Færslur

Þorleifur Einarsson

Í Náttúrufræðingnum 1961 eru birt skrif Þorleifs Einarssonar um “Þætti úr jarðfræði Hellisheiðar”:

Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar

Þorvaldur Einarsson

Þorleifur Einarsson (1931-1999).

„Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.”
Vart mun sá maður til vera á Íslandi, að hann kannist ekki við þessa stuttu frásögn Kristnisögu af eldsuppkomu á Hellisheiði árið 1000 og orðræður Snorra goða og heiðinna manna á Alþingi það sumar. En nokkuð hefur það verið á reiki, við hvaða hraun ummæli þessi eiga.
Sumarið 1956 hóf ég athuganir á gossprungum á vestanverðri Hellisheiði og hraunum, sem þaðan eru komin. Rannsókn þessi varð þó víðtækari, tók reyndar tvö sumur í viðbót, 1957 og 1958, svo sem grein þessi ber með sér, og náði til jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins alls, en það takmarkast að norðan af Hengladölum, að vestan af Bláfjöllum, að sunnan af Fjallinu eina, Geitafelli og Krossfjöllum, að austan af Þorleifslæk og Varmá. Um athuganir þessar ritaði ég síðan prófritgerð (Diplom Geologe), sem birtist í vor (Þorleifur Einarsson 1960), og er grein þessi útdráttur úr henni.
Um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins hefur fátt verið ritað. Flestir jarðfræðingar hafa talið mosagráa hraunflákana og lág fellin lítið forvitnileg. Rækilegastar munu athuganir Þorvalds Thoroddsens (1908-11, 1913, 1925) og Trausta Einarssonar (1951) vera. Af öðrum, sem um jarðfræði þessa svæðis hafa fjallað, mætti nefna Guðmund G. Bárðarson, Guðmund Kjartansson (1943), Tékkann M. F. Kuthan og Norðmanninn T. F. W. Barth.

Jarðfræðilegur inngangur

Þorvaldur Einarsson

Þorvaldur Einarsson – rit um jarðfræði Hellisheiðar.

Jarðsaga Íslands nær aðeins yfir síðustu öld jarðsögunnar, nýöld.
Elzta berg hér á landi er að finna á Austfjörðum og Vesturlandi, blágrýti með millilögum úr harðnaðri gosösku, sandsteini og leirsteini með surtarbrandi. Jurtaleifar úr surtarbrandslögum í neðri hluta blágrýtismyndunarinnar benda til þess, að elztu lögin séu ártertier að aldri, þ. e. a. s. allt að 60—70 milljónum ára gömul. Mest ber þar á blaðförum og frjókornum lauftrjáa, sem vaxið hafa við milt loftslag. Er líða tekur á tertier-tímann, kólnar í veðri. Laufskógurinn víkur æ meir fyrir barrskógum. Á síðtertier hylur svo jökull hluta landsins fyrsta sinni, svo sem millilög úr jökulbergi í efri hluta blágrýtismyndunarinnar (gráa hæðin) í Esju, Fnjóskadal, Hornafirði og víðar bera vitni um, en mestur hluti hinnar kulvísu flóru mun hafa lifað þetta kuldakast af. Skeljalögin á Tjörnesi eru einnig síðtertier (pliósen) að aldri.
Á hinum eiginlega jökultíma, sem tók yfir síðustu milljón árin, eru kunnar hér á landi minjar þriggja ísalda og tveggja hlýviðrisskeiða eða hlýalda líkt og á norðanverðu meginlandi Evrópu.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson – Jarðfræði; saga bergs og lands.

Í Ölpunum hafa fundizt ummerki fimm ísalda og í Norður-Ameríku fjögurra. Lítið er kunnugt um það, hve langan tíma framrás og bráðnun ísaldarjöklanna tók, en þó skal hér reynt að gera nokkra grein fyrir bráðnunarsögu meginjökuls síðustu ísaldar suðvestanlands. Þegar jökullinn var hvað stærstur, mun hann hafa hulið allt land umhverfis Faxaflóa nema hæstu fjöll, svo sem Esju og Skarðsheiði.
Jökullinn mun hafa náð allt út undir brún landgrunnsins (Jökulrispur eru t.d. kunnar frá Garðskaga.). Jökulskjöldurinn tók að mesta kuldakasti síðustu ísaldar loknu að bráðna. Nokkrum árþúsundum eftir að hann var stærstur, skaut Suðurkjálkafjallgarðinum og Suðurnesjum öllum upp úr jökulhjarninu. Rétt um það leyti, er Suðurkjálkinn var orðinn íslaus, kólnaði nokkuð í veðri aftur, svo að jökullinn skreið fram að nýju. Ýttust þá upp jökulgarðar á Álftanesi, í mynni Hvalfjarðar, í Melasveit (Skorrholtsmelar) vestan Leirár og líklega víðar. Síðan framskrið þetta, sem nefna mætti Álftanesstigið, átti sér stað, mun vart vera skemmri tími liðinn en 20000 ár.
Enn breyttist loftslag til hins verra, og jökullinn gekk fram. Við þessa framrás mynduðust miklir jökulgarðar, sem rekja má um þvert Suðurlandsundirlendi frá Keldum á Rangárvöllum út í Biskupstungur. Framrás þessi hefur verið nefnd Búðastigið. (Guðmundur Kjartansson 1943). Við bráðnun jöklanna hækkaði mjög ört í höfunum, svo ört, að löndin, sem jökullinn hafði legið yfir og þrýstst höfðu niður undan jökulfarginu, náðu eigi að rísa nógu skjótt, og flæddi því sjór víða yfir láglendi, um leið og það varð jökullaust. Jökull þrýstir landi meir niður til dala en til nesja, svo sem sjá má af því, að hæstu sjávarminjar við Reykjavík eru í aðeins 43 m hæð, í Ölfusi í 55—60 m hæð og í Holtum, Hreppum og á Landi í 110 m hæð.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson skrifaði m.a. kafla í þjóðhátíðartútgáfu af Sögu Íslands.

Fyrir 11—12000 árum, á því hlýviðrisskeiði síðjökultímans, sem kennt er við staðinn Alleröd á Sjálandi, munu jöklar Íslands hafa verið orðnir minni en þeir eru í dag. En vegna loftslagsbreytingar til hins verra fyrir 11000 árum skriðu jöklar víða um heim enn fram.
Loftslag á Íslandi var tiltölulega hlýrra á síðustu ísöld og þó einkum undir lok hennar en um norðanvert meginland Evrópu. Helzta skýringin á því er sú, að landskipan Evrópu var öll önnur en í dag þar til fyrir 7000 árum. Þangað til voru Bretlandseyjar tengdar meginlandinu, en þá brauzt sjór gegnum Ermarsund og flæddi yfir lendur þær, þar sem nú er Norðursjór. Golfstraumurinn komst því ekki upp að ströndum Skandinavíu, og beindi Bretlandseyjaskaginn honum meir til norðvesturs en í dag. Það er augljóst mál, að breytingar þessar á stefnu Golfstraumsins hafa haft mikil áhrif á loftslag hér á norðurslóð.
Brot þetta úr jarðfræði Íslands er nokkru ítarlegra en ætlað var, en þar sem hér er fjallað um ýmislegt úr þessari sögu á annan veg en hingað til hefur verið gert, einkum jökultímann, taldi ég rétt, að svo væri.

Berg frá jökultíma

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti.

Elzta berg Hellisheiðarsvæðisins er að finna í lagskiptri grágrýtismyndun í neðri hluta Kambabrúnar og Núpafjalls, svo og í Hjallafjalli. Á grágrýtismyndun þessari, Kamba- eða Hjallagrágrýti, liggur í Kambabrún þunnt lag af jökulbergi. Á því liggur síðan allþykk móbergsmyndun, Núpafjallsmóberg. Myndun þessi er allóregluleg, lagskipt móberg, þursamóberg, bólstraberg.
Í Þurárhnúk og Kerlingarbergi er einnig ofan til lagskipt grágrýti. Innskot eru mörg og óregluleg, gangar, æðar, kubbaberg og stuðlasveipir. Móbergsmyndun þessa er líka að finna í Núpafjalli og í brún Efrafjalls (í Hesti og Kerlingabergi). Kambagrágrýtið er líklega runnið sem hraun á hinni eldri hlýöld. Jökulbergið og Núpafjallsmóbergið eru líklega mynduð á næstsíðustu ísöld, og er það líkt móbergi í Jórukleif að aldri, en það liggur undir Mosfellsheiðargrágrýti, sem runnið er frá Mosfellsheiði á síðustu hlýöld. Mosfellsheiði er dyngja með tveim gígrústum, Borgarhólum og ónefndum hæðum austur undir Þingvallavatni. Frá Borgarhólum er líka runnið yngsta grágrýtið í nágrenni Reykjavíkur (Reykjavíkurgrágrýti).

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti.

Móbergsfjöll Hengilsvæðisins hafa hlaðizt upp í geilum eða götum, sem bráðnað hafa í jökulinn yfir eldstöðvunum líkt og flest móbergsfjöll á landinu (Guðmundur Kjartansson 1943). Móbergsfjöll þau, sem nú verður getið, eru öll mynduð á síðustu ísöld. Bólstraberg er víða að finna í neðri hluta móbergsfjalla á Hellisheiðarsvæðinu, svo sem í Draugahlíðum, Lakahnúkum, milli Meitla, í Stóra-Skarðsmýrarfjalli og víðar. Hraun rann úr gígunum og barmafyllti geilina og rann jafnvel út á jökulinn. Fjöll, sem náð hafa þessu stigi, eru nokkur á Hellisheiði, t. d. Stóri-Meitill og Geitafell. Slík fjöll nefnast móbergsstapar. Miklu algengari eru þó fjöll, sem byggð eru upp úr lausum gosefnum, sem síðar hafa límzt saman, móbergshryggirnir, t.d. Stóra-Reykjafell og Skálafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Ummyndun lausra gosefna, ösku, í móberg sannar ekki, að móbergsfjöllin hafi hlaðizt upp í eða undir jökli, því að móberg er einnig þekkt sem millilög í tertieru blágrýtismynduninni, t.d. í Esju. Þess skal líka getið, að í fjöllum, hlöðnum upp úr lausum gosefnum á síðustu ísöld, er til gosaska, sem hefur ekki breytzt í móberg, t.d. í Litla- og Stóra-Sandfelli. Í nokkrum móbergsfjallanna mótar enn fyrir gígum, svo sem í Stóra-Meitli. í mörgum fjallanna eru gígtappar úr grágrýti, en þeir standast veðrun betur en móberg og skaga því víða upp úr.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti (jarðfræðikort Ísór).

Bezt dæmi um slíkan bergstand í móbergi er Lambafellshnúkur, en hann setur á fellið keilislögun, enda er Keilir á Reykjanesi eins upp byggður. Gráuhnúkar norðan Þrengsla eru líka bergstandar. Litla-Skarðsmýrarfjall og Orustuhóll eru úr mjög stórdílóttu grágrýti. Er það gangur, líklega gömul eldstöð. Dalkvosir í mörgum fellanna eru ekki gamlir gígar, heldur hafa jökulflikki orðið undir lausum gosefnum, þegar fellin hlóðust upp, og ekki bráðnað fyrr en að gosunum loknum. Þar sem ís var undir móbergi, myndaðist því dæld eða dalur, t. d. dalirnir í Stóra-Reykjafelli eða Innstidalur.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hlutinn (loftmynd).

Í Stóra-Reykjafelli vestanverðu er stór felling í lagskiptu móbergi. Slíkar fellingar mynduðust líklega, ef veggir ísgeilanna hafa haft mikinn fláa eða í þeim verið syllur. Ísveggurinn hefur síðan bráðnað, meðan gosefnin voru enn vatnsósa, og gosefnin fylgt honum. Lík felling, en minni, er einnig í Blákolli vestanverðum. Annað fyrirbæri, sem víða er að finna í móbergsfjöllum, er svokölluð flögun. Lagskipt móberg hefur kubbazt og klofnað án tillits til lagskiptingar undan þrýstingi jökulfargsins. Slík flögun í móbergi er t.d. í Stóra-Reykjafjalli við veginn upp í Hveradali.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hlutinn (loftmynd).

Auk móbergsfjalla eru til á Hengilsvæðinu grágrýtisflákar, sem myndaðir eru á einu af fyrstu bráðnunarskeiðum síðustu ísaldar. Er hér um grágrýtislög að ræða, sem komin eru úr Hengli og hylja suðausturhluta hans, Ástaðafjall og Hamarinn ofan Hveragerðis. Í Húsmúla norðan Kolviðarhóls er og grágrýti. Gæti þar verið sérstök eldstöð. Allt er grágrýti þetta jökulsorfið.
Umhverfis Skálafell er grágrýtisdyngja (Norður- og Suður-Hálsar), sem ég hef nefnt Skálafellsdyngju. Grágrýti þetta er komið úr gíg, Trölladal, vestan Skálafells, og hefur síðan runnið umhverfis fellið og víða fram af brún Efrafjalls og Hjallafjalls. Grá grýtið er jökulrispað austan Skálafells, en vestan þess má enn finna hraunreipi á hraunhólum. Sýnir þetta, að jökullinn hefur aðeins farið yfir austurhluta dyngjunnar. Það, að grágrýtið austan Skálafells skuli renna um gil og dali eldri fellanna líkt og hraun, runnin eftir jökultíma, og fylgja öllum línum landslagsins, bendir til ungs aldurs grágrýtisins. Þó er það eldra en hæsta sjávarstaða, því að í það hafa höggvizt brimþrep. Gosið í Skálafellsdyngju hefur líklega átt sér stað á bráðnunarskeiðinu, sem fór á undan framrás jökulsins að Álftanesröðinni, og hefur sá jökull urið grágrýtið austan Skálafells.
Í ritgerð minni (Þ.E. 1960) gat ég þess, að ljósir blettir í fjöllum á Hengilsvæðinu væru eingöngu myndaðir við hverasuðu. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að á síðastliðnu hausti rakst ég á lítil líparít-innskot vestan til í Hengli, rétt norðan Húsmúlans.
Jökulminjar frá síðustu ísöld eru heldur fátæklegar á svæðinu, aðrar en móbergsfellin. Jökulrispur á klöppum eru sjaldgæfar, en sýna þó, að jökullinn hefur skriðið suður heiðina til sjávar. Jökulurð sést óvíða, nema hvað Kolviðarhóll er botnurðarhóll, og annar slíkur er á Krossfjöllum. Á einstöku fjöllum er og stórgrýtt jökulurð og víða, einkum á móbergsfjöllum, jökulbergskápa.

Hæstu sjávarmörk í Ölfusi eru í Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða í 55 m hæð, en í Hveragerði í 60 m hæð. Síðan brimið klappaði þessi hæstu fjörumörk, munu líklega vera liðin um 14000 ár, sem áður segir. Af sjávarminjum ber mest á lábarinni möl og hnullungum. Brimþrep eru og víða greinileg, svo sem í Hjallafjalli og Skálafellsgrágrýti hjá Núpum; bærinn stendur í þrepinu. Einnig eru hlíðar Hamarsins ofan Hveragerðis gamalt sjávarbjarg, sem og Kambabrún og hlíð Núpafjalls. Brimsorfnir hellar eru í Vatnsskarði. Á Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða eru fallegir malarkampar, sem brimið hefur rótað upp. Sjór fjaraði, eða réttar sagt landið hækkaði síðan á 5000 árum, svo að hann var kominn þá a.m.k. 4 m niður fyrir núverandi sjávarmál, svo sem sjá má af myndun fjörumós í Seltjörn, en hann myndaðist ofan sjávarborðs. Á síðustu árþúsundum hefur land síðan lækkað nokkuð.

Hraun frá nútíma – Hellisheiðarhraunin eldri

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Á vestanverðri Hellisheiði eru eldstöðvar, sem gosið hafa a. m. k. fjórum sinnum á nútíma, en nútíminn nær að tímatali jarðfræðinga yfir síðustu 10000 árin, eins og áður gat. Gígar beggja hinna eldri hrauna eru huldir yngri hraunum. Mjög erfitt er að greina eldri hraunin hvort frá öðru. Verða eldri hraunin því rædd í einu lagi. Auðvelt er að greina yngri hraunin frá hinum eldri í landslagi. Einnig ber meir á feldspat-dílum í blágrýti eldri hraunanna en hinna yngri, minnst í yngsta hrauninu, Kristnitökuhrauni.
Eldri Hellisheiðarhraunin hylja syðri hluta Hellisheiðar, og liggur þjóðvegurinn lengstum á þeim. Á norðanverðri heiðinni eru þau horfin undir yngri hraun. Hraunflóðin hafa runnið austur heiðina og fram af Kambabrún niður í Ölfus, allt austur að Varmá, beggja vegna Hamarsins. Tota úr elzta hrauninu nær þó austur yfir ána við þjóðveginn. Varmárbrúin stendur á þessu hrauni, svo og bærinn að Völlum. Bæirnir Saurbær, Þúfa, Kröggólfsstaðir og Vötn utan Varmár standa í jaðri elzta hraunsins. Rétt norðan þessara bæja virðist vera brún næstelzta hraunsins, og standa bæirnir Yxnalækur og Vorsabær í henni. Ein kvísl hraunflóðsins á heiðinni rann suður á milli Hverahlíða og Núpafjalls og niður um skarð í fjallsbrúninni ofan Núpa. Þetta hraun endar rétt ofan bæjarhúsa að Núpum og hefur ekkert breiðzt út á jafnsléttu. Önnur kvísl sama hrauns rann enn lengra til suðausturs og niður gilið norðan Vatnsskarðs og breiddist nokkuð út á láglendi, en síðar hefur Þurárhraun runnið yfir það. Einn hraunstraumur hefur runnið til suðurs frá eldstöðvunum milli Lakahnúka í Lakadal, annar til vesturs niður Hellisskarð. Þetta hraun sést í misgengi í austurbrún skarðsins. Enn einn hraunstraumur hefur líklega runnið vestur úr Hveradölum og allt norður fyrir Draugahlíðar. Sér nú á hraun þetta sem apalhraunskika í Svínahrauni (Leitahrauni) rétt norðan móta gamla vegarins og Þrengslavegar.
Eldri Hellisheiðarhraun eru víðast algróin apalhraun nema elzta hraunið við Varmárbrúna, sem er helluhraun. Um aldur þessara hrauna er það að segja, að elzta hraunið er ekki runnið fyrr en sjór var komin niður fyrir 3 m hæð yfir núverandi sjávarmál og getur því vart verið eldra en 10000 ára gamalt. Næstelzta hraunið er eldra en Leitarhraun, en það er yngra en 5300 ára, svo sem síðar segir. Eldri Hellisheiðarhraunin eru því yngri en 10000 ára og eldri en 5000 ára gömul.

Leitahraun

Leiti

Leiti – gígurinn austan Bláfjalla.

Austan undir Bláfjöllum, sunnan Ólafsskarðs, er óásjálegur gjallrimi, er Leitin nefnist. Að sunnan er hann 30 m hár, að norðan jafnhár Lambafellshrauni. Rimi þessi er eystri barmur gígs þess, sem stærsta hraun Hellisheiðarsvæðisins er komið frá. Leitahraun, eins og það nefnist hér, þekur 75 km2 lands. Gígurinn er um 300 m frá NA—SV og 150 m þvert á þá stefnu. Leysingalækur úr Bláfjöllum hefur fyllt gígskálina með möl og sandi, en þó sést enn 2—3 m hár hraunhjalli og bendir hann til þess, að hrauntjörn hafi staðið í gígnum. Úr norðurhluta gígsins hefur hrauná runnið. Hraunið, sem var mjög þunnfljótandi, breiddist út á flatneskjunni milli Bláfjalla, Heiðarinnar há, Geitafells, Meitla og Lambafells og nefnist Lambafellshraun. Hraunflóð rann þaðan til norðurs milli Blákolls og Lambafells og breiddist út norður til Húsmúla og Engidalskvíslar. Þar heitir nú Svínahraun (helluhraunið). Hraun þetta rann síðan niður um Vatnaöldur, Sandskeið, Fóelluvötn og milli grágrýtisholtanna hjá Lækjarbotnum (Lögbergshúsið stendur á hrauninu.) og út í hið forna Elliðavatn, sem var mun stærra en vatnið er í dag. Þegar hraunið rann út í vatnið, tók að gjósa upp úr því vegna gufuþenslu í hraunkvikunni, og mynduðust þar gervigígar, sem nú nefnast Rauðhólar. Tröllabörn neðan Lækjarbotna eru líka gervigígar í þessu hrauni. Hraunstraumurinn rann síðan niður dal Elliðaánna allt í Elliðavog.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárnar renna um Leitarhraun.

Rétt ofan eystri brúarinnar yfir Elliðaárnar er mór undir hrauninu og reyndar víðar upp eftir árfarveginum. Hraunið hefur runnið yfir mýri. Mór þessi hefur verið aldursákvarðaður með mælingu á geislavirku kolefni, C14, og reyndist efsta lag hans vera 5300 ± 340 ára gamalt (Jóhannes Áskelsson 1953). Leitahraun ætti því að vera rúmlega 5000 ára gamalt.
Tveir hraunstraumar úr Leitahrauni runnu til suðurs, Djúpadalshraun milli Geitafells og Krossfjalla og annar milli Krossfjalla og Lönguhlíðar, sem breiðzt hefur út á láglendi allt suður til sjávar í Hafnarskeið og austur undir Ölfusá. Þar standa bæirnir Hraun og Grímslækur í hraunjaðrinum. Nefnist þar Heiði eða Hraunsheiði.
Leitahraun er helluhraun úr dílóttu (feldspat) blágrýti. Í hrauninu eru nokkrir hellar og niðurföll. Stærsti hellirinn er Raufarhólshellir ofan Vindheima í Ölfusi. Hann er 850 m langur, 10—30 m breiður og 10 m hár að jafnaði (Munger 1955). Norðan Draugahlíða eru einnig hellar í hrauninu, svo og undir húsum að Lögbergi.

Hellisheiðarhraunið næstyngsta

Hellisheiði

Hellisheiðarhraun.

Tvær gígaraðir eða gossprungur liggja um Hellisheiði vestanverða, og eru þaðan komin yngri Hellisheiðarhraunin. Næstyngsta hraunið er komið frá vestari gossprungunni, en hún er 6,5 km löng. Syðstu gígar hennar eru í austurhlíð Hveradala, þar sem nú eru gjallnámur Vegagerðarinnar. Þaðan er komið hraunið, sem þekur Hveradali sunnanverða (Stóradal), og apalhraunið norðan Litla-Reykjafells, en sunnan gamla vegarins við Kolviðarhól. Mikill hluti þessa hrauns hefur síðar lent undir Kristnitökuhrauni í Hveradölum. Gossprungan liggur síðan til norðurs með austurhlið Stóra-Reykjafells. Úr gíg í austuröxl fellsins hefur runnið hraunspýja til suðurs. Frost hefur síðar sprengt hraunskænið upp, svo að nú getur að líta þar einkennilegan straum köntótts stórgrýtis. Úr gígum ofan Hellisskarðs hefur runnið hraunkvísl gegnum skarðið heim undir hús að Kolviðarhóli. Gossprungan liggur síðan norður yfir Stóra-Skarðsmýrarfjall og um Innstadal þveran.

Nesjagígar

Nesjahraun – gígur.

Líklega eru Nesjavallagígar í Grafningi á sömu sprungu. Á norðanverðri Hellisheiði hefur hraun frá sprungunni breiðzt út og runnið austur heiðina og fram af Kambabrún líkt og hin eldri hraun, en stöðvazt í brekkurótunum beggja vegna Hamarsins. Er þar falleg hraunbrún. Vegurinn í Kömbum liggur í þessu hrauni. Á heiðinni er hraunbrúnin nokkuð greinileg norðan vegar. Frá gígunum á Stóra-Skarðsmýrarfjalli runnu hrauntaumar til Hellisheiðar, Sleggjubeinsdals og Innstadals. Úr gígunum í Innstadal er runnið Innstadalshraun fram í Miðdal. Hraun þetta er samkvæmt öskulagsrannsóknum yngra en 2700 ára og eldra en landnám, líklega 1500—2000 ára gamalt, þ. e. runnið um Kristsburð eða skömmu síðar.

Kristnitökuhraun

Skjaldbreið

Skjaldbreið.

Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.” Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í, at goðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: „Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?” (Kristni saga). Hér er sagt frá náttúruviðburði á einfaldan hátt og getið fyrsta sinni jarðfræðiathugunar á Íslandi og hún ekki umvafin blæ þjóðsögunnar, eins og svo oft vildi verða. Íslendingar hafa þegar að fornu skilið myndunarsögu landsins að einhverju leyti, því að Þingvallahraun („er nú stöndum vér á”) eru runnin þúsundum ára fyrir landnámsöld. Hin elztu eru komin frá Skjaldbreið, en hin yngri frá gossprungu á Tindafjallaheiði austan Hrafnabjarga.
Á þeim 130 árum, sem liðin voru frá því, er fyrstu landnámsmennirnir tóku land, og þar til, er kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000, hafa líklega orðið nokkur gos, því að gosið hefur að meðaltali 15 sinnum á öld frá upphafi Íslandsbyggðar fram á vora daga, svo að líklegt er, að Snorri goði hafi séð eldgos eigin augum, kannski gosið í Eldborg á Mýrum, þá er yngra Eldborgarhraun kom upp, eða haft spurnir af því. Þess goss er getið í Landnámu (Jóhannes Áskelsson 1955). Góða lýsingu á eldgosi frá fyrstu öld Íslandsbyggðar er einnig að finna í Völuspá (Sól tér sortna, 57. vísa). Þá er einnig þess að geta, að eldsuppkomuna má tímasetja allnákvæmlega, og er það óvenjulegt um náttúruviðburð, sem gerzt hefur hér á landi fyrir nær 10 öldum. Alþing kom saman á Þingvöllum fimmtudaginn í 10. viku sumars. Gosið á Hellisheiði ætti því að hafa byrjað laugardaginn í 10. viku sumars eða um 20. júní árið 1000.
Eldstöðvar þær, sem bezt eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km að lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er syðsti og reyndar stærsti gígur sprungunnar.

Eldborg

Eldborgarhraun í Þrengslum.

Í fyrsta þætti gossins kom einkum upp hraun úr nyrzta hluta sprungunnar, milli Stóra-Skarðsmýrarfjalls og núverandi þjóðvegar. Hraunið breiddist í fyrstu út á hallalítilli heiðinni austan gossprungunnar. Hraunstraumur rann síðan austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli og sunnan Orustuhóls að Hengladalsá og stöðvaðist þar. Nefnist þar Orustuhólshraun. Annar hraunstraumur rann vestur yfir sprunguna, þar sem nú er þjóðvegurinn, og niður í Hveradali og vestur úr þeim yfir austurjaðar Svínahrauns. Hraun þetta nær ekki lengra til norðurs en í beina línu vestur af suðurhorni Litla-Reykjafells. Ein álma þessa* hrauns rann síðan gegnum Þrengslin allt til Lambhóls. Síðar rann Svínahraunsbruni yfir vesturjaðar þessa hrauns, sem síðar getur. Stærstur og þekktastur er þó hraunstraumur sá, sem nefndur er Þurárhraun. Hann rann í mjórri kvísl austur heiðina norðan Smiðjulautar, austur yfir þjóðveginn og síðan austur með Hverahlíðum og niður á láglendi um Vatnsskarð. Er þar 140 m hár hraunfoss. Hraunið breiddist síðan út yfir mýrarnar austan Þurár allt austur undir Varmá. Þurárhraun er um 11 km að lengd.

Lakastígur

Lakastígur.

Úr miðhluta sprungunnar, milli þjóðvegar og Lakahnúka, hefur einnig komið mikið hraun, sem brotizt hefur í mjórri kvísl milli yztu Lakahnúka niður í dal þann, sem Hellur heitir. Norður úr dalnum er Lágaskarð til Hveradala, en Lakadalur til austurs milli Lakahnúka og Stóra-Sandfells. Dalurinn hefur fyllzt hrauni, sem rann til hans í áðurnefndri kvísl og eins úr syðsta gígnum á þessum hluta sprungunnar í Lakahnúkum. Varð mikil og slétt hrauntjörn í dalnum. Dalurinn var lokaður til suðurs milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells af grágrýtishafti, sem hélt uppi hrauntjörninni.
En vart mun dalbotninn hafa verið orðinn fullur af hrauni, er syðsti hluti sprungunnar opnaðist og hraun tók að streyma þar upp. Grágrýtishaftið brast, og hraunið úr tjörninni fékk framrás með hrauninu, sem upp kom í syðsta hluta sprungunnar. Enn sýna hraunhjallar umhverfis Hellur, að hrauntjörnin hefur staðið allt að 5 m hærra en dalbotninn er í dag. Eldborg undir Meitlum stendur á grágrýtishaftinu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Eldborg undir Meitlum er stærsti gígur á allri gossprungunni, um 50 m á hæð. Eldborgin er að vísu aðeins helmingur gígs, því að hraunið, sem vall upp úr henni og gegnum hana, hefur rifið með sér eystri gígvegginn. Nokkru norðan Eldborgar er önnur eldborg, um 10 m há. Milli eldborganna er greinileg hrauntröð. Eldborgir þessar mega heita einu gígarnir á allri gossprungunni, sem því nafni geta kallazt. Annars staðar gætir mest gjallhrúgalda og óreglulegra rima. Þó eru tvær litlar eldborgir, 5 m að hæð, sunnan Stóra-Skarðsmýrarfjalls. Fell þau, sem sprungan gengur í gegnum norðan þjóðvegarins, eru úr móbergi, en að mestu hulin gjalli.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Hraunið, sem upp kom í Eldborg undir Meitlum, og eins það, sem fékk framrás úr hrauntjörninni í Hellum, breiddist út á heiðinni sunnan Litla-Meitils og Sanddala. Er það úfið apalhraun og nefnist Eldborgarhraun eða Innbruni. Þaðan rann hraun, Frambruni, niður um skarðið milli Krossfjalla og Lönguhlíðar. Hraun þetta breiddist síðan yfir Hraunsheiði (Leitahraun). Einn hrauntaumurinn rann meðfram Hjallafjalli í átt til Hjalla, en annar milli bæjanna Grímslækjar og Hrauns og nefnist þar Hraun (samkv. korti Grímslækjarhraun) til aðgreiningar frá Heiði (Leitahraun). Nær þetta hraun hvergi fram af brún Leitahrauns. Hraunið er 9 km að lengd.
Eins og að framan getur, er líklegt, að nyrðri hluti sprungunnar hafi gosið fyrst og syðsti hlutinn seinast. Nokkuð hefur það verið á reiki, hvaða hraun það var, sem náði láglendi í Ölfusi í gosinu árið 1000. Þorvaldur Thoroddsen telur ýmist, að Þurárhraun eða Eldborgarhraun hafi runnið þá. Guðmundur Kjartansson (1943) bendir réttilega á, að bæði hraunin séu komin úr sömu gossprungu og því líklega jafngömul. Athuganir þær, sem ég hef gert, benda eindregið til þess, að bæði hraunin séu komin upp í sama gosi. Þó er Þurárhraun líklega nokkrum dögum eða vikum eldra en Eldborgarhraun. Bergfræðilega er blágrýti beggja hraunanna líkt, stakdílótt (feldspat) blágrýti. Gróðurfar hraunanna og allt útlit ber merki ungs aldurs. Afstaða hraunanna til annarra hrauna á Hellisheiðarsvæðinu bendir og til hins sama. Segulmælingar, sem Ari Brynjólfsson gerði á hraunum þessum árið 1955, benda einnig til þess, að hraunin séu lík að aldri.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Öskulagsrannsóknir sýna með nokkurri vissu, að Kristnitökuhraunið hafi runnið eftir landnámstíð. Í jarðvegssniðum í hrauninu hef ég ekki getað fundið öskulagið G, en það liggur undir rústum í Þjósárdal (Sigurður Þórarinsson 1944), og í mýrarsniðum, sem frjógreind hafa verið, liggur það rétt neðan hinnar greinilegu gróðurfarsbreytingar, sem varð við landnámið. Öskulag þetta er komið af Torfajökulssvæðinu og er líklega 1100—1200 ára gamalt. Það finnst annars í nær öllum jarðvegssniðum hér sunnan lands, t.d. á næstyngsta Hellisheiðarhrauninu. Þunnt öskulag, sem myndaðist við Kristnitökugosið, er að fínna í jarðvegssniðum vestan eystri gossprungunnar á Hellisheiði, rétt ofan öskulagsins G.

Hellisheiði
Höfundur Kristnisögu leggur sendimanni þau orð í munn, að jarðeldur væri upp kominn í Ölfusi og mundi hlaupa á bæ Þórodds goða. Næsta ólíklegt er, að sendiboðinn hafi borið bæði þau tíðindi, að jarðeldur væri upp kominn, og eins hin, að hraun stefndi á bæ Þórodds goða. Svo greiðlega renna apalhraun ekki á hallalitlum heiðum, og er hér eitthvað málum blandað. Annaðhvort hafa munnmælin, sem sagnritarinn studdist við, brenglazt nokkuð, eða hann breytt þeim, svo að þau hæfðu betur frásögninni, enda hafa þessar orðræður lítið gildi fyrir frásögnina af Kristnitökunni. Sama sumar, dögum eða vikum eftir að þingi lauk, hafa hraun náð láglendi í Ölfusi. Þurárhraun hefur tæplega valdið tjóni á byggðu bóli í Ölfusi, nema bær hafi staðið undir Vatnsskarði, því að hraunið breiddist yfir mýrarfláka austan og norðan Þurár. Eldborgarhraun, sem runnið hefur heim í tún að Hrauni og Grímslæk, hefur líklega valdið einhverjum spjöllum, jafnvel tekið af bæi, hafi þeir staðið í Hraunsheiði, en það gæti vel verið, eða syðst undir Hjallafjalli, því að nyrzti hrauntaumurinn hefur runnið þar í átt til Hjalla, bæjar Þórodds goða, þótt skammt næði.
Þótt Kristnisaga muni um margt vera ónákvæm og hlutdræg heimild, má þó telja, að þessar fáu setningar um eldsuppkomuna séu í meginatriðum réttar.
Kristnitökuhraun þekur um 25 km2 lands.

Svínahraunsbruni

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Í skarðinu milli Lambafells og Bláfjalla standa tvær eldborgir. Nyrðri-Eldborg er þrír samvaxnir gígar. Sunnan hennar eru líka nokkrir litlir gígar á sömu sprungu. Úr nyrzta gígnum, sem er stærstur, 60 m í þvermál, er breið og falleg hrauntröð. Hún er um 2 km að lengd, 5 m djúp og 10—15 m breið. Hrauntröðin endar undir Blákolli. Um hraunfarveg þennan hefur hraun nyrðri og eldri Brunans, Svínahraunsbrunans, runnið og breiðzt út yfir Svínahraun (Leitahraun) allt til Draugahlíða. Syðri-Eldborg hefur gosið nokkrum vikum eða mánuðum síðar en hin nyrðri. Þar er kominn upp yngri og syðri Bruninn. Báðar standa eldborgirnar á sömu landnorðurlínunni, og eru um 2 km milli þeirra. Yngri Bruninn hefur runnið norður með Lambafelli og beygt síðan norðan Lambafellshnúks til austurs og síðan suðurs og náð allt til Þrengsla.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Nyrðri Bruninn er um 5 km að lengd og þekur 6,5 km2 lands, en hinn syðri um 6,5 km að lengd og 4,5 km2 að flatarmáli. Berg hraunanna er olivin-dílótt blágrýti. Yfir hraun þessi liggur nýi Þrengslavegurinn frá Draugahlíðum til Þrengsla. Bruninn, bæði hraunin, er úfið apalhraun og virðist við fyrstu sýn sem hraungrýtið hafi oltið fram án reglu. Við nánari athugun má þó sjá, að það hefur ekizt til í bogadregna hryggi eða hraunsvigður. Svigður eru kunnar frá skriðjöklum, að vísu annars uppruna, en líkar útlits. Hraunsvigðurnar, sem eru 1— 2 m að hæð, sjást einkum vel af fjöllunum í kring eða úr lofti. Þó má greina þær af nýja veginum. Svigðurnar sýna, að hraunið hefur runnið rykkjótt, en ekki jafnt og þétt, og vísar boginn í straumstefnuna og bendir til mestrar hreyfingar og mests hraða í miðjum hraunstraumnum. Hraunsvigður apalhrauna líkjast reipum helluhrauna. Þó mælist það í metrum í svigðum, sem mælt er í sentimetrum í hraunreipum. Hraunsvigður eru víða í apalhraunum, t. d. í Landbrotshrauni (Jón Jónsson 1954).

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Þess var áður getið, að Kristnitökuhraun lægi vestan Hveradala inn undir jaðar Brunans og væri því eldra en hann. Orðið Bruni virðist hér sunnan lands einkum vera notað um hraun, runnin, eftir að land byggðist. Menn hafa séð hraunin brenna. Dæmi um þetta eru Inn- og Frambruni í Eldborgarhrauni (Kristnitökuhrauni).
Yngsta hraun sunnan Hafnarfjarðar heitir og Bruni. Er hraun það komið frá Óbrynnishólum undir Undirhlíðum. Þess er getið í Kjalnesingasögu sem Nýjahrauns. Samkvæmt rannsókn Guðmundar Kjartanssonar (1952) er Bruni þessi runninn á landnámsöld eða litlu síðar. Í Þingeyjarsýslu er nafnið Bruni að vísu notað um úfin apalhraun, Grænavatnsbruni og Út- og Innbruni í Ódáðahrauni, sem runnin eru, áður en land byggðist. Nafn hraunanna frá Eldborgum vestan Lambafells, Bruni, bendir til þess, að þau hafi runnið að mönnum aðsjáandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Í annálum og öðrum rituðum heimildum er þessara hrauna hvergi getið, svo að mér sé kunnugt. En yfirleitt virðast náttúruviðburðir á Suðurkjálka hafa farið fram hjá annálariturum, og þá sjaldan, að þeirra er getið, er þekking á staðháttum harla lítil, svo að jafnvel hraun, komin upp við Trölladyngju á Reykjanesi, eru talin renna niður í Selvog. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur, að einkum hafi eldgos verið tíð um skagann á 14. öld. Þannig geta annálar gosa í Brennisteinsfjöllum 1340 og 1389, og Ögmundarhraun er talið runnið árið 1340. Svínahraunsbruni, bæði hraunin, eru runnin síðar en 1000, en að öllum líkindum fyrir siðaskipti, sennilega á 14. öld.
Norðan Fjallsins eina í Lambafellshrauni er lítið hraun, 0,5 km2 að stærð. Það er komið upp um sprungu, sem er í beinu framhaldi Eldborga. Hraun þetta mun vera líkt Brunanum að aldri.”

Þorleifur Einarsson
Þorleifur Einarsson“Þorleifur Jóhannes Einarsson fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1931. Hann lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi 22. mars 1999. Foreldrar hans voru hjónin Einar Runólfsson verkamaður, f. 1886 í Skálmabæjarhrauni í Álftaveri, d. 1962 í Reykjavík, og Kristín Þorleifsdóttir, f. 1900 í Stykkishólmi, d. 1973 í Reykjavík. Eftir nám í gagnfræðaskóla settist Þorleifur í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1952. Að því loknu hélt hann til jarðfræðináms við Háskólann í Hamborg, Þýskalandi, haustið 1953. Hann hélt síðan áfram jarðfræðinámi við háskólana í Erlangen-Nürnberg 1954­56 og Köln 1956­60, þaðan sem hann lauk Dipl.Geol.-prófi í maí og Dr.rer.nat.-prófi í júlí 1960. Þorleifur stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Bergen í Noregi 1960­61 og háskólann í Cambrigde, Englandi 1970 og 1979. Að loknu doktorsprófi kom hann heim og starfaði sem sérfræðingur í jarðfræði, fyrst á iðnaðardeild atvinnudeildar Háskólans 1961­65, síðar á Rannsóknarstofnun iðnaðarins frá 1965­68 og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands frá 1969­75. Jafnframt var hann stundakennari í náttúrufræði og eðlisfræði við Vogaskóla í Reykjavík 1961­63, í jarðfræði við Menntaskólann í Reykjavík 1963­69, við Tækniskóla Íslands 1965­70 og við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1969­74. Þorleifur var skipaður prófessor í jarðsögu og ísaldarjarðfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1975 þar sem hann starfaði síðan.
Þorleifur Einarsson
Þorleifur var varamaður í Náttúruverndarráði 1972­78, sat í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1964 og var formaður þess 1966­72, sat í stjórn Jarðfræðafélags Íslands 1966­68 og var formaður þess 1972­74, sat í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1980­97, var formaður stjórnar Máls og menningar 1979­1991, sat í stjórn Landverndar frá 1971 og var formaður Landverndar 1979­90. Þá var Þorleifur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1962, Alexander von Humboldt-styrkþegi í Vestur-þýskalandi 1959­60 og Overseas Fellow í Churhill College í Cambrigde, Englandi frá 1970. Þorleifur var einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands, Sögufélaginu og Jöklarannsóknarfélaginu. Hann tók um árabil þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og þá einkum handbolta. Hann var leikmaður með ÍR, var atvinnumaður í Þýskalandi, landsliðsmaður, þjálfari og sat í dómaranefnd HSÍ. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands. Jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.”

Þorleifur Einarsson“Þorleifur hóf rannsóknir á jarðfræði Íslands strax á námsárunum í Þýskalandi og snerust prófritgerðir hans um þær. Diplómaritgerðin fjallaði um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins, gerð og aldursafstöðu bæði ísaldarmenja og eftirísaldarjarðlaga, sem nánast eingöngu eru af eldvirkum toga, afrakstur eldvirkni undir bæði ísaldarjöklum og berum himni. Dr. rer. nat.-ritgerð hans fjallaði um veðurfarssögu ísaldarloka og eftirísaldartímans.
Þessi tvö meginviðfangsefni, eldvirkni og veðurfarssaga og tengsl þeirra við ísaldarfræði almennt urðu meira og minna rauður þráður í rannsóknum hans hér síðan.
Þorleifur hafði afar yfirgripsmikla þekkingu á því sem ritað hafði verið um jarðfræði og náttúru Íslands almennt; hafði lesið á námsárunum allt sem hann komst yfir um þessi mál.
Það ritverk Þorleifs sem án efa hefur haft víðust áhrif er svokölluð Þorleifsbiblía, kennslubók hans um jarðfræði (Jarðfræði. Saga bergs og lands). Hún kom út fyrst árið 1968 og braut blað í kennslu í jarðfræði, þar sem bókin var afar góð og leysti af höndum afgamla bók, að stofni til frá 1922. Menn, sem kynntust Þorleifsbiblíu á fyrstu árum hennar, minnast enn þessarar bókar og þeirrar upplifunar sem lestur hennar var, bæði sem skemmtilegur lestur og sem uppljómun í þekkingu. Bókin kom út aftur og aftur og var umskrifuð og aðlöguð eftir hendinni og er reyndar enn á markaði, þrátt fyrir byltingar í fræðunum.
Eitt eftirminnilegasta verk Þorleifs tengist eldgosinu á Heimaey árið 1973.”

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 01.01.1961, Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar – Þorleifur Einarsson, bls. 151-172.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/459296/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58246

Eldborg

Horft niður í einn eldborgargíginn, hellinn Trölla, á svæðinu.

Austurengjar

Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um háhitasvæði landsins og athygli manna beinst að möguleikum á frekari nýtingu þeirra, einkum til orkuframleiðslu (Iðnaðarráðuneytið 1994, Morgunblaðið 6. febrúar 2005).
Austruengjar-892Hins vegar hefur minna borið á umræðu um sérkenni og verndargildi þeirra. Á háhitasvæðum landsins nær jarðhiti víða til stórra samfelldra svæða ef miðað er við hita djúpt í jörðu en ummerki jarðhitans á yfirborði er yfirleitt að finna á tiltölulega litlum og afmörkuðum svæðum. Vegna hitans skapast sérstakar aðstæður á yfirborði og einkennist jarðvegur og vatn yfirleitt af lágu sýrustigi auk þess sem styrkur ýmissa efna er ólíkur því sem finnst í öðrum vistkerfum (Stefán Arnórsson o.fl. 1980, Burns 1997). Hár hiti og efnafræðilegar aðstæður skapa því mjög óvenjuleg lífsskilyrði á þessum svæðum. Háhitasvæði eru ekki algeng fyrirbæri á jörðinni og því er mikilvægt að sérstaða og einkenni þeirra séu vel þekkt og að tekið sé ríkt tillit til náttúruverndarsjónarmiða þegar kemur að nýtingu þeirra. Einkenni háhitasvæða eru sérstök, t.d. hverir, jarðhitamyndanir og vistkerfi. Mörg þeirra hafa hátt útivistar– og fræðslugildi og eru þýðingarmikil í vísindalegu tilliti og hafa því vafalaust hátt náttúruverndargildi. Á Nýja-Sjálandi hefur verið gerð umfangsmikil
úttekt á náttúrufari, rasknæmi og verndargildi jarðhitasvæða (Ronald F. Keam o.fl. 2005). Þar hefur verið mótuð aðferðafræði sem taka mætti mið af hér á landi. Háhitasvæðið á Reykjanesi er eitt af minnstu háhitasvæðum landsins (2 km2) og er í um 20 m hæð yfir sjó.

austurengjar-894

Svæðið er á suðvesturhorni Reykjanesskaga og er basalthraun ríkjandi á svæðinu en upp úr því standa móbergs– og bólstrabergshryggir (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Reykjanesið í heild sinni er á náttúruminjaskrá m.a. vegna hverasvæðis og stórbrotinnar jarðfræði (Náttúruverndarráð 1996).
Krýsuvíkursvæðið er á vestanverðum Reykjanesskaga og nær það yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Svæðið er um 65 km2 að flatarmáli og liggur í 120–410 m h.y.s. Móbergshryggir einkenna svæðið (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Krýsuvík er hluti af Reykjanesfólkvangi (Náttúruverndarráð 1996).
Hengilsvæðið er suðvestur af Þingvallavatni og er eitt af stærstu háhitasvæðum landsins eða um 100 km2 að stærð og liggur í 30–800 m h.y.s. Svæðið einkennist af móbergshryggjum en einnig koma fyrir grágrýti og hraun runnin á nútíma, vestast á Hengilssvæðinu finnst súrt gosberg (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Hengill og næsta nágrenni er á náttúruminjaskrá, einkum vegna stórbrotins landslags, fjölbreyttrar jarðfræði og jarðhita (Náttúruverndarráð 1996).

Heimild:
-Þrjú háhitasvæði á Suðvesturlandi Undirbúningur að mati á náttúrufari og verndargildi háhitasvæða – Ásrún Elmarsdóttir, Borgþór Magnússon, Lovísa Ásbjörnsdóttir og Sigurður H. Magnússon. Unnið fyrir Orkustofnun, Reykjavík, mars 2005.

Seltún

Seltún.

Austurengjahver

Reykjanes
“Við fyrstu sýn er Reykjanes lágreistur, eldbrunninn og hrjóstrugur útkjálki við ysta haf. Basalthraun frá nútíma þekja mestan hluta svæðisins en lágar móbergshæðir eru við jaðra þess. Jarðhitasvæðið er á miðju Reykjanesi, milli lágra fella, og það er eitt minnsta háhitasvæði landsins. Hveravirkni á yfirborði einkennist af leirhverum, gufuhverum og heitri jörð. Á síðustu öld urðu oftar en einu sinni verulegar breytingar á hveravirkni í kjölfar jarðskjálfta. Vegna nálægðar við strönd og gropins berggrunns á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Vatnshverir á svæðinu hafa því verið mjög saltir. Myndarlegir goshverir voru virkir á svæðinu á síðustu öld.
rekjanesta-221Um Reykjanes liggur sprungukerfi með opnum gjám og misgengjum með norðaustlæga stefnu. Hér rís Mið-Atlants-hafshryggurinn upp fyrir sjávarmál og eru sprungurnar hluti af eldstöðvakerfi sem er að hálfu í sjó og að hálfu á landi. Það er kennt við Reykjanes og teygir sig til norðausturs í átt að Vatnsleysuströnd. Sprungur eru lítt sýnilegar á sjálfu jarðhitasvæðinu en sjást glögglega skammt suðvestan og vestan við það, m.a. í Valbjargagjá. Vestan til á Reykjanesi liggur gossprunga frá 13. öld og önnur um 2000 ára gömul. Skammt austan við hitasvæðið er kerfi af sprungum sem hafa töluvert norðlægari stefnu en ofangreindar sprungur. Þær eru taldar tilheyra framhaldi jarðskjálftabeltisins á Suðurlandi sem teygir sig vestur allan Reykjanesskaga en jarðskjálftabeltið einkennist af skástígum sprungum með heildarstefnu nálægt N-S.
Reykjanes hefur lengi verið á náttúruminjaskrá, m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði og allmikils hverasvæðis. Í náttúruverndaráætlun 2004–2008, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004, var lagt til að svæðið yrði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis (Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004–2008) en af því hefur ekki enn orðið. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
Gunnhver-221Reykjanesvirkjun hóf starfsemi á svæðinu árið 2006 auk þess sem önnur og eldri verksmiðjustarfssemi er í grenndinni. Aðgengi var til skamms tíma auðvelt að hverasvæðinu en það er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Í kjölfar starfsemi Reykjanesvirkjunar hefur hveravirkni aukist mikið á svæðinu og hverir hafa breyst.

Svartsengi-Eldvörp
Austan við eldstöðvakerfi Reykjaness tekur við sprungu- og eldstöðvakerfi sem kennt hefur verið við háhitasvæðin í Eldvörpum og Svartsengi eða jafnvel eingöngu við Svartsengi. Mörk milli eldstöðvakerfanna eru ekki skýr og stundum eru þau talin eitt og hið sama.
Allmikil eldgos urðu í kerfinu á 13. öld líkt og á Reykjanesi. Allmikið sprungukerfi teygir sig frá sjó við Mölvík til norðausturs í átt að Vatnsleysuvík og Straumsvík. Norðan og vestan við Þorbjarnarfell við Grindavík taka við miklar og lítt grónar hraunbreiður í um 20 m hæð. Í apalhrauninu norðan við fellið stigu áður fyrr upp heitar gufur sem nú eru líklega að mestu horfnar. Í móberginu í Svartsengisfelli og Þorbjarnarfelli er nokkur ummyndun sem og í Selhálsi sem tengir fellin. Áður fyrr hefur útbreiðsla jarðhitans því verið önnur og hugsanlega meiri en síðar varð. Vegna gropins berggrunns og nálægðar við sjó á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið.
svartsengi-221Flatlendið er að stórum hluta þakið hraunum frá 13. öld en sprungur og misgengi eru áberandi í eldri hraunum og móbergi. Austasti hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá undir merkjum Sundhnúksraðarinnar og Fagradals. Stór hluti svæðisins nýtur auk þess sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
Boranir hófust á svæðinu 1976 og varmaorkuver tók til starfa 1976. Þar er nú varma- og raforkuver með tilheyrandi búnaði. Kaldavatnsleiðsla liggur að orkuverinu úr norðri og heitavatnsleiðslur liggja frá verinu til norðurs og suðurs. Þá liggur háspennulína frá orkuverinu að spennistöð við Rauðamel. Affallsvatn frá orkuverinu myndar Bláa lónið í hrauninu. Svæðið er mikið raskað eftir mannvirkjagerð.
Eldvorp-999Í hraunflákanum vestur af Þorbjarnarfelli liggur gígaröðin Eldvörp frá 13. öld. Hún samanstendur af fjölmörgum lágum gjallgígum sem umluktir eru hrauni frá gosinu. Í og við tvo af gígunum er lítið jarðhitasvæði í um 60 m hæð. Gufur stíga upp úr hrauni og gjalli á svæði sem er um 100 m í þvermál. Hraunið og gígaröðin eru að mestu ósnortin sem er fátítt á Reykjanesskaga.
Eldvörp eru innan þess svæðis sem afmarkað er í náttúruminjaskrá undir merkjum Reykjaness. Svæðið í heild nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Krýsuvík
Milli Fagradalsfjalls og Kleifarvatns liggur allmikið sprungu- og eldstöðvakerfi. Sprungurnar teygja sig norðaustur frá sjó við Ísólfsskála um Núpshlíðarháls og Móhálsadal, Undirhlíðar og Heiðmörk til Hólmsheiðar og jafnvel Mosfellssveitar í norðaustri. Þetta kerfi hefur oftast verið kennt við Krýsuvík en einnig við Trölladyngju. Háhitasvæði eru á nokkrum stöðum við jaðra gosreinarinnar. Ögmundarhraun og Kapelluhraun brunnu í Krýsuvíkureldum á 12. öld. Svæðið er að mestu leyti innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er undanskilin hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð í því sambandi.
seltun-999Seltún Jarðhitasvæðið sem venjulega er kennt við Krýsuvík liggur að mestu suðaustan til í lágum móbergshálsi, Sveifluhálsi. Hitasvæðið teygir sig frá flatlendinu austan við hálsinn og nær upp yfir hann miðjan. Sprungu- og gosreinin sem kennd er við Krýsuvík liggur skammt vestan við jarðhitasvæðið. Minniháttar eldvirkni hefur þó náð inn á jarðhitasvæðið og hraun hefur komið úr a.m.k. einum sprengigíg á nútíma. Við suðurenda Kleifarvatns eru þekktar skástígar sprungur með stefnu nærri N-S og virðast þær tengdar brotabelti Suðurlands.
Jarðskjálftar eru tíðir og breytist badstofa-999hveravirkni iðulega í kjölfar þeirra. Jarðhitinn er mestur í Seltúni og Baðstofu (Hveragili) í austurhlíðum Sveifluháls. Þar er mikil ummyndun, brennisteinsþúfur og leirugir vatnshverir. Í Baðstofu er talsvert af gifsi. Vestan í hálsinum er heit jörð með gufuaugum og rauðum leir. Margir sprengigígar eru á svæðinu, sumir mjög stórir. Smáir lækir renna á yfirborði. Arnarvatn er lítið gígvatn á norðurhluta svæðisins. Þá eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun sambærileg gígvötn syðst á svæðinu.

Jarðhitasvæðið er innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Austurengjar

austurengjar-999

Austurengjar eru í ávölum grágrýtis- og móbergshæðum og -ásum um 1,5 km austur af jarðhitasvæðinu við Seltún í Krýsuvík. Meginhverirnir raðast syðst á línu með N-S stefnu. Línan virðist teygja sig skástígt norður í suðurenda Kleifarvatns. Austurengjahver í núverandi mynd varð til við jarðskjálfta árið 1924 en þá virðist hafa rifnað sprunga með N-S stefnu á Austurengjum. Þar sem hverinn er nú var áður heitur vatnshver en hann breyttist við skjálftann í gjósandi leirhver. Ætla má að sprungurnar tengist skjálftabelti Suðurlands. Opnar sprungur með N-S stefnu eru í Lambatanga við suðvesturhorn vatnsins. Jarðhitasvæðið í Austurengjum er algerlega utan við eldstöðvakerfi Krýsuvíkur og litlu fjær eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla.
Leirugir vatnshverir ásamt gufuhituðum laugum einkenna svæðið. Loftbólur og iðustreymi sjást í Kleifarvatni þegar vatnið er spegilslétt. Ummyndun er nokkur við hverina. Hveraörverur eru áberandi í afrennsli. Sprengigígar eru skammt suður af Kleifarvatni og í Austurengjum, sá stærsti er um 100 m í þvermál, líklega gamall.
Jarðhitasvæðið er innan Reykjanesfólkvangs. Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum.
Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Trölladyngja
sog-999Norðausturendi Núpshlíðarháls er þríklofinn og heitir vestasti hlutinn Trölladyngja. Núpshlíðarháls er nær eingöngu úr móbergi en heita má að allt flatlendi á svæðinu sé þakið ungum hraunum. Lítill þverdalur, Sog, skilur nyrsta hluta Núpshlíðarháls frá meginhálsinum, þ.á.m. Trölladyngju. Móbergið í Sogum er mikið ummyndað og framburður úr Sogum til vesturs hefur fyllt hraunin á flatlendinu á allstóru svæði og myndað Höskuldarvelli, framburðarsléttu á hraununum vestan við Trölladyngju.
Trölladyngja er í jaðri gos- og sprungureinar Krýsuvíkur. Allmiklar gossprungur eru á svæðinu og töluvert sést af sprungum og misgengjum í móbergi. Yngstu hraun á svæðinu eru hugsanlega runnin eftir landnám.
Jarðhiti er á allstóru svæði við Trölladyngju en nokkuð dreifður. Til norðausturs frá dyngjunni stíga gufur upp úr hraunum og móbergi á um 1 km löngum kafla. Sunnan við Trölladyngju eru minniháttar leirugir vatnshverir og gufuaugu í Sogum. Í hrauni framan og vestan við Sogin er ungur sprengigígur og í nágrenni hans heit jörð með gufuaugum. Hverinn eini, sem er að mestu kulnaður, er um 2 km suðvestur með hálsinum, skammt norður af Selsvöllum. Þar er allmikið hverahrúður.
sandfell-999Jarðhitasvæðið er í jaðri Reykjanesfólkvangs og að hluta á svæði sem er á náttúruminjaskrá (Keilir og Höskuldarvellir). Í auglýsingu um fólkvanginn (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) er jarðrask óheimilt nema með leyfi Umhverfisstofnunar en þó er hagnýting jarðhita og mannvirkjagerð henni tengd undanskilin friðlýsingarákvæðum. Hlutar svæðisins njóta sérstakrar verndar samkvæmt liðum a, b og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Svæðið er að mestu þurrt á yfirborði. Lækir falla frá ummynduðum svæðum í Núpshlíðarhálsi um Höskuldarvelli og Selsvelli. Spákonuvatn er í lægð í móberginu skammt sunnan við Sog.

Sandfell
Sandfell er stakt fell, austast í klasa móbergsfella austan við Fagradalsfjall og um 1 km vestur af Núpshlíðarhálsi. Norðan og austan við fellið er tiltölulega flatur hellu- og apalhraunafláki. Gufur stíga úr hrauninu á litlu svæði skammt norðaustan við fellið. Jarðhitasvæðið er á vesturjaðri gos- og sprungureinar Krísuvíkurkerfisins og eru gossprungur í næsta nágrenni. Skammt norðan við jarðhitasvæðið eru sprungur með N-S stefnu og tengjast þær líklega skjálftabelti Suðurlands.
Svæðið er utan Reykjanesfólkvangs en nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Brennisteinsfjöll
brennisteinsfjoll-999Eitt af sprungu- og eldstöðvakerfum Reykjanesskagans er að jafnaði kennt við Brennisteinsfjöll. Það nær frá sjó við Krýsuvíkurberg og liggur þaðan til norðausturs um Brennisteinsfjöll og Bláfjöll allt austur á Mosfellsheiði. Í Brennisteinsfjöllum er lítið jarðhitasvæði í austurjaðri gos- og sprungureinarinnar. Jarðhitinn, sem er að mestu gufur í hraununum, er í apalhrauni í brekku sem hallar móti suðaustri. Nær allt svæðið umhverfis jarðhitann er þakið hraunum. Vestan og norðvestan við hitasvæðið eru lágir móbergshryggir og gígar sem sent hafa hraunspýjur yfir jarðhitasvæðið en í austri tekur við úfin hraunbreiða.
Svæðið er innan Reykjanesfólkvangs (Stj.tíð. B, nr. 520/1975) og nærri austurmörkum hans. Austan markanna tekur við Herdísarvíkurfriðland (Stj.tíð. B, nr. 121/1988). Nær allt svæðið nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Talið er að síðast hafi orðið eldsumbrot á svæðinu á 10. öld og ekki er vitað til að sprunguhreyfingar á yfirborðið hafi orðið á svæðinu eftir það. Svæðið er nánast ósnortið.”

Heimild:
-http://utgafa.ni.is/skyrslur/2009/NI-09012.pdf

Gunnuhver

Gunnuhver.

Helgafell

Eitt af sérkennum Reykjanesskagans er móbergsmyndunin. Hún er jafnframt eitt af sérkennum Íslands og um leið einkennandi fyrir bergtegundina hvert sem litið er á hnettinum.
Bergrunndur Íslands - brúnt er móbergshryggjasvæðinÁ síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmynduninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi, s.s. á Reykjanesskaganum (þar sem sjórinn kom í stað bræðsluvatns). Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Á síðustu ísöld voru einungis ystu nes Skagans án íss síðustu aldir skeiðisins. Bergmyndunin ber þess glögg merki þar sem móbergið er annars vegar. Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé einmitt móbergið.
Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Myndun móbergsfjallsHafnarfjörð, Hengill, Bláfjöll og hryggirnir á Reykjanesskaga; Fagradals-, Vesturáss-, Austuráss- og Geitahlíðar. Slíkir móbergshryggir myndast í sprungugosi undir jökli eða í sjó. Móbergið sjálft er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnar jöklanir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
“Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ. Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.
Skoðum nánar jarðmyndanir á ísöld. Venja er að skipta íslenskum jarðmyndunum frá ísöld í tvennt. Annars vegar eru jarðmyndanir frá síð-plíósen og fyrri hluta pleistósen sem eru 2,7 – 0,8 Má gamlar og teljast til fyrri hluta ísaldar. Hins vegar er um að ræða yngri jarðmyndanir frá síðari hluta ísaldar en þær eru 700.000 – 10.000 þúsund ára gamlar. Skilin markast af upphafi núverandi segulskeiðs fyrir 700.000 árum. Báðar myndanirnar hafa orðið til á hliðstæðan hátt og eru því líkar í flestu nema hvað aldurinn segir misjafnlega til sín.

Veðrun í móbergi

Munur jarðmyndana frá síð-plíósen og fyrri hluta pleistósen (þ.e. fyrri hluta ísaldar) annars vegar og jarðmyndana frá síðpleistósen (seinni hluta ísaldar) hins vegar felst því í aldri en ekki gerð. Stapar og móbergshryggir sjást ekki í eldri mynduninni því hraunin runnu aðeins að rótum þeirra en þöktu þá ekki. Jöklarnir jöfnuðu þá síðar við jörðu og dreifðu þeim sem jökulruðningi. Hin tignarlegu móbergsfjöll sem við sjáum í landslaginu nú eru því að öllum líkindum mynduð á seinustu jökulskeiðum og líklega flest á því allra seinasta.
Í Esjunni hefur 1650 m þykkur jarðlagastafli verið mældur og kortlagður og nær hann frá upphafi ísaldar (2,5 Má) þar til fyrir um 1,8 milljónum ára. Setlög og gosberg mynduð á ísöld eru um 1/3 af þessum jarðlagastafla.
Upphleðsla jarðlaga frá ísöld sjást vel í Esjunni. Þar má sjá annars vegar hvernig hraunlög runnin frá eldstöðvakerfum á hlýskeiðum hlóðust upp og mynduðu samfelldan stafla berglaga og hins vegar hvernig gos undir jökli hrúguðu upp móbergsmyndunum. Á meðan þessu fór fram rak eldstöðvakerfin út af gosbeltinu en ný og yngri kerfi tóku við innar á beltinu. Frá þeim runnu hraun sem kaffærðu smám saman eldri myndanir en þær eru misjafnlega mikið rofnar eftir jökla fyrri jökulskeiða. Hraunin fergðu líka eldri jarðlög þannig að halli þeirra inn að gosbeltinu óx stöðugt. Elstu og neðstu berglögunum hallar því mest en þeim yngstu minnst. Að síðustu mótuðu jöklar margra jökulskeiða landslag Esjunnar í núverandi mynd.
Síðasta jökulskeiði lauk fyrir 10 þúsund árum og er talið að það hafi staðið í 60 þúsund ár. Allar jökulminjar fjarri núverandi jöklum eru ummerki þessa jökulskeiðs. Það er einkum út frá þessum jökulminjum sem menn reyna að gera sér grein fyrir þykkt, stærð og skriðstefnu jökulskjaldarins sem lá yfir meginhluta landsins.
Vitneskja um þykkt meginjökulsins fæst einkum með rannsóknum á hæstu fjöllum. Móbergsstapar hafa sem kunnugt er myndast við gos undir jökli. Hraunþök stapanna bera vitni um þykkt jökulsins á myndunartíma þeirra á sama hátt og Surtseyjarhraunin segja til um sjávarstöðu þegar eyjan var að rísa úr sæ. Eins sýna háir móbergshryggir að þeir náðu aldrei yfirborði jökulsins meðan á gosi og upphleðslu þeirra stóð.
Harðgerður landnámsgróður í móbergslandslagiVíðast hvar á ystu annesjum má sjá jökulminjar sem veita vitneskju um útbreiðslu jökulsins og á sjávarbotni. Þáverandi fjörumörk lágu jafnvel 100 m neðar en nú.
Sem fyrr sagði myndast móberg við ummyndun gjósku sem verður til við gos undir jökli eða vatni. Mikið af gjósku myndaðist við slíkar aðstæður á kuldaskeiðum ísaldar og varð meginhluti hennar að gleri þegar kvikan snöggkólnaði í vatninu. Þetta glerbrotaberg kallast hyaloclastite á erlendum málum. Glerið ummyndast auðveldlega í palagónít, sem er brúnleitt og gefur móberginu lit.
Móbergið getur því varla talist gosberg því að myndun þess gerist eftir að gosið er um garð gengið. Eigi að síður er það tekið fyrir hér með gosmyndunum. Móbergsmyndunin er jafnan notað um bergmyndun landsins frá því fyrir 700 þúsund árum til loka ísaldar. Síðustu rannsóknir benda til þess að bakteríur flýti fyrir ummynduninni.
Berg, sem sandfok mæðir á, máist aðallega þar sem það er mýkst fyrir. Einkum er þetta áberandi í lagskiptu móbergi og sandsteini. Þetta hafa þeir/þau reynt sem markað hafa stafi í móbergshelluna. Að örfáum árum liðnum eru ummerkin horfin. Klappir og steinar á melum slípast einnig á þeirri hliðinni sem veit á móti sandbyljum en á hinni hliðinni þrífast skófir óáreittar. Þetta kallast vindsvörfun. Á melum hjálpast sandfok og frostlyfting að við að mynda þekju úr grófri möl og hindrar hún þá fok fínustu kornanna sem undir liggja. Víða myndast þannig hin náttúrulegustu listaverk – og engin tvö nákvæmlega eins.

Heimild m.a.:
-Jarðfræðiglósur GK.
-Wikipedia.org
-visindavefurinn.is

Móbergsmyndun á Helgafelli - nútímahraunmyndunin fjær í Grindarskörðum

Hraunklettasprunga

Víða í apalhraunum Reykjanesskagans eru úfnir hraunhólar.
Í helluhraununum eru hraunhveli, jafnan þversprungin. Eitt myndrænasta hraunhvelið er við Reykjanesbraut nálægt Hvassahrauni með Snæfellsjökul í baksýn. Upp á Hraunhóllhraunkollunum, hvort sem um er að ræða hraunhóla eða hraunhveli, er mosi, skófir en beiti,-kræki- og bláberjalyng inn á milli, jafnvel burnirót, tófugras og/eða burkni.
Hraunhvel myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins, storkin kvikan sígur, jaðrarnir leita niður og til hliðanna og bergloftið klofnar.
Ein stærstu hraunhveli eru Krossstaparnir ofan við Lónakotssel, en einn sá tilkomumesti er Álfakirkjan í Geldingarhrauni. Annars eru þessi jarðfræðifyrirbæri mjög algeng, ekki síst í Almenningum þar sem þessar myndir voru teknar. Þeim fylgja oft grónar lautir, skútar og skjól.
Hraunskjól

Grænadyngja

Gengið var á Grænudyngju.
Keilir (379 m.y.s.) er áberandi fjall á Reykjanesskaganum. Trölladyngja (375 m.y.s.) er hins vegar áhugaverðari margra hluta vegna. Áhugaverðust er þó Grænadyngja (393 m.y.s. (reyndist vera 402 metrar er upp var komið)), nágranni Hraunbomba í Grænudyngjuhennar. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Útsýni af Grænudyngju er bæði mikið og stórbrotið; yfir Sog til suðurs og hraunárnar um Einihlíðar til norðurs.
Trölladyngja og Grænadyngja eru yst á Vesturhálsi. Að ganga á Grænudyngju er ein fallegasta gönguleiðin í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Frá höfuðborgarsvæðinu er ekki gott að greina Grænudyngju því í fjarlægð verða skil á milli fjalla og staða ógreinileg og auk þess hefur hún ekki þá lögun sem búast má við að dyngjur hafi. En þetta er einn fallegasti staðurinn á öllu höfuðborgarsvæðinu að mati þeirra er komið hafa á fjallið.
Um tvær leiðir er að velja á Trölladyngju  og Grænudyngju. Hægt er að aka á Höskuldarvelli, sem eru austan við Keili og ganga þaðan á fjallið norðanmegin. Nú er góður vegur af Reykjanesbrautinni inn á vellina og allt að borholusvæðinu neðan við Sogaselsgíg. Þaðan er skammur vegur upp á dyngjurnar. Trölladyngja er vestan við Grænudyngju og skilur á milli lítið dalverpi. Sú fyrrnefnda er klettótt og hvöss en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu.
Að þessu sinni var gengið um dal norðan í dyngjunum, austan við Dyngjurana. Athyglin beinist að fjölbreytilegum litum á landslaginu á þessum slóðum. Hver hefur áður séð grágræna hóla?
Útsýnið stórbrotið þar sem horft var niður á Tröladyngju og Keili. Athyglisvert er að sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem ekki bera nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Tóur eru á stöku stað sem hraunið hefur hlíft.
Milli Trölladyngju og Oddafells eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns. Af Grænudyngju var farið á Á leið á Grænudyngju - Keilir neðarsvipuðum slóðum og upp var komið, en nú var vikið aðeins til vesturs. Þarna heita Sog og þar er Sogaselsgígur, einstaklega fallegur og vel gróinn gígur. Eftir að hafa staldrað við og horft yfir Sog var gengið til norðurs með austanverðri Grænudyngju. Þar í litlum skúta hafi tvo sauði frá Lónakoti fennt inni s.s. vetur. Komið var niður af dyngjunum um miðjan Dynjurana.
Hér á eftir er rifjaður upp svolítill fróðleikur úr góðum ritgerðum um dyngjur og tengd jarðfræðifyrirbæri á Reykjanesskaganum. Í nokkrum tilvikum er um endurtekningar að ræða, en í heild felur efnið í sér mikinn fróðleik um efnið.
“Á Reykjanes gosbeltinu eru gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanes skaginn sé þakinn gosmenjum því að nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri.
Hraunár yfir Einihlíðar - Höfuðborgarsvæðið fjærÁ Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið.
Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun. Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum stundum tekur maður þó ekki eftir þeim þar sem hallinn á þeim er svo lítill og stærð þeirra er slík að maður missir eiginlega af þeim þær framleiða að mestu ólivín þóleiít (78% gosefna). Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001).

Nútíma dyngjur á Íslandi eru um 40 talsins. Þær finnast á Reykjanes gosbeltinu, Vestur gosbeltinu og Norður gosbeltinu en engin er á austur gosbeltinu. Þær eru mjög misjafnar að stærð allt frá litlum dyngjum á Reykjanesi og til Skjaldbreiðs og Trölladyngju.
Dyngjur á Íslandi hafa sennilega myndast á löngum tíma og líklega í röð goshrina, Íslensku dyngjurnar voru einkum virkar framan af nútímanum. Líklega hefur engin dyngja verið virk á Íslandi síðustu 2000 árin. Á upphafi nútíma voru dyngjurnar mikilvirkustu gerðir eldstöðva á Íslandi. Hraun runnu langar leiðir úr þeim og má nefna hraun sem rann norður Bárðardal og er talið vera úr Trölladyngju. Ef það er rétt hefur það hraun runnið yfir 100km og er aldur þess yfir 7000 ár. Dyngjurnar eru aðeins á rekbeltinu og eru langan tíma að myndast. Er því líklegt að þær myndist þar sem kvika kemur beint upp frá möttlinum.”
Berg utan í gígskálinniÞegar gengið var um Dyngjurnar mátti í raun sjá ýmsar berg- og gostegundir þegar vel var að gáð, frá ýmsum tímabilum jarðmyndunarinnar.
“Eldborgir eru eitt flæðigos og gos sem þróast í eina gosrás þegar líður á gosið. Þunnfljótandi kvikan safnast í tjörn sem svo flæðir úr með nokkru millibili. Gígveggir verða brattir ofan til. Eldborg undir Geitahlíð er gott dæmi.
Blandgígar eru úr kleprum eða gjalli. Líklega hafa þeir hlaðist upp í byrjun goss en þegar leið á það byrjaði hraun að flæða og þá myndast oft skarð í þá.” Moshóll við Selsvelli er gott dæmi.
“Sprengigígar gefa af sér aðeins eitt gos upp í sprengigígum og gosefnið er að mestu leiti gjóska. Upphleðsla í kringum gíginn fer eftir krafti gossins, því minni sem gosið er kraftmeira. Hverfell við Mývatn er gríðarlega fallegur sprengigígur.
Ef hægt væri að kalla einhver gos einkennisgos Íslands (ekki síst Reykjanessvæðisins) væru það sprungugos. Þau geta verið nokkur hundruð metra upp í tugi kílómetra. Oft myndast gígar þegar líður á svona gos og þeir geta verið eins eða blandaðir. Blandgígar eru t.d. Lakagígar og Eldgjá. Gjallgígaraðir eins og Vatnaöldur myndast við mikla sprengivirkni sem getur verið tengd hárri grunnvatnsstöðu. Heimaeyjargosið og Kröflueldar eru einnig dæmi um sprungugos.

Feigðarfé í skúta austan í Grænudyngju

Þó að gervigígar séu ekki gosgígar er vert að minnast á þá sem afurð eldgosa. Þeim hefur ekki verið lýst frá öðrum stöðum í heiminum. Þeir verða til þegar hraun rennur yfir votlendi. Vatnið svo snöggsýður og gufusprengingar verða upp í gegnum hraunið og gígarnir myndast. Oft er hægt að þekkja þá á því að þeir eru reglulegir í lögun og uppröðun þeirra er oftast frekar tilviljanakennd.”
“Reykjanesskagi, ásamt Íslandi, liggur á Atlantshafshryggnum en hann er mörk plötuskila Evrasíuflekans og Norður Ameríkuflekans sem mjakast í sitthvora áttina. Þessi hreyfing veldur tíðum umbrotahrinum á hryggnum sem einkennast af jarðskjálftum og eldgosum. Hryggurinn brotnar upp í rekbelti sem tengjast um þverbrotabelti. Slíkt rekbelti er að finna við suðvesturhorn Íslands og nefnist Reykjanesrekbeltið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Reykjanesrekbeltið tengist Atlantshafsrekbeltinu beint og er um 30 km að breidd (Jón Jónsson, 1967). Framhald rekbeltisins er á landi og liggur eftir Reykjanesskaganum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) en hann er einn af tveimur stöðum í heimum þar sem hafshryggur rís úr sjó en það gerir hann að kjöraðstæðum til að rannsaka myndun og mótun hafshryggja á landi (Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007).

Skessuketill á Grænudyngju

Sem fyrr sagði liggur Reykjaneseldstöðvarkerfið í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega fyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr merki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess. Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004).
Trölladyngjueldstöðvarkerfið er um 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Úr kerfinu hafa komið um 40-50 rek- og goshringur og 3 dyngjur. Síðast gaus í því 1151-1180 sem í gosi sem kallaðist Krýsuvíkureldarnir en þar á undan fyrir um 2000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Reykjaneshryggurinn hækkar almennt til norðausturs vegna þess að gosefnaframleiðsla á Íslandi eykst eftir því sem nær dregur heita reitnum á miðju landsins. Um miðbik eldstöðvakerfanna eru háhitasvæðin að finna og hitagjafar þeirra eru grunnstæð innskot (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Það má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir Horft niður á Lambafellsamsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978).
Nútímahraunum og gosstöðvum má skipta í þrjá flokka þ.e. gossprungur og dyngjur en dyngjunum má svo skipta aftur skipta í tvo flokka eftir samsetningu hraunanna. Þessa flokka má svo nánar aðgreina út frá aldri og stærð. Jón Jónsson (1978) telur að hraun runnin á nútíma á Reykjanesskaga nái yfir 1064 km2 og rúmmal þeirra sé um 42 km 3. Af því nái hraun runnin eftir landnám yfir 94 km 2 og hafa um 1,8 km 3 rúmmál.
SoginEldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf  ísaldarjökulsins (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin. Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Við Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).

Sogin

Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga. Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
Dyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið á gosið. .
Bergmyndanir austan í GrænudyngjuStærsta dyngja innan Reykjaneseldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500-3500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni. Eldborg undir Geitahlíð fyrir austan Krýsuvík er dæmigerð eldborg (Þorleifur Einarsson, 1968).
Þegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum.
Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo Keilir frá Grænudyngjuhraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld. Eldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis.
Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
Ösku- og sprengigígar myndast í sprengi- og þeytigosum. Upp hlaðast nær eingöngu laus gosefni eins og vikur og aska eða eingöngu bergmolar. Á kringlóttu gosopið hlaðast upp fagurlagaðir öskugígar en við þeytigos á sprungum myndast öskugígaraðir. Í sprengigosum eru megingosefnin vatnsgufa og gosgufur. Gígkatlarnir verða oft mjög djúpir þannig að þeir ná niður fyrir grunnvatnið og myndast því vatn innan í gígnum. Gott dæmi um sprengigíg er Grænavatn í Krýsuvík.

Trölladyngja frá Grænudyngju

Eldstöðvar sem gjósa líparítösku eru sjaldgæfari en þær sem nefndar voru hér að framan. Líparítkvika er seigari og því hrúgast hún oft upp yfir gosrásinni og rennur lítið til þaðan. Þannig gos eru nefnd troðgos og í þeim myndast hraungúlar sem geta verið mjög stórir.
Troðgos verða á stuttum sprungum eða kringlóttum gosopum og verða hraungúlarnir því oftast nær hringlaga. Eldvörp mynduð við gos í sjó eru svipuð móbergsfjöllum og verða þau ýmist hrygg- eða keilulaga í samræmi við lögun gosopanna og hlíðarbrattinn um 20-35%. Þegar hraunbunga hefur svo myndast ofan á gosmalarbinginn þá verður eldvarpið mjög álíkt móbergsstapa (Þorleifur Einarsson, 1968).
Flest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám. Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Spákonuvatn frá GrænudyngjuÖgmundarhraun vestan Krýsuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krýsuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983). Í Krýsuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879.
Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvarkerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar. Yngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á. Sigurgeirsson, 1995).
Stampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Á efstu brún Grænudyngju (402 m.y.s.)Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin liggur til norðausturs og er mjög slitrótt vegna þess að hún kaffærist á stöku stað af Yngra Stampahrauninu. Skammt austan við Eldra Stampahraun er víðáttumesta hraun á
Reykjanesi sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun. Það er úr 1 km langri sprungu sem liggur í norðaustur í framhaldi af Stampagígaröðinni og er það aðeins yngra en Stampahraunið (Jón Jónsson, 1983). Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón Jónsson, 1983).
Trölladyngjueldstöðvarkerfið hefur tvö háhitasvæði þ.e. Krýsuvík og Trölladyngja. Dyngjur eru aðeins þrjár en tvær þeirra, sem eru jafnframt nafnlausar, hverfa í skuggann af Hrútagjárdyngjunni sem er stærst þeirra. Hún myndaðist fyrir um 5000 árum. Gjall- og klepragígar eru algengastu gígarnir innan kerfisins. Hjá suðvesturenda Sveifluhálsar eru sprengigígarnir Grænavatn og Gestsstaðarvatn ásamt Augum. Þar hefur verið snörp eldvirkni með mikilli gufu og gastegundum. Í mörgum hraunkúlum við Grænavatn eru hnyðlingar úr gabbrói sem bendir til slíks innskots í berggrunninum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) og gerir það svæðið afar merkilegt því gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn fékk nafnið sitt af græna litnum sem er tilkominn vegna brennisteinssambanda. Þetta vatn er meðal merkustu náttúrufyrirbrigða í sinni röð (Sigurður Þórarinsson, 1950). Frægasta eldstöðin úr Trölladyngju er sennilega Eldborg sem reyndar er nú sundurgrafin. Í Brennisteinseldstöðvarkerfinu er Eldborg undir Geitahlíð en hún er stærsti gígurinn á þessari stuttu gossprungu sem gaus rétt fyrir landnám. Hún er djúpur og reisulegur gígur ásamt nokkrum minni. Nokkru sunnan við miðju kerfisins er að finna Brennisteinsfjöll sem draga nafn sitt af brennisteinsnámum sem þar voru á háhitasvæði sem hefur varma sinn frá innskotum í jarðskorpunni. Það eru þrjár dyngjur í kerfinu þ.e. Heiðin há við suðurenda Bláfjalla og er langstærst með 3,6 km í þvermál og 516 metrar að hæð. Hún er sennilega um 7000-9000 ára. Hvirfill er dyngja frá síðasta frá síðasta jökulskeiði og Leitin er yngsta dyngjan og er um 4700 ára. Í Leitarhrauninu mynduðust Rauðhólar einnig. Fyrir um 2000 árum reið goshrina yfir Reykjanesskagann og myndaðist þá gígaröðin með Stórabolla og Eldborg við Drottningu sem er einkar glæsileg eldborg og stendur hún við Bláfjallaveginn (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).”

Keilir frá Grænudyngju

Verndargildi jarðminja hefur ekki verið metið á háhitasvæðum landsins. Jarðminjar sem teljast verðmætar eru algengar á slíkum svæðum, s.s. jarðhitaummerki, gígar, hraun, og brýn ástæða er til að meta þær áður en lengra er farið í virkjun svæðanna. Mat á jarðminjum er grunnur að mati á verndargildi háhitasvæða, enda eru þau jarðfræðilega einstök á heimsmælikvarða.
Eyðilögð Eldborgin undir TrölldyngjuHér á landi hafa verndunarsjónarmið átt á brattann að sækja vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að nýta orkulindir landsins til framleiðslu á ódýrri og vistvænni orku. Rammaáætlun er ætlað að vera vegvísir til þess að samþætta mismunandi nýtingarsjónarmið, raða svæðum upp þannig að orkugeta þeirra og verndargildi verði ljós og á þann hátt taka ákvarðanir um nýtingu þeirra í framtíðinni. Mat á verndargildi jarð- og lífminja er því mjög mikilvægt til að unnt sé að raða orkuríkum svæðum upp á þann hátt að þau verðmætustu komi í ljós og þá hvort vegi meira verðmæti þeirra til orkuvinnslu, til nýtingar sem útivistarsvæði eða verndun til framtíðar.
Sem fyrr sagði þá er Keilir eitt lögulegasta fjallið, séð frá höfuðborgarsvæðinu, en því að ganga upp á slíkt fjall þegar hægt er að ganga upp á nálægt fjall, litskrúðugra, og virða hitt fyrir sér þaðan. Enda er útsýnið miklu mun betra frá Grænudyngju yfir nálægðina til allra átta. Lagt er til að útsýnisskífu verði komið fyrir uppi á Grænudyngju fyrr en seinna.
Svona í lokin, til að forðast misskilning, þá er hvorki Trölladyngja né Grænadyngja eiginlegar dyngjur heldur mynduðust þær í gosi undir jökli – á sprungurein eins, og Núpshlíðarhálsinn (vesturhálsinn) ber með sér.

Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild:
-Jónas Guðnason – Eldvirkni á Íslandi, HÍ í apríl 2007.
-Helgi Torfason og Kristján Jónasson – Mat á verndargildi jarðminja á háhitasvæðum, 2006.
-Málfríður Ómarsdóttir – Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, HÍ apríl 2007.

Sog

Litluborgir

Haldið var í Litluborgir, stundum einnig nefndar Hraungerði og Minni-Dimmuborgir, með viðkomu í Helgadal og Valabóli.
Litluborgir-3Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar skammt fyrir sunnan Helgafell ofan Hafnarfjarðar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr. Hið friðlýsta svæði er 10,6 hektarar að stærð.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði.
Litluborgir í Hafnarfirði, friðlýst sem náttúruvætti í stjórnartíðindum B. nr. 395/2009. Þar segir m.a: “Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Litluborgir við Helgafell í Hafnarfirði sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Litluborgr-2

Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað. Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Umferð vélknúinna farartækja, þ.m.t. vélsleða, er óheimil í náttúruvættinu. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu Litlu­borgum. Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins.

Litluborgr-3

Ræktun og dreifing framandi tegunda er jafnframt óheimil innan marka þess. Skotveiðar eru óheimilar á svæðinu. Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar. Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.”
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Litluborgir í Hafnarfirði, friðlýst sem náttúruvætti í stjórnartíðindum B. nr. 395/2009.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Urriðakotshraun

Gengið var um Urriðakotshraun með  það fyrir augum að skoða nokkrrar klettamyndanir sem þar eru. Sumir klettanna hafa verið nefndir, s.s. Grásteinn og Einbúi, en aðrir bíða skírnar. Urriðakotshraun er hluti Búrfellshrauns.
Urridakotshraun-22“Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Það kom frá Búrfelli, sem er stakur gígur á hinu mikla sprungu- og misgengjasvæði sem teygir sig allt sunnan frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Nafnið Búrfellshraun er samheiti yfir allt hraunið en einstakir hlutar þess heita sínum nöfnum, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Stekkjarhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Flatahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hraunið rann í tveimur meginkvíslum frá Búrfelli norðvestur á milli grágrýtisholtanna og allt í sjó í Hafnarfirði og Skerjafirði. Sjór stóð mun lægra við ströndina þá en hann gerir nú svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina.

Urridakotshraun-23

Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Það er 18 km2 að flatarmáli, meðalþykktin hefur verið áætluð um 16 m og rúmmálið því um 0,3 km3 (Guðmundur Kjartansson 1972). Þykkt hraunsins norður af vatninu er samkvæmt svarfgreiningu í borholum sem þar hafa verið boraðar 6-11 m. Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, birti aldursgreiningar af því árið 1972.  Eitt af sýnunum er af birkilurki ofan á hrauninu við Balaklett í Hafnarfirði, annað af fjörumó rétt undir hrauninu við Balaklett og það þriðja er úr neðstu jurtaleifum í sniði við Balaklett. Aldur hraunsins ætti að vera lítið eitt yngri en aldur fjörumósins. Það er því um 8000 ára og hefur runnið um 6000 f.Kr. Sprungur og misgengi í hrauninu sýna hvar jörð hefur hreyfst og brotnað á síðastliðnum 8000 árum, þ.e. frá því hraunið rann. Sprungusvæðin eru nær eingöngu í þeim hluta hraunsins sem nefnist Smyrlabúðarhraun, þ.e. grennd við gíginn sjálfan og við Kaldárbotna. Ekki er vitað um neinar sprungur eða brot í hrauninu á láglendi eða nærri byggð.”

“Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfellsgígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Urridakotshraun-24Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellshraunið gengur undir ýmsum nöfnum sem fyrr er getið, eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun.

Urridakotshraun-25

Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Hraunið er ólivínbasalt og stærð þess er 18 km2. Grunnmassinn er fremur fínkornóttur og samanstendur af plagióklas, pyroxen, olivín, ilmenít og seguljárni (magnetíti). Búrfellshraun er ólivíndílótt og eru dílarnir 5-8mm í þvermál og stundum stærri.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir fallegri hrauntröð sem nefnist Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur.
Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 Urridakotshraun-26metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni. Niðri í gjánni stendur fjárrétt sem nú er friðlýst.”
Hin ýmsu nafnkenndu hraun Búrfelsshrauns eru bæði lík og ólík. Í flestum þeirra rísa miklir klettadrangar, s.s. Gálgaklettar í Gálgahrauni, Gráhella í Gráhelluhrauni, Einstakihóll í Urriðakotshrauni, Miðdegishóll í Flatahraunu o.s.frv. Urriðakotshraun er hins vegar óvenjuríkt af stökum klettamyndunum eins og meðfylgjandi myndir sýna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Árni Hjartarson – Vatnafar við Urriðakotsvatn – Vatnafarsrannsóknir 2005.
-Verkefni í Jarðfræði 303 – Hildur Einarsdóttir og Þóra Helgadóttir – Flensborgarskólanum vorönn 2000.

Gálgaklettar

Við Gálgakletta.

Miðdalur

Ætlunin var að ganga um Miðdal frá Fremstadal og inn í Innstadal. Þar átti að skoða betur aðstöðu útilegumanna, sem höfðust við í dalnum um miðja 18. öld. Enn má sjá minjar í og undir hamri norðan í dalnum, auk þess sem óvíða er litadýrðin meiri en í nálægu Hveragili.
ÖlkeldanDalir þessir hafa einnig verið nefndir Hengladalir. Um þá rennur Hengladalaáin. Dalir þessir hafa einnig verið nefndir Hengladalir. Í Miðdal (Þrengslum) er Ölkelda. Sagt er að hver sá sem laugar lasinn líkamshluta í keldunni muni alheill verða.

Fyrsta hindrunin var skapillur starfsmaður Orkuveitunnar. Sagði hann FERLIRsþátttakendur ekkert eiga með það að gera að fara um svæðið – þetta væri vinnusvæði. Ekki var þó að sjá að maðurinn væri að vinna, einungis að leggja sig fram við að brúka kjaft við saklausa skoðendur. Til þess hafði hann bæði ökutæki og búnað frá Orkuveitunni – og eflaust á fullu kaupi. Ef þetta er dæmigert viðmót starfsfólks orkuversins á Hellisheiði gagnvart áhugasömu göngufólki um Hengilssvæðið þá þarf það hið sama að endurmeta afstöðu sína til umgengisréttarins við landið. Virkjunarheimild felur ekki í sér rétt til að rífa kjaft við allt og alla.

Litskrúð

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður. Hæstur er hann að norðanvestanverðu þar sem heitir Skeggi eða Vörðu Skeggi (803m yfir sjávarmáli). Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum. Í sleggju sem gengur uppi á fjallinu er líparít. Jarðhiti er utan í Hengli á nokkrum stöðum. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi. Vestastur er innsti dalur, þá Miðdalur en Fremstidalur er austastur. Úr þeim fellur Hengladalaá. Í innsta dal, sem liggur milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls (597 m.y.s.), er einn mesti gufuhver landsins.
Í ÞrengslumVíðar er jarðhiti í Hengladölum. Þar er einnig ölkelda, sem fyrr sagði. Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellirinn sem í eru mannvistarleifar. En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum (sjá meira HÉR).

Þegar komið er fyrir Litla Skarðsmýrarfjall er komið inn í Fremstadal, flatlendan og grösugan. Haldið var upp með ánni og þar til heldur þrengist um og var þá komið í Miðdal. Þar inn af er skarð er Þrengsli heita. Í Þrengslunum er ölkeldan. Þegar að henni var komið var að henni mátti sjá að um var að ræða hverauga með um 100° heitu vatni. Út frá því og umhverfis höfðu orðið til stallaðar og sepalaga kísilmyndanir í ýmsum litum. Þegar vatn úr keldunni var borið við augun varð sá hinn sami alsjáandi. Annar bar vatn úr henni á enni sér og mundi hann samstundist hvað hafði gerst fyrir a.m.k. tveimur dögum síðan. Það er því ljóst að sögur af heilsusamleika ölkelduvatnsins eru meira en bara orðin tóm.

Hengill

Slóðin heldur áfram með suðurhlið dalsins sem er grasi gróinn og sléttur, girtur fjöllum allan hringinn, Hengillinn í allri sinni dýrð til norðurs. Til norðvesturs gengur gil upp í Hengilinn með tignarlegum klettabeltum þar má ganga á Vörðu-Skeggja þó ekki sé það stikuð leið. Að austanverðu er gróið hraun, þar þrengist dalurinn. Lækur rennur eftir dalnum sem verður að Hengladalsá og síðar Varmá, lækjarvatnið er gott til að fylla á drykkjarílát. Í hrauninu er vegprestur sem skiptir leiðum, önnur áfram til austurs yfir á Ölkelduháls, hin til norðurs upp á Vörðu-Skeggja.

Lækur

Áður en farið er í Þrengslin þarf að komast yfir ánna, annað hvort með því að stikla hana eða vaða. Ef menn eru í góðum gönguskóm má víða fara hana á ferðinni og í stóru skrefi án þess að verða svo mikið sem rakir í fæturnar. Þetta er ekki meira vatnsfall en svo. Best er að fara um Þrengslin norðan árinnar vegna þess að hinu megin eru klettar og brattir melar, auk þess minna að sjá.

Í ÞrengslunumEftir að hafa hækkað sig eilítið í Þrengslunum er komið upp í Innstadal og þar gæti þurft enn og aftur að komast yfir Hengladalaánna, á sama hátt og áður en þarna er nokkuð auðvelt að stikla hana. Þarna í Þrengslunum er mikil litadýrð norðan árinnar. Þar er önnur ölkelda og lindaraugu líkt og víða í dölunum.

Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
GígurÁ Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast. Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.
Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubelti sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár.
Þá seig land um einn til tvo metra. Hverir og laugar finnast í öllum eldstöðvakerfunum, en þó mest í Hengilskerfinu. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal.

Litadýrð

Kristján hóf störf hjá Jarðhitadeild Orkustofnunar, forvera ÍSOR, árið 1960. Hann lauk doktorsprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Köln árið 1966 og var aðalviðfangsefni hans var kortlagning á jarðfræði Hengilsins. Kristján hefur verði með afkastamestu jarðfræðingum landsins. Hann hefur kortlagt drjúgan hluta þess í meiri smáatriðum en áður hafði verið gert og með vísindastörfum sínum lagt þung lóð á vogarskálar nútímaskilnings á jarðfræði landsins og þeim öflum sem móta hana. Megináherslan í starfi Kristjáns hefur þó falist jarðhitaleit vítt og breitt um land. Er óhætt að segja að enginn einn maður hafi átt jafndrjúgan þátt í þeim mikla árangri sem náðst hefur á því sviði á Íslandi og Kristján. Fáar eru þær hitaveitur þar sem hann hefur ekki komið að málum.

Fyrir landnám óx birkiskógur með fjölbreyttum undirgróðri upp í 3-400 metra yfir sjávarmáli á svæðinu. Ofar tók við harðgerður og lágvaxinn fjallagróður og samfelld gróðurþekja náði upp í 5-600 metra hæð. Smám saman breyttist gróðurfar í kjölfar kólnandi veðurfars, skógarnytja og búsetu. Nú er samfellt birkikjarr á afmörkuðum svæðum upp af Þingvallavatni. Birkistofninn er kræklóttur og lágvaxinn en getur þó náð tveggja metra hæð. Fjölbreytni í gróðri er allmikil, en grasaættin er einkennandi og útbreiddust. Margar gerðir mólendis eru á svæðinu, en það er mest áberandi í Grafningi. Í Ölfusi er land grösugra, en graslendi nær þó sjaldnast yfir stór samfelld svæði. Á láglendi eru stærstu votlendissvæðin við Villingavatn, Króksmýri og í Dælum austan við Úlfljótsvatnsfjall, auk minni mýrlenda við tjarnir og læki. Allstórt og fjölbreytt flóasvæði er í Fremstadal.
VetrarblómMýrastör er jafnan ríkjandi tegund í mýrum. Strjáll bersvæðisgróður vex á melum, en tegundafjöldi er þó mikill. Þar má nefna geldingahnapp, lambagras, blávingul, blóðberg, músareyra, holurt og holtasóley. Í Nesjahrauni er samfelld breiða af gamburmosa, sem er landnámsplanta á hraunum. Mosinn myndar jarðveg fyrir aðrar tegundir og þar dafna krækilyng, bláberjalyng, blávingull, kornsúra, móasef, túnvingull, hvítmaðra, grávíðir og fleiri tegundir.

Ölkelda (úr öl + kelda sem þýðir í fornnorsku „uppspretta“ eða „lind“) er uppspretta vatns sem inniheldur koltvísýring, en hann á uppruna sinn í storknandi kviku í iðrum Jarðar. Koldíoxíði kemur úr storknandi kviku í iðrum jarðar. Ef menn taka vatn með sér úr ölkeldu dofnar kolsýran fljótt ef vatnið er ekki geymt í lofttæmdum umbúðum. Vatnið úr ölkeldum þykir hressandi drukkið á staðnum og er vatnið ýmist heitt eða kalt. Ölkeldur finnast um allan heim og eru sumar þeirra þekktar sem heilsulindir (Sigurður Þórarinsson, 1978).

Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar uppsprettur sem finnast á háhitasvæðum og oft í jöðrum þeirra. Yfirleitt eru þær járnmengaðar og bragðvondar og vatnið rauðbrúnleitt, jafnvel svo liti heilu lækina. Vatn úr þeim köldustu sem mest ólga af kolsýrunni er drekkandi þótt brúnleitt sé.

Lóuegg

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 18. öld, er fjallað um ölkeldur á Snæfellsnesi. Þar telja þeir ölkeldur bæta Snæfellsnesi þann missi að hafa ekki neitt heitt vatn. Í ferðabókinni eru ölkeldur skilgreindar sem “uppsprettur sem eru auðugar af málmsöltum og með bragðmiklu vatni”. Eggert og Bjarni reyndu að flytja ölkelduvatn með sér til Kaupmannahafnar en vatnið skemmdist á leiðinni. Þeir félagar álitu að ölkeldur gætu orðið til mikilla hagsbóta fyrir Íslendinga því í öðrum löndum væru hressingarhæli oft byggð nálægt ölkeldum. Enn hefur þó lítið verið gert til að nýta það ölkelduvatn sem finnst á Íslandi.

Í HveragiliGufu- og leirhverir finnast aðeins á háhitasvæðum. Í raun er um samskonar hveri að ræða og því eru þeir oft flokkaðir saman. Í leirhverum nær vatnið upp í hvernum en í gufuhverum er svo djúpt á grunnvatnið að ekkert vatn er sýnilegt. Í gufuhverum leitar vatn yfir suðumarki til yfirborðsins og streymir þar út sem gufa. Í raun getur sami hverinn verið bæði gufu- og leirhver, bara ekki á sama tíma. Í miklum þurrkum getur leirhver þornað upp og orðið að gufuhver. Leir hveranna samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi.
Vatnshverir eru einkennandi fyrir lághitasvæði en finnast líka í einhverju mæli á háhitasvæðum. Vatnshverir á sama jarðhitasvæðinu liggja oftast nær í beinni línu eða í þyrpingum sem ná frá tugum til hundruð metra í lengd. Venjulega má þá finna sprungu undir hveraröðinni sem gefur til kynna að heita vatnið eigi upptök sín þar.

SkjólHellir útilegumannanna var skoðaður sem og undirliggjandi minjar. Undir stórum steini mátti sjá votta fyrir hleðslum. Bæði höfðu þær fallið inn á gólfið og regnvatn hafði fært sand og möl inn í skúta sem þar er. Staðurinn hefur verið hið ágætasta afdrep fyrir þá sem vildu leynast fyrir ferðum fólks um Innstadal því ekkert af því hefði átt erindi þangað að hömrunum.
Til baka var gengið frá upprunalindum Hengladalaárinnar og meðfram henni að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Ölkeldan

Hrauntún

Hraun á Íslandi taka yfir 120 fermílur. Þau eru einkum um miðbik landsins, en hvorki á Austfjörðum né Vestfjörðum. Hraun eru öll fram komin við eldgos; af sumum hafa menn sögur, hvenær þau mynduðust, en flest hafa brunnið fyrir landnámstíð. Flest eru gróðurlítil eða gróðurlaus. Þau er myndast hafa síðan land byggðist eru flest enn þá graslaus, en aðeins hulin mosa hér og hvar, en sum hinna eru á einstaka stað grasi vaxin, þó óvíðast sé það svo, að það sé til gagns og nytsemdar fyrir landsbúa.
Sprunginn hraunhóll í ÞjófahrauniHraunin eru ýmisleg að lögun og ásigkomulagi, eftir því, hvernig þau hafa myndast. Sumstaðar eru þau slétt, með rákum og öldum eftir rennslið, þar sem hallinn hefir verið lítill, en sumstaðar, þar sem óslétt hefir verið eða brattlendi, eru þau ófær yfirferðar, því að þar er hraunspildum, gjalli, ösku og stórgrýti hrúgað svo saman, að það er engu líkara öðru en því, að stórsjór í hafróti og roki hefði allt í einu orðið að steini.
Efsta skánin á hrauni kólnar og storknar fyrst af loftkuldanum, en neðar rennur áfram miklu lengur brætt hraun. Þegar nú eldgosinu slotar, verður hraunskánin efsta oft á huldu og fellur sumstaðar niður, en sumstaðar myndast ýmislegir hellar og holur, en hér og hvar rifnar hraunið, er það kólnar og dregst saman, og verða þar stórar sprungur og gjár. Hraun eru eigi nein sérstök steintegund, heldur samanbrædd hella af ýmsum steinum og bergtegundum.
Reykjaneshraunin eru samanhangandi hraunfláki, er nær norðan frá Langjökli út á Reykjanestá. Það eru ótal smá og stór hraun í stórum spildum og kvíslum, og hafa komið frá ýmsum eldfjöllum, flest fyrir landnámstíð. Í þeim eru víða stórar sprungur og gjár, hverar og laugar. Merkasta hraun á þeim hraunfláka er Þingvallahraun.
Sprunginn helluhraunsflekiÁ sögulegum tíma hafa runnið a.m.k. 25 hraun á Reykjanesskaganum. Sjá má hvar þau hafa runnið yfir eldri hraun á afmörkuðum svæðum, fært ströndina utar, runnið niður í eldri sprungur, fyllt fyrrum lægðir, dali og eldri jarðmyndanir, hlaðið upp skjól o.s.frv. Og landmótunin mun halda áfram – og hugsanlega breytast á næstu árþúsundum.
Storknun tekur mjög mislangan tíma eftir ytri aðstæðum: Gjóska (eldfjallaaska, gjall og vikur) kólnar á fáeinum sekúndum, ekki síst ef gosið verður í vatni eða undir jökli. Hraun verða að “hörðum steini” á skömmum tíma þótt glóðin geti varað í 10 ár inni í hrauninu, eins og gerðist í Eldfellshrauninu í Vestmannaeyjum þar sem varminn í hrauninu var nýttur til húshitunar í áratug. Kvika sem er djúpt niðri í jörðinni tekur aldir að storkna. Stundum rennur nýtt hraun yfir jarðhitasvæði og nær þá undirliggjandi hitinn fljótlega upp úr nýmynduninni.
Hraun er bráðið berg eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar.  Bergkvika er seigfljótandi efni í iðrum reikistjarna, sem safnast fyrir í kvikuhólfum. Þar getur hún kristallast og myndað innskot eða borist til yfirborðs í eldgosi og storknað sem gosberg. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun.
HraunhveliBasísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.
Kísill er frumefni með efnatáknið Si og er númer fjórtán í lotukerfinu. Fjórgildur málmungur, kísill er ekki jafn hvarfgjarn og efnafræðileg hliðstæða þess, kolefni. Kísill er annað algengasta frumefnið í jarðskorpunni sem að samanstendur af 25,7% kísil ef mælt er eftir þyngd. Það finnst í leir, feldspati, kvars og sandi, þá aðallega í formi kísiltvíoxíðs (þekkt einnig sem kísl) eða sílikata (efnasambönd sem að innihalda kísil, súrefni og málma). Kísill er aðaluppistaða glers, sements, postulíns, flestra hálfleiðara, og silíkona (plastefni).
Hraun eru orðið að “hörðum steini” löngu áður en það er fullstorkið. Reynslan er sú að hörð skorpa myndast á glóandi hrauni eftir fáeinar sekúndur og fljótlega er hægt að ganga á hrauninu á góðum skóm vegna þess hve slæmur varmaleiðari (eða góður einangrari) berg er. Varminn frá 1200 stiga heitri kviku streymir sem sagt hægt út gegnum storknuðu skorpuna. Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg.
Fasta bergið er samsett úr kristölluðum Urðarás í Hraunumsteindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.
Dyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað mörg ár eða áratugi.

Apalhraun

Á Íslandi setja dyngjur mikinn svip á landslagið. Einna þekktastar eru Skjaldbreiður og Trölladyngja, hvor um sig um 600 metrar á hæð frá rótum. Aðrar eru flatari og ógreinilegri í landslaginu, s.s. Kjalhraun hjá Hveravöllum og Lyngdalsheiði. Stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru “Aa-lava” (apalhraun) og “Pahoehoe” (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.

Helluhraun

Helluhraun.

Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Í helluhraunum má oft sjá, auk hraunsléttunar, sprungna kolla. Þeir myndast þegar yfirborðsstorkið hraun rennur frá eftir að kvikan rann yfir hóla og hæðir eða sprungur myndast á sléttum afmörkuðumhraunflekum. Eftir standa svonefnd hraunhveli. Andstætt fyrirbæri eru urðarásar þar sem afmörkuð hraunsvæði brotna niður í kvosir, líklega vegna þess að undir voru hraunrásir eða -hvelfingar. Víða má sjá svipað fyrirbæri sem hraunbolla eða jarðföll.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir. Dæmi um slíka hella eru Surtshellir og Raufarhólshellir.
Apalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun eru sum hraunin sem liggja yfir Suðurnesin. Oft getur verið um blandgos að ræða, þ.e. hraunin verða í fyrstu þunnfljótandi helluhraun, en breytast í úfin apalhraun þegar frá dregur upptökunum og kvikan kólnar.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.org

Hraunreipi

Hraunreipi.