Færslur

Sveifluháls

 Móbergshryggur myndast í sprungugosi undir jökli eða í sjó. Einstakt afbrigði slíkrar myndunar er móbergskeila, s.s. Keilir. Í rauninni ætti því fjallið að heita Keila – og það er alls ekki of seint að breyta því. Líklega yrði það til að vekja meiri athygli á jafnréttisbaráttunni en nokkuð annað, sem gert hefur verið hingað til.
KeilaMóbergsmyndunin varð liður í bergmyndun landsins frá því fyrir 700 þúsund árum til loka ísaldar. Á því tímabili urðu flestir móbergshryggir landsins til. Þeir eru svo til allir á flekaskilum Evrópu og Ameríku, enda eitt afkvæma gosvirkninnar á sprungureinum. Börn hennar voru dyngjurnar og barnabörnin hraungosin. Hér verður einungis fjallað um forsöguna; “afan og ömmuna”.
Ásarnir, Geitahlíð, Sveifluháls, Núpshlíðarháls og Fagradalsfjall eru dæmi um móbergshryggi, sem myndast hafa við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Þeir eru ágæt dæmi um gos undir jökli. Í Æsubúðum á Geitahlíð má sjá ummerki þess að gosið hafi náð upp úr jökulhettunni og myndað móbergsstapa úr bólstrabergi. Víðast hvar annars staðar hefur jökullinn reynt að kæfa gjósku- og klepramyndunina jafnóðum, en henni hefur samt sem áður tekist að bræða ísinn og forma setlaga hryggi úr móbergi í bland við bólstrabergsbrotsmyndun. Sumstaðar birtist það nú sem brotaberg eða sambland af hvorutveggja. Drumbur í Sveifluhálsi er ágætt dæmi um brotabergsmyndunina. Miðdegishnúkur á sama hálsi er hins vegar ágætt dæmi um blandmyndun á gosreininni. Litlu hefur munað að hún hafi náð að sigra jökulinn, en hæðin á yfirborði jökulsins hefur þá verið í u.þ.b. 370 metra hæð (Miðdegishnúkur er u.þ.b. 350 m.y.s., en Æsubúður eru 386 m.y.s). Til samanburðar má geta þess að Keilir (Keila) er nú um 379 m.y.s. svo kollurinn á honum hefur rétt náð að bræða af sér eða kíkja upp úr íshellunni áður en gosið hætti.

Sveifluháls

Landslag á tertíer var frábrugðið því landslagi sem gefur landinu hvað sterkastan svip nú. Hvergi hafa verið jökulsorfnir firðir né tignarlegir stapar eða móbergshryggir. Landið hefur víðast hvar verið fremur slétt og tilbreytingarlítið með einstaka misgengisstöllum, gjám og gíghólaröðum. Hér og þar hafa láreistar dyngjur og allháar eldkeilur [Snæfellsjökull] borið við himin úti við sjóndeildarhringinn. Víða hafa lindir sprottið fram við hraunjaðra og lygnar lindár liðast um grunna dali. Í sigdölum og víðar þar sem grunnvatnsstaða var há voru mýradrög og flóar með smátjörnum. Laufblöð sem fuku út á tjarnir sukku til botns og grófust í leirinn á botninum en annars staðar náðu þykk mólög að myndast í mýrum. Seinna runnu svo hraunlög yfir tjarnirnar og mýrarnar. Laufblöðin steingerðust en mórinn varð að surtarbrandslögum sem óvíða eru þó þykkri en 0,5 – 1 m.
SlagaÞetta voru afleiðinga hlýskeiðsins millum síðustu ísalda. Á því árþúsundatímabili urðu einnig miklar jarðmyndanir og breytingar þeim samfara. Reyndar eru ummerkin þess lítt áberandi á Reykjanesskaganum, en þó má sjá dæmi rofmyndunarinnar á Rosmhvalanesi, Stapanum og í Slögu.
Þegar skriðjökull síðasta jökulskeiðs rann fram reif hann með sér urð úr undirlaginu. Undir jöklinum kallast þessi urð botnurð en jaðarurð þar sem jökullinn rennur fram með fjallshlíðum. Víða klofna jökulstraumar á fjallstoppum sem standa upp úr jökulstraumnum en sameinast svo að nýju neðan þeirra. Slík fjöll, umkringd jökli, kallast jökulsker. Þar sem svo jökulstraumar renna saman neðan jökulskerja sameinast jaðarurðir þeirra og mynda slóð urðar í og á jöklinum sem kallast urðarrendur. Víða má sjá slíkar myndanir, en fæstir setja það í það samhengi að áður hafi þykk íshella þakið annars gróðurvæn svæði. Helstu ummerki eftir jökulinn eru rákir á kaldbökum, sléttum grágrýtisklöppum. Botnurðin, sem jökullinn dregur með sér og ávallt er undir honum, er bæði gróf og fínkorna. Stærstu steinarnir skera djúpar rispur niður í klappirnar en sandur og möl slípar þær og gefur þeim fínlega áferð.
Rispurnar Miðdegishnúkur á Sveifluhálsinefnast jökulrákir (jökulrispur) og eru ávallt samsíða skriðstefnu jökulsins. Jökulrispaðar klappir kallast hvalbök, sem fyrr sagði. Hvalbökin eru aflíðandi og vel slípuð á þeirri hliðinni sem vissi í jökulstrauminn en á hinni hliðinni, sem vissi undan straumnum, er brotsár þar sem ísinn kroppaði úr berginu um leið og hann rann fram af klöppinni. Ávallt eru hnullungarnir, sem drógust eftir klöppinni, núnir og oft einnig jökulrispaðir. Önnur roföfl; vatn, vindur og frostverkun hjálpuðust að. Smám saman, í gegnum árhundruðin, tókst þeim að móta landið – og eru enn að.
Mörg þau gil og skorningar í móbergshryggjunum, sem og margir þeir dalir og firðir sem þykja tilkomumestir í landslaginu eru grafnir af ísaldarjöklunum. Þar sem jöklar gengu fram V-laga dali vatnsfalla víkkuðu þeir þá út og gerðu dalina U-laga. Skriðjöklar sem runnu úr þverdölum voru yfirleitt mun rýrari en jökullinn í aðaldalnum og rofmáttur þeirra því minni. Jökulsorfnir þverdalir eru því oft grunnir miðað við aðaldalinn og kallaðir hengidalir. Víða náðu hvilftarjöklar aðskildra dala að grafa skörð er þeir náðu saman. Varð úr þessu fjölbreytilegt landslag dala, afdala, hvilfta, skarða og horna. Rofmyndunin er einstaklega augljós á Reykjanesskaganum.
Á SveifluhálsiÓlíkt flestum öðrum löndum, sem lágu undir jökli á jökulskeiðum ísaldar, er mikil eldvirkni hér á landi. Jökull, sem liggur yfir eldstöð, hefur afdrifarík áhrif á gosið og veldur því að kvika, sem á þurru landi hefði myndað víðáttumikil hraun, hrúgast upp undir ísnum og vatninu sem bólstraberg eða bólstrabrotaberg í hryggjum og stöpum. Hryggirnir urðu til þar sem gosið náði ekki upp úr jöklinum og náðu því ekki að mynda hraun við þau skilyrði. Hraunin, sem við þekkjum komu síðar; að tilstuðlan dyngnanna og síðar sprungureinagosanna, sem lýst er annars staðar á vefsíðunni í umfjöllun um einstakar ferði um einstök svæði.
Í miðju hinna fimm eldstöðvakerfa Reykjanesskagans eru móbergsmyndanir, 1,0–1,5 km á þykkt, meðan utan þeirra virðast hraun sem runnið hafa á yfirborði mynda stóran hluta staflans. Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla t.a.m. eru móbergsmyndanir þykkastar undir sunnanverðum Bláfjöllum en þar eru misgengi ekki áberandi á yfirborði. Í Brennisteinsfjöllum og norðan þeirra er sigdalur og mikið af misgengjum en þykkt móbergsmyndana tiltölulega lítil. Mögulegt er að í Bláfjöllum hafi verið sigdalur svipaður þeim sem nú er í Hengli, en að gliðnun í kerfinu hafi flust til vesturs í Brennisteinsfjöll á þarsíðasta jökulskeiði. Víða koma fram grafnir móbergshryggir sem ekki sjást á yfirborði.
Þá er m.a. að finna í Á Sveifluhálsihraununum ofan Heiðmerkur þar sem hryggur virðist liggja austan Helgafells (Markraki) og ná norðaustur í Selfjall. Annar hryggur nær 4-5 km til norðnorðausturs frá norðurenda Bláfjalla, alfarið grafinn í grágrýti. Þessi hryggur kann að veita grunnvatni aðhald og eiga þátt í að austan hans er grunnvatnsborð nokkurn veginn flatt á stóru svæði. Þessi lægð kann að skýra með gröfnum móbergsstapa, svipuðum Lönguhlíð eða Sandfelli. Þykkir staflar hrauna eru milli Bláfjalla og móbergshryggsins sem teygir sig norðaustur frá Brennisteinsfjöllum. Mikill stafli er einnig undir Svínahrauni og norður um Mosfellsheiði. Kringum Geitafell gætu hraun sem að því liggja verið allt að 100-200 m þykk. Meirihluti þessara hraunamyndanna hafa orðið til fyrir síðasta jökulskeið. Hraun runnin á nútíma í Brennisteinsfjallakerfi eru talin er 15±6 km3 og rúmmál móbergsmyndana í kerfinu frá síðasta jökulskeiði er talið af stærðargráðunni 30 km3. Þetta bendir til kvikuframleiðslu upp á 1,5 km3/1000 ár á nútíma en 0,3 km3/1000 ár á síðasta jökulskeiði.J

Á Sveifluhálsi

ón Jónsson (1978) kortlagði mikinn hluta þessa svæðis og Kristján Sæmundsson (1995) vann ítarlegt jarðfræðikort í mælikvarða 1:50.000 af Hengilssvæðinu og nær það kort suður undir Geitafell. Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald gosmyndunar undir jökli.
Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til. Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum.
Á SveifluhálsiHengilsskerfið er það eina í vestara gosbeltinu sunnan Þingvallavatns sem myndað hefur megineldstöð. Í Hengli er að finna mikinn jarðhita og súrt berg. Hengilskerfið teygir sig norður fyrir Þingvallavatn og rennur þar saman við Þingvallasigdældina. Eldvirkni á nútíma sunnan Þingvallavatns hefur ekki verið eins stór í sniðum og í Brennisteinsfjallakerfinu en goseiningar eru þó allnokkrar, t.d. Hellisheiðarhraunin og dyngjur eins og Selvogsheiði.
Brotahreyfingar hafa verið mjög miklar í Hengilskerfinu. Talið er að kerfið hafi verið virkt í a.m.k. 200.000-300.000 ár (Knútur Árnason o.fl., 1987). Nokkurra kílómetra breiður sigdalur liggur í gegnum Hengilssvæðið. Eru sigstallarnir mjög áberandi í Stóra-Reykjafelli, Skarðsmýrarfjalli, Henglinum og norður um Nesjavelli. Sunnan Hveradala verða siggengi minna áberandi en sprungur eru algengar suður fyrir Selvogsheiði. Meitlar, Lambafell og Geitafell eru stapar og misgreinilegar stapamyndanir eru algengar í fjalllendi Hengilsins.
Dyngja kennd við Trölladal (Árni Hjartarson, 1999 notar nafnið Skálafellsdyngja) og Bitra norðan til á Hellisheiði eru taldar frá lokum síðasta jökulskeiðs. Nyrsti hluti mælisvæðisins nær yfir Mosfellsheiði sunnanverða að Borgarhólum. Borgarhólar eru dyngja, talin mynduð á Eem hlýskeiðinu fyrir rúmlega 100 þúsund árum (Jón Jónsson, 1978; Kristján Sæmundsson, 1995). Að Lyklafelli frátöldu rísa engin móbergsfjöll upp úr hraununum á þessu svæði.
Heimild m.a.:
-http://www.mr.is/~gk/jfr/ordskyr/index.html
-http://www.raunvis.hi.is/~mtg/pdf/RH-2004-12_Blafjoll.pdf

Móbergshryggmyndanir á sunnanverðum Reykjaanesskaga

Bergangur

Bergganga má sjá víða á Reykjanesskaganum. Flestir hafa ekið fram hjá nokkrum slíkum á leið sinni um svæðið.
Einn berggangurinn er t.a.m. ofan við Vatnsskarðið í Sveifluhálsi, að norðanverðu, annar (og reyndar nokkrir) gengur Berggangur í Slöguupp úr Festisfjalli austan við Grindavík og sjá þriðji stendur sem kóróna á kolli S
lögu ofan við Ísólfsskála. Þannig má segja að þau systkin, Festisfjall og Slaga, skarti hvort sínum náttúrulega skartgrip. Fyrirbærið er í raun berg, sem hefur storknað í aðfærsluæð eldstöðvar eða fyllt upp í sprungu.
Berggangar eru sprungufyllingar, það er að segja bergkvika sem þrýst hefur út í sprungur í berginu og storknað þar. Berggangar eru því alltaf yngri en bergið í kring. Venjulega er þeim skipt í tvennt; ganga sem upphaflega voru sem næst lóðréttir og lagganga eða „sillur“ sem fylgja jarðlagamótum. Víðast hvar mynda berggangar „sveima“ eða „reinar“ sem tengjast ákveðinni eldstöð. Einn slíkur sveimur er áberandi upp af Tíðaskarði á Kjarnesi. Upp úr Sveifluhálsinum má víða sjá slíkar reinar.
Berggangar geta verið aðfærslukerfi bergkviku að eldstöð, eða þeir geta hafa myndast við lárétt „kvikuhlaup“ út frá eldstöð. Í goseldum stíga stundum brennisteinsgufur upp úr sprungum eftir skjálftavirkni. Kvika streymir síðan eftir sprungunum sem áður höfðu myndast. Eftir það brýtur hún bergið í leiðinni jafnframt því sem sprungur á yfirborði gleikka. Í Kröflueldum endurtók þetta sig margsinnis og kvika streymdi ýmist til norðurs eða suðurs. Stundum fylgdi eldgos en oft ekki. Þegar kvikan storknaði var orðinn til nýr berggangur.

Berggangur í Vatnsskarði

Með segulmælingum á gömlum göngum má stundum ákvarða hvort kvikan hafi streymt lárétt eða lóðrétt, og hvort tveggja er sem sagt þekkt. Í tertíera bergstaflanum á Austfjörðum og Vestfjörðum má ætla að gangar hafi yfirleitt verið lóðréttir í upphafi, það er hornréttir á hraunlögin, en 10-20 gráðu halli frá lóðréttu stafi þá af því að allur staflinn hallar.
Í kringum megineldstöðvar finnast oft keilugangar, það er gangar sem mynda öfuga keilu með „toppinn“ í miðju eldstöðvarinnar. Jafnframt er víða að finna lagganga, sem þá liggja samsíða hraunlögunum og hafa skotist inn á milli þeirra. Iðulega er ekki augljóst hvort um hraunlög eða innskotslög er að ræða. Það má þá greina af því að báðar brúnir ganganna eru glerjaðar, það er hraðkældar, en á hraunum er það bara neðri brúnin.

Heimild m.a.:
-hi.is/svar.asp%3Fid%3D2990+jar%C3%B0fr%C3%A6%C3%B0i+berggangur&hl=is&ct=clnk&cd=9&gl=is

Berggangur

Berggangur yst á Reykjanesi.

Katlahraun

Jón Jónsson og Dagur Jónsson skrifuðu eftirfarandi grein um “Hraunborgir og gervigíga” í Náttúrufræðinginn 1992:
“Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir.

Gervigígar við Helgafell
Litluborgir-207Árið 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.
Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða Litluborgir-208minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr. Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen”). Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns.

litluborgir-209

Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

Hraunborgir
litluborgir-210Súlur afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum. Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti. Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinar
Dropsteinn-221Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. 

Katlahraun
Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar.

katlahraun-229

Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg., 3.-4. tbl. 1992, bls. 145-149.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Eldvörp

Á háhitasvæðum Reykjanesskagans má víða sjá ummerki jarðhita.
Í Eldvörpum eru ummerkin þó ekki alveg augljós í mosagrónu hrauninu umleikis. Yngsta hraunið er frá árinu 1226. Þá opnaðist Hahitasvaediliðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir. Gígaröðin er ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Goshrinan varð á árunum 1210 til 1240 hefur verið nefnd Reykjaneseldar. Í Eldvörpum má einnig sjá leifar af eldri gígaröð, um 5000 ára gamalli.
Eftirfarandi upplýsingar um jarðminjar á vestanverðum Reykjanesskaga er að finna í skýrslu um “Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita” eftir Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson frá árinu 2009:

Eldvorp-102

Jarðhitasvæði á Íslandi skiptast í háhitasvæði og lághitasvæði. Lághitasvæði finnast víða um landið og tengjast oftast sprungum í eldri berggrunni. Háhitasvæði eru bundin við gosbeltin og flest þeirra eru í rekbeltunum. Gosbeltin skiptast í eldstöðvakerfi sem eru samsett úr gosreinum og megineldstöðvum. Í gosreinunum verða eldgos í löngum sprungukerfum. Í megineldstöðvum gýs ítrekað á miðlægum svæðum. Þar eru innskot tíð og bergtegundir aðrar en basalt geta þróast, svo sem líparít. Þar geta einnig myndast öskjur. Almennt má segja að öflugustu háhitasvæðin fylgi megineldstöðvum. Orka háhitakerfa stafar af heitum kvikuinnskotum í jarðskorpunni. Hún flyst til yfirborðs með hringrás vatns. Þetta vatn getur komið til yfirborðs sem gufa annars vegar og hins vegar sem vatn. Samspil þess við aðstæður á yfirborði, svo sem landslag og yfirborðsvatn ræður miklu um það hvaða gerðir hvera myndast á yfirborði.
Eldvorp-24Almennt er litið svo á að varmi háhitasvæðanna komi frá heitum innskotum í rótum eldstöðvakerfanna. Þaðan flyst varminn til yfirborðs með vatni eða gufu. Reiknað er með að þetta eigi sér stað þannig að vatn sem seytlar niður eftir sprungum í skorpunni nái að komast í návígi við heit innskot. Vatnið hitnar og flytur með sér varma úr innskotinu til yfirborðs og þar verður til jarðhitasvæði. Varmaflutningur til yfirborðs veldur því að með tímanum kólnar innskotið og virkni dvínar á jarðhitasvæðinu nema til komi meiri varmi frá nýjum innskotum.
Alþekkt er að á mörgum af jarðhitasvæðum landsins er jarðhitavirkni á yfirborði breytileg þar sem hverir ýmist koma eða fara og virkni í einum og sama hvernum á það til að breytast með tímanum, jafnvel frá ári til árs.
Hverasvæði geta þannig dvínað um lengri eða skemmri tíma og að sama skapi eykst virkni þeirra á milli. Til að viðhalda jarðhitakerfum þarf varmagjafinn annars vegar að endurnýjast reglulega og hins vegar þarf berggrunnurinn að brotna upp reglulega til að mynda nýjar sprungur í stað þeirra sem þéttast af útfellingum. Þegar nýjar sprungur myndast í berggrunni fylgja því iðulega jarðskjálftar. Frá öndverðu hafa menn séð samband á milli hveravirkni og jarðskjálfta á hverasvæðum enda alþekkt að virkni svæðanna aukist eða minnki við jarðskjálftakippi. Því hafa jarðskjálftar á slíkum svæðum löngum verið nefndir hverakippir. Gott dæmi um hver með breytilega virkni er hverinn Pínir í Sveifluhálsi við Seltún í Krýsuvík. Síðustu áratugina hefur hann átt það til að liggja að mestu niðri um nokkurra ára skeið en þess á milli eru gufustrókarnir frá honum þeir öflugustu á svæðinu.

Eldvorp-25

Á háhitasvæðum eru víða flákar af ljósleitum leir umhverfis hverasvæðin. Við jarðhitasvæði er algengt að sjá slíkar leirskellur sem virðast hafa kólnað og eðlilegt er að líta á sem kulnaðan jarðhita. Leirskellurnar verða til við ferli sem nefnt er ummyndun.
Ummyndun bergs við yfirborð verður fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við ummyndunina leysast frumsteindir og gler í bergi upp í frumeindir eða jónir. Sumar skolast burt með vatni eða rjúka með gufu en aðrar verða eftir og endurraðast í svonefndar ummyndunarsteindir, þ.e. steindir sem eru í jafnvægi við ríkjandi hita- og sýrustig. Við yfirborð háhitasvæðanna verða þannig til nýjar steindir, aðallega svonefndar leirsteindir sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir en einnig sem hluti af upprunalegu bergi sem ekki hefur ummyndast að fullu. Slíkt berg er nefnt ummyndað berg.

Eldvorp-26

Við fyrstu sýn er Reykjanes lágreistur, eldbrunninn og hrjóstrugur útkjálki við ysta haf. Basalthraun frá nútíma þekja mestan hluta svæðisins en lágar móbergshæðir eru við jaðra þess. Jarðhitasvæðið er á miðju Reykjanesi, milli lágra fella, og það er eitt minnsta háhitasvæði landsins. Hveravirkni á yfirborði einkennist af leirhverum, gufuhverum og heitri jörð. Á síðustu öld urðu oftar en einu sinni verulegar breytingar á hveravirkni í kjölfar jarðskjálfta. Vegna nálægðar við strönd og gropins berggrunns á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Vatnshverir á svæðinu hafa því verið mjög saltir. Myndarlegir goshverir voru virkir á svæðinu á síðustu öld.

Eldvorp-27

Um Reykjanes liggur sprungukerfi með opnum gjám og misgengjum með norðaustlæga stefnu. Hér rís Mið-Atlantshafshryggurinn upp fyrir sjávarmál og eru sprungurnar hluti af eldstöðvakerfi sem er að hálfu í sjó og að hálfu á landi. Það er kennt við Reykjanes og teygir sig til norðausturs í átt að Vatnsleysuströnd. Sprungur eru lítt sýnilegar á sjálfu jarðhitasvæðinu en sjást glögglega skammt suðvestan og vestan við það, m.a. í Valbjargagjá. Vestan til á Reykjanesi liggur gossprunga frá 13. öld og önnur um 2000 ára gömul. Skammt austan við hitasvæðið er kerfi af sprungum sem hafa töluvert norðlægari stefnu en ofangreindar sprungur. Þær eru taldar tilheyra framhaldi jarðskjálftabeltisins á Suðurlandi sem teygir sig vestur allan Reykjanesskaga en jarðskjálftabeltið einkennist af skástígum sprungum með heildarstefnu nálægt N-S.

Eldvorp-28

Reykjanes hefur lengi verið á náttúruminjaskrá, m.a. vegna stórbrotinnar jarðfræði og allmikils hverasvæðis. Í náttúruverndaráætlun 2004–2008, sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 2004, var lagt til að svæðið yrði verndað sem náttúruvætti vegna jarðfræðilegs mikilvægis (Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004–2008) en af því hefur ekki enn orðið. Stór hluti svæðisins nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.

Eldvorp-29

Reykjanesvirkjun hóf starfsemi á svæðinu árið 2006 auk þess sem önnur og eldri verksmiðjustarfssemi er í grenndinni. Aðgengi var til skamms tíma auðvelt að hverasvæðinu en það er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Í kjölfar starfsemi Reykjanesvirkjunar hefur hveravirkni aukist mikið á svæðinu og hverir hafa breyst. Allmikið rask hefur orðið á jarðhitasvæðinu en það hófst með rannsóknarborunum eftir 1950. Leifar sjóefnaverksmiðju eru við jarðhitasvæðið og fiskiðjuver. Verulegt rask er vegna efnistöku á svæðinu, nýtt og gamalt. Auk breytinga á jarðhitasvæðinu hefur Reykjanesvirkjun valdið miklu raski á svæðinu auk þess sem hún er staðsett u.þ.b. í línu Stampagígaraðarinnar.
Eldvorp-30Austan við eldstöðvakerfi Reykjaness tekur við sprungu- og eldstöðvakerfi sem kennt hefur verið við háhitasvæðin í Eldvörpum og Svartsengi eða jafnvel eingöngu við Svartsengi. Mörk milli eldstöðvakerfanna eru ekki skýr og stundum eru þau talin eitt og hið sama. Allmikil eldgos urðu í kerfinu á 13. öld líkt og á Reykjanesi. Allmikið sprungukerfi teygir sig frá sjó við Mölvík til norðausturs í átt að Vatnsleysuvík og Straumsvík.
Norðan og vestan við Þorbjarnarfell við Grindavík taka við miklar og lítt grónar hraunbreiður í um 20 m hæð. Í apalhrauninu norðan við fellið stigu áður fyrr upp heitar gufur sem nú eru líklega að mestu horfnar. Í móberginu í Svartsengisfelli og Þorbjarnarfelli er nokkur ummyndun sem og í Selhálsi sem tengir fellin.

Eldvorp-31

Áður fyrr hefur útbreiðsla jarðhitans því verið önnur og hugsanlega meiri en síðar varð. Vegna gropins berggrunns og nálægðar við sjó á sjór greiðan aðgang inn í jarðhitakerfið. Flatlendið er að stórum hluta þakið hraunum frá 13. öld en sprungur og misgengi eru áberandi í eldri hraunum og móbergi. Austasti hluti svæðisins er á náttúruminjaskrá undir merkjum Sundhnúksraðarinnar og Fagradals. Stór hluti svæðisins nýtur auk þess sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Boranir hófust á svæðinu 1976 og varmaorkuver tók til starfa 1976. Þar er nú varma- og raforkuver með tilheyrandi búnaði. Kaldavatnsleiðsla liggur að orkuverinu úr norðri og heitavatnsleiðslur liggja frá verinu til norðurs og suðurs. Þá liggur háspennulína frá orkuverinu að spennistöð við Rauðamel. Affallsvatn frá orkuverinu myndar Bláa lónið í hrauninu. Svæðið er mikið raskað eftir mannvirkjagerð.
Í hraunflákanum vestur af Þorbjarnarfelli liggur gígaröðin Eldvörp frá 13. öld. Hún samanstendur af fjölmörgum lágum gjallgígum sem umluktir eru hrauni frá gosinu. Í og við tvo af gígunum er lítið jarðhitasvæði í um 60 m hæð. Gufur stíga upp úr hrauni og gjalli á svæði sem er um 100 m í þvermál. Hraunið og gígaröðin eru að mestu ósnortin sem er fátítt á Reykjanesskaga.
Eldvörp eru innan þess svæðis sem afmarkað er í náttúruminjaskrá undir merkjum Reykjaness. Svæðið í heild nýtur sérstakrar verndar samkvæmt liðum a og d í 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Borhola er á jarðhitasvæðinu ásamt tilheyrandi vegi. Þá hefur efni til vegagerðar verið tekið úr gígum norðaustan við jarðhitasvæðið.”

Heimild:
-Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands – Jarðfræði, landmótun og yfirborðsummerki jarðhita, Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson. Unnið fyrir Orkustofnun 2009.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði. ISOR

Reykjanesskagi

Málfríður Ómarsdóttir skrifaði í apríl 2007 ritgerð með yfirskriftinni; Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp. Þar sem efnið er vel unnið og á brýnt erindi til áhugafólks um Reykjanesskagann verður hluti textans birtur hér.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu sem liggur þvert í gegnum Ísland og er í raun ofansjávarhluti af Reykjaneshryggnum en hann liggur neðansjávar suðvestur í haf. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum og hefur um langt skeið dregið að sér athygli náttúrufræðinga og hefur hún aðallega beinst að þeim þáttum sem mest setja svip sinn á landslagið eins og eldvörp, gígar, hraun, sprungur, jarðhiti og misgengi.
Eldstöðvarkerfi á Reykjanesskaga eru fjögur talsins og eru þekkt tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Töluvert mikið er um eldvörp á svæðinu og er náttúrufar Reykjanesskaga afar sérstætt og því ekki furða að áform séu uppi um að auka náttúruverndargildi hans og jafnvel að gera Reykjanesskaga að eldfjallagarði.

Eldvirkni
Eldstöðvakerfin fjögur (ATG)

Reykjanesskagi, ásamt Íslandi, liggur á Atlantshafshryggnum en hann er mörk plötuskila Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans sem mjakast í sitthvora áttina. Þessi hreyfing veldur tíðum umbrotahrinum á hryggnum sem einkennast af jarðskjálftum og eldgosum. Hryggurinn brotnar upp í rekbelti sem tengjast um þverbrotabelti. Slíkt rekbelti er að finna við suðvesturhorn Íslands og nefnist Reykjanesrekbeltið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Reykjanesrekbeltið tengist Atlantshafsrekbeltinu beint og er um 30 km að breidd (Jón Jónsson, 1967). Framhald rekbeltisins er á landi og liggur eftir Reykjanesskaganum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) en hann er einn af tveimur stöðum í heimum þar sem hafshryggur rís úr sjó (mynd 1) en það gerir hann að kjöraðstæðum til að rannsaka myndun og mótun hafshryggja á landi (Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson, 2007).
Reykjanesskagi er afar sérstakur hluti af Atlantshafshryggnum því hann er tengiliður milli heits reits og djúpsjávarhryggs (Fleischer, 1974).
Reykjanesrekbeltið er einkennandi fyrir Reykjanesskaga og þar er að finna fjölmargar sprungur, misgengi og mjóa sigdali sem stefna í norðaustur-suðvestur átt (Jón Jónsson, 1967). Á Reykjanesskaganum beygja plötuskilin til austurs en það eru fjögur eldsstöðvarkerfi sem liggja skálægt á plötuskilunum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborg í Kristnitökuhrauni (Svínahrauni)

Þekkt eru tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem öll eldstöðvarkerfin urðu virk. Hvert gosskeið stóð í allt að fjórar aldir með um þúsund ára hléi á milli. Í ljósi þeirrar vitneskju og rannsóknum á eldri gosum, er líklegt að eldvirkni hafi verið svipuð, á fyrri hluta nútíma (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Þessi eldstöðvarkerfi eru Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteinsfjallakerfið og Hengilskerfið (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Reykjaneseldstöðvarkerfið liggur í suðvestur-norðaustur stefnu frá Reykjanesi og inn að Vatnsleysuströnd. Neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi er það um 9 km langt en í heildina er það um 45 km langt og um 5-15 metra breitt (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Það tilheyrir vestara rek- og gosbeltinu eins og öll kerfin á Reykjanesskaga. Það hafa komið um 50 rek- og goshrinur úr því ásamt 14 dyngjum. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldunum frá 1211-1240 en þar síðast sennilega fyrir um 1500-1800 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvirkni er takmörkuð við syðstu 15 km kerfisins. Þótt Reykjanesið sé að mestu leyti þakið úfnum hraunum og fokösku þá ber það þess skýr merki að eldgos hafa verið tíð. Yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness og því erfitt að áætla fjölda gosa sem orðið hafa frá myndun þess.

Stampar

Eldvirkni er mikil á þessu svæði vegna plötuskilanna sem eru mörkuð af gjám og misgengjum. Talið er að gliðnunin sé um 2 cm á ári (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Trölladyngju-eldstöðvarkerfið er um 40-50 km langt og 4-7 km breitt. Úr kerfinu hafa komið um 40-50 rek- og goshringur og 3 dyngjur. Síðast gaus í því 1151-1180 sem í gosi sem kallaðist Krísuvíkureldarnir en þar á undan fyrir um 2000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Brennisteinsfjallaeldstöðvarkerfið er næst austasta kerfið á Reykjanesskaganum.
Það er 45 km langt og 5-10 km breitt. Það hafa komið um 30-40 rek- og goshrinur úr því ásamt 3 dyngjum. Það varð einnig virkt, á sama tíma og Reykjaneskerfið, í Reykjaneseldunum árin 1211-1240.
Hengilseldfjallakerfið er austasta eldstöðvarkerfið og er sérstætt að því leyti að þar eru vísbendingar um þrjú kvikuhólf þ.e. tvö virk og eitt gamalt og óvirkt. Hengilseldstöðvarkerfið er 100 km langt og 3-16 km breitt. Úr því hafa komið 20 rek- og goshrinur og 6 dyngjur. Síðast gaus í Hengli fyrir um 2000 árum í svokölluðum Nesjavallaeldum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).

Háleyjarbunga

Á sama tíma myndaðist Sandey í Þingvallavatni (Orkuveita Reykjavíkur, 2006). Þar áður gaus fyrir um það bil 5000 árum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Hengilssvæðið er með stærstu háhitasvæðum á Íslandi (Orkuveita Reykjavíkur, 2006).
Eldstöðvarkerfin fjögur raðast skástígt með stefnu í norðaustur, á bogin plötuskilin. Innan þeirra finnast misgengi og gígaraðir. Plötuskilin eru í raun samblanda af gliðnun og sniðgengishreyfingum. Sniðgengið verður öflugra eftir því sem austar dregur. Norður- og suðurhluti hvers eldstöðvarkerfis einkennist af eingöngu af brotalínum en mesta eldvirknin er þar sem plötuskilin liggja um miðbik hvert þeirra. Þess vegna er upphleðsla þar hröðust og þar hafa myndast hálendi. Hálendið verður hærra eftir því sem austar dregur.
Reykjaneshryggurinn hækkar almennt til norðausturs vegna þess að gosefnaframleiðsla á Íslandi eykst eftir því sem nær dregur heita reitnum á miðju landsins. Um miðbik eldstöðvakerfanna eru háhitasvæðin að finna og hitagjafar þeirra eru grunnstæð innskot (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
GunnuhverÞað má skipta bergtegundum, bæði nútíma og eldri bergmyndanna, á Reykjanesskaga í þrjá meginflokka eftir samsetningu þeirra. Landslag á Reykjanesskaga hefur að nokkru leyti mótast af þessum flokkum. Sýni, úr eldri bergmyndunum frá jökultíma og síðjökultíma, benda til þess að engin breyting hafi orðið á eldvirkninni á Reykjanesskaga frá myndun hans og til dagsins í dag. Erfitt er þó að segja til um hvort skipst hafi á tímabil með dyngjugosum og önnur með sprungugosum eins og komið hefur í ljós um eldvirknina á nútíma. Sprungugosin, sem áttu sér stað á jökulskeiðum og mynduðu móbergshryggina Sveifluháls og Núpshlíðarháls, hefðu eflaust myndað dyngjur ef landið hefði verið íslaust. Þess í stað mynduðust stapar (Jón Jónsson, 1978).
Nútímahraunum og gosstöðvum má skipta í þrjá flokka þ.e. gossprungur og dyngjur en dyngjunum má svo skipta aftur skipta í tvo flokka eftir samsetningu hraunanna. Þessa flokka má svo nánar aðgreina út frá aldri og stærð.
Jón Jónsson (1978) telur að hraun runnin á nútíma á Reykjanesskaga nái yfir 1064 km2 og rúmmál þeirra sé um 42 km 3. Af því nái hraun runnin eftir landnám yfir 94 km2 og hafa um 1,8 km3 rúmmál. Nánar verður fjallað um hraun á Reykjanesskaga hér á eftir í kaflanum um hraun.

Eldvörp

Í Eldvörpum

Eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga framleiða öll þóleískt berg og aðeins kemur þar upp basalt að Hengilseldstöðinni slepptri. Á Hengilssvæðinu er að finna súrt og ísúrt berg en annars er mest berg á Reykjanesskaganum ólivínþóleít.
Eldstöðvar eru ýmist dyngjur eða gjall- og klepragígaraðir ásamt nokkrum gjósku- og sprengigígum. Telja má 26 dyngjur frá nútíma en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra þar sem ummerki sjást ekki lengur. Elstu og minnstu dyngjurnar eru úr ólivín pikríti sem runnið er á miklu dýpi og nær yfir 80-200 km.
Stærri og yngri dyngjurnar eru úr ólivín þóleíti og eru þær allt að 6-7 km3 hver. Aldur allra dyngjanna er yfir 4500 ár. Myndunartíminn gæti tengst hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Gígaraðir á Reykjanesskaga liggja á tveimur gosreinum og hafa sprungugos orðið á sitt hvorri þeirra, um þrisvar sinnum á síðustu 10.000 árum. Síðustu 2000 árin hefur gosvirknin þó takmarkast við vestari gosreinina sem liggur til sjávar við Kerlingarbás en það hefur ekki gosið á eystri gosreininni, sem liggur inn að hraundyngjunni Skálafelli, í 3000 ár. Skjálftavirkni er einnig einskorðuð við vestari gosreinina (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Gossprungur eru hátt á annað hundrað talsins ef hver sprunguhluti er talinn sér (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Neðansjávargos hafa verið allnokkur við Reykjanesið og má þar finna 11 gjóskulög úr slíkum gosum. Út frá þessum gjóskulögum má fá mikilvægar upplýsingar um gossögu eldstöðvakerfisins síðustu sex þúsund árin.
Sandfellshæð

Við langvarandi neðansjávargos þá myndast gjóskugígar en einnig getur gjóska myndast þegar goshrinur á landi verða og hraunið rennur til sjós. Þá verða miklar gufusprengingar (Magnús Á. Sigurgeirsson, 2004). Við Reykjanes hafa oft orðið til gígeyjar en þær eru einkar viðkvæmar fyrir rofafli sjávar og eyðast því fljótt en eftir standa sker og boð til vitnis um fyrrum tilveru þeirra. Sem dæmi um gígey má nefna Eldey sem er rétt suðvestur af Reykjanesskaganum.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn enn að byggjast upp til suðvesturs og þó nokkur neðansjávargos hafa orðið suðvestur af honum á sögulegum tíma (Jón Jónsson, 1967). Á yngstu hraunflóðunum eru hvergi sprungur né misgengi sýnileg sem virðist benda til þess að tektónískar hreyfingar á þessu svæði gerast með ákveðnu millibili. Þetta gæti einnig átt við eldvirknina. Ekki er almennt vitað hvaða kraftar eru að baki sprungunum og misgengjunum og er vafasamt að áætla að það sé einungis spenna í jarðskorpunni sem orsaki það (Jón Jónsson, 1967).
Það eru tvær gerðir af eldfjöllum á Reykjanesskaga, þ.e. dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri og hafa ekki gosið á sögulegum tíma, þ.e. síðan um 800 AD. Stærstu dyngjurnar eru Sandfellshæð og Langhóll. Þær hafa gosið gráu dólerít, ólivín basalti svipuðu og finnst á Miðnesi og á Vogastapa en þau mynduðust á hlýskeiði. Það er einnig mögulegt að dyngjurnar hafi byrjað sem gos á gossprungu því þær eru staðsettar á rekbelti. Það virðist jafnframt sem það hafi orðið breyting á eldvirkni á einhverju tímabili því dyngjur hættu að myndast og gos á sprungum tóku við. Nokkrar af gossprungunum hafa líklega verið virkar á sögulegum tíma eins og Eldvörp og Stampar. Gos á sprungum tengjast með beinum hætti plötuskilunum og sum staðar hefur hraunið einfaldlega runnið út án þess að mynda gíga. Þar sem kvikan storknar og hleðst upp í kringum gosopið þá kallast það eldvörp og við endurtekin gos kallast það eldfjöll. Til eru margs konar eldvörp en flokkun þeirra fer eftir lögun gosops, gerð gosefna, tala gosa og magn og hættir gossins.
ReykjanesvitiDyngjur myndast við flæðigos þegar þunnfljótandi kvika rennur stanslaust upp um kringlótt gosop mánuðum eða jafnvel árum saman en einnig er líklegt að þær myndist við síendurtekin gos. Hlíðarhalli er oftast minni en 8°. Efst í dyngjunni er gígketill með lágum gígrimum. Eins og áður segir þá er einnig mögulegt að dyngjugos hafi fyrst myndast á sprungu en svo hafi eldvirknin færst á einn stað er leið á gosið (Þorleifur Einarsson, 1968).
Stærsta dyngja innan Reykjaneseldstöðvarkerfisins er Sandfellshæð og er um 12500- 13500 ára gömul. Skálafell og Háleyjar eru yngri en þó forsögulegar. Ofan á Skálafelli er lítil eldborg. Þráinsskjaldardyngja er flöt og breið dyngja og er um 12500-13500 ára eins og Sandfellshæð (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Eldborgir myndast í þunnfljótandi gosum á kringlóttu gosopi í stuttum gosum án kvikustrókavirkni. Umhverfis gosopið hleðst svo upp gígveggur úr örþunnum hraunskánum eftir að það skvettist úr kvikutjörn upp á vegginn. Hraun rennur hinsvegar um göng neðarlega í gígveggnum og streymir langar leiðir undir hraunhellu eða í tröðum á yfirborðinu. Umkringis eldvarpið verður til flöt hraunbunga úr apal- eða helluhrauni. Eldborg undir Geitahlíð fyrir austan Krýsuvík er dæmigerð eldborg (Þorleifur Einarsson, 1968).
Þríhnúkar

Þegar kvikustrókavirkni verður á sprungugosum þá hlaðast gjallrimar eða eldvörp upp á stangli yfir sprungurásinni og mynda gígaraðir. Ef það kemur upp þunnfljótandi kvika stöku sinnum með millibili án kvikustrókavirkni þá verða til eldborgarraðir eins og Eldvörp og Stampar á Reykjanestánni. Algengast er að kvikustrókavirkni eða þeytigos samfara hraunrennsli úr sprungum myndi gjall- og klepragígaraðir. Eldvörpin eru þá samvaxin eftir sprungunni eða með mislöngum millibilum. Einstakir gjall- og klepragígar verða til við blönduð gos á kringlóttum gosopum. Upp þeytast svo hraunklessur sem annað hvort hálfstorkna í loftinu og fletjast svo út þegar þeir lenda og mynda sambrædda klepragígveggi eða þeir fullstorkna og mynda gjallhrúgöld. Eldkeilur myndast hins vegar við síendurtekin gos á kringlóttu gosopi en með mislöngum hléum á milli. Þau eru hlaðin upp úr hraun- og gosmalarlögum til skiptis.
Erlendis eru eldkeilur algengastar allra eldfjalla en þær eru afar sjaldgæfar á Íslandi eða aðeins um þrjár talsins þ.e. Öræfajökull, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull. Efst á eldkeilu er stór gígur. Eldhryggir myndast þegar gos verður á sömu sprungunni oftar en einu sinni sem er frekar óvenjulegt. Þá myndast þeir eftir sprungustefnunni og strýtulaga þvert á hana. Þekktasti eldhryggurinn á Íslandi er Hekla (Þorleifur Einarsson, 1968).
HraunÖsku- og sprengigígar myndast í sprengi- og þeytigosum. Upp hlaðast nær eingöngu laus gosefni eins og vikur og aska eða eingöngu bergmolar. Á kringlóttu gosopið hlaðast upp fagurlagaðir öskugígar en við þeytigos á sprungum myndast öskugígaraðir. Í sprengigosum eru megingosefnin vatnsgufa og gosgufur. Gígkatlarnir verða oft mjög djúpir þannig að þeir ná niður fyrir grunnvatnið og myndast því vatn innan í gígnum. Gott dæmi um sprengigíg er Grænavatn í Krýsuvík. Eldstöðvar sem gjósa líparítösku eru sjaldgæfari en þær sem nefndar voru hér að framan. Líparítkvika er seigari og því hrúgast hún oft upp yfir gosrásinni og rennur lítið til þaðan. Þannig gos eru nefnd troðgos og í þeim myndast hraungúlar sem geta verið mjög stórir.
Troðgos verða á stuttum sprungum eða kringlóttum gosopum og verða hraungúlarnir því oftast nær hringlaga. Eldvörp mynduð við gos í sjó eru svipuð móbergsfjöllum og verða þau ýmist hrygg- eða keilulaga í samræmi við lögun gosopanna og hlíðarbrattinn um 20-35%. Þegar hraunbunga hefur svo myndast ofan á gosmalarbinginn þá verður eldvarpið mjög álíkt móbergsstapa (Þorleifur Einarsson, 1968).

Hraun
Hraunakort (ATG)Flest helluhraun á Reykjanesskaga eru frá fyrri hluta nútíma og eru flest komin frá dyngjum eins og Skálafell og Háleyjarbunga. Frá síðari hluta nútíma en fyrir landnám eru til dæmis Eldborg og Búrfell. Nokkur stór og viðamikil hraun hafa runnið á Reykjanesskaga eftir landnám.
Á meðan kristnitakan fór fram árið 1000 þá rann mikið hraun úr gossprungu á vestanverðri Hellisheiði og hefur það verið nefnt Kristnitökuhraun. Yst á Reykjanesi eru tvö hraun sem koma frá gígaröðunum Eldvörpum og Stömpum. Þau þekja stórt svæði milli Reykjanestár og Grindavíkur (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Ögmundarhraun vestan Krísuvíkur er frá 1151 og rann í svokölluðum Krísuvíkureldum (Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, 1991). Hraunið rann úr gígaröðum rétt austan undir Núpshlíðarhálsi og er samanlögð lengd þessara gíga um 5 km (Jón Jónsson, 1983). Í Krísuvíkureldum rann einnig Kapelluhraun, sunnan Hafnarfjarðar, sama ár og Ögmundarhraun. Þessi eldgosahrina er talin hafa komið úr Trölladyngjum og hefur henni lokið líklega árið 1188 með myndun Mávahlíðarhrauns (Sigmundur Einarsson o.fl., 1991). Oftast hefur þó gosið í sjó undan Reykjanesskaganum á sögulegum tíma. Síðast gaus þar 1879. Aðalgoshrinan í Reykjaneseldstöðvar-kerfinu hófst sennilega í sjó árið 1211 og stóð til 1240 og nefnist hún Reykjaneseldar.

HraunYngra-Stampahraunið rann í Reykjaneseldunum og mynduðust þar tvær eldborgir sem nefnast Stampar Yngri (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Yngra Stampagosið hefur sennilega orðið á 12-13. öld. Sérstætt við þetta gos er að gossprunga þess lá bæði í sjó og á landi og eru þeir yngsta myndunin á Reykjanesi og gígaraðirnar standa á um 4,5 km langri gossprungunni (Magnús Á.Sigurgeirsson, 1995).
Stampar Eldri mynduðust í Eldra-Stampahrauni fyrir 1500-1800 árum. Það gos byrjaði sennilega í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldri Stampagígaröðin liggur til norðausturs og er mjög slitrótt vegna þess að hún kaffærist á stöku stað af Yngra Stampahrauninu. Skammt austan við Eldra Stampahraun er víðáttumesta hraun á Reykjanesi sem nefnist Tjaldstaðagjárhraun. Það er úr 1 km langri sprungu sem liggur í norðaustur í framhaldi af Stampagígaröðinni og er það aðeins yngra en Stampahraunið (Jón Jónsson, 1983). Um 1227 aðeins austar við Stampa Yngri gaus í gígaröðinni Eldvörp. Þaðan rann Eldvarparhraun (Ari Trausti Guðmundsson, 2001). Eldvarparhraunið er talið vera um 2100 ára gamalt (Jón  Jónsson,1983).
Elstu hrauninTrölladyngjueldstöðvar-kerfið hefur tvö háhitasvæði þ.e. Krísuvík og Trölladyngja. Dyngjur eru aðeins þrjár en tvær þeirra, sem eru jafnframt nafnlausar, hverfa í skuggann af Hrútagjárdyngjunni sem er stærst þeirra. Hún myndaðist fyrir um 5000 árum. Gjall- og klepragígar eru algengastu gígarnir innan kerfisins. Hjá suðvesturenda Sveifluhálsar eru sprengigígarnir Grænavatn og Gestsstaðarvatn ásamt Augum. Þar hefur verið snörp eldvirkni
með mikilli gufu og gastegundum. Í mörgum hraunkúlum við Grænavatn eru hnyðlingar úr gabbrói sem bendir til slíks innskots í berggrunninum (Ari Trausti Guðmundsson, 2001) og gerir það svæðið afar merkilegt því gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi. Grænavatn fékk nafnið sitt af græna litnum sem er tilkominn vegna brennisteinssambanda. Þetta vatn er meðal merkustu náttúrufyrirbrigða í sinni röð (Sigurður Þórarinsson, 1950).
Frægasta eldstöðin úr Trölladyngju er sennilega Eldborg sem reyndar er nú sundurgrafin. Í Brennisteinseldstöðvarkerfinu er Eldborg undir Geitahlíð en hún er stærsti gígurinn á þessari stuttu gossprungu sem gaus rétt fyrir landnám. Hún er djúpur og reisulegur gígur ásamt nokkrum minni. Nokkru sunnan við miðju kerfisins er að finna Brennisteinsfjöll sem draga nafn sitt af brennisteinsnámum sem þar voru á háhitasvæði sem hefur varma sinn frá innskotum í jarðskorpunni. Það eru þrjár dyngjur í kerfinu þ.e. Heiðin há við suðurenda MóbergBláfjalla og er langstærst með 3,6 km í þvermál og 516 metrar að hæð. Hún er sennilega um 7000-9000 ára. Hvirfill er dyngja frá síðasta frá síðasta jökulskeiði og Leitin er yngsta dyngjan og er um 4700 ára. Í Leitarhrauninu mynduðust Rauðhólar einnig. Fyrir um 2000 árum reið goshrina yfir Reykjanesskagann og myndaðist þá gígaröðin með Stórabolla og Eldborg við Drottningu (mynd 6) sem er einkar glæsileg eldborg og stendur hún við Bláfjallaveginn (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Í Hengilseldstöðvarkerfinu er að finna þrjár dyngjur frá fyrrihluta nútíma. Stærst þeirra er Selvogsheiði sem er úr ólivínþóleíti en hinar eru minni og kannski eldri og nefnast þær Búrfell við Hlíðarenda og Ásadyngjan hjá Breiðabólsstað og eru þær úr pikríti. Gossprungur frá nútíma ná frá Stóra-Meitli í suðri að Sandey í Þingvallavatni í norðri og kerfið er stærsta eldstöðvarkerfið á Reykjanesskaganum. Margir gjall- og klepragígar liggja á gossprungunum og eru goseiningarnar um 20 talsins. Stærsti gjallgígurinn er Eldborg undir Meitli en hún er um 2000 ára. Gossprungurnar í Hengilseldstöðvarkerfinu eru yfirleitt þó ekki afkastamiklar (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).
Samkvæmt Jóni Jónssyni (1983) þá hefur gosið á Reykjanesskaga allt að 12-13 sinnum frá því að landnám hófst en eins og áður segir þá hefur oftast gosið í sjó (Ari Trausti Guðmundsson, 2001).

Lokaorð
Reykjanesskagi er afar merkilegur jarðfræðilega, sögulega og náttúrufarslega séð.
• Þar má finna flestar gerðir eldfjalla, mörk Evrasíu- og Norður Ameríkuflekanna, háhitasvæði, sögulegar minjar
og fjögur eldstöðvarkerfi.
• Þar hafa orðið tvö gosskeið á síðustu tvö þúsund árum þar sem hvert stóð í um fjórar aldir og með þúsund ára hléi á milli. Oftast hefur þó gosið í sjó.
• Náttúrufar á Reykjanesskaga er afar viðkvæmt og jarðvegur sérstaklega opinn fyrir rofi sem, meðal annarra þátta, má mögulega rekja til mikillar beitar á svæðinu áður fyrr. Svæðið er einnig einkar opið fyrir vindi. Verndun svæðisins er því einkar mikilvægt málefni sem krefst brýnnar úrlausnar sem fyrst. Það er víst að á Reykjanesskaga myndi eldfjallagarður sóma sér vel og varla annað svæði sem myndi henta betur til þess þótt víða væri leitað. Á Reykjanesskaga má finna flestar tegundir eldfjalla og einstakt tækifæri til þess að skoða myndun og mótun hafshryggja á landi, ásamt því að hann er nálægt þéttbýlasta svæði landsins, sem gerir hann tilvalinn kost til frekari náttúruverndar og útivistarmöguleika. Eldvirknin með þessum stóru háhitasvæðum gerir hann jafnframt að eftirsóknarverðum kosti fyrir jarðhitavirkjanir. En það er stór og ekki síður mikilvæg spurning, hvor kosturinn sé meira virði, þegar til lengri tíma er litið.”

Heimildir:
Andrés Arnalds (1987). Ecosystem disturbance and recovery in Iceland. Arctic and Alpine Research, 19, 508-513.
Ari Trausti Guðmundsson (2001). Íslenskar eldstöðvar. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Ármann Höskuldsson, Richard Hey, Einar Kjartansson & Gunnar B. Guðmundsson (2007). The Reykjanesæ
Ridge between 63°10’N and Iceland. Journal of Geodynamics, 43, bls 73-86.
Fleicher, U. (1974). The Reykjanes Ridge – A Summary of Geophysical Data. Í Kristjansson, L. (ritstj.),
Geodynamics of Iceland and the North Atlantic Area (bls. 17-32). Dordrecht: D. Reidel Publishing
Company.
Guðrún Gísladóttir (1998). Environmental Characterisation and Change in Southwestern Iceland. Doktorsritgerð, Stockholm University, Stockholm.
Jón Jónsson (1967). The rift zone and the Reykjanes peninsula. Í Sveinbjörn Björnsson (ritstj.), Iceland and
mid-oceanic ridges (bls. 142-150). Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur h.f.
Jón Jónsson (1978). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – I. Skýringar við jarðfræðikort. II. Jarðfræðikort (Rit
Orkustofnunnar – Jarðhitadeild. OS JHD 7831). Reykjavík: Orkustofnun.
Jón Jónsson (1983). Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn, 52(1-4), 127-
139.
Landvernd (2007). Reykjanesskagi – Framtíðarsýn Landverndar um eldfjallagarð. Skoðað 8. apríl 2007 á
http://www.landvernd.is/flokkar.asp?flokkur=1776

Keilir

Keilir.

 

Kleifarvatn

“Þrír íslenskir kafarar hafa birt á Youtube magnað myndband af hverasvæði á botni Kleifarvatns. Er þarna um einstakt náttúrufyrirbrigði að ræða sem þeir félagar hafa náð góðum myndum af.
KleifarvatnÍ gegnum tíðina hefur Kleifarvatn verið vinsæll köfunarstaður. Í vatninu þykja aðstæður góðar fyrir þá sem eru að læra eða hafa lokið námskeiði og vilja æfa sig. Vatnið er frekar tært og skyggnið prýðilegt eins og myndir þessar bera með sér.

Kleifarvatn er stærsta stöðuvatnið á Reykjanesskaga og þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 ferkílómetrar. Það er jafnframt eitt af dýpstu vötnum landsins, eða um 97 m þar sem það er dýpst. Vatnið hefur ávallt verið sveipað ákveðinni dulúð þar sem sögur hafa gengið um undarlegar skepnur sem komu stundum upp úr því. Um 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni, þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum, vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

KleifarvatnKrýsuvík er eitt merkilegasta og fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins sem margir Suðurnesjamenn nýta sér. Þar er að finna mörg merkileg og skoðunarverð náttúrufyrirbrigði, hvort sem er ofan eða neðan yfirborðs Kleifarvatns af þessum myndum að dæma.”

Varla þarf að taka fram að Kleifarvatn er í umdæmi Grindavíkur.

Myndabandið má sjá hér:
http://www.youtube.com/watch?v=SgFXG5kjO0Q

Heimild:
-www.vf.is

Kleifarvatn

Viðeyjareldstöð

Einar Gunnlaugsson, jarðfræðingur, leiddi FERLIR um Elliðaárdal og fræddi þátttakendur um jarðfræði dalsins.

Elliðaárdalur

Einar Gunnlaugsson.

Elliðaárdalurinn er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda býður hann upp á fjölþætta möguleika til útivistar. Árnar eru kenndar við skip Ketilbjarnar gamla á Mosfelli, en hann kom hingað á skipi sínu Elliða og “kom í Elliðaárós” að því er segir í Landnámu.
Í Elliðaárdal eru stígar og brautir og fræðsluskilti um jarðfræði og gróður dalsins.
Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906 til beislunar vatnsafls en Elliðaárstöð hefur framleitt rafmagn frá árinu 1906. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum og uppgræðslu verið haldið áfram sleitulaust síðan.
Jarðfræði Elliðaárdals er einstök vegna margbreytileika síns. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi.  Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla. Þá má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla. Í dalnum er jarðhitasvæði og eitt af vinnslusvæðum Orkuveitu Reykjavíkur.

Megineldstöð
MegineldstöðinEinar sagði m.a. frá myndun landsins í og utan Elliðaárdals. Elsta bergið væri um 3-4 milljón ára gamalt. Það fæddist í megineldstöð, sem reis úr sjó utan núverandi lands, þar sem nú eru Viðey og Engey. Eldstöðin var virk þar til fyrir um 2 milljón árum. Þá féll hún saman er kvikuþróin undir henni tæmdis og eftir stóð hluti af jöðrum hennar, þ.e. eru m.a. fyrrnefndar eyjar. Þar sem miðja eldstöðvarinnar var áður er nú um 50 metra dýpi. Þá var sjávarstaðan hærri og myndaðist t.d. vogur þar sem nú er Elliðaárdalur. Eftir að síðasta ísaldarskeiði lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum byrjaði landið að rísa hægt og bítandi. Dæmi um þáverandi sjávarstöðu má enn sjá í setlögum sunnan í dalnum.

Elliðavogslögin
FallBeggja vegna Elliðaárósa eru merkileg  setlög sem lengi hafa verið umtöluð meðal jarðfræðinga. Þetta eru Elliðavogslögin. Þau sjást undir grágrýtinu í Ártúnshöfða en þekktasti hluti þeirra er í Háubökkum við Elliðavog. Þar hafa Elliðaárnar með hjálp sjávarins sorfið fram allháa þverhnípta hamra við ströndina. Lögin voru rannsökuð í byrjun 20.aldar af jarðfræðingnum Helga Péturss. Neðst sá hann grófan harðan ruðning sem hann áleit vera jökulruðning, þar ofan á var sjávarset með skeljum, síðan annað jökulruðningslag eftir nýtt framgangsskeið jökla. Efst var Reykjavíkurgrágrýtið. Með þessari athugun komst Helgi að því að ísöldin hafi ekki verið einn samfelldur fimbulvetur heldur hefðu skipst á jökulskeið og hlýskeið.

Fornt

Þá má finna á stöku stað í Elliðavogslögunum skeljar sem eru af sömu tegundum og þær sem lifa við ströndina enn í dag. Í lögunum finnst einnig samanpressaður mór eða hálfgerður sultarbrandur. Talið er að skeljarnar séu um 300 þúsund ára gamlar en þá ríkti hlýskeið sem nefnt er Cromer. Yngra jökulbergslagið er hins vegar talið vera frá jökulskeiði sem nefnt er Holstein og ríkti fyrir um 250 þúsund árum. Sultarbrandurinn er yngsti hluti laganna og myndaður úr gróðri sem þarna óx á Elster-hlýskeiðinu fyrir nálægt 200 þúsund árum.

Elliðaárdalur

Einar Gunnlaugsson.

Myndunarsaga Elliðavogslaganna og Reykjarvíkurgrágrýtisins er í stuttu máli þannig: Meginjöklar gengu yfir Reykjarvíkursvæðið og mótuðu mishæðótt landslag á ár-kvarteran berggrunninn. Þegar jökullinn hopaði í lok þriðja síðasta jökulskeiðs fylgdi sjórinn honum eftir inn yfir láglendið. Sjávarset settist í allar lægðir í berggrunninum. Ofan á sjávarsetið lagðist síðan árset, landið var risið úr sjó. Þá tóku ár og lækir að grafa sér farvegi í setlögin, en jafnframt tóku plöntur að nema land en leifar þessa gróðurs er einmitt surtarbrandurinn í Háubökkum og undir grágrýtinu í Ártúnshöfða.

Elliðavogshraun

Leiti

Reykjavík er í næsta nágrenni við Reykjanesgosbeltið. Einungis eru um 7 km frá byggðamörkum að næsta eldgíg sem er í Búrfelli ofan Hafnarfjarðar.
Fyrir 5200 árum gaus í stórum dyngjugíg sem nefnist Leiti og er austan Bláfjalla. Miklir og breiðir hraunstraumar flæddu niður um sandskeið og niður í Lækjabotna. Þaðan rann eldáin að Elliðavatni, sem hefur verið mun stærra en það er í dag. Þegar glóandi hraunið flæddi út í vatnið og yfir það urðu miklar sprengingar og gufugos. Í þessum hamförum mynduðust Rauðhólar. Hólarnir eru svokallaðir gervigígar. Þegar hraunið hafði brotist yfir Elliðavatn féll það niður með Elliðaám allt til sjávar í Elliðavogi.
Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. í kringum Elliðaárhólmann.

Ísaldarminjar
LeitarhraunÍ Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilsvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín. Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg á undirlag sitt sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökull loks hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, Fróðleikurmynduðust malarhjallar og setfyllur. Í Elliðaárdal má finna minjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum og setmyndanir tengdar henni og frárennsli bráðnandi jökuls. Víða má finna rispaðar grágrýtisklappir, jökulgrópir, hvalbök (ávalar jökulheflaðar klappir), grettistök (stórir steinar og björg sem jökull hefur rifið upp og flutt til) og jökulruðninga (blanda af sandi, urð og grjóti sem víða er í þykkum lögum ofan á berggrunninum). Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og malareyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi. Þessar myndanir, nefndar strandhjallar og óseyrar, benda til að sjávarmál hafi verið um 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót en ekki lindár eins og nú er. (Sjá má kortið af Elliðaárdalnum í stækkun HÉR.)

Leitarhraun
Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 (5300) árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann.
ElliðaáLeitarhraun á uppruna sinn í gígnum Leiti undir austanverðum Bláfjöllum. Frá honum streymdi mikill hraunmassi niður þar sem nú er Selvogur og Þorlákshöfn, auk fyrrnefnds hrauntaums er náði niður í Elliðavog. Hraunið liggur m.a. undir Kristnitökuhrauninu (Svínahrauni). Í því mynduðust Rauðhólar er glóandi hraunið rann yfir norðanvert Elliðavatn og áfram niður til sjávar í Elliðaárósum. Áin náði að renna ofan á heitu hrauninu, kæla og rífa sig inn í það á leið til sjávar.

Elliðaár
Elliðaárnar eru lindár en þær falla úr stöðuvatni og hafa tiltölulega jafnt og stöðugt rennsli, gróðurinn nær að vatnsborði, fiskigengd er mikil og fuglar una sér vel. Þær eru því sannkallaðir lífgjafar. Núverandi farvegir mótuðust eftir að Elliðavogshraunið rann. Talið er að áður fyrr hafi áin bara verið ein en eftir að hraunið fyllti hana þá hafi hún kvíslast í tvær.
Meðalrennsli Elliðaánna er um 5,5 m3 /sek.

Hamfaraflóð
SkessuketillAðfaranótt þriðjudagsins 15. desember 1998 brast aðveituæð Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal með þeim afleiðingum að 12 m3 vatns á sekúndu streymdu niður í dalinn í rúmlega hálfa klukkustund. Ummerki flóðsins sjást á nærri 700 m2 svæði.
Þar sem flóðið reif með sér jarðveg og gróður í brekkunni við Rafveituheimilið opnuðust jarðvegssnið þar sem getur að líta áfoks-, gjósku- og mólög frá Nútíma (síðustu 10 þúsund ár), en þar sem jarðvegur skolaðist burtu má sjá berggrunn svæðisins og undirliggjandi jökulurð sem vitna til eldri hlýskeiðs og kuldaskeiðs.
Á svæðinu má sjá jarðvegsnið með öskulögum úr rofsárinu. Jarðvegurinn hefur verið að myndast í um 10-11 þúsund ár enda er elsta þekkta öskulagið svokallað Saksunarvatns-öskulag sem féll fyrir um 10200 árum síðan. Um miðbik jarðvegssniðsins má sjá mikla litabreytingu á jarðveginum. Neðarlega er dökkbrúnn mór en ofar er ljósbrúnn fokjarðvegur.

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Þegar Leitahraunið rann fyrir um 5000 árum síðan hefur hraunstraumurinn ýtt Elliðaánum tímabundið úr þáverandi farvegi sínum út til jaðra dalsins. Á sama tíma var mýrarfláki staðsettur þar sem rofsárið er nú. Ummerki benda til þess að áin hafi náð að renna yfir mýrarflákann og rofið burt sem nemur um 2-3000 ára uppsöfnun af mó. Nokkru eftir þennan atburð hefur jarðvegur byrjað að safnast fyrir á ný. Vegna breyttra aðstæðna í umhverfinu hefur mýri ekki myndast líkt og áður heldur jarðvegur með meiri einkenni fokjarðvegs. Neðarlega í ljósbrúna fokjarðveginum má sjá svokallað landnámsöskulag sem féll árið 871 eða rétt áður en landnám hófst á Íslandi. Ofar í jarðveginum má greina svokallað Miðaldalag sem féll árið 1226. Efsta öskulagið í jarðveginum er frá Kötlu og féll í kringum árið 1500.
Í máli Einars kom fram að tveimur árum eftir “hamfara-flóðið” höfðu 98 plöntutegundir fest rætur á fyrrum “hamfara-svæðinu”. Nú væri gróðurinn að taka yfir það sem áður virtist vera áhugaverð jarðfræðiyfirlit.

Fossarnir
SkessukatlarSelfoss er myndarlegur foss skammt neðan Höfðabakka-brúarinnar. Nokkru neðar er Stórifoss, sem er beint framundan félagsheimili Orkuveitu Reykjavíkur. Skáfossar eru varla sjáanlegir nema þegar vatn er með meira móti í Elliðaánum. Þá rennur vatn eftir klöppunum á syðri bakkanum við Stórafoss og í ána rétt neðan við fossinn. Getur þá að líta smáfossa sem falla á ská, miðað við straumstefnu, út í ána og draga nafn sitt af því. Framundan rafstöðinni er Ullarfoss. Nafn sitt dregur fossinn væntanlega af því að þar hefur verið þvegin ull, en fossa með þessu nafni má finna allvíða í íslenskum ám. Neðsti fossinn í eystri kvísl Elliðaánna er Sjávarfoss. Hann hefur frá öndverðu verið gjöfull á lax og þar veiðast yfirleitt fyrstu laxar sumarsins. Myndir eru til af Sjávarfossi frá ýmsum tímum með mörgu stórmenni. Áður fyrr, þegar yfirvöld lands eða borgar vildu sýna erlendum gestum sínum sóma, var farið með gestinn inn að Elliðaám og hann látinn renna fyrir lax í Sjávarfossi.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – Búrfoss.

Í vestari kvíslinni eru fjórir nafngreindir fossar. Skorarhylsfoss, sem einnig er nefndur Kermóafoss, er efstur. Á þessum slóðum í árhólmanum heitir svæðið Kermói. Næst fyrir neðan er Arnarfoss, en hann er gegnt Kúavaði í eystri kvíslinni, nokkru ofan við Ullarfoss. Þar talsvert fyrir neðan, eða skammt ofan við hitaveitustokkinn sem er neðan rafstöðvarinnar er Búrfoss, rétt við Reykjanesbrautina, og skammt þar neðan við er Skötufoss.Við Skötufoss er Drekkjarhylur. Í Drekkjarhyl var konum drekkt, en ekki er vitað hve margar konur létu þar líf sitt.
Við Skötufoss eru fallegir skessukatlar.

Jarðhiti
ElstaElliðaárdalurinn er einn af þremur jarðhitasvæðum á Reykjarvíkursvæðinu. Hin tvö eru í Laugardalnum og á Seltjarnarnesi. Jarðhitasvæðin í Reykjavík eru tengd gamalli megineldstöð sem kennd hefur verið við Viðey. Elliðaársvæðið er við suðurjaðar eldstöðvarinnar. Ummerki um jarðhita finnast á 8-10 km2 svæði, allt frá Breiðholtsmýri og norður fyrir Grafarvog. Sjálft vinnslusvæðið er um 300 m frá austri til vesturs og um 250 m frá norðri til suðurs. Frá 1967 hafa verið boraðar 16 djúpar holur (600-2300 m) á jarðhitasvæðinu og eru 8 þeirra nýttar. Holurnar skera móberg og hraunlög en streymi vatnsins stjórnast af sprungum og misgengjum. Hiti vatnsins er 80-100°C. Heita vatnið streymir úr norðaustri en tunga með kaldara vatni streymir á móti úr suðvestri.

Gróðurfar

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur – Kermóafoss.

Gróðurfar í Elliðaárdal er fjölbreytt. Fjölbreytileikinn ræðst af mismunandi gróðurlendum og ræktun. Helstu gróðurlendi eru: Mýrar, kvistlendi, valllendi, blómlendi, og skóglendi. Aðalsérkenni gróðurfarsins í dalnum eru slæðingar. En það eru plöntur sem hafa borist með manninum beint eða óbeint.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Einar Gunnlaugsson, jarðfræðingur.
-http://nemendur.khi.is
-www.or.is

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – Kermóafoss.

Hafnarfjörður

“Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll.
Raudholl-552Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskál arinnar upþi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift. Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins komið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlésnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndazt víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu berf en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
raudholl-523Dýpzt í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur). Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur setzt til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til.
Raudholl-553Ennfremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún. Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Eg hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt ínn yfir landið, þar sem tjörnin var áður. Ennfremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur fremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið.
Raudholl-555Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgazt þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elzta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok, enda ekki. kallað hraun í daglegu tali. Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin yztu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. Í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu. En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.
Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elzt þeirra allra.”

Heimild:
-Þjóðviljinn, 24. desember 1954, Hraunin í kringum Hafnarfjörð, Guðmundur Kjartansson, bls. 10-12.

Reykjanes

ÞÁTTUR ÚR GOSSÖGU REYKJANESS – Gosskeið fyrir um tvö þúsund árum
Náttúrufar Reykjanesskaga hefur dregið að sér athygli náttúrufræðinga allt frá 18. öld er Eggert Ólafsson og Bjarni Reykjanes-236Pálsson stunduðu sínar rannsóknir þar. Hefur athyglin einkum beinst að hraunum og gígum, jarðhita og misgengjum, en allt setur þetta sterkan svip á ásýnd Reykjanesskaga.
Allskýr mynd hefur fengist af eldvirkni á skaganum á nútíma, einkum síðustu tvö árþúsundin. Á því tímabili var eldvirknin bundin við tvö gosskeið sem stóðu yfir í allt að fjórar aldir hvort. Á báðum gosskeiðunum, sem aðgreinast af um þúsund ára löngu hléi, urðu öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga virk. í ljósi þessarar vitneskju og þess sem vitað er um eldri gos má telja sennilegt að eldvirkni á fyrri hluta nútíma hafi verið með líkum hætti.

Reykjanes-237

Síðasta gosskeið á Reykjanesskaga var á tímabilinu 900-1240 og einkenndist af þrennum eldum sem stóðu yfir í nokkra áratugi hver. Á 10. öld runnu hraun á Hellisheiði og að öllum líkindum í Heiðmörk. Einnig varð þá gos í sjó undan Reykjanesi. Á 12. öld geisuðu Krýsuvíkureldar og runnu þá Ögmundarhraun og Kapelluhraun (Nýjahraun). Líklegt er að hraun hafi einnig komið upp í Brennisteinsfjöllum um sama leyti. Tvívegis gaus í sjó undan Reykjanesi. Á 13. öld brunnu Reykjaneseldar og runnu þá fjögur hraun á vestanverðum Reykjanesskaga.

Fundist hafa fjögur gjóskulög” frá þessum eldum með upptök í sjó við Reykjanes. Fróðlegar samantektir á rannsóknarsögu Reykjanesskaga er að finna í ritum Jóns Jónssonar og Ara Trausta Guðmundssonar. Í greininni verður ekki fjallað frekar um eldgos síðasta gosskeiðs á Reykjanesskaga heldur sjónum beint að næsta gosskeiði á undan, sem var fyrir um tvö þúsund árum. Gosmenjar sem varðveittar eru frá þessum tíma, hraun, gjóskulög og gígar, veita mikilvægar upplýsingar um goshætti og umfang eldvirkninnar. Þótt enn sé margt á huldu um þetta gosskeið liggur fyrir ýmis vitneskja um það sem vert er að taka saman. Kveikjan að greininni eru athuganir höfundar á gosmenjum á Reykjanesi, suðvestasta hluta Reykjanesskaga, en þar kveður mikið að myndunum frá þessu tímabili.

REYKJANESELDSTÖÐVAKERFIÐ
Reykjanes-239Eldstöðvakerfið liggur í SV/NAstefnu, frá Reykjanesi inn á Vatnsleysuströnd. Það er 5-15 km breitt og um 45 km langt að meðtöldum 9 km kafla neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi.8 Eldvirkni er einskorðuð við syðstu 15 km kerfisins. Nesið ber þess skýr merki að þar hafa eldgos verið tíð en það er að mestum hluta þakið úfnum hraunum og fokösku. 
Um Reykjanes liggja mót Evrasíu og N-Ameríkuflekanna, mörkuð af gjám og misgengjum. Gliðnun um flekamótin er talin vera um 2 cm/ár að jafnaði.
Gígaraðir á Reykjanesi liggja á tveimur aðskildum gosreinum. Sprungugos hafa orðið á hvorri þeirra að minnsta kosti þrisvar sinnum á nútíma. Ekki er útilokað að gosin séu í raun fleiri, en um það er erfitt að dæma þar sem yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness. Vestari reinin liggur til sjávar við Kerlingarbás en hin eystri endar í hraundyngjunni Skálafelli. Gosvirkni á Reykjanesi hefur síðustu 2000 árin einskorðast við vestari gosreinina, en á þeirri eystri hefur ekki gosið síðustu 3000 árin. Komið hefur í ljós að skjálftavirkni á Reykjanesi er einkum bundin við vestari reinina.

GOSSKEIÐ Á REYKJANESSKAGA FYRIR UM 2000 ÁRUM
Reykjanes-239Vitað hefur verið um nokkurt skeið að hraun runnu víða á Reykjanesskaga fyrir um 2000 árum. Öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga verið virk fyrir um 1800-2100 árum. Hraun runnu á landi allt frá Reykjanesi í vestri að Nesjavöllum í austri og gjóskugos urðu í sjó undan Reykjanesi og í Þingvallavatni. Vísbendingar hafa komið fram um nokkur hraun til viðbótar, einkum í Brennisteinsfjöllum, sem gætu verið frá þessu tímabili. Því til staðfestingar vantar hins vegar traustari aldursákvarðanir. Sama má segja um hraun í Heiðmörk.
Við aldursákvörðun hrauna hefur verið stuðst við gjóskulagatímatal og 14C-aldursgreiningu á koluðum gróðurleifum sem finnast undir þeim. Aldursgreining með gjóskulagatímatali gefur besta raun ef hægt er að skoða gjóskulög bæði ofan á hrauni og undir því.
Á þann hátt má þrengja aldusbil þess verulega. Torvelt getur hins vegar reynst að komast að undirlagi hrauna, einkum hinna eldri eins og gefur að skilja. Árangursríkt hefur reynst að skoða í bakka gjallnáma og lækjarfarvega. Líkt og gildir með gömul hraun er aldur forsögulegra gjóskulaga aðallega fenginn með hjálp 14C-aldursgreininga á gróðurleifum sem liggja næst undir þeim. Nokkur skekkja getur því verið í aldri þessara gjóskulaga.
Notagild i gjóskulaga við tímasetningu gosmyndana er ekki síst fólgið í því að þau virka sem „jafntímalínur”, þ.e. sérhvert gjóskulag er jafngamalt hvar sem það finnst.
Til að gæta samræmis eru allar aldurstölur sem fengist Reykjanes-241hafa með 14C-aldursgreiningum gefnar upp í leiðréttum kolefnisárum. Komið hefur í ljós að styrkur kolefnis í andrúmslofti hefur verið breytilegur á nútíma og leiðréttinga því þörf við útreikninga á raunaldri, þó mismikilla eftir tímabilum.

Varðandi það tímabil sem hér um ræðir er einungis smávægilegra leiðréttinga þörf og m á líta svo á að kolefnisaldurinn sé mjög nærri raunaldri. Skekkjumörk (vikmörk) greininganna eru á bilinu 70-180 ár.
Fremur lítið er hægt að segja til um framvindu eldvirkninnar á gosskeiðinu vegna hárra skekkjumarka aldursgreininganna. Af 1 4 C-aldurstölunum að dæma gæti virst sem marktækur munur sé á hraunum frá Hengilskerfinu og hraunum vestar á Reykjanesskaga. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að aldursgreiningar á koluðum gróðurleifum undan hrauni gefa ekki raunaldur hraunsins heldur segja til um aldur gróðurleifanna. Eiginaldur plantna er mjög mismunandi eftir tegundum og skiptir því verulegu máli hvaða tegundir veljast til aldursgreiningar. Gróðursýni geta einnig verið blönduð misgömlum plöntuhlutum, sem skekkir aldursgreininguna.
Reykjanes-243Í þessu sambandi má benda á yfirlitsgrein eftir Pál Theodórsson um aldursgreiningar með kolefni-14. Þrátt fyrir ýmsa annmarka má ljóst vera að aldursgreiningar með geislakoli gefa mikilvægar vísbendingar um aldur hrauna.

Telja verður líklegt að gosskeiðið fyrir um 2000 árum hafi einkennst af nokkrum aðgreindum eldum líkt og síðasta gosskeið á Reykjanesskaga. Þá urðu öll eldstöðvakerfin fjögur virk, hraun runnu á að minnsta kosti ellefu stöðum og þeytigos urðu í Þingvallavatni og í sjó undan Reykjanesi. Til að fá ú r þessu skorið þyrfti hins vegar mun nákvæmari aldursgreiningar en nú eru fyrir hendi. Tiltæk gögn benda til að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi varað í að minnsta kosti tvær aldir og það síðasta í u.þ.b. þrjár aldir. Mikill fjöldi hrauna hefur runnið á Reykjanesskaga á nútíma og eru líkur til að skipta megi þeim til gosskeiða líkt og hér hefur verið gert. Einn helsti annmarki á því er upplausn aldursgreininga. Nákvæmni 14C-aldursgreininga og gjóskulagatímatals verður almennt lakari eftir því sem lengra er farið aftur í tímann. Næsta víst m á þó telja að fyllri mynd fengist af gosvirkni á fyrri hluta nútíma með kerfisbundinni rannsókn þar sem báðum þessum aldursgreiningaraðferðum væri beitt.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 72. árg. 2004, bls. 21, 26 og 27.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Reykjanesvirkjun

“Efsta gjóskulagið víðast hvar á Reykjanesskaganum er Kötlulag sem talið er vera frá lokum 15. aldar (Guðrún Larsen 1978). Þetta lag hefur gjarnan verið nefnt K-1500 og er þykkast gjóskulaga á svæðinu frá því eftir landnám.
Gjoskulog-21Næstefsta lagið er orðið til við gos í sjó skammt undan Reykjanesi á þriðja áratug 13. aldar, sennilega árið 1226 (Magnús Á. Sigurgeirsson 1992a, 1992b). Þetta lag samsvarar því gjóskulagi sem almennt hefur verið nefnt miðaldalagið (ML).
Næst kemur auðþekkjanlegt tvílitt gjóskulag, með ljósan neðri hluta og dökkan efri hluta, svonefnt Landnámslag (LNL eða Vö~900). Efnagreiningar sýna að neðri hlutinn er úr súrri gjósku en sá efri úr basískri. Landnámslagið varð til í miklu gjóskugosi á Veiðivatna- og Torfajökulssvæðinu um 900 e.Kr. (Guðrún Larsen 1984). Nærri miðju sniðsins er ljóst gjóskulag sem gjarnan hefur verið tengt Heklulaginu H3. Athuganir Bryndísar G. Róbertsdóttur (1992a) á gjóskulögum á Suðurlandsundirlendinu benda til að hér sé um Heklulagið HA að ræða, sem hún telur vera 2400-2600 ára gamalt.
Neðan Heklulagsins koma svo þrjú svört Kötlulög með stuttu millibili. Efri lögin tvö eru um hálfur sentímetri að þykkt en það neðsta 5-6 sentímetrar og jafnframt þykkast gjóskulaga. Í frjórannsóknum sínum hefur Þorleifur Einarsson (1956, 1961) talið þetta þykka lag vera 4000-5000 ára gamalt. Bryndís G. Róbertsdóttir (1992b) hefur leitt rök að því að hér sé um 3200-3400 ára gamalt Kötlulag að ræða. Þá kemur grágrænt þunnt gjóskulag sem samkvæmt efnagreiningum er frá Heklu komið. Ekki er vitað með vissu um hvaða Heklulag hér er að ræða. Ljós gjóskudreif er í mónum nokkru neðan Heklulagsins, en þar sem fullnægjandi efnagreiningar fengust ekki er uppruni óviss. Þorleifur Einarsson (1961, 1962) hefur merkt þessa dreif með „S” í sniðum á Reykjavíkursvæðinu. Neðst, skammt ofan ísaldarleirsins, koma síðan svörtu gjóskulögin tvö sem hér verða til umfjöllunar. Milli þeirra er tæplega eins sentímetra þykkur mór og er efra lagið um þriggja sentímetra þykkt en það neðra tæpur sentímetri.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg. 1992, 3.-4.tbl. bl.s 130-131.
Önglabrjótsnef