Færslur

Hnúkar

Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.

Hnúkar

Tóft í Hnúkum.

Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.

Hnúkar

Hnúkar.

Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.

Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

Hnúkar

Lóa í Hnúkum.

Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Sandfelli um Hrútagjádyngju og á hellasvæðið norðan hennar.
Við Sandfell er Hrútfell, sem dyngjan dregur nafn sitt af. Á toppi þess stendur hrúturinn. Hrúthólmi er vestan dyngjunnar og Hrútafell sunnar. Dyngjan sjálf er mikil um sig. Gígurinn er hringlaga og sléttur í henni vestanverðri. Út frá honum liggja myndarlegar hrauntraðir er mynduðust er hraunið rann fyrir u.þ.b. 4500 árum síðan.
Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur. Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.

Í Hrútagjárdyngju

Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum. Gígbarmarnir rísa venjulega ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheiði (Hnúkum). Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju. Utan Íslands eru dyngjur sjaldgæfar nema á Hawaii-eyjum þar sem þrjár dyngjur eru enn virkar. Úr dyngjunum renna oft mikil hraun, sbr. Sandfellshæðina, Þráinsskjöld, Heiðina há og Hrútargjárdyngju.
Hrútargjárdyngja er einstaklega fallegt jarðfræðifyrirbæri. Barmar meginhraunsins hafa lyfst á gostímanum og myndað veggi og gjár með köntunum. Hrauntraðirnar eru miklar vegna hins mikla hraunmassa og hafa myndað gerðarlega og greiðfæra ganga um hraunið.
Hellunum neðan Hrútargjárdyngju er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, sjá meira HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Árni Hjartarson – JÍ 2003.Í Húshellli

Svartsengi

Í upphafi ferðar var Gjáin, fræðslumiðstöð Hitaveitu Suðurnesja í Eldborg við Svartsengi, skoðuð. Um er að ræða sýningu Hitaveitu Suðurnesja um jarðfræði, jarðhita og vinnslu orku úr iðrum jarðar við orkuverið í Svartsengi.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Ísland býður einstök skilyrði til að sjá og rannsaka flest, sem varðar jarðfræði, eldvirkni og jarðhita, því að landið er jarðfræðilega ungt og enn þá í mótun. Landið er eins og gluggi inn í fortíð og framtíð þessarar þróunar, þannig að með lestri jarðlaga má leiða líkur að því, sem koma skal. Hérlendis eru stærstu jöklar og mestu jökulsár Evrópu, mestu há- og lághitasvæðin, óvenjulega mikil eld- og jarðskjálftavirkni auk stórbrotinnar náttúru.
Leikir sem lærðir njóta sýningarinnar í Gjánni, sem leiðir gesti um almenna jarðfræði jarðarinnar, jarðfræði landsins, Reykjaness og Svartsengis og skýrir tengsl skyldra fræðigreina með forrannsóknum og eftirliti á
háhitasvæðum. Jarðboranir á slíkum svæðum eru einnig skýrðar og farið í gegnum framleiðsluferli rafmagns og hitaveituvatns í orkuverinu í Svartsengi.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Tæknibúnaður sýningarinnar er mjög fullkominn. Unnt er að sýna margar myndir í einu og tengja þær ýmsum hljóðum samtímis. Myndir er m.a. sýndar á 42” plasmaskjám og geymdar á stafrænum MPEG mynd- og hljóðgrunnum. Allar myndir eru með víðómi. Í enda Gjárinnar er stærra sýningartjald í hvelfingu. Það er tengt kvikmyndahljóðkerfi fyrir Dolby-umhverfishljóð, sem eru geymd á stafrænum hljóðkerfum, og ljósum, sem er stýrt í samræmi við viðburðina.
Ár hvert koma þúsundir gesta í Svartsengi til að kynna sér starfsemi Hitaveitu Suðurnesja. Þarna eru á ferðinni ferðamenn, skólafólk, fjölskyldur og sérfræðingar á ýmsum sviðum jarðvísinda. Hitaveitunni þótti tímabært að skapa aðstöðu til gestamóttöku og veita nokkra innsýn í undur íslenzkrar náttúru og aðferðirnar, sem er beitt við breytingu náttúruaflanna í birtu og yl fyrir byggðirnar á Suðurnesjum.

Þá var gengið til vesturs um Illahraun og Bræðrahraun, yfir Skipsstíg og að Árnastíg þar sem hann sem hann liggur um Eldvörp. Arnarseturshraunið (apal), sem er þarna skammt norðar, rann á sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Annars eru hraunin við Svartsengi og Grindavík ca 2400 ára. Víðast hvar eru þau greiðfær yfirferðar.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Á gömlu þjóðleiðunum má víða sjá djúpt markaðar götur í bergið eftir umferðina í gegnum tíðina.
Illahraun er víða illt yfirferðar, en auðvelt er að þræða það um greiðfærar mosasléttur ef vel er að gáð. Og ekki er varra að vera vel kunnugur í hrauninu og þekkja staðhætti. Þrætt var greiðfær leið að þessu sinni og gengið að tveimur einstaklega fallegum gígum í hrauninu. Annar er reglulegur hraungígur en hinn, sá syðri er opinn mót austri. Í honum eru einstaklega fallegir kleprar. Nyrðri gígurinn er opinn mót vestri, en sá syðri mót austri.

Gengið var til vesturs frá gígunum, yfir vestanvert Illahraun og var þá skömmu síðar komið inn á Skipsstíginn þar sem hann liggur um Blettahraun, hina gömlu þjóðleið, er liggur þarna milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Stígurinn er vel varðaður og sum staðar klappaður í slétt bergið. Hann liðast síðan áfram suður Skipsstígshraun og Blettahraun. Stígnum var fylgt spölkorn til suðurs uns komið var inn á Eldvarpaveginn. Sá vegur var síðan eltur út í Eldvörp.

Eldvörp

Í helli í Eldvörpum.

Þaðan var haldið norður eftir Eldvörpum, um 9 km langri gígaröð er kom upp úr jarðskorpunni 1226. Árnastígur liggur þarna yfir Eldvörpin. Áður var haldlagður endilangur stigi frá Slökkviliði Grindavíkur, nógu langur til að ná til hæstu hæða í þeim bæ. Fjóra menn þurfti til að bera hann upp í gíga, sem nú var stefnt á norðan við mið-Eldvörpin. Þar eru tveir djúpir gígar, annar um 8 metrar á dýpt og hinn (sá nyrðri) a.m.k. 10-11 metrar. Hægt er að komast inn í syðri gíginn um op vestan hans og feta sig síðan niður á við neðan við gígopið. Þar sést niður í hyldjúpar gjár, sem liggja þarna eftir gígaröðinni að sunnanverðu. Tveir tréplankar voru þar við lítið op.
Eftir að gígbotninn hafði verið fullkannaður var langur brunastiginn látinn síga niður í nyrðra opið. Þegar niður var komið blasti við stórbrotið útsýni upp um gígopið. Niðri var rúmgott og nokkrar stuttar rásir með fallegum hraunmyndunum í. Á einum stað var sem hraunkúlur hafi verið smurðar brúnlitu hrauni. Rásinar voru að mestu hvítar að innan, sennilega vegna kísilútfellinga. Litla opið, þar sem tréplankarnir voru innan við syðra opið, liggur að rás yfir í nyrðri gíginn. Ef gatið yrði rýmkað nokkuð, sem ætti að vera tiltölulega auðvelt, væri hægt að komast úr syðri gígnum yfir í þann nyrðri.
Ástæða er til að þakka Slökkviliði Grindavíkur stigaframlag þess til landkönnunar á svæðinu.
Norðar heldur falleg gígaröð Eldvarpanna áfram og eru gígarnir hver öðrum fallegri. Um er að ræða reglulega klepra- og gjallgíga, svo til óraskaða. Gígarir voru þræddir og skoðaðir.

Eldvörp

Hraundrýli í Eldvörpum.

Skammt norðaustar er stutt gígaröð til hliðar við enda Eldvarpanna. Henni var fylgt til norðurs. Við enda þeirra er eitt fallegasta hraundríli Reykjanessins. Þegar klifrað var upp á drílið, sem er um fimm metra á hæð, sást ílangt opið. Dýpið niður er um 6-7 metrar. Svo var að sjá sem þar undir væri brúnleit rás. Þangað þarf að fara með stiga við tækifæri og kíkja niður í drílið. Slóði liggurinn þarna um hraunið frá Eldvarpavegi að og inn fyrir Lat.
Framundan var nokkuð stór gígur. Utan í honum er úbrunnið hverasvæði, ljóst að lit í annars rauðlitum gíghlíðinni. Þarna má finna hveraúfellingar og gufusoðið grágrýti. Skammt norðar er Latur, fagurlega formaður eldgígur. Hann stendur nokkuð hátt og af honum er víðáttumikið útsýni yfir fjöllin og hraunin í nágrenninu. Vestan við er Sandfellshæðin, Sandfellið, Lágafell, Gígurinn og Þórðarfell. Suðaustar er Þorbjarnarfell og Sýlingafell, austar Stóra-Skógfell og gígurinn Arnarsetur.

Hraunrásin frá Gígnum sést vel í hauninu. Austan við er slétt helluhraunslægð. Annars eru hraunskilin vel greinileg þaðan frá séð. Norðaustan við Lat er enn ein gígaröðin, nokkrir smáir en fallegir gígar. Svo er að sjá að gosið hafi þarna á a.m.k. þremur samhliða reinum á mismunandi tíma með mismiklum hraungosum. Hraunin frá Eldvörpum liggja að Gígshrauninu. Að því kemur Illahraun, en á milli liggur Bræðrahraun úr gígunum umhverfis Lat. Latur hefur sjálfur rutt úr sér miklu hrauni, en hluti þess er greinilega undir öðrum hraunum. Austar kemur Arnarseturshraun að þeim, sem vestar eru. Allt myndar þetta umkomumikið hraunspil.

Eldvörp

Hveravirkni í Eldvörpum.

Loks var stefnan tekin til austurs yfir tiltölulega slétt mosahraun, að Bláa lóninu, þar sem veitingar voru þegnar í boði þátttakenda.
Hitaveita Suðurnesja rekur orkuverið í Svartsengi þar sem jarðsjó er dælt upp úr 2000 metra djúpum borholum. Jarðsjóinn er ekki hægt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu og mikils steinefnainnihalds. Því er jarðsjórinn notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðvökvi sem ekki er nýttur til beinnar upphitunar er 80°C heitur þegar honum er hleypt út á hraunbreiðuna. Vökvinn ásamt þéttiefni jarðgufu myndar Bláa lónið. Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísil og sérstökum blágrænþörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa lónið er líka kjörinn viðkomustaður fyrir göngufólk um hið litríka jarfræðisvæði í nágrenninu og ofan við Grindavík.
FERLIRsfélagar fengu leyfi til að ganga í gegnu athafnasvæði Bláa lónsins – yfir að Gjánni, þar sem hringferðinni lauk.

Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Sjá meira um Eldvörp HÉR, HÉR og HÉR, HÉR, HÉR og einkum HÉR. Auk þess HÉR.Eldvörp

Krýsuvík
Í Krýsuvík eru alsnægtir jarðfræðiáhugafólks – jarðhiti, ísaldarmyndun fjalla, jökulsorf og bergmyndanir í ólíklegasta formi, Má þar nefna bólstraberg, móberg og hnyðlinga, að ónefndum einsökum bergmyndunum í norðanverðu Bæjarfelli.
KrýsuvíkEinhverju sinni skrifaði spakmælt dóttir föður sínum, eftir að hún hafði farið til framhaldsmenntunar í fjarlægðri heimsálfu, eftirfarandi: „Sæll pabbi minn, fór í heimsókn og bar úr bítum lús. Tók eftir því er ég lagðist í rúmið mitt um kvöldið. Segja má því að nú sé ég loksins komin í skóla lífins“. Það má sama hæti segja að enginn jarfræðingur eða áhugamaður/-kona um jarðfræði hafi numið í skóla lífsins fyrr en hann/hún hafi skoðað og gaumgæft Krýsuvíkursvæðið.
Jarðfræðiskóli lífsins er því í Krýsuvík. Þar má sjá með eigin augum ferðalög efnis og áfangastaði þess um allnokkurn tíma, afleiðingar jarðskjálfta og eldsumbrota og þar má auðveldlega geta sér til um hvert framhaldið kann að verða.Â
Í Krýsuvík er ágætt dæmi um ker, þ.e. sprengigíg með lágum gígrima og þar sem nær eingöngu koma upp gosgufur. Oft er og stöðuvatn í slíkum gígum. Ker þetta er Grænavatn.
Ker, sem á vísindamáli kallast maar, verða til við gufusprengingar á sívalri gosrás þegar eingöngu gýs gosgufum og bergmylsnu sem rifnað hefur úr gosrásinni. Oft er sprengikrafturinn svo mikill að upphleðslan verður lítil sem engin á börmunum. Kerin eru yfirleitt svo djúp að þau ná niður fyrir grunnvatnsborð og vatn safnast því fyrir í gígnum að gosi loknu.
Strangt tiltekið fellur líklega enginn íslenskur sprengigígur undir þessa skilgreiningu því þeir hafa flestir gosið gjósku eða hraunspýjum úr ferskri kviku. Grænavatn í Krísuvík kemst því líklega næst því að kallast ker. Í þennan flokk er einnig venja að flokka gígvötnin í Veiðivötnum, Ljótapoll og Hnausahyl. Heiti sitt dregur þessi gerð eldfjalla af Kerinu í Tjarnarhólum í Grímsnesi sem lengi vel var líka talið til þeirra þó síðar hafi komið í ljós að það er venjulegur gjall- og klepragígur sem hraun hefur runnið frá.
Grænavatn er einnig ágætt dæmi um svonefnd gígvötn.
Hnyðlingar eru brot úr framandbergi sem berst upp með kvikunni og því ekki eiginleg gosefni. Brotin eru líklegast úr gígrásinni eða úr þaki kvikuþróarinnar. Oft eru slík brot úr grófkornóttu djúpbergi og skera sig því greinilega úr fín- eða dulkornóttum bergmassa hraunsins eins og til dæmis í hrauninu í Hrólfsvík austan Grindavíkur. Hnyðlingarnir þeytast oft hátt upp úr gígnum og lenda síðan hjúpaðir storku kvikunnar. Slíkir hnyðlingar eru algengir umhverfis sprengigíginn Grænavatn við sunnanvert Kleifarvatn í Krísuvík.Â
Þekktur fundarstaður gabbróhnyðlinga á Íslandi eru t.d. við Grænavatn í Krísuvík og Miðfell og Mælifell við Þingvallavatn. Greina má ólivín (grænt) og plagíoklas (grár) í hnyðlingnum á myndinni auk þess sem greinilega má sjá
Krýsuvíknæstum hvítan hvarfarima á milli hnyðlings og grannbergs. Riminn er svo til eingöngu úr plagíóklas sem hefur vaxið hornrétt á hyðlingana.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²). Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.
Hverasvæðin í Krýsuvík hafa um aldir haft mikið aðdráttarafl. Stærsti leirhver landsins er í Krýsuvík og þar má reyndar finna flest allt er prýtt getur slík svæði. Fjölbreytnin er ótrúlega mikil. Brennisteinn var m.a. unninn á svæðinu á 19 öld. Hverasvæðunum er gerð skil í annarri umfjöllun á vefsíðunni.
 Helstu skjálftasvæðin á Íslandi eru tvö. Á Suðurlandi er jarðskjálftasvæði sem nær eftir Reykjanesskaga um Ölfus og
Suðurlandsundirlendið austur að Heklu. Úti fyrir Norðurlandi er annað skjálftasvæði. Það nær frá mynni Skagafjarðar og austur að Melrakkasléttu. Á báðum þessum svæðum eru þverbrotabelti með þvergengjum á Atlantshafshryggnum. Á Suðurlandi er vinstra sniðgengi en hægra sniðgengi úti fyrir Norðurlandi. Vegna ármilljóna langrar sögu af jarðskjálftum og jarðummyndunum á svæðum sem Reykjanesinu þarf enginn í raun að hafa áhyggjur. Ef eithvað áhugavet gerist verður að án efa einhverjum, og jafnvel fleirum, til framdráttar. Eldgos hér á landi hafa ávallt orðið til að auka við landið, sem náttúruöflin hafa reynt að brjóta niður með einum eða öðum hætti. Sjórinn nagar strandirnar, jöklar, vindur og vatn sverfa fjöll og hlíðar og ár og lækir reyna að fletja út bakka og fjallshlíðar.
Lúsin kemur og hverfur. Það gera fjöllin einnig – jafnvel þótt þau virðist tilkomumikil um stund.
Sjá umfjöllun um bólstramyndun á Lambatanga við Kleifarvatn HÉR.

Krýsuvík

Jarðmyndanir í Seltúni.

Litluborgir

Hér á eftir eru nokkur atriði varðandi jarðmyndanir, hraun og jarðsyrpur á Reykjanesi.

-Jarðmyndanir:
Eldstöðvarkerfin á Reykjanesi eru fimm talsins og liggja frá norðaustri til suðvesturs. Á þeim hafa myndast gossprungur og gos hraun komið upp á nútíma (frá því fyrir 12-13 þús. árum). Áður var til grágrýtismyndunin úr fornum dyngjum, sem Rosmhvalanesið, Njarðvík, Stapinn, Löngubrekkur og Fagradalsfjall hvíla á.

-Jarðsyrpur:

Rosmhvalanesið er dæmi um fornar dyngjur á Reykjanesinu (eldri en 120 þús ára). Jökullinn hefur hefur sorfið klappir og mótað landið. Hann hopaði fyrir 12-13 þús. árum á Reykjanesi. Sjá má merki þess einnig á Lönguhlíðum, á Krýsurvíkurheiði í Fagradalsfjalli og ofan við Húsatóftir.
Helstu fjöll og fjallgarðar verða til á síðasta jökulskeiði, áður en jökullinn hopaði, s.s. Austurháls, Vesturháls, Keilir, Trölladyngja, hluti Fagradalsfjalls, Þorbjörn, Lágafell, Þórðarfell, Stapafell og Súlur.
Nútímahraun renna eftir að ís leysti. Verða þá sprungugos (apal- og helluhraun) þar sem má þekkja eldri og grónari hraunin, s.s. Katlahraun, Skógfelllahraun, Sundhnúkahraun, Hvassahraun, Helluhraunið eldra, Dyngnahraun, Stampahraunið eldra, Eldvarpahraunin eldri o.fl. Meginhluti skagans er þakin nútímahraunum, þ.e. hraunum er runnu eftir að jökul leysti (12-13 þúsund ára).
Nokkrar litlar dyngjur hafa gosið eftir síðasta kuldaskeið, s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðagígar, Lágafell og Hraunsfell-Vatnsfell (pikrít).
Þrjár til fjórar stórar dyngjur hafa einnig gosið á nútíma, s.s. Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja. Þá má nefna heiðina há og Strandarheiði. Mikil gos er skilað hafa miklu hraunmagni. Þessi hraun, auk sprunguhraunanna, hafa fyllt duglega inn á milli móbergssfjallanna og myndað skagann smám saman.
Sprunguhraun héldu áfram að renna á sögulegum tíma (um og í kringum 1000 (Kristnitökuhraun), 1151 (Ögmundarhraun), 1188 (Afstapahraun) og 1226 (Stampahraun yngra). Þetta voru aðallega apalhraun, en þó einnig helluhraun (Arnarseturshraun).
Gjár og sprungur (NA-SV) einkenna Reykjanesskaga. Misgengi má sjá víða, s.s. við Snorrastaðatjarnir. Einnig þversprungur og misgengi (NS), s.s. í Þorbirni.
Víða má sjá einstakar og fallegar hraunmyndanir, s.s. gjall- og klepragíga, dyngjur og móbergs- og bólstramyndanir.

-Jarðfræði, jarðasaga, jarðlagagerð og nokkur örnefni:
Stutt ágrip af gerð jarðmyndana á utanverðum Reykjanesskaga. og Reykjanesskaginn (JAR122).
Reykjanes-Langjökulssvæðið varð virkt fyrir um 7 milljónum ára þegar suðurhluti rekhryggjarins er lá um Snæfellsnesið dó út. Eldvirknin byrjaði nyrst en færði sig smám saman til suðurs og hlóð upp skagann.
Yfirborðbergið er grágrýti (dyngjuhraun), móberg og bólstraberg (Stapafell, Keilir) og nútímahraun, bæði frá því er ísa leysti fyrir 12-14 þús. árum (dyngjuhraun og sprunguhraun) og hraun frá sögulegum tíma. Forsögulegu hraunin eru runninn á nútíma, áður en landnáms hefst, en sögulegu hraunin eftir landnám. Stóru dyngjurnar eru Sandfellshæðin, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja (og jafnvel Strandarhæð), en auk þeirra eru nokkrar minni og eldri (pikrít-dyngjur), s.s. Háleyjarbunga, Skálafell, Vatnsheiðargígar, Hraunsfells-Vatnsfell og Lágafell.
Frá ísaldarlokum hafa komið upp um 42 km3 af hraunum að flatarmáli um 1100 km2 frá yfir 200 eldstöðvum í 4 (5 eða 6) eldstöðvakerfum. Megineldstöð er aðeins að finna í Henglinum.
Jarðskjálftarenna liggur eftir miðjum skaganum og markar líklega mót plantnanna. Þar sem hún sker eldstöðvakerfin eru háhitasvæðin.
Síðasta kuldaskeið (ísöld) hófst fyrir um 120.000 árum þegar um 20.000 ára hlýskeiði lauk. Móbergsstapar gefa þykkt jökulsins til kynna, þ.e.a.s. hæð hraunhettu þeirra yfir umhverfið.
Grindavíkurfjöllin hafa þau sérkenni að berg þeirra hefur öfuga segulstefnu miðað við þá sem er í dag. Aldur þeirra er um 40.000 ár (sjá Siglubergsháls hér á eftir).
Gosbeltin, sem marka skilin á milli skorpuflekanna eru 24-50 km breið. Eldvirknin innan þeirra er ekki jafn dreifð heldur raðast gosstöðvar og sprungur á nokkrar vel afmarkaðar reinar með mestri virkni um miðbikið. Eldstöðvakerfi skagans hliðrast til austurs. Stefna þeirra er NA-SV, en gosbeltið stefnir lítið eitt norðan við austur.
Margt bendir til að eldgos á Reykjanesskaga verði í hrinum eða lotum á um það vil 1000 ára fresti. Gos á sögulegum tíma urðu t.d. árið 1000 (Hellnahraun), 1151 (Ögmundarhraun, Astapahraun), 1188 (Mávahlíðarhraun), 1211 (Yngra Stampahraun) og 1226 (gígar utan við Reykjanesið).

-Einstök fjöll, fjallshryggir, gígar og hraun:
Grágrýtismyndunin á Rosmhvalanesi og Stapanum svo og upp af Krýsuvíkurbjargi er 120-220 þúsund ára.
Valahnjúkur er úr móbergi, en alláberandi er brotaberg, bólstraberg og grágrýtisinnskot.
Bæjarfell/Vatnsfell eru úr bólstrabergi eins og Litlafell. Mynduð á svipuðum tíma og Valahnúkur.
Sýrfell er ú móbergstúffi og móbergsbrotabergi.
Miðaldarlagið (aska frá 1126) er leiðarlag á Reykjanesskaga upp í Hvalfjörð, Þingvallasveit og Ölfus. Kom líklega úr tveimur gígum, 2-3 km SV af Reykjanesi, sem náða hafa upp úr sjó og gosið surtseysku gosi. Nú eru þar 40-60 m háir hólar á um 20 m dýpi á sjávarhrygg.
Eldra Stampahraunið er rúmlega 1500 ára. Gígaröðin er um 5 km að lengd og samanstendur af nokkrum allstórum gjallgígum og ótalsmáum kleprahrúgöldum. Einn gíganna ber þess glögg merki að hafa gosið í fjöruborði og þá hlaðist upp öskukeila en gosið breyst í hraungos líkt og með með mörg sprunguhraunanna á Reykjanesi.
Yngra Stampahraunið er frá 1211 og fyrsta gosið í Reykjaneseldum. Gígaröðin er um 4 km að lengd og endar í tveimur klepra- og gjallgígum, sem rísa um 20 m upp úr hrauninu. Gígar þessir nefnast Stampar og tekur hraunið nafn af þeim.
Haugshraun er kennt við gíginn Haug, sem stendur á vesturbarmi sigdals, sem nefnist Haugsvörðugjá. Prestastígurinn liggur m.a. um dalverpið.
Skálafell og Háleyjabunga eru gamlar dyngjur (pikrít), eð aum 14.000 ára. Háleyjabungan er eldri en Skálafellið. Í toppi hennar er hringlaga, skjólgóður og snotur gígur.
Sandfellshæðin er dyngja. Úr henni er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum. Yngri hraunin hafa runnið yfir stóra hluta hennar. Gígurinn er um 450 m að þvermáli og rúmlega 20 m djúpur.
Klofningshraun og Berghraun eru frá um 1211. Komin að mestu leyti úr Rauðhól, sem er nyrst í hrauninu.
Eldvarpahraun er hluti Reykjaneseldanna. Aðal gígaröðin er um 8,5 km að lengd, en þó ekki samfelld. Í henni eru allstórir gjall- og klepragígir, oftast nokkrir saman, sem tengjast næstu fylkingu með röð smágíga. Sundvörðuhraun nefnist austasti hluti þess, eftir hraunstrýtu sem notuð var sem siglingamerki.
Lambagjárhraun er smá hraunbleðlar í Eldvarpahrauni. Í því eru allmörg misgengi.
Eldvarpahraun eldra er um 2200 ára. Upptökin eru ókunn, en þó líklega í grennd við Eldvörpin.
Sundhnúkahraun er um 2400 ára. Norðaustur af Hagafelli er áberandi hnúkur, sem heitir Sundhnúkur (innsiglingamerki) og þaðan er nafnið komið af reyndar röð lítilla gíga. Skógfellavegurinn liggur meðfram hluta eldvarpanna. Hraunin eru dreifð víða um Grindavíkursvæðið og m.a. byggt upp Þórkötlustaðanesið og myndað þannig brimbrjót fyrir Grindavík.
Hrólfsvíkurhraun er pikrít-hraun og líklega frá Vatnsheiði.
Húsafell og Fiskidalsfjall eru móbergsstapar, sem líklegast eru frá síðari hluta síðasta jökulsskeiðs. Undir þeim að sunnan eru miklar öskjudyngjur, sem gosið hafa á grunnsævi.
Rauðimelur er setmyndun, úr sandi og möl, sem teygir sig 2.5 km norðaustur frá Stapafelli. Setmyndun þessi er víða vel lagskipt og er 6-7 m þykk. Myndunin hvílir á jökulbergslagi,sem liggur ofan á grágrýti en um miðbik melsins kemur um 2 m þykkt jökulbergslag. Myndunin er að öllum líkindum sjávargrandi sem myndast hefur við rof á Stapafelli og Súlum. Grandinn er eldri en 40.000 ára og eftir því hvernig myndun jökulbergsins er túlkuð, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði. Stapafellið er mun eldri en grandinn, senniega frá næstsíðasta eða snemma á síðasta jökulskeiði.
Stapfellið og Súlur eru að mestu byggt upp úr bólstrabergi og öskulögum, en berglag, stuðlað og án bólstramyndana, finnst líka. Lag þetta má túlka sem innskot eða jafnvel hraunlag.
Þórðarfell er úr bólstrabergi, en gæti verið yngra en Stapafellið.
Lágafell er hæðarbunga úr móbergi. Gígurinn bendir til þess að jökull hafi gengið yfir það.
Þorbjörn er hlaðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Í toppi fjallsins er mikill sigdalur og er vestari stallurinn (Þjófagjá) tugir metra á hæð. Utan á fjallinu er kápa úr jökulbergi og bendir hún ásamt misgengjunum til nokkurs aldurs, jafnvel frá næstsíðasta jökulskeiði.
Selháls, Hagafell og Svartengisfjall eru aðallega úr bólstrabergi, sem sést vel í Gálgaklettum. Þar er misgengisstallur sem klýfur fellið.
Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi sf svipaðri gerð og Sandfell.
Lágafell er eldra en Sandfellshæð. Það er lítil og nett pikrít dyngja. Klifgjá, 6-8 m hátt misgengi, sem gengur upp í Þórðarfell, sker dyngjuna um þvert og þar sjást hraunlög hennar ágætlega og hversu ólívínríkt bergið er.
Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.
Illahraun rann um 1226. Það hefur runnið úr fimm gígum á um 200 m gígaröð. Nyrsti gígurinn er stærstur og í rauninni tvöfaldur. Fyrst hefur myndast allstór gígur, en þegar virknin minnkaði hefur myndast nýr gígur á vesturbarmi þess eldri.
Arnarseturshraun rann um 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 m langri gígaröð um 500 m austan við grindavíkurveginn. Nyrstu og syðstu gígarnir hafa aðallega gosið hrauni, en á milli þeirra hlóðust upp gjallgígar, sem risið hafa um 25 m yfir hraunið, en nú hafa þeir verið að mestu brottnumdir. Hraunið er helluhraun næst gígunum, en frauðkennt og blöðrótt og brotnar gjarnan undan fæti. Í hrauninu er nokkrir allstóri hellar, s.s. Kubbur, Hnappur og Hestshellir.
Dalhraun er allgamallt og hugsanlega úr gíg er stendur upp úr Sundhnúkahrauni.
Hrafnshlíð/Siglubergsháls er móbergsstapi, bólstraberg, móbergsþurs og túff, þakið grágrýti, sem komið er úr Bleikhól, áberandi gíg nyrst í fjallinu. Grágrýti þetta er öfugt segulmagnað og runnið á segulmund sem kennd er við Laschamp í Frakklandi. Fleiri slíkar basalthettur er á þessum slóðum, t.d. á Skálamælifelli, Hraunsels-Vatnsfellum og Bratthálsi. Aldur bergsins er um 42.000 ár. Fyrir rúmum 40.000 árum lá þunnur jökull yfir Grindavíkurfjöllunum sem teygði sig um 4 km vestur og norður frá norðurhorni Fagradalsfjalls.
Festafjall og Lyngfell eru stapar sem rof sjávar hafa klofið í herðar niður og myndað hæstu sjávarhamra á Rekjanesi. Einnig sjást innviðir þess, m.a. berggangur.
Fagradalsfjall er dæmi um móbergsstapa á utanverðum skaganum. Neðst er bólstraberg, síðan túff og brotaberg og efst er myndarleg hraunhetta, sem komin er frá dyngjugíg nyrst í fjallinu.
Slaga er mynduð úr bólstrum og bólstrabrotum svo og hraunklessum og upp í þessar myndanir liggur gangur. Neðar við þær tekur við jökulriðið grágrýtislag, sem einnig nær undur Langahrygg og Fagradalsfjall.
Skála-Mælifell er móbergsfjall með rauðu gjalllagi undir hraunhettu á toppi fellsins.
Núpshlíðarháls er úr móbergi sem hefur myndast undir jökli í mörgum gosum, sem ekki hafa náð upp úr jöklinum. Meginþorri hans er frá síaðsta jökulskeiði, en í grunni hans geta verið eldri myndanir.
Latur, Latstögl og Latfjall eru röð móbergshnúka, aðallega móbergsbrotaberg.

Bólstri

Stærsti bólstri í heimi í Stapafelli.

Méltunnuklif er misgengisstallur rétt austan við Skála-Mælifell. Í klettanefi yst á því lesa upphleðslusögu svæðisins. Neðst er jökulrákað grágrýti, en ofan á það kemur þunnt jökulbergslag, því næst allþykk grágrýtislög (efra lagið er rispað af jökli) og ofan á þau nokkuð þykkt jökulbergslag sem hulið er móbergi.
Borgarhraun gæti hafa komið upp í gígum í sunnanverðu Fagradalsfjalli.
Höfðahraun er m.a. komið úr Höfðagígum og Moshólum, sem vegurinn liggur um. Hefur það runnið í sjó fram og myndað nokkra gervigíga og einnig er forn malarkambur í því rétt austan við Ísólfsskála. Misgengið Méltunnuklif nær út í hraunið.
K nær að Ögmundarhrauni. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið út í grunna vík. Í stað hefðbundinna gervigíga úr gjalli mynduðust niðurföll, hraunborgir, hraunrásir, hellar, sappar (hraunsveppir) og holar súlur þegar heitt hraunið snöggkólnaði og breytti vatninu í háþrýsta gufu. Litluborgir, austan Helgafells, og jafnvel Dimmuborgir eru taldar hafa myndast á svipaðan hátt.
Ögmundarhraun rann um 1151. Hraunið rann frá Krýsuvíkureldum (1151-1188). Það þekur botn Móhálsadals sunna Djúpavatns, allt til sjávar. Inni í hrauninu eru Húshólmi og Óbrennishólmi í eldra hrauni, báðir með fornum minjum í frá upphafi landsnáms.
Krýsuvíkurbjarg er aðallega byggt upp af hraunlögum (grágrýti) og gjalllög Skriðunnar ljá berginu rauðan blæ. Skriðan og Selalda eru eldstöðvar sem gosið hafa í sjó og byggt upp eyjar úr gosmöl (virki og ösku) og hraunlögum. Grágrýtsihraunin hafa síðan tengt eyjar við fastalandið og kaffært þær að mestu. Strákar er ung móbergsmyndun vestan Selöldu. Hraunlögin í syllum Krýsuvíkurbergs eru sennilega komin frá Æsubúðum í Geitahlíð og eru frá síðasta hlýskeiði eða eldri en 120.000 ára.
Stóra-Eldborg er formfagur klepragígur, sem rís um 50 metra yfir umhverfið og er um 30 metra djúpur. Hraunin, sem runnu frá honum hafa myndað margar hrauntraðir.
Sveifluháls líkist Núpshlíðarhálsi, en er eldri og myndaður í fjölmörgum gosum, bæði á hlýskeiði- og kuldaskeiði. Upp úr honum ganga margir tindar, s.s. Hellutindar, sem er gosgangur. Sprengigígurinn Arnarvatn er upp á hálsinum þvert upp af Seltúninu, en þar er öflugt háhitasvæði.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Reykjanes

Farið var í ferð um Reykjanesið frá Njarðvíkum til Grindavíkur undir leiðsögn Þorvaldar Arnar Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Ferðin var liður í námi leiðsögumannsefna um Reykjanesið.

Krýsuvíkurhringur

Einn áfangastaðanna.

Byrjað var í Grófinni í Keflavík. Undir berginu að norðanverðu útskýrði Ægir bergið og myndun þess. Það er að mestu blágrýti og grágrýti. Þétt setlög liggja ofan á berginu. Þarna er myndarlegur fyrrum sjávarskúti til skjóls. Þorvaldur útskýrði og kynnti m.a. fjörukál, þúfusteinbrjót og geldingarhnapp til sögunnar. Sú litadýrð virðist meiri en ella á annars gróðursnauðum sæbörðum bergveggjum Reykjanessins en víðast hvar annars staðar á landinu.
Haldið var yfir í Helguvík. Þar má sjá í útsprengdum hömrum þykk hraun- og berglögin og sumsstaðar rauðleitan bruna á milli þeirra, eingum að norðanverðu.
Ægir útskýrði þunn jarðlögin undir jarðveginum á svæðinu, t.d. í kringum Rósarselsvötn. Þau eru lek, en hafa þéttst með tímanum þannig að vatnið helst þar á yfirborðinu, a.m.k. á vatnasvæðinu.

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Á Pattersonsvæðinu var leitað að “lífstöðugrjóti”. Í því eru skeljar er gos undir jökli fyrir u.þ.b. 2500 árum hafði tekið með sér af sjávarbotni og má finna þær í hörðum setlögunum, sem þarna eru. Nokkur falleg sýni fundust.
Þorvaldur benti á að víða væri víðir að koma upp á skaganum, en það bendir til þess að hann hafi verið þar allvíða áður en gróðureyðingin varð.
Í Höfnum var farið niður á gamla hafnargarðinn og fuglalífið skoðað. Mátti m.a. berja augum fargestina tildru og rauðbristing, kríu, skarf, æðarfugl, auk fagurlitaða gula fléttu (fuglaglæðu) á steinum, að ekki sé talað um þang og þara.
Reykjanesið sjálft utan Hafna er sandorpið dyngjuhraun. Hraunreipi, sem einhvern tímann hefur einkennt yfirborðið er nú afsorfið. Annars gefur gróðurleysið svæðinu hið fallegasta yfirbragð.
Stóra-Sandvíkin er melgresisparadís. Melgresið hefur bundið sandinn og myndað háa skjólgóða sandhóla næst sjónum og ofan hans. Þarna munu hafa verið upptök þess sands, sem kom af sjó og fyrrum fauk um Hafnaheiðina og lagðist síðan yfir Hafnir. Það var því góð hugmynd að byrja á því að hefta sandfokið í “uppsprettunni” að mati Þorvaldar. Í Sandvíkurfjörunni mátti m.a. sjá hornsvamp, fjöruarfa, blálilju, klóþang (með einni bólu), bóluþang (með tveimur samhliða bólum og svolítið þynnra), söl og þangskegg, auk skelja og kuðunga. “Dýnamatiskt umhverfi” að mati Þorvaldar.

Reykjaneshringur

Hraunstapi við Reykjanes.

Í Stömpum var gengið upp í einn þeirra. Skoðað var hvaða gróðurtegundir gígurinn hafði að bjóða upp á. Reyndust þar vera um 20 talsins, svona fljótt á litið. Í jaðri gígsins er lítið op og má finna uppstreymið út úr því. Innan við opið er fallegur dropasteinn. Með skóflu væri eflaust hægt, þó ekki væri annað, að kíkja innfyrir og sjá hvar þar kann að leynast. Stamparnir eru taldir hafa myndast um 1211 sem uppkoma á hrauni, sem síðan rann frá gígunum eftir hrauntröðum og loks um “víðan völl”. (Norðan undir Stömpum er skráðar heimildir um sel, sem á eftir að staðsetja, en það getur reynst erfitt sökum sandfoksins. Selsins er getið í fornleifaskráningu svæðisins). Stamparanir eru gjall- og klepragígar og því háir, brattir og lausir í sér, sem er einkennandi fyrir slíka gíga. Eldra-Stampahraunið er um 1500 ára gamalt, en Yngra-Stampahraunið er talið vera frá 1211.
Haldið var framhjá Forsetahól á leið út að Reykjanesvita. Ægir sagði frá tilvist nafnsins (til í tveimur útgáfum), sagði frá myndun Bæjarfells og Vatnsfells (vatnið, sem fellið dregur nafn sitt af er hægra megin við veginn áður en beygt er áleiðis að fellunum), en þau munu vera úr bólstrabergi eins og Forsetahóll (Litlafell).
Niður við sjávarkambinn norðan Valahnjúka útskýrði Ægir bergmyndanirnar. Undir kambinum mátti sjá lögin “ljóslifandi”. Undir er sandlag. Efsta lag þess hefur hitnað er nýtt hraun lagðist yfir og soðnað þannig að það varð hart. Ofan á hraunlaginu er síðan nýrra hraunlag. Þessa skiptingu mátti ljóslega sjá í Valahnjúkum og Börnunum beint framundan kambinum. Neðst (þ.e. það sem sjáanlegt er) er hart setlag, þá grágrýti og loks sundurlausari hraunlög, sem sjórinn á tiltöllega auðvelt með að mala niður. Karlinn er utar, harður eins og steinn, en Kerlingin er horfin í hafið. Valhnúkur er úr móbergi, en allráðandi er brotaberg, bólstraverg og grágrýtisinnskot.
Fyrsti viti landsins var byggður á honum árið 1878, en sjórinn er nú búinn að brjóta hnúkinn þar sem vitastæðið var. Undir kambinum að austanverðu má sjá fallega hlaðna aðdráttargötuna.
Við Gunnuhver voru jarðhitaeinkennin útskýrð. Tíminn var einnig notaður tilað skoða grunninn undan húsi Höyers, sem þar bjó um tíma, tóftir útihúsa hans og garðhleðslur. Við Gunnuhver vex m.a. Njaðurtunga.
Þegar haldið var frá Gunnuhver mátti sjá Sýrfell á vinstri hönd. Vestan þess er fallegur hraungígur á öxl. Nefnist hann Hreiður. Yngra Sýrfellshraunið (1500 ára gamalt) er talið hafa komið úr gígnum. Löng hrauntröð er út frá því til suðurs, vnstra megin þjóðvegarins. Skálafell og Háleyjabunga eru á hægri hönd. Í hinu fyrrnefnda er gígur og gosrás til hliðar við hann (Skálabarmshellir) og í hinu síðarnefnda er fallegur og stór sprengigígur.

Reykjanes

gur vitagerðarmanna á Reykjanesi.

Á leiðinni til Grindavíkur er ekið yfir Skálafellshraunið á “smábleðli”. Þá tekur Klofningshraunið við, en það mun hafa komið úr Eldvörpum (Eldvarparhraun – H15). Það er helluhraun, tiltölulega slétt, en margbrotið.
Brimketillinn er þarna á leiðinni, á sjávarbakkanum, öðru nafni Oddnýjarlaug. Um er að ræða fallegt náttúrfyrirbæri.
Sandgellshæðin er um 13000-14000 ára. Ú þeirri dyngju er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum.
Staðnæmst var við Grænubergsgjá og lýsti Ægir tilkomu hennar (vesturausturstefnan) á sprungusvæðinu. Í gjánni er ferskvatn og hefur hann séð ála í henni, sem hann taldi hafa verið “handfærða” þangað. Álar “stofnuðu” ekki heimili á Íslandi, heldur langt suður í höfum.
Þorbjörn er talinn hafa myndast seint á síðasta ísaldarskeiði, en hann er sennilega eldri að stofni til, eða frá næst síðasta ísaldarskeiði. Í honum eru tvö misgengi eða gjár og hefur toppur hans sigið á milli þeirra. Sprungurnar liggja til norðurs eða þvert á brotabeltið (rekabeltið). Fjallið er hlðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Utan á fajallinu er kápa úr jökulbergi.
Norðan Lágafells (vestan Þorbjörns) er Illahraun og Illahraunsgíga. Talið er að hraunið hafi runnið á tímabilinu frá 1211 til 1226. Hraunið hefur runnið úr a.m.k. 5 gígum. Nyrsti gígurinn er sýnum stærstur.
Bent var á “undirlendi” Svartsengisfjalls sem ágætt dæmi um vallendismyndun. Vatn og lækir bera jarðveg úr hlíðum fjallsins niður á láglendið þar sem það myndar flatir er gróa síðan upp, sbr. einnig Höskuldarvelli, Sóleyjarkrika, Selsvelli og Baðsvelli.

Hnappur

Í Hnappnum.

Ekið var um Sundhnúkahraun og um Arnarseturshraun. Hið síðarnefnda er hellaríkt. Þar hafa fundist allnokkrir hellar, s.s. Dollan, Hnappurinn (Geirdalur) og Kubbur) og fleiri eiga eflaust eftir að finnast. Hellar myndast yfirleitt í þunnfljótandi hraunum. Arnarseturshraun er talið vera frá 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 metra langri gígröð um 500 m austan við Grindavíkurveginn.
Þegar komið er að sigdalnum við Seltjörn eftir að Arnarseturshrauni sleppir er farið yfir tvö hraunlög; fyrst smábleðil af Sandfellshæðarhrauni og síðan grágrýtissvæði frá Grímsholti. Misgengisstapar eru beggja vegna; á aðra hönd bjallarnir (Háibjalli, Kálfgarðsbjalli o.fl.) og á hina misgengin í heiðinni (Nýjaselsbjalli, Huldugjá, Aragjá o.fl.).
Þegar nálgast tók Njarðvík lýsti Þorvaldur uppgræðslutilraunum norðan Reykjanesbrautar og einkennum mólendissvæðisins þar. Lauk lýsingum þeirra svo með vangaveltum um hið vanþróaða umræðustig um vægi náttúruverndar á svæðinu.
Frábært veður.

Reykjanes

Sjávarhellir á Reykjanesi.

Jarðfræðikort

Á heimasíðu Náttúrustofu Reykjaness er fjallað um jarðfræði og gróður á Reykjanesi. Þar segir m.a.: “Fyrir meira en 10.000 árum myndaðist Reykjanesskaginn út frá Lönguhlíðafjöllunum og Undirhlíðum, Öskjuhlíðin, Digranesið, Arnarnesið, Hálsarnir fyrir ofan Hafnarfjörð, Hvaleyrartanginn og Holtin, Vesturháls, Austurháls, Skógfellin, Þórðarfell, Þorbjarnarfell, Miðnesið og slík auðkenni. Síðan hlóðust hraungos allt í kring og fylltu inn á milli.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – loftmynd.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist, s.s. Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun og Svínahraun um 1000, Ögmundarhraun og Kapelluhraun 1151 og Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun um 1188. Svartahraun við Bláa lónið er frá 1226. Kapelluhraun er frá 1150. Afstapahraun er frá sögulegum tíma og Stampahraun og Arnarseturshraun eru frá 1226. Nýjasta er sennilega frá 14. öld, þ.e. hraun við Hlíðarvatn frá árinu 1340.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir (dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigígir t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla t.d. Hvirfill og Kistufell”.

Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Þó eru víða smávötn (Djúpavatn, Grænavatn, Seltjörn, Snorrastaðatjarnir, Hvaleyrarvatn og Urriðavatn) og tjarnir (Augun í Krýsuvík, Hraunsfells-Vatnsfells vatnstæðið, Fagradals-Vatnsfells vatnstæðið), bæði í lægðum og gígum. Vatnsstæðin og sum vötnin hafa þótt aðlaðandi selstæði, t.a.m. Hvaleyrarvatn, Seltjörn og Snorrastaðatjarnir sem og Kaldá við Kaldársel.

Selin eru yfirleitt í eldri hraunum en þeim er runnu á sögulegum tíma, enda gróður þar skemmra á veg kominn en í þeim eldri. Nýrri hraunin enn mosavaxin, en önnur víða grasivaxin og klædd lyngi, birki og víði; ákjósanleg til beitar.

Sjá meira HÉR.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.