelld röð eldgíga stórra og smárra, og það er ekki laust við, að ennþá sé hiti í sumum þeirra, t. d. sumum upp af Grindavík.
Allar eldstöðvarnar á skaganum liggja í nokkurn veginn beinni línu frá norðaustri til suðvesturs, og sömu stefnu hefur eldstöðvahryggurinn, sem liggur neðan sjávar frá ystu nöf skagans. Þetta er og sama megin eldstöðva línan, sem liggur um þvert landið, og eyjan Jan Mayen, sem er eldbrunnin, liggur á mjög svipaðri línu, langt norður í hafi. Þá er skaginn einnig mjög sundur skorinn af gjám og sprungum sem hafa flestar sömu stefnu og gígaraðirnar og eru á svipuðum slóðum. Það er alls ekki óhugsandi, að einhver hinna mörgu gíga á Reykjanesi taki upp á þeim ósköpum að fara að gjósa, áður en langt um líður.
Kaldarsel-221Ég vil í þessu sambandi minnast nokkrum orðum á jarðskjálfta, sem hafa gengið yfir Reykjanesskagann og hafa haft sögulegar afleiðingar i för með sér; sumra hefi ég þegar getið, eða þeirra, sem hafa staðið í sambandi við eldgos á þessum slóðum. Ég minnist á jarðskjálftana hér í þessu
sambandi, vegna þess að þeir standa einmitt svo oft í nánum tengslum við eldgos, enda þótt slíkt sé ekki endilega nauðsynlegt; og jarðskjálftar þurfa engan veginn að orsakast af eldgosum beinlínis. Verstu og hættulegustu landskjálftarnir hafa venjulega komið sem þjófur á nóttu og ekki sýnilegt, að þeir hafi staðið í neinu sambandi við eldgos. Hins vegar fylgist að, að eldgosasvæði eru einnig mjög oft meiri landskjálftasvæði en önnur. Jarðfræðirannsóknir hafa sýnt, að jarðskjálftakippir eru nátengdir brestum og sprungum í jarðskorpunni, en á eldgosasvæði eru einmitt miklu meir af sprungum og gjám en annars staðar, en eins og áður getur þá er Reykjanesskaginn ákaflega sprunginn og sundur skorinn; jarðskjálftar eru líka mjög tíðir á skaganum einkum sunnan til á honum, sér í lagi eru smákippir tíðir.
Á fyrri öldum hafa menn mjög fáar frásagnir af jarðskjálftum á skaganum, líklega vegna þess hveru linir og meinlausir þeir hafa oftast verið, og mönnum ekki þótt í frásögur færandi nema þeir yrðu mönnum eða skepnum að bana, leggðu bæi í rústir eða röskuðu til jörðinni.
Herdisarvik 1900-221Árið 1663 er eiginlega fyrst getið jarðskjálfta á Reykjanesi svo að nokkru nemi. Að sögn séra Þorkels Arngrímssonar Vídalín í Görðum eyddi þá marga bæi um skagann allan. Kleifarvatn minnkaði stórlega; vatnið sogaðist svo í gjár neðanjarðar, að nú varð fær vegur fram með því undir klettunum, en áður hafði vatnið náð 300 fet upp í hamarinn. Þá er þess getið í riti nokkru, sem gefið var út í Frankfurt 1715, að jarðskjálfti hafi orðið á Íslandi 1653, og sagt, að borgin „Keplavvick“ hafi þá beðið mikið tjón. Ef nokkur fótur er fyrir þessu, gæti hér verið um sama jarðskjálftann að ræða, en ártalið skolast til.
Árið 1724 ganga enn landskjálftar yfir Reykjanesskagann aðallega að sunnan og austan. Bærinn í Herdísarvík hrundi, og ráðsmaður Skálholtsstóls, Arngrímur Bjarnason að nafni, dó undir Krýsuvíkurbjargi við sölvatekju af grjótflugi úr bjarginu.
Árið 1754 er enn getið landskjálfta, og í Krýsuvík kom upp nýr hver 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.
Badstofa-221Árið 1879 urðu allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar. Harðastir voru þeir um hverasvæðið við Krýsuvík; bær féll á Vigdísarvöllum og fólk flúði úr bæjum í Nýjabæ við Krýsuvík.
Árið 1887, morguninn hinn 28. október urðu allmiklir jarðskjálftar víða um Suðurland, en voru lang harðastir utarlega á Reykjanesskaga, og í Höfnum fundust um daginn 40 kippir og voru sumir mjög harðir. Valahnúkur, sem Reykjanesvitinn stóð þá á, klofanaði og mynduðust þar þrjár eða fleiri sprungur allmiklar, og var ein þeirra aðeins um 3 álnir frá sjálfum vitanum; síðar þetta ár (í desember) féll 7 faðma langt og 3 faðma breitt stykki framan úr hnúknum. Á ljósabúnaði vitant urðu allmikil spjöll og vitavörður varð að slökkva öll ljós í honum. Upp úr þessu var vitinn svo fluttur af hnúknum vegna þess að menn voru alls ekki lengur óhultir með hann á þeim stað. Þá sprungu og veggir í steinolíuhúsi vitans og bær vitavarðarins skekktist einnig og skemmdist. Leirhverinn Gunna, sem er skammt austan við bæinn á Reykjanesi á svo kölluðum Hvervöllum, breyttist einnig talsvert.
reykjanesviti 1884Árið 1889, um haustið, 13. október, urðu harðar jarðskjálftahreyfingar víða kringum Faxaflóa. Skip í hafi fyrir Reykjanesi urðu greinilega vör þessara jarðhræringa. Mestir urðu jarðskjálftar þessir á Krýsuvíkursvæðinu, en minni þegar lengra kom fram á skagann og enginn spjöll urðu á vitanum né umhverfis hann. Hús hrundi á Hvassahrauni og steinhús á Sjónarhól klofnaði og ýms smávægilegri spjöll urðu á húsum á Vatnsleysu-ströndinni. Á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík hrundu allmörg peningshús algjörlega.
Árið 1896, hið ægilega jarðskjálftaár, þegar allt Suðurlandsundirlendið lék á reiðiskjálfi síðari hluta sumars, urðu menn á Reykjanesskaganum aðeins lítillega varir við jarðskjálfta.
Árið 1899 urðu enn jarðhræringar við Faxaflóa sunnanverðan og lang harðastir suður með sjó á Reykjanesskaganum. Aðfaranótt 27. febrúar fundust t. d. 12 kippir, sumir mjög harðir, í Keflavík milli kl. 1 og 2,15. Í Höfnum hrundi kotbær einn, Magnúsarbær í Kirkjuvogi, til grunna, en hann var heldur lélega byggður. Jarðskjálftar þessir urðu þó lang mestir úti á Reykjanestánni sjálfri í grend við vitann, og ekki varð kveikt á honum á meðan jarðskjálftinn stóð yfir. Þá þorði fólkið ekki að hafast við í bænum um nóttina, vegna þess að grjótflug var nokkturt úr fellinu, sem bærinn stendur undir. Hús höfðu og skekkst og sprungið, og tröppurnar við vitadyrnar höfðu sprungið frá, ljóskeilan oltið á hliðina og glasið brotið. Þá hafði 200 faðma löng sprunga komið í jörðina við Gunnuhver og stefndi hún frá landnorðri til útsuðurs, eða eins og allar aðrar eldsprungur á Reykjanesskaganum.
Ég hefi nú drepið mjög lauslega á helztu eldsumbrotin og jarðskjálftana, sem orðið hafa á Reykjanesskaganum frá því að land okkar byggðist fyrir um það bil tíu og hálfri öld síðan og sem getið er í fornum heimildum bæði annálum og sögum. Ég hefi tínt þessi brot saman úr ýmsum áttum, en hefi þó aðallega stuðst við hin gagnmerku rit Þorvaldar Thoroddsen: Lýsing Íslands, Jarðskjálftar á Suðurlandi og Landskjálftar á Íslandi auk Íslenzkra Annála. Einnig hefi ég haft hliðsjón af og tekið atburði eftir þeim ritum, sem nú skulu talin: Íslenzk Annálabrot og Undur Íslands eftir Gísla Oddsson biskup í Skálholti; Ferðabók þeirra félaganna Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ritaða af þeim fyrrnefnda; Ferðabók Sveins Pálssonar og Rit um jarðelda á Íslandi, sem Markús Loftsson, bóndi á Hjörleifshöfða, hefur safnað til og ritað.

Husholmi-grafreiturÉg vil taka það fram, að ég hefi einungið tekið þessi brot saman og látið frá mér fara með það fyrir augum, að það gæti orðið til þess, að þeir, sem á Reykjanesskaganum búa og greinarkorn þetta lesa, myndu ef til vill frekar minnast og halda til haga sögnum, sem þeir hafa heyrt frá atburðum þeim, sem hér greinir frá, eða öðrum, sem eru þess verðir, að sagnir og lýsingar af þeim séu geymdar en ekki gleymdar og sem myndu verða kærkomnar upplýsingar og heimildir fyrir þann eða þá, sem síðar eiga eftir að fást við að rita tilkomna lýsingu þessa eldbrunna skaga og sögu þeirra manna, sem hann hafa byggt, allt frá því að Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaðurinn, sló eign sinni á hann gjörvallan og til vorra tíma.“

Heimild:
-Faxi, 8. árg. 1948, 3. tbl., bls. 10.
-Faxi, 8. árg. 1948, 4. tbl., bls. 6-7.
-Faxi, 8. árg. 1948, 5. tbl., bls. 3-4.

Reykjanes

ÞÁTTUR ÚR GOSSÖGU REYKJANESS – Gosskeið fyrir um tvö þúsund árum
Náttúrufar Reykjanesskaga hefur dregið að sér athygli náttúrufræðinga allt frá 18. öld er Eggert Ólafsson og Bjarni Reykjanes-236Pálsson srunduðu sínar rannsóknir þar. Hefur athyglin einkum beinst að hraunum og gígum, jarðhita og misgengjum, en allt setur þetta sterkan svip á ásýnd Reykjanesskaga.
Allskýr mynd hefur fengist af eldvirkni á skaganum á nútíma, einkum síðustu tvö árþúsundin. Á því tímabili var eldvirknin bundin við tvö gosskeið sem stóðu yfir í allt að fjórar aldir hvort. Á báðum gosskeiðunum, sem aðgreinast af um þúsund ára löngu hléi, urðu öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga virk. í ljósi þessarar vitneskju og þess sem vitað er um eldri gos má telja sennilegt að eldvirkni á fyrri hluta nútíma hafi verið
með líkum hætti.

Reykjanes-237

Síðasta gosskeið á Reykjanesskaga var á tímabilinu 900-1240 og einkenndist af þrennum eldum sem stóðu yfir í nokkra áratugi hver. Á 10. öld runnu hraun á Hellisheiði og að öllum líkindum í Heiðmörk. Einnig varð þá gos í sjó undan Reykjanesi. Á 12. öld geisuðu Krýsuvíkureldar og runnu þá Ögmundarhraun og Kapelluhraun (Nýjahraun). Líklegt er að hraun hafi einnig komið upp í Brennisteinsfjöllum um sama leyti. Tvívegis gaus í sjó undan Reykjanesi. Á 13. öld brunnu Reykjaneseldar og runnu þá fjögur hraun á vestanverðum Reykjanesskaga.

Fundist hafa fjögur gjóskulög“ frá þessum eldum með upptök í sjó við Reykjanes. Fróðlegar samantektir á rannsóknarsögu Reykjanesskaga er að finna í ritum Jóns Jónssonar og Ara 

Trausta Guðmundssonar. Í greininni verður ekki fjallað frekar um eldgos síðasta gosskeiðs á Reykjanesskaga heldur sjónum beint að næsta gosskeiði á undan, sem var fyrir um tvö þúsund árum. Gosmenjar sem varðveittar eru frá þessum tíma, hraun, gjóskulög og gígar, veita mikilvægar upplýsingar um goshætti og umfang eldvirkninnar. Þótt enn sé margt á huldu um þetta gosskeið liggur fyrir ýmis vitneskja um það sem vert er að taka saman. Kveikjan að greininni eru athuganir höfundar á gosmenjum á Reykjanesi, suðvestasta hluta Reykjanesskaga, en þar kveður mikið að myndunum frá þessu tímabili.

REYKJANESELDSTÖÐVAKERFIÐ
Reykjanes-239Eldstöðvakerfið liggur í SV/NAstefnu, frá Reykjanesi inn á Vatnsleysuströnd. Það er 5-15 km breitt og um 45 km langt að meðtöldum 9 km kafla neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi.8 Eldvirkni er einskorðuð við syðstu 15 km kerfisins. Nesið ber þess skýr merki að þar hafa eldgos verið tíð en það er að mestum hluta þakið úfnum hraunum og fokösku. 
Um Reykjanes liggja mót Evrasíu og N-Ameríkuflekanna, mörkuð af gjám og misgengjum. Gliðnun um flekamótin er talin vera um 2 cm/ár að jafnaði.
Gígaraðir á Reykjanesi liggja á tveimur aðskildum gosreinum. Sprungugos hafa orðið á hvorri þeirra að minnsta kosti þrisvar sinnum á nútíma. Ekki er útilokað að gosin séu í raun fleiri, en um það er erfitt að dæma þar sem yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness. Vestari reinin liggur til sjávar við Kerlingarbás en hin eystri endar í hraundyngjunni Skálafelli. Gosvirkni á Reykjanesi hefur síðustu 2000 árin einskorðast við vestari gosreinina, en á þeirri eystri hefur ekki gosið síðustu 3000 árin. Komið hefur í ljós að skjálftavirkni á Reykjanesi er einkum bundin við vestari reinina.

GOSSKEIÐ Á REYKJANESSKAGA FYRIR UM 2000 ÁRUM
Reykjanes-239Vitað hefur verið um nokkurt skeið að hraun runnu víða á Reykjanesskaga fyrir um 2000 árum. Öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga verið virk fyrir um 1800-2100 árum. Hraun runnu á landi allt frá Reykjanesi í vestri að Nesjavöllum í austri og gjóskugos urðu í sjó undan Reykjanesi og í Þingvallavatni. Vísbendingar hafa komið fram um nokkur hraun til viðbótar, einkum í Brennisteinsfjöllum, sem gætu verið frá þessu tímabili. Því til staðfestingar vantar hins vegar traustari aldursákvarðanir. Sama má segja um hraun í Heiðmörk.
Við aldursákvörðun hrauna hefur verið stuðst við gjóskulagatímatal og 14C-aldursgreiningu á koluðum gróðurleifum sem finnast undir þeim. Aldursgreining með gjóskulagatímatali gefur besta raun ef hægt er að skoða gjóskulög bæði ofan á hrauni og undir því.
Á þann hátt má þrengja aldusbil þess verulega. Torvelt getur hins vegar reynst að komast að undirlagi hrauna, einkum hinna eldri eins og gefur að skilja. Árangursríkt hefur reynst að skoða í bakka gjallnáma og lækjarfarvega. Líkt og gildir með gömul hraun er aldur forsögulegra gjóskulaga aðallega fenginn með hjálp 14C-aldursgreininga á gróðurleifum sem liggja næst undir þeim. Nokkur skekkja getur því verið í aldri þessara gjóskulaga.
Notagild i gjóskulaga við tímasetningu gosmyndana er ekki síst fólgið í því að þau virka sem „jafntímalínur“, þ.e. sérhvert gjóskulag er jafngamalt hvar sem það finnst. Til að gæta samræmis eru allar aldurstölur sem fengist Reykjanes-241hafa með 14C-aldursgreiningum gefnar upp í leiðréttum kolefnisárum. Komið hefur í ljós að styrkur kolefnis í andrúmslofti hefur verið breytilegur á nútíma og leiðréttinga því þörf við útreikninga á raunaldri, þó mismikilla eftir tímabilum.
Varðandi það tímabil sem hér um ræðir er einungis smávægilegra leiðréttinga þörf og m á líta svo á að kolefnisaldurinn sé mjög nærri raunaldri. Skekkjumörk (vikmörk) greininganna eru á bilinu 70-180 ár.
Fremur lítið er hægt að segja til um framvindu eldvirkninnar á gosskeiðinu vegna hárra skekkjumarka aldursgreininganna. Af 1 4 C-aldurstölunum að dæma gæti virst sem marktækur munur sé á hraunum frá Hengilskerfinu og hraunum vestar á Reykjanesskaga. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að aldursgreiningar á koluðum gróðurleifum undan hrauni gefa ekki raunaldur hraunsins heldur segja til um aldur gróðurleifanna. Eiginaldur plantna er mjög mismunandi eftir tegundum og skiptir því verulegu máli hvaða tegundir veljast til aldursgreiningar. Gróðursýni geta einnig verið blönduð misgömlum plöntuhlutum, sem skekkir aldursgreininguna.
Reykjanes-243í þessu sambandi m á benda á yfirlitsgrein eftir Pál Theodórsson um aldursgreiningar með kolefni-14. Þrátt fyrir ýmsa annmarka má ljóst vera að aldursgreiningar með geislakoli gefa mikilvægar vísbendingar um aldur hrauna.

Telja verður líklegt að gosskeiðið fyrir um 2000 árum hafi einkennst af nokkrum aðgreindum eldum líkt og síðasta gosskeið á Reykjanesskaga. Þá urðu öll eldstöðvakerfin fjögur virk, hraun runnu á að minnsta kosti ellefu stöðum og þeytigos urðu í Þingvallavatni og í sjó undan Reykjanesi. Til að fá ú r þessu skorið þyrfti hins vegar mun nákvæmari aldursgreiningar en nú eru fyrir hendi. Tiltæk gögn benda til að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi varað í að minnsta kosti tvær aldir og það síðasta í u.þ.b. þrjár aldir. Mikill fjöldi hrauna hefur runnið á Reykjanesskaga á nútíma og eru líkur til að skipta megi þeim til gosskeiða líkt og hér hefur verið gert. Einn helsti annmarki á því er upplausn aldursgreininga. Nákvæmni 14C-aldursgreininga og gjóskulagatímatals verður almennt lakari eftir því sem lengra er farið aftur í tímann. Næsta víst m á þó telja að fyllri mynd fengist af gosvirkni á fyrri hluta nútíma með kerfisbundinni rannsókn þar sem báðum þessum aldursgreiningaraðferðum væri beitt.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 72. árg. 2004, bls. 21, 26 og 27.

Austurengjar

Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um háhitasvæði landsins og athygli manna beinst að möguleikum á frekari nýtingu þeirra, einkum til orkuframleiðslu (Iðnaðarráðuneytið 1994, Morgunblaðið 6. febrúar 2005).
Austruengjar-892Hins vegar hefur minna borið á umræðu um sérkenni og verndargildi þeirra. Á háhitasvæðum landsins nær jarðhiti víða til stórra samfelldra svæða ef miðað er við hita djúpt í jörðu en ummerki jarðhitans á yfirborði er yfirleitt að finna á tiltölulega litlum og afmörkuðum svæðum. Vegna hitans skapast sérstakar aðstæður á yfirborði og einkennist jarðvegur og vatn yfirleitt af lágu sýrustigi auk þess sem styrkur ýmissa efna er ólíkur því sem finnst í öðrum vistkerfum (Stefán Arnórsson o.fl. 1980, Burns 1997). Hár hiti og efnafræðilegar aðstæður skapa því mjög óvenjuleg lífsskilyrði á þessum svæðum. Háhitasvæði eru ekki algeng fyrirbæri á jörðinni og því er mikilvægt að sérstaða og einkenni þeirra séu vel þekkt og að tekið sé ríkt tillit til náttúruverndarsjónarmiða þegar kemur að nýtingu þeirra. Einkenni háhitasvæða eru sérstök, t.d. hverir, jarðhitamyndanir og vistkerfi. Mörg þeirra hafa hátt útivistar– og fræðslugildi og eru þýðingarmikil í vísindalegu tilliti og hafa því vafalaust hátt náttúruverndargildi. Á Nýja-Sjálandi hefur verið gerð umfangsmikil
úttekt á náttúrufari, rasknæmi og verndargildi jarðhitasvæða (Ronald F. Keam o.fl. 2005). Þar hefur verið mótuð aðferðafræði sem taka mætti mið af hér austurengjar-894á landi. Háhitasvæðið á Reykjanesi er eitt af minnstu háhitasvæðum landsins (2 km2) og er í um 20 m hæð yfir sjó.
Svæðið er á suðvesturhorni Reykjanesskaga og er basalthraun ríkjandi á
svæðinu en upp úr því standa móbergs– og bólstrabergshryggir (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Reykjanesið í heild sinni er á náttúruminjaskrá m.a. vegna hverasvæðis og stórbrotinnar jarðfræði (Náttúruverndarráð 1996).
Krýsuvíkursvæðið er á vestanverðum Reykjanesskaga og nær það yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Svæðið er um 65 km2 að flatarmáli og liggur í 120–410 m h.y.s. Móbergshryggir einkenna svæðið (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Krýsuvík er hluti af Reykjanesfólkvangi (Náttúruverndarráð 1996).
Hengilsvæðið er suðvestur af Þingvallavatni og er eitt af stærstu háhitasvæðum landsins eða um 100 km2 að stærð og liggur í 30–800 m h.y.s. Svæðið einkennist af móbergshryggjum en einnig koma fyrir grágrýti og hraun runnin á nútíma, vestast á Hengilssvæðinu finnst súrt gosberg (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Hengill og næsta nágrenni er á náttúruminjaskrá, einkum vegna stórbrotins landslags, fjölbreyttrar jarðfræði og jarðhita (Náttúruverndarráð 1996).

Heimild:
-Þrjú háhitasvæði á Suðvesturlandi Undirbúningur að mati á náttúrufari og verndargildi háhitasvæða – Ásrún Elmarsdóttir, Borgþór Magnússon, Lovísa Ásbjörnsdóttir og Sigurður H. Magnússon. Unnið fyrir Orkustofnun, Reykjavík, mars 2005.

Austurengjahver

Reykjanes
„Við fyrstu sýn er Reykjanes lágreistur, eldbrunninn og hrjóstrugur útkjálki við ysta haf. Basalthraun frá nútíma þekja mestan hluta svæðisins en lágar móbergshæðir eru við jaðra þess. Jarðhitasvæðið er á miðju Reykjanesi, milli lágra fella, og það er eitt minnsta háhitasvæði landsins. Hveravirkni á yfirborði einkennist af leirhverum, gufuhverum og heitri jörð. Á síðustu öld urðu oftar en einu sinni verulegar breytingar á hveravirkni í kjölfar jarðskjálfta. Vegna nálægðar við strönd og gropins berggrunns á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Vatnshverir á svæðinu hafa því verið mjög saltir. Myndarlegir goshverir voru virkir á svæðinu á síðustu öld.
rekjanesta-221Um Reykjanes liggur sprungukerfi með opnum gjám og misgengjum með norðaustlæga stefnu. Hér rís Mið-Atlants-hafshryggurinn upp fyrir sjávarmál og eru sprungurnar hluti af eldstöðvakerfi sem er að hálfu í sjó og að hálfu á landi. Það er kennt við Reykjanes og teygir sig til norðausturs í átt að Vatnsleysuströnd. Sprungur eru lítt sýnilegar á sjálfu jarðhitasvæðinu en sjást glögglega skammt suðvestan og vestan við það, m.a. í Valbjargagjá. Vestan til á Reykjanesi liggur gossprunga frá 13. öld og önnur um 2000 ára gömul. Skammt austan við hitasvæðið er kerfi af sprungum sem hafa töluvert norðlægari stefnu en ofangreindar sprungur. Þær eru taldar tilheyra framhaldi jarðskjálftabeltisins á Suðurlandi sem teygir sig vestur allan Reykjanesskaga en jarðskjálftabeltið einkennist af skástígum sprungum með heildarstefnu nálægt N-S.
Reykjanes hefur lengi verið á náttúruminjaskrá, m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði og allmikils hverasvæðis. Í náttúruverndaráætlun 2004–2008, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004, var lagt til að svæðið yrði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis (Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004–2008) en af því hefur ekki enn orðið. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
Gunnhver-221Reykjanesvirkjun hóf starfsemi á svæðinu árið 2006 auk þess sem önnur og eldri verksmiðjustarfssemi er í grenndinni. Aðgengi var til skamms tíma auðvelt að hverasvæðinu en það er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Í kjölfar starfsemi Reykjanesvirkjunar hefur hveravirkni aukist mikið á svæðinu og hverir hafa breyst.

Svartsengi-Eldvörp
Austan við eldstöðvakerfi Reykjaness tekur við sprungu- og eldstöðvakerfi sem kennt hefur verið við háhitasvæðin í Eldvörpum og Svartsengi eða jafnvel eingöngu við Svartsengi. Mörk milli eldstöðvakerfanna eru ekki skýr og stundum eru þau talin eitt og hið sama.
Allmikil eldgos urðu í kerfinu á 13. öld líkt og á Reykjanesi. Allmikið sprungukerfi teygir sig frá sjó við Mölvík til norðausturs í átt að Vatnsleysuvík og Straumsvík. Norðan og vestan við Þorbjarnarfell við Grindavík taka við miklar og lítt grónar hraunbreiður í um 20 m hæð. Í apalhrauninu norðan við fellið stigu áður fyrr upp heitar gufur sem nú eru líklega að mestu horfnar. Í móberginu í Svartsengisfelli og Þorbjarnarfelli er nokkur ummyndun sem og í Selhálsi sem tengir fellin. Áður fyrr hefur útbreiðsla jarðhitans því verið önnur og hugsanlega meiri en síðar varð. Vegna gropins berggrunns og nálægðar við sjó á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið.
svartsengi-221Flatlendið er að stórum hluta þakið hraunum frá 13. öld en sprungur og misgengi eru áberandi í eldri hraunum og móbergi. Austasti hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá undir merkjum Sundhnúksraðarinnar og Fagradals. Stór hluti svæðisins nýtur auk þess sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
Boranir hófust á svæðinu 1976 og varmaorkuver tók til starfa 1976. Þar er nú varma- og raforkuver með tilheyrandi búnaði. Kaldavatnsleiðsla liggur að orkuverinu úr norðri og heitavatnsleiðslur liggja frá verinu til norðurs og suðurs. Þá liggur háspennulína frá orkuverinu að spennistöð við Rauðamel. Affallsvatn frá orkuverinu myndar Bláa lónið í hrauninu. Svæðið er mikið raskað eftir mannvirkjagerð.
Eldvorp-999Í hraunflákanum vestur af Þorbjarnarfelli liggur gígaröðin Eldvörp frá 13. öld. Hún samanstendur af fjölmörgum lágum gjallgígum sem umluktir eru hrauni frá gosinu. Í og við tvo af gígunum er lítið jarðhitasvæði í um 60 m hæð. Gufur stíga upp úr hrauni og gjalli á svæði sem er um 100 m í þvermál. Hraunið og gígaröðin eru að mestu ósnortin sem er fátítt á Reykjanesskaga.
Eldvörp eru innan þess svæðis sem afmarkað er í náttúruminjaskrá undir merkjum Reykjaness. Svæðið í heild nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Krýsuvík
Milli Fagradalsfjalls og Kleifarvatns liggur allmikið sprungu- og eldstöðvakerfi. Sprungurnar teygja sig norðaustur frá sjó við Ísólfsskála um Núpshlíðarháls og Móhálsadal, Undirhlíðar og Heiðmörk til Hólmsheiðar og jafnvel Mosfellssveitar í norðaustri. Þetta kerfi hefur oftast verið kennt við Krýsuvík en einnig við Trölladyngju. Háhitasvæði eru á nokkrum stöðum við jaðra gosreinarinnar. Ögmundarhraun og Kapelluhraun brunnu í Krýsuvíkureldum á 12. öld. Svæðið er að mestu leyti innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er undanskilin hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð í því sambandi.
seltun-999Seltún Jarðhitasvæðið sem venjulega er kennt við Krýsuvík liggur að mestu suðaustan til í lágum móbergshálsi, Sveifluhálsi. Hitasvæðið teygir sig frá flatlendinu austan við hálsinn og nær upp yfir hann miðjan. Sprungu- og gosreinin sem kennd er við Krýsuvík liggur skammt vestan við jarðhitasvæðið. Minniháttar eldvirkni hefur þó náð inn á jarðhitasvæðið og hraun hefur komið úr a.m.k. einum sprengigíg á nútíma. Við suðurenda Kleifarvatns eru þekktar skástígar sprungur með stefnu nærri N-S og virðast þær tengdar brotabelti Suðurlands. Jarðskjálftar eru tíðir og breytist badstofa-999hveravirkni iðulega í kjölfar þeirra. Jarðhitinn er mestur í Seltúni og Baðstofu (Hveragili) í austurhlíðum Sveifluháls. Þar er mikil ummyndun, brennisteinsþúfur og leirugir vatnshverir. Í Baðstofu er talsvert af gifsi. Vestan í hálsinum er heit jörð með gufuaugum og rauðum leir. Margir sprengigígar eru á svæðinu, sumir mjög stórir. Smáir lækir renna á yfirborði. Arnarvatn er lítið gígvatn á norðurhluta svæðisins. Þá eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun sambærileg gígvötn syðst á svæðinu.
Jarðhitasvæðið er innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Austurengjar

austurengjar-999

Austurengjar eru í ávölum grágrýtis- og móbergshæðum og -ásum um 1,5 km austur af jarðhitasvæðinu við Seltún í Krýsuvík. Meginhverirnir raðast syðst á línu með N-S stefnu. Línan virðist teygja sig skástígt norður í suðurenda Kleifarvatns. Austurengjahver í núverandi mynd varð til við jarðskjálfta árið 1924 en þá virðist hafa rifnað sprunga með N-S stefnu á Austurengjum. Þar sem hverinn er nú var áður heitur vatnshver en hann breyttist við skjálftann í gjósandi leirhver. Ætla má að sprungurnar tengist skjálftabelti Suðurlands. Opnar sprungur með N-S stefnu eru í Lambatanga við suðvesturhorn vatnsins. Jarðhitasvæðið í Austurengjum er algerlega utan við eldstöðvakerfi Krýsuvíkur og litlu fjær eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla.
Leirugir vatnshverir ásamt gufuhituðum laugum einkenna svæðið. Loftbólur og iðustreymi sjást í Kleifarvatni þegar vatnið er spegilslétt. Ummyndun er nokkur við hverina. Hveraörverur eru áberandi í afrennsli. Sprengigígar eru skammt suður af Kleifarvatni og í Austurengjum, sá stærsti er um 100 m í þvermál, líklega gamall.
Jarðhitasvæðið er innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum.
Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Trölladyngja
sog-999Norðausturendi Núpshlíðarháls er þríklofinn og heitir vestasti hlutinn Trölladyngja. Núpshlíðarháls er nær eingöngu úr móbergi en heita má að allt flatlendi á svæðinu sé þakið ungum hraunum. Lítill þverdalur, Sog, skilur nyrsta hluta Núpshlíðarháls frá meginhálsinum, þ.á.m. Trölladyngju. Móbergið í Sogum er mikið ummyndað og framburður úr Sogum til vesturs hefur fyllt hraunin á flatlendinu á allstóru svæði og myndað Höskuldarvelli, framburðarsléttu á hraununum vestan við Trölladyngju.
Trölladyngja er í jaðri gos- og sprungureinar Krýsuvíkur. Allmiklar gossprungur eru á svæðinu og töluvert sést af sprungum og misgengjum í móbergi. Yngstu hraun á svæðinu eru hugsanlega runnin eftir landnám.
Jarðhiti er á allstóru svæði við Trölladyngju en nokkuð dreifður. Til norðausturs frá dyngjunni stíga gufur upp úr hraunum og móbergi á um 1 km löngum kafla. Sunnan við Trölladyngju eru minniháttar leirugir vatnshverir og gufuaugu í Sogum. Í hrauni framan og vestan við Sogin er ungur sprengigígur og í nágrenni hans heit jörð með gufuaugum. Hverinn eini, sem er að mestu kulnaður, er um 2 km suðvestur með hálsinum, skammt norður af Selsvöllum. Þar er allmikið hverahrúður.
sandfell-999Jarðhitasvæðið er í jaðri Reykjanesfólkvangs og að hluta á svæði sem er á náttúruminjaskrá (Keilir og Höskuldarvellir). Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Hlutar svæðisins njóta sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Svæðið er að mestu þurrt á yfirborði. Lækir falla frá ummynduðum svæðum í Núpshlíðarhálsi um Höskuldarvelli og Selsvelli. Spákonuvatn er í lægð í móberginu skammt sunnan við Sog.

Sandfell
Sandfell er stakt fell, austast í klasa móbergsfella austan við Fagradalsfjall og um 1 km vestur af Núpshlíðarhálsi. Norðan og austan við fellið er tiltölulega flatur hellu- og apalhraunafláki. Gufur stíga úr hrauninu á litlu svæði skammt norðaustan við fellið. Jarðhitasvæðið er á vesturjaðri gos- og sprungureinar Krísuvíkurkerfisins og eru gossprungur í næsta nágrenni. Skammt norðan við jarðhitasvæðið eru sprungur með N-S stefnu og tengjast þær líklega skjálftabelti Suðurlands.
Svæðið er utan Reykjanesfólkvangs en nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Brennisteinsfjöll
brennisteinsfjoll-999Eitt af sprungu- og eldstöðvakerfum Reykjanesskagans er að jafnaði kennt við Brennisteinsfjöll. Það nær frá sjó við Krýsuvíkurberg og liggur þaðan til norðausturs um Brennisteinsfjöll og Bláfjöll allt austur á Mosfellsheiði. Í Brennisteinsfjöllum er lítið jarðhitasvæði í austurjaðri gos- og sprungureinarinnar. Jarðhitinn, sem er að mestu gufur í hraununum, er í apalhrauni í brekku sem hallar móti suðaustri. Nær allt svæðið umhverfis jarðhitann er þakið hraunum. Vestan og norðvestan við hitasvæðið eru lágir móbergshryggir og gígar sem sent hafa hraunspýjur yfir jarðhitasvæðið en í austri tekur við úfin hraunbreiða.
Svæðið er innan Reykjanesfólkvangs (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) og nærri austurmörkum hans. Austan markanna tekur við Herdísarvíkurfriðland (Stj.tíð. B, nr. 121/1988). Nær allt svæðið nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Talið er að síðast hafi orðið eldsumbrot á svæðinu á 10. öld og ekki er vitað til að sprunguhreyfingar á yfirborðið hafi orðið á svæðinu eftir það. Svæðið er nánast ósnortið.“

Heimild:
-http://utgafa.ni.is/skyrslur/2009/NI-09012.pdf

Gunnuhver

Gunnuhver.

Reykjavíkursvæðið

„Hversu gamall er grunnurinn sem byggjum á í þéttbýlinu við Faxaflóa og hvaðan er það berg komið? Hversu oft hefur á síðustu árþúsundum dregið til stórtíðinda í eldstöðvum hér fyrir ofan, og hversu langt er síðan síðast?
Við búum í óskalandi jarðfræðinnar þar sem hægt er að lesa náttúruna eins og opna bók og greina sögu jarðmyndana; síendurtekinna gosa með hraunrennsli sem smám saman hefur hlaðið landið upp, en ísaldarjöklar hafa átt sinn þátt í  að móta það landslag sem nú blasir við. Allt er þetta harla ungt á jarðsögulegan mælikvarða; aðeins um 14-15 milljónir ára síðan elzta berg á Austfjörðum, Vestfjörðum og við mynni Eyjafjarðar varð til. Þetta er svo nýlegur atburður á jarðsögulegan mælikvarða, að það er eins og gerst hafi í gær.
Hraunakort-221Þegar landið okkar „fæddist“ voru til dæmis liðnar um 45 milljónir ára frá því stórslysi í náttúrunni sem orsakaði að risaeðlurnar dóu út. Þá voru þessi blessuð dýr búin að vappa um jörðina í milljónir ára og miðað við það var skaparinn ekki lengi að hlaða upp Ísland.
Hér er ekki ætlunin að rekja myndunarsögu landsins, heldur verður beint sjónum að tiltölulega litlum skika, sem skiptir þó verulegu máli þar sem meirihluti þjóðarinnar býr þar. Það er Reykjavíkursvæðið suður fyrir Hafnarfjörð, en mér til halds og trausts hef ég Þorleif Einarsson jarðfræðing og prófessor við Háskóla íslands. Hann er höfundur bókar um Myndun og mótun lands, sem hefur verið gefin margsinnis út og er mikil náma um jarðfræði Íslands.
Til þess að fá gleggri mynd af því sem gerst hefur og myndað það umhverfi sem við höfum daglega fyrir augunum, ókum við Þorleifur Suðurlandsveginn upp á Svínahraun, en þar dró „nýlega“ til tíðinda með eldgosi og hraunrennsli sem náði til Reykjavíkur. Við komum nánar að því síðar. Þessi samgönguæð, Suðurlandsvegurinn, væri úr sögunni ef það endurtæki sig, að ekki sé nú talað um þann usla sem hraunrennsli niður í Elliðavog mundi valda.
Við Þorleifur námum staðar á hárri bungu í Svínahrauni, þar sem sést suðvestur eftir hækkandi hraunum með Bláfjöll á hægri hönd. Þar er sú eldstöð sem nefnd er Leitin, en ekki er hægt að segja að hún sjáist frá veginum. Þorleifur segir að gígurinn sé á stærð við fótboltavöli, en hann er fullur af framburði ofan úr fjallinu. „Hraunið rann fyrst í norður“ segir Þorleifur, „og dreifðist yfir stórt svæði, enda þunnfljótandi, og rann síðan til vesturs hjá Litlu kaffistofunni, niður á Sandskeið og þaðan í afar mjóum farvegi alla leið niður í Elliðavog. Það er hinsvegar ekki þetta hraun sem við sjáum hér af veginum í Svínahrauni. Löngu seinna, nálægt árinu 1000, varð gos í Eldborgum skammt frá Leitum. Þaðan rann það hraun sem við stöndum á hér við Suðurlandsveginn; Svínahraunsbruni hefur það verið nefnt. Það var apalhraun sem rann yfir eldra hraunið, en ekki langt, hraunjaðarinn er skammt austan við Litlu kaffistofuna.“
Hér erum við aðeins að huga að nýlegum hraunlögin undir sjálfu Reykjavíkursvæðinu? Og hvað af því sem við höfum daglega fyrir augunum er gamalt og hvað er nýlegt; Esjan til dæmis, Mosfellsheiði, Hengillinn, Vífilfell og Bláfjöllin?

Hversu gömul er sú undirstaða sem borgin er byggð á?
Þorleifur segir að hún sé tiltölulega ung. Stærstur hluti borgarinnar sé byggður á því sem nefnt er Reykjavíkurgrágrýti og það er líklega um 200 þúsund ára gamalt. Breiðholtið stendur þó á yngra grágrýti, en við komum að því síðar.

Esja

Esja.

Elzt af fjöllum í næsta nágrenni Reykjavíkur er Esjan. Þorleifur segir að vesturhluti hennar sé um 3 milljón ára gamall og þá var þarna stór eldstöð sem Ingvar Birgir Friðleifsson skrifaði raunar um í Lesbók fyrir nokkrum árum. Austurhluti Esjunnar er hinsvegar mun yngri, eða um 2 milljón ára og orðinn til við gos úr eldstöð sem kennd er við Stardal. Móskarðshnjúkarnir úr gulbrúnu líparíti, gætu verið með því yngsta sem kom úr þeirri eldstöð. Á sama tíma, eða fyrir rúmum 2 milljónum ára, er talið að hafi verið eldstöð miklu nær Reykjavík því austurhluti Viðeyjar er öskjufylling, svo og við Köllunarklett hjá Viðeyjarsundi. Það er með öðrum orðum ekki undarlegt þó eitthvað eimi eftir af hita undir Reykjavík, enda taldi Ingvar Birgir í fyrrnefndri grein, að vel mætti hugsa sér verulegan hita undir Öskjuhlíðinni, en útmörk þessa hita væru við Hvaleyri, suðvestan Hafnarfjarðar.
En hvaðan er þá bergið komið sem Reykjavík og næstu bæir eru byggðir á?
„Til þess að finna uppsprettu þess, verðum við að fara hæst á Mosfellsheiði, þar sem heita Borgarhólar“, segir Þorleifur. Mosfellsheiði er dyngja. Þar hefur orðið heljarmikið gos fyrir um 200 þúsund árum, segir hann. Það var á næst síðasta hlýskeiði ísaldar; allt jökullaust þarna og skilyrði til þess að hraunið rynni langar leiðir og dyngja myndaðist. Stundum rennur hraun í allar áttir í dyngjugosum, en stundum langlengst í eina átt, í þessu tilfelli til vesturs.

Viðeyjareldstöð

Viðeyjareldstöð.

„Fyrir þetta gos sem hlóð upp Mosfellsheiði hefur verið tiltölulega flatt land hérna í nágrenninu og sjórinn var í svipaðri stöðu og nú“, segir Þorleifur. Hraunin runnu alla leið til sjávar og eitthvað út í Faxaflóa, en við vitum ekki hve langt. í öllum eyjum og nesjum frá Brimnesi á Kjalarnesi og suður. Í Hvaleyrarholt upp af Hvaleyri við Hafnarfjörð er þessi undirstaða, Reykjavíkurgrágrýtið sem svo er nefnt. Við Brimnes og Álfsnes er bólstraberg undir, sem gerist við snögga kólnun þegar hraun rennur út í vatn. Þetta hraun er sömuleiðis undir Seltjarnarnesi, Álftanesi, Þerney og Lundey. Smærri fellin upp af Reykjavíkursvæðinu, Úlfarsfell, Hafrafell og Helgafell ofan Hafnarfjarðar eru á svipuðum aldri, eða aðeins yngra en bergið við Stardal. Þau eru um 2 milljón ára gömul, en eitt fell er yngra; orðið til við gos undir jökli eitthvað áður en Reykjavíkurgrágrýtið rann. Það er Mosfell, sem Mosfellssveit og Mosfellsdalur eru kennd við. Það er líklega 250-300 þúsund ára, segir Þorleifur. Þarna varð eldgos sem náði aldrei uppúr jökli, en nokkrum tugum árþúsunda síðar var sá jökulskjöldur á bak og burt þegar gosið varð í Mosfellsheiði og lagði okkur til grágrýtið undir Reykjavík. Á myndunartíma þessa umhverfís hafa ísaldarjöklar margsinnis lagst yfir og orsakað gífurlegt rof. Í stórum dráttum var landslagið orðið til, en jöklarnir mótuðu það. „Þeir náðu stundum langt út á landgrunn, eða jafnvel út af því“ segir Þorleifur. „Landið seig undan ofurþunga þeirra, en reis síðan að nýju.“

Síðari tíma landmyndanir

Jarfræðikort

Jarðfræðikort – Reykjanesskagi.

Þegar hér er komið sögu er undirstaða höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurgrágrýtið, komin á sinn stað. Ekki er hægt að segja um það með neinni nákvæmni, hversu langan tíma Mosfellsheiðareldar brunnu, en jarðfræðingar segja það einkenni og eðli dyngjugosa, að þau séu samfelld og geti tekið langan tíma, ár eða áratugi.
Eftir gosið í Mosfellsheiði liðu um 80 þúsund ár án þess að drægi til tíðinda ofan Reykjavíkur, en fyrir um 120 þúsund árum segir Þorleifur að hafi orðið gos á Reykjanesskaga með hraunrennsli til norðurs. „Þetta, hraun rann inn yfir eldra hraunið og myndaði hæðirnar þar sem Breiðholt er nú og Hnoðraholt í landi Garðabæjar; þar er endi þeirra. Lengst náði það út að farvegi Elliðaánna og niður undir Mjódd. Ef við ökum úr Mjóddinni suður eftir Reykjanesbrautinni, er hæðin á vinstri hönd brún þessa hrauns, sem nefnt hefur verið Heiðmerkurgrágrýti“.
Eins og staðkunnugir þekkja er land austan við Rjúpnahæð talsvert lægra og þar hefur Elliðavatn myndast í lægðinni. En hversvegna fylltist hún ekki af hrauni þegar Heiðmerkurgrágrýtið rann? „Á stóru svæði austan við Rjúpnahæð – svæðinu þar sem Elliðavatn og Rauðavatn eru – hafa orðið sprungur og misgengi. Þar hefur land sigið og auk þess er þar jökulrof“, segir Þorleifur.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Vífilsfelli er varla yngra en 20 þúsund ára. En Vífilsfell sem rís bratt og tignarlegt upp af Sandskeiðinu; hvenær steig það fullskapað fram á þettta svið, spurði ég Þorleif þegar við settumst með kaffibolla framan við Litlu kaffistofuna á sólríkum haustdegi og virtum fjallið fyrir okkur? Hvassar brúnir þess, minnisstæðar meðal annars úr fjölmörgum málverkum Jóhannesar Kjarvals, bera þess vitni að ísaldarjöklar hafi ekki náð að skafa ofan af þeim og gera fjallið kollhúfulegt. Vífilsfellið er frá siðasta jökulskeiði“, segir Þorleifur, „varla yngra en 20 þúsund ára og ekki eldra en 100 þúsund ára. Það þó fremur til þess að myndun þess hafi orðið seint á þessu jökulskeiði. Fjallið er stapi og gosið hefur náð uppúr jóklinum. Vatn hefur þó komizt í kvikuna undir lok gossins ofan á hraunlaginu, því efst í fjallinu er móberg.“
Það var enginn smáræðis jökulskjöldur hér á suðvesturhorninu þegar ljóst er að hann var hátt í eins þykkur og hæð Vífilsfells. Engin furða að jarðskorpan léti eitthvað undan þeim þunga. ísaldarjökiar eiga það til að hopa hratt, en jarðskorpan er svifaseinni og lyftir sér á löngum tíma. Þessvegna fylgdi sjórinn jökulbrúninni og kaffærði láglendið sem komið var undan jöklinum: „Þá leit Reykjavíkursvæðið talsvert öðruvísi út en nú“, segir Þorleifur. „Keldnaholtið var líklega eyja, Laugarásinn var sker; sömuleiðis Öskjuhlíð og Háaleiti, en Skólavörðuholtið var boði. Hæstu fjörumörk í Öskjuhlíð í eru í 43 m hæð og á Hvaleyrarholti í 32 m hæð því þar seig land minna. Sjórinn náði þá lengst upp að Reykjum í Mosfellssveit. Hann náði inn eftir Elliðaárdalnum, líklega að Höfðabakkabrúnni. Sunnar hefur hann náð yfir Vetrarmýri við Vífílsstaði þar sem golfvölur Garðabæjar og Kópavogs er nú, og enn sunnar hefur fjöruborðið verið í hlíðunum ofan við Urriðavatn. Á þessum slóðum var ströndin fyrir 10-11 þúsund árum en var komin þangað sem hún er nú fyrir um 9 þúsund árum og reyndar aðeins neðar eins og fjörumórinn í Seltjörn sýnir. Þar nær hann 4,5 m niður fyrir fjöruborð.
En hversu lengi var megnið af Reykjavíkursvæðinu undir sjó? „Þegar ísinn var horfinn var landið að lyftast í 1-2 þúsund ár“, segir Þorleifur. Það er merkilegt, að síðan fór landið að síga aftur af ástæðum sem menn vita ekki um og er enn að síga. Verzlunarhús í Reykjavík voru í Hólminum framyfir 1650; þá varð að flytja þau í Örfirisey og enn síðar inn í Reykjavík. Í báðum tilvikum varð að flýja undan hækkaðri sjávarstöðu.

Álftanesjökull
Eftir að meginskeið síðustu ísaldar var liðið hjá, urðu minni kuldaköst, einskonar vorhret, sem voru þó það grimm að stór og þykkur jökull myndaðist á sunnanverðu hálendinu og “ ýtti upp jökulgörðum sem kenndir eru við fossinn Búða í Þjórsá og Alftanes. Fyrir 12.000 árum, eða jafnvel fyrir tæpum 11.000 árum, náði jökull í sjó út á Álftanes og í Hvalfjarðarmynni þar sem jarðgöngin eru.
Tímabil síðustu 10 þúsund ára er skilgreint sem nútími. Hvernig ætli hafi verið umhorfs á Reykjavíkursvæðinu við upphaf þess? „Þá hafði jökullinn hopað tiltölulega hratt“, segir Þorleifur, „hann var kominn langt inn á öræfi, með framhlaupi að jökulgörðunum við Búða. Það sést af því að Þjórsárhraun gat runnið hindrunarlaust innan frá Veiðivötnum og fram í sjó fyrir um 8 þúsund árum. Hér vestan heiðar hefur allt verið nakið og gróðurvana í fyrstu, en gróðurinn hefur verið fljótur að koma eftir að jökullinn hopaði, til dæmis var birki komið til sögunnar fyrir 9.000 árum. AUt var með kyrrum kjörum í um 3000 ár. Þá fór aftur að hitna í kolunum ofan við Reykjavíkursvæðið“.

Enn dregur til tíðinda
Við höfum rakið þá sögu, að í upphafi nútíma fyrir um 10 þúsund árum voru fjöllin umhverfis Reykjavík, hæðir sund og eyjar, svipuð útlits og nú; Mosfellsheiðin einnig, Vífilfell og Bláfjöllin. Reykjavíkurgrágrýtið hefur þá trúlega verið gróðri vafið.
En fyrir um 7.000 árum varð eldgos í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð. Hraunflóð rann þá fram með Vífilsstaðahlíð og sést vel af hinni vinsælu gönguleið inn með hlíðinni og eins af golfvelli Oddfellowfélaga í Urriðavatnslandi sem nýtur góðs af hárri og fallegri hraunbrún. Við sjáum hvar hraunstraumurinn hefur steypst fram af brekkunni við vesturbrún Vífilsstaðahlíðar og dreifst um flatlendi suður af Flatahverfi í Garðabæ og allt suður til Hafnarfjarðar, en kvísl úr þessum straumi hefur runnið suðaustur með brekkunum og út í Urriðavatn. Þetta hraun er allstaðar mjög fallegt; kjarri vaxið vestur af Vífilsstaðahlíð, en vestar og sunnar með myndrænum hraunhólum og gróðumiklum hraunbollum. Það er sem betur fer ósnert og óskemmt á allstórri spildu frá Reykjanesbraut og framan við Flatahverfi í Garðabæ. Við Engidal liggur Hafnarfjarðarvegurinn upp á hraunbrúnina, en allur „Norðurbærinn í Hafnarfirði og megnið af elzta bæjarhlutanum er byggður á þessu hrauni. Vestarlega, suður af Hrafnistu, er þó enn ósnortið afar fallegt hraun sem vonandi verður varðveitt. Sama hraun rann í áttina út á Álftanes, en sveigði síðan til norðurs og út í sjó; þar heitir Gálgahraun. Mjó kvísl úr Búrfellsgíg rann frá eldstöðinni fram með Setbergshlíð og niður í Hafnarfjörð þar sem hún hefur sameinast hrauninu norðanfrá. Brúfellshraun hefur runnið lengra til suðurs ofan Hafnarfjarðar, en þar er það hulið enn yngri hraunum.
Hraunstraumur niður í Elliðavog Þá er aðeins eftir að líta á það sem nýlega hefur gerst. Á tímum Forn-Egypta, svona fyrir 4.600 árum, varð eldur uppi á vatnaskilum austan í Bláfjöllum. Við minntumst á þetta gos í upphafi og vorum að reyna að sjá eldstöðina, sem nefnd er Leitin, af veginum í Svínahrauni. Þaðan rann Leitahraun, bæði í austurátt og út í sjó hjá Þorlákshöfn, svo og allar götur í Elliðavog. Sá hraunstraumur féll fyrst norður og er undir Svínahraunsbruna, en síðan sveigði þetta þunnfljótandi hraun til vesturs og rann út yfir Reykjavíkurgrágrýtið hjá Nýju kaffistofunni. Þaðan sveigði hraunstraumurinn eins og beljandi fljót í mjóum farvegi undan hallanum til vesturs, en dreifði nokkuð úr sér á Sandskeiði, þar sem leysingavatn hefur hulið hraunið með framburði.“
Við Þorleifur reyndum að sjá þetta fyrir okkur þar sem við sátum og sötruðum kaffið á veröndinni við Litlu Kaffistofuna. „Það er merkilegt“ sagði Þorleifur, „að þetta hraun hefur siðan runnið í örmjóum farvegi niður brekkuna hjá Lækjarbotnum, nákvæmlega á sama stað og vegurinn liggur. Brekkan sú hafði orðið til fyrir um 100 þúsund árum, þegar gos hefur orðið í Lyklafelli, smáfelli norðvestan við Sandskeið. Þar eru merki um eldstöð, en hraunið hefur runnið skammt og myndað háa hraunbrún hjá Lækjarbotnum og þaðan í norður.“
Neðan við Lækjarbotna hefur hraunið dreifst yfír grunnan slakka; yfirborð þess tiltölulega slétt undir túninu á Gunnarshólma og niður með Hólmsánni. Sunnan við veginn rísa þó nokkrir sérkennilegir hraunhólar upp úr flatneskjunni og þegar betur er að gáð, sést að þeir eru eins og kramarhús, að hluta holir að innan og jarðfræðingar nefna þá hraundrýli. Þetta eru ekki smágígar þótt svo gæti virzt. Þorleifur segir að gas sen; myndazt hafl undir hraunrennslinu, hafi leitað þarna upp og þá urðu þessar strýtur til. Þegar gasið komst í snertingu við súrefni loftsins hefur orðið til blár gaslogi og má sjá að hitinn hefur verið slíkur að hraunið á börmum strýtanna hefur bráðnað og lekið niður.
„Lítið eitt neðar hefur hið forna Elliðavatn verið“ segir Þorleifur, og þegar hraunið rann út í það varð gjallmyndun og við það urðu Rauðhólarnir til.“

Hraunstraumur eftir farvegi Elliðaánna

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

Suðurlandsvegurinn liggur á þessu hrauni ofan frá Litlu kaffistofu og þar til kemur yfir brúna á Hólmsá og síðan aftur á kafla lítið eitt norðaustan við Rauðhóla. Þetta þraun rann ekki yfir Heiðmerkurhraunin; þau eru yngri. En það er auðvelt að sjá það fyrir sér, að Suðurlandsvegurinn yrði heldur ógreiðfær ef sagan endurtæki sig. Eftir að hraunið hafði fyllt það sem Þorleifur kallar hið forna Elliðavatn, var það nægilega þunnfljótandi til þess að geta enn runnið langa leið. Það náði í slakkann þar sem farvegur Elliðaánna er og hraunstraumurinn hefur á köflum ekki verið mikið breiðari en áin er nú. Af Höfðabakkabrúnni sést vel að hraunið er þar í þröngum farvegi árinnar og með hraunreipum á langri klöpp í miðjunni. Það er síðan kunnara en frá þurfi að segja, að hraunstraumurinn hélt áfram niður farveg Elliðaánna og lengst náði hann út í Elliðavog.

Hraunrennsli eftir landnám
Síðustu 4.600 árin hefur ekki runnið hraun til Reykjavíkur, eða inn á það svæði sem nú er byggt. Aftur á móti eru enn yngri hraun í næsta nágrenni. Hólmshraun heitir það sem síðast rann yfir Heiðmörk; það yngsta frá því um landnám. Segja má að það sé rétt utan við túngarðinn. Þorleifur telur að það Elliðavatn sem við þekkjum núna, hafi fyrst orðið til við hraunstíflu sem myndaðist í þessu allra síðasta gosi ofan við Reykjavík, svo og af stíflu Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1921, þegar Elliðaárnar voru virkjaðar.
Ef við teygjum Reykjavíkursvæðið suður að Straumsvík, hefur það tvívegis gerst eftir landnám, að eldur varð uppi undir Undirhlíðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunrennslið náði inn á svæði þar sem nú er byggt, eða verið að undirbúa byggingar. Það eldra, sem menn telja að sé frá um 950, er Hellnahraun sem rann yfir Hvaleyrarhraun á mjórri spildu meðfram Hvaleyrarholti, en náði ekki alveg til sjávar. Þessi hraunrimi er eins og hraun geta orðið fegurst og myndrænust og sorgleg skammsýni er það að Hafnfirðingar eru nú að mylja þennan náttúrufjársjóð undir byggingar.
Yngsta jarðmyndunin á höfuðborgarsvæðinu segir Þorleifur Einarsson að lokum að sé líklega frá árinu 1151, þegar Kapelluhraun rann út í Straumsvík á svo mjórri spildu, að samsvarar nokkurnveginn lengd álversins. Þetta er síðasta hraunið í nánd við Reykjavík sem runnið hefur út í sjó eftir að land byggðist og hefur þá heldur betur girt fyrir samgönguleiðina á landi suður með sjó. „

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 22. nóv. 1997, Þorleifur Einasson, bls. 10-13.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Katlahraun

Jón Jónsson og Dagur Jónsson skrifuðu eftirfarandi grein um „Hraunborgir og gervigíga“ í Náttúrufræðinginn 1992:
„Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir.

Gervigígar við Helgafell
Litluborgir-207Árið 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.
Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða Litluborgir-208minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr. Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen“). Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við litluborgir-209Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns. Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

litluborgir-210Hraunborgir
Súlur afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum. Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti. Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinn-221Dropsteinar
Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. 

Katlahraun
Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar katlahraun-229rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar (6. mynd). Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg., 3.-4. tbl. 1992, bls. 145-149.

Portfolio Items