Færslur

Hafnarfjörður

„Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll.
Raudholl-552Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskál arinnar upþi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift. Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins komið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlésnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndazt víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu berf en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
raudholl-523Dýpzt í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur). Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur setzt til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til.
Raudholl-553Ennfremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún. Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Eg hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt ínn yfir landið, þar sem tjörnin var áður. Ennfremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur fremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið.
Raudholl-555Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgazt þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elzta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok, enda ekki. kallað hraun í daglegu tali. Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin yztu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. Í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu. En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.
Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elzt þeirra allra.“

Heimild:
-Þjóðviljinn, 24. desember 1954, Hraunin í kringum Hafnarfjörð, Guðmundur Kjartansson, bls. 10-12.

Reykjanesvirkjun

„Efsta gjóskulagið víðast hvar á Reykjanesskaganum er Kötlulag sem talið er vera frá lokum 15. aldar (Guðrún Larsen 1978). Þetta lag hefur gjarnan verið nefnt K-1500 og er þykkast gjóskulaga á svæðinu frá því eftir landnám.
Gjoskulog-21Næstefsta lagið er orðið til við gos í sjó skammt undan Reykjanesi á þriðja áratug 13. aldar, sennilega árið 1226 (Magnús Á. Sigurgeirsson 1992a, 1992b). Þetta lag samsvarar því gjóskulagi sem almennt hefur verið nefnt miðaldalagið (ML).
Næst kemur auðþekkjanlegt tvílitt gjóskulag, með ljósan neðri hluta og dökkan efri hluta, svonefnt Landnámslag (LNL eða Vö~900). Efnagreiningar sýna að neðri hlutinn er úr súrri gjósku en sá efri úr basískri. Landnámslagið varð til í miklu gjóskugosi á Veiðivatna- og Torfajökulssvæðinu um 900 e.Kr. (Guðrún Larsen 1984). Nærri miðju sniðsins er ljóst gjóskulag sem gjarnan hefur verið tengt Heklulaginu H3. Athuganir Bryndísar G. Róbertsdóttur (1992a) á gjóskulögum á Suðurlandsundirlendinu benda til að hér sé um Heklulagið HA að ræða, sem hún telur vera 2400-2600 ára gamalt.
Neðan Heklulagsins koma svo þrjú svört Kötlulög með stuttu millibili. Efri lögin tvö eru um hálfur sentímetri að þykkt en það neðsta 5-6 sentímetrar og jafnframt þykkast gjóskulaga. Í frjórannsóknum sínum hefur Þorleifur Einarsson (1956, 1961) talið þetta þykka lag vera 4000-5000 ára gamalt. Bryndís G. Róbertsdóttir (1992b) hefur leitt rök að því að hér sé um 3200-3400 ára gamalt Kötlulag að ræða. Þá kemur grágrænt þunnt gjóskulag sem samkvæmt efnagreiningum er frá Heklu komið. Ekki er vitað með vissu um hvaða Heklulag hér er að ræða. Ljós gjóskudreif er í mónum nokkru neðan Heklulagsins, en þar sem fullnægjandi efnagreiningar fengust ekki er uppruni óviss. Þorleifur Einarsson (1961, 1962) hefur merkt þessa dreif með „S“ í sniðum á Reykjavíkursvæðinu. Neðst, skammt ofan ísaldarleirsins, koma síðan svörtu gjóskulögin tvö sem hér verða til umfjöllunar. Milli þeirra er tæplega eins sentímetra þykkur mór og er efra lagið um þriggja sentímetra þykkt en það neðra tæpur sentímetri.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg. 1992, 3.-4.tbl. bl.s 130-131.

Sveifluháls

Í ritgerð Almars Barja um „Myndun Lambafells“ má m.a. lesa eftirfarandi fróðleik um gos í vatni og undir jökli:
„Fisher og Schmincke (1984) skiptu samspili kviku og vatns í þrjá flokka:
1) Renni hraun yfir vatn eða vatnsríkan jarðveg getur vatnið lokast inni undir hraunrennslinu. Hitinn frá hrauninu hitar þá vatnið yfir bræðslumark sem veldur gufusprengingu sé þrýstingur í vatninu nægilegur. Þetta getur gerst m.a. þegar hraun rennur yfir mýrlendi, við flæðigos uppi á jökli eða þegar hraun hylur lítil stöðuvötn eða læki. Við gufusprengingar að þessari tegund verða ekki til ný gosefni heldur veldur sprengingin því að hólar hlaðast upp umhverfis sprenginguna. Þessi landform hafa í gegnum tíðina oft verið rangtúlkuð sem gígar. Dæmi um slík landform af völdum gufusprenginga eru gervigígar og maar.
2) Þegar vatn kemst í snertingu við kvikuna þegar hún rís í gosrásinni. Við það verður mikil sprengivirkni og afurðir þess eru bæði aska, bombur og önnur gjóska úr eldgosinu ásamt hraunbrotum úr eldri gosum eða grannbergi. Undir þennan flokk falla gos sem verða undir stöðuvatni, gos sem verða undir ís og þau tilfelli þegar grunnvatn kemst í gosrásina.
3) Eldgos sem verða undir stöðuvatni eða undir sjávarmáli. Eldvirknin verður á litlu dýpi og afurð þessara gosa er mikið magn ösku. Þegar hraun eða gjóskuflóð renna út í vatn verða minniháttar sprengingar og bólstramyndun.
Í neðansjávareldgosum er vatnsþrýstingur sá utanaðkomandi þáttur sem hefur mest áhrif á hegðun kvikunnar (Höskuldsson og Sparks, 1997). Þegar kvika flæðir undir vatnsyfirborðinu við mikinn vatnsþrýsting snöggkælist hún af völdum vatnsins og myndar hringlaga glerhjúp sem kallast bólstri. Haldi kvikustreymið áfram að flæða eykst þrýstingur undir glerhjúpnum, hann rofnar og og við það myndast nýr bólstri. Hitastigið innan í bólstranum helst nægilega hátt til að kvika haldist í fljótandi formi og sé stöðugt flæði kviku myndast röð bólstra (Francis og Oppenheimer, 2003). Ef vatnsþrýstingur er hins vegar ekki nægilega hár losna kvikugös úr læðingi, sem eykur mjög á yfirborð kvikunnar, hún sundrast því og veldur það sprengivirkni. Tveir þættir hafa áhrif á það hvort bólstrar myndist eða kvikan springi. Það er annarsvegar upprunalegt hlutfall vatns í kvikunni og hinsvegar vatnsþrýstingur. Við 1% þyngdarhlutfall vatns í basalt kviku vatnsþrýstingur yfir 1MPa (~100m dýpi) nægilegur til að stöðugir bólstrar myndist (Peckover o.fl., 1973).
Rannsóknir á eldgosum undir jökli er tiltölulega lítill hluti eldfjallafræðinnar. Ástæða þess er eflaust sú að mjög lítill hluti af landsvæði jarðarinnar er þakið jöklum. Ísland er þó undantekning þar á og er um 11% landsins hulið jöklum. Af þeim er Vatnajökull stærstur eða um 73% af heildar jökulhettu landsins (Björnsson og Pálsson, 2008). Að auki eru um 20% gosbeltanna undir jökli og rúmlega helmingur allra eldgosa á sögulegum tíma hafa orðið undir jökli (Larsen, 2002). Þetta gerir Ísland að einu besta svæði jarðarinnar til þess að rannsaka eldgos undir jökli. Dæmi um viðfangsefni slíkra rannsókna eru Grímsvötn og Katla, en báðar þessar eldstöðvar eru mjög virkar og eru Grímsvötn með virkustu eldstöðvum í heiminum. Af nýrri gosum má nefna eldgosið í Gjálp 1996, Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011. Þar af var eldgosið í Gjálp fyrsta stóra eldgosið undir jökli sem rannsakað var ítarlega (Magnús T. Guðmundsson og Högnadóttir, 2003). Margar fræðigreinar hafa verið skrifaðar um þessi gos og þá helst um eldgosið í Gjálp, s.s. Magnúst T. Guðmundsson o.fl. (2004) og Sigmundsson o.fl. (2010). Rannsóknir á eldgosinu hafa gefið áður óþekktar upplýsingar varðandi myndun móbergshryggja, jökulhlaup, affallsvatn og aðra hegðun eldgosa undir jökli (Jakobsson og Guðmundsson, 2008). Eldgosið í Surtsey veitti einnig ómetanlegar upplýsingar varðandi samvinnu kviku og vatns sem og móbergsmyndun eftir að gosi er lokið (Jakobsson & Moore, 1986).
Uppruna móbergs sem afurðar eldgosa undir jökli er fyrst getið í riti af Helga Pjeturs (1900).
Eldgos undir jökli og neðansjávar eldgos eru mjög sambærileg þar sem báðar tegundir eldgosanna gerast undir miklum vatnsþrýstingi. Ólíkt eldgosum undir jökli eru neðansjávar elgos undir stöðugum vatnsþrýstingi, allt þar til tekist hefur að hlaða upp nógu mikið af gosefnum svo að vatnsþrýstingurinn sé orðinn nægilega lítill til að kvikan nái að sundrast eða þar til eldgosið nær yfirborði vatnsins og hraun getur runnið. Í eldgosum undir jökli eru aðstæðurnar síbreytilegar. Bræðsluvatnið rennur burt og jafnvel getur hraun runnið undir jöklinum (Þórðarson og Höskuldsson, 2002). Þetta sást meðal annars í eldgosinu í Eyjafjallajökli, en þá hafði myndast svæði þar sem hraun gat runnið og brætt jökulinn neðan frá (Sigmundsson o.fl., 2010). Þegar eldgos undir jökli nær að bræða ofan af sér jökulhettuna getur myndast lítil dyngja á toppi fjallsins og er Herðubreið dæmi um slíkt (Þórðarson og Höskuldsson, 2002).
Þegar vatnsþrýstingur á kvikuna minnkar, eins og gerist þegar neðansjávareldgos nálgast yfirborðið eða þegar jökulhettan er farin að þynnast yfir eldgosi, fer kvikan að sundrast og gler myndast (Francis og Oppenheimer, 2003). Glerkornin ummyndast í palagónít sem veldur samlímingu móbergs. Hið almenna líkan sem notað er varðandi byggingareinkenni set- og hraunlaga við eldgos undir jökli byggir að mestu á rannsóknum eldgosa af Surtseyjar tegund. Sú tegund eldgosa er þegar eldvirkni hefst undir sjávarmáli og hleður upp gíg sem nær upp yfir sjávarmál. Eldvirknin breytist þá úr flæðigosi yfir í sprengigos en endar aftur í flæðigosi. Þessi kenning er byggð að stórum hluta á rannsóknum Jones (1969); (1970) sem og rannsóknum á eldgosunum í Surtsey 1963 (Jakobsson og Moore, 1986) og Gjálp 1996 (Magnúst T. Guðmundsson o.fl., 2004). Það lýsir fjórum stigum eða ásýndarhópum eldvirkni tengdri vatni (Jones, 1969; Schopka o.fl., 2006; Skilling, 2009; Þórðarson og Höskuldsson, 2002).
Fyrsta stigið er flæðigos undir miklum þrýstingi. Þegar eldvirkni hefst undir jökli bræðir kvikan ísinn ofan af sér og á yfirborði íssins myndast dæld vegna rúmmálsbreytingar milli íss og vatns. Vegna yfirliggjandi þrýstings á kvikuna myndast bólstraberg. Hætti eldgosið á þessum tíma myndast bólstrabergshryggur (Þórðarson og Höskuldsson, 2002). Dæmi um bólstrabergshryggi á Íslandi eru meðal annars Lakahnúkar á Hellisheiði (jarðfræðiþjónusta, 2006). Margskonar flókin ferli hafa áhrif á hegðun kvikunnar á þessu stigi. Þegar að ísinn bráðnar minnkar rúmmál hans um ~10% og við það geta myndast bræðsluvatnslón. Þegar þrýstingur á þessi lón er orðinn nægilegur flýtur ísinn ofan á vatninu og það rennur sem jökulhlaup. Ef landslagið undir jöklinum er lítið rennur bræðsluvatnið hins vegar í burtu og ekki næst að myndast lón (Björnsson, 1988). Jökullinn afmyndast hægar en hann bráðnar og því geta myndast hólf full af bræðsluvatni. Ef þau tæmast skyndilega getur þrýstingsminnkunin valdið því að kvikan fer að sundrast og sprengja upp bólstrana sem fyrir voru (Höskuldsson og Sparks, 1997). Ef nægur þrýstingur byggist upp getur myndun bólstrabergs hafist aftur sem veldur endurteknu mynstri innan þessa stigs (Werner og Schmincke, 1999).
Við annað stig eldgosa undir jökli hefur eldgosið staðið það lengi að því hefur tekist að bræða stóran hluta jökulsins og þrýstingur á kvikuna er stöðugur <1MPa. Myndun bólstra minnkar, sprengivirkni eykst og kvikan sundrast í minni agnir og ösku. Sprengivirknin tætir upp efstu lögin af bólstrunum sem áður höfðu myndast og bólstrabrotabreccia (þursaberg) myndast. Haldi eldvirknin áfram getur hlaðist upp gígur í kringum gosopið og sé hann nægilega stór myndar hann yfirleitt eyju í miðju bræðsluvatnslóninu. Þarna þróast eldvirknin í eldgos af Surtseyjartegund. Eldvirknin verður mjög sprengivirk og út kemur gjóska sem samsett er úr misstórum glerkornum. Eftir því sem sprengivirknin eykst minnkar kornastærð öskunnar. Afurðir þessa stigs eru meðal annars bólstraberg og margskonar samlímd jarðlög, einnig þekkt sem móberg. Slík jarðlög eru samlímd vegna ummyndunar glerkorna (Þórðarson og Höskuldsson, 2002). Ummyndunin tekur ekki langan tíma og eins og áður hefur komið fram, hefur verið sýnt fram á að ekki líða nema um 1-2 ár frá því að glerið sest og ummyndun er að miklum hluta búin (Jakobsson og Moore, 1986). Samskonar gögn eru til frá eldgosinu í Grímsvötnum 1998 en þar hafði móbergshryggurinn sem myndaðist ummyndast að miklum hluta um tveimur árum eftir að eldvirkni stöðvaðist (Magnús T. Guðmundsson o.fl., 2001). Hætti eldgosið á þessu stigi myndast móbergshryggir ef eldvirknin var á gossprungu og móbergskeila ef eldvirknin fór um eitt gosop (Jakobsson og Guðmundsson, 2008). Mörg dæmi um þesskonar myndanir eru á Íslandi, t.d. er Keilir á Reykjanesi dæmi um móbergskeilu og Helgafell sunnan við Hafnarfjörð dæmi um móbergshrygg (Sæmundsson o.fl., 2010).
Einangrist gosrásin frá vatninu umhverfis hana verður breyting á hegðun kvikunnar. Kvikan hættir þá að sundrast og hraungos hefst. Það eru mestmegnis hraunlög sem renna eftir yfirboðinu; apalhraun og helluhraun ásamt vikri og annarri gjósku (Magnús T. Guðmundsson, 2003). Þar sem hraunið rennur eftir yfirborðinu finnast þau form sem yfirleitt eru tengd hraunrennsli einnig í hraunlögum á þessu stigi. Meðal þeirra eru hrauntraðir og hraunreipi. Þessi form eyðast þó yfirleitt þegar jökullinn leggst aftur yfir eldstöðina. Þegar eldvirknin stöðvast stendur eftir móbergsstapi og eru þesskonar fjöll með þeim fegurstu á Íslandi. Hér áður hefur Herðubreið verið nefnd en einnig eru það fjöll eins og Hlöðufell (Þórðarson og Höskuldsson, 2002).“

Heimild:
-Almar Barja, „Myndun Lambafells“, Jarðvísindadeild HÍ 2012.

Kristján Sæmundsson

Eftirfarandi grein Páls Imslands, „Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa –
sprungumyndunarsaga“, birtist í Náttúrufræðingnum árið 1985:

Berggrunnur-ökort

„Kenningin um landrek og tilurð jarðskorpu á gliðnandi plötumótum, gerir betur grein fyrir myndun, þróun og ástandi íslensku jarðskorpunnar en nokkurt annað tiltækt hugmyndakerfi. Það sem hér verður útlistað um almennt jarðfræðilegt ástand og þróun skorpunnar á Suðvesturlandi er gert innan ramma plötukenningarinnar, sem er óneitanlega frjóasta og notadrýgsta heildarmynd, sem jarðfræðin hefur átt. Á fáum stöðum á jörðinni tala merkin ljósar á máli þessarar kenningar en einmitt hérlendis. Samhengið í jarðfræðilegri þróun er tiltölulega auðsætt hér, þó flókið sé, og samband „strúktúra“ og þeirra ferla, sem eru orsök þeirra, liggur ljósar fyrir en almennt gerist. Veldur því bæði, að landið er í hraðri myndun og eins hitt, að það er gróðursnautt, svo opnur eru yfirleitt mjög góðar í berggrunninn. Það er vegna þessa, sem Ísland gegnir gjarnan lykilhlutverki í jarðfræðilegum rannsóknum, er beinast að skilningi á jörðinni í heild.
Íslenska jarðskorpan verður til í rek- og gosbeltinu. Á Suðvesturlandi liggur þetta belti um Reykjanesskagann og Hellisheiðar-Þingvallasvæðið í átt til Langjökuls. Framhald þess til suðurs er sjálfur Reykjaneshryggurinn. Flói og Ölfus liggja á nýmynduðum vesturjaðri Evrópuplötunnar, er rekur til austurs með u.þ.b. 1 cm hraða á ári að meðaltali. Höfuðborgarsvæðið liggur hins vegar á nýmynduðum austurjaðri Ameríkuplötunnar, vestan við rekbeltið, og rekur með líkum hraða til vesturs (Leó Kristjánsson 1979). Landið verður því eldra, sem lengra kemur frá rekbeltinu.
Nýtt land er ætíð að myndast í rekbeltunum. Það verður til, þar sem spennuástand í jarðskorpunni veldur því, að landið brotnar upp og myndar langar sprungnar ræmur eða spildur, sprungusveima. Þeir eru virkastir inn til miðjunnar, en jaðrar þeirra og endar eru venjulega minna sprungnir og eins er þar heildartilfærslan á sprungunum minni.
Myndun nýrrar jarðskorpu í sprungusveimnum á sér stað samfara gliðnuninni. Það gerist á þann hátt að bergkvika neðan úr möttli jarðar streymir upp í sprungurnar og storknar þar eða vellur að hluta út yfir umhverfið í eldgosum. Þessi nýmyndun jarðskorpu á sér ekki stað á einni ákveðinni sprungu, heldur dreifist hún á nokkrar þyrpingar sprungna, sprungusveimana. Á milli sjálfra sprungusveimanna er oftast minna um alla virkni. Stærð sprungusveima og afstaða þeirra hvers til annars er breytileg svo og framleiðslumynstur þeirra og e.t.v. „lífslengd“.
Á Reykjanesskaganum liggja sprungusveimarnir skástígt og að allverulegu leyti samsíða. Annars staðar á landinu hliðrast þeir meira til á langveginn, svo að samsíða spildur þeirra eru tiltölulega styttri. Hver sprungusveimur þekkist á yfirborði af þrem gerðum sprungna: misgengjum, gjám og gossprungum. Misgengin mynda stalla í landslaginu og um þau hliðrast jarðlögin, sem þau skera, mest í lóðrétta stefnu. Misgengin hafa tilhneigingu til að mynda ákveðinn sigdal (graben) um miðbikið, þar sem virknin er mest. Þingvallalægðin er gott dæmi þar um. Rof og önnur eyðingaröfl hafa tilhneigingu til þess að brjóta niður og jafna út misgengisstallana jafnótt og þeir myndast.
SprungusveimarÁsamt jöklum hefur rennandi vatn tilhneigingu til þess að grafa landið í samræmi við gamalt sprungumynstur. Misgengin og gjárnar geta því orðið stýrandi þáttur í landslagsmótun í eldri  berglögum. Opnu gjárnar myndast eingöngu á gliðnunarsvæðum. Um dýpi þeirra er lítið vitað. Með tímanum hafa roföflin og eldvirknin tilhneigingu til þess að fylla gjárnar. Gígaraðir myndast yfir gossprungum, þar sem kvikan berst til yfirborðsins. Hlaðast þar upp gígar, sem hraun renna frá. Á meðan jöklar lágu yfir gosbeltunum á kuldaskeiðum ísaldarinnar, hindruðu þeir hraunrennsli með þeim afleiðingum, að gosefnin hrúguðust nær öll upp yfir gosrásunum. Þá urðu til móbergshryggir, þar sem annars hefðu orðið gígaraðir. Móbergsfjöll eru áberandi í landslaginu austan og sunnan höfuðborgarsvæðisins, enda er það land að mestu leyti orðið til á síðasta hluta ísaldarinnar og þar af leiðandi lítið rofið.
Um líf- eða virknitíma sprungusveimanna er fremur lítið af haldgóðri þekkingu til staðar, enn sem komið er. Flest bendir þó til þess, að líflengd þeirra séu takmörk sett í raun. Framan af framleiða þeir tiltölulega frumstætt berg og eingöngu basískt að samsetningu. Á sama tíma virðist einnig sprunguvirknin vera mest og e.t.v. ná lengst út til enda og jaðra. Er líður á, hefur virkni sprungusveimanna tilhneigingu til þess að safnast inn á miðsvæði þeirra. Þar myndast háhitasvæði, eldvirknin eykst þar hlutfallslega jafnframt því sem bergkvikan verður þróaðri að samsetningu. Eldgosin verða tíðari en gjarnan minni í hvert sinn. Ennfremur virðist sprunguvirknin fara minnkandi. Jarðfræðingar segja að megineldstöð verði til á sprungusveimnum. Þegar líður svo á þróun þessara megineldstöðva dregur aftur úr virkni þeirra og að lokum deyja þær út. I flestum tilfellum deyr
megineldstöð út samtímis því að nýr sprungusveimur verður til í nágrenninu; eitt kerfi (sprungusveimur-megineldstöð) deyr út og annað hliðstætt kerfi tekur við hlutverkinu. Hinn útdauða sprungusveim ásamt tilheyrandi megineldstöð rekur þá í heilu lagi út úr gosbeltinu til annarrar hvorrar áttarinnar, eftir því hvorum megin nýi sprungusveimurinn myndast. Eyðingaröflin byrja að brjóta megineldstöðina niður og ef til vill kaffærist hún að einhverju marki í gosefnum frá nýja sprungusveimnum.
Í þeirri þróunarsögu jarðskorpunnar, við sunnanverðan Faxaflóa, sem hér verður gerð grein fyrir, koma sjö sprungusveimar við sögu. Af þeim eru tveir útdauðir en fimm virkir. Hinir dauðu voru virkir á árkvarter og eru kenndir við Kjalarnes og Stardal. Á báðum þróuðust samnefndar megineldstöðvar. Hér er því bæði rætt um Kjalarnessprungusveiminn og Kjalarnesmegineldstöðina o.s.frv. Kjalarnesmegineldstöðin var virk á tímabilinu frá 2.8-2.1 miljón ára síðan en Stardalsmegineldstöðin á tímabilinu frá 2.1-1.6 miljón ára (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Fyrstu merki megineldstöðvanna koma í ljós, þegar alllangt er liðið á þróunarskeið.

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Virku sprungusveimarnir fimm eru kenndir við stærstu jarðhitasvæðin, sem á þeim finnast, Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes. Hengilssprungusveimurinn hefur þegar þróast í megineldstöð, en mjög nýlega. Það er hins vegar skilgreiningaratriði, hvort megineldstöð er til staðar á hinum sprungusveimunum enn sem komið er. Þeir bera sum merki dæmigerðra megineldstöðva, en vantar önnur. Þeir eru því allir ungir. Upphafs þeirra er að leita í sjó undan gamalli suðurströnd höfuðborgarsvæðisins seint á ísöld; að öllum líkindum fyrir minna en 700 þúsund árum.
Um jarðfræði höfuðborgarsvæðisins hefur ýmislegt verið ritað og er vitnað til þess helsta í köflunum, sem á eftir fylgja. Jarðfræðileg kortlagning svæðisins var gerð af þeim Tómasi Tiyggvasyni og Jóni Jónssyni (1958). Er það kort í mælikvarðanum 1:40.000 og sýnir fyrst og fremst lausu jarðlögin ofan á berggrunninum, sem þó er mjög víða sýnilegur í gegn um lausu þekjuna.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Jarðlögum við sunnanverðan Faxaflóa má skipta upp í nokkrar ákveðnar stórar einingar. Hér er notast við fjórar myndanir. Dreifing þeirra er sýnd á (1) Tertíera myndunin er elst. Hún er gerð að mestu úr blágrýtishraunlögum og er mynduð áður en þeir sprungusveimar, sem hér er fjallað um, urðu virkir. (2) Árkvartera myndunin liggur ofan á tertíera berginu. Hún er gerð úr hraunlögum og móbergi að mestu leyti. Hún varð til í þeim tveimur útdauðu sprungusveimum, Kjalarnes- og Stardals-sveimunum, sem að ofan getur og virkir voru á fyrri hluta kvarters. Á báðum þróaðist megineldstöð með háhitakerfi og þróuðum bergtegundum (Ingvar B. Friðleifsson 1973). (3) Nútímamyndunin er gerð úr móbergi frá síðasta jökulskeiði og hraunum, sem runnin eru eftir að ísöld lauk. Þetta berg hefur myndast í sprungusveimunum fimm, sem kenndir eru við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes, en þeir eru allir virkir enn og framleiða nú jarðskorpu á sunnanverðu svæðinu. Þeir hafa ekki náð þroskastigi háþróaðra megineldstöðva. (4) Grágrýtismyndunin er gerð úr grágrýtishraunum frá síðustu hlýskeiðum ísaldarinnar. Þessi hraun liggja á milli árkvarteru og nútíma myndananna. Þau verða ekki talin tilheyra ákveðnum sprungusveimum. Þau eru yfirleitt talin vera upp komin í dyngjum, en upptök eða gígasvæði þeirra flestra eru enn óþekkt.
Á þeim tíma, er forverar Hengilssprungusveimsins voru virkir og jarðskorpan á höfuðborgarsvæðinu var að myndast, var Reykjanesskaginn ekki til sem slíkur, eftir því sem best verður séð. Suðurströndin lá norðar en nú er. Hún hefur að sjálfsögðu verið eitthvað breytileg frá einni tíð til annarrar vegna ýmissa breytiþátta, svo sem: Uppbyggingar af völdum eldvirkninnar, niðurbrots af völdum sjávar og jökla, sem langtímum voru á svæðinu, og síðast en ekki síst vegna breytinga á jafnvægisástandi í jarðskorpunni af „ísóstasískum“ toga. Við getum til einföldunar áætlað að lengst af hafi ströndin legið til austurs eða suðausturs frá svæðinu milli Hafnarfjarðar og Grafarvogs. Sprungusveimar þeir sem nú finnast á Reykjanesskaganum voru ekki orðnir virkir og framhald rek- og gosbeltisins til suðurs var neðan sjávarmáls. Afraksturinn af virkni þeirra sprungusveima, sem þá voru virkir neðansjávar, sést ekki á þurrlendi í dag og virðist ekki skipta verulegu máli fyrir endurröðun atburða í þessari þróunarsögu.
Elsta berg við Faxaflóa er frá tertíer. Það finnst ekki sunnar á yfirborði en á norðurströnd Hvalfjarðar. Úr því er t.d. Akrafjall. Þetta berg er myndað í sprungusveimum, sem ekki verða til umfjöllunar hér. Á því hvílir það berg, sem myndar berggrunninn á norðanverðu höfuðborgarsvæðinu. Meginhluti þess bergs, sem nú finnst á yfirborði, myndaðist í árkvarteru sprungusveimunum tveimur. Það finnst í Esju og þeim fjallabálki, sem henni tengist. Það er því myndað í nyrðri hluta kerfanna. Botn Faxaflóa
úti fyrir höfuðborgarsvæðinu er einnig gerður úr bergi frá Kjalarneskerfinu, þ.e.a.s. suðurhluta þess. Ofan sjávarmáls sést í þetta berg, þar sem það hverfur undir grágrýtið í Viðey, Kleppsskafti, Geldinganesi og fleiri stöðum. Einnig kemur það fram ofarlega í borholum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið (Ragna Karlsdóttir 1973). Tiltölulega meira berg er sýnilegt úr suðurhluta Stardalskerfisins, enda er kerfið yngra og minna rofið. Það finnst í fjöllunum vestan Mosfellsheiðar. Í Seljadal og sunnan Úlfarsár hverfur það undir grágrýtið. Lítið er vitað um það, hvernig þessi árkvarteru jarðlög enda í staflanum undir grágrýtinu. Mörk árkvarteru myndunarinnar og grágrýtisins hlýtur eiginlega á flestum stöðum að vera strand-mislægi. Hver heildarþykkt ákvarteru myndunarinnar er liggur ekki ljóst fyrir, en neðri mörk hennar eru mótin við tertíera bergið. Á yfirborði finnst það fyrst norðan Hvalfjarðar. Ummyndað og holufyllt árkvartert berg kemur fyrir í borholum um allt höfuðborgarsvæðið.

Reykjanes

Reykjanestáin – jarðfræðikort.

Fræðileg samstilling jarðlaga og uppröðun þróunarsögunnar innan þessarar myndunar, er að því er virðist töluvert erfið í smáatriðum. Bergið í þessari árkvarteru myndun er mestmegnis allvel holufyllt basalthraunlög og basískt móberg, enda var landið ýmist hulið jöklum eða ísfrítt á myndunarskeiðinu. Slæðingur af súru bergi finnst, einkum úr Stardalsmegineldstöðinni. Það kemur fyrir í Móskarðshnjúkum og Grímmannsfelli (sjá Helga Torfason 1974). Innskotsberg er einnig töluvert áberandi í þessum jarðlagastafla. Er þar bæði um að ræða ganga og minniháttar óregluleg innskot eins og til dæmis í Þverfelli og umhverfis Stardal (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Gangarnir mynda kerfi með sömu stefnu og sprungukerfin hafa, enda eru þeir storknuð kvika, sem leitaði inn í sprungukerfið. Ofan á árkvarteru myndunina leggst grágrýtið. Núverandi þekja þess teygir sig frá Þingvallavatni í sjó fram, sitt hvorum megin við Mosfellssveitarfjöllin. Það finnst á öllum nesjum og eyjum frá Hvaleyri til Brimness. Það finnst í ásum og holtum á höfuðborgarsvæðinu, frá Ásfjalli í suðri til Keldnaholts og Reynisvatnsáss í norðri. Það er einkennisberg flatlendisins ofan Lækjarbotna, umhverfis Sandskeið og á Mosfellsheiði. Stór og mikill fláki af sama bergi finnst sunnar við Faxaflóa og myndar þar Vogastapa, Miðnesheiði og Garðaskaga. Hvort þetta syðra svæði tengist hinu nyrðra beint um botn flóans úti fyrir Vatnsleysuströnd er óljóst. Það gæti eins verið stök myndun. Heildarþykkt grágrýtisins á svæðinu er óþekkt en í borholum reynist það víða allþykkt (Jens Tómasson o.fl. 1977). Þrátt fyrir rofið yfirborð sjást víða um 40 m af því á yfirborði í einu hrauni. Sem jarðlagamyndun með millilögum er það varla undir 150—200 m. Þó grágrýtið sé myndað á tiltölulega stuttu tímaskeiði, þá fer aldur þess almennt lækkandi eftir því sem austar dregur. Neðstu og elstu hlutar grágrýtismyndunarinnar finnast vestur við sjó, í Reykjavík, á Álftanesi og Brimnesi, o.s.frv. Efst og yngst er grágrýtið austur á Mosfellsheiði. Grágrýtið er yfirleitt fremur grófkorna bergtegund. Það er basalt eins og blágrýtið í eldri myndunum og flestöll yngri hraun.
Dyngjur þær, sem myndast hafa eftir að ísöld lauk, eru margar gerðar úr bergi, sem mjög líkist grágrýti hlýskeiðshraunanna frá síðkvarter. Auk þess er ýmislegt annað líkt með dyngjunum og þessum hraunum. Yfirleitt telja því jarðfræðingar að síðkvartera grágrýtið á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar víðar, sé komið úr dyngjum. Dyngjulögunin er þó í flestum tilvikum horfin svo og sjálfir gígarnir. Upptök grágrýtisins eru því yfirleitt óþekkt. Það hefur vegna þessa (líkrar berggerðar og samsetningar og horfinna flestra upprunalegra yfirborðseinkenna) reynst mjög erfitt að deila grágrýtinu upp í einstök hraun, þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Grágrýtið var fyrr á tímum gjarnan afgreitt sem ein stór myndun komin úr Borgarhólum á Mosfellsheiði (Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 og Þorleifur Einarsson 1968), en nú á síðari árum hefur sýnt sig (sbr. Jón Jónsson 1972), að þetta er of mikil einföldun. Að hluta til hefur hún verið leiðrétt með því að greina grágrýtisflákann upp í smærri myndanir (Ragna Karlsdóttir 1973; Árni Hjartarson 1980; Kristján Sæmundsson 1981), þó öll kurl séu langt frá því komin til grafar. Nokkuð bendir til þess, að enn eimi eftir af upprunalegu landslagi í grágrýtinu, þrátt fyrir jökulrof og sjávarágang. Grágrýtið er víða enn mjög þykkt, jafnvel svo að skiptir nokkrum tugum metra. Sú skoðun hefur því komið fram, að upptakasvæði sumra
grágrýtiseininganna sé að finna í námunda við þykkustu hluta þess (sbr. Jón Jónsson 1978). Enn sem komið er, er þó ekki gengið úr skugga um þetta. Ef satt er, bendir þetta til þess að upptök grágrýtisins séu ekki eins tengd sprungusveimum og upptök annarra hrauna.
Árkvarteru kerfin tvö, sem að ofan er lýst, voru virk á tímabilinu frá 2.8 – 1.6 miljón ára. Grágrýtið, sem ofan á jarðmyndanir þeirra leggst, er allt rétt segulmagnað (Leó Kristjánsson 1982, munnlegar upplýsingar), þ.e.a.s. með sömu segulstefnu og ríkir á svæðinu í dag. Grágrýtið hefur því runnið sem hraun á þeim tíma, sem liðinn er frá síðustu segulumpólun, fyrir 700 þúsund árum, eða á síðkvarter.
Nútímabergið eru hraun, sem runnin eru eftir að ísöld lauk og móberg frá síðasta hluta ísaldar. Móbergið er að mestu leyti frá síðasta jökulskeiði. Það er því yngra en grágrýtið. Móbergið finnst í stökum fjöllum og fellum, löngum fjallgörðum og jafnvel flóknum fjallaklösum, sem hraunin hafa lagst upp að eða runnið umhverfis. Hraunin eru komin úr fáeinum nútímadyngjum og eldborgum en fyrst og fremst úr gígaröðum, sem raðast samsíða á sprungusveimana. Það er ekki vani jarðfræðinga, að tala um nútímaberg, nema það sé myndað eftir að ísöld lauk, þ.e.a.s. á nútíma. Hér er þessi hefð þó brotin, vegna þess að hvort tveggja bergið, móberg síðasta jökulskeiðs og nútímahraunin, eru mynduð í sömu sprungusveimunum, þeim sem ennþá eru virkir á nútíma og fyrr eru taldir upp. Þó þetta berg skiptist í tvær ólíkar berggerðir og önnur þeirra (móbergið) sé eldri, þá er það allt ættað úr sömu einingunum (virku sprungusveimunum). Báðar berggerðirnar eiga því
saman sem „stratigrafísk“ og tímaleg eining.

Reykjanesskagi

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Nútímabergið liggur ofan á grágrýtinu. Mörk grágrýtisins og móbergsins eru ekki víða áberandi, en hraunaþekjan leggst sýnilega ofan á grágrýtið á stórum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta áberandi frá Hafnarfirði austur um og upp undir Draugahlíðar (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Þetta er í suðurjaðri þess, sem venjulega er kallað höfuðborgarsvæði, og því má segja, að þessi yngsta myndun sé hvergi mjög þykk á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þegar suður fyrir það kemur, verður hún hins vegar nær einráð og víða mjög þykk. Jafnframt dýpkar yfirleitt á eldri myndununum. Báðar berggerðir þessarar myndunar eru mjög gropnar, einkum hraunin.
Þau eru jafnvel gropnari en grágrýtið í sumum tilvikum. Því veldur bæði lágur aldur þeirra og myndunarmáti. Vatn hripar því auðveldlega niður í myndunina, enda rennur hvorki á né lækur til sjávar á milli Lækjarins í Hafnarfirði og Ölfusár. Ekki verður séð að aldursmunur sé á einstökum sprungusveimum innan myndunarinnar. Uppbygging er mest og land stendur hæst á Hengilssveimnum, sem er lengst inn til landsins. Uppbyggingin er hins vegar minnst og land stendur lægst á Reykjanessveimnum, sem nær lengst út til sjávarins. Hlutfallslega virðist móberg vera mest inni á Hengilssveimnum, en minnst úti á Reykjanessveimnum. Þetta gæti bent til þess, að Hengilssveimurinn væri ef til vill eitthvað eldri. Það er þó líklegra að öll þessi einkenni spegli fremur afkastagetu sprungusveimanna og mismikla virkni en verulegan aldursmun.
Eins og fyrr er sagt myndaðist elsti hluti jarðskorpunnar á höfuðborgarsvæðinu í sprungusveimnum og megineldstöðinni, sem kennd eru við Kjalarnes og voru virk í upphafi kvartertímans og fram undir 2.1 miljón ára. Sambærilegt kerfi, Stardalskerfið, hafði við endalok hins kerfisins verið í uppsiglingu um tíma. Stardalssprungusveimurinn óx þá að virkni og hrakti Kjalarnesmegineldstöðina út úr gosbeltinu. Þá dó Kjalarnesmegineldstöðin út, en Stardalsprungusveimurinn þróast sjálfur í megineldstöð. Stardalsmegineldstöðin dó svo út fyrir 1.6 miljón árum og hefur síðan verið að
fjarlægjast gosbeltið og rofna niður. Núna rekur hana til vesturs undan virkni Hengilssprungusveimsins. Hann er þó yngri en 0.7 miljónir ára samkvæmt segulstefnudreifingu (Kristján Sæmundsson 1967; Leó Kristjánsson og Ágúst Guðmundsson 1980). Það getur því vart verið, að hann einn eigi sök á færslu Stardalsskerfisins vestur á bóginn. Líklegast er, að á tímabilinu á milli u. þ. b. 1.8 miljón ára og þess að Hengilssveimurinn tók við gliðnunarhlutverkinu, hafi verið virkur sprungusveimur, sem nú ætti að finnast útdauður á milli Hengils og Stardals. Ekki hefur þó slíkt kerfi fundist, en sá möguleiki er fyrir hendi, að það sé til staðar undir hinni miklu grágrýtisþekju á Mosfellsheiði og nágrenni. Annar möguleiki er reyndar sá, að af einhverjum ástæðum hafi ekkert slíkt sprungukerfi myndast á þessum tíma og að grágrýtið sjálft sé eins konar staðgengill þess, þannig að afleiðingin af tregu reki og lítilli virkni um langan tíma hafi að lokum verið tiltölulega þétt hrina stórra dyngjugosa, sem framleiddu grágrýtið. Á tímum þessara árkvarteru kerfa myndaðist jarðskorpa, sem nú finnst ofan sjávarmáls um norðanvert höfuðborgarsvæðið og á botni Faxaflóa undan ströndum þess. Sunnanvert höfuðborgarsvæðið var undir sjó eða við ströndina og Reykjanesskaginn sem slíkur var ekki enn orðinn til. Þegar leið að lokum kvartertímans hófust hin miklu dyngjugos, sem lögðu til grágrýtið. Þau virðast flest hafa átt sér stað á þurru landi og íslausu og hraunin hafa runnið út að ströndinni og lagst meðfram henni í eins konar kraga. Sum þessara gosa gætu jafnvel hafa byrjað á grunnsævi og myndað eyjar, sem ýmist tengdust ströndinni eða ekki. Hér er helst skírskotað til grágrýtisflákans á Rosmhvalanesi og Vogastapa og ef til vill á Krýsuvíkurheiði.

Reykjanes

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Nágrennið við sjávarsíðuna er meðal annars sterklega gefið til kynna af algengum brotabergsmyndunum í botni margra grágrýtiseininganna um allt svæðið (sbr. Ragna Karlsdóttir 1973; Jón Jónsson 1978; Árni Hjartarson 1980 og Kristján Sæmundsson 1981). Að loknu gostímabili grágrýtisdyngjanna gekk kuldaskeið í garð og jökull lagðist yfir svæðið. Þar sem nú er Reykjanesskagi var orðið grunnsævi og land ef til vill að hluta til risið úr sæ. Eldgos á sprungum hófust undir íshettunni og móbergsfjöllin urðu til. Þetta er fyrsta virknin, sem þekkt er á sprungusveimum Reykjanesskagans. Mikil virkni hófst á þessum sprungusveimum og hélt hún sleitulaust áfram eftir að kuldaskeiðinu lauk og nútími gekk í garð. Þetta sést glöggt af þeim aragrúa hrauna, sem eru á skaganum, mjög áberandi höggun (með misgengjum og gjám) og mörgum háhitasvæðum (Jón Jónsson 1978), ákafri jarðskálftavirkni (Páll Einarsson 1977) og síðast en ekki síst á þykkt hraunlagaog móbergsstaflans eins og hann birtist í borholum innan sprungusveimanna (Sveinbjörn Björnsson o.fl. 1971 og Stefán Arnórsson o.fl. 1975), þar sem sigið er mest. Hinn lági aldur sprungusveimanna á Reykjanesskaga er ennfremur gefinn til kynna af
sprungumynstrinu í grágrýtinu. Það er ósprungið eða lítt sprungið víða, en hins vegar mjög brotið í beinu framhaldi af sprungusveimum Reykjanesskagans.
Sprungurnar í árkvartera berginu undir grágrýtinu hverfa innundir grágrýtið og virðast ekki hafa nein áhrif á það sjálft (sbr. Kjartan Thors 1969). Hreyfingum á þeim er því lokið, þegar grágrýtishraunin renna, en hefjast e.t.v. aftur síðar. Sprungusveimarnir, frá Hengli í austri til Reykjaness í vestri, eru nýmyndunarsvæði jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa.
Höfuðborgarsvæðið liggur utan gosbeltisins, þar sem jarðskorpan myndast í dag. Það er að mestu leyti þakið grágrýtinu, sem er á milli gömlu útdauðu sprungusveimanna og hinna virku. Grágrýtið rann á sínum tíma út yfir sprungið land gömlu sprungusveimanna. Það virðist sjálft ekki hafa myndast á sprungusveimum eða í beinum tengslum við sprungusveima og er því óbrotín og ósprungin myndun við lok myndunarskeiðsins. Þegar virknin hefst á sprungusveimum Reykjanesskagans leggst berg þeirra ofan á grágrýtið. Vegna afstöðu nýju sprungusveimanna teygja sprungur þeirra sig inn í gamla jarðlagastaflann. Þá fyrst brotnar grágrýtið upp og eflaust nær þessi sprunguvirkni inn í árkvartera jarðlagastaflann líka. Grágrýtið sjálft er mest sprungið á vestanverðri Mosfellsheiði, í beinu framhaldi af sprungusveim Brennisteinsfjallanna og umhverfis Elliðavatn,
í beinu framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum. Framhald Reykjanessprungusveimsins til norðausturs stefnir beint á Reykjavík. Sprungurnar hverfa í sjó á Vatnsleysuströnd, en þær hafa ekki fundist á landi á Álftanesi eða í Reykjavík. Grágrýtið á þessum stöðum er því að mestu óbrotið, að því er virðist. Erfitt er þó að fá af þessu óyggjandi mynd, vegna þess hversu byggt land er orðið í Reykjavík og sprungukort voru ekki gerð í tíma, eins og nú er farið að gera á framtíðarsvæðum byggðar á höfuðborgarsvæðinu (sbr. Halldór Torfason 1982). Árkvartera bergið undir grágrýtinu er hins vegar brotið, en þau brot tilheyra Kjalarnessprungusveimnum, eins og fyrr segir. Hvort líkur eru á að sprunguvirkni Reykjanessprungusveimsins nái til Reykjavíkur í framtíðinni, er háð því á hvaða stigi Reykjanessprungusveimurinn er. Sé hann enn vaxandi að virkni er ekki útilokað að hann eigi eftir að brjóta Reykjavíkurgrágrýtið á sama hátt og Krýsuvíkursprungusveimurinn hefur brotið grágrýtið umhverfis Elliðavatn og Rauðavatn, og Brennisteinsfjallasveimurinn hefur brotið grágrýtið á vestanverðri Mosfellsheiði. Sé hann á hinn bóginn í hámarki virkni sinnar eða farinn að dala, verður að sama skapi að teljast ólíklegt að hann brjóti nokkurn tíma Reykjavíkurgrágrýtið. Um breytingar á virkni Reykjanessprungusveimsins í framtíðinni er mjög erfitt að segja nokkuð ákveðið. Til þess vitum við of lítið um smáatriðin í þróun sprungusveima, raunverulegan „líftíma“ þeirra, aldur Reykjanessprungusveimsins o.fl. Um aldur hreyfinganna nyrst á

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Krýsuvíkursprungusveimnum er þó hægt að fá nokkra vitneskju og skal hér rakið gleggsta dæmið. Grágrýtið er brotið í framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum norður fyrir Rauðavatn. Ofan á þetta grágrýti leggjast nokkur tiltölulega ung hraun. Tvö þeirra verða hér til verulegrar hjálpar, þar sem þau renna bæði þvert á sprungukerfið og bæði hafa verið aldursákvörðuð. Annað þevrra er Búrfellshraun upp af Hafnarfirði. Samkvæmt aldursákvörðun með geislakoli rann þetta hraun fyrir um það bil 7200 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Vestur af Búrfelli skera nokkur misgengi, þ.á.m. Hjallamisgengið, taum af þessu hrauni. Tilfærslan á Hjallamisgenginu er mest í grágrýtinu norðan við hrauntauminn, um 65 m, en við aðalbrotið er tilfærslan á Búrfellshrauninu aðeins um 7 m (sbr. Jón Jónsson 1965). Misgengið er því að stofni til eldra en 7200 ára, en hefur eftir þann tíma hreyfst um 7 m. Einum 6—7 km norðar rann hraun í gegnum sundið á milli Skyggnis og Seláss niður eftir Elliðaárdalnum. Hraun þetta er komið upp í Leitum austan Bláfjalla og hefur runnið norður undir Kolviðarhól, svo niður á Sandskeið, um Lækjarbotna og Elliðaárdal til sjávar í Elliðavogi (Þorleifur Einarsson 1961). Samkvæmt geislakolsaldursákvörðun á mó undan hrauninu í Elliðavogi, þeirri fyrstu á íslensku efni, rann þetta hraun fyrir um það bil 5300 árum (Hospers 1953 og Jóhannes Áskelsson 1953). Samskonar aldursákvörðun á birkikolum undan hrauninu í Elliðaárdal, gerð síðar (Jón Jónsson 1971), gefur heldur lægri aldur, eða um 4600 ár, sem er líklega nær hinu rétta. Hraun þetta er óbrotið í sundinu við Skyggni, þar sem það liggur 4 – 5 m þykkt ofan á 2 m af lausum jarðlögum (Gestur Gíslason og Páll Imsland 1971). Austurbrún Selássins norðan sundsins er misgengisstallur á sama misgengja- og sprungusveim og Hjallamisgengið. Fleiri misgengi á þessum sprungusveim liggja norður um svæðið austan Elliðavatns og skera þar grágrýtið beggja vegna Leitahraunsins, án þess að nokkurra brota verði vart í hrauninu (sbr. Jón Jónsson 1965). Það verður því að teljast nær fullvíst, að ekki hafi orðið hreyfing á þessum misgengjasveim norðan Elliðavatns síðustu 4600 árin, þó ljóst sé, að 6 – 7 km sunnar hafi orðið allt að 7 m misgengi á brotum á sama sprungusveim einhvern tíma á síðustu 7200 árum. Leitahraun er hins vegar brotið austur við Vatnaöldur (Jón Jónsson 1982, munnl. upplýsingar), þar sem Brennisteinsfjallasprungusveimurinn sker það. Verið getur að brotavirkni á öllum norðurhluta Krýsuvíkursprungusveimsins hafi dáið út á tímabilinu milli 7200 og 4600 ára. Hitt er líklegra, að áhrifa brotavirkninnar gæti minna eftir því, sem norðar dregur og 7 m misgengið við Búrfellsgjá deyi út áður en það nær norður að Skyggni. Í síðara tilvikinu segir aldur hraunanna ekkert til um lágmarksaldur síðustu misgengjahreyfinga á brotum. Krýsuvíkursveimurinn hefur sem sagt ekki náð að brjóta og hreyfa grágrýtið í Reynisvatnsheiði á síðustu 4600 árum. Ekki liggur fyrir næg vitneskja um eðli og hegðun sprungusveima til þess að draga megi af þessu mjög ákveðna vitneskju um framtíðarhorfur. Yfirleitt virðist sem 5000 ár á milli atburða á sprungusveimum rekbeltanna sé mjög langt hlé, en hér er þess að gæta, að um er að ræða ysta jaðar sprungusveimsins, svo langt frá hámarki virkninnar sem komist verður. Hvenær á „lífsferli“ sprungusveims slíkir jaðrar eru virkastir er ekki vitað með neinni vissu.
Grunnvatnsstreymi allt, ekki síst í jarðhitakerfunum í landinu, er yfirleitt talið standa í mjög nánum tengslum við sprungukerfin. Árkvarteru sprungukerfin hafa þannig, að því er virðist, afgerandi áhrif á lághitasvæðin í Reykjavík og Mosfellssveit. Virku sprungusveimarnir stjórna hins vegar rennsli vatns og gufu í háhitasvæðunum á Reykjanesi, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli.
Kaldavatnsrennslið á sér stað grynnra og ungar sprungur í grágrýtinu og ungu hraununum stjórna rennsli þess á Elliðavatns-Heiðmerkursvæðinu að einhverju leyti. Vegna þess hversu hátt í jarðskorpunni kaldavatnsstraumurinn á sér stað og þeirrar staðreyndar, að þar eru jarðlög, grágrýti, móberg og hraun, mjög opin að innri byggingu, er kalda vatnið minna háð sprungum um rennsli en heita vatnið, sem streymir dýpra og í þéttara bergi.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, Páll Imsland: Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa, sprungumyndunarsaga, 54. árg. 1985, 2. tbl., bls. 63-75.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Hraun

Margir, sem leið eiga framhjá Seltjörn veita eldri grágrýtissteinum athygli þar sem þeir liggja ofan á yngri hraunum. Í fljóti bragði virðist tilurð þeirra stinga í stúf við öll eðlileg lögmál. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði eftirfarandi í Náttúrufræðinginn um grettistök í nútímahraunum og þ.á.m. Seltjorn-1björgin við Seltjörn: „Allir kannast við hin svo nefndu grettistök, stórbjörg, sem oft er tildrað ofan á minni steina eins og þau hefðu verið færð þangað af mannahöndum, eða sem liggja á fáguðum klöppum ein síns liðs, stundum á brúnum hárra fjalla. Þjóðtrúin hefur sett þau í samband við Gretti hinn sterka og má vera, að í því felist ævaforn dýrkun orkunnar, og er það naumast framandi fyrir okkar tíma. Hvert mannsbarn veit að um er að ræða björg, sem jöklar hafa borið með sér og orðið hafa eftir, er jökullinn bráðnaði. Það vekur því enga athygli að finna þau á landi, sem jökull hefur gengið yfir, en talsvert er öðru máli að gegna, er þau verða á vegi manns ofan á hraunum, sem runnið hafa löngu eftir að ísöld lauk.

Seltjörn sú, sem hér er um að ræða, er sunnan við Vogastapa og skammt vestan við Grindavíkurveg. Hún er milli grágrýtisklappa í sigdal, sem stefnir norðaustur-suðvestur og fyllir þann hluta hans, sem lægstur er. Eftir lægðinni milli grágrýtisásanna vestur af Seltjörn hefur runnið hraun Seltjorn-2eftir að ísöld lauk og eftir að sjór hvarf af þessu svæði, en síðla á síðustu ísöld gekk sjór yfir það, eins og sjá má af lábörðu grjóti víðs vegar um Vogastapa. Hraun þetta er komið frá Sandfellshæð, sem er stór dyngja um 5 km vestur af Stapafelii. Hrauntungan, sem runnið hefur austur eftir áðurnefndum sigdal nær austur í Seltjörn. Skammt vestur af tjörninni liggur dreif af grágrýtisbjörgum ofan á þessu hrauni. Steinar þessir eru í ýmsum stærðum, allt frá sæmilegum „hálfsterk“ upp í björg, sem vart eru minna en 8—10 tonn. Þau liggja ofan á hrauninu og hvergi hef ég séð þess merki að þau hafi sokkið ofan í það, en víða má sjá hraungára (hraunreipi) liggja inn undir steinana og án þess að hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, þótt um stórbjörg sé að ræða. Sum björgin liggja þvert yfir sprungur í hrauninu. Engin merki sjást þess, að grágrýtisbjörgin hafi orðið fyrir hitaáhrifum frá hrauninu. Björg sem þessi eru dreifð í jökulurðinni um allan Vogastapa, en hvernig hafa þau komist ofan á hraunið? Það kostaði mig talsverðar vangaveltur að komast að því sanna hvað þetta varðar, en ég tel það nú liggja fullkomlega ljóst fyrir.
Hraun-221Grágrýtisbjörgin eru ættuð af svæðinu sunnan Vogastapa og skriðjökull hefur skilið þau eftir á jökulhefluðum klöppum, væntanlega ekki langt frá þeim stað, þar sem þau eru nú. Meðan stóð á gosum í Sandfellshæð hefur hraunið náð að renna austur dalinn milli grágrýtisásanna allt austur í Seltjörn. Hraun þetta er dæmigert dyngjuhraun. Það hefur verið þunnfljótandi, heitt og hefur runnið nánast eins og þunn leðja og því mun hraunið þarna ekki þykkt. Hraunið hefur runnið umhverfis grágrýtisbjörgin og undir þau, lyft þeim upp og síðan hafa þau borist með hraun straumnum eins og jakar á vatni. Hraunkvika, sem misst hefur verulegan hluta af því gasi, sem upprunalega var í henni, hlýtur að hafa nokkru hærri eðlisþyngd en storknað hraun enda þótt munur á efnasamsetningu þeirra sé nánast enginn. Hliðstæður eru vatn og ís og sú staðreynd, að storknaðir hraunflekar fljóta á rennandi hrauni. Nánast enginn munur er á samsetningu hraunanna frá Sandfellshæð og grágrýtisins (Jónsson 1972) og hlutfallið milli eðlisþyngdar hins rennandi hraun og grágrýtisbjarganna því væntanlega ekki ósvipað og milli íss og vatns.
Grágrýtið á Suðurnesjum og eins kringum Reykjavík er yfirleitt frauðkennt og eðlisþyngd þess virðist að mestu leyti vera á bilinu 2,66—2,78 og ólivíninnihald um 8—14% (Jónsson 1972).
Hvað grettistökin ofan á nútímahrauni varðar, hef ég fundið þau víðar en við Seltjörn. Eitt slíkt heljarbjarg liggur ofan á hrauni suðaustan við Vogastapa og dálitla dreif af slíkum framandsteinum er að finna norðan í Brúnum, þ. e. utan í dyngjunni miklu, sem er norðan undir Fagradalsfjalli, en frá henni eru Strandar- (Vatnsleysustrandar) hraunin komin. Af ofannefndu má ljóst vera, að þar sem svona björg finnast getur aðeins verið um eitt hraun ofan á jökulurðinni að ræða.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 45.árg. 1975-1976, bls. 205-209 – [
HEIMILDARIT; Jónsson, 1972: Grágrýtið, Náttúrufr., 42: 21-30].

Reykanes

Í Náttúrufræðingnum 1994-1995 skrifar Magnús Á Sigurgeirsson m.a. um jarðfræði Reykjaness: „Reykjanes er um 5 km langt, í SV-NAstefnu,og myndar suðvestasta hluta Reykjanesskagans. Það afmarkast af Stóru-Sandvík í vestri og Sandvík austan Háleyjabungu í austri. Nesið er allt eldbrunnið og hrjóstrugt yfir að líta, að mestu þakið gróðurvana, sandorpnum og úfnum hraunum. Upp úr hraunbreiðunum rísa móbergs- og bólstrabergshryggir sem liggja slitrótt norðaustur eftir nesinu. Reykjanes-kort-21Næst ströndinni er Valahnúkur sem skagar í sjó fram en innar koma Bæjarfell, sem vitinn stendur á, Litlafell, Sýrfellsdrög og Sýrfell, sem er þeirra hæst. Á austanverðu Reykjanesi eru hraundyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga. Hraun þeirra eru mjög misgengin og sprungin enda elst hrauna á nesinu. Að móbergsmyndunum og dyngjum frátöldum er nesið að mestu leyti þakið hraunum sem runnið hafa frá gossprungum. Eru það yngstu bergmyndanir þar, eins og raunar á við um Reykjanesskagann í heild. Stærst þessara hrauna á Reykjanesi er Tjaldstaðagjárhraun sem þekur um fimmtung nessins. Erfitt er að átta sig á stærð eldri sprunguhraunanna þar sem þau eru að miklum hluta þakin yngri hraunum.
Reykjanes liggur á mótum gliðnunar- og goshryggja Norður-Atlantshafsins og Íslands. Öll umbrot sem þar verða, eldvirkni og höggun, eru tengd gliðnunarhrinum. Á  Reykjanesskaga liggja skástíg eldstöðvakerfi hvert vestur af öðru og áfram eftir Reykjaneshryggnum á hafsbotni. Vestasta eldstöðvakerfið liggur um Reykjanes og er við það kennt. Það er um 25 km langt í suðvestur-norðausturstefnu og liggja syðst 9 km þess Reykjanes-jardfraedi-1neðansjávar (Sveinn P. Jakobsson o.fl. 1978). Á sjókorti má glöggt sjá neðansjávarhrygg sem gengur suðvestur frá nesinu og er neðansjávarhluti Reykjaneskerfisins (Sjómælingar Íslands 1972).
Hraun á Reykjanesi eru úr basalti. Frá gossprungum hafa runnið hraun úr þóleiíti en frá dyngjum úr ólivínþóleiíti eða pikríti (Sveinn P. Jakobsson o.fl. 1978). Á jarðfræðikortum Jóns Jónssonar (1963, 1978) er sýnd útbreiðsla, gerð og aldursafstaða helstu jarðmyndana á Reykjanesi.“
Páll Imsland hafi m.a. skrifað eftirfarandi um jarðfræði Reykjanesskagans í Náttúrfræðinginn 1985: „Kenningin um landrek og tilurð jarðskorpu á gliðnandi plötumótum, gerir betur grein fyrir myndun, þróun og ástandi íslensku jarðskorpunnar en nokkurt annað tiltækt hugmyndakerfi. Það sem hér verður útlistað um almennt jReykjanes-jardfraedi-2arðfræðilegt ástand og þróun skorpunnar á Suðvesturlandi er gert innan ramma plötukenningarinnar, sem er óneitanlega frjóasta og notadrýgsta heildarmynd, sem jarðfræðin hefur átt. Á fáum stöðum á jörðinni tala merkin Ijósar á máli þessarar kenningar en einmitt hérlendis. Samhengið í jarðfræðilegri þróun er tiltölulega auðsætt hér, þó flókið sé, og samband „strúktúra“ og þeirra ferla, sem eru orsök þeirra, liggur ljósar fyrir en almennt gerist. Veldur því bæði, að landið er í hraðri myndun og eins hitt, að það er gróðursnautt, svo opnur eru yfirleitt mjög góðar í berggrunninn. Það er vegna þessa, sem Ísland gegnir gjarnan lykilhlutverki í jarðfræðilegum rannsóknum, er beinast að skilningi á jörðinni í heild.
Íslenska jarðskorpan verður til í rek- og gosbeltinu. Á Suðvesturlandi liggur þetta belti um Reykjanesskagann og Hellisheiðar-Þingvallasvæðið í átt til Langjökuls. Framhald þess til suðurs er Reykjanes-jardfraedi-3sjálfur Reykjaneshryggurinn. Flói og Ölfus liggja á nýmynduðum vesturjaðri Evrópuplötunnar, er rekur til austurs með u.þ.b. 1 cm hraða á ári að meðaltali. Höfuðborgarsvæðið liggur hins vegar á nýmynduðum austurjaðri Ameríkuplötunnar, vestan við rekbeltið, og rekur með líkum hraða til vesturs (Leó Kristjánsson 1979). Landið verður því eldra, sem lengra kemur frá rekbeltinu. Nýtt land er ætíð að myndast í rekbeltunum. Það verður til, þar sem spennuástand í jarðskorpunni veldur því, að landið brotnar upp og myndar langar sprungnar ræmur eða spildur, sprungusveima. Þeir eru virkastir inn til miðjunnar, en jaðrar þeirra og endar eru venjulega minna sprungnir og eins er þar heildartilfærslan á sprungunum minni. Myndun nýrrar jarðskorpu í sprungusveimnum á sér stað samfara gliðnuninni. Það gerist á þann hátt að bergkvika neðan úr möttli jarðar streymir upp í sprungurnar og storknar þar eða vellur að hluta Reykjanes-jardfraedi-4út yfir umhverfið í eldgosum. Þessi nýmyndun jarðskorpu á sér ekki stað á einni ákveðinni sprungu, heldur dreifist hún á nokkrar þyrpingar sprungna, sprungusveimana. Á milli sjálfra sprungusveimanna er oftast minna um alla virkni. Stærð sprungusveima og afstaða þeirra hvers til annars er breytileg svo og framleiðslumynstur þeirra og e.t.v. „lífslengd“. Á Reykjanesskaganum liggja sprungusveimarnir skástígt og að allverulegu leyti samsíða. Annars staðar á landinu hliðrast þeir meira til á langveginn, svo að samsíða spildur þeirra eru tiltölulega styttri. Hver sprungusveimur þekkist á yfirborði af þrem gerðum sprungna: misgengjum, gjám og gossprungum. Misgengin mynda stalla í landslaginu og um þau hliðrast jarðlögin, sem þau skera, mest í lóðrétta stefnu. Misgengin hafa tilhneigingu til að mynda ákveðinn sigdal (graben) um miðbikið, þar sem virknin er mest. Þingvallalægðin er gott dæmi þar um. Rof og önnur eyðingaröfl hafa tilhneigingu til þess að brjóta niður og jafna út misgengisstallana Reykjanes-jardfraedi-5jafnótt og þeir myndast. Ásamt jöklum hefur rennandi vatn tilhneigingu til þess að grafa landið í samræmi við gamalt sprungumynstur. Misgengin og gjárnar geta því orðið stýrandi þáttur í landslagsmótun í eldri berglögum. Opnu gjárnar myndast eingöngu á gliðnunarsvæðum. Um dýpi þeirra er lítið vitað. Með tímanum hafa roföflin og eldvirknin tilhneigingu til þess að fylla gjárnar. Gígaraðir myndast yfir gossprungum, þar sem kvikan berst til yfirborðsins. Hlaðast þar upp gígar, sem hraun renna frá. Á meðan jöklar lágu yfir gosbeltunum á kuldaskeiðum ísaldarinnar, hindruðu þeir hraunrennsli með þeim afleiðingum, að gosefnin hrúguðust nær öll upp yfir gosrásunum. Þá urðu til móbergshryggir, þar sem annars hefðu orðið gígaraðir. Móbergsfjöll eru áberandi í landslaginu austan og sunnan höfuðborgarsvæðisins, enda er það land að mestu leyti orðið til á síðasta hluta ísaldarinnar og þar af leiðandi lítið rofið.
Reykjanes-jardfraedi-6Um líf- eða virknitíma sprungusveimanna er fremur lítið af haldgóðri þekkingu til staðar, enn sem komið er. Flest bendir þó til þess, að líflengd þeirra séu takmörk sett í raun. Framan af framleiða þeir tiltölulega frumstætt berg og eingöngu basískt að samsetningu. Á sama tíma virðist einnig sprunguvirknin vera mest og e.t.v. ná lengst út til enda og jaðra. Er líður á, hefur virkni sprungusveimanna tilhneigingu til þess að safnast inn á miðsvæði þeirra. Þar myndast háhitasvæði, eldvirknin eykst þar hlutfallslega jafnframt því sem bergkvikan verður þróaðri að samsetningu. Eldgosin verða tíðari en gjarnan minni í hvert sinn. Ennfremur virðist sprunguvirknin fara minnkandi. Jarðfræðingar segja að megineldstöð verði til á sprungusveimnum. Þegar líður svo á þróun þessara megineldstöðva dregur aftur úr virkni þeirra og að lokum deyja þær út. Í flestum tilfellum deyr megineldstöð út samtímis því að nýr sprungusveimur verður til í nágrenninu; eitt kerfi (sprungusveimur-megineldstöð) deyr út og Reykjanes-jardfraedi-7annað hliðstætt kerfi tekur við hlutverkinu. Hinn útdauða sprungusveim ásamt tilheyrandi megineldstöð rekur þá í heilu lagi út úr gosbeltinu til annarrar hvorrar áttarinnar, eftir því hvorum megin nýi sprungusveimurinn myndast. Eyðingaröflin byrja að brjóta megineldstöðina niður og ef til vill kaffærist hún að einhverju marki í gosefnum frá nýja sprungusveimnum.
Í þeirri þróunarsögu jarðskorpunnar, við sunnanverðan Faxaflóa, sem hér verður gerð grein fyrir, koma sjö sprungusveimar við sögu. Af þeim eru tveir útdauðir en fimm virkir. Hinir dauðu voru virkir á árkvarter og eru kenndir við Kjalarnes og Stardal. Á báðum þróuðust samnefndar megineldstöðvar. Hér er því bæði rætt um Kjalarnessprungusveiminn og Kjalarnesmegineldstöðina o.s.frv. Kjalarnesmegineldstöðin var virk á tímabilinu frá 2.8-2.1 miljón ára síðan en Stardalsmegineldstöðin á tímabilinu frá 2.1-1.6 miljón ára (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Fyrstu merki megineldstöðvanna koma í ljós, þegar alllangt er liðið á þróunarskeið sprungusveimsins. Eldvirkni og sprunguvirkni hefst því á Reykjanes-jardfraedi-8Kjalarnessprungusveimnum nokkrum hundruðum þúsunda ára áður en megineldstöðin sjálf hefur þróast svo, að hún verði þekkjanleg í jarðlagastaflanum. Virku sprungusveimarnir fimm eru kenndir við stærstu jarðhitasvæðin, sem á þeim finnast, Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes. Hengils-sprungusveimurinn hefur þegar þróast í megineldstöð, en mjög nýlega. Það er hins vegar skilgreiningaratriði, hvort megineldstöð er til staðar á hinum sprungusveimunum enn sem komið er. Þeir bera sum merki dæmigerðra megineldstöðva, en vantar önnur. Þeir eru því allir ungir. Upphafs þeirra er að leita í sjó undan gamalli suðurströnd höfuðborgarsvæðisins seint á ísöld; að öllum líkindum fyrir minna en 700 þúsund árum.
JReykjanes-jardfraedi-16arðlögum við sunnanverðan Faxaflóa má skipta upp í nokkrar ákveðnar stórar einingar. Hér er notast við fjórar myndanir.
(1) Tertíera myndunin er elst. Hún er gerð að mestu úr blágrýtishraunlögum og er mynduð áður en þeir sprungusveimar, sem hér er fjallað um, urðu virkir.
(2) Árkvartera myndunin liggur ofan á tertíera berginu. Hún er gerð úr hraunlögum og móbergi að mestu leyti. Hún varð til í þeim tveimur útdauðu sprungusveimum, Kjalarnes- og Stardalssveimunum, sem að ofan getur og virkir voru á fyrri hluta kvarters. Á báðum þróaðist megineldstöð með háhitakerfi og þróuðum bergtegundum (Ingvar B. Friðleifsson 1973).
(3) Nútímamyndunin er gerð úr móbergi frá síðasta jökulskeiði og hraunum, sem runnin eru eftir að ísöld lauk. Þetta berg hefur myndast í sprungusveimunum fimm, sem kenndir eru við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes, en þeir eru allir virkir enn og framleiða nú Reykjanes-jardfraedi-11jarðskorpu á sunnanverðu svæðinu. Þeir hafa ekki náð þroskastigi háþróaðra megineldstöðva.
(4) Grágrýtismyndunin er gerð úr grágrýtishraunum frá síðustu hlýskeiðum ísaldarinnar. Þessi hraun liggja á milli árkvarteru og nútíma myndananna. Þau verða ekki talin tilheyra ákveðnum sprungusveimum. Þau eru yfirleitt talin vera upp komin í dyngjum, en upptök eða gígasvæði þeirra flestra eru enn óþekkt. Á þeim tíma, er forverar Hengils-sprungusveimsins voru virkir og jarðskorpan á höfuðborgarsvæðinu var að myndast, var Reykjanesskaginn ekki til sem slíkur, eftir því sem best verður séð. Suðurströndin lá norðar en nú er. Hún hefur að sjálfsögðu verið eitthvað breytileg frá einni tíð til annarrar vegna ýmissa breytiþátta, svo sem: Reykjanes-jardfraedi-9Uppbyggingar af völdum eldvirkninnar, niðurbrots af völdum sjávar og jökla, sem langtímum voru á svæðinu, og síðast en ekki síst vegna breytinga á jafnvægisástandi í jarðskorpunni af „ísóstasískum“ toga. Við getum til einföldunar áætlað að lengst af hafi ströndin legið til austurs eða suðausturs frá svæðinu milli Hafnarfjarðar og Grafarvogs. Sprungusveimar þeir sem nú finnast á Reykjanesskaganum voru ekki orðnir virkir og framhald rek- og gosbeltisins til suðurs var neðan sjávarmáls. Afraksturinn af virkni þeirra sprungusveima, sem þá voru virkir neðansjávar, sést ekki á þurrlendi í dag og virðist ekki skipta verulegu máli fyrir endurröðun atburða í þessari þróunarsögu.
Elsta berg við Faxaflóa er frá tertíer. Það finnst ekki sunnar á yfirborði en á norðurströnd Hvalfjarðar. Úr því er t.d. Akrafjall.
Reykjanes-jardfraedi-12Nútímabergið eru hraun, sem runnin eru eftir að ísöld lauk og móberg frá síðasta hluta ísaldar. Móbergið er að mestu leyti frá síðasta jökulskeiði. Það er því yngra en grágrýtið. Móbergið finnst í stökum fjöllum og fellum, löngum fjallgörðum og jafnvel flóknum fjallaklösum, sem hraunin hafa lagst upp að eða runnið umhverfis. Hraunin eru komin úr fáeinum nútímadyngjum og eldborgum en fyrst og fremst úr gígaröðum, sem raðast samsíða á sprungusveimana. Það er ekki vani jarðfræðinga, að tala um nútímaberg, nema það sé myndað eftir að ísöld lauk, þ.e.a.s. á nútíma. Hér er þessi hefð þó brotin, vegna þess að hvort tveggja bergið, móberg síðasta jökulskeiðs og nútímahraunin, eru mynduð í sömu sprungusveimunum, þeim sem eReykjanes-jardfraedi-12nnþá eru virkir á nútíma og fyrr eru taldir upp.
Nútímabergið liggur ofan á grágrýtinu. Mörk grágrýtisins og móbergsins eru ekki víða áberandi, en hraunaþekjan leggst sýnilega ofan á grágrýtið á stórum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta áberandi frá Hafnarfirði austur um og upp undir Draugahlíðar (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).
Þetta er í suðurjaðri þess, sem venjulega er kallað höfuðborgarsvæði, og því má segja, að þessi yngsta myndun sé hvergi mjög þykk á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þegar suður fyrir það kemur, verður hún hins vegar nær einráð og víða mjög þykk. Jafnframt dýpkar yfirleitt á eldri myndununum. Báðar berggerðir þessarar myndunar eru mjög Reykjanes-jardfraedi-13gropnar, einkum hraunin. Þau eru jafnvel gropnari en grágrýtið í sumum tilvikum. Því veldur bæði lágur aldur þeirra og myndunarmáti.
Eins og fyrr er sagt myndaðist elsti hluti jarðskorpunnar á höfuðborgarsvæðinu í sprungusveimnum og megineldstöðinni, sem kennd eru við Kjalarnes og voru virk í upphafi kvartertímans og fram undir 2.1 miljón ára. Sambærilegt kerfi, Stardalskerfið, hafði við endalok hins kerfisins verið í uppsiglingu um tíma. Stardalssprungusveimurinn óx þá að virkni og hrakti Kjalarnesmegineldstöðina út úr gosbeltinu. Þá dó Kjalarnesmegineldstöðin út, en Stardalsprungusveimurinn þróast sjálfur í megineldstöð. Stardalsmegineldstöðin dó svo út fyrir 1.6 miljón árum og hefur síðan verið að fjarlægjast gosbeltið og rofna niður. Núna rekur Reykjanes-jardfraedi-10hana til vesturs undan virkni Hengilssprungusveimsins. Hann er þó yngri en 0.7 miljónir ára samkvæmt segulstefnudreifingu (Kristján Sæmundsson 1967; Leó Kristjánsson og Ágúst Guðmundsson 1980). Þá myndaðist jarðskorpa, sem nú finnst ofan sjávarmáls um norðanvert höfuðborgarsvæðið og á botni Faxaflóa undan ströndum þess. Sunnanvert höfuðborgarsvæðið var undir sjó eða við ströndina og Reykjanesskaginn sem slíkur var ekki enn orðinn til. Þegar leið að lokum kvartertímans hófust hin miklu dyngjugos, sem lögðu til grágrýtið. Þau virðast flest hafa átt sér stað á þurru landi og íslausu og hraunin hafa runnið út að ströndinni og lagst meðfram henni í eins konar kraga. Sum þessara gosa gætu jafnvel hafa byrjað á grunnsævi og myndað eyjar, sem ýmist tengdust ströndinni Reykjanes-jardfraedi-14eða ekki. Hér er helst skírskotað til grágrýtisflákans á Rosmhvalanesi og Vogastapa og ef til vill á Krýsuvíkurheiði. Nágrennið við sjávarsíðuna er meðal annars sterklega gefið til kynna af algengum brotabergsmyndunum í botni margra grágrýtiseininganna um allt svæðið (sbr. Ragna Karlsdóttir 1973; Jón Jónsson 1978; Árni Hjartarson 1980 og Kristján Sæmundsson 1981). Að loknu gostímabili grágrýtisdyngjanna gekk kuldaskeið í garð og jökull lagðist yfir svæðið. Þar sem nú er Reykjanesskagi var orðið grunnsævi og land ef til vill að hluta til risið úr sæ. Eldgos á sprungum hófust undir íshettunni og móbergsfjöllin urðu til. Þetta er fyrsta virknin, sem þekkt er á sprungusveimum Reykjanesskagans. Mikil virkni hófst á þessum sprungusveimum og Reykjanes-jardfraedi-15hélt hún sleitulaust áfram eftir að kuldaskeiðinu lauk og nútími gekk í garð. Þetta sést glöggt af þeim aragrúa hrauna, sem eru á skaganum, mjög áberandi höggun (með misgengjum og gjám) og mörgum háhitasvæðum (Jón Jónsson 1978), ákafri jarðskálftavirkni (Páll Einarsson 1977) og síðast en ekki síst á þykkt hraunlaga- og móbergsstaflans eins og hann birtist í borholum innan sprungusveimanna (Sveinbjörn Björnsson o.fl. 1971 og Stefán Arnórsson o.fl. 1975), þar sem sigið er mest. Hinn lági aldur sprungusveimanna á Reykjanesskaga er ennfremur gefinn til kynna af sprungumynstrinu í grágrýtinu. Það er ósprungið eða lítt sprungið víða, en hins vegar mjög brotið í beinu framhaldi af sprungusveimum Reykjanes-jardfraedi-18Reykjanesskagans. Sprungurnar í árkvartera berginu undir grágrýtinu hverfa innundir grágrýtið og virðast ekki hafa nein áhrif á það sjálft (sbr. Kjartan Thors 1969). Hreyfingum á þeim er því lokið, þegar grágrýtishraunin renna, en hefjast e.t.v. aftur síðar. Sprungusveimarnir, frá Hengli í austri til Reykjaness í vestri, eru nýmyndunarsvæði jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa.
Um breytingar á virkni Reykjanessprungusveimsins í framtíðinni er mjög erfitt að segja nokkuð ákveðið. Til þess vitum við of lítið um smáatriðin í þróun sprungusveima, raunverulegan „líftíma“ þeirra, aldur Reykjanes-sprungusveimsins o.fl. Um aldur hreyfinganna nyrst á Krýsuvíkur-sprungusveimnum er þó hægt að fá nokkra vitneskju og skal hér rakið gleggsta dæmið. Reykjanes-jardfraedi-17Grágrýtið er brotið í framhaldi af Krýsuvíkur-sprungusveimnum norður fyrir Rauðavatn. Ofan á þetta grágrýti leggjast nokkur tiltölulega ung hraun. Tvö þeirra verða hér til verulegrar hjálpar, þar sem þau renna bæði þvert á sprungukerfið og bæði hafa verið aldursákvörðuð. Annað þeirra er Búrfellshraun upp af Hafnarfirði. Samkvæmt aldursákvörðun með geislakoli rann þetta hraun fyrir um það bil 7200 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Vestur af Búrfelli skera nokkur misgengi, þ.á.m. Hjallamisgengið, taum af þessu hrauni. Tilfærslan á Hjallamisgenginu er mest í grágrýtinu norðan við hrauntauminn, um 65 m, en við aðalbrotið er tilfærslan á Búrfellshrauninu aðeins um 7 m (sbr. Jón Jónsson 1965). Misgengið er því að stofni til eldra en 7200 ára, en hefur eftir þann tíma hreyfst um 7 m.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Páll Imsland – Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa, sprungumyndunarsaga, 54. árgangur 1985, bls. 63-74.
-Náttúrufræðingurinn, Magnús Á Sigurgeirsson, 64. árg. 1994-1995, bls. 211-214.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Fugl

„Reykjanes er alveg einstakur staður á jörðinni því þar má sjá flekaskil milli meginfleka jarðskorpunnar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, á þurru landi.
pall EFlekaskilunum fylgir landmótun, eyðing, eldvirkni, jarðhitavirkni, sprungur, misgengi og jarðskjálftar. Flekarnir fjarlægjast hver annan um tvo sentímetra á ári “sagði Páll Einarsson, prófessor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og einn helsti sérfræðingur landsins í jarðskjálftum við upphaf 6 klst ferðar um Reykjanesið. „Þegar ný kvika kemur ekki upp úr iðrum jarðar, eins verið hefur s.l. 800 árin verða afleiðingarnar þær að landið lækkar og sjórinn nær að éta smám saman af landinu, einkum á sunnanverðum Skaganum. Í þessari ferð var m.a. ætlunin var að skoða bæði jarðsöguna, – mótunina og kíkja á mögulega þróun í þeim efnum í nánustu framtíð. Páll var annar tveggja leiðsögumanna í skoðunarferð sem farin verður um Reykjanesið sem lið í afmælisdagskrá Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Hinn var Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur, og er fjallað um hans þátt hér á eftir.
Svæðið er stöðugt viðfangsefni vísindamanna, bæði innlendra og erlendra, sem koma til að rannsaka þau ferli sem skapa nýja jarðskorpu á flekaskilum. Í ferðinni voru m.a. skoðuð þversnið í gegnum eldgíga og gossprungur sem og gja-22mismunandi gerðir sprungna athugaðar. Sérstök stopp voru áætluð ofan við Sandvík og á Reykjaneshæl.
Strax í upphafi ferðar fjallaði Páll um flekaskil Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar. Sagði hann líta mæti t.d. á Keflavík sem „ameríska borg“ en Grindavík aftur móti sem „evrópska borg“. Skilin væru um 5 km breið, en þau væru hvergi skýrari en yst á Reykjanesi. Flekarnir rækju í burt frá hvorum öðrum sem næmi að jafnaði 18-19 mm á ári. Þannig mætti greina 18 cm rek á 10 ára tímabili, 1.80 m á einni öld og 18 m á þúsund árum. Það samsvarði nokkurn veginn breidd svonefndrar gjáar á milli meginlenda, sem væri einungis skemmtileg framsetning á efninu, en fjarri lagi. Jaðar Ameríkuflekans væri nokkurn veginn þarna, en eins og fyrr sagði, er jaðar Evrópuflekans í u.þ.b. 5 km fjarlægð í austri. Þegar um hreint Bruinfrárek væri að ræða færðust flekarnir beint í sundur, en þegar flekarnir hliðruðust kallaðist það hliðrek.
Þannig væri ysti hluti jarðar samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk. Við flekamót rekur fleka saman, líkt og sjá mátti afleiðingarnar af nálægt Japan nýlega, en við flekaskil rekur þá í sundur.
Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð. Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau Sprungageysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd. Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar og það gerir Reykjanesið sem og Ísland allt svo sérstakt. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.
Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.
Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.
AtlantshafshryggurinnTil eru þrjár gerðir af hreyfingum við flekamæri, svæðin sem tveir flekar liggja saman. Sú fyrsta er tveir samliggjandi flekar færast í átt hvor frá öðrum á svæði sem nefnist flekaskil, önnur er að flekar færast hvor í átt til annars á svæði sem kallað er flekamót og sú þriðja er sniðgeng flekamæri (þverbrotabelti, hliðrunarbelti) þar sem tveir flekar færast meðfram hvor öðrum. Við flekaskil, þar sem plöturnar færast í sundur, eins og t.d. á Íslandi, er uppsteymi í möttli jarðar og ný jarðskorpa myndast stöðugt þar sem flekarnir skilja eftir sig gliðnunina. Við flekamót gerist  annaðhvort það að þar sem flekar rekast hvor á annan eyðist jarðskorpan hjá þyngri flekanum en léttari flekinn byggist upp eða þá að tveir jafnþungir flekar rekast hvor á annan en þá geta þeir ekkert annað en þrýst upp á við. Við sniðgeng flekamæri geta verið Atlantshafshryggurinn-2miklar jarðskjálftahreyfingar þar sem mikill þrýstingur myndast við mismunandi hreyfingar tveggja fleka.
Frá því að Atlantshafið byrjaði að opnast, í lok Miðlífsaldar og upphafi Nýlífsaldar, hefur Norður-Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekið í gagnstæðar áttir. Á gliðnunarsvæðinu í miðju Norður-Atlantshafi hefur byggst upp hryggur og þessi hryggur skýtur kollinum upp úr hafinu hér á Íslandi. Fljótlega eftir að endurbætt landrekskenning varð viðurkennd á 7. áratugnum
var ljóst að tilvera Íslands er mjög tengd landrekinu og í raun afleiðing þess og samspils við möttulstrókinn. Ísland gnæfir um 2-4 km yfir venjulega hæð Norður-Atlantshafshryggjarins.
Það sem skapar Íslandi þessa sérstöðu, er að undir landinu er óvenjumikið uppstreymi heits efnis úr Sandfellshaedmöttlinum, svokallaður möttulstrókur eða heitur reitur. Þessi heiti reitur hefur verið virkur að minnsta kosti síðustu 55 milljónir árin og virkni hans virðist ekki fara minnkandi enn sem komið er. Talið er að fyrir um 20 milljónum ára hafi flekaskilin rekið yfir heita reitinn og þar með hafi myndun Íslands hafist.
Páll sagði megineldfjöllin eftir síðustu ísöld, dyngjurnar, hafa gefið af sér undirlendi það er Reykjanesskaginn byggist á nú. Í raun væru þau ekki líkar hinum gríðarstóru dyngjum er þekkjast víða um heim, heldur mætti fremur kalla þær dyngjuskyldi. Á leið um Reykjanesbrautina var ekið yfir hraun frá Hrútargjárdyngju vestan við Straum. Dyngjan gaus fyrir ca. 7.000 árum og hefur, líkt og aðrar dyngjur, gosið samfleitt í nokkra áratugi eða jafnvel í eina öld. Hrútagjárdyngjan hefði gefið af sér apalhraun. Þegar litið væri yfir slík hraun mætti víða sjá flatar ójöfnur og hraunkýli (hraunhveli). Þegtta gerðist þegar fljótandi efsti flötur hraunkvikunnar storknaði en fljótandi hraunið streymdi fram undir. Þá safnaðist það stundum í þrær eða hólf, lyftu storknuðu þakinu um stund, en rynni síðan áfram ef og þegar kvikan næði að bræða sér áframhaldandi leið – og landið sigi á ný. Við þessar aðstæður spryngi storknuð hraunkvikan ofan á glóðinni.
Apalhraun, lík Afstapahrauni, gerðu sig á annan hátt; yltu fram seigfljótandi undan þunga straumsins Berggangur a reykjanesiog mynduðu gróf hraun sem jafnan væru síðar erfið yfirferðar.
Þráinsskjöldurinn væri dyngjuskjöldur allt frá því í lok síðustu ísaldar. Sjá mættu leifar þessa efst við gígbrýnina. Sandfellshæðin væri litlu yngri, en frá henni hefði runnið mikið magn hraunvikur er myndaði núverandi undirlag ysta hluta Reykjanesskagans, stranda á millum. Tvo hliðarskyldi mætti sjá á dyngjuskyldinum; annars vegar Berghóla og Hafnarbergs og hins vegar Langhól miklu mun ofar. Einn væri þó sá dyngjuskjöldur, sem ekki  væri ætlunin að heimsækja að þessu sinni, þ.e. Heiðin há. Hún væri dæmigerður dyngjuskjöldur, líkt og Skjaldbreið og Trölladyngja.
Páll lýsti Kapelluhrauni (rann 1151) og Afstapahrauni (ca. 1700 ára) þegar ekið var í gegnum þau. Auk þess fjallaði hann nánar um nýhraunin á Skaganum. Fram kom að kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hafi leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga Atlantshafshryggurinn-23byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr., finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess. Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteins-fjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind af Jóni Jónssyni (1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Atlantshafshryggurinn-24Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu gja-22hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár. Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjalla-kerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekNutimahraunja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.
Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun. Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Berggangur a reykjanesi-2Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld.
Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi. Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Sveifluhals-22Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn.
Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum. Eldgos á Reykjanesskaga á næstunni kæmi ekki á óvart.
brennisteinsfjoll-222Vísindamenn sem voru við rannsóknir á Reykjaneshrygg síðasta sumar rak í rogastans þegar þeir uppgötvuðu gríðarstóra megineldstöð á hryggnum en fræðilega ætti hún ekki að geta verið þar. Er hún líklega sú eina sinnar tegundar í heiminum. Fullyrt er að þetta sé með merkustu uppgötvunum í jarðvísindum í áratugi. Auk eldfjallsins fundu þeir tvö gömul rekbelti sem stjórnuðu upphleðslu Vestfjarðarkjálka og Snæfellsness. Á meðal þess sem finna mátti á hafsbotninum voru greinileg ummerki eftir borgarísjaka og fornir árfarvegir.
Megineldstöðin, sem fengið hefur nafnið Njörður, er á stærð við Reykjanes, eða um 50 km í þvermál. Í toppi hennar má greina öskju, eða sigketil sem er um 10 km í þvermál. Núverandi rekás Reykjaneshryggjar liggur í gegnum Njörð. Reykjanes-sprungukrefiAðstæður við Njörð eru því svipaðar og í Kröflu, þar sem að megineldstöðin og sigketill hennar er klofin af Kröflusprungu-sveimnum.
Reykjaneshryggurinn er því um margt stórmerkilegur jarðfræðilega. Einnig Reykjanesið, sem er eini staðurinn á jarðkringlunni þar sem glögglega má sjá úthafshrygg ganga á land.
Sprengigígur er á Reykjaneshæl og 6-7 slíkir í Krýsuvík, þ.e. Gestsstaðavatn, Grænavatn, Stamparnir og Augun og a.m.k. einn norðan við Grænavatn. Þeir hefðu orðið til vegna kvikuuppleitunar undir bergvatn, sem sprenging hafi hlotist af með tilheyrandi afleiðingum.
Páll taldi að Sveifluháls (Austurháls) hefði orðið til í nokkrum gosum, bæði undir snemmjökli og undir lok síðasta jökulsskeiðs þegar íshettuna var að leysa. Mætti sjá þess glögg merki á einstaka hnúkum hálsins.
Greanavatn-22Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. Þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.
nedansjavargosÁ Krýsuvíkursvæðinu má víðast hvar sjá túff, brotaberg, móberg og bólstraberg. Sumstaðar er þessu öllu hrært saman líkt og í risastórum grautarpotti. Landlyfting hefur orðið í Krýsuvík síðustu par ára. Landið suðvestan við Kleifarvatn hefur risið um 5-15 cm sem getur gefið vísbendingu um að ekki verði langt að bíða eftir einhvers konar hraunuppstrymi þar. Einkennin eru dæmigerð fyrir aðdraganda goss, þ.e. landlyfting og tíðir litlir skjálftar í langan tíma. Að vísu seig landið um tíma, en hefur nú verið að rísa á nýjan leik. Svona goshrinur eru taldar koma eftir öllu Reykjanesinu á um 1000 ára fresti og standa í um 300 ár með hléum. Síðasta hrina hófst fyrir um 1100 árum.
„Ég vildi gjarnan sjá Hafnfirðinga taka tillit til staðreynda tilverunnar eins og íbúar snjóflóðahættusvæða gera. Það er þó alls ekki raunhæf hætt á að sprunga opnist inn í byggðina þarna – en ansi nálægt (það er verið að moka gjallinu úr gígunum í burtu þarna rétt fyrir ofan) bolstraberg-22og það ætti að gera fyrirfram ráð fyrir varnar-mönum til að stýra hugsanlegu hraunflóði því þau munu koma og eru fremur þunnfljótandi á Reykjanesi – þarna ættu ekki síður að vera hraunvarnar-manir fyrir ofan byggðina en að menn reisa hljóðvarnar-manir meðfram götum og hraðbrautum til að verja hús fyrir hávaða. Það er engin hætta á miklum sprengigosum á Reykjanesi og fyrir ofan Hafnarfjörð heldur fyrst og fremst hraungosum. – Grindavík æti að huga að þessu líka – þó aldir geti liðið þá getur það líka gerst á morgun. Menn byggja háhýsi með hliðsjón af miklum jarðskjálftum þó líkur á að stór jarðskjálfti ríði yfir Reykjavík (með upptök við eða undir Reykjavík) séu nær engar – þegar aftur víst er að fyrr að síðar mun hraun renna þar sem Vallahverfi er nú og víðar. Því ætti að skipuleggja byggð frá upphafi þannig að byggðin þoli það, rétt eins og að gera þarf ráð fyrir að hús þoli jarðsjálfta af stærð sem aldrei eða nær aldrei kemur í Reykjavík. Einföld en nægilega efnismikil og öflug efnis-mön ofan byggðar stýrir hrauninu frá byggðinni“

Gunnar thor-2Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur annaðist leiðsögnina ásamt Páli. Gunnar hefur unnið að doktorsverkefni um máfa og tófur á Reykjanesi ásamt því að rannsaka fuglalíf svæðisins fyrir  Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði. „Á Reykjanesi er eitt fjölbreyttasta fuglalíf á landinu yfir vetrartímann og það er viðkomustaður fjölmargra farfugla á haustin og vorin. Þar eru  líka nokkur fuglabjörg þar sem finna má mikinn fjölda sjófugla,“ segir Gunnar og bætir við. „Í ferðinni sjáum við flesta þá vetrargesti sem enn eru til staðar og einnig fyrstu farfuglana, eins og sílamáv og lóu.“
Gunnar Þór Hallgrímsson er líffræðingur frá Háskóla Íslands og er í doktorsnámi við sama skóla. Helstu verkefni Gunnars eru á sviði fuglafræði en mörg verkefni eru í vinnslu á því sviði. Þannig fylgist Gunnar mjög náið með sílamávavarpinu á Miðnesheiði en samkvæmt gögnum frá 1995 er það eitt hið stærsta í heimi. Athuganir á sílamávavarpinu felast meðal annars í að skoða aðferðir sem nota megi til fækkunar máfsins en bent hefur verið á vandamál tengdu svo stóru varpi í nágrenni alþjóðaflugvallar. Samhliða rannsóknum á sílamávi sem unnar eru í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólans vinnur Gunnar m.a. að athugunum á sendlingum í samstarfi við skoska aðila, æðarfugli í samstarfi við Háskólann í Glasgow, loa-12eiturefnavistfræði í samstarfi við Stokkholmsháskóla og vöktun arnarstofnsins í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vestfjarða, Náttúrustofu Vesturlands og Fuglavernd.
Undanfarin tvö ár hefur mikið borið á mávum í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum og hafa margir kvartað undan átroðningi fuglsins inn í mannabyggðir. Fuglafræðingar benda á að ástandið sé mjög óvenjulegt og að það tengist atferlisbreytingum hjá fuglategundinni. Fæðuskortur rekur máva frá varpstöðvum inn í þéttbýlið.
„Mávarnir eru að segja okkur að það er ekki allt í lagi í sjónum,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur hjá Náttúrustofnun Reykjaness, í samtali við mbl.is „Það er alvarlegt ástand í gangi sem við skiljum ekki og mávarnir eru að minna okkur á það.“  Sílamávurinn hefur til að mynda verið mjög aðgangsharður í ætisleit við Reykjavíkurtjörn og jafnvel veitt sér andarunga til matar. Gunnar segir stofn sílamávsins hafa fjölgað mjög mikið undanfarin ár en árið 2004 virðist sem að hann hafi náð hámarki. Ári síðar hafi farið að halla undan fæti í varpi hjá mávnum og það varð algjör viðkomubrestur, þ.e. fáir ungar komust á legg úr varpinu.
Gunnar Þór benti þátttakendum á sílamáva, bjartmáva (sem eru vetrargestir hér, en verpa á Grænlandi), urtönd (sem er smæst anda), skúfönd, stokkendur, tjald (sjá má aldur hans bæði á gogg og fótum), fjöruspóa (sem er sjaldgæfastur fugla hér á landi, telur einungs ca. 10 fugla), lgeirfuglaróu (sem nýkominn var til landsins, m.a. sást hópur slíkra með ca. 30 fuglum koma inn yfir ströndina), geirfuglinn og margt fleira. Gunnar benti reyndar á að síðustu tveir geirfuglarnir í heiminum hefðu verið veiddir  á syllu í Eldey þann 3. júní 1844. Þar með hefði þeirri merkulegu fuglategund verið útrýmt endanlega. Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vóg um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins. Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna. Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar. Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands.
Gunnar Þór fjallaði auk þess m.a. um sendil, súlu og fýl, en síðastnefndi er ekki mávategund þó svo að flestir teldu svo vera. Í Eldey væri ein af stærstu súlubyggðum í heimi og sú stærsta hér við land. Þar væri fjöldinn orðin svo mikill að fáar fleiri kæmust þar að.
Þá fjallaði Gunnar Þór um tófuna og tilvist hennar á Skaganum, ekki síst til að stemma stigu við fjölda máva við flugbrautirnar á Miðnesheiði.
Frábært veður. Ferðin tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
-Páll Einarsson, prófessor við HÍ.
-Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010.
-Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson, Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Þórkötlustaðir

Ætlunin er að ganga um Þórkötlustaðanes og Hópsnes (sem er í rauninni sami nestanginn). Hraunið kom úr Sundhnúki fyrir um 2500 árum og féll beint í sjó fram og myndar þar þennan um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, „en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði“.
Thorkotlustaðanes - loftmynd„Hverjum þeim er um Reykjanesskaga ferðast, hlýtur að verða ljóst, að geysileg eldvirkni hefur átt sér þar stað frá því að ísöld lauk, sem talið er, að hafi verið fyrir 10.000-15.000 árum. Erfiðara er hins vegar að segja til um aldur einstakra hrauna, því óvíða er hægt að ná í sönnunargögn hvað það snertir, og lítið er þar um öskulög, sem vitað er um aldur á. Án efa hafa nokkur gos átt sér stað á þessu svæði, eftir að land byggðist og eru skráðar heimildir til um það, flestar séu þó óljósar.

Sundhnúkahraun við Grindavík
ThorkotlustaðanesvitinnÁ Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um. Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. [Innsk: Klifhólar eru axlir er ganga A Thorkotlustaðanesiút frá Þorbjarnarfelli sunnanverðu og dregur hraunið sunnan undir fellinu nafn sitt af þeim]. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð.
Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

Gígaröðin
A Thorkotlustaðanesi-2Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Ur ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið A Thorkotlustaðanesi-3niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það.
Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegn um nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar. Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík A Thorkotlustaðanesi-4sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson A Thorkotlustaðanesi-51970).
Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum(P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver A Thorkotlustaðanesi-6straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðar-dyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.
Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs.
Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra A Thorkotlustaðanesi-7Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.
Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Eldri gígaröð
A Thorkotlustaðanesi-8Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir. Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröðinni, sem áður er getið.

Hvenær rann hraunið?

A Thorkotlustaðanesi-9

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.“
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn 45. árg. (1975-1976), 1. tbl. bls. 27.
-Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn 43. árg. (1973-1974), 3.-4. tbl. bls. 145-146.

A Thorkotlustaðanesi-10

Brennisteinsfjöll

Gengið var upp í Brennisteinsfjöll (Fjöllin) með það fyrir augum að endurfinna op á hraunhellunni norðnorðvestan Kistufells og staðsetja það. Opið fannst fyrir nokkrum árum, en virðst síðan hafa lokast. Þrátt fyrir ítrekaðar leitir hefur það ekki fundist á ný.
Brennisteinsfjoll-128Á loftmynd mátti og sjá op er gæti verið áhugavert norðan megin-hrauntraðarinnar úr Kistufellsgígnum. Þá var og ætlunin að skoða niður í annað op, sem einnig fannst fyrir nokkrum misserum, en ekki hafði gefist tækifæri til að fara niður í fram að þessu vegna skort á viðeigandi búnaði. Um það átti að vera hægt að komast niður í mikið gímald. Þá var og ætlunin að skoða nánar nýfundið op, sem Guðni Gunnarsson, formaður HERFÍ og fleiri fundu á austurbrún Eldborgarhrauns fyrir skömmu. Til að komast niður í það þurfti einnig viðeigandi búnað. Að þessu sinni var haldið áleiðis upp Kerlingarskarð, beygt upp Þverdal og komið upp í Fjöllin um Miðskarð. Vesturskarð er ofar og vestar og Austurskarð hefur jafnan verið nefnt Kerlingarskarð. Á göngunni um Brennisteinsfjöllin var eftirfarandi um jarðfræði þeirra rifjuð upp: „
Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó.
Brennisteinsfjoll-123Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðar-stapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Í Brennisteinsfjallareininni eru sprungugos ráðandi, en dyngjur koma þar einnig fyrir og er Kistufell þeirra mest. Í fjallendinu er gos- og sprunguvirkni samþjöppuð á belti sem er einungis um 1200 metra breitt frá Eldborgum undir Geitahlíð uns kemur norður á móts við Bláfjöll að það víkkar og óljóst verður hvar mörk liggja, en þar er komið langt norðaustur fyrir jarðhitasvæðið. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.
Brennisteinsfjoll-124Brennisteinsnám var stundað í fá ár eftir 1876 og fyrir 1883. Menjar þess eru námuskvompur í rúmlega 2000 ára gömlu hrauni og tveir tippar stærstir þar framan við. Jarðhitamerki er að finna miklu víðar en sýnt er á eldri kortum Jón Jónsson (1978), Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson (2001).
Á jarðhitakortinu er sýndur virki jarðhitinn og kaldar ummyndunarskellur, aðgreindar eftir því hvort um er að ræða mikla eða væga ummyndun. Mikil ummyndun einkennist af ljósum leirskellum, en væg fremur af rauðum leir, upplituðu bergi og minni háttar útfellingum. Væg ummyndun er fyrst og fremst bundin við jarðmyndanir frá ísöld, en nær þó einnig til hrauna í Brennisteinsfjoll-125Brennisteinsfjöllum sjálfum. Yfirborðsmerki um jarðhita finnast á rein sem nær frá því á móts við Kerlingarskarð í norðaustri til suðvesturs á móts við Kistufell. Þessi rein er 4 km löng, um 1 km breið og öll í sprungubelti Brennisteinsfjalla. Virkur jarðhiti er á þrem blettum á litlu svæði: Í hinum fornu námum er gufuhver, við suðumark, með brennisteinútfellingu og gufur allt að 93°C heitar í námuskvompunum í kring. Í hraunbungu 200-300 m norðar eru gufur á dálitlu svæði og mestur hiti 60°C. Við hraunjaðar um 300 m norðaustan við námusvæðið er 22°C hiti í ljósri leirskellu, en sú sem meira ber á sunnar niðri í brekkunni upp af Hvamminum er köld.
Eldvirkni á Reykjanesskaga hefur sýnt sig að vera lotubundin sé litið á síðustu 3000 ár. Hver lota gengur yfir á um það bil 400 ára tímabili með gosum í nokkrum af eldstöðvakerfum skagans. Á milli líða um 800 ár þegar ekki gýs, en þess í Brennisteinsfjoll-126stað kemur jarðskjálftavirkni með höggun á sniðgengjum. Síðasta lota hófst fyrir landnám í Brennisteins / Bláfjallafjallakerfinu og lauk þar árið 1000. Eftir fylgdi Trölladyngjukerfið með gosvirkni á 12. öld og síðan Reykjanes- og Svartsengiskerfin með gosum á 13. öld. Líkt gekk til fyrir 2400-2000 árum. Vitað er að eldvirkni var á Reykjanesi, í Trölladyngju og Brennisteinsfjöllum fyrir rúmlega 3000 árum, en tímabilið þar á undan er miður þekkt. Goshlé á Reykjanesskaga hefur nú varað í rúmlega 750 ár.
Sprungureinin fyrrenfnda, sem kennd er við Brennisteinsfjöll, nær frá sjó í suðri og norðaustur á Mosfellsheiði og er svæðið eitt af fallegustu jarðeldasvæðum landsins og enn lítt spillt af mannavöldum. Ung brot, sem hreyfst hafa eftir ísöld, eru mörg og sum stór. Jarðskjálftar eru fremur tíðir í sprungureininni og geta verið Brennisteinsfjoll-127kröftugir.
Jón Jónsson birti árið 1978 tímamótaskýrslu um jarðfræði Reykjanesskagans. Með skýrslunni eru kort í kvarða 1:25.000 og ná þau frá Reykjanesi austur í Ölfus. Þrátt fyrir þetta og þær rannsóknir sem hér er gert grein fyrir er margt í jarðfræði svæðisins sem þarfnast frekari rannsókna. Meðfylgjandi kort er í sama mælikvarða og kort Jóns, enda erfitt að sýna jarðmyndanir á korti í minni mælikvarða því sumar gosmyndanir hafa takmarkaða útbreiðslu.
Vegir ná ekki inn á svæðið og því tímafrekt að komast að og frá rannsóknarsvæðinu. Útivinna við rannsóknir var aðallega unnin að hausti til, en þótt svæðið sé nálægt Reykjavík gat verið erfitt að finna hentuga daga til rannsókna. Best er að ganga um svæðið í norðanátt, en í öðrum áttum liggur yfirleitt skýjabakki með þokum yfir fjöllunum.
Brennisteinsfjoll-129Síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum og er talið að síðasta jökulskeið hafi staðið yfir í um 100.000 ár. Á þeim tíma mun megnið af þeim jarðlögum sem byggja upp fjallabálkinn frá Lönguhlíð, um Bláfjöll og norður í Hengil hafa myndast. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Mikið er um slíkar myndanir í Brennisteinsfjöllum. Ástæða þess að þarna hefur myndast hærra land en umhverfis er sú að við gos undir jöklum ná gosefnin ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvunum, sem móbergsfjöll. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun og mynda þunnar breiður sem fylla smám saman upp í dali og lægðir milli móbergsmyndana. Eldri hluti jarðmyndana var ekki kortlagður sérstaklega í þessari úttekt á svæðinu, Brennisteinsfjoll-131enda einkum verið að kanna umhverfi jarðhitasvæðisins.
Allar bergmyndanir á rannsóknarsvæðinu í Brennisteinsfjöllum eru basalt. Ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði og þar sem engar borholur eru á svæðinu er ekkert vitað um gerð berggrunnsins fyrir utan það sem sést í fjallahlíðum. Jarðmyndanir eru allar frá Brunhes segulöld, þ.e. eru yngri en 780.000 ára og sennilega talsvert yngri en það, en aldursgreiningar vantar til staðfestingar á aldri myndana. Dyngjur á Reykjanesi eru flestar fremur gamlar og liggja sumar á jöðrum eða utan eldstöðvakerfanna (Heiðin há, Leitin, Selvogsheiði).
Nútímahraun á Reykjanesi hafa verið kortlögð af Jóni Jónssyni (1977, 1978). Jón flokkaði hraun eftir aldri og gerð, og mældi í þeim hlutfall steinda. Síðan Jón vann sitt verk hafa bæst við nokkrar nýjar aldursgreiningar og aukin þekking á öskulögum hefur auðveldað aldursgreiningu jarðlaga. Í þessari skýrslu er númerum Jóns og heitum á hraunum og eldstöðvum haldið (Jón Jónsson 1978), enda ástæðulaust að breyta þeim. Kortlagninu Jóns á hraunum hefur fremur lítið verið breytt, en þó hafa jaðrar sumra hrauna verið dregnir dálítið öðruvísi. Hraunum sem hefur verið skipt upp er sérstaklega getið. Á jarðfræðikortum af höfuðborgasvæðinu (í kvarða 1.25.000) sem gefiBrennisteinsfjoll-130n voru út 1993–2000 (Helgi Torfason o.fl 1993, 1997, 1999, 2000) var nöfnum hrauna breytt á nokkrum stöðum og sett ný auðkenni á hraunin í stað númeranna sem Jón notaði, og er þess getið þar sem það á við.
Gos á Brennisteinsfjalla-sprungureininni falla á tvær eða þrjár afmarkaðar skákir en Freysteinn Sigurðsson (1985) hefur greint þennan hluta í fjórar skákir (gosreinar) og þá austustu sem dyngjurein. Hér er þetta dálítið einfaldað og mynda nokkrar gossprungur vestustu skákina sem liggur frá Eldborgu við Geitahlíð norður að Þríhnúkum (tvær hjá FS 1985), en mið-skákin liggur frá Svartahrygg norður í norðurenda Rauðuhálsa í vesturhlíðum Bláfjalla. Þá liggur sakleysisleg skák um Heiðina há, Leitin austan Bláfjalla og í eldvarpið Eldborgu, þaðan sem Kristnitökuhraunið kom árið 1000 (dyngjurein hjá FS 1985). Mest hafa gosin verið í vestustu skákinni. Ekki hefur gosið á vestara gosbeltinu á Brennisteinsfjoll-133sögulegum tíma norðar en í Eldborg austan Bláfjalla. Má leiða líkum að því að kvika hafi sest að í iðrum Hengils í stað þess að koma upp á yfirborð og er það ástæða hins mikla jarðhitasvæðis sem þar er.
Aldur (byggður á öskulaga-rannsóknum) og upptök margra hrauna á Brennissteinsfjallasvæðinu hefur verið ákvarðaður, sbr. meðfylgjandi:
H-138 – Selvogshraun – sunnan Kistufells – eldra en 1226
H-149 – Kóngsfellshraun – vestan Kóngsfells um 950 = Húsfellsbruni yngri
H-150 – Húsfellsbruni – Eldborg, við Drottningu um 950 = Húsfellsbruni yngri, Hólmshraun V
H-142 – Svartihryggur – Svartihryggur um 950 – sennilega sama gos og H-150
H-129 – Breiðdalshraun – Kistufell eftir 900
Brennisteinsfjoll-132H-130 – Kistuhraun  – Kistufell eftir 900 álíka gamalt og H-129
H-139 – Yngra Hellnahraun – í Grindarskörðum 875 eldra en H-138, e.t.v. 950 – Tvíbollahraun, Tvíbollar, Grindarskörð 875
H-140 – Stórabollahraun, Stóribolli dyngjuhraun, Skúlatúnshraun
H-203 – Við Tvíbolla – e.t.vv sama og H-140
H-127 – Vörðufellsborgahraun  – Vörðufellsborgir, 1300-1400
H-118 – H-123 – H-135 – Brennisteinshraun, yngra gígaröð vestan jarðhita vestan brennisteinsnáma
H-116 – Kálfadalshraun, norður af Geitahlíð > 2400-2600
H-146 – Þríhnúkahraun, yngra Þríhnúkarhraun við Kristjánsdalahorn
H-200 – vestan Draugahlíða
Brennisteinsfjoll-134H-202  -vestan Draugahlíða, undir H-200
H-136 – Brennisteinshraun, eldra Gígar norðan Kistufells vestan brennisteinsnáma
D-24   – Strompahraun, Strompar dyngjuhraun
H-137 – „Gamlahraun“, gömul gígaröð N Kistu
H-132 – NV Kistu > 3200-3400
H-143 – S Þríhnúka e.t.v. fleiri gos en eitt
H-141 – SA Grindarskarða
H-128 – Hvannahraun, Eldborg dyngjuhraun
H-121 – SV Vörðufells
H-123 – SV Vörðufells
H-125 – sunnan Vörðufells
H-115 – Sláttudalur
H-112 – Stóra Eldborg
H-126 – vestan Sandfjalla
D-16   – Herdísarvíkurhraun í Brennisteinsfjöllum dyngjuhraun
D-17   – Í Herdísarvík dyngjuhraun > 4500
Brennisteinsfjoll-135H-134  – Kistufellshraun Kistufell
H-204  – austan Kistufells hrauntætlur á móbergshálsi
H-201  – austan Stórabolla
D-23   – Heiðin há, Heiðin há dyngjuhraun
D-21   – Í Herdísarvík dyngjuhraun >9000

Dyngjurnar á Reykjanesskaga eru flestar gamlar. Þær einkennast af þunnum hraunstraumum sem runnið hafa á löngum tíma og oft langar leiðir. Bergið í dyngjuhraunum getur verið ýmist dílótt eða dílalaust og oft erfitt að rekja hraunstrauma frá þeim. D-16 Herdísarvíkurhraun kemur fram í tveimur óbrinnishólmum suðvestan við Kistu. Þetta er hraun frá gamalli dyngju sem Jón hefur rakið meðfram ströndinni til austurs. Sennilega er dyngjan sjálf í Brennisteinsfjöllum, e.t.v. norðan undir Vörðufelli. D-23 Heiðin há er gömul dyngja, sú Brennisteinsfjoll-137stærsta frá nútíma á Reykjanesskaga (170 km2 og um 6,8 km3 að rúmmáli). Gígsvæðið er við Kerlingarhnúk og er gígurinn fylltur af hraunum, en hraunstrýtur (hornito) marka útlínur hans. Þessi dyngja er austarlega í sprungurein er tengist Brennisteins-fjallasvæðinu (eða annarri sem þá tengist Bláfjöllum, sbr. Leitin), og er hún nokkuð austan við megin-eldlínuna. Hraun frá Heiðinni há ná niður að Þorlákshöfn. Sumir hraunstraumanna eru plagíóklasdílóttir en aðrir dílalausir, sama gegnir um ólivín. Grafið var öskulagasnið niður á dyngjuna norðan við Svartahrygg og sást þar að hún er eldri en 3.000 ára, sennilega enn eldri. D-24 Strompar er dyngja rétt sunnan við skíðaskálana sem eru í Bláfjöllum. Í hrauninu frá Strompum eru fallegir hraunhellar, myndaðir í hrauná sem hefur runnið frá gígunum til norðurs. Þessi dyngja er í norðurhlíðum D23 og því er hún greinilega Brennisteinsfjoll-138yngri og hefur Jón Jónsson lýst henni vel (1976, 1978). Eldvörpin eru 7 og eitt sýnu stærst og telur Jón að hraun við bæinn Hólm (Hólmshraun II) gæti verið komið frá þessari eldstöð. D-25 Leitahraun er eitt þekktasta hraun við Reykjavík og hefur runnið frá gíg austan við Bláfjöll og niður í Elliðavog fyrir um 5.000 árum. Leitahraun er dyngja og á austustu rein Brennisteinsfjallanna. Leitahraun er ekki á meðfylgjandi korti, en er úr þessarri sprungurein; upptök þess eru rétt austan við Bláfjöll.
Frá gossprungum renna yfirleitt apalhraun með greinilegar hraunbrúnir sem eru oft auðveldari viðfangs til að kortleggja en dyngjuhraunin, sem eru þunnfljótandi og oft erfitt að greina jaðra þeirra auk þess sem þau geta runnið mjög langar leiðir í ræfilslegum straumum. Þar sem gossprungur eru gjarnan langar og ekki gýs alltaf Brennisteinsfjoll-139eftir þeim endilöngum getur verið mjög erfitt að sjá hvaða gos hafa orðið á sama tíma eða í sömu goshrinu. Til þess að rekja sögu goshrina á svæðinu þarf mun ýtarlegri rannsóknir en fram hafa farið til þessa. Við aldursgreiningu hrauna var stuðst við öskulög í jarðvegi, innbyrðis afstöðu hraunanna og aldursgreiningar með geislakoli (C14) sem gerðar hafa verið á nokkrum stöðum. Vísað er til skýrslu Jóns Jónssonar (1978) varðandi lýsingar á hraununum.
Aldur hraunanna er lágmarksaldur í flestum tilvikum, því grafið var niður á hraunin og greind þau öskulög sem fallið hafa á hraunið eftir að það rann. Frekari rannsóknir munu geta fært aldur hraunanna aftar, en sjaldnar framar í tíma. Grafið var undir nokkur hraun til að sannreyna að þau væru söguleg, en slíkur gröftur er oft mikil og tímafrek vinna.
Brennisteinsfjoll-140Forsöguleg hraun eru mörg í þessari sprungurein, á bilinu 25–30 sem eru þekkt, en sennilega eru þau fleiri. Flest hafa þau komið af fjallshryggnum sem kenndur er við Brennisteinsfjöll og hafa þau runnið til beggja átta og út í sjó við suðurströndina. Nokkur hraun hafa runnið inn á næstu sprungurein vestanvið, kennda við Krýsuvík, og sum jafnvel yfir hana og til sjávar sunnan við Hafnarfjörð.
Eftirfarandi hraun eru talin úr öðrum gosum en Jón gerði ráð fyrir:
H-200 er nokkuð gamalt hraun sem komið hefur upp við móbergsháls, þar sem kemur upp úr vestasta “Grindarskarðinu”. Þetta hraun hefur runnið til norðurs niður á láglendi og hverfur undir H-139 (Tvíbollahraun).
H-201 er skammt austan við Tvíbolla og hverfur undir yngri hraun.
Brennisteinsfjoll-140H-202 er lítill hraunbleðill sem liggur undir H-200 og sést aðeins á litlum bletti.
H-203 er ungt hraun sem liggur við Tvíbolla og hefur verið talið hluti af því gosi. Landnámslagið er ofan á þessu hrauni og það því eldra en gosið í Tvíbollum. Þetta hraun gæti verið sama og H-140, úr Stórabolla. Stutt er milli þessara gosa og því erfitt að greina hraunin sundur þarna.
H-204 er lítið hraun norðaustan við Kistufell. Það hefur komið upp á móbergshálsi sem er mikið brotinn. Ekki náðist að skoða þetta hraun, en það virðist hverfa undir H-134 og er því gamalt. Erfitt er að greina sundur hraun við Þríhnúka, þar sýnir Jón Jónsson (1978) fleiri hraun en hér er gert. Þar sem erfitt getur verið að tengja saman gígaraðir langar leiðir getur verið að færri gos hafi verið í sprungureininni en hér er lýst.
Tvö hraunanna verið færð til sögulegs tíma. Annað er Kistuhraun (H-130) sem hefur gosið á sama Brennisteinsfjoll-142tíma og Breiðdalshraun (H-129) og hefur verið aldursgreint (Jón Jónsson 1978). Hitt er lítið hraun við gígaröð sem nefnist Svartihryggur og er einnig sögulegt. Landnámslagið frá 870–880 liggur undir báðum hraununum. Á þessari sprungurein hefur gosið a.m.k. 10 sinnum á síðastliðnum 1100 árum og er ekki ósennilegt að gosin hafi komið í hrinum eins og í Kröflueldum og sýnt hefur verið fram á að hafi gerst í Krýsuvík (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988; Haukur Jóhannesson o.fl. 1991). Sennilega hefur verið goshrina á svæðinu um 950, en nákvæmari rannsóknir þarf til að greina gosin betur í sundur Brennisteinsfjöll eru eina háhitasvæðið í vestara gosbeltinu sem ekki hefur verið rannsakað með borunum og er óraskað. Nýting svæðisins getur því annað hvort orðið til útivistar eða til virkjunar jarðhitans, t.d. til framleiðslu á raforku. Útivistarfólk telur yfirleitt að ekki fari saman nýting jarðhitasvæða til virkjunar og nýting til Brennisteinsfjoll-141útivistar. Þeir sem vilja nýta orkuna telja slíkt geta samrýmst og benda á að vegir auðveldi aðgengi inn á falleg og spennandi svæði. Gígaraðir og einstakir gígar, hrauntraðir og hraunhellar, niðurföll í hraunum og ólíkir hraunstraumar gera þetta svæði mjög sérstakt til rannsókna og skoðunar á slíkum myndunum (myndir 8 og 9). Þá er mikill kostur að gróður er lítill á svæðinu og jarðmyndanir skýrar. Slíkar minjar eru óvíða svo ósnortnar og nálægt byggð og svæðið því einstakt að því leyti. Sumar gosmyndanir á svæðinu eru einstakar, s.s. Þríhnúkagígur, Kistufell o.fl. Á brún Lönguhlíðar eru tveir stórir dyngjugígar frá síðustu ísöld og sá þriðji austan við Stórabolla. Þessir gígar eru skýrir og fallegir og er verndargildi þeirra hátt. Svona svæðum nálægt þéttbýli fækkar sífellt og með auknum ferðamannastraumi verða þau æ áhugaverðari og verðmætari þeim sem vilja njóta útivistar og kyrrðar náttúrunnar.
Brennisteinsfjoll-145Eldri myndanir sem liggja undir nútímahraunum sjást vel í jöðrum fjallanna. Við rannsóknir með borunum í Brennisteinsfjöllum þarf að fara varlega við vegalagningu, því erfitt mun er að leggja þar vegi sem ekki verða til mikilla lýta í landinu. Þá þarf að huga að því að erfitt verður að leggja rafmagnslínur eða aðrar leiðslur án verulegra spjalla á náttúrunnni. Ekki er unnt að leggja vegi inn á svæðið án þess að fara yfir hraun sem runnið hafa á sögulegum tíma eða gígaraðir nema úr vestri, eftir Lönguhlíð. Ef lagðir eru vegir inn á svæðið opnast það fyrir ökutækjum og aðgengi verður auðveldara, en um leið hverfur öræfakyrrðin og tign sú er hvílir yfir svæðinu. Þó ekki sé það tilgangur þessarar skýrslu að meta verndargildi svæðisins er nauðsyn að benda á það strax að um mjög sérstakt svæði er að ræða.“
Áður hafði verið gengið um sunnanverð Brennisteinsfjöllin og þeim verið gerð skil, sjá m.a. HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 9 klst og 9 mín. Gengnir voru 24 km.

Heimildir m.a.:
-Helgi Torfason, Náttúrufræðistofnun Íslands, Magnús Á. Sigurgeirsson, Geislavörnum ríkisins, Brennisteinsfjöll – Rannsóknir á jarðfræði svæðisins, janúar 2002.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Eldvörp

Á háhitasvæðum Reykjanesskagans má víða sjá ummerki jarðhita.
Í Eldvörpum eru ummerkin þó ekki alveg augljós í mosagrónu hrauninu umleikis. Yngsta hraunið er frá árinu 1226. Þá opnaðist Hahitasvaediliðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir. Gígaröðin er ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Goshrinan varð á árunum 1210 til 1240 hefur verið nefnd Reykjaneseldar. Í Eldvörpum má einnig sjá leifar af eldri gígaröð, um 5000 ára gamalli.
Eftirfarandi upplýsingar um jarðminjar á vestanverðum Reykjanesskaga er að finna í skýrslu um „Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita“ eftir Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson frá árinu 2009:
Jarðhitasvæði á Íslandi skiptast í háhitasvæði og lághitasvæði. Lághitasvæði finnast víða um landið og tengjast oftast sprungum í eldri berggrunni. Háhitasvæði eru bundin við gosbeltin og flest þeirra eru í rekbeltunum. Gosbeltin Eldvorp-102skiptast í eldstöðvakerfi sem eru samsett úr gosreinum og megineldstöðvum. Í gosreinunum verða eldgos í löngum sprungukerfum. Í megineldstöðvum gýs ítrekað á miðlægum svæðum. Þar eru innskot tíð og bergtegundir aðrar en basalt geta þróast, svo sem líparít. Þar geta einnig myndast öskjur. Almennt má segja að öflugustu háhitasvæðin fylgi megineldstöðvum. Orka háhitakerfa stafar af heitum kvikuinnskotum í jarðskorpunni. Hún flyst til yfirborðs með hringrás vatns. Þetta vatn getur komið til yfirborðs sem gufa annars vegar og hins vegar sem vatn. Samspil þess við aðstæður á yfirborði, svo sem landslag og yfirborðsvatn ræður miklu um það hvaða gerðir hvera myndast á yfirborði.
Eldvorp-24Almennt er litið svo á að varmi háhitasvæðanna komi frá heitum innskotum í rótum eldstöðvakerfanna. Þaðan flyst varminn til yfirborðs með vatni eða gufu. Reiknað er með að þetta eigi sér stað þannig að vatn sem seytlar niður eftir sprungum í skorpunni nái að komast í návígi við heit innskot. Vatnið hitnar og flytur með sér varma úr innskotinu til yfirborðs og þar verður til jarðhitasvæði. Varmaflutningur til yfirborðs veldur því að með tímanum kólnar innskotið og virkni dvínar á jarðhitasvæðinu nema til komi meiri varmi frá nýjum innskotum.
Alþekkt er að á mörgum af jarðhitasvæðum landsins er jarðhitavirkni á yfirborði breytileg þar sem hverir ýmist koma eða fara og virkni í einum og sama hvernum á það til að breytast með tímanum, jafnvel frá ári til árs.
Hverasvæði geta þannig dvínað um lengri eða skemmri tíma og að sama skapi eykst virkni þeirra á milli. Til að viðhalda jarðhitakerfum þarf varmagjafinn annars vegar að endurnýjast reglulega og hins vegar þarf berggrunnurinn að brotna upp reglulega til að mynda nýjar sprungur í stað þeirra sem þéttast af útfellingum. Þegar nýjar sprungur myndast í berggrunni fylgja því iðulega jarðskjálftar. Frá öndverðu hafa menn séð samband á milli hveravirkni og jarðskjálfta á hverasvæðum enda alþekkt að virkni svæðanna aukist eða minnki við jarðskjálftakippi. Því hafa jarðskjálftar á slíkum svæðum löngum verið nefndir hverakippir. Gott dæmi um hver með breytilega virkni er hverinn Pínir í Sveifluhálsi við Seltún í Krýsuvík. Síðustu áratugina hefur hann átt Eldvorp-25það til að liggja að mestu niðri um nokkurra ára skeið en þess á milli eru gufustrókarnir frá honum þeir öflugustu á svæðinu.
Á háhitasvæðum eru víða flákar af ljósleitum leir umhverfis hverasvæðin. Við jarðhitasvæði er algengt að sjá slíkar leirskellur sem virðast hafa kólnað og eðlilegt er að líta á sem kulnaðan jarðhita. Leirskellurnar verða til við ferli sem nefnt er ummyndun.
Ummyndun bergs við yfirborð verður fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við ummyndunina leysast frumsteindir og gler í bergi upp í frumeindir eða jónir. Sumar skolast burt með vatni eða rjúka með gufu en aðrar verða eftir og endurraðast í svonefndar ummyndunarsteindir, þ.e. steindir sem eru í jafnvægi við ríkjandi hita- og sýrustig. Við Eldvorp-26yfirborð háhitasvæðanna verða þannig til nýjar steindir, aðallega svonefndar leirsteindir sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir en einnig sem hluti af upprunalegu bergi sem ekki hefur ummyndast að fullu. Slíkt berg er nefnt ummyndað berg.
Við fyrstu sýn er Reykjanes lágreistur, eldbrunninn og hrjóstrugur útkjálki við ysta haf. Basalthraun frá nútíma þekja mestan hluta svæðisins en lágar móbergshæðir eru við jaðra þess. Jarðhitasvæðið er á miðju Reykjanesi, milli lágra fella, og það er eitt minnsta háhitasvæði landsins. Hveravirkni á yfirborði einkennist af leirhverum, gufuhverum og heitri jörð. Á síðustu öld urðu oftar en einu sinni verulegar breytingar á hveravirkni í kjölfar jarðskjálfta. Vegna nálægðar við strönd og gropins Eldvorp-27berggrunns á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Vatnshverir á svæðinu hafa því verið mjög saltir. Myndarlegir goshverir voru virkir á svæðinu á síðustu öld.
Um Reykjanes liggur sprungukerfi með opnum gjám og misgengjum með norðaustlæga stefnu. Hér rís Mið-Atlantshafshryggurinn upp fyrir sjávarmál og eru sprungurnar hluti af eldstöðvakerfi sem er að hálfu í sjó og að hálfu á landi. Það er kennt við Reykjanes og teygir sig til norðausturs í átt að Vatnsleysuströnd. Sprungur eru lítt sýnilegar á sjálfu jarðhitasvæðinu en sjást glögglega skammt suðvestan og vestan við það, m.a. í Valbjargagjá. Vestan til á Reykjanesi liggur gossprunga frá 13. öld og önnur um 2000 ára gömul. Skammt austan við hitasvæðið er kerfi af Eldvorp-28sprungum sem hafa töluvert norðlægari stefnu en ofangreindar sprungur. Þær eru taldar tilheyra framhaldi jarðskjálftabeltisins á Suðurlandi sem teygir sig vestur allan Reykjanesskaga en jarðskjálftabeltið einkennist af skástígum sprungum með heildarstefnu nálægt N-S.
Reykjanes hefur lengi verið á náttúruminjaskrá, m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði og allmikils hverasvæðis. Í náttúruverndaráætlun 2004–2008, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004, var lagt til að svæðið yrði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis (Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004–2008) en af því hefur ekki enn orðið. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. Eldvorp-29laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
Reykjanesvirkjun hóf starfsemi á svæðinu árið 2006 auk þess sem önnur og eldri verksmiðjustarfssemi er í grenndinni. Aðgengi var til skamms tíma auðvelt að hverasvæðinu en það er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Í kjölfar starfsemi Reykjanesvirkjunar hefur hveravirkni aukist mikið á svæðinu og hverir hafa breyst. Allmikið rask hefur orðið á jarðhitasvæðinu en það hófst með rannsóknarborunum eftir 1950. Leifar sjóefnaverksmiðju eru við jarðhitasvæðið og fiskiðjuver. Verulegt rask er vegna efnistöku á svæðinu, nýtt og gamalt. Auk breytinga á jarðhitasvæðinu hefur Reykjanesvirkjun valdið miklu raski á svæðinu auk þess sem hún er staðsett u.þ.b. í línu Stampagígaraðarinnar.
Eldvorp-30Austan við eldstöðvakerfi Reykjaness tekur við sprungu- og eldstöðvakerfi sem kennt hefur verið við háhitasvæðin í Eldvörpum og Svartsengi eða jafnvel eingöngu við Svartsengi. Mörk milli eldstöðvakerfanna eru ekki skýr og stundum eru þau talin eitt og hið sama. Allmikil eldgos urðu í kerfinu á 13. öld líkt og á Reykjanesi. Allmikið sprungukerfi teygir sig frá sjó við Mölvík til norðausturs í átt að Vatnsleysuvík og Straumsvík.
Norðan og vestan við Þorbjarnarfell við Grindavík taka við miklar og lítt grónar hraunbreiður í um 20 m hæð. Í apalhrauninu norðan við fellið stigu áður fyrr upp heitar gufur sem nú eru líklega að mestu horfnar. Í móberginu í Svartsengisfelli og Þorbjarnarfelli er nokkur ummyndun sem og í Selhálsi sem tengir Eldvorp-31fellin. Áður fyrr hefur útbreiðsla jarðhitans því verið önnur og hugsanlega meiri en síðar varð. Vegna gropins berggrunns og nálægðar við sjó á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Flatlendið er að stórum hluta þakið hraunum frá 13. öld en sprungur og misgengi eru áberandi í eldri hraunum og móbergi. Austasti hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá undir merkjum Sundhnúksraðarinnar og Fagradals. Stór hluti svæðisins nýtur auk þess sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Boranir hófust á svæðinu 1976 og varmaorkuver tók til starfa 1976. Þar er nú varma- og raforkuver með tilheyrandi búnaði. Kaldavatnsleiðsla liggur að orkuverinu úr norðri og heitavatnsleiðslur liggja frá verinu til norðurs og suðurs. Þá liggur háspennulína frá orkuverinu að spennistöð við Rauðamel. Affallsvatn frá orkuverinu myndar Bláa lónið í hrauninu. Svæðið er mikið raskað eftir mannvirkjagerð.
Í hraunflákanum vestur af Þorbjarnarfelli liggur gígaröðin Eldvörp frá 13. öld. Hún samanstendur af fjölmörgum lágum gjallgígum sem umluktir eru hrauni frá gosinu. Í og við tvo af gígunum er lítið jarðhitasvæði í um 60 m hæð. Gufur stíga upp úr hrauni og gjalli á svæði sem er um 100 m í þvermál. Hraunið og gígaröðin eru að mestu ósnortin sem er fátítt á Reykjanesskaga.
Eldvörp eru innan þess svæðis sem afmarkað er í náttúruminjaskrá undir merkjum Reykjaness. Svæðið í heild nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Borhola er á jarðhitasvæðinu ásamt tilheyrandi vegi. Þá hefur efni til vegagerðar verið tekið úr gígum norðaustan við jarðhitasvæðið.“

Heimild:
-Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita, Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson. Unnið fyrir Orkustofnun 2009.