Færslur

Jarðfræðikort

Á heimasíðu Náttúrustofu Reykjaness er fjallað um jarðfræði og gróður á Reykjanesskaga. Þar segir m.a.: “Fyrir meira en 10.000 árum myndaðist Reykjanesskaginn út frá Lönguhlíðafjöllunum og Undirhlíðum, Öskjuhlíðin, Digranesið, Arnarnesið, Hálsarnir fyrir ofan Hafnarfjörð, Hvaleyrartanginn og Holtin, Vesturháls, Austurháls, Skógfellin, Þórðarfell, Þorbjarnarfell, Miðnesið og slík auðkenni. Síðan hlóðust hraungos allt í kring og fylltu inn á milli.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist, s.s. Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun og Svínahraun um 1000, Ögmundarhraun og Kapelluhraun 1151 og Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun um 1188. Svartahraun við Bláa lónið er frá 1226. Kapelluhraun er frá 1150. Afstapahraun er frá sögulegum tíma og Stampahraun og Arnarseturshraun eru frá 1226. Nýjasta er sennilega frá 14. öld, þ.e. hraun við Hlíðarvatn frá árinu 1340.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir (dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigígir t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla t.d. Hvirfill og Kistufell”.

Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Þó eru víða smávötn (Djúpavatn, Grænavatn, Seltjörn, Snorrastaðatjarnir, Hvaleyrarvatn og Urriðavatn) og tjarnir (Augun í Krýsuvík, Hraunsfells-Vatnsfells vatnstæðið, Fagradals-Vatnsfells vatnstæðið), bæði í lægðum og gígum. Vatnsstæðin og sum vötnin hafa þótt aðlaðandi selstæði, t.a.m. Hvaleyrarvatn, Seltjörn og Snorrastaðatjarnir sem og Kaldá við Kaldársel.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Selin eru yfirleitt í eldri hraunum en þeim er runnu á sögulegum tíma, enda gróður þar skemmra á veg kominn en í þeim eldri. Nýrri hraunin enn mosavaxin, en önnur víða grasivaxin og klædd lyngi, birki og víði; ákjósanleg til beitar.

Sjá meira um jarðfræði Reykjanesskaga HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Hraundríli
Hraundrýli – hornito á máli eldfjallafræðinnar – eru nokkurs konar strompar eða strýtur í kringum göt í þaki hraunrása.
HraundrýliHraundrýli myndast við það að lofttegundir, sem losna úr bráðinni, streyma út um gatið með miklum hraða og bera með sér hraunflyksur sem límast í kringum loftrásina.
Hraundrýli má sjá á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum. Þekktust og nærtækust eru líklega hraundrýlin á Strokkamelum í Hvassahrauni, örskammt sunnan Reykjanesbrautar, og Tröllbörnin undir Lögbergsbrekkunni (Lækjarbotnum), við Suðurlandsveginn, en einnig eru t.d. há, stór og falleg hraundrýli í Eldvarparhrauni ofan við Grindavík og í Hnúkunum ofan við Selvog.
Hraundrýli geta verið allhá og mjó, eða lægri og gildvaxnari, og stundum mynda þau röð yfir hraunrás sem undir er.
Hraundrýli eru algeng á hraundyngjum, til dæmis í Surtsey og á Selvogsheiði (Hnúkunum). Þar er bæði hátt og fallegt hraundrýli og einnig annað stórt og mikið um sig. Opið er inn og hefur það verið notað sem skjól. Utan við það eru tættur.
Tröllabörnin í eina tíð notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Landsvæði umhverfis Tröllabörn og þar með talið hraundrýlin sjálf var friðlýst sem náttúruvætti árið 1983.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is

Hraundrýli

Hraundrúli í Hnúkum.

Reykjanes
Virkt gosbelti Íslands liggur eftir flekaskilunum endilöngum. Landið vestan megin við flekaskilin tilheyrir Ameríkuflekanum en landið austan megin Evrópuflekanum. Flekana rekur í sundur frá flekaskilunum um það bil 1 sm á ári þannig að bergið, sem einu sinni myndaðist þar, hefur flust austur og vestur á firði. Þar og á Austfjörðum er nú elsta berg á Íslandi, um 15 milljón ára gamalt.
Jarðfræði

Íslandi gýs að meðaltali á 5 ára fresti og verða eldgosin eingöngu á virka gosbeltinu. Smám saman dragast eldstöðvarnar út af beltinu, þannig að það gýs æ sjaldnar úr þeim þar til þær deyja út að lokum.

Komið hefur í ljós að sumar eldstöðvar tengjast þannig að þær virðast fá sams konar kviku. Þess vegna er eldstöðvum á Íslandi skipt upp í u.þ.b. 30 aðskilin eldstöðvakerfi. Innan hvers eldstöðvakerfis geta verið margar eldstöðvar en aðeins ein megineldstöð. Sum eldstöðvakerfi fá kviku sína beint úr kvikulaginu en önnur fá kvikuna úr grunnstæðum kvikuhólfum.

Ætla má að jarðskorpan undir Íslandi sé um 10 km þykk. Hún er þó mun þynnri undir flekaskilunum heldur en undir Aust- og Vestfjörðum. Undir skorpunni er svokallað kvikulag en þar er bergið bráðið að hluta til og leitar bráðin upp um sprungur í átt til yfirborðsins. Sums staðar nær kvikan að safnast saman og mynda kvikuhólf sem geta náð töluvert upp í jarðskorpuna. Slík hólf eru undir öllum helstu eldfjöllum landsins og nefnast þau megineldstöðvar.

Þgar Reykjanesskaginn er athugaður má lesa þar ákveðna jarðsögu. Greinilega má sjá hvar Reykjaneshryggurinn kemur í land hjá Reykjanestá en þar er stór sigdalur sem sýnir hvar flekaskilin eru. Enn fremur gefa stórar sprungur til kynna hvernig landið rifnar í sundur. Búast má við gosi á Reykjanesskaga á u.þ.b. þúsund ára fresti en gostímabilin geta spannað 300 til 400 ár.

Jarðfræði
iðnesið og svæðið suður af Reykjanesbæ er alsett hraunum sem runnu áður en jökull lagðist yfir landið en hann náði mestri útbreiðslu fyrir u.þ.b. 18.000 árum. Þessi hraun hafa orðið fyrir miklum ágangi. Þegar þau runnu var loftslag svipað og nú en síðan lagðist jökull yfir hluta þeirra. Jafnfram því lækkaði yfirborð sjávar um 100-150 m þannig að hraunin lentu uppi á miðju landi. Jökulár fluttu bræðsluvatn til sjávar og þegar jökla leysti hækkaði sjávarmál allt upp í 10 m yfir núverandi sjávarmál.

Meðan jökull lá yfir Reykjanesi urðu eldgos tíð. Þá mynduðust móbergsstapar og móbergskeilur sem standa upp úr hraunsléttunni sem þekur skagann. Fjöll, sem eru keilulaga eða lík hrúgöldum, hafa ekki náð upp úr jöklinum en hin, sem eru með hraunsléttu efst, gefa til kynna þykkt jökulsins þegar þau mynduðust. Meirihluti Reykjanesskagans er hraunslétta, gerð úr hraunum sem runnið hafa eftir að jökullinn tók að bráðna fyrir u.þ.b. 18.000 árum. Mikill hluti þessarar hraunsléttu er dyngjur sem urðu flestar til á fyrri hluta tímabilsins. Þær eru víðáttumiklir, lágreistir hraunskildir og er Þráinsskjöldur ein stærsta dyngjan, 130 km2. Frá því að land byggðist er talið að um 12 hraun hafi runnið á Reykjanesskaga eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraunin runnu þó einkum á tveimur gostímabilum: um 1000 og um 1300. Síðara tímabilið gengur undir nafninu Reykjaneseldar.

Heimild m.a.:
-http://www.bluelagoon.is/Gjain/Almenn_jardfraedi/Island/

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjanesskagans.

Jarðfræði

Úrkoma, sem fellur á Reykjanesskagann, hripar niður um lek berglög, safnast fyrir neðanjarðar og sytrar svo hægt í átt til sjávar. Þetta vatn kallast grunnvatn. Við ströndina mætir ferska grunnvatnið söltum sjónum. Sjórinn er eðlisþyngri, svo að grunnvatnið myndar 30 – 100 m þykka ferskvatnslinsu sem flýtur ofan á honum. Neðst í grunnvatnslinsunni er lag af ísöltu vatni og er það þykkast úti við ströndina þar sem berggrunnur er afar lekur og sjávarfalla gætir mest.

JarðfræðiÁ Reykjanesskaga eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku (heit innskot). Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi. Í Svartsengi er t.d. heitur jarðsjórinn notaður til að hita upp kalt vatn fyrir hitaveitu á Suðurnesjum auk þess sem hann er nýttur fyrir gufuaflstöð til raforkuframleiðslu. Hluta af söltu afrennslisvatninu er veitt í Bláa Lónið en afganginum er dælt aftur niður um borholu.

Jarðskjálftar eru tíðir á Reykjanesskaganum. Upptök þeirra eru einkum á örmjóu belti sem sker eldstöðvakerfin og stefnir nærri í austur. Líta má á þetta belti sem flekaskilin sjálf. Á Reykjanesskaganum eru þrjú eldstöðvakerfi og þar sem beltið sker þau eru eitt eða fleiri háhitasvæði á yfirborði jarðar: Reykjanes, Eldvörp, Svartsengi, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll.

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Vestast á jarðskjálftabeltinu er gliðnunarhreyfing ráðandi og mikið um væga jarðskjálfta sem verða ekki stærri en 4-4,5 stig á Richter. Eftir því sem austar dregur verður aftur á móti víxlgengishreyfingin, sem einkennir Suðurlandsundirlendið, greinilegri. Þar geta jarðskjálftar orðið sterkari eða allt upp í 6-6,5 stig á Richter. Um miðhluta Reykjanesskagans fara jarðskjálftar aftur á móti ekki upp fyrir 5-5,5 stig á Richter.

Á Reykjanesskaga eru átta jarðskjálftamælar sem veita hagnýtar upplýsingar um upptök og eðli skjálftavirkninnar auk þess að auðvelda Almannavörnum eftirlit með svæðinu. Hitaveita Suðurnesja kostar þrjá þessara mæla. Á Reykjanesskaga virðast skiptast á róleg og óróleg jarðskjálftatímabil. Sögulegar heimildir eru mismiklar en um og fyrir aldamótin virðist hafa verið mikil ókyrrð á og við Reykjanes. Ennfremur voru miklar skjálftahrinur á tímabilunum 1929-1935 og 1967-1973. Svo virðist sem slík óróleikatímabil geti gengið yfir Reykjanesskaga á 30-40 ára fresti.

Heimild m.a.:
-http://www.bluelagoon.is/Gjain/Almenn_jardfraedi/Island/

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Reykanes

Í Náttúrufræðingnum 1994-1995 skrifar Magnús Á Sigurgeirsson m.a. um jarðfræði Reykjaness: “Reykjanes er um 5 km langt, í SV-NAstefnu,og myndar suðvestasta hluta Reykjanesskagans. Það afmarkast af Stóru-Sandvík í vestri og Sandvík austan Háleyjabungu í austri.
Nesið er allt eldbrunnið og hrjóstrugt yfir að líta, að mestu þakið gróðurvana, sandorpnum og úfnum hraunum. Upp úr hraunbreiðunum rísa móbergs- og bólstrabergshryggir sem liggja slitrótt norðaustur eftir nesinu. Reykjanes-kort-21Næst ströndinni er Valahnúkur sem skagar í sjó fram en innar koma Bæjarfell, sem vitinn stendur á, Litlafell, Sýrfellsdrög og Sýrfell, sem er þeirra hæst. Á austanverðu Reykjanesi eru hraundyngjurnar Skálafell og Háleyjabunga. Hraun þeirra eru mjög misgengin og sprungin enda elst hrauna á nesinu. Að móbergsmyndunum og dyngjum frátöldum er nesið að mestu leyti þakið hraunum sem runnið hafa frá gossprungum. Eru það yngstu bergmyndanir þar, eins og raunar á við um Reykjanesskagann í heild. Stærst þessara hrauna á Reykjanesi er Tjaldstaðagjárhraun sem þekur um fimmtung nessins. Erfitt er að átta sig á stærð eldri sprunguhraunanna þar sem þau eru að miklum hluta þakin yngri hraunum.
Reykjanes liggur á mótum gliðnunar- og goshryggja Norður-Atlantshafsins og Íslands. Öll umbrot sem þar verða, eldvirkni og höggun, eru tengd gliðnunarhrinum. Á  Reykjanesskaga liggja skástíg eldstöðvakerfi hvert vestur af öðru og áfram eftir Reykjaneshryggnum á hafsbotni. Vestasta eldstöðvakerfið liggur um Reykjanes og er við það kennt. Það er um 25 km langt í suðvestur-norðausturstefnu og liggja syðst 9 km þess neðansjávar (Sveinn P. Jakobsson o.fl. 1978).

Reykjanes-jardfraedi-1

Á sjókorti má glöggt sjá neðansjávarhrygg sem gengur suðvestur frá nesinu og er neðansjávarhluti Reykjaneskerfisins (Sjómælingar Íslands 1972).
Hraun á Reykjanesi eru úr basalti. Frá gossprungum hafa runnið hraun úr þóleiíti en frá dyngjum úr ólivínþóleiíti eða pikríti (Sveinn P. Jakobsson o.fl. 1978). Á jarðfræðikortum Jóns Jónssonar (1963, 1978) er sýnd útbreiðsla, gerð og aldursafstaða helstu jarðmyndana á Reykjanesi.”
Páll Imsland hafi m.a. skrifað eftirfarandi um jarðfræði Reykjanesskagans í Náttúrfræðinginn 1985: “Kenningin um landrek og tilurð jarðskorpu á gliðnandi plötumótum, gerir betur grein fyrir myndun, þróun og ástandi íslensku jarðskorpunnar en nokkurt annað tiltækt hugmyndakerfi. Það sem hér verður útlistað um almennt jarðfræðilegt ástand og þróun skorpunnar á Suðvesturlandi er gert innan ramma plötukenningarinnar, sem er óneitanlega frjóasta og notadrýgsta heildarmynd, sem jarðfræðin hefur átt.

Reykjanes-jardfraedi-2

Á fáum stöðum á jörðinni tala merkin Ijósar á máli þessarar kenningar en einmitt hérlendis. Samhengið í jarðfræðilegri þróun er tiltölulega auðsætt hér, þó flókið sé, og samband „strúktúra” og þeirra ferla, sem eru orsök þeirra, liggur ljósar fyrir en almennt gerist. Veldur því bæði, að landið er í hraðri myndun og eins hitt, að það er gróðursnautt, svo opnur eru yfirleitt mjög góðar í berggrunninn. Það er vegna þessa, sem Ísland gegnir gjarnan lykilhlutverki í jarðfræðilegum rannsóknum, er beinast að skilningi á jörðinni í heild.
Reykjanes-jardfraedi-3

Íslenska jarðskorpan verður til í rek- og gosbeltinu. Á Suðvesturlandi liggur þetta belti um Reykjanesskagann og Hellisheiðar-Þingvallasvæðið í átt til Langjökuls. Framhald þess til suðurs er sjálfur Reykjaneshryggurinn. Flói og Ölfus liggja á nýmynduðum vesturjaðri Evrópuplötunnar, er rekur til austurs með u.þ.b. 1 cm hraða á ári að meðaltali. Höfuðborgarsvæðið liggur hins vegar á nýmynduðum austurjaðri Ameríkuplötunnar, vestan við rekbeltið, og rekur með líkum hraða til vesturs (Leó Kristjánsson 1979). Landið verður því eldra, sem lengra kemur frá rekbeltinu. Nýtt land er ætíð að myndast í rekbeltunum. Það verður til, þar sem spennuástand í jarðskorpunni veldur því, að landið brotnar upp og myndar langar sprungnar ræmur eða spildur, sprungusveima. Þeir eru virkastir inn til miðjunnar, en jaðrar þeirra og endar eru venjulega minna sprungnir og eins er þar heildartilfærslan á sprungunum minni. Myndun nýrrar jarðskorpu í sprungusveimnum á sér stað samfara gliðnuninni. Það gerist á þann hátt að bergkvika neðan úr möttli jarðar streymir upp í sprungurnar og storknar þar eða vellur að hluta út yfir umhverfið í eldgosum.

Reykjanes-jardfraedi-4

Þessi nýmyndun jarðskorpu á sér ekki stað á einni ákveðinni sprungu, heldur dreifist hún á nokkrar þyrpingar sprungna, sprungusveimana. Á milli sjálfra sprungusveimanna er oftast minna um alla virkni. Stærð sprungusveima og afstaða þeirra hvers til annars er breytileg svo og framleiðslumynstur þeirra og e.t.v. „lífslengd”. Á Reykjanesskaganum liggja sprungusveimarnir skástígt og að allverulegu leyti samsíða. Annars staðar á landinu hliðrast þeir meira til á langveginn, svo að samsíða spildur þeirra eru tiltölulega styttri. Hver sprungusveimur þekkist á yfirborði af þrem gerðum sprungna: misgengjum, gjám og gossprungum. Misgengin mynda stalla í landslaginu og um þau hliðrast jarðlögin, sem þau skera, mest í lóðrétta stefnu. Misgengin hafa tilhneigingu til að mynda ákveðinn sigdal (graben) um miðbikið, þar sem virknin er mest. Þingvallalægðin er gott dæmi þar um. Rof og önnur eyðingaröfl hafa tilhneigingu til þess að brjóta niður og jafna út misgengisstallana jafnótt og þeir myndast. Ásamt jöklum hefur rennandi vatn tilhneigingu til þess að grafa landið í samræmi við gamalt sprungumynstur. Misgengin og gjárnar geta því orðið stýrandi þáttur í landslagsmótun í eldri berglögum. 

Reykjanes-jardfraedi-5

Opnu gjárnar myndast eingöngu á gliðnunarsvæðum. Um dýpi þeirra er lítið vitað. Með tímanum hafa roföflin og eldvirknin tilhneigingu til þess að fylla gjárnar. Gígaraðir myndast yfir gossprungum, þar sem kvikan berst til yfirborðsins. Hlaðast þar upp gígar, sem hraun renna frá. Á meðan jöklar lágu yfir gosbeltunum á kuldaskeiðum ísaldarinnar, hindruðu þeir hraunrennsli með þeim afleiðingum, að gosefnin hrúguðust nær öll upp yfir gosrásunum. Þá urðu til móbergshryggir, þar sem annars hefðu orðið gígaraðir. Móbergsfjöll eru áberandi í landslaginu austan og sunnan höfuðborgarsvæðisins, enda er það land að mestu leyti orðið til á síðasta hluta ísaldarinnar og þar af leiðandi lítið rofið.
Reykjanes-jardfraedi-6Um líf- eða virknitíma sprungusveimanna er fremur lítið af haldgóðri þekkingu til staðar, enn sem komið er. Flest bendir þó til þess, að líflengd þeirra séu takmörk sett í raun. Framan af framleiða þeir tiltölulega frumstætt berg og eingöngu basískt að samsetningu. Á sama tíma virðist einnig sprunguvirknin vera mest og e.t.v. ná lengst út til enda og jaðra. Er líður á, hefur virkni sprungusveimanna tilhneigingu til þess að safnast inn á miðsvæði þeirra. Þar myndast háhitasvæði, eldvirknin eykst þar hlutfallslega jafnframt því sem bergkvikan verður þróaðri að samsetningu. Eldgosin verða tíðari en gjarnan minni í hvert sinn. Ennfremur virðist sprunguvirknin fara minnkandi. Jarðfræðingar segja að megineldstöð verði til á sprungusveimnum. Þegar líður svo á þróun þessara megineldstöðva dregur aftur úr virkni þeirra og að lokum deyja þær út. Í flestum tilfellum deyr megineldstöð út samtímis því að nýr sprungusveimur verður til í nágrenninu; eitt kerfi (sprungusveimur-megineldstöð) deyr út og annað hliðstætt kerfi tekur við hlutverkinu. Hinn útdauða sprungusveim ásamt tilheyrandi megineldstöð rekur þá í heilu lagi út úr gosbeltinu til annarrar hvorrar áttarinnar, eftir því hvorum megin nýi sprungusveimurinn myndast. Eyðingaröflin byrja að brjóta megineldstöðina niður og ef til vill kaffærist hún að einhverju marki í gosefnum frá nýja sprungusveimnum.

Reykjanes-jardfraedi-7

Í þeirri þróunarsögu jarðskorpunnar, við sunnanverðan Faxaflóa, sem hér verður gerð grein fyrir, koma sjö sprungusveimar við sögu. Af þeim eru tveir útdauðir en fimm virkir. Hinir dauðu voru virkir á árkvarter og eru kenndir við Kjalarnes og Stardal. Á báðum þróuðust samnefndar megineldstöðvar. Hér er því bæði rætt um Kjalarnessprungusveiminn og Kjalarnesmegineldstöðina o.s.frv. Kjalarnesmegineldstöðin var virk á tímabilinu frá 2.8-2.1 miljón ára síðan en Stardalsmegineldstöðin á tímabilinu frá 2.1-1.6 miljón ára (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Fyrstu merki megineldstöðvanna koma í ljós, þegar alllangt er liðið á þróunarskeið sprungusveimsins. Eldvirkni og sprunguvirkni hefst því á Kjalarnessprungusveimnum nokkrum hundruðum þúsunda ára áður en megineldstöðin sjálf hefur þróast svo, að hún verði þekkjanleg í jarðlagastaflanum.

Reykjanes-jardfraedi-8

Virku sprungusveimarnir fimm eru kenndir við stærstu jarðhitasvæðin, sem á þeim finnast, Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes. Hengils-sprungusveimurinn hefur þegar þróast í megineldstöð, en mjög nýlega. Það er hins vegar skilgreiningaratriði, hvort megineldstöð er til staðar á hinum sprungusveimunum enn sem komið er. Þeir bera sum merki dæmigerðra megineldstöðva, en vantar önnur. Þeir eru því allir ungir. Upphafs þeirra er að leita í sjó undan gamalli suðurströnd höfuðborgarsvæðisins seint á ísöld; að öllum líkindum fyrir minna en 700 þúsund árum.

 

Reykjanes-jardfraedi-16

Jarðlögum við sunnanverðan Faxaflóa má skipta upp í nokkrar ákveðnar stórar einingar. Hér er notast við fjórar myndanir.
(1) Tertíera myndunin er elst. Hún er gerð að mestu úr blágrýtishraunlögum og er mynduð áður en þeir sprungusveimar, sem hér er fjallað um, urðu virkir.
(2) Árkvartera myndunin liggur ofan á tertíera berginu. Hún er gerð úr hraunlögum og móbergi að mestu leyti. Hún varð til í þeim tveimur útdauðu sprungusveimum, Kjalarnes- og Stardalssveimunum, sem að ofan getur og virkir voru á fyrri hluta kvarters. Á báðum þróaðist megineldstöð með háhitakerfi og þróuðum bergtegundum (Ingvar B. Friðleifsson 1973).
(3) Nútímamyndunin er gerð úr móbergi frá síðasta jökulskeiði og hraunum, sem runnin eru eftir að ísöld lauk. Þetta berg hefur myndast í sprungusveimunum fimm, sem kenndir eru við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes, en þeir eru allir virkir enn og framleiða nú jarðskorpu á sunnanverðu svæðinu. Þeir hafa ekki náð þroskastigi háþróaðra megineldstöðva.

Reykjanes-jardfraedi-11

(4) Grágrýtismyndunin er gerð úr grágrýtishraunum frá síðustu hlýskeiðum ísaldarinnar. Þessi hraun liggja á milli árkvarteru og nútíma myndananna. Þau verða ekki talin tilheyra ákveðnum sprungusveimum. Þau eru yfirleitt talin vera upp komin í dyngjum, en upptök eða gígasvæði þeirra flestra eru enn óþekkt. Á þeim tíma, er forverar Hengils-sprungusveimsins voru virkir og jarðskorpan á höfuðborgarsvæðinu var að myndast, var Reykjanesskaginn ekki til sem slíkur, eftir því sem best verður séð. Suðurströndin lá norðar en nú er. Hún hefur að sjálfsögðu verið eitthvað breytileg frá einni tíð til annarrar vegna ýmissa breytiþátta, svo sem: Uppbyggingar af völdum eldvirkninnar, niðurbrots af völdum sjávar og jökla, sem langtímum voru á svæðinu, og síðast en ekki síst vegna breytinga á jafnvægisástandi í jarðskorpunni af „ísóstasískum” toga.

Reykjanes-jardfraedi-9

Við getum til einföldunar áætlað að lengst af hafi ströndin legið til austurs eða suðausturs frá svæðinu milli Hafnarfjarðar og Grafarvogs. Sprungusveimar þeir sem nú finnast á Reykjanesskaganum voru ekki orðnir virkir og framhald rek- og gosbeltisins til suðurs var neðan sjávarmáls. Afraksturinn af virkni þeirra sprungusveima, sem þá voru virkir neðansjávar, sést ekki á þurrlendi í dag og virðist ekki skipta verulegu máli fyrir endurröðun atburða í þessari þróunarsögu.
Elsta berg við Faxaflóa er frá tertíer. Það finnst ekki sunnar á yfirborði en á norðurströnd Hvalfjarðar. Úr því er t.d. Akrafjall.
Reykjanes-jardfraedi-12

Nútímabergið eru hraun, sem runnin eru eftir að ísöld lauk og móberg frá síðasta hluta ísaldar. Móbergið er að mestu leyti frá síðasta jökulskeiði. Það er því yngra en grágrýtið. Móbergið finnst í stökum fjöllum og fellum, löngum fjallgörðum og jafnvel flóknum fjallaklösum, sem hraunin hafa lagst upp að eða runnið umhverfis. Hraunin eru komin úr fáeinum nútímadyngjum og eldborgum en fyrst og fremst úr gígaröðum, sem raðast samsíða á sprungusveimana. Það er ekki vani jarðfræðinga, að tala um nútímaberg, nema það sé myndað eftir að ísöld lauk, þ.e.a.s. á nútíma. Hér er þessi hefð þó brotin, vegna þess að hvort tveggja bergið, móberg síðasta jökulskeiðs og nútímahraunin, eru mynduð í sömu sprungusveimunum, þeim sem ennþá eru virkir á nútíma og fyrr eru taldir upp.

Reykjanes-jardfraedi-12

Nútímabergið liggur ofan á grágrýtinu. Mörk grágrýtisins og móbergsins eru ekki víða áberandi, en hraunaþekjan leggst sýnilega ofan á grágrýtið á stórum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta áberandi frá Hafnarfirði austur um og upp undir Draugahlíðar (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).
Þetta er í suðurjaðri þess, sem venjulega er kallað höfuðborgarsvæði, og því má segja, að þessi yngsta myndun sé hvergi mjög þykk á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þegar suður fyrir það kemur, verður hún hins vegar nær einráð og víða mjög þykk. Jafnframt dýpkar yfirleitt á eldri myndununum. Báðar berggerðir þessarar myndunar eru mjög gropnar, einkum hraunin. Þau eru jafnvel gropnari en grágrýtið í sumum tilvikum. Því veldur bæði lágur aldur þeirra og myndunarmáti.

Reykjanes-jardfraedi-13

Eins og fyrr er sagt myndaðist elsti hluti jarðskorpunnar á höfuðborgarsvæðinu í sprungusveimnum og megineldstöðinni, sem kennd eru við Kjalarnes og voru virk í upphafi kvartertímans og fram undir 2.1 miljón ára. Sambærilegt kerfi, Stardalskerfið, hafði við endalok hins kerfisins verið í uppsiglingu um tíma. Stardalssprungusveimurinn óx þá að virkni og hrakti Kjalarnesmegineldstöðina út úr gosbeltinu. Þá dó Kjalarnesmegineldstöðin út, en Stardalsprungusveimurinn þróast sjálfur í megineldstöð. Stardalsmegineldstöðin dó svo út fyrir 1.6 miljón árum og hefur síðan verið að fjarlægjast gosbeltið og rofna niður. Núna rekur hana til vesturs undan virkni Hengilssprungusveimsins. Hann er þó yngri en 0.7 miljónir ára samkvæmt segulstefnudreifingu (Kristján Sæmundsson 1967; Leó Kristjánsson og Ágúst Guðmundsson 1980).

Reykjanes-jardfraedi-10

Þá myndaðist jarðskorpa, sem nú finnst ofan sjávarmáls um norðanvert höfuðborgarsvæðið og á botni Faxaflóa undan ströndum þess. Sunnanvert höfuðborgarsvæðið var undir sjó eða við ströndina og Reykjanesskaginn sem slíkur var ekki enn orðinn til. Þegar leið að lokum kvartertímans hófust hin miklu dyngjugos, sem lögðu til grágrýtið. Þau virðast flest hafa átt sér stað á þurru landi og íslausu og hraunin hafa runnið út að ströndinni og lagst meðfram henni í eins konar kraga. Sum þessara gosa gætu jafnvel hafa byrjað á grunnsævi og myndað eyjar, sem ýmist tengdust ströndinni eða ekki. Hér er helst skírskotað til grágrýtisflákans á Rosmhvalanesi og Vogastapa og ef til vill á Krýsuvíkurheiði. Nágrennið við sjávarsíðuna er meðal annars sterklega gefið til kynna af algengum brotabergsmyndunum í botni margra grágrýtiseininganna um allt svæðið (sbr. Ragna Karlsdóttir 1973; Jón Jónsson 1978; Árni Hjartarson 1980 og Kristján Sæmundsson 1981). Að loknu gostímabili grágrýtisdyngjanna gekk kuldaskeið í garð og jökull lagðist yfir svæðið.

Reykjanes-jardfraedi-14

Þar sem nú er Reykjanesskagi var orðið grunnsævi og land ef til vill að hluta til risið úr sæ. Eldgos á sprungum hófust undir íshettunni og móbergsfjöllin urðu til. Þetta er fyrsta virknin, sem þekkt er á sprungusveimum Reykjanesskagans. Mikil virkni hófst á þessum sprungusveimum og hélt hún sleitulaust áfram eftir að kuldaskeiðinu lauk og nútími gekk í garð. Þetta sést glöggt af þeim aragrúa hrauna, sem eru á skaganum, mjög áberandi höggun (með misgengjum og gjám) og mörgum háhitasvæðum (Jón Jónsson 1978), ákafri jarðskálftavirkni (Páll Einarsson 1977) og síðast en ekki síst á þykkt hraunlaga- og móbergsstaflans eins og hann birtist í borholum innan sprungusveimanna (Sveinbjörn Björnsson o.fl. 1971 og Stefán Arnórsson o.fl. 1975), þar sem sigið er mest.

Reykjanes-jardfraedi-15

Hinn lági aldur sprungusveimanna á Reykjanesskaga er ennfremur gefinn til kynna af sprungumynstrinu í grágrýtinu. Það er ósprungið eða lítt sprungið víða, en hins vegar mjög brotið í beinu framhaldi af sprungusveimum Reykjanesskagans. Sprungurnar í árkvartera berginu undir grágrýtinu hverfa innundir grágrýtið og virðast ekki hafa nein áhrif á það sjálft (sbr. Kjartan Thors 1969). Hreyfingum á þeim er því lokið, þegar grágrýtishraunin renna, en hefjast e.t.v. aftur síðar. Sprungusveimarnir, frá Hengli í austri til Reykjaness í vestri, eru nýmyndunarsvæði jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa.
Reykjanes-jardfraedi-18

Um breytingar á virkni Reykjanessprungusveimsins í framtíðinni er mjög erfitt að segja nokkuð ákveðið. Til þess vitum við of lítið um smáatriðin í þróun sprungusveima, raunverulegan „líftíma” þeirra, aldur Reykjanes-sprungusveimsins o.fl. Um aldur hreyfinganna nyrst á Krýsuvíkur-sprungusveimnum er þó hægt að fá nokkra vitneskju og skal hér rakið gleggsta dæmið. Grágrýtið er brotið í framhaldi af Krýsuvíkur-sprungusveimnum norður fyrir Rauðavatn. Ofan á þetta grágrýti leggjast nokkur tiltölulega ung hraun.

Reykjanes-jardfraedi-17

Tvö þeirra verða hér til verulegrar hjálpar, þar sem þau renna bæði þvert á sprungukerfið og bæði hafa verið aldursákvörðuð. Annað þeirra er Búrfellshraun upp af Hafnarfirði. Samkvæmt aldursákvörðun með geislakoli rann þetta hraun fyrir um það bil 7200 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Vestur af Búrfelli skera nokkur misgengi, þ.á.m. Hjallamisgengið, taum af þessu hrauni. Tilfærslan á Hjallamisgenginu er mest í grágrýtinu norðan við hrauntauminn, um 65 m, en við aðalbrotið er tilfærslan á Búrfellshrauninu aðeins um 7 m (sbr. Jón Jónsson 1965). Misgengið er því að stofni til eldra en 7200 ára, en hefur eftir þann tíma hreyfst um 7 m.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Páll Imsland – Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa, sprungumyndunarsaga, 54. árgangur 1985, bls. 63-74.
-Náttúrufræðingurinn, Magnús Á Sigurgeirsson, 64. árg. 1994-1995, bls. 211-214.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Reykjavíkursvæðið

“Hversu gamall er grunnurinn sem byggjum á í þéttbýlinu við Faxaflóa og hvaðan er það berg komið? Hversu oft hefur á síðustu árþúsundum dregið til stórtíðinda í eldstöðvum hér fyrir ofan, og hversu langt er síðan síðast?
Við búum í óskalandi jarðfræðinnar þar sem hægt er að lesa náttúruna eins og opna bók og greina sögu jarðmyndana; síendurtekinna gosa með hraunrennsli sem smám saman hefur hlaðið landið upp, en ísaldarjöklar hafa átt sinn þátt í  að móta það landslag sem nú blasir við. Allt er þetta harla ungt á jarðsögulegan mælikvarða; aðeins um 14-15 milljónir ára síðan elzta berg á Austfjörðum, Vestfjörðum og við mynni Eyjafjarðar varð til. Þetta er svo nýlegur atburður á jarðsögulegan mælikvarða, að það er eins og gerst hafi í gær.
Hraunakort-221Þegar landið okkar „fæddist” voru til dæmis liðnar um 45 milljónir ára frá því stórslysi í náttúrunni sem orsakaði að risaeðlurnar dóu út. Þá voru þessi blessuð dýr búin að vappa um jörðina í milljónir ára og miðað við það var skaparinn ekki lengi að hlaða upp Ísland.
Hér er ekki ætlunin að rekja myndunarsögu landsins, heldur verður beint sjónum að tiltölulega litlum skika, sem skiptir þó verulegu máli þar sem meirihluti þjóðarinnar býr þar. Það er Reykjavíkursvæðið suður fyrir Hafnarfjörð, en mér til halds og trausts hef ég Þorleif Einarsson jarðfræðing og prófessor við Háskóla íslands. Hann er höfundur bókar um Myndun og mótun lands, sem hefur verið gefin margsinnis út og er mikil náma um jarðfræði Íslands.
Til þess að fá gleggri mynd af því sem gerst hefur og myndað það umhverfi sem við höfum daglega fyrir augunum, ókum við Þorleifur Suðurlandsveginn upp á Svínahraun, en þar dró „nýlega” til tíðinda með eldgosi og hraunrennsli sem náði til Reykjavíkur. Við komum nánar að því síðar. Þessi samgönguæð, Suðurlandsvegurinn, væri úr sögunni ef það endurtæki sig, að ekki sé nú talað um þann usla sem hraunrennsli niður í Elliðavog mundi valda.
Við Þorleifur námum staðar á hárri bungu í Svínahrauni, þar sem sést suðvestur eftir hækkandi hraunum með Bláfjöll á hægri hönd. Þar er sú eldstöð sem nefnd er Leitin, en ekki er hægt að segja að hún sjáist frá veginum. Þorleifur segir að gígurinn sé á stærð við fótboltavöli, en hann er fullur af framburði ofan úr fjallinu. „Hraunið rann fyrst í norður” segir Þorleifur, „og dreifðist yfir stórt svæði, enda þunnfljótandi, og rann síðan til vesturs hjá Litlu kaffistofunni, niður á Sandskeið og þaðan í afar mjóum farvegi alla leið niður í Elliðavog. Það er hinsvegar ekki þetta hraun sem við sjáum hér af veginum í Svínahrauni. Löngu seinna, nálægt árinu 1000, varð gos í Eldborgum skammt frá Leitum. Þaðan rann það hraun sem við stöndum á hér við Suðurlandsveginn; Svínahraunsbruni hefur það verið nefnt. Það var apalhraun sem rann yfir eldra hraunið, en ekki langt, hraunjaðarinn er skammt austan við Litlu kaffistofuna.”
Hér erum við aðeins að huga að nýlegum hraunlögin undir sjálfu Reykjavíkursvæðinu? Og hvað af því sem við höfum daglega fyrir augunum er gamalt og hvað er nýlegt; Esjan til dæmis, Mosfellsheiði, Hengillinn, Vífilfell og Bláfjöllin?

Hversu gömul er sú undirstaða sem borgin er byggð á?
Þorleifur segir að hún sé tiltölulega ung. Stærstur hluti borgarinnar sé byggður á því sem nefnt er Reykjavíkurgrágrýti og það er líklega um 200 þúsund ára gamalt. Breiðholtið stendur þó á yngra grágrýti, en við komum að því síðar.

Esja

Esja.

Elzt af fjöllum í næsta nágrenni Reykjavíkur er Esjan. Þorleifur segir að vesturhluti hennar sé um 3 milljón ára gamall og þá var þarna stór eldstöð sem Ingvar Birgir Friðleifsson skrifaði raunar um í Lesbók fyrir nokkrum árum. Austurhluti Esjunnar er hinsvegar mun yngri, eða um 2 milljón ára og orðinn til við gos úr eldstöð sem kennd er við Stardal.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Móskarðshnjúkarnir úr gulbrúnu líparíti, gætu verið með því yngsta sem kom úr þeirri eldstöð. Á sama tíma, eða fyrir rúmum 2 milljónum ára, er talið að hafi verið eldstöð miklu nær Reykjavík því austurhluti Viðeyjar er öskjufylling, svo og við Köllunarklett hjá Viðeyjarsundi. Það er með öðrum orðum ekki undarlegt þó eitthvað eimi eftir af hita undir Reykjavík, enda taldi Ingvar Birgir í fyrrnefndri grein, að vel mætti hugsa sér verulegan hita undir Öskjuhlíðinni, en útmörk þessa hita væru við Hvaleyri, suðvestan Hafnarfjarðar.
En hvaðan er þá bergið komið sem Reykjavík og næstu bæir eru byggðir á?
„Til þess að finna uppsprettu þess, verðum við að fara hæst á Mosfellsheiði, þar sem heita Borgarhólar”, segir Þorleifur. Mosfellsheiði er dyngja. Þar hefur orðið heljarmikið gos fyrir um 200 þúsund árum, segir hann. Það var á næst síðasta hlýskeiði ísaldar; allt jökullaust þarna og skilyrði til þess að hraunið rynni langar leiðir og dyngja myndaðist. Stundum rennur hraun í allar áttir í dyngjugosum, en stundum langlengst í eina átt, í þessu tilfelli til vesturs.

Viðeyjareldstöð

Viðeyjareldstöð.

„Fyrir þetta gos sem hlóð upp Mosfellsheiði hefur verið tiltölulega flatt land hérna í nágrenninu og sjórinn var í svipaðri stöðu og nú”, segir Þorleifur. Hraunin runnu alla leið til sjávar og eitthvað út í Faxaflóa, en við vitum ekki hve langt. í öllum eyjum og nesjum frá Brimnesi á Kjalarnesi og suður. Í Hvaleyrarholt upp af Hvaleyri við Hafnarfjörð er þessi undirstaða, Reykjavíkurgrágrýtið sem svo er nefnt. Við Brimnes og Álfsnes er bólstraberg undir, sem gerist við snögga kólnun þegar hraun rennur út í vatn. Þetta hraun er sömuleiðis undir Seltjarnarnesi, Álftanesi, Þerney og Lundey. Smærri fellin upp af Reykjavíkursvæðinu, Úlfarsfell, Hafrafell og Helgafell ofan Hafnarfjarðar eru á svipuðum aldri, eða aðeins yngra en bergið við Stardal. Þau eru um 2 milljón ára gömul, en eitt fell er yngra; orðið til við gos undir jökli eitthvað áður en Reykjavíkurgrágrýtið rann. Það er Mosfell, sem Mosfellssveit og Mosfellsdalur eru kennd við. Það er líklega 250-300 þúsund ára, segir Þorleifur. Þarna varð eldgos sem náði aldrei uppúr jökli, en nokkrum tugum árþúsunda síðar var sá jökulskjöldur á bak og burt þegar gosið varð í Mosfellsheiði og lagði okkur til grágrýtið undir Reykjavík. Á myndunartíma þessa umhverfís hafa ísaldarjöklar margsinnis lagst yfir og orsakað gífurlegt rof. Í stórum dráttum var landslagið orðið til, en jöklarnir mótuðu það. „Þeir náðu stundum langt út á landgrunn, eða jafnvel út af því” segir Þorleifur. „Landið seig undan ofurþunga þeirra, en reis síðan að nýju.”

Síðari tíma landmyndanir

Jarfræðikort

Jarðfræðikort – Reykjanesskagi.

Þegar hér er komið sögu er undirstaða höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurgrágrýtið, komin á sinn stað. Ekki er hægt að segja um það með neinni nákvæmni, hversu langan tíma Mosfellsheiðareldar brunnu, en jarðfræðingar segja það einkenni og eðli dyngjugosa, að þau séu samfelld og geti tekið langan tíma, ár eða áratugi.
Eftir gosið í Mosfellsheiði liðu um 80 þúsund ár án þess að drægi til tíðinda ofan Reykjavíkur, en fyrir um 120 þúsund árum segir Þorleifur að hafi orðið gos á Reykjanesskaga með hraunrennsli til norðurs. „Þetta, hraun rann inn yfir eldra hraunið og myndaði hæðirnar þar sem Breiðholt er nú og Hnoðraholt í landi Garðabæjar; þar er endi þeirra. Lengst náði það út að farvegi Elliðaánna og niður undir Mjódd. Ef við ökum úr Mjóddinni suður eftir Reykjanesbrautinni, er hæðin á vinstri hönd brún þessa hrauns, sem nefnt hefur verið Heiðmerkurgrágrýti”.
Eins og staðkunnugir þekkja er land austan við Rjúpnahæð talsvert lægra og þar hefur Elliðavatn myndast í lægðinni. En hversvegna fylltist hún ekki af hrauni þegar Heiðmerkurgrágrýtið rann? „Á stóru svæði austan við Rjúpnahæð – svæðinu þar sem Elliðavatn og Rauðavatn eru – hafa orðið sprungur og misgengi. Þar hefur land sigið og auk þess er þar jökulrof”, segir Þorleifur.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Vífilsfelli er varla yngra en 20 þúsund ára. En Vífilsfell sem rís bratt og tignarlegt upp af Sandskeiðinu; hvenær steig það fullskapað fram á þettta svið, spurði ég Þorleif þegar við settumst með kaffibolla framan við Litlu kaffistofuna á sólríkum haustdegi og virtum fjallið fyrir okkur? Hvassar brúnir þess, minnisstæðar meðal annars úr fjölmörgum málverkum Jóhannesar Kjarvals, bera þess vitni að ísaldarjöklar hafi ekki náð að skafa ofan af þeim og gera fjallið kollhúfulegt. Vífilsfellið er frá siðasta jökulskeiði”, segir Þorleifur, „varla yngra en 20 þúsund ára og ekki eldra en 100 þúsund ára. Það þó fremur til þess að myndun þess hafi orðið seint á þessu jökulskeiði. Fjallið er stapi og gosið hefur náð uppúr jóklinum. Vatn hefur þó komizt í kvikuna undir lok gossins ofan á hraunlaginu, því efst í fjallinu er móberg.”
Það var enginn smáræðis jökulskjöldur hér á suðvesturhorninu þegar ljóst er að hann var hátt í eins þykkur og hæð Vífilsfells. Engin furða að jarðskorpan léti eitthvað undan þeim þunga. ísaldarjökiar eiga það til að hopa hratt, en jarðskorpan er svifaseinni og lyftir sér á löngum tíma. Þessvegna fylgdi sjórinn jökulbrúninni og kaffærði láglendið sem komið var undan jöklinum: „Þá leit Reykjavíkursvæðið talsvert öðruvísi út en nú”, segir Þorleifur. „Keldnaholtið var líklega eyja, Laugarásinn var sker; sömuleiðis Öskjuhlíð og Háaleiti, en Skólavörðuholtið var boði. Hæstu fjörumörk í Öskjuhlíð í eru í 43 m hæð og á Hvaleyrarholti í 32 m hæð því þar seig land minna. Sjórinn náði þá lengst upp að Reykjum í Mosfellssveit. Hann náði inn eftir Elliðaárdalnum, líklega að Höfðabakkabrúnni. Sunnar hefur hann náð yfir Vetrarmýri við Vífílsstaði þar sem golfvölur Garðabæjar og Kópavogs er nú, og enn sunnar hefur fjöruborðið verið í hlíðunum ofan við Urriðavatn. Á þessum slóðum var ströndin fyrir 10-11 þúsund árum en var komin þangað sem hún er nú fyrir um 9 þúsund árum og reyndar aðeins neðar eins og fjörumórinn í Seltjörn sýnir. Þar nær hann 4,5 m niður fyrir fjöruborð.
En hversu lengi var megnið af Reykjavíkursvæðinu undir sjó? „Þegar ísinn var horfinn var landið að lyftast í 1-2 þúsund ár”, segir Þorleifur. Það er merkilegt, að síðan fór landið að síga aftur af ástæðum sem menn vita ekki um og er enn að síga. Verzlunarhús í Reykjavík voru í Hólminum framyfir 1650; þá varð að flytja þau í Örfirisey og enn síðar inn í Reykjavík. Í báðum tilvikum varð að flýja undan hækkaðri sjávarstöðu.

Álftanesjökull
Eftir að meginskeið síðustu ísaldar var liðið hjá, urðu minni kuldaköst, einskonar vorhret, sem voru þó það grimm að stór og þykkur jökull myndaðist á sunnanverðu hálendinu og ” ýtti upp jökulgörðum sem kenndir eru við fossinn Búða í Þjórsá og Alftanes. Fyrir 12.000 árum, eða jafnvel fyrir tæpum 11.000 árum, náði jökull í sjó út á Álftanes og í Hvalfjarðarmynni þar sem jarðgöngin eru.
Tímabil síðustu 10 þúsund ára er skilgreint sem nútími. Hvernig ætli hafi verið umhorfs á Reykjavíkursvæðinu við upphaf þess? „Þá hafði jökullinn hopað tiltölulega hratt”, segir Þorleifur, „hann var kominn langt inn á öræfi, með framhlaupi að jökulgörðunum við Búða. Það sést af því að Þjórsárhraun gat runnið hindrunarlaust innan frá Veiðivötnum og fram í sjó fyrir um 8 þúsund árum. Hér vestan heiðar hefur allt verið nakið og gróðurvana í fyrstu, en gróðurinn hefur verið fljótur að koma eftir að jökullinn hopaði, til dæmis var birki komið til sögunnar fyrir 9.000 árum. AUt var með kyrrum kjörum í um 3000 ár. Þá fór aftur að hitna í kolunum ofan við Reykjavíkursvæðið”.

Enn dregur til tíðinda
Við höfum rakið þá sögu, að í upphafi nútíma fyrir um 10 þúsund árum voru fjöllin umhverfis Reykjavík, hæðir sund og eyjar, svipuð útlits og nú; Mosfellsheiðin einnig, Vífilfell og Bláfjöllin. Reykjavíkurgrágrýtið hefur þá trúlega verið gróðri vafið.
En fyrir um 7.000 árum varð eldgos í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð. Hraunflóð rann þá fram með Vífilsstaðahlíð og sést vel af hinni vinsælu gönguleið inn með hlíðinni og eins af golfvelli Oddfellowfélaga í Urriðavatnslandi sem nýtur góðs af hárri og fallegri hraunbrún. Við sjáum hvar hraunstraumurinn hefur steypst fram af brekkunni við vesturbrún Vífilsstaðahlíðar og dreifst um flatlendi suður af Flatahverfi í Garðabæ og allt suður til Hafnarfjarðar, en kvísl úr þessum straumi hefur runnið suðaustur með brekkunum og út í Urriðavatn. Þetta hraun er allstaðar mjög fallegt; kjarri vaxið vestur af Vífilsstaðahlíð, en vestar og sunnar með myndrænum hraunhólum og gróðumiklum hraunbollum. Það er sem betur fer ósnert og óskemmt á allstórri spildu frá Reykjanesbraut og framan við Flatahverfi í Garðabæ. Við Engidal liggur Hafnarfjarðarvegurinn upp á hraunbrúnina, en allur “Norðurbærinn í Hafnarfirði og megnið af elzta bæjarhlutanum er byggður á þessu hrauni. Vestarlega, suður af Hrafnistu, er þó enn ósnortið afar fallegt hraun sem vonandi verður varðveitt. Sama hraun rann í áttina út á Álftanes, en sveigði síðan til norðurs og út í sjó; þar heitir Gálgahraun. Mjó kvísl úr Búrfellsgíg rann frá eldstöðinni fram með Setbergshlíð og niður í Hafnarfjörð þar sem hún hefur sameinast hrauninu norðanfrá. Brúfellshraun hefur runnið lengra til suðurs ofan Hafnarfjarðar, en þar er það hulið enn yngri hraunum.
Hraunstraumur niður í Elliðavog Þá er aðeins eftir að líta á það sem nýlega hefur gerst. Á tímum Forn-Egypta, svona fyrir 4.600 árum, varð eldur uppi á vatnaskilum austan í Bláfjöllum. Við minntumst á þetta gos í upphafi og vorum að reyna að sjá eldstöðina, sem nefnd er Leitin, af veginum í Svínahrauni. Þaðan rann Leitahraun, bæði í austurátt og út í sjó hjá Þorlákshöfn, svo og allar götur í Elliðavog. Sá hraunstraumur féll fyrst norður og er undir Svínahraunsbruna, en síðan sveigði þetta þunnfljótandi hraun til vesturs og rann út yfir Reykjavíkurgrágrýtið hjá Nýju kaffistofunni. Þaðan sveigði hraunstraumurinn eins og beljandi fljót í mjóum farvegi undan hallanum til vesturs, en dreifði nokkuð úr sér á Sandskeiði, þar sem leysingavatn hefur hulið hraunið með framburði.”
Við Þorleifur reyndum að sjá þetta fyrir okkur þar sem við sátum og sötruðum kaffið á veröndinni við Litlu Kaffistofuna. „Það er merkilegt” sagði Þorleifur, „að þetta hraun hefur siðan runnið í örmjóum farvegi niður brekkuna hjá Lækjarbotnum, nákvæmlega á sama stað og vegurinn liggur. Brekkan sú hafði orðið til fyrir um 100 þúsund árum, þegar gos hefur orðið í Lyklafelli, smáfelli norðvestan við Sandskeið. Þar eru merki um eldstöð, en hraunið hefur runnið skammt og myndað háa hraunbrún hjá Lækjarbotnum og þaðan í norður.”
Neðan við Lækjarbotna hefur hraunið dreifst yfír grunnan slakka; yfirborð þess tiltölulega slétt undir túninu á Gunnarshólma og niður með Hólmsánni. Sunnan við veginn rísa þó nokkrir sérkennilegir hraunhólar upp úr flatneskjunni og þegar betur er að gáð, sést að þeir eru eins og kramarhús, að hluta holir að innan og jarðfræðingar nefna þá hraundrýli. Þetta eru ekki smágígar þótt svo gæti virzt. Þorleifur segir að gas sen; myndazt hafl undir hraunrennslinu, hafi leitað þarna upp og þá urðu þessar strýtur til. Þegar gasið komst í snertingu við súrefni loftsins hefur orðið til blár gaslogi og má sjá að hitinn hefur verið slíkur að hraunið á börmum strýtanna hefur bráðnað og lekið niður.
„Lítið eitt neðar hefur hið forna Elliðavatn verið” segir Þorleifur, og þegar hraunið rann út í það varð gjallmyndun og við það urðu Rauðhólarnir til.”

Hraunstraumur eftir farvegi Elliðaánna

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

Suðurlandsvegurinn liggur á þessu hrauni ofan frá Litlu kaffistofu og þar til kemur yfir brúna á Hólmsá og síðan aftur á kafla lítið eitt norðaustan við Rauðhóla. Þetta þraun rann ekki yfir Heiðmerkurhraunin; þau eru yngri. En það er auðvelt að sjá það fyrir sér, að Suðurlandsvegurinn yrði heldur ógreiðfær ef sagan endurtæki sig. Eftir að hraunið hafði fyllt það sem Þorleifur kallar hið forna Elliðavatn, var það nægilega þunnfljótandi til þess að geta enn runnið langa leið. Það náði í slakkann þar sem farvegur Elliðaánna er og hraunstraumurinn hefur á köflum ekki verið mikið breiðari en áin er nú. Af Höfðabakkabrúnni sést vel að hraunið er þar í þröngum farvegi árinnar og með hraunreipum á langri klöpp í miðjunni. Það er síðan kunnara en frá þurfi að segja, að hraunstraumurinn hélt áfram niður farveg Elliðaánna og lengst náði hann út í Elliðavog.

Hraunrennsli eftir landnám
Síðustu 4.600 árin hefur ekki runnið hraun til Reykjavíkur, eða inn á það svæði sem nú er byggt. Aftur á móti eru enn yngri hraun í næsta nágrenni. Hólmshraun heitir það sem síðast rann yfir Heiðmörk; það yngsta frá því um landnám. Segja má að það sé rétt utan við túngarðinn. Þorleifur telur að það Elliðavatn sem við þekkjum núna, hafi fyrst orðið til við hraunstíflu sem myndaðist í þessu allra síðasta gosi ofan við Reykjavík, svo og af stíflu Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1921, þegar Elliðaárnar voru virkjaðar.
Ef við teygjum Reykjavíkursvæðið suður að Straumsvík, hefur það tvívegis gerst eftir landnám, að eldur varð uppi undir Undirhlíðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunrennslið náði inn á svæði þar sem nú er byggt, eða verið að undirbúa byggingar. Það eldra, sem menn telja að sé frá um 950, er Hellnahraun sem rann yfir Hvaleyrarhraun á mjórri spildu meðfram Hvaleyrarholti, en náði ekki alveg til sjávar. Þessi hraunrimi er eins og hraun geta orðið fegurst og myndrænust og sorgleg skammsýni er það að Hafnfirðingar eru nú að mylja þennan náttúrufjársjóð undir byggingar.
Yngsta jarðmyndunin á höfuðborgarsvæðinu segir Þorleifur Einarsson að lokum að sé líklega frá árinu 1151, þegar Kapelluhraun rann út í Straumsvík á svo mjórri spildu, að samsvarar nokkurnveginn lengd álversins. Þetta er síðasta hraunið í nánd við Reykjavík sem runnið hefur út í sjó eftir að land byggðist og hefur þá heldur betur girt fyrir samgönguleiðina á landi suður með sjó. “

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 22. nóv. 1997, Þorleifur Einasson, bls. 10-13.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Rauðamelur

Ólöf E. Leifsdóttir og Leifur A. Símonarson rituðu grein í Náttúrufræðinginn árið 2000 um “snigilsvamp og önnur sædýr í Rauðamel” og lýstu auk þess jarðfræði svæðisins.
“Reykjanesskagi er mjög mótaður af eldvirkni, en eftir skaganum endilöngum liggur 50-60 km lanRauðamelurgt gosbelti sem stefnir um það bil 75° NA. Á gosbeltinu eru fimm skástígar sprungureinar með stefnu 30-40° NA og þar er eldvirkni og upphleðsla hvað mest á nesinu, einkum um miðbik sprungureinanna (Kristján Sæmundsson og Ingvar B. Friðleifsson 1980). Gosbeltið á Reykjanesi er í beinu framhaldi af Reykjaneshrygg, en Reykjanes-Langjökuls-rekbeltið stóðst ekki á við hrygginn, sem hliðrast austur eftir skaganum (Haukur Jóhannesson 1980).
Jarðmyndunum á Reykjanesskaga má skipta í fjóra flokka eftir gerð og aldri: 1) Elstu jarðmyndanir á yfirborði skagans eru grágrýtishraun mynduð á hlýskeiðum ísaldar eða íslausum svæðum á jökulskeiðum, en þau eru öll rétt segulmögnuð og því yngri en 780 þúsund ára (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Elsta bergið á skaganum er raunar mun yngra, en það er talið um 500 þúsund ára gamalt í nágrenni Reykjavíkur (Haukur Jóhannesson 1998). Grágrýtið er að mestu leyti myndað við dyngjugos og er einkum á þremur svæðum, þ.e. á Rosmhvalanesi og Vogaheiði, Krýsuvíkurheiði og svæðinu milli Lönguhlíðar og Undirhlíða. Nýlega hafa fundist setlög með sædýraleifum á töluverðu dýpi í borholum á jarðhitasvæðinu á vestanverðu Reykjanesi, sem sýnir að setlög frá hlýskeiðum eða hlýindaköflum á jökulskeiðum eru neðar í staflanum á milli grágrýtislaga (Bjarni Richter, munnlegar uppl. 1999).
2) Móberg myndað á jökulskeiðum ísaldar myndar nærri allt hálendi skagans og er eins og grágrýtið yngra en 780 þúsunRauðamelurd ára. Mest er af því í Sveifluhálsi og sunnan Kleifarvatns, í Núpshlíðarhálsi, sunnarlega í Brennisteins-fjöllum og Lönguhlíð, öllum og Fagradalsfjalli, en einnig standa stöku móbergsfell upp úr yngri hraunum vestar á nesinu, t.d. Þorbjarnarfell, Þórðarfell og Stapafell. Móbergið er að mestu myndað við gos undir jökli á jökulskeiðum, en móbergsfellin vestast og syðst gætu þó verið mynduð við gos í sjó. Móbergsmyndanirnar virðast yngri eftir því sem vestar dregur á nesinu (Jón Jónsson 1984). 3) Hraun frá lokum síðasta jökulskeiðs og nútíma þekja mestan hluta skagans. Þeim hefur verið skipt í þrjá flokka eftir gerð og aldri. Elstar eru frekar litlar dyngjur úr pikrítbasalti, en þær eru taldar 11.000-13.000 ára, þá eru stórar ólivínbasalt-dyngjur, taldar 8.000-10.000 ára, og yngst eru sprunguhraun yngri en 8.000 ára, en þau eru flest af þóleiítgerð (Jón Jónsson 1978, Sveinn Jakobsson o.fl. 1978).

SETMYNDANIR Í RAUÐAMEL

Rauðamelur

Dyngjuhraunin eru ávallt helluhraun en sprunguhraunin oftast apalhraun. 4) Setlög frá lokum síðasta jökulskeiðs og nútíma þekja aðeins lítinn hluta af yfirborði Reykjanesskaga. Þau eru aðallega af þrenns konar uppruna. I fyrsta lagi gjall og gosaska myndað við eldgos, aðallega á nútíma; þá strandmyndanir tengdar hærri sjávarstöðu í ísaldarlok og lágri stöðu landsins sökum jökulfargs á síðasta jökulskeiði; loks eru hér og þar lausjarðlög, foksandur, fjörusandur, veðrunarset, aurkeilur og skriður, myndað við veðrun og rof í lok síðasta jökulskeiðs og á nútíma.
Í þessari grein verður fjallað um leifar hrygglausra dýra í sjávarseti frá lokum síðasta jökulskeiðs í Rauðamel, en jarðmyndanir þar tilheyra síðasta flokknum hér að framan.

Rauðamelur er rúmlega 3 km langur melur norðaustur af Stapafelli á vestanverðum Reykjanesskaga. Yfírborð hans er í 20-35 m hæð yfir sjó og yfirborðsflatarmál um 2,1 km2 (Gunnar Birgisson 1983), en áætlað rúmmál er um 10 milljón m3 (Trausti Einarsson 1965). Þykkt Rauðamels er samkvæmt Gunnari Birgissyni (1983) um 10 m að norðaustanverðu, en við Stapafell er hún um 20 m. Út frá mældum jarðlagasniðum nyrst og syðst í melnum ætlar hann að meðalþykkt eftir miðás sé um 15 m. Trausti Einarsson (1965) og Jón Jónsson (1978) töldu aftur á móti að þykkt melsins væri vart meiri en 6-8 m. Setlögin í Rauðamel skiptast í fjórar myndanir. Neðri hluti melsins er um 10 m þykk víxl og skálaga sand- og malarmyndun, sem hvílir annaðhvort mislægt á jökulrákuðu hraunlagi eða jökulbergi, og stefna jökulrákir á hraunlaginu í norðvestur (Hreggviður Norðdahl og Þorsteinn Sæmundsson 1999).

Rauðamelur

Nyrst í melnum er jökulbergslagið í 27 m.y.s. en syðst í 10 m y.s. og liggur það líklega eftir honum endilöngum (Gunnar Birgisson 1983). Neðsti hluti sand- og malarsyrpunnar er víxl- og skálaga, en samlægt ofan á honum er skálaga sandur og möl með vaxandi kornastærð upp á við. Ofarlega í þessari myndun fannst hryggjarliður úr hval og er aldur beinsins um 35.000 ár BP (Hreggviður Norðdahl og Þorsteinn Sæmundsson 1999). Mislægt ofan á sandinum og mölinni er víða jökulbergslag, allt að 3 m þykkt. Á einum stað má sjá að áður en jökulbergslagið myndaðist hefur hraun lagst að og yfir hluta setsins, en hraunið er jökulrákað með stefnu ráka til norðvesturs. Mislægt ofan á og utan í jökulbergslaginu er að lokum um 3,5 m þykk sand- og malarmyndun, en neðst í henni fundust nokkrar hrúðurkarla- og samlokuskeljar. Einnig fundust þar leifar snigilsvamps og verður honum nánar lýst hér á eftir. Skeljarnar voru allar varðveittar inni undir slútandi vegg jökulbergsins, sem virðist hafa myndað eins konar hlíf yfir þær og þannig hindrað að t.d. kolsúrt vatn næði til þeirra í eins miklum mæli og annars staðar í setinu. Samt eru þær nokkuð eyddar og uppleystar. Þegar lengra kemur frá þéttu jökulberginu út í setið sjást engar skeljaleifar og má gera ráð fyrir að þar séu þær uppleystar og horfnar, enda hefur yfirborðsvatn átt þar greiðari aðgang að þeim um grófkornótt setið. Sýni úr hrúðurkarli var aldursgreint með geislakolsaðferð og reyndist aldurinn vera 12.600 ± 130 ár BP (Haukur Jóhannesson o.fl. 1997). Efst í melnum er jarðvegur og jarðvegsblönduð möl og er meðalþykkt lagsins um 60 cm, en víðast þarf að moka u.þ.b. einn metra ofan af melnum til að losna við mold úr mölinni (Gunnar Birgisson 1983).

FÁNAN Í RAUÐAMEL

Rauðamelur

Hvalbeinið úr neðri sand- og malarmynduninni í Rauðamel hefur ekki ennþá verið greint til tegundar og sama er að segja um sæspendýrabein, sem fundust þar síðar rétt ofan við neðra jökulbergslagið. Beinin sem fundust í seinna skiptið eru mjög brotin og illa farin, eydd og uppleyst, en eru auðsjáanlega úr frekar litlu dýri. Þau gætu raunar öll verið úr sama dýrinu.
Skeljaleifarnar í efri sand- og malarsyrpunni í Rauðamel eru frekar fátæklegar, en þar fannst ein veggplata úr hrúðurkarli (Balanus balanus Linné, 1758), sjö veggplötur og þrjár lokplötur úr djúpkarli (Balanus Hameri Ascanius, 1767) og eitt hjararbrot af rataskel og verður honum lýst sérstaklega hér á eftir.
Þótt fánan sé mjög fátæk af tegundum má gera sér nokkra grein fyrir kröfum hennar til umhverfisþátta. Fánan virðist fyrst og fremst hafa setið á botninum (áfána) utan í jökulberginu, en ekki grafið sig niður í sandog malarbotninn. Hún hefur varla lifað íneinum heimskautasjó því að djúpkarl lifir ekki nú á tímum í svellköldum sjó. Útbreiðslumörk hans eru í Hvítahafi í norðri og við Ermarsund í suðri. Hann er óþekktur frá A-Grænlandi og við V-Grænland finnst hann ekki norðan við Nyrðri-Straumfjörð (Stephensen 1933). Við austurströnd N-Ameríku er hann útbreiddur frá Hamiltoneyju við Labrador í norðri suður til Norður-Karólínu (Wagner 1970). Af útbreiðslu hans að dæma má gera ráð fyrir að hann kjósi sjávarhita ekki öllu lægri en hér er nú við Norðurland og Austfirði.
Dýptardreifing djúpkRauðamelurarls er einnig athyglisverð því hann lifir helst á meira dýpi en 40-50 m (Stephensen 1933), en dýptardreifing hans virðist vera frá 5 m við strönd Norður-Ameríku og niður á 492 m dýpi norður af íslandi (Stephensen 1938). Einnig má gera ráð fyrir að svampurinn hafi tæplega lifað á minna dýpi en 13 m ef litið er til dýptardreifingar snigilsvampa við landið nú (Burton 1959). Hér er því augsýnilega ekki um neina strandfánu að ræða. Djúpkarlinn er allstór og með frekar þykkar veggplötur og því má telja líklegt að hann og fánan í heild hafi lifað í fullsöltum sjó þar sem ferskvatns-íblöndunar frá landi gætti lítið sem ekkert. Þegar dreifing þessara fáu tegunda, sem fundust í efri setlagasyrpunni í Rauðamel, er skoðuð virðist niðurstaðan sú að fánan hafi lifað í sjó með svipaðan sjávarhita og nú er við Norðurland og Austfirði. Það hefur því augsýnilega verið farið að hlýna í lok síðasta jökulskeiðs þegar efri hluti Rauðamels myndaðist ofan við efra jökulbergslagið. Fánan hefur lifað í fullsöltum sjó á grunnsævi rétt utan við strönd þar sem dregið hafði úr umhverfis-orku miðað við ströndina sjálfa, þó að gróft efni bærist þangað út. Sandur og möl mynduðu mestan hluta botnsins, en hins vegar sat sá hluti fánunnar sem er varðveittur utan í jökulberginu, en það myndaði harðan og fastan botn fyrir dýrin. Gera má ráð fyrir að snigilsvampurinn hafi þrifist bærilega í þessu umhverfi, en honum verður lýst hér á eftir.

SVAMPURINN í RAUÐAMEL
RauðamelurSvampurinn er aðeins varðveittur að hluta því að allmikið er brotið ofan af honum. Hann er grágulur á litinn og hefur verið a.m.k. 7 cm í þvermál. Ekki er unnt að segja til um hæðina með vissu en liklega hefur hún verið 5-7 cm. Á yfirborði svampsins má sjá fjölda smárra innstreymisopa (ostia) og líklega einnig miðlægt útsreymisop (osculum). Augsýnilega hefur hann ekki haft samanhangandi stoðgrind heldur laust samanbundnar stoðnálar til styrktar, en trefjar úr hörðu eggjahvítuefni (spongin) hafa haldið nálunum saman. Stoðnálarnar eru úr kísli og í tveimur stærðarflokkum. Stærri nálar (megasclera) eru allt að 0,75 mm langar en þær minni (microsclera) frá 0,01 til 0,1 mm. Stoðnálarnar eru einása (monaxon), beinar eða lítið eitt bognar og með fínkornótt yfirborð. Þær eru oddmjóar í annan endann, en oft með hnúð á hinum (tylostyle) (5. og 6. mynd). Minni nálarnar eru afrúnnaðar í báða enda. Dálftið ber á geislalægri niðurröðun stærri nála úti við yfirborðið, en niðurröðun virðist meira ruglingsleg innar í veggnum. Hluti úr svampinum var sendur til Ole S. Tendal á dýrafræðistofnun háskólans í Kaupmannahöfn, en hann er sérfræðingur í svömpum. Hann hjálpaði okkur að greina svampinn og taldi að hér væri um að ræða snigilsvamp, Suberites sp. Ekki er unnt að greina hann til tegundar þar sem hann er svo illa farinn og nálar margra tegunda af þessari ættkvísl afar lfkar í útliti. Hér við land lifa nú tvær tegundir sem tilheyra þessari ættkvísl, Suberites domuncula (Olivi, 1792), eða krabbasníkir,   og   S.   carosus   (Johnston 1842). Báðar tegundirnar hafa fundist allt umhverfis landið. Fyrrnefnda tegundin virðist mun algengari og heldur sig á 13-360 m dýpi en sú síðarnefnda er á enn meira dýpi; hún hefur fundist einu sinni í Faxaflóa á 36 m dýpi en annars alltaf í dýpri sjó en 100 m (Burton 1959). Líklegra þykir okkur því að hér sé um krabbasníki að ræða, en hann situr oft utan á sniglaskeljum sem krabbar hafa tekið sér bólfestu í.
Snigilsvampar tilheyra flokki kísilsvampa (Demospongea), undirflokknum einásum (Monaxonida) eða fjórásum (Tetractinomorpha), ættbálki klunka (Hadromerida) og ætt snigilsvampa (Suberitidae) (Kaestner 1965, Bergquist 1978). Sæsvampur hefur ekki fundist áður í íslenskum jarðlögum, en fáeinar kísilstoðnálar úr ferskvatnssvampi komu í ljós í setinu í Surtarbrandsgili hjá Brjánslæk á Barðaströnd (Friedrich 1966).

MYNDUNARHÆTTIR í RAUÐAMEL – UPPRUNI EFNIS
Í Rauðamel eru jökulbergslögin tvö ummerki um framrás jökla á kaldari tímum á síðasta jökulskeiði. Sand- og malarsyrpurnar benda hins vegar ótvírætt til mildari umhverfisaðstæðna með minni jöklum, hærri sjávarstöðu og upphleðslu setlaga í fjörum eða neðan fjörumarka. Á fyrra kuldatímabilinu var svæðið hulið jökli.
SkipsstígurÞegar mildara tímabilið hófst hörfaði jökullinn og setlög hlóðust upp við eða skammt neðan sjávarmáls. Á þessu tímabili, fyrir um 35.000 árum, bar hvalur beinin við Rauðamel. Þessi mildi tími gæti svarað til hlýindakafla sem kenndur er við Álesund í Noregi (Hreggviður Norðdahl og Þorsteinn Sæmundsson 1999). I lok tímabilsins rann hraun að og yfir hluta setsins. A síðara kalda tímabilinu gekk jökull aftur norðvestur yfir svæðið. Er jökullinn hörfaði á ný hækkaði sjávarborð þar til það náði um 70 m hæð yfir sjó eins og sjá má á Vogastapa (Sigmundur Einarsson 1977). Þá hlóðust upp setlög á grunnsævi og við strönd og er sjávarsetið í efri hluta Rauðamels, í 20-35 m hæð yfir sjó, hluti af þeirri setmyndun. Að lokum féll sjór af svæðinu og hraun frá nútíma lögðust upp að og að hluta til yfir melinn (Hreggviður Norðdahl og Þorsteinn Sæmundsson 1999).
Trausti Einarsson (1965) gerði grein fyrir myndunarháttum og uppruna setlaga í Rauðamel og ályktaði, út frá því hversu ólivínríkt setið er og hvernig lagskiptingu þess er háttað, að það væri komið úr suð-vestri frá Stapafelli. Þegar litið væri á hæð melsins yfir umhverfið, lögun myndunarinnar og hreinleika efnisins væri melurinn líklegast forn sjávargrandi sem myndast hefði við hærri sjávarstöðu en nú er. Hann taldi hæð melsins falla allvel að hæð fjörumarka á Miðnesi og efstu fjörumarka í Reykjavík í 43 m hæð yfir sjó og að sjór hefði umlukið Stapafell í lok síðasta jökulskeiðs og rofefni úr því, og ef til vill einnig úr Súlum og Sandfelli, hefðu borist norður á bóginn með straumum og ölduróti, einkum í sterkum sunnanáttum. Trausti benti á að nútímahraun hafa runnið upp að melnum og sums staðar yfir hann og hann furðaði sig á því að myndunin skyldi ekki hafa kaffærst í hraunum miðað við allan þann fjölda hrauna sem runnið hefur á nútíma á skaganum. Því dró hann þá ályktun að setmyndunin hlyti að vera mun víðáttumeiri en sést á yfirborði nú og einnig að svipuð myndun væri undir nútímahraunum við Þórðarfell.
Jón Jónsson (1967) var sammála Trausta um að efnið í Rauðamel sé ólivínríkt og líklega að langmestu leyti komið úr Stapafelli, en benti þó á að við smásjárskoðun á sandi hafi fundist talsvert af bergmolum sem innihalda spínil, en þeir hafa ekki fundist í Stapafelli. Hann taldi þetta benda til annars uppruna en eingöngu úr Stapafelli og varð einnig litið til Sandfells sem lfklegs upprunastaðar setsins. Jón áleit einnig að Rauðamelur væri malar- og sandgrandi myndaður í lok síðasta jökulskeiðs og taldi sjávarstöðu þá hafa verið um 70 m hærri en nú (Jón Jónsson 1984).
RauðamelurFreysteinn Sigurðsson og Sigurður G. Tómasson (1977) töldu setlögin í Rauðamel 20-30 metra þykk og gerð úr skálaga sandi og möl. Efnið í setlagasyrpunum í neðri hluta melsins álitu þeír komið úr Stapafelli, en ofan á því fundu þeir jökulberg og jökulsorfið hraun og efst grófari malarlög með hnullungalagi úr pikríti sem líklega hefur verið úr Lágafelli sunnan Þórðarfells. Gunnar Birgisson (1983) gat um tvö jökulbergslög sem hann nefnir hið eldra og hið yngra. Eldra lagið fann hann á fjórum stöðum í sunnan- og norðaustanverðum melnum og það yngra í miðjum melnum, en þó aðallega í honum norðaustanverðum. Gunnar greindi á milli þessara tveggja jökulbergslaga á þann veg að grunnur yngra lagsins væri brúnleitur og gerður úr nokkuð grófkorna móbergsgleri en grunnur eldra lagsins gráleitur, siltríkur og mun fínkornóttari. Hann gat þess líka að molar úr eldra jökulberginu væru hér og þar í því yngra.
Jafnframt benti hann á að ef allt efnið í Rauðamel væri komið úr Stapafelli þá hefði fellið þurft að vera tvisvar sinnum stærra en það er nú til þess að geta gefið af sér þetta efnismagn. Gunnar taldi einnig að hér væri um granda að ræða.
Þorsteinn Sæmundsson (1988) taldi út frá stefnu jökulráka bæði í melnum og utan við hann, svo og stefnu langáss korna í efra jökulbergslaginu, að jökull hefði skriðið ofan af fjalllendi skagans til Rauðamelurnorðvesturs.
Efnið í setlagasyrpunum hefði borist með jökli, einkum með leysingarvatni hans, og hlaðist upp við eða skammt framan við jökuljaðar sem náði í sjó fram rétt austan við núverandi Rauðamel. Hann benti á að í Rauðamel sé svipað eða sama efni og finnist víða á svæðinu, meðal annars í Stóra Skógfelli suðaustan við melinn, en víst er að jökull fór yfir það svæði. Þetta gæti skýrt breytileikann í setgerð upp eftir neðri setlagasyrpunni, svipaða setmyndun bæði undir og ofan á jökulberginu og breytileikann í hallastefnu setlaganna í melnum.
Hér er einnig gert ráð fyrir að sjór hafi að mestu leyti mótað núverandi lögun hans.
Þannig hafa komið fram a.m.k. tvær tilgátur um uppruna Rauðamels. Líklega hefur Rauðamelur að miklu leyti myndast sem grandi, en Ijóst er að rétt eftir að efra jökulbergslagið myndaðist hefur sjávarstaða á svæðinu verið nokkru hærri en núverandi yfirborð melsins. Eins og áður hefur komið fram hafa fundist þar leifar sjávardýra sem nú lifa hér við land á grunnsævi á meira en 13 m dýpi.

Heimild:
Náttúrufræðingurinn 1999-2000.

Rauðamelur

Rauðamelur – kort.

Hvaleyrarvatn

Í ritgerð Daníels Páls Jónassonar; Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða”, hjá Háskóla íslands 2012 má m.a. lesa eftirfarandi um um jarðfræði Reykjanesskagans:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi vestanverður – jarðfræðikort.

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi (Jón Jónsson, 1983, 127).

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Reykjanes er það svæði þar sem Reykjaneshryggurinn nær yfirborði en fyrir suðvestan skagann er hryggurinn undir sjávarmáli (Ármann Höskuldsson, Hey., Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007). Jarðfræðileg lega skagans nær frá Reykjanestá í suðvestri og að þrígreiningu plötuskilanna fyrir sunnan Hengilinn (Kristján Sæmundsson, 2010a) en á því svæði mætast Reykjanesgosbeltið, Suðurlandsbrotabeltið og Vesturgosbeltið (Weir o.fl., 2001). Á skaganum er sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í eldstöðvakerfum sem liggja frá suðvestri til norðausturs (Kristján Sæmundsson, 2010a). Heildarlengd þessa rekbeltis á skaganum eru um 65 kílómetrar (Peate o.fl., 2009).

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – gosskeið.

Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára (Peate o.fl., 2009) en stór hluti yfirborðs Reykjaness þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum Brunhes (Kristján Sæmundsson o.fl., 2010). Síðasta jökulskeið, Weichsel, er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið Brunhes, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum (Elsa G. Vilmundardóttir, 1997).

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi (Páll Imsland, 1998). Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos. Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi (e. Dry Rock Equivalent, DRE) (Þorvaldur Þórðarson & Ármann Höskuldsson, 2008). Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998).”

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Á vefsíðunni ferlir.is segir auk þess um aðstæður á svæðinu: “Þar sem hraun þekur mest af yfirborði á sunnanverðum Reykjanesskagans er lítið um jarðvatn er fjölbreytni gróðursins ekki mikil. Mikil úrkoma nægir ekki til að mynda þykkan jarðveg ofan á hrauninu vegna þess hve það er ungt.
Algengasta plantan er gamburmosi, síðan koma krækilyng og beitilyng. Nokkuð má sjá af birki í hraununum. Hér eru engin há og stór fjöll sem mynda skjól fyrir vindi svo að trén nái að vaxa vel. Því er gróðurinn mjög lágvaxinn á Reykjanesinu.

Reykjanesskagi 1944.

Reykjanesskagi 1844.

Stór samfelld grassvæði eru t.d. á Selsvöllum, Vigdísarvöllum, Krýsuvík, Baðsvöllum og víða með ströndinni. Birki og kjarr er víða í hraunum, sem mynda dágott skjól víða á Reykjanesinu. Þá er víða snjólétt í hraunum og snjó tekur fljótt upp vegna sólarhitans frá dökku grjótinu. Sum svæðin hafa látið mjög á sjá á seinni öldum vegna gróðureyðingar, s.s. Vatnsleysustrandarheiðin, Selvogsheiðin og Krýsuvík, og uppblásturs. Þá hefur orðið verulegt sandfok í Selvogi og á Hafnaheiði. Eitt seljanna, sem þar var tilgreint [frá Gálmatjörn (Kalmannstjörn)], undir Stömpum, er t.d. með öllu horfið. Sum selin á Vatnsleysustrandarheiði (undir þráinskyldi) sjást enn vel frá Reykjanesbrautinni þar sem þau kúra á gróðurtorfum og þráast enn við fyrir áburðinn frá selstímanum.”
Um gróður á Reykjanesskaganum segir jafnframt: “Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis. Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Vötn, ár og lækir eru víðast hvar, hvort sem litið er á norðanverðan Skagann; Hvalvatn, Meðalfellsvatn, Fossá, Laxá,  Bleikdaslá, Bugðu, Köldukvís, Leirvogsá o.s.frv., eða á honum sunnanverðum; Ölfusá, Elliðaár, Rauðará, Rauðavatn, Elliðavatn, Urriðavatn, Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Kaldá, Djúpavatn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Eystri-Lækur, vestri-Lækur, Seltjörn o.s.frv.
Seljabúkapurinn hefur ekki síst stuðlað að viðhaldi og útbreiðslu plantna sem og nýgróðurs. Þegar leitað er leifa fyrrum seljabúskapsins á Reykjanesskaganum má a.m.k. ganga út frá tvennu sem vísu; grasi í móa í skjóli við hól, hæð, misgengi eða gjá, fyrir austanáttinni (rigningaráttinni), og á, læk, vatni eða vatnsbóli. Báðir staðirnir bjóða því jafnan, auk minjanna, upp á fölskrúðuga flóru allt umhverfis.”

Heimildir:
-Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Saga hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða; Daníel Páll Jónasson, Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóli Íslands 2012.
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum-2/
-https://ferlir.is/grodur-a-reykjanesskaganum/

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Krýsuvíkur-Mælifell

Ætlunin var að ganga á tvö samnefnd fell, Mælifell, á sunnanverðum Reyjanesskaganum. Mælifellin eru reyndar a.m.k. 12 talsins á landinu. Tvö þeirra eru fyrrnefnd fell í Krýsuvík (226 m.y.s.) og við Ísólfsskála (175 m.y.s). Þriðja Mælifellið á Reykjanesskaga (fyrrum landnámi Ingólfs) er í Grafningi.
SkjöldurMælifellin hafa verið höfð til viðmiðunar með einhverjum hætti, sem eyktamörk eða til að rata eftir, þar sem þau eru oft keilulaga og auðþekkjanleg langt að. Nafngift fellanna fylgdi og jafnan staðsetningum mælingastöðva danskra landmælinga- og kortagerðamanna um og í kringum aldarmótin 1900. Þau kort eru enn talin hin mestu nákvæmissmíð. Fleiri örnefni á Reykjanesskaganum má rekja til vinnu þeirra.
Fellin tólf með þessu nafni í landinu eru:

1) Í Grafningi í Árn.
2) Austan við Ísólfsskála í Gull. = Skála-Mælifell.
3) Vestan við Krýsuvík í Gull. = Krýsuvíkur-Mælifell.
4) Norðan Baulu í Norðurárdal í Mýr.
5) Norðan Axlarhyrnu í Staðarsveit í Snæf.
6) = Mælifellshnjúkur í Skag.
7) Í Djúpadal vestan Hleiðargarðs í Saurbæjarhr. í Eyf. Einnig nefnt Mælifellshnjúkur á kortum.
Skála-Mælifell8) Upp af Reykjahverfi í S-Þing.
9) Í Vopnafirði í N-Múl.
10) Í Álftafirði í S-Múl.
11) Á Fjallabaksleið syðri norðan Mýrdalsjökuls í V-Skaft., = Meyja(r)strútur.
12) Norðan Höfðabrekkuheiðar í Mýrdal í V-Skaft.

Krýsuvíkur-Mælifell er auðvelt uppgöngu, líkt og nafna þess ofan við Ísólfsskála. Fallegur lækur og melöldur voru á suðuröxlinni áður en haldið var upp meginásinn. Farvegur lækjarins sýndi vel kjarnabergið, sem er móberg, en ofan á því er bólstraberg, sem systkinin ís, frost, vindur og vatn hafa dunað við að brjóta niður, enda ber fellið þess glögg merki.
Uppi á kollinum er stinsteypustöpull með merki Landmælinga Íslands. “Röskun varðar refsingu” segir áletrunin, en koparskjöldurinn er nr. 3188. Stöpullinn hefur verið staðsettur þar sem gamla varðan var fyrrum. Leifar hennar má sjá neðan við þar sem hún var fyrrum. Grjótinu hefur verið hlaðið í bil milli kletta norðan undir stöpulfætinum.
VörðuleifarAf Krýsuvíkur-Mælifelli er frábært útsýni, t.d. yfir Ögmundarhraun og Húshólma, Selöldu, Sveifluháls, Bleikingsvelli. Vigdísarvelli, Núpshlíðarháls og Latsfjall, auk þess góð yfirsýn er yfir litla lækinn milli Mælifellsins og Lafsfjalls sem hefur smám saman verið að brjóta undir sig hraunið á leiðinni til sjávar.
Mælifell mun vera svokallaður móbergs- og bólstrabergsgúlpur, myndaður í eldgosi seint á ísöld. Bergkvikan var svo seig að hún hlóðst upp yfir gosopinu en rann ekki í burtu sem hraun. Mælifell er samsett úr tveimur kvikugerðum, seti og bergi. Móbergið myndar meginhluta fjallsins, sem fyrr sagði.
Fellið myndaðist á síðustu ísöld, líkt og nágrannafjöllin og hálsanir. Hefði fjallið hins vegar myndast eftir ísöld hefði efni úr því vafalaust dreifst yfir umhverfið, auk þess sem sjá má að fjallið er ekki ósnortið af jöklum.
ÚtsýniSkála-Mælifell er líkt nöfnu sinni og ekki síður auðveld uppgöngu. Það er þó ólíkt að því leyti að það hefur myndast við gos í sjó. Efri hlíðar fellsins bera þess glögg merki, m.a. rauðleitt gjallið.
Á toppi fellsins er steyptur landmælingastöpull. Koparmerkið á honum er nr. 3710. Líkt og á hinu fellinu hefur gömlu vörðunni verið raskað, grjótinu kastað til hliðar milli stórra steina. Ekki er auðvelt að sjá ástæður þess að nauðsynlegt hafi verið að raska gömlu vörðunum, eða vörðuleifunum, á fellunum.
Frábært útsýni er af Skála-Mælifelli, hvort sem litið er til Grindavíkur, grenndarhraunin (Skollahraun, Katlahraun og Ögmundarhraun), Höfða, Sandfell og Fagradalsfjall. Þá lá Leirdalur fyrir fótunum neðra.
Af Skála-Mælifelli mátti glöggt sjá hvar Gamla-Krýsuvíkurgatan lá upp frá Leirdal og áfram austur. 

Götur við Méltunnuklif

Venjulega hefur verið talið að Hlínarvegurinn hafi verið lagður yfir hana, en kaflinn frá Einihlíðum að Méltunnuklifi er að mestu óraskaður. Í stað þess að leggja veginn ofan í gömlu götuna hefur verið ákveðið að leggja hann beint af augum á þessum kafla, en gamla gatan liggur í sveig sunnan við veginn og þvert á hann ofan við klifið. Gamla veginum var fylgt þennan kafla og niður Méltunnuklifið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnastofnin Íslands.
-Þórhallur Vilmundarson: Mælifell. Lesbók Morgunblaðsins 4. og 11. júní 1994.

Gamla-Krýsuvíkurgatan

Brennisteinsfjöll

Gengið var upp í Brennisteinsfjöll (Fjöllin) með það fyrir augum að endurfinna op á hraunhellunni norðnorðvestan Kistufells og staðsetja það. Opið fannst fyrir nokkrum árum, en virðst síðan hafa lokast. Þrátt fyrir ítrekaðar leitir hefur það ekki fundist á ný.
Brennisteinsfjoll-128Á loftmynd mátti og sjá op er gæti verið áhugavert norðan megin-hrauntraðarinnar úr Kistufellsgígnum. Þá var og ætlunin að skoða niður í annað op, sem einnig fannst fyrir nokkrum misserum, en ekki hafði gefist tækifæri til að fara niður í fram að þessu vegna skort á viðeigandi búnaði. Um það átti að vera hægt að komast niður í mikið gímald. Þá var og ætlunin að skoða nánar nýfundið op, sem Guðni Gunnarsson, formaður HERFÍ og fleiri fundu á austurbrún Eldborgarhrauns fyrir skömmu. Til að komast niður í það þurfti einnig viðeigandi búnað. Að þessu sinni var haldið áleiðis upp Kerlingarskarð, beygt upp Þverdal og komið upp í Fjöllin um Miðskarð. Vesturskarð er ofar og vestar og Austurskarð hefur jafnan verið nefnt Kerlingarskarð. Á göngunni um Brennisteinsfjöllin var eftirfarandi um jarðfræði þeirra rifjuð upp: “
Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó.
Brennisteinsfjoll-123Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðar-stapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Í Brennisteinsfjallareininni eru sprungugos ráðandi, en dyngjur koma þar einnig fyrir og er Kistufell þeirra mest. Í fjallendinu er gos- og sprunguvirkni samþjöppuð á belti sem er einungis um 1200 metra breitt frá Eldborgum undir Geitahlíð uns kemur norður á móts við Bláfjöll að það víkkar og óljóst verður hvar mörk liggja, en þar er komið langt norðaustur fyrir jarðhitasvæðið. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.
Brennisteinsfjoll-124Brennisteinsnám var stundað í fá ár eftir 1876 og fyrir 1883. Menjar þess eru námuskvompur í rúmlega 2000 ára gömlu hrauni og tveir tippar stærstir þar framan við. Jarðhitamerki er að finna miklu víðar en sýnt er á eldri kortum Jón Jónsson (1978), Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson (2001).
Á jarðhitakortinu er sýndur virki jarðhitinn og kaldar ummyndunarskellur, aðgreindar eftir því hvort um er að ræða mikla eða væga ummyndun. Mikil ummyndun einkennist af ljósum leirskellum, en væg fremur af rauðum leir, upplituðu bergi og minni háttar útfellingum. Væg ummyndun er fyrst og fremst bundin við jarðmyndanir frá ísöld, en nær þó einnig til hrauna í Brennisteinsfjoll-125Brennisteinsfjöllum sjálfum.
Yfirborðsmerki um jarðhita finnast á rein sem nær frá því á móts við Kerlingarskarð í norðaustri til suðvesturs á móts við Kistufell. Þessi rein er 4 km löng, um 1 km breið og öll í sprungubelti Brennisteinsfjalla. Virkur jarðhiti er á þrem blettum á litlu svæði: Í hinum fornu námum er gufuhver, við suðumark, með brennisteinútfellingu og gufur allt að 93°C heitar í námuskvompunum í kring. Í hraunbungu 200-300 m norðar eru gufur á dálitlu svæði og mestur hiti 60°C. Við hraunjaðar um 300 m norðaustan við námusvæðið er 22°C hiti í ljósri leirskellu, en sú sem meira ber á sunnar niðri í brekkunni upp af Hvamminum er köld.
Eldvirkni á Reykjanesskaga hefur sýnt sig að vera lotubundin sé litið á síðustu 3000 ár. Hver lota gengur yfir á um það bil 400 ára tímabili með gosum í nokkrum af eldstöðvakerfum skagans. Á milli líða um 800 ár þegar ekki gýs, en þess í stað kemur jarðskjálftavirkni með höggun á sniðgengjum.

Brennisteinsfjoll-126

Síðasta lota hófst fyrir landnám í Brennisteins / Bláfjallafjallakerfinu og lauk þar árið 1000. Eftir fylgdi Trölladyngjukerfið með gosvirkni á 12. öld og síðan Reykjanes- og Svartsengiskerfin með gosum á 13. öld. Líkt gekk til fyrir 2400-2000 árum. Vitað er að eldvirkni var á Reykjanesi, í Trölladyngju og Brennisteinsfjöllum fyrir rúmlega 3000 árum, en tímabilið þar á undan er miður þekkt. Goshlé á Reykjanesskaga hefur nú varað í rúmlega 750 ár.
Sprungureinin fyrrenfnda, sem kennd er við Brennisteinsfjöll, nær frá sjó í suðri og norðaustur á Mosfellsheiði og er svæðið eitt af fallegustu jarðeldasvæðum landsins og enn lítt spillt af mannavöldum. Ung brot, sem hreyfst hafa eftir ísöld, eru mörg og sum stór. Jarðskjálftar eru fremur tíðir í sprungureininni og geta verið kröftugir.

Brennisteinsfjoll-127

Jón Jónsson birti árið 1978 tímamótaskýrslu um jarðfræði Reykjanesskagans. Með skýrslunni eru kort í kvarða 1:25.000 og ná þau frá Reykjanesi austur í Ölfus. Þrátt fyrir þetta og þær rannsóknir sem hér er gert grein fyrir er margt í jarðfræði svæðisins sem þarfnast frekari rannsókna. Meðfylgjandi kort er í sama mælikvarða og kort Jóns, enda erfitt að sýna jarðmyndanir á korti í minni mælikvarða því sumar gosmyndanir hafa takmarkaða útbreiðslu.
Vegir ná ekki inn á svæðið og því tímafrekt að komast að og frá rannsóknarsvæðinu. Útivinna við rannsóknir var aðallega unnin að hausti til, en þótt svæðið sé nálægt Reykjavík gat verið erfitt að finna hentuga daga til rannsókna. Best er að ganga um svæðið í norðanátt, en í öðrum áttum liggur yfirleitt skýjabakki með þokum yfir fjöllunum.
Brennisteinsfjoll-129Síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum og er talið að síðasta jökulskeið hafi staðið yfir í um 100.000 ár. Á þeim tíma mun megnið af þeim jarðlögum sem byggja upp fjallabálkinn frá Lönguhlíð, um Bláfjöll og norður í Hengil hafa myndast. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Mikið er um slíkar myndanir í Brennisteinsfjöllum. Ástæða þess að þarna hefur myndast hærra land en umhverfis er sú að við gos undir jöklum ná gosefnin ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvunum, sem móbergsfjöll. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun og mynda þunnar breiður sem fylla smám saman upp í dali og lægðir milli móbergsmyndana. Eldri hluti jarðmyndana var ekki kortlagður sérstaklega í þessari úttekt á svæðinu, enda einkum verið að kanna umhverfi jarðhitasvæðisins.

Brennisteinsfjoll-131

Allar bergmyndanir á rannsóknarsvæðinu í Brennisteinsfjöllum eru basalt. Ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði og þar sem engar borholur eru á svæðinu er ekkert vitað um gerð berggrunnsins fyrir utan það sem sést í fjallahlíðum. Jarðmyndanir eru allar frá Brunhes segulöld, þ.e. eru yngri en 780.000 ára og sennilega talsvert yngri en það, en aldursgreiningar vantar til staðfestingar á aldri myndana. Dyngjur á Reykjanesi eru flestar fremur gamlar og liggja sumar á jöðrum eða utan eldstöðvakerfanna (Heiðin há, Leitin, Selvogsheiði).
Nútímahraun á Reykjanesi hafa verið kortlögð af Jóni Jónssyni (1977, 1978). Jón flokkaði hraun eftir aldri og gerð, og mældi í þeim hlutfall steinda. Síðan Jón vann sitt verk hafa bæst við nokkrar nýjar aldursgreiningar og aukin þekking á öskulögum hefur auðveldað aldursgreiningu jarðlaga. Í þessari skýrslu er númerum Jóns og heitum á hraunum og eldstöðvum haldið (Jón Jónsson 1978), enda ástæðulaust að breyta þeim. Kortlagninu Jóns á hraunum hefur fremur lítið verið breytt, en þó hafa jaðrar sumra hrauna verið dregnir dálítið öðruvísi.

Brennisteinsfjoll-130

Hraunum sem hefur verið skipt upp er sérstaklega getið. Á jarðfræðikortum af höfuðborgasvæðinu (í kvarða 1.25.000) sem gefin voru út 1993–2000 (Helgi Torfason o.fl 1993, 1997, 1999, 2000) var nöfnum hrauna breytt á nokkrum stöðum og sett ný auðkenni á hraunin í stað númeranna sem Jón notaði, og er þess getið þar sem það á við.
Gos á Brennisteinsfjalla-sprungureininni falla á tvær eða þrjár afmarkaðar skákir en Freysteinn Sigurðsson (1985) hefur greint þennan hluta í fjórar skákir (gosreinar) og þá austustu sem dyngjurein. Hér er þetta dálítið einfaldað og mynda nokkrar gossprungur vestustu skákina sem liggur frá Eldborgu við Geitahlíð norður að Þríhnúkum (tvær hjá FS 1985), en mið-skákin liggur frá Svartahrygg norður í norðurenda Rauðuhálsa í vesturhlíðum Bláfjalla. Þá liggur sakleysisleg skák um Heiðina há, Leitin austan Bláfjalla og í eldvarpið Eldborgu, þaðan sem Kristnitökuhraunið kom árið 1000 (dyngjurein hjá FS 1985).
Mest hafa gosin verið í vestustu skákinni. Ekki hefur gosið á vestara gosbeltinu á Brennisteinsfjoll-133sögulegum tíma norðar en í Eldborg austan Bláfjalla. Má leiða líkum að því að kvika hafi sest að í iðrum Hengils í stað þess að koma upp á yfirborð og er það ástæða hins mikla jarðhitasvæðis sem þar er.
Aldur (byggður á öskulaga-rannsóknum) og upptök margra hrauna á Brennissteinsfjallasvæðinu hefur verið ákvarðaður, sbr. meðfylgjandi:
H-138 – Selvogshraun – sunnan Kistufells – eldra en 1226
H-149 – Kóngsfellshraun – vestan Kóngsfells um 950 = Húsfellsbruni yngri
H-150 – Húsfellsbruni – Eldborg, við Drottningu um 950 = Húsfellsbruni yngri, Hólmshraun V
H-142 – Svartihryggur – Svartihryggur um 950 – sennilega sama gos og H-150
H-129 – Breiðdalshraun – Kistufell eftir 900
Brennisteinsfjoll-132H-130 – Kistuhraun  – Kistufell eftir 900 álíka gamalt og H-129
H-139 – Yngra Hellnahraun – í Grindarskörðum 875 eldra en H-138, e.t.v. 950 – Tvíbollahraun, Tvíbollar, Grindarskörð 875
H-140 – Stórabollahraun, Stóribolli dyngjuhraun, Skúlatúnshraun
H-203 – Við Tvíbolla – e.t.vv sama og H-140
H-127 – Vörðufellsborgahraun  – Vörðufellsborgir, 1300-1400
H-118 – H-123 – H-135 – Brennisteinshraun, yngra gígaröð vestan jarðhita vestan brennisteinsnáma
H-116 – Kálfadalshraun, norður af Geitahlíð > 2400-2600
H-146 – Þríhnúkahraun, yngra Þríhnúkarhraun við Kristjánsdalahorn
H-200 – vestan Draugahlíða
Brennisteinsfjoll-134H-202  -vestan Draugahlíða, undir H-200
H-136 – Brennisteinshraun, eldra Gígar norðan Kistufells vestan brennisteinsnáma
D-24   – Strompahraun, Strompar dyngjuhraun
H-137 – “Gamlahraun”, gömul gígaröð N Kistu
H-132 – NV Kistu > 3200-3400
H-143 – S Þríhnúka e.t.v. fleiri gos en eitt
H-141 – SA Grindarskarða
H-128 – Hvannahraun, Eldborg dyngjuhraun
H-121 – SV Vörðufells
H-123 – SV Vörðufells
H-125 – sunnan Vörðufells
H-115 – Sláttudalur
H-112 – Stóra Eldborg
H-126 – vestan Sandfjalla
D-16   – Herdísarvíkurhraun í Brennisteinsfjöllum dyngjuhraun
D-17   – Í Herdísarvík dyngjuhraun > 4500
Brennisteinsfjoll-135H-134  – Kistufellshraun Kistufell
H-204  – austan Kistufells hrauntætlur á móbergshálsi
H-201  – austan Stórabolla
D-23   – Heiðin há, Heiðin há dyngjuhraun
D-21   – Í Herdísarvík dyngjuhraun >9000

Dyngjurnar á Reykjanesskaga eru flestar gamlar. Þær einkennast af þunnum hraunstraumum sem runnið hafa á löngum tíma og oft langar leiðir. Bergið í dyngjuhraunum getur verið ýmist dílótt eða dílalaust og oft erfitt að rekja hraunstrauma frá þeim. D-16 Herdísarvíkurhraun kemur fram í tveimur óbrinnishólmum suðvestan við Kistu. Þetta er hraun frá gamalli dyngju sem Jón hefur rakið meðfram ströndinni til austurs. Sennilega er dyngjan sjálf í Brennisteinsfjöllum, e.t.v. norðan undir Vörðufelli. D-23.
Heiðin há er gömul dyngja, sú Brennisteinsfjoll-137stærsta frá nútíma á Reykjanesskaga (170 km2 og um 6,8 km3 að rúmmáli). Gígsvæðið er við Kerlingarhnúk og er gígurinn fylltur af hraunum, en hraunstrýtur (hornito) marka útlínur hans. Þessi dyngja er austarlega í sprungurein er tengist Brennisteins-fjallasvæðinu (eða annarri sem þá tengist Bláfjöllum, sbr. Leitin), og er hún nokkuð austan við megin-eldlínuna. Hraun frá Heiðinni há ná niður að Þorlákshöfn. Sumir hraunstraumanna eru plagíóklasdílóttir en aðrir dílalausir, sama gegnir um ólivín. Grafið var öskulagasnið niður á dyngjuna norðan við Svartahrygg og sást þar að hún er eldri en 3.000 ára, sennilega enn eldri. D-24 Strompar er dyngja rétt sunnan við skíðaskálana sem eru í Bláfjöllum. Í hrauninu frá Strompum eru fallegir hraunhellar, myndaðir í hrauná sem hefur runnið frá gígunum til norðurs. Þessi dyngja er í norðurhlíðum D23 og því er hún greinilega yngri og hefur Jón Jónsson lýst henni vel (1976, 1978). 

Brennisteinsfjoll-138

Eldvörpin eru 7 og eitt sýnu stærst og telur Jón að hraun við bæinn Hólm (Hólmshraun II) gæti verið komið frá þessari eldstöð. D-25 Leitahraun er eitt þekktasta hraun við Reykjavík og hefur runnið frá gíg austan við Bláfjöll og niður í Elliðavog fyrir um 5.000 árum. Leitahraun er dyngja og á austustu rein Brennisteinsfjallanna. Leitahraun er ekki á meðfylgjandi korti, en er úr þessarri sprungurein; upptök þess eru rétt austan við Bláfjöll.
Frá gossprungum renna yfirleitt apalhraun með greinilegar hraunbrúnir sem eru oft auðveldari viðfangs til að kortleggja en dyngjuhraunin, sem eru þunnfljótandi og oft erfitt að greina jaðra þeirra auk þess sem þau geta runnið mjög langar leiðir í ræfilslegum straumum. Þar sem gossprungur eru gjarnan langar og ekki gýs alltaf eftir þeim endilöngum getur verið mjög erfitt að sjá hvaða gos hafa orðið á sama tíma eða í sömu goshrinu.

Brennisteinsfjoll-139

Til þess að rekja sögu goshrina á svæðinu þarf mun ýtarlegri rannsóknir en fram hafa farið til þessa. Við aldursgreiningu hrauna var stuðst við öskulög í jarðvegi, innbyrðis afstöðu hraunanna og aldursgreiningar með geislakoli (C14) sem gerðar hafa verið á nokkrum stöðum. Vísað er til skýrslu Jóns Jónssonar (1978) varðandi lýsingar á hraununum.
Aldur hraunanna er lágmarksaldur í flestum tilvikum, því grafið var niður á hraunin og greind þau öskulög sem fallið hafa á hraunið eftir að það rann. Frekari rannsóknir munu geta fært aldur hraunanna aftar, en sjaldnar framar í tíma. Grafið var undir nokkur hraun til að sannreyna að þau væru söguleg, en slíkur gröftur er oft mikil og tímafrek vinna.
Brennisteinsfjoll-140Forsöguleg hraun eru mörg í þessari sprungurein, á bilinu 25–30 sem eru þekkt, en sennilega eru þau fleiri. Flest hafa þau komið af fjallshryggnum sem kenndur er við Brennisteinsfjöll og hafa þau runnið til beggja átta og út í sjó við suðurströndina. Nokkur hraun hafa runnið inn á næstu sprungurein vestanvið, kennda við Krýsuvík, og sum jafnvel yfir hana og til sjávar sunnan við Hafnarfjörð.
Eftirfarandi hraun eru talin úr öðrum gosum en Jón gerði ráð fyrir:
H-200 er nokkuð gamalt hraun sem komið hefur upp við móbergsháls, þar sem kemur upp úr vestasta “Grindarskarðinu”. Þetta hraun hefur runnið til norðurs niður á láglendi og hverfur undir H-139 (Tvíbollahraun).
H-201 er skammt austan við Tvíbolla og hverfur undir yngri hraun.
Brennisteinsfjoll-140H-202 er lítill hraunbleðill sem liggur undir H-200 og sést aðeins á litlum bletti.
H-203 er ungt hraun sem liggur við Tvíbolla og hefur verið talið hluti af því gosi. Landnámslagið er ofan á þessu hrauni og það því eldra en gosið í Tvíbollum. Þetta hraun gæti verið sama og H-140, úr Stórabolla. Stutt er milli þessara gosa og því erfitt að greina hraunin sundur þarna.
H-204 er lítið hraun norðaustan við Kistufell. Það hefur komið upp á móbergshálsi sem er mikið brotinn. Ekki náðist að skoða þetta hraun, en það virðist hverfa undir H-134 og er því gamalt. Erfitt er að greina sundur hraun við Þríhnúka, þar sýnir Jón Jónsson (1978) fleiri hraun en hér er gert. Þar sem erfitt getur verið að tengja saman gígaraðir langar leiðir getur verið að færri gos hafi verið í sprungureininni en hér er lýst.
Tvö hraunanna verið færð til sögulegs tíma. Annað er Kistuhraun (H-130) sem hefur gosið á sama Brennisteinsfjoll-142tíma og Breiðdalshraun (H-129) og hefur verið aldursgreint (Jón Jónsson 1978). Hitt er lítið hraun við gígaröð sem nefnist Svartihryggur og er einnig sögulegt. Landnámslagið frá 870–880 liggur undir báðum hraununum. Á þessari sprungurein hefur gosið a.m.k. 10 sinnum á síðastliðnum 1100 árum og er ekki ósennilegt að gosin hafi komið í hrinum eins og í Kröflueldum og sýnt hefur verið fram á að hafi gerst í Krýsuvík (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988; Haukur Jóhannesson o.fl. 1991). Sennilega hefur verið goshrina á svæðinu um 950, en nákvæmari rannsóknir þarf til að greina gosin betur í sundur Brennisteinsfjöll eru eina háhitasvæðið í vestara gosbeltinu sem ekki hefur verið rannsakað með borunum og er óraskað. Nýting svæðisins getur því annað hvort orðið til útivistar eða til virkjunar jarðhitans, t.d. til framleiðslu á raforku.
Útivistarfólk telur yfirleitt að ekki fari saman nýting jarðhitasvæða til virkjunar og nýting til Brennisteinsfjoll-141útivistar. Þeir sem vilja nýta orkuna telja slíkt geta samrýmst og benda á að vegir auðveldi aðgengi inn á falleg og spennandi svæði. Gígaraðir og einstakir gígar, hrauntraðir og hraunhellar, niðurföll í hraunum og ólíkir hraunstraumar gera þetta svæði mjög sérstakt til rannsókna og skoðunar á slíkum myndunum (myndir 8 og 9). Þá er mikill kostur að gróður er lítill á svæðinu og jarðmyndanir skýrar. Slíkar minjar eru óvíða svo ósnortnar og nálægt byggð og svæðið því einstakt að því leyti. Sumar gosmyndanir á svæðinu eru einstakar, s.s. Þríhnúkagígur, Kistufell o.fl. Á brún Lönguhlíðar eru tveir stórir dyngjugígar frá síðustu ísöld og sá þriðji austan við Stórabolla. Þessir gígar eru skýrir og fallegir og er verndargildi þeirra hátt. Svona svæðum nálægt þéttbýli fækkar sífellt og með auknum ferðamannastraumi verða þau æ áhugaverðari og verðmætari þeim sem vilja njóta útivistar og kyrrðar náttúrunnar.
Brennisteinsfjoll-145Eldri myndanir sem liggja undir nútímahraunum sjást vel í jöðrum fjallanna. Við rannsóknir með borunum í Brennisteinsfjöllum þarf að fara varlega við vegalagningu, því erfitt mun er að leggja þar vegi sem ekki verða til mikilla lýta í landinu. Þá þarf að huga að því að erfitt verður að leggja rafmagnslínur eða aðrar leiðslur án verulegra spjalla á náttúrunnni. Ekki er unnt að leggja vegi inn á svæðið án þess að fara yfir hraun sem runnið hafa á sögulegum tíma eða gígaraðir nema úr vestri, eftir Lönguhlíð. Ef lagðir eru vegir inn á svæðið opnast það fyrir ökutækjum og aðgengi verður auðveldara, en um leið hverfur öræfakyrrðin og tign sú er hvílir yfir svæðinu. Þó ekki sé það tilgangur þessarar skýrslu að meta verndargildi svæðisins er nauðsyn að benda á það strax að um mjög sérstakt svæði er að ræða.”
Áður hafði verið gengið um sunnanverð Brennisteinsfjöllin og þeim verið gerð skil.
Frábært veður. Gangan tók 9 klst og 9 mín. Gengnir voru 24 km.

Heimildir m.a.:
-Helgi Torfason, Náttúrufræðistofnun Íslands, Magnús Á. Sigurgeirsson, Geislavörnum ríkisins, Brennisteinsfjöll – Rannsóknir á jarðfræði svæðisins, janúar 2002.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.