Færslur

Náttúrufræðingurinn

Í Náttúrufræðingnum 1993 fjalla feðgarnir Jón Jónsson og Dagur Jónsson um “Hraunborgir og gervigíga“.

Inngangur

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir. Flestum Íslendingum mun aftur á móti ljóst við hvað er átt þegar talað er um gervigígi og að það eru ýmislega lagaðar myndanir á hraunum, stundum með en stundum án reglulegra gígmyndana, og sem ekki eru í beinu sambandi við eldstöðina sjálfa.
Vart verður það sagt að háspennulínur og slóðir sem þeim fylgja prýði landslagið og allra síst þar sem grámosinn má heita eini gróðurinn á hraunkarga. Slík mannvirki eru þó nauðsynleg og hafa þann kost að auðvelda leið að stöðum sem kunna að vera áhugaverðir fyrir náttúrufræðinga.

Gervigígar við Helgafell

Dagur Jónsson

Dagur Jónsson.

Í sambandi við val á línustæði fyrir Búrfellslínu III 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.

Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen”).

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns. Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

Hraunborgir
Litluborgir

Myndin hér hjá sýnir hraunþak sem hvílir á súlum. Þær afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum.

Litluborgir

Litluborgir.

Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti.
Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinar
Litluborgir

Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. Hraunið er þóleít, þétt feldspatdílótt, með allt að 12-J4 díla á cm2, 2-6 mm í þvermál. Samsetning reyndist: Plagíóklas 41,1%, pýroxen 40,0%, ólivín 1,5%, málmur 12,4%. Dílar alls 11,1%.

Katlahraun

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar. Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.

Dimmuborgir

Dimmuborgir

Dimmuborgir.

Hvorugur okkar hefur skoðað Dimmuborgir að ráði og leiti maður að lýsingum á þeim eða hugmyndum um myndun þeirra verður árangurinn mjög á eina leið. Norski jarðfræðingurinn Tom F.W. Barth (1942) er líklega einn sá fyrsti sem slær því föstu að þar hafi verið um „lava lake” að ræða.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Sigurður Þórarinsson (1951) tekur upp kafla úr ritgerð Barths óbreyttan en bendir jafnframt á að hinir alþekktu Strípar við Kálfaströnd séu sams konar myndanir. Á milli þessara tveggja kemur svo Rittmann (1944) með harla frumlega en naumast raunsæja hugmynd um uppruna borganna. R.W. van Bemmelen og M.G. Rutten (1955) fjalla svo um málið og virðast vera þeir fyrstu sem fjalla sérstaklega um hvernig súlurnar hafi orðið til. Þeir telja þær vera „the result of eddies in turbulent flow of the molden lava” (hringiður í rennandi hrauni). Síðastur til að lýsa Dimmuborgum nokkuð er svo Kristján Sæmundsson (1991). Hann telur, eins og áðurnefndir höfundar, að þarna hafi hrauntjörn verið en tekur fram að „hemað hefur verið yfir hana”, en það er þýðingarmikil ábending í þessu sambandi. Ennfremur minnist hann á gas- og gufustrompa sem í tjörninni hafi verið og er þá komið nærri skýringu okkar á því hvers vegna súlurnar standa eftir þegar tjörnin tæmist. Ennfremur bendir Kristján á að Dimmuborgir séu „í ætt við gervigíga”.

Dimmuborgir

Dimmuborgir.

Á öðrum stað í sama riti kemur Árni Einarsson inn á kísilgúrleifar sem ættaðar eru úr hinu forna vatni. Með því virðist því fyrst slegið föstu að hraunið hafi runnið út í vatn. Það er nú komið nokkuð á fjórða áratug frá því að bent var á að kísilgúr innan um gjall eða í bombum gervigíga sannaði að hraunið hafi runnið í vatn (Jón Jónsson 1958) og að nokkuð mætti af þörungaflóru ráða hvers konar vatn. Síðar hefur svo verið sýnt hvernig þetta kann að gerast í gervigígum (Jón Jónsson 1990).

Sappar
Katlahraun

Í Árbók Ferðafélags íslands 1983, bls. 128, er nokkuð lýst myndunum sem gefið var þetta nafn (Jón Jónsson 1983). Það var gert til heiðurs Karli Sapper (1866-1945), en hann varð fyrstur til, svo vitað sé, að lýsa þessum sérstæðu myndunum og einmitt við austurgjá Eldborgaraða (Sapper 1908).

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Þetta má sem best nota sem fræðiheiti (term) fyrir þessar myndanir. Það tengist manninum sem fyrstur lýsti þeim og það fellur algerlega að íslensku beygingarmunstri. Sjáfur nefnir Sapper þessar myndanir „Lavapilze” (hraunsveppi), gefur lauslega upp stærð þeirra, hæð 4-5 m og þvermál 3-4 m, en lýsir þeim annars ekki ítarlega. Hann nefnir þó að þeir muni „sekundares Gehilde” og að þeir „urspriinglich hohl gewesen wáre”.
Hans Reck (1910), sem næstur er til að skoða þennan stað, er að mestu á sama máli og Sapper, kallar þetta „Lavapropfen” og „sekundares Gebilde”. Þetta tvennt, og áðurnefnd grein í Árbók Ferðafélagsins, er það eina sem kunnugt er að ritað hafi verið um þessar myndanir. Hvaðvarðar síðastnefnda grein, þá er sú lýsing sem þar er að nokkru leyti röng og að öðru óljós og líkleg til að valda misskilningi.
Það var fyrst sumarið 1991 að í ljós kom að vatn hefur verið þar undir sem sapparnir eru. Það sést af leirkenndu seti sem borist hefur upp á yfirborð með hrauninu og að því er virðist upp gegnum sappann. Í þessu seti eru kísilþörungaskeljar. Ekki verður sagt að um kísilgúr sé að ræða. Flóran er fátækleg að tegundum en fjöldi einstaklinga er umtalsverður og þykir benda til þess að vatnið hafi verið kalt, og setið gæti bent til áhrifa frá jökulvatni. Meira verður ekki um það sagt.
Katlahraun

Sapparnir koma fyrir í óreglulegum hópi um 1,5 km norðaustan við Laka. Hraunið hefur þar lagst upp að eldrigígum og myndað lítið eitt bungulaga hraunsléttu og upp úr henni standasapparnir, sem næst 100-150 m austan við gosstöðvarnar miklu frá 1783, en þá varð þriðja og síðasta stórgosið á þessari sömu línu.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Eftir að komin var um 50-70 cm þykk skorpa á hraunið hefur kvika haldið áfram að streyma inn undir hraunþakið, en vatn lokaðist undir því. Þar safnaðist fyrir gas úr hrauninu og vatnsgufa, sem að lokum náði að sprengja göt á þakið. Um þau hefur svo seigfljótandi hraunkvika stigið upp, myndað lóðrétta veggi í hring í opinu en í miðju hefur gas og vatnsgufa streymt upp, sennilega með allmiklum krafti, og rifið með sér brot úr hálf- eða alstorknuðu hrauni, sem síðan fyllir strompinn að innanverðu. Sú skoðun Recks að gas hafi hér ekki átt hlut að máli stenst því ekki. Fullkomin sönnun fyrir þessu blasir við á öðrum stað á svæðinu, en þar hefur orðið sprenging sem brotið hefur gat á hraunskorpuna, en brot úr henni liggja í hring kringum opið. Má þar skoða og mæla þykkt hraunþaksins.

Katlahraun

Sappi í Katlahrauni.

Á öðrum stað má sjá gjall- og kleprahring kringum einn sappann og má af því ráða að venjulegur gervigígur hefur þar verið undanfari þess að sappinn varð til. Urðin sem er víðast hvar kringum sappana hefur verið túlkuð, m.a. af Sapper sjálfum, sem „Lavatrummer” (grjóturð) utan af sappanum. Svo er og vissulega að hluta, en engan veginn alls staðar.

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Vera má að hraunþekjan kringum sappana hafi sigið jafnframt því sem þeir mynduðust og að það hafi þannig átt þátt í myndun þeirra.
Hér þarf nánari athugana við. Ekki verður annað séð en að lausagrjótið ofan á söppunum sé hluti af þakinu. Veggir sappanna eru 60-80 cm þykkir, þéttastir í miðju en hvergi glerjaðir, stundum með skriðrákum að utan. Sumir sappanna hallast mjög og nokkrir hafa næstum lagst á hliðina. Þetta þykir benda til þess að þeir séu meira sjálfstæð myndun og ekki svo mjög háðir hreyfingum þaksins. Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að hér er um gervimyndanir að ræða þótt ekki verði gígir kallaðir. Ennfremur að vatn hefur líka hér verið til staðar og gegnt öðru meginhlutverki.
Sapper tekur fram að sams konar myndanir hafi hann séð í hrauni við Eldgjársprunguna við Brytalæki (Sapper 1908, bls. 27) og vel má vera að þessar myndanir séu ekki jafn sjaldséðar og ætla mætti; a.m.k. fundum við einn gerðarlegan sappa sumarið 1991 í rönd Skaftáreldahrauns norðan við Galta.

Rabb og niðurstöður

Katlahraun

Katlahraun og möguleg upptök; Höfðagígar eða Moshóll.

Af þeirri upptalningu sem hér hefur verið gerð verður niðurstaðan sú að gervigígir, hraunborgir og sappar séu greinar á sama meiði. En hver er meginorsök svo mismunandi útlits þótt skilyrði sýnist hin sömu? Ekki verður hér reynt að svara því.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Mesta gervígígasvæði landsins, Landbrotshólar, virðist myndað þar sem hraun rann yfir votlendi, væntanlega með árkvíslum og lónum (Jón Jónsson 1958, 1990). Í gjallinu í Rauðhólum við Reykjavík hafa fundist stykki af kísilgúr. Borun þar sýnir að vatnið sem Leitahraun þar rann út í var ekki djúpt. Mývatn virðist aldrei hafa verið djúpt. Austan við Herdísarvík hefur hraun runnið út í sjó og þannig endar Ögmundarhraun. Á hvorugum staðnum hafa gervigígir myndast heldur hefur hraunið runnið í lokuðum rásum eftir að í sjóinn kom. Hvernig svo rásirnar enda sést ekki. Í Litluborgum eru gjall-gervigígir og hraunborgir hlið við hlið. Næsta ljóst er að það sem veldur því að hraunborgir, súlurnar, stromparnir, eða hvað sem maður vill nefna það, standa eftir þegar hrauntjörn tæmist eða í henni lækkar er að hraunið hefur náð að kólna nægilega mikið kringum lóðréttar gufurásir gegnum hraunmassann til þess að þær stóðu eftir þegar tjörnin tæmdist.”

Hvernig myndast Gervigígar?

Litluborgir

Hraunsúlur í Litluborgum.

“Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig:
Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið (þrýstingur = þykkt x eðlisþyngd x þyngdarhröðun).

Litluborgir

Litluborgir og gervigígarnir.

Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með miklum sprengingum og gervigígagos hefst.
RauðhólarGervigígar eru ekki í neinu frábrugðnir öðrum gígum í útliti ef þeir ná að gjósa nokkrum sinnum. En verði bara nokkrar sprengingar í þeim mynda þeir gjarnan hóla án gígskála. Aðal munurinn á gervigígum og öðrum gígum liggur í því að þeir fyrrnefndu hafa engar rætur, það er að segja það eru engar aðfærsluæðar (gangar) að þeim eins og í öllum öðrum gígum. Því eru þeir oftast nefndir á ensku „rootless cones“.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn. 3.-4. tbl. 01.06.1993, Hraunborgir og gervigígar, Jón Jónsson og Dagur Jónsson, bls. 145-154.
-https://skrif.hi.is/hsh12014/17-2/

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Sprunga

Ágúst Guðmundsson skrifaði um “Sprungurnar á Þingvöllum og myndun þeirra” í Náttúrfræðinginn 1986:

Sprungur

Sprungur á Þingvallasvæðinu.

Inngangur
“Sprunguþyrpingar, þ. e. belti af opnum gjám og misgengjum, eru algengar í gosbeltum hér á landi, en finnast einnig á eldvirkum svæðum erlendis. Almenn lýsing á öllum sprunguþyrpingum á Íslandi er í grein Kristjáns Sæmundssonar (1978), en ítarleg lýsing á einstöku sprungusvæði er í grein Ágústs Guðmundssonar (1980) um sprungurnar við Voga á Vatnsleysuströnd.

Hrafnagjá

Hrafnagjá ofan Voga.

Jón Jónsson (1978) hefur einnig lýst sprungunum á Reykjanesskaga. Sprunguþyrpingar hér á landi eru allt að 20 km breiðar og 100 km langar. Flestar eru þó talsvert minni að flatarmáli, og almennt eru sprunguþyrpingarnar álíka að flatarmáli og rofnar gangaþyrpingar (Walker 1974).
Á síðustu árum hafa umfangsmiklar rannsóknir farið fram á sprunguþyrpingunni við Kröflu (Axel Björnsson o. fl. 1979, Oddur Sigurðsson 1980, Torge 1981, Eysteinn Tryggvason 1980). Kröfluþyrpingin gliðnaði um nokkra metra á tímabilinu 1975-1983. Gliðnunin er talin orsakast af göngum sem troðast lárétt inn undir þyrpinguna á nokkurra kílómetra dýpi (Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir 1980, Pollard o. fl. 1983). Stundum ná þó gangarnir til yfirborðs og verða þá sprungugos. Utan Íslands hafa sprunguþyrpingarnar á Hawaii einkum verið kannaðar og virðast að flestu leyti mjög áþekkar hinum íslensku (Duffield 1975, Pollard o. fl. 1983).

Hrútagjá

Hrútagjá.

Sprunguaflfræði er vísindagrein sem hefur þróast ört á síðustu áratugum (Broek 1978). Beiting hennar í jarðfræði er þó nýtilkomin, en hefur þegar varpað ljósi á ýmsa þætti í myndun og þróun jarðsprungna sem áður voru óljósir (Rudnicki 1980). Enn er þó margt óskýrt, en aukin áhersla er nú lögð á nákvæmar mælingar og tilraunir úti í náttúrunni ásamt athugunum á tilraunastofum (Logan 1979). Slíkar nákvæmar athuganir hafa meðal annars leitt til þess að menn gera sér nú betur grein fyrir því en áður, að allar jarðsprungur eru sundurslitnar eða ósamfelldar og því ber að fjalla um þær sem slíkar (Segall og Pollard 1980).
Sprungur
Sprungurnar á Þingvöllum eru hluti af mikilli sprunguþyrpingu sem kallast Hengilsþyrpingin (Kristján Sæmundsson 1978, Eysteinn Tryggvason 1982) og nær frá Langjökli í norðri til Reykjanesskaga í suðri. Þær sprungur sem hér verður rætt um liggja norðan við Þingvallavatn í um 9000 ára gömlu helluhrauni (Guðmundur Kjartansson 1964).

Þingvellir

Almannagjá.

Oft hefur verið talið að Þingvallahraunið sé frá Skjaldbreið. Svo mun þó ekki vera, heldur er það komið úr 15 km langri gossprungu á Tindfjallaheiði, vestan við Kálfstinda, og liggur það ofan á Skjaldbreiðshrauninu (Kristján Sæmundsson 1965). Þótt Þingvallahraunið sé úr gossprungu er það dæmigert helluhraun (dyngjuhraun), beltað og tuga metra þykkt, eins og best sést í veggjum Almannagjár.
Á undanförnum árum hafa margvíslegar jarðfræðilegar og jarðeðlisfræðilegar athuganir verið gerðar á Þingvallasprungunum, og verður helstu niðurstöðum lýst hér á eftir. Meginefni greinarinnar eru þó mælingar sem höfundur gerði á nokkrum af stærri sprungunum sumarið 1981 og tilgátur um myndun og þróun þeirra.

Fyrri rannsóknir
Sprungur
Þingvallasprungurnar hafa verið kannaðar bæði jarðfræðilega og jarðeðlisfræðilega á síðustu áratugum, og er rétt að geta hér helstu rannsóknanna.

Þegar árið 1938 var gerð ítarleg könnun á Þingvallasprungunum, sem meðal annars fól í sér mælingu á samanlagðri vídd sprungna í tilteknu sniði (Bernauer 1943).

Þingvellir

Þingvellir.

Bernauer og félagar gengu yfir Þingvalladældina milli Almannagjár og Heiðargjár og mældu vídd hverrar sprungu sem þeir rákust á. Niðurstaðan var sú að vesturhluti dældarinnar, 1310 m breiður, hefði gliðnað um 41,2 m, en austurhlutinn, 2150 m breiður, hefði gliðnað um 33,85 m. Engin sprunga reyndist vera í 2,7 km breiðum miðhluta dældarinnar. Heildargliðnun 6160 m mælisniðs yfir Þingvalladældina reyndist því um 75 m, sem jafngildir 1,25%.
Kristján Sæmundsson (1965, 1967) kortlagði helstu sprungur Þingvalla sem hluta af kortlagningu Hengilsvæðisins. Í grein Kristjáns frá 1965 er yfirlit yfir allar fyrri rannsóknir á Þingvöllum, og vísast í það yfirlit um rannsóknir eldri en Bernauers (1943). Þrír rannsóknarhópar hafa á síðustu árum reynt að mæla hraða gliðnunar á Þingvöllum. Þýskur hópur mældi 1967 og 1971, en fann enga marktæka gliðnun eða samþjöppun á því tímabili (Gerke 1974). Bandarísk-íslenskur hópur mældi 1967, 1970 og 1973, og reyndist gliðnunarhraðinn 3 mm á ári tímabilið 1967-1973 (Decker o.fl. 1976). Hópurinn reyndi einnig að mæla hreyfingu samsíða Almannagjá, þ. e. hliðarhreyfingu, en engin fannst.
Sprungur
Niðurstöðurnar sýna að láréttar hreyfingar á Þingvallasvæðinu eru óreglulegar; svæðið næst Almannagjá þjappast saman en svæðið næst Hrafnagjá gliðnar, þannig að lokaniðurstaðan er gliðnun um 2 cm á ofangreindu tímabili. Enskur hópur mældi 1968-1972, 1977 og 1979. Niðurstöðurnar benda til gliðnunar í stefnu þvert á sprungustefnuna, að meðaltali um 3 mm á ári á tímabilinu 1970-1979 (Brander o. fl. 1976, R.G. Mason, munnlegar upplýsingar, 1981).
Eysteinn Tryggvason (1974) hefur mælt lóðrétta færslu eða sig á Þingvallasvæðinu. Niðurstöður hans benda til 2,5 mm sigs austurhluta dældarinnar, miðað við svæðið vestan við Almannagjá, tímabilið 1966-1971. Eysteinn (1968) áætlar mesta sigið á svæðinu 70 m og telur (1982) að breidd þess svæðis sem sígur kunni að vera meiri en breidd Þingvalladældarinnar, þannig að raunverulegur sighraði gæti verið talsvert meiri en þeir 2,5 mm hér á undan.

Stefna
Sprungur
Meðalstefna sprungnanna er N30°A, og er þá átt við línulega stefnu milli sprunguenda. Einstakar sprungur eru hlykkjóttar og víkja sums staðar talsvert frá meðalstefnu. Dæmi um slíkt er Gildruholtsgjá sem er stórt misgengi á austurhluta Þingvallasvæðisins. Gildruholtsgjá liggur í áberandi sveig þar sem misgengið um hana er mest, en þrátt fyrir það er línuleg stefna milli endanna áþekk meðalstefnu sprungna á svæðinu. Flestar sprungur á svæðinu víkja þó lítið frá meðalstefnu.

Lengd
Sprungur
Lengd sprungna er ávallt háð túlkun þar sem þær eru yfirleitt ósamfelldar (sundurslitnar) og klofnar. Í þessari grein hefur sú aðferð verið notuð að telja sem eina sprungu togsprungu eða misgengi sem rekja má óslitið á loftmyndum í mælikvarða 1:33300. Þessi kvarði var valinn til að auðvelda samanburð við sprunguþyrpinguna við Voga (Ágúst Guðmundson 1980) og til að útiloka smásprungur og stuðlasprungur sem sjást á loftmyndum í stærri mælikvarða.
Meðallengd þeirrar 101 sprungu sem mæld var er 620 m. Stysta sprungan mældist 57 m en sú lengsta 7,7 km (Almannagjá). Flestar sprungurnar eru hlutfallslega stuttar, en örfáar mjög langar. Til dæmis eru 44 sprungur styttri en 250 m og 72 styttri en 500 m. Hins vegar eru aðeins 12 sprungur lengri en 1000 m.

Vídd
Sprungur
Vídd sprungna var mæld með 25 eða 50 m millibili. Víddin er að vísu breytileg en oft mest nálægt miðri sprungunni og minnkar svo til beggja enda. Mesta vídd mældist á Hrafnagjá, 68 m. Mesta vídd Almannagjár mældist 64 m, en báðar þessar mælingar eru gerðar eftir loftmyndum. Mesta vídd úti í náttúrunni mældist á Hrafnagjá, 60 m. Þar sem sprungurnar eru víðastar hafa þær lögun langra, mjórra sigspildna.

Lóðrétt færsla

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Allar stórar sprungur á Þingvallasvæðinu eru að hluta til siggengi, og margar af smærri sprungunum hafa mælanlega lóðrétta færslu í einstökum mælipunktum. Siggengisveggirnir eru venjulega því sem næst lóðréttir. Sum siggengin eru lokuð, en önnur eru opnar gjár. Sums staðar eru þau því sem næst bein, en annars staðar hlykkjótt. Lóðrétt færsla mældist mest 28 m í einum punkti við Almannagjá, og er þá átt við brúnir misgengisveggjanna. Þar sem austurveggurinn stendur 10 til 20 m hærra en landið rétt austan við hann er heildarsigið um Almannagjá mest um 40 m (Kristján Sæmundsson 1965). Þar sem mælilína Eysteins Tryggvasonar (1974) liggur yfir Almannagjá er sigið 30-35 m, og er þá áttvið brún misgengisins að vestan og lægstu stöðu lands rétt austan við eystri misgengisbrúnina. Sigið um Gildruholtsgjá er 25 m í mörgum mælipunktum nálægt miðju hennar. Mesta sig um flest misgengin er þó aðeins nokkrir metrar.

Almannagjá og Hrafnagjá
Almannagjá og Hrafnagjá eru meginsprungur Þingvallasvæðisins og eru jafnframt þau misgengi sem mynda Þingvalladældina, þ. e. sigdalinn. Báðar eru sprungurnar siggengi, en útlit þeirra er samt talsvert mismunandi. Hér á eftir fer lýsing á þessum sprungum.

Almannagjá

Almannagjá

Almannagjá.

Til samans mynda Hestagjá, Almannagjá, Stekkjargjá, Hvannagjá og nokkrar smærri sprungur 7,7 km langa sprungu sem hér verður einu nafni nefnd Almannagjá. Gjáin er víðust 64 m. Sprungurnar sem til samans mynda Almannagjá hafa upphaflega verið hliðraðar, með nokkuð breytilega stefnu, en síðan vaxið saman í brotahrinum.

Þingvellir

Þingvellir – Almanngjá.

Hlutarnir sem tengja sprungurnar saman víkja víða nokkuð frá meðalstefnu Almannagjár og eru oft tengdir smásprungum. Fyrst hefur Almannagjá komið fram á yfirborðinu sem belti af hliðruðum sprungum, en þær síðan sameinast við aukna gliðnun á svæðinu.
Í suðri gengur Almannagjá yfir í röð af skástígum sprungum. Sprungurnar sjálfar hafa áþekka stefnu og meðalstefna Almannagjár, en til samans mynda þær belti sem víkur talsvert frá stefnu hennar. Þetta bendir til þess að undir þessu belti af skástígum sprungum sé eldra misgengi sem ákvarði staðsetningu og stefnu sprungubeltisins, en sprungurnar sjálfar opnist í stefnu mestu togspennu. Sums staðar er Almannagjá klofin upp í nokkrar meira og minna samsíða sprungur. Í sumum tilfellum hefur landspildan milli sprungnanna sigið nokkra metra, en í öðrum tillfellum ekki. Flestar þær sprungur sem mynda Almannagjá eru mjóar sigspildur, sem hafa orðið til við það að landræman milli samsíða sprungna hefur sigið. Þótt Almannagjá sé siggengi er hún því einnig gapandi gjá.

Hrafnagjá
Hrafnagjá
Innan Þingvallahrauns er Hrafnagjá ekki nema um 4,4 km að lengd og sker móbergsfjallið Arnarfell. Ef þessi suðurhluti er talinn með, svo og belti af smásprungum norðan víð gjána, er hún yfir 11 km löng. Mesta vídd er 68 m, sem jafnframt er mesta vídd í einum mælipunkti á svæðinu. Víddin er þó mjög breytileg, eða allt niður undir 0 m, en sigið, miðað við brúnir sprunguveggjanna, er nokkuð jafnt langs eftir gjánni; yfirleitt 5-10 m og mest um 20 m.

Hrafnagjá

Hrafnagjá við Þingvelli.

Ef miðað er við lægstu stöðu landsrétt vestan við Hrafnagjá og austurbrún gjárinnar er sigið þó meira, til dæmis um 30 m þar sem mælilína Eysteins Tryggvasonar (1968) liggur yfir gjána.
Hrafnagjá er samsett af mörgum skástígum, ílöngum sigspildum sem eru að hluta til samvaxnar. Í þversniði líkjast þessar sigspildur helst U-laga dal, öfugt við Almannagjá þar sem sigspildurnar hafa rétthyrnt þversnið. Sigspildur Hrafnagjár eru grunnar miðað við sigspildur Almannagjár.
Í suðri liggur Hrafnagjá fyrst í gegnum Arnarfell, en endar síðan í Þingvallavatni. Nálægt suðurendanum klofnar hún upp í margar samsíða sprungur, ekki þó skástígar. Í norðri víkkar sprungan, grynnist og breytist síðan í belti af smásprungum, svo litlum að vart eru greinanlegar á loftmyndum. Eins og við Almannagjá er mesta sigið ekki um Hrafnagjá sjálfa heldur nokkuð vestan við vestari sprungubarminn. Af þessu er ljóst að landið við bæði Hrafnagjá og Almannagjá hefur svignað nokkuð áður en sprungurnar mynduðust.

Dýpi
SprungurAllar togsprungur og siggengi hafa svo til lóðrétta veggi við yfirborð. Af þessu má álykta að allar sprungur á Þingvallasvæðinu séu myndaðar við togspennu nálægt yfirborði. Spennuástand í jarðskorpunni ræður því að á ákveðnu dýpi fá siggengin eðlilegan halla, sem er um 70° frá láréttu á rofnum blágrýtissvæðum hér á landi (Ágúst Guðmundsson 1984a) og svipaður annars staðar (Price 1966). Dýpi togsprungna og lóðrétts hluta siggengja má áætla með reikningum. Ef togsprungur ná ákveðnu dýpi breytast þær í siggengi með mælanlega lóðrétta færslu á yfirborði.

Myndun
Hér verða ræddar tvær tilgátur um myndun sprungna á Þingvöllum. Í fyrri tilgátunni eru gangar taldir valda sprungunum, nema þeim stærstu sem eru beint tengdar plötuhniki. Í síðari tilgátunni er sprungumyndun og sig tengt þrýstingsbreytingum í kvikuþró undir Hengilsþyrpingunni.

Gangainnskot

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson skoðar berggang undir Lyngfelli við Festarfjall.

Þessi tilgáta gerir ráð fyrir að stóru misgengin, svo sem Hrafnagjá og Almannagjá, séu mynduð við plötuhreyfingar, en að smærri misgengi og togsprungur séu af völdum ganga sem ekki ná yfirborði. Plötuhreyfingar, og tengsl þeirra við jarðhnik, hafa verið svo mikið ræddar á síðustu árum að ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um þær hér.

Festarfjall

“Festin” í Festarfjalli.

Þegar kvika í gangi nálgast yfirborðið, minnkar yfirþrýstingur hennar yfirleitt þar sem eðlismassi basalkviku er venjulega hærri en eðlismassi efsta hluta skorpunnar. Athuganir benda til þess að þegar kvika í sprungu nálgast yfirborðið þá sé sprunguendinn í það minnsta nokkrum tugum metra á undan kvikunni (Macdonald 1972 s. 15). Þótt kvika gangsins stoppi tugum eða hundruðum metra neðan við yfirborðið getur gangurinn samt þróað sprungu til yfirborðsins. Einnig hjálpar til að á virkum svæðum er oft togspenna ríkjandi í efsta hluta skorpunnar (Scháfer 1979), ef til vill vegna kólnunar skorpunnar. Þá þarf sáralítinn yfirþrýsting kviku til að þróa sprungu til yfirborðs, þótt eðlismassi kvikunnar sé of hár til þess að hún nái að lyfta sér til yfirborðs.
Gangakenningin um uppruna sprungnanna skýrir hvers vegna slíkar sprungur finnast innan sigdala eins og Þingvalladældarinnar. Sprungurnar eru myndaðar við togspennu, en vegna þess að siggengin sem afmarka sigdalinn eru virk, einangra þau dalinn frá togspennusviði utan við hann. Togspenna utan við dalinn leiðir einungis til frekari sigs um siggengin, en getur ekki myndað togsprungur innan við þau. Togspennan sem myndar sprungurnar í sigdalnum sjálfum verður því að myndast innan við stóru siggengin, og auðvelt er að skýra slíkt togspennusvið með gangainnskotum.

Gangakenningin skýrir einnig hvers vegna sprungurnar eru svo stuttar sem raun ber vitni. Ef togspenna orkaði á gosbeltið í heild, og hún væri nægilega mikil til þess að mynda tuga metra breiðar sprungur, mætti búast við því að sprungurnar yrðu tuga kílómetra langar, þ. e. næðu langs eftir því gosbelti sem þær tilheyrðu. Svo er ekki, og er það auðskýrt ef gangar valda sprungunum, því þá deyr togspennan út við lárétta enda ganganna, þannig að yfirborðssprungur verða ekki lengri en þeir gangar sem mynda þær.

Háibjalli

Háibjalli.

Ýmsir annmarkar eru þó á gangakenningunni og skal hér getið um þá helstu, án þess að ræða þá ítarlega.
1) Margt bendir til að sömu sprungurnar séu virkar í langan tíma og að Þingvallasprungurnar séu bara yngstu hreyfingar á gömlum sprungum. Ef svo er, þá geta einstakir gangar varla skýrt sprungurnar.
2) Gangakenningin skýrir ekki sigið um sprungurnar, þ.e. myndun sigdalsins. Sigið er þó unnt að skýra með plötuhreyfingum og/eða þrýstingsbreytingu í kvikulagi undir svæðinu.

Þrýstingsbreytingar
SprungurÞessi tilgáta gerir ráð fyrir að undir Hengilsþyrpingunni, sem og öðrum virkum eldstöðvakerfum á Íslandi, sé kvikuþró sem sé álíka löng og þyrpingin sjálf. Þessi kvikuþró er hluti af kvikulaginu undir gosbeltinu á þessu svæði (Gylfi Páll Hersir o. fl. 1984). Rétt er að undirstrika að hér er gerður greinarmunur á kvikuþró, sem staðsett er í kvikulaginu á 8—10 km dýpi, og kvikuhólfi, sem staðsett er í skorpunni á 1—3 km dýpi eða minna, líkt og undir Kröflusvæðinu (Ágúst Guðmundsson 1984).

Þingvellir

Gjár á Þingvöllum.

Þegar ísa tók að leysa fyrir um 14000 árum flæddi kvika undir landið, og þá einkum undir gosbeltin þar sem skorpan er þynnst. Landið reis því mest í gosbeltunum, og opnuðust þá bæði gamlar og nýjar sprungur. Samtímis urðu dyngjugos og sprungugos, og eitt þeirra var gosið sem myndaði Þingvallahraun fyrir um 9000 árum.
Nokkru eftir að Þingvallahraun rann náði landlyftingin á Þingvallasvæðinu hámarki og mynduðust þá Þingvallasprungurnar. Til samanburðar má geta þess að strönd Íslands mun almennt hafa legið utar en nú á tímabilinu 9000-3000 og landið mun hafa verið fullrisið fyrir um 5000 árum (Þorleifur Einarsson 1968). Af þessu má álykta að Þingvallasvæðið hafi haldið áfram að rísa í nokkurn tíma eftir að Þingvallahraun rann, sem skýrir myndun sprungnanna.
Sprungur
Eftir að landið er fullrisið minnkar aðstreymi nýrrar kviku verulega (hættir jafnvel um tíma), og gosvirkni Hengilsþyrpingarinnar færist nær miðju hennar þar sem skorpan er þynnst.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Kvikan í þrónni tekur því að flæða frá endunum inn að miðju, sem leiðir til þrýstingsminnkunar við endana og landsigs. Sigið verður jafnan um þær sprungur sem þegar voru myndaðar, einkum um Almannagjá, Hrafnagjá, Gildruholtsgjá og Heiðargjá. Síðustu árþúsundin hefur því sig verið ríkjandi á Þingvallasvæðinu, en innan dældarinnar mun gliðnunin aðallega hafa orðið fyrir þann tíma, þ. e. meðan landið var að rísa.
Hér á undan er hugmyndin um þrýstingsbreytingar í kvikuþrónni undir Hengilsþyrpingunni það almennt orðuð að erfitt er að benda á einstök atriði sem hún skýrir illa eða ekki. Þó er ljóst að einhver gliðnun hlýtur að hafa orðið á Þingvallasvæðinu síðustu árþúsundin, ella gæti sigdalurinn ekki sigið. En sú gliðnun hefur einungis orðið um stóru siggengin sem mynda sigdalinn, en ekki um sprungurnar inni í dalnum. Eðlilegast er að tengja þessa gliðnun við plötuhreyfingar eða þyngdarskrið (Ágúst Guðmundsson 1984).

Þróun og vöxtur

Sprungur

Hraunsprungur þykja jafnan áhugaverðar til skoðunar.

Af lýsingu á sprungunum er ljóst að þær hafa vaxið saman úr smærri sprungum. Vöxtur sprungna virðist yfirleitt gerast með þessum hætti, og á það jafnt við um örsprungur (Broek 1978) og sprungur sem eru margir kílómetrar að lengd (Segall og Pollard 1980). Líklegt er að Þingvallasprungurnar hafi fyrst opnast um stuðlasprungur í hrauninu, því þar er hraunið veikast.

Sundhnúkahraun

Sprungur í eldra Sundhnúkahrauni.

Hlutfallslega stuttar sprungur eru mun algengari en langar sprungur. Ástæður fyrir þessu eru eftirfarandi:
1) Ef gangar mynda sprungurnar þá ná þeir mishátt upp í skorpuna (yfirborð hvers gangs er á mismiklu dýpi) og því opnast sprunga bara á vissum svæðum. Þetta þýðir að sprunga sem annars væri samfelld og löng er slitin sundur í margar smásprungur.
2) Togstyrkur hraunsins er breytilegur, einkum vegna breytilegrar niðurröðunar og dreifingar á stuðlasprungum. Þegar sprunga vex lárétt verður hún að yfirvinna togstyrk bergsins, og því opnast hún greiðlegast þar sem togstyrkur er lægstur, en síður eða alls ekki þar sem togstyrkur er hár. Margar sprungur ná því ekki að vaxa saman í lengri sprungur.
3) Einnig hefur verið bent á (Nur 1982, Segall og Pollard 1983) að vöxtur einnar langrar sprungu hindri vöxt
margra stuttra. Ein löng sprunga léttir svo mikilli togspennu af svæðinu að vöxtur sprungna í grenndinni stöðvast. Smáar sprungur í grenndinni ná því ekki að vaxa saman í stórar sprungur.

Hliðrun

Almannagjá.

Almannagjá.

Hliðraðar, stundum skástígar og samsíða sprungur eru algengar á Þingvöllum. Sumar af stóru sprungunum, svo sem Almannagjá, greinast í margar smásprungur við endana, og minna þannig á „árfarvegi”. Kvíslóttir „árfarvegir” af þessu tæi eru algengir á yfirborði örsprungna og er vöxtur sprungunnar ávallt „niðurstreymis” (Broek 1978). Samkvæmt þessu hefur Almannagjá vaxið frá norðaustri til suðvesturs, sem er í samræmi við það að síðasta meiriháttar sig um gjána var syðst á henni, þar sem hún mætir Þingvallavatni. Þar seig landið um 0,6 m í jarðskjálftum 1789 (Kristján Sæmundsson 1965). Lawn og Wilshaw (1975) benda á þrjár mögulegar skýringar á hliðrun örsprungna og ættu þær að eiga jafnt við um jarðsprungur. Í fyrsta lagi kann sprungan, þegar hún er að þróast, að verða fyrir staðbundinni truflun við endann. Fyrir Þingvallasprungurnar gæti slík staðbundin truflun verið fólgin í breytilegri niðurröðun stuðlasprungna, breytingu á gerð bergsins undir Þingvallahrauninu, eða í brotalínum í berginu undir sem hafa aðra stefnu en sprungan sjálf. Sprungan hefur þá tilhneigingu til að klofna í margar samsíða sprungur eins og best sést við suðurenda Almannagjár og suðurenda Hrafnagjár.

Sprunga

Hraunsprunga á Þingvöllum.

Í öðru lagi benda þeir á að sprungan kunni að myndast við samvöxt smærri sprungna sem upphaflega eru hliðraðar. Þetta er að mínu áliti algengasta ástæðan fyrir hliðrun sprungna í sprunguþyrpingum hér á landi.
Í þriðja lagi geta sprungur sem þróast mjög hratt, þ.e. nálgast hljóðhraðann, klofnað vegna snöggra breytinga á spennusviðinu við endana. Þessi skýring mun vart eiga við um Þingvallasprungurnar því þær eru myndaðar á löngum tíma og hafa því þróast mjög hægt.
Sú hugmynd um vöxt sprungnanna sem sett er fram í þessari grein er sú sama og önnur skýring Lawn Wilshaw (1975) hér að ofan. Upphaflegu sprungurnar eru hliðraðar vegna þess að togspennan nær að brjóta bergið samtímis á mörgum stöðum innan þess beltis þar sem há togspenna er ríkjandi og þar sem endanlega sprungan kemur til með að liggja. Þegar gliðnunin vex innan þessa beltis sameinast sprungurnar í eina meginsprungu. Sums staðar á Þingvallasvæðinu er þessi sameining langt á veg komin eða þegar lokið, en annars staðar, svo sem í framhaldi af Sleðaásgjá, er hún skammt á veg komin.

Niðurstöður

Sprungur

Gjár á Þingvöllum.

Helstu niðurstöður greinarinnar eru þessar:
1) Meðalstefna sprungnanna er N30° A.
2) Meðallengd um 100 sprungna er 620 m, minnsta lengd 57 m og mesta lengd 7,7 km (Almannagjá).

Þingvellir

Sprungur (gjár) á Þingvöllum.

3) Mesta vídd er 68 m á Hrafnagjá, en þar á eftir kemur Almannagjá með mestu vídd 64 m.
4) Mesta lóðrétta færslan (sigið) er 28 m á Almannagjá og þá átt við sigið miðað við brúnir sprunguveggjanna. Sé miðað við landið rétt austan við Almannagjá er mesta sigið um 40 m.
5) Allar stóru sprungurnar eru myndaðar við samvöxt smærri sprungna sem upphaflega voru hliðraðar og stundum skástígar.
6) Tvær tilgátur eru settar fram sem skýring á tilurð sprungnanna. Fyrri tilgátan reiknar með að gangar sem ekki ná að brjóta sér leið til yfirborðs, valdi togspennu á yfirborðinu sem leiði til sprungumyndunar. Í þessari tilgátu er þó gert ráð fyrir að stærstu sprungurnar (svo sem Almannagjá og Hrafnagjá) séu tengdar reki á gosbeltunum.
Seinni tilgátan tengir sprungumyndunina og sigið á Þingvallasvæðinu við þrýstingsbreytingar í kvikuþrónni undir Hengilsþyrpingunni.”

Framangreind lýsing á sprungunum á Þingvallasvæðinu gæti jafnframt átt við önnur sprungu- og misgengissvæði á Reykjanesskaganum.

Í Náttúrfræðingnum árið 1983 skrifar Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, um “Hálfrar aldar þögn um merka athugun“.

Sprungur

Hraunsprunga.

“Einhvers staðar í ritum sínum segir Helgi Péturss, að ekki sé nóg að gera uppgötvun, heldur þurfi aðrir líka að uppgötva að uppgötvun hafi verið gerð. Hér skal getið um eitt slíkt tilfelli, þar sem mér og fleirum hefur sést yfir snjalla ályktun um eldvirkni á Reykjanesskaga.

Guðmundur G. Bárðarson

Guðmundur G. Bárðarson.

Síðustu æviár sín vann Guðmundur G. Bárðarson að jarðfræðirannsóknum þar, en féll frá í miðju verki. Hálfkarað handrit af jarðfræðikorti (í vörslu Náttúrufræðistofnunar) er til frá hans hendi og auk þess nokkrar prentaðar ritgerðir og greinar í blöðum um Reykjanesskagann. Á „18. Skandinaviske Naturforskermöde” í Kaupmannahöfn 1929 lagði Guðmundur kortið fram og flutti um það erindi, sem seinna var prentað í skýrslu fundarins undir heitinu „Geologisk Kort over Reykjanes-Halvöen” (Guðmundur G. Bárðarson 1929). Þar er höfundi ljós aldursmunur dyngjuhrauna og sprunguhrauna og fjallar niðurlag greinarinnar um sprunguhraunin undir yfirskriftinni „De yngste Lavadœkker”. Í lýsingu sinni á sprungugosunum aðgreinir Guðmundur fjögur belti (Vulkanbælter) sem hann gerir síðan nánari grein fyrir. Belti þessi svara nákvæmlega til eldstöðvakerfanna, sem við yngri mennirnir höfum verið að vekja máls á næstliðinn áratug. Beltin sem Guðmundur aðgreinir á Reykjanesskaga ná (1) frá Reykjanesi norðaustur fyrir Grindavík. – (2) Yfir Vesturháls og Austurháls. Nefnt er, að hverirnir í Mosfellssveit séu í norðaustur fram

Sprunga

Hraunsprunga á Þingvöllum.

Seinni höfundar, sem lýstu jarðfræði skagans, virðast ekki hafa haft sama skilning á aðskiljanlegum eldvirknibeltum. Svo er t.d. um Kuthan (1943), sem gekk þó fram úr hófi langt í túlkun sinni á jarðfræði Reykjanesskaga. Skipan eldsprungna, gjásvæða og móbergshryggja fangar þó augað strax og litið er á kort hans. Sama gildir um jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar (1960).

Ágúst Guðmundsson

Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur.

Sjálfur vakti ég upp hugmyndina um stórar einingar í gosbeltinu þ.á.m. á Reykjanesskaga kringum 1970 (Kristján Sæmundsson 1971) og hélt þá í barnaskap mínum að ég væri að benda á eitthvað nýtt. Veifaði ég á fundi í Jarðfræðafélagi Íslands korti Kuthans og jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar framan í viðstadda félagsmenn til að þeir mættu sjá einingar þessar ljóslifandi á eldri kortum þótt enginn hefði bent sérstaklega á þær fyrr. Hefði ég þá betur verið búinn að lesa grein Guðmundar G. Bárðarsonar, því hann hafði sagt 40 árum fyrr aðalinntakið í því, sem ég var að boða kollegum mínum á þessum fundi.
Það kom fljótlega fram, að fleiri jarðfræðingar lögðu sama skilning í byggingu Reykjanesskagans og raunar landsins alls (Eysteinn Tryggvason 1973, G. P. L. Walker 1975, Sveinn Jakobsson o. fl. 1978).
Almennt er nú farið að kalla einingar þessar eldstöðvakerfi, en það er bein þýðing á „volcanic system” sem ameríkumenn nota um sömu fyrirbæri. Amerískur jarðfræðingur, J. G. Moore, benti hérlendum á enska heitið og er það fyrst notað af Sveini Jakobssyni (1979) og í sérhefti Jökuls um jarðfræði Íslands (1979).

Eldgos

Eldgos í Eldvörpum fyrrum.

Eldstöðvakerfin eru í mörgum tilfellum saman sett af einni megineldstöð og gossprungum og gjám sem liggja í gegnum hana. Megineldstöð er þýðing á ensku „central volcano” og mun fyrst koma fyrir hjá Þorleifi Einarssyni í 1. útg. jarðfræðibókar hans (1968). Bæði þessi orð voru innleidd um rofin eldfjöll í tertíera bergstaflanum. Í rofnum bergstafla koma gossprungur og gjár fram sem berggangar. Gangasveimur var það kallað er margir gangar lágu því sem næst í sömu stefnu út frá megineldstöð og mynduðu aflanga heild. Orðið kemur einnig fyrst fyrir hjá Þorleifi í áður tilvitnaðri jarðfræðibók (1968). Það er bein þýðing á ensku „dyke swarm”.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson.

Þegar farið var að draga fram hliðstæður í virku gosbeltunum voru þessi heiti yfirfærð með þeirri breytingu einni, að í stað gangasveims var talað um sprungusveim (fissure swarm) (Kristján Sæmundsson 1971). Hliðstæð fyrirbæri við eldstöðvakerfin í virku gliðnunarbeltunum hér á landi eru eldstöðvakerfin á Hawaii. Þar heitir megineldstöðin „shield volcano” en sprungusveimurinn „rift zone”. Íslensk þýðing á shield volcano er eiginlega ekki til*, en um „rift zone” hefur verið haft orðið gjástykki (Kristján Sæmundsson 1979). Bæði ensku og íslensku heitin hafa hér þrengri merkingu en felst í orðunum megineldstöð (central volcano) og sprungusveimur (fissure swarm).
Margir eru þeir sem ekki fella sig við orðið sveimur, og því mjög á reiki hvað einstakir höfundar nefna þessi fyrirbæri á íslensku. Um þetta hafa sést á prenti eftirtalin orð: þyrping (Sveinn Jakobsson 1979b, Ari T. Guðmundsson 1982), belti (Oddur Sigurðsson 1976), belti eða rein (Freyr Þórarinsson o. fl. 1976), kerfi (Guðmundur E. Sigvaldason 1982, Guðrún Larsen, 1982), stykki (Axel Björnsson, í fyrirlestrum). Sjálfum er mér tamast að nota orðið sveimur og sama gera þeir Sigurður Þórarinsson, Sigurður Steinþórsson og Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarsson í ritgerðum sínum á 2. útg. af Náttúru Íslands (1981).

Reykjanes

Jarðfræði Reykjanesskaga – sveimar.

Orðin sveimur og þyrping missa að nokkru marks, vegna þess að þau gefa ekki til kynna að regla sé í dreifingu sprungnanna. Það undirstrika hins vegar orðin belti og kerfi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvert af þessum orðum sé skárst.
Framar í þessum greinarstúf var þess getið að sá maður sem fyrstur kom auga á og lýsti eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga hafi verið Guðmundur G. Bárðarson. Notaði hann um þau orðið belti. Eitt framantaldra orða var haft til að lýsa skyldu fyrirbæri rúmum þremur öldum fyrr: „Frá Eldeyjum og Geirfuglaskeri grynnra og nyrðra skal telja 7 smásker og sést hvert frá öðru á sömu rein rétt í haf frá Reykjanesi”. Þannig komst Jón lærði að orði í riti sínu „Ein stutt undirrjetting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur” (tilvitnað eftir útg. Halldórs Hermannssonar 1924). Kannske er þar komið heitið, sem allir hefðu getað fellt sig við.”

Ágúst Guðmundsson skrifar um “Innskotatíðni kvikuhólfa og gostíðni eldstöðvakerfa” í Náttúrfræðinginn árið 1989. Þar segir hann m.a. um skammtíma gosstíðni:

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

“Reykjanesskagi er það svæði hér á landi þar sem fjöldi gosa á nútíma er hvað best þekktur (Jón Jónsson 1978, 1983, 1984, 1985). Samkvæmt gögnum Jóns Jónssonar (1978, 1984) hafa þar orðið um 200 gos á síðustu 10-12 þúsund árum. Þessi gos hafa deilst á fjögur eldstöðvakerfi sem til samans eru 35 km að breidd. Fyrir svo langt tímabil er stuðull togspennumögnunar (k) á bilinu 1,0-3,0.

Eldgos

Eldgos í Merardölum 2023.

Ef gert er ráð fyrir að Reykjanesskaginn taki á sig allt rekið og að allir gangar nái yfirborði (séu gosgangar) ættu að verða 0,8-2,4 gos (háð stærð k) á hverjum 100 árum. Á 12 þúsund árum ættu því að hafa orðið 96-288 gos á Reykjanesskaga, sem er í góðu samræmi við töluna 200 hér á undan. Þótt niðurstöður þessara reikninga falli tiltölulega vel að áætluðum fjölda gosa á Reykjanesskaga, er óvissan í reikningunum mikil. Rekhraðinn og gildin á k eru sennilega nærri lagi, en það er hins vegar ekki eins víst að gera megi ráð fyrir að allir gangar á svo löngu tímabili hafi náð til yfirborðs. Á móti kemur þó að ef hærri talan, 288 gos, er nálægt raunverulegum fjölda ganga á þessu tímabili, hefur allt að þriðjungur þeirra ekki náð yfirborði og ofangreind forsenda því óþörf. Vera kann að allir eða langflestir gangar hafi náð yfirborði á fyrri hluta nútíma þegar hraunaframleiðsla var mest á skaganum (Ágúst Guðmundsson 1986), en að hlutur hreinna innskota hafi farið vaxandi síðustu árþúsundin samtímis því sem hraunaframleiðslan hefur minnkað.

Nútímahraun

Nútímahraun á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hafa sumar gossprungur og margar dyngjur myndast utan hinna eiginlegu eldstöðvakerfa (Ágúst Guðmundsson 1986), þannig að samanlögð vídd eldstöðvakerfa á skaganum er ef til vill ekki fullkominn mælikvarði á breidd þess svæðis sem verður fyrir togstreitu. Frávikin eru þó varla veruleg og þegar breiddin er orðin yfir 30 km þá hefur frekari aukning á breidd lítil áhrif á gostíðni.
Þrátt fyrir þessa varnagla, verður að telja að líkanið gefi allgóða mynd af gostíðni á Reykjanesskaga á nútíma.”

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um Eldgos á Reykjanesskaga á sögulegum tíma í Náttúrufræðinginn 1983. Greinina má lesa HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn 1. tbl. 01.04.1986, Sprungurnar á Þingvöllum og myndun þeirra, Ágúst Guðmundsson, bls. 1-18.
-Náttúrfræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1989, Innskotatíðni kvikuhólfa og gostíðni eldstöðvakerfa, Ágúst Guðmundsson, bls. 49.

Eldgos

Eldgos á Havaii.

Litluborgir

Í nágrenni Helgafells, sem í dag er orðið aðdráttarafl fyrir göngufólk í auknum mæli, er fjölmargt að skoða, s.s. Kaldárbotna, Helgadal, Valaból, Valahnúka, Húsfell, Litluborgir og Gvendarselshæðargígaröðina, svo eitthvað sé nefnt. Flest göngufólkið virðist þó hafa það að markmiði að ganga á fellið, njóta útsýnisins og þramma síðan umhugsunarlaust til baka. Þó eru þeir/þau til er vilja gefa sér tíma og njóta njóta allra dásemdanna, sem fellið og umhverfi þess hefur upp á bjóða…

-Kaldárbotnar

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar.

Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Síðar var farið að leiða vatn í hús.

KaldárbotnarNeysluvatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950 og fullnægir hún enn vatnsþörf bæjarins.

Rétt vestan við Búrfellsgíginn, í hrauntröðunum, sem frá honum liggja, er misgengi er nemur um 2 m og snýr eins og hin tvö þ. e. að vesturbarmur sprungunnar er lægri.
Búrfell sjálft er brotið um þvert af misgengissprungu, sem liggur um Helgadal, Kaldárbotna, Gvendarselshæð og Undirhlíðar.

Misgengi þetta er víða (1—8 m og sums staðar 10 m eða þar yfir. Austurhlíð sprungunnar er hér aítur lægri. Það er þessi sprunga, sem Kaldá raunverulega kemur úr. Þetta misgengi er augljóslega yngra en Búrfell og Búrfellshraunið eins og aðalmisgengið um Hjalla.
Það er athyglisvert að um 1,5—2 km sunnan við Kaldárbotna, en þar er vatnsból Hafnarfjarðar, heldur þessi sama sprunga gosið hrauni. Það hraun er hið yngsta þar í grennd.

Sjá meira um Kaldárbotna HÉR  og HÉR.

-Vatnsveitan

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Misgengið í Helgadal – Búrfell fjærGráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þótt leiðslan sé löngu aflögð og að mestu horfin má enn sjá undirhleðsluna frá Lækjarbotnum yfir að ofanverðri Sléttuhlíð.

Lækjarbotnar

Inntakið í Lækjarbotnum.

„Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan sleppt við suðurenda Setbergshlíðar [Setbergshlíð endar við Þverhlíð, hér á því að standa „Sléttuhlíðar“] þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.“

Sjá meira um Vatnsveituna úr Kaldárbotnum HÉR og HÉR.

-Helgadalur

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Helgadalur ofan við Kaldársel var lengi vinsæll staður fyrir skátamót. Strax árið 1938 héldu Hraunbúar Vormót sitt þar en fyrsta Vormótið var haldið í Kaldárseli árið áður.

Helgadalur

Helgadalur – skátamót.

Kaldársel var einnig vinsæll útilegustaðir og komu skátar t.d. úr Reykjavík oft þangað, ekki síst skátar sr. Friðriks Friðrikssonar í Væringjum.

Síðasta Vormót Hraunbúa var haldið í Helgadal árið 1963. Var svæðið þá skilgreint sem vatnsverndarsvæði og síðar lokað af. Bæjaryfirvöld virðast, í seinni tíð, vera meira annt um að loka af svæðinu en að bæta aðgengi að því.

Göngufólk gengur gjarnan um Helgadal á leið í Valaból – eftir gömlu Selvogsgötunni. Þegar komið er niður í dalinn, þar sem vatnsverndargirðingunni sleppir, má sjá inn í dalinn til hægri; fallega tjörn umlukta runnagróðri og misgengisvegg með mosavaxna Kaldárhnúka í bakgrunni.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið er í Helgadal sést vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, í ofanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Í Árbókinni 1908 fjallar Brynjúlfur Jónsson um „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“; annars vegar í Gullbringusýslu og hins vegar í Skúlatúni. Þar fjallar hann bæði um tóftir í Skúlatúni og í Helgadal.
„Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Sculastatun; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þenna stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið.
Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þennan stað, og fór eg þangað í sumar…

Sjá meira um Helgadal og Helgardalshella HÉR, HÉR og HÉR.

-Valaból

Valaból

Valaból.

Þegar við erum vel hálfnuð með gönguna komum við að trjálundi nokkrum, þokkalega stórum. Er það Valaból. Hefur það stundum verið nefnt fyrsta farfuglaheimili okkar Íslendingar. Farfuglar hófu þarna uppbyggingu fyrir miðja síðustu öld. Fyrst var reyndar staðurinn kallaður Músarhellir. Þar var hellisskúti sem Farfuglar mokuðu út úr. Þeir girtu svo af svæðið og hófu þar ræktun með þessum líka góða árangri. Í dag er bólið orðið af fallegum gróðurreit í annars gróðursnauðu umhverfi.

Sjá meira um Valaból HÉR.

-Valahnúkar

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér. Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.“

Sjá meira um tröllin á Valahnúkum HÉR.

-Litluborgir

Litluborgir

Litluborgir.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Litluborgir

Litluborgir – Gervigígur.

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.

Sjá meira um Litluborgir HÉR.

-Helgafell

Helgafell

Helgafell.

Helgafell ofanvið Hafnarfjörð er 340 m hátt. Ein sjö samnefnd fell eru til í landinu; þetta suðaustur af Hafnarfirði, ofan Kaldárbotna, klettótt og bratt á flesta vegu, í Mosfellssveit, fjall og bær sem sama nafni, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan (einnig samnefndur kirkjustaður), hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar, fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).

Ýmsar leiðir liggja um Helgafell. Auðveldasta uppgangan er að norðvestanverðu. Efst á vestanverðu fellinu er móbergskletturinn “Riddari” og neðan hans til suðvesturs er klettaborg; “Kastali”.
Hugsanlega er nafnið “Riddarinn” tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Nú er og helgiblær á Helgafellinu ofan við Hafnarfjörð eftir að fólk frá KFUMogK í Kaldárseli reisti trékross á Kaldárhnúkum vestari.

Helgafell

Helgafell – krossinn.

„Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Nafnið Helgafell gæti vísað til helgi á fjallinu til forna. Þar uppi er varða. Vísir menn á borð við Þórarinn Þórarinsson arkitekt hafa tengt saman vörður á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur á kort, t.d. á Helgafelli, Ásfelli og Sandfelli, og fundið líkindi til þessa að þær hafi markað tímatal eftir gangi sólar. Gæti því verið að fjall eins og Helgafell hafi notið sérstaks álits í heiðnum sið? Enn aðrir segja að á Helgafelli kunni að vera grafinn Hinn heilagi bikar.

Sjá meira um Helgafell HÉR.

-Gvendaselshæðargígar

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs. Gvendarsel er í ofanverðum Bakhlíðum.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.
Gatið svonefnda í suðvestanverðu Helgafelli er til komið vegna ágangs vatns og vinda í kjölfar yfirgangs ísaldarjökulsins. Þar er niðurgönguleið, ef varlega er farið.

Sjá meira um Gvendarselshæðargíga HÉR.

-Kaldársel

Kaldársel

Kaldársel.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur Daniels Bruun í lok 19. aldar.

Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir Garðapresta við Kaldá. Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

-Kaldárhraun

Helgafellshraun

Hraunin ofan Helgafells – Jón Jónsson.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 ha.

Sjá meira um hraunin í kringum Helgafell HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://vatnsidnadur.net/2019/09/13/kaldarbotnar-vatnsbol-hafnarfjardar/
-https://www.hafnarfjordur.is/media/uppland/GreinargerdKaldarselKaldarbotnarGjarnar.pdf
-https://timarit.is/page/4262872?iabr=on#page/n33/mode/2up/search/kald%C3%A1rbotnar
-https://www.fjardarfrettir.is/ljosmyndir/thegar-skatamot-voru-haldin-helgadal
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/13-valahnukar-troll/

Litluborgir

Hraunmyndanir í Litluborgum.

Rauðhólar

Rauðhólar eru þyrping gervigíga við Elliðavatn í útjaðri Reykjavíkur og tilheyra Heiðmerkursvæðinu. Upphaflega voru gígarnir um 80 talsins en hefur fækkað síðustu áratugi sökum efnistöku. Mestur hluti efnisins var nýttur í Reykjavíkurflugvöll á tímum heimstyrjaldarinnar síðari.

RauðhólarFyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp

Gervigígar eru fyrirbæri sem sagt er að ekki hafi fundist annars staðar en á Íslandi og reikistjörnunni Mars. Önnur dæmi hér á landi eru Álftavershólar og Landbrotshólar í Skaftafellssýslu (hvoru tveggja taldir vera í Eldgjárhrauni frá 934) og gígarnir við Mývatn, til dæmis Skútustaðagígar.

Rauðhólar

Gervigígar myndast þegar hraun rennur út í grunnt vatn eða yfir votlendi. Um gervigíga er hægt að lesa meira í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvernig myndast gervigígar? Rauði liturinn stafar af örsmáum ögnum af hematíti sem myndaðist í gosinu við oxun járns í bráðinni af völdum gufu.

Gervigígar myndast einnig þegar helluhraun rennur í göngum út í vatn með vatnsósa seti. Kvikutotur þrýstast niður í setið, hvellsuða verður og gjall brýst gegnum þak hraungangsins upp til yfirborðsins. Kvika heldur áfram að streyma að og toturnar seylast æ dýpra niður í setið uns þær ná (í þessu tilviki) niður í jökulbergið undir.

Rauðhólar

Tjaldbúðir Komorowicz í Rauðhólum.

Rauðhólarnir urðu til fyrir 4700 árum þegar Leitahraun (Elliðavogshraun) rann frá gígnum Leiti hjá Bláfjöllum og allt til sjávar í Elliðavogi. Þar sem nú eru Rauðhólar var grunnt stöðuvatn sem hraunið varð að fylla áður en það héldi áfram þeirri ferð. Þýskur jarðfræðingur, Komorowitz, lýsti Rauðhólum árið 1912 og birti af þeim kort, hið eina sem til er af þeim óspilltum. Stærstu hólarnir voru 212 m að grunnþvermáli og risu 22 m yfir hraunið undir. Frá um 1940 og fram til 1960 voru þeir notaðir sem gjallnáma, einkum til að byggja Reykjavíkurvöll á stríðsárunum, en síðar í húsgrunna og vegi.

Rauðhólar

Sagt er að gervigígar hafi aðeins fundist á Íslandi og á reikistjörnunni Mars.

Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, áttaði sig fyrstur á því (1793) að gígar af þessu tagi eru myndaðir við gufusprengingar, en almennt var það ekki viðurkennt fyrr en Sigurður Þórarinsson lýsti gervigígunum við Mývatn um 1950. Áður töldu ýmsir þýskir eldfjallafræðingar þá vera sérstaka gerð af eldstöðvum, „svæðisgos“ (Aerialeruption), ólíka sprungugosum og gosum frá einstökum gíg.

Rauðhólar

Hús Vorboðans í Rauðhólum.

Á austur hluta hólasvæðisins var stór gígur sem hét Kastali. Vestur af honum var gígur sem nefndist Stóri-Rauðhóll og er hann að mestu leyti horfinn. Þaðan suðaustan af var Miðaftanshóll sem er einnig mikið raskaður.

Innan Rauðhólasvæðisins má í dag finna minjar um húsagrunna frá stríðsárunum. Með auknum athöfnum og ágangi á náttúruna sem fylgdi útþenslu borgarsamfélagsins jókst jafnframt meðvitund manna á því að vernda rétt náttúrunnar. Sumarið 1958 kvað Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur upp úrskurð sinn um friðlýsingu á Rauðhólasvæðinu. Sama ár samþykkti bæjarráð bann við því að skertir yrðu fleiri hólar.

Rauðhólar

Herminjar í Rauðhólum.

Árið 1961 var sá hluti sem ekki var stórskemmdur friðlýstur sem náttúruvætti. Á fyrsta náttúruverndarþingi árið 1972 var hvatt til þess að gerð yrði náttúruminjaskrá undir forystu Náttúruverndarráðs og var lagt til að Náttúruverndarráð í samvinnu við Náttúruverndarnefnd og áhugamenn myndi kynna sér þær náttúruminjar sem ástæða þótti til að lýsa sem friðlönd, þjóðgarða eða fólkvanga. Það var svo árið 1973 á fundi Náttúruverndarnefndar sem samþykkt var að óska eftir fólkvangsfriðun Rauðhólasvæðisins. Að tillögu Náttúruvernarráðs og samþykki frá borgarstjórn Reykjavíkur ákvað Umhverfisstofnun að friðlýsa svæðið sem fólkvang skv. 24. gr. laga nr. 47/1972 (Borgarskjalasafn Reykjavíkur). Svæðið var svo friðlýst sem fólkvangur 12. mars árið 1974 með auglýsingu í Stjórnartíðindum B nr. 185/1974, án athugasemda (Umhverfisstofnun, á.á.c). Með friðlýsingu svæðisins sem fólkvangur var það komið í umsjá sveitarfélagsins.

Vorboðinn

Vorboðinn

Vorboðinn – barnaheimili í Rauðhólum.

Í Alþýðublaðinu 1953 fjallar Svava Jónsdóttir um barnaheimilið Vorboðann í Rauðhólum:
“Árið 1933 var Fulltrúaráði verkalýðsfélagannna í Reykjavík leigð spilda á vesturhluta Rauðhólasvæðisins. Á þeirra vegum og vegum Alþýðuflokksins var á sumrin um nokkurra ára skeið haldnar útisamkomur á svæðinu. Síðar afhenti Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, barnaheimilinu Vorboðanum leigulandið ásamt skála og var þar rekið um tíma sumardvalarheimili fyrir börn.

Rauðhólar

Rauðhólar – grunnur Vorboðans.

Árið 1986 var á svæðinu starfrækt útileikhús þar sem sett var á svið brot úr Njálssögu (Páll Líndal, 1985).
Hér langar mig til að segja frá merkri starfsemi, sem fram fer í bókstaflegum skilningi við bæjardyr okkar Reykvíkinga, en fjöldinn hefur litla hugmynd um.
Ég á við sumardvalarheimilið í Rauðhólum, sem “Vorboðinn” hefur rekið með miklum myndarskap og þeirri atorku og alúð, sém jafnan mun segja til sín í störfum kvenna, þegar þær vilja beita sér fyrir góðu málefni.
En „Vorboðinn” er samtök alþýðukvenna, og standa að honum Verkakvennafélagið Framsókn, Þvottakvennafélagið Freyja og Mæðrafélagið. Þessi samtök hafa um langt skeið rekið sumarheimili fyrir börn, og nú allmörg síðustu árin í Rauðhólum, þar sem alþýðusamtökin á sínuni tíma helguðu sér land, girtu það og reistu skála sinn, sem enn er aðalhúsið, þó að Vorboðinn hafi tvisvar byggt við hann.
Rauðhólar eru frá náttúrunnar hendi eitt hið heppilegasta land, sem hægt er að hugsa sér til slíkrar starfsemi, grónir hraunhólar, með dældum, bollum og slökkum, sem gefa skjól við veðrum allra átta, breytileiki og fjölbreytni í landslagi ótrúlega mikil, byggingarefni er þar nærtækt fyrir smáar hendur, vegagerð hægt að stunda þar sumarlangt. Ekki má svo gleyma blessuðu lynginu, sem býður berin sín strax og kemur fram í ágúst, enda eru þau þegin eins og við eigum að: þiggja allir góðar gjafir — með fögnuði hjartans, sem einskis spyr.”

Rauðhólar

Bátur við barnaheimili Vorboðans í Rauðhólum.

Í Morgunblaðinu 1950 er fjallað um barnaheimilið undir fyrirsögninni “Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn”.
“Barnaheimilsnefnd Vorboðans hafði boð inni í gær og sýndi gestum barnaheimilið að Rauðhólum og skýrði frá starfsemi þess. Forstöðukona heimilisins er Þuríður Hringsdóttir. — Heimilið starfar tvo mánuði á sumri hverju og eru þar nú 81 barn á aldrinum þriggja til sjö ára.

Rauðhólar

Rauðhólar – braggagrunnur.

Barnaheimilið Vorboðinn tók fyrst til starfa árið 1937. Gengust nokkrar konur úr Alþjóðasambandi Verkalýðsins fyrir stofnun þess, og leituðu til tveggja fjelaga, Þvottakvennafjelagsins „Freyju” og Verkakvennafjelagsins „Framsókn” um styrk í því sambandi. Var því vel tekið og seinna bættist Mæðrafjelagið í hópinn. Eru nú fimm konur úr hverju fjelagi í Barnaheimilisnefndinni.
Í byrjun var barnaheimilið rekið að Brautarholti í Skeiðum, síðan að Flúðum og svo eitt sumar að Þingborg í Flóanum. — Var þetta mjög erfitt fyrirkomulag, þar eð þurfti að fá lánaða heimavistarskóla, flytja þangað allt, sem með þurfti til heimilisins og síðan burtu aftur að haustinu.
Meðan á stríðinu stóð, annaðist Rauði Kross Íslands öll barnaheimili, en er því lauk, byrjaði Vorboðinn að nýju í smáum stíl í skóla að Ásum í Hreppum með 30—40 börn.
Fulltrúaráð Verkalýðsfjelaganna átti um þessar mundir skála í Rauðhólum, er notaður var fyrir skemmtistað, og var ákveðið að hann skyldi gefinn til reksturs Vorboðans það landrými er honum fylgdi, og hóf barnaheimilið starfsemi sína þar árið 1947. Var heimilinu veittur styrkur frá ríki og bæ, og í fyrra og hittiðfyrra var skálinn stækkaður og breytt svo sem með þurfti, og tekinn í algera notkun í fyrra.

Rauðhóla

Framnesvegur 66.

Rúmar hann nú 80 börn. Eru í honum tveir svefnskálar fyrir stúlkur og einn fyrir drengi, ásamt borðstofu, eldhúsi, herbergi fyrir forstöðukonu og starfsstúlkur, baðherbergi, þvottahúsi og ýmislegt annað. Er allt heimilið með miklum myndarbrag. Landrými er einnig mikið og gott.
Á barnaheimilinu vinna 13 stúlkur, að forstöðukonu meðtalinni. Meðlag með börnunum er mjög lágt og er markmið Vorboðans að taka einungis börn til sumardvalar frá þeim heimilum, sem örðugast eiga, og er von nefndarinnar að geta gert enn meira þeim til hjálpar í framtíðinni.
Árið 1933 var spilda í vesturhluta hólanna leigð fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík til útisamkomuhalds. Síðar var spildan ásamt skála, sem hafði verið reistur þar afhentur borginni á ný. Þar var rekið um tíma barnaheimilið Vorboðinn sem sumardvalarheimili fyrir börn.”

Í “Húsaskrá 2004” má lesa eftirfarandi um framangreint hús Vorboðans í Rauðhólum:
“Húsið er einlyft timburhús með risi. Það var flutt á lóðina við Framnesveg 66 árið 1982, en stóð upphaflega við Rauðhóla, austan við Reykjavík. Þar reisti fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík og Alþýðuflokkurinn skála fyrir sumarsamkomur, á spildu sem fulltrúaráðið tók á leigu árið 1933. Síðar var leigulandið ásamt skálanum afhent undir starfsemi sumardvalarheimilis Vorboðans fyrir börn frá fátækum heimilum, sem stofnað var 1935 og rekið af kvenfélögum í Reykjavík með styrk frá bænum. Snemma á 9. áratugnum var ákveðið að rífa barnaheimili Vorboðans og fékkst þá leyfi til að flytja hluta þess, einlyftan skála með leikfimisal, á nýja lóð við Framnesveg og endurbyggja þar sem íbúðarhús. Við endurbygginguna var skálinn styttur um nokkra metra, gerðir á hann gluggar og byggt ris með kvistum ofan á hann, en gólf og veggir héldu sér. Við þetta var notað efni úr þeim hluta barnaheimilisins sem var rifinn. Í nóvember 1982 var húsið fullklárað í núverandi mynd og var flutt inn í það sama mánuð.
Engar minjar er að sjá á staðnum, nema timburbát sem hefur trúlega verið notaður sem leiktæki.”

Skáli/skóli

Rauðhólar

Meintur skáli í Rauðhólum.

Skammt norðan húsgrunns Vorboðans er aflöng tóft, u.þ.b. 12 metra löng; þrískipt. Tóftin er skálalöguð og veggir grónir en vel greinilegir í grasivöxnu umhverfinu. Á Herforingjaráðskorti frá árinu 1908 er þarna getið um “Skóla” eða “Skála”. Kortið var gert löngu áður en Vorboðinn fékk úthlutaða lóð á nálægum slóðum (skammt vestar) og enn fyrr en hernaðarmannvirkin voru byggð í Rauðhólum.  Um athyglisverðar minjar er að ræða, en þeirra virðist hingað til ekki hafa verið getið í fornleifaskránigum af svæðinu.

Sumarskemmtun í Rauðhólum
Rauðhólar
Í Þjóðviljanum 1945 mátti lesa eftirfarndi um “Sumarskemmtun í Rauðhólum”.
“Sumarskemmtun í Rauðhólum í dag yerður fyrsta útihátíð Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum, og er það atburður, sem ástæða er til að reykvískir sósíalistar og allt reykvískt alþýðufólk, veiti athygli.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Það var í mikið ráðizt þegar Æskulýðsfylkingin ákvað að taka Rauðhólaskálann á leigu og gera úr honum skemmtistað, eftir að hann hafði legið ónotaður um margra ára skeið og húsið drabbazt niður. Fylkingin hafði um langt skeið verið að svipazt um. eftir hentugum stað til sumarskemmtana í nágrenni bæjarins, og þegar Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna gaf æskulýðsfélögum sósíalista og Alþýðuflokksmanna kost á að fá Rauðhólaskálann leigðan, tók Æskulýðsfylkingin boðinu tveim höndum.
„Þú spurðir hvort yið hefðum ekki álitið þetta fyrirtæki ofviða félagsskap okkar”, segir Lárus Bjarnfreðsson, einn ötulasti forgöngumaður Rauðhólamálsins, í viðtali við Þjóðviljann í fyrrahaust, og heldur áfram: „En nú skal ég segja þér nokkuð. Við hófum þetta verk með það fyrir augum, að skapa samastað fyrir alþýðuæskuna í bænum, þar sem hún gæti komið saman til útiskemmtana og hollra leikja, en á slíkum stað hefur verið tilfinnanleg vöntun hér. í öruggri vissu um skilning félaga á þessu mikla nauðsynjamáli, leituðum við til þeirra um að leggja fram vinnu sína til þeirra endurbóta, sem þurfti að gera á staðnum. Félagarnir brugðust ekki trausti okkar, og sýnir það bezt félagsþroska þeirra, er að kvöldi þess sama dags og samningarnir um leiguna gengu í gildi, mættu á skrifstofu Æskulýðsfylkingarinnar yfir 30 manns, piltar og stúlkur, tilbúin að hefja starf”.

Rauðhólar

Grunnur Rauðhólaskálans.

Og unga fólkið kom oftar en þetta kvöld. Kvöld eftir kvöld, sunnudag eftir sunnudag, fór hópur reykvískra æskumanna upp í Rauðhóla, og vann þar í sjálfboðavinnu mikið verk og gott. Laugardags- og sunnudagskvöld, að loknu dagsverki, undu kátir félagar við söng, upplestur og sögur. Þetta var Reykjavíkuræska að eyða tómstundum sínum, við erfitt starf, unnið af þegnskap, landnámsstarf, óeigingjarnt og seinunnið, eins og slík störf eru oftast. Það kom í ljós að til þess að Rauðhólar gætu talizt boðlegur skemmtistaður, þurfti svo mikla vinnu, að ekki tókst að ljúka henni nógu snemma til þess að sumarskemmtanir gætu hafizt þar í fyrrasumar. En öllum þeim, sem voru á vígsluhátíð Rauðhólaskálans í fyrrahaust, varð ljóst, að þar hafði gott verk verið unnið, sú skemmtun varð minnisstæð, og að góðu einu. Nú er komið til kasta reykvískrar alþýðu að sýna að hún kann að meta það starf, sem þarna hefur verið unnið, og er ekki að efa að margmennt verður í Rauðhólum í dag.”

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum í maí 1946 er sagt frá “Glæsilegri útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum”.
“Á morgun býður Æskulýðsfylkingin Reykvikingum upp á einhverja fjölbreyttustu cg beztu skemmtun ársins.
Skemmtunin verður haldin uppi í Rauðhólum. Þessi atriði verða á. skemmtiskránni:
1. Ræða: Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

2. Upplestur: Elías Mar les kafla úr „Eldur í Kaupinhafn”, eftir Halldór Kiljan Laxness.
3. Söngur: Kátir sveinar, kvartett.
4. Glímusýning: Glímuflokkur frá KB sýnir.
5. Galdrasýningari Baldur Georgs.
Lúðrasveitin Svanur leikur milli skemmtiatriða.
6. Dans: Hljómsveit Björns R. Einarssonar leikur. Haukur Mortens og Alfreð Clausen syngja með hljómsveitinni. Þeir félagar eru vel þekktir fyrir söng sinn í útvarpinu nú fyrir skemmstu í tímanum „Lög og létt hjal”.
Auk þessara atriða mun Einar Arnórsson teikna skopmyndir af teim, sem þess óska, meðan á skemmtuninni stendur. Ennfremur fá mótsgestir að þreyta skotfimi sína og ýmsar aðrar listir í sérstöku tjaldi.
Æskulýðsfylkingin á þakkir skilið fyrir forgöngu sína í því að sjá Reykvíkingum fyrir góðum útiskemmtunum í nágrenni Reykjavíkur, enda mun æskulýður Reykjavíkur vafalaust kunna að meta þau fjölbreyttu skemmtiatriði, sem eru í boði í Rauðhólum á morgun.
Ferðir verða frá Bifreiðastöðinni Heklu eftir kl. 13 á morgun, en skemmtunin byrjar kl. 15.”

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum daginn eftir, 22. maí, er fjallað um skemmtanahaldið.
“Eins og sjá má af þessu, var hér um óvenju fjölbreytta og glæsilega skemmtun að ræða, enda hefur verið unnið af kappi að endurbótum á staðnum í vor, og er þeim framkvæmdum langt frá því að vera lokið.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Tilhögun skemmtananna hefur verið breytt frá því sem var síðast liðið sumar. Öll skemmtiatriði nema íþróttir fara nú fram í stórum gíg norðan við skálann, og er þar skjól fyrir flestum áttum. Nýr danspallur hefur verið settur upp í laut suður af skálanum, og er hann alveg í skjóli.
Þrátt fyrir tvísýnt veður, einkum framan af degi, sóttu skemmtunina hátt á annað þúsund manns. Ölvunar varð lítið vart, en að því leyti eru Rauðhólaskemmtanir Æ.P.R. undantekning frá flestum öðrum útisamkomum.
Hollar útiskemmtanir eru sá þáttur skemmtanalífsins, sem Reykvíkingar hafa átt mjög lítinn kost á að kynnast.
Nafn Æskulýðsfylkingarinnar í Reykjavík er trygging fyrir góðum og vönduðum skemmtunum. Vonandi kunna bæjarbúar að meta þessa starfsemi félagsins, en það geta þeir bezt sýnt með því að sækja skemmtanirnar.
Hittumst heil á næstu Rauðhólaskemmtun!

Auk framangreinds var gerð tilraun til að reka leiksvið í Rauðhólum.

Njála í rauðum hlíðum

Rauðhólar

Frásögn af Rauðhóla-leiksviðinu í DV.

Í DV í júlí 1986 mátti lesa eftirfarandi um “Söguleikana” í Rauðhólum.

Rauðhólar

Rauðhólar – loftmynd.

“Aðstandendur sýningarinnar á Njáls sögu lentu, sem kunnugt er, á nokkrum hrakhólum með stað fyrir leikritið eftir að endanlega hafði verið neitað um leyfi til að sýna það í Hvannagjá á Þingvöllum, þar sem óneitanlega hefði verið stórbrotið að sjá einmitt þetta verk leikið. En uppi í Rauðhólum fannst um síðir tilvalinn staður fyrir sýninguna, hraunhólamir mynda þarna litríka og sterka umgjörð um örlagasögu persónanna úr Njálu.
Þau Helga Bachmann og Helgi Skúlason hafa við gerð handritsins lagt leikrit Jóhanns Sigurjónssonar, Mörð Valgarðsson, til grundvallar, en hafa bæði skorið burt og annars staðar bætt inn í atriðum og tilsvörum beint úr Njálu sjálfri. Leiksýningin endar, eins og leikrit Jóhanns, á brennunni á Bergþórshvoli, en áður segir frá launráðum Marðar Valgarðssonar, sem með rógi og undirferlum kemur af stað þeirri óeiningu og hatri, sem leiðir til vígs Höskulds, og hefndarinnar, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma fyrir það. Miðdepillinn er þannig Mörður, afbrýðisemi hans og öfund, en í kringum hann öðlast allar hinar þekktu persónur Njálu líf, Njáll og Berþóra, kona hans, synir þeirra, Skarphéðinn og Grímur, koma hér við sögðu, Kári, Höskuldur Hvítanesgoði og Hildigunnur, kona hans, Flosi föðurbróðir hennar og Þórkatla, eiginkona Marðar.
Leikritið gengur upp sem sjálfstæð heild, og hinn óvenjulegi sýningarstaður skapar mikla stemmningu.

Rauðhólar

Leiksviðið í Rauðhólum.

Upphafsatriði sýningarinnar er mjög eftirminnilegt, tónlist Leifs Þórarinssonar hljómar að hólabaki og fornkappar og konur þeirra birtast uppi á háum hólum og ber við loft. Þarna er umhverfið nýtt til hins ýtrasta á áhrifamikinn hátt. Annars fer mestöll atburðarásin fram á balanum fyrir framan áhorfendapallana, en þar hefur lítillega verið bætt um betur frá því að lið þeirra Helgu og Helga kom á vettvang.

Rauðhólar

Rauðhólar.

Balinn er ágætis leiksvið en atriðið með Valgarði gráa í forleiknum sýndi að stundum hefði mátt nýta sér kosti umhverfisins betur og færa fleiri atriði upp í brekkurnar.
Leikendur eru flestir af yngstu kynslóð leikara, en til liðs við þá koma nokkrar þaulreyndar kempur. Þau Erlingur Gíslason og Ásdís Skúladóttir eru ungleg og stillileg sem Njáll og Bergþóra. Friðarræða Njáls og lokaatriðið er þau Bergþóra leggjast til hinstu hvíldar eru sterk atriði og vel flutt. Öllu meiri tilþrif fær Valdimar Flygenring tækifæri til að sýna í hlutverki hetjunnar uppstökku, Skarphéðins. Bróðir hans, Grímur, er leikinn af Þresti Leó Gunnarssyni og mágur þeirra bræðra, Kári, er leikinn af Skúla Gautasyni. Þeir standa þétt saman, bundnir af hetjuhugsjón og hefndarskyldu síns tíma.
Jakob Þór Einarsson er í hlutverki Höskulds Hvítanesgoða, og konu hans, Hildigunni, leikur Bryndís Petra Bragadóttir, og komast bæði nokkuð vel frá sínu. Rúrik Haraldsson er höfðinglegur Flosi og hann leikur líka heiðingjann gamla, Valgarð, sem illu heilli egnir son sinn, Mörð, gegn Njálssonum.
Aðalsteinn Bergdal, sem leikur Mörð, lykilpersónuna í leiknum, skapa eftirminnilega persónu. Mörður verður í túlkun hans trúverðugur jafnt í öfugsnúinni aðdáun sinni á Skarphéðni, sem í afbrýðisemi sinni og öfund. Kona hans Þórkatla, björt yfirlitum og algjör andstæða Marðar, er leikin af Guðrúnu Þórðardóttur. Búningar eru ágætlega hannaðir, utan skófatnaðurinn, sem var eitthvað vandræðalegur.
Aðstandendum sýningarinnar má þakka fyrir góða og nýstárlega sýningu og tel ég að enginn sé svikinn af því að leggja leið sína upp í Rauðhóla á næstunni.” – AE

Stríðsminjar

Rauðhólar

Rauðhólar – minjar bragga.

Í Rauðhólum voru herbúðirnar Thinker frá árinu 1943, það var miðstöð ratsjárkerfis, höfuðstöðvar stórfylkis, strandvarna og eða loftvarnastórskotaliðs. Fjölmargar minjar, einkum braggagrunna og vegi, má enn sjá í hólunum, einkum vestanverðum.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Rau%C3%B0h%C3%B3lar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=11583
-https://www.isor.is/25-raudholar-gervigigar
-Rauðhólafólkvangur, saga, verndun og nýting, Lena Rut Kristjánsdóttir, BS-ritgerð, Landbúaðarháskóli Íslands, 2009.
-Alþýðublaðið, Konan og heimilið, Svava Jónsdóttir, laugardagur 8. ágúst 1953, bls. 5.
-Morgunblaðið fimmtudaginn 6. júlí 1950, Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn, bls. 8.
-https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=567205
-Þjóðviljinn, sunnudaginn 8. júlí 1945, Sumarskemmtun í Rauðhólum, bls. 3.
-Þjóðviljinn, laugardaginn 18. maí 1946, Glæsileg útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum á morgun, bls. 1.
-Þjóðviljinn 22. maí 1946, bls. 3.
-DV, lagardaginn 5. júlí 1986, Leiklist; Njála í rauðum hlíðum – Auður Eydal, bls. 15.

Rauðhólar

Herminjar í Rauðhólum.

Rauðhóll

Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um “Hraun í nágrenni Straumsvíkur” í Náttúrufræðinginn árið 1998.

Hraun í nágrenni Straumsvíkur
HraunÞegar fjallað er um hraunstrauma þá sem á síðustu árþúsundum hafa runnið í átt til sjávar í Straumsvík og næsta nágrenni er óhjákvæmilegt að sú umfjöllun teygi sig til upptakanna, eldgíganna sjálfra. Af þeim sökum nær umfjöllunin yfir um 200 ferkílómetra svæði, þ.e. ströndina frá Hvaleyrarholti til vesturs að Vatnsleysuvik (Kúagerði) og frá ströndinni suður í Reykjanesfjallgarð milli Grindarskarða og Trölladyngju. Á þessu svæði er fjöldi hrauna og sum sjást ekki á yfirborði, því yngri hraun þekja þau alveg. Þeirra verður aftur á móti vart í borholum, m.a. á athafnasvæði álversins í Straumsvík. Leitast er við að draga upp einfalda mynd af því hvaða leið hraunin hafa runnið og hvernig þau hafa, eitt af öðru, lagt sitt af mörkum til að færa ströndina til núverandi horfs. Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg og þau eru ekki bundin við einstaka hraunstrauma heldur ákveðin svæði. Þannig getur sama hraunið heitið mörgum nöfnum og nöfn geta einnig náð yfir hluta úr mörgum hraunum. Þau nöfn sem hér eru notuð á einstökum hraunum ber ekki að taka sem örnefni heldur sem sérheiti á jarðmyndunum.

Hraun frá fyrri hluta nútíma
Hraun
Það tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun f dag (2. mynd). Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).

Búrfellshraun

Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvfk. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.

Skúlatúnshraun – Hellnahraunið eldra

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Fyrir um 2.000 árum varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell. Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt tíl sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess.
Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krýsuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.

Hraunkarl

Hraunkarl í Kapelluhrauni.

Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna. Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.

Gervigígar

Þorbjarnastaðarauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Á svæðinu eru nokkrir gervigígar sem stinga kollinum upp úr yngri hraunum. Gervigígarnir hafa myndast við það að hraun runnu í sjó og sýna þeir því legu strandarinnar á myndunartímanum. Gervigígunum í nágrenni Straumsvíkur má skipta í þrjá hópa eftir útbreiðslu.

Rauðhóll

Rauðhóll 2020.

Austast var Rauðhóll við Hvaleyrarholt, sem stóð upp úr Hellnahrauninu eldra, en langt er síðan hóllinn hvarf vegna efnisnáms og þar er nú geil í hraunið. Nokkru sunnar og vestar standa tveir gervigíar upp úrsamahrauni.
Í Selhrauni, skammt suður af kvartmílubrautinni, hefur verið numið töluvert magn af gjalli úr gervigígum sem standa þar upp úr einu af elstu hraununum á svæðinu (Selhraun 4, Helgi Torfason o.fl. 1993).
Skammt suður og vestur af Straumsvík er mikil rauðamalargryfja í Hrútagjárdyngju. Þar var upphaflega rauðamalarbunga upp úr hrauninu, Rauðimelur sem svo var nefndur. Nokkru vestar má sjá í kollinn á allmiklum gjallhól og enn vestar hefur hinn þriðji verið numinn brott.
Í flestum þessara gervigíga hafa fundist skeljar sem þeyst hafa upp úr þeim er hraun rann út yfir setlög við þáverandi strönd. Ekkert er vitað um aldur gíganna annað en að þeir eru örugglega myndaðir eftir ísöld og eru eldri en hraunin sem upp að þeim hafa runnið.

Niðurlag

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Núverandi strönd við Straumsvík er mynduð af þremur hraunum. Elst og vestast eru hraun Hrútagjárdyngju, sem runnu frá stórum dyngjugíg nyrst í Móhálsadal fyrir um 5.000 árum. Vestast er Hellnahraunið eldra, sem er langt að komið, upprunnið í Grindarskörðum í Brennisteinsfjallareininni fyrir um 2.000 árum. Bæði þessi hraun eru helluhraun og fremur auðveld yfirferðar.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Yngsta hraunið er Kapelluhraun, úfið apalhraun, sem rann árið 1151 frá gígum suður undir Vatnsskarði. Það rann til sjávar um lægð sem myndast hafði á mótum Hrútagjárdyngju og Hellnahraunsins eldra. Á síðustu 10.000 árum hafa hraunstraumar smám saman fært ströndina fram sem nemur allt að 2 km.

Eldgos á Reykjanesskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.

Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240.1 hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krýsuvíkurrein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hinsvegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.

Helstu heimildir höfunda:
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989.
-Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Helgi Torfason, Árni Hjartarson, Haukur Jóhannesson, Jón Jónsson & Kristján Sæmundsson 1993.
-Berggrunnskort: Elliðavatn 1613 III-SV-B 1:25.000. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. kortamappa.
-Jón Jónsson 1974. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn 44. 109-119.
-Kristján Eldjárn 1956. Kapelluhraun og Kapellulág. Árbók Fornaleifafélagsins 1955-56. 5-8.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar ll. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg., 3.-4. tbl., 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1960-1961, bls. 171-177.

Hraun

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Hvalbak

Við Álfhól í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má m.a. lesa eftirfarandi:
Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma. Hólinn mætti merkja með látlausum hætti.

Kópavogur

Álfhóll.

Álfhóll er stórgrýttur grasi gróinn hóll sem gengur út í götuna. í hólnum er sagt að búi þrír álfar, einn gamall og tveir unglingsálfar; en að þeir hafi verið fleiri hér áður.

Álfhóll

Kópavogur – Álfhóll.

Fjórum sinnum er talið að álfar hafi haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Byrjað var á lagningu Álfhólsvegar seint á fjórða áratugnum. Veginn átti að leggja frá Hafnarfjarðarvegi að Álfabrekku og tengja við Nýbýlaveg. vel gekk að leggja veginn út að Álfhólnum en þegar þangað var komið og átti að fara að sprengja var framkvæmdafé uppurið. því er haldið fram að álfar hafi komist í bókhald bæjarins.

Áratug síðar átti að hefja framkvæmdir aftur. Fyrsta skrefið var að ryðja burt hólnum en þegar þær framkvæmdir hófust fóru dularfullir atburðir að gerast. Vinnuvélar biluðu, verkfæri skemmdust og mörg þeirra hurfu á óskiljanlegan hátt. Hætt var við að ryðja burtu hólnum og var settur hlykkur á veginn fram hjá honum.

Kópavogur

Álfhóll.

Í lok níunda áratugarins átti að endurbæta veginn. Framkvæmdirnar gengu mjög vel þar til ráðgert var að leggja mabik upp að hólnum. Fjarlægja átti hluta hólsins en til þess átti að nota öflugan steinbor tengdan kraftmiklli loftpressu. Þegar menn hófust handa við að bora í klöppina þá brotnaði borinn. Það dugði heldur ekki til að ná í annan bor því allt fór á sama veg og segja sjónarvottar að hann hafi hreinlega kubbast í sundur.

Kópavogur

Kópavogur – Álfhóll.

Í kjölfar þess neituðu verkamenn að koma nálægt hólnum með vélar og verkfæri. Vegaskipulaginu var breytt og er þarna þrenging og hraðahindrun á veginum ásamt gangbraut sem þjónar vel þeim börnum sem sækja Digranesskola.
Áhrifum álfa var þó ekki lokið. Lóðunum austan við hólinn var úthlutað á níunda áratugnum og þar á meðal var lóðin Álfhólsvegur 102, sú sem næst liggur hólnum. Eigandi lóðarinnar hóf þar aldrei framkvæmdir heldur skilaði lóðinni með þeim skýringum að honum litist ekki á lóðina og vildi ekki byggja þar. Að öðru leyti vildi hann sem minnst um málið segja. Hvort sem álfum var um að kenna eða ekki þá er enn ekkert hús númer 102 við Álfhólsveg og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.
Hvort sem um er að ræða álfa, röð tilviljana eða ókunnug öfl þá er Álfhóllinn athyglisvert kennileiti í bænum. Örnefnið er hluti af sögu bæjarins og álfasögurnar af þessum skemmtilega stað gefa tilefni til mikilla vangavelta.

Álfhóll

Álfhóll – skilti.

Tröllabörn

Við Tröllabörn neðan Lögbergs í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má lesa eftirfarandi texta:

Tröllabörn

Tröllabörn.

“Tröllabörn/Tröllabollar voru friðlýst sem náttúruvætti árið 1983.
Tröllabörnin eru tíu talsins og fyrna gömul, eða um 4.500 ára. Á máli jarðfræðinnar nefnast þau hraundrýli (hornitos).
Hraundrýli myndast þegar gas streymir út um rásir við eldgíga og í hraungöngum og rífur með sér klepra sem hlaðast upp í litlar strýtur eða drýli. Drýli eru einkum algeng í eldstöðvum af dyngjugerð, en dyngjur gjósa ávallt þunnfljótandi hraunkviku sem jafnan rennur í göngum og myndar helluhraun.

Tröllabörn

Myndun hraundrýla.

Tröllabörn tilheyra Leitarhrauni sem kom upp úr Leitum, stórum dyngjgíg austan undir Bláfjöllum. Frá Leitum runnu hraun í sjó fram bæði við Reykjavík (Elliðavog) og Þorlákshöfn fyrir um 4.500 árum. Í Leitarhrauni eru margir hellar og hraungöng og hafa Tröllabörnin myndast þegar gosgufur brutust upp í gegnum þak á slíkum helli eða göngum.”

Tröllabörn

Tröllabörn – skilti.

Kópavogur

Á Borgarholti í Kópavogi er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.:

Jarðfræði

Kópavogur

Vindmylla á Borgarholti.

Borgarholt, eins og önnur holt og hæðir í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu, er að mestu gert úr grágrýtishraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar fyrir nokkur hundruð þúsund árum síðan. Þá grúfði jökull yfir Kópavogi sem náði allt frá Bláfjöllum og út á Faxaflóa. Jöklarnir grófu “dali” í hraunstaflann og mótuðu að landslag sem við sjáum í dag og eru jökulrákirnar á klöppunum glöggur vitnisburður um þau átök.
Í lok síðasta jökulsskeiðs, fyrir um 10.300 árum síðan var sjávarborð í um 40 metra hæð yfir núverandi sjávarmáli og gekk sjór yfir Borgarholt eins og lábarðir hnullungar í holtinu eru til vitnis um. Á sama tíma var sund á milli Borgarholts og ássins austan við. Síðar, fyrir um 9.800 árum, hafði sjávarstaða lækkað niður í um 20-25 metra hæð og þá myndaðist allmikil sand- og malarfjara utanvert á Kársnesi.
Seinna reis land endanlega úr sjó og strandlínan fékk á sig þá mynd sem hún er í dag.

Gróður

Borgarholt

Borgarholt.

Á Borgarholti þrífst mosaríkt mólendi og er gróðurfarið enn að miklu leyti dæmiger fyrir Kársnesið eins og það var áður en byggð tók að rísa þar.
Á holtinu hafa fundist 95 tegundir af mosum, þar á meðal kuðulmosi, sem aðeins hefur fundist á einum öðrum stað á landinu.
Þá hafa fundist 103 tegundir af innlendum háplöntum sem er nær fjórðungur af íslensku flórunni. Rætt hefur verið um hvort hindra ætti vöxt sjálfsáðra trjá s.s. birkis í holtinu, en um það eru skiptar skoðanir.

Saga

Kópavogur

Merki Kópavogs.

Borgarholtið er mjög svo samofið sögu byggðar í Kópavogi. Borgarholtið var að mestu ósnortið eins langt og elstu menn muna, þó með þeirri undantekningu að á árunum milli 1920-30 var byggð vindmylla á háholtinu til að framleiða rafmagn fyrir hressingarhælið, sem Kvenfélagið hringurinn rak á Kópavogsjörðinni.

Álfabyggð

Það er ástæða fyrir því að svæðið við Kópavogskirkju er látið í friði en þar er talið að sé blómleg álfabyggð. Sagan segir að þegar Borgarholtsbrautin var lögð hafi Kópavogsbúinn Sveinn Gamalíelsson varað álfana við áður en steinar voru sprengdir í burtu, álfarnir hafi þá fært sig. Álfarnir í Borgarholtinu virðast hrifnari af börnum en fullorðum og er sagt að þeir hafi átt á samskiptum við leikskólabörn.

Reyndar voru myllur þessar tvær, eða frekar það að fyrri myllan var þá endurbyggð vegna skemmda á spöðum, sem ekki höfðu þolað veðurlag á holtinu. Vindmyllur þessar voru síðan teknar niður einhvern tíma á árunum eftir 1930. Holtið stóð síðan óbyggt allt þar til samþykkt var í hreppsnefnd Kópavogs 1957 að byggja þar kirkju. Reyndar hafði hreppsnefndin haldið þessu svæði óbyggðu allt frá því 1946 með það í huga að síðar yrði byggð þar kirkja. Var hafist handa við byggingu hennar síðsumars 1958. Teikningar af kirkjunni voru gerðar undir stjórn Harðar Bjarnasonar þáverandi húsameistara ríkisins. Gerður Helgadóttir gerði steinda glugga sem settir voru í kirkuna. Byggingarmeistari kirkjunnar var Siggeir Ólafsson múrarameistari. Það tók 5 ár að byggja kirkjuna og kostaði hún 5 milljónir króna á verðlagi byggingartímans. Kirkjan var síðan vígð 15. desember 1962. Bent skal á að í skjaldarmerki bæjarins sem gert var á 10 ára kaupstaðarfamæli bæjarins 1965 var hluti þess merkis einmitt útlínur kirkjunnar með mynd af kópi undir.

Kópavogur

Borgarholt – skilti.

Ásdís Dögg

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður, einn eigenda Asgard ehf., og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar í Innstadal.

Innstidalur“Það tekur um 20 mínútur að keyra frá Rauðavatni í Reykjavík að Hellisheiðarvirkjun. Eftir að beygt hefur verið út af þjóðvegi 1, er ekið er framhjá stöðvarhúsinu beint af augum í átt að Henglinum. Ef maður fylgir veginum þangað sem leyfilegt er að aka, endar maður á nokkuð veglegu bílastæði í Sleggjubeinsdal sem markar upphaf göngunnar.

Leiðin er vel merkt með skiltum og stikum, í okkar tilfelli gulum stikum með bláum toppi.

Sleggubeinsskarð

Í Sleggjubeinsskarði.

Í upphafi er á brattann að sækja áleiðis að Sleggjubeinsskarði, en stígurinn er glæsilegur og virkilega gaman að ganga eftir honum.

Hækkunin er um 150 m og á meðan gengið er upp í móti öskrar blásandi borholan við bílastæðið á mann. Það er engu líkara en myrkrahöfðinginn hafi fengið aðgang að yfirborði jarðar og skammi okkur öll sem eitt af lífs og sálar kröftum. Sem betur fer nýtist þessi kraftur okkur vel í formi hitaveitu og orkuframleiðslu. Það er ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir alla þessa hreinu orku sem við eigum, og fríska loftið sem maður andar að sér á leiðinni minnir mann á það.

Innstidalur

Innstidalur.

Þegar hækkuninni er að mestu lokið lækkum við okkur ofan í breiðan grasivaxinn dal, og göngum um 1 km eftir sléttu. Þar sem þunnt lag af snjó þakti grasið á þessu kalda þriðjudagssíðdegi, var virkilega notalegt að ganga á grasinu. Nánast eins og að ganga á skýi eða stífu trampólíni. Það var erfitt að valhoppa ekki. Og kannski gerðist það óvart nokkrum sinnum. Þögnin í dalnum var ærandi, þegar öskrandi borholan var komin í hæfilega fjarlægð. Og það var gaman að sjá í snjónum spor eftir alls konar fugla og ref. Öll dýrin á sléttunni eru tæplega vinir þegar veturinn skellur á. Þá lifa bara þau hæfustu af.

Innstidalur

Innstidalur.

Þegar komið er í Innstadal, greinist leiðin og hægt er að ganga alla leið í Hveragerði og jafnvel yfir á Úlfljóstvatn. Einnig er hægt að ganga á Vörðuskeggja, hæsta tind Hengils (803 m.y.s.).

Mikill jarðhiti er í Innstadal; mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður.  Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum.

Innstidalur

Lækur í Innstadal.

Ef við eltum leiðina upp á Vörðuskeggja (svartar stikur), framhjá litlum skála, Lindarbæ, skammt neðan við Hveragilið, þá er hægt að baða sig í heitum læk, sem eru frábært verðlaun fyrir um það bil 4 km göngu. Og endurnæra sig fyrir gönguna til baka.

Innstidalur

Innstidalur – gata.

Þar sem myrkrið var að skella á og ískaldur vindur farinn að læsa sig í kinnarnar, var látið nægja í þetta sinn að skoða sig um í Innstadal, stökkva uppá nokkra hóla og njóta útsýnisins sem var glæsilegt þrátt fyrir þungbúinn himinn. Svo var haldið til baka svipaða leið eftir heita hressingu. Það er vissulega kominn nóvember, en enn hefur ekki snjóað í Reykjavík, svo val á skóbúnaði litaðist af íslenskri bjartsýni og sól í hjarta. Slapp til en var ekki sá ákjósanlegasti.

Á leiðinni eru óbrúaðir lækir, sem hægt er að stikla yfir á steinum. Fara þarf varlega þegar frystir, því þá eru steinar í lækjum þaktir ís. Og að sjálfsögðu þarf alltaf að huga að veðurspá þegar lagt er af stað í leiðangur að vetrarlagi, og snúa við ef manni lýst ekki á blikuna. Áfangastaðurinn bíður alltaf eftir manni.

Njótið útivistarinnar.”

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/11/06/gonguleid_vikunnar_innstidalur/

Innstidalur

Áð í Innstadal.

Seltún

Á fjórum upplýsingaskiltum við “Seltún í Krýsuvík” má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði

Seltún

Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.

Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.

Grindavík

Grindavík – eldgos við Sundhnúk 2024.

Á Reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.

Eldstöðvakerfið Krýsuvík

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]

Háhitasvæði – almennt

Seltún

Háhitasvæðið við Seltún.

Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa.

Sogin

Sogin – hátitasvæði.

Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.

Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.

Seltún

Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.

Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.

Krýsuvík

Baðstofa – hverasvæði í Krýsuvík.

Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.

Seltún

Seltún – borhola.

Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á Íslandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru boraðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.

Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.

Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.

Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga.

Krýsuvík

Grænavatn (t.h.) og Stampar.

Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]

[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]

Almennt um gróður

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.

Krýsuvík

Krýsuvík – dyngja við Nýjaland.

Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.

Austurengjar

Krýsuvík – Austurengjalækur.

Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.

Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir

Njaðurtunga

Njaðurtunga.

Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum.

Soppmosar

Soppmosar.

Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.

Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi, líkt og aðra soppmosa. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.

Lifandi náttúra

Austurengjahver

Austurengjahver.

Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás.

Austurengjahver

Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.

Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.

Krýs og Herdís deila um landamerki

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]

Fornminjar

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]

Dulúð regnsins

Austurengjar

Austurengjar.

Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar.

Krýsuvík

Krýsuvík og Krýsuvíkurkirkja 1950.

Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.] Ný kirkja var flutt á grunn hinnar gömlu tíu árum síðar.

Land í mótun

Seltún

Hveraútfellingar við Seltún.

Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]

Sprengigígar kallast á

Krýsuvík

Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum.

Augun

Krýsuvík – eitt Augað af þremur. Bæjarfell fjær.

Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]

Fuglalíf og eggjataka

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn á góðum degi.

Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]

Mannrækt við Krýsuvíkurskóla

Krýsuvík

Krýsuvík.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda.

Krýsuvík

Krýsuvík – skólinn.

Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]

-ÓSÁ dró saman.

Seltún

Seltún – hverasvæði.